Hæstiréttur íslands

Mál nr. 808/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Skjal
  • Vitni


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 30. janúar 2014.

Nr. 808/2013.

 

Vilhjálmur Bjarnason

(Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)

gegn

Birgi Má Ragnarssyni og

Björgólfi Thor Björgólfssyni

(Reimar Pétursson hrl.)

 

Kærumál. Skjal. Vitni.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi um framlagningu skjals í tengslum við öflun V á sönnunargögnum án þess að mál hefði verið höfðað samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Laut ágreiningur aðila að skjali, tölvubréfi frá héraðsdómslögmanninum BMR til Fjármálaeftirlitsins snemma árs 2007, þar sem tilkynnt var um breytingar á eignarhaldi S ehf., en BMR starfaði sem framkvæmdastjóri S ehf. er hann sendi tölvubréfið. Hæstiréttur taldi að virtum gögnum málsins að ekki yrði önnur ályktun dregin en sú að BMR hefði er hann sendi tölvubréfið verið að gegna starfi framkvæmdastjóra S ehf., en ekki lögmanns þess. Þá taldi rétturinn að fyrrgreint skjal varðaði lögboðna upplýsingagjöf auk þess sem almennur aðgangur væri að efni þess samkvæmt fyrirmælum laga, með sama hætti og í dómi Hæstaréttar 27. janúar 2014 í máli nr. 811/2013. Að þessu virtu taldi rétturinn ákvæði b. og d. liða 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 ekki standa því í vegi að BMR yrði gert skylt að leggja fram skjalið, né heldur að efni væru til að leggja það fyrir dómara í trúnaði samkvæmt 1. mgr. 69. gr. sömu laga.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. og 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2013 þar sem leyst var úr ágreiningi um skyldu varnaraðilans Birgis til að afhenda skjal til framlagningar vegna öflunar sóknaraðila á sönnunargögnum án þess að mál hafi verið höfðað samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um kæruheimild er vísað til d. liðar 1. mgr. 143. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir varnaraðilann Birgi að afhenda sóknaraðila, til framlagningar í héraði, afrit af tölvubréfi frá nefndum varnaraðila til Fjármálaeftirlitsins snemma árs 2007, þar sem því var tilkynnt um breytingar á eignarhaldi Samson eignarhaldsfélags ehf. (Samson ehf.). Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast þess aðallega að kæru sóknaraðila verði vísað frá Hæstarétti, til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar, en að því frágengnu að varnaraðilanum Birgi verði gert skylt að leggja fyrir dómara í trúnaði og gegn þagnarskyldu afrit af framangreindu tölvubréfi, til að hann taki eftirrit af því úr skjalinu sem skylt er og heimilt að láta uppi eða að hann geri skýrslu um þau atriði. Í öllum tilvikum krefjast varnaraðilar kærumálskostnaðar.

I

Til stuðnings kröfu um frávísun málsins frá Hæstarétti vísa varnaraðilar til þess að kæra sóknaraðila sé reist á d. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt því ákvæði sé heimilt að kæra til Hæstaréttar skyldu aðila eða vörslumanns til að láta skjal af hendi eða veita aðgang að því. Varnaraðilar benda á að með hinum kærða úrskurði hafi ekki verið kveðið á um skyldu af þessum toga. Þvert á móti hafi tilvist þeirrar skyldu verið hafnað og því bresti heimild til að kæra úrskurðinn.

Samkvæmt d. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 sætir kæru til Hæstaréttar úrskurður um skyldu til að láta af hendi skjal og breytir þá engu hvort héraðsdómur hefur fallist á eða synjað kröfu þar að lútandi. Kæruheimild er því fyrir hendi og verður hafnað kröfu sóknaraðila um frávísun málsins frá Hæstarétti.

