Hæstiréttur íslands

Mál nr. 90/2000


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Nytjastuldur
  • Eignaspjöll
  • Akstur sviptur ökurétti
  • Ítrekun
  • Áfrýjunarfrestur


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. júní 2000.

Nr. 90/2000.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Helga Þór Kristínarsyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

                                                

Þjófnaður. Nytjastuldur. Eignaspjöll. Akstur án ökuréttar. Ítrekun. Áfrýjunarfrestur.

Talið var að ekki stæðu rök til annars en að skýra 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 11. gr. laga nr. 37/1994, á þá leið að fjögurra vikna frestur dómfellds manns í opinberu máli til að lýsa yfir áfrýjun miðaðist við lok sama vikudags og hann hófst. Var því ekki fallist á kröfu ákæruvaldsins um frávísun málsins frá Hæstarétti af þeim sökum að tilkynning um áfrýjun hefði borist ríkissaksóknara of seint. Var héraðsdómur staðfestur um sakfellingu H fyrir þjófnað, nytjastuld og akstur sviptur ökurétti og var niðurstaða dómsins einnig staðfest að því er varðaði refsingu H með vísan til 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991. Undir meðferð málsins hafði vátryggingafélagið S gert skaðabótakröfu vegna tjóns, sem O hafði orðið fyrir vegna háttsemi H og annarra ákærðu í héraði. Þar sem tjónsuppgjör hafði ekki farið fram og engin gögn lágu fyrir í málinu um hvernig S hefði eignast kröfuna þótti hún svo vanreifuð að vísa yrði henni sjálfkrafa frá héraðsdómi að því er H varðaði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. mars 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að refsing, sem ákærða var gerð með héraðsdómi, verði þyngd.

Ákærði krefst þess að kröfu ákæruvalds um frávísun verði hafnað, hann sýknaður af sakargiftum um nytjastuld og eignaspjöll samkvæmt III. kafla ákæru, refsing samkvæmt hinum áfrýjaða dómi milduð og skaðabótakröfu Sjóvá-Almennra trygginga hf. vísað frá dómi.

Fyrrgreind aðalkrafa ákæruvaldsins um að málinu verði vísað frá Hæstarétti er reist á því að hinn áfrýjaði dómur hafi að viðstöddum ákærða verið upp kveðinn kl. 13.30 miðvikudaginn 19. janúar 2000. Tilkynning ákærða um áfrýjun hafi hins vegar ekki borist ríkissaksóknara fyrr en kl. 13.54 miðvikudaginn 16. febrúar sama árs. Hafi þá verið liðinn frestur ákærða til að lýsa yfir áfrýjun.

Samkvæmt 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 11. gr. laga nr. 37/1994, hafði ákærði fjögurra vikna frest frá birtingu héraðsdóms, sem fór fram gagnvart honum með uppkvaðningu dómsins, til að lýsa yfir áfrýjun með bréflegri tilkynningu til ríkissaksóknara. Ekki er í lögunum kveðið nánar á um mörk þessa frests eða annarra, sem ákvæði þeirra taka til. Fyrir því er hins vegar rótgróin venja að skýra verði ákvæði um fresti í lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, meðal annars í 91. gr. þeirra, á þann veg að frestur, sem ákveðinn er í sólarhringum, hefjist og renni út á sama tíma innan sólarhrings, en frestur, sem ákveðinn er í vikum, sé á enda við lok sama vikudags og hann hófst. Standa ekki rök til að beita annarri reglu á sviði opinberra mála og takmarka með því rétt dómfellds manns til áfrýjunar. Verður kröfu ákæruvaldsins um frávísun málsins frá Hæstarétti því hafnað.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða. Við ákvörðun refsingar verður að gæta að ákvæði 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, enda framdi ákærði brot samkvæmt III. kafla ákæru í félagi við tvo aðra, sem sættu með honum ákæru og una héraðsdómi. Þá verður og að líta til þess að ákærða var á árinu 1996 þrívegis gerð refsing fyrir auðgunarbrot og verður því að ákveða refsingu nú að teknu tilliti til ákvæðis 255. gr. sömu laga. Að þessu athuguðu og með vísan til 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest að því er varðar refsingu ákærða.

