Hæstiréttur íslands

Mál nr. 666/2012


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skaðabætur


                                     

Fimmtudaginn 16. maí 2013.

Nr. 666/2012.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

Gunnari Þór Magnússyni

(Oddgeir Einarsson hrl.)

(Ólafur Örn Svansson hrl. f.h. brotaþola)

Líkamsárás. Skaðabætur.

G var sakfelldur fyrir líkamsárás samkvæmt 1.mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa sparkað í kynfæri A og í beinu framhaldi slegið hann eitt högg með krepptum hnefa í andlit, með þeim afleiðingum að hann hlaut tvöfalt brot í hægra kinnbeini, brot í neðri brún á augnumgjörð auk tveggja annarra brota hægra megin í andliti, blæðingu í hvítu á hægra auga og yfirborðsáverka, einkum í kringum hægra auga. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að upptök atvika yrðu eingöngu rakin til G sem og þess að G hefði áður sætt refsingu fyrir líkamsárás. Var refsing G ákveðin fangelsi í níu mánuði auk þess sem honum var gert að greiða A 750.000 krónur í skaðabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. október 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða en að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvaldsins, til vara að sér verði ekki gerð refsing, en að því frágengnu að hún verði milduð. Þá krefst hann aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, til vara sýknu af henni, en að því frágengnu verði hún lækkuð.

A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 1.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. ágúst 2011 til þess dags sem ákæra var birt, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann staðfestingar héraðsdóms um einkaréttarkröfu. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða.

Við ákvörðun refsingar ber að gæta að því að eftir gögnum málsins verða upptök þeirra atvika, sem um ræðir í ákæru, eingöngu rakin til ákærða sem hindraði för brotaþola inn í lyftu á leið til heimilis síns og eiga ákvæði 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 því á engan hátt við. Á hinn bóginn verður litið til 1. mgr. sömu lagagreinar við ákvörðun refsingar, enda hefur ákærði áður sætt refsingu fyrir líkamsárás. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til atriða, sem getið er í hinum áfrýjaða dómi, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í níu mánuði. Með hliðsjón af sakaferli ákærða eru engin efni til að binda þá refsingu skilorði.

Með tilliti til brots ákærða og margvíslegra afleiðinga sem það hefur haft fyrir brotaþola eru bætur til hans úr hendi ákærða ákveðnar 750.000 krónur. Skulu þær bera vexti eins og dæmdir voru í héraði, enda liggur ekki fyrir í gögnum málsins hvenær ákæra var birt.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og málskostnað verða staðfest. Ákærða verður gert að greiða brotaþola málskostnað fyrir Hæstarétti og allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Gunnar Þór Magnússon, sæti fangelsi í níu mánuði.

Ákærði greiði brotaþola, A, 750.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði og 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og málskostnað brotaþola skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 329.504 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2012.

I

Málið, sem dómtekið var 12. september síðastliðinn, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 29. maí 2012 á hendur „Gunnari Þór Magnússyni, kt. [...], [...], [...], fyrir líkamsárás, með því að hafa mánudaginn 22. ágúst 2011, inni í lyftu á stigagangi fjölbýlishúss við [...] í Reykjavík, sparkað í kynfæri A, kt. [...], og í beinu framhaldi slegið hann eitt högg með krepptum hnefa í andlit, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut tvöfalt brot í hægra kinnbeini, brot í neðri brún á augnumgjörð auk tveggja annarra brota hægra megin í andliti, blæðingu í hvítu á hægra auga og yfirborðsáverka, einkum í kringum hægra auga, auk þess sem hann hlaut mar á ytri kynfærum.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkröfur:

Af hálfu B, fyrir hönd A, kt. [...], er þess krafist að Gunnar Þór Magnússon, kt. [...], verði dæmdur til að greiða brotaþola, A, skaðabætur að fjárhæð samtals kr. 1.500.000, samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 22. ágúst 2011 til birtingardags ákæru, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga, til greiðsludags.“

Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði. Ákærði krefst þess að skaðabótakröfunni verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af henni og til þrautavara að hún verði lækkuð verulega.

