Hæstiréttur íslands

Mál nr. 271/1999


Lykilorð

  • Handtaka
  • Miskabætur


           

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999.

Nr. 271/1999.

Ellert Örn Erlingsson

(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.)

gegn

íslenska ríkinu                               

(Jón G. Tómasson hrl.)

                                              

Handtaka. Miskabætur.

E var handtekinn síðdegis þar sem hann var á ferð með manni, sem grunaður var um fíkniefnabrot. Var E færður á lögreglustöð en skýrsla var ekki tekin af honum fyrr en sex klukkustundum síðar. Þegar E hafði gefið skýrslu taldi lögregla að hann væri ekki viðriðinn umrædd brot. Honum var þó ekki sleppt fyrr en seint um nóttina þar sem lögregla taldi hugsanlegt að hann gæti spillt fyrir rannsókn málsins. Það var talið andstætt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála að halda honum án þess að grunur léki á um að hann hefði framið lögbrot og voru E dæmdar miskabætur úr ríkissjóði.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. júlí 1999. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 150.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 9. mars 1998 til 19. september sama árs, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum var veitt fyrir báðum dómstigum.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfu áfrýjanda.

Í máli þessu krefur áfrýjandi stefnda um miskabætur á grundvelli XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála vegna handtöku og eftirfarandi vistar í fangaklefa.

Svo sem greinir í héraðsdómi var áfrýjandi handtekinn um kl. 16.30 hinn 9. mars 1998 vegna gruns um að hann væri viðriðinn brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Áfrýjandi var strax fluttur í fangageymslu á lögreglustöð, en skýrsla var ekki tekin af honum fyrr en kl. 22.30. Lauk skýrslutöku rúmri klukkustund síðar og var hann þá færður aftur í fangageymslu, þar sem honum var haldið til um kl. 4.30 aðfaranótt 10. mars 1998.

Lögreglufulltrúi sá, sem tók skýrsluna af áfrýjanda, bar fyrir héraðsdómi að eftir skýrslutöku hafi niðurstaða sín verið sú að áfrýjandi væri saklaus. Lögreglufulltrúinn tók fram að þótt komið hafi í ljós að áfrýjandi hafi ekki verið viðriðinn málið hafi lögreglunni ekki þótt hættandi á að sleppa honum vegna þess „að við höfðum grun um að hann gæti hugsanlega látið vita hvað um væri að vera.” Af hálfu stefnda er því meðal annars haldið fram, að vegna rannsóknarhagsmuna hafi verið réttlætanlegt að halda áfrýjanda svo lengi, sem raun ber vitni, af því að ella kynni nafngreindur grunaður maður að hafa haft samband við hann og þannig hugsanlega torveldað rannsókn málsins.

Í 97. gr. laga nr. 19/1991 eru meginreglur um skilyrði til handtöku. Í 1. mgr. greinarinnar segir að lögreglu sé rétt að handtaka mann, ef rökstuddur grunur sé á að hann hafi framið brot, sem sætt getur ákæru, enda sé handtaka nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, tryggja návist hans og öryggi eða koma í veg fyrir að hann spilli sönnunargögnum. Af lagaákvæði þessu leiðir að lögreglu er óheimilt að halda manni föngnum eftir að í ljós hefur komið í kjölfar handtöku að grunur er ekki lengur fyrir hendi um að hinn handtekni hafi framið brot það, sem var tilefni hennar. Skiptir þá ekki máli, hvort talið er nauðsynlegt að tryggja návist hans eða öryggi.

Samkvæmt þessu voru ekki lagaskilyrði til að svipta áfrýjanda frelsi eftir að lögregla lauk skýrslutöku af honum 9. mars 1998 kl. 23.45. Þá hefur ekki komið fram viðhlítandi skýring á því hvers vegna dróst í um það bil sex klukkutstundir frá því að áfrýjandi var tekinn höndum að taka skýrslu af honum.

