Hæstiréttur íslands

Mál nr. 195/2017

M (Jón Auðunn Jónsson lögmaður)
gegn
K (Lára V. Júlíusdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Hjón
  • Skilnaðarsamningur
  • Ógilding samnings
  • Kröfugerð
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta

Reifun

K krafðist þess að fjárskiptasamningur sem hún og M höfðu gert með sér í kjölfar skilnaðar þeirra yrði ógiltur og M dæmdur til að greiða sér tiltekna fjárhæð. Byggði K á því að samningurinn hefði verið bersýnilega ósanngjarn í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936, en óumdeilt var að skipting eigna samkvæmt samningnum var M í hag. Héraðsdómur féllst á að ógilda samninginn og dæmdi M jafnframt til að greiða K nánar tilgreinda fjárhæð. Hæstiréttur rakti tilurð og efni fjárskiptasamningsins, en samkvæmt honum komu um 79% af eignum aðila í hlut M en um 21% í hlut K. Taldi rétturinn samkvæmt því engan vafa leika á að verulega hefði verið vikið frá helmingaskiptareglu hjúskaparlaga við gerð samningsins. Hins vegar yrði að leggja til grundvallar að K hefði verið fullkunnugt um þá reglu og að á hana hallaði við fjárskiptin. Tók rétturinn fram að með 36. gr. laga nr. 7/1936 væri vikið frá þeirri grundvallarreglu íslensks réttar að samninga beri að efna. Af þeim sökum bæri sá, er héldi því fram að beita ætti ákvæðinu, sönnunarbyrðina fyrir því að skilyrði greinarinnar væru uppfyllt. Taldi Hæstiréttur að K hefði hvorki sýnt fram á að staða aðilanna við samningsgerðina né atvik, sem þá lágu fyrir eða síðar komu til, hefðu verið með þeim hætti að fallist yrði á kröfu hennar um ógildingu samningsins í heild. Var M því sýknaður af þeirri kröfu K en fjárkröfu hennar vísað frá dómi með vísan til 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Karl Axelsson og Eiríkur Tómasson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. mars 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefndu, en til vara að fjárkrafa hennar verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi gerðu málsaðilar samning um fjárskipti sín á milli við skilnað að borði og sæng 5. september 2013. Meðal málskjala er tölvupóstur stefndu til áfrýjanda 19. júlí sama ár með tillögu að skiptingu eigna og skulda og var henni að mestu leyti fylgt í samningnum, sem stefnda gekk frá og aðilar rituðu undir að viðstöddum fulltrúa sýslumanns, er lét þess getið í áritun á samninginn að þeim hafi verið leiðbeint samkvæmt hjúskaparlögum nr. 31/1993. Í skýrslum beggja aðila fyrir héraðsdómi kom fram að þau hafi fyrr á árinu 2013 rætt þó nokkuð sín á milli um hvert efni samningsins skyldi vera. Í bréfi áfrýjanda til stefndu 18. september 2015 sagði: „Undirbúningur samningsins stóð yfir í marga mánuði. Efni hans var ítarlega rætt og stundum í vitna viðurvist.“ Þegar stefnda var spurð að því fyrir dómi hvers vegna á því stæði að engin fjárhagsleg verðmæti hafi verið tilgreind við eignirnar í tillögunni, sem hún sendi áfrýjanda, gat hún ekki skýrt það, heldur sagði að tillagan hefði verið unnin upp úr því sem þau hefðu verið búin að ræða áður sín á milli.

Samkvæmt 4. grein samningsins skyldi áfrýjandi fá í sinn hlut húseignina að A í Hafnarfirði, B í Flóa, alla hluti í fjórum einkahlutafélögum, dráttarvél, hengivagn og bifreið af gerðinni Toyota Landcruiser, en stefnda íbúð að D í Kópavogi, hesthús við C í Hafnarfirði og bifreið af gerðinni Lexus, auk þess sem samið var um skiptingu innbús milli aðila. Eftir 5. grein samningsins tók áfrýjandi að sér að greiða áhvílandi veðskuld á eigninni að A að fjárhæð 20.000.000 krónur og stefnda áhvílandi veðskuld á íbúðinni að D að fjárhæð 15.000.000 krónur. Í samningnum var ekki minnst á að meðal eigna aðila væru hross og bankainnstæða að fjárhæð 5.000.000 krónur, en í áðurgreindri tillögu var gert ráð fyrir að hrossin rynnu til áfrýjanda og innstæðan til stefndu.

Í byrjun árs 2014 leitaði stefnda eftir lögskilnaði að höfðu samráði við áfrýjanda. Í tölvubréfi frá fulltrúa sýslumanns til stefndu 8. janúar það ár kom fram að unnt væri að óska eftir lögskilnaði þegar sex mánuðir væru liðnir frá því að leyfi til skilnaðar að borði og sæng hefði verið gefið út, auk þess sem hægt væri að nálgast eyðublað fyrir slíka beiðni í afgreiðslu embættisins eða á tilteknu netfangi. Enn fremur sagði í tölvubréfinu: „Ef það þarf að breyta einhverju varðandi skilnaðarskilmála sem ákveðnir voru við skilnað að borði og sæng þarf að mæta aftur í viðtal. Ef engu þarf að breyta er nóg að fylla út eyðublaðið og koma því til sýslumanns.“ Samkvæmt gögnum málsins gerði stefnda engan reka að því að fá samningnum frá 5. september 2013 breytt, heldur fyllti út eyðublaðið og kom beiðninni um lögskilnað til embættis sýslumanns 5. mars 2014 eftir að hún og áfrýjandi höfðu skrifað undir hana.

Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir skiptingu eigna og skulda málsaðila samkvæmt framangreindum samningi og öðru því sem upplýst var við meðferð málsins í héraði. Jafnframt eru eignirnar verðlagðar á þeim tíma þegar samningurinn var gerður, meðal annars með tilliti til mats dómkvadds manns á þáverandi söluverðmæti jarðarinnar B þótt horft sé framhjá mati hans á virði hrossa sem sögð voru í eigu áfrýjanda. Séu forsendur héraðsdóms lagðar til grundvallar að viðbættu matsvirði hrossanna komu 78,9% af hreinni eign málsaðila í hlut áfrýjanda, en 21,1% í hlut stefndu. Þrátt fyrir að óvíst sé um virði einstakra eigna liggur hvað sem því líður ljóst fyrir að stærstur hluti af verðmæti eignanna rann til áfrýjanda við skiptingu þeirra, en einungis lítill hluti til stefndu.

Aðspurð fyrir dómi kvaðst stefnda hafa þekkt til svokallaðrar helmingaskiptareglu við skilnað hjóna þegar þau áfrýjandi sömdu um fjárskipti sín á milli og vitað nokkurn veginn hvað í henni fælist. Í framhaldinu neitaði stefnda því að tillagan, sem hún sendi áfrýjanda 19. júlí 2013, hafi falið í sér jöfn skipti milli þeirra. Það hafi verið langt því frá að svo hafi verið. Spurður fyrir dómi hvort hallað hafi á stefndu við skiptin ef eignirnar hefðu verið metnar til peningaverðs svaraði áfrýjandi að hann hafi gert sér grein fyrir því. Stefnda hafi hins vegar verið mjög sátt við skiptin á sínum tíma, enda hefði hún getað gert kröfu um að þeim yrði hagað öðru vísi, en ekki gert það. Þannig kvaðst áfrýjandi hafa spurt stefndu „hvort hún vildi ekki taka A.“ Spurð hvort áfrýjandi hafi boðið henni að taka húsið játaði stefnda því, en sagðist ekki hafa getað það.

II

Samkvæmt 103. gr. hjúskaparlaga á hvor maki um sig tilkall til helmings úr skírri hjúskapareign hins við skilnað þeirra nema annað leiði af ákvæðum laga. Í 1. mgr. 95. gr. sömu laga er kveðið á um að hjón geti ráðið fjárskiptum sínum vegna skilnaðar til lykta með samningi, enda sé hann skriflegur og undirritaður af hjónum eða umboðsmönnum þeirra og staðfestur fyrir sýslumanni eða dómara. Með þessu móti geta hjón ráðstafað hagsmunum sínum við fjárslit vegna skilnaðar í samræmi við meginregluna um samningsfrelsi og þar með vikið frá helmingaskiptareglu 103. gr. séu þau sammála um það.

