Hæstiréttur íslands
Mál nr. 755/2012
Lykilorð
- Fjársvik
- Upptaka
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 19. september 2013. |
|
Nr. 755/2012.
|
Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) gegn X og Y ehf. (Ólafur Eiríksson hrl. Sveinn Jónatansson hdl.) (Brynjar Níelsson hrl. f.h. einkaréttarkröfuhafa) |
Fjársvik. Upptaka. Skaðabætur.
X var sakfelldur fyrir fjársvik með því að hafa sem stjórnarmaður A ehf. blekkt bankana A hf., G hf. og Í hf., veðhafa tiltekinnar fasteignar í eigu félagsins, til þess að fallast á, með tveimur sameiginlegum yfirlýsingum dagsettum 16. og 21. desember 2009, að aflétta af fasteigninni áhvílandi veðum gegn greiðslu á 575.000 krónum upp í fjárkröfur bankanna á hendur A ehf. Háttsemi X fólst í því að kynna fyrir bönkunum samþykkt kauptilboð C INC fyrir hönd D ehf. (síðar Y ehf.) í fasteignina að fjárhæð 575.000.000 krónur þótt honum hefði verið kunnugt um fyrirhugaða samningsgerð við E fyrir fjárhæð sem var að jafnvirði 854.840.000 krónur. Hefði hann ekki upplýst bankana um sölu A ehf. á fasteigninni til D ehf. sem átti sér stað áður en framangreindar yfirlýsingar voru gerðar af hálfu bankana. Yfirlýsingarnar, þar sem vísað var í samþykkt kauptilboð C INC fyrir hönd D ehf., hefði X undirritað fyrir hönd A ehf. Kaupsamningur E við D ehf., sem þá var komið í eigu X o.fl., var undirritaður 17. desember 2009 auk þess sem þá var gefið út afsal fyrir fasteigninni til E. Af söluandvirði fasteignarinnar fengu bankarnir þrír greidda þá fjárhæð, upp í skuldir A ehf., sem getið var um í yfirlýsingum þeirra frá 16. og 21. desember, en annar hluti fjárins rann m.a. inn á bankareikning í eigu D ehf. Taldi Hæstiréttur að ráðstafanir X hefðu verið gerðar til þess að vekja og hagnýta á ólögmætan hátt villu bankanna um atvik í því skyni að hafa af þeim fé. Var refsing X ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði auk þess sem honum var gert að greiða bönkunum skaðabætur. Þá var Y ehf. var gert að sæta upptöku á tiltekinni fjárhæð sem var ávinningur af broti X.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. desember 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða X verði þyngd.
Ákærði X krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og að skaðabótakröfum verði vísað frá héraðsdómi.
Ákærði Y ehf., áður D ehf., krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu ákæruvaldsins um upptöku fjármuna, en til vara að fjárhæð þeirra verði lækkuð.
Arion banki hf., Íslandsbanki hf. og Glitnir hf. krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms um bótakröfur sínar og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Er atvik máls gerðust var A ehf., áður B ehf., í verulegum fjárhagsvandræðum og var félagið í vanskilum við þá banka sem nefndir eru í ákæru. Ákærði X hafði heimild til að skuldbinda félagið en hann var á þessum tíma eini stjórnarmaður þess. Áðurnefndir bankar áttu veð í fasteign félagsins að [...], Reykjavík, til tryggingar skuldum sem voru verulega umfram líklegt söluverðmæti hennar á markaði. Einnig hafði verið þinglýst kvöð á fasteignina um að félagið mætti hvorki selja né veðsetja hana án skriflegs leyfis Arion banka hf. sem var viðskiptabanki félagsins og hafði jafnframt handveð í bankareikningi þess. Í hinum áfrýjaða dómi er lýst því samningsferli sem félagið var í hjá bönkunum vegna erfiðrar fjárhagsstöðu og var liður í því að koma þessari fasteign félagsins í verð. Eins og málum var háttað hvíldi rík skylda á ákærða X til að upplýsa veðhafana um atriði er lutu að fyrirhugaðri sölu fasteignarinnar að [...].
Í hinum áfrýjaða dómi eru ítarlega rakin samskipti ákærða X við framangreinda banka, fasteignasala og lögmenn um úrlausn mála A ehf. sem leiddu til þess að framangreindir bankar léttu veðum sínum af fasteigninni að [...]. Eins og þar kemur fram er sannað að ákærði X hafði eigi síðar en í lok nóvember 2009 fulla vitneskju um að líklegt væri að unnt yrði að selja E fasteignina fyrir mun hærra verð en bönkunum hafði verið kynnt að fengist fyrir hana, en drög að slíkum samningi voru send dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu til samþykktar 30. nóvember 2009. Ákærði X upplýsti bankana á hinn bóginn aldrei um þennan væntanlega samning. Þá upplýsti hann ekki um kaup D ehf. á fasteigninni 11. desember 2009 fyrir sama verð og haldið var að bönkunum samkvæmt tilboði 14. desember 2009 frá C LLC, sem sagt var gert fyrir hönd D ehf. og áritað var af ákærða X um samþykki fyrir hönd ónafngreinds seljanda. Auk alls þessa ritaði ákærði X fyrir hönd A ehf. undir yfirlýsingar 16. desember og aftur 21. desember 2009 þar sem vísað var í samþykkt kauptilboð 14. desember sama ár í stað þess að tilgreina fyrirhugaða samningsgerð við E. Kaupsamningur E við D ehf. var svo undirritaður 17. desember 2009. Samkvæmt samningum var kaupverðið innt af hendi til D ehf. þann dag, jafnframt því sem þá var gefið út afsal fyrir fasteigninni til E sem móttekið var til þinglýsingar 20. desember 2009. Höfðu ákærði X og faðir hans á hinn bóginn á þeim tíma eignast einkahlutafélagið D, og breyttu þeir nafni þess í Y ehf.
Að þessu öllu sérstaklega gættu verður með vísan til forsendna héraðsdóms fallist á að framangreindar ráðstafanir ákærða X hafi verið gerðar til þess að vekja og hagnýta á ólögmætan hátt villu bankanna þriggja um atvik í því skyni að hafa af þeim fé. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur um sakfellingu ákærða X.
Með hliðsjón af þeim röksemdum sem fram koma í héraðsdómi verður refsing ákærða ákveðin fangelsi tvö ár og sex mánuðir.
Samkvæmt 3. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og hún var er brot það sem greinir í ákæru var framið og áður en lög nr. 149/2009 tóku gildi, verður fallist á kröfu ákæruvaldsins um að ákærði Y ehf. sæti upptöku á 96.931.458 krónum með áföllnum vöxtum frá 1. janúar 2012 á þá fjárhæð á bankareikningi nr. [...]-[...]-[...]04 hjá MP banka hf. Skal hið upptæka fé renna í ríkissjóð.
Ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfur og málskostnað vegna þeirra sem og um sakarkostnað verða staðfest.
Ákærði X verður dæmdur til að greiða hverjum bótakrefjenda um sig 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Ákærðu verða dæmdir til að greiða allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði X sæti fangelsi í tvö ár og sex mánuði.
Ákærði Y ehf. sæti upptöku í ríkissjóð á 96.931.458 krónum auk áfallinna vaxta á þá fjárhæð frá 1. janúar 2012 á bankareikningi nr. [...]-[...]-[...]04 hjá MP banka hf.
Ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfur og málskostnað vegna þeirra skulu vera óröskuð.
Ákærði X greiði Arion banka hf., Glitni hf. og Íslandsbanka hf. hverjum um sig 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærðu greiði óskipt allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti, samtals 1.665.051 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra, Ólafs Eiríkssonar hæstaréttarlögmanns, 1.506.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 23. október 2012, er höfðað með ákæru, útgefinni af sérstökum saksóknara 16. apríl 2012, á hendur X, kt. [...], [...] í [...], og Y ehf., kt. [...] (fyrirsvarsmaður: ákærði X), [...] í [...].
I.
Á hendur ákærða X fyrir fjársvik, en til vara fyrir skilasvik, með því að hafa sem stjórnarmaður A ehf., kt. [...], blekkt Arion banka hf., Glitni banka hf. og Íslandsbanka hf., veðhafa fasteignar félagsins að [...] í Reykjavík, til þess að fallast með sameiginlegum, skriflegum yfirlýsingum, dagsettum 16. og 21. desember 2009, á að létta af fasteigninni áhvílandi veðum bankanna á fyrsta veðrétti gegn greiðslu samtals 575.000.000 króna upp í fjárkröfur bankanna á hendur A ehf. Veðréttindin voru samkvæmt fjórum tryggingarbréfum sem hvíldu samhliða á fyrsta veðrétti fasteignarinnar, tveimur í eigu Arion banka hf. en tveimur í eigu Glitnis banka hf. og Íslandsbanka hf., að höfuðstólsfjárhæð 246.000.000 króna hvert eða samtals 984.000.000 króna, öllum útgefnum af B ehf. 3. október 2008 en nafni þess félags var síðar breytt í A ehf. Bréfin stóðu til tryggingar meðal annars höfuðstóli og dráttarvöxtum fjárkrafna bankanna á hendur A ehf. samkvæmt rafræna skuldabréfaflokknum KIRK 07 11 sem voru samtals að nafnverði 685.000.000 krónur og voru allar í vanskilum frá gjalddaga 28. apríl 2009.
