Hæstiréttur íslands

Mál nr. 233/2002


Lykilorð

  • Kjarasamningur
  • Ráðningarsamningur
  • Opinberir starfsmenn


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002.

Nr. 233/2002.

Orkuveita Reykjavíkur

(Hjörleifur B. Kvaran hrl.)

gegn

Halldóri Sigurðssyni

(Jónas Haraldsson hrl.)

 

Kjarasamningur. Ráðningarsamningur. Opinberir starfsmenn.

H, sem er vélfræðingur að mennt, var ráðinn í starf viðgerðarmanns orkusölumæla hjá R. Bar aðilum saman um að menntun H hafi verið meiri en áskilin hafi verið til starfsins en honum hafi verið skipað í launaflokk með öðrum vélfræðingum í þjónustu borgarinnar. Með breytingum á launakerfi Reykjavíkurborgar var afnumin bein tenging milli starfsheitis eða menntunargráðu starfsmanns annars vegar og röðun starfs hans í launaflokk hins vegar. Var H eftir þær breytingar raðað í launaflokk sem mælaviðgerðarmaður en þó var tekið tillit til vélfræðimenntunar hans. H krafðist hins vegar viðurkenningar á því að hann hafi átt rétt á að sér yrði skipað í sama launaflokk og aðrir vélfræðingar í þjónustu O, sem hafði yfirtekið starfsemi R. Kröfu O um frávísun málsins, sem reist var á því að SR hafi þurft að eiga óskipta málsaðild með O, var hafnað. Þá var H ekki talinn geta borið fyrir sig að úrsögn hans úr SR fengi einhverju breytt um gildi kjarasamnings Reykjavíkurborgar og SR gagnvart honum, þar sem viðurkenningarkrafa hans laut að tilteknum launaflokki þess samnings. Litið var svo á, að eftir umræddar breytingar hafi ekki verið lengur fyrir hendi nein almenn ákvörðun um hvar raða ætti í launaflokk vélfræðingum í þjónustu borgarinnar fremur en starfsmönnum úr öðrum greinum. Ekki væru bornar brigður á að starf H krefðist ekki vélfræðimenntunar. H gæti því ekki borið saman röðun sína í launaflokk við þá niðurstöðu, sem fékkst um röðun annarra og ólíkra starfa, sem talið var nauðsynlegt að vélfræðingar hefðu með höndum. Var O sýknaður af kröfu H.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. maí 2002. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfu stefnda. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

I.

Samkvæmt gögnum málsins auglýsti Rafmagnsveita Reykjavíkur í dagblaði 18. janúar 1981 laust starf viðgerðarmanns orkusölumæla. Var tekið fram að æskilegt væri að starfsmaðurinn væri menntaður úrsmiður, vélvirki eða rafvirki með reynslu í nákvæmri vinnu. Liggur fyrir að stefndi, sem er vélfræðingur að mennt, var ráðinn í þetta starf 11. maí 1981 og munu kjör hans hafa farið eftir kjarasamningi Reykjavíkurborgar við starfsmannafélag hennar. Ekki verður annað ráðið af málatilbúnaði aðilanna en að þeim beri saman um að menntun stefnda hafi verið meiri en áskilin hafði verið til starfsins, en honum hafi allt frá upphafi og þar til þau atvik gerðust, sem síðar er getið, verið skipað í launaflokk með öðrum vélfræðingum í þjónustu borgarinnar, fyrirtækja hennar og stofnana og borið starfsheiti sem slíkur.

Reykjavíkurborg gerði 30. apríl 1997 kjarasamning við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar. Þar var meðal annars kveðið á um það að störfum yrði raðað í launaflokka samkvæmt fylgiskjali með samningnum, en í því efni ætti að meginstefnu að miða við fyrri röðun, kjör launþega í sambærilegum störfum samkvæmt öðrum kjarasamningum og kröfum um menntun, ábyrgð og sérhæfni starfsmanna, auk þess sem enginn starfsmaður skyldi lækka í launaflokki. Í bókun, sem fylgdi samningnum, var ákveðið að á gildistíma hans skyldu fara fram viðræður milli borgarinnar og starfsmannafélagsins um nýtt launakerfi og yrði þeim lokið fyrir 1. janúar 1998. Ef samkomulag næðist um það tæki nýja launakerfið gildi 1. apríl sama árs. Mun slíkt samkomulag fyrst hafa tekist 5. desember 1998 og í tengslum við það verið gerðar breytingar á áðurgreindu ákvæði kjarasamnings um röðun í launaflokka. Samkvæmt nýju ákvæði um þetta efni var röðun starfa í launaflokka ekki lengur tengd starfsheitum, heldur tekið upp starfsmat, sem ráða átti skipun einstakra starfa í launaflokka. Að þessu mati skyldu vinna sérstakar matsnefndir, sem bæru saman störf við stofnun eða fyrirtæki í samræmi við tiltekið matskerfi. Átti yfirmaður að veita matsnefnd upplýsingar um hvert starf að gættum nánar tilgreindum undirbúningi, en hún síðan að ljúka mati um innbyrðis röðun starfa. Að því fengnu átti forstöðumaður að ákveða svonefnd starfslaun fyrir einstök störf með því að raða þeim í launaflokka. Þessu til viðbótar gat forstöðumaður ákveðið svokölluð hæfnislaun handa starfsmanni, en í því efni skyldi tekið mið af hæfni hans, sem nýttist í starfi og væri umfram þá, sem þegar væri metin við ákvörðun starfslauna. Skyldi forstöðumaður leggja mat á þetta eftir sérstöku matskerfi og ákveða hæfnislaun með því að skipa starfsmanni í launaflokk. Í ákvæðum kjarasamningsins, sem vörðuðu framangreindar breytingar, var meðal annars tekið fram að tryggja skyldi að enginn starfsmaður lækkaði í „föstum mánaðarlaunum“ við það að færast í nýja launakerfið.

