Hæstiréttur íslands

Mál nr. 763/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Kröfulýsing
  • Réttindaröð
  • Slit


                                              

Miðvikudaginn 23. janúar 2013.

Nr. 763/2012.

Motor Insurer‘s Bureau

(Björn L. Bergsson hrl.)

gegn

Glitni hf.

(Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Kröfulýsing. Réttindaröð. Slit.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem því var hafnað að kröfu M við slit fjármálafyrirtækisins G hf. yrði veitt staða sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Óumdeilt var að krafan var til komin vegna innlána og var því ekki mótmælt af hálfu G hf. að þau flokkuðust sem innstæður í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þar sem kröfunni hafði verið lýst sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 var ekki unnt að fallast á dómkröfu M og var henni því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. desember 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að krafa hans nr. CL20090820-111 að fjárhæð 9.358.613,7 bresk pund, sem hann lýsti við slit varnaraðila skyldi njóta réttar sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og staðfest sú afstaða slitastjórnar varnaraðila að skipa kröfu sóknaraðila í röð almennra krafna samkvæmt 113. gr. sömu laga. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa hans verði viðurkennd sem forgangskrafa við slit varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Motor Insurer´s Bureau, um að krafa hans á hendur varnaraðila, Glitni hf., að fjárhæð 9.358.613,7 bresk pund verði við slit varnaraðila viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en staðfest er að krafan hafi stöðu sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 300.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2012.

Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, Glitnis hf., Sóltúni 26, Reykjavík, beindi slitastjórn varnaraðila, til dómsins 9. ágúst 2011 með vísan til 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 120. gr. sömu laga. Sóknaraðili er Motor Insurers Bureau Ltd., 6-12 Capital Drive Linford  Wood, Milton Keynes, Stóra-Bretlandi. Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 13. nóvember 2012.

Sóknaraðili krefst þess að við slit varnaraðila verði krafa hans nr. CL20090820-111 í kröfuskrá, samtals að fjárhæð 9.358.613,7 pund viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Hann krefst einnig málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að dómkröfu sóknaraðila, sem umreiknist í 1.788.243.906 krónur, verði hafnað og staðfest verði sú afstaða slitastjórnar varnaraðila að framangreind krafa sóknaraðila njóti stöðu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Hann krefst einnig málskostnaðar.

Málsatvik

Atvik málsins eru ágreiningslaus.

Varnaraðila var veitt heimild til slitameðferðar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2008. Með innköllun 25. maí 2009 var skorað á kröfuhafa að lýsa kröfum innan sex mánaða. Sóknaraðili lýsti kröfu sinni á hendur varnaraðila 20. júlí 2009 og var kröfulýsing móttekin af varnaraðila 6. ágúst það ár. Eins og síðar greinir lýtur ágreiningur aðila að því hvort kröfu sóknaraðila hafi verið lýst sem forgangskröfu með þessari kröfulýsingu.

Krafa sóknaraðila er tilkomin vegna heildsöluinnlána („wholesale deposits“) hjá útibúi varnaraðila í London. Í ljósi þess að í málinu er hvorki deilt um fjárhæðir þessara lána né að þau teljist inneignir í skilningi í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 6. gr. laga nr. 44/2009, er óþarft að gera nánari grein fyrir þeim samningum sem hér um ræðir. 

