Hæstiréttur íslands

Mál nr. 376/2014


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Riftun
  • Skaðabætur
  • Matsgerð


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 4. desember 2014.

Nr. 376/2014.

Tryggingamiðstöðin hf.

(Bjarki H. Diego hrl.

Páll Rúnar M. Kristjánsson hdl.)

gegn

VBS eignasafni hf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.

Jón Þór Ólason hdl.)

og gagnsök

Fjármálafyrirtæki. Slit. Riftun. Skaðabætur. Matsgerð.

Á árinu 2008 veitti vátryggingafélagið T fjárfestingarbankanum V peningamarkaðsinnlán sem voru framlengd til skamms tíma í senn. Þegar leið að gjalddaga 6. október 2008 tilkynnti T að lánið sem nam orðið 2.544.537.668 krónum yrði ekki framlengt frekar. Daginn fyrir gjalddagann lagði V til við T að lánið yrði gert upp annars vegar með framsali lánssamnings V við félag sem tengt var T og hins vegar með greiðslu eftirstöðva er annað félag, er einnig var tengt T, hefði greitt skuld sína við V, en því hafnaði T. V greiddi ekki á gjalddaga og setti T kröfu sína í innheimtu. Af orðsendingu sem V lét frá sér fara í framhaldi af þessu mátti ráða að hann teldi sig ekki færan um að greiða kröfuna. Lét T í framhaldi af því af aðgerðum til innheimtu kröfunnar og hófust viðræður aðilanna um leiðir til að gera hana upp. Í tengslum við þær fékk T ítarlegar trúnaðarupplýsingar um eignir, skuldir og rekstur V og gerði T loks tillögu í byrjun apríl 2009 sem fól í sér að skuld V yrði greidd með framsali nánar tiltekinna skuldabréfa og hlutabréfa í eigu V, með afsali tiltekinna fasteigna og með skuldabréfi sem V gæfi út. Á grundvelli þessarar tillögu gerðu T og V samkomulag 18. maí 2009 sem dótturfélög hvors um sig, TF og HK, áttu jafnframt aðild að. Samkvæmt samkomulaginu nam skuld V að meðtöldum áföllnum vöxtum 2.817.787.657 krónum og átti að greiða hana í fyrsta lagi með framsali veðskuldabréfa í eigu V að nafnverði 197.500.000 krónur, í öðru lagi með því að HK afsalaði til TF 41 íbúð að andvirði 418.179.443 krónur, í þriðja lagi með því að V framseldi T hlutabréf sín í M hf. og H ehf. sem voru talin að verðmæti 700.000.000 krónur, í fjórða lagi með því að T fengi framseld hlutabréf í V að andvirði 300.000.000 krónur og loks með því að V gæfi út skuldabréf til T til fjögurra ára að nafnverði 1.217.112.321 króna sem tryggt yrði með veði í nánar tilgreindum kröfum V og fasteignum. Þessu samkomulagi var síðan hrundið í framkvæmd með því að gerðir voru kaupsamningar og afsöl fyrir einstökum eignum. Fjármálaeftirlitið skipaði V bráðabirgðastjórn 3. mars 2010 samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og var V síðan tekinn til slita eftir 101. gr. laganna 9. apríl sama ár. Í bréfi til T 10. febrúar 2012 lýsti slitastjórn V yfir riftun á greiðslum samkvæmt samkomulaginu og höfðaði mál þetta í framhaldi af því. Í málinu krafðist V riftunar á greiðslum sem fólgnar voru í afsali á 41 íbúð, framsali hlutabréfa í M hf., H ehf. og V og veðskuldabréfinu sem V gaf út til T, og reisti V þessa kröfu aðallega á 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. V krafðist jafnframt skaðabóta úr hendi T að fjárhæð 1.118.179.443 krónur eða sem nam samanlögðu andvirði íbúðanna og hlutabréfanna í M hf. og H ehf. samkvæmt samkomulaginu. Í dómi Hæstaréttar var talið að V hefði ekki lögvarða hagsmuni af því að fá rift greiðslum sem inntar voru af hendi með hlutabréfum í V og veðskuldabréfinu sem hann gaf út til T, þar sem V gerði hvorki kröfu um greiðslu skaðabóta vegna þeirra ráðstafana né um aðrar lögfylgjur riftunar. Talið var að fullnægt væri skilyrðum 141. gr. laga nr. 21/1991 fyrir riftun annarra ráðstafana samkvæmt samkomulaginu, þar sem það hafi verið gert eftir að V var orðinn ógjaldfær og ráðstafanirnar hafi verið ótilhlýðilegar, en um bæði þau atriði taldist T hafa verið grandsamur. Þessar ráðstafanir töldust jafnframt hafa verið T til hagsbóta á kostnað annarra lánardrottna V. Litið var svo á að afsal HK til TF á 41 íbúð hafi falið í sér greiðslu frá V til T sem unnt væri að rifta og var T dæmdur til að greiða V skaðabætur sem svöruðu til andvirðis íbúðanna samkvæmt samkomulagi þeirra. Hafnað var kröfu T um að verða leystur undan greiðslu skaðabóta vegna greiðslna með hlutabréfum í M hf. og H ehf. gegn því að hann skilaði þeim aftur til V, sbr. 144. gr. laga nr. 21/1991, en hlutabréfin voru orðin verðlaus. Við ákvörðun skaðabóta vegna greiðslna sem inntar voru af hendi með þessum hlutabréfum þótti verða að taka mið af verðgildi þeirra samkvæmt samkomulagi aðilanna. Var T því gert að greiða V þá fjárhæð í skaðabætur sem hann krafðist.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. maí 2014. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda, en til vara sýknu af fjárkröfu gagnáfrýjanda gegn því að aðaláfrýjandi skili honum hlutabréfum í MP banka hf. að nafnverði 58.078.332 krónur, hlutum í Hraunbjargi ehf. að nafnverði 77.614 krónur, hlutabréfum í gagnáfrýjanda að nafnverði 13.636.364 krónur og veðskuldabréfi útgefnu af gagnáfrýjanda 29. júní 2009 að fjárhæð 1.217.112.321 króna. Að því frágengnu krefst aðaláfrýjandi þess að fjárkrafa gagnáfrýjanda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi skaut málinu fyrir sitt leyti til Hæstaréttar 27. júní 2014. Hann krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um riftun á greiðslum sínum til aðaláfrýjanda með fyrrgreindum hlutabréfum í MP banka hf. og gagnáfrýjanda, hlutum í Hraunbjargi ehf. og veðskuldabréfi útgefnu 29. júní 2009, en jafnframt verði rift greiðslum að fjárhæð samtals 418.179.443 krónur, sem fólgnar hafi verið í afsölum fyrir 41 nánar tilgreindri íbúð. Einnig verði aðaláfrýjanda gert að greiða sér 1.118.179.443 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. júní 2009 til 10. mars 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Af gögnum málsins virðist mega ráða að aðaláfrýjandi hafi farið að eiga viðskipti við gagnáfrýjanda, sem þá hét VBS fjárfestingarbanki hf., með svonefnd peningamarkaðsinnlán með því að veita honum slíkt lán 7. febrúar 2008 að fjárhæð 500.000.000 krónur. Þessi innlán virðast síðan hafa færst í vöxt og numið um 2.400.000.000 krónum í apríl 2008, en hverju sinni þó verið framlengd til skamms tíma. Gagnáfrýjandi kveður þessi viðskipti hafa tengst því að hann hafi tekið að sér að kaupa hlutabréf í FL Group hf., sem síðar hafi fengið heitið Stoðir hf., að ósk þess félags, sem hafi verið móðurfélag aðaláfrýjanda. FL Group hf. hafi átt að bera áhættu af viðskiptunum og leggja gagnáfrýjanda til fé í þessu skyni, en hann kveðst á þessum grunni hafa keypt hlutabréf í félaginu fyrir samtals um 2.350.000.000 krónur. Svo hafi farið að gagnáfrýjandi hafi gert samning 31. júlí 2008 um að selja Styrk Invest ehf. hlutabréf í FL Group hf. að nafnverði 208.159.265 krónur fyrir 1.373.851.149 krónur. Sama dag hafi gagnáfrýjandi gert samning um lán til Styrks Invest ehf. að fjárhæð 1.380.642.739 krónur til að standa straum af kaupverði hlutabréfanna, en lánið hafi átt að endurgreiða í einu lagi 5. nóvember 2008. Þá hafi gagnáfrýjandi jafnframt gert samning 31. júlí 2008 um að veita Baugi Group hf., sem hafi verið stærsti hluthafi í FL Group hf., lán til jafn langs tíma að fjárhæð 982.805.659 krónur „til að greiða niður skuldir Baugs Group hf.“ við sig, svo sem tekið var fram í samningnum. Gagnáfrýjandi kveðst hafa með þessu selt Styrk Invest ehf. öll hlutabréfin, sem hann hafi keypt í FL Group hf., fyrir markaðsverð þeirra á kaupsamningsdegi, en fjárhæðin, sem lánssamningurinn við Baug Group hf. hafi tekið til, hafi svarað til tapsins, sem hafi orðið á þessum hlutabréfaviðskiptum frá því að þau hófust.

Aðilarnir gerðu samning 22. september 2008, þar sem aðaláfrýjandi framlengdi enn peningamarkaðsinnlánið til gagnáfrýjanda til tveggja vikna, en fjárhæð innlánsins nam þá orðið 2.544.537.668 krónum og átti að greiða það á gjalddaga 6. október sama ár að viðbættum 20,2% ársvöxtum. Með tölvubréfi 1. október 2008 tilkynnti aðaláfrýjandi gagnáfrýjanda að stjórn þess fyrrnefnda hafi ákveðið að framlengja ekki peningamarkaðsinnlánið og yrði því að endurgreiða það á gjalddaganum 6. sama mánaðar. Gagnáfrýjandi svaraði þessu 5. október 2008 með tillögu um að gera upp innlánið með því annars vegar að framselja aðaláfrýjanda áðurnefndan lánssamning við Styrk Invest ehf. og hins vegar að greiða eftirstöðvarnar þegar Baugur Group hf. hefði greitt skuld sína á gjalddaga 5. nóvember sama ár. Þessu tilboði hafnaði aðaláfrýjandi 6. október 2008 með þeim orðum að hann hefði ekki áhuga á að leysa málið með þessum hætti og ítrekaði kröfu um greiðslu. Í svari gagnáfrýjanda sama dag var vísað til þess að „öllum aðilum“ væri ljóst hvernig málið hafi komið til og væri ekki unnt að láta eins og þetta væri eingöngu sitt vandamál. Gagnáfrýjandi hafi boðið lausn, sem hann teldi færa, en lausn „um greiðslu er ekki uppbyggileg því hún er ófær eins og fram kom.“ Að þessu sögðu ítrekaði hann tilboð sitt. Við þessu virðist aðaláfrýjandi hafa brugðist með innheimtubréfi vegna peningamarkaðsinnlánsins 8. október 2008. Þann dag sendi gagnáfrýjandi tölvubréf til forsvarsmanns Baugs Group hf., Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, með bón um liðveislu „varðandi mál sem tengist fjármögnun lánasamninga við Styrk og Baug“ sem hafi orðið til „vegna uppgjörs á framvirkum samningi um bréf í FL-group.“ Hafi fjármögnun á þessu fyrst verið frá FL Group hf. en síðan frá aðaláfrýjanda í formi peningamarkaðsinnláns, sem hann hafi nú sett í innheimtu. Gagnáfrýjandi hafi talið að innlánið yrði greitt samhliða uppgjöri á lánssamningunum við Styrk Invest ehf. og Baug Group hf., en hann hafi boðist til að framselja aðaláfrýjanda þessa samninga. Margar forsendur hafi breyst, en „hagsmunir TM felast ekki í því að setja VBS á hliðina“, enda hafi ekki staðið til að „við verðum sviðnir fyrir þetta verkefni sem við tókum að okkur í framhaldi af fundi okkar í Túngötu í byrjun mars – ég hef orð þín fyrir því.“

Eftir síðastgreindar orðsendingar virðast viðræður aðilanna hafa beinst inn á þá braut að leita annarra leiða til uppgjörs á skuld gagnáfrýjanda. Þannig sendi aðaláfrýjandi tölvubréf 13. október 2008 til gagnáfrýjanda með yfirskriftinni: „Efnahagsreikningur VBS“, þar sem leitað var upplýsinga um fjölmörg atriði tengd eignum hans og skuldum. Þá sendi gagnáfrýjandi tillögu 25. nóvember sama ár um að aðaláfrýjandi breytti kröfu sinni í hlutafé í gagnáfrýjanda, sem samhliða myndi breyta kröfum sínum á hendur Styrk Invest ehf. og Baugi Group hf. í fimm ára eingreiðslulán. Enn leitaði aðaláfrýjandi 19. og 29. desember 2008 nánari upplýsinga um efnahag og rekstur gagnáfrýjanda, sem svaraði 23. og 30. sama mánaðar. Í síðastnefndu svari gagnáfrýjanda sagði meðal annars: „Það er auðvitað fullkomlega eðlilegt að þið fáið sem besta mynd af okkur. En í ljósi þess að við erum að láta ítarlegar upplýsingar af hendi, er nauðsynlegt að við göngum frá trúnaðaryfirlýsingu á milli okkar. Sendi hana viðfest.“ Í trúnaðaryfirlýsingu, sem aðaláfrýjandi sendi aftur til gagnáfrýjanda sama dag, sagði meðal annars að hún væri gefin „vegna skoðunar á ýmsum trúnaðarupplýsingum er varða VBS fjárfestingarbanka hf. ... en upplýsingarnar eru veittar í tengslum við viðræður milli aðila vegna mögulegrar hlutafjárþátttöku TM í VBS fjárfestingarbanka hf.“

Í fréttatilkynningu, sem gagnáfrýjandi birti á heimasíðu sinni 23. mars 2009, kvaðst hann hafa gengið frá samkomulagi til sjö ára við „ríkissjóð um skuldbindingar sínar“ við Seðlabanka Íslands „vegna endurhverfra viðskipta“. Þá birti fjármálaráðuneytið tilkynningu 26. sama mánaðar, þar sem þessu samkomulagi var lýst með svofelldum hætti: „Í því skyni að treysta innheimtu veðskulda, hefur fjármálaráðuneytið nú gengið frá lánasamningum við ... VBS fjárfestingarbanka hf. um endurgreiðslu þessara krafna. Með samningnum er verðbréfum breytt í lán til sjö ára sem er verðtryggt með 2% vöxtum.“

Af tölvubréfi, sem aðaláfrýjandi sendi gagnáfrýjanda 2. apríl 2009, má ráða að þá hafi verið komnar fram nýjar hugmyndir um uppgjör á skuld þess síðarnefnda vegna peningamarkaðsinnláns, en aðaláfrýjandi kvaðst þar hafa fengið upplýsingar um „margar eignir“ gagnáfrýjanda og á grundvelli þeirra „sett saman tillögu að lausn“, sem mun hafa fylgt bréfinu. Vildi aðaláfrýjandi þó fá „nokkur atriði … á hreint“ áður en gengið yrði til uppgjörs, en þau vörðuðu meðal annars hlutabréf í MP banka hf., hluti í Hraunbjargi ehf. og nánar tilteknar fasteignir. Í framlögðu skjali með fyrirsögninni: „Tillaga að endurgreiðslu láns TM til VBS“, sem gagnáfrýjandi kveður hafa verið áðurnefnt fylgiskjal með tölvubréfinu, var ráðgert að greiðsla færi fram með skuldabréfi „v/Ferjuvaðs“, 192.000.000 krónur, hlutabréfum í MP banka hf. og hlutum í Hraunbjargi ehf., alls 650.000.000 krónur, íbúðum „í Kórahverfi“, 438.000.000 krónur, skrifstofuhúsnæði í Hlíðarsmára, 100.000.000 krónur, skuldabréfi tryggðu með veði í fasteignum gagnáfrýjanda og dótturfélags hans, 1.140.000.000 krónur, og hlutabréfum í gagnáfrýjanda, 300.000.000 krónur, eða samtals 2.820.000.000 krónur.

