Hæstiréttur íslands

Mál nr. 211/2000


Lykilorð

  • Bifreið
  • Umferðarslys
  • Manndráp af gáleysi
  • Svipting ökuréttar
  • Ómerkingarkröfu hafnað


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. október 2000.

Nr. 211/2000.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Ólafi Ragnari Jónssyni og

(Guðmundur Ágústsson hdl.)

Sigþóri Gunnarssyni

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

 

Bifreiðir. Umferðarslys. Manndráp af gáleysi. Svipting ökuréttar. Ómerkingarkröfu hafnað.

 

Ó og S voru sakfelldir fyrir að hafa ekið bifreiðum sínum of hratt og án nægjanlegrar aðgæslu inn á einbreiða brú á þjóðvegi nr. 60 yfir Vaðal í Önundarfirði, Ó úr norðri en S úr suðri, þannig að bifreiðarnar skullu saman á brúnni með þeim afleiðingum, að þunguð eiginkona Ó lést og varð barninu heldur ekki bjargað. Við sakarmat var höfð hliðsjón af aðstæðum er slysið varð. Ákærðu vissu hvor af öðrum, áður en komið var að brúnni, og áttu að geta dregið svo úr hraða bifreiða sinna, að hvorugur hefði ekið inn á brúna án þess að vera þess fullviss, að hinn gerði það ekki jafnframt. Til þessa voru allar aðstæður hinar ákjósanlegustu, en báðir voru ákærðu gjörkunnugir staðháttum. Leysti það hvorugan undan sök, að hinum hefði verið unnt með meiri gætni að afstýra því, að árekstur yrði. Þótt akstur Ó hafi verið álitinn háskalegri en akstur S, var við ákvörðun refsingar Ó litið til þungbærra afleiðinga slyssins fyrir hann. Var refsing hvors um sig ákveðin 60 daga fangelsi, frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Ó var sviptur ökurétti í 1 ár og S í sex mánuði. Á ómerkingarkröfur ákærðu var ekki fallist, þar sem engin haldbær rök stóðu til þess að ætla, að dómendur og sakflytjendur hefðu ekki haft fulla yfirsýn yfir málið, auk þess sem ekki var talið að lögreglurannsókn hefði verið haldin ágöllum.  

                                     

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar 12. maí 2000 að ósk beggja ákærðu að fengnu áfrýjunarleyfi réttarins. Ákæruvaldið krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærðu og verði refsing ákærða Sigþórs Gunnarssonar þyngd og hann dæmdur til enn frekari sviptingar á ökurétti. Þá verði ákærði Ólafur Ragnar Jónsson jafnframt dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar.

Af hálfu ákærða Ólafs Ragnars er þess aðallega krafist, að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað frá héraðsdómi. Til vara er krafist sýknu af kröfum ákæruvaldsins.

Ákærði Sigþór krefst aðallega frávísunar frá héraðsdómi en til vara sýknu.

Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð ný gögn um heilsufar ákærða Ólafs Ragnars og upplýsingar frá Vegagerð ríkisins á Ísafirði um þjóðveginn í Önundarfirði auk uppdráttar af svæðinu.

I.

Ákærði Ólafur Ragnar reisir ómerkingar- og frávísunarkröfu sína á því, að lögreglurannsókn hafi verið ónóg og hlutdræg honum í óhag auk þess sem vettvangsrannsókn hafi verið afar ófullkomin. Af hálfu ákærða Sigþórs er ómerkingar og frávísunar frá héraðsdómi krafist á þeim forsendum, að verulegir brestir hafi verið á frumrannsókn málsins og meðal annars hafi hvorki þá né síðar af hálfu ákæruvalds verið gerðir nákvæmir uppdrættir af vettvangi og næsta nágrenni og hafi þetta villt héraðsdómurum sýn.