Stefnda verður því gert að greiða áfrýjanda bætur fyrir hina ólögmætu frelsisskerðingu, sbr. a. lið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 19/1991. Miskabætur til hans þykja hæfilega ákveðnar 20.000 krónur, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað er staðfest. Um gjafsóknarkostnað fyrir Hæstarétti fer svo sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, Ellert Erni Erlingssyni, 20.000 krónur með 0,8% ársvöxtum frá 9. mars til 1. maí 1998 og 0,7% ársvöxtum frá þeim degi til 19. september 1998. Frá þeim degi greiðast dráttarvextir samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarákvæði héraðsdóms er staðfest. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans, 150.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. apríl 1999.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 19. mars 1999, er höfðað fyrir dómþinginu með stefnu áritaðri um birtingu 16. desember 1998 og var málið þingfest 7. janúar 1999.

Stefnandi er Ellert Örn Erlingsson, kt. 120975-5529, Leirubakka 26, Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða honum miskabætur að fjárhæð 150.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 67/1989, frá 9. mars 1998 til 19. september 1998, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati réttarins. Til vara krefst stefndi verulegrar lækkunar stefnufjárhæðar.

II.

Málsatvik

Málsatvik eru þau að um kl. 16:30 þann 9. mars 1998 ók stefnandi bifreið vinnuveitanda síns, Sammyndbanda, vestur Suðurlandsbraut og var ferðinni heitið á bifreiðastæði við hús fyrirtækisins Bifreiða- og landbúnaðarvéla. Með stefnanda í för var samstarfsmaður hans, Sigurður Örn Ágústsson, sem hugðist sækja bifreið sína er stóð á umræddu bifreiðastæði. Þegar stefnandi var að aka inn á stæðið var bifreiðin stöðvuð af fíkniefnadeild lögreglunnar og bæði stefnandi og farþegi hans handteknir og færðir á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Þegar þangað kom var stefnandi færður í fangageymslur lögreglunnar. Um sex klukkustundum síðar eða kl. 22:30 var stefnandi færður til yfirheyrslu, sem Ásgeir Karlsson lögreglufulltrúi annaðist. Yfirheyrslum yfir stefnanda lauk kl. 23:41 og var hann þá færður aftur til fangageymslu þar sem honum var haldið til kl. 4:30, er honum var sleppt.

Stefnandi og Sigurður Örn Ágústsson voru handteknir í umrætt sinn vegna gruns um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Hjá fíkniefnadeild lögreglunnar var þá til rannsóknar mál er varðaði innflutning á rúmu kílói af amfetamíni, sem reynt var að smygla til landsins í notaðri BMW-bifreið frá Þýskalandi. Sá er flutti bifreiðina inn var fyrrgreindur Sigurður Örn Ágústsson. Upp komst um málið þegar bifreiðin var tollskoðuð. Eftir að efnið fannst fylgdist lögreglan með bifreiðinni í nokkra daga í því skyni að upplýsa hvort hugsanlegt væri að einhverjir fleiri ættu aðild að málinu. Mun lögreglan hafa fylgst með því er Sigurður Örn ók bifreiðinni umræddan dag að Suðurlandsbraut 14 um kl. 14:30, en fór þaðan með ökumanni annarrar bifreiðar (stefnanda), sem þá var ekki vitað hver var. Gerðar voru ráðstafanir til að hafa upp á þeirri bifreið og var hún stöðvuð svo sem fyrr greinir tveimur klukkustundum síðar að Suðurlandsbraut 14. Er stefnandi var handtekinn var ekki vitað hvort hann var viðriðinn málið. Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að stefnandi var ekki talinn tengjast málinu og var honum því sleppt.