Blekkingar ákærða fólust í að vekja og hagnýta sér rangar hugmyndir hjá starfsmönnum bankanna annars vegar um verðmæti fasteignarinnar að [...] og hins vegar eignarhald hennar.
Áður en bankarnir gáfu fyrri yfirlýsingu sína 16. desember 2009 hélt ákærði að starfsmönnum þeirra kauptilboði í fasteignina að fjárhæð 575.000.000 krónur frá félaginu C LLC fyrir hönd félagsins D ehf., dagsett 14. desember 2009, sem hann hafði samþykkt með undirritun fyrir hönd ónafngreinds seljanda, og byggði greiðsla samkvæmt yfirlýsingunni á fjárhæð tilboðsins. Ákærði leyndi þá því að hann hafði þá þegar, eða 11. desember 2009, afsalað fasteigninni fyrir hönd A ehf. til félagsins D ehf., kt. [...], sem var tilboðsgjafi samkvæmt áðurnefndu tilboði. Afsalið var afhent til þinglýsingar samdægurs en þinglýst 14. desember 2009 eða sama dag og tilboð C fyrir hönd D ehf. var dagsett. Tilboðið var því markleysa og hlaut ákærða að vera það kunnugt þegar bankarnir byggðu á því í yfirlýsingu sinni. Því til viðbótar undirritaði ákærði framangreint afsal á fasteigninni, dags. 11. desember 2009, án vitundar og þar með án leyfis Arion banka hf. þrátt fyrir að á henni hvíldi þinglýst kvöð, dagsett 10. september 2008, sem skuldbatt A ehf. gagnvart Arion banka hf., áður Kaupþing banka hf., til að selja hvorki né veðsetja fasteignina nema því aðeins að fyrir lægi skriflegt leyfi bankans.
Í aðdraganda yfirlýsingar bankanna 16. desember 2009 leyndi ákærði starfsmenn þeirra einnig því að honum var kunnugt, í síðasta lagi frá byrjun desember 2009, að E vildi kaupa fasteignina að [...] og að ráðgert söluverð fasteignarinnar væri 7.000.000 Bandaríkjadala, sem jafngiltu 854.840.000 króna á skráðu sölugengi Seðlabanka Íslands fyrir Bandaríkjadal þann 1. desember 2009. Í lok nóvember 2009 lá fyrir nær fullgert uppkast fasteignasala að slíkum samningi.
Hinn 16. desember 2009, eða sama dag og bankarnir gáfu fyrri yfirlýsingu sína um afléttingu veðanna af fasteigninni, eignaðist ákærði ásamt föður sínum félagið D ehf., þinglýstan eiganda fasteignarinnar samkvæmt afsalinu 11. desember. Bönkunum var eftir sem áður ókunnugt um eignarhald D ehf. á fasteigninni sem og þá staðreynd að feðgarnir hefðu eignast það félag. Næsta dag, 17. desember 2009, seldi og afsalaði ákærði loks fasteigninni að [...], fyrir hönd D ehf., til E fyrir 7.000.000 Bandaríkjadala, sem jafngiltu 878.639.503 krónum við skiptingu söluandvirðisins í íslenskar krónur.
Hinn 21. desember 2009 rann út gildistími fyrri yfirlýsingar bankanna um afléttingu veða sinna en þá hafði orðið töf á því að efna mætti kaupsamninginn við E og þar með að ákærði fengi í hendur söluandvirði samkvæmt honum til að geta með hluta þess staðið skil á greiðslu til bankanna samkvæmt yfirlýsingunni. Ákærði beitti sér þá fyrir því að fá starfsmenn bankanna til að gefa að nýju sameiginlega yfirlýsingu um afléttingu veða af eigninni, dagsetta 21. desember 2009 og samhljóða hinni fyrri nema að viðbættu dráttarvaxtaákvæði, aftur með vísan til hins marklausa tilboðs C LLC fyrir hönd D ehf., dagsett 14. desember 2009, og án þess að þeir væru þá upplýstir um þinglýst afsal fasteignarinnar frá A ehf. yfir til D ehf. eða að ákærði hefði ásamt föður sínum eignast síðarnefnda félagið og fyrir hönd þess selt og afsalað E fasteigninni 17. desember 2009 fyrir það verð sem framar greinir.
Af söluandvirði fasteignarinnar runnu 28. desember 2009, fyrir milligöngu fasteignasölu sem annaðist sölu hennar, 114.723.500 krónur inn á bankareikning í eigu félags ákærða D ehf. Síðastnefnd fjárhæð var ávinningur af broti ákærða og jafnframt að lágmarki það tjón sem bankarnir biðu af brotinu en af söluandvirði fasteignarinnar runnu sama dag til þeirra samtals 577.300.000 krónur upp í framangreindar fjárkröfur þeirra á hendur A ehf. Framangreindum tryggingabréfum Arion banka hf. var aflýst af fasteigninni að [...] hinn 30. desember 2009 en tryggingabréfum Glitnis banka hf. og Íslandsbanka hf. hinn 5. janúar 2010 og höfðu bankarnir þá enn enga vitneskju um sölu fasteignarinnar til E 17. desember 2009. Eftirstöðvar af fjárkröfum bankanna á hendur A ehf. samkvæmt skuldabréfaflokknum KIRK 07 11 stóðu óveðtryggðar eftir afléttingu veðanna og eru ógreiddar, með dráttarvöxtum og kostnaði, en bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 25. janúar 2011.
Með framangreindri háttsemi ákærða gerðist hann sekur um fjársvik með því að hafa af Arion banka hf., Glitni banka hf. og Íslandsbanka hf. að lágmarki 114.723.500 krónur af verðmæti fasteignarinnar að [...] samkvæmt söluandvirði kaupsamnings um hana frá 17. desember 2009, en, til vara, um skilasvik með því að afsala fyrir hönd A ehf. til D ehf. fasteigninni að [...], án samþykkis Arion banka hf., þrátt fyrir kvöð um að óheimilt væri að selja eða veðsetja fasteignina nema því aðeins að fyrir lægi skriflegt samþykki bankans, með þeim hætti að ekki varð samrýmt réttindum bankans en eignin var veðsett honum til tryggingar skuldbindingum félagsins.
Framangreind háttsemi ákærða varðar við ákvæði 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en til vara við ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 250. gr. sömu laga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
II.
Á hendur Y ehf., kt. [...], sem áður hét D ehf., til þess að sæta upptöku ávinnings af broti ákærða X samkvæmt ákæru en nafni félagsins var þannig breytt 16. desember 2009.
Með vísan til 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er þess krafist að Y ehf. verði gert að sæta upptöku á 96.931.458 krónum sem eru haldlagðar á bankareikningi embættis sérstaks saksóknara hjá MP Banka hf. nr. [...]-[...]-[...]04 en sú fjárhæð er ávöxtuð staða 30. desember 2011 á fjárhæðinni 92.150.336 krónum sem ríkislögreglustjóri haldlagði af bankareikningi Y ehf. nr. [...]-[...]-[...]03 hjá MP Banka hf. þann 15. janúar 2010.
Upptökukrafan tekur einnig til áfallinna og áfallandi vaxta og verðbóta af framangreindri fjárhæð frá 30. desember 2011 og til upptökudags.
III.
Brotaþolar gera eftirfarandi bótakröfur:
Arion banki hf. krefst skaðabóta að fjárhæð 64.323.376 krónur úr hendi ákærða X auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. desember 2009 til greiðsludags, auk málskostnaðar.
Íslandsbanki hf. krefst skaðabóta að fjárhæð 41.748.312 krónur úr hendi ákærða X auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. desember 2009 til greiðsludags, auk málskostnaðar.
Glitnir banki hf. krefst skaðabóta að fjárhæð 48.551.779 krónur úr hendi ákærða X dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. desember 2009 til greiðsludags, auk málskostnaðar.
Af hálfu ákærðu, X og Y ehf., er krafist sýknu af öllum kröfum ákæruvalds og að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun verjanda ákærðu.
Þá er þess krafist af hálfu Y ehf. að hafnað verði kröfum um upptöku fjármuna, hvort sem fallist verður á kröfu um sýknu af refsikröfu eða ekki. Verði fallist á kröfu um upptöku fjármuna er þess krafist til vara að ákveðið verði með dómi að upptækum verðmætum verði ráðstafað til greiðslu á skaðabótakröfum sem kunna að verða viðurkenndar vegna þeirrar háttsemi sem ákært er fyrir.
Loks er þess krafist af hálfu ákærða X aðallega að skaðabótakröfum verði vísað frá dómi, en til vara að ákærði verði sýknaður af kröfum um skaðabætur. Til þrautavara er þess krafist að bótakröfur verði lækkaðar verulega.