Samkvæmt málatilbúnaði stefnda gekk hann úr Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar áður en þessar breytingar voru gerðar á kjarasamningi, eða 1. maí 1998. Þessu hefur áfrýjandi ekki andmælt. Hann hefur á hinn bóginn vísað til þess að samkvæmt öllum framlögðum launaseðlum stefnda, sem stafi frá tímabilinu eftir umræddan dag, hafi eftir sem áður verið dregið af launum hans félagsgjald til starfsmannafélagsins, enda hafi það farið með samningsumboð um launakjör hans, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Áðurnefnt launakerfi Reykjavíkurborgar mun hafa komið til framkvæmdar í desember 1999, en gilt frá 1. júlí á því ári. Í byrjun munu hafa orðið mistök við skipun stefnda í launaflokk, en að fenginni leiðréttingu var honum raðað í 7. þrep 130. launaflokks. Urðu föst mánaðarlaun hans 133.169 krónur. Eftir eldra launakerfi, þar sem hann tók laun samkvæmt 6. þrepi 246. launaflokks, voru föstu mánaðarlaunin 115.825 krónur. Við ákvörðun um þessa röðun á starfi stefnda í launaflokk mun hafa verið byggt á niðurstöðu matsnefndar á vinnustað hans, sem skipuð var fulltrúum vinnuveitanda og starfsmanna. Mun hún hafa litið svo á að stefndi starfaði sem mælaviðgerðarmaður, en til þess þyrfti ekki vélfræðimenntun. Á grundvelli niðurstöðu nefndarinnar um mat á starfinu mun hafa átt að raða því í 129. launaflokk, en vegna menntunar stefnda, sem væri meiri en þörf væri á til að gegna því, hafi honum verið ákveðin hæfnislaun og hann því hækkað um einn launaflokk. Vélfræðingum, sem gegndu störfum þar sem þeirrar menntunar var talin þörf, mun á hinn bóginn hafa verið skipað í 137. launaflokk í samræmi við niðurstöðu matsnefndar.

Stefndi unir því ekki að sér hafi verið skipað í þann launaflokk, sem áður er getið, heldur telur hann sig hafa átt rétt á að fá laun eftir 7. þrepi 137. launaflokks, eins og aðrir vélfræðingar í þjónustu áfrýjanda, á tímabilinu frá 1. júlí 1999 til 31. október 2000, þegar gildistíma fyrrgreinds kjarasamnings lauk. Til viðurkenningar á því höfðaði stefndi mál þetta 26. febrúar 2001 gegn áfrýjanda, en fyrir liggur að stefndi þáði laun frá 1. febrúar 2000 úr hendi áfrýjanda, sem mun þá hafa tekið yfir starfsemi Rafmagnsveitu Reykjavíkur.

II.

Svo sem að framan greinir gerir stefndi kröfu í málinu um viðurkenningu á því að hann hafi átt rétt á að sér yrði skipað í annan tilgreindan launaflokk en raun varð á samkvæmt því launakerfi Reykjavíkurborgar, sem gilti frá 1. júlí 1999. Með þessu hefur stefndi neytt heimildar samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að leita dóms um viðurkenningarkröfu, þótt ekki verði séð að nokkuð hafi staðið því í vegi að hann gerði þess í stað kröfu tiltekinnar fjárhæðar um greiðslu vangoldinna launa. Hefði stefndi farið síðastgreinda leið er fjarri lagi að tilefni gæti hafa verið til þess að hann beindi kröfu sinni jafnframt að Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, enda gæti það félag aldrei borið óskipta skyldu í skilningi 1. mgr. og 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 með áfrýjanda til að greiða stefnda vangoldin laun, þótt það hafi staðið ásamt Reykjavíkurborg að gerð kjarasamnings, sem áfrýjandi telur hafa ranglega skert launakjör sín. Er þá engu nærtækara að starfsmannafélagið geti hafa þurft að eiga óskipta málsaðild með áfrýjanda þótt stefndi hafi nýtt sér lögfesta heimild til að leita viðurkenningardóms um réttindi sín. Að þessu gættu er ekkert hald í röksemdum áfrýjanda fyrir því að vísa eigi málinu frá héraðsdómi.

III.

Í málinu leitar stefndi sem áður segir dóms um að hann hafi með réttu átt að taka laun á tímabilinu frá 1. júlí 1999 til 31. október 2000 eftir nánar tilteknum launaflokki, sem kveðið var á um í þágildandi kjarasamningi Reykjavíkurborgar við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar. Samkvæmt þessu hlýtur stefndi að reisa kröfu sína á þeirri forsendu að kjör hans hafi átt að ráðast af umræddum kjarasamningi, en hann greini á við áfrýjanda um hvernig skipa hafi átt honum í launaflokk eftir ákvæðum samningsins. Að þessu gættu getur stefndi ekki borið fyrir sig að úrsögn hans úr Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar 1. maí 1998 fái einhverju breytt um gildi kjarasamningsins gagnvart honum þannig að áhrif hafi á niðurstöðu málsins.

