Hæstiréttur íslands

Mál nr. 140/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Rannsókn
  • Ómerking úrskurðar héraðsdóms


Mánudaginn 14. mars 2011.

Nr. 140/2011.

Sýslumaðurinn á Selfossi

(Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri)

gegn

A og

B

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

Kærumál. Rannsókn. Ómerking úrskurðar héraðsdóms.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi ákæru í máli sem L hafði höfðað gegn A og B þar sem réttinda þeirra við skýrslugjöf hjá lögreglu hefði ekki verið gætt og skýrslur teknar með óvönduðum hætti. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. ákæruvaldið hefði metið það svo að því hefðu verið veittar nægilegar upplýsingar um kæruefni til að það gæti tekið afstöðu til ákvörðunar um ákæru sbr. 145. gr. nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sú ákvörðun um meðferð valdheimilda gæti eðli sínu samkvæmt ekki sætt endurskoðun dómstóla við úrlausn málsins. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. mars 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 2. mars 2011, þar sem vísað var frá dómi ákæru í máli sem sóknaraðili hefur höfðað gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í t. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann þess að kærumálskostnaður verði ekki dæmdur.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði eru varnaraðilar ákærð fyrir brot gegn a. lið 1. mgr. 50. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði með því að hafa veitt án leyfis í [...] í [...]. Í úrskurðinum er greint frá nokkrum þeim gögnum sem lögregla hafði aflað við rannsókn málsins. Auk þeirra er meðal gagna málsins að finna bréf verjanda ákærðu til lögreglu um málefnið, fundargerðir veiðifélags [...] og samþykktir fyrir svokallaða [...]deild félagsins, fundargerðir landeigenda að [...] og gögn varðandi samskipti við Fiskistofu.

Samkvæmt 53. gr. laga nr. 88/2008 er markmið rannsóknar lögreglu að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferð fyrir dómi. Þeir sem rannsaka sakamál skuli vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Þeim beri jafnframt að hraða meðferð mála eftir því sem kostur er. Samkvæmt 145. gr. sömu laga skal ákærandi, þegar hann hefur fengið gögn máls í hendur, ganga úr skugga um að rannsókn sé lokið. Að þeirri athugun lokinni ber honum annað ­hvort að láta rannsaka málið betur, telji hann þess þörf, eða taka eftir atvikum ákvörðun hvort sækja skuli mann til sakar samkvæmt 152. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. verður dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi þó að unnt sé í sérstökum tilvikum að taka til greina skýrslur ákærða og vitna sem gefnar hafa verið áður en mál er höfðað. Sakfelling ákærða verður til að mynda ekki reist á því sem skráð er eftir honum í lögregluskýrslu nema önnur gögn styðji nægilega þann framburð, sbr. 2. og 3. mgr. greinarinnar.

Ákæruvaldið hefur metið það svo að því hafi verið veittar nægar upplýsingar um kæruefni til að það geti tekið afstöðu til ákvörðunar um ákæru, sbr. 145. gr. laga nr. 88/2008. Sú ákvörðun um meðferð valdheimilda ákæruvalds getur eðli sínu samkvæmt ekki sætt endurskoðun dómstóla við úrlausn máls. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 2. mars 2011.

Mál þetta, sem þingfest var þann 9. desember sl., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi dagsettri 3. nóvember 2010 á hendur A, kt. [...] og B, kt. [...], bæði til heimilis að [...],[...],

„fyrir brot á lögum um lax- og silungsveiði

með því að hafa síðdegis sunnudaginn 4. júlí 2010 stundað stangveiði í [...] í [...]sýslu fyrir landi [...] í [...], án þess að hafa til þess leyfi, þar sem [...]deild Veiðifélags [...] ákvað á aðalfundi sínum þann 12. apríl 2010 að leigja veiðirétt í [...] til 5 ára og voru því lax- og silungsveiðar á umræddum tíma og stað óheimilar öðrum en leigutaka og þeim er hann hafði ráðstafað veiði til.

Telst brot ákærðu varða við a. lið 1. mgr. 50. gr. laga um lax- og silungsveiði nr. 61, 2006.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærðu sóttu bæði þing við þingfestingu málsins, ásamt Arnari Þór Jónssyni hdl. sem var þar skipaður verjandi ákærðu beggja að ósk þeirra.  Í þinghaldinu gerði verjandi ákærðu kröfu um frávísun málsins og var kröfu þeirri mótmælt af hálfu ákæruvaldsins.  Var málinu þá frestað til málflutnings um frávísunarkröfu. Fór munnlegur málflutningur um frávísunarkröfuna fram þann 14. janúar sl. og var krafan, að honum loknum, tekin til úrskurðar.