Málavextir
Með bréfi, dagsettu 13. janúar 2010, barst efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra kæra lögmanns Arion Banka hf., Glitnis banka hf. og Íslandsbanka hf., á hendur forsvarsmönnum einkahlutafélagsins A, vegna meintra fjársvika. Í kæru kemur fram að kærðu hafi blekkt bankastofnanirnar til að létta veðkröfum af fasteigninni [...] í Reykjavík, á grundvelli málamyndakaupsamnings, sem hafi kveðið á um talsvert lægra söluverð en raunverulegur kaupsamningur. Hafi kærðu með þessu valdið kærendum tjóni, sem nemi um 300 milljónum króna, að því er í kæru segir, og auðgast að sama skapi um þá fjárhæð. Málsatvikum er ítarlega lýst í kæru, og samrýmist sú lýsing í meginatriðum verknaðarlýsingu í ákæru. Hinn 19. janúar 2010 fór fram leit á starfsstöð ákærða X og föður hans, F, á lögfræðiskrifstofu G héraðsdómslögmanns, fasteignasölunni H við [...] og fleiri stöðum. Jafnframt var ráðist í ítarlega gagnaöflun hjá bankastofnunum og lagt hald á innstæðu ákærðu Y ehf. á reikningi hjá MP banka hf. Ákærði X var yfirheyrður af lögreglu 19. janúar 2010 og 12. apríl 2012 og neitaði hann alfarið sök.
Samkvæmt gögnum málsins var ákærði eini stjórnarmaður eignarhaldsfélagsins A ehf., áður B ehf., og hafði heimild til að skuldbinda félagið. Meðal eigna félagsins var fasteignin að [...], með áhvílandi veðum á fyrsta veðrétti samkvæmt fjórum tryggingarbréfum, tveimur í eigu Arion banka hf., en tveimur í eigu Glitnis banka hf. og Íslandsbanka hf., að höfuðstólsfjárhæð 246.000.000 króna hvert. Þá liggur fyrir að Kaupþing banki hf. hafði 12. september 2008 fengið þinglýst kvöð á eignina, en með henni var B ehf. skuldbundinn til að selja hvorki né veðsetja fasteignina nema með skriflegu samþykki bankans.
Meðal gagna málsins eru tvö kauptilboð vegna fasteignarinnar, rituð á ensku, dagsett 2. og 14. desember 2009, hið fyrra af hálfu C LLC fyrir hönd „a [...] (private limited company EHF)“, en hið síðara af hálfu sama félags fyrir hönd „D ehf. (private limited company)“. Eru kauptilboðin undirrituð af I fyrir hönd tilboðsgjafa og samþykkt af hálfu tilboðshafa með undirritun ákærða. Í fyrra tilboðinu er kaupverð eignarinnar tilgreint 550.000.000 króna, en 575.000.000 króna í hinu síðara. Í tilkynningu til hlutafélagaskrár, dagsettri 17. mars 2009, um stofnun félagsins D ehf., kemur fram að G hafi verið formaður stjórnar þess, en J varastjórnarmaður. Þá liggur fyrir afsal, dagsett 11. desember 2009, sem þinglýst var 14. sama mánaðar, þar sem kemur fram að eignarhaldsfélagið A ehf. afsali fasteigninni að [...] til D ehf. Kemur fram að hinu selda sé afsalað með veðböndum, en fyrir liggi yfirlýsing veðhafa um afléttingu veðbanda gegn umsaminni greiðslu til veðhafa hinn 21. desember 2009. Þá kemur fram að veðbókarvottorð, dagsett sama dag, hafi legið frammi við afsalsgerðina. Afsalið er undirritað af ákærða fyrir hönd A ehf., en af J fyrir hönd D ehf. Með tveimur tilkynningum til hlutafélagaskrár, dagsettum 16. desember 2009, um breytingu á stjórn félagsins D ehf., framkvæmdastjórn og prókúru, var upplýst að ákærði væri nú stjórnarmaður og prókúruhafi félagsins, en faðir hans varastjórnarmaður. Jafnframt var felld niður prókúra sem G hafði haft vegna félagsins. Í tilkynningu til hlutafélagaskrár, dagsettri 30. desember 2009, undirritaðri af ákærða, kemur fram að samþykkt hafi verið á hluthafafundi í D ehf. hinn 16. sama mánaðar að breyta nafni félagsins í Y ehf.
Í málinu liggur fyrir yfirlýsing forsvarsmanna Arion banka hf., Íslandsbanka hf. og Glitnis banka hf., dagsett 16. desember 2009, þar sem kemur fram að fallist sé á að aflétta fyrrgreindum veðum af fasteigninni að [...] þegar fjárhæðin 575.000.000 króna vegna söluandvirðis eignarinnar hafi að fullu verið greidd inn á reikning A ehf. hjá Arion banka og hlutdeild Íslandsbanka og Glitnis millifærð inn á reikninga í þeirra eigu. Kemur fram að fyrir liggi samþykkt kauptilboð vegna fasteignarinnar, dagsett 14. desember 2009, og nemi söluandvirði framangreindri fjárhæð. Með efnislega samhljóða yfirlýsingu, dagsettri 21. desember, var gildistími fyrri yfirlýsingar framlengdur til loka dags 31. desember 2009. Samkvæmt gögnum málsins voru tryggingarbréfin send til aflýsingar í lok desembermánaðar og veðum bankanna aflétt í samræmi við yfirlýsinguna.
Hinn 17. desember 2009 var á skrifstofu H undirritaður kaupsamningur um fasteignina að [...] á milli D ehf. og E. Ritaði ákærði undir kaupsamninginn fyrir hönd seljanda, en K fyrir hönd kaupanda. Söluverð fasteignarinnar samkvæmt samningnum var 7.000.000 Bandaríkjadala, eða 854.840.000 krónur samkvæmt skráðu gengi Seðlabanka Íslands fyrir Bandaríkjadal á þeim tíma. Tekið var fram að greiðslan skyldi lögð inn á fjárvörslureikning sem fasteignasalan hefði stofnað og yrði greiðslunni ráðstafað til að fá aflétt veðum af eigninni og til greiðslu annarra skuldbindinga vegna hennar, þ. á m. vegna ógreiddra skatta. Þá kom fram að greiðslan yrði reidd af hendi þegar kaupin hefðu verið samþykkt af dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu. Jafnframt kom fram að samningnum fylgdi yfirlýsing veðhafa um afléttingu veðbanda af fasteigninni gegn greiðslu kaupverðsins. Afsal vegna eignarinnar var undirritað samdægurs af sömu aðilum og þinglýst 30. desember 2009. Hinn 22. desember var kaupsamningurinn staðfestur af dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu samkvæmt heimild í 2. mgr. 1. gr. laga um eignarétt- og afnotarétt fasteigna nr. 19/1966, sbr. lög nr. 30/1980. Í málinu liggja fyrir gögn um stofnun myntveltureiknings í Landsbanka Íslands vegna kaupa á fasteigninni. Hinn 26. nóvember 2009 sótti H um slíkan reikning og var E tilgreindur eigandi fjármuna á reikningnum. Hinn 28. desember 2009 millifærði H 7.000.000 Bandaríkjadala yfir á reikninginn. Fjármunirnir voru greiddir út af reikningnum samdægurs og voru 577.300.000 krónur millifærðar á bankareikning A ehf., 114.723.500 krónur á bankareikning Y ehf., tvær færslur voru á bankareikning L ehf., lögfræðiskrifstofu G, að fjárhæð 24.900.000 krónur og 15.000.000 króna, auk þess sem millifært var á reikning fasteignasölu vegna söluþóknunar, til Ríkissjóðs Íslands, Orkuveitu Reykjavíkur og til greiðslu fasteignagjalda. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2011 var Eignarhaldsfélagið A ehf. úrskurðað gjaldþrota.
Verður nú gert grein fyrir framburði ákærða og vitna við aðalmeðferð málsins og vísað jafnhliða til gagna málsins þegar nauðsynlegt þykir til nánari skýringar.
Ákærði kvað fjárhagsstöðu A ehf. hafa verið slæma sumarið 2009. Félagið hafi átt eignir, en ekki lausafé til að standa við skuldbindingar gagnvart fjármálastofnunum, sem ákærði kvaðst telja hafa numið um 1.100.000.000 króna á þessum tíma.
Ákærði kannaðist við að hafa látið eftirfarandi ummæli falla í skype-samtali við bróður sinn í júní 2009: „Við erum með nokkur plott í gangi sem geta skapað okkur aukapening með því að taka smásnúning á bankana.“ Ákærði kvaðst nota hugtökin „plott“ og „snúning“ daglega. Þau þýddu einfaldlega að „gera eitthvað“.