Þegar nýrri skipan hafði verið komið á ákvörðun launa starfsmanna Reykjavíkurborgar, stofnana hennar og fyrirtækja frá 1. júlí 1999 að telja urðu föst mánaðarlaun stefnda sem áður segir 133.169 krónur. Fyrir þann tíma voru föstu mánaðarlaunin 115.825 krónur. Þessi nýja skipan olli þannig bersýnilega ekki lækkun á föstum launum stefnda, svo sem hann hefur borið við í málatilbúnaði sínum.

Með breytingunum á launakerfi Reykjavíkurborgar, sem hrundið var í framkvæmd 1999 á grundvelli samkomulags hennar við starfsmannafélag borgarinnar 5. desember 1998, var í ljósi þess, sem áður greinir, afnumin bein tenging milli starfsheitis eða menntunargráðu starfsmanns annars vegar og röðun starfs hans í launaflokk hins vegar. Þess í stað var farin sú leið að meta hvert og eitt starf til að ráða því hvernig manni, sem því gegni, yrði skipað í launaflokk. Eftir gögnum málsins er af þessum sökum ekki lengur fyrir hendi í kjarasamningi borgarinnar við starfsmannafélagið nein almenn ákvörðun um hvar raða eigi í launaflokk vélfræðingum í þjónustu hennar fremur en starfsmönnum úr öðrum greinum. Í málinu hefur stefndi ekki borið brigður á þá niðurstöðu matsnefndar að ekki sé þörf á að maður, sem gegni starfi hans, hafi aflað sér menntunar sem vélfræðingur. Hann getur því ekki með réttu borið saman röðun sína í launaflokk við þá niðurstöðu, sem fékkst um röðun annarra og ólíkra starfa, sem matsnefndin taldi nauðsynlegt að vélfræðingar hefðu með höndum. Þótt stefndi hafi áður um árabil tekið laun eftir sömu launaflokkum og aðrir vélfræðingar í þjónustu borgarinnar, fyrirtækja hennar eða stofnana og borið starfsheiti því til samræmis, gat það eitt út af fyrir sig ekki staðið því í vegi að breyting yrði gerð þar á með nýjum kjarasamningi, svo framarlega sem stefndi lækkaði ekki við það í launum. Stefndi hefur ekki sannað að vinnuveitandi hans hafi heitið honum þegar hann réðst upphaflega til starfa eða á einhverju síðara stigi að honum yrðu tryggð til loka ráðningartíma síns sömu laun og vélfræðingar fengju í öðrum störfum hjá sama vinnuveitanda. Að öllu þessu athuguðu hefur stefndi enga viðhlítandi stoð fyrir kröfu sinnu um að fá laun úr hendi áfrýjanda vegna fyrrgreinds tímabils eftir öðrum launaflokki en þeim, sem honum var skipað í. Samkvæmt því verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Orkuveita Reykjavíkur, er sýkn af kröfu stefnda, Halldórs Sigurðssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2002.

Mál þetta var höfðað 26. febrúar og var dómtekið 7. febrúar sl. Stefnandi er Halldór Sigurðsson, Æsufelli 2, Reykjavík. Stefndi er Orkuveita Reykjavíkur, Suðurlandsbraut 34, Reykjavík.

Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði að stefnandi hafi frá 1. júlí 1999 átt að taka að lágmarki laun samkvæmt 7. þrepi 137. launaflokks í endurútgefnum hluta kjarasamnings milli Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar með gildistíma frá 1. apríl 1997 til 31. október 2000. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins.

Með úrskurði uppkveðnum 11. október sl. var frávísunarkröfu stefnda hafnað.

Málavextir

Með auglýsingu í Morgunblaðinu hinn 18. janúar 1981 auglýsti Rafmagnsveita Reykjavíkur eftir starfsmanni til viðgerða á orkusölumælum. Í auglýsingunni er þess getið að æskileg menntun sé úrsmíði eða vélvirki/rafvirki með reynslu í nákvæmri vinnu. Hinn 11. maí 1981 var Halldór Sigurðsson ráðinn í starf við mælaviðgerðir við mælastöð á innlagnadeild Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Frá ráðningu hefur Halldór gegnt þessu starfi og tekið kjör samkvæmt kjarasamningi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar.

Stefnandi, sem er vélfræðingur að mennt, kveður einn vélfræðing hafa gegnt störfum á mæladeildinni ásamt honum. Stefnandi kveðst hafa gegnt stöðu vélfræðings hjá stefnda allar götur síðan, greitt í Lífeyrissjóð Reykjavíkurborgar sem vélfræðingur og verið titlaður vélfræðingur á launaseðlum. Launakjör stefnanda samkvæmt kjarasamningi milli Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar hafi ávallt fylgt launakjörum annarra vélfræðinga stefnda. Stefnandi kveðst hafa búist við því að fá eftirlaun sem vélfræðingur er hann hætti störfum hjá stefnda en hann verði 67 ára árið 2001 og geti þá hætt störfum.

Við gerð núgildandi kjarasamnings milli Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og Reykjavíkurborgar var ákveðið að fara í nýtt launakerfi á samningstímanum. Gerð hins nýja launakerfis dróst fram í des. 1999 en tekin var ákvörðun um afturvirkni launakerfisins til 1. júlí 1999, sbr. endurútgáfu af hluta kjarasamningsins.

