Hæstiréttur íslands

Mál nr. 415/2005


Lykilorð

  • Sveitarfélög
  • Gatnagerðargjald
  • Stjórnsýsla


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. mars 2006.

Nr. 415/2005.

Trésmíðaverkstæði Sveins Heiðars ehf.

(Jóhannes B. Björnsson hrl.)

gegn

Akureyrarbæ

(Björn L. Bergsson hrl.)

 

Sveitarfélög. Gatnagerðargjald. Stjórnsýsla.

Við úthlutun byggingarreita í Teigahverfi á Akureyri í desember 1998 fékk T ehf. reit við Holtateig. Samkvæmt deiliskipulagi fyrir hverfið bar honum að annast skipulagningu og hönnun reitsins en afmarka mátti innan hans lóðarhluta til einkaafnota hvers húss eða hverrar íbúðar. Eins og ákveðið var í skilmálum vegna úthlutunarinnar bar honum enn fremur að kosta og sjá um ýmsan frágang innan reitsins, fullgera bílastæði, aðkomuleiðir og göngustíga. Innheimti A síðan gatnagerðargjald af reitnum í heild sinni í samræmi við lög og reglugerð þar að lútandi og gjaldskrá um gatnagerðargjald á Akureyri. Af hálfu T ehf. var talið ekki hefði verið heimilt að innheimta hjá honum full gatnagerðargjöld þar sem framkvæmdir, sem gjöldunum hefði verið ætlað að standa undir, hefðu verið unnar á kostnað lóðarhafa. Talið var að ákvörðun um fjárhæð gatnagerðargjalds lyti hefðbundnum skattalegum sjónarmiðum og skyldi byggjast á almennum efnislegum mælikvarða. Lægi ekki annað fyrir en að gjaldið, sem lagt var á T ehf., hefði verið ákveðið á málefnalegan hátt eftir efnislegum mælikvarða og ósannað var að jafnræðis hefði ekki verið gætt við ákvörðun þess. Var A því sýknaður af kröfum T ehf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 15. september 2005. Hann krefst þess aðallega að stefndi greiði sér 15.403.693 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. febrúar 2004 til greiðsludags. Til vara krefst hann 10.556.546 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 3. mars 2000 til 12. júní 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Í máli þessu krefur áfrýjandi stefnda um endurgreiðslu gatnagerðargjalds. Deila aðilar um réttmæti þess hvernig gjaldið var lagt á og hæð þess. Málsatvik eru þau að við gerð deiliskipulags fyrir Teigahverfi á Eyrarlandsholti á Akureyri var ákveðið að þremur byggingareitum skyldi úthlutað í einu lagi hverjum fyrir sig og áttu þeir er fengu reitunum úthlutað að annast skipulagningu og hönnun þeirra. Samkvæmt fundargerð bygginganefndar Akureyrarbæjar, sem staðfest var af bæjarstjórn 15. desember 1998, var samþykkt að úthluta áfrýjanda einum reitnum eftir umsókn hans. Var reitur þessi við Holtateig á Akureyri. Giltu um reitinn byggingar-, skipulags- og úthlutunarskilmálar skipulagsdeildar Akureyrarbæjar frá 11. nóvember 1998, en samkvæmt þeim skyldu reitirnir þrír vera hver fyrir sig sameiginlegar og óskiptar leigulóðir. Í skilmálunum kom fram að afmarka mátti innan reitanna lóðarhluta til einkaafnota hvers húss eða hverrar íbúðar, en framkvæmdaaðili skyldi kosta og sjá um frágang lóða og sameiginlegra lóðarhluta, grófjafna lóð, ganga frá og fullgera bílastæði, aðkomuleiðir og göngustíga. Skyldi honum óheimilt að undanskilja þessa þætti við sölu íbúðanna. Áfrýjandi lét vinna deiliskipulag fyrir reitinn og átti að byggja þar sjö raðhús með 27 íbúðum. Áttu raðhúsin að standa við tvo akstíga á reitinn frá Holtateigi og átti því áfrýjandi samkvæmt skilmálunum að kosta alla gerð þessara akstíga svo og lagnir um þá að húsunum. Ágreiningslaust er að gatnagerðargjald var innheimt samkvæmt lögum nr. 17/1996 um gatnagerðargjald, reglugerð nr. 543/1996 um sama efni og gjaldskrá um gatnagerðargjald á Akureyri af úthlutuðum reit í heild sinni. Í 13. gr. gjaldskrárinnar voru ákvæði um byggingarsvæði sem úthlutað hafði verið til skipulagningar. Mátti bygginganefnd áfangaskipta framkvæmdum á þeim. Í ákvæðinu sagði að bæjarráð ákvarðaði gatnagerðargjald af þessum svæðum með tilliti til skipulags og þátttöku lóðarhafa í gerð gatnaframkvæmda á svæðinu, sbr. 8. gr.  Samkvæmt 4. tölulið 8. gr. mátti bæjarstjórn ákvarða frávik frá gatnagerðargjaldi ef sérstakar ástæður sköpuðust innan hverfa, svo sem þátttaka lóðarhafa í gerð gatnaframkvæmda, annarra en aðkomugatna að einstökum húsum, lóðir væru erfiðar í vinnslu, staðsetning óhagstæð eða annað sem valdið gæti umtalsverðum kostnaði  við undirbúning byggingaframkvæmda.

Félagsmálaráðuneytið gaf út álit 22. apríl 2003 vegna ágreinings hagsmunafélags húseigenda við Melateig á Akureyri við stefnda, en úthlutun og uppbyggingu þess reits var hagað með svipuðum hætti og á reit áfrýjanda. Í álitinu sagði meðal annars: „Ráðuneytið telur að í ljósi eðlis gatnagerðargjalds sem þjónustugjalds hafi Akureyrarkaupstað verið óheimilt að innheimta fullt gatnagerðargjald af lóðarhafa Melateigs en láta lóðarhafa engu að síður annast alla gatnagerð á lóðinni á eigin kostnað. Er það álit ráðuneytisins að undir þessum kringumstæðum hafi Akureyrarkaupstað borið að veita lóðarhafa afslátt af gatnagerð sem næst þeirri fjárhæð sem sveitarfélagið sparaði sér með umræddu fyrirkomulagi.” Áfrýjandi taldi að í áliti þessu fælist að stefnda væri ekki heimilt að innheimta full gatnagerðargjöld ef framkvæmdir, sem gjöldunum væri ætlað að standa undir, væru unnar á kostnað lóðarhafa. Ritaði hann stefnda 12. maí 2003 og lýsti því yfir að hann hygðist endurkrefja stefnda um ofgreidd gatnagerðargjöld.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að gatnagerðargjöld verði notuð til gerðar gatna almennt í kaupstaðnum og séu ekki bundin við ákveðnar götur. Stefndi hafi til dæmis kostað gerð Holtateigs sem reiturinn standi við.  Innkeyrslur að raðhúsunum séu hins vegar aðkomugötur og sé það á valdi bæjarins að ákveða gatnagerðargjald fyrir reitinn í heild sinni, enda hafi framkvæmdirnar allar verið innan lóðar. Með því að leyfa framkvæmdaaðilum að skipuleggja umrædda reiti og áfangaskipta framkvæmdum hafi stefndi verið að koma til móts við þá.