Ákærða voru kynnt drög að kaupsamningi, sem liggja fyrir í málinu vegna fasteignarinnar að [...], milli A ehf. og L ehf., dagsett í nóvember 2009, þar sem kaupverð er tilgreint 7.000.000 Bandaríkjadala, en skjalið var síðast vistað í tölvu hjá H 13. október 2009. Ákærði kvaðst hafa kynnt sér þessi kaupsamningsdrög á skrifstofu fasteignasölunnar, en ekki muna hvort hann hafi fengið þau send. Hann kvaðst minna að það hefði verið einhvern tíma í desember sem hann hefði verið upplýstur um að E hefði hug á að kaupa fasteignina. Ákærði var spurður um framburð N, fasteignasala hjá H, við skýrslutöku hjá lögreglu, um að hann hefði upplýst ákærða um þetta í lok nóvember. Kvaðst ákærði ekki muna það, en halda að svo hafi ekki verið. Hann hefði ekki vitað um stöðu málsins í byrjun desember og ekki verið kunnugt um vinnu fasteignasalans að því.
Ákærða var kynnt skjal sem O hæstaréttarlögmaður sendi með tölvupósti til G 26. nóvember 2009 og bar fyrirsögnina: [...] enska kaupsamningur3. Skjalið er efnislega samhljóða drögum að kaupsamningi milli E og A ehf., sem voru síðast vistuð í tölvu H þennan sama dag, að öðru leyti en því að í síðarnefnda skjalinu er E tilgreint sem kaupandi og kaupverð 7.000.000 Bandaríkjadala, en samkvæmt hinu fyrrnefnda er kaupverð 550.000.000 krónur og E ekki tilgreint sem kaupandi. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa sent O skjalið. Þá kvaðst hann ekki minnast þess að N hefði sent honum eitthvað í tölvupósti um þetta. Hann kvað flesta kaupsamninga vera að grunni til eins og að þarna væri um staðlað form að ræða. Ákærði kvað O og G báða hafa verið að vinna fyrir sig á þessum tíma.
Ákærði var spurður um afsal A ehf. á fasteigninni til D ehf., dagsett 11. desember 2009 og þinglýst 14. sama mánaðar, þar sem tekið var fram að fyrir lægi yfirlýsing veðhafa um afléttingu veðbanda gegn umsaminni greiðslu til veðhafa þann 21. sama mánaðar. Ákærði kvað G hafa verið í sambandi við bankana vegna málsins og hefði hann treyst orðum hans um að samkomulag hefði verið um að aflétta veðunum. Hann kvað hafa verið nauðsynlegt að afsala eigninni til íslensks félags vegna virðisaukaskattsskuldar sem á henni hvíldi. Hann kvaðst ekki hafa haft vitneskju um kvöð sem þinglýst hefði verið á eignina, um skuldbindingu til að selja hvorki né veðsetja fasteignina nema fyrir lægi skriflegt leyfi Arion banka. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa séð getið um kvöðina í veðbókarvottorði. Þá staðfesti ákærði að bankareikningur A ehf. hjá Arion banka og innstæða á honum hefðu verið handveðsett bankanum, en yfirlýsing um handveðsetningu er meðal gagna málsins.
Ákærði kvaðst telja að hann hefði fengið send lokadrög kaupsamnings og afsals vegna [...] með tölvupósti 16. desember 2009. Þarna hefði verið komin alvara í málið, þó að ekkert hefði enn verið undirritað. Hann kvaðst telja að hann hefði beðið N að breyta kaupsamningsdrögunum að morgni 17. desember þannig að í stað A ehf. væri D ehf. tilgreint sem kaupandi, en bæði skjölin voru vistuð í tölvu N. Þetta hefði verið leiðrétting, enda D ehf. þá eigandi eignarinnar.
Ákærði kannaðist við að hafa undirritað yfirlýsingar um afléttingu veðbanda 16. og 21. desember 2009 fyrir hönd A ehf., en hann hefði talið alla vera meðvitaða um að fasteigninni hefði verið afsalað til D ehf. Vísaði ákærði á G í því sambandi, sem hann sagði hafa verið í sambandi við bankana. Ákærði kvað fyrri yfirlýsinguna hafa verið með rangri dagsetningu, en um mistök bankans hefði verið að ræða. Því hafi verið nauðsynlegt að fá nýja yfirlýsingu. Ákærði kvaðst ekki telja sér hafa borið skylda til að upplýsa veðhafana um að hætt hefði verið við kaupin við C og eigninni síðan afsalað til E. Hann bar jafnframt að fulltrúar bankanna hefðu verið búnir að frábiðja sér að hann kynnti þeim einhver möguleg tilboð, en þeir hefðu viljað að allt væri niðurneglt. Hins vegar hefði ekkert verið niðurneglt varðandi söluna til E, þar sem samþykki íslenskra stjórnvalda vegna kaupanna hafi ekki legið fyrir. Ákærði kvað ýmis tilboð hafa borist í fasteignina sumarið 2009 af hálfu erlendra aðila. Hann hefði kynnt bönkunum þessi tilboð, en fengið þau viðbrögð að hann ætti ekki að koma með neitt til þeirra nema fyrir lægi að um raunveruleg tilboð væri að ræða og að sýnt væri fram á greiðslugetu þeirra sem stæðu að baki þeim.
Ákærði bar að þegar staðfesting íslenskra stjórnvalda vegna kaupa E á fasteigninni lá fyrir hefði hann upplýst G um að hann hygðist rifta kaupunum við indversku aðilana. Hefði samningnum verið rift á grundvelli sérstaks riftunarákvæðis sem hann hafði að geyma. Það hefði legið beint við að G lyki við söluna á eigninni þótt nýr kaupandi væri kominn til sögunnar. Ákærði kvaðst síðan hafa greitt G sölulaun, auk þess sem hann hefði greitt indversku aðilunum bætur vegna málsins.
G kvaðst hafa verið að vinna að því fyrir I að finna húsnæði til kaups með það fyrir augum að breyta því í hótel. Hefði hann bent I á fasteignina að [...] og I litist vel á það hús. G kvaðst þá hafa haft samband við O hæstaréttarlögmann, sem hefði verið að vinna fyrir ákærða og föður hans. Hefði O sent honum upplýsingar um fasteignina og hvatt hann til að gera tilboð í hana. Hefðu þeir I gert tilboð í eignina þar sem kaupverð var tilgreint 550.000.000 króna. Ákærði hefði sætt sig við þetta verð, en gert fyrirvara um að tilboðið yrði borið undir starfsmenn bankanna, sem áttu veð í fasteigninni. G kvaðst hafa borið tilboðið undir þá, en þeir hefðu viljað fá hærra verð fyrir eignina og jafnframt krafist þess að kaupandi tæki yfir virðisaukaskattskuld, sem hvíldi á henni og nam um 100.000.000 króna. Til að komast hjá því að þurfa að borga þá skuld hefði því orðið að stofna íslenskt félag, sem gæti yfirtekið skuldina. Starfsmönnum bankanna hefði síðan verið kynnt nýtt tilboð, sem þeir hefðu sætt sig við. G kvað það hafa verið rétt fyrir jól sem ákærði tilkynnti honum að hann vildi nýta sér ákvæði í samningnum við C og yfirtaka kauptilboðið. Hann kvaðst hafa haft samband við I, sem hefði verið mjög ósáttur við þetta. Hefði ákærði boðist til að bæta C það tjón sem það hefði orðið fyrir vegna þess að ekkert hafði orðið af kaupunum. Ákærði hefði greitt C 15.000.000 króna í bætur vegna þessa, auk þess sem hann hefði samþykkt að greiða G sölulaun. Hefði ákærði beðið hann um að ljúka málinu áður en hann fengi sölulaunin greidd. G kvaðst ekki hafa vitað að fasteignin hefði verið seld E og hefði hann fyrst heyrt af því þegar fjölmiðlar fóru að fjalla um málið.
G kvað það hafa verið 22. eða 23. desember sem ákærði tjáði honum að hann ætlaði að ganga inn í kaupin á fasteigninni. Hann kvaðst upphaflega hafa hringt til O til að kanna hvort fasteignin væri til sölu og á hvaða verði. Hefðu þeir verið í tölvupóstsamskiptum 26. og 30. nóvember vegna málsins og O sent honum fyrirmynd að kauptilboði, sem hann hefði notað við gerð tilboðanna 2. og 14. desember. G kvaðst ekki geta svarað því hvers vegna seljandi var ekki tilgreindur í kauptilboðunum tveimur. Hann kvaðst ekki vita hvaðan O fékk skjalið sem hann notaði sem fyrirmynd, en í því var kaupverðið 550.000.000 króna tilgreint. Hann kvaðst hafa farið yfir það með I hvað C væri tilbúið að greiða fyrir eignina, en verið geti að O hafi verið búinn að gefa honum einhverja vísbendingu um hvað myndi vera ásættanlegt kaupverð.