Ársreikningur gagnáfrýjanda fyrir 2008 var undirritaður 8. apríl 2009. Í rekstrarreikningi var meðal annars færður til tekna liður að fjárhæð 9.354.787.000 krónur, sem var sagður vera „fjárskuld færð til gangvirðis“. Að gættum áhrifum af þessari tekjufærslu var bókfærður hagnaður af rekstri 2008 samtals 1.095.268.000 krónur, en samkvæmt efnahagsreikningi leiddi sá hagnaður til þess að eigið fé gagnáfrýjanda í lok þess árs taldist vera 8.942.556.000 krónur. Í skýringum með rekstrarreikningnum kom fram að lántökur gagnáfrýjanda 31. desember 2008 hafi alls numið 44.369.577.000 krónum og væru þær skuldir við fjármálafyrirtæki og vegna útgefinna skuldabréfa og víxla, svo og skuld við ríkissjóð að fjárhæð 17.075.616.000 krónur. Í tengslum við þetta sagði meðal annars: „Bankinn og fjármálaráðuneytið, fyrir hönd ríkissjóðs, hafa undirritað lánssamning að fjárhæð 26.430 millj. kr. um endurgreiðslu krafna vegna uppgjörs á skuldum bankans við Seðlabankann miðað við 31. desember 2008. Um er að ræða kröfur sem tryggðar voru með veði í skuldabréfum Landsbanka Íslands hf. og Kaupþings banka hf. Lánið ber að endurgreiða á næstu sjö árum með verðbótum og 2% vöxtum. Fyrstu tvö árin verða einungis greiddir vextir en eftir það verður lánið greitt niður með jöfnum afborgunum á fimm árum. Bankinn beitir alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð ársreikningsins. Þar sem hér er um verulega lægri vexti að ræða en bankanum bjóðast á markaði, ber samkvæmt stöðlunum að núvirða greiðslur af láninu miðað við markaðsvexti og færa skuldina miðað við gangvirði við upphaflega skráningu í bókhald. Munurinn sem þannig myndast er færður til tekna í rekstrarreikningi. Vegna þessa eru í ársreikningi 2008 tekjufærðar 9.355 millj. kr. Eftirleiðis verða gjaldfærðir í rekstri virkir vextir og er hlutfall þeirra það sama og notað er við núvirðingu greiðslnanna í upphafi.“

Í fundargerð stjórnarfundar gagnáfrýjanda 4. maí 2009 kom fram að gengið hafi verið frá samkomulagi við aðaláfrýjanda um uppgjör skuldar vegna peningamarkaðsinnláns. Yrði hún greidd „með fasteignum, skuldabréfum og hlutabréfum í VBS.“

II

Samkomulagið, sem vísað var til í síðastnefndri fundargerð, var undirritað 18. maí 2009, en auk málsaðila stóðu að því dótturfélag aðaláfrýjanda, TM fé ehf., og dótturfélag gagnáfrýjanda, HK húseignir ehf. Þar kom fram að uppgjörið tæki mið af stöðu skuldar gagnáfrýjanda 31. mars 2009, en áfallnir vextir frá gjalddaga, 6. október 2008, til þess dags væru samtals 253.261.232 krónur. Skuldin sem samkomulagið lyti að væri því samtals 2.817.787.657 krónur og var mælt fyrir um uppgjör hennar í fimm aðskildum liðum.

Í fyrsta lagi var mælt fyrir um að frestað yrði greiðslu á 197.500.000 krónum til 15. júní 2009, en þá yrði sá hluti skuldarinnar annaðhvort greiddur með afhendingu skuldabréfa útgefinna af Leiguliðum ehf. með veði í fasteign að Ferjuvaði 13-15, sem næmu þeirri fjárhæð að samanlögðu nafnverði, eða „með öðrum hætti.“ Samkvæmt málatilbúnaði gagnáfrýjanda var þessi hluti skuldarinnar gerður upp með afhendingu nánar tilgreindra hlutabréfa, en um þá ráðstöfun var rekið annað mál milli aðilanna, sem leyst var úr með dómi Hæstaréttar 6. desember 2012 í máli nr. 139/2012. Dómkröfur gagnáfrýjanda í máli þessu snúa því að engu leyti að þessum hluta samkomulagsins.

Í öðru lagi skyldi gagnáfrýjandi greiða aðaláfrýjanda 418.179.443 krónur með sex íbúðum að Ásakór 9 til 11 í Kópavogi, tuttugu íbúðum að Hörðukór 3 í Kópavogi og fimmtán íbúðum að Tjarnarbraut 12 í Reykjanesbæ. Heildarverð fyrir þessar íbúðir var sagt vera 1.142.255.800 krónur, en á þeim munu hafa hvílt veðskuldir við Íbúðalánasjóð að fjárhæð 724.076.357 krónur þannig að mismunurinn teldist áðurnefnd greiðsla. Hún færi fram á þann hátt að þinglýstur eigandi íbúðanna, fyrrnefnt dótturfélag gagnáfrýjanda, HK húseignir ehf., afsalaði þeim til fyrrnefnds dótturfélags aðaláfrýjanda, TM fjár ehf. Til þess að koma þessu við lýsti aðaláfrýjandi sig samþykkan því að HK húseignir ehf. tæki yfir skuld gagnáfrýjanda við sig að fjárhæð 418.179.443 krónur og jafnframt samþykkti gagnáfrýjandi að TM fé ehf. tæki yfir kröfu aðaláfrýjanda á hendur sér með sömu fjárhæð „svo skuldajöfnun sé möguleg við hluta af kaupverði fasteignanna.“ Á grundvelli þessa hluta samkomulagsins voru gerðir þrír kaupsamningar 5. júní 2009 milli HK húseigna ehf. og TM fjár ehf., einn um íbúðirnar að Ásakór 9 til 11, annar um íbúðirnar að Hörðukór 3 og sá þriðji um íbúðirnar að Tjarnarbraut 12. Afhending íbúða samkvæmt fyrstnefndum tveimur samningum átti að taka mið af 31. mars 2009, en afhenda átti íbúðir samkvæmt þeim þriðja í september sama ár. Þessum kaupsamningum virðist ekki hafa verið þinglýst. Afsöl voru gefin út fyrir íbúðunum í Ásakór og Hörðukór 17. ágúst 2009 og var þeim þinglýst 27. sama mánaðar, en afsöl fyrir íbúðunum við Tjarnarbraut voru gefin út 26. nóvember 2009 og þeim þinglýst 2. desember sama ár.

Í þriðja lagi skyldi gagnáfrýjandi greiða aðaláfrýjanda 550.000.000 krónur með því að afhenda hlutabréf að nafnverði 58.078.332 krónur í MP banka hf. og 150.000.000 krónur með afhendingu hluta í Hraunbjargi ehf. að nafnverði 77.614 krónur. Á grundvelli ákvæðis um þetta gerðu aðilarnir tvo kaupsamninga 22. maí 2009, þar sem fram kom að hlutabréfin og hlutirnir skyldu afhentir sama dag.

Í fjórða lagi átti gagnáfrýjandi að greiða aðaláfrýjanda 300.000.000 krónur með því að afhenda honum hlutabréf í gagnáfrýjanda að nafnverði 13.636.364 krónur. Þessu til samræmis gerðu aðilarnir kaupsamning um þessi hlutabréf 22. maí 2009 og átti að afhenda þau aðaláfrýjanda sama dag.

Loks skyldi gagnáfrýjandi í fimmta lagi gefa út veðskuldabréf til aðaláfrýjanda fyrir „þeirri fjárhæð sem þarf til þess að greiða eftirstandandi skuldir“, sem voru áætlaðar 1.202.108.214 krónur auk vaxta af skuld gagnáfrýjanda frá 31. mars 2009 til greiðsludags. Höfuðstól þessarar skuldar átti að greiða í einu lagi 15. febrúar 2013, en vexti af henni, sem skyldu vera REIBOR vextir með 2,5% álagi, bar að greiða árlega, í fyrsta sinn 2010. Til tryggingar skuldinni skyldi gagnáfrýjandi setja að veði 90 veðskuldabréf útgefin af Dalshúsum ehf. samtals að nafnverði 450.000.000 krónur, 56 veðskuldabréf útgefin af Dalsafli ehf. að nafnverði alls 280.000.000 krónur, fasteign að Rafstöðvarvegi 1A í Reykjavík og fimmtán íbúðir að Vindakór 8 í Kópavogi. Til samræmis við þessi ákvæði samkomulagsins gaf gagnáfrýjandi út veðskuldabréf til aðaláfrýjanda 29. júní 2009 að fjárhæð 1.217.112.321 króna. Því var þinglýst að því er fasteignirnar varðaði 6. og 13. júlí 2009.

Gagnáfrýjandi mun í kjölfarið hafa veitt aðaláfrýjanda handveðrétt með yfirlýsingu 9. október 2009 til tryggingar öllum skuldum sínum við hann annars vegar í 32 veðskuldabréfum útgefnum af Stórási ehf. að nafnverði samtals 160.000.000 krónur og hins vegar í þremur veðskuldabréfum útgefnum af Leiguliðum ehf. að nafnverði 13.500.000 krónur.

Áður en samkomulag þetta var undirritað hafði bú Baugs Group hf. verið tekið til gjaldþrotaskipta 13. mars 2009. Þá liggur fyrir að bú Styrks Invest ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 6. október sama ár.

III

Með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009, tók Fjármálaeftirlitið 3. mars 2010 til greina beiðni gagnáfrýjanda um að skipa honum bráðabirgðastjórn, en í framhaldi af því var hann tekinn til slita 9. apríl sama ár og honum skipuð slitastjórn samkvæmt fyrirmælum 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009. Til samræmis við þetta er frestdagur við slit gagnáfrýjanda 3. mars 2010. Fyrrnefnt dótturfélag gagnáfrýjanda, HK húseignir ehf., var tekið til gjaldþrotaskipta 18. mars 2011.

Með bréfi til aðaláfrýjanda 10. febrúar 2012 lýsti slitastjórn gagnáfrýjanda yfir riftun á greiðslu skuldar hans við aðaláfrýjanda samkvæmt lánssamningnum 22. september 2008, sem fram fór á grundvelli samkomulagsins 18. maí 2009, en um heimild til þessa vísaði gagnáfrýjandi til 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Jafnframt krafðist hann greiðslu skaðabóta að fjárhæð 1.118.179.443 krónur.

Gagnáfrýjandi höfðaði mál þetta 23. maí 2012. Í héraðsdómsstefnu krafðist hann þess að rift yrði greiðslum á skuld sinni við aðaláfrýjanda á grundvelli ákvæða samkomulags þeirra 18. maí 2009 að því leyti, sem þær voru inntar af hendi með afsali sex íbúða að Ásakór 9 til 11 í Kópavogi, tuttugu íbúða að Hörðukór 3 í Kópavogi og fimmtán íbúða að Tjarnarbraut 12 í Reykjanesbæ, svo og afhendingu hlutabréfa að nafnverði 58.078.332 krónur í MP banka hf., hluta í Hraunbjargi ehf. að nafnverði 77.614 krónur, hlutabréfa í gagnáfrýjanda að nafnverði 13.636.364 krónur og veðskuldabréfs til aðaláfrýjanda að fjárhæð 1.217.112.321 króna. Jafnframt krafðist gagnáfrýjandi greiðslu skaðabóta að fjárhæð 1.118.179.443 krónur, sem hann skýrði nánar á þann hátt að um væri að ræða verðmæti greiðslna, sem inntar voru af hendi með framangreindum íbúðum, 418.179.443 krónur, hlutabréfum í MP banka hf., 550.000.000 krónur, og hlutum í Hraunbjargi ehf., 150.000.000 krónur. Með þessum dómkröfum leitaði gagnáfrýjandi hvorki riftunar á greiðslu á 197.500.000 krónum, sem inna átti af hendi 15. júní 2009 samkvæmt samkomulagi aðilanna 18. maí sama ár með afhendingu veðskuldabréfa útgefinna af Leiguliðum ehf. eða „með öðrum hætti“, né krafðist hann skaðabóta vegna greiðslna, sem fóru fram með afhendingu hlutabréfa í gagnáfrýjanda að andvirði 300.000.000 krónur og veðskuldabréfinu 29. júní 2009 að fjárhæð 1.217.112.321 króna. Í héraði krafðist aðaláfrýjandi aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda, til vara að kröfu hans um skaðabætur yrði hafnað og aðaláfrýjanda þess í stað heimilað að skila öllum þeim greiðslum, sem krafist væri riftunar á,  en að þessu frágengnu yrði fjárhæð skaðabótakröfu lækkuð. Með hinum áfrýjaða dómi voru kröfur gagnáfrýjanda um riftun teknar til greina að undanskilinni þeirri, sem laut að afsali íbúða, og var aðaláfrýjanda gert að greiða gagnáfrýjanda 400.000.000 krónur í skaðabætur, sem tóku mið af verðmæti hlutabréfa í MP banka hf. og hluta í Hraunbjargi ehf. samkvæmt matsgerð dómkvadds manns.

Fyrir Hæstarétti heldur gagnáfrýjandi til streitu sömu kröfum og hann hafði uppi í héraði. Sem fyrr segir krefst aðaláfrýjandi þess á hinn bóginn hér fyrir dómi að hann verði aðallega sýknaður af kröfum gagnáfrýjanda, til vara að hafnað verði kröfu hans um skaðabætur og aðaláfrýjanda heimilað í stað þess að skila hlutabréfunum í MP banka hf., hlutunum í Hraunbjargi ehf., hlutabréfunum í gagnáfrýjanda og veðskuldabréfinu að fjárhæð 1.217.112.321 króna, en að því frágengnu að skaðabótakrafa gagnáfrýjanda verði lækkuð. Hefur aðaláfrýjandi þannig ekki krafist þess að sér verði heimilað að skila íbúðunum að Ásakór 9 til 11, Hörðukór 3 og Tjarnarbraut 12 í stað þess að standa gagnáfrýjanda skil á skaðabótum að fjárhæð 418.179.443 krónur.

IV

Svo sem rakið hefur verið hér að framan krafðist gagnáfrýjandi þess í héraðsdómsstefnu að rift yrði „með dómi greiðslu á skuld“ sinni við aðaláfrýjanda, sem innt hafi verið af hendi í fyrsta lagi með afsali 41 nánar tiltekinnar íbúðar, í öðru lagi með framsali hlutabréfa í MP banka hf., í þriðja lagi með framsali hluta í Hraunbjargi ehf., í fjórða lagi með framsali á hlutabréfum í gagnáfrýjanda og í fimmta lagi með veðskuldabréfi útgefnu af gagnáfrýjanda. Leitaði hann riftunar aðallega á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991. Krafa gagnáfrýjanda um skaðabætur í tengslum við þetta, sem reist var á 3. mgr. 142. gr. sömu laga, tók eingöngu til andvirðis greiðslna, sem hann kvað aðaláfrýjanda hafa notið með afsali íbúðanna og framsali hlutabréfa í MP banka hf. og hluta í Hraunbjargi ehf. Að því er varðar hlutabréfin í gagnáfrýjanda og veðskuldabréfið, sem hann gaf út, gerði hann á hinn bóginn hvorki kröfu um greiðslu skaðabóta né um aðrar lögfylgjur riftunarinnar. Kröfugerð gagnáfrýjanda er að þessu leyti óbreytt fyrir Hæstarétti.

Í málinu hefur gagnáfrýjandi gefið þá einu skýringu á því að hann krefjist riftunar á greiðslu á 300.000.000 krónum, sem hann telur aðaláfrýjanda hafa fengið með framsali á hlutabréfum í gagnáfrýjanda, að með þessu gæti hann „samræmis við riftun á öðrum greiðslum … skv. samkomulaginu“ frá 18. maí 2009. Þessi skýring fær engu breytt um að gagnáfrýjandi getur ekki talist hafa nokkurra lögvarinna hagsmuna að gæta af því að krafa hans um riftun nái að þessu leyti fram að ganga.

Gagnáfrýjandi kveðst í málatilbúnaði sínum leita riftunar að því er varðar veðskuldabréfið, sem hann gaf út til aðaláfrýjanda 29. júní 2009, „til þess að ógilda veðtryggingu sem fylgdi veðskuldabréfinu“. Um þessa skýringu gagnáfrýjanda verður að líta til þess að krafa hans, sem snýr að veðskuldabréfinu, beinist samkvæmt hljóðan sinni að riftun á „greiðslu á skuld stefnanda við stefnda að fjárhæð kr. 1.217.112.321“, svo sem komist var að orði í héraðsdómsstefnu. Riftun á greiðslu, sem gagnáfrýjandi telur aðaláfrýjanda hafa fengið á þennan hátt, gæti engu breytt um að veðbönd samkvæmt skuldabréfinu myndu eftir sem áður hvíla á þeim eignum, sem settar voru til tryggingar fyrir greiðslu þess en gagnáfrýjandi hefur ekki krafist riftunar á veðsetningunni, sem ákvæði skuldabréfsins fólu í sér. Markmiði þessarar dómkröfu, svo sem gagnáfrýjandi hefur lýst því samkvæmt framansögðu, verður þannig á engan hátt náð eins og hann leggur málið fyrir dómstóla. Að þessu virtu getur gagnáfrýjandi heldur ekki talist eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn um dómkröfu sína um riftun þessarar greiðslu.

Samkvæmt framangreindu verður að vísa af sjálfsdáðum frá héraðsdómi kröfum gagnáfrýjanda um riftun greiðslu til aðaláfrýjanda með framsali hlutabréfa í gagnáfrýjanda að nafnverði 13.636.364 krónur og veðskuldabréfi að fjárhæð 1.217.112.321 króna.

V

Samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991, sem gagnáfrýjandi reisir málsókn þessa aðallega á, má meðal annars krefjast riftunar ráðstafana, sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, hafi þrotamaður verið ógjaldfær og sá, sem hag hafði af ráðstöfun, vissi eða mátti vita um ógjaldfærnina og þær aðstæður sem gerðu ráðstöfunina ótilhlýðilega.

Eins og áður hefur verið rakið virðist aðaláfrýjandi hafa byrjað að veita gagnáfrýjanda peningamarkaðsinnlán á fyrstu mánuðum ársins 2008 og þá í tengslum við viðskipti, sem gagnáfrýjandi kveðst hafa átt við FL Group hf. og Baug Group hf. varðandi hlutabréf í fyrrnefnda félaginu. Peningamarkaðsinnlán þetta, sem óx eftir því sem leið á árið, var framlengt í síðasta sinn 22. september 2008 til tveggja vikna og nam þá orðið 2.544.537.668 krónum. Áður en kom að gjalddaga þess tilkynnti aðaláfrýjandi 1. október 2008 að stjórn hans hefði ákveðið að framlengja ekki lánið frekar og bæri því gagnáfrýjanda að greiða það á gjalddaga 6. sama mánaðar. Aðaláfrýjandi hafnaði síðan eindregið þeirri tillögu, sem gagnáfrýjandi bar upp fyrir gjalddagann, um að endurgreiða innlánið að hluta með framsali lánssamnings síns við Styrk Invest ehf. og eftirstöðvar þess með peningum þegar Baugur Group hf. hefði staðið skil á skuld við sig samkvæmt lánssamningi á gjalddaga 5. nóvember 2008. Eftir gjalddaga peningamarkaðsinnlánsins hóf aðaláfrýjandi 8. október 2008 aðgerðir til innheimtu þess. Sama dag leitaði gagnáfrýjandi til forráðamanns Baugs Group hf., þar sem kynntar voru hugmyndir gagnáfrýjanda um aðferðir til uppgjörs á skuldinni og jafnframt vísað til þess að hagsmunir aðaláfrýjanda fælust ekki í því að setja gagnáfrýjanda „á hliðina“. Áður hafði gagnáfrýjandi í fyrrgreindu tölvubréfi til aðaláfrýjanda 6. sama mánaðar upplýst að sér væri ófært að greiða kröfu hans. Án þess að víst sé um ástæðu þess hvarf aðaláfrýjandi í framhaldi af þessu frá þeirri fyrirætlan að innheimta skuld gagnáfrýjanda og virðist hafa þess í stað sýnt vilja til að fá hana gerða upp með öðru móti. Þegar hér var komið sögu hafði gagnáfrýjandi, sem var starfandi fjármálafyrirtæki, þannig ekki aðeins vanefnt að greiða verulega háa skuld á gjalddaga, heldur einnig látið í ljós að hann fengi ekki við hana ráðið.

