Hæstiréttur íslands

Mál nr. 588/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann


                               

Þriðjudaginn 8. september 2015.

Nr. 588/2015.

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

X

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Kærumál. Nálgunarbann.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert skylt að sæta nálgunarbanni í sex mánuði á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að engu breytti þótt lögregla hafi ekki virt tímafrest samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2011, enda gæti sú vanræksla ekki valdið því að brotaþoli færi á mis við þá vernd sem hann nýtur eftir lögunum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst héraðsdómi 1. september 2015 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 31. ágúst 2015 þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 12. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nálgunarbanni, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá er krafist þóknunar vegna meðferðar málsins í Hæstarétti.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til þess sem rakið er í hinum kærða úrskurði verður fallist á það með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum 4. gr. laga nr. 85/2011 til að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni. Í því tilliti breytir engu þótt lögregla hafi ekki virt tímafrest samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna, enda getur sú vanræksla ekki valdið því að brotaþoli fari á mis við þá vernd sem hann nýtur eftir lögunum. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila í Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.  

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda varnaraðila, X, fyrir Hæstarétti 186.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 31. ágúst 2015.

Mál þetta, sem barst dómnum 17. ágúst sl., var tekið til úrskurðar eftir fyrirtöku 20. ágúst og úrskurður kveðinn upp 21. sama mánaðar. Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 564/2015, uppkveðnum 28. ágúst sl., var úrskurðurinn felldur úr gildi og málinu vísað heim í hérað til efnislegrar meðferðar. Á dómþingi 31. ágúst sl. var málið tekið fyrir að nýju, en síðan tekið til úrskurðar eftir flutning aðila.

Sóknaraðili, Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, krefst þess að staðfest verði ákvörðun hans frá 12. ágúst sl. um að varnaraðili, X, kt. [...], til heimilis að [...], Reykjavík, sæti nálgunarbanni frá uppkvaðningu úrskurðar í sex mánuði eða allt til 12. febrúar 2016, og þá þannig að honum verði bannað að koma á eða í námunda við heimili brotaþola, A, [...], [...], og að bannið afmarkist af 50 m radíus umhverfis heimili hennar mælt frá miðju íbúðar. Jafnframt verði varnaraðila bannað að setja sig í samband við brotaþola, nálgast hana á almannafæri, vinnustað hennar, að hafa samskipti við hana í síma, tölvu eða á annan hátt gegn vilja hennar.

Varnaraðili, X, andmælir framangreindum kröfum sóknaraðila og krefst þess að þeim verði hafnað.

Við meðferð málsins fyrir dómi var Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl. skipaður verjandi varnaraðila. Þá var Inga Lillý Brynjólfsdóttir hdl. skipuð réttargæslumaður brotaþola, en aðrir lögmenn mættu fyrir þeirra hönd við meðferð málsins fyrir dómi og hjá lögreglu. Var af hendi lögmannanna fyrir dómi og í greinargerð skipaðs verjanda varnaraðila krafist hæfilegrar þóknunar.

I.

Samkvæmt gögnum bar brotaþoli fram formlega kæru hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra þann 6. júlí sl. vegna ítrekaðs símaónæðis og rafrænna boðsendinga af hálfu varnaraðila á tímabilinu frá 3. til 5. sama mánaðar. Vísaði brotaþoli m.a. til þess að henni hefði borist á nefndu tímabili um 40 sms símboð, en einnig 5 boð í einkapósti. Lagði hún fram gögn þessu til staðfestu. Jafnframt bar brotaþoli fram beiðni um að varnaraðili yrði gert að sæta nálgunarbanni.

Af hálfu lögreglustjóra voru rannsóknargögn send embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, með bréfi dagsettu 27. júlí sl., með beiðni um rannsókn á kæruefninu, þ.e. brot á friðhelgi einkalífs. Í bréfinu var m.a. til þess vísað að lögmætur sólarhringsfrestur hefði liðið án viðbragða af hálfu embættisins vegna fyrrnefndrar nálgunarbeiðni brotaþola.