Málavextir:

Upphaf máls þessa er það að þann 3. júlí 2010 hafði C, forsvarsmaður [...]deildar Veiðifélags [...], samband við lögreglu og tilkynnti að 3 menn væru að veiðum á austurbakka [...] undan landi [...] í [...], en það væri ekki heimilt þar sem deildin hefði leigt veiðiréttinn út.  Veiðivörður væri ekki til taks og því væri leitað til lögreglu.  Vegna anna við önnur mál gat lögregla ekki sinnt þessu með því að fara á vettvang.  Daginn eftir, þann 4. júlí 2010, hafði C aftur samband við lögreglu og tilkynnti um 2 menn að veiðum á sama stað og daginn áður.  Fór þá lögregla á vettvang og hitti fyrir á veiðum ákærðu í máli þessu og hafði af þeim tal.  Í rannsóknargögnum málsins er skýrsla um samtal lögreglu við ákærða umrætt sinn.  Ekki er þar getið um stöðu þeirra við rannsókn máls en nöfn þeirra sett í reit sem auðkenndur er með orðunum „Aukaaðilar – annað“.  Er í meginmáli skýrslunnar ekki vikið að því að þau kunni að hafa stöðu sem  sakborningar og einskis getið sem leiða megi af slíka réttarstöðu.  Voru ákærðu ekki stöðvuð við veiðarnar.

Í rannsóknargögnum er skýrsla lögreglu sem ber fyrirsögnina „Upplýsingaskýrsla“.  Þar er sagt frá því að C hafi komið og lagt fram kæru á hendur ákærðu.  Jafnframt er upplýst að aflað hafi verið upplýsinga frá Fiskistofu með samtali við yfirlögfræðing þar á bæ.  Þá kemur það fram í upplýsingaskýrslunni að lögreglumaður sem ritar skýrsluna, sem er óvottuð, hafi haft símleiðis samband við annan ákærðu í málinu, þ.e. ákærða A.  Hafi honum verið gerð grein fyrir fram kominni kæru og að ákærði nyti réttarstöðu sakbornings við rannsókn málsins, án þess að lýst sé á nokkurn handa máta í hverju sú réttarstaða sé fólgin og hvert sé efnislegt inntak hennar.  Kemur ekki fram að áminnt hafi verið um sannsögli.  Er svo í upplýsingaskýrslunni skráður niður eftir ákærða framburður hans.  Kemur ekki fram í skýrslunni að ákærða hafi verið kynntur réttur hans til að tjá sig ekki um ætlaðar sakargiftir, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.  Ekki kemur heldur fram að ákærða hafi verið kynntur réttur hans til að fá tilnefndan verjanda, sbr. 2. mgr. 30. gr. og 1. mgr. 33. gr. nefndra laga.  Ekkert kemur fram um að ákærða hafi verið gefið tækifæri á að yfirfara það sem eftir honum var haft við skýrslugjöfina, sbr. 2. mgr. 66. gr. laga nr. 88/2008, enda örðugt þar sem um símaskýrslu var að ræða.  Ekki voru teknar aðrar skýrslur af ákærða A við rannsókn málsins.

Í rannsóknargögnum er skýrsla lögreglu sem ber yfirskriftina „Óformleg skýrsla af sakborningi, B.“  Þar kemur fram að ákærða B hafi verið yfirheyrð í síma vegna kæru C.  Ákærðu hafi verið kynnt sakarefnið og réttarstaða hennar um að hún þyrfti ekki að svara spurningum sem varða sakarefnið og að hún ætti rétt á að fá tilnefndan verjanda og óskaði hún eftir að Arnar Þór Jónsson hdl. yrði tilnefndur.  Er svo í upplýsingaskýrslunni skráður niður eftir ákærðu framburður hennar.  Ekkert kemur fram um að ákærðu hafi verið gefið tækifæri á að yfirfara það sem eftir henni var haft við skýrslugjöfina, sbr. 2. mgr. 66. gr. laga nr. 88/2008, enda örðugt þar sem um símaskýrslu var að ræða.  Skýrslan er óvottuð.  Ekki voru teknar aðrar skýrslur af ákærðu B við rannsókn málsins.

Niðurstaða:

Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 er það markmið rannsóknar að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferð fyrir dómi.  Á meðal þeirra gagna sem óhjákvæmilegt er að afla við rannsókn máls eru framburðarskýrslur sakbornings.  Mikilvægt er að þær skýrslur séu teknar lögum samkvæmt, en það horfir bæði til þess að tryggja lögbundin réttindi sakbornings, en jafnframt til þess að þau gögn séu vönduð og vel unnin sem ákærandinn byggir sína ákvörðun um saksókn á.

Það er mat dómsins að réttinda sakborninga í málinu, við skýrslugjöf þeirra hjá lögreglu, hafi ekki verið gætt með fullnægjandi hætti.  Skortir þar mikið á, einkum varðandi skýrslugjöf ákærða A.  Þá er það mat dómsins að framburðarskýrslur sakborninga hjá lögreglu hafi verið teknar með svo óvönduðum hætti að ekki sé fullnægt áskilnaði 1. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um nauðsynlega gagnaöflun við rannsókn máls.

Með hliðsjón af ofansögðu er óhjákvæmilegt að vísa ákæru í málinu frá dómi.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda beggja ákærðu, Arnars Þórs Jónssonar hdl., kr. 150.000, greiðist úr ríkissjóði, sbr. 218. gr. laga nr. 88/2008, en samkvæmt gögnum málsins er ekki um annan sakarkostnað að ræða.  Hefur verið tekið tillit til aksturs og virðisaukaskatts við ákvörðun málsvarnarlaunanna.

Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna veikinda dómara, en sakflytjendur voru sammála því mati dómsins að endurflutningur væri óþarfur, sbr. 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Ákæru í máli þessu er vísað frá dómi.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Arnars Þórs Jónssonar hdl., kr. 150.000, greiðast úr ríkissjóði.