Fyrir liggur að aðaláfrýjandi fékk á næstu mánuðum eftir þetta mjög ítarlegar upplýsingar um efnahag og rekstur gagnáfrýjanda, meðal annars trúnaðarupplýsingar um margvísleg atriði í tengslum við eignir hans og skuldbindingar. Á því tímaskeiði virðist aðaláfrýjandi hafa skoðað þann möguleika að breyta kröfu sinni í hlutafé í gagnáfrýjanda, sem sá síðarnefndi tengdi við boð sitt um að breyta skuldum Styrks Invest ehf. og Baugs Group hf., sem voru á gjalddaga 5. nóvember 2008 og komnar voru í vanskil, í fimm ára eingreiðslulán. Þau félög voru bæði tekin til gjaldþrotaskipta á árinu 2009 svo sem fyrr er rakið.

Í byrjun apríl 2009 var kynntur ársreikningur gagnáfrýjanda fyrir 2008, en í rekstrarreikningi myndaðist hagnaður að fjárhæð 1.095.268.000 krónur meðal annars fyrir áhrif fyrrnefndrar færslu tekna að fjárhæð 9.354.787.000 krónur. Sú færsla átti rætur að rekja til samnings milli gagnáfrýjanda og íslenska ríkisins í mars 2009 vegna uppgjörs á skuld þess fyrrnefnda við Seðlabanka Íslands. Augljóst mátti vera að fjárhæðin, sem bætti bókfærða rekstrarstöðu gagnáfrýjanda á þennan hátt, jók í engu getu hans til að standa skil á skuldum sínum með peningum. Af málflutningi aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti virðist mega ráða að hann hafi vegna áðurgreindrar upplýsingagjafar gagnáfrýjanda búið yfir vitneskju að minnsta kosti frá ársbyrjun 2009 um hver rekstrarafkoma gagnáfrýjanda hafi í megindráttum orðið á árinu 2008 án þess að gætt hafi áhrifa af fyrrnefndri tekjufærslu vegna samnings hans við íslenska ríkið í mars 2009, svo og hvernig háttað yrði getu hans til að standa skil á skuldbindingum sínum sem féllu í gjalddaga á næstunni. Um þetta leyti virðast ráðagerðir aðilanna hafa þróast í átt að þeirri niðurstöðu, sem aðaláfrýjandi lagði til með tölvubréfi sínu 2. apríl 2009 og samkomulag tókst svo um 18. maí sama ár. Hún fól í sér að gagnáfrýjandi, sem enn var starfandi sem fjármálafyrirtæki og hafði vanefnt í meira en hálft ár stórfellda skuldbindingu við aðaláfrýjanda um greiðslu peningaupphæðar, gerði upp skuld sína að öllu leyti með afhendingu annarra verðmæta. Af síðastnefndu tölvubréfi verður skýrlega ráðið að aðaláfrýjandi hafi valið þær eignir gagnáfrýjanda, sem látnar yrðu af hendi við þetta uppgjör, eftir ítarlega athugun á trúnaðarupplýsingum um fjárhag hans.

Að þessu öllu virtu voru ráðstafanir, sem kveðið var á um í samkomulagi aðilanna 18. maí 2009, ótilhlýðilegar í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991 og fer ekki á milli mála að um þetta var aðaláfrýjandi grandsamur.

Ekki getur orkað tvímælis að þessar ráðstafanir voru aðaláfrýjanda til hagsbóta, enda fékk hann með þeim í hendur verðmæti, sem hann taldi sjálfur, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, nægja til fullnustu kröfu sinnar á hendur gagnáfrýjanda, sem var ófær um að standa skil á henni samkvæmt aðalefni hennar. Þessar hagsbætur aðaláfrýjanda verða að teljast hafa verið á kostnað annarra lánardrottna gagnáfrýjanda, enda voru eignir, sem aðaláfrýjandi fékk afhentar á þennan hátt, eða hefðu síðar getað komið í þeirra stað ekki lengur fyrir hendi til að veita þeim fullnustu. Að því er varðar andvirði 41 íbúðar, sem aðaláfrýjandi fékk afsal fyrir úr hendi dótturfélags gagnáfrýjanda, HK húseigna ehf., á grundvelli samkomulagsins verður að gæta að því að fram að afsali þessu mun gagnáfrýjandi hafa átt fjárkröfu á hendur dótturfélaginu sem svaraði til skuldlauss andvirðis þessara íbúða, en vegna afsals þeirra féll sú krafa niður. Fóru því aðrir lánardrottnar gagnáfrýjanda á mis við að sú fjárkrafa stæði til fullnustu krafna þeirra.

Skýra verður fyrirmæli 141. gr. laga nr. 21/1991, þar sem sett eru skilyrði fyrir riftun um ógjaldfærni þrotamanns á þeim tíma sem ráðstöfun var gerð, með hliðsjón af ákvæðum 2. mgr., sbr. 1. mgr. 64. gr. sömu laga, þar sem lögð er skylda á skuldara sem er bókhaldsskyldur til að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta geti hann ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga eða innan skamms tíma frá því. Þessu til samræmis verður að telja skuldara ógjaldfæran í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991 þegar svo er orðið ástatt fyrir honum sem um ræðir í 64. gr. laganna. Gagnáfrýjandi var sem áður segir ófær um að standa í skilum við aðaláfrýjanda á gjalddaga kröfu þess síðarnefnda 6. október 2008. Af fyrrnefndum tölvubréfum gagnáfrýjanda til aðaláfrýjanda þann dag og 8. sama mánaðar til forráðamanns Baugs Group hf. kom skýlaust fram að gagnáfrýjandi gæti ekki greitt skuld sína við aðaláfrýjanda. Til greiðslu eftir aðalefni skuldbindingarinnar varð gagnáfrýjandi heldur ekki fær í framhaldi af þessu, heldur gengu aðilarnir til uppgjörs meira en sjö mánuðum síðar, þar sem önnur verðmæti en peningar skiptu um hendur. Er þannig hafið yfir vafa að gagnáfrýjandi var ógjaldfær í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991 þegar samkomulag aðilanna var gert 18. maí 2009 og þegar einstökum ákvæðum þess var hrundið í framkvæmd með kaupsamningum og öðrum ráðstöfunum.

Sem fyrr segir var aðaláfrýjandi grandsamur við gerð samkomulagsins 18. maí 2009 um ótilhlýðileika ráðstafananna, sem það tók til. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður jafnframt að líta svo á að hann hafi verið grandsamur um ógjaldfærni gagnáfrýjanda. Samkvæmt þessu er í málinu fullnægt öllum almennum efnisskilyrðum 141. gr. laga nr. 21/1991 til að rifta ráðstöfunum á grundvelli samkomulagsins.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi hefur aðaláfrýjandi varist kröfu gagnáfrýjanda um riftun þeirrar greiðslu, sem fólst í afsali fyrir 41 íbúð, á þeim grunni að sú ráðstöfun hafi í reynd verið milli dótturfélaga þeirra þar sem að HK húseignir ehf. hafi afsalað íbúðunum til TM fjár ehf. og geti því hvorki aðaláfrýjandi né gagnáfrýjandi með réttu átt aðild að máli um þetta. Er þá til þess að líta að með samkomulaginu 18. maí 2009 fékk aðaláfrýjandi greidda skuld gagnáfrýjanda við sig, meðal annars með afsali fyrir íbúðunum, og var það ákvörðun hans að sá hluti greiðslunnar rynni til dótturfélags síns í stað þess að hann tæki hana beint til sín. Greiðsla þessi var að öllu leyti á kostnað gagnáfrýjanda, þótt hún hafi borist úr hendi dótturfélags hans, enda mun skuld þess við gagnáfrýjanda hafa lækkað sem svaraði verðmæti íbúðanna. Leiddi þessi ráðstöfun þannig í senn til ábata fyrir aðaláfrýjanda og tjóns fyrir lánardrottna gagnáfrýjanda. Að virtu þessu og ákvæði 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 er unnt, að kröfu gagnáfrýjanda, að rifta þeirri greiðslu til aðaláfrýjanda, sem hér um ræðir á grundvelli 141. gr. sömu laga.

Gagnáfrýjandi krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér skaðabætur samkvæmt 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 418.179.443 krónur vegna andvirðis íbúðanna að Ásakór, Hörðukór og Tjarnarbraut. Aðaláfrýjandi hefur sem áður segir fallið frá varakröfu, sem hann gerði í héraði, um að verða leystur undan greiðslu skaðabóta af þessum sökum gegn því að skila gagnáfrýjanda íbúðunum. Aðaláfrýjandi hefur á hinn bóginn borið því við að efni séu til að lækka fjárhæð skaðabóta vegna ýmiss kostnaðar í tengslum við íbúðirnar og aukningar á verðmæti þeirra. Í málinu liggja ekki fyrir gögn til að styðja þennan málatilbúnað að því er varðar íbúðirnar í Ásakór og Hörðukór. Á hinn bóginn var í máli, sem þrotabú HK húseigna ehf. höfðaði 20. desember 2011 á hendur TM fé ehf. til riftunar á ráðstöfun íbúðanna að Tjarnarbraut, sem hafnað var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2014, aflað matsgerðar dómkvadds manns um kostnað TM fjár ehf. af því að koma fasteignunum í það ástand, sem samið hafði verið um að afhenda þær í, og missi leigutekna. Á þessari matsgerð hefur aðaláfrýjandi byggt í máli þessu. Gagnáfrýjandi átti ekki aðild að nefndu dómsmáli og gafst honum enginn kostur á að láta matsbeiðni til sín taka eða framkvæmd mats eftir ákvæðum IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki byggt á matsgerðinni við úrlausn þessa máls gegn andmælum hans. Að þessu virtu eru ekki efni til annars en að taka til greina kröfu gagnáfrýjanda um skaðabætur vegna andvirðis íbúðanna.

Hér áður hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að skilyrði séu til að rifta greiðslu, sem aðaláfrýjandi fékk úr hendi gagnáfrýjanda með framsali hlutabréfa í MP banka hf. að nafnverði 58.078.332 krónur og hluta í Hraunbjargi ehf. að nafnverði 77.614 krónur. Í samkomulagi aðilanna 18. maí 2009 var lagt til grundvallar að samanlagt verðmæti þeirra næmi 700.000.000 krónum og tekur krafa gagnáfrýjanda um skaðabætur af þessum sökum mið af því. Aðaláfrýjandi hefur krafist þess að verða leystur undan greiðslu skaðabóta að þessu leyti gegn því að afhenda gagnáfrýjanda hlutabréfin og hlutina á ný, sbr. 144. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt því ákvæði er það skilyrði fyrir kröfu sem þessari að skilum verði komið við án óhæfilegrar rýrnunar verðmæta. Í málinu er óumdeilt að hlutabréf þessi og hlutir séu nú verðlausir með öllu. Líta verður svo á að hlutabréfin og hlutirnir hafi á hinn bóginn haft verulegt verðgildi þegar þeir voru afhentir á grundvelli kaupsamninga aðilanna 22. maí 2009, svo sem fram kom í samkomulagi þeirra 18. sama mánaðar. Í stað þess að framselja aðaláfrýjanda þessi verðmæti hefði gagnáfrýjanda verið kleift að koma þeim í verð, en aðaláfrýjandi gat einnig gert það sama þegar eftir framsal þeirra. Það gerði hann ekki, heldur kaus að eiga hlutabréfin og hlutina áfram og urðu þeir síðan verðlausir í höndum hans. Afleiðingum þeirrar ákvörðunar getur aðaláfrýjandi ekki varpað nú yfir á gagnáfrýjanda með því að koma fram skilum á þessum hlutum. Er því ekki fullnægt skilyrðum 144. gr. til að verða við kröfu hans um þetta.

Í héraðsdómi er rakið efni matsgerðar, sem aðaláfrýjandi aflaði undir rekstri þessa máls um áætlað verðmæti hlutabréfanna og hlutanna í fyrsta lagi 22. maí 2009 við framsal þeirra, í öðru lagi 10. febrúar 2012 þegar gagnáfrýjandi lýsti yfir riftun og í þriðja lagi á matsdegi. Við úrlausn málsins getur þessi matsgerð ekkert vægi haft til að hnekkja þeirri ákvörðun á verðmæti hlutabréfanna og hlutanna, sem fólst í samkomulagi aðilanna 18. maí 2009, þar sem þeir lögðu báðir til grundvallar að samanlagt verðmæti þessa væri 700.000.000 krónur. Verður aðaláfrýjanda því gert að greiða gagnáfrýjanda þá fjárhæð í skaðabætur.

Samkvæmt framansögðu verður tekin til greina krafa gagnáfrýjanda um greiðslu á 1.118.179.443 krónum úr hendi aðaláfrýjanda. Gagnáfrýjandi varð fyrir tjóni, sem bætt verður með þeirri fjárhæð, annars vegar með framsali hlutabréfa í MP banka hf. og hluta í Hraunbjargi ehf. 22. maí 2009 og hins vegar með eigendaskiptum að 41 íbúð með kaupsamningum um þær 5. júní sama ár. Verður því tekin til greina krafa gagnáfrýjanda um vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá síðastgreindum degi til 10. mars 2012, þegar liðinn var mánuður frá því að hann lýsti yfir riftun í bréfi til aðaláfrýjanda. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. sömu laga ber krafa gagnáfrýjanda dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Aðaláfrýjanda verður gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Vísað er frá héraðsdómi kröfu gagnáfrýjanda, VBS eignasafns hf., um riftun á greiðslu skuldar við aðaláfrýjanda, Tryggingamiðstöðina hf., með framsali á hlutabréfum í gagnáfrýjanda að nafnverði 13.636.364 krónur og veðskuldabréfi útgefnu af honum 29. júní 2009 að fjárhæð 1.217.112.321 króna.

Rift er greiðslu að fjárhæð 418.179.443 krónur á skuld gagnáfrýjanda við aðaláfrýjanda, sem fram fór með afsali á sex íbúðum að Ásakór 9 til 11 í Kópavogi með fastanúmer 228-6601, 228-6604, 228-6606, 228-6785, 228-6788, 228-6794, tuttugu íbúðum að Hörðukór 3 í Kópavogi með fastanúmer 228-5227, 228-5230, 228-5231, 228-5233, 228-5234, 228-5235, 228-5236, 228-5238, 228-5240, 228-5242, 228-5243, 228-5244, 228-5245, 228-5247, 228-5253, 228-5354, 228-5258, 228-5263, 228-5267 og 228-5270 og fimmtán íbúðum að Tjarnarbraut 12 í Reykjanesbæ með fastanúmer 228-6988, 228-6989, 228-6990, 228-6991, 228-6992, 228-6993, 228-6994, 228-6995, 228-6996, 228-6997, 228-6998, 228-6999, 228-7000, 228-7001 og 228-7002.

Staðfest eru ákvæði héraðsdóms um riftun greiðslu gagnáfrýjanda til aðaláfrýjanda með framsali á hlutabréfum í MP banka hf. að nafnverði 58.078.332 krónur og hlutum í Hraunbjargi ehf. að nafnverði 77.614 krónur.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 1.118.179.443 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. júní 2009 til 10. mars 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 3.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2014.

                Mál þetta var höfðað 23. maí 2012 og dómtekið 4. febrúar 2014.

                Stefnandi er VBS Eignasafn hf., Suðurlandsbraut 22, Reykjavík.

                Stefndi er Tryggingamiðstöðin hf., Síðumúla 24, Reykjavík.

                Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:

                Að rift verði með dómi greiðslu á skuld stefnanda við stefnda að fjárhæð 418.179.443 kr. sem fram fór með afsali á fasteignum í eigu dótturfélags stefnanda, HK húseigna ehf., kt. 620508-1440 sem hér segir: sex íbúðum að Ásakór 9-11, Kópavogi með fastanúmer 228-6601, 228-6604, 228-6606, 228-6785, 228-6788, 228-6794 þann 17. ágúst 2009; 20 íbúðum að Hörðukór 3, Kópavogi með fastanúmer 228-5227, 228-5230, 228- 5231, 228- 5233, 228-5234, 228-5235, 228-5236, 228-5238, 228-5240, 228-5242, 228-5243, 228- 5244, 228-5245, 228-5247, 228-5253, 228-5354, 228-5258, 228-5263, 228-5267 og 228-5270 þann 17. ágúst 2009; og 15 íbúðum að Tjarnabraut 12, Reykjanesbæ með fastanúmer 228-6988, 228- 6990, 228-6991, 228-6992, 228-6993, 228-6994, 228-6995, 228-6996, 228-6997, 228-6998, 228-6999, 228-7000, 228-7001 og 228-7002 þann 26. nóvember 2009.