Í fylgibréfi með kröfulýsingu sóknaraðila dagsettu 20. júlí 2009 segir að um sé að ræða lýsingu kröfu vegna heildsölulána milli sóknaraðila og Glitnis. Þá segir að viðeigandi upplýsingar, eftir því sem óskað hafi verið eftir á vefsíðu varnaraðila, komi fram á meðfylgjandi útfylltu eyðublaði ásamt fylgigögnum til stuðnings kröfunni. Þá er óskað eftir staðfestingu á móttöku kröfunnar og boðnar fram frekari upplýsingar ef þurfa þyki. Á því eyðublaði sem fylgdi bréfinu voru fylltir út reitir sem lutu að upplýsingum um sóknaraðila og fjárhæð kröfu hans. Á annarri blaðsíðu eyðublaðsins var að finna töflu með sjö línum og sex dálkum. Dálkar töflunnar lutu að upplýsingum um fjárhæð kröfun (fjárhæð höfuðstóls, vextir til 22. apríl 2009, o.s.frv.) en línur töflunnar að tegund kröfunnar („Claim Type“). Í skýringartexta í smáu letri undir töflunni kom fram að hugtakið „tegund kröfu“ vísaði til 109. til 115. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sú lína sem sóknaraðili hafði fyllt út var auðkennd sem „ótryggð“ („unsecured“). Lína sem auðkennd var „forgangur“ („priority“) var hins vegar ekki fyllt út. Í reit sem auðkenndur var sem „frekari upplýsingar um kröfu“ („any further claim details“) var vísað til fylgigagna. Í smáu skýringarletri við þennan reit kom fram að ætlast væri til þess að kröfuhafi skýrði ítarlega frá atriðum sem þýðingu hefði um fjárhæð eða forgang. Þá kom fram að ef kröfuhafi teldi að krafa hans nyti forgangs samkvæmt íslenskum lögum bæri honum að skýra frá grundvelli forgangs.

Hinn 6. ágúst 2009 fékk sóknarnaðili rafskeyti frá varnaraðila þar sem staðfest var móttaka á kröfu hans og honum jafnframt tjáð að hann yrði látinn vita ef þörf væri á frekari upplýsingum. Hinn 9. apríl 2010 ritaði lögmaður sóknaraðila varnaraðila bréf þar sem gerð var krafa um að krafa sóknaraðila nyti stöðu forgangskröfu. Varnaraðili hafnaði þessari kröfu sóknaraðila með bréfi dags. 23. apríl 2009, m.a. á þeim forsendum að kröfunni hefði verið lýst sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Með bréfi 3. nóvember 2010 var sóknaraðila formlega tilkynnt um þá afstöðu að krafa varnaraðila að fjárhæð 1.788.243.906 kr., þ.e. höfuðstóll lýstrar kröfu sóknaraðila, teldist almenn krafa, en öðrum kröfum væri hafnað vegna ófullnægjandi lýsingar þeirra eða af öðrum ástæðum. Þar kemur jafnframt fram að kröfu sóknaraðila um vexti sem féllu til eftir 22. apríl 2009 hafi verið frestað með vísan til 119. gr. laga nr. 21/1991. Þessari afstöðu varnaraðila var mótmælt á kröfuhafafundi sem haldinn var 1. desember 2010 og þess enn krafist að krafan nyti forgangs í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Í kjölfarið var boðað til ágreiningsfundar í samræmi við ákvæði laga nr. 21/1991. Var hann haldinn þann 7. júlí 2011 svo sem áður greinir og var þá ákveðið að vísa ágreiningi aðila til héraðsdóms.

Aðilar deila ekki um fjárhæð kröfu  sóknaraðila sem byggist á fjórum samningnum sem hér segir:

Samningur nr. 1:

Höfuðstóll: £ 2.000.000,00

Samningsvextir fyrir 22. apríl 2009: £ 110.695,89

Samtals: £ 2.110.695,89

Samningur nr. 2:

Höfuðstóll: £ 2.000.000,00

Samningsvextir fyrir 22. apríl 2009: £ 118.553,42

Samtals: £ 2.118.553,42

Samningur nr. 3:

Höfuðstóll: £ 2.500.000,00

Samningsvextir fyrir 22. apríl 2009: £ 37.535,62

Samtals: £ 2.537.535,62

Samningur nr. 4:

Höfuðstóll: £ 2.500.000,00

Samningsvextir fyrir 22. apríl 2009: £ 91.828,77

Samtals:  £ 2.591.828,77

Líkt og áður greinir samþykkti slitastjórn varnaraðila höfuðstól þessara krafna og umreiknaði hann til 1.788.243.906 króna. Er ekki uppi ágreiningur um þann útreikning.