Samkvæmt þessu nýja kerfi var áðurgildandi kafli 1.3. í kjarasamningi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar um starfsheiti og röðun þeirra felldur brott og þess í stað tekið upp í kjarasamninginn nýtt launakerfi að kröfu Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, sem fól í sér að tekið var upp matskerfi fyrir öll störf með það fyrir augum að tryggja að störf sem teljist sambærileg og jafn verðmæt fái sömu röðun í launaflokka.

Í samræmi við grein 1.3.1 í umræddum kjarasamningi var sett á laggirnar sérstök matsnefnd hjá Orkuveitu Reykjavíkur sem skipuð var jafnmörgum fulltrúum vinnuveitanda og starfsmanna úr Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. Matsnefnd átti samkvæmt nýju launakerfi að flokka störf í fyrirtækinu og ákveða vægi matsþátta í hinu nýja kerfi en matsþættirnir voru ákvarðaðir af samningsaðilum. Hlutverk forstöðumanns samkvæmt nýju launakerfi var að gera tillögu til matsnefndar um mat á sérhverju starfi og þar með tillögu um innbyrðis röðun starfa. Síðan tók matsnefnd afstöðu til tillagna forstöðumanns. Varðandi starf Halldórs komst matsnefndin að samhljóða niðurstöðu þess efnis að til væri starfið mælaviðgerðarmaður og hlaut það starf 290 stig í matinu og var því raðað í lfl. 129.

Á grundvelli greinar 1.3.2. í kjarasamningi aðila um hæfnislaun kveður stefndi það hafa verið mat forstöðumanns Orkuveitu Reykjavíkur að vélfræðimenntun Halldórs nýttist í starfi hans sem mælaviðgerðarmaður og því hafi Halldóri verið raðað einum launaflokki ofar en ella eða í lfl. 130. Fyrir mistök hafi Halldóri í upphafi verið raðað í starf mælaprófunarmanns sem fengið hafi 260 stig en það hafi verið leiðrétt um leið og Halldór hafi gert athugasemdir við starfsmannastjóra Orkuveitunnar um nýja launaflokkaröðun.

Stefnandi kveður að á launaseðli sem hann fékk í hendur 1. desember 1999 hafi hann verið titlaður vélfræðingur og hafi verið raðað að venju í launaflokk vélfræðinga. Hann hafi fengið annan launaseðil þann 21. desember 1999 sem hafi falið í sér leiðréttingu á kjörum hans. Þá hafi verið búið að færa hann niður um 14 launaflokka, í 7. þrep launaflokks 123 í stað 7. þreps launaflokks 137, eins og aðrir vélfræðingar hjá stefnda. Stefnandi kveðst hafa haft samband við Skúla Waldorff, starfsmannastjóra stefnda, og hafa mótmælt kjarabreytingunni. Starfsmannastjórinn hafi leiðrétt launaflokkaröðunina að hluta, hafi fært stefnanda úr 7. þrepi launaflokks 123 í launaflokk 130. Enn hafi vantað 7 launaflokka miðað við launaflokk vélfræðinga. Stefnandi hafi mótmælt þessari ráðstöfun og leitað aðstoðar Þorleifs Finnssonar, sviðsstjóra hjá stefnda, sem hafi verið yfir þeirri deild sem stefnandi starfaði á, mæladeild. Í tölvuskeyti, dags. 24. janúar 2000, hafi sviðsstjórinn lagt tilteknar spurningar fyrir starfsmannastjórann, hvers vegna starf stefnanda hefði ekki fylgt störfum annarra vélfræðinga hjá stefnda við nefnda endurskoðun kjarasamningsins. Stefnandi hefði verið ráðinn sem vélfræðingur árið 1981 og ávallt fylgt launum vélfræðinga. Starfsmannastjórinn hafi svarað tölvuskeyti sviðsstjórans með tölvuskeyti, dags. 7. febrúar 2000, með þeim orðum að ekki þyrfti vélfræðing til að sinna störfum stefnanda.

Stefnandi kveðst hafa leitað til Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og í bréfi formanns félagsins, Sjafnar Ingólfsdóttur, til starfsmannastjóra stefnda, dags. 17. apríl 2000, hafi kjararýrnun stefnanda verið mótmælt og skýringa óskað. Starfsmannastjórinn hafi svarað bréfi formannsins með bréfi, dags. 27. apríl 2000. Í stuttu máli hafi kröfum stefnanda verið hafnað.

Með bréfi lögmanns stefnanda til starfsmannastjóra stefnda, dags. 21. júlí 2000, hafi þess verið krafist að stefnanda yrðu greidd laun á grundvelli sömu viðmiðunar og verið hefði, miðað við stöðu vélfræðings. Afrit bréfsins hafi verið sent borgarlögmanni fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Starfsmannastjóri stefnda hafi vísað málinu til kjaraþróunardeildar með bréfi, dags. 31. júlí 2000, þar sem málið hafi varðað túlkun kjarasamninga. Með bréfi forstöðumanns kjaraþróunardeildar Reykjavíkurborgar, hafi kröfum stefnanda verið hafnað. Í bréfinu komi m.a. fram að stefnandi hafi verið ráðinn þann 11. maí 1981 í starf við mælaviðgerðir á innlagnadeild Rafmagnsveitu Reykjavíkur og hafi ávallt tekið laun samkvæmt kjarasamningi milli Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Við gerð síðustu kjarasamninga hafi starfsheitið vélfræðingur verið fellt niður og samkvæmt hinu nýja launakerfi hafi starfi stefnanda verið raðað í launaflokk 129, þ.e. í launaflokk mælaviðgerðarmanna. Vélfræðingar hafi hins vegar verið í launaflokki 137.

