Hæstiréttur íslands

Mál nr. 432/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsal sakamanns


Miðvikudaginn 20. júní 2012.

Nr. 432/2012.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

Kærumál. Framsal sakamanns

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem ákvörðun innanríkisráðherra um framsal X til Póllands var staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Garðar Gíslason hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júní 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2012, þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðherra 11. apríl sama ár um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2012.

Með bréfi ríkissaksóknara, dagsettu 22. maí 2012, var vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur kröfu X, kt. [...], um úrskurð um hvort skilyrði laga um framsal séu fyrir hendi vegna ákvörðunar innanríkisráðuneytisins um framsal, sbr. 14. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984 og 1. mgr. 2. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Af hálfu sóknaraðila er krafist staðfestingar ákvörðunar innanríkisráðuneytisins frá 11. apríl 2012 um að framselja varnaraðila til Póllands.

Af hálfu varnaraðila er þess krafist að ákvörðun innanríkisráðuneytisins verði felld úr gildi. Þá krefst réttargæslumaður þóknunar sér til handa, sem greiðist úr ríkissjóði.

Hinn 20. september 2011 barst innanríkisráðuneytinu beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila, sem er pólskur ríkisborgari, til fullnustu þriggja refsidóma Héraðsdómsins í Kętrzyn. Með dómi 6. febrúar 2007 var varnaraðili sakfelldur fyrir meiriháttar líkamsárás og dæmdur til að sæta samfélagsþjónustu í 12 mánuði. Með ákvörðun dómsins 10. júlí 2008 var ákærða gert að sæta 5 mánaða og 15 daga fangelsisrefsingu vegna rofs á samfélagsþjónustu samkvæmt dóminum frá í febrúar 2007. Með dómi frá 9. nóvember 2006 var varnaraðili sakfelldur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og dæmdur til að sæta fangelsi í 15 mánuði, skilorðsbundið í 5 ár. Þá var varnaraðili 27. júní 2007 sakfelldur fyrir fjársvik og dæmdur til 10 mánaða fangelsisrefsingar, skilorðsbundið í 4 ár. Með ákvörðun 28. apríl 2009 var kveðið á um að varnaraðili skyldi afplána fangelsisrefsingu samkvæmt síðastgreindum refsidómum vegna skilorðsrofs, þar sem hann hefði horfið af landi brott og ekki sinnt skilorðseftirliti.

Varnaraðila var kynnt framsalsbeiðnin hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 2. nóvember 2011. Hann kannaðist við að framsalsbeiðnin ætti við hann en kvaðst mótmæla henni. Ríkissaksóknari sendi innanríkisráðuneytinu umsögn, dagsetta 19. desember 2011, þar sem kom fram að skilyrði framsals teldust uppfyllt, sbr. einkum 1. og 3. mgr. 3.gr. og 9. gr. laga nr. 13/1984, en tekið var fram í umsögninni að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefði til meðferðar nokkur mál vegna meintra brota ákærða. Gaf lögreglustjórinn síðan út ákæru á hendur ákærða, sem var 10. janúar 2012 dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir hegningarlaga-, umferðar- og fíkniefnalagabrot. Hinn 11. apríl 2012 féllst innanríkisráðuneytið á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila. Í ákvörðuninni var tekið fram að aðstæður þættu ekki vera þannig að réttmætt væri að synja um framsal á grundvelli 7. gr. laga nr. 13/1984. Ákvörðun ráðuneytisins var kynnt varnaraðila 13. apríl sl. og krafðist hann samdægurs úrskurðar héraðsdóms um hvort skilyrði laga um framsal væru fyrir hendi. 