II.

Með skírskotun til raka héraðsdóms verður að telja að ákvörðun um fjárhæð gatnagerðargjalds lúti hefðbundnum skattalegum sjónarmiðum og skuli byggjast á almennum efnislegum mælikvarða. Ósannað er að stefndi hafi ekki farið eins með gatnagerðargjald af þeim reitum sem til úthlutunar voru í greint sinn og sambærilegir máttu teljast. Ekki er annað fram komið en að gatnagerðargjaldið hafi verið ákveðið á málefnalegan hátt eftir efnislegum mælikvarða þegar litið er til hagræðis áfrýjanda af því að fá sjálfur að skipuleggja reitinn og haga framkvæmdum í samræmi við það er best hentaði honum og í samræmi við markaðsaðstæður. Þá liggur ekki fyrir að öðru vísi hafi verið farið með aðkomugötur að raðhúsunum en tíðkanlegt sé í öðrum tilvikum. Ágreiningslaust er að fjárhæð gjaldsins hafi verið innan hámarks 3. mgr. 3. gr. laga nr. 17/1996. Verður ekki af réttarheimildum ráðið að stefnda hafi verið skylt að víkja frá fjárhæðum gjaldskrár í greint sinn.  Niðurstaða héraðsdóms verður þannig staðfest um annað en málskostnað.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Áfrýjandi, Trésmíðaverkstæði Sveins Heiðars ehf., greiði stefnda, Akureyrarbæ, samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. júní 2005.

Mál þetta sem dómtekið var þann 31. maí sl. hefur Trésmíðaverkstæði Sveins Heiðars ehf., kt. 500189-1509, Skipagötu 16, Akureyri höfðað hér fyrir héraðsdómi Norðurlands eystra gegn Akureyrarbæ, kt. 410169-6229, Geislagötu 9, Akureyri með stefnu birtri 24. febrúar 2004.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefnda verði gert að greiða stefnanda kr. 15.403.693 með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá stefnubirtingardegi til greiðsludags.

Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda kr. 10. 556.546 með vöxtum skv. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, af kr. 392.351 frá 3. mars 2000 til 11. maí 2000, af kr. 808.362 frá þeim degi til 8. ágúst 2000, af kr. 1.212.040 frá þeim degi til 22. ágúst 2000, af kr. 1.541.964 frá þeim degi til 28. nóvember 2000, af kr. 2.286.394 frá þeim degi til 15. febrúar 2001, af kr. 2.668.072 frá þeim degi til 16. maí 2001, af kr. 3.035.904 frá þeim degi til 31. maí 2001, af kr. 3.362.933 frá þeim degi til 14. september 2001, af kr. 3.555.634 frá þeim degi til 30. janúar 2002, af kr. 4.577.463 frá þeim degi til 27. september 2002, af kr. 6.056.147 frá þeim degi til 30. desember 2002, af kr. 6.733.451 frá þeim degi til 31. desember 2002, af kr. 7.120.822 frá þeim degi til 28. febrúar 2003, af kr. 7.459.112 frá þeim degi til 6. mars 2003, af kr. 7.824.332 frá þeim degi til 2. apríl 2003, af kr. 8.355.103 frá þeim degi til 7. apríl 2003, af kr. 8.808.920 frá þeim degi til 14. apríl 2003, af kr. 9.278.958 frá þeim degi til 19. maí 2003 og af kr. 10.556.542 frá þeim degi til 12. júní 2003 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi, í báðum tilvikum, málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi gerir kröfu um sýknu af öllum kröfum stefnanda.  Jafnframt krefst stefndi þess að honum verði tildæmdur málskostnaður að skaðlausu úr hendi stefnanda.

I

Í málinu er deilt um rétt stefnanda til endurgreiðslu gatnagerðargjalds.

Eru málsatvik þau að við gerð deiliskipulags fyrir Teigahverfi á Eyrarlandsholti á Akureyri var ákveðið að þremur byggingareitum (reitum nr. 1, 2 og 3) skyldi úthlutað í heild til byggingarfélaga.  Var sú ákvörðun byggð á því að þau hefðu þá aukið svigrúm til að haga uppbyggingu eftir framboði og eftirspurn og verkefnastöðu.  Þá mætti auka hagkvæmni með endurteknum byggingum, hagræði í innkaupum og því að hafa tól og aðbúnað starfsmanna á einni bækistöð.

Reitirnir voru auglýstir til umsókna haustið 1998 og sótti stefnandi um reiti nr. 1 og 2 þann 24. nóvember 1998.  Fékk hann reit nr. 1 úthlutað þann 9. desember sama ár. Í fundargerð byggingarnefndar frá 9. desember 1998, sem staðfest var af bæjarstjórn 15. desember s.á., kemur fram að nefndin hafi samþykkt að veita stefnanda reit nr. 1 við Holtateig.  Í bókuninni segir að um gatnagerðargjöld skuli fara að nýrri gjaldskrá um gatnagerðargjald sem samþykkt var í bæjarráði 3. desember 1998 og lá fyrir næsta fundi bæjarstjórnar til afgreiðslu.

Um reitinn giltu byggingar-, skipulags- og úthlutunarskilmálar skipulagsdeildar Akureyrarbæjar frá 11. nóvember 1999. Samkvæmt skilmálunum skyldu lóðirnar vera leigulóðir frá Akureyrarbæ.  Reitir nr. 1-6 skyldu vera sameiginlegar og óskiptar leigulóðir.  Innan þeirra var heimilt að afmarka lóðarhluta til einkaafnota hvers húss eða hverrar íbúðar en gjaldstofn fasteignagjalda af lóð hverrar íbúðar skyldi ákveðinn í hlutfalli við stærð íbúðar og þar með talda hlutdeild í sameiginlegu svæði.  Í skilmálunum kom einnig fram að framkvæmdaaðili skyldi kosta og sjá um frágang lóða og sameiginlegra lóðarhluta, grófjafna lóð, ganga frá og fullgera bílastæði, aðkomuleiðir og göngustíga. Skyldi honum óheimilt að undanskilja þessa þætti við sölu íbúðanna.