Við úrlausn um hvort víkja beri til hliðar í heild eða að hluta samningi, sem gerður hefur verið samkvæmt 1. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga, á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga liggur fyrst fyrir að kanna, á sama hátt og þegar vísað er til 2. mgr. fyrrnefndu greinarinnar, hvort vikið hafi verið frá helmingaskiptareglunni með samningnum. Ef það hefur verið gert verður að skera úr um hvort sá, sem hnekkja vill samningnum, hafi gert sér grein fyrir þessu, þar á meðal hvort hann hafi átt þess nægan kost að kynna sér efni samningsins og þær eignir og skuldir sem hann tekur til. Hafi sú verið raunin verður krafa um ógildingu samningsins á þeim grunni, sem hér um ræðir, ekki tekin til greina nema eitthvað sérstakt komi til, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 6. mars 2008 í máli nr. 165/2007 og 26. febrúar 2009 í máli nr. 369/2008.

Enginn vafi leikur á að vikið var verulega frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga í samningi þeim sem aðilar máls þessa gerðu um fjárskipti sín á milli 5. september 2013 við skilnað þeirra að borði og sæng. Þótt vanda hefði mátt betur til gerðar samningsins uppfyllti hann formskilyrði 1. mgr. 95. gr. laganna, þar á meðal var hann staðfestur á þann hátt sem þar er áskilið. Í aðilaskýrslu sinni fyrir héraðsdómi kvaðst stefnda sem áður segir hafa gert sér grein fyrir hvað í helmingaskiptareglunni fælist og að það hafi verið langt í frá að tillaga, sem hún gerði um skiptin milli sín og áfrýjanda og byggt var á við gerð samningsins, hafi falið í sér jöfn skipti milli þeirra. Með skírskotun til 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður því lagt til grundvallar þegar leyst er úr máli þessu að stefndu hafi verið fullkunnugt um að verulega hallaði á hana í umræddum samningi um fjárskipti hennar og áfrýjanda við undirritun hans.

Eins og áður greinir eru aðilar sammála um að hafa rætt allnokkuð sín á milli á árinu 2013 um hvert efni samningsins skyldi vera. Í þá sex mánuði, sem liðu frá því að ritað var undir hann og þar til beiðni um lögskilnað var afhent, gafst stefndu jafnframt ríflegur tími til að ígrunda efni hans frekar og kanna verðmæti eignanna sem hann tók til. Enn fremur var henni kunnugt um að samningnum mætti breyta áður en til lögskilnaðar kæmi vegna ábendingar frá fulltrúa sýslumanns í þá veru í ársbyrjun 2014.

Sé samningur ógiltur með stoð í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 er vikið frá þeirri grundvallarreglu íslensks réttar að samninga beri að efna. Af því leiðir að sá, sem krefst þess að það skuli gert vegna efnis samningsins, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina eða atvika, sem síðar komu til, sbr. 2. mgr. greinarinnar, ber sönnunarbyrði fyrir því að þessi atriði eigi að valda því að talið verði ósanngjarnt að viðsemjandinn beri samninginn fyrir sig. Þótt nokkur munur hafi verið á stöðu málsaðila við gerð samningsins 5. september 2013 vegna þekkingar áfrýjanda á byggingarmarkaði og verðmæti fasteigna umfram stefndu nægir það eitt og sér ekki til þess að samningnum verði vikið til hliðar, enda var henni í lófa lagið að leita sér aðstoðar lögmanns eða annarra sérfræðinga við samningsgerðina sem hún notfærði sér ekki og verður hún að bera hallann af því. Þá hefur stefnda ekki fært sönnur á að áfrýjandi hafi þvingað hana til að ganga til samninga um fjárskipti þeirra á milli á þann hátt, sem gert var, en þar á meðal hélt hann því fram fyrir dómi að hann hafi boðið henni að fá í sinn hlut við skiptin húseignina að A sem hún kvaðst ekki hafa getað fallist á.

Þótt stefnda hafi í málatilbúnaði sínum leitast við að sýna fram á að tilteknar eignir, sem komu í hlut áfrýjanda við fjárskiptin, hafi verið verðmætari en hún hefði mátt ætla við gerð samningsins 5. september 2013 hefur hún ekki krafist þess að honum verði vikið til hliðar að hluta af þeirri ástæðu, heldur gerir hún kröfu um að hann verði felldur úr gildi í heild sinni. Ef fallist væri á það yrði virtur að vettugi sá vilji málsaðila við samningsgerðina að stærstur hluti af eignum þeirra, sem til skipta voru, skyldi renna til áfrýjanda, eins og þau voru sammála um fyrir dómi að stefnt hafi verið að með samningnum, en með því móti væri gengið gegn þeim meginreglum samningaréttarins sem vitnað hefur verið til. Að teknu tilliti til þessa og að öðru leyti með vísan til þess, sem að framan hefur verið rakið, verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefndu um ógildingu samningsins.

Af 1. mgr. 96. gr. hjúskaparlaga, sbr. 1. mgr. 95. gr. þeirra, leiðir að ráði hjón ekki fjárskiptum sínum vegna skilnaðar til lykta með samningi geti annað þeirra eða þau bæði krafist opinberra skipta til fjárslita milli þeirra samkvæmt lögum nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Af þessum sökum verður krafa annars hjóna um greiðslu fjár úr hendi hins við slík skipti ekki höfð uppi í einkamáli, sem rekið er á grundvelli laga nr. 91/1991, og verður fjárkröfu stefndu á hendur áfrýjanda því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi, sbr. 2. mgr. 24. gr. laganna.

Rétt er að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.

Það athugist að við aðalmeðferð málsins í héraði kom fyrir dóm sem vitni maður, sem veitt hafði dómkvöddum manni aðstoð við framkvæmd mats, án þess að hafa skynjað málsatvik af eigin raun. Fyrir því er ekki heimild í lögum nr. 91/1991 samkvæmt gagnályktun frá 1. mgr. 51. gr. og 1. mgr. 65. gr. þeirra.

Dómsorð:

Áfrýjandi, M, er sýkn af þeirri kröfu stefndu, K, að samningur um fjárskipti þeirra 5. september 2013 verði ógiltur.

Fjárkröfu stefndu á hendur áfrýjanda er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness, miðvikudaginn 8. febrúar 2017

                Mál þetta, sem tekið var til dóms 11. janúar sl., er höfðað með áritun lögmanns á stefnu 2. febrúar 2016.

                Stefnandi er K, kt. [...],[...].

                Stefndi er M, kt. [...],[...].

Stefnandi krefst þess í fyrsta lagi að fjárskiptasamningur aðila, dagsettur 5. september 2013, verði ógiltur með dómi.

                Í öðru lagi krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 47.341.000 krónu, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá málshöfðunardegi til greiðsludags.

Stefnandi krefst þess jafnframt að stefndi verði dæmdur til að greiða henni málskostnað að skaðlausu að mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti.

                Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu úr hendi stefnanda.

I

Málsaðilar hófu sambúð í ágúst [...] og gengu í hjónaband [...]. Saman eiga aðilar tvö uppkomin börn, fædd [...] og [...], en að auki á stefnandi son fæddan [...]. Stefnandi var í hálfu starfi í einn vetur á fyrri hluta [...], en var heimavinnandi og annaðist heimili og börn aðila eftir fæðingu eldra barns málsaðila árið [...]. Á árinu [...] hóf stefnandi aftur störf utan heimilis og var þá í hálfu starfi, en í fullu starfi frá [...]. Stefndi vann utan heimilis allan tímann.

Vorið 2013 ákváðu málsaðilar að leita skilnaðar að borði og sæng og með samningi, dagsettum 5. september 2013, var gengið frá skiptingu eigna við skilnað þeirra, svo sem þeim var skylt að gera. Óumdeilt er að stefnandi undirbjó og gerði samninginn. Kveðst hún í engu hafa notið aðstoðar lögmanns eða annarra sérfróðra aðila um efni samningsins. Hins vegar hafi fulltrúi sýslumanns leiðbeint henni um formskilyrði til að fá samninginn staðfestan af embættinu.