Ásgeir Karlsson lögreglufulltrúi kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Hann kvað ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík hafa fengið ábendingu um að maður að nafni Davíð Garðarsson hygðist flytja fíkniefni til landsins. Rannsókn á málinu hefði staðið yfir um nokkurra vikna skeið þegar stefnandi og Sigurður Örn voru handteknir. Svo sem fyrr greinir hafi pakki með einu kílói af amfetamíni fundist við tollskoðun BMW-bifreiðar þeirrar, sem Sigurður Örn hugðist flytja inn frá Þýskalandi. Kvað vitnið lögregluna hafa tekið pakkann og sett annan pakka með gerviefni í staðinn. Í pakka þessum hafi verið komið fyrir senditæki, sem gaf frá sér merki og gerði það það að verkum að auðvelt var að fylgjast með ferðum pakkans. Bifreiðin hafi síðan verið leyst úr tolli og kvað Ásgeir lögregluna hafa fylgst með ferðum hennar í u.þ.b. viku. Á þessum tíma hafi pakkinn ekkert verið hreyfður. Að morgni 9. mars 1998 hafi senditækið í pakkanum hætt að gefa frá sér merki þar sem rafhlöðurnar í tækinu höfðu tæmst. Þennan sama dag hafi stefnandi ekið Sigurði Erni heim til hins síðarnefnda til að ná í BMW-bifreiðina. Sigurður Örn hafi ekið bifreiðinni á verkstæði Bifreiða og landbúnaðarvéla og haldið þaðan á brott með stefnanda. Athugun lögreglu hafi leitt í ljós að pakkinn var horfinn úr bifreiðinni. Hafi þótt ljóst að pakkinn hefði verið tekinn úr bifreiðinni þennan sama dag. Lögreglan hafi þá hafið leit að bifreið þeirri, sem stefnandi ók, og hafi hún fundist þegar stefnandi ók Sigurði Erni á verkstæðið síðar um daginn. Hafi þá verið ákveðið að handtaka þá báða.

Stefnandi hefur höfðað mál þetta á hendur íslenska ríkinu til greiðslu miskabóta vegna meintrar ólögmætrar handtöku og frelsisskerðingar sem hann telur að hafi staðið mun lengur en efni hafi staðið til.

Stefnanda var veitt gjafsókn í málinu með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 31. desember 1998.

III.

Málsástæður stefnanda

Stefnandi telur að lögregluyfirvöld hafi ekki fylgt reglum XII. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þegar hann var handtekinn og látinn sitja í haldi lögreglu þann 9. mars 1998. Telur stefnandi að sú meðferð sem hann hafi verið látinn sæta á lögreglustöðinni við Hverfisgötu, þ.e. að sitja í fangaklefa lögreglunnar svo klukkustundum skipti, vera ólögmæta með öllu þar sem ekki hafi verið nægilegt tilefni til að grípa til slíkra ráðstafana. Engin hætta hafi verið á að hann myndi á nokkurn hátt hindra rannsókn og framgang þess máls sem í rannsókn var hjá lögreglunni, enda hafi stefnandi hvorki tengst þessu tiltekna fíkniefnamáli né öðrum fíkniefnamálum.

Þessar starfsaðferðir fíkniefnadeildar lögreglunnar brjóti gegn 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og eigi hann því lögvarinn rétt til bóta úr hendi stefnda á grundvelli ákvæða 176. gr. og 179. gr. sömu laga. Þá vísar stefnandi til 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggi frelsi og mannhelgi allra manna, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Starfsaðferðir lögreglunnar fari einnig í bága við persónufrelsisákvæði 67. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 5. gr. laga nr. 97/1995. Samkvæmt þessu ákvæði stjórnarskrárinnar sé óheimilt að svipta einstaklinga frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Með vísan til þess, sem að framan greini, hafi þess ekki verið gætt við handtöku stefnanda og hann því sviptur frelsi að ósekju. Eigi hann því rétt til skaðabóta samkvæmt 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar. Loks telur stefnandi að brotið hafi verið gegn 2. mgr. 13. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Ákvæði þetta hafi að geyma almenna reglu um framkvæmd lögreglustarfa. Reglan sé grundvölluð á svonefndri meðalhófsreglu, sem feli það m.a. í sér að stjórnvöld verði að gæta hófs í meðferð valds síns. Í samræmi við ákvæði þetta beri lögreglunni því jafnan að beita vægasta úrræði sem völ er á ef það nægir til að náð verði því markmiði sem að er stefnt. Stefnandi bendir einnig á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sem lögfest sé í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Stefnandi kveðst gera kröfu um greiðslu bóta úr hendi stefnda á ofangreindum grundvelli. Stefnandi hafi þurft að sæta meðferð sem hafi verið óþarflega særandi og móðgandi í hans garð auk þess sem frelsisskerðingin, sem hann hafi þurft að þola í rúmar 12 klukkustundir, hafi verið tilefnislaus og ólögmæt. Bótakrafa stefnanda að fjárhæð 150.000 krónur sé hóflega áætluð og í samræmi við þá meðferð sem stefnandi hafi hlotið hinn 9. mars 1998. Bótakrafan hafi verið sett fram með bréfi 19. ágúst 1998 og því sé krafist dráttarvaxta af henni mánuði síðar eða frá 19. september 1998.

