Hæstiréttur íslands

Mál nr. 146/2014


Lykilorð

  • Skilasvik
  • Ákæra
  • Frávísun frá héraðsdómi


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 4. desember 2014.

Nr. 146/2014.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Kristján Stefánsson hrl.)

(Magnús Hrafn Magnússon hrl. f.h. bótakrefjanda)

Skilasvik. Ákæra. Frávísun máls frá héraðsdómi.

X var ákærður fyrir skilasvik með því að hafa sem stjórnarformaður og framkvæmdastjóri A ehf. tekið ákvörðun um og beint þeirri ósk til viðskiptamanna félagsins að þeir myndu greiða andvirði vörureikninga inn á bankareikning félagsins við A hf. þótt hann hefði áður samkvæmt handveðsyfirlýsingu og þremur tryggingarbréfum verið búinn að skuldbinda félagið til að láta greiðsluandvirði vörureikninganna renna inn á reikning A ehf. í L hf. X var sakfelldur í héraði og gert að sæta fangelsi í 12 mánuði en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Í dómi Hæstaréttar var rakið að hvorki í handveðsyfirlýsingunni né í tryggingarbréfunum væri kveðið á um þá skyldu A ehf. sem veðsala að ráðstafa andvirði vörureikninganna eða tilkynna viðskiptamanni að greiða kröfur inn á reikning félagsins hjá L hf. Var ákæran því í veigamiklum atriðum í ósamræmi við þau gögn er lágu fyrir við útgáfu hennar og hún var reist á. Taldi Hæstiréttur slíka annmarka á ákærunni að vísa bæri málinu frá héraðsdómi, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. febrúar 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að máli þessu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, en að því frágengnu að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Þá krefst ákærði þess aðallega að skaðabótakröfu Landsbankans hf. verði vísað frá dómi, en til vara sýknu af henni.

Landsbankinn hf. krefst þess að ákærði greiði sér 58.380.491 krónu með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. október 2010 til 1. mars 2013, en dráttarvöxtum eftir 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Í máli þessu eru ákærða gefin að sök skilasvik samkvæmt 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hafi hann sem stjórnarformaður og framkvæmdastjóri A ehf. í lok september 2010 tekið ákvörðun um og beint þeirri ósk til viðskiptamanna félagsins að þeir myndu eftirleiðis greiða andvirði vörureikninga inn á bankareikning félagsins við Arion banka hf., nr. [...]-[...]-[...]02. Þetta hafi ákærði gert þótt hann hafi áður samkvæmt handveðsyfirlýsingu, útgefinni af A ehf. 19. júní 2008 um handveð í innstæðu bankareiknings nr. [...]-[...]-[...]49, til tryggingar á öllum skuldum veðsalans A ehf. gagnvart Landsbanka Íslands hf., verið búinn að skuldbinda félagið til að láta greiðsluandvirði vörureikninganna renna inn á reikning A ehf. í Landsbanka Íslands hf. nr. [...]-[...]-[...]49, sem handveðsettur hafi verið bankanum. Þá hafi ákærði fyrir hönd A ehf. sett að veði vörureikningana hjá Landsbanka Íslands hf. samkvæmt þremur nánar tilgreindum tryggingarbréfum, sem öll hafi kveðið á um skyldu veðsala til að tilkynna viðskiptamanni samkvæmt vörureikningi um skyldu hans til að greiða kröfur samkvæmt vörureikningi inn á framangreindan reikning A ehf. í Landsbanka Íslands hf. Í samræmi við ákvæði tryggingarbréfanna um greiðslustað skuldara vörureikninga, sem Landsbanki Íslands hf. hafi samþykkt og var bankareikningur A ehf. í bankanum nr. [...]-[...]-[...]49, hafi greiðslur borist inn á reikninginn allt fram til loka september 2010. Með þessari háttsemi sinni hafi ákærði ráðstafað fjármunum, sem NBI hf. hafði eignast réttindi yfir samkvæmt framangreindum tryggingarbréfum, og fólu í sér vörureikningsveð í samræmi við 47. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð, og þær ráðstafanir verið ósamrýmanlegar réttindum bankans sem veðhafa. Hafi ákærði með háttsemi sinni skert rétt NBI hf. til fullnustu krafna sem bankinn hafði öðlast réttindi yfir með því að tilkynna viðskiptamönnum um nýjan greiðslustað vörureikninga hjá Arion banka hf., án þess að tilkynna um það til NBI hf., og hafi kröfunum þannig verið skotið undan fullnustu bankans. Voru greiðslur, sem þannig hafi runnið inn á umræddan reikning A ehf. í Arion banka hf., sagðar í ákæru hafa numið 71.537.709 krónum, en fjárhæðin var lækkuð í 58.380.491 krónu við upphaf aðalmeðferðar málsins. 