Málsástæður sóknaraðila

   Sóknaraðili byggir endanlegan málatilbúnað sinn á því að óumdeilt sé að krafa sóknaraðila lúti að heildsöluinnlánum sem falli undir hugtakið „innstæðu“ samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og njóti því forgangs samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 6. gr. laga nr. 125/2008. Krafa sóknaraðila eigi því samkvæmt efni sínu og kröfulýsingu að njóta réttar sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

   Hin raunverulega og eiginlega kröfulýsing varnaraðila sé hið undirritaða bréf 20. júlí 2009 þar sem fram komi, án allra tvímæla, að um sé að ræða formlega skráningu á kröfulýsingu vegna heildsöluinnstæðna sóknaraðila hjá varnaraðila. Bæði í kröfulýsingunni og fylgiskjölunum sé þannig tekið skýrt fram að um heildsöluinnlán sé að ræða. Í kröfulýsingareyðublaði sé nánari útlistun á kröfu sóknaraðila í samræmi við væntingar og leiðbeiningar varnaraðila. Þar séu veittar þær upplýsingar sem óskað hafi verið eftir í leiðbeiningum á heimasíðu varnaraðila og eyðublöðum. Þeim leiðbeiningum varnaraðila hafi verið fylgt við útfyllingu þeirra og getið um höfuðstól kröfu, gjalddaga og fleira. 

   Varnaraðili hafi tekið einhliða þá ákvörðun að dreifa eyðublaði á sameiginlegu vefsvæði sem opið var öllum kröfuhöfum, að sögn til aðstoðar þeim þúsundum erlendra kröfuhafa sem hefðu í hyggju að lýsa kröfum. Í raun hafi þessi stöðlun á kröfulýsingum fyrst og fremst verið gerð til að auðvelda varnaraðila móttöku og flokkun kröfulýsinga. Varnaraðila hafi ekki borið nein skylda til slíks samkvæmt ákvæðum laga. Eyðublaðið hafi hins vegar verið villandi og  skapað falskt öryggi hjá kröfuhöfum á þá leið að hagsmunir þeirra væru tryggðir ef fylgt væri leiðbeiningum. Þannig geti það ekki ráðið úrslitum í hvað reit á eyðublaði varnaraðila sóknaraðili fyllti út.

   Sóknaraðili leggur áherslu á að hann hafi ekki afsalað sér rétti til forgangs með ótvíræðum hætti. Sóknaraðili vísar til efnis og aðdraganda setningar laga nr. 125/2008, neyðarlaganna svokölluðu, og telur þetta sýna að réttarvernd innstæðu sem forgangskröfu sé ekki háð sérstakri kröfulýsingu. Forgangur leiði af lögum, enda sé slíkt í samræmi við eðli slíkra krafna og tilgang þeirrar verndar sem þeim var sérstaklega sköpuð með nefndri lagasetningu. Megintilgangur laganna, svo og laga nr. 44/2009, hafi verið að setja nýjar reglur um slitameðferð fjármálafyrirtækja vegna þeirra aðstæðna sem þá voru á fjármálamörkuðum. Jafnvel þótt lögin mæli fyrir um að ýmsum reglum gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 skuli fylgt við slit fjármálafyrirtækja þá sé það ekki algilt, enda slit fjármálafyrirtækja um margt ólík gjaldþrotum annarra fyrirtækja og margar kröfur þar að finna sem samkvæmt eðli sínu er alla jafna ekki að finna í þrotabúum annarra fyrirtækja. Því til stuðnings megi nefna að í athugasemdum í frumvarpi því sem fylgdi lögum nr. 44/2009, þar sem nefndri 102 gr. laga nr. 161/2002 hafi verið breytt, komi fram að almennar reglur um gjaldþrotaskipti eigi að gilda um slit fjármálafyrirtækis eftir því sem við getur átt. Sérstaklega sé hins vegar tiltekið að sérreglur í öðrum lögum geti þó leitt til annarrar niðurstöðu. Lögskýringarreglur myndu í slíkum tilfellum almennt leiða til þeirrar niðurstöðu að sérreglurnar yrðu taldar gilda framar hinum almennu reglum.