Stefnandi kveðst ekki hafa viljað una því að laun hans tækju ekki lengur mið af starfsheitinu vélfræðingur enda hafi hann talið liggja fyrir að hann hafi verið ráðinn með slíkri viðmiðun til Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Ekki sé unnt að ákveða í kjarasamningi að við ráðningarsamningum einstakra launþega sé hróflað enda kveði kjarasamningar einungis á um lágmarkskjör. Þá hafi hann talið að kjarasamninginn bæri ekki að túlka með þeim hætti að unnt væri að breyta starfsheitum einstakra starfsmanna í bága við ráðningarsamning þeirra. Af þeim sökum hafi lögmaður stefnanda ritað bréf til formanns Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, dags. 23. ágúst 2000, og hafi innt hann m.a. eftir því hvort stefnda hafi verið frjálst að breyta starfsheiti stefnanda, án hans samþykkis, með vísan í nefndan kjarasamning og hvar finna mætti því stoð í kjarasamningnum.

Formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar hafi svarað bréfinu með bréfi dags. 25. september 2000. Formaðurinn hafi fullyrt að engin stoð væri fyrir því í kjarasamningnum að stefnda væri unnt að breyta starfsheiti stefnanda fyrirvaralaust. Vinnureglur sem matsnefndum hefðu verið settar fælu þetta ekki heldur í sér. Fyrirsvarsmenn Reykjavíkurborgar hefðu hins vegar lýst því yfir að starfsheiti féllu niður tímabundið af tæknilegum ástæðum, þar sem launakerfi borgarinnar væri vanbúið að taka við svo mörgum flóknum skipunum sem nýja launakerfið útheimti, en þess vænst að vinnu við endurskipulagningu kerfisins yrði lokið síðla árs 2000. Þá hafi formaðurinn talið að starfsheiti stefnanda hefði ranglega verið breytt og það fært niður um starfsflokk. Um væri að ræða uppsögn eða niðurlagningu starfs af hálfu stefnda en um slíkar ráðstafanir færi samkvæmt reglum um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar.

Stefnandi heldur því fram að þar sem fyrirsvarsmenn stefnda hafi lýst því yfir að hann eigi ekki rétt til launa í samræmi við launaflokk vélfræðinga sé málshöfðun þessi nauðsynleg.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hann hafi verið ráðinn sem vélfræðingur á mælastöð Rafmagnsveitu Reykjavíkur, nú Orkuveita Reykjavíkur, árið 1981. Sérstaklega hafi verið auglýst eftir vélvirkja í stöðuna og hafi starfsheiti stefnanda ætíð verið vélfræðingur, á launaseðlum og í starfslýsingu. Starfsheiti stefnanda hafi verið breytt fyrirvaralaust 21. desember 1999 og starfsheitið vélfræðingur hafi verið fellt niður á launaseðlinum og sé hann nú titlaður mælaviðgerðarmaður í launakerfi Reykjavíkurborgar. Stefnandi hafi nú lægri laun en aðrir vélfræðingar.

Ekki sé fallist á einhliða rétt fyrirsvarsmanna stefnda til að svipta stefnanda starfsheitinu vélfræðingur og veita honum nýtt starfsheiti sem feli í sér verulega launaskerðingu. Starfsheitið vélfræðingur sé mikilvægur þáttur í ráðningarkjörum stefnanda hjá stefnda og þá sérstaklega með tilliti til þess hvernig raðað sé í launaflokka samkvæmt kjarasamningi milli Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Með vísan til almennra reglna samningaréttarins verði ekki talið að stefnda hafi verið rétt að endurákvarða ráðningarkjör stefnanda einhliða. Stefnandi hafi mótmælt þessari kjararýrnun enda séu miklir hagsmunir í húfi, ekki einungis sú kjaraskerðing sem nú þegar hafi komið til framkvæmda heldur einnig framtíðarskerðing á ráðningarkjörum hans en stefnandi fari á eftirlaun árið 2001. Hafi stefndi í hyggju að breyta ráðningarkjörum stefnanda með framangreindum hætti beri honum að gera það á grundvelli reglugerðar um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar.

Kjarasamningur sá sem í gildi sé milli Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og Reykjavíkurborgar feli ekki í sér fyrirvaralausa heimild til að breyta starfsheiti stefnanda án samþykkis hans. Í bréfi forstöðumanns kjaraþróunardeildar Reykjavíkurborgar sé að finna tilvitnun í endurútgefnum hluta kjarasamningsins sem rök fyrir fyrirvaralausri kjarabreytingu stefnanda. Ætla mætti að forstöðu­maðurinn sé að vísa beint í ákvæðið enda sé tilvitnunin samandregin í bréfinu, í sérstökum ramma, en í upphafi tilvitnunarinnar segi: “Starfslaun byggja á þeim sérstöku kröfum sem starf gerir til starfsmanns. Miðað er við að um viðvarandi og stöðugt verksvið sé að ræða.” Í upphafsákvæði gr. 1.3.1. segi hins vegar: “Starfslaun byggja á þeim sérstöku kröfum sem starf gerir til starfsmanns sem gegnir því umfram þær kröfur sem liggja að baki starfaflokkun og lágmarkslaunum. Starfslaun byggja á að um viðvarandi og stöðugt verksvið sé að ræða.” Eins og sjá megi hafi forstöðumaðurinn sleppt út úr tilvitnuninni eftirfarandi orðalagi: ... sem gegnir því umfram þær kröfur sem liggja að baki starfaflokkun og lágmarkslaunum.