Í ofangreindum skilmálum skipulagsdeildar stefnda kemur fram að lóðarhafar byggingarreita nr. 1-3 skuli annast skipulagningu og hönnun reitanna.  Aðkoma sé ekki bundin í skipulag en markaðist af skipulagi reits og nýtingu.  Við skipulagið skuli þess gætt að fjarlægð aðkomu sé hæfileg frá gatnamótum aðliggjandi gatna.  Í skilmálunum segir jafnframt að allir akstígar innan reita skuli útfærðir sem vistgötur.

Í samræmi við skilmálana lét stefnandi vinna deiliskipulag fyrir reitinn og barst tillaga hans um deiliskipulag þann 13. apríl 1999.  Samkvæmt tillögunni skyldi byggja á reitnum sjö raðhús með 27 íbúðum.  Skyldu vera þrjú raðhús austan megin með sameiginlega innkeyrslu frá götu og vestan megin fjögur raðhús með sameiginlega innkeyrslu frá götu.  Bæjarstjórn samþykkti deiliskipulagstillöguna þann 4. maí 1999 og 23. júlí var það samþykkt af Skipulagsstofnun athugasemdalaust.  Skipulagið var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda og öðlaðist gildi 10. ágúst 1999.

Þann 28. mars 2000 gerðu aðilar málsins með sér lóðarleigusamning.  Samkvæmt honum skyldi vera um að ræða sameiginlega lóð fyrir húsaþyrpingar nr. 2-54 við Holtateig og lóðin leigð til hvers konar nota í samræmi við aðal- og deiliskipulag, eins og um eign væri að ræða.  Í samningnum segir m.a. að ógreidd gatnagerðargjöld, sem samið hefur verið um á grundvelli ákvæða í gjaldskrá stefnda, njóti lögveðsréttar í lóðinni og þeim fasteignum sem á henni rísi.  Við sölu fasteigna á lóðinni skuli lóðarhafi vekja athygli kaupanda á kvöðinni hafi gjaldið þá ekki verið greitt að fullu.

Um greiðslu gatnagerðargjalds gerðu aðilar fimm samninga; þann 8. desember 1999 að upphæð kr. 4.094.446 vegna Holtateigs 46-54, 28. júní 2000 að upphæð kr. 3.383.347 vegna Holtateigs 28-34, 8. júní 2001 að upphæð 2.012.405 vegna Holtateigs 18-20-22, 29. janúar 2002 að upphæð 4.523.415 vegna Holtateigs 2-10 og 16. júlí 2002 að upphæð 4.800.548 vegna Holtateigs 36-44.  Í samningunum segir að gjaldið sé tengt veitingu byggingaleyfis samkvæmt 2. gr. gjaldskrár stefnda um gatnagerðargjald.  Er þar vísað til 9. gr. gjaldskrárinnar þar sem segir að lóðarhafa beri að greiða gjaldið við samþykkt aðalteikninga og/eða veitingu byggingarleyfis.  Heimilt sé þó samkvæmt ákvæðinu að gera greiðslusamning um gjaldið.  Með ofangreindum samningum aðila var stefnanda veittur frestur til greiðslu gjaldanna og skyldu þau, í öllum tilvikum, greidd með sjö jöfnum árfjórðungslegum greiðslum.  Væru gjöld ekki greidd við sölu íbúðar skyldi stefnandi taka það fram í kaupsamningi við viðskiptavini sína að lögveð hvíldi á hinni seldu íbúð til greiðslu gatnagerðargjalds.

Þann 22. apríl 2003 gaf félagsmálaráðuneytið út álit vegna hagsmunafélags húseigenda við Melateig á Akureyri, en þar var úthlutun og uppbyggingu hagað með svipuðum hætti og á reit stefnanda.  Í því áliti segir í niðurstöðu m.a.: „Ráðuneytið telur að í ljósi eðlis gatnagerðargjalds sem þjónustugjalds hafi Akureyrarkaupstað verið óheimilt að innheimta fullt gatnagerðargjald af lóðarhafa Melateigs en láta lóðarhafa engu að síður annast alla gatnagerð á lóðinni á eigin kostnað.  Er það álit ráðuneytisins að undir þessum kringumstæðum hafi Akureyrarkaupstað borið að veita lóðarhafa afslátt gatnagerð sem næst þeirri fjárhæð sem sveitarfélagið sparaði sér með umræddu fyrirkomulagi.“

Taldi stefnandi að í álitinu fælist sú niðurstaða að stefnda væri ekki heimilt að innheimta full gatnagerðargjöld ef þær framkvæmdir sem gjöldunum væri ætlað að standa undir væru unnar á kostnað lóðarhafa og þann 12. maí 2003 ritaði hann stefnda bréf þar sem hann lýsti því yfir að hann hygðist krefja stefnda um endurgreiðslu og/eða afslátt vegna ofgreiddra gatnagerðargjalda.  Gerði stefnandi þar fyrirvara þess efnis að ef honum yrði gert að greiða gatnagerðargjald vegna lóða sem þegar hafði verið úthlutað eða honum yrði síðar úthlutað áskildi hann sér rétt til að krefja bæinn um endurgreiðslu gjaldsins sem næmi kostnaði af lagningu gatnanna.  Óskaði hann eftir að gengið yrði til samninga um endurgreiðslu ofgreiddra gatnagerðargjalda og/eða möguleg uppkaup stefnda á götum í eigu stefnanda.

Stefndi svaraði bréfi stefnanda með bréfi dags. 21. maí 2003.  Var stefnanda þar kynnt bókun bæjarráðs frá 8. maí í tilefni af áliti félagsmálaráðuneytisins vegna Melateigs.  Fól bæjarráð bæjarlögmanni og sviðsstjóra tækni- og umhverfissviðs að vinna tillögu að úrlausn málsins á grundvelli álitsins og skyldi þeirri vinnu hraðað svo sem kostur væri. Tillöguna skyldi vinna í samvinnu við ráðuneytið og Skipulagsstofnun og leggja fyrir bæjarráð.  Niðurstöður þeirrar vinnu skyldu kynntar aðilum máls.