   Sóknaraðili telur að ein slík undantekning, sérregla, varði innstæður, eins og þær sem sóknaraðili byggir kröfu sína á. Sé því sérstaklega lýst að þær skuli njóta stöðu forgangskrafna. Engir fyrirvarar séu gerðir varðandi tíma eða önnur skilyrði sett fyrir slíkri stöðu þeirra krafna. Njóti þær því í raun betri stöðu en aðrar kröfur sem mælt er fyrir um að geti notið forgangs í nefndri 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga, einnig að því er varði skilyrði greinarinnar um stofnun kröfu á ákveðnu tímabili. Röng tilgreining á útfylltu eyðublaði geti ekki haggað þessari stöðu. Hafi eyðublaðið því enga sjálfstæða þýðingu.

   Sóknaraðili byggir einnig á því að í ljósi atvika málsins verði að túlka allan vafa honum í vil. Varnaraðili hafi í raun uppálagt kröfuhöfum að raða kröfum sínum ranglega í skuldaröð og verði sóknaraðila ekki lagt til lasts að hafa fylgt leiðbeiningum varnaraðila, sér í lagi í ljósi þess að innstæður eru ekki meðal þeirra krafna sem taldar séu upp í 112. gr. laga nr. 21/1991 og engin leið sé að átta sig á því af lestri gjaldþrotaskiptalaga að þær njóti forgangs. Þá er einnig vísað til fyrrgreindra sjónarmiða um markmiðin með setningu laga nr. 125/2008 því til stuðnings að um sé að ræða sérreglu.

   Sóknaraðili vísar auk þess til þess að ekki sé um vanlýsingu að ræða þar sem í upphafi hafi verið veittar haldgóðar upplýsingar um efni kröfunnar, uppruna hennar, fjárhæð og vexti. Varnaraðili hafi nú þegar samþykkt fjölda sambærilegra krafna sem forgangskröfur samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.

   Sóknaraðili byggir jafnframt á því að höfnun varnaraðila á að veita sóknaraðila sama forgang og sambærilegar kröfur hafa fengið, feli jafnframt í sér brot á 2. tl. 16. gr. tilskipunar Evrópuráðsins og þingsins nr. 24/2001 um endurskipulagningu og slit lánastofnana sem innleidd hefur verið með lögum nr. 161/2002 og síðari breytingum á þeim lögum. Mæli sú grein fyrir um að kröfur kröfuhafa með lögheimili í aðildarríki skuli meðhöndla og forgangsraða með samskonar hætti og kröfu kröfuhafa með lögheimili í heimaaðildarríki. Þessi tilskipun varði eingöngu slit á fjármálafyrirtækjum og undirstriki enn frekar sérstöðu slíkra slita í samanburði við hefðbundin þrotabú. Synjun á kröfu sóknaraðila í máli þessu feli í raun í sér að nefnd grein tilskipunarinnar hafi í tvígang verið brotin við slitameðferð varnaraðila; fyrst þegar sambærilegar kröfur í útibúi varnarðila á Íslandi voru færðar í nýja einingu og greiddar út án kröfulýsingar og aftur þegar sambærilegar kröfur sem skildar voru eftir hjá varnaraðila og voru flokkaðar sem forgangskröfur samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 en krafa sóknaraðila sem almenn krafa.

Málsástæður varnaraðila

   Varnaraðili mótmælir öllum málsástæðum og lagarökum sóknaraðila. Ekki sé ágreiningur milli málsaðila varðandi fjárhæð kröfunnar eins og hún sé sett fram í greinargerð sóknaraðila og umbreytt í íslenskar krónur af varnaraðila. Ágreiningur málsaðila snúi að mati varnaraðila eingöngu að því hvort hægt sé að breyta rétthæð lýstrar kröfu og skráningu hennar í kröfuskrá eftir að kröfulýsingarfresti lýkur sökum mistaka kröfuhafa í kröfulýsingu eða rangs lagaskilnings. Varnaraðili byggir á því að krafa sóknaraðila hafi verið réttilega skráð sem almenn krafa, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1191 í kröfuskrá á grundvelli kröfulýsingar sóknaraðila og vísar til eftirfarandi röksemda því til stuðnings.

