Hæstiréttur íslands

Mál nr. 669/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. desember 2006.

Nr. 669/2006.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Guðjón Ægir Sigurjónsson hrl.)

 

Kærumál. Farbann.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X yrði áfram bönnuð för úr landi á grundvelli 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. b. lið 1. mgr. 103. gr. sömu laga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 20. desember 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni meðan áfrýjunarfrestur líður í máli hans, þó ekki lengur en til föstudagsins 18. janúar 2007 kl. 13. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með dómi Héraðsdóms Suðurlands 19. desember 2006 var varnaraðili dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar með áfrýjunarstefnu útgefinni í dag í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Fallist er á að skilyrðum b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt til þess að varnaraðila verði bönnuð för úr landi samkvæmt 110. gr. laganna. Með þessum athugasemdum svo og með vísan til 106. gr. sömu laga verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                            

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 20. desember 2006.

Dóminum barst í gær krafa ríkissaksóknara þess efnis að X, pólskum ríkisborgara, kt. [...], verði gert að sæta farbanni á meðan áfrýjunarfrestur er að líða í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 18. janúar 2007 kl. 13:00. 

Í greinargerð með kröfunni kemur fram að með dómi Héraðsdóms Suðurlands upp kveðnum í gær hafi x verið sakfelldur m.a. fyrir kynferðisbrot gagnvart 13 ára stúlku og dæmdur til að sæta fangelsi í 18 mánuði.

 Dómfelldi sé erlendur ríkisborgari og þyki hætta á að hann hverfi af landi brott til að komast undan fullnustu refsingar og sé því nauðsynlegt að tryggja nærveru hans þar til fyrir liggur hvort hann muni una dómi eður ei. Dómfelldi hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 30. janúar til 2. febrúar s.l., en svo óslitnu farbanni frá þeim degi til 13. þ.m.  Um heimild til farbanns er vísað til b-liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Dómfelldi hafnar fram kominni kröfu.

Svo sem fram kemur í greinargerð ríkissaksóknara var dómfellda í gær gert að sæta fangelsi í 18 mánuði fyrir kynferðisbrot.  Upplýst hefur verið í dóminum að dómurinn hafi verið birtur dómfellda og jafnframt að hann hafi tekið ákvörðun um að áfrýja honum til Hæstaréttar Íslands.  Formleg tilkynning þess efnis hafi hins vegar ekki verið send til ríkissaksóknara.   Dómfelldi er pólskur ríkisborgari og má fallast á það með ríkissaksóknara að brottför hans af landinu gæti tafið framgang málsins meðan áfrýjunarfrestur líður og því beri nauðsyn til að tryggja nærveru hans þar til fyrir liggur endanlega hvort dóminum verði áfrýjað. Verður því að telja að uppfyllt séu skilyrði til að neyta heimildar í 110. gr. laga nr. 19/1991 til að banna dómfellda för úr landi. Er því fallist á framkomna kröfu ríkissaksóknara. 

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð.

Dómfellda, X, kt. [...], er bönnuð för frá Íslandi á meðan áfrýjunarfrestur líður í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 18. janúar 2007 kl. 13:00.