Í framhaldi af bréfinu átti stefnandi fund með forsvarsmönnum stefnda.  Ítrekaði hann þar kröfur sínar.  Forsvarsmenn stefnda báðu um frest til að leysa málið og veittu jafnframt frest á greiðslu frekari gatnagerðargjalds.  Kom þó fram í yfirlýsingu stefnda að greiðslufrestinn bæri hvorki að skoða sem viðurkenningu eða yfirlýsingu um ólögmæta innheimtu gatnagerðargjalda né eftirgjöf álagðra gjalda.

Stefndi sendi stefnanda bréf þann 14. nóvember 2003.  Var þar tekin upp bókun bæjarráðs frá 25. september 2003, sem samþykkt var af bæjarstjórn þann 7. október s.á.  Kom þar fram að bæjarráð hefði samþykkt að taka að sér rekstur og viðhald götumannvirkja og opinna svæða í Melateigi, þ.m.t. götulýsingu og holræsakerfi að lóðamörkum.  Var þar einnig samþykkt að lóðinni við Melateig yrði skipt upp í tíu lóðir og féllst stefndi á þátttöku í lögfræðikostnaði íbúa við Melateig vegna málsins.  Öðrum kröfum íbúanna var hafnað.  Í bókuninni kom fram að Akureyrarbær skyldi leita samkomulags við íbúa annarra gatna og/eða hverfa, þar sem skipulag væri sambærilegt, um að taka að sér rekstur og viðhald götumannvirkja.  Stefnanda var tilkynnt að niðurstaða væri þó ekki enn fengin í málinu og því væri ekki unnt að taka afstöðu til kröfu hans.

II

Stefnandi byggir kröfu sína á því að sú ákvörðun stefnda að leggja á stefnanda allan kostnað við lagningu gatna og lagna við Holtateig á Akureyri og krefja hann jafnhliða um greiðslu óskerts gatnagerðargjalds hafi verið ólögmæt.  Samkvæmt 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 sé sveitarfélögum skylt að annast þau verkefni sem þeim séu falin lögum samkvæmt.  Í 4. mgr. 44. gr. laga nr. 73/1997 um skipulags- og byggingarmál sé sveitarfélagi gert skylt, þegar byggingarleyfi hefur verið gefið út fyrir nýbyggingu á skipulögðu svæði í þéttbýli, að sjá um að götur, rafmagn, vatn og holræsi séu fyrir hendi, sbr. einnig grein 13.4 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Í lögum nr. 17/1996 um gatnagerðargjald sé sveitarfélögum veitt heimild til álagningar gatnagerðargjalds til að mæta kostnaði af byggingu gatna og lagnakerfa.  Samkvæmt 2. gr. laganna sé sveitarfélögunum skylt að nota innheimt gatnagerðargjald til gatnagerðar í sveitarfélaginu, svo sem til að undirbyggja götur með tilheyrandi lögnum, m.a. vegna götulýsingar og leggja bundið slitlag, gangstéttir, umferðareyjar og þess háttar í samræmi við skipulag.  Um þetta vísar stefndi einnig í gjaldskrá um gatnagerðargjald á Akureyri frá 15. desember 1999.

Stefnandi kveðst vísa til 4. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en þar sé sveitarstjórn heimilað að leysa sig undan þeirri skyldu að sjá til þess að götur, rafmagn, vatn og holræsi séu fyrir hendi við útgáfu byggingarleyfis með því að gera um það sérstakan fyrirvara.  Slíkan fyrirvara sé að finna í byggingar-, skipulags- og úthlutunarskilmálum fyrir íbúðabyggð á Eyrarlandsholti og á grundvelli hans hafi stefnandi annast og kostaði gerð gatna, götulýsingar og lagna fyrir rafmagn, vatn og holræsi frá mörkum byggingareitsins að hverju húsi fyrir sig.  Stefnandi telur að af eðli máls og meginreglum stjórnsýslulaga og stjórnarskrárinnar um jafnræði leiði, að stefndi geti ekki hvort tveggja í senn nýtt sér heimildina í 4. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga og velt þannig kostnaði af framkvæmdunum yfir á stefnanda og innheimt fullt gatnagerðargjald vegna svæðisins.

Telur stefnandi að skýra verði heimild stefnanda til álagningar gatnagerðargjalda út frá þeim ákvæðum sem að ofan hafa verið rakin.  Einnig verði að líta til eldri laga nr. 51/1974 um gatnagerðargjald. Vísar hann um þetta til álits félagsmálaráðuneytisins frá 22. apríl 2002.  Þar komi fram að ráðuneytið telji álagningu gatnagerðargjalds svo nátengda þeirri meginskyldu sveitarfélags að annast byggingu gatna og lagnakerfis að það verði að teljast hafa eðli þjónustugjalds þó svo að það hafi einhver einkenni skatts.  Í því segir stefnandi felast að heimild til heimtu fulls gatnagerðargjalds af húsnæði sé háð því að sveitarfélagið kosti að fullu lagningu gatna, gangstétta og lagna að húsnæðinu.  Telur stefnandi samkvæmt þessu að ef sveitarfélag nýti undanþágu 4. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga beri því að lækka álagt gatnagerðargjald í samræmi við þann kostnað sem velt sé yfir á gjaldandann.

Verði ekki fallist á að gatnagerðargjald sé þjónustugjald telur stefnandi sömu niðurstöðu fást á grundvelli 11. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Stefnda hafi borið að gæta fyllsta jafnræðis við álagningu skatta og gjalda og gæta þess að íþyngja stefnanda ekki um of.  Telur stefnandi að stefndi hafi verið bundinn af þessum reglum þegar hann tók ákvörðun um að nýta sér heimild 4. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Þá telur stefnandi rétta skýringu ákvæða 13. gr., sbr. 8. og 4. gr. gjaldskrár um gatnagerðargjöld á Akureyri frá 15. desember 1999 leiða til sömu niðurstöðu.

Loks byggir stefnandi á því að jafnræðisregla 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 leiði einnig til þessarar niðurstöðu, því framkvæmd stefnda leiði til mismununar gjaldenda gatnagerðargjalds.  Hjá sumum sé þá innifalið í gjaldinu að fá götu og lagnir að lóðamörkum en öðrum ekki.