Auk ofangreindra lagaraka vísar stefnandi til vaxtalaga nr. 25/1987 að því er varðar kröfu um vexti og dráttarvexti og um málskostnað til 130. gr. l. nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 178. gr. l. nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

IV.

Málsástæður stefnda

Með vísan til atvika máls þessa og þess alvarlega afbrots, sem stefnandi var undir rökstuddum grun um að hafa framið, byggir stefndi sýknukröfu sína á því, að lögmælt skilyrði hafi verið til handtöku stefnanda, sbr. ákvæði 97. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Að því er varðar þá málsástæðu stefnanda að ekki hafi verið eins og á stóð nægilegt tilefni til aðgerða lögreglu eða að handtakan hafi verið verið framkvæmd á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt bendir stefndi á, að reynslan sýni að þeir sem sýsli með ávana- og fíkniefni séu oft vopnaðir. Algengt sé að þeir beri hættuleg eggvopn. Menn þessir neyti einnig oft sjálfir ávana- og fíkniefna og vitað sé að notkun amfetamíns geti leitt til þess að árásargirni manna aukist. Með hliðsjón af þessu verið að gæta fyllsta öryggis við handtöku slíkra manna.

Þá byggir stefndi á, að nauðsynlegt hafi verið í þágu rannsóknarhagsmuna að stefnandi dveldist á lögreglustöðinni á meðan gengið væri úr skugga um hvort hann tengdist málinu með einhverjum hætti. Rannsókn málsins hafi verið á frumstigi og hafi lögreglan þurft svigrúm til að kanna þátt hugsanlegs vitorðsmanns Sigurðar Arnar. Þegar í ljós hafi komið að stefnandi var ekki tengdur málinu hafi rannsóknarhagsmunir réttlætt það að hafa stefnanda áfram í haldi, þar sem hætta hafi verið á að stefnandi kynni að spilla sönnunargögnum ef hann færi frjáls ferða sinna. Hætta hafi verið á að hann hefði samband við hugsanleg vitni eða samseka. Mikilvægt hafi verið að upplýsingar um handtöku Sigurðar bærust ekki til aðila, sem voru undir grun lögreglu og lögreglan hafði ekki enn náð til. Stefnanda hafi verið sleppt um leið og náðst hafði til samstarfsmanns Sigurðar, Davíðs Garðarssonar.

Með vísan til framangreinds telur stefndi skilyrði til greiðslu bóta samkvæmt XXI. kafla laganna ekki vera fyrir hendi.

Til vara kveður stefndi stefnufjárhæðinni mótmælt sem allt of hárri miðað við dómvenju og m.a. á það bent, að krafan hafi tvöfaldast frá kröfubréfi stefnanda fram að útgáfu stefnu þrem vikum síðar.

V.

