Hæstiréttur íslands

Mál nr. 160/2007


Lykilorð

  • Læknir
  • Sjúkrahús
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Orsakatengsl


Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. desember 2007.

Nr. 160/2007.

Halldór Jóhannsson og

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

íslenska ríkið

(Skarphéðinn Þórisson hrl

 Þórður Bogason hdl.)

gegn

Svani Geirdal Oddssyni

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

 

Læknar. Sjúkrahús. Skaðabætur. Líkamstjón. Orsakatengsl.

 

Læknirinn H var dæmdur til að greiða S skaðabætur vegna fótarmissis þar sem það var metið H til sakar að hafa ekki hlutast til um að S fengi viðeigandi meðferð innan eðlilegs tíma á L, en sýnt þótti að slík meðferð hefði bjargað fætinum. Ekki var fallist á með H að tjónið yrði rakið til annarra orsaka en framangreindrar vanrækslu hans. Hins vegar var ekki talið að nánar tilgreind mistök starfsmanna L stæðu í þeim tengslum við tjón S að það varðað skaðabótaábyrgð Í og var Í því sýknað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandinn Halldór Jóhannsson skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 19. mars 2007. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 2. maí 2007 og áfrýjaði hann öðru sinni 4. sama mánaðar. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandinn málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandinn íslenska ríkið skaut málinu til Hæstaréttar 19. mars 2007. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi leitaði stefndi á heilsugæslustöðina á Akranesi 10. janúar 1997 vegna verkja í kálfa, en fyrir þeim mun hann þá hafa fundið um tveggja til þriggja ára skeið og þeir versnað mjög daginn áður. Við ómskoðun, sem gerð var á sjúkrahúsinu á Akranesi sama dag, kom í ljós stór æðargúll í hnésbót á báðum fótleggjum. Heilsugæslulæknir mun samdægurs hafa pantað viðtal fyrir stefnda á læknastofu áfrýjandans Halldórs, sem á þeim tíma var jafnframt yfirlæknir á æðaskurðlækningadeild Landspítalans, og fór það fram 27. janúar 1997. Samkvæmt bréfi áfrýjandans til landlæknis 14. febrúar 1999 gerði hann við þetta tækifæri stefnda grein fyrir því að hann væri með æðagúlpa í báðum slagæðum ganglima og gætu þessir gúlpar stækkað með tímanum og blóðsegar sest í þá, en þeir gætu svo losnað og valdið blóðþurrð í limunum. Áfrýjandinn hafi ráðlagt stefnda að gangast undir aðgerð á báðum ganglimum, en áður yrði að gera rannsókn á honum, svokallaða æðaþræðingu, meðan hann lægi á Landspítalanum í sólarhring. Mætti ætla að bið eftir þeirri rannsókn gæti orðið tvær til fjórar vikur. Áfrýjandinn staðhæfir að hann hafi gert beiðni um þessa rannsókn á stefnda 24. febrúar 1997 og afhent hana á æðaskurðlækningadeild Landspítalans ásamt beiðnum um hliðstæða rannsókn á tveimur öðrum sjúklingum. Samkvæmt gögnum málsins var rannsókn gerð nokkru síðar á þeim síðastnefndu, en ekki á stefnda, og greinir áfrýjendurna á um hvort beiðni um rannsókn á honum hafi borist Landspítalanum. Áfrýjandinn Halldór ber því við að beiðnin hljóti að hafa glatast þar, en ekkert mun hafa fundist um hana í skrám eða öðrum gögnum sjúkrahússins.

Eftir framangreint viðtal 27. janúar 1997 kveðst stefndi hafa beðið eftir kvaðningu til fyrirhugaðrar rannsóknar á Landspítalanum, en fyrir liggur að á því ári leitaði hann þó ekki frekari upplýsinga um hvenær af henni yrði og átti hann hvorki önnur samskipti við áfrýjandann Halldór né heilsugæslulækna á Akranesi vegna sjúkdóms síns. Stefndi kveðst á hinn bóginn í janúar 1998 hafa leitað vegna sárra verkja í hægra hné til læknastofu áfrýjandans, sem ekki hafi verið viðlátinn, og hafi þar ekki fundist nein gögn um stefnda. Fáum dögum síðar hafi áfrýjandinn rætt í síma við stefnda og heitið því að haft yrði samband við hann um frekari meðferð strax eftir páska, en árið 1998 mun páskadag hafa borið upp á 12. apríl. Áfrýjandinn Halldór andmælir því að hafa átt þessi samskipti við stefnda í janúar 1998, en kveður hann á hinn bóginn hafa rætt við ritara á læknastofu sinni „rétt fyrir páska 1998“ og í framhaldi af því hafi áfrýjandinn ákveðið, „eins og lofað hafði verið, að taka hann í forgangsröð og leggja hann inn eins fljótt og kostur væri.“

Án þess að frekari samskipti hafi orðið milli stefnda og áfrýjandans Halldórs fékk sá fyrrnefndi nokkru eftir hádegi 24. maí 1998 skyndilegan verk í vinstri fót, sem varð um leið snjóhvítur. Stefndi var fluttur á sjúkrahúsið á Akranesi, þar sem grunur kom upp um lokun á slagæð. Deyfilyf munu ekki hafa dregið úr miklum kvölum stefnda og var því gripið til þess ráðs á sjúkrahúsinu að leggja svokallaða utanbastsdeyfingu, en að því búnu var hann fluttur með sjúkrabifreið til Reykjavíkur á Landspítalann. Þar gekkst hann síðar um daginn undir skurðaðgerð, þar sem leitast var við að tengja blóðrás til fótarins fram hjá lokun, sem var talin vera í slagæð. Ekki tókst að bjarga fætinum með þessu og var hann tekinn af ofan við hné í annarri aðgerð 29. maí 1998. Stefndi gekkst á hinn bóginn 12. júní sama ár undir svonefnda hjáveituaðgerð út af æðagúl í hnésbót á hægri fæti og mun hún hafa borið tilætlaðan árangur.

Stefndi höfðaði mál þetta með stefnu 3. febrúar 2003 til heimtu þjáningabóta og bóta vegna varanlegs miska og örorku, sem eftir endanlegri kröfugerð hans nema samtals 5.634.613 krónum. Svo sem ítarlega er lýst í héraðsdómi reisir stefndi kröfu sína á hendur áfrýjandanum Halldóri á því að honum hafi orðið á skaðabótaskyld mistök með því að ekki hafi orðið af rannsókn á stefnda, sem þeir hafi bundið fastmælum í janúar 1997 að gerð yrði, og að hafa síðan engan reka gert að rannsókn og aðgerð á stefnda eftir samtal þeirra snemma árs 1998. Krafa stefnda á hendur áfrýjandanum íslenska ríkinu er byggð á því að starfsmönnum Landspítalans hafi orðið á mistök, sem hann beri skaðabótaábyrgð á, með því að glatast hafi beiðni um rannsókn á stefnda frá 24. febrúar 1997, verði lagt til grundvallar að áfrýjandinn Halldór hafi komið henni þar til skila, auk þess sem nánar tiltekin mistök hafi verið gerð við meðferð stefnda á sjúkrastofnunum á Akranesi 10. janúar 1997 og 24. maí 1998, svo og á Landspítalanum síðastnefndan dag.

