Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-64

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Ómari Erni Reynissyni (Stefán Geir Þórisson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kynferðisbrot
  • Sönnun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 12. apríl 2024 leitar Ómar Ernir Reynisson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 22. mars sama ár í máli nr. 146/2023: Ákæruvaldið gegn Ómari Erni Reynissyni. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 8. apríl 2024. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við brotaþola án hennar samþykkis, með því að stinga fingri í leggöng hennar eftir að hún hafði látið hann vita að hún vildi það ekki og haft við hana samræði er hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og haldið áfram að hafa við hana samræði eftir að hún vaknaði og beitt hana ofbeldi og ólögmætri nauðung. Leyfisbeiðandi var dæmdur til tveggja og hálfs árs fangelsisvistar.

4. Leyfisbeiðandi tekur fram að með áfrýjun vilji hann aðallega ná fram ómerkingu dóms Landsréttar en til vara að dóminum verði hnekkt þannig að leyfisbeiðandi verði sýknaður af ákæru eða refsing verði lækkuð. Leyfisbeiðandi vísar til þess að í málinu sé um að ræða gríðarlega mikilsverða hagsmuni ungs manns. Málsmeðferð í Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant og dómur Landsréttar sé bæði rangur að efni og formi til. Skilyrði séu til að veita áfrýjunarleyfi til þess að fá endurskoðun á niðurstöðum sem byggðar eru á sönnunargildi annarra gagna en munnlegs framburðar fyrir héraðsdómi eða fyrir Landsrétti. Í málinu liggi fyrir skrifleg sönnunargögn, svo sem skýrsla hjúkrunarfræðings frá komu á neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis og rafræn skilaboð sem þörf sé á að fjalla um og hafi verulega þýðingu í málinu. Það sé því beinlínis rangt sem fram komi í lið 12 í dómi Landsréttar að lyktir málsins ráðist af mati á sönnunargildi og trúverðugleika brotaþola og ákærða fyrir dómi.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.