Stefnandi kveðst lengi hafa leitað eftir skilnaði frá stefnda, en það hafi tafist af ýmsum ástæðum, m.a. vegna veikinda stefnda. Þá hafi stefndi beðið hana um að fresta frágangi fjárskiptasamnings á meðan félög í eigu þeirra gengu í gegnum óvissutímabil. Að lokum hafi verið gengið frá samningi á milli aðila og hann staðfestur af fulltrúa sýslumanns í Hafnarfirði.

Í samningnum eru eftirtaldar eignir búsins taldar upp:

1.       Fasteignin A, Hafnarfirði, fnr. [...]

2.       Fasteignin B, Flóahreppi, fnr. [...]

3.       Fasteignin C, hesthús, fnr. [...]

4.       Fasteignin D, Kópavogi, fnr. [...]

5.       Fyrirtækið E ehf., kt. [...]

6.       Fyrirtækið F ehf., kt. [...]

7.       Fyrirtækið G ehf., kt. [...]

8.       Fyrirtækið H ehf., kt. [...]

9.       Dráttarvél, fastanúmer [...]

10.    Hengivagn, fastanúmer [...]

11.    Innbú að A og B

12.    Land Cruiser-bifreið, fastanúmer [...]

13.    Lexus RX-bifreið, fastanúmer [...]

Eignunum var skipt með þeim hætti að eftirtaldar eignir komu í hlut stefnda:

1.       Fasteignin A, Hafnarfirði, fnr. [...]

2.       Fasteignin B, Flóahreppi, fnr. [...]

3.       E ehf., kt. [...]

4.       F ehf., kt. [...]

5.       G ehf., kt. [...]

6.       H ehf., kt. [...]

7.       Dráttarvél, fastanúmer [...]

8.       Hengivagn, fastanúmer [...]

9.       Land Cruiser-bifreið, fastanúmer [...]

Í hlut stefnanda komu eftirtaldar eignir:

1.       Fasteignin C, hesthús, fnr. [...]

2.       Fasteignin D, Kópavogi, fnr. [...]

3.       Lexus RX-bifreið, fastanúmer [...]

Þá var samið um að stefnandi fengi það úr innbúinu að A og B sem sótt yrði fyrir 1. september 2013. Eftir það ætti stefndi það sem ekki hefði verið sótt.

Þá eru í samningnum taldar upp eftirfarandi skuldbindingar búsins:

1.       Áhvílandi veðlán á A, að fjárhæð 20.000.000 króna.

2.       Áhvílandi veðlán á D, að fjárhæð 15.000.000 króna.

Var skuldbindingunum skipt þannig að stefndi tók að sér greiðslu á áhvílandi veðláni á fasteigninni að A, en að stefnandi tók að sér greiðslu láns sem hvíldi á fasteigninni að D.

Í áðurgreindum fjárskiptasamningi aðila var ekkert getið um hesta í eigu málsaðila. Stefnandi kveður að við skoðun í upprunaskrá hrossa hafi hins vegar komið í ljós 29 hross, sem skráð hafi verið á nafn stefnda. Stefndi hafi tekið hrossin til sín í kjölfar skiptanna og kveðst stefnandi ekkert hafa séð til þeirra síðan.

Stefndi kveðst mótmæla þeirri lýsingu atvika sem fram komi í stefnu, bæði hvað varði aðdraganda skilnaðar aðila, atvik við samningsgerðina og síðari atvik. Hið rétta sé að stefnandi hafi sjálf átt frumkvæðið að skilnaði aðila strax í aprílmánuði 2013. Kveðst stefndi hafa fallist á ósk stefnanda um skilnað og unnið með henni að lausn fjármála þeirra eftir mætti, en hann hafi ekki verið til stórræðanna á þessum tíma vegna veikinda.

Stefndi mótmælir fullyrðingum stefnanda um að hún hafi verið undir þrýstingi af hálfu stefnda við gerð fjárskiptasamningsins þar sem hún fengi ekki skilnað frá honum að öðrum kosti. Bendir stefndi á að fjárskipti séu nauðsynlegur og eðlilegur þáttur í skilnaði hjóna, enda tíðkist ekki að hjón hafi sameiginlegt fjárfélag eftir skilnað. Í 43. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 segi beinlínis að samningur um skilnaðarkjör skuli liggja fyrir áður en skilnaður að borði og sæng eða lögskilnaður er veittur.

Stefndi kveður stefnanda hafa átt allt frumkvæði að gerð fjárskiptasamningsins og kveðst stefndi aldrei hafa sett fram svo mikið sem eina tillögu um hugsanleg skipti, hvað þá kröfur. Bendir stefndi á að hinn 19. júlí 2013 hafi stefnandi loks gert stefnda bindandi tilboð í tölvupósti, en afrit hans hafi verið lagt fram í málinu. Þar hafi hún gert grein fyrir öllum eignum búsins og tillögu sinni að skiptingu þeirra. Auk þess sem að framan greini hafi m.a. komið þar fram að allir hestar í þeirra eigu skyldu koma í hlut stefnda og 5.000.000 króna á bankabók skyldu koma í hlut stefnanda. Eftir samþykkt stefnda á tilboðinu hafi stefnandi séð um að fylla út samningsform á vef sýslumannsembættisins og senda það fulltrúa embættisins til skoðunar og afgreiðslu. Kveðst stefndi ekkert hafa komið nálægt þeirri samningsgerð.

Stefndi kveður samkomulag aðila um þá skiptingu eigna, sem raun hafi orðið á, hafi þó legið fyrir mun fyrr. Lykilatriðið hafi verið að finna báðum aðilum stað til að búa á. Stefnanda hafi á sama hátt og stefnda staðið til boða að taka húseign þeirra að A. Stefnandi hafi hins vegar engan áhuga haft á því, enda um allt of stórt hús að ræða fyrir hana eina, auk þess sem fasteignin sé dýr í rekstri. Stefnandi hafi viljað minni íbúð. Í byrjun júlí 2013 hafi stefnandi fundið íbúð að D í Kópavogi og hafi hún fest kaup á henni með samningi, dagsettum 10. sama mánaðar. Til að standa straum af kaupverðinu hafi stefndi tekið lán að fjárhæð tuttugu milljónir króna með veði í fasteigninni að A. Stefnandi hafi síðan tekið lán að fjárhæð 15 milljónir króna og hafi það verið tryggt með veði í hinni keyptu eign.

Stefndi bendir á að af þessu megi sjá að löngu áður en gengið var frá skilnaðarkjörum aðila og áður en hið formlega tilboð barst frá stefnanda, höfðu aðilar í raun náð samkomulagi um hvað yrði um húseign þeirra. Stefnandi hafi ein verið skráð fyrir íbúðinni í D þótt ekki væri búið að ganga frá skilnaðarkjörunum formlega og þrátt fyrir að stór hluti kaupverðsins hefði verið greiddur með fé sem stefndi hafði tekið að láni. Kveður stefndi þetta staðfesta það traust sem hafi verið á milli aðila um það hvernig fjárskiptum þeirra yrði ráðið til lykta.

Stefndi kveður stefnanda hafa selt íbúðina að D í desember 2013 og hafi hún þá flutt aftur tímabundið í fasteignina að A. Í ársbyrjun 2014 hafi stefnandi átt allt frumkvæði að því að ganga frá lögskilnaði á milli aðila og hafi stefndi ekkert komið að frágangi þess máls. Af gögnum málsins megi sjá að stefnandi hafi verið í sambandi við fulltrúa sýslumanns vegna beiðni um lögskilnað frá janúar og fram í mars. Í tölvupósti sem löglærður fulltrúi sýslumanns hafi sent stefnanda 8. janúar 2014 hafi henni verið bent á að ef einhverjar breytingar þyrfti að gera á þeim skilnaðarkjörum, sem samið hefði verið um við skilnað að borði og sæng, þyrftu aðilar að koma aftur í viðtal. Ef ekki væri þörf á neinni breytingu væri nóg að fylla út eyðublað fyrir beiðni um lögskilnað og koma því til embættisins. Stefndi kveður stefnanda ekki hafa óskað eftir viðtali, heldur hafi hún fyllt út eyðublaðið og afhent það sýslumanni um leið og sá dagur hafi runnið upp er hún gat krafist lögskilnaðar frá stefnda. Af þessu megi ráða að ári eftir að aðilar ákváðu að skilja og rúmum átta mánuðum eftir að samkomulag náðist í raun um skiptingu eigna, hafi stefnandi engar efasemdir haft um að fjárskiptasamningur aðila endurspeglaði vilja hennar. Stefnandi hafi fengið skýra ábendingu um að samninginn mætti endurskoða, en lét sig hana ekki varða.