II.

Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmanni, komst meðal annars að þeirri niðurstöðu að meta yrði áfrýjandanum Halldóri til sakar að hafa ekki brugðist við samtali við stefnda, hvort sem þeir áttu það í janúar eða mars 1998, með því að láta þann síðarnefnda þegar í stað gangast undir bráðameðferð með rannsókn og aðgerð og að hafa síðan látið þetta hjá líða í meira en tvo mánuði uns þær lyktir urðu á meini stefnda, sem að framan eru raktar, en hjá þeim hefði mátt komast með skurðaðgerð á því tímabili. Þessari niðurstöðu, sem jafnframt var studd af matsgerð tveggja dómkvaddra manna og yfirmatsgerð þriggja manna, hefur áfrýjandinn í engu hnekkt fyrir Hæstarétti. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður því staðfest niðurstaða hans um skaðabótaskyldu áfrýjandans Halldórs gagnvart stefnda.

Í héraðsdómi var lagt til grundvallar að áfrýjandinn Halldór hafi leitt nægar líkur að því að hann hafi afhent á Landspítalanum beiðni frá 24. febrúar 1997 um nánar tilgreinda rannsókn á stefnda og hún glatast í meðförum starfsmanna áfrýjandans íslenska ríkisins á því sjúkrahúsi. Vegna þessa hafi læknismeðferð á stefnda tafist í um eitt ár og bæri síðastnefndi áfrýjandinn því jafnframt ábyrgð á tjóni hans. Án tillits til þess hvort telja megi sannað að beiðni þessi hafi borist Landspítalanum verður ekki litið fram hjá því að áfrýjandanum Halldóri varð ljóst á fyrstu mánuðum ársins 1998 að fyrirhuguð rannsókn hafði ekki verið gerð, en samkvæmt áðursögðu var þá enn nægur tími til að bæta úr því og grípa til annarra ráðstafana svo að komist yrði hjá tjóni stefnda. Þegar þetta er virt er ekki unnt að líta svo á að vanræksla, sem héraðsdómur taldi starfsmenn Landspítalans hafa sýnt af sér, standi í þeim tengslum við tjón stefnda að telja megi hana til orsaka þess, þannig að varði skaðabótaskyldu áfrýjandans íslenska ríkisins. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um önnur atriði, sem stefndi hefur borið fyrir sig um skaðabótaábyrgð þessa áfrýjanda. Verður hann því sýknaður af kröfu stefnda.

Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um skaðabætur til stefnda og vexti af þeim verður staðfest, en þetta þó dæmt honum úr hendi áfrýjandans Halldórs, sem einnig verður gert að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Rétt er að málskostnaður milli stefnda og áfrýjandans íslenska ríkisins falli niður á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Áfrýjandi íslenska ríkið er sýkn af kröfu stefnda, Svans Geirdal Oddssonar, en málskostnaður milli þeirra í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Áfrýjandi Halldór Jóhannsson greiði stefnda 5.634.613 krónur með 2% ársvöxtum frá 24. maí 1998 til 5. desember 2001, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá greiði áfrýjandinn Halldór stefnda samtals 2.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember, 2006.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 13. desember sl., höfðaði Svanur Geirdal Oddsson, Fjarðargötu 19, Hafnarfirði gegn íslenska ríkinu, Halldóri Jóhannssyni, Sunnuflöt 4, Garðabæ og Sjóvá- Almennum tryggingum hf. Kringlunni 5, Reykjavík til réttargæslu,  með stefnu birtri 10. og 13. febrúar 2003.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmdir til að greiða honum óskipt kr. 5.634.613 með 2% ársvöxtum frá 24. maí 1998 til 5. desember 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 frá þeim tíma til greiðsludags og málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefnda, íslenska ríkisins, eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður að mati dómsins. Til vara að stefnukröfur verði lækkaðar verulega og málskostnaður látinn falla niður.

Dómkröfur stefnda, Halldórs Jóhannssonar, eru þær aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og dæmdur málskostnaður samkvæmt málskostnaðarreikningi. Til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.

II

Stefnandi var greindur með stóra æðagúla í báðum hnésbótum 10. janúar 1997. Hinn 29. maí 1998 var tekinn af honum vinstri fóturinn fyrir ofan hné. Stefnandi telur að ástæða þess að svo fór séu mistök lækna sem önnuðust hann á framangreindu tímabili, eins og síðar verður rakið í dóminum. Krefst hann skaðabóta vegna þess tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir af þeim sökum. Hvorki er deilt um þá útreikninga sem stefnandi byggir bótakröfu sína á né fjárhæð kröfunnar samkvæmt þeim útreikningum.

Stefnandi er nú haldinn óskyldum sjúkdómi sem er þess eðlis að hann gat ekki gefið skýrslu fyrir dóminum.

III

            Málsatvik eru lítt umdeild og verða helstu þeirra rakin hér á eftir eins og þau koma fram í gögnum málsins og framburði stefnda og vitna fyrir dóminum.

Stefnandi greindist með kransæðasjúkdóm árið 1995 og var gerð útvíkkun á kransæð á því ári.

Fram kemur í bréfi Þóris Bergmundssonar, sem nú er lækningaforstjóri á Sjúkrahúsinu og heilsugæslustöðinni á Akranesi (SHA), til ríkislögmanns, dags. 7. desember 2000, að stefnandi leitaði til heimilislæknis síns á SHA, Þóris Þórhallssonar, 10. janúar 1997. Stefnandi greindi lækninum frá því að hann hefði haft verki af og til í vinstri fæti síðustu 2-3 árin. Skoðun í þetta skipti leiddi í ljós eymsli djúpt í vinstri kálfa og vaknaði þá grunur um æðasjúkdóm. Sama dag fór stefnandi í ómskoðun á sjúkrahúsinu á æðakerfi beggja fóta. Leiddi skoðunin í ljós að stórir æðagúlar voru í báðum hnésbótum. Æðagúllinn vinstra megin var sagður hafi verið 10 cm langur og 4 cm breiður og náð upp á lærið. Æðagúllinn var að mestu leyti fylltur sega, en þó renna í gegnum hann. Í hægri hnésbót var æðagúllinn 10 cm langur og 6 cm breiður. Í framhaldi af þessu vísaði heimilislæknirinn stefnanda til stefnda, Halldórs Jóhannssonar æðaskurðlæknis. Bréf heimilislæknisins til stefnda er dags. 21. janúar 1997 og segir læknirinn þá dagsetningu miðaða við þann dag þegar vitað var hvenær stefnandi fengi tíma á læknastofu stefnda, en það hafi ekki verið fyrr en 27. janúar. Læknirinn sagði að sér hefði ekki virst sem Svanur væri í neinni bráðri hættu, hefði verið í vinnu og ekki með blóðrásartruflanir í fótum. Svanur hefði ekki leitað til sín aftur.