Sjóvá-Almennar tryggingar hf. gerðu kröfu um skaðabætur með bréfi 7. júní 1999 vegna þeirrar háttsemi, sem um ræðir í III. kafla ákæru. Í bréfinu er tekið fram að tjónsuppgjör hafi ekki farið fram. Engin frekari gögn liggja fyrir í málinu um að félagið hafi eignast bótakröfu Olíufélagsins hf., sem af umræddri háttsemi leiddi. Þegar af þeirri ástæðu er krafa Sjóvá-Almennra trygginga hf. svo vanreifuð að vísa verður henni sjálfkrafa frá héraðsdómi hvað ákærða varðar.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður gagnvart ákærða, Helga Þór Kristínarsyni, um annað en skaðabótakröfu Sjóvá-Almennra trygginga hf., sem er vísað frá héraðsdómi að því er hann varðar.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 35.000 krónur.

 

 

 

Dómur héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 19. janúar 2000.

 

Málið er höfðað með ákæruskjali dagsettu 21. september 1999 á hendur:

H, Helga Þór Kristínarsyni, kt. 240872-3319, Smiðjustíg 13, og Ö öllum til heimilis í Reykjavík, “fyrir eftirtalin brot í Reykjavík á árinu 1999, nema annað sé tekið fram:

Ákærða Helga Þór fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðum sviptur ökurétti, svo sem að neðan greinir:

1.

Aðfaranótt miðvikudagsins 10. mars bifreiðinni GH-163 um Reykjanesbraut í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn á mótum Reykjanesbrautar og Stekkjarbakka. (Mál nr. 012-1999-6593)

 

2.

Aðfaranótt föstudagsins 14. maí bifreiðinni R-8398 um Bústaðaveg, uns lögregla stöðvaði aksturinn á mótum Bústaðavegar og Efstaleitis. (Mál nr. 010-1999-11817)

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57, 1997 og 186. gr. laga nr. 82, 1998.

 

II

[...]

 

III

Ákærðu öllum fyrir nytjastuld, þjófnað og eignaspjöll, með því að hafa í félagi aðfaranótt mánudagsins 22. mars notað í heimildarleysi bifreiðina R-66188, tekið hana frá Marargötu, ekið henni þaðan og um Ægisíðu inn á athafnasvæði Olíufélagsins hf. Esso við götuna og á bensínsjálfsala fyrirtækisins í þeim tilgangi að losa hann og komast yfir peninga í honum, með þeim afleiðingum að hann eyðilagðist, tekið hann síðan inn í bifreiðina, ekið á brott og að Kirkjubraut 21, þar sem lögregla kom að ákærðu við að brjóta upp sjálfasalann sem innihélt kr. 1.000 í peningum. (Mál nr. 010-1999-6580)

 

 

Telst þetta varða við 244. gr., 1. mgr. 257. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 20, 1956 og 137. gr. laga nr. 82, 1998.

 

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

Í málinu gerir Sjóvá- Almennar tryggingar hf. kt.701288-1739, kröfu á hendur ákærðu um skaðabætur að fjárhæð kr. 1.228.715.”

 

[...]

Verjandi ákærða, Helga Þórs, krefst þess að ákærði hljóti vægustu refsingu.  Þá er krafist málsvarnarlauna.

[...]

 

 

I. kafli ákæru töluliður 1 og 2

Ákærði, Helgi Þór, hefur viðurkennt að hafa framið umferðarlagabrot þau sem honum er gefið að sök í I. kafla ákærunnar tölulið 1 og 2. 

Með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við gögn málsins, þykir sannað að ákærði, Helgi Þór, hafi gerst sekur um brot þau sem honum er gefið að sök og réttilega eru færð til refsiákvæða.

 

II. kafli ákæru

[...]

 

 

III. kafli ákæru

Mánudaginn 22. maí 1991 um kl.05:00 var lögreglunni í Reykjavík tilkynnt að ekið hefði verið á bensínsjálfsala Esso við Ægisíðu.  Þegar lögregla kom á vettvang var sjálfsalinn horfinn.  Lögreglumenn höfðu sambandi við íbúa á Ægissíðu sem kvaðst hafa orðið var við hávaða eins og um árekstur væri að ræða og litið út.  Hafi hann þá séð hvíta sendibifreið við hús Essóstöðvarinnar og hafði henni greinilega verið ekið á bensínsjálfsalann.  Vitnið gerði lögreglu viðvart en bifreiðinni var síðan ekið á brott.  Skömmu síðar urðu lögreglumenn á eftirlitsferð varir við hvíta Nissan bifreið á bifreiðastæði við Kirkjubraut 21 og hlupu þá þrír menn frá bifreiðinni.  Reyndust það vera ákærðu í málinu.