Lögmaður stefnanda sendi stefnda bréf, dagsett 3. september 2015, þar sem atvikum var lýst og þess krafist að samið yrði á ný um skiptingu eigna í anda helmingaskiptareglu hjúskaparlaga. Erindinu var hafnað með bréfi, dagsettu 18. september 2015. Í kjölfarið var stefnda sent annað bréf, dagsett 4. janúar 2016, þar sem erindið var ítrekað og honum gefinn tveggja vikna frestur til svara. Því bréfi var ekki svarað af hálfu stefnda. Stefnandi kveðst telja útséð um samningsvilja stefnda í málinu og því hafi verið nauðsynlegt að fylgja málinu eftir fyrir dómi.

Við meðferð málsins krafðist stefnandi þess að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta hæfilegt markaðsverð fasteignarinnar að B, Flóahreppi, fnr. [...], miðað við venjubundin viðskiptakjör, annars vegar miðað við dagsetninguna 23. maí 2016 og hins vegar miðað við 5. september 2013.

Einnig var þess krafist að matsmaður legði mat á verðgildi eftirtalinna hrossa miðað við gangverð á frjálsum markaði, annars vegar 23. maí 2016 og hins vegar 5. september 2013:

[...] frá [...], fæðingarnúmer [...]

[...] frá [...], fæðingarnúmer [...]

[...] frá [...], fæðingarnúmer [...]

[...] frá [...], fæðingarnúmer [...]

[...] frá [...], fæðingarnúmer [...]

[...] frá [...], fæðingarnúmer [...]

[...] frá [...], fæðingarnúmer [...]

[...] frá [...], fæðingarnúmer [...]

[...] frá [...], fæðingarnúmer [...]

[...] frá [...], fæðingarnúmer [...]

[...] frá [...], fæðingarnúmer [...]

[...] frá [...], fæðingarnúmer [...]

[...] frá [...], fæðingarnúmer [...]

[...] frá [...], fæðingarnúmer [...]

[...] frá [...], fæðingarnúmer [...]

[...] frá [...], fæðingarnúmer [...]

[...] frá [...], fæðingarnúmer [...]

[...] frá [...], fæðingarnúmer [...]

[...] frá [...], fæðingarnúmer [...]

[...] frá [...], fæðingarnúmer [...]

[...] frá [...], fæðingarnúmer [...]

[...] frá [...], fæðingarnúmer [...]

Í þinghaldi 23. maí 2016 var I, hæstaréttarlögmaður og löggiltur fasteignasali, dómkvaddur sem matsmaður í málinu. Matsgerð hans er dagsett 13. september 2016.

Að mati hins dómkvadda matsmanns var líklegt markaðsverð jarðarinnar miðað við venjubundin viðskiptakjör talið nema á bilinu 50.000.000 – 52.000.000 króna hinn 5. september 2013, en 58.000.000 – 60.000.000 króna hinn 23. maí 2016, hvort tveggja með eðlilegum vikmörkum til hækkunar og lækkunar.

Þá var markaðsverð framangreindra hrossa hinn 5. september 2013 talið nema 11.430.000 krónum, en 14.950.000 krónum hinn 5. september 2016.

                Málsaðilar komu fyrir dóminn og gáfu aðilaskýrslu. Þá komu fyrir dóminn sem vitni I og J.

II

                Stefnandi bendir á að þegar fjárskiptasamningur málsaðila frá 5. september 2013 sé skoðaður í ljósi XIV. kafla hjúskaparlaga megi leiða að því líkur að hann sé ófullkominn um fjárskipti af þeim sökum að þar sé aðeins fjallað um hluta hjúskapareigna málsaðila. Þannig hafi ekki verið um það fjallað í samningnum hvernig hross í eigu aðila skyldu koma til skipta. Aðilar hafi ekki gert með sér nokkurt samkomulag um að hrossin skyldu standa utan skipta né hafi aðrar ástæður legið til þess að þeim skyldi haldið utan skipta.

Þá halli efni fjárskiptasamningsins bersýnilega mjög á stefnanda. Samkvæmt samningnum hafi komið í hlut stefnda fasteignir að A og B, sem og dráttarvél, hengivagn og Land-Cruiser bifreið, árgerð 2008. Þá hafi komið í hans hlut fjögur einkahlutafélög í rekstri. Þrjú þeirra hafi verið með jákvætt eigið fé við skil ársreiknings fyrir rekstrarárið 2013, en eitt félaganna hafi verið með neikvæða eiginfjárstöðu.

Þá hafi fasteignin að B í Flóahreppi, fnr. [...], komið í hlut stefnda, en að mati hins dómkvadda matsmanns hafi markaðsvirði hennar hinn 5. september 2013 numið 50.000.000 – 52.000.000 króna. Áður hafi stefnandi látið fasteignasala meta fasteignina til verðs og hafi hann talið raunhæft söluverð hennar vera 45.000.000 króna. Hvort tveggja sé umtalsvert hærra en fram komi í fasteignamati. Húsið hafi verið byggt árið 2006 og því sé ekki um að ræða að verðmæti þess hafi aukist verulega frá gerð fjárskiptasamnings árið 2013.

Þá hafi hinn dómkvaddi matsmaður talið að markaðsverð hrossa í eigu stefnda hafa numið 11.430.000 krónum hinn 5. september 2013. Loks hafi komið fram við aðalmeðferð málsins að 5.000.000 króna á bankabók hafi runnið til stefnanda.

Að teknu tilliti til þessara upplýsinga séu verðmæti hjúskapareigna sem komið hafi í hlut hvors aðila um sig við fjárskipti eftirfarandi:

 

Eignir sem komu í hlut manns

Eignir sem komu í hlut konu

 

A

66.000.000,-

(Áhvílandi skuld 20.000.000,-)

D

33.150.000,-

(Áhvílandi skuld 15.000.000,-)

 

B í Flóahreppi

51.000.000,-

C– hesthús

6.278.000,-

 

Hross

11.430.000,-

Lexus RX [...]

1.885.000,-

 

Land Cruiser [...]

6.065.000,-

5.000.000 króna á bankabók

 

New Holland [...]

4.000.000,-

 

 

Hestvagn [...]

1.000.000,-

 

 

Jákvætt fé í félögunum G ehf., H ehf., F ehf. og E ehf.

6.500.000,-

 

 

Samtals: 125.995.000,-

31.313.000,-

157.308.000,-

 

Að teknu tilliti til áhvílandi skuldbindinga á eignum sem komið hafi í hlut hvors hjóna um sig, og greint sé frá í töflu að ofan, hafi rúmlega 80% verðmæta við eignaskiptin komið í hlut stefnda, en aðeins tæp 20% verðmæta runnið til stefnanda.

Auk ójafnrar verðmætaskiptingar hafi stefnandi setið uppi með eign sem á engan hátt hafi nýst henni, þ.e. hesthúsið við C. Eins og komist hafi verið að orði í bréfi stefnda, dagsettu 18. september 2015, hafi hann verið „hestamaðurinn“ í hjúskapnum, en þannig hafi verið færð rök fyrir því að hestar og hestakerra komu í hans hlut. Það skjóti því skökku við að stefnandi hafi setið uppi með hesthúsið við skiptin. Ástæðu þessa hafi í raun verið að rekja til þess að stefndi hafi lofað stefnanda að hann myndi kaupa af henni hesthúsið eftir fjárskiptin. Ekkert hafi þó orðið af þeim kaupum.