Hinn 14. desember 1998 kvartaði stefnandi við landlækni vegna meintra mistaka stefnda, Halldórs, og ritaði stefndi landlækni bréf hinn 14. febrúar 1999 vegna kvörtunarinnar. Stefndi staðfesti fyrir dóminum að efni bréfs væri ritað samkvæmt bestu vitund. Stefndi greinir frá því í bréfinu að stefnandi hafi komið á læknastofu sína 27. janúar 1997.  Í bréfinu segir m.a. svo:

Ég skoðaði sjúkling fyrst og fremst m.t.t. æðakerfis og reyndist hann hafa góða púlsa periphert [við ökkla] og heita fætur. Þó voru áberandi púlsationer í fossa poplitea [hnésbótaslagæðum] báðum megin og styrkti það þá trú mína að hér væri um aneurysma [æðagúl] að ræða í poplitea æðum [hnésbótaslagæðum]. Þannig var augljóst að sjúklingur var með aneurysma poplitea bilat [æðagúl í hnésbótaslagæðum].

Í kjölfar þessarar skoðunar gerði ég sjúklingi grein fyrir að hann væri með æðagúla í báðum slagæðum ganglima og staðsetning þeirra væri í hnésbótum. Ég upplýsti sjúklinginn um gang þessa kvilla, þ.e.a.s. að gúlarnir myndu stækka smátt og smátt og í þá gæti sest blóðsegar  með tímanum. Þeir gætu síðan farið af stað og valdið blóðþurrð í viðkomandi ganglim.

Vegna ofangreinds gangs þessa sjúkdóm ráðlagði ég sjúklingi aðgerð á báðum slagæðum, en fyrst yrði að gera æðaþræðingu eða angiographiu af báðum ganglimum. Ég sagði honum að ég myndi panta þessa rannsókn fyrir hann á Landspítala og skýrði síðan fyrir honum, eins og öllum sjúklingum sem fara í slíka rannsókn, hvað um væri að ræða. Hann mætti búast við sólarhringsinnlögn á Landspítala samfara þessari rannsókn og trúlega yrði biðtími 2-4 vikur.

Í málinu hefur verið lagt fram ljósrit af skjámynd úr tölvu stefnda, Halldórs, þar sem ritað er að hinn 24. febrúar 1997 hafi verið beðið um rannsókn, aorto-femoralangio [æðaþræðing og röntgenmyndataka af slagæðum frá ósæð og niður í fætur], á stefnanda. Sama dag eru skráðar tvær aðrar rannsóknarbeiðnir og hafa verið lögð fram gögn um að rannsóknir voru gerðar samkvæmt þeim beiðnum. Ekki er vefengt að stefndi hafi skráð rannsóknarbeiðni vegna stefnanda í tölvuna á framangreindum degi. Stefndi sagði í upphafi að  hann hefði sent beiðnina til röntgendeildar Landspítalans en ekki farið sjálfur með hana þangað. Stefndi, sem var  yfirlæknir æðaskurðlækningadeildar Landspítalans á þessum tíma, sagði að ferill þessara rannsóknarbeiðna væri sá að beiðnin færi, venjulega sama dag og hún væri skrifuð, til þeirrar deildar sem sjúklingur ætti að leggjast inn á, en æðaþræðing væri ekki framkvæmd nema sjúklingur legðist inn á þá deild þar sem aðgerðin væri framkvæmd. Sjúklingur væri kallaður inn að kvöldi, myndaður að morgni á röntgendeildinni og fylgst með honum á viðkomandi legudeild fram eftir degi áður en hann færi heim. Rútínan hafi verið sú að hann hafi farið með beiðnirnar til ritara æðaskurðlækningadeildarinnar sem á þessum tíma hafi ýmist verið á C gangi eða D gangi handlæknisdeildar Landspítalans. Stefndi kvaðst ekki muna sérstaklega eftir því að hafa farið með beiðnina vegna stefnanda en ítrekaði það að hann hefði sjálfur farið með beiðnir til ritarans. Ekki sé tíðkanlegt að læknar leiti eftir staðfestingu á því að þeir hafi afhent rannsóknarbeiðni. Beiðni um röntgenmyndatöku sé jafnframt beiðni um innlögn í  einn sólarhring. Ritari á röntgendeildinni og hjúkrunarkona á æðaskurðlækningadeildinni samræmi tíma fyrir myndatöku á röntgendeildinni og legutíma á æðaskurðlækningadeildinni. Myndatakan sé algerlega á vegum röntgendeildarinnar en æðaskurðdeildin annist síðan sjúklinginn. Æðaskurðdeildin kalli sjúklinginn inn til myndatökunnar, en stefndi kvaðst geta stýrt því hvenær myndatakan færi fram ef um bráðarannsókn væri að ræða, en ekki annars. Stefndi kvaðst síðan skoða myndirnar og væri talið rétt að gera aðgerð sé venjan sú að sjúklingurinn fari heim í nokkra daga þar til hann sé kallaður í aðgerðina. Í því tilviki kvaðst stefndi biðja um innlögn sjúklingsins. Að jafnaði sé ekki gert ráð fyrir aðgerð í beinu framhaldi af rannsókn. Venjulega sé það svo, eftir að sjúklingum hafi verið tjáð að þá eigi að rannsaka og á hvaða tíma, að þeir hringi standist sú áætlun ekki. Stefndi kvaðst muna eftir tilvikum af því tagi að hringt hafi verið í sig frá sjúkrahúsinu og sagt að beiðni vantaði fyrir sjúkling sem væri kominn til rannsóknar. 