II

Með dómi Hæstaréttar 15. maí 2013 í máli nr. 259/2013 var sóknaraðila, sem telur sig hafa orðið fyrir tjóni þegar hlutabréf hans í Landsbanka Íslands hf. urðu verðlaus við fall bankans 7. október 2008, heimilað að leita sönnunar fyrir dómi samkvæmt XII. kafla laga nr. 91/1991. Um er að ræða heimild til öflunar sönnunargagna um tiltekin atriði sem sóknaraðili álítur að ráðið geti niðurstöðu um hvort hann láti verða af málshöfðun á hendur varnaraðilanum Björgólfi. Telur sóknaraðili að tjón sitt megi að minnsta kosti að hluta rekja til ólögmætra og saknæmra athafna í starfsemi bankans sem varnaraðilinn Björgólfur hafi stuðlað að eða átt þátt í og hafi að lokum leitt til þess að bankinn var tekinn til slita. Sóknaraðili hyggst leita sönnunar um þessi atriði með því að leiða vitni fyrir dóm, auk þess sem varnaraðilum verði gert að leggja fram afrit af tölvubréfi Samsonar ehf. frá því snemma árs 2007 þar sem Fjármálaeftirlitinu var tilkynnt um breytingar á eignarhaldi félagsins. Varnaraðilinn Birgir mætti á dómþing Héraðsdóms Reykjavíkur 4. nóvember 2013 og staðfesti að hann hefði þetta skjal undir höndum. Hann kvaðst aftur á móti ekki afhenda skjalið nema samkvæmt úrskurði dómara. Með hinum kærða úrskurði var kröfu sóknaraðila þar að lútandi hafnað.  

Varnaraðilinn Björgólfur hefur með afskiptum sínum af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti gengið inn í mál sóknaraðila og varnaraðilans Birgis þannig að jafna má til meðalgöngu í skilningi 20. gr. laga nr. 91/1991 og telst hann því aðili málsins.

III

Varnaraðilinn Birgir er héraðsdómslögmaður en honum var með bréfi Lögmannafélags Íslands 31. ágúst 2005 veitt undanþága frá skyldum sem hvíla á lögmönnum eftir 1. mgr. 12. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn til að hafa skrifstofu opna almenningi, sérstakan fjárvörslureikning í viðurkenndri bankastofnun og gilda starfsábyrgðartryggingu. Var undanþágan veitt meðan varnaraðilinn starfaði hjá Samson ehf. Þegar hann síðla árs 2007 ritaði það tölvubréf sem sóknaraðili krefst að honum verði gert að láta af hendi var hann framkvæmdastjóri þess félags. Varnaraðilar andmæla því að varnaraðilanum Birgi verði gert að afhenda skjalið með vísan til þagnarskyldu hans um það sem honum hafi verið trúað fyrir í starfi sem lögmaður, sbr. 22. gr. laga nr. 77/1998. Benda varnaraðilar jafnframt á að þetta trúnaðarsamband sé varið af 70. gr. og 71. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Sóknaraðili heldur því fram að með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 259/2013 hafi þegar verið dæmt um kröfu sína í málinu og hún tekin til greina. Með nefndum dómi réttarins var fallist á kröfu sóknaraðila um að honum væri heimilt að leita sönnunar samkvæmt XII. kafla laga nr. 91/1991 um þau atriði sem kröfugerð hans tók til. Með því var ekki tekin afstaða til þeirra atriða sem getur reynt á við sönnunarfærsluna, þar með talið hvort vörslumanni skjals verður gert að afhenda það til framlagningar fyrir dómi. Er þess þá að gæta að úr slíkum ágreiningi verður ekki leyst að réttu lagi fyrr en vörslumaður skjalsins hefur verið kvaddur fyrir dóm og gefist kostur á að tjá sig um kröfuna, sbr. 2. mgr. 68. gr. laganna. Andmælum varnaraðila verður því ekki vísað á bug á þeim grunni að krafa sóknaraðila hafi þegar verið tekin til greina.