Í bréfi frá stefnda, dagsettu 18. september 2015, hafi komið fram að við fjárskiptin hafi nákvæmt helmingaskiptauppgjör í krónum ekki vakað fyrir stefnanda, heldur hafi hún sóst eftir því að losna undan skulda- og vaxtabyrði. Stefnandi bendir hins vegar á að engar veðskuldir hafi hvílt á eignum sem komið hafi til skipta, aðrar en þær sem komið hafi í tengslum við lántöku stefnanda við kaup á fasteigninni að D. Stefnandi hafi ekki borið persónulega ábyrgð á skuldum byggingarfélaganna, enda séu þau öll skráð einkahlutafélög.

Stefnandi kveðst ekki hafa verið í aðstöðu til að gera sér grein fyrir misskiptingu eigna þegar gengið hafi verið frá fjárskiptum aðila. Þá liggi fyrir að stefnandi hafi ekki notið annarra leiðbeininga við samningsgerðina en frá fulltrúa sýslumanns að því er varðaði formhlið eignaskiptasamningsins.

Framangreint gefi til kynna að stefnandi hafi gengið að fjárskiptasamningi á röngum forsendum, m.a. vegna upplýsinga frá stefnda. Þá hafi stefnandi lýst því að hún hafi verið undir miklum þrýstingi af hálfu stefnda um að ganga frá fjárskiptasamningnum þar sem hún fengi að öðrum kosti ekki skilnað frá honum.

Fjárskipti við skilnað, þar sem rúm 80% verðmæta koma í hlut annars maka, séu bersýnilega efnislega ósanngjörn út frá hlutlægum mælikvarða og ógildanleg með vísan til ógildingarreglna samningaréttar. Hér verði m.a. að líta til þess að sambúð aðila hafi varað í meira en þrjá áratugi og á þeim tíma hafi eignir búsins myndast. Þá hafi vissulega talsverður aðstöðumunur verið á aðilum þar sem stefndi hafi staðið í sjálfstæðum félagarekstri um árabil, en stefnandi hafi haft umsjón með börnum aðila og annast uppeldi þeirra. Loks beri ummæli í bréfi stefnda, dagsettu 18. september 2015, þess merki að stefnandi hafi ekki haft réttar upplýsingar um skuldastöðu búsins við samningsgerðina.

Stefnandi bendir á að fjárskiptasamningur, dagsettur 5. september 2013, sé bersýnilega ósanngjarn sér í óhag. Hér komi ekki aðeins til skoðunar hlutlægt mat á verðmætum sem komið hafi í hlut hvors aðila um sig, heldur einnig samanburður á aðstæðum aðila við og í kjölfar samningsgerðar og atvik við samningsgerðina sjálfa. Með vísan til þessa beri að ógilda fjárskiptasamning aðila.

Helmingaskiptaregla hjúskaparréttar sé leiðbeinandi um hvernig skipta skuli eignum við fjárskipti hjóna svo sanngjarnt sé. Samkvæmt reglunni skuli skipta skýrri hjúskapareign hvors hjóna um sig til helminga við skilnað. Helmingaskiptareglan veiti skýra fyrirmynd við mat á því hvort efni fjárskiptasamninga sé sanngjarnt. Hún byggist á sjónarmiðum um efnahagslega, félagslega og persónulega samstöðu hjóna. Reglunni sé sérstaklega ætlað að verja hagsmuni þess maka sem hvorki hafi aflað tekna né eigna. Með vísan til helmingaskiptareglunnar eigi stefnandi tilkall til þess að stefndi greiði henni 47.341.000 krónur.

Stefnandi vísar til ákvæða hjúskaparlaga nr. 31/1993, sérstaklega XIV. kafla um fjárskipti hjóna við skilnað, 6. og 103. gr. um helmingaskiptareglu við fjárskipti á milli hjóna. Til stuðnings því að ógilda beri fjárskiptasamning aðila sé vísað til ákvæða samningalaga nr. 7/1936, sérstaklega 31. gr. og 36. gr.

Stefnandi kveður kröfu um málskostnað byggða á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi kveðst ekki reka virðisaukaskattskylda starfsemi, sbr. lög nr. 50/1988, og sé óskað eftir að tillit verði tekið til þess við ákvörðun málskostnaðar. Um dráttarvexti sé vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sérstaklega 4. mgr. 5. gr. og 6. gr., og um varnarþing til 32. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

Stefndi bendir á að stefnandi byggi kröfur sínar m.a. á því að samningur aðila sé ófullkominn þar sem ekki sé þar getið um hross í eigu málsaðila. Með hliðsjón af því bendir stefndi á að í áðurgreindu tilboði, sem stefnandi hafi sent stefnda í tölvupósti 19. júlí 2013, hafi komið fram sá skýri vilji stefnanda að hrossin skyldu koma í hlut stefnda. Stefnanda hafi að sjálfsögðu staðið til boða að fá einhver hross í sinn hlut, en hún hafi engan áhuga haft á því. Stefndi kveður hross ekki vera söluvöru, allra síst hafi þau verið það á þeim tíma er gengið hafi verið frá fjárskiptum aðila. Sá kostur að selja hrossin og skipta andvirðinu á milli aðila hafi því ekki staðið til boða. Vel megi vera að unnt sé að setja verðmiða á einhver hross, en sá verðmiði hafi ekkert gildi fyrr en einhver er reiðubúinn til að kaupa. Stefnandi hafi að sjálfsögðu gert sér grein fyrir þessu, enda hafi hún fylgst með þessu áhugamáli stefnda alla þeirra hjúskapartíð. Hrossum fylgi aðeins kostnaður, en aldrei hagnaður.

Stefndi kveðst auk þess mótmæla hugmyndum stefnanda um fjölda hrossanna og verðgildi þeirra. Flest hrossanna séu ótamin trippi, fædd og uppalin á B, en ekki aðkeypt. Stefndi kveðst hvorki hafa getað né viljað greiða fyrir þessi hross. Hafi stefnandi séð einhver verðmæti í þeim á sínum tíma hafi eini kostur hennar verið sá að taka sjálf við hrossunum, hýsa þau og fóðra. Slíkar hugmyndir hafi hins vegar aldrei verið uppi á borðum hjá aðilum.

Stefndi kveður stefnanda bera ábyrgð á því að ekki hafi verið getið um hestaeign málsaðila í fjárskiptasamningnum. Hún hafi sjálf sett samninginn upp og byggt hann á áðurgreindu tilboði sínu. Vilji hennar hvað hrossin varðaði hafi legið fyrir og hafi henni borið að sjá til þess að hann kæmi fram í samningnum.

Stefndi kveður fráleitt að halda því fram að samningur aðila hafi verið ósanngjarn eða andstæður góðri viðskiptavenju. Samningurinn hafi endurspeglað skýran og vel ígrundaðan vilja aðila, einkum og sér í lagi vilja stefnanda. Þá hafi samningurinn verið eðlilegur með hliðsjón af því hvers konar eignir voru í búinu og þeim aðstæðum sem uppi hafi verið í samfélaginu.

Engin peningaeign hafi verið til staðar í félagsbúi aðila og því hafi ekki komið til greina að jafna hugsanlegan mismun með peningagreiðslum. Þetta hafi báðum aðilum verið fullkunnugt. Fyrirtæki stefnda, H ehf., hafi ekki farið varhluta af efnahagshruninu og átt við mikinn skuldavanda að etja allt frá árinu 2008. Á árinu 2012 hafi það verið rekið með 60 milljóna króna tapi af reglulegri starfsemi. Eignir félagsins hafi farið úr tæpum fimmtíu og fimm milljónum króna árið 2011 og niður í tæpa tuttugu og eina milljón króna árið 2012. Eigið fé í árslok hafi verið rétt rúmar fimm milljónir króna, sem sé lítill afrakstur af þrjátíu ára rekstri og í raun of lág fjárhæð til að byggja rekstur byggingafélags á. Hlutafé í H ehf. hafi ekki verið söluvara og hafi stefndi ekki átt handbært fé til að kaupa það. Ekkert hefði fengist út úr því að slíta félaginu. Félagið hafi því verið verðlaust fyrir alla aðra en stefnda.