Stefndi kvaðst aldrei hafa séð stefnanda frá því í janúar 1997 þar til eftir stúfhöggið, þegar hann hafi komið heim úr fríi í maílok 1998. Hins vegar hafi hann haft símasamband við stefnanda um mánaðamótin mars/apríl 1998, en hann hafi fengið boð frá ritara sínum um að stefnandi hefði hringt. Ekki hefði komið fram hjá ritaranum að stefnandi hefði hringt í janúar og því sé það ekki rétt sem haldið sé fram í stefnu þar um. Stefnandi hafi þá verið jafn hress og þegar hann hafi komið til sín í janúar 1997 og ekkert hefði bent til nauðsynjar á bráðameðferð. Stefndi sagði að viðbrögð sín hefðu verið leiði út af því að stefnandi hefði fallið út úr kerfinu, en hann hefði ekki munað eftir því hver sjúklingurinn var. Stefndi kvaðst hafa gert sér grein fyrir því að hann yrði að flýta fyrir rannsókn á stefnanda. Hann hefði sagt stefnanda að hann yrði fljótlega kallaður inn til myndatöku og aðgerðar, sem hann hafi gert ráð fyrir að þyrfti að gera. Stefndi kvaðst ekki hafa beðið um rannsókn á stefnanda áður en hann hefði verið lagður inn til aðgerðar 24. maí 1998. Stefndi sagði að það hefði verið mat sitt að ekki væri um bráðatilvik að ræða hjá stefnanda. Hins vegar hefði hann talið að stefnandi ætti að fá þann forgang sem hægt væri að gefa honum. Stefnandi kvaðst þá hafa verið að fara í frí og fullyrt við stefnanda að hann yrði tekinn til aðgerðar strax og fríinu lyki sem hafi verið ætlun sín. Fríið hafi staðið í þrjár vikur og endað í lok maí. Í fríinu hafi tveir læknar, þeir Höskuldur Kristvinsson og Tómas Jónsson, séð um afleysingar fyrir sig. Hann hafi ekki talið eðlilegt að biðja þá að gera aðgerð á stefnanda, en læknarnir tveir hefðu ekki gert „elektívar“ aðgerðir, enda önnum kafnir við önnur störf á spítalanum. Þessir læknar hefðu báðir haft góða og umtalsverða reynslu.

Stefndi kvaðst hafa verið einn starfandi æðaskurðlæknir og sérfræðingur á æðaskurðlækningadeildinni á þessum tíma og verið yfirlæknir deildarinnar. Hann hafi haft sér til aðstoðar ýmsa góða starfsmenn. Tveir læknar hafi verið sér hjálplegir með vaktir á deildinni og fleira. Æðaskurðlækningadeild hafi verið á spítalanum í Fossvogi, þó ekki formleg, þ.e. ekki aðskilin frá almennum skurðlækningum.

Vitnið, Ólafur Kjartansson, kom fyrir dóminn. Hann var á þessum tíma, árunum 1997 og 1998, forstöðumaður röntgen- og myndgreiningardeildar Landspítalans. Vitnið kvað beiðnir um röntgenmyndatökur oftast hafa komið frá æðaskurðdeildinni. Í einhverjum tilfellum hafi þær þó komið beint á röntgendeildina, þ.e. inn á æðaþræðingarstofuna. Í öllum tilvikum sé um að ræða samvinnuverkefni röntgendeildarinnar og legudeildarinnar um að finna pláss fyrir sjúklinginn. Vitnið taldi að sá læknir sem kæmi með beiðni fylgdi henni að einhverju leyti eftir. Verkbeiðnir hefðu á þessum tíma ekki verið skráðar í tölvu og engin skráning farið fram á deildinni fyrr en tími hafi verið gefinn fyrir rannsóknina. Þá væri haft samband við sjúklinginn, annað hvort af legudeildinni eða þeim sem um rannsóknina hafi beðið, í flestum tilvikum af deildinni. Á röntgendeildinni sé ekki fylgst með því að umbeðin rannsókn fari fram, en vitnið vissi ekki hvernig sú deild sem sjúklingur ætti að leggjast inn á hagaði boðun hans. Vitnið sagði mjög óalgengt að beiðnir týndust á röntgendeild, eftir því myndi hann varla. Hann gæti þó ekki fortekið að beiðni gæti týnst þar eins og annars staðar. Oftast, ef beiðni týndist, væri það á leiðinni, þ.e. að hún berist ekki röntgendeildinni. Vitnið sagði að tvívegis hefði verið leitað að beiðninni um rannsókn á stefnanda og hefði hún ekki fundist.  

IV

Í fyrrnefndu bréfi Þóris Bergmundssonar, lækningaforstjóra á Sjúkrahúsinu og heilsugæslustöðinni á Akranesi, til landlæknis, dags. 7. desember 2000, er að finna eftirfarandi frásögn, sem hann staðfesti fyrir dóminum að væri rétt:

Sunnudaginn 24.5.98 fór Svanur ásamt eiginkonu sinni í göngutúr eftir hádegið. Héldu þau sem leið lá austur svonefndan Garðaflóa fyrir ofan Akranesbæ. Skyndilega fékk Svanur mjög slæma verki í vi. ganglim og gat við þetta ekki haldið göngu áfram. Fór eiginkona að leita aðstoðar gangandi. Að næstu húsum á Akranesi er a.m.k. ½ tíma gangur. Svo vill til að undirritaður gekk ásamt eiginkonu sinni fram á Svan þar sem hann lá á jörðinni mjög mikið kvalinn. Kona Svans var þá horfin úr augsýn. Sendi ég eiginkonu mína til heimilis okkar ef það mætti verða til að flýta fyrir aðstoð og hringdi hún í sjúkraflutningsmenn kl. 14:50 þennan umrædda dag. Er þetta fyrsta tímasetningin sem skráð er í skýrslum SHA. Eftir a.m.k. ½ klst. bið kom eiginkona Svans ásamt systur sinni og mági á bíl og vildi Svanur alls ekki bíða einhverjar mínútur eftir sjúkrabíl þar sem óvíst var hvenær hann kæmi. Taldi ég fulla ástæðu til að Svanur kæmist sem fyrst á sjúkrahús þótt sjúkrabílinn vantaði og var hann studdur og honum hagrætt í skotti bílsins. A.m.k. 10 mín. síðar kom sjúkrabíllinn og bað ég sjúkraflutningsmenn að halda til sjúkrahússins þar sem víst þótti þá þegar að flytja þyrfti sjúkl. suður til Reykjavíkur til aðgerðar.

Við komuna á SHA um kl. 15.00 var sjúkl. mjög meðtekinn af verkjum. Enginn púls fannst í vi. fæti og með doppler rannsókn mældist ekkert flæði. Þrátt fyrir sterk verkjalyf slógu þau ekki á verkina og var því svæfingalæknir sem staddur var í húsinu fenginn til að leggja utanbast (epidural) legg og hafði það strax mjög góð áhrif. Tók sú aðgerð einungis örfáar mínútur. Skráð er í gögnum SHA að beðið var um flutning suður til Reykjavíkur kl. 15:10 og  ennfr. skráð að sjúkl. kom á Lsp. kr. 16:45. Skv. svæfingablaði frá Lsp. hófst aðgerð með deyfingu kl. 17:55. Stóð aðgerðin í um 7 klst.