Með vísan til ofangreinds telur stefnandi að stefnda hafi verið óheimilt að heimta af honum fullt gatnagerðargjald og því eigi hann rétt á endurgreiðslu oftekinna gjalda sem nemi kostnaði hans af byggingu gatna, gangstétta, lagna og opinna svæða sem falli undir verkefni stefnda samkvæmt 4. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga, sbr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, sbr. 4. gr. gjaldskrár um gatnagerðargjald á Akureyri frá 15. desember 1999 eða sem nemi sparnaði stefnda af því að annast ekki framkvæmdirnar.

Stefnandi kveður yfirmatsgerð dómkvaddra matsmanna liggja til grundvallar aðalkröfu sinni þar sem lagt hafi verið fyrir yfirmatsmenn að meta raunkostnað við framkvæmd aðkomuleiða í Holtateigi ásamt fráveitulögnum skv. reglugerð um fráveitur á Akureyri og að tekið yrði mið af 65. gr. byggingarreglugerð nr. 441/1998 vegna leiksvæða (opinna svæða).  Samkvæmt matinu hafi heildarkostnaður vegna framkvæmdanna numið kr. 14.407.293-.  Að auki kveðst stefnandi gera kröfu um kr.640.000- vegna götulýsingar og kr.356.400- vegna opinna svæða og styðji hann þá kröfu við undirmat þar sem þessir þættir hafi ekki verið skoðaðir við yfirmatið.

Stefnandi kveðst til vara byggja á því að stefnda hafi borið að lækka eða draga frá álagningu á hverja íbúð hluta gatnagerðargjalds, sem næmi auknum kostnaði stefnanda af lagningu gatna og lagna inna byggingareitsins, eða sparnaði stefnda af að færa þetta á hendur stefnanda.  Með vísan til gjaldskrár Akureyrarbæjar og breytinga á byggingarvísitölu segir stefnandi álagt gatnagerðargjald fyrir 27 raðhúsaíbúðir hafa numið kr.26.968.356-.  Kostnaður stefnanda af framkvæmdunum hafi því numið 57% álagðs gatnagerðargjalds.  Með vísan til þessa sé krafist endurgreiðslu á 57% greidds gatnagerðargjalds miðað við hverja greiðslu fyrir sig.

Kröfu sína um vexti styður stefnandi við 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

Aðal- og varakröfu sína um endurgreiðslu ofgreidds gatnagerðargjalds kveðst stefnandi byggja á ákvæðum laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

Þá kveðst stefnandi einnig vísa til almennra reglna um skaðabætur vegna ólögmætrar stjórnsýsluákvörðunar til stuðnings kröfum sínum.  Kveðst hann byggja á því að ákvörðun stefnda um að leggja hvort tveggja á hann kostnað af byggingu gatna og lagnakerfis og heimta jafnframt af honum fullt gatnagerðargjald hafi verið ólögmæt og valdið honum tjóni sem nemi kostnaði hans af því að leysa þau verkefni sem stefnda bera að inna af hendi samkvæmt lögum.  Um ólögmæti vísar hann til fyrri rökstuðnings auk þess að stefndi hafi mismunað byggingaraðilum í bænum við úrlausn mála með því að fallast á athugasemdir eins aðila að þessu leyti og taka að sér framkvæmdir sem þessar með breytingu deiliskipulags, en hafna leiðréttingu hjá öðrum.  Vísar hann þar til afgreiðslu umhverfisráðs á athugasemdum P. Alfreðssonar vegna lóðarinnar Furulundar 17-55.  Hafi lóðinni þar verið skipt upp í fjórar sjálfstæðar lóðir fyrir raðhús og stefndi kostað lagningu gatna og lagna að hverju húsi, en áður hafi verið áskilið að framkvæmdaaðili kostaði þar framkvæmdina.  Þetta telur stefnandi brjóta gegn 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem staða tveggja aðila sem byggi og selji raðhús á Akureyri sé gerólík fyrir geðþótta ráðamanna.  Stefnandi telur sig eiga rétt til bóta úr hendi stefnda fyrir það tjón sem hinar ólögmætu stjórnvaldsákvarðanir hafi valdið honum.  Um fjárhæð þeirrar bótakröfu vísar stefnandi til rökstuðnings vegna aðal- og varakröfu.

Kröfu um skaðabætur kveðst stefnandi styðja við reglur skaðabótaréttar um skaðabætur utan samninga.

Kröfu um dráttarvexti kveðst stefnandi byggja á III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Upphafstími í dráttarvaxta í varakröfu sé miðaður við mánuð eftir að stefnandi beindi kröfu sinni til stefnda.  Kröfur um málskostnað kveðst stefnandi styðja við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að samningssamband stefnanda og stefnda hafi verið einkaréttarlegs eðlis.  Stefnandi hafi sóst eftir sambandinu með umsókn sinni og samþykkt athugasemdalaust að ganga til skipulagsvinnu og framkvæmda með þeim skilmálum sem í gildi voru við úthlutun lóðarinnar, þ.m.t. að gera aðkomuleiðir að raðhúsum frá götunni Holtateig og jafnframt greiða gatnagerðargjald samkvæmt gildandi lögum og reglum.  Stjórnsýslulögin nr. 37/1993 eigi því ekki við í málinu þar sem þau taki ekki til þeirra ákvarðana stjórnvalda sem teljist einkaréttarlegs eðlis, svo sem samninga við verktaka.

Stefndi vísar til þess að samningsfrelsi aðila sæti aðeins takmörkunum samkvæmt lögum en samningur hafi komist á milli þeirra við úthlutun lóðarinnar 9. desember 1998.  Aðilar hafi gert lóðarleigusamning 28. mars 2000 en í honum segi að um lóðina gildi ákvæði deiliskipulags um íbúðabyggð á Eyrarlandsholti og að lóðarhafi hafi fengið skilmálana í hendur, kynnt sér þá og samþykkt að hlíta þeim í hvívetna.  Í skilmálunum komi fram að framkvæmdaraðili skuli kosta og sjá um frágang lóða og sameiginlegra lóðarhluta, grófjafna lóð, ganga frá og fullgera bílastæði, aðkomuleiðir og göngustíga og sé óheimilt að undanskilja þessa þætti við sölu íbúðanna.  Í lóðarleigusamningnum sé ákvæði um greiðslu gatnagerðargjalds.

Stefndi kveður stefnanda hafi greitt gatnagerðargjald samkvæmt sérstökum samningum við stefnda allt til 12. maí 2003, þegar hann hafi fyrst gert athugasemdir.  Fjögur ár hafi því liðið frá því að hann hafi fengið reitnum úthlutað þar til hann hafi gert athugasemdir við skilmálana og greiðslu gjaldsins  Á þeim tíma hafi hann sjálfur gert tillögu að skipulagi innan reitsins, ákveðið gerð innkeyrslna og gönguleiða og selt 25-27 af 27 íbúðum á reitnum.