Í skýrslu sinni hjá lögreglu 22. mars 1999 skýrði ákærði, Ö, svo frá að hann hafi verið búinn að vaka nokkra sólarhringa umrætt sinn og neyta amfetamíns auk annarra efna.  Hann viðurkenndi að hafa ekið sendibifreiðinni, sem hann hafi tekið einhvers staðar í vesturbænum.  Meðákærðu hefðu verið með í bifreiðinni og hafi einn setið á gólfinu aftur í henni.  Í skýrslunni segir, að þeir hafi ákveðið að stela bensínsjálfsala þar sem það væri vinsælt í Danmörku og Svíþjóð, það hafi hann lesið í einhverju dagblaði.  Hann hafi ekið á sjálfsalann við Ægissíðu sem hafi fallið niður við það og þeir síðan sett hann upp í bifreiðina og ekið á brott.  Þeir hafi síðan gert tilraun til að opna hann en það hafi ekki tekist enda hafi þeir aðeins haft lítið skrúfjárn og felgulykil til verksins.  Aðspurður hjá lögreglu kvað ákærði það ekki hafa verið skipulagt fyrir fram að aka á sjálfsalann það hafi verið skyndiákvörðun eftir að þeir stálu bifreiðinni.

Ákærði, H, bar hjá lögreglu 26. mars 1999 að eftir að bifreið sú sem þeir félagar voru að rúnta í hafi bilað, hafi þeir gengið áleiðis heim.  Meðákærði, Ö, hafi þá farið inn í sendibifreið, en lyklarnir hafi verið í henni, gangsett hana og ákærði sjálfur sest farþegamegin.  Þeir hafi síðan tekið meðákærða, Helga Þór, upp í bifreiðina og hann þá sest á gólfið aftur í þar sem ekki hafi verið sæti í bifreiðinni.  Meðákærði, Ö, hafi síðan ekið beint niður á Ægissíðu og eitthvað hafi verið rætt um einhvern sjálfsala og nánast í beinu framhaldi hafi þeir séð sjálfsala Esso og Ö þá ekið á hann.  Þeir hafi allir farið út úr bifreiðinni og sett sjálfsalann inn í hana og ekið á brott.  Þeir hafi síðan lítillega gert tilraun til að opna sjálfsalann en það ekki tekist enda hafi lögregla komið stuttu síðar.  Ákærði bar að þetta hafi ekki verið skipulagt af þeirra hálfu heldur um skyndiákvörðun að ræða.  Hann hafi umrætt sinn verið undir áhrifum amfetamíns. 

Framburður ákærða, Helga Þórs, hjá lögreglu þann 22. mars 1999 var á sömu lund og rakið hefur verið hér að framan.  Ákærði kvaðst lítið muna hvað hafi gerst en sagðist hafa verið tekinn upp í sendibifreiðina skammt frá Landakotskirkju og þá sest aftur í bifreiðina á gólfið.  Meðákærði, Ö, hafi síðan ekið á sjálfsalann og þeir síðan allir hjálpast að við að setja hann inn í bifreiðina.  Þeim hafi eitthvað tekist að brjóta ofan af sjálfsalanum með höndum og fótum auk skrúfjárns en ekki tekist að opna hann.   Þetta hafi verið einhver hugmynd sem hafi orðið til nánast á staðnum og framkvæmd um leið.

Verður nú rakinn framburður ákærðu fyrir dómi.

Ákærði, Ö, játaði sakargiftir og kvað verknaðarlýsingu hvað hann varðar þar rétta.  Hann skýrði svo frá atvikum á sama hátt og hjá lögreglu um að hann hafi verið að rúnta um bæinn ásamt meðákærðu á bifreið sem hann hafi haft til umráða en hún hafi bilað.  Hann hafi skömmu síðar verið kominn inn í sendibifreið sem þarna hafi staðið.  Ákærði, H, hafi komið með honum inn í bifreiðina en meðákærði, Helgi Þór, hafi þá verið farinn eitthvað annað.  Þeir hafi hins vegar fundið hann eftir stutta stund og tekið hann upp í bifreiðina við Landakotskirkju.  Það hafi verið skyndihugdetta hjá honum að aka á bensínsjálfsalann og hafi sú ákvörðun verið tekin í tómu rugli og án samráðs við meðákærðu.  Framburður hans hjá lögreglu um þetta atriði hafi ekki verið réttur.  Þegar hann hafi verið búinn að aka niður sjálfsalann og hafi þeir allir tekið þátt í því að taka hann upp í bílinn og aka með hann í burtu.  Þetta hafi allt verið algjörlega óhugsað uppátæki sem hafi verið dæmt til að mistakast enda hafi þeir engin verkfæri haft til að opna sjálfsalann annað en eitt skrúfjárn.