                Að rift verði með dómi greiðslu á skuld stefnanda við stefnda að fjárhæð 550.000.000 kr. með framsali á hlutabréfum í MP banka hf. (nú EA fjárfestingarfélag ehf.) til stefnda þann 22. maí 2009, að nafnvirði 58.078.332 kr.

                Að rift verði með dómi greiðslu á skuld stefnanda við stefnda að fjárhæð 150.000.000 kr. með framsali á hlutum í einkahlutafélaginu Hraunbjargi ehf. til stefnda þann 22. maí 2009, að nafnvirði 77.614 kr.

                Að rift verði með dómi greiðslu á skuld stefnanda við stefnda að fjárhæð 300.000.000 kr. með framsali á hlutabréfum í stefnanda til stefnda þann 22. maí 2009 að nafnverði 13.636.364 kr.

                Að rift verði með dómi greiðslu á skuld stefnanda við stefnda að fjárhæð 1.217.112.321 kr. með veðskuldabréfi, útgefnu af stefnanda þann 29. júní 2009 til stefnda.

                Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.118.179.443 kr., auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá 5. júní 2009 til 10. mars 2012 en með dráttarvöxtum skv. III. kafla sömu laga, sbr. 6. gr. og 9. gr. s.l. frá 10. mars 2012 til greiðsludags.

                Að stefndi greiði stefnanda málskostnað.

                Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

                Stefndi krefst þess til vara að viðurkennd verði krafa hans um skil á eftirtöldum eignum og að fjárkröfu stefnanda verði þar með hafnað:

                - Sex íbúðum að Ásakór 9-11, Kópavogi með fastanúmer 228-6601, 228-6604, 228-6606, 228-6785, 228-6788 og 228-6794 gegn greiðslu á 100.000.000 kr., vegna kostnaðar stefnda við þær og verðmætisaukningar íbúðanna vegna þessa;

                - tuttugu íbúðum við Hörðukór 3, Kópavogi með fastanúmer 228-5227, 228-5230, 228-5231, 228-5233, 228-5234, 228-5235, 228-5236, 228-5238, 228-5240, 228-5242, 228-5243, 228-5244, 228-5245, 228-5247, 228-5253, 228-5354, 228-5258, 228-5263, 228-5267 og 228-5267 gegn greiðslu á 100.000.000 kr. vegna kostnaðar stefnda við þær og verðmætisaukningar íbúðanna vegna þessa;

                - fimmtán íbúðum að Tjarnarbraut 12, Reykjanesbæ með fastanúmer: 228-6988, 228-6991, 228-6992, 228-6989, 228-6990, 228-6993, 228-6994, 228-6995, 228-6996, 228-6997, 228-6998, 228-6999, 228-7000, 228-7001 og 228-7002 gegn greiðslu á 200.000.000 kr. vegna kostnaðar stefnda við þær og verðmætisaukningar íbúðanna vegna þessa

                - hlutabréfum í MP banka hf. að nafnverði 58.078.332 kr.

                - hlutabréfum í Hraunbjargi ehf. að nafnverði 77.614 kr.

                - hlutabréfum í stefnanda að nafnverði 13.636.364 kr.

                - veðskuldabréfi, útgefnu af stefnanda til stefnda þann 29. júní 2009, að fjárhæð 1.217.112.321 kr.

                Stefndi krefst þess til þrautavara að fjárkrafa hans verði lækkuð.

                Þá krefst stefndi málskostnaðar.

I.

Málavextir

                Í ársbyrjun 2008 veitti stefndi stefnanda peningamarkaðslán, svokölluð PM lán. Lánveitingin fór fram með óformlegum hætti, þ.e. með innborgun stefnda inn á reikning stefnanda en ekki liggur annað fyrir en að sá háttur hafi almennt verið hafður á við lánveitingar sem þessar. PM-lánin voru framlengt nokkrum sinnum með óformlegum hætti. Þá voru ekki tryggingar að baki lánunum.

                Þann 18. maí 2009 var undirritað samkomulag sem fól í sér uppgjör samkvæmt ofangreindum lánasamningi milli stefnanda, sem lántaka og stefnda sem lánveitanda, upphaflega að fjárhæð 2.544.537.668 krónur. Fram kemur að gjalddagi lánsins hafi verið 6. október 2008. Aðilar samkomulagsins voru annars vegar stefndi og TM fé ehf., dótturfélag stefnda, og hins vegar stefnandi og HK Húseignir ehf., dótturfélag stefnanda.

                Í samkomulaginu segir að miða eigi við stöðu kröfunnar þann 31. mars 2009 sem þá nam 2.817.787.657 kr. með áföllnum vöxtum. Skyldi skuldin greidd í áföngum en eftirstöðvar á hverjum tíma bæru 20,20% vexti þar til endanlegt uppgjör færi fram að undanskilinni skuld vegna kaupa á veðskuldabréfum sbr. grein 1.1. í samkomulaginu.

                Uppgjör skuldarinnar fór fram með eftirfarandi hætti:

                Með kaupum á veðskuldabréfum eða með öðrum hætti              197.500.000 kr.

                Með fasteignum                                                                                    418.179.443 kr.

                Með hlutabréfum í MP banka hf. og Hraunbjargi ehf.                  700.000.000 kr.  

                Með framsali hlutabréfa í stefnanda                                                                 300.000.000 kr.   

                Með nýju veðskuldabréfi útgefnu af stefnanda til stefnda       1.202.108.214 kr.

                Fram kemur að stefndi og TM fé ehf. muni í tengslum við uppgjörið kaupa fasteignir af HK húseignum ehf. fyrir samtals 1.142.255.800 kr., sem greiðist að hluta með yfirtöku skulda við Íbúðalánasjóð að fjárhæð 724.076.357 kr. Þá samþykki stefndi skuldskeytingu að hluta á láni stefnanda til seljanda fasteignanna (HK húseignir ehf.) og eins samþykki stefnandi framsal hluta lánsins til TM fjár „svo skuldajöfnun sé möguleg við hluta af kaupverði fasteignanna“.

                Í 1. gr. samkomulagsins segir að aðilar þess samþykki að TM og TM fé kaupi og VBS og HK húseignir selji og er uppgjöri þar nánar lýst, þ.e. kaupum á veðskuldabréfum, fasteignakaupum og hlutabréfakaupum.

                Á næstu mánuðum eftir gerð samkomulagsins efndi stefnandi skyldur sínar samkvæmt samningnum með eftirfarandi hætti:

1.              Með greiðslu á 197.500.000 kr. til stefnda með afhendingu á handveðsyfirlýsingu að fjárhæð 173.500.000 kr. með veði í 32 veðskuldabréfum útgefnum af Stórási ehf., hvert að fjárhæð 5.000.000 kr. og tveimur samhljóða veðskuldabréfum útgefnum af Leiguliðum hf. sem tryggð voru með veðum í fasteignunum Ferjuvaði 13-15, hvoru að fjárhæð 4.500.000 kr. Enn fremur var lögð fram 24 milljóna króna trygging í formi tryggingarbréfs útgefnu af stefnanda til stefnda með veði í fasteigninni Borgarbraut 57, Borgarnesi. Afhending téðra veðskuldabréfa fór fram í kjölfar undirritaðrar yfirlýsingar stefnanda og stefnda dags. 30. september 2009 þar sem gengið var frá viðbótarlánveitingu að fjárhæð 20.000.000 kr., og frestunar gjalddaga upphaflegrar greiðslu með vísan í samkomulagið til 15. október 2009.

2.              Með greiðslu á 418.179.443 kr. með afsali á fasteignum stefnanda í gegnum dótturfélag sitt, HK húseignir ehf. að nettóverðmæti 418.179.443 kr. til dótturfélags stefnda, TM fé ehf. Uppgjörið var miðað við stöðu lána 31. mars 2009 eins og kveðið er á um í samkomulaginu. Þær fasteignir er afhentar voru í umrætt sinn voru sex íbúðir í húseigninni Ásakór 9-11, Kópavogi, 20 íbúðir í húseigninni Hörðukór 3, Kópavogi og 15 íbúðir í húseigninni Tjarnabraut 12, Reykjanesbæ. Í kaupsamningum vegna ofangreindra fasteigna sem gerðir voru í samræmi við ákvæði samkomulagsins og eru viðaukar við það, kemur skýrt fram í gögnum að með móttöku stefndu á téðum eignum lækki skuld stefnanda við stefnda um nettóverðmæti eignanna.

3.              Með greiðslu á 700.000.000 kr. með framsali á hlutabréfum í MP banka að nafnvirði 58.078.332 kr. en að markaðsvirði skv. samkomulaginu, dags. 22. maí 200, að fjárhæð 550.000.000 kr. sem endanlega var gengið frá í viðauka við samkomulagið. Að auki framseldi stefnandi til stefnda hlutbréf í Hraunbjargi ehf., sem einnig átti hlutabréf í MP banka hf., sem samkvæmt samkomulaginu var að nafnvirði 77.614. kr. en metið að markaðsvirði 150.000.000 kr. en sem endanleg var gengið frá í viðauka við samkomulagið, dags. 22. maí 2009.

4.              Með framsali til stefnda á hlutabréfum í stefnanda að umsömdu markaðsvirði 300.000.000 kr. í viðauka við samkomulagið.

5.              Með útgáfu veðskuldabréfs að fjárhæð 1.202.108.214 kr. með einum gjalddaga þann 15. febrúar 2013 þar sem sett voru að veði 90 skuldabréf á 1. veðrétti útgefin af Dalshúsum ehf. með veði í byggingareit á Kársnesi í Kópavogi, hvert að nafnvirði 5.000.000.000 kr. Einnig voru sett að veði 56 skuldabréf á 1. veðrétti útgefin af Dalsafli ehf. með veði í byggingarlóð á Dalvegi 30, Kópavogi, hvert að nafnvirði 5.000.000.000 kr. Veðréttur í fasteigninni Rafstöðvavegi 1a Reykjavík og 2. veðréttur í 15 íbúðum í Vindakór 8 í Kópavogi.

                Þann 3. mars 2010 skipaði Fjármálaeftirlitið bráðabirgðastjórn í VBS fjárfestingarbanka hf. (hér eftir stefnandi) með heimild í 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, (hér eftir fftl.), sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009. Þann 9. apríl 2010 var stefnandi tekinn til slitameðferðar og skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur bankanum slitastjórn samkvæmt heimild í 4. mgr. 101. gr. laga fftl., sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009. Frestdagur er 3. mars 2010 í skilningi 2. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. (hér eftir gþl.), sbr. 101. gr. i.f. fftl. Gefin var út innköllun til kröfuhafa í samræmi við 2. mgr. 102 gr. fftl. og var kröfum alls að fjárhæð um 48 milljarðar króna, lýst í slitabú stefnanda, þar af voru sértökukröfur og veðsettar kröfur alls um 33 milljarðar króna. Almennar kröfur voru um 14 milljarðar króna. Óveðsettar eignir stefnanda til að mæta greiðslu almennra krafna voru taldar u.þ.b. 900 milljónir króna miðað við núverandi markaðsástand. Stefndi lýsti kröfu samkvæmt veðskuldabréfi útgefnu af stefnanda þann 29. júní 2009.

                Þann 10. janúar 2012 ákvað slitastjórn stefnanda að rifta greiðslu á skuld stefnanda við stefnda að fjárhæð 2.817.787.657 kr. sem fram fór með afhendingu fasteigna, veðskuldabréfa og hlutabréfa með ofangreindu samkomulagi. Þann 10. febrúar 2012 var stefnda sent riftunarbréf þar sem fram kemur það mat slitastjórnar að umrædd greiðsla á kröfum stefnda á hendur VBS hafi farið gegn ákvæðum 141. gr. laga nr. 21/1991 gþl. Jafnframt var krafist greiðslu skaðabóta samkvæmt 3. mgr. 142. gr. sömu laga að fjárhæð 1.118.179.443 kr. Stefndi hafnaði riftunarkröfu stefnanda með bréfi dags. 20. febrúar 2012 og skoraði á slitastjórn að afhenda nú þegar skuldabréf þau sem félagið ætti veð í samkvæmt samkomulaginu og skuldabréfi því sem lýst var til slitastjórnar.

                Aðila málsins greinir verulega á um málavexti og rekja hvor um sig ítarlega í stefnu og greinargerð hvernig þeir horfa við þeim. Lúta þeir að mestu að aðdraganda PM lánveitingar stefnda. Stefnandi lýsir því að lánveitingin hafi í reynd verið að undirlagi FL Group og móðurfélags þess, í þeim tilgangi að fjármagna hlutabréfakaup í félaginu sjálfu fyrir milligöngu stefnanda og í raun verið málamyndagerningur. Stefnandi telur sýnt að tilurð PM lánanna hafi ekki borið að með venjulegum hætti eins og tíðkaðist í bankaviðskiptum.Vísar hann í þessu sambandi til tölvubréfa sem liggja frammi í málinu og tengir þau ofangreindri fjármögnun hlutabréfakaupa FL Group.

                Af hálfu stefnda er því hins vegar haldið fram að um eðlilega lánveitingu hafi verið að ræða til stefnanda sambærilega lánveitingum á sama tíma til annarra félaga og samræmdist tilgangi félagsins. Viðskipti í tengslum við ofangreind hlutabréfakaup séu alls óskyld lánveitingunni. Stefndi einn hafi tekið ákvörðun um PM lánveitinguna og hafi verið um að ræða einhliða ákvörðun forstjóra stefnda og annarra starfsmanna stefnda í samræmi við reglur um fjárfestingastarfsemi stefnda á þeim tíma.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi byggir riftunarkröfu sína á 141. gr. gþl. Samkvæmt 141. gr. gþl. sé heimilt að rifta ráðstöfunum, sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta, hafi ráðstöfunin jafnframt leitt til þess að eignir verði ekki til ráðstöfunar til fullnustu fyrir aðra kröfuhafa eða leiði til skuldaaukningar öðrum kröfuhöfum til tjóns. Þau skilyrði sem tilgreind séu fyrir beitingu heimildarinnar séu að þrotamaðurinn hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar og að sá sem hag hafði af ráðstöfuninni hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. 

                Stefnandi telji upplýst að stefndi hafi vitað um bágan fjárhag stefnanda er hann fjármagnaði skuldbindingar FL Group hf. með málamyndalánveitingu PM lána og enn fremur þegar samkomulag um skuldauppgjörið hafi verið gert þann 18. maí 2009. Auk þess hafi rástöfunin verið ótilhlýðileg stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa.

                Stefnandi byggir á því að stefnandi hafi þegar í febrúar árið 2008 verið orðinn ógjaldfær og stjórnendum bankans og viðsemjendum hafi verið eða mátt vera það ljóst. Í ársreikningi stefnanda vegna ársins 2008, sem hafi verið birtur í Kauphöllinni 9. apríl 2009, hafi sést glögglega hversu slæm fjárhagsstaða stefnanda hafi verið orðin 2008. Af gögnum málsins megi sjá að stefnandi hafi talið sig hafa veðsett nánast allar eignir bankans. Slík tilhögun, að veðsetja nánast allt eignasafn banka, sé mjög óvenjuleg ráðstöfun og gefi skýrar vísbendingar um hve alvarleg staða bankans hafi verið á umræddu tímabili. Hið sama megi segja þegar virðisrýrnun útlána stefnanda á árunum 2007 og 2008 sé borin saman. Í ársreikningi ársins 2007 hafi virðisrýrnunin numið 120.413.000 kr. Virðisrýrnunin vegna ársins 2008 hafi hins vegar numið 6.807.853.000 kr. sem hafi verið grundvallarbreyting á rekstrarhorfum stefnanda en útlánin séu helstu eignir banka. Slík breyting á milli ára sé skýr vísbending um í hvað stefni. Við það bættist virðisrýrnun árið 2009, samtals 23.300.000.000 kr., sem staðfesti enn frekar þá erfiðleika sem stefnandi hafi glímt við á árinu 2008 eins og FME bendi á í skýrslu sinni dags. 30. júní 2008.

                Til samanburðar megi benda á að heildarútlán stefnanda til viðskiptavina sinna á sama tímabili hafi numið samtals 26.442.809.000 kr. Það þýði að fjórðungur allra útlána bankans hafði tapast eða myndi tapast á milli rekstraráranna 2007 og 2008 og afgangurinn á árinu 2009. Þá hafi lánasafnið verið afar einsleitt og nánast allt í byggingageiranum, sem hafi gert stöðu bankans enn verri. Þetta, ásamt því að í ársreikningi vegna 2008 væri stór tekjufærsla vegna lánasamnings stefnanda við ríkið, sýndi ótvírætt að stefnandi hafi þegar í upphafi árs 2008 verið ógjaldfær. Lánveiting ríkissjóðs til bankans 31. mars 2009 hafi engu breytt, enda hafi með henni einungis verið komið í veg fyrir að bankinn sigldi í þrot þá þegar vegna skulda við Seðlabankann. Stefnandi hafi núvirt ætlaðan vaxtasparnað á sjö ára lánstíma lánsins frá ríkissjóði til 9.345.787.000 kr. og fært afturvirkt sem eign í ársreikningi sínum fyrir árið 2008. Við þá færslu hafi eigið fé bankans snúist úr neikvæðu í jákvætt án þess að hafa verið jákvætt í raun. 