Á þessar röksemdir verður ekki fallist. Vettvangsuppdráttur lögreglu hefði að vísu mátt vera gleggri, en engin haldbær rök standa þó til þess að ætla, að dómendur og sakflytjendur hafi ekki á grundvelli síðari rannsóknargagna og við málsmeðferð í héraði og vettvangsgöngu haft fulla yfirsýn yfir málið. Þá þykja rannsóknaraðferðir lögreglunnar á Ísafirði ekki bera vott um óhlutlægni og bifreiðarnar voru báðar færðar til sérstakrar skoðunar hjá sérfróðum aðila eftir slysið, svo sem rétt og nauðsynlegt var.

II.

Ákærðu er báðum gefið að sök að hafa hinn 5. febrúar 1999 ekið bifreiðum sínum of hratt og án nægjanlegrar aðgæslu inn á einbreiða brú á þjóðvegi nr. 60 yfir Vaðal í Önundarfirði, ákærði Ólafur Ragnar úr norðri og ákærði Sigþór úr suðri, þannig að bifreiðarnar skullu saman á brúnni laust fyrir kl. 16.30. Í héraðsdóminum er lýst tildrögum slyssins og þeim framburði ákærðu og vitna, sem einkum skiptir máli.

Í gögnum málsins kemur fram, að bjart hafi verið í Önundarfirði á þessum tíma og sólskin. Yfirborð vegarins hafi verið þurrt, en hálka hafi verið á veginum, sem var með bundnu slitlagi. Af ljósmyndum af slysstað má glögglega sjá, að nokkur snjóföl hafi verið á veginum. Hann er 6.5 metra breiður með tveimur akbrautum, en bundna slitlagið er 6 metrar. Brúin yfir Vaðal, þar sem slysið varð, er hins vegar einbreið og er innanmál hennar 4 metrar. Á grunnmynd Vegagerðar ríkisins af þjóðveginum sést, að sitt hvorum megin við brúna voru aðvörunarskilti með áletrun um einbreiða brú framundan, og ekki hefur verið dregið í efa, að þau hafi verið uppi umrætt sinn. Frekari lýsingar á aðstæðum á slysstað getur að líta í héraðsdómi.

 Ljóst er af öllu því, sem fram er komið í málinu, að ákærðu vissu hvor af öðrum, áður en komið var að brúnni, og áttu að geta dregið svo úr hraða bifreiða sinna í síðasta lagi við aðvörunarskiltin, að hvorugur hefði ekið inn á brúna án þess að vera þess fullviss, að hinn gerði það ekki jafnframt. Til þessa voru allar aðstæður hinar ákjósanlegustu, en báðir voru ákærðu gjörkunnugir staðháttum. Ákærði Ólafur ók engu að síður óhikað að brúnni og byrjaði fyrst að hemla rétt utan við vegrið hennar, en hemlaför bifreiðar hans mældust um það bil 25 metrar. Ákærði Sigþór hafði hins vegar dregið úr hraða bifreiðar sinnar, áður en hann kom að brúnni, en ók samt sem áður inn á hana og taldi sig verða á undan meðákærða, þótt hann hafi þá mátt sjá bifreið hans nálgast á hraðri ferð. Með hliðsjón af þessu er óhjákvæmilegt að staðfesta sakarmat héraðsdóms með skírskotun til þeirra röksemda, sem þar koma fram. Brot ákærðu eru réttilega færð til refsiákvæða í ákæruskjali. Sérstök ástæða er til að árétta þá ályktun héraðsdóms, að það leysi hvorugan undan sök, að hinum hefði verið unnt með meiri gætni að afstýra því, að árekstur yrði.

Við ákvörðun refsingar ákærða Ólafs Ragnars verður að líta til þeirra þungbæru afleiðinga slyssins, að í því lést þunguð eiginkona hans, og varð barninu heldur ekki bjargað. Refsing ákærða, sem ákveðin er sem hegningarauki við sektardóm Héraðsdóms Vestfjarða frá 12. nóvember 1999 samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga, en fullnustu þeirrar refsingar skal fresta skilorðsbundið, eins og nánar greinir í dómsorði. Með hliðsjón af 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 verður ákærði sviptur ökurétti í eitt ár frá birtingu þessa dóms.