   Varnaraðili bendir á að um kröfulýsingar og kröfulýsingarferlið gildi lögfestar reglur. Sé það eðlilegt enda komi fram að kröfulýsingu fyrir skiptastjóra fylgi sömu áhrif og ef mál hefur verið höfðað um kröfuna á þeirri stundu sem hún hefur borist honum, sbr. 6. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili vísar til þess að sú meginregla komi fram í 1. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1191 að sá sem vilji halda fram kröfu á hendur þrotabúi verði að lýsa henni fyrir skiptastjóra. Í 2. mgr. sömu greinar segi að kröfulýsing skuli vera skrifleg og þar sé jafnframt að finna ákvæði um efni kröfulýsingar. Meðal þess sem koma skuli fram í kröfulýsingu sé hverrar stöðu í skuldaröð sé krafist að krafa skuli njóta. Innan þeirra marka sem ákvæðið setji ráði kröfuhafi því hvernig hann útbúi kröfulýsingu sína. Af þessum fyrirmælum megi ráða að kröfulýsing þurfi nánast að vera í sama búningi og stefna í einkamáli, sbr. d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að tvennu leyti gildir þessi samjöfnuður þó ekki og gangi áskilnaður um efni kröfugerðar í kröfulýsingu lengra. Annars vegar verði í kröfulýsingu að tilgreina fjárhæð peningakröfu í krónum með sundurliðuðum útreikningi hennar til fullnaðar. Hins vegar sé áskilið í 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 að kröfuhafinn þurfi að láta í ljós í kröfulýsingu hvaða stöðu hann telji sig eiga að njóta í skuldaröð. Með öðrum orðum tákni þetta að hann verði að taka það beinlínis fram ef hann ætlast til, að krafa hans standi annars staðar í skuldaröð en sem almenn krafa. Í 6. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 komi síðan fram að kröfulýsing hafi sömu áhrif og ef mál hafi verið höfðað um kröfu á þeirri stund, sem kröfulýsing berst skiptastjóra.

   Varnaraðili byggir á því að eftir lok kröfulýsingarfrests geti kröfuhafar almennt ekki aukið við kröfur sínar nema að uppfylltum þröngum skilyrðum 1. – 6. töluliðs 118. gr. laga nr. 21/1991. Vísar varnaraðili í því sambandi til 116. og 117. gr. laga nr. 21/1991 svo og til ákvæðis 111. gr. laga nr. 91/1991. Hann vísar einnig til meginreglu gjaldþrotaréttar um jafnræði kröfuhafa um fullnustu krafna sinna og þess að samkvæmt almennum lögskýringarreglum beri að túlka þröngt allar undantekningar frá slíkri grunnreglu. Einu gildi hvort markmið síðari breytinga á kröfulýsingu sé að leiðrétta kröfulýsingar vegna óheppilegra mistaka eða misskilnings, líkt og sóknaraðili viðurkenni í raun með bréfi breskrar lögmannsstofu 9. apríl 2010 (sbr. orðalagið í bréfinu ,,... due to the obvious typing errors made in the registration ...“).

   Varnaraðili bendir á að þótt í bréfi sóknaraðila 20. júlí 2009 sé rætt um „heildsöluinnlán“ sé þess hvergi getið hverrar stöðu sé krafist að krafan skuli njóta í skuldaröð. Varnaraðili vísar til þess að í 119. gr. laga nr. 21/1991 sé mælt fyrir um skyldur skiptastjóra til að annast gerð kröfuskrár, þar sem tilgreint skuli hvers efnis kröfurnar eru, fjárhæð þeirra og umkrafinnar stöðu í skuldaröð. Þá segi þar að skiptastjóri skuli láta í ljós sjálfstæða afstöðu sína til þess hvort og þá hvernig hann telji að viðurkenna eigi hverja kröfu. Hvergi sé hins vegar kveðið á um það að skiptastjóra beri sjálfstætt að kanna hvort kröfuhafi eigi rétthærri kröfu á hendur búinu en lýst er í kröfulýsingu eða fjallað um skyldu hans til að benda kröfuhafa á slíkt,

   Varnaraðili vísar til dóms Hæstaréttar í máli nr. 156/2012 á þá leið að sóknaraðili þurfi sjálfur að bera ábyrgð á mistökum sínum, en að mati varnaraðila séu engin efni til að víkja frá þessu dómafordæmi í tilviki sóknaraðila. Bendir varnaraðili einnig á að sóknaraðili sé fyrirtæki á sviði vátrygginga með yfir 300 starfsmenn sem sjálft hafi þekkingu og reynslu af kröfulýsingum vegna tjóna. Þá hafi sóknaraðila verið í lófa lagið að leita sér sérfræðilegrar aðstoðar. Bendi ýmislegt til þess að varnaraðili hafi ætlað sér að lýsa kröfu sinni á þann hátt sem hann gerði.