II

Samkvæmt tryggingarbréfi um vörureikningsveð eftir 47. gr. laga nr. 75/1997, sem ákærði ritaði undir 18. janúar 2006 fyrir hönd A ehf. sem veðsala og þinglýst var 22. janúar 2007, skuldbatt veðsali sig, til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum við bankann allt að fjárhæð 30.000.000 krónur, að veðsetja með fyrsta veðrétti allar almennar kröfur samkvæmt vörureikningum. Í bréfinu var kveðið á um að veðsala væri skylt að tilkynna skuldara vörureiknings um skyldu hans til að greiða slíkan reikning á ákveðinn hátt sem bankinn samþykkti er skyldi tryggja að hann fengi greiðslu vörureiknings sem veðhafi.

Í öðru tryggingarbréfi um allsherjarveð, sem ákærði ritaði undir 30. nóvember 2007 fyrir hönd veðsalans A ehf. og þinglýst var 5. desember sama ár, var meðal annars kveðið á um veð í vörureikningum félagsins. Skuldbatt veðsali sig þar, til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum við Landsbanka Íslands hf. allt að fjárhæð 70.000.000 krónur, að veðsetja með „öðrum (þriðja)“ veðrétti og uppfærslurétti allar almennar kröfur samkvæmt vörureikningum. Var veðsala skylt að tilkynna skuldara vörureiknings um skyldu hans til að greiða reikninginn á ákveðinn hátt sem bankinn samþykkti og skyldi tryggja að hann fengi greiðslu reikningsins sem veðhafi.

Eftir þriðja tryggingarbréfinu, sem kvað á um allsherjarveð og ákærði ritaði undir 12. mars 2008 fyrir hönd umrædds einkahlutafélags og þinglýst var 14. sama mánaðar, skuldbatt A ehf. sig, til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum við Landsbanka Íslands hf. allt að fjárhæð 200.000.000 krónur, að veðsetja með fimmta veðrétti og uppfærslurétti allar almennar kröfur samkvæmt vörureikningum, sem veðsali átti eða myndi eignast síðar. Á sama hátt og í fyrrgreindum tryggingarbréfum skuldbatt veðsali sig til að tilkynna skuldara vörureiknings um skyldu hans til að greiða reikninginn á ákveðinn hátt sem bankinn samþykkti og tryggja skyldi að hann fengi greiðslu reikningsins sem veðhafi.