                Að mati stefnanda hafi stefndi séð eða mátt glögglega sjá að fjárhagur bankans hafi verið þannig að skuldir hans væru meiri en eignir, að bankinn væri ekki fær um að greiða skuldir sínar á gjalddaga og að ólíklegt væri að úr rættist í náinni framtíð. Án ofangreindrar tekjufærslu hefði eigið féð verið langt undir lögbundnum viðmiðum eða einungis rúmar 100.000.000 kr., virðisrýrnun hefði aukist á milli ára úr 120.413.000 í 6.807.853.000 kr. og ætluð veðsetning 76% af heildareignum bankans hefði falið í sér að hann hefði verið ógjaldfær á árinu 2008 og hefði með réttu átt að taka hann til gjaldþrotaskipta þá þegar. Þessu til viðbótar megi benda á að stærstur hluti eigna bankans á þessu tímabili hafi í raun ekki borið vexti þrátt fyrir að vextir væru bókfærðir í bókhaldi því lánin hafi verið í vanskilum eða þau verið framlengd án þess að bankinn fengi nokkra greiðslu auk þess sem bankinn hafi ekki uppfyllt lögbundin skilyrði um lausafjárhlutfall.

                Stefnandi byggir á því að um ótilhlýðilega greiðslu hafi verið að ræða og málamyndalánveitingu stefnda til stefnanda. Stefndi hafi í raun ekki verið að veita PM lán heldur verið að fjármagna hlutabréfkaup FL Group hf. í sjálfu sér, að beiðni móðurfélags síns, fyrir milligöngu stefnanda. Ráðstöfunin, þ.e. endurgreiðsla lánsins sé því á ótilhlýðilegan hátt stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa sem hafi leitt til þess að eignir stefnanda hafi ekki verið til reiðu fyrir þá sbr. 141. gr. gþl.

                Telur stefnandi að gögn málsins beri með sér að tilurð lánveitingarinnar hafi ekki borið að með venjulegum hætti þegar banki eigi í hlut. Hvergi liggi fyrir í gögnum stefnanda að stefndi hafi óskað eftir tilboðum í fjármögnum og stefnandi átt það hagstæðasta. Rekur stefnandi ítarlega efni fyrirliggjandi gagna, m.a. tölvubréf á milli fyrirsvarsmanna aðila. Telur hann gögnin m.a. styðja að stefndi hafi ekki í raun lánað stefnanda téða fjármuni, heldur FL Group hf., í ofangreindum tilgangi, sem í eðli sínu sé markaðsmisnotkun í skilningi 117. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti. Stefndi hafi því aldrei átt rétt á greiðslu frá stefnanda, hvað s.s. öðru líði og beri því að fallast á kröfur stefnanda.

                Verði ekki fallist á að greiðslur til stefnanda hafi í raun verið í þágu FL Group hf. sé byggt á því að afhending fasteigna, hlutabréfa og veðskuldabréfa útgefnum til þriðja aðila sé ótilhlýðileg ráðstöfun til hagsbóta fyrir stefnda og á kostnað annarra kröfuhafa og því riftanleg skv. 141.gr. gþl.

                Í 141. gr. gþl. sé gerður áskilnaður um að ráðstöfun sé framkvæmd með ótilhlýðilegum hætti kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa. Við túlkun á því hvað teljist ótilhlýðileg greiðsla beri að gera strangari kröfur til fyrirtækja sem falli undir gildissvið laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Hafa verði í huga að ákvæði 141. gr. gþl. sé regla sem marki grundvöll skaðabótakröfu, sbr. 3. mgr. 142. gr. gþl. Skilyrðið um ótilhlýðileika lúti því að forsendum þess að háttsemi teljist skaðabótaskyld. Greiðsla stefnanda með framangreindum eignum geti ekki talist tilhlýðileg í skilningi 141. gr. gþl., enda brjóti hún gegn skýru ákvæði 134. gr. gþl., Hún hafi verið einum kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leitt til þess að eignir hafi ekki verið til staðar fyrir aðra kröfuhafa og skapað ójafnræði meðal kröfuhafa. Greiðslan eða ráðstöfunin hafi ekki verið venjuleg og ekki í samræmi við það hvernig greiðsla skulda hafi almennt farið fram hjá stefnanda eða gert hafi verið ráð fyrir í samningum stefnanda og stefnda. Það fyrirkomulag sem viðhaft hafi verið við efndir kröfunnar sýni án vafa að háttsemin hafi verið ótilhlýðileg, enda hafi stefndi valið sér eignir til fullnustu kröfu sinnar á kostnað annarra kröfuhafa vegna þess að stefndi hafi verið grandsamur um ógjaldfærni stefnanda í skilningi 141. gr. gþl.

                Stefnandi byggir á því að stefndi hafi verið grandsamur þegar hann hafi hafið sjö mánaða samningaferli sem hafi lokið með samkomulagi sem hafi falið í sér greiðslu eldri skuldar með afhendingu eigna. Byggt sé á því jafnframt að stefnda hafi verið ljóst í síðasta lagi þegar samkomulagið hafi verið gert þann 18. maí 2009 að í því fælist mismunun á jafnræði kröfuhafa stefnanda

                Stefnda hafi einnig mátt vera það ljóst vegna viðskipta aðila í tengslum við kaup stefnanda á FL Group hlutabréfunum að stefnandi væri í verulegum lausafjárerfiðleikum þegar í upphafi ársins 2008, að öðrum kosti hefði ekki komið til þess að stefndi fjármagnaði áðurnefnd hlutabréfakaup. Ef allt hefði verið með felldu í rekstri stefnanda á þeim tíma og um hefði verið að ræða venjuleg PM lán, hefði stefnandi getað greitt þau út samkvæmt almennum skilmálum slíkra innlána. Það að fjármálafyrirtæki geti ekki staðið skil á skammtímalánum til fagfjárfestis, eins og stefndi sé, staðfesti með óyggjandi hætti að stefnandi hafi verið ógjaldfær þegar á árinu 2008. Það hafi stefndi vitað eða a.m.k. hafi það ekki getað dulist honum enda hafi hann haft allar upplýsingar í höndunum um rekstur og fjárhag stefnanda.

                Stefnandi byggir enn fremur á því að stefndi hafi aflað sér upplýsinga um bága fjárhagsstöðu stefnanda í undanfara samkomulagsins þann 18. maí hann hafi fengið frjálsan aðgang að fjárhagsgögnum stefnanda og m.a. ritað undir trúnaðaryfirlýsingu vegna hugsanlegra breytinga á hinum meintu lánum í hlutafé.

                Stefnandi byggir á því að stefndi hafi verið grandsamur um ógjaldfærni stefnanda vegna aðdraganda samkomulagsins. Samkomulag frá 18. maí 2009 sem hafi falið í sér greiðslu á eldri skuldum stefnanda með nefndum ráðstöfunum, hafi verið gert rúmum sjö mánuðum eftir gjalddaga lánssamningsins þann 6. október 2008. Á þeim tíma hafi stefndi vitað eða mátt vita af lausafjárerfiðleikum stefnanda eins og gögn málsins sýni enda höfðu samningaviðræður um greiðslu skuldarinnar staðið yfir frá þeim degi.

                Þann 8. október 2008 hafi stefnanda borist innheimtubréf frá stefnda sem þáverandi forstjóri stefnanda svaraði samdægurs með tölvubréfi þar sem lýsti yfir vonbrigðum sínum þar sem hann taldi að verið væri að semja um málið þegar horft væri til tilurðar þess. Í svarpósti forstjóra stefnda, dags. 9. október 2008, hafi rökum forstjóra stefnanda ekki verið mótmælt. Í kjölfarið hafi verið komið á samkomulagi þess efnis að stefndi tæki við eignum stefnanda til uppgjörs, eins og sjá megi í tölvubréfi frá forstjóra stefnda til forstjóra stefnanda.

                Hinn langi aðdragandi að gerð samkomulagsins 18. maí 2009 sýni að stefnda hafi verið fullkunnugt um slæma fjárhagsstöðu stefnanda þegar skuldin hafi að lokum verið greidd með afhendingu eigna sem stefndi hafði valið eftir gríðarlega greiningarvinnu stefnda á trúnaðarupplýsingum úr rekstri stefnanda. Greiningin hafi leitt í ljós að betra væri að fá að velja eignir úr eignasafni stefnanda en að taka áhættuna á að fá skuldina greidda eftir efni sínu enda væri bankinn á leið í gjaldþrot. Með vísan til þess telur stefnandi að skilyrði 141. gr. gþl. um grandsemi stefnda við gerð samkomulagsins sé fullnægt.

                Stefnandi byggir á því að greiðsla stefnanda á skuld sinni sjö mánuðum eftir gjalddaga með afhendingu hlutabréfa, veðskuldabréfa, og fasteigna sé greiðsla með óvenjulegum greiðslueyri sem sé riftanleg á grundvelli ákvæða 1. og 2. mgr. 134. gr. gþl. Samkvæmt 1. mgr. 134.gr. gþl. sé heimilt að krefjast riftunar á greiðslum skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef eitt af þremur skilyrðum greinarinnar er uppfyllt, að því gefnu að greiðslan hafi ekki virst venjuleg eftir atvikum. Stefnandi telji að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt varðandi óvenjulegan greiðslueyri og að greiðslan hafi skert greiðslugetu þrotamannsins þ.e. stefnanda. Varðandi greiðsluna sem hafi verið innt af hendi með ráðstöfun 15 íbúða við Tjarnabraut 12 þann 26. nóvember 2009 sé krafist riftunar á grundvelli 1. mgr. 134. gr. gþl. þar sem hún hafi verið innt af hendi innan sex mánaða fyrir frestdag.

                Samkvæmt 2. mgr. 134. gr. gþl. sé heimilt að rifta greiðslum sem falli undir 1. gr. 134. gr. gþl. í allt að 24 mánuði fyrir frestadag í þeim tilvikum sem greiðsla á skuld sé til nákominna í skilningi 3. gr. gþl. Samkomulag aðila sé dags. 18. maí. 2009 og hafi hinar riftanlegu ráðstafanir átt sér stað á tímabilinu 22. maí til 26. nóvember sama ár sem sé um það bil 6-10 mánuðum fyrir frestdaginn sem hafi verið 3. mars 2010. Ágreiningslaust sé að ráðstöfun eigna stefnanda til stefnda hafi átt sér stað innan við 24 mánuðum frá frestdegi við slitameðferð stefnanda og eigi tímafrestir 2. mgr. 134. gr. gþl. því við. Greiðslurnar verði að telja óeðlilegan greiðslueyri í þessum viðskiptum aðila, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 2/1996. Þá hafi ekki verið um það samið að skuldina skyldi greiða með hlutum í öðru en reiðufé þegar til hennar var stofnað. Greiðsla stefnanda geti því ekki talist venjuleg eftir atvikum og alls ekki í ljósi þess að um langa hríð hafði stefnda verið kunnugt um bága fjárhagsstöðu stefnanda. Sönnunarbyrðin um að stefnandi hafi verið gjaldfær þrátt fyrir ráðstöfunina hvíli á stefnda samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 134. gr. gþl.

                Stefnandi byggir á því að stefnandi hafi verið nákominn stefnda i skilningi 6. tölul. 3. gr. gþl. á þeim tíma sem ráðstöfunin fór fram vegna hinna sérstöku aðstæðna við tilurð PM lánanna eins og rakið hafi verið. Stefnandi byggir á því að slík tengsl hafi myndast á milli aðila að fella megi þau undir 6. tölul. 3. gr. gþl. Við mat á því hvort sambærileg tengsl hafi myndast á milli aðila í skilningi 1.-5. tölul. 3. gr. gþl. verði að leggja áherslu á að matið varði tengslin sem slík, þ.e. möguleikann til þess að hafa áhrif á ákvarðanir. Stefnandi telji að vegna tilurðar PM lánanna og veikrar stöðu, sem stefnandi hafi verið í á þeim tíma sem ráðstöfunin hafi farið fram hafi stefnandi ráðstafað eignum sínum til stefnda á kostnað annarra kröfuhafa og brotið þannig grundvallarreglu gjaldþrotalaganna um jafnræði kröfuhafa.

                Innheimta lána stefnda hefði þýtt gjaldþrot fyrir stefnanda og hann hafi greitt skuldina með óvenjulegum greiðslueyri til að forðast það. Á þessum tíma hafi hinir hefðbundnu eigendahagsmunir ekki lengur verið fyrir hendi, heldur áframhaldandi rekstur stefnanda að undirlagi forstjóra hans. Með ráðstöfuninni hafi jafnræði kröfuhafa verið raskað verulega með samkomulagi nákominna aðila sem höfðu sameiginlega hagsmuni.

                Samkvæmt þessu telur stefnandi öll skilyrði uppfyllt fyrir riftun greiðslna stefnanda til stefnda samkvæmt samkomulaginu frá 18. maí 2009 skv. 2. mgr. 134. og 141. gr. gþl.

                Endurgreiðslukrafa stefnanda sé byggð á 3. mgr. 142 gr. gþl. fari riftun fram á grundvelli 141. gr. gþl. Samkvæmt 141. gr. gþl. eigi sá sem hag hafði af riftanlegri ráðstöfun að greiða bætur eftir almennum reglum skaðabótaréttar. Skilyrðið um ótilhlýðileika lúti því að forsendum þess að háttsemi geti valdið skaðabótaskyldu. Í stefnu hafi verið lýst með hvað hætti háttsemi stefnda falli undir 134. og 141. gr. gþl. og valdi þannig bótaskyldu þar sem háttsemin teljist ótilhlýðileg í skilningi ákvæðisins. Almenna sakarreglan geri ráð fyrir bótaskyldu þegar tjóni sé valdið með saknæmum og ólögmætum hætti og hægt sé að færa sönnur fyrir því að tjónið sé sennileg afleiðing tiltekinnar háttsemi. Í málinu sé háttsemin andstæð hlutlægri lýsingu skv. 141. og 134. gr. gþl., og 117. vvl og því ljóst að áskilnaður almennu sakareglunnar um saknæmi og ólögmæti sé uppfylltur.

                Að því er varði endurgreiðslukröfu stefnanda sé byggt á 3. málsl. 1. mgr. 142 gr. gþl. þar sem stefndi hafi verið grandsamur um riftanleika ráðstafananna og krafist skaðabóta með sömu rökum og byggt sé á varðandi 3. mgr. 142. gr. gþl. hér að framan. Verði ekki fallist á það sé í 1. mgr. 142. gr. gþl. kveðið á um að fari riftun fram með stoð í 134. gr. gþl. skuli sá sem hag hafði af riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúinu, hér stefnanda, bætur sem svari til þess sem greiðsla þrotamanns hafi orðið honum að notum, en þó ekki hærri fjárhæð en sem nemi tjóni þrotabús. Af þessu leiði jafnframt að sé fallist á riftun umþrættrar ráðstöfunar á grundvelli 134. gr. gþl, eigi stefnandi rétt á að krefja stefnda um endurgreiðslu þeirrar auðgunar sem af ráðstöfuninni hafi leitt. Stefnandi byggi á því að auðgun stefnda svari til verðmæta þeirra eigna sem framseldar voru og miða skuli við samningsverðmæti þeirra á þeim degi sem ráðstöfunin fór fram. Ef ekki hefði komið til afhendingar áðurnefndra eigna, hefðu eignirnar verið í búinu til fullnustu fyrir aðra kröfuhafa. Með afsali eignanna til stefnda hafi sá möguleiki fallið niður og það leitt til samsvarandi auðgunar stefnda. Tjón stefnanda svari til þeirrar auðgunar stefnda.

                Fjárhæð dómkröfunnar miðist við raunverulegt tjón stefnanda og eftir atvikum auðgun stefnda. Við tölulega framsetningu skaðabótakröfu sé eingöngu horft til tjóns stefnanda vegna hinnar ótilhlýðilegu ráðstöfunar með óeðlilegum greiðslueyri. Byggja verði á fjárhæð þeirra greiðslna sem stefnandi hafi innt af hendi til stefnda, honum til hagsbóta en öðrum kröfuhöfum til tjóns. Beint fjártjón stefnanda samkvæmt lið 1.2 og lið 1.3 í samkomulaginu frá 18. maí 2009 sé stefnufjárhæðin. Krafist sé vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 5. júní 2009, en þá höfðu greiðslur sem dómkrafa byggir á farið fram með undirritun kaupasamninga þ.e. þann 22. maí og 5. júní 2009, til 10. mars 2012. Þá hafi mánuður verið liðinn frá því að krafist var riftunar greiðslnanna og endurgreiðslu krafist, sbr. 9. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.

                Stefnandi byggir tölulega kröfugerð skaðabótakröfu sinnar á sannanlegu tjóni, þ.e. á verðmæti greiðslunnar sem greidd hafi verið stefnda með afhendingu eigna samkvæmt samkomulaginu frá 18. maí 2009 og síðari gerningum til uppfyllingar téðu samkomulagi. Dómkrafa skaðabótakröfu sundurliðast þannig: Frá greiðslu stefnanda til stefnda að fjárhæð 2.817.787.657 kr. sé dregin greiðsla skv. gr. 1.1 að fjárhæð 197.500.000 kr., greiðsla skv. gr. 1.4 að fjárhæð 300.000.000 kr. og greiðsla skv. gr. 1.5 að fjárhæð 1.202.108.215 kr. Bótakrafan nemi því samtals 1.118.179.443 kr.

                Greiðsla skv. gr. 1.5 í samkomulaginu hafi ekki verið innt af hendi af hálfu stefnanda. Greiðsla skv. gr. 1.1 í samkomulaginu hafi að hluta verið afhent stefnanda til baka í tengslum við samninginn sem stefnandi og stefndi gerðu hinn 9. nóvember 2009 þegar stefndi fékk afhent hlutbréf í Nesvöllum hf., sbr. dómsmál E-470/2011. Í því máli hafi verið fallist á skaðabótaskyldu stefnda og því ekki gerð krafa um skaðbætur í þessu máli, heldur eingöngu riftun ráðstöfunarinnar með afhendingu skuldabréfs. Greiðsla skv. gr. 1.4 með afhendingu eigin hlutabréfa hafi ekki leitt til sannanlegs tjóns hjá stefnanda og er af þeim sökum sé ekki gerð krafa um skaðabætur. Hins vegar sé krafist riftunar til þess að aflétta veðsetningu stefnda af eignum stefnanda.