 Samkvæmt 3. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 getur aðili krafist þess að fá til framlagningar fyrir dómi skjal úr vörslu manns sem ekki er aðili að málinu ef vörslumanni er skylt að afhenda það aðilanum án tillits til málsins eða efni skjalsins er slíkt að vörslumanni sé skylt að bera vitni um það í málinu. Varnaraðilar bera því við að varnaraðilanum Birgi sé óheimilt án leyfis þess sem í hlut á að svara spurningum um einkahagi sem honum hafi verið trúað fyrir eða komist að í starfi sínum sem lögmaður fyrir Samson ehf., sbr. b. lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 eða um leyndarmál um viðskipti sem hann hafi komist að í því starfi, sbr. d. lið sömu málsgreinar.

Af b. lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 leiðir að þagnarskylda hvílir á þeim starfsstéttum og sérfræðingum sem þar eru tilgreindir og trúað hefur verið fyrir upplýsingum um einkahagi manns. Orðin „einkahagi manns“ í upphafi ákvæðisins verða skýrð á þann veg að lögpersóna á borð við hlutafélög njóti einnig verndar ákvæðisins og undir hana falli hagsmunir af fjárhags- eða viðskiptalegum toga. Þá er þagnarskyldan ekki bundin við atriði sem vitni hefur verið trúað fyrir heldur nær hún jafnframt til þess sem viðkomandi hefur komist að í starfi sínu. Undir þetta falla hins vegar ekki þær upplýsingar sem vitni hefur komist að utan þess starfs sem trúnaður tekur til og nær það til upplýsinga sem vitni hefur fengið í öðru starfi sem þagnarskylda er ekki bundin við eftir því sem hér hefur verið rakið.

 Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 3. febrúar 2003 var samþykkt umsókn Samsonar ehf. um að eignast virkan eignarhlut í Landsbanka Íslands hf., en sú heimild var veitt á grundvelli 1. mgr. 40. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Til að fá slíka heimild þurfti félagið að veita ítarlegar upplýsingar samkvæmt 41. gr. laganna, þar á meðal um eignarhald félagsins og um tengsl þess við aðra lögaðila. Jafnframt hvíldi sú viðvarandi skylda á félaginu og eigendum þess að veita Fjármálaeftirlitinu allar upplýsingar um eignarhaldið, breytingar á því og atriði sem að þessu lutu svo sem rakið er í 107. gr. laganna. Um þessa lagaskyldu er nánar fjallað í dómi Hæstaréttar 27. janúar 2013 í máli nr. 811/2013. Eins og fyrr greinir var varnaraðilinn Birgir framkvæmdarstjóri Samsonar ehf. Að virtum gögnum málsins verður ekki önnur ályktun dregin en sú að varnaraðilinn Birgir hafi verið að gegna starfi sínu sem framkvæmdastjóri félagsins en ekki lögmaður þess þegar hann tilkynnti Fjármálaeftirlitinu um breytingar á eignarhaldinu snemma árs 2007. Þá hafa varnaraðilar hvorki leitt rök að því að skjalið kunni að geyma viðskiptaleyndarmál sem varnaraðilanum Birgi sé óheimilt að svara spurningum um, sbr. d. lið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991, né að efni séu til að leggja skalið fyrir dómara í trúnaði samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laganna. Að þessu gættu verður tekin til greina krafa sóknaraða um að varnaraðilanum verði gert að afhenda skjalið til framlagningar fyrir dómi.

Varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Það athugast að í hinum kærða úrskurði er ítrekað rætt um vitnastefnanda og vitnastefnda en þessi hugtök eiga sér ekki stoð í réttarfarslögum eftir gildistöku laga nr. 91/1991. 

Dómsorð:

Varnaraðila, Birgi Má Ragnarssyni, er gert að afhenda afrit af tölvubréfi til Fjármálaeftirlitsins snemma árs 2007, þar sem því var tilkynnt um breytingar á eignarhaldi Samsonar eignarhaldsfélags ehf., til að skjalið verði lagt fram fyrir dómi.

Varnaraðilum, Birgi og Björgólfi Thor Björgólfssyni, er gert að greiða óskipt sóknaraðila, Vilhjálmi Bjarnasyni, 250.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. nóvember 2013.