Refsing ákærða Sigþórs þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga og verði fullnustu hennar frestað skilorðsbundið, eins og segir í dómsorði. Þá verður ákærði sviptur ökurétti í sex mánuði frá birtingu þessa dóms, sbr. 101. gr. laga nr. 50/1987.

Í héraðsdómi hefur láðst að greina í dómsorði ákvörðun í forsendum um sakarkostnað, en á hana má fallast. Ákærðu skulu því greiða allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og á er kveðið í dómsorði, að undanskildum kostnaði vegna töku og greiningar blóðsýnis, er greiðist úr ríkissjóði.

Dómsorð:

Ákærði Ólafur Ragnar Jónsson sæti fangelsi í 60 daga. Fullnustu refsingarinnar skal fresta og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu þessa dóms, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningalaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði Ólafur Ragnar er sviptur ökurétti í eitt ár frá birtingu þessa dóms.

Ákærði Sigþór Gunnarsson sæti fangelsi í 60 daga. Fullnustu refsingarinnar skal fresta og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu þessa dóms, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði Sigþór er sviptur ökurétti í sex mánuði frá birtingu þessa dóms.

Ákærði Ólafur Ragnar greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði og fyrir Hæstarétti, Guðmundar Ágústssonar héraðsdómslögmanns, samtals 300.000 krónur.

Ákærði Sigþór greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði og fyrir Hæstarétti, Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 300.000 krónur.

Annan sakarkostnað á báðum dómstigum greiði ákærðu sameiginlega að undanskildum kostnaði vegna töku og greiningar blóðsýnis, er greiðist úr ríkissjóði.

                                                                       

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 4. apríl 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 6. f.m. að undangengnum munnlegum málflutningi, hefur sýslumaðurinn á Ísafirði höfðað hér fyrir dómi með ákæru þann 15. nóvember 1999 á hendur Ólafi Ragnari Jónssyni, kt. 070859-2899, Aðalstræti 2, Þingeyri og Sigþóri Gunnarssyni, kt. 010752-4779, Brekkugötu 26, sama stað,

„fyrir umferðarlagabrot og manndráp af gáleysi.

Ákærðu Ólafi Ragnari Jónssyni, ökumanni bifreiðarinnar GV-052, og Sigþóri Gunnarssyni, ökumanni bifreiðarinnar PR-568, er gefið að sök að hafa hinn 5. febrúar 1999, um klukkan 16:30, ekið bifreiðum sínum inn á einbreiða brú á þjóðvegi nr. 60 yfir Vaðal í Önundarfirði, of hratt og án nægjanlegrar aðgæslu, á hálum vegi, ákærði Ólafur Ragnar úr norðri og ákærði Sigþór úr suðri, með þeim afleiðingum, að bifreiðar þeirra skullu saman og farþegi í bifreiðinni GV-052, Sigrún Sverrisdóttir f. 26. nóvember 1966, lést samstundis af miklum innvortis áverkum sem og ófætt barn hennar.

Telst þetta varða við 1. mgr. og stafliði g. og h. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga og 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 108 gr. laga nr. 82/1998.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. laga nr. 50/1987.“

Ákærðu krefjast báðir sýknu.

Neyðarlínu var tilkynnt um ofangreint slys klukkan 16:29, þann 5. febrúar 1999.  Fyrstur lögreglumanna á vettvang, Bjarki Rúnar Skarphéðinsson, sem kom frá Ísafirði, segir í frumskýrslu að hann hafi komið þangað klukkan 16:42.  Farþegi í bifreiðinni GV-052, Sigrún Sverrisdóttir, var þá meðvitundarlaus og fann lög­reglu­­mað­­ur­inn hvorki púls né öndun hjá henni.  Klukkan 16:43 kom sjúkrabifreið og hófust lífgunartilraunir eftir að Sigrún heitin hafði verið færð yfir í hana.  Komu síðan á vettvang Elínborg Bárðardóttir læknir og Hörður Högnason hjúkrunar­fræðingur og Þorsteinn Jóhannesson yfirlæknir skömmu síðar.  Reynd var skurðað­gerð,  „laparo­tomia“ á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði, en 27 vikna gamalt fóstur reyndist andvana. Sigrún heitin var úrskurðuð látin klukkan 17:44.