II

Lögreglan var kvödd að [...] að morgni mánudagsins 22. ágúst 2011 vegna ágreinings milli nágranna. Á vettvangi hittu lögreglumenn fyrir ákærða og [...]. Þau kváðu brotaþola hafa veist að þeim með illyrðum, hrækt á þau og kýlt. Ástæðan var sú, sögðu þau, að ákærði hefði gengið til brotaþola og rétt honum hönd til sátta, en þeir hefðu deilt um langa hríð. Er haft eftir ákærða að hann hafi ekkert gert á hlut brotaþola nema ýta við honum til að verjast árásum hans.

Í lögregluskýrslunni segir að hvorki hafi sést ummerki um hráka eða áverka á ákærða eða [...].

Lögreglumenn höfðu einnig tal af brotaþola. Hann kvaðst hafa verið að koma inn í húsið eftir að hafa verið að versla og séð ákærða og [...] í anddyrinu. Hann hefði gengið beint inn í lyftuna, en þá hefði ákærði stigið inn í hana og lokaðist hún því ekki. Ákærði hefði síðan farið að kalla sig öllum illum nöfnum og borið á sig að hafa kært sig til skattsins og [...]. Brotaþoli kvaðst hafa beðið ákærða um að fara út úr lyftunni, en hann hefði þá sparkað í klof sér. Þá kvaðst brotaþoli hafa gripið í fót ákærða sem við það hefði kýlt sig með krepptum hnefa í hægri kinn.

Um ástand og útlit brotaþola segir svo í skýrslunni: „A var allur í blóði í framan, með bólgna kinn og brotna tönn. Vert er að benda á að A fékk sýkingu fyrir nokkrum árum síðan sem hafði þau áhrif á hann að hann lamaðist fyrir neðan mitti í einhvern tíma og hefur hann ekki fengið mátt sinn að fullu í lappirnar síðan. Nokkuð augljóst er að A hefur ekki mikinn mátt í fótunum og ekki líklegur til að geta staðið í líkamsárás.“ Í lok skýrslunnar segir að brotaþoli hafi farið að riða til og fá svimaköst meðan lögreglumenn ræddu við hann. Það var því hringt á sjúkrabíl og hann fluttur á slysadeild.

Í vottorði um skoðun á brotaþola er haft eftir honum „að hann hafi verið heima hjá sér að bíða eftir lyftu kl. rúmlega 11 áverkadag, þegar þekktur ofbeldismaður sem býr í húsi hans ræðst að honum. Ofbeldismaðurinn segir A hafa komið í veg fyrir að [...] þar sem A eigi að hafa kært hann út af einhverju máli. Hann sparkar í A í ytri kynfæri einu sinni og slær svo með krepptum hnefa í andlit einu sinni. A rotast ekki og kastar ekki upp eftir á. Hann finnur fyrir svima og vægri móðusjón á hægra auga.“ Þá er tekið fram að brotaþoli hafi lamast fyrir neðan mitti í apríl vegna víruss í mænu, en hann hafi fengið 40% mátt aftur. Hann sé á fótum tvo tíma í senn. Brotaþoli var skoðaður og röntgenmyndir teknar af höfði hans. Þessar rannsóknir sýndu að hann bar þá áverka sem í ákæru greinir. Í samandregnu áliti segir að um sé að ræða 69 ára gamlan mann sem hafi verið „sleginn með krepptum hnefa í andlit og einnig sparkað í ytri kynfæri. Hlýtur við það nokkur brot í andlitsbein en ekki þörf á aðgerð. Brot ættu að gróa á um 6 vikum, slæmir verkir fyrstu 2-3 vikurnar. Einnig mar á ytri kynfærum sem ættu að lagast á 7-10 dögum.“