             Stefnandi vísar til laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum, einkum 100. gr., 101. gr., 102. gr. og 103. gr. laganna, um frestdag og að ákvæði gjþl. gildi um riftanleika greiðslunnar. Um skilyrði riftunar vísar stefnandi til 134. og 141. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti. Um endurgreiðslu vísar stefnandi til 142. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti og almennra reglna skaðabótaréttarins og laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti. Um vexti er vísað til 8. gr., sbr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.

                Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Þá styðst krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988.

                Varðandi varnarþing vísast til 33 gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi byggir sýknukröfu sína gagnvart öllum dómkröfum stefnanda á því að skilyrði 141. gr. gþl. til riftunar ráðstafana þeirra sem fólust í uppgjöri aðila með greiðslum skv. samkomulagi, dags. 18. maí 2009, séu ekki uppfyllt.

                Stefndi hafnar þeirri málsástæðu stefnanda að rifta megi umræddum ráðstöfunum og telur umræddar ráðstafanir ekki riftanlegar á grundvelli 141. gr. gþl. enda sé ekki neinum af skilyrðum ákvæðisins fullnægt.

                Með vísan til málavaxtalýsingar stefnda sé því alfarið hafnað að PM innlán sem stefndi lagði stefnanda til hafi verið málamyndalánveiting. Ekkert hafi komið fram sem staðreyni að tilgangur stefnda hafi verið að fjármagna hlutabréfakaup stefnanda í FL Group hf., jafnvel þótt svo kunni að virðast sem starfsmenn stefnanda hafi freistað þess að beita fyrir sig fyrri og óskyldum kaupum sínum á hlutum í FL Group hf., móðurfélagi stefnda, þegar stefndi hafi hafið innheimtuaðgerðir á hendur stefnanda í október 2008. Skipti það heldur engu máli við úrlausn þessa máls, þar sem stefnandi krefjist riftunar umræddra ráðstafana sem falist hafi í greiðslu PM innláns stefnda með fasteignum, hlutum, VBS hlutabréfum og veðskuldabréfi.

                Ástæða fyrir uppgjöri lánsins með þessum hætti hafi verið sú að aðilar hafi talið að stefndi og dótturfélag stefnda, TM fé ehf., sem langtímafjárfestar, væru betur til þess fallnir að fara með eignarhald yfir umræddum eignum en stefnandi. Þannig hafi stefnandi getað minnkað efnahagsreikning sinn án þess að eiga það á hættu að rýra eignir sínar. Í þessu samhengi beri að taka sérstakt tillit til þess að gjalddagi PM innlána stefnda hafi verið 6. október 2008, eða í sömu viku og allir viðskiptabankarnir þrír hafi verið teknir yfir af Fjármálaeftirlitinu. Líkt og áður hafi komið fram leiddi fall viðskiptabankanna, eðli máls samkvæmt, til lausafjárskorts, sem vænst var að væri tímabundinn. Til að ekki þyrfti að koma til eignarýrnunar til lengri tíma litið, væri unnið skynsamlega að minnkun efnahagsreikninga þeirra fjármálafyrirtækja sem eftir væru á markaði. Þá sé rétt að vekja athygli á því að stefnandi hafði að hluta til fjármagnað sig með lántöku sem tryggð hafi verið með veði í eignum stefnanda, líkt og fram komi í stefnu.

                Það hafi verið hagsmunir beggja aðila sem bjuggu að baki umræddum ráðstöfunum. Ráðstafanir hafi því ekki verið ótilhlýðilegar, auk þess sem þær hafi ekki verið stefnda til hagsbóta umfram aðra kröfuhafa stefnanda. Þá hafi þær heldur ekki leitt til þess að umræddar eignir væru ekki til reiðu til fullnustu öðrum kröfuhöfum, þar sem fasteignirnar sem PM innlánið hafi verið greitt með hafi ekki verið í eigu stefnanda, hlutirnir hafi reynst lítils sem einskis virði og ekkert hafi verið greitt af veðskuldabréfinu. Ráðstafanirnar hafi þar af leiðandi ekki leitt til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, heldur þvert á móti eingöngu til þess að skuldir stefnanda hafi lækkað.

                Stefndi telji ósannað að stefnandi hafi verið ógjaldfær í skilningi 141. gr. gþl. í maí eða júní 2009 og ljóst að hann hafi ekki orðið það vegna umræddra ráðstafana. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi verið ógjaldfær þegar umræddar ráðstafanir hafi átt sér stað á árinu 2009.

                Endurskoðaður ársreikningur stefnanda 2008 bendi ekki til annars en að stefnandi hafi verið gjaldfær, þar sem eigið fé sé samtals 8.942 m.kr. og eiginfjárhlutfall 17,4% samkvæmt Basel II, sem sé langt umfram lögbundið 8% lágmark. Stefndi hafi hins vegar átt við lausafjárvanda að stríða eins og mörg önnur fyrirtæki. Veðsetning eigna stefnanda 2008 gefi ekki vísbendingu um alvarlega stöðu stefnanda, heldur hafi hún verið eðlileg afleiðing af falli viðskiptabankanna á árinu 2008 og þar sem kröfuhafar hafi farið að krefjast veðtrygginga fyrir lánveitingum sínum.

                Aukin varúðarfærsla útlána á árinu 2008 sé heldur ekki skýr vísbending um að stefnandi hafi stefnt í slit, heldur eðlileg afleiðing af lausafjárvanda eins og hjá fjármálafyrirtækjum um allan heim. Rétt sé að vekja athygli á því að virðisrýrnun útlána sé í raun varúðarfærsla, sem vonast hafi verið til að kæmi til baka þegar markaðsaðstæður breyttust til betri vegar. Í því samhengi sé rétt að benda á að í ársreikningi stefnanda komi fram að endanlega töpuð útlán og kröfur nemi einungis rúmum 243 m.kr. og hækki úr tæpum 126 m.kr. frá fyrra ári.

                Hvað varði skýrslu Fjármálaeftirlitsins frá desember 2008, sem vísað sé til í stefnu, sé einnig rétt að vekja athygli á því að þrátt fyrir þær athugasemdir sem þar komi fram hafi Fjármálaeftirlitið ekki séð tilefni þess að beitt væri aðgerðum líkt og gripið hafði verið til gagnvart viðskiptabönkunum þremur einungis fáeinum vikum áður en umrædd skýrsla hafi verið gefin út. Hafi Fjármálaeftirlitið heldur ekki séð ástæðu til þess á þeim tíma að beita öðrum vægari aðgerðum sem lög leyfa gagnvart stefnanda.

                Þegar samningar vegna umræddra ráðstafana hafi verið gerðir á árinu 2009 hafi stefnandi starfað sem fjárfestingarbanki og haft til þess starfsleyfi sem lánafyrirtæki frá Fjármálaeftirlitinu, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Megintilgangur laga um fjármálafyrirtæki sé að sjá til þess að fyrirtæki á fjármálamarkaði standi á traustum grunni og geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum og á það sérstaklega við um þau fjármálafyrirtæki sem veiti fjármálaþjónustu eins og henni sé lýst í 3. gr. laganna. Lögin setji ströng skilyrði fyrir veitingu starfsleyfa og í kjölfar veitinga slíkra leyfa hafi Fjármálaeftirlitið haft náið eftirlit með leyfishafa. Fjármálaeftirlitið hafði, þegar umræddar ráðstafanir voru gerðar, hvorki afturkallað starfsleyfi stefnanda, en til þess hafði Fjármáleftirlitið ríkar heimildir samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, né gert opinberlega athugasemdir við rekstur eða efnahag stefnanda. Hafi heldur ekkert legið fyrir um að Seðlabanki Íslands hefði gert athugasemdir við lausafjárstöðu stefnanda á umræddum tíma.

                Stefndi byggir á því að hann hafi hvorki vitað né mátt vita um meinta ógjaldfærni stefnanda á umræddum tíma. Því til stuðnings vísar stefndi m.a. til lýsinga á málsatvikum og áðurgreinds samkomulags stefnanda við fjármálaráðuneytið í mars 2009 sem hafi átt að tryggja langtímafjármögnun á meginhluta skulda stefnanda og renna styrkum stoðum undir framtíð stefnanda, hagsmuni viðskiptavina, hluthafa og starfsfólks, líkt og fram komi í tilkynningu frá stefnanda.

                Á þeim tíma sem kaupsamningar og afsöl hafi verið undirrituð hafi stefndi því enga ástæðu haft til að ætla að stefnandi gæti ekki staðið undir skuldbindingum sínum eða að hann væri ógjaldfær. Þá hafi heldur ekki legið fyrir að Seðlabanki Íslands hefði gert athugasemdir við lausafjárstöðu stefnanda í maí og júní 2009, en í tilkynningu fjármálaráðuneytisins frá 26. mars 2009, komi m.a. fram að stefnanda beri, undir eftirliti Seðlabanka Íslands, að viðhalda viðunandi lausafé. Jafnframt komi fram í nefndri tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu að verði lausafjárstaða stefnanda óviðunandi að mati Seðlabankans eða CAD-hlutfall stefnanda fari undir 10% á lánstímanum, geti fjármálaráðuneytið breytt kröfum sínum í hlutafé m.v. skiptihlutfallið 1. Með því hefði fjármálaráðuneytið í raun yfirtekið stefnanda ef lausafjárstaða stefnanda yrði óviðunandi eða eiginfjárhlutfall stefnanda færi undir 10%.

                Þegar umræddar ráðstafanir áttu sér stað hafi hvorki fjármálaráðuneytið, Seðlabanki Íslands né Fjármálaeftirlitið gripið til aðgerða gagnvart stefnanda né gefið í skyn að svo yrði gert. Með samkomulaginu við fjármálaráðuneytið hafði þvert á móti verið vakið það traust hjá stefnda að gjaldfærni stefnanda hefði verið tryggð til lengri tíma litið.

                Þessu til stuðnings vísar stefndi jafnframt til þess að hluti af samkomulaginu frá 18. maí 2009 hafi lotið að því að stefndi skyldi fá greitt með VBS hlutabréfunum og sammæltust aðilar um að verð fyrir hvern hlut yrði 22 krónur eða samtals 300 m.kr. fyrir 13.636.354 hluti. Fyrst stefndi hafi metið 3% hlut í félaginu á 300 m.kr., líkt og lagt er til grundvallar í kaupsamningi aðila, dags. 22. maí 2009, sé augljóst að hann hafi ekki verið grandsamur um meinta ógjaldfærni stefnanda á þessum tíma.

                Með vísan til alls þess telji stefndi að skilyrðum 141. gr. gþl. um grandsemi hans sé ekki fullnægt og að staðhæfingar þar um af hálfu stefnanda séu í öllu falli ósannaðar, en sönnunarbyrði fyrir grandsemi stefnda hvílir á stefnanda.

                Skilyrði fyrir beitingu 1. mgr. 134. gr. gþl. til riftunar á greiðslu síðustu sex mánuðum fyrir frestdag séu þau að greitt hafi verið með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamannsins verulega. Þótt greiðsla sé riftanleg á grundvelli einhvers af þessum þremur skilyrðum geti hún ekki talist venjuleg eftir atvikum sem leiði til þess að riftun nái ekki fram að ganga, sbr. síðasta málslið 1. mgr. 134. gr. gþl. en 2. mgr. 134. gr. gþl. kveði á um heimild til að krefjast riftunar greiðslu til nákominna sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag og fjörtíu og átta mánuðum fyrir frestdag sé málið höfðað fyrir árslok 2012, sbr. lög nr. 31/2010, nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir greiðsluna.

                Fyrir liggi að umræddar ráðstafanir hafi átt sér stað í maí og júní 2009, þ.e. u.þ.b. níu mánuðum fyrir frestdag. Til þess að skilyrðum 134. gr. gþl. sé fullnægt þurfi stefnandi og stefndi því að teljast nákomnir í skilningi 3. gr. gþl. Stefndi telji augljóst að aðilar uppfylli ekki skilyrði 6. töluliðar 3. gr. gþl. til að teljast nákomnir, þar sem í 6. tölulið sé vísað til tengsla sem eru sambærileg við þau tengsl sem um ræðir í 1.-5. tölulið 3. gr. gþl. og komi þá eingöngu til greina 4. og 5. töluliður 3. gr. sem vísar til tengsla á milli lögaðila.

                Í tilgreindum töluliðum sé vísað til eignatengsla sem óumdeilt sé að eigi ekki við á milli stefnanda og stefnda. Um sambærileg tengsl sé heldur ekki að ræða, þar sem með því sé vísað til möguleika aðila til að hafa stjórnunarráð þrátt fyrir að ekki séu eignatengsl á milli aðila. Þar sem stefnandi og stefndi teljist ekki nákomnir í skilningi 3. gr. gþl. sé skilyrðum 2. mgr. 134. gr. gþl. því ekki fullnægt.

                Stefnandi byggi á því að greiðsla með fasteignum að Tjarnabraut 12, Reykjanesbæ, falli innan sex mánaða frests samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 134. gr. gþl. Reisir stefnandi þá málsástæðu sína á því að afsal vegna fasteignanna hafi fyrst verið gefið út þann 26. nóvember 2009. Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu með vísan til þess að kaupsamningur um nefndar fasteignir hafi verið undirritaður þann 5. júní 2009, eða rétt tæpum níu mánuðum fyrir frestdag. Með því hafi aðilar kaupsamningsins gert með sér bindandi samning um ráðstöfunina þótt afsal hafi verið gefið út síðar. Verði greiðslu með fasteignum að Tjarnarbraut 12, Reykjanesbæ, því ekki rift á grundvelli 1. mgr. 134. gr. gþl.

                Jafnvel þótt tímamörk ráðstöfunarinnar verði miðuð við síðara tímamark telur stefndi allt að einu að skilyrðum 1. mgr. 134. gr. gþl. sé ekki fullnægt þar sem greiðslan hafi verið venjuleg með hliðsjón af atvikum, sbr. niðurlag 1. mgr. 134. gr. gþl., auk þess sem greiðslan hafi ekki skert greiðslugetu stefnanda. Um röksemdir fyrir því að greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum sé vísað til þess sem fram hafi komið.

                Að því er varðar kröfur stefnanda um riftun á greiðslu með fasteignum krefst stefndi einnig sýknu vegna aðildarskorts. Samkomulag um uppgjör milli aðila frá 18. maí 2009 milli stefnanda, stefnda, TM fé ehf. og HK Húseigna ehf., hafi falið m.a. í sér framsal hluta PM innlánsins frá stefnanda til TM fjár ehf., auk skuldskeytingar með þeim hætti að HK Húseignir ehf. hafi orðið nýr skuldari hluta lánsfjárhæðarinnar. Samkvæmt samkomulaginu hafi TM fé ehf. þannig fengið framselda til sín kröfu að fjárhæð 418.179.443 kr. og um leið hafi félagið HK Húseignir ehf. verið samþykkt sem nýr skuldari sömu fjárhæðar.

                Kaupsamningar um tilgreindar fasteignir, dagsettir 5. júní 2009, séu á milli TM fjár ehf., sem kaupanda, og HK Húseigna ehf., sem seljanda. Hið sama eigi við um afsöl vegna nefndra fasteigna. Stefnandi geri ekki kröfu um riftun á umræddu framsali hluta PM innlánsins, heldur geri hann kröfu um riftun á greiðslu skuldar stefnda við stefnanda með nefndum fasteignum. Sú greiðsla hafi verið innt af hendi til dótturfélags stefnda sem sé nú eigandi fasteignanna samkvæmt afsölum.

                Stefndi byggir kröfu sína um sýknu vegna aðildarskorts á 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 og vísar jafnframt til meginreglna einkamálaréttarfars um aðild því til stuðnings, þ.e. að sá einn geti með réttu höfðað mál, sem sé rétthafi þeirra hagsmuna sem eigi að leita úrlausnar um og að máli verði ekki með réttu beint að öðrum en þeim sem getur látið hagsmunina af hendi.

                Stefnandi hafi ekki verið eigandi umræddra fasteigna þegar greiðsla með fasteignum hafi átt sér stað með kaupsamningum, dags. 5. júní 2009, heldur dótturfélag stefnanda, HK Húseignir ehf. Þar með hafi stefnandi með málshöfðun sinni leitað úrlausnar um hagsmuni sem hann geti með neinu móti talist rétthafi að. Auk þess hafi umræddar fasteignir ekki verið framseldar til stefnda heldur til dótturfélags stefnda, TM fjár ehf., og þar með sé málinu beint að öðrum en þeim sem geti látið hagsmunina af hendi. Með vísan til þessa verði að sýkna stefnda af kröfum stefnanda um riftun á greiðslu með fasteignum vegna aðildarskorts.

                Rétt sé að vekja athygli á því að þrotabú HK Húseigna ehf., sem hafi verið úrskurðað gjaldþrota þann 18. mars 2011, hafi höfðað riftunarmál á hendur TM fé ehf., þar sem krafist sé riftunar þeirrar ráðstöfunar sem fólst í kaupsamningi, dags. 5. júní 2009, um fasteignir að Tjarnabraut í Reykjanesbæ.

                Verði ekki fallist á kröfu stefnda um sýknu geri stefndi kröfu um að viðurkennd verði krafa hans um skil á greiðslu með fasteignum, greiðslu með hlutum, greiðslu með VBS hlutabréfum og greiðslu með veðskuldabréfi, á grundvelli 144. gr. gþl.