Bifreiðin GV-052 var af gerðinni Toyota Carina, árgerð 1983, en bifreiðin PR-568 af gerðinni Toyota HiAce, árgerð 1998.

Að beiðni lögreglu voru bifreiðirnar slysaskoðaðar hjá Frumherja hf.  Samkvæmt skýrslum Jóhanns Magnússonar deildarstjóra um skoðunina var ástig á hemlafetil bifreiðarinnar GV-052 eðlilegt, hemlalagnir órofnar og hemlun afturhjóla í lagi.  Allur framendinn var mjög klesstur og framhjól og stýrisbúnaður fast­skorð­aður af þeim sökum.  Stýristúpa var brotin niður, en virtist í lagi.  Mynsturdýpt hjól­barða, u.þ.b. 3 mm, uppfyllti kröfur en naglar voru farnir að tínast úr.  Bifreiðin PR-568 var með brotinn stýrisöxul og hjól fastklemmd, auk þess sem loftpúði á stýri var uppblásinn.  Stýrisbúnaður virtist að öðru leyti í lagi.  Bifreiðin var búin nýlegum negldum snjóhjólbörðum.  Lagnir fyrir hemlabúnað voru órofnar, ástig á pedala í lagi og virkni að öðru leyti virtist í lagi.  Jóhann Magnússon kom fyrir dóm­inn við aðalmeðferð málsins og staðfesti skýrslur sína um skoðunina.  Tók hann fram að sér hefði virst að báðar bifreiðirnar hefðu verið í lagi fyrir áreksturinn.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var bjart veður á slysdegi og sólskin, þurrt en hálka.  Vegur á slysstað er með bundnu slitlagi.

Fyrir dóminn hafa verið lagðar myndir af vettvangi slyssins og afstöðumynd sem lögregla gerði.  Sjá má af myndunum að snjóföl var á vegi.  Af þeim sést að báðar bifreiðirnar voru mikið skemmdar að framan eftir áreksturinn.  Dómendur skoðuðu vettvang ásamt sakflytjendum og ákærðu áður en aðalmeðferð málsins hófst.

Brúin yfir Vaðal er einbreið sem kallað er, en vegurinn tvíbreiður.  Marka stutt vegrið sem tengjast handriðum brúarinnar veginn af þar sem hann mjókkar að brúnni beggja vegna. Miðað við uppdrátt lögreglunnar af vettvangi er lengd hvors handriðs u.þ.b. 26,4 m, en heildarlengd að vegriðum viðbættum u.þ.b. 41,2 m.  Bifreiðir ákærðu staðnæmdust eftir áreksturinn sunnan til á brúnni, þannig að miðað við teikninguna voru u.þ.b. 1,7 m frá suðurenda brúarhandriðs að afturenda bifreiðarinnar PR-568.  Á teikningunni eru sýnd hemlaför eftir bifreiðina GV-052, u.þ.b. 25 m löng.  Ekki greindust hemlaför eftir bifreiðina PR-568.  Sú bifreið var búin svokölluðu ABS hemlakerfi, sem á að hafa þann eiginleika að hjól læsist ekki þegar hemlað er.

Ákærði Ólafur skýrði svo frá tildrögum slyssins hér fyrir dómi að hann hefði verið að koma að brúnni er hann hefði séð sendibíl koma á móti.  Hefði ákærði verið kominn miklu nær en sá bíll.  Hefði ákærði verið að koma að brúnni er hann hefði séð að ekki hefði verið dregið úr ferð bílsins á móti.  Hefði ákærði hemlað og verið numinn staðar er áreksturinn hefði orðið.  Sagði hann að bifreið sín hefði lent utan í handriði brúarinnar.  Spurður um hraða kvaðst hann hafa ekið á um 70-80 km hraða.  Hefði hann talið sig eiga brúna, þar sem svo langt hefði verið í bifreiðina sem kom á móti, sem hann kvaðst aðspurður telja að hefði átt eftir u.þ.b. 50-100 m að brúnni er hann hefði sjálfur verið að aka inn á hana.