Hið sama hafi gilt um fyrirtækið E ehf. Tap ársins 2012 hafi numið tæpum fimmtán milljónum króna. Félagið hafi verið í mikilli óvissu þar sem eignir þess hafi nær eingöngu verið bundnar í íbúðum á byggingarstigi. Engin sala hafi verið á nýjum íbúðum á þessum tíma og fullkomin óvissa hafi verið um hvernig því myndi reiða af. Enginn kaupandi hafi verið að hlutafé í þessu félagi og hafi það í raun verið verðlaust.

Félögin F ehf. og G ehf. hafi aldrei verið í rekstri og sé hlutafé í þeim einskis virði.

Lausfjárstaða aðila hafi í raun verið hörmuleg á þessum tíma. Kreppa hafi verið í byggingariðnaði undanfarandi fjögur ár og ekki hafi veikindi stefnda hjálpað til. Í árslok 2013 hafi verið svo komið að stefndi hafi verið kominn í meiri skuld við félög sín vegna úttekta en heimilt hafi verið að lögum. Til að bjarga þessu hafi hann fengið lánaðar átta milljónir króna hjá stefnanda þegar hún hafi selt íbúð sína í D. Lán þetta hafi stefndi endurgreitt stefnanda í febrúar með láni sem hann hafi fengið hjá vini sínum.

Þessa aðstöðu alla hafi stefnandi að sjálfsögðu gjörþekkt. Henni hafi verið ljóst að engir lausir peningar væru til. Henni hafi einnig verið ljóst að eignunum yrði ekki auðveldlega umbreytt í peninga þar sem lítil viðskipti hafi verið með fasteignir á þessum tíma. Hafi því ekki verið um annað að ræða en að skipta eignunum. Stefnandi hafi ráðið þeirri skiptingu og hafi hún fengið það sem hún vildi í sinn hlut og stefndi fengið það sem stefnandi vildi að kæmi í hans hlut.

Hafi einhver aðstöðumunur verið á aðilum kveður stefndi að fremur hafi hallað á sig. Hann sé smiður og þótt hann hafi rekið sjálfstæða starfsemi um árabil sé hann ekki sérfróður um fjármál. Í þeim efnum styðjist hann við endurskoðanda sinn og aðra sérfræðinga á því sviði. Stefnandi hafi hins vegar um árabil séð um fjárreiður og launamál hjá stærsta fyrirtæki landsins í skipasmíði og skipaviðgerðum. Það hafi enda ekki vafist fyrir stefnanda að sjá um alla samningsgerðina við stefnda og um samskiptin við sýslumann. Fráleitt sé að halda því fram að stefndi hafi náð óeðlilegum kjörum í samningsgerðinni við stefnanda í krafti yfirburða sinna.

Stefndi hafnar því alfarið að stefnandi hafi ekki verið í aðstöðu til að gera sér grein fyrir misskiptingu eigna þegar gengið hafi verið frá fjárskiptasamningi aðila. Hún hafi vitað fullvel að verðmæti þeirra eigna sem komu í hlut stefnda væri meira en þeirra eigna sem komu í hennar hlut. Um þetta hafi aðilar rætt opinskátt allt frá því að fyrstu tillögur komu fram hjá stefnanda um skiptinguna. Málsaðilar hafi rætt þetta í áheyrn barna sinna þannig að ekki hafi farið á milli mála að full sátt var um þessa tilhögun.

Stefndi bendir á að hefði stefnandi sóst eftir því að fá verðmætari eignir út úr skiptunum hefði hún orðið að fá fasteignina að A í sinn hlut og stefndi að finna sér annað húsnæði. Sá kostur hafi að sjálfsögðu staðið stefnanda til boða og sú niðurstaða hefði í raun hentað stefnda betur en sú sem orðið hefði ofan á. Gögn málsins sýni það hins vegar að hugur stefnanda stóð ekki til þess, enda hafi hún þá þegar verið búin að festa kaup á íbúð eða í byrjun júlí 2013. B hafi ekki komið til greina í þessum efnum, enda hafi enginn kaupandi verið að þeirri eign á þessum tíma, auk þess sem rekstrarkostnaður fasteignarinnar sé umtalsverður. 

Að því sé vikið í stefnu að stefnandi hafi ekki notið aðstoðar lögfræðings við gerð fjárskiptasamningsins. Stefndi kveður þetta ekki vera rétt. Stefnandi hafi notið leiðsagnar fulltrúa sýslumanns, sem m.a. hafi bent henni á að unnt væri að endurskoða samning um skilnaðarkjör áður en gengið yrði frá lögskilnaðinum. Stefndi hafi hins vegar engrar aðstoðar notið við þessa samningagerð, hvorki lögfræðinga né annarra.  Hann hafi treyst stefnanda fullkomlega til að ganga frá málum með réttum og löglegum hætti.

Stefndi bendir á að stefnandi hafi engum athugasemdum hreyft við efni skilnaðarsamningsins fyrr en að liðnu u.þ.b. tveimur og hálfu ári frá því að efni hans var ákveðið. Það sé fráleitt að ætla að taka upp svo gamlan og löngu efndan samning á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Vel megi vera að hagur stefnda hafi eitthvað vænkast á síðustu misserum, aðallega fyrir elju hans og dugnað við að berjast fyrir afkomu fyrirtækja sinna. Það skapi fyrrverandi maka hins vegar ekki rétt til þess að fá skilnaðarsamning þeirra endurskoðaðan. Ákvæði 36. gr. samningalaganna sé ekki ætlað að ná til slíkra atvika, enda fæli það í raun í sér viðurkenningu á því að fjárfélag málsaðila sé enn við lýði eftir skilnaðinn.

Stefndi mótmælir niðurstöðu matsgerðar um markaðsverð fasteignar að B og verðmæti hrossa í hans eigu og telur matið of hátt. Aðrar eignir málsaðila hafi ekki verið metnar til verðs og sé verðmæti þeirra ósannað.

Að framansögðu sé ljóst að skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936 séu ekki uppfyllt til þess að fella megi niður eða breyta samningi aðila, sem gerður hafi verið af stefnanda á grundvelli tilboðs hennar og í raun staðfestur í tvígang fyrir sýslumanni, þ.e. fyrst við skilnað að borði og sæng og aftur þegar óskað hafi verið eftir lögskilnaði.

Hvað varðar lagarök vísar stefndi einkum til ákvæða hjúskaparlaga nr. 31/1993, einkum til 95. gr. þeirra laga. Enn fremur vísar stefndi til ákvæða 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, auk meginreglna íslensks réttar um frelsi til samninga og skuldbindingargildi samninga. Hann kveður kröfu sína um málskostnað styðjast við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

                Í máli þessu krefst stefnandi þess að fjárskiptasamningur aðila, dagsettur 5. september 2013, sem gerður var í tilefni af skilnaði þeirra að borði og sæng, verði ógiltur með dómi á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Byggir stefnandi á því að fjárskiptasamningurinn sé samkvæmt efni sínu bersýnilega ósanngjarn út frá hlutlægum mælikvarða með hliðsjón af því að rúm 80% verðmæta heildareigna málsaðila hafi við fjárskiptin komið í hlut stefnda, en aðeins 20% verðmæta í hlut stefnanda. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 47.341.000 krónu, sem sé sú fjárhæð sem upp á vanti til að eignum málsaðila verði skipt jafnt við skilnað þeirra með vísan til helmingaskiptareglu hjúskaparréttar.

                Stefndi mótmælir því að fjárskiptasamningur aðila sé ósanngjarn eða andstæður góðri viðskiptavenju. Samningurinn sé eðlilegur með hliðsjón af því um hvers konar eignir var að ræða í félagsbúi málsaðila og þeim aðstæðum sem uppi hafi verið í samfélaginu við gerð samningsins. Kveður stefndi samninginn endurspegla skýran og vel ígrundaðan vilja aðila og einkum og sér í lagi vilja stefnanda, sem hafi verið um það kunnugt að verðmæti þeirra eigna sem komu í hlut stefnda væri meira en þeirra eigna sem komu í hennar hlut.