Bornir voru undir G minnispunktar stýrihóps Arion banka, sem liggja fyrir í málinu, þar sem m.a. var skráð um samskipti hans við bankann vegna málsins. G kannaðist við að hafa fengið afhenta yfirlýsingu um afléttingu veða af fasteigninni, dagsetta 16. desember. Hann kvaðst enn hafa verið að vinna fyrir I á þessum tíma og hefði hann afhent I þessa yfirlýsingu. I hefði sagt honum að hann þyrfti á slíkri yfirlýsingu að halda til að geta millifært fjármagn frá Indlandi. Hann kannaðist jafnframt við að þeir I hefðu setið fund í Arion banka 21. desember, með P og Q, en þeir hefðu óskað eftir þessum fundi til að fara fram á lengri greiðslufrest, en umsaminni greiðslu hefði seinkað vegna tafa sem stöfuðu af gjaldeyrishöftum á Indlandi. G kvaðst ekki hafa vitað að eignin hefði á þessum tíma verið seld E. Hann kvaðst ekki vera viss um að hafa kynnt ákærða að tafir yrðu á greiðslunni. Hann kannaðist við að hafa tekið á móti nýrri yfirlýsingu um afléttingu veða á skrifstofu sinni 22. desember, eins og framangreindir minnispunktar stýrihóps Arion banka bera með sér. G kvaðst hafa tekið við þessari yfirlýsingu fyrir hönd I, í sama tilgangi og áður, þ.e. til að I fengi leyfi til að flytja fjármagn milli landa.
G kvaðst ekki hafa sagt starfsmönnum bankans frá því að ákærði hefði rift kaupum við indverska félagið. Ákærði hefði ekki beðið hann um að halda þessu leyndu, en hann hefði talið að það væri ákærða að gera bankanum grein fyrir þessu.
G kvað félagið D ehf. hafa verið ónotað félag í sinni eigu. Þegar fyrra tilboð C hefði verið gert í eignina hefði ekki staðið til að yfirtaka virðisaukaskattskvöð sem á henni hvíldi og nam um 100.000.000 króna. Samkvæmt því hefðu seljendur eignarinnar orðið að greiða þá kröfu. Með því hefðu bankarnir fengið 100.000.000 króna minna í sinn hlut. I hefði hins vegar samþykkt fyrir hönd C að yfirtaka virðisaukaskattskvöðina, en fyrirhugað hefði verið að vera með virðisaukaskattskylda starfsemi í húsinu. Hefði legið fyrir að skuldin myndi lækka til lengri tíma og verða loks að engu. Kvaðst G hafa rætt þessi mál við P hjá Arion banka. Legið hafi fyrir að íslenskt félag yrði að yfirtaka virðisaukaskattskuldina. Hann hefði því selt ákærða félagið D ehf. með það fyrir augum að færa fasteignina yfir í það félag. Kaupsamningurinn við D ehf. hefði síðan verið látinn standa eftir að ákærði ákvað að afsala eigninni ekki til C.
O kvað G hafa haft samband við sig til að kanna hvort fasteignin að [...] væri til sölu og á hvaða verði, en vitnið hefði verið að vinna fyrir ákærða og föður hans að skuldauppgjöri við bankana á þessum tíma. Hann kvaðst hafa sagt G að eignin væri föl og hvatt hann til að koma með tilboð. Að beiðni G hefði hann sent honum með tölvupósti erlendan samning sem hann gæti notað sem fyrirmynd við tilboðsgerðina. Hann kvaðst minna að komið hefði fram á fundum hans með starfsmönnum bankanna að þeir vildu miða við 550.000.000 króna sem lágmarksverð fyrir eignina. Kvaðst hann telja að hann hefði sagt G frá þessu.
Borinn var undir O tölvupóstur, dagsettur 26. nóvember 2009, ásamt fylgiskjali, sem bar yfirskriftina: [...] enska kaupsamningur3. O kvað þetta vera skjalið sem hann sendi G að hans beiðni til að nota sem fyrirmynd. Kvað hann þetta skjal hafa verið til á skrifstofu sinni og hefði það verið notað við samningagerð í öðru máli. Borin voru undir vitnið drög að kaupsamningi vegna fasteignarinnar að [...] milli A ehf. og E, sem vistuð voru 26. nóvember í tölvu H og honum kynnt að um væri að ræða efnislega sama skjalið og hann sendi G sama dag. O kvaðst ekki geta skýrt þetta, en hann hefði ekki verið í neinu sambandi við H vegna málsins. Er honum var kynntur framburður N um að hann hefði á þessum tíma verið farinn að senda samningsdrög milli ákærða og E kvaðst O telja að hann hlyti að hafa fengið þetta skjal sent frá ákærða, en hann hefði ekki átt nein samskipti við N. Hann kvaðst hvorki vita hvers vegna seljandi var ekki tilgreindur með nafni í tilboðum C, dagsettum 2. og 14. desember 2009, né hver hefði gert tilboðin þannig úr garði.
O kvaðst kannast við að hafa 16. desember 2009 fengið símtal frá N, sem hafi sagt honum að E hefði áhuga á að kaupa eignina, en það væri háð því að samþykki íslenskra stjórnvalda fengist fyrir kaupunum. Hann kvaðst hafa fengið starfsmann lögmannsstofu sinnar, R héraðsdómslögmann, til að kanna stöðu málsins hjá dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu. Spurður um tölvupóst sem N lét senda sama dag til hans og fleiri, lokaútgáfu kaupsamnings og afsals vegna [...], kvaðst O hafa verið í aðgerð á sjúkrastofnun þennan dag og hefði hann því ekki verið að „grautast í póstinum“. Hann kvaðst ekki vita hvers vegna honum voru send þessi gögn, en útilokaði ekki að hafa átt einhver samskipti um kaupsamningsgerð við E í nóvember og desember. Honum hafi þó ekki þótt trúlegt að af kaupunum yrði.
O kannaðist við að hafa hringt til P hjá Arion banka 18. desember, eins og fram kemur í minnispunktum stýrihóps bankans. Hann hefði hringt í P að beiðni ákærða og hefði erindið verið að biðja um að tímafrestur sem tilgreindur var í yfirlýsingu bankanna um afléttingu veða yrði framlengdur. Hann kvaðst ekki kannast við að hafa í þessu símtali rætt um greiðslu frá Indlandi, eins og skráð var í minnispunktana.
S kvaðst hafa lýst því við N fasteignasala að hann hefði áhuga á að kaupa fasteignina að [...] í nafni einkahlutafélags síns, M ehf. Hefðu legið fyrir drög að kaupsamningi milli A ehf. og M ehf., en drögin eru meðal gagna málsins og voru síðast vistuð á tölvu H 13. október 2009. S kvað E raunverulega hafa staðið að tilboði M ehf. í eignina, en K hefði beðið hann um að finna viðhlítandi húsnæði til að hýsa E. Hann hefði gert þetta tilboð í nafni M ehf. til að fá fram söluverð á eigninni. S kvaðst hafa rætt við ákærða í síma og þeir hefðu líka hist vegna málsins, en hann hefði þá komið fram fyrir hönd M ehf. Síðan hefðu einhverjir fráE farið á fund N og greint honum frá því að E væri í raun að baki tilboðinu.
N kvað S hafa gert 7.000.000 Bandaríkjadala tilboð í fasteignina í byrjun október 2009, að undangengnum þreifingum um kaupverð við forsvarsmenn A ehf. Hefðu forsvarsmenn A samþykkt tilboð S. N kvaðst hafa samið drög að kaupsamningi milli þessara aðila þar sem kaupverð eignarinnar var tilgreint 7.000.000 Bandaríkjadala, en það skjal liggur fyrir í málinu og var síðast vistað í tölvu H 13. október 2009. Hann kvaðst telja að ákvæði í samningsdrögunum um að A ehf. gætu selt ónafngreindu félagi eignina áður en yrði af kaupum samkvæmt samningnum, hefði verið bætt inn í drögin í tengslum við gagntilboð forsvarsmanna A. N kvað það síðan hafa gerst að menn frá E hefðu komið á hans fund og greint honum frá því að E stæði að baki tilboðinu. Hefðu [...]menn beðið hann um að halda því leyndu fyrst um sinn. Hann kvaðst telja að hann hefði upplýst tilboðshafana um það í lok nóvember að E væri að baki tilboðinu. N kvaðst hafa samið drög að kaupsamningi vegna eignarinnar þar sem E var tilgreint sem kaupandi, en skjalið var síðast vistað í tölvu H 12. nóvember 2009. Hann kvað fyrrgreint ákvæði, sem gerði ráð fyrir að eignin yrði framseld öðru félagi, hafa verið fellt út úr samningsdrögunum að beiðni [...]manna, sem hefðu ekki viljað að vafi léki á því hver væri seljandi eignarinnar. Þá staðfesti N að hafa samið drög að kaupsamningi milli E og A ehf., sem síðast voru vistuð á tölvu H 26. nóvember 2009. Hann kvað það hafa verið um þetta leyti sem hann upplýsti tilboðshafa um hver hinn mögulegi kaupandi væri. Hann kvað geta verið að hann hefði sent ákærða þessi samningsdrög. Þá kannaðist hann við að hafa sama dag átt í tölvupóstsamskiptum við starfsmann Landsbanka Íslands vegna umsóknar um stofnun myntveltureiknings. Borin voru undir vitnið kaupsamningsdrögin frá 26. nóvember og endanlegur kaupsamningur vegna fasteignarinnar, sem undirritaður var 17. desember 2009, en skjölin eru efnislega samhljóða. Spurður kvaðst N ekki hafa vitað að 2. desember hefði starfsmönnum bankanna verið kynnt tilboð C í eignina. Þá hefði hann ekki vitað að G væri að vinna í málinu.