            Vitnið Þórir Þórmundsson, lækningaforstjóri á Sjúkrahúsinu og heilsugæslustöðinni á Akranesi, sagðist ekki hafa tekið þátt í meðferð Svans á sjúkrahúsinu. Strax hefði verið ákveðið að flytja stefnanda til Reykjavíkur og ekið hefði verið með stefnanda um Hvalfjarðargöngin. Göngin hefðu ekki verið fullbúin til umferðar, en leyft hefði verið að aka sjúkrabílnum um þau. Væntanlega hefði einhvern tíma tekið að gera þau aksturshæf fyrir sjúkrabílinn.             

Vitnið, Björn Gunnarsson, svæfingalæknir á sjúkrahúsinu á Akranesi, sagðist hafa tekið ákvörðun um að setja epidural legg í stefnanda, fyrst og fremst til þess að stilla verkina. Reynt hefði verið að verkjastilla stefnanda með því að gefa honum morfín í æð, líklega tvívegis, en það hefði ekki haft nein áhrif. Vitnið hélt að epiduraldeyfingin hefði ekki tekið meira en fimm mínútur. Þá hafi einnig verið fyrirsjáanlegt að stefnandi þyrfti að gangast undir aðgerð, en niðurstaða sín hefði verið sú að um algera æðastíflu í fæti væri að ræða. Hann hefði talið að segaleysandi lyf myndu ekki gagnast, en auk þess hefðu þau ekki verið mikið notuð á þessum tíma við algjörri æðastíflu. Vitnið kvaðst hafa vitað að epidural deyfing kæmi í veg fyrir segaleysandi meðferð. Vitnið kvaðst ekki hafa haft samráð við aðra lækna um aðgerðir sínar.

Höskuldur Kristvinsson, æðaskurðlæknir á Landspítalanum, framkvæmdi aðgerð á stefnanda við komuna til Reykjavíkur 24. maí 1998. Aðgerðarlýsing hans er svohljóðandi:

Fyrst er dissicerað [skorið] rétt distalt [neðan] við hnéð og farið inn í popliteal fossuna [hnésbótina] og komið þar að fremur gildri popliteal arteriu [hnésbótarslagæð] en aneurysmað [æðagúllinn] virðist ná niður að hnébili og er ekki að sjá á þessu svæði. Síðan er gerður annar skurður medialt [innanvert] í lærið og dissicerað upp fyrir aneurysmað sem nær að minnsta kosti ca 12 cm upp fyrir hnélið og komið þar inn að stórri arteria superficialis femoris [yfirborðslæg lærisslagæð]. Það var hnýtt fyrir popliteuna um liðbilið. Sjúklingur hafði fengið Heparin i.v. fyrir aðgerð og fékk meira í aðgerð. Það er gerð arteriotomia í arteria poplitea [op í hnésbótarslagæð] og er þar eingöngu hröngl og virðist um chroniska lokun að ræða á þessu svæði. Það er dissicerað meira distalt [lengra niður á við] og farið inn í tibalis posterior [fremri sköflungsslagæð] sem er meðalstór æð og er þar gerð arteriotomina en lumenið [innra rými] er þröngt og inniheldur ferskan thrombus [blóðsega]. Það er engin bakblæðing. Þessi thrombus er dreginn út, engin bakblæðing fæst. Það er dissicerað dýpra í sárið og arteria peroneus [dálkslagæð] mobiliseruð og er hún mun stærri en tibialis posterior [aftari sköflungsslagæð] og er hún mobiliseruð og gerð arteriotomia og er þar einnig ferskur thrombus og er dreginn upp um 15 cm langt coagel [blóðsegi] og settur niður Fogharthy catheter [leggur sem er notaður til þess að draga blóðsega úr æðum] varlega en það fæst engin bakblæðing. Catheter settur upp proximalt [upp á við] og fæst pínulítið innflæði via einhverja collaterala [hjáæðar]. Ljóst er að ástandið er ekki gott en ákveðið að reyna að tengja í þessa arteria peroneus. Saphenous venan [bláæð á innanverðum ganglim] fundin á popliteal svæðinu og henni fylgt upp í lærið og þar sem hann er ef til vill með aneurysma í nárum þá er ákveðið að fara ekki inn í nárann, heldur inn að arteria superficialis femoris vel ofan við aneruysmað. Það er gerð arteriotomia þar en þar inni er ferskt coagel og þarf að dissicera upp á proximal lærið til að komast upp fyrir coagel. Þar er saphenous venan tengd inn end to side með áframhaldandi 6/0 Prolene [saumur] og er síðan hleypt á blóðstreymi niður venuna og síða er notað valvulotom [lokuskeri] til að eyðileggja lokurnar og venan tekin í sundur distalt og tengd síðan inn end to side í arteria peroneus. Það fæst nokkurt flæði eða um 60-80 ml. Fóturinn virðist lagast lítið eitt en ekki áberandi. Líklegast með thrombosu í flestum æðum í fætinum. Meðan á aðgerðinni stendur hafa vöðvarnir bólgnað verulega og er skurðurinn medialt lengdur og gerð faciotomia [fellsskurður] og eins gerður annar skurður lateralt og gerð faciotomia þar líka þannig að öll compartment eru decompresseruð [þrýstingur minnkaður]. Skolað vandlega. Skurð á læri lokað með 3/0 Vicryl í subcutis [undirhúð] og heftum í húð. Proximal hluti medial skurðar á fótlegg lokað til að loka yfir graftinn en að öðru leyti eru skurðir á fótlegg skildir eftir opnir og lagðar blautar grisjur.

Hinn 29. maí var vinstri fóturinn tekinn af stefnanda neðarlega á lærinu og er ekki deilt um að sú aðgerð var nauðsynleg á þeim tíma. Hinn 19. júní fór stefnandi í aðgerð á hægri fæti sem kemur ekki sérstaklega við sögu hér.

Vitnið Höskuldur Kristvinsson skýrði frá fyrir dóminum að hann hefði metið ástand stefnanda svo, þegar hann kom á spítalann, að enginn tími væri til þess að taka æðamynd af honum. Tafarlaus aðgerð hafi verið nauðsynleg. Æðamynd við skurðaðgerðina hefði verið hægt að taka en hún hefði engu breytt. Á þessum tíma hafi æðamynd eftir aðgerð sjaldnast verið tekin en flæðimælir hafi verið notaður. Ástæðan fyrir því að ekki hefði verið notuð segaleysandi meðferð hefði verið í fyrsta lagi sú að hún hefði ekki tíðkast á Landspítalanum á þessum tíma fremur en víða annars staðar í heiminum. Segaleysandi meðferð taki og tíma en nauðsynlegt hafi verið að framkvæma aðgerð þegar í stað. Í öðru lagi hafi fótur stefnanda verið svo slæmur að ekki hafi verið unnt að eyða neinum tíma til að reyna segaleysandi meðferð. Epidural deyfingin hafi og komið í veg fyrir það en hún hafi engu breytt því að hann hefði ekki notað segaleysandi meðferð hvort sem var. Aðgerðin hafi verið tímafrek og tæknilega erfið því að æðagúlinn hafi verið stór og fullur af hröngli, sem hafi getað lokað fyrir hjáæðar. Æðin fyrir neðan gúlinn í hnésbótinni hafi virst króniskt lokuð með hröngli, en hvort hrönglið var nýtt eða gamalt gæti hann ekki fullyrt um. Augljóst hafi verið að lokunin hafi orðið einhvers staðar í lærinu og afar ólíklegt að sú lokun hafi komið einhver staðar annars staðar frá. Tómt mál hafi verið að tala um að sóta [að Fogharty catheter hreinsa] frá nára í þessu tilviki.