Ákærði, H, skýrði svo frá fyrir dóminum um þetta atvik að hann og meðákærðu hafi verið búnir að vera saman í eina 2 daga áður en atvikið átti sér stað.  Ákærði kvaðst hafa verið undir áhrifum amfetamíns og lítið muna atburðarásina í smáatriðum.  Þeir hafi allt í einu verið komnir upp í hvíta sendibifreið sem stóð þarna með lyklunum í kveikjulásnum.  Síðan hafi verið ekið á sjálfsalann og hann settur inn í bílinn.  Ekki minntist hann þess að það hafi verið rætt neitt sérstaklega.

Aðspurður um framburð hans hjá lögreglu þar sem hann sagði að þetta hefði verið rætt, kveður hann það vel getað hafa verið svo í það minnsta muni hann það ekki nú en verið geti að hann hafi munað það þá.

Fyrir dóminum skýrði ákærði, Helgi Þórs, þannig frá að hann hafi ekki verið vitni að því að sendibifreiðin var tekin þar sem hann hafi ekki verið þátttakandi í því.  Hann hafi verið tekinn upp í bifreiðina síðar og hafi þeir rúntað um í nokkurn tíma.  Þeir hafi ekki verið að ræða neitt, um að aka á bensínsjálfsalann, að því hann best minni.  Hann hafi hins vegar tekið þátt í því að henda sjálfsalanum upp í bifreiðina þar sem þeim hafi dottið í hug að það gæti verið peningur í honum.   Þeir hafi hins vegar lítið getað átt við að opna hann þar sem engin verkfæri hafi verið til staðar. 

 

Með vísan til játningar ákærða, Ö, og gagna málsins að öðru leyti, þykir sannað að hann hafi gerst sekur um nytjastuld, þjófnað og eignarspjöll svo sem í þessum ákærulið greinir. 

Ákærði, H, hefur játað að hafa ásamt meðákærða, Ö, tekið í heimildarleysi bifreiðina R-66188 frá Marargötu svo sem í ákærunni greinir.  Þá þykir einnig sannað, m.a. með vísan til framburðar ákærða og annarra gagna málsins að ákærði tók þátt í að stela sjálfsalanum eftir að ekið hafði verið á hann og hann losaður og eyðilagður.

Ákærði, Helgi Þór, hefur neitað því að hafa átt þátt í því að taka bifreiðina R-66188 umrætt sinn og enn fremur því að hafa átt þátt í ákvörðun um að aka á sjálfsalann.  Þykir framburður hans um þetta atriði eiga stoð í framburði hinna meðákærðu.  Hins vegar er ljóst að hann ásamt meðákærðu notaði bifreiðina í heimildarleysi enda mátti honum vera ljóst að henni hefði verið stolið.  Þá stóð ákærði ásamt meðákærðu að því að eyðileggja og stela sjálfsalanum og tilraun til að opna hann.

Samkvæmt þessu þykir sannað að ákærðu allir hafa gerst sekir um nytjastuld og þjófnað sem varðar við 244. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga.  Hins vegar þykir þjófnaðurinn á sjálfsalanum tæma sök um eignarspjöll samkvæmt 257. gr. almennra hegningarlaga og verður ákærðu því ekki gerð sérstök refsing vegna þeirra.

Við ákvörðun refsingar ákærðu verður til þess litið að ákvörðun um að aka á sjálfsalann virðist ekki hafa verið skipulögð.

 

Refsingar.

[...]