Kjarasamningsákvæðið feli í sér heimild til launahækkunar miðað við núverandi röðun í launaflokka. Vélfræðingar hafi ákveðna lágmarksröðun en matsnefndin geti komist að þeirri niðurstöðu að þeim beri hærri launaflokkur með tilliti til hæfni þeirra. Enga heimild sé hins vegar að finna til lækkunar. Lágmarksröðun vélfræðinga í launaflokk sé launaflokkur 137. Þessi sjónarmið stefnanda séu staðfest í bréfi formanns Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, dags. 25. september 2000. Hér vísist einnig til Hrd. 1998:1281. Stefnandi hafi um árabil verið titlaður vélfræðingur hjá stefnda og hafi launakjör hans verið í samræmi við launakjör annarra vélfræðinga hjá stefnda. Stefnandi njóti því verndar kjarasamningsins. Ekki sé hægt að rýra starfskjör hans einhliða eins og stefndi hafi gert í þessu tilviki. Vísist hér til meginreglna vinnuréttarins og 1. gr. laga nr. 55/1980, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993.

Ákvæði kjarasamningsins miði að því að meta störf og hæfni hvers einstaklings og raða honum í launaflokk. Skýrt sé tekið fram að mat þetta eigi einungis að fara fram innan hvers starfshóps og hvert starfsheiti feli í sér ákveðna lágmarksviðmiðun. M.ö.o. að ekki sé heimilt að svipta menn starfsheitum fyrirvaralaust eins og gert hafi verið í tilfelli stefnanda. Svipting starfsheitis beinist gegn ráðningarkjörum launþega, sérstaklega ef starfsheitið tengist með beinum hætti launakjörum viðkomandi. Þess háttar heimild sé ekki að finna í nefndum kjarasamningi og verði að telja þá niðurstöðu hæpna að aðilar vinnumarkaðarins geti samið svo um að tilteknir launþegar missi starfsheiti sín sem byggist á persónubundnum samningum, ráðningarsamningum, enda alltaf unnt að semja um betri rétt í ráðningar­samningum en samkvæmt kjarasamningum en aldrei verri, sbr. Hrd. 1998:1281 um skýrt orðalag í kjarasamningi ef réttarstaða launþega á að breytast til hins verra.

Kjarni málsins sé sá að stefnandi hafi verið ráðinn sem vélfræðingur til stefnda og sé það það starfsheiti sem laun hans byggist á. Starfsheiti hans verði ekki breytt einhliða með tilheyrandi kjararýrnun. Í máli Félagsdóms nr. 9/1999, hafi Vélstjórafélag Íslands krafist samningsaðildar fyrir hönd 17 vélfræðinga við gerð kjarasamninga við Reykjavíkurborg vegna starfa þeirra sem vélfræðinga hjá Hitaveitu, Vatnsveitu og Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Stefnandi hafi verið í hópi þessara 17 vélfræðinga. Uppistaðan í röksemdafærslu Reykjavíkurborgar hafi verið sú að í ljósi þess að Reykjavíkurborg hafi alla tíð samið við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar um starfsheiti vélfræðinga og með vísan til 6. gr. laga nr. 94/1986 sé Reykjavíkurborg óheimilt að semja um það starfsheiti við annað stéttarfélag.

Aðild:

Mál þetta sé höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með heimild í 1. mgr. 38. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi sé starfsmaður stefnda og hafi verið ráðinn til starfa árið 1981. Þyki því rétt að stefna Orkuveitu Reykjavíkur í máli þessu. Mál þetta sé rekið sem viðurkenningarmál á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Verði kröfur hans viðurkenndar muni hann eiga rétt á leiðréttingu launa í meira en eitt ár aftur í tímann, auk þess sem lífeyrisréttindi hans muni aukast til muna, en stefnandi muni að öllum líkindum láta af störfum hjá stefnda árið 2001 og hefja töku lífeyris. Þá sé visst óhagræði fólgið í því að gera fjárkröfur f.h. stefnanda í máli þessu þar sem þær dómkröfur gætu aldrei orðið endanlegar.