N staðfesti að hafa átt tölvupóstsamskipti við starfsmenn dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins fyrstu daga desembermánaðar, þar sem m.a. kom fram að stefnt væri að því að undirrita kaupsamning milli aðila 8. þess mánaðar. Hann kvað starfsmenn E hafa viljað undirrita kaupsamning og taldi hann að unnt hefði verið að ljúka málinu þennan dag. Málið hefði verið afgreitt að öðru leyti en því að beðið hafi verið eftir leyfi frá ráðuneytinu. Hefði ákærði vitað að hann hefði verið að reka á eftir því að fá þetta leyfi. Hann hefði rætt þetta við ákærða á þessum tíma, en ekki myndi hann nákvæmlega hvaða dag það var. N kvað þó líka hafa verið beðið eftir yfirlýsingu bankanna um afléttingu veða á þessum tíma. Hann hefði verið að ýta á eftir því við seljendur eignarinnar að þeir öfluðu slíkrar yfirlýsingar og hefðu þeir verið að vinna í því. N kvaðst 16. desember hafa látið boða til undirritunar kaupsamnings daginn eftir, eftir að K hefði óskað eftir því að ljúka málinu. Hefði K sagt honum að hann hefði átt viðræður við starfsmenn utanríkisráðuneytisins og fengið munnlegt loforð um samþykki íslenskra stjórnvalda vegna kaupanna. N kvaðst ekki muna hvenær hann fékk yfirlýsingar um veðbandslausnir í hendur og ekki heldur hver hefði afhent honum þær. Hann kvaðst hafa breytt kaupsamningsdrögunum að morgni 17. desember þannig að seljandi eignarinnar var tilgreindur D ehf. en hafði verið A ehf. í fyrri drögum. Hann hefði ekki verið beðinn um að breyta þessu, heldur hefði hann prentað út veðbókarvottorð þennan morgun og þar hefði komið fram að D ehf. væri þinglýstur eigandi eignarinnar.
Kom fram hjá N að fram að þessum tíma hefði ekkert verið undirritað af hálfu E sem skuldbatt það til að kaupa þessa eign. Ekkert hefði hindrað það í að kaupa einhverja aðra eign. Nokkrum dögum áður en kaupsamningur var undirritaður hefði K tjáð honum að hann teldi að íslensk stjórnvöld myndu ekki samþykkja kaupin. Kvaðst hann hafa metið það svo að brugðið gæti til beggja vona með hvort af kaupunum yrði. Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa sent O drög að kaupsamningi við M ehf., en taldi það þó ekki útilokað.
I kvaðst, ásamt viðskiptafélögum sínum, hafa haft áhuga á að fjárfesta á Íslandi. Hann hefði ritað undir kauptilboð vegna fasteignarinnar að [...], dagsett 2. desember 2009, fyrir tilstilli G, sem hefði komið með tilboðið til hans. I kvaðst ekki vita hvers vegna seljandi var ekki tilgreindur í tilboðinu og hefði hann ekki ákveðið að það væri þannig orðað. Þá hefði G haft frumkvæði að því að bjóða 550.000.000 króna í eignina.
I kannaðist jafnframt við að hafa undirritað kauptilboð í fasteignina, dagsett 14. desember 2009, fyrir hönd tilboðsgjafa D ehf. Hann kvað G hafa lagt til við hann að gera þetta með þessum hætti, en G hefði sagt að nauðsynlegt væri að fá íslenska kennitölu vegna kaupanna. Hann kvaðst ekki hafa vitað að A ehf. hefðu afsalað fasteigninni til D ehf. hinn 11. desember.
Bornar voru undir I yfirlýsingar Arion banka hf., Íslandsbanka hf. og Glitnis banka hf., dagsettar 16. og 21. desember 2009, um afléttingu veða af fasteigninni. Hann kvaðst ekki hafa vitað um þessar yfirlýsingar og ekki hafa séð þessi skjöl áður. Þá vísaði hann á bug framburði G um að hann hefði óskað eftir slíkum yfirlýsingum, eða beðið G um að taka við þeim fyrir sína hönd. Hann kvað ekki vera rétt sem kom fram hjá G að hann hefði fengið þessar yfirlýsingar afhentar. Hann kvaðst hafa lagt það í hendur G að sjá um að veðum yrði aflétt af eigninni í samræmi við ákvæði kauptilboðsins.
I kannaðist við að hafa farið með G á fund hjá Arion banka 21. desember til að óska eftir lengri greiðslufresti, en tafir hefðu orðið á millifærslu fjármagns frá Indlandi. Hann kvað G hafa beðið sig um að koma með sér á þennan fund, en G hefði veitt honum ráðgjöf um yfirfærslu fjárins. G hefði tjáð honum 21. eða 22. desember að tilboðshafarnir hefðu hætt við kaupin. Hann kvaðst ekki hafa vitað að eignin hefði þá þegar verið seld E 17. desember. Þá kvaðst hann ekki hafa haft samskipti við G vegna málsins eftir þetta. I kvaðst hafa gert tilboð í eignina í góðri trú. Hann hefði áður gert tilboð í fasteign hér á landi fyrir hönd hins indverska félags, sem hefði með höndum umsvifamikinn hótelrekstur á Indlandi.
T, sem starfaði í endurskipulagningarteymi Arion banka hf., kvaðst hafa komið að málefnum A ehf. fram á vormánuði 2009. Fjárhagsstaða félagsins hefði verið slæm á þessum tíma og eigið fé neikvætt. T kannaðist við að fasteignasali á vegum Íslandsbanka hefði metið fasteignina að [...] á 1.100.000.000 króna eins og kom fram í minnispunktum stýrihóps Arion banka frá 28. maí 2009. Hann staðfesti jafnframt það sem þar kom fram að hann hefði talið eignina vera 8 til 900.000.000 króna virði á þessum tíma og hefði hann byggt það mat á þekkingu sinni á markaðnum. T kvaðst ekkert hafa komið að meðferð kauptilboðs sem síðar barst í eignina að fjárhæð 550.000.000 króna.
P, fyrrum starfsmaður fyrirtækjaþjónustu Arion banka hf., kvaðst hafa komið að úrlausnarferli vegna skuldavanda nokkurra félaga sem tengdust föður ákærða. Úrlausnaferlið hafi miðað að því að aðstoða fyrirtæki sem voru í erfiðri stöðu og koma þeim aftur í rekstur, ef grundvöllur væri fyrir því. Gat það haft í för með sér tilslakanir af hálfu bankans vegna skuldugra fyrirtækja. P rakti feril málsins eftir að tilboð C í fasteignina að [...], dagsett 2. desember 2009, var kynnt bankanum. Vísaði hún jafnframt í minnispunkta stýrihóps Arion banka, þar sem kom fram að hún hefði hringt til G og kynnt honum gagntilboð, sem bankarnir stóðu saman að. P kvað sig minna að ákærði hefði komið með síðara tilboð C, dagsett 14. desember, í bankann og afhent henni það. Tillaga stýrihóps um að taka tilboðinu hefði verið lögð fyrir lánanefnd bankans 15. desember og liggur fundargerð fyrir í málinu, þar sem kemur fram að erindið var samþykkt, en samkvæmt fundargerð lá jafnframt fyrir samþykki Glitnis banka og Íslandsbanka fyrir því að veðum yrði aflétt gegn greiðslu kaupverðs samkvæmt tilboðinu. P kvað hvorki sér né öðrum sem að málinu komu innan bankans hafa verið kunnugt um afsal A ehf. á fasteigninni til D ehf. 11. desember. Þá hefði ákærði ekki aflað samþykkis bankans til að afsala eigninni með þeim hætti.
P kvaðst hafa annast undirritun yfirlýsinga um veðbandslausn vegna eignarinnar, dagsettra 16. og 21. desember. Yfirlýsingarnar hefðu verið samdar af starfsmönnum Arion banka og kvaðst P hafa farið á milli bankanna til að fá þær undirritaðar. Hana minnti að ákærði hefði komið til hennar í bankann og undirritað yfirlýsingarnar fyrir hönd seljanda. Hann hefði ekki gert athugasemdir við að félagið A ehf. væri tilgreint sem seljandi eignarinnar. Hún kvað síðari yfirlýsinguna hafa verið gefna út að beiðni G og ákærða, en þeir hefðu hringt nokkrum sinnum til hennar og óskað eftir framlengingu á fresti samkvæmt fyrri yfirlýsingunni. Þá hefði O einnig hringt 18. desember og borið upp sama erindi. Það væri því ekki rétt sem komið hefði fram að einhver mistök hefðu orðið við útgáfu fyrri yfirlýsingarinnar. Þá kvað hún veðhöfunum ekki hafa verið kunnugt um að kaupsamningur og afsal vegna eignarinnar hefðu verið undirrituð milli D ehf. og E 17. desember.