Í gögnum málsins kemur fram að á árunum 1998 til 2000 hafi blóðsegaleysandi meðferð ekki verið notuð í hliðstæðum aðgerðum og vitnið framkvæmdi á stefnanda.

V

            Hinn 14. nóvember 2003 óskaði réttargæslustefndi eftir því að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta eftirfarandi:

1.         Hver hafi verið orsök blóðþurrðar í vinstri ganglim matsþola [stefnanda] þann 24. maí 1998 og þá einkum hvort ætla megi að blóðsegarek frá „ómeðhöndluðum“ ósæðargúl (svo) í vinstri hnésbót kunni að hafa orsakað bráðablóðþurrðina eða hvort líklegra sé að blóðsegarek hafi myndast í hjarta eða æðakerfi fyrir ofan gúlinn og stíflað þar hjáæðar sem nærðu gangliminn neðan hnés.

2.         Þess er jafnframt óskað að matsmenn láti í ljós skoðun sína á því hvort ætla megi að matsþoli hefði staðið betur að vígi þegar hann lenti í umræddu blóðsegareki sem orsakaði bráðablóðþurrðina ef búið hefði verið að framkvæma aðgerð á æðagúl í vinstri hnésbótinni. Þess er einkum óskað að matsmenn láti í ljós skoðun sína á því hvort hugsanlegt sé að matsþoli hefði lent í stúfhöggi, þrátt fyrir að búið hefði verið að framkvæma aðgerð á ósæðargúlnum.

Þeir matsmenn sem að lokum framkvæmdu umbeðið mat, Sigurgeir Kjartansson, sérfæðingur í æðaskurðlækninum, og Þórarinn Arnórsson, hjarta og æðaskurðlæknir, skiluðu endanlegum niðurstöðum sínum 2. febrúar 2006.

Matsmennirnir komast að þeirri niðurstöðu að möguleikar á blóðsegareki frá hjarta séu ekki til staðar. Varðandi það hvort blóðsegarek hafi myndast í æðakerfi fyrir ofan æðagúlinn segja matsmennirnir m.a.:

Með tilvísun til þess, sem að ofan greinir, fæst af framkomnum gögnum ekki endanlega úr því skorið hvort hér var um að ræða segarek ofan frá eða stíflu í æðagúlnum sjálfum. Þegar hins vegar aðgerðalýsingin er skoðuð og litið er til viðurkenndrar áhættu blóðrásartruflunar vegna popliteal æðagúls verður að meta líkindi á segareki frá gúlnum eða blóðsegamyndun í honum eða á svæðinu umhverfis hann verulega meiri en líkur á segareki ofan frá í æðakerfinu.

Þá kemur eftirfarandi fram í niðurstöðum matsmannanna:

Með hliðsjón af framangreindum upplýsingum fagbókmennta um náttúrlegan gang þessa sjúkdóms og árangur aðgerða við honum, ásamt því að upphaflega ómskoðunin sýndi flæði gegnum hnésbótarslagæðagúlinn vinstra megin, og kerfið niður á fótinn því greinilega opið, verður að álykta að 16 mánaða töf á meðferð, sem leiddi þá fyrst til aðgerðar þegar í óefni var komið, hafi átt mestan þátt í því að árangur varð sem raun ber vitni.

Tímanleg aðgerð eftir að greining lá fyrir hefði án efa aukið möguleika á að bjarga ganglimnum.

Matsmennirnir staðfestu matsgerð sína fyrir dóminum. Ástæðulaust þykir að rekja hér fleiri atriði sem fram koma í matsgerðinni eða framburð matsmannanna.

Hinn 15. maí sl. óskaði stefndi, Halldór, eftir því að dómkvaddir yrðu þrír menn til yfirmats sem gert var 2. júní. Dómkvaddir voru Jónas Magnússon, prófessor og yfirlæknir á handlæknisdeild Landspítala-háskólasjúkrahúss, Kristbjörn Reynisson, röntgenlæknir og Tómas Guðbjartsson, hjarta-og lungnaskurðlæknir. Yfirmatið er dags. 18. október sl. Matsmenn rökstyðja svör sín en svar við fyrri spurningu í matsbeiðni er:

Yfirmatsnefnd telur að orsök blóðþurrðar í vinstri ganglim þann 24. maí 1998 stafi að öllum líkindum af blóðsegareki frá ómeðhöndluðum æðargúl í arteria poplitea. Yfirmatsnefnd telur einnig mjög ólíklegt að orsök blóðþurrðarinnar sé vegna blóðreks frá einhverri segamyndun í hjarta- og æðakerfi ofan við gúlinn.

Svar við seinni spurningunni er í stuttu máli eftirfarandi:

Þar sem fyrri hluti spurningarinnar nr. 1 er svarað jákvætt, teljum við einnig að ef gert hefði verið við æðagúlinn í vinstri hnésbót hefði SGO staðið mun betur að vígi. Eins og þetta mál liggur fyrir teljum við að matsþoli hefði mun síður lent í stúfhöggi ef gert hefði verið við æðar hans eins og til stóð.

Matsmennirnir staðfestu matsgerð sína fyrir dóminum. Ástæðulaust þykir að rekja hér fleiri atriði sem fram koma í matsgerðinni eða framburð matsmannanna.

VI

Stefnandi byggir örorkutjónsútreikninga sína á matsgerð Sigurjóns Sigurðssonar læknis sem dags. er 27. ágúst 2001. Segir eftirfarandi í niðurlagi matsgerðarinnar:

a.                Tímabil óvinnufærni telst vera frá 24.05.98-01.02.99.

b.           Veikindatímabil skv. 3. gr. skaðabótalaga telst vera frá 24.05.98-01.02.99 þar af rúmliggjandi frá 25.05.98-26.06.98, 28.06.98-03.07.98 og 09.08.98-25.10.98.

c.            Varanlegur miski skv. 4. gr. skaðabótalaga telst vera 70% (sjötíu af hundraði).

d.           Varanleg örorka skv. 5. gr. skaðabótalaga telst vera 15% (fimmtán af hundraði)

e.            Hefðbundin varanleg læknisfræðileg örorka telst vera 60% (sextíu af   hundraði).