Niðurstaða

Fram kom í skýrslu stefnanda hér fyrir dómi, að ekki væri rétt svo sem fram kæmi í stefnu, að stefnandi hefði verið færður í fangageymslur lögreglunnar án allra skýringa eða annarra upplýsinga. Rétt væri svo sem fram kæmi í handtökuskýrslu lögreglunnar á dskj. nr. 3, að stefnanda hefði verið kynnt þegar við handtökuna að hann væri handtekinn vegna gruns um fíkniefnamisferli, hann þyrfti ekki að tjá sig um sakarefnið og hann ætti rétt á réttargæslumanni. Þá væri ekki rétt, sem fram kæmi í stefnu, að honum hefði verið meinað að hringja og láta fjölskyldu sína vita af afdrifum sínum á meðan hann var í haldi lögreglunnar. Stefnandi hefði fengið að hringja í unnustu sína og föður um kl. 10:30 um kvöldið, en honum hefði verið meinað að hringja fyrr um kvöldið.

Við munnlegan málflutning féll stefnandi frá þeim málsástæðum sínum, sem byggðu á ofangreindum fullyrðingum í stefnu.

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því í fyrsta lagi að lögmæt skilyrði hafi brostið til handtöku stefnanda.

Í 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 segir, að lögreglumönnum sé rétt að handtaka mann ef rökstuddur grunur sé á að hann hafi framið brot sem sætt getur ákæru, enda sé handtaka nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, tryggja návist hans og öryggi eða koma í veg fyrir að hann spilli sönnunargögnum.

Svo sem fyrr greinir kom í ljós er fyrrnefnd BMW-bifreið var sett á verkstæði hinn 9. mars 1998 að pakkinn, sem lögreglan hafði komið fyrir í bifreiðinni, var horfinn. Ljóst var að hann hafði horfið úr bifreiðinni þennan sama dag þar sem lögreglan hafði getað fylgst með ferðum pakkans með aðstoð senditækis, sem í honum var, allt þar til að morgni fyrrgreinds dags, að rafhlöður í senditækinu kláruðust og það hætti að gefa frá sér merki. Stefnandi, sem lögreglan vissi þá engin deili á, hafði fyrr um daginn sést aka Sigurði Erni heim til hins síðarnefnda þar sem Sigurður sótti umrædda bifreið og ók henni síðan að verkstæði Bifreiða- og landbúnaðarvéla. Þar sást stefnandi taka Sigurð aftur upp í bílinn og þeir hverfa að svo búnu á braut. Stefnandi sást síðan aka Sigurði að fyrrgreindu verkstæði síðar um daginn þar sem þeir voru handteknir. Í ljósi þessarar atburðarásar verður að fallast á það með stefnda að stefnandi hafi við handtökuna verið undir rökstuddum grun um að vera viðriðinn innflutning á fíkniefnum, þ.e. að hafa framið brot sem sætt getur ákæru, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Vegna atburðarásarinnar var ekki óeðlilegt að lögreglan ályktaði sem svo að pakkinn með gerviefninu væri í bifreið þeirri, sem stefnandi ók, eða að hann gæti gefið upplýsingar um afdrif pakkans. Þykir því handtakan hafa verið nauðsynleg til að tryggja návist stefnanda svo að hægt væri að yfirheyra hann um málsatvik og til að koma í veg fyrir að hann spillti sönnunargögnum, þ.e.a.s. hefði samband við hugsanleg vitni eða samseka. Að framansögðu verður ekki fallist á með stefnanda að lögmæt skilyrði hafi brostið til handtökunnar, sbr. a-lið 176. gr., sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991.

Í öðru lagi byggir stefnandi kröfu sína á því að handtakan hafi verið framkvæmd á óþarflega hættulegan, særandi og móðgandi hátt.