Ákærði Sigþór lýsti atvikum svo að hann hefði verið að koma yfir svokallaðan Vaðal, sem sé hæð fyrir innan brúna, er hann hefði séð bíl vera að koma yfir stóru Önundarfjarðarbrúna.  Hefði hann ekki gætt meira að því að sinni, enda hefði enn verið langt að brúnni.  Er hann hefði komið í slakkann rétt áður en að brúnni hefði komið, hefði hann séð að enn hefði verið langt í bílinn á móti.  Hefði hann samt hægt ferðina niður í svona 70 km hraða og verið svona að meta aðstæður.  Góður spölur hefði verið í bílinn á móti og hann verið á réttum vegar­helmingi að því er virst hefði.  Er hann hefði verið að koma að vegriðinu, þá hefði farþegi sinn þekkt bílinn á móti og kallað upp yfir sig að þarna væri Ólafur að koma.  Sér hefði brugðið við og fyrstu viðbrögð sín hefðu verið að hemla.  Hefði hann náð að stöðva bifreið sína u.þ.b. inni á miðri brú, en engum togum hefði skipt að bifreiðin á móti hefði komið á mikilli ferð og þær skollið saman á brúnni.  Aðspurður kvaðst hann telja að bifreið meðákærða hefði komið á dágóðum hraða, því hún hefði nálgast brúna mun hraðar en hann, þótt hann gæti ekki sagt til um hversu mikill hraðinn hefði verið.  Spurður um ökuhraða sinn á leiðinni frá Þingeyri í þessari ferð kvaðst hann yfirleitt hafa ekið á um 90 km hraða.  Hefði veður verið gott, bifreið hans vel útbúin og aðstæður leyft að ekið væri á hámarkshraða.

Vitnið Kristján Bjarnason var farþegi í bifreið ákærða Sigþórs og sat frammi í henni, við hlið ákærða.  Sagði hann að ákærði hefði fyrst veitt því eftirtekt og bent sér á það, er þeir hefðu verið að koma ofan af Gemlufallsheiði að bifreið kæmi á móti, sem hefði farið fremur geyst.  Hefði þá verið langt á milli bifreiðanna.  Hefði hann ekki áttað sig á því hvaða bíll væri þarna á ferð fyrr en rétt fyrir áreksturinn.  Erfitt væri á að giska hve langt hann hefði þá verið frá brúnni, en þó nokkuð.  Ákærði Sigþór hefði slegið af hraða töluvert áður en að brúnni hefði komið.  Vitnið tók fram að sér hefði alltaf fundist að þeir væru mikið nær brúnni og á minni ferð.  Sérstaklega aðspurt hvort það hefði haft orð á því hver væri að koma á móti kvaðst það ekki muna hvort það hefði kallað upp að þetta væri Óli, eða eitthvað í þá veru, en hélt þó ekki.  Vitnið kvaðst hafa talið að þeir ákærði Sigþór yrðu fyrri til að fara yfir brúna.  Hvorugur bílanna hefði verið kominn inn á hana er vitnið hefði gert sér grein fyrir því að þeir myndu rekast á.  Hefði bíll ákærða Sigþórs þá verið rétt ókominn að brúnni og hinn bíllinn eitthvað aðeins lengra frá.  Kvaðst vitnið ekki geta giskað á þessar fjarlægðir í metrum eða bíllengdum.  Vitnið hafði neytt áfengis fyrr þennan dag og kvaðst þá hafa drukkið „góðan slatta ofan í dálítið stórt glas“, sem það taldi að hefði verið góður tvöfaldur skammtur af vodka, blandað kóki.  Þessa kvaðst vitnið neytt u.þ.b. hálfri til einni klukkustund áður en lagt var af stað frá Þingeyri.  Hefði vitnið e.t.v. fundið til örlítilla áfengisáhrifa.  Kvaðst það þó telja sig hafa verið með fullri dómgreind er áreksturinn varð.

