Hæstiréttur íslands
Mál nr. 325/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbú
- Opinber skipti
- Útivist
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Þriðjudaginn 3. september 2002. |
|
Nr. 325/2002. |
Þórhildur Jónasdóttir(Pétur Þór Sigurðsson hrl.) gegn Gunnlaugi Jónassyni (Svala Thorlacius hrl.) |
Kærumál. Dánarbú. Opinber skipti. Útivist. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Að kröfu G kvað héraðsdómari upp úrskurð um að bú foreldra hans, L og J, væri tekið til opinberra skipta. Þ, dóttir L og J, sótti ekki þing þegar málið var tekið fyrir í héraði. Brast hana því heimild til kæru þess og var málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. júlí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2002, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að dánarbú Lilju Gunnlaugsdóttur og Jónasar Sigurðssonar yrði tekið til opinberra skipta, en um úrskurðinn kveður sóknaraðili sér fyrst hafa orðið kunnugt 26. sama mánaðar. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Hún krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað.
Samkvæmt gögnum málsins lagði varnaraðili 16. maí 2002 kröfu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur um að dánarbú Lilju Gunnlaugsdóttur og Jónasar Sigurðssonar, foreldra málsaðila, yrði tekið til opinberra skipta. Héraðsdómari tók þessa kröfu fyrir á dómþingi 7. júní 2002. Var þá sótt þing af hálfu varnaraðila, en að því er varðar aðra þá, sem hlut áttu að máli, færði héraðsdómari eftirfarandi í þingbók: „Tilraun var gerð til að boða Þórhildi Jónasdóttur og Oddnýju Jónasdóttur til þessa þinghalds. Ekki tókst að birta Oddnýju fyrirkall en óupplýst er hvort tókst að birta Þórhildi fyrirkall.“ Að kröfu varnaraðila var krafa hans um opinber skipti tekin þá þegar til úrskurðar, en fallist var sem fyrr segir á hana með hinum kærða úrskurði.
Samkvæmt framangreindu sótti sóknaraðili ekki þing þegar mál þetta var tekið fyrir í héraði og lagt þar í úrskurð. Úr því sem komið var átti hún til endurskoðunar á hinum kærða úrskurði þann eina kost að leita eftir endurupptöku málsins fyrir héraðsdómi eftir ákvæðum XXIII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem beita verður hér samkvæmt 2. mgr. 131. gr. og lokamálslið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar, sem birtur er í dómasafni 1992, bls. 2028. Brestur sóknaraðila því heimild hér til kæru, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991, og verður málinu af þeim sökum vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júní 2002
Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 7. þ.m. og tekið til úrskurðar sama dag.
Gunnlaugur Jónasson, kt. 021050-2889, Finnjollegatan 10, Västra Frölunda, Svíþjóð, krefst þess að dánar- og félagsbú foreldra hans, Lilju Gunnlaugsdóttur og Jónasar Sigurðssonar,verði tekið til opinberra skipta. Lilja andaðist 23. febrúar 2002 en Jónas 26. maí 1973. Lögerfingjar auk Gunnlaugs eru Þórhildur Jónasdóttir, Neshömrum 10, Reykjavík, og Oddný Jónasdóttir Hólmgarði 53, Reykjavík, en Oddný er ekki dóttir Lilju. Samkvæmt skattframtali Lilju 2001 eru eignir búsins íbúð að Sólheimum 23 í Reykjavík og bankainnistæða að fjárhæð 3.485.889 kr. en skuldir engar.
Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. skal dánarbú tekið til opinberra skipta ef erfingi krefst þess, hafi skiptum ekki verið lokið skv. 25.-27. gr. sömu laga. Verður dánar-og félagsbú Lilju Gunnlaugsdóttur og Jónasar Sigurðssonar því tekið til opinberra skipta svo sem krafist er.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Dánar-og félagsbú Lilju Gunnlaugsdóttur og Jónasar Sigurðssonar er tekið til opinberra skipta
Steinunn Guðbjartsdóttir hdl. er skipuð skiptastjóri