 

Stefnandi sundurliðar dómkröfur sínar á eftirfarandi hátt:

 

Þjáningabætur

Dagar

Fjárhæð á dag

Samtals

Rúmlega í 118 daga

118

1.700 kr.          

200.600 kr.

Veikindi án  rúmlegu í 135 daga

135

920 kr.

124.200 kr.

Samtals

 

 

324.800 kr.

 

 

 

 

Bætur fyrir varanlegan miska

Miskastig

Fjárh. v. algj. miska

Samtals

Bætur skv. 1. mgr. 4. gr. skbl.

70%

5.238.500 kr.

3.666.950 kr.

Lækkun um 15%, sbr. 2. mgr. 4. gr.

 

 

550.043 kr.

Samtals

 

 

3.116.908 kr.

 

 

 

 

Bætur fyrir varanlega örorku

Örorkustig

Árslaun           Stuðll

Hækkun lánskjaravt.

Bætur skv. 6. gr.

15%

3.842.558 kr.    10

4298/3615

6.852.828 kr.

Lækkun skv. 9. gr. skbl. um 68%

 

 

4.659.923 kr.

Samtals

 

 

2.192.905 kr.

 

Höfuðstóll kröfu stefnanda, 5.634.613 kr.

 

VII

Af hálfu  stefnanda er því haldið fram að aðilar séu sammála um að þau mistök hafi orðið við meðferð á sjúkdómi stefnanda að beiðni stefnda, Halldórs, um æðaþræðingu og slagæðamyndatöku frá 27. janúar 1997, hafi glatast og rannsóknin því ekki farið fram. Hins vegar sé ekki upplýst hvort beiðnin hafi verið send eða hvar hún hafi þá glatast, en stefndu í málinu séu engu að síður samábyrgir fyrir því að svona fór.

Stefndi, Halldór, hafi talið nauðsynlegt strax í ársbyrjun 1997 að stefnandi færi í æðaþræðingu og aðgerð. Hann hafi hins vegar ekki fylgt því eftir og það leitt til þess að fæti stefnanda varð ekki bjargað þegar hann loksins hafi verið tekinn til aðgerðar. Stefnandi hafi þannig ekki fengið á þessum tíma þá læknismeðferð sem honum hafi verið nauðsynleg og hann átt rétt á. Á þessum mistökum beri stefndu allir ábyrgð.

Stefnandi hafi haft samband við stefnda, Halldór, á árinu 1998 annað hvort í janúar eða um mánaðamótin mars/apríl. Hvort heldur hafi verið skipti ekki máli því að ljóst hafi verið í janúar 1997 að stefnandi þarfnaðist aðgerðar og þar af leiðandi enn ljósara í byrjun árs 1998 að þörfin á aðgerð hafi verið brýn. Stefndi, Halldór, hafi í samtali þeirra lofað að flýta rannsókn á stefnda, en hins vegar ekkert aðhafst. Um 8 vikur hafi liðið frá samtalinu þar til stefnandi hafi verið lagður inn til bráðaaðgerðar með þeim afleiðingum sem hafi orðið. Stefndi, Halldór, hafi ekkert aðhafst á þessum tíma. Þessi vanræksla hans sé í raun mun alvarlegri en aðgerðaleysið á árinu 1997. Stefndi Halldór eigi því fulla sök á afleiðingum þess að hafa ekki sent stefnanda í aðgerð þegar í stað eftir samtal þeirra á árinu 1998, en þær afleiðingar, þ.e. að stefnandi missti vinstri fótinn, hefði hann átt að sjá fyrir.

Stefnandi eigi enga sök á því að svona fór, honum hafi í bæði skiptin verið tjáð að við hann yrði haft samband og hafi hann treyst því að svo yrði gert sem hafi brugðist. Stefndu beri að sanna að stefnandi eigi einhverja sök á því hvernig fór og sú sönnun hafi þeim ekki tekist.

Fullyrðingar stefnda, Halldórs, um að hægt hefði verið að bjarga fæti stefnanda frá stúfhöggi, hefði öðru vísi verið staðið að aðgerðinni 24. maí, séu ósannaðar. Dómkvaddir matsmenn, fimm að tölu, komist allir að þeirri niðurstöðu að rétt hafi verið staðið að aðgerðinni og hafni því að líkur séu á að blóðsegarek frá öðrum stað en æðagúlnum sjálfum hafi orsakað blóðþurrð í fætinum. Þær líkur telji þeir afskaplega litlar. Matsmennirnir telji hins vegar að fætinum hefði mátt bjarga hefði aðgerðin verið framkvæmd fyrr en raunin varð. Landlæknir, sem sagt hafi álit sitt, sé sömu skoðunar. Þannig beri allt að sama brunni, sök stefnda, Halldórs, á tjóni stefnanda sé skýr og ótvíræð.

Í stefnu er því haldið fram að mistök hafi orðið hjá starfsfólki Sjúkra- og heilsugæslustöðvarinnar á Akranesi þegar stefnandi leitaði þangað 10. janúar. Beðið hafi verið of lengi með að vísa sjúklingnum til stefnda, Halldórs, en það hefði átt að gera þegar í stað. Sömuleiðis hafi starfsfólk sömu stofnunar gert mistök þegar stefnandi var fluttur þangað 24. maí 1998. Ekki hafi þá verið haft samband við sérfræðing í æðaskurðlækningum og dýrmætum tíma eytt í að koma fyrir utanbastdeyfingu sem ekki hafi aukið líkur á að fætinum yrði bjargað. Sú deyfing hafi og komið í veg fyrir að beitt yrði segaleysandi meðferð.

Þá er því og haldið fram í stefnu að það hafi verið mistök þegar stefnandi kom á Landspítalann að gera ekki intraoperatíva angiographíu fyrir og eftir aðgerðina og ekki hafi verið beitt segaleysandi lyfjameðferð.

Við munnlegan flutning málsins var lögmaður stefnanda sérstaklega inntur eftir því hvort hann héldi við þær málsástæður sem að framan eru raktar úr stefnu málsins. Kvaðst hann gera það án þess þó að rökstyðja málsástæðurnar að neinu marki.

Lögmaðurinn féll hins vegar frá þeirri málsástæðu að skaðabótaábyrgð íslenska ríkisins yrði og byggð á því að stefnanda hafi ekki verið ljóst hvort stefndi, Halldór, annaðist hann sem sjálfstætt starfandi læknir eða starfsmaður ríkisins.

Af hálfu stefnanda var því lýst að óskað hefði verið eftir athugasemdum stefndu við örorkumatið sem útreikningur tjóns stefnanda sé byggt á. Þær athugasemdir hafi ekki borist og of seint sé í munnlegum flutningi málsins að gera athugasemdir við örorkumatið.