                Samkvæmt 144. gr. gþl. geti annar hvor aðila krafist skila á greiðslum í þeim mæli sem þær eru enn til, enda verði það gert án óhæfilegrar rýrnunar verðmæta. Þá segir að jafna skuli greiðslur eftir því sem þurfi með peningagreiðslum. Telji stefndi að skilyrðum umræddrar greinar sé augljóslega fullnægt þar sem þær greiðslur sem krafist sé skila á séu ótvírætt enn til og að þeim verði skilað án óhæfilegrar rýrnunar.

                Hvað skil á greiðslu með fasteignum varði sé ljóst að umræddar fasteignir séu til og séu enn í eigu kaupanda, TM fjár ehf., dótturfélags stefnda. Þá sé ljóst að unnt sé að skila fasteignunum til stefnda án óhæfilegrar rýrnunar. Þótt verðmæti umræddra fasteigna kunni að hafa lækkað vegna efnahagsaðstæðna og erfiðra aðstæðna á fasteignamarkaði, ekki hvað síst á Reykjanesi, sé ekki við stefnda eða TM fé ehf. að sakast hvað það varði. Þvert á móti hafi TM fé ehf. lagt út töluverðan kostnað við að fullgera þær og koma þeim í íbúðarhæft ástand og útleigu. Verðmætin séu enn til staðar, þ.e. fasteignirnar sjálfar, og fari stefndi því fram á að fallist verði á kröfu hans um að skila þeim til stefnanda.

                Hvað varði skil á greiðslu með hlutum sé einnig ljóst að umræddir hlutir séu til staðar og þeir séu enn í eigu stefnda. Eignarhlutir í MP banka hf. og Hraunbjargi ehf. séu með öllu óskertir og því unnt að skila þeim án þess að þeir rýrni samfara því. Engu máli skipti þótt verðmæti umræddra hluta kunni að hafa lækkað vegna efnahagsaðstæðna í kjölfar bankahrunsins, án þess að stefnda verði kennt um, enda um lítinn eignarhlut í báðum félögum að ræða og hafi stefndi því ekki getað haft nein áhrif á verðmæti þeirra. Stefndi sé því fær um að skila greiðslu með hlutum, þ.e. afhenda stefnanda hluti í MP banka hf. og Hraunbjargi ehf., án þess að það hafi í för með sér nokkra rýrnun verðmæta, þ.e. hlutanna sem slíkra. Það sama eigi við um kröfu um skil á greiðslu með VBS hlutabréfum og skil á greiðslu með veðskuldabréfi.

                Verði ekki fallist á kröfu stefnda um skil á greiðslum og aðilar þar með eins settir og greiðsla hefði aldrei farið fram, kunni sú niðurstaða að leiða til þess að stefnda verði gert að greiða stefnanda sömu fjárhæð tvisvar, fyrir eignir sem í besta falli sé óljóst hvers virði séu, þar sem stefndi hafi fyrst greitt fyrir eignirnar í maí og júní 2009 með því að lækka kröfur sínar á hendur stefnanda, en stefnandi krefji stefnda nú aftur um greiðslu hluta sömu fjárhæðar. Sú niðurstaða muni augljóslega leiða til ósanngjarnrar og óeðlilegrar niðurstöðu fyrir stefnda, sem ekki sé í samræmi við þau meginsjónarmið sem búi að baki ákvæða gþl. um riftun ráðstafana þrotamanns, sem sé að tryggja að þrotamaður og riftunarþoli verði eins settir fjárhagslega og ef ráðstöfunin hefði aldrei átt sér stað sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 410/1994.

                Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu, þrátt fyrir framangreindar röksemdir stefnda, að stefndi beri að greiða stefnanda fjármuni á grundvelli 141. gr. og 142. gr. gþl. byggir stefndi aðra varakröfu sína á því að lækka beri þá fjárhæð verulega frá því sem fram kemur í dómkröfu stefnanda, þar sem fjártjón stefnanda og auðgun stefnda sé langt frá því að nema stefnufjárhæð málsins.

                Stefndi krefst lækkunar á fjárkröfu stefnanda verði fallist á riftun greiðslu með fasteignum þar sem samkvæmt samkomulaginu frá 18. maí 2009 hafi verið samið um að HK húseignir ehf. afhenti allar íbúðirnar fullgerðar. HKhúseignum ehf. hafi ekki tekist að fullgera íbúðirnar við Tjarnabraut 12, Reykjanesbæ, og því ekki afhent þær á byggingarstigi.

                Stefndi byggir kröfu sína um lækkun fjárkröfu stefnanda vegna þessa á þeim rökum að sá sem sæta þurfi riftun eigi eingöngu að endurgreiða raunverulegt verðmæti þess sem óselt sé, að því gefnu að hann hafi ekki með saknæmum hætti haldið að sér höndum við sölu umræddra eigna. Stefndi telji einsýnt að hann hafi ekki með neinum hætti haldið að sér höndum við sölu þeirra fasteigna sem hann keypti samkvæmt uppgjöri aðila, enda hafi stefndi litið á umræddar fasteignir sem fjárfestingu til lengri tíma.

                Að því er varði hluti í MP banka hf. og Hraunbjargi ehf., þá byggir stefndi lækkunarkröfu sína á því að virði hlutanna sé mun lægra en stefnandi geri ráð fyrir í fjárkröfu sinni. MP banki hf. beri nú heitið EA fjárfestingarfélag ehf., eftir fjárhagslega endurskipulagningu félagsins með innkomu nýrra hluthafa og starfi sem eignarhaldsfélag í dag. Telji stefndi ljóst að virði hlutabréfa í MP banka hf. og Hraunbjargi ehf. sé mun minna en það hafi verið við undirritun samkomulagsins frá 18. maí 2009 sem og við undirritun kaupsamnings þann 22. maí 2009.

                Stefndi byggir kröfu sína um lækkun fjárkröfu stefnanda að öðru leyti á sömu rökum og fram koma hér að framan þar sem stefndi telur einsýnt að hann hafi ekki með nokkrum hætti haldið að sér höndum við sölu þeirra hlutabréfa sem hann keypti samkvæmt uppgjöri aðila, enda leit stefndi á umrædd hlutabréf sem fjárfestingu til lengri tíma, auk þess sem umræddir óskráðir hlutir hafa ekki verið auðseljanlegir.

                Vaxtakröfu stefnanda sé mótmælt, bæði kröfu um vexti af skaðabótakröfu samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sem og kröfu um dráttarvexti. Stefnandi byggir fjárkröfu sína á 1. og 3. mgr. 142. gr. l. 21/1991, en samkvæmt nefndu ákvæði verði ekki greiddar tjónsbætur nema sannað sé að stefnda hafi verið kunnugt um riftanleika ráðstöfunar. Líkt og áður komi fram sé ljóst að stefndi hafi hvorki verið né mátt vera kunnugt um meintan riftanleika umræddra ráðstafana og því sé ekki skilyrði til greiðslu skaðabóta. Þá sé heldur ekki unnt að reikna vexti af skaðabótakröfu með vísan til 8. gr. laga nr. 38/2001, sem taki til vaxta af skaðabótakröfum.

                Stefndi telji jafnframt að ekki séu lagaskilyrði til greiðslu vaxta af fjárkröfu stefnanda þar sem ekki sé um bótaskylt tilvik að ræða auk þess sem þær eignir sem hinar meintu riftanlegu ráðstafanir lúti að, þ.e. greiðsla með fasteignum og hlutum, séu ekki vaxtaberandi heldur hafi eignarhaldinu þvert á móti fylgt fjárútlát fyrir stefnda. Dráttarvaxtakröfu og upphafsdegi dráttarvaxtakröfu sé því einnig mótmælt. Skuli dráttarvextir reiknast í fyrsta lagi frá dómsuppsögu, enda hafi stefndi augljóslega ekki haft neinn hagnað af eignarhaldi sínu á umræddum fasteignum og hlutum frá því málið var höfðað eða krafa um riftun og fjárkröfu var lögð fram, sbr. 2. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Sé um réttmætan ágreining aðila að ræða, þar sem stefndi hefur m.a. haldið því fram með gildum rökum að auðgun hans og tjón stefnanda vegna meintrar riftanlegrar ráðstöfunar sé ekki í neinu samhengi við fjárkröfu stefnanda. Verði fallist á kröfu stefnanda um að upphafstími dráttarvaxta skuli miðast við dagsetningu riftunaryfirlýsingar eða málshöfðun í héraði sé ljóst að stefnandi sæki hærri ávöxtun en eignarhald hans á umræddum fasteignum og hlutabréfum hefði nokkurn tíma getað veitt honum. Sé það í hróplegu ósamræmi við þá meginreglu gjaldþrotalaga um riftun ráðstafana þrotamanns, að þrotamaður og riftunarþoli verði eins settir fjárhagslega og ef ráðstöfunin hefði aldrei átt sér stað.

                Stefndi byggir aðallega á þeim ákvæðum laga sem vísað er til í greinargerð þessari. Sé þar m.a. um að ræða ákvæði laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá byggir stefndi einnig á almennum reglum skaðabótaréttar, þ.m.t. meginreglunni um að skaðabætur skuli ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur sannanlegu tjóni tjónþola.

                Stefndi byggir málskostnaðarkröfu sína á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt af málskostnaði.

IV.

Niðurstaða

                Fyrir liggur að stefndi veitti stefnanda peningamarkaðslán, svokölluð PM lán, í ársbyrjun 2008 og nam skuld stefnanda við stefnda 2.544.537.668 krónum á gjalddaga þann 6. október 2008. Peningamarkaðslán eru ein tegund innlána, sem veita miðlara heimild til þess að lána viðkomandi viðskiptamanni skammtímalán á kjörum sem ráðast af markaðsaðstæðum hverju sinni. Óumdeilt er að stefndi hafði heimild til þess að veita slík lán sem lið í fjárfestingarstarfsemi sinni en tilgangur hans með lánveitingunum var að ávaxta handbært fé sitt.

                Þann 18. maí 2009 gerðu aðilar málsins svo og dótturfélög þeirra, þ. e. annars vegar dótturfélag stefnanda, HK húseignir ehf., og hins vegar dótturfélag stefnda, TM fé ehf., samkomulag um uppgjör til greiðslu skuldarinnar eins og rakið er í málavaxtalýsingu. Hinar umþrættu ráðstafanir til greiðslu skuldarinnar fóru fram á tímabilinu 6-10 mánuðum fyrir frestdag, sem var 3. mars 2010 í skilningi 2. gr. laga nr. 21/1991 (hér eftir gþl.), sbr. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.

                Stefnandi krefst riftunar á greiðslu skuldar sinnar við stefnda með einstökum ráðstöfunum samkvæmt samkomulaginu frá 18. maí 2009. Þannig er krafist riftunar á greiðslu með afsali á fasteignum í eigu HK húseigna ehf. þann 17. ágúst og 26. nóvember 2009, með framsali á hlutabréfum í MP banka, með framsali á hlutum í Hraunbjargi ehf., með framsali á hlutabréfum í stefnanda sjálfum, allt þann 22. maí 2009 og með veðskuldabréfi til stefnda þann 29. júní 2009.

                Stefnandi byggir riftunarkröfu sína á 141. gr. gþl. hvað allar ofangreindar ráðstafanir varðar. Séu skilyrði ákvæðisins ekki talin uppfyllt byggir stefnandi á þeirri  málsástæðu að greiðslur með hlutabréfum og veðskuldabréfum hafi verið „óvenjulegur greiðslueyrir“ og uppfylli skilyrði 2. mgr. 134. gr. Vegna fasteigna að Tjarnarbraut 12, Reykjanesbæ sérstaklega, telur stefnandi með sama hætti uppfyllt skilyrði 1. mgr. 134. gr. gþl. Telur hann slíkan óvenjulegan greiðslueyri ótilhlýðilegan og uppfylla þar með skilyrði 141. gr. gþl. Sérstaklega spurður af dómsformanni lýsti lögmaður stefnanda því yfir við aðalmeðferð málsins að eingöngu væri byggt á 141. gr. gþl. eins og að ofan er rakið. Stefndi byggir hins vegar á því að skilyrði ákvæðisins séu ekki uppfyllt.

                Samkvæmt þessu er einungis til úrlausnar hvort skilyrðum 141. gr. gþl. sé fullnægt til riftunar umræddum ráðstöfunum en ákvæðið kveður á um að krefjast megi riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg.

                Stefnandi byggir á því að ráðstafanirnar hafi verið ótilhlýðilegar annars vegar vegna þess greiðslueyris sem notaður var og hins vegar vegna aðdraganda lánveitingarinnar sem svo leiddi til uppgjörs skuldarinnar með þeim hætti er rakið hefur verið.  

                Stefnandi krefst riftunar greiðslu að fjárhæð 418.179.443 krónur sem fram fór með afsali á fasteignum þann 17. ágúst og 26. nóvember 2009. Stefndi byggir á því, hvað þessar ráðstafanir varðar, að aðildarskorti sé fyrir að fara, sem leiða eigi til sýknu samkvæmt 16. gr. laga nr. 91/1991.

                Samkomulag frá 18. maí 2009 var fjórhliða eins rakið hefur verið. Auk málsaðila stóðu dótturfélög þeirra að því í tengslum við þær ráðstafanir er lutu að fasteignunum. Um er að ræða fasteignir sem voru í eigu dótturfélags stefnanda, HK Húseigna ehf., en samkvæmt skuldauppgjöri samkomulagsins samþykkti stefndi skuldskeytingu tiltekins hluta láns stefnanda til HK Húseigna ehf. og eins samþykkti stefnandi framsal þess hluta lánsins til stefnda til þess að gera skuldajöfnun mögulega við hluta af kaupverði fasteignanna. Undir kaupsamninga og afsöl var ritað af hálfu dótturfélaga aðila.

                Í stefnu er hvorki að finna umfjöllun um aðild stefnanda að þeim hagsmunum sem hér um ræðir né hvernig samspili á milli dótturfélaganna og málsaðila var háttað. Þá er í engu rökstutt hvernig bú stefnanda rýrnaði vegna ráðstöfunarinnar. Sá þáttur hefur því ekki verið reifaður sem skyldi. Dómurinn telur þennan annmarka þó ekki varða frávísun án kröfu. Í málflutningi lögmanns stefnanda kom fram að hann beindi kröfu sinni að stefnda þar sem hann hafði hag af umræddri ráðstöfun enda hafi verið um að ræða uppgjör á skuld sem í upphafi var stofnað til á milli aðila þessa máls. Vísaði hann í þessu sambandi til óundirritaðs „innanhússplaggs“ sem er ódagsett og óundirritað með yfirskriftinni „HK húseignir ehf. og VBS fjárfestingarbanki gera með sér svohljóðandi samning um yfirtöku á fullnustueignum VBS“. Í skjalinu kemur fram að megintilgangur HK húseigna ehf. sé að halda utan um þær fasteignir sem stefnandi kann að taka yfir vegna lánamála og að stefnandi sjái um að útvega félaginu nægilegt rekstrarfé með nánar tilgreindum hætti. Lögmaður stefnda byggði á því að skjal þetta hefði ekkert sönnunargildi enda ekkert vitað um uppruna þess eða tilgang. Á þetta ber að fallast og hefur skjalið eitt og sér ekki sönnunargildi til stuðnings málsástæðu stefnanda um að leggja eigi félögin að jöfnu þegar kemur að eignaraðild að húseignunum.

                Ekki er annað komið fram en að húseignir þær sem um ræðir hafi frá upphafi verið í eigu HK húseigna ehf. Dótturfélag stefnda, TM fé ehf., tók jafnframt yfir kröfu stefnda eins og áður er lýst. Samkvæmt þessu er stefnandi hvorki eigandi né umráðaaðili þeirra hagsmuna sem þessi þáttur stefnukrafnanna snýst um. Í þessu ljósi getur umrædd greiðsla ekki talist ótilhlýðileg og ber því að sýkna stefnda af umræddum kröfum.

                Stefnandi krefst riftunar greiðslu á skuld sinni samtals að fjárhæð 1.000.000.000 króna með hlutabréfum, en um er að ræða hlutabréf í MP banka, Hraunbjargi ehf. og í stefnanda sjálfum, svo og með óskráðu veðskuldabréfi að fjárhæð 1.217.112.321 króna. Ráðstafanir þessar áttu sér stað 22. og 29. maí 2009 eins og áður segir.

                Við mat á því hvort greiðslueyrir teljist ótilhlýðilegur verður að líta til þess að um peningakröfu var að ræða sem átti að greiða á gjalddaga 6. október 2008. Því leið langur tími frá gjalddaga og þar til ofangreindar ráðstafanir áttu sér stað. Ekki er sýnt fram á annað en að gengið hafi verið út frá því í upphafi að greiðsla skyldi innt af hendi með peningum með ávöxtun. Stefndi byggir á því að lausafjárskortur á erfiðum tímum á fjármálamarkaði hafi orðið til þess að hann hafi kosið að innheimta peningakröfu sína, eins og hann átti rétt til. Óumdeilt er að kringumstæður á þeim tíma er um ræðir voru allt annað en venjulegar. Það sem hér skiptir hins vegar meginmáli að mati dómsins er undanfari þess samkomulags sem aðilar máls gerðu með sér þann 18. maí 2009. Fyrir liggur í gögnum málsins að sjálfum forsvarsmönnum stefnanda var þegar í maí 2008 orðin ljós slæm fjárhagsstaða félagsins. Stefndi tilkynnti stefnanda með tölvubréfi 1. október 2008 að PM lánin yrðu ekki framlengd og hóf innheimtu skuldarinnar. Viðbrögð forstjóra stefnanda urðu mjög sterk eins og sjá má af gögnum í málinu. Í tölvubréfi forstjóra stefnanda til forstjóra stefnda frá 5. október 2008 var lögð til tiltekin lausn í stað innheimtu. Í tölvubréfi hans frá 6. október 2008 til sama aðila segir „Lausnin um greiðslu er ekki uppbyggileg því hún er ófær eins og fram kom“ og er vísað til fundar sem þeir höfðu átt. Forstjóri stefnda óskaði eftir því, við forstjóra stefnanda í tölvubréfi frá 13. október 2008 með fyrirsögninni „Efnahagsreikningur VBS“, að látnar yrðu í té nákvæmlega útlistaðar upplýsingar um eignir og skuldir stefnanda. Viðbótarupplýsingar í tveimur viðhengjum með innihaldi sem ekki liggur fyrir í gögnum málsins, voru sendar frá forstjóra stefnanda þar sem forstjóri stefnda er beðinn um að gæta fyllsta trúnaðar og er vísað til skjals með ítarlegum upplýsingum með „viðkvæmum upplýsingum“. Þann 2. apríl 2009 sendi forstjóri stefnda tillögu til forstjóra stefnanda í tölvubréfi og kemur þar fram að „TM sé tilbúið að hafa hraðar hendur og gæti klárað stærstan hluta af uppgjörinu í þessari viku“.