   Varnaraðili mótmælir þeirri málsástæðu að krafa sóknaraðila eigi að njóta forgangs án tillits til kröfulýsingar og þeim rökum sem hann byggir á. Ekkert bendi til þess að aðrar reglur hafi átt að gilda um innstæður en aðrar kröfur varðandi kröfulýsingar. Ef ætlun löggjafans hefði verið að breyta þessum ströngu formreglum, hefði þurft að kveða á um slíkt með skýrum hætti í lögum. Sjálfkrafa forgangsréttur tiltekinna kröfutegunda án þess að lýsa þurfi þeim við slitameðferð sé einnig í andstöðu við meginreglu gjaldþrotaskiptaréttar um jafnræði kröfuhafa.

   Þá hafnar varnaraðili því að leiðbeiningar þær sem settar voru fram á heimasíðu hans hafi verið óljósar og villandi og orðið þess valdandi að mat eða álit starfsmanna sóknaraðila eða innsláttarvilla leiddi til þess að kröfunni var lýst sem almennri kröfu. Varnaraðili vísar til þess að í upphafi slitameðferðar hans og samhliða innköllun vegna hennar hafi verið settar fram leiðbeiningar í formi algengra spurninga og svara við þeim (e. FAQ) á heimasíðu slitastjórnar varnaraðila til handa erlendum kröfuhöfum um hvernig lýsa ætti kröfu við slitameðferðina (dskj. 24). Í inngangi leiðbeininganna hafi verið gerður skýr fyrirvari um gildi leiðbeininganna og viðkomandi hvattur til að ráðfæra sig við lögfræðing eða annan sérfræðing. Að mati varnaraðila er með engu móti hægt að líta á efni leiðbeininganna, sem veittar hafi verið án lagaskyldu og til þæginda fyrir kröfuhafa, sem tilmæli af nokkru tagi. Kröfuhafar hafi ráðið því hvernig þeir höguðu kröfulýsingu og ekki verið skuldbundnir til að notast við umrætt kröfulýsingareyðublað. Þetta hafi komið skýrt fram í leiðbeiningum varnaraðila.

   Varnaraðili hafnar því að staða innstæðna sem forgangskrafna hafi ekki komið fram í leiðbeiningum varnaraðila. Þar hafi sérstaklega verið tekið fram að undir forgangskröfur samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 6. gr. laga nr. 44/2009, féllu innstæður. Þá er vakin athygli á því að í innköllun sem birt var í Lögbirtingablaðinu hafi sérstaklega verið tekið fram að efni kröfulýsinga yrði að vera í samræmi við fyrirmæli 2. og 3. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991.

   Varnaraðili tekur fram að hann hafi í kjölfar dóma Hæstaréttar frá 28. október 2011, m.a. í máli nr. 276/2011, samþykkt kröfur eigenda heilsöluinnlánskrafna sem forgangskröfur enda hafi þeim verið lýst sem slíkum. Sú framkvæmd breyti því hins vegar ekki að rétthæð kröfu sóknaraðila hafi verið lýst sem almennri kröfu, færð þannig í kröfuskrá og samþykkt sem slík með breytingum.

   Varnaraðili mótmælir tilvísun sóknaraðila til 2. tl. 16. gr. tilskipunar Evrópuráðsins og -þingsins nr. 24/2001 um endurskipulagningu og slit lánastofnana. Varnaraðili bendir á að í umræddri tilskipun komi fram að henni sé ekki ætlað að raska innlendum réttarreglum um kröfur á hendur lánastofnununum og meðferð þeirra krafna sem lýst sé eftir að slitameðferð hefst sem og þeim reglum sem gilda um kröfulýsingar, sannprófun og skráningu krafna, sbr. f- og g-lið 2. mgr. 10. gr. tilskipunarinnar. Slík túlkun myndi og leiða til þess að jafnræði kröfuhafa yrði raskað verulega.

