Hæstiréttur íslands

Nr. 2018-256

Lögsýn ehf. (Björn Jóhannesson lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Ásgeir Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Fjárnám
  • Málskostnaður
  • Virðisaukaskattur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 10. desember 2018 leitar Lögsýn ehf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 27. nóvember sama ár í málinu nr. 829/2018: Landsbankinn hf. gegn Lögsýn ehf., á grundvelli 5. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Landsbankinn hf. tekur ekki afstöðu til beiðninnar.

Ágreiningur aðila lýtur að því hvort leyfisbeiðanda sé heimilt að krefja gagnaðila um greiðslu sem svari til virðisaukaskatts af fjárhæð dæmds málskostnaðar samkvæmt tilteknum héraðsdómi. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu ákvað 15. júní 2018 að fjárnám fyrir kröfu leyfisbeiðanda, þar sem virðisaukaskatti hafði verið bætt við fjárhæð dæmds málskostnaðar, skyldi ná fram að ganga og staðfesti héraðsdómur þá niðurstöðu. Með úrskurði Landsréttar var ákvörðun sýslumannsins á hinn bóginn felld úr gildi með vísan til þess að virðisaukaskattur legðist ekki við málskostnað, eins og hann væri ákveðinn í dómsorði, enda væri málskostnaður í reynd bætur úr hendi málsaðila til gagnaðila, en ekki þóknun til lögmanns gagnaðilans fyrir störf í hans þágu, sbr. dóm Hæstaréttar 24. mars 1997 í máli nr. 119/1997. Byggir leyfisbeiðandi á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi og að niðurstaða Landsréttar í málinu sé bersýnilega röng að efni.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að kæruefnið hafi á nokkurn hátt fordæmisgildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið, sbr. einkum fyrrnefndan dóm Hæstaréttar 24. mars 1997, þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu greinar í málinu. Er beiðninni því hafnað.