Vitnin Þorleifur Kristján Sigurðarson og Arnheiður Ingibjörg Svan­bergs­dóttir voru á ferð í bifreið þennan dag, sem fyrrnefnda vitnið ók og mættu ákærða Ólafi, sem þau þekktu bæði, er þau voru rétt komin yfir brúna yfir Vöðin í Önundarfirði.  Báru þau bæði að þeim hefði þótt ákærði víkja mjög illa og vera á mikilli ferð, sem þau áætluðu að hefði verið um 100 km/klst.

Skömmu síðar, og rétt áður en áreksturinn varð, mættu vitnin Páll Aðal­steinn Svansson, sem ók 11 tonna fiskflutningabíl og Guðrún Anna Finnbogadóttir, sem var farþegi með honum, ákærða Ólafi, við afleggjarann að Holti í Önundarfirði, að því er fyrrnefnda vitnið sagði.  Hvorugt vitnið mundi til þess að ákærði hefði þá ekið óeðlilega hratt eða að erfitt hefði verið að mæta honum. 

Auk þeirra vitna sem þegar hefur verið getið gáfu skýrslu­r fyrir dómi vitnin Ingi­björg Jónsdóttir húsmóðir, Þorsteinn Jóhannesson yfirlæknir, lækn­arnir Elín­borg Bárðardóttir og Ólafur Þór Gunnarsson, Hörður Högnason hjúkrunar­fræð­ingur og lögreglumennirnir Bjarki Rúnar Skarphéðinsson, Jóhann Sólmundur Andrés­­son, Hlynur Snorrason, Unnar Már Ástþórsson og Jón Svanberg Hjartarson.   Ekki þykir ástæða til að rekja efni skýrslna þeirra hér.

Verjandi ákærða Ólafs hefur vakið athygli á rauðum flekk, sem sést á mynd­um af vettvangi að er í snjónum framarlega við vinstri hlið bifreiðarinnar PR-568.  Ekkert liggur fyrir um það með vissu úr hverju hann hefur myndast og þykja engar ályktanir verða dregnar af honum um tildrög eða atvik slyssins.

Ekki eru aðrir til frásagnar um tildrög slyssins en ákærðu sjálfir og vitnið Kristján Bjarnason.  Þótt í skýrslum vitnanna Þorleifs Kristjáns Sigurðarsonar og Arnheiðar Ingibjargar Svanbergsdóttur komi fram að ákærði Ólafur hafi ekið hratt og vikið illa fyrir umferð á móti áður en hann kom að brúnni yfir Vöð í Ön­undarfirði, verður að líta til þess að vitnin Páll Svansson og Guðrún Finnbogadóttir, sem mættu honum síðar, minntust þess ekki að hafa séð neitt athugavert við aksturslag hans.

Vel sést til umferðar á móti, úr hvorri átt sem komið er að brúnni yfir Vaðal, enda kemur fram í skýrslum ákærðu að hvor um sig sá til ferða hins.  Ákærði Ólafur kveðst hafa talið sig „eiga“ brúna, í þeim skilningi að hann hefði komið fyrr að henni.  Samkvæmt skýrslu hans ók hann óhikað að henni á um 70-80 km hraða á klukkustund, en hemlaði er hann sá að með­ákærði myndi fara inn á brúna.  Varð slysi þá ekki afstýrt.  Þegar litið er til skýrslu vitnisins Kristjáns Bjarna­sonar, sem er í samræmi við skýrslu ákærða Sigþórs, þess efnis að bifreið ákærða Sigþórs hefði átt skemmra að brúnni er þeir nálguðust, verður að telja að ákærði Ólafur hafi ofmetið verulega forskot sitt að brúnni.  Þykir hann hafa sýnt af sér gáleysi miðað við aðstæður með því að draga ekki úr ferð er hann kom að brúnni og sá bifreið koma á móti, og vera reiðubúinn að nema staðar áður en að brúnni kæmi, uns hann gæti verið alveg viss um að sér væri óhætt að aka fyrr yfir hana.  Verður því að fallast á það með ákæruvaldinu að hann hafi ekið of hratt og án nægjanlegrar aðgæslu, með þeim afleiðingum sem í ákæru eru greindar. 