Þá er meðal gagna málsins viðskiptasamningur 30. júlí 2008 milli A ehf. og Landsbanka Íslands hf., þar sem fram kom að bankinn hefði samþykkt að veita félaginu „rekstrarfjármögnun í formi reikningslánalínu til fjármögnunar á viðskiptakröfum að fjárhæð allt að kr. 68.000.000 ... með þeim skilyrðum og skilmálum sem fram koma í samningi þessum“. Skyldu útgreiðslur fara fram með þeim hætti að bankinn veitti yfirdráttarlán (reikningslán) að fyrrgreindri fjárhæð á reikningi félagsins nr. [...]-[...]-[...]49. Yrði reikningurinn stofnaður sem þjónustureikningur í nafni félagsins, en í umsjón bankans. Þá var kveðið á um það í samningnum að bankinn skyldi greiða yfirdráttarlán samkvæmt honum inn á tilgreindan ráðstöfunarreikning A ehf. Enn fremur sagði þar að fram til þess tíma að samningurinn félli úr gildi eða væri sagt upp og veitt yfirdráttarlán að fullu endurgreitt skuldbyndi félagið sig meðal annars til að beina innheimtu allra veðsettra vörureikninga í gegnum innheimtukerfi bankans. Jafnframt skuldbatt félagið sig til að trufla ekki eða koma í veg fyrir að hinar útistandandi kröfur væru greiddar beint og milliliðalaust inn á áðurnefndan þjónustureikning. Bærust greiðslur af einhverjum ástæðum til félagsins með öðrum hætti skuldbyndi það sig til þess að hafa án tafar samband við bankann og sjá til þess að fjárhæðin yrði lögð inn á umræddan þjónustureikning. Að lokum var kveðið á um að A ehf. tækist á herðar þá skyldu að allir útsendir greiðsluseðlar og vörureikningar yrðu áritaðir með tilteknum hætti og að skuldari leystist aðeins undan greiðsluskyldu sinni með greiðslu inn á þjónustureikninginn. Viðaukar voru gerðir við samninginn 22. júlí 2009, 26. október sama ár, svo og 20. janúar 2010 og 28. júlí sama ár. Hinn 2. september 2010 var gildistími samningsins loks framlengdur til 15. sama mánaðar og rann út þann dag. 

Samkvæmt handveðsyfirlýsingu 19. júní 2008 setti A ehf. Landsbanka Íslands hf. að handveði innstæðu á fyrrnefndum þjónustureikningi í bankanum, nr. [...]-[...]-[...]49, eins og hún væri á hverjum tíma.

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 tók NBI hf., sem nú ber heitið Landsbankinn hf., yfir réttindi og skyldur Landsbanka Íslands hf. samkvæmt framangreindum tryggingarbréfum, viðskiptasamningi og handveðsyfirlýsingu.

III

Eins og rakið hefur verið er ákærða gefið að sök að hafa í lok september 2010 tekið ákvörðun um og beint þeirri ósk til viðskiptamanna A ehf. að þeir myndu eftir það greiða andvirði vörureikninga inn á tilgreindan reikning í Arion banka hf. „þrátt fyrir að ákærði hafi áður, samkvæmt handveðsyfirlýsingu útgefinni af A ehf. þann 19. júní 2008, um handveð í innstæðu bankareiknings nr. [...]-[...]-[...]49, til tryggingar á öllum skuldum veðsalans A ehf. gagnvart Landsbanka Íslands hf., nú NBI hf., verið búinn að skuldbinda félagið til að láta greiðsluandvirði vörureikninganna renna inn á reikning A ehf. í Landsbanka Íslands hf. ... nr. [...]-[...]-[...]49“.

Í handveðsyfirlýsingu þeirri, sem um ræðir í ákæru og áður hefur verið gerð grein fyrir,  er ekki fyrir að fara neinni skuldbindingu um ráðstöfun andvirðis vörureikninga A ehf. inn á þann reikning félagsins hjá Landsbanka Íslands hf. sem vísað er til í ákæru eða annan reikning í eigu bankans. 

Þá er ákæran reist á því að ákærði hafi fyrir hönd A ehf. „sett að veði vörureikningana hjá Landsbanka Íslands hf., samkvæmt þremur tryggingabréfum, ... sem öll kváðu á um skyldu veðsala að tilkynna viðskiptamanni samkvæmt vörureikningi um skyldu hans til að greiða kröfur samkvæmt vörureikningi inn á umræddan reikning A ehf. í Landsbanka Íslands hf.“ Jafnframt er áréttað í ákærunni að í „samræmi við ákvæði tryggingabréfanna um greiðslustað skuldara vörureikninga sem Landsbanki Íslands hf. hafði samþykkt, og var bankareikningur A ehf. í Landsbanka Íslands hf. nr. [...]-[...]-[...]49“.

Efni þeirra þriggja tryggingarbréfa, sem tilgreind eru í ákæru, hefur áður verið rakið. Í engu þeirra er kveðið á um þá skyldu A ehf. sem veðsala að tilkynna viðskiptamanni samkvæmt vörureikningi að greiða kröfur inn á reikning félagsins hjá Landsbanka Íslands hf. nr. [...]-[...]-[...]49.