III

Við aðalmeðferð bar ákærði að hann hefði verið á gangi fyrir framan íbúð sína að [...] umræddan dag og þá séð brotaþola vera að koma inn í húsið. Ákærði kvaðst hafa rétt brotaþola höndina í sáttaskyni, enda kvað hann brotaþola hafa verið að níða [...]. Þegar þetta var hefðu þeir staðið fyrir framan lyftuna. Ákærði kvað þetta ekki hafa komið til greina af hálfu brotaþola sem hefði látið þau orð falla að hann skyldi koma ákærða í fangelsi. Jafnframt því að láta þessi orð falla hefði brotaþoli hrækt á sig, kýlt sig og sparkað margsinnis í sig, í læri, kálfa og pung. Einnig hefði brotaþoli kýlt [...] í andlitið þannig að jaxl brotnaði. Hann kvað þó brotaþola hafa verið hálfmáttlausan við að slá og sparka. Ákærði kvaðst ekki hafa hreyft litla fingur meðan á þessu stóð gagnvart brotaþola og haldið ró sinni. Hann hefði hvorki slegið hann né sparkað í hann. Brotaþoli hefði hins vegar verið alveg trylltur fyrir utan lyftuna og við hafi legið að hann froðufelldi. Ákærði kvað brotaþola hafa getað fallið í lyftunni og slasast við það. Hann bar um ágreining við brotaþola í húsinu og kvað hann iðulega hafa ofsótt [...] og annað sem ekki er ástæða til að rekja frekar.

Brotaþoli bar að umræddan dag hefði hann verið að koma inn í húsið og farið inn í lyftuna. Ákærði hefði stillt sér upp í lyftudyrunum og þannig komið í veg fyrir að lyftan gæti farið af stað. Brotaþoli kvaðst hafa margítrekað við hann að færa sig en ákærði hefði þá byrjað að sparka í klofið á sér. Fyrst hefði ákærði reyndar borið á sig að hann hefði skrifað skattyfirvöldum bréf sem hefði leitt til þess að [...]. Brotaþoli kvaðst hafa sagt ákærða að fá sér vinnu og hann ætti sjálfur að sjá um að [...]. Í framhaldinu hefði ákærði sparkað í sig af miklu afli og svo kýlt sig í kinnbeinið hægra megin. Við það hefði kinnbeinið brotnað og niður í kjálka. Þetta hefði gerst inni í lyftunni þar sem brotaþoli kvað ákærða hafa haldið sér föngnum þar eð [...] hefði stillt sér upp í dyragættinni þannig að dyrnar lokuðust ekki og lyftan komst ekki af stað. Hann kvaðst lítið muna eftir þetta, enda hefði hann dottið og verið að reyna að taka upp gleraugun. Brotaþoli kvaðst ekki hafa slegið til ákærða, en hann hefði gripið um fót hans. Hann tók fram að hann gengi ekki heill til skógar og væri enginn maður til að svara fyrir sig í átökum. Þá bar hann um langvarandi deilur í húsinu við ákærða, en hann kvað sig og konu sína ekki hafa getað búið í húsinu lengur vegna þeirra.

Fyrrum íbúi hússins bar að hafa verið á leið í þvottahúsið umræddan dag og þá séð ákærða og brotaþola í lyftunni og hefðu þeir verið að rífast. Þá kvaðst hún hafa séð brotaþola kýla ákærða í kinnina „eitthvað smá“ eins og hún orðaði það. Hún kvaðst ekki hafa séð áverka eða blóð á þeim. Hún kvaðst hafa séð brotaþola slá til ákærða með krepptum hnefa inni í lyftunni og hefði ákærði ýtt við brotaþola í framhaldinu. Spurð um ágreininginn í húsinu kvað hún brotaþola einu sinni hafa hrækt á 4 ára dóttur sína og eins hefði hann hellt úr vatnsfötu á börn að leik fyrir utan húsið. Hún staðfesti það sem hún hafði borið í lögregluskýrslu en þar segir: „Ég sá svo að A varð ofsareiður og hrækti á Gunnar og C og síðan sparkaði hann í Gunnar, eitt spark að mér sýndist. Ég sá svo í kjölfarið á þessu að Gunnar sló A eitt högg, að mér sýndist í andlitið þegar þeir voru inni í lyftunni.“ Bar hún að hún hefði munað þetta betur þegar hún gaf skýrslu hjá lögreglu.