                Eins og fram hefur komið var I, hæstaréttarlögmaður og löggiltur fasteignasali, dómkvaddur sem matsmaður í málinu að ósk stefnanda til að meta hæfilegt markaðsverð fasteignarinnar að B í Flóahreppi, annars vegar miðað við 23. maí 2016 og hins vegar miðað við 5. september 2013. Þá skyldi matsmaður leggja mat á markaðsverð nánar tilgreindra tuttugu og tveggja hrossa. Er niðurstaða matsgerðarinnar sú að líklegt söluverð fasteignarinnar, á venjulegum greiðslukjörum, með öllum þeim réttindum og gæðum sem henni fylgir og fylgja ber, hafi hinn 5. september 2013 verið á bilinu 50.000.000 – 52.000.000 króna, en hinn 23. maí 2016 á bilinu 58.000.000 – 60.000.000 króna. Markaðsverð hrossanna hafi hinn 5. september 2013 verið 11.430.000 krónur, en á þeim tíma voru fjögur af þeim tuttugu og tveimur hrossum sem tilgreind eru í matsbeiðni ekki fædd. Hinn 5. september 2016 hafi markaðsverð hrossanna hins vegar verið 14.950.000 krónur.

                Í matsgerðinni kemur fram að hinn dómkvaddi matsmaður hafi með samþykki málsaðila tilkvatt J, hrossaútflytjanda og bónda, sér til aðstoðar við matið á hrossunum. Þá segir að matið á þeim sé einkum byggt á þekkingu nefnds J á verðmæti hrossanna samkvæmt skráningu í skráningarkerfinu World-Feng og þeim upplýsingum sem þar komi fram um ætterni, kynbótamat og einkunnir í sýningum, en auk þess á almennri þekkingu matsmanns.

Hinn dómkvaddi matsmaður kom fyrir dóminn og staðfesti matsgerð sína. Þá kom áðurgreindur J fyrir dóminn og gaf skýrslu. Engar athugasemdir voru gerðar af hálfu stefnda við framkvæmd matsins eða gildi matsgerðarinnar vegna aðkomu áðurgreinds J að matsgerðinni, en fyrir liggur að hann var ekki dómkvaddur til matsstarfa í málinu. Þá hefur niðurstöðu matsgerðarinnar ekki verið hnekkt af hálfu stefnda. Ber því að leggja matsgerðina til grundvallar í málinu að því er varðar markaðsverð fasteignarinnar að B og hrossanna átján hinn 5. september 2013, þ.e. á þeim tíma er gengið var frá fjárskiptasamningi aðila.

Samkvæmt gögnum málsins hafa aðrar eignir sem voru í fjárfélagi málsaðila ekki verið metnar til verðs. Í greinargerð sinni mótmælir stefndi fullyrðingum stefnanda um verðmæti eignanna sem ósönnuðum. Um sé að ræða of háar fjárhæðir sem séu fjarri raunveruleikanum. Var þessi afstaða stefnda ítrekuð við aðalmeðferð málsins.

Ekki liggur fyrir annað verðmat á fasteignunum að A og hesthúsi að C í Hafnarfirði, en fasteignamatsverð eignanna í sameiginlegu skattframtali málsaðila árið 2013 vegna eigna og tekna á árinu 2012, sem stefndi lagði fram í málinu. Þar er fasteignamatsverð A tilgreint 59.500.000 krónur og hesthússins 5.675.000 krónur. Engin gögn hafa verið lögð fram um að fasteignin að A hafi verið að verðmæti 66.000.000 króna og hesthúsið að verðmæti 6.278.000 krónur þegar gengið var frá fjárskiptasamningi aðila í september 2013. Í ljósi framangreinds þykir því rétt að leggja til grundvallar við úrlausn málsins fasteignamatsverð eignanna samkvæmt áðurgreindu skattframtali.

Hvað varðar fasteignina að D í Kópavogi liggja fyrir í málinu tveir kaupsamningar um fasteignina á árinu 2013, annars vegar þegar stefnandi festi kaup á henni 10. júlí og hins vegar þegar stefnandi seldi fasteignina á nýjan leik 6. desember. Samkvæmt gögnum málsins keypti stefnandi fasteignina á 30.500.000 krónur, en seldi hana aftur á 31.500.000 krónur. Samkvæmt framangreindu þykir rétt að miða við að markaðsverð fasteignarinnar hafi verið 31.000.000 króna þegar gengið var frá fjárskiptasamningi málsaðila, enda verður að leggja til grundvallar að kaupsamningarnir endurspegli raunverulegt markaðsvirði íbúðarinnar á þessum tíma.

Hvað báðar bifreiðirnar varðar, þ.e. bifreið af gerðinni Land Cruiser, fastanúmer [...], sem keypt var 2008, og bifreið af gerðinni Lexus RX, fastanúmer [...], sem keypt var 2005, liggur ekki fyrir annað verðmat en það sem fram kemur í áðurgreindu sameiginlegu skattframtali málsaðila árið 2013. Þar er verðmæti Land Cruiser-bifreiðarinnar tilgreint 6.561.000 krónur, en Lexus-bifreiðarinnar 2.200.165 krónur, sem í báðum tilvikum er örlítið hærra en þau verð sem stefnandi tilgreinir í stefnu. Með hliðsjón af framangreindu þykir rétt að leggja til grundvallar að bifreiðirnar hafi a.m.k. verið að því verðmæti sem stefnandi tilgreinir í stefnu á þeim tíma sem gengið var frá fjárskiptasamningi aðila.

Hvað varðar hengivagn, [...], sem mun vera hestakerra, liggur ekki fyrir annað verðmat en það sem tilgreint er í áðurgreindu skattframtali aðila árið 2013, en þar er verðmæti hestakerrunnar tilgreint 50.000 krónur.

Engra gagna nýtur við í málinu um dráttarvélina [...] eða verðmæti hennar, en hennar er ekki getið í skattframtali aðila. Er dráttarvélin því að óvissu verðmæti.

Loks liggur ekki fyrir í málinu verðmat á einkahlutafélögunum H ehf., E ehf., G ehf. og F ehf. Byggir stefnandi á því að verðmæti félaganna hafi samanlagt verið 6.500.000 krónur og byggist sú fjárhæð á samanlögðu jákvæðu eigin fé í þremur af þessum fjórum félögum við skil ársreiknings fyrir rekstrarárið 2013, en eitt félaganna hafi verið með neikvæða eiginfjárstöðu.

Samkvæmt ársreikningum G ehf. og F ehf. fyrir árið 2013 var enginn rekstur á vegum þessara tveggja félaga það ár og fólust eignir þeirra eingöngu í bókfærðu eigin fé (hlutafé), annars vegar að fjárhæð 310.000 krónur og hins vegar að fjárhæð 321.600 krónur.

Samkvæmt ársreikningum E ehf. fyrir árin 2012 og 2013 var félagið rekið með talsverðu tapi árin 2011, 2012 og 2013, en síðastnefnda árið nam tapið 28.403.484 krónum. Samkvæmt efnahagsreikningi átti félagið eignir að fjárhæð 459.737.023 krónur, en þar var að stærstum hluta um að ræða óseldar eignir að [...]. Félagið skuldaði einnig umtalsverðar fjárhæðir, m.a. var um að ræða langtímaskuld við Landsbankann hf. að fjárhæð 447.126.136. krónur og skammtímaskuld við H ehf. að fjárhæð 28.623.590 krónur. Í ársreikningnum er tekið fram að tap hafi orðið á rekstri félagsins, en fyrsti hluti byggingarinnar að [...]fari á sölu á árinu 2014.

H ehf. var rekið með tapi upp á 690.964.329 krónur á árinu 2011, en árið 2012 nam tap félagsins 61.290.272 krónum. Það ár voru felldar niður skuldir hjá félaginu að fjárhæð 967.412.206 krónur. Á árinu 2013 var félagið rekið með hagnaði sem nam 660.536 krónum. Það ár átti H ehf. eignir að fjárhæð 40.763.693 krónur, en skammtímaskuldir voru að fjárhæð 34.891.421 króna. Í skýrslu stjórnar í ársreikningnum er tekið fram að uppgjör hafi farið fram gagnvart Landsbankanum hf.