Upplýst er að stefnandi var handtekinn af víkingasveit lögreglunnar með þeim hætti að hann var snúinn niður, lagður á jörðina og handjárnaður. Stefnandi kveðst engan mótþróa hafa sýnt, enda ekki getað það þar sem handtakan hafi gengið svo hratt fyrir sig. Stefnandi kveður föt sín hafa blotnað er hann hafi verið keyrður niður í jörðina við handtökuna þar sem jörð hafi verið snævi þakin. Á lögreglustöðinni hafi honum fyrst verið haldið í einn og hálfan tíma í fangaklefa, eins konar almenningsklefa, eins og stefnandi orðaði það. Hann hafi verið hafður í handjárnum og lögreglumaður jafnframt staðið yfir honum allan tímann. Stefnandi kveður glugga hafa staðið opinn og hafi honum verið kalt þar sem föt hans hafi verið blaut. Handjárnin hafi ekki verið tekin af honum þrátt fyrir óskir hans þar um, en til þess að ylja honum hafi trefill verið bundinn um hendur hans.

Svo sem fyrr greinir var umrætt mál eitt hið stærsta hvað varðar innflutning á amfetamíni, sem upp hafði komið, og efnið, sem reynt var að smygla til landsins óvenju sterkt. Ásgeir Karlsson lögreglufulltrúi bar hér fyrir dómi, að það væri venja að víkingasveit lögreglunnar væri kölluð til þegar handtaka þyrfti grunaða í hinum stærri fíkniefnamálum. Ástæðan væri sú, að lögreglan verði þess vör í auknum mæli, að menn, sem stunda innflutning og sölu á fíkniefnum, séu með hættuleg vopn í fórum sínum. Lögreglan taki enga áhættu í þessum efnum og láti því sérþjálfaða menn sjá um handtöku grunaðra í slíkum málum. Handtakan hafi ekki verið harkalegri en gerist og gengur. Hún hafi verið snörp og staðið stutt yfir. Hinir handteknu hafi ekki veitt neina mótspyrnu en verið handjárnaðir engu að síður. Vitnið kvað það beinlínis kennt í Lögregluskólanum að handtaka menn með því að snúa þá niður og leggja þá á jörðina þar sem minni líkur séu á meiðslum þegar það sé gert.

Er stefnandi var handtekinn var hann samkvæmt framansögðu undir rökstuddum grun um að vera viðriðinn innflutning á miklu magni af óvenju sterku amfetamíni. Er lögreglan handtók stefnanda vissi hún engin deili á honum. Reynslan hefur sýnt að þeir sem stunda innflutning og sölu á ávana- og fíkniefnum eru oft vopnaðir. Þá er og alkunna að þeir sem höndla með fíkniefni neyta oft slíkra efna sjálfir. Vitað er að neysla fíkniefna getur haft margvísleg neikvæð áhrif á skapgerð manna, m.a. getur hún aukið árásargirni þeirra. Með hliðsjón af framangreindu þykir eðlilegt að lögreglan hafi gætt fyllsta öryggis við handtöku stefnanda, sem var eins og á stóð undir grun um stórfellt fíkniefnamisferli. Miðað við þá almannahagsmuni sem í húfi voru verður ekki fallist á að stefnandi hafi verið beittur harðræði fram yfir það sem lög heimila eða að lögreglan hafi gripið til harkalegra úrræðis en nauðsyn hafi borið til. Handtakan er því ekki talin brjóta gegn 2. mgr. 13. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 eða 1. mgr. 101 gr. laga nr. 19/1991. Ekki hefur komið fram í málinu að stefnandi hafi hlotið líkamsmeiðsl vegna handtökunnar. Samkvæmt framansögðu er ekki fallist á að handtakan hafi verið framkvæmd á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt og að stefnandi eigi rétt á bótum af þeim sökum, sbr. b-lið 176. gr. laga nr. 19/1991.

Í þriðja lagi byggir stefnandi á, að það hafi það verið ólögmætt með öllu að láta stefnanda sitja í haldi svo klukkustundum skipti þar sem ekki hafi verið eins og á stóð nægilegt tilefni til þeirra ráðstafana.