[C] bar að hafa heyrt hann ræða við einhvern frammi og farið þangað. Þar hefði hún séð brotaþola inni í lyftunni og hefði ákærði verið að rétta honum höndina og spyrja hvort hann vildi ekki nota orku sína til góðs en ekki vera að ráðast á [...] aftur og aftur. Brotaþoli hefði svarað með því að hrækja á þau og sagt þeim að hypja sig út úr lyftunni. Þá kvaðst hún hafa séð brotaþola kýla ákærða. Hún kvaðst hafa séð ákærða missa eitthvað í gólfið og hefði brotaþoli ætlað að sparka í ákærða, en hún hefði tekið í fót hans. Hún kvaðst síðan hafa farið og ekki séð mikið meira, en hún hefði orðið fyrir höggum frá brotaþola og misst tönn. Hún kvaðst hafa sýnt lögreglu áverka sína.

Lögreglumaður, sem kom á vettvang og ritaði frumskýrslu málsins, staðfesti hana. Hún bar að strax hefði sést á brotaþola að hann var slasaður og með áverka. Hins vegar hefðu engin áverkamerki sést á ákærða og [...]. Engin merki um hráka hefðu sést á þeim. Ákærði hefði ítrekað sýnt á sér hnefana og þar hefðu engin áverkamerki sést. Kallað hefði verið á sjúkrabíl og brotaþoli fluttur á slysadeild.

Læknirinn, sem skoðaði brotaþola og ritaði framangreint vottorð, staðfesti það. Hann bar að áverkar brotaþola hefðu verið alvarlegir og það hefði þurft mikið högg til að valda þeim. Það hefði verið hægt að valda þeim með einu þungu höggi. Þeir hefðu hins vegar ekki krafist neinnar meðferðar heldur hefðu þeir gróið án hennar, enda hefðu brotin verið í föstum skorðum. Þá bar læknirinn að líkamlegt ástand brotaþola hefði verið slæmt og hann ekki verið fær um að standa í slagsmálum. Við skoðun hefðu ekki sést áverkar á kynfærum brotaþola. Hann kvað ekki útilokað að áverkarnir á brotaþola hefðu orsakast af falli. Þá kvað hann líklegt að einhver ummerki sæjust á hnefa þess sem veitti högg eins og hér um ræðir.

IV

Meðal gagna málsins er upptaka úr eftirlitsmyndavélakerfi hússins og verður henni nú lýst. Í upphafi sést ákærði ganga fram og aftur um ganginn og tala í farsíma. Eftir skamma stund kemur brotaþoli inn um útidyrnar, gengur að lyftudyrum og ýtir þar á hnapp. Hann og ákærði virðast ræðast við en svo fer brotaþoli inn í lyftuna en ákærði stendur í dyrunum. Ekki sést á myndinni að ákærði rétti brotaþola höndina. Eftir þetta sést brotaþoli ekki meir, en að það mótar fyrir honum, eins og síðar segir. Eftir að brotaþoli er kominn inn í lyftuna stendur ákærði í dyrunum og er eins og að ræða við brotaþola. Nú kemur [...] úr íbúð [...]. [...] virðist taka þátt í viðræðum þeirra en fer ekki inn í lyftuna. Það gerir ákærði hins vegar og fer alveg inn í hana. Hann kemur fram og þau tvö standa fyrir utan lyftuna og virðast vera að ræða við brotaþola. Næst gerist það að ákærði tekur í [...] og dregur hana frá lyftudyrunum og fer allur inn í lyftuna, en [...] fara inn í íbúðina. Meðan ákærði er inni í lyftunni má greina hreyfingar á honum í spegli lyftuklefans, en hann er klæddur í hvítan bol. Brotaþoli er dökkgráklæddur. Ákærði kemur nú út úr lyftunni og talar í farsíma, en fer svo í örskotsstund inn í íbúðina. Þá sést eins og dökkklæddur maður sé að hreyfa sig og bogra inni í lyftuklefanum. Ákærði kemur nú aftur og fer inn í lyftuna og á hæla honum kemur [...] og reynir að toga í hann en hann hristir hana af sér og fer inn í lyftuna og er eins og hann eigi í átökum. Þá sést [...] bregða fyrir í smástund. Ákærði og [...] eru nú smástund í lyftudyrunum, en síðan fer [...] frá þeim og svo kemur ákærði út úr lyftunni sem lokast. Ákærði fer inn í íbúðina en [...] virðist ræða við einhvern sem ekki sést.