Stefndi byggir á því að hann hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að stefnandi myndi ekki hafa uppi fjárkröfur síðar á grundvelli samnings þeirra enda enginn áskilnaður um slíkt.  Stefndi telji stefnanda hafa glatað kröfum sínum vegna tómlætis og með því að undirgangast lóðarleigusamninginn athugasemdalaust.  Stefndi telur að líta beri til þess að stefnandi hafi verið byggingaraðili og verktaki í tugi ára og verði því að teljast sérfróður um lagaumhverfi skipulags- og byggingarmála, lög um gatnagerðargjöld, byggingar- og skipulagsskilmála, samningsgerð og verkframkvæmdir.  Þegar af þeirra ástæðu beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Stefndi mótmælir því að álit félagsmálaráðuneytisins frá 22. apríl 2003, sem krafa stefnanda eigi rætur sínar að rekja til, verði lagt til grundvallar í máli þessu.  Hann er ósammála þeirri niðurstöðu ráðuneytisins að gatnagerðargjald sé þjónustugjald en ekki skattur.  Stefndi mótmælir þeim skilningi ráðuneytisins að gatnagerð sé skylduverkefni sveitastjórna þrátt fyrir að ekki sé lengur kveðið á um þá skyldu í sveitastjórnarlögum.  Stefndi kveðst einnig ósammála þeirri niðurstöðu ráðuneytisins að gerð aðkomuleiða innan lóðar Melateigs hafi verið gatnagerð í skilningi 4. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Stefndi bendir á að ráðuneytið hafi tekið sérstaklega fram að ekki væri tekin afstaða til hugsanlegrar endurgreiðslu gatnagerðargjalds eða mögulegrar ógildingar þeirra ákvarðana sveitarfélagsins sem um sé fjallað í álitinu.  Í umræddum úrskurði hafi stefnda þó verið talið heimilt að fela lóðarhafanum, sem einnig hafi verið byggingarfyrirtæki, þessa framkvæmd, en óheimilt hafi verið að fela eignarhald götunnar í hendur íbúðareigenda.  Telur stefndi álitið ekki styðja kröfu stefnanda því þar sé eingöngu fjallað um réttmæti eignarhalds íbúa á aðkomuleiðum en ekki framkvæmdir eða kostnað við gerð aðkomuleiðanna.

Stefndi kveðst vísa í 2. mgr. 1. gr. laga um gatnagerðargjald en þar sé tilgreint hvenær sveitarstjórn ber að endurgreiða gatnagerðargjald.  Í greinargerð með lögunum komi fram að um tæmandi talningu sé að ræða.  Eigi ekkert þeirra tilvika sem í ákvæðinu séu nefnd við um stefnanda.

Stefndi telur stefnanda ekki hafa sýnt fram á að taka gatnagerðargjaldsins hafi verið íþyngjandi ákvörðun sem hafi endurspeglast í hækkun íbúðaverðs.  Stefnandi hafi haft verulegt hagræði af því að fá reitnum úthlutað og gerð innkeyrslna að hverri raðhúsalengju sé ekki lengri en gerist við raðhúsalengjur sem séu langsum á bæjargötur.

Stefndi bendir á að ákvæði 4. mgr. 8. gr. gjaldskrár fyrir gatnagerðargjald á Akureyri sé heimildarákvæði og telur þau atriði sem þar eru nefnd ekki eiga við um mál stefnanda.  Telur stefndi þetta ákvæði því ekki geta orðið grundvöll fyrir því að veita stefnanda afslátt af gatnagerðargjaldi.  Stefndi Bendir stefndi á að í 2. mgr. 8. gr. sé hins vegar að finna skylduákvæði þar sem segi að ákveði bæjarstjórn að hækka eða lækka gjaldskrá nýrra hverfa eða byggingarsvæða skuli það liggja fyrir jafnhliða útgáfu byggingarskilmála og/eða auglýsingu viðkomandi hverfa. Í byggingar-, skipulags- og úthlutunarskilmálum fyrir íbúðabyggð á Eyrarlandsholti og lóðarsamningi aðila séu engin ákvæði um hækkun eða lækkun gjaldskrár gatnagerðargjalda og stefnanda hafi mátt vera það ljóst þegar hann skuldbatt sig með undirritun samningsins.  Stefnandi hafi gengist undir lóðarleigusamning þar sem var að finna ákvæði um kvaðir vegna ógreiddra gatnagerðargjalda.  Þar hafi einnig komið fram að hann hafi kynnt sér þá skilmála sem um reitinn giltu, væri þeim samþykkur og lyti þeim í hvívetna.

Kveðst stefndi byggja á því að hann hafi efnt skyldur sínar samkvæmt 4. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með því að byggja og kosta gerð götunnar Holtateigs.  Ákvæðið kveði á um skyldur sveitarfélaga utan lóðarmarka.  Hins vegar sé það fortakslaus regla að sveitarfélög sjái ekki um gerð aðkomuleiða innan lóðarmarka, enda komi skýrt fram í byggingarskilmálum að það sé verkefni stefnanda.  Stefndi telji sig því ekki hafa verið að nýta undanþágu 4. mgr. 44. gr. i.f. laga nr. 73/1997 og fela stefnanda framkvæmdir sem verið hafi á hans verksviði eins og stefnandi haldi fram.  Ákvæði um frágang lóðar og aðkomuleiða innan hennar hafi verið sett í skilmála til að tryggja að frágangur yrði viðunandi og til að gæta hagsmuna væntanlegra kaupenda.  Stefndi vísar til mismundandi fyrirkomulags á aðkomu að raðhúsum í bænum.  Gerð aðkomu að þeim frá götu teljist almennt til framkvæmda innan lóðar og sé alfarið á kostnað lóðarhafa og íbúa.  Stefndi bendir á að í Holtateigi séu raðhús beggja vegna aðkomuleiðar frá götu.  Þannig náist hagræðing því aðkomuleiðin nýtist betur.  Með vísan til þess að stefndi hafi ekki falið stefnanda framkvæmdir utan lóðar, sem séu á ábyrgð sveitarstjórna, sé engin grundvöllur til að endurgreiða stefnanda gatnagerðargjald.