Borið var undir P endurrit símafundar frá 9. desember 2009, sem er meðal gagna málsins, milli G og starfsmanna Arion banka, Glitnis banka og Íslandsbanka, þar sem kom fram hjá G að fyrirhugað væri að nota félagið D ehf. við kaupin. Hún kvaðst ekki muna eftir þessum símafundi. Þá var borinn undir P tölvupóstur G til hennar sama dag, sem er að finna í minnispunktum stýrihóps Arion banka, þar sem kom fram að D ehf. yrði kaupandi eignarinnar. P kvaðst ekki muna eftir tölvupóstinum, en taldi sig hafa unnið þessa minnispunkta. Nánar spurð kvaðst hún telja að G hefði verið að upplýsa hver yrði kaupandi eignarinnar samkvæmt því kauptilboði sem barst 14. desember, þ.e. C fyrir hönd D ehf.
P kvað starfsmenn bankanna hafa tjáð forsvarsmönnum A ehf. að aðeins skrifleg tilboð í fasteignina yrðu skoðuð alvarlega. Hún kvaðst þó telja að drög að kaupsamningi við E hefðu verið tekin til alvarlegrar skoðunar.
Q, verkefnisstjóri hjá Arion banka hf., kvaðst hafa verið fengin til að annast lokafrágang vegna kaupsamnings um fasteignina að [...]. Hún kannaðist við að hafa setið fund með P, I og G 21. desember 2009, þar sem hefði komið fram að dráttur yrði á greiðslu sem hefði átt að koma frá I. Þá staðfesti hún að hafa ritað færslu í minnispunkta stýrihóps bankans 29. sama mánaðar, þar sem kemur fram að greiðsla hefði komið frá I daginn áður. Í færslunni kemur jafnframt fram að starfsmaður bankans muni sjá um að aflýsa tryggingarbréfum. Q kvaðst einnig hafa skráð færslu 6. janúar 2010, þar sem kom fram að samkvæmt G væri I búinn að greiða upp virðisaukaskattskvöð. Q kvaðst hafa hringt til G og spurt hann hvort I væri búinn að greiða þessa skuld og hefði G játað því. Hann hefði ekki nefnt að I væri ekki kaupandi eignarinnar. Hún hefði skráð þetta eftir G að símtalinu loknu.
U, lögfræðingur hjá Íslandsbanka, kvaðst hafa fengið fyrirmæli um að mæta til vinnu á gamlársdag til að ganga frá afléttingu veða af fasteigninni að [...]. Hann hefði fengið innanhússtölvupóst um þetta þar sem jafnframt kom fram að hann ætti að ræða við G. U kvaðst hafa rætt við G símleiðis og hefði hann óskað eftir að tryggingarbréfin yrðu send í aflýsingu þegar í stað. U kvaðst hafa farið yfir kauptilboð C fyrir hönd D ehf. og sent tryggingarbréf Íslandsbanka og Glitnis banka til aflýsingar. Hefði hann staðfest þetta í tölvupósti til G, sem liggur fyrir í málinu. Hann kvað sér hafa verið ókunnugt um að ekki hefði orðið af kaupum við C og að eignin hefði verið seld E. Hann kvaðst hafa skilið kauptilboðið svo að félagið C stæði að baki D ehf.
V, sem var formaður lánanefndar Arion banka hf. á þessum tíma, staðfesti að hafa setið fund í lánanefndinni 15. desember 2009, þar sem fjallað var um kauptilboð í fasteignina að [...] frá indverskum fjárfestum að fjárhæð 575.000.000 króna. Innan bankans hefði verið unnið að því að finna lausn á skuldavanda A ehf. og hefðu skuldamál félagsins verið í úrlausnarferli. V kvað sérfræðinga bankans hafa metið það svo að tilboð indversku fjárfestanna væri það besta sem von væri á í eignina á þessum tíma. Meginsjónarmið bankans hefði verið að reyna að hámarka endurheimtur bankans og hefði í sjálfu sér ekki skipt máli hvaðan greiðslur komu. Fundargerð fundar lánanefndarinnar liggur fyrir í málinu, sem áður greinir.
Þ kvaðst hafa setið fund áhættunefndar Íslandsbanka 10. desember 2009, þar sem samþykkt var heimild til að samþykkja kauptilboð C, indversks fjárfestingasjóðs, í eignina að [...], með þeim fyrirvara að leitast skyldi við að hækka söluverðið eins og frekast væri unnt. Þ kvað verðmat fasteignasala vegna eignarinnar hafa legið fyrir, auk þess sem sérfræðingar bankans hefðu metið verðmæti hennar. Miklu hefði munað á kaupverðinu samkvæmt tilboðinu og því verðmati sem fyrir lá. Hins vegar hefði lítil sala verið á markaði á þessum tíma. Hefði því verið ákveðið að ganga að tilboðinu. Fyrirhugað hafi verið að sækja eftirstöðvar skuldarinnar í þrotabú A ehf. sem almenna kröfu, en litlar líkur hefðu verið taldar á því að fá eitthvað upp í þær. Fundargerð fundar áhættunefndarinnar er á meðal gagna málsins.
Þá komu fyrir dóminn sem vitni R héraðsdómslögmaður og Guðmundur Halldórsson lögreglufulltrúi, sem gerðu grein fyrir aðkomu sinni að málinu. Guðmundur, sem kom að rannsókn málsins við embætti sérstaks saksóknara, kvaðst hafa reynt að afla upplýsinga um framgang þess hjá E, en sú umleitan hefði ekki borið árangur. Loks kom F fyrir dóminn, en vitnið, sem er faðir ákærða, skoraðist undan skýrslugjöf.
Niðurstaða
Ákærðu hafa í greinargerð sinni gert athugasemdir við rannsókn málsins og meðferð þess hjá ákæruvaldi, einkum að ekki hafi verið nægilega gætt að hlutlægni og að óhæfilegur dráttur hafi orðið á málsmeðferðinni. Hvorki verður fallist á það með ákærðu að meðferð málsins hjá lögreglu og ákæruvaldi hafi dregist úr hófi, né að aðrir ágallar hafi verið á málsmeðferðinni er leiði til frávísunar þess eða að sýkna beri af refsikröfu. Athugasemdir ákærðu um að gagnaöflun hafi verið áfátt, þ.m.t. að ekki hafi verið teknar skýrslur af mikilvægum vitnum, koma til skoðunar við mat á því hvort ákæruvaldinu hefur tekist sönnun í málinu.
Ákærði X neitar sök. Hann hefur alfarið hafnað því að tilboð C LLC fyrir hönd félagsins D ehf., dagsett 14. desember 2009, í fasteignina að [...], hafi verið markleysa. Fyrir liggur að ákærði greindi veðhöfum ekki frá því að E hefði sýnt áhuga á að kaupa fasteignina og upplýsti ekki um kaupsamning sem síðar var undirritaður. Þá upplýsti ákærði ekki um ráðstafanir á eignarhaldi fasteignarinnar til félagsins D ehf., sem hann eignaðist síðar.
N kvaðst telja að hann hafi í lok nóvember 2009 upplýst ákærða um að E væri í raun að baki tilboði sem hefði borist í eignina í októbermánuði að fjárhæð 7.000.000 Bandaríkjadala. Ákærði bar fyrir dóminum að hann teldi að það hefði ekki verið fyrr en í desember sem honum var kunnugt um áhuga E á eigninni, en framburður ákærða um tímasetningar að þessu leyti er óljós. N kvaðst hafa upplýst ákærða um þetta um það leyti sem hann samdi drög að kaupsamningi um eignina milli A ehf. og E, en drögin voru vistuð í tölvu hans 26. nóvember. Verður við það miðað að ákærði hafi þá vitað að E vildi kaupa eignina, en af gögnum málsins verður ráðið að lögmenn, sem voru að vinna á vegum ákærða, höfðu þá undir höndum skjal sem var efnislega samhljóða kaupsamningsdrögunum sem N hafði samið og varð fyrirmynd að tilboðum af hálfu C LLC í fasteignina.
Ákærði kvaðst ekki hafa upplýst veðhafa um að E hefði áhuga á að kaupa eignina þar sem hann hafi ekki haft neina vissu fyrir því að af þeim kaupum yrði, enda hefði ekki legið fyrir samþykki íslenskra stjórnvalda til þeirra samkvæmt lögum um eignarétt- og afnotarétt fasteigna. Hefðu starfsmenn bankanna áður komið því á framfæri við hann að aðeins skrifleg kauptilboð, þar sem raunveruleg kaupgeta væri að baki, yrðu tekin til alvarlegrar skoðunar. Ákærði kvaðst fyrst hafa gert sér grein fyrir því að alvara væri komin í málið af hálfu E þegar hann fékk send lokadrög kaupsamnings með tölvupósti frá H 16. desember 2009, en kaupsamningur og afsal vegna eignarinnar voru undirrituð daginn eftir. Að mati dómsins eru skýringar ákærða að þessu leyti ótrúverðugar, enda lágu drög að kaupsamningi við E fyrir 26. nóvember, sem voru efnislega samhljóða kaupsamningi sem undirritaður var 17. desember. Var ótvírætt að E vildi kaupa eignina og að umtalsvert hærra kaupverð var í boði en samkvæmt tilboðum af hálfu C, sem kynnt höfðu verið bönkunum. Gat ákærða ekki dulist að veðhafar hefðu augljósa hagsmuni af því að vita um fyrirætlanir E, ekki síst eftir að kaupsamningur hafði verið undirritaður og afsal gefið út. Skiptir ekki máli í því sambandi að samþykki íslenskra stjórnvalda til kaupanna hafi ekki legið fyrir á þessum tíma.