Samkvæmt fylgiskjali 3.23 með skattframtali aðila 2013, sem bar yfirskriftina „Viðbót við auðlegðarskattstofn, endurreikningur vegna hlutabréfaeignar í árslok 2011“, var raunvirði hlutabréfa í G ehf. talið nema 347.720 krónum, í F ehf. 359.200 krónum, í E ehf. 26.252.000 krónum, en hlutabréf í H voru talin verðlaus.

Með hliðsjón af því að á árinu 2012 voru skuldir að fjárhæð tæpur einn milljarður króna afskrifaðar hjá fyrirtækinu H ehf., árið eftir var félagið rekið með hagnaði og fram hefur komið að bæði félögin H ehf. og E ehf., sem bæði eru gamalgróin byggingarfyrirtæki, eru enn í rekstri, svo og með hliðsjón af því að talsverðar eignir voru í báðum félögunum á árunum 2012 og 2013, þykir sýnt að í þeim voru falin nokkur verðmæti þegar málsaðilar gengu frá fjárskiptum sínum í byrjun september 2013. Með hliðsjón af öllu framangreindu þykir ekki óvarlegt að leggja til grundvallar að samanlagt verðmæti félaganna fjögurra hafi a.m.k. numið þeirri fjárhæð sem stefnandi miðar við í stefnu eða 6.500.000 krónum.

Málsaðilar eru sammála um að stefndi hafi tekið að sér að greiða 8.000.000 króna skuld sem hann stóð í við fyrirtækið H ehf., en taka ber tillit til þess við uppgjör aðila. Þá kom fram við aðalmeðferð málsins að stefnandi fékk í sinn hlut 5.000.000 króna á bankabók, sem ekki var getið um í fjárskiptasamningi aðila.

Loks hefur komið fram og er óumdeilt að ekki hvíldu aðrar skuldir á eignum málsaðila en 20.000.000 króna lán á fasteigninni að A og 15.000.000 króna lán á íbúðinni að D.

Að öllu þessu virtu verður að telja að verðmæti heildareigna búsins að frádregnum skuldum hafi numið eigi lægri fjárhæð en 123.675.000 krónum.

                Í hlut stefnda komu eftirfarandi eignir að frádregnum skuldum:

Fasteignin A, Hafnarfirði                                                                                  59.500.000 krónur

Fasteignin B, Flóahreppi                                                                                    51.000.000 krónur

E ehf., F ehf., G ehf., H ehf.                                                                                6.500.000 krónur

Hengivagn, fastanúmer [...]                                                                                      50.000 krónur

Land Cruiser-bifreið, fnr. [...]                                                                              6.065.000 krónur

Áhvílandi lán á A                                                                                              -20.000.000 krónur

Skuld við H ehf.                                                                                                   -8.000.000 krónur

Samtals                                                                                                                 95.115.000 krónur

 

Í hlut stefnanda komu eftirtaldar eignir að frádregnum skuldum:

Hesthús að C, Hafnarfirði                                                                                   5.675.000 krónur

Íbúð að D, Kópavogi                                                                                         31.000.000 krónur

Lexus RX-bifreið, fnr. [...]                                                                                    1.885.000 krónur

Inneign á bankabók                                                                                             5.000.000 krónur

Áhvílandi lán á D                                                                                              -15.000.000 krónur

Samtals                                                                                                                 28.560.000 krónur

 

Samtals hrein eign                                                                                            123.675.000 krónur

 

Samkvæmt þessu komu í hlut stefnanda 23% af hreinni hjúskapareign málsaðila, en í hlut stefnda 77%. Er því ljóst að verulega hallaði á stefnanda við skiptin.

Við úrlausn málsins ber að líta til þess að sambúð málsaðila varaði í 32 ár og þar af stóð hjúskapur þeirra í 30 ár. Einnig ber að líta til þess að allar eignir málsaðila mynduðust á hjúskapartímanum.

Samningur aðila um fjárskipti við skilnað að borði og sæng frá 5. september 2013 var um margt ófullkominn, en þar voru hvorki tilgreindar allar eignir og skuldir aðila né verðmæti þeirra eigna sem til skipta skyldu koma. Fram hefur komið að stefnandi naut engrar aðstoðar við gerð samningsins, en eina menntun hennar að loknu grunnskólaprófi er fjögurra mánaða nám í Viðskipta- og tölvuskólanum. Stefndi, sem er húsasmíðameistari að mennt, hefur hins vegar rekið og stýrt eigin byggingarfyrirtæki frá árinu 1986 og hafa fyrirtæki hans m.a. komið að byggingu íbúðarhúsnæðis til endursölu. Þá er óumdeilt að stefnandi hefur í gegnum tíðina ekkert komið að rekstri fyrirtækja stefnda, en fyrstu hjúskaparárin annaðist hún heimili og börn aðila, en undanfarin rúm tuttugu ár hefur hún starfað sem gjaldkeri fyrirtækis og annast innheimtu og greiðslu reikninga og launa. Samkvæmt framangreindu þykir sýnt að stefndi hafði yfirburðastöðu gagnvart stefnanda við gerð fjárskiptasamningsins vegna þekkingar sinnar á byggingarmarkaði og reynslu af sölu og verðmati fasteigna.

Stefnandi hefur borið um að stefndi hafi tjáð sér að rekstur fyrirtækjanna H ehf. og E ehf. væri erfiður og a.m.k. annað fyrirtækið væri „í gjörgæslu“ hjá bankanum. Til þess að halda áfram rekstri þeirra og fá fyrirgreiðslu í bönkum yrði hann að hafa á bak við sig veðbandalausar eða veðbandalitlar eignir þar sem ella væri hætta á að bankinn setti fyrirtækin í þrot. Færu fyrirtækin í þrot yrði stöðugleika fjölskyldunnar ógnað, en fram hefur komið að sameiginleg börn málsaðila störfuðu í fyrirtækjum stefnda. Einnig hafi stefndi haldið því fram að vegna ástandsins á fasteignamarkaði myndi lítið fást fyrir fasteignir málsaðila og því væri ekki rétt að selja þær.

Fram hefur komið að við gerð fjárskiptasamningsins og þá sérstaklega í aðdraganda hans var uppi mikil óvissa um afdrif fyrirtækjanna H ehf. og E ehf. vegna skuldavanda þeirra og samdráttar á byggingarmarkaði í kjölfar efnahagshrunsins. Talsvert virðist þó hafa dregið úr þeirri óvissu með umtalsverðri niðurfellingu skulda hjá H ehf. á árinu 2012 eða ári áður en gengið var frá skilnaði aðila, en eins og áður greinir var fyrirtækið rekið með hagnaði á árinu 2013. Mikill viðsnúningur hafði því orðið í rekstri fyrirtækisins um það leyti er gengið var frá fjárskiptum aðila.

Eins og að framan greinir hafði stefnandi ekki sömu yfirsýn yfir rekstur og stöðu fyrirtækja aðila og stefndi hafði og þar með ekki næga yfirsýn yfir fjármál aðila. Eins og áður greinir naut hún engrar aðstoðar við gerð fjárskiptasamningsins. Var því ekki fullt jafnræði með aðilum við samningsgerðina.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður að fallast á það með stefnanda að fjárskiptasamningur aðila, dagsettur 5. september 2013, sé samkvæmt efni sínu og aðdraganda ósanngjarn í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Ber af þessum sökum að fella fjárskiptasamning aðila úr gildi.

Eins og áður greinir nam hrein eign í búi aðila eigi lægri fjárhæð en 123.675.000 krónum. Samkvæmt helmingaskiptareglu hjúskaparréttar bar stefnanda að fá í sinn hlut 61.837.500 krónur, en þar af hafa eignir að verðmæti 28.560.000 krónur þegar runnið til hennar. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda mismuninn eða 33.277.500 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

                Með hliðsjón af málsúrslitum er stefnda gert að greiða stefnanda 2.000.000 króna í málskostnað. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

                Samningur stefnanda, K, og stefnda, M, frá 5. september 2013 um fjárskipti vegna skilnaðar þeirra er felldur úr gildi.

Stefndi greiði stefnanda 33.277.500 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. febrúar 2016 til greiðsludags.

                Stefndi greiði stefnanda 2.000.000 króna í málskostnað.