Stefndi kveðst byggja á 2. gr. laga nr. 17/1996 um gatnagerðargjöld þar sem segi að gatnagerðargjaldi skuli varið til gatnagerðar í sveitarfélaginu.  Í orðalaginu felist að sveitarstjórn hafi ótvíræða heimild til að ráðstafa innheimtu gatnagerðargjaldi til gatnagerðar hvar sem er í sveitarfélaginu.  Stefndi hafi innt af hendi þjónustu við íbúa Holtateigs í formi gatnagerðar með því að tengja byggingareitinn við Holtateig sem sé í eigu Akureyrarbæjar og tengd stofngatnakerfi bæjarins.  Tilgangi ákvæðisins sé því náð og enginn grundvöllur fyrir endurgreiðslu gjaldsins til stefnanda.

Stefndi telur ljóst að gatnagerðargjald sé skattur en ekki þjónustugjald. Því geti stefnandi ekki öðlast rétt til endurgreiðslu þess á þeim forsendum sem hann byggi málið á.  Samkvæmt lögum um gatnagerðargjald sé ekki gert skylt að sérgreint endurgjald sé látið í té gegn greiðslu gjaldsins.  Það sé ekki bundið við gerð tiltekinna gatna heldur sé um að ræða tekjustofn sem ætlað sé að standa undir gatnagerð í sveitarfélaginu almennt.  Hámarksfjárhæð gatnagerðargjalds sé ekki lengur bundin við raun- eða áætlaðan kostnað við gerð tiltekinnar götu heldur byggist á skattalegum sjónarmiðum þar sem sveitarfélög hafi heimild til að ákveða hvort og hvernig gjaldstofninn sé nýttur.  Þá bendir stefndi á að gatnagerðargjald sé lagt á einhliða af sveitarstjórnum eftir almennum efnislegum mælikvarða og án þess að sérgreint endurgjald komi á móti.  Stefndi kveður að við endurgreiðslu oftekinna skatta þurfi að sýna fram á að gjaldtakan hafi verið ólögmæt.  Gjaldtaka stefnda sem deilt sé um í málinu hafi byggst á lögum nr. 17/1996 um gatnagerðargjald, reglugerð nr. 543/1996 um gatnagerðargjald og gjaldskrá gatnagerðargjalds á Akureyri.  Stefndi telur stefnanda ekki hafa sýnt fram á ólögmæti gjaldtökunnar samkvæmt efnisreglum þeirra réttarheimilda sem um gatnagerðargjald gilda og því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Þá kveður stefndi jafnræðisreglu stjórnsýslulaganna ekki eiga við í málinu þar sem samningssamband aðila hafi verið einkaréttarlegs eðlis.  Stjórnsýslulögin taki ekki til slíkra sambanda.  Þar með sé grundvöllur fyrir skaðabótakröfu stefnanda brostinn því hún byggist á að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaganna. Stefndi hafnar því að hægt sé að vísa til afgreiðslu á máli P. Alfreðssonar vegna Furulundar 17-55 og krefjast sams konar afgreiðslu.  Stefnda sé í sjálfsvald sett að gera breytingar á deiliskipulagi og lóðarúthlutun án þess að eiga á hættu að vera talinn raska með því jafnræði borgaranna.  Stefndi upplýsir að þegar lóðarskipulagi við Furulund hafi verið breytt hafi stefndi verið að móta tillögur sínar vegna krafna íbúa við Melateig og breytingin í Furulundi hafi verið eðlileg í tengslum við það.  Stefndi mótmælir því að þetta hafi falið í sér mismunun í garð stefnanda.  Þá tekur stefndi fram að við Melateig hafi bærinn aðeins fallist á að annast rekstur gatnanna þar en ekki endurgreiða gatnagerðargjald.  Telur hann svipaða lausn koma til greina við Holtateig en það sé ekki á forræði stefnanda þar sem hann hafi þegar selt nær allar íbúðirnar.

Verði stefndi talinn bótaskyldur gagnvart stefnanda telur hann að ekki verði fallist á bótakröfuna þar sem hún sé ekki nægilega rökstudd.  Telur stefndi að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni en það sé grundvöllur skaðabótaskyldunnar.

Stefndi bendir á, að verði stjórnsýslulögin talin eiga við í málinu og komist að því að stefndi hafi falið stefnanda framkvæmdir sem að öðru jöfnu ættu að vera á forræði sveitarfélaga, hafi aðilar engu að síður frelsi til að semja á þennan hátt.  Það verði að teljast málefnaleg ástæða að fela stefnanda þær framkvæmdir sem um ræðir vegna þess hagræðis sem hann njóti af því að fá heilum reit úthlutað.  Það hagræði vegi upp á móti framkvæmdunum, sem ekki verði taldar verulega íþyngjandi og þetta geti því ekki talist óréttmætt eða ólögmætt.  Stefndi vísar til þess að önnur sveitarfélög bjóði byggingaraðilum lóðir með miklum kostnaði, en stefndi hafi haft þá stefnu að gera byggingaraðilum auðveldara fyrir, t.d. með lágu gatnagerðargjaldi og með því að auglýsa heila reiti sem þeir geta þá skipulagt með hagkvæmni að leiðarljósi.

Verði kröfur stefnanda teknar til greina krefst stefndi þess að þær verði lækkaðar verulega.  Mat hafi verið gert á þeim kostnaði sem stefnandi hafi kosið að leggja í framkvæmdirnar.  Stefndi hefði hugsanlega skipulagt reitinn með öðrum hætti eða kosið að fara í ódýrari framkvæmdir.  Því verði stefnandi að una þar sem hann hafi ekki gert athugasemdir fyrr en að framkvæmdum loknum.

Hlutfalli endurgreiðslu í varakröfu er einnig mótmælt og bent á að gatnagerðargjaldi beri að verja til gatnagerðar í sveitarfélaginu öllu en ekki eingöngu hjá gjaldanda.  Telur hann ekki haldbær rök að baki því hlutfalli sem stefnandi miði við.

Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda.  Verði stefndi sýknaður telur hann öll rök standa til þess að stefnanda verði gert að greiða málskostnað þar sem hann sé fjársterkur lögaðili í frjálsu einkaréttarlegu samningssambandi við stefnda, eins og um tvo borgaralega lögaðila væri að ræða.

