Hæstiréttur íslands
Mál nr. 28/2000
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 24. janúar 2000. |
|
Nr. 28/2000. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Hallvarður Einvarðsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X var undir rökstuddum grun um aðild að umfangsmiklu fíkniefnamáli. Var X gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. janúar 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2000, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 9. febrúar nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Til þrautavara krefst hann þess að sér verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Varnaraðili er undir rökstuddum grun um að hafa flutt mikið magn fíkniefna til landsins. Rannsókn málsins er komin vel á veg, en misræmis gætir þó í framburði varnaraðila og annarra, sem tengjast því, meðal annars um hversu mikið af fíkniefnum hafi verið flutt til landsins. Má þannig fallast á að varnaraðili gæti torveldað rannsókn málsins ef hann fer frjáls ferða sinna. Samkvæmt þessu er fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi. Verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2000.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi frá lokum gæsluvarðhalds þess er rennur út kl. 16 í dag allt til miðvikudagsins 9. febrúar nk. kl. 16, vegna gruns um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og/eða 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Kærði mótmælir kröfunni. Hann krefst þess aðallega að henni verði hafnað, en til vara, verði orðið við kröfunni, að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Til þrautavara er þess krafist að kærða verði gert að sæta farbanni.
[...]
Ljóst er að þáttur kærða í málinu er verulegur. Með vísan til gagna málsins og a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður krafa lögreglustjórans í Reykjavík um gæsluvarðahald yfir kærða tekin til greina eins og hún er fram sett.
Júlíus B. Georgsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi frá lokum gæsluvarðhalds þess er rennur út kl. 16 í dag allt til miðvikudagsins 9. febrúar nk. kl. 16.