Af hálfu stefnda, Halldórs, er því haldið fram að ekkert orsakasamband sé á milli aðgerða stefnda varðandi stefnanda og stúfhöggsins sem hann gekkst undir. Í janúar 1997 hafi stefnandi ekki borið nein bráðaeinkenni og ekki heldur þegar þeir hafi átt símtal í mars/apríl 1998. Stefndi hafi pantað rannsókn á stefnanda í janúar 1997, lagt hana sjálfur til æðaskurðlækningadeildar Landspítalans og geti ekki borið ábyrgð á því að þar hafi beiðnin glatast. Stefnda hafi engin skylda borið til að fylgja beiðninni eftir. Sjúklingar beri ábyrgð á heilsu sinni og stefnandi hafi á engan hátt fylgt eftir fyrirhugaðri meðferð og beri sjálfur ábyrgð á því að hafa ekki gert það. Stefnandi hafi og haft þá sjúkrasögu að hann hafi vitað að hann væri í áhættuhópi.

Þótt beiðnin hafi glatast hafi það ekki leitt til stúfhöggsins. Matsgerðirnar tvær,  sem stefndi hafi lagt fram í málinu, hafi ekki sönnunargildi, þær séu ágiskanir matsmannanna.

Þá hafi stefnandi engin bráðaeinkenni haft í mars/apríl 1998 og bráðainnlögn því ekki nauðsynleg á þeim tíma.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að gögn málsins sýni, s.s. aðgerðalýsing Höskuldar Kristvinssonar, að blóðrás í gegnum æðagúlinn hafi stöðvast einhvern tíma fyrir 24. maí 1998. Fótur stefnanda hafi hins vegar haft góða hjáæðablóðrás og því hafi stefnandi getað stundað vinnu sína þrátt fyrir lokun æðagúlsins. Hjáæðablóðrásin hafi hins vegar lokast skyndilega og því hafi orðið blóðþurrð í fætinum. Þar sem í ljós hafi komið að fóturinn var kaldur fyrir ofan hné sé ómögulegt að draga þá ályktun að hjáæðarnar hafi lokast með sega frá gúlnum. Lokunin hafi því komið annars staðar frá og ofar í líkamanum. Stúfhöggið hafi þannig ekki verið afleiðing þess að æðagúllinn hafi lokast heldur vegna þess að hjáæðar hafi lokast með sega frá öðrum stöðum í líkamanum, enda hafi stefnandi haft mjög veikt æðakerfi.

Því haldið fram af hálfu stefnda, Halldórs, að mistök hafi átt sér stað í meðferðinni á stefnanda 24. maí. Á sjúkrahúsinu á Akranesi hefði átt að deyfa stefnanda á allan annan hátt en að leggja epidural deyfingu. Slík deyfing skerði aðgerðamöguleika, þ.e. að nota segaleysandi lyf. Ekkert hefði átt að gera þar  nema í samráði við æðaskurðlækni og stefnanda hefði átt að senda á Landspítalann til aðgerðar þegar í stað. Þegar á Landspítalann kom hafi verið ljóst að æðar fyrir ofan hné væru stíflaðar. Byrja hafi átt á því að skera í nárann og opna lærisæðina þar, fara með svokallaðan Fogharty katheter niður í báðar lærisæðarnar, hreinsa blóðlifrarnar sem þar voru og skola með heparíni, því að hefði stefnandi ekki haft epiduralegginn hefði verið dælt þar inn segaleysandi lausnum. Þetta hefði gefið einu líkurnar á að endurlífga fótinn. Sú aðgerð sem ráðist hafi verið í, þ.e. bláæðahjáveita, hafi verið mjög tímafrek og ekki rétt miðað við þær aðstæður sem fyrir hendi voru.

Á framangreindum forsendum hafnar stefndi, Halldór, því alfarið að hann beri nokkra ábyrgð á tjóni því sem stefnandi varð fyrir.

Sú athugasemd var gerð af hálfu stefnda að útreikningur á tjóni byggðist á einhliða mati læknis og stefndi hefði ekki fengið tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum að við það mat.

Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, er því haldið fram að stefnandi hafi, þegar hann leitaði til heilsugæslulæknis á Akranesi í ársbyrjun 1997, fengið óaðfinnanlega meðferð. Stefnandi hafi gengist undir ómskoðun og greiningu og í eðlilegu framhaldi af því hafi verið pantaður tími fyrir hann hjá æðaskurðlækni, stefnda Halldóri. Æðaskurðlæknirinn hafi þá ekki talið ástæðu til þess að láta stefnanda gangast undir aðgerð og ekki hafi heldur verið ástæða fyrir heilsugæslulækninn að senda stefnanda beint í aðgerð að lokinni ómskoðun og greiningu. Þannig hafi engin mistök verið gerð.

Heilsugæslulæknirinn, eða læknar á Sjúkrahúsinu og heilsugæslustöðinni á Akranesi, geti að sjálfsögðu enga ábyrgð borið á því hvernig til tókst með rannsókn á stefnanda, hvorki í janúar 1997 eða þegar kom fram á árið 1998.

Hinn 24. maí 1998 hafi verið óhjákvæmilegt að deyfa stefnanda með utanbastslegg því að önnur ráð sem gripið hafi verið til hafi ekki komið að gagni. Þessi deyfing taki aðeins örfáar mínútur og hafi því enginn tími tapast sem máli skipti, auk þess sem deyfingin hafi verið notuð þegar á Landspítalann kom. Segaleysandi lyfjum hefði hvort sem ekki verið beitt á Landspítalanum, að mati Höskuldar Kristvinssonar æðaskurðlæknis, þar sem ástand stefnanda kallaði á skjót viðbrögð. Stefnandi hafi verið sendur á Landspítalann eins fljótt og auðið var. Viðbrögð starfsmanna Sjúkrahússins og heilsugæslustöðvarinnar á Akranesi hafi því öll verið rétt og eðlileg.

Aðgerðin á stefnanda á Landspítalanum hafi í einu og öllu verið rétt og eðlileg. Ekki sé hægt að finna að því að ekki hafi verið tekin slagæðamynd af stefnanda fyrir aðgerðina. Til þess hafi ekki unnist tími. Ekki skipti heldur máli þótt slík mynd hafi ekki verið tekin meðan á aðgerðinni stóð eða eftir hana.

Samkvæmt framansögðu verði stúfhöggið ekki rakið til mistaka lækna, sem stefndi, íslenska ríkið, beri ábyrgð á.

Stefnandi haldi því fram að ótilgreindir starfsmenn á Landspítalanum hafi týnt beiðni stefnda, Halldórs, um rannsókn á stefnanda. Þar skipti aðeins máli tímabilið frá því í janúar 1997 til mars/apríl 1998, því að eftir þann tíma hafi verið vitað að beiðnin hefði ekki komið fram. Óumdeilt sé að engin beiðni hafi verið send eftir mars/apríl 1998. Svo hagi til í málinu að stefnandi byggi ekki á því að stefndi, Halldór, hafi