Niðurstaða

   Í máli þessu er óumdeilt að krafa sú sem sóknaraðili lýsti 20. júlí 2009 við slit varnaraðila er vegna innlána í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 6. gr. laga nr. 44/2009, og nýtur þar með rétthæðar samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt almennum reglum um rétthæð krafna á hendur þrotabúi, sem vísað er til í tilvitnuðu lagaákvæði, er réttarvernd kröfu sem forgangskröfu þó háð því að kröfuhafi lýsi kröfu sinni sem slíkri í kröfulýsingu og geri viðhlítandi grein fyrir þeim málsástæðum sem hann byggir rétt sinn á, sbr. 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991. Sé kröfu lýst án kröfu um tiltekna stöðu í skuldaröð leiðir meginreglan um jafnræði kröfuhafa til þess að krafan telst almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

   Með dómi Hæstaréttar 6. september 2012 í máli nr. 506/2012 var því slegið föstu að tilgreining kröfu í kröfulýsingu sem „heildsöluinnláns“ jafngildi ekki kröfu um forgang við slit fjármálafyrirtækis. Með vísan til þessa dóms Hæstaréttar, sem hér hefur fordæmisgildi, verður því hafnað málsástæðum sóknaraðila á þá leið að í fyrrgreindu bréfi hans 20. júlí 2009 hafi falist krafa um forgang við slit varnaraðila. Á útfylltu eyðublaði sem fylgdi bréfi sóknaraðila var fylltur út reitur sem átti við almennar kröfur en ekki forgangskröfur sem ætlaður var annar reitur samkvæmt skýringum sem var að finna á eyðublaðinu. Á hinu útfyllta eyðublaði var ekki heldur gerð nein grein fyrir grundvelli forgangs í viðeigandi reit. Er því ekkert komið fram í málinu um að umræddri kröfu hafi verið lýst sem forgangskröfu samkvæmt 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt þessu verður krafa sóknaraðila ekki á því byggð að í kröfulýsingu hans 20. júlí 2009 hafi í raun falist krafa um að fjárkrafa hans nyti forgangs við slit varnaraðila.

   Sóknaraðili hefur ekki sýnt fram á að vanlýsing hans verði rakin til rangra eða ófullnægjandi upplýsinga varnaraðila til kröfuhafa. Þá hafa ekki verið færð fyrir því haldbær rök að áskilnaður íslenskra laga um að kröfuhafi geri grein fyrir sérstakri stöðu kröfu í skuldaröð sé í ósamræmi við reglur Evrópska efnahagssvæðisins. Að lokum verður ekki á það fallist að slitastjórn hafi borið að taka til greina leiðréttingar sóknaraðila sem fyrst komu fram eftir að kröfulýsingarfresti lauk.

   Samkvæmt framangreindu verður kröfu sóknaraðila hafnað.

   Um fjárhæð kröfu varnaraðila er ekki ágreiningur. Verður því fallist á kröfu varnaraðila um að staðfest sé að krafa sóknaraðila njóti stöðu sem almenn krafa samkvæmt því sem nánar segir í úrskurðarorði.

   Eftir úrslitum málsins verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað sem ákveðst hæfilegur 1.250.000 kr. og hefur þá verið tekið tillit til útlagðs kostnaðar og skyldu til greiðslu virðisaukaskatts.

   Af hálfu sóknaraðila flutti málið Magnús Hrafn Magnússon hdl.

   Af hálfu varnaraðila flutti málið Þórður Guðmundsson hdl.

   Skúli Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

   Kröfu sóknaraðila, Motor Insurers Bureau Ltd., gegn varnaraðila, Glitni hf., er hafnað.

   Staðfest er að krafa sóknaraðila samkvæmt kröfulýsingu 20. júlí 2009 að fjárhæð 1.788.243.906 krónur nýtur stöðu sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit varnaraðila.

   Sóknaraðili greiði varnaraðili 1.250.000 kr. í málskostnað.