Samkvæmt framansögðu er ákæran í veigamiklum atriðum í ósamræmi við þau gögn er lágu fyrir við útgáfu hennar og hún er reist á. Verður því að telja slíka annmarka á ákærunni að vísa verður málinu frá héraðsdómi, sbr. 1. málslið 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 14. október 2004 í máli nr. 142/2004.

Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins verður lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða í einu lagi að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða í héraði og fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 2.510.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2014.

I

                Mál þetta, sem dómtekið var 16. janúar síðastliðinn, var höfðað með ákæru sérstaks saksóknara, útgefinni 17. janúar 2013, á hendur X, kt. [...], [...], [...], „fyrir skilasvik, framin af ákærða X stjórnarformanni og framkvæmdastjóra einkahlutafélagsins A ehf., kennitala [...] ,,með því að hafa í lok septembermánaðar 2010 tekið ákvörðun um og beint þeirri ósk til viðskiptamanna félagsins, að þeir myndu eftirleiðis greiða andvirði vörureikninga inn á bankareikning félagsins við Arion banka hf. númer [...]-[...]-[...]02, þrátt fyrir að ákærði hafi áður, samkvæmt handveðsyfirlýsingu útgefinni af A ehf. þann 19. júní 2008, um handveð í innstæðu bankareiknings nr. [...]-[...]-[...]49, til tryggingar á öllum skuldum veðsalans A ehf. gagnvart Landsbanka Íslands hf., nú NBI hf., verið búinn að skuldbinda félagið til að láta greiðsluandvirði vörureikninganna renna inn á reikning A ehf. í Landsbanka Íslands hf., kt. [...], nú NBI hf., kt. [...], númer [...]-[...]-[...]49, sem handveðsettur var Landsbanka Íslands hf. Þá hafði ákærði fyrir hönd A ehf. sett að veði vörureikningana hjá Landsbanka Íslands hf., samkvæmt þremur tryggingabréfum, númer [...]-[...]-[...]99, útgefnu þann 18. janúar 2008, númer [...]-[...]-[...]53, útgefnu þann 30. nóvember 2007 og númer [...]-[...]-[...]43 útgefnu þann 12. mars 2008, sem öll kváðu á um skyldu veðsala að tilkynna viðskiptamanni samkvæmt vörureikningi um skyldu hans til að greiða kröfur samkvæmt vörureikningi inn á umræddan reikning A ehf. í Landsbanka Íslands hf.

Í samræmi við ákvæði tryggingabréfanna um greiðslustað skuldara vörureikninga sem Landsbanki Íslands hf. hafði samþykkt, og var bankareikningur A ehf. í Landsbanka Íslands hf. nr. [...]-[...]-[...]49, og prentað var á alla greiðsluseðla A ehf. sem viðskiptamenn vörureikninga fengu og greiddu samkvæmt, allt fram til loka septembermánaðar 2010, bárust greiðslur inn á áður nefndan bankareikning A ehf. hjá Landsbanka Íslands hf.

Með framangreindri háttsemi ráðstafaði ákærði fjármunum sem NBI hf., hafði eignast réttindi yfir samkvæmt framangreindum tryggingabréfum og fólu í sér vörureikningsveð í samræmi við 47. gr. laga nr. 75/1997, og voru þær ráðstafanir ósamrýmanlegar réttindum bankans sem veðhafa. Með háttsemi sinni skerti ákærði rétt NBI hf., til fullnustu krafna sem bankinn hafði öðlast réttindi yfir með því að tilkynna viðskiptamönnum um nýjan greiðslustað vörureikninga hjá Arion banka án þess að tilkynna um það til NBI hf., og var kröfunum þannig skotið undan fullnustu NBI hf. Námu greiðslur greiddar af viðskiptamönnum A ehf. inn á reikning félagsins í Arion banka hf. nr. [...]-[...]-[...]02, á tímabilinu 30. september 2010 til og með 18. nóvember 2010, samtals 71.537.709 krónum, sem þar með skiluðu sér ekki inn á hinn handveðsetta reikning A ehf. við NBI hf. Með ráðstöfuninni skerti ákærði rétt NBI hf. og annarra lánadrottna til að öðlast fullnægju í eignum þrotabúsins lánadrottnum til tjóns, en A ehf. var úrskurðað gjaldþrota hinn 18. nóvember 2010.