Ákærði Sigþór Gunnarsson er atvinnubifreiðarstjóri og veginum kunn­ugur.  Í framburði hans og vitnisins Kristjáns Bjarnasonar kemur fram að hann sá til ferða meðákærða löngu áður en að brúnni var komið.  Kom fram í skýrslu vitnisins Kristjáns að meðákærði hefði þá farið geyst.  Bar ákærða að sýna sérstaka aðgæslu, er komið var að mjórri brú, með tilliti til þess að bifreið var ekið hratt á móti.  Ákærði, sem kveðst yfirleitt hafa ekið á um 90 km hraða á klukkustund í ferðinni frá Þingeyri þennan dag, kveðst hafa dregið úr ferð er hann nálgaðist brúna og metið aðstæður.  Með því að hann ók þrátt fyrir þetta inn á brúna og hugðist verða fyrri yfir hana en meðákærði, verður að telja að hann hafi vanmetið verulega fjar­lægð bifreiðar meðákærða miðað við hraða hennar.  Verður að fallast á það með á­kæru­­valdinu að hann hafi þannig sýnt af sér gáleysi með því að aka of hratt að brúnni miðað við aðstæður og án nægilegrar að­gæslu, með þeim afleiðingum sem í ákæru eru greindar.

Samkvæmt ofansögðu verður að sakfella báða ákærðu fyrir þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákærunni og varðar við þargreind ákvæði umferðar- og hegningarlaga.  Leysir það hvorugan undan sök að hinum hefði verið unnt með meiri gætni að afstýra því að árekstur yrði. 

Sakaferill ákærða Ólafs skiptir ekki máli við ákvörðun refsingar hans að öðru leyti en því að hana ber að tiltaka sem hegningarauka við dóm Héraðsdóms Vestfjarða frá 12. nóvember sl., þar sem hann var dæmdur til greiðslu 40.000 króna sektar fyrir fíkniefnabrot.  Ákærði missti í slysinu þungaða eiginkonu sína.  Með hlið­­sjón af þeim sjónarmiðum sem rakin eru í c. lið 2. mgr. 113. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður honum ekki gerð sérstök refsing í máli þessu.  Eru þá ekki efni til að svipta hann ökurétti jafnframt.

Ákærði Sigþór hefur ekki sætt refsingum áður.  Refsing hans þykir hæfilega ákveð­in 100.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 20 daga fangelsi í stað hennar, verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja.  Með vísun til 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga verður ákærði sviptur ökurétti í sex mánuði frá birtingu dómsins.

Dæma ber ákærða Ólaf til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guð­mundar Ágústssonar, hdl., kr. 180.000 og ákærða Sigþór til að greiða máls­varnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar G. Guðjónssonar, hrl., kr. 180.000.

Rétt er að kostnaður af töku og greiningu blóðsýnis falli á ríkissjóð, en annan sakarkostnað verða ákærðu dæmdir til að greiða óskipt.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri, ásamt héraðs­dóm­ur­unum Arngrími Ísberg og Hirti O. Aðalsteinssyni.  Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómsformanns og meðdómenda.

 

Dómsorð:

Ákærða Ólafi Ragnari Jónssyni er ekki gerð sérstök refsing í máli þessu.

Ákærði Sigþór Gunnarsson greiði 100.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms, en sæti ella 20 daga fangelsi.

Ákærði Sigþór er sviptur ökurétti í sex mánuði frá birtingu þessa dóms að telja.

Ákærði Ólafur greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Ágústs­­sonar hdl., kr. 180.000.

Ákærði Sigþór greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar G. Guð­jónssonar, hrl., kr. 180.000.

Kostnaður af töku og greiningu blóðsýnis greiðist úr ríkissjóði.  Ákærðu greiði annan sakarkostnað óskipt.