Samkvæmt gögnum tók löglærður fulltrúi Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra ákvörðun um lýst nálgunarbann varnaraðila þann 12. ágúst sl. á grundvelli fyrrnefndrar beiðni brotaþola frá 6. júlí sama ár.

Varnaraðili var yfirheyrður af lögreglu um kæruefnið í Reykjavík þann 14. ágúst sl., en þá var honum jafnframt kynnt fyrrnefnd beiðni brotaþola og einnig ákvörðun lögreglustjóra um nálgunarbann. Samkvæmt yfirheyrsluskýrslunni andmælti varnaraðili ákvörðuninni. Hann kannaðist við að hafa sent brotaþola greind símboð, en bar að þau hefðu m.a. varðað eignir sem væru í vörslum brotaþola. Hann lýsti því jafnframt yfir að hann myndi ekki ónáða brotaþola frekar.

Við lögreglurannsókn málsins var aflað frekari gagna um kæruefnið. Samkvæmt lögregluskýrslu, sem dagsett er 15. ágúst sl., hafði brotaþola borist yfir 180 símboð úr síma varnaraðila á tímabilinu 17. júlí til 12. ágúst sl., en þau voru þannig til viðbótar fyrrgreindum símboðum. Gögn þar um voru lögð fram við meðferð málsins fyrir dómi þann 20. ágúst sl. Jafnframt var af hálfu sóknaraðila lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjaness, í máli nr. [...], frá [...] sl.  Með þessum dómi var varnaraðili sakfelldur fyrir hegningarlagabrot, þ. á m. fyrir brot gegn tímabundnu nálgunarbanni gegn brotaþola, á tímabilinu frá [...] til [...]. Einnig var hann með þessum dómi dæmdur fyrir líkamsárás og hótun gegn brotaþola, en brotin framdi hann í [...] og fyrir áreitni gegn henni, sem hann framdi í [...].

Við meðferð málsins fyrir dómi áréttaði fulltrúi sóknaraðila kröfur sínar og vísaði til fyrrgreindra gagna. Hann benti m.a. á þá mikilvægu hagsmuni sem í húfi væru og að í ljósi nefndra gagna væri friðhelgi brotaþola ekki tryggð með öðrum og vægari hætti. Að því leyti var staðhæft að varnaraðila hefði tvisvar áður verið gert að sæta nálgunarbanni vegna hótana og áreitni gagnvart brotaþola. Um lagarök var vísað til a og b liða 4. gr. laga nr. 85, 2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Þá var við flutning vísað til þess að hin lögákveðnu tímamörk ættu ekki að ráða úrslitum, sbr. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar.

Af hálfu varnaraðila er í greinargerð, en einnig við flutning, vísað til þess að sóknaraðili hafi ekki virt fortakslausan frest samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga um nálgunarbann, sbr. að því leyti efni áðurrakins bréfs lögreglustjóra frá 27. júlí sl. Til þess er vísað að nálgunarbann sé tímabundin aðgerð og liggi ekkert fyrir um að aðstæður sé enn fyrir hendi um þörf sé fyrir slíkri aðgerð. Jafnframt er af hálfu varnaraðila því andmælt að skilyrði 4. gr. laga nr. 85, 2011 eigi við um nefnt athæfi, en staðhæft er að háttsemi hans hafi ekki varðað við ákvæði 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

II.

Fyrrnefnd ákvörðun lögreglustjóra er byggð á 7. gr. laga nr. 85, 2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, en þar um er sérstaklega vísað til 1. mgr. 3. gr. laganna.

Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. nefndra laga skal lögreglustjóri hraða meðferð máls og taka ákvörðun um nálgunarbann svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en sólarhring eftir að beiðni hefur borist frá brotaþola þar um. Í greinargerð Alþingis með lagagreininni er vísað til þess að miklir persónulegir hagsmunir séu í húfi og því sé nauðsynlegt að hraða málum, en að þó verði að gæta þess að lögreglustjóri færi röksemdir fyrir ákvörðun sinni um nálgunarbann. Segir að því þyki sólarhringsfrestur nægilegur til að unnt sé að taka fyrstu ákvörðun um nálgunarbann.

Eins og áður greinir barst embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra beiðni brotaþola 6. júlí sl.  Ákvörðun um nálgunarbann varnaraðila á grundvelli beiðninnar var fyrst tekin 12. ágúst sl., en þá var liðinn sá tími sem skýrlega er kveðið á um í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 85, 2011.

Samkvæmt a. og b. lið 4. gr. laga nr. 85, 2011 er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta sé á að viðkomandi muni fremja slíka háttsemi. Samkvæmt 7. gr. laganna skal nálgunarbanni markaður ákveðinn tími, að hámarki í eitt ár.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna skal nálgunarbanni aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti og skal þess gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Við mat á því er heimilt samkvæmt 2. mgr. 6. gr. að líta til þess hvort sakborningur hafi áður þurft að sæta nálgunarbanni og þess hvort háttsemi hans á fyrri stigum hafi verið þannig að hætta sé talin á að hann muni gerast brotlegur á þann hátt sem lýst er í 4. gr. laganna.

Í máli þessu liggur fyrir að varnaraðili og brotaþoli voru í óvígðri sambúð á árabilinu [...], en þau búa nú á sitt hvoru landshorninu.

Þegar gögn málsins eru virt í heild verður fallist á með sóknaraðila að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa nýverið margsinnis raskað heimilisfriði og einkalífi brotaþola með símaboðsendingum. Í ljósi þessa, en einnig lýstrar forsögu þykir áðurgreindur dráttur sóknaraðila ekki standa því í vegi fjallað verði efnislega um lýsta ákvörðun hans um nálgunarbann.

Eins og fyrr sagði var varnaraðili dæmdur fyrir alvarleg brot gegn brotaþola eftir að sambúð þeirra lauk. Á meðal sakaratriða sem varnaraðili var sakfelldur fyrir var brot á tímabundnu nálgunarbanni hans gagnavart brotaþola, en einnig hótanir, líkamsárás og áreitni.

Að öllu ofangreindu virtu er fallist á með sóknaraðila að fullnægt sé skilyrðum 4. gr. nefndra laga nr. 85, 2011 til að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði, með þeim takmörkum sem vísað er til í dómsorði, en að mati dómsins eru skýringar hans á lýstri hegðan marklaus.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila og skipaðs réttargæslumanns brotaþola, ásamt útlögðum kostnaði þeirra, að meðtöldum virðisaukaskatti, sem ákveðst eins og í úrskurðarorði greinir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88, 2008 og 1. mgr. 48. gr. sömu laga, sbr. 14. gr. laga nr. 85, 2011.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Staðfest er ákvörðun sóknaraðila, lögreglustjórans á Norðurlandi eystra frá 12. ágúst 2015 þess efnis að varnaraðili, X, kt. [...], til heimilis að [...], Reykjavík, sæti nálgunarbanni í sex mánuði og þá þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili brotaþola, A, [...], [...], á svæði sem afmarkast við 50 m radíus umhverfis heimili hennar mælt frá miðju íbúðar. Jafnframt er varnaraðila bannað að setja sig í samband við brotaþola, nálgast hana á almannafæri, vinnustað hennar, að hafa samskipti við hana í síma, tölvu eða á annan hátt gegn vilja hennar.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 181.200 krónur, auk útlagðs kostnaðar hans að fjárhæð 20.460 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttir hdl., 142.760 krónur, auk útlagðs kostnaðar hennar að fjárhæð 40.920 krónur, greiðist úr ríkissjóði.