                Þegar litið er til þess sem hér hefur verið rakið, sér í lagi undanfara samkomulagsins frá 18. maí 2009 og aðstöðu stefnda við mat á fjárhagsstöðu stefnanda á þeim tímum sem um ræðir, er það mat dómsins að um óvenjulegan greiðslueyri hafi verið að ræða sem jafnframt teljist ótilhlýðileg greiðsla í skilningi 141. gr. gþl.

                Kemur þá til skoðunar hvort uppfyllt sé skilyrði ákvæðisins um ógjaldfærni stefnanda en aðila greinir á um hvort svo hafi verið. Samkvæmt gjaldþrotarétti ber að skýra hugtakið svo að fjárhag skuldara hafi verið svo komið, að skuldir hans hafi verið meiri en eignir og ekki hafi tekist að sanna að hann hafi verið fær um að greiða skuldir sínar þegar þær féllu í gjalddaga eða að líklegt væri að úr rættist um fjárhag hans í náinni framtíð. Ber stefnandi sönnunarbyrði fyrir því að svo hafi verið. Byggir hann á því að sú hafi verið raunin frá febrúar 2008. Á þessum tíma lá fyrir ársreikningur 2007 og benda allar upplýsingar sem þar koma fram til þess að þá hafi stefnandi verið gjaldfær. Sá tími sem hér skiptir máli er þegar hinar umþrættu ráðstafanir áttu sér stað, þ.e. framsal hlutabréfa og verðbréfa til stefnda í maí og júní 2009. Skýrsla Fjármálaeftirlitsins um útlánahættu stefnanda, markaðsáhættu, eignastýringu o.fl. kom út í desember 2008 og lá því fyrir. Þar er m.a. á það bent að stærsti hluti útlána stefnanda hafi verið í vanskilum og innstreymi fjármagns sáralítið.

                Í birtum ársreikningi stefnanda fyrir árið 2008, sem áritaður er 8. apríl 2009 og birtur í Kauphöllinni daginn eftir, er engan fyrirvara að finna sem lýtur að ógjaldfærni stefnanda. Ársreikningurinn sýnir rekstrarhagnað að fjárhæð 1.100.000.000 króna og jákvætt eigið fé en framlag frá rekstri samkvæmt sjóðstreymi er neikvætt um 3.000.000.000 króna þrátt fyrir það. Ekki verður annað séð af ársreikningnum en að sá hagnaður sem tilgreindur er í rekstarreikningi stafi af reiknuðum liðum, þ.e. færslu fjárskuldbindingar til gangvirðis. Af skýringum við ársreikning er lýtur að greiningu á lausafé verður ekki annað séð en að lausafjárhætta sé lítil en hafa ber í huga að framsetning ársreiknings er miðuð við skilmála útlánanna. Af ársreikningnum má jafnframt sjá, að án sérstakrar tekjufærslu vegna lánasamnings fjármálaráðuneytisins frá 26. mars 2009 að fjárhæð 9.000.000.0000 króna, þar sem fjárskuld var færð til gangvirðis, hefði eigið fé stefnanda verið neikvætt. 

                Þá vekur athygli dómsins að í ársreikningi 2008 er í greiningu í skýringu nr. 70 ekki gert mikið úr því að stærsti hluti viðskiptavina var í vanskilum við stefnanda heldur látið líta svo út að stefnandi fengi innborganir inn á útlán rétt eins og þau væru í skilum. Þá eru kröfur á lánastofnanir tilgreindar eins og þær komi til greiðslu innan mánaðar þó að vitað hafi verið að þessar lánastofnanir voru komnar undir skilanefndir og búið að stofna nýja banka.

                Af samanburði ársreikninga stefnda frá 2007 og 2008 má sjá af sjóðstreymisyfirliti að framlag frá rekstri stefnda fyrra árið var jákvætt um 1.800.000.000 króna og rýrnaði verulega eins og rakið er hér að ofan. Bendir þetta sterklega til þess að engar peningalegar tekjur hafi orðið á milli ára og rekstrarhagnaður því aðeins orðið vegna reiknaðra liða eins og áður segir. Þá rýrnaði handbært fé um 1.100.000.000 króna á milli ára.

                Að mati dómsins verður ekki hjá því litið að stefndi er fagfjárfestir sem á að hafa betri þekkingu á lestri ársreikninga en almennir fjárfestar. Þetta leggur auknar kröfur á herðar stefnda um að gaumgæfa einstaka liði í ársreikningi. Mátti honum vera ljóst að ýmsar tilgreindar eignir í ársreikningi eru ekki greiðslueyrir á þeim tíma sem skuldbindingar falla í gjalddaga. Bent skal í þessu sambandi á vanskil samkvæmt ársreikningnum, bundnar innstæður í lánastofnunum og að tekjufærsla til gangvirðis skapar ekkert nýtt fjármagn hjá stefnda. Líta ber til þess að lánasamningur fjármálaráðuneytisins þar að baki, var til þess að tryggja innheimtu veðskulda og voru sett ströng skilyrði fyrir lánveitingunni. Sú lánveiting var ekki trygging fyrir áframhaldandi rekstri í því ástandi sem ríkti á þessum tíma eins og stefndi heldur fram. Veðsetning stefnanda á eigum sínum til kröfuhafa bendir einnig ótvírætt til þess að kröfuhafar hafi verið orðnir uggandi um að kröfurnar fengjust ekki greiddar og hafi því í ríkari mæli krafist veðs fyrir þeim. Því er ljóst að rekstur stefnanda hefði þannig stefnt í óefni nema til kæmu verulegar skuldaniðurfellingar í samningum við lánardrottna stefnanda.

                Að mati dómsins þykir ljóst að þær innri upplýsingar sem stefndi fékk í hendur, áður en ársreikningur stefnda fyrir árið 2008 var lagður fram í Kauphöll, gerðu honum kleift að gera nákvæma greiningu á efnahag stefnanda. Má þar nefna samsetningu á lánasafni og stöðu einstakra lánþega við stefnanda auk upplýsinga um veðsetningu á lánasafninu, afskriftarþörf o.fl. Við fall bankanna má fullyrða að nánast allar íslenskar fjármálastofnanir hafi orðið ógjaldfærar án ytri aðstoðar. Leiða má líkum að því að stefnandi hafi verið í slæmri stöðu vegna vanskila lánþega og lélegrar áhættudreifingar en þær upplýsingar voru ekki á þessum tíma opinberar almennum kröfuhöfum. Telur dómurinn að líta verði til raunverulegrar fjárhagslegrar stöðu stefnanda á þeim tíma er hinar umþrættu ráðstafanir áttu sér stað og leggur til grundvallar að stefndi hafi verið ógjaldfær á þessum tíma þrátt fyrir að ársreikningurinn sýndi rekstrarhagnað og jákvætt eigið fé. Ljóst hafi verið að stefnandi gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar og hverfandi líkur á að úr rættist í því ástandi sem ríkti á þessum tíma. Þá vissi stefndi, eða mátti vita, um ógjaldfærni þrotamanns og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg. Öflun upplýsinga Telur hann  hafi verið fær uvallar að efndi heldur fram.a fram.kjur hafi orðið 900 milljfyrir þnna að hann  hafi verið fær uaf þeim toga er að ofan greinir vottar um það svo og að stefndi fékk verðmæti upp í kröfur sínar með þeim hætti sem rakið hefur verið. Þá þykir ljóst að ráðstafanir þessar voru til hagsbóta stefnda á kostnað annarra kröfuhafa og hafa auk þess leitt til þess að eignir stefnanda yrðu ekki til reiðu til fullnustu öðrum kröfuhöfum. Það er jafnframt mat dómsins að stefnda hafi mátt vera ljóst að hvorki þær ráðstafanir sem nefndar voru í fyrrnefndri tilkynningu fjármálaráðuneytisins né það sem fram kom í tilkynningu stefnanda sjálfs í kjölfarið myndi breyta rekstargrundvelli stefnanda. Þá er ekki fallist á það með stefnda að skortur á eftirfylgni opinberra aðila eftir að skýrsla Fjármálaeftirlitsins kom út hafi þýðingu í þessu sambandi. 

                Það er því niðurstaða dómsins að skilyrði 141. gr. gþl. séu uppfyllt og verður því fallist á kröfu stefnanda um riftun á skuld stefnanda við stefnda með framsali á hlutabréfum í MP banka hf., Hraunbjargi ehf., í stefnda sjálfum og með veðskuldabréfi útgefnu af stefnanda til stefnda. Hvað varðar veðskuldabréfið heldur stefndi því sérstaklega fram að ekki séu uppfyllt skilyrði til riftunar þess enda aðeins um að ræða skilmálabreytingu sem ekki hafi leitt til skuldaaukningar. Þessari málsástæðu er hafnað og telur dómurinn stefnanda hafa lögmæta hagsmuni af því að fá veðskuldabréfið afhent til að fá aflétt veðsetningu á eigum hans eins og ráð er fyrir gert í kjölfar riftunar.

                Stefnandi byggir endurgreiðslukröfu sína á 3. mgr. 142. gr. Samkvæmt greininni skal sá er hafði hag af riftanlegri ráðstöfun greiða bætur eftir almennum reglum. Kröfu stefnanda um endurgreiðslu kveður hann byggða á raunverulegu tjóni sínu vegna hinna ótilhlýðilegu ráðstafana með óeðlilegum greiðslueyri, samtals 700.000.000 króna, vegna greiðslu skuldar með hlutabréfum í MP banka hf. og Hraunbjargi ehf. Stefnandi telur sig ekki hafa orðið fyrir tjóni vegna ráðstafana er lutu að greiðslu skuldar með hlutabréfum í stefnanda sjálfum og með veðskuldabréfi.

       Stefndi gerir þá varakröfu að viðurkennd verði krafa hans um skil á greiðslueyri á grundvelli 144. gr. gþl. og að ofangreindri endurgreiðslu stefnanda verði hafnað. Hlutabréf í ofangreindum félögum séu enn til staðar og í eigu stefnda og þeim verði skilað án óhæfilegrar rýrnunar veðmæta. Þrátt fyrir að verðgildi þeirra sé ekkert í dag eigi það ekki rót að rekja til aðgerðarleysis stefnda.

       Samhliða samkomulagi aðila frá 18. maí 2009 var gengið frá kaupsamningum dagsettum 22. maí 2009 vegna hlutabréfanna en áhættuskipti aðila miðast við þann dag. Í samningunum kemur fram að seljandi skuldbindi sig til afhendingar hlutabréfanna á undirritunardegi kaupsamnings og skuli kaupverðið greitt með lækkun skuldar stefnanda samkvæmt lánasamningi dagsettum 22. september 2008 milli aðila, sem nemi kaupverðinu.

                Í matsgerð dómkvadds matsmanns, Gunnars Jóhannessonar, sem kom fyrir dóminn, kemur fram að verðmæti hlutanna á þeim tíma hafi verið samtals 400.000.000 króna, þ.e. 350.000.000 króna í MP banka hf. og 50.000.000 króna í Hraunbjargi ehf. Er rökstutt hvernig fjárhæð þessi er fundin miðað við fyrirliggjandi upplýsingar, sem fólust í opinberum upplýsingum um félögin auk ársreikninga þeirra, opinberum upplýsingum um verðmæti hlutabréfa fjármálafyrirtæki og uppgjörum þeirra á nánar tilgreindum tímum. Þá kemur fram að þann 1. febrúar 2012 er stefnandi lýsti yfir riftun, hafi verðmæti hlutanna verið 0 krónur. Aðspurður fyrir dómi kvað matsmaður að svo væri enn. Þá hafi að honum vitandi hvorki verið opinber markaður til staðar með bréf í þessum félögum né regluleg viðskipti á frjálsum markaði frá 22. maí 2009.

                Þrátt fyrir að unnt sé að skila hlutabréfunum er ljóst að svo er ekki án óhæfilegrar rýrnunar enda verðgildi bréfanna ekkert í dag. Verður stefnanda ekki gert að þola það og breytir það ekki niðurstöðu þessari þó að rýrnunina megi rekja til utanaðkomandi aðstæðna, þ.e. aðstæðna á hlutabréfamarkaði. Þá liggur ekki annað fyrir en að aðilar hafi á þeim tíma sem ráðstafirnar voru gerðar verið sammála um að meta hlutabréfin á því verði sem fram kemur í samkomulagi þeirra, til greiðslu upp í skuld stefnanda við stefnda.

                Dómurinn fellst á það með stefnanda að skilyrði bóta sé uppfyllt samkvæmt 3. mgr. 142. gr. gþl., hvað ofangreindar ráðstafanir varðar og að efnisatriði almennu sakarreglunnar séu uppfyllt. Þá er með vísan til þess sem rakið hefur verið að stefnda hafi mátt vera kunnugt um riftanleika umræddra ráðstafana. Hins vegar þykir við ákvörðun bóta rétt að leggja til grundvallar verðmat matsgerðar á hlutabréfunum þann 22. maí 2009, en því mati hefur ekki verið hnekkt auk þess sem stefnandi hefur ekki fært fyrir því rök að hún sé reist á röngum forsendum. Ber stefnda því að greiða stefnanda 400.000.000 króna sem telst vera verðmæti ofangreindra hluta samkvæmt niðurstöðu matsgerðar.

                Stefnandi krefst vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2008, um vexti og verðtryggingu frá 5. júní 2009 en þá höfðu greiðslur farið fram með undirritun kaupsamninga vegna ofangreindra ráðstafana. Þá krefst stefnandi dráttarvaxta frá 10. mars 2012 en þá var mánuður liðinn frá því að krafist var riftunar og endurgreiðslu. Dómurinn fellst á framangreindar kröfur eins og þær eru fram settar.

                Með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem hæfilegur þykir 1.200.000 krónur.

                Sigríður Hjaltested héraðsdómari kveður upp þennan dóm ásamt meðdómsmönnunum dr. Gunnari Haraldssyni, hagfræðingi og Reyni Ragnarssyni, löggildum endurskoðanda.

D Ó M S O R Ð:

                Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýkn af kröfu stefnanda, VBS Eignasafns hf., um að riftun á greiðslu skuldar stefnanda við stefnda að fjárhæð 418.179.443 kr. sem fram fór með afsali á fasteignum í eigu dótturfélags stefnanda, HK húseigna ehf., sem hér segir: sex íbúðum að Ásakór 9-11, Kópavogi með fastanúmer 228-6601, 228-6604, 228-6606, 228-6785, 228-6788, 228-6794 þann 17. ágúst 2009; 20 íbúðum að Hörðukór 3, Kópavogi með fastanúmer 228-5227, 228-5230, 228-5231, 228-5233, 228-5234, 228-5235, 228-5236, 228-5238, 228-5240, 228-5242, 228-5243, 228- 5244, 228-5245, 228-5247, 228-5253, 228-5354, 228-5258, 228-5263, 228-5267 og 228-5270 þann 17. ágúst 2009 og 15 íbúðum að Tjarnarbraut 12, Reykjanesbæ með fastanúmer 228-6988, 228- 6990, 228-6991, 228-6992, 228-6993, 228-6994, 228-6995, 228-6996, 228-6997, 228-6998, 228-6999, 228-7000, 228-7001 og 228-7002 þann 26. nóvember 2009.

                Rift er greiðslu á skuld stefnanda við stefnda að fjárhæð 550.000.000 kr. með framsali á hlutabréfum í MP banka hf. til stefnda þann 22. maí 2009, að nafnvirði 58.078.332 kr.

                Rift er greiðslu á skuld stefnanda við stefnda að fjárhæð 150.000.000 kr. með framsali á hlutum í Hraunbjargi ehf. til stefnda þann 22. maí 2009, að nafnvirði 77.614 kr.

                Rift er greiðslu á skuld stefnanda við stefnda að fjárhæð 300.000.000 kr. með framsali á hlutabréfum í stefnanda til stefnda þann 22. maí 2009 að nafnverði 13.636.364 kr.

                Rift er greiðslu á skuld stefnanda við stefnda að fjárhæð 1.217.112.321 kr. með veðskuldabréfi, útgefnu af stefnanda þann 29. júní 2009 til stefnda.

                Stefndi greiði stefnanda 400.000.000 kr., auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá 5. júní 2009 til 10. mars 2012 en með dráttarvöxtum skv. III. kafla sömu laga, sbr. 6. gr. og 9. gr. s.l. frá 10. mars 2012 til greiðsludags.

        Stefndi greiði stefnanda 1.200.000 krónur í málskostnað.