Með beiðni, móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 21. september 2012, fór vitna­stefn­andi, Vilhjálmur Bjarnason, Hlíðarbyggð 18, Garðabæ, þess á leit við dóminn að honum yrði heimilað, á grundvelli 2. málsliðar 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með vitnaleiðslu og öflun skjala fyrir dómi, að leita sönnunar um atvik sem vörðuðu lögvarða hagsmuni hans og gætu ráðið úrslitum um máls­höfðun á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni, 55 Clarendon RoadNotting Hill, London, Bretlandi.

Meðal þeirra atriða sem kröfugerð vitnastefnanda tekur til er að Birgi Má Ragnarssyni, kt. 020574-5699, og vitnastefnda, verði gert að leggja fram í dóminum afrit af tölvupósti frá lögmanni Samsonar til Fjármálaeftirlitsins snemma árs 2007 þar sem eftirlitinu er tilkynnt um breytingar á eignarhaldi Samsonar.

Við þingfestingu málsins 29. október 2012 krafðist vitnastefndi þess að beiðni vitnastefnanda yrði hafnað. Með dómi Hæstaréttar Íslands 15. maí sl. í máli nr. 259/2013 féllst rétturinn á að vitnastefnanda væri heimilt að leita sönnunar samkvæmt XII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um þau atriði sem kröfugerð hans tæki til, að því undanskildu að vitnastefnda yrði ekki gert að gefa skýrslu fyrir dómi.

Birgir Már Ragnarsson var með vitnakvaðningu, útgefinni 3. október sl., kvaddur fyrir dóm 4. nóvember sl. kl. 13:30 til að gefa skýrslu í þessu máli. Við skýrslugjöfina, sem fór fram gegnum síma, krafðist lögmaður vitnastefnanda þess að dómari legði fyrir Birgi Má að leggja fram afrit af tölvupósti frá Birgi Má til Fjármálaeftirlitsins snemma árs 2007 þar sem eftirlitinu er tilkynnt um breytingar á eignarhaldi Samsonar. Birgir Már (hér eftir ,,vörslumaður skjals“) kvaðst hafa umræddan tölvupóst undir höndum en kvaðst ekki afhenda skjalið nema samkvæmt úrskurði dómara.

Munnlegur málflutningur fór fram um þessa kröfu vitnastefnanda 18. nóvember sl. Lögmaður vitnastefnanda krafðist þess við munnlegan flutning þessa þáttar málsins að dómari legði fyrir vörslumann skjals að leggja fram afrit af umræddum tölvupósti. Þá var krafist málskostnaðar í þessum þætti málsins. Lögmaður vitnastefnda og vörslumanns skjals krafðist þess að kröfu vitnastefnanda um afhendingu skjalsins yrði hafnað. Að málflutningi loknum var málið tekið til úrskurðar um þennan þátt málsins.

Málsástæður og lagarök vitnastefnanda

                Við munnlegan flutning málsins vísaði lögmaður vitnastefnanda til 12. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 3. mgr. 67. gr. og 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Vitnastefnandi byggir á því að dómari eigi að kveða upp úrskurð um skyldu vörslumanns til að afhenda skjal, sbr. einnig undanþágu í 69. gr. sömu laga. Með gagnályktun sé ljóst að ekki verði úrskurðað um að ekki sé skylt að leggja skjal fram.

                Hæstiréttur Íslands hafi þegar dæmt um skyldu til að afhenda umrætt skjal með dómi 15. maí sl. í máli nr. 259/2013 og hafi dómurinn res judicata áhrif í þessu máli. Varnir vitnastefnda komist því ekki að. Krafa vitnastefnanda sé aðfararhæf eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar.