Telst framangreind háttsemi varða við 2. -  4. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Í málinu gerir Landsbankinn hf., kt. [...], bótakröfu úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 71.537.409 auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. október 2010 þar til mánuður er liðinn frá því ákærða var kynnt bótakrafa þessi, en dráttarvaxta skv. 9. gr., sbr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi auk virðisaukaskatts á málskostnað.“

Við upphaf aðalmeðferðar lækkaði ákæruvaldið fjárhæð í ákæru í 58.380.491 krónu.

Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Þess er krafist að bótakröfunni verði vísað frá dómi. Verjandi ákærða krefst ekki málsvarnarlauna verði ákærði sakfelldur en verði hann sýknaður krefst hann málsvarnarlauna úr ríkissjóði. Þess er og krafist að annar sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

II

                Málavextir eru þeir að með bréfi 10. mars 2011 kærði NBI hf. ákærða til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra fyrir skilasvik. Í kærunni er því lýst að A ehf., en ákærði hafi verið stjórnarformaður og framkvæmdastjóri félagsins, hafi verið árum saman í viðskiptum við Landsbankann. Til tryggingar lánum er bankinn veitti félaginu hefðu verið gefin út framangreind tryggingarbréf. Öll hafi tryggingarbréfin átt það sameiginlegt að hafa verið til tryggingar öllum fjárskuldbindingum félagsins við bankann, hvaða nöfnum sem þær nefndust. Í samræmi við ákvæði í framangreindu tryggingarbréfi nr. [...]-[...]-[...]99 hafi A ehf. verið skylt að tilkynna skuldurum vörureikninga félagsins að þeim bæri að greiða þá inn á framangreindan reikning í Landsbankanum. Innstæður á þessum reikningi hafi einnig verið handveðsettar bankanum. Skuldarar félagsins hafi greitt reikningana inn á þennan reikning allt þar til haustið 2010, en þá hafi tekið að halla undan fæti hjá félaginu. Bankinn hafi þá séð ástæðu til að ítreka við viðskiptamenn félagsins að þeim bæri að greiða inn á reikninginn. Í lok september 2010 hafi félagið beint því til viðskiptavina sinna að þeir greiddu skuldir sínar inn á framangreindan reikning í Arion banka. Þeir hefðu gert það og afleiðingin hefði orðið sú að bankinn hefði ekki fengið það fé inn á nefndan reikning, sem honum bar samkvæmt samningum félagsins og bankans.

                Í kærunni kemur fram að kærandi hafi yfirtekið réttindi og skyldur Landsbanka Íslands 9. október 2008. A ehf. var úrskurðað gjaldþrota 18. nóvember 2010.

                Í greinargerð kæranda með bótakröfunni kemur fram að frá því að því var beint til viðskiptamanna A ehf. í lok september 2010 og þar til félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota hafi samtals 71.537.409 krónur verið greiddar inn á reikning félagsins í Arion banka. Við upphaf aðalmeðferðar var bótakrafan lækkuð í 58.380.491 krónu.

                Í greinargerð ákærða er því haldið fram að viðskipti félagsins og Landsbankans hafi grundvallast á samningi frá 30. júlí 2008 er gilt hafi til 10. júní 2009. Hann hafi síðan verið framlengdur en NBI hf. hafi fellt hann niður 15. september 2010. Eftir að viðskiptum félagsins við NBI hf. hafi lokið hefði það óskað eftir því að andvirði vörureikninga væri lagt inn á framangreindan reikning í Arion banka. Inneign á þeim reikningi, eins og aðrar eignir félagsins, hafi verið til tryggingar öllum skuldum þess og hafi verið veðsettar NBI hf.