 

Ákærði, Helgi Þór, er fæddur árið 1972.  Samkvæmt sakavottorði ákærða gekkst hann tvívegis á árunum 1989 og 1990 undir viðurlög fyrir ölvunarakstur og nytjastuld. Þá gekkst hann undir viðurlög 1995 fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni.  Á árunum 1990 til 1999 hefur ákærði hlotið níu refsidóma fyrir umferðarlagabrot, nytjastuld, skjalafals, fíkniefnalagabrot og þjófnað.  Þar er helst að nefna, að í september 1993 var ákærði dæmdur í 60 daga varðhald fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot en í júní 1994 var ákærða veitt reynslulausn í eitt ár á eftirstöðvum refsingar, 30 dögum.  Í ágúst 1994 var ákærði dæmdur fyrir skjalafals en um hegningarauka var að ræða og ákærða var ekki gerð sérstök refsing.  Þá var ákærði dæmdur í júlí 1995 í 60 daga fangelsi fyrir skjalafals og var fyrrgreind reynslulausn dæmd með.  Með dómi 29. febrúar 1996 var ákærði dæmdur í 3 mánaða fangelsi skilorðsbundið í tvö ár fyrir þjófnað.  Næst var ákærði dæmdur með dómi Hæstaréttar 21. nóvember 1996 í 6 mánaða fangelsi fyrir þjófnað og var dómurinn frá 29. febrúar 1996 dæmdur með.  Ákærða var veitt reynslulausn 5. mars 1997 í eitt ár á eftirstöðvum refsingar, 120 dögum.  Ákærði hlaut, þann 12. mars 1999, dóm, 100.000 króna sekt fyrir fíkniefnalagabrot og einnig dóm, þann 18. maí 1999, 250.000 króna sekt auk ævilangrar ökuleyfissviptingar, fyrir umferðarlagabrot.  Síðast hlaut ákærði dóm 17. nóvember 1999, 6 mánaða fangelsi, þar af 3 mánuðir skilorðsbundnir í þrjú ár, fyrir brot gegn 244. gr. og 245. gr. almennra hegningarlaga.

Brot þau sem ákærði, Helgi Þór, hefur verið fundinn sekur um teljast hegningarauki við dóm frá 17. nóvember sl.  Ber því að tiltaka ákærða refsingu eftir reglum 78. gr. almennra hegningarlaga.  Þykir refsing ákærða, þegar tillit er tekið til sakaferils hans, verðmæta þeirra sem í húfi voru og hliðsjón höfð af 77. gr. almennra hegningarlaga, hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði.  Ber að dæma með 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi samkvæmt dómi frá 17. nóvember sl. en telja verður að skilorðsbinding hluta refsivistar hefði ekki komið til álita ef brot þessi hefðu verið dæmd í einu lagi.

                [...]

 

                Ákærðu hafa allir mótmælt bótakröfu Sjóvá- Almennra trygginga hf. að fjárhæð 1.228.715 krónum með vísan til þess að hún sé ekki studd viðhlítandi gögnum.  Fyrir liggur í málinu bréf Sjóvá- Almennra trygginga hf., dags. 7. júní 1999, þar sem segir að tjónið sé byggt á verðtilboði í nýjan sjálfsala sem fylgir með í málinu og mati skoðunarmanna fyrirtækisins.  Þá liggja frammi í málinu ljósmyndir sem sýna að sjálfsalinn hefur verið mikið skemmdur m.a. má sjá þar ýmsa tölvuhluti sem losnað hafa.  Er ekkert það fram komið í málinu sem bendir til annars en að sjálfsalinn hafi eyðilagst með öllu.  Ber því að taka bótakröfuna til greina.  Ekki er krafist vaxta.

                Ákærðu, Helgi Þór og Ö, dæmast til að greiða óskipt málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

                [...]

                 Ekki verður séð að annan kostnað hafi leitt af máli þessu.

                Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hjalti Pálmason, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.

               

Dómsorð:

                Ákærði, H, sæti fangelsi í 3 mánuði.

                Ákærði, Helgi Þór Kristínarson, sæti fangelsi í 6 mánuði.

                Ákærði, Ö, sæti fangelsi í 4 mánuði.

                Ákærðu, Helgi Þór og Ö, greiði 100.000 krónur í málsvarnarlaun til skipaðs verjanda þeirra, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns.            

                Ákærði, H, greiði 60.000 krónur í málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns, Guðmundar Ágústssonar héraðsdómslögmanns.

                Ákærðu greiði Sjóvá- Almennum tryggingum hf., 1.228.715 krónur.