                Skilyrði 69. gr. laga nr. 91/1991 séu ekki uppfyllt, enda sé þagnarskyldu ekki fyrir að fara. Vörslumaður skjalsins njóti stöðu framkvæmdastjóra og starfsmanns Samsonar, ekki stöðu ráðgjafa sem lögmanns. Lög nr. 77/1998 um lögmenn geri greinarmun milli hefðbundinna lögmanna og lögmanna sem starfi eftir undanþágu samkvæmt 12. gr. laganna. Stöðu þessara hópa lögmanna sé ekki hægt að jafna saman. Vörslumaður skjals beri vinnuveitandaábyrgð á störfum Samsonar. Upplýsingar sem fram komi í skjalinu séu í eðli sínu ekki trúnaðarupplýsingar og sé það viðurkennt í dómskjali nr. 48. Þar sé tekið fram að ekki sé um leynigjörning að ræða. Talsmaður vitnastefnda og lánshæfisnefnd hafi vitað um skjalið. Vitnastefnandi eigi rétt á þessum upplýsingum á grundvelli 91. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, þar sem þær séu nauðsynlegar til að meta tengsl.

Málsástæður og lagarök vitnastefnda og vörslumanns skjals

                Við munnlegan flutning málsins mótmælti lögmaður vitnastefnda og vörslumanns skjals kröfu um málskostnað sem of seint fram kominni. Mögulegt hefði verið að bóka um þá kröfu í þingbók við fyrirtöku málsins. Að auki verði ekki séð að lagaheimild sé fyrir því að úrskurða vörslumann skjals til greiðslu málskostnaðar.

                Vitnastefndi og vörslumaður skjals mótmæla lýsingum vitnastefnanda á efni skjalsins. Skjalið liggi ekki fyrir og ekki sé hægt að byggja úrskurð á meintu efni þess. Dómari hljóti fyrst að athuga skjal og afmá efni þess sem sé háð trúnaði. Í bréfi Fjármálaeftirlitsins til lögmanns vitnastefnda, dags. 3. desember 2012, sé greinargerð um trúnað eftirlitsins, sem mælt sé fyrir um í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Vitnastefndi eigi ekki aðgang að þessum málefnum hjá Fjármálaeftirlitinu. Um sé að ræða einkamálefni, trúnaðargögn og leyndarmál um viðskipti, sbr. b- og d-liði 3. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Samkvæmt 3. mgr. 67. gr. sömu laga þurfi vörslumanni að vera heimilt að afhenda skjalið eða honum skylt að bera vitni um það. Í bréfi vörslumanns skjals til dómsins sé rakið að vörslumaðurinn hafi starfað sem lögmaður og lögfræðingur fyrir vitnastefnda á þeim tíma sem um ræðir, þ.e. 2005 til 2008, auk þess sem vörslumaðurinn hafi gegnt samsvarandi störfum fyrir ýmsa aðra á þessum tíma. Á vörslumanninum hvíli því rík þagnarskylda samkvæmt 17. gr. siðareglna lögmanna, 22. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991, 70. og 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 6. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Krafa vitnastefnanda sé ekki aðfararhæf. Þá sé dómur Hæstaréttar í málinu ekki bindandi fyrir vörslumann skjals. Því verði aðför ekki gerð hjá honum. Þá liggi ekkert fyrir um að vitnastefndi hafi skjalið í fórum sínum. Vörslumaður skjalsins hafi sent umræddan tölvupóst sem lögmaður til Fjármálaeftirlitsins og á vörslumanninum hvíli ríkur trúnaður.

Niðurstaða

                Samkvæmt 3. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála getur aðili máls krafist þess að fá skjal afhent til framlagningar í máli, sem er í vörslum manns sem ekki er aðili að máli, ef vörslumanni skjalsins er skylt að afhenda það aðilanum án tillits til málsins eða efni skjalsins er slíkt að vörslumanni sé skylt að bera vitni um það í málinu.

                Fyrir liggur að vitnið er með umræddan tölvupóst undir höndum. Vitnastefnandi byggir á því að Hæstiréttur Íslands hafi þegar dæmt um skyldu til afhendingar skjalsins með dómi 15. maí sl. í máli nr. 259/2013 og hafi dómurinn res judicata áhrif í þessu máli.

                Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er dómur bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og þeirra, sem koma að lögum í þeirra stað, um þær kröfur sem eru dæmdar þar að efni til. Í 2. mgr. sömu greinar segir að krafa sem hefur verið dæmd að efni til verði ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól framar en segir í lögunum og skuli nýju máli um slíka kröfu vísað frá dómi. Í þessum ákvæðum 116. gr. laga nr. 91/1991 kemur fram meginregla íslensks einkamálaréttarfars um bindandi áhrif dóma, svonefnd res judicata áhrif. Samkvæmt þessari meginreglu verður sama málefni milli sömu aðila aðeins borið einu sinni undir dómstóla.

                Í dómsorði dómsins var vitnastefnanda heimilað ,,að leita sönnunar samkvæmt XII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um þau atriði sem kröfugerð hans tekur til að því undanskildu að [vitnastefnda] verður ekki gert að gefa skýrslu fyrir dómi.“ Í dóminum var einvörðungu fjallað um það hvort formskilyrði 1. og 2. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991 og 3. mgr. 77. gr. sömu laga væru uppfyllt fyrir því að vitnastefnandi gæti rekið þetta mál fyrir dóminum. Ekki var þar tekin afstaða til mögulegra álitaefna sem gætu risið undir rekstri málsins, s.s. um skyldu vitnastefnda eða vörslumanns skjals til að afhenda umræddan tölvupóst. Í dóminum var þannig ekki leyst úr því sakarefni sem er til umfjöllunar í þessum þætti málsins. Komast varnir vitnastefnda því að og verður leyst úr þeim efnislega.

                Vörslumaður skjals er ekki aðili að þessu máli og hefur dómur Hæstaréttar því ekki bindandi áhrif gagnvart honum. Komast varnir vörslumannsins því að og verður leyst úr þeim efnislega.

Með úrskurði dómsins, sem var kveðinn upp fyrr í dag, var komist að þeirri niðurstöðu að vörslumanni skjals væri óheimilt að svara spurningum sem vörðuðu einkahagi Samsonar eignarhaldsfélags og leyndarmál félagsins um viðskipti, sbr. b- og d-liði 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991, þar sem hann væri bundinn trúnaði sem lögmaður samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Ekki er um það deilt að vörslumaðurinn sendi umræddan tölvupóst og að efni tölvupóstsins varðar eignarhald Samsonar eignarhaldsfélags. Miða verður við að vörslumaðurinn hafi sent póstinn sem lögmaður félagsins. Ekki skiptir máli þótt vörslumaðurinn hafi starfað sem framkvæmdastjóri félagsins, enda er í 1. tl. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 77/1998 ekki mælt fyrir um takmörkun á þeim störfum sem lögmaður má sinna fyrir vinnuveitanda sinn til að undanþága verði veitt. Að mati dómsins er hér um að ræða málefni er varðar einkahagi félagsins og leyndarmál um viðskipti. Er vörslumanninum því ekki skylt að bera vitni um efni tölvupóstsins í þessu máli með vísan til b- og d-liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 77/1998. Með sömu rökum er vörslumanninum ekki skylt að afhenda vitnastefnanda tölvupóstinn án tillits til málsins.

Samkvæmt þessu verður að hafna kröfu vitnastefnanda um að dómari leggi fyrir vörslumann skjals að afhenda vitnastefnanda umræddan tölvupóst til framlagningar í þessu máli.

Krafa vitnastefnanda um málskostnað úr hendi vitnastefnda í þessum þætti málsins þykir ekki of seint fram komin, en með vísan til þessara málalykta verður henni hafnað. Ekki verður séð að lagaheimild standi til þess að úrskurða vörslumann skjals til greiðslu málskostnaðar og verður kröfu um málskostnað úr hendi vörslumannsins hafnað þegar af þeirri ástæðu.

                Ásbjörn Jónasson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu vitnastefnanda, Vilhjálms Bjarnasonar, um að dómari leggi fyrir vörslumann skjals, Birgi Má Ragnarsson, að afhenda vitnastefnanda til framlagningar í þessu máli afrit af tölvupósti frá vörslumanni skjals til Fjármálaeftirlitsins snemma árs 2007 þar sem eftirlitinu er tilkynnt um breytingar á eignarhaldi Samsonar eignarhaldsfélags.