III

                Við aðalmeðferð bar ákærði að A ehf. hefði verið í viðskiptum við Landsbankann og haft samning við hann um kröfukaup frá 2007. Í samningnum hafi verið gert ráð fyrir allt að 68 milljóna króna yfirdrætti á móti kröfukaupum sem bankinn hafi metið hverju sinni. Félagið hafi yfirleitt haldið sig innan þeirra marka. Sumarið 2010 hafi bankinn farið að krefjast frekari trygginga og þá hafi samningnum verið breytt þannig að hann gilti aðeins til 15. september 2010. Félagið hafi óskað eftir því að hann yrði framlengdur til áramóta, enda væri það með áætlanir um framtíðarrekstur. Þessu hefði bankinn hafnað og lokað reikningnum fyrir úttektum, en áfram hefðu borist greiðslur inn á reikninginn frá viðskiptavinum félagsins. Í lok september 2010 kvað ákærði hafa verið rætt hjá félaginu hvað taka ætti til bragðs í framhaldi af lokun reikningsins til að það gæti staðið við skuldbindingar sínar. Niðurstaðan hafi orðið sú að nota reikning er félagið hafi átt í Arion banka, sem reyndar hafi verið veðsettur Landsbankanum. Ákærði kvað hafa verið óskað eftir því við viðskiptamenn félagsins að þeir legðu inn á reikninginn í Arion banka og hefðu þeir gert það. Hann kvað félagið hafa orðið að fara í viðskipti við annan banka þar sem það átti opinn reikning, enda hafi Landsbankinn verið búinn að slíta viðskiptasambandinu við félagið. Ákærði kvað vörureikninga, sem gefnir höfðu verið út fyrir slitin, hafa verið veðsetta Landsbankanum, en greiðslu reikninga, sem gefnir voru út eftir slitin, hafi félagið mátt beina inn á annan reikning.

Starfsmaður fyrirtækjasviðs Landsbankans, bar að hafa séð um svokallaða kröfufjármögnun A ehf. hjá bankanum. Félagið hafi gefið út greiðsluseðla til viðskiptavina sinna á grundvelli reikninga fyrir vörur er það hafði selt þeim. Þessar kröfur hafi verið stofnaðar í bankanum og hafi bankinn síðan lánað félaginu með veði í kröfunum, eftir að hafa metið veðhæfni þeirra. Félagið hafi fengið yfirdrátt á reikningi eftir því sem bankinn mat veðhæfni krafnanna. Þetta hafi verið á grundvelli samnings bankans og félagsins. Hann kvað bankastarfsmenn hafa rennt grun í að greiðslur fyrir kröfur, sem bankinn hafði lánað út á, rynnu inn á reikning í öðrum banka. Í framhaldinu hefði samningnum við A ehf. verið sagt upp.

Lögfræðingur hjá Landsbankanum bar að grunur hafi vaknað í bankanum um að viðskiptavinir A ehf. greiddu veðsettar kröfur til annars banka. Við því hefði meðal annars verið brugðist með því að senda þeim bréf og minna þá á skyldu sína að greiða kröfurnar til Landsbankans. Að öðru leyti gat hann lítið upplýst um ákæruefnið.

Fyrrum starfsmaður Landsbankans, sem hafði unnið við að endurskipuleggja fyrirtæki í skuldavanda, bar að grunur hefði vaknað um að ákærði léti viðskiptavini sína greiða kröfur, sem Landsbankinn átti veð í, inn á reikning í öðrum banka. Í framhaldinu hefði bankinn slitið viðræðum við ákærða. Hann kvað bankann hafa sent viðskiptavinum A ehf. bréf þar sem þeim hafi verið skýrt frá því að kröfurnar væru veðsettar bankanum.

Við aðalmeðferð gáfu þrír fyrrum starfsmenn A ehf. skýrslu. Tveir þeirra kváðust ekki hafa haft nein samskipti við bankana en sá þriðji bar að Landsbankinn hefði lokað fyrir „kröfupottinn“ eins og hún orðaði það. Hún kvað kröfur hafa haldið áfram að greiðast inn á reikninginn í Landsbankanum en hann hafi verið lokaður fyrirtækinu, með öðrum orðum hafi reikningurinn aðeins verið opinn í annan endann. Hún kvaðst ekki vita af hverju Landsbankinn hefði lokað reikningnum og heldur ekki vita hver hefði ákveðið að láta viðskiptavini greiða inn á reikning í Arion banka.