Upphaflega hafi Vélstjórafélag Íslands höfðað mál f.h. stefnanda fyrir Félagsdómi gegn stefnda og Reykjavíkurborg vegna þessa sama ágreinings, sbr. mál Félagsdóms nr. 14/2000. Málinu hafi verið vísað frá dómi þar sem stéttarfélag stefnanda hafi ekki verið samningsaðili við gerð þess kjarasamnings sem stefnandi starfi nú samkvæmt. Af lagatæknilegum ástæðum geti mál þetta því ekki átt undir Félagsdóm. Til þess beri að líta að skv. 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, dæmi Félagsdómur í málum sem rísa á milli samningsaðila um ágreining um skilning á kjarasamningi eða gildi hans. Þar sem stefnandi sé ekki samningsaðili í skilningi laganna geti hann ekki höfðað mál fyrir Félagsdómi í eigin nafni og ekki heldur stéttarfélag hans, fyrir hans hönd, enda sé það stéttarfélag ekki aðili að umræddum kjarasamningi. Þá geti stefnandi ekki farið fram á að Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar höfði mál þetta fyrir sína hönd enda sé hann ekki félagsmaður þess félags. Skilyrði þess að stéttarfélag höfði mál f.h. launþega skv. 4. mgr. 27. gr. laga nr. 94/1986 sé að viðkomandi launþegi sé félagsmaður viðkomandi stéttarfélags. Af framanreifuðu sé útilokað að mál þetta verði rekið fyrir Félagsdómi. Eigi mál þetta því undir Héraðsdóm Reykjavíkur samkvæmt ákvæði l. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnandi byggir á almennum reglum samningaréttarins, kjarasamningi milli Reykjavíkur­borgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og endurútgefnum hluta kjarasamningsins, með gildistíma frá 1. apríl 1997 til 31.október 2000, l. gr. laga nr. 55/1980, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, 1. mgr. 1. gr., 2. mgr. 25. gr. og 1. mgr. 38. gr. laga nr. 91/1991, Hrd. 1998:1281 og dómum Félagsdóms nr. 9/1999 og nr. 14/2000.

Málsástæður stefnda og lagarök

Sýknukrafa stefnda, Orkuveitu Reykjavíkur, er á því byggð að samningsaðili Halldórs Sigurðssonar, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, og Reykjavíkurborg hafi gert með sér kjarasamning þar sem kveðið hafi verið á um að taka skyldi upp nýtt launakerfi. Hið nýja launakerfi grundvallist á því að störf eru metin eftir skilgreindu matskerfi og þeim raðað í launaflokka eftir því. Með þessu fyrirkomulagi sé það verðmæti starfanna og þær kröfur sem gerðar séu til hvers starfs sem ráði því hvaða launaflokki starf tilheyri. Breyting sú sem gerð hafi verið á launaflokkaröðun á starfi Halldórs Sigurðssonar hafi alfarið verið í samræmi við ákvæði gildandi kjarasamnings.

Í gildandi kjarasamningi sé kveðið á um endurskoðun á flokkun, mati og röðun starfa. Í þeirri endurskoðun hafi ekki falist kjaraskerðing fyrir Halldór Sigurðsson, eins og haldið sé fram í stefnu málsins. Í þessu sambandi skuli bent á að samkvæmt kafla 12.3 í endurútgefnum hluta kjarasamnings Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar hafi verið tryggt að við yfirfærslu í nýtt launakerfi hafi enginn starfsmaður átt að lækka í föstum mánaðarlaunum. Við hina umsömdu launakerfisbreytingu hafi laun starfsmanna Reykjavíkurborgar, sem voru félagsmenn í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, hækkað, þ.á.m. laun stefnanda. Við launakerfisbreytinguna hafi grunnlaun Halldórs Sigurðssonar hækkað úr 115.825 krónum á mánuði í 133.169 krónur eða um rúmlega 17.000 krónur. Hin umsamda kerfisbreyting hafi því leitt til kjarabóta fyrir stefnanda en ekki kjaraskerðingar eins og stefnandi haldi fram.

Með þeirri kerfisbreytingu sem tók gildi hinn 1. desember 1999 hafi stefnandi ekki verið einhliða sviptur fagheitinu vélfræðingur enda ljóst að stefndi hafi engar heimildir til þess. Stefndi hafi hins vegar gert kjarasamning við stéttarfélag stefnda, á þeim tíma, þar sem samningsaðilar hafi verið sammála um að fella brott öll áðurgildandi ákvæði um starfsheiti og miða niðurröðun í launaflokka framvegis við mat á störfum. Samningsaðilar hafi oft áður samið um breytingar á starfsheitum og innbyrðis röðun þeirra. Þá hafi jafnframt verið samið um það með hvaða hætti störf skyldu metin og séu ítarleg ákvæði þar um í endurútgefnum hluta kjarasamnings aðila. Framangreindar launakerfisbreytingar hafi verið gerðar til að verða við óskum Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar.

Á grundvelli umsaminnar aðferðarfræði hafi störf starfsmanna hjá Orkuveitu Reykjavíkur, sem voru í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, verið metin af svokallaðri matsnefnd sem í hafi átt sæti jafnmargir fulltrúar starfsmanna úr Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar og vinnuveitanda. Hlutverk matsnefndar hafi verið að forgangsraða tilgreindum matsþáttum fyrir öll störf hjá Orkuveitu Reykjavíkur og þegar hvert starf hafi verið metið hafi það verið gert m.t.t. allra matsþáttanna. Eins og fram komi á yfirliti um forgangsröðun, hafi niðurstaða matsnefndar verið sú að til væri starf mælaviðgerðarmanns hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Yfirmenn hafi svo gefið hverju starfi stig eftir því hve miklar kröfur starf gerði til matsþáttanna. Fyrir starf mælaviðgerðarmanns hafi niðurstaðan verið 290 stig sem samkvæmt matskerfinu hafi gefið launaflokk 129. Með sama hætti hafi niðurstaða matsnefndar verið sú að fyrir starf vélfræðings hafi verið gefin 330 stig. Mismunur þessi liggi nær einungis í mismunandi kröfum sem stofnunin og matsnefnd samningsaðila hafi verið sammála um að gera, annars vegar til starfs mælaviðgerðarmanns og hins vegar til starfs vélfræðings enda komi það glögglega fram af starfslýsingum fyrir störfin að verulegur munur sé á ábyrgð og skyldum þessara starfa. Það sem hér skipti meginmáli sé sú staðreynd að í starf mælaviðgerðarmanns sé vélfræðimenntun ekki skilyrði. Að mati Orkuveitunnar sé vélfræðimenntun hins vegar kostur í starfi mæla­viðgerðar­manns og því hækki laun Halldórs Sigurðssonar um einn launaflokk eða í launaflokk 130 (hæfnislaun).