Um lagarök vísar stefndi til meginreglu kröfuréttarins um tómlæti, meginreglu samningaréttar um samningsfrelsi, meginreglu sem gildir um einkaréttarlega samninga hins opinbera, meginreglu skaðabótaréttar um að tjónþoli skuli sýna fram á tjón sitt, laga nr. 17/1996 um gatnagerðargjald, reglugerðar nr. 543/1996 um gatnagerðargjald, gjaldskrár gatnagerðargjalds á Akureyri, sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Í 1. gr. laga nr. 17/1996 um gatnagerðargjald er sveitarstjórnum heimilað að innheimta gatnagerðargjald af öllum lóðum í sveitarfélaginu og/eða mannvirkjum á þeim.  Í 2. gr. kemur fram að gjaldinu skuli varið til gatnagerðar í sveitarfélaginu, svo sem til að undirbyggja götur með tilheyrandi lögnum, m.a. vegna götulýsingar, og leggja bundið slitlag, gangstéttir, umferðareyjar og þess háttar þar sem gert er ráð fyrir því í skipulagi.  Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 17/1996 segir að ráðstöfun gatnagerðargjaldsins sé ekki bundin við gerð gatna við þær lóðir sem gatnagerðargjald er innheimt af.  Ekki þyki þörf á eða eðlilegt að binda ráðstöfun gjaldsins við tilteknar götur í sveitarfélaginu.  Samkvæmt þessu er ljóst að ekki er áskilið að sérgreint endurgjald sé látið í té gegn greiðslu gatnagerðargjalds heldur er gjöldunum ætlað að standa almennt straum af gatnagerð í sveitarfélögum.  Má því telja að álagning gatnagerðargjalds sé óháð því hvort nýrrar gatnagerðar sé þörf við hlutaðeigandi lóð eða byggingu.

Í 2. mgr. 6. gr. laganna segir að sveitarstjórn skuli setja sér sérstaka gjaldskrá fyrir gatnagerðargjald þar sem kveðið er nánar á um álagningu gjaldsins, innheimtu þess og hvað sé innifalið í gjaldinu samkvæmt lögunum og reglugerð um gatnagerðargjald.  Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. skal við ákvörðun gjaldsins miða við lóðarstærð, rúmmál húss og/eða flatarmál húss samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.  Er sveitarfélagi heimilt að leggja mishá gjöld á húsnæði eftir notkun þess og eins eftir því hvort um er að ræða einbýlishús, raðhús eða fjölbýlishús.  Er hér aðeins um að ræða heimild en ekki skyldu þrátt fyrir að gatnagerð sé hlutfallslega ódýrari fyrir þéttari og hærri byggð en þegar um einbýlishúsahverfi ræðir. Sveitarstjórnir hafa frjálst mat um upphæð gjaldsins, fari þau ekki upp fyrir lögbundið hámark samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laga nr. 17/1996.

Samkvæmt framanskráðu verður að telja að ákvörðun um fjárhæð gatnagerðargjalds lúti hefðbundnum skattalegum sjónarmiðum og skuli byggjast á almennum, efnislegum mælikvarða.  Ekki verður talið að af réttarheimildum um gatnagerðargjald leiði að sveitarfélögum sé skylt að víkja frá upphæðum gjaldskrár og meta raunverulegan kostnað við framkvæmdir í einstökum tilvikum.

Í kjölfar auglýsingar stefnda á byggingareitum í Teigahverfi á Eyrarlandsholti á Akureyri haustið 1998 sótti stefnandi um tvo reiti á svæðinu.  Þann 9. desember s.á. fékk hann reit nr. 1 úthlutað og var honum tilkynnt sú ákvörðun í bréfi dags. 16. desember 1998  Í bréfinu kom fram að fara bæri að byggingarskilmálum um svæðið og að gatnagerðargjöld yrðu lögð á samkvæmt nýrri gjaldskrá sem samþykkt var af bæjarstjórn þann 15. desember s.á.  Þann 8. desember 1999 gerðu aðilar með sér fyrsta af fimm samningum um greiðslu gatnagerðargjalds vegna reitsins.  Kom þar fram að gjaldið væri vegna Holtateigs nr. 46-54 að fjárhæð 4.094.446 krónur.  Þann 28. mars 2000 gerðu aðilar málsins svo með sér lóðarleigusamning um reitinn.  Staðfesti stefnandi þar að hann hefði fengið í hendur byggingar- og skipulagsskilmála lóðarinnar, kynnt sér þá og væri þeim samþykkur í hvívetna.  Við undirritun samningsins komst á einkaréttarlegt samband aðila um leigu lóðarinnar Holtateigs 2-54 og féllst stefnandi þar athugasemdalaust á, að taka að sér framkvæmdir á reitnum í samræmi við þá skilmála sem um hann giltu.  Var honum þá kunnugt um þá ákvörðun bæjaryfirvalda að leggja fullt gatnagerðargjald á byggingar á reitnum.  Verður að fallast á með stefnda að aðilar hafi haft frelsi til að semja um hvernig framkvæmdunum skyldi háttað.  Ekki er fram komið að samningurinn hafi verið verulega ósanngjarn í garð stefnda og má líta til þess að stefnandi hafði reynslu af samningum á þessu sviði.  Þá naut stefnandi verulegs hagræðis af fyrirkomulaginu auk þess sem telja verður að hann hafi getað velt kostnaði við framkvæmdirnar yfir á kaupendur íbúðanna.

Þar sem aðilar gerðu með sér einkaréttarlegan samning um framkvæmdir við Holtateig 2-54 eiga stjórnsýslulögin nr. 37/1993 ekki við um ákvörðun um hvernig þeim skyldi háttað.  Álagning gatnagerðargjalds er hins vegar stjórnvaldsákvörðun og lýtur reglum stjórnsýslulaganna.  Upphæð gatnagerðargjalda vegna Holtateigs 2-54 var ákvörðuð samkvæmt 5. gr. gjaldskrár um gatnagerðargjald á Akureyri, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 17/1996 um gatnagerðargjald.  Byggðist ákvörðunin á almennum, efnislegum mælikvarða svo sem áskilið er um álagningu skatta.  Ekki leiðir af réttarheimildum um gatnagerðargjald að stefnda hafi verið skylt að víkja frá upphæðum gjaldskrárinnar vegna þeirra verkefna sem stefnandi tók að sér.

Að framangreindu virtu telur dómurinn ákvörðun stefnda um álagningu gjaldsins hafi verið lögmæta.  Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu.

Með vísan til úrslita málsins þykir rétt að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem ákvarðast m.a. með hliðsjón af útlögðum kostnaði stefnda vegna yfirmats kr. 750.000.

Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Akureyrarbær, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Trésmíðaverkstæði Sveins Heiðars ehf., í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda kr.750.000,- í málskostnað.