Ákærði og G hafa borið að fasteigninni hafi verið afsalað frá A ehf. til félagsins D ehf. 11. desember svo að hinir indversku kaupendur gætu yfirtekið virðisaukaskattsskuld vegna eignarinnar. I bar hins vegar að G hafi tjáð honum að tilboðsgjafi yrði að hafa íslenska kennitölu og hefði síðara kauptilboðið, dagsett 14. desember, því verið gert í nafni D ehf. I kvaðst ekki hafa haft vitneskju um afsal A ehf. til D ehf. er hann undirritaði kauptilboðið. Samkvæmt framansögðu var kaupandi fasteignarinnar samkvæmt kauptilboðinu félag sem var þá þegar eigandi eignarinnar og verður fallist á það með ákæruvaldinu að tilboðið hafi verið markleysa.
Ákærði upplýsti veðhafa hvorki um afsal fasteignarinnar frá A ehf. til D ehf. 11. desember, né það að hann eignaðist síðarnefnda félagið 16. sama mánaðar. Sama dag gáfu veðhafar fyrri yfirlýsingu sína um afléttingu veðbanda á grundvelli kauptilboðs C fyrir hönd D ehf. að fjárhæð 575.000.000 króna. Ákærði undirritaði yfirlýsinguna fyrir hönd A ehf. án þess að vekja athygli á því að félagið væri ekki lengur eigandi fasteignarinnar. Daginn eftir undirritaði hann fyrir hönd D ehf. kaupsamning vegna eignarinnar við E og var afsal undirritað jafnhliða. Af gögnum málsins verður ráðið að töf hafi orðið á því að ákærði fengi söluandvirði eignarinnar greitt, en samkvæmt yfirlýsingu bankanna voru skil á því forsenda þess að veðböndum yrði aflétt. Liggur fyrir að ákærði og lögmenn á hans vegum gengu eftir því við starfsmenn bankanna að gefin yrði út ný yfirlýsing, dagsett 21. desember, en með henni var gildistími samkvæmt fyrri yfirlýsingu framlengdur. Ákærði undirritaði þessa yfirlýsingu fyrir hönd A ehf. og lét þess í engu getið að eigninni hefði nú verið afsalað til E. Svo sem að framan getur barst greiðsla vegna fasteignarinnar að fjárhæð 7.000.000 Bandaríkjadala frá E 28. desember og hefur verið rakið hvernig söluandvirðinu var ráðstafað, en 114.723.500 krónur voru millifærðar inn á bankareikning félagsins D ehf., síðar Y ehf., í MP banka. Af því sem rakið hefur verið þykir mega slá því föstu að tilgangur ákærða með því að ráðstafa eignarhaldi fasteignarinnar frá A ehf. til félagsins D ehf. hafi verið að koma í veg fyrir að söluandvirði eignarinnar yrði að fullu greitt inn á bankareikning A ehf. hjá Arion banka, sem var handveðsettur bankanum. Með þessu tryggði ákærði sér að hluti söluandvirðisins rynni inn á bankareikning sem hann hefði óheftan aðgang að.
Með háttsemi sinni vakti ákærði og hagnýtti sér með ólögmætum hætti rangar hugmyndir starfsmanna bankanna um söluverðmæti fasteignarinnar og eignarhald hennar og blekkti með því veðhafa til þess að fallast á að létta af eigninni áhvílandi veðum með tveimur yfirlýsingum, sem að framan er rakið. Yfirlýsingarnar voru forsenda greiðslu kaupverðs samkvæmt kaupsamningi við E. Sá hluti söluverðmætis fasteignarinnar sem rann til félags í eigu ákærða nam mismuni söluandvirðis samkvæmt kaupsamningi við E og því kauptilboði sem starfsmönnum bankanna hafði verið kynnt, að frádregnum greiðslum vegna skulda sem fasteigninni tengdust og kostnaði tengdum söluferlinu, sem áður greinir. Með því auðgaðist ákærði á kostnað veðhafanna, sem áttu lögmæta kröfu á því að fá söluverðmæti fasteignarinnar í sinn hlut að því marki sem fjárkröfur þeirra voru tryggðar með veðum í fasteigninni. Ákærði olli bönkunum verulegu fjártjóni með háttsemi sinni, en fyrir liggur að bú A ehf. hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta og verður ráðið af gögnum málsins að ekki eru líkur á því að kröfur bankanna fáist greiddar úr þrotabúinu. Samkvæmt framansögðu verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir og varðar við 248. gr. almennra hegningarlaga. Með því að ákærði hefur verið sakfelldur samkvæmt aðalkröfu í ákæruskjali kemur varakrafa ákæruvalds um sakfellingu fyrir skilasvik ekki til umfjöllunar.
Viðurlög, skaðabætur og sakarkostnaður
Ákærði X er fæddur í [...] og hefur hann ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að ákærði hafði einbeittan ásetning til verksins, en brotið átti sér nokkurn aðdraganda og var þaulskipulagt. Þá varðaði brotaandlagið háa fjárhæð. Með hliðsjón af framansögðu og vísan til 1., 2. og 6. tölul. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár.
Í ákæru er þess krafist að ákærðu Y ehf. sæti upptöku ávinnings af broti ákærða X að fjárhæð 96.931.458 krónur, með vöxtum og verðbótum frá 30. desember 2011 til upptökudags. Svo sem rakið hefur verið rann ávinningur af broti ákærða inn á bankareikning D ehf., nú Y ehf., í MP banka. Lagði lögregla hald á innstæðu á bankareikningnum 15. janúar 2010 og var hún færð á reikning sem stofnaður var í bankanum í tengslum við rannsóknaraðgerðina. Fjárhæðin er því sérgreind. Samkvæmt gögnum málsins nema hin haldlögðu fjárverðmæti eftirstöðvum ávinnings ákærða af broti því sem hann hefur verið sakfelldur fyrir. Þá liggur fyrir yfirlýsing útbússtjóra MP banka, dagsett 17. október sl., þar sem kemur fram að 21. september sl. hafi fjárhæð áfallinna vaxta eftir haldlagningu numið 1.292.419 krónum. Með vísan til 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga er fjárhæð innstæðu á bankareikningnum, auk fjárhæðar sem nemur áföllnum vöxtum, dæmd upptæk.
Af hálfu Arion banka hf., Íslandsbanka hf. og Glitnis banka hf. er krafist skaðabóta úr hendi ákærða X. Krefst Arion banki hf. skaðabóta að fjárhæð 64.323.376 krónur, Íslandsbanki hf. skaðabóta að fjárhæð 41.748.312 krónur og Glitnir banki hf. skaðabóta að fjárhæð 48.551.779 krónur, í öllum tilvikum auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 28. desember 2009 til greiðsludags og málskostnaðar. Fjárhæð bótakrafna miðast við það tjón sem bankarnir biðu af broti ákærða, 114.723.500 krónur, auk fjárhæðar sem nemur greiðslum sem runnu til G og I vegna kauptilboðs af hálfu C LLC, samtals að fjárhæð 39.900.000 krónur, en því hefur verið slegið föstu að tilboðið hafi verið markleysa. Verður ákærði dæmdur til að greiða bótakrefjendum bætur, samtals að fjárhæð 154.623.500 krónur, sem skiptist milli þeirra samkvæmt samkomulagi, auk vaxta, eins og í dómsorði greinir. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða bótakrefjendum hverjum um sig málskostnað að fjárhæð 250.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Samkvæmt heimild í 1. mgr. 69. gr. e almennra hegningarlaga skal andvirði upptækra verðmæta ákærðu Y ehf. nýtt til greiðslu skaðabóta sem ákærði X hefur verið dæmdur til að greiða.
Ákærðu greiði óskipt málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Jónatanssonar héraðsdómslögmanns, 4.354.850 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, en þóknunin er vegna vinnu verjandans við lögreglurannsókn málsins og dómsmeðferð þess.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknarfulltrúi.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Ákærði, X, sæti fangelsi í 2 ár.
Ákærðu, Y ehf., sæti upptöku á 96.931.458 krónum, auk áfallinna vaxta að fjárhæð 1.292.419 krónur, á bankareikningi nr. [...]-[...]-[...]04 hjá MP banka hf.
Ákærði, X, greiði Arion banka hf. 64.323.376 krónur, Íslandsbanka hf. 48.748.312 krónur og Glitni banka hf. 48.551.779 krónur, í öllum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 28. desember 2009 til greiðsludags. Ákærði greiði Arion banka hf., Íslandsbanka hf. og Glitni banka hf., hverjum um sig, 250.000 krónur í málskostnað.
Ákærðu greiði óskipt málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Jónatanssonar héraðsdómslögmanns, 4.354.850 krónur.