IV

Meðal gagna málsins er viðskiptasamningur sem A ehf. gerði við Landsbankann 30. júlí 2008. Samkvæmt samningnum skuldbatt bankinn sig til að veita félaginu allt að 68 milljóna króna yfirdráttarlán með nánar tilgreindum skilyrðum. Upphaflega gilti samningurinn til 10. júní 2009 en hann var síðan framlengdur til 15. september 2010. Til tryggingar greiðslu lánsins setti félagið bankanum að veði ógreidda vörureikninga, en það skuldbatt sig til að beina innheimtu þeirra í gegnum innheimtukerfi bankans. Þá skuldbatt félagið sig til að sjá til þess að allir útsendir greiðsluseðlar og vörureikningar yrðu áritaðir með eftirfarandi texta: „Krafa samkvæmt greiðsluseðli þessum og meðfylgjandi vörureikningi hefur verið veðsett Landsbanka Íslands hf. Skuldari leysist aðeins undan greiðsluskyldu sinni með greiðslu inn á reikning nr. [...]-[...]-[...]49, kt. [...] hjá Landsbanka Íslands hf. Annar greiðslumáti en fram kemur á seðlinum er óheimill”. Samkvæmt samningnum gilti þessi skuldbinding þar til samningurinn félli úr gildi, honum yrði sagt upp og veitt yfirdráttarlán væri að fullu greitt.

Eins og rakið var hér að framan féll samningurinn úr gildi 15. september 2010 og hafnaði bankinn beiðni um að framlengja hann. Ákærði hefur viðurkennt fyrir dómi að hafa eftir það beint greiðslum vegna vörusölu félagsins inn á reikning í Arion banka og fær viðurkenning hans stoð í gögnum málsins, þar með töldum framburði vitna eins og rakið var. Skýringar ákærða voru raktar í kaflanum hér að framan. Samkvæmt gögnum málsins var á þessum tíma skuld á yfirdráttarreikningnum og með því að beina greiðslu reikninganna inn á reikning í Arion banka braut ákærði gegn samningi félagsins og Landsbankans.

Samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga varðar það refsingu að selja, veðsetja, taka undir sig eða ráðstafa á annan hátt fjármunum sínum, sem annar maður hefur eignast þau réttindi yfir, að verknaðurinn verður ekki samrýmdur réttindum hans. Ákærði, sem stjórnarformaður og framkvæmdastjóri A ehf., braut gegn þessu ákvæði hegningarlaganna með því að beina greiðslu vörureikninga félagsins inn á reikning þess í Arion banka, en greiðsla þeirra átti að renna inn á reikning í Landsbankanum eins og rakið var. Þá braut ákærði með þessu einnig gegn 4. tölulið greinarinnar, enda skerti hann rétt Landsbankans til að öðlast fullnægju af eignum félagsins með því að beina greiðslu reikninganna til Arion banka. Hins vegar verður ekki séð að brot hans geti varðað við 3. tölulið sömu greinar.

          Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu. Refsing ákærða er ákveðin 12 mánaða fangelsi sem bundin skal skilorði eins og í dómsorði segir.

          Landsbankinn hf. krefur ákærða um skaðabætur eins og rakið var. Byggir krafan á skuld þeirri er var á nefndum reikningi A ehf. í bankanum. Gögn hafa verið lögð fyrir dóminn er staðfesta skuld að fjárhæð 58.380.491 króna og verður ákærði, sem sakfelldur hefur verið, dæmdur til að greiða þá fjárhæð með vöxtum eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði. Það athugast að ákærða var birt bótakrafan við þingfestingu málsins, 31. janúar 2013, og miðast upphaf dráttarvaxta við þann dag er liðnir voru 30 dagar frá þingfestingu. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða málskostnað eins og í dómsorði segir.

                Með því að ákærði hefur verið sakfelldur verða verjanda hans ekki ákvörðuð málsvarnarlaun, enda krafðist hann þeirra ekki ef málið færi á þann veg. Engan sakarkostnað leiddi því af málinu.

                Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

                Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá deginum í dag að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Ákærði greiði Landsbankanum hf. 58.380.491 krónu með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. október 2010 til 1. mars 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 251.000 krónur í málskostnað.