Ásgeir Karlsson lögreglufulltrúi bar hér fyrir dómi, að eftir handtökuna hefði höfuðáherslan verið lögð á það að finna pakkann með gerviefninu. Hafi m.a. verið leitað í sendibifreið þeirri, sem stefnandi ók. Nokkurn tíma hafi einnig tekið að undirbúa yfirheyrslur yfir stefnanda og Sigurði Erni. Á meðan á þessu hafi staðið hafi komið í ljós að Davíð Garðarsson reyndi stöðugt að ná sambandi við Sigurð Örn með því að hringja í farsíma hans. Hafi nafn Davíðs komið fram á símanum þegar hann hringdi. Lögreglan hafi þá freistað þess að upplýsa þátt Davíðs í málinu með því að fá Sigurð Örn til samstarfs við lögregluna, sem hann hafi lýst sig reiðubúinn til. Í símtölum Sigurðar Arnar og Davíðs hafi komið fram, að Davíð var á sjúkrahúsi, en á leiðinni þaðan út. Kvað vitnið Davíð hafa útskrifað sig sjálfur af sjúkrahúsinu um miðnættið og stöðugt verið að sveima í kringum bifreiðina, sem efnið átti að vera í. Allur mannskapur ávana- og fíkniefnadeildar hafi verið hafður í því að fylgjast með manni þessum og umræddri bifreið. Yfirheyrslum yfir stefnanda og Sigurði Erni hafi því verið frestað á meðan.

Vitnið kvað það hafa komið í ljós í yfirheyrslum yfir stefnanda að hann var ekki viðriðinn málið. Lögreglan hafi hins vegar metið það svo að ekki væri þorandi að sleppa stefnanda út á meðan Davíð Garðarsson gekk laus. Hafi lögreglan óttast að stefnandi kynni að skýra frá því að Sigurður hefði verið handtekinn og að þær upplýsingar gætu borist til eyrna Davíðs.

Svo sem fyrr greinir var stefnandi í fyrstu undir rökstuddum grun um aðild að umræddu fíkniefnamáli. Rannsókn málsins var þá á frumstigi. Ekki var vitað um afdrif pakkans, sem lögreglan hafði komið fyrir í bifreið Sigurðar, en aðkallandi var að hafa upp á honum til að upplýsa um hugsanlega aðild annarra að málinu. Eins og atvikum var háttað var einnig nauðsynlegt að fylgjast með ferðum Davíðs Garðarssonar vegna gruns um aðild hans að málinu. Þá verður að ætla lögreglu nokkurt svigrúm til að undirbúa yfirheyrslur. Var nauðsynlegt að tryggja návist stefnanda þar til málsatvik höfðu skýrst betur og hægt var að yfirheyra hann, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991. Eftir að í ljós var komið að stefnandi var ekki viðriðinn málið verður að fallast á það með stefnda að rannsóknarhagsmunir hafi réttlætt frelsisskerðingu stefnanda. Þar sem Davíð Garðarsson, sem var grunaður um að vera samverkamaður Sigurðar, gekk laus, verður að fallast á það með stefnda að hætta hafi verið á því, að stefnandi kynni að spilla rannsókninni með því að skýra frá handtöku Sigurðar, fengi hann að fara frjáls ferða sinna. Einhver, sem þekkti til málsins hefði getað komið þeim upplýsingum til Davíðs. Upplýst er að stefnanda var sleppt um leið og rannsóknarhagsmunir kröfðust þess ekki að hann væri hafður í haldi, eða um leið og náðist til Davíðs Garðarssonar. Samkvæmt framansögðu er ekki fallist á að frelsisskerðing sú, sem stefnandi sætti, hafi staðið lengur en nauðsyn hafi borið til. Hún verður því ekki talin fara í bága við 102. gr. laga nr. 19/1991, 67. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1994, sbr. lög nr. 97/1995 eða 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Að öllu þessu virtu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.

Í samræmi við úrslit málsins ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, sem þykir hæfilega ákveðin 125.000 krónur og er þar með talinn virðisaukaskattur, greiðist úr ríkissjóði.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Ellerts Arnar Erlingssonar, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 100.000 krónur í málskostnað.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda 125.000 krónur, og er þar með talinn virðisaukaskattur, greiðist úr ríkissjóði.