Þá bendir stefndi á að við gildistöku hins nýja launakerfis hafi sum störf, sem áður hafði verið raðað með sama hætti, fengið mismunandi mat samkvæmt matskerfinu og þar af leiðandi mismikla launahækkun. Með nýju launakerfi hafi störf þannig raðast saman í launaflokka sem aldrei höfðu áður raðast saman. Þetta séu hins vegar afleiðingar af innleiðingu nýs launakerfis sem aðilar hafi samið um með kjarasamningi sín á milli, sbr. endurútgefinn hluta kjarasamnings. Í þeim kjarasamningi hafi verið samið um tiltekið matskerfi fyrir störf starfsmanna í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. Í því sambandi vill stefndi benda á hæstaréttardóm frá 31. maí 2000: Akureyrarbær gegn kærunefnd jafnréttismála vegna Ragnhildar Vigfúsdóttur, en af þeim dómi megi ráða að röðun í launaflokka á grundvelli starfsmats sé lögmæt aðferð við ákvörðun launa að teknu tilliti til lagaskyldna eins og jafnréttislaga.

Stefndi byggir á ákvæðum laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, kjarasamningi milli Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, þ.á.m. endurútgefnum hluta kjarasamningsins, með gildistíma frá l.apríl 1997 til 3l.október 2000. Þá byggir stefndi á almennum reglum samningaréttarins, einkum á grundvallarreglunni um samningsfrelsi og almennum reglum vinnuréttarins.

Niðurstaða

Stefnandi bar fyrir dómi að hann hefði verið ráðinn til starfa hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur 1981 sem vélfræðingur. Ekki hafi verið gerður við hann skriflegur ráðningarsamningur. Hann hafi ætíð verið titlaður vélfræðingur og tekið laun samkvæmt launaröðun vélfræðinga. Stefnandi bar að hann hafi gegnt þessu sama starfi síðustu tvo áratugi og engin breyting orðið á starfinu sem slíku. Bar hann að sl. vor hefði mæladeildin, sem hann starfaði við, verið seld, Hafi honum þá verið boðinn starfslokasamningur eða nýtt starf sem hann þáði, en það felst í eftirliti og úttekt á hitaveitukerfum og vatnskerfum. Í júní á sl. ári hafi verið gerður kjarasamningur milli Vélstjórafélags Íslands og Reykjavíkurborgar og kvaðst stefnandi nú taka kjör samkvæmt þeim kjarasamningi í dag sem vélfræðingur.

Enda þótt ekki hafi sérstaklega verið óskað eftir vélfræðingi í starf mælaviðgerðarmanns árið 1981 lá fyrir að stefnandi var vélfræðingur að mennt. Í tæpa tvo áratugi, eða fram til desember 1999, tók stefnandi laun samkvæmt launaröðun vélfræðinga og kom stöðuheitið vélfræðingur fram á öllum launaseðlum hans. Með hliðsjón af þessu verður að líta svo á að stefnandi hafi verið ráðinn sem vélfræðingur til starfa hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur á sínum tíma, enda hefur stefndi ekki getað sýnt fram á annað.

Eins og fram er komið varð samkomulag milli Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og Reykjavíkurborgar um að taka upp nýtt launakerfi sem tók gildi í desember 1999 en gilti afturvirkt miðað við 1. júlí 1999 í samræmi við ákvæði kjarasamningsins. Fól þetta launakerfi í sér að tekið var upp matskerfi fyrir öll störf. Sett var á laggirnar matsnefnd hjá Orkuveitu Reykjavíkur sem meta átti störf í fyrirtækinu, eins og nánar er rakið hér að framan. Varðandi starf stefnanda komst nefndin að þeirri niðurstöðu að til væri starfið mælaviðgerðarmaður og var því starfi raðað í launaflokk 129. Starfi vélfræðings var hins vegar raðað í launaflokk 137.

Enda þótt vægi starfs mælaviðgerðarmanns hafi, í hinu nýja launakerfi, verið metið minna en vægi starfs vélfræðings þykir það ekki raska grundvellinum að ráðningarkjörum stefnanda sem, samkvæmt framansögðu, var ráðinn sem vélfræðingur og skyldi því taka laun sem slíkur.

Ber því að taka kröfur stefnanda til greina.

Eftir þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 250.000 krónur og er þá tekið tillit til flutnings um frávísunarkröfu.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Viðurkennt er að stefnandi, Halldór Sigurðsson, hafi frá 1. júlí 1999 átt að taka að lágmarki laun samkvæmt 7. þrepi 137. launaflokks í endurútgefnum hluta kjarasamnings milli Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar með gildistíma frá 1. apríl 1997 til 31. október 2000.

Stefndi, Orkuveita Reykjavíkur, greiði stefnanda, Halldóri Sigurðssyni, 250.000 krónur í málskostnað.