Af framburði ákærða og [...] má helst ráða að það hafi verið brotaþoli sem réðist á þau, fyrst á ákærða og síðan á hana eins og rakið var. Brotaþoli ber á allt annan veg. Lögreglumaður, sem kom á vettvang, lýsti áverkum á brotaþola og eins bar hann áverka þegar hann var skoðaður á slysadeild. Ákærði og [...] báru hins vegar enga áverka þegar lögreglumenn ræddu við þau. Á myndbandsupptökunni sjást ekki átök ákærða og brotaþola en þó má ráða af því sem sést til ákærða og eins af því sem sést speglast að það er eins og ákærði sé að slá. Ekkert slíkt sést til brotaþola en aftur á móti er eins og hann sé að rísa á fætur og kemur það heim og saman við það sem hann bar um að hafa beygt sig eftir gleraugum sínum. Þegar þetta gerðist var ákærði 44 ára og við aðalmeðferð kvaðst hann vera 190 cm á hæð og 120 kíló. Hann ber það einnig með sér að vera stór og sterkur. Brotaþoli var 69 ára og þótt hann sé þrekvaxinn og kvæðist vera 180 cm á hæð þá er til þess að líta að hann var sjúklingur. Á myndbandinu má glöggt sjá að þar fer frekar veikburða maður. Þegar litið er til alls þessa er það niðurstaða dómsins að sannað sé að ákærði hafi sparkað í og slegið brotaþola eins og honum er gefið að sök í ákæru, enda kemur þar enginn annar til greina. Þessi árás hafði þær afleiðingar sem í ákæru greinir, nema hvað ósannað er að brotaþoli hafi marist á kynfærum. Áverkavottorð er misvísandi um þetta atriði og fyrir dómi bar læknirinn að brotaþoli hefði ekki haft áverka á kynfærum. Ákærði verður því sýknaður af að hafa marið brotaþola á kynfærum. Brot ákærða er rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.

Brotaferill ákærða hófst árið 1987 er hann var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir tilraun til þjófnaðar. Síðar sama ár var hann aftur dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað, minni háttar líkamsárás og umferðarlagabrot. Árið 1988 var hann dæmdur í 7 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað. Næst er hann dæmdur árið 1994 í 3 mánaða fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot. Árið 2000 er hann dæmdur í 45 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir minni háttar líkamsárás og fjársvik. Árið 2004 er hann dæmdur tvívegis í 30 daga skilorðsbundið fangelsi. Í fyrra skiptið fyrir fíkniefnalagabrot og í síðara skiptið fyrir minni háttar líkamsárás. Á árinu 2010 er hann sektaður fyrir húsbrot og minni háttar líkamsárás og 16. september 2011 er hann sektaður fyrir fíkniefnalagabrot. Refsing ákærða nú verður hegningarauki við sektina, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga, og er hún hæfilega ákveðin 6 mánaða fangelsi. Ákærði réðst á gamlan og veikburða mann að tilefnislausu og veitti honum alvarlega áverka. Það eru því engin tilefni til að skilorðsbinda refsinguna.

Samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og með hliðsjón af þeim gögnum sem liggja fyrir um afleiðingar brotsins fyrir brotaþola eru miskabætur honum til handa hæfilega ákveðnar 500.000 krónur ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir. Það athugast að ákærða var birt bótakrafan 25. júní 2012 og miðast upphafstími dráttarvaxta við þann dag er liðnir voru 30 dagar frá þeim degi. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola málskostnað eins og segir í dómsorði.

Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað og málsvarnarlaun verjanda síns að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Ákærði, Gunnar Þór Magnússon, sæti fangelsi í 6 mánuði.

Ákærði greiði A 500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. ágúst 2011 til 25. júlí 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 125.500 krónur í málskostnað.

Ákærði greiði 37.950 krónur í sakarkostnað og málsvarnarlaun verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 200.800 krónur.