Varnaraðili bendir á að hann hafi komið hingað til lands í atvinnuleit 21. maí 2008, en faðir hans hafi verið búsettur hérlendis undanfarin 9 ár. Hann hafi starfað hjá sama atvinnurekanda í tvö ár, en þá verið sagt upp störfum og verið atvinnulaus í rúmt ár. Hann starfi nú hjá fyrirtæki í matvælaiðnaði. Pólsk unnusta varnaraðila sé einnig búsett hér á landi. Varnaraðili kannist við að hafa hlotið þá refsidóma sem í framsalsbeiðni greinir, en það hafi ekki verið ætlun hans að rjúfa skilorð samkvæmt þeim. Pólsk dómsmálayfirvöld hafi vitað, eða mátt vita um flutning hans til Íslands, enda hafi hann verið í sambandi við skilorðseftirlitsmann eftir að hann kom hingað til lands. Hagsmuni pólskra dómsmálayfirvalda af því að fá varnaraðila framseldan verði að bera saman við hagsmuni hans, sem hafi verið búsettur hér á landi í rúm fjögur ár og stundað hér vinnu. Þá eigi varnaraðili pólska unnustu sem sé búsett hér á landi. Loks kemur fram í greinargerð varnaraðila að hann hafi ekki komist í kast við lögin síðastliðin tæp tvö ár. Varnaraðili bendir á að framsal myndi raska aðstæðum hans allverulega og telur það hljóta að vega þyngra en hagsmuni pólskra yfirvalda af því að fá hann framseldan. Samkvæmt því, og með vísan til 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, beri að hafna framkominni framsalskröfu.

Við flutning málsins fyrir dómi 14. júní sl. kom fram hjá sækjanda að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefði til meðferðar nokkur mál vegna meintra umferðar- og fíkniefnalagabrota varnaraðila. Málið var endurupptekið 15. júní sl. og lagði sækjandi þá fram gögn um stöðu þeirra mála. Jafnframt var bókað eftir sækjanda að ekki hefði verið gefin út ákæra á hendur varnaraðila vegna mála sem lögreglustjóri hefur til meðferðar.

Niðurstaða

Krafist hefur verið framsals varnaraðila, sem er pólskur ríkisborgari, til fullnustu fangelsisrefsingar, samtals 30 mánaða og 15 daga, samkvæmt þremur refsidómum vegna brota gegn pólskum hegningarlögum. Brot þau sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir myndu varða hann refsingu samkvæmt 1. mgr. 218. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Brot samkvæmt þessum ákvæðum geta varðað fangelsi í meira en eitt ár. Því er fullnægt skilyrðum 1. mgr. og 1. töluliðar 3. mgr. 3. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984. Samkvæmt 1. og 2. töluliðum 1. mgr. 83. gr. almennra hegningarlaga myndi dæmd refsing ekki vera fyrnd. Er því jafnframt fullnægt skilyrðum 1. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1984. Þá hefur ekki verið gefin út ákæra á hendur varnaraðila vegna mála sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur til meðferðar og varða meint umferðar- og fíkniefnalagabrot hans. Stendur 1. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1984 því ekki í vegi fyrir framsali, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 6. mars 2009 í málinu nr. 63/2009. Framsalsbeiðnin hefur verið borin fram með tilskyldum hætti og er hún studd viðhlítandi gögnum, sbr. 12. gr. laga nr. 13/1984. Þá hefur verið gætt lögbundinna stjórnsýslureglna við meðferð málsins og mat á því að almenn lagaskilyrði framsals séu fyrir hendi.

Innanríkisráðuneytið hefur í ákvörðun sinni frá 11. apríl 2012 fjallað um undanþáguákvæði 7. gr. laga nr. 13/1984. Jafnframt hefur ráðuneytið metið annars vegar hagsmuni pólskra dómsmálayfirvalda af því að fá varnaraðila framseldan og hins vegar hagsmuni varnaraðila af því að synjað verði um framsal, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður ekki annað séð en að mat ráðuneytisins hafi farið fram með réttum og málefnalegum hætti. Eru ekki efni til að því mati verði hnekkt í málinu.

Samkvæmt framansögðu teljast uppfyllt skilyrði fyrir framsali varnaraðila. Verður því staðfest ákvörðun um framsal hans til Póllands.

Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist þóknun skipaðs réttargæslumanns úr ríkissjóði og þykir hún hæfilega ákveðin 251.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun innanríkisráðherra frá 11. apríl 2012 um að framselja varnaraðila, X, til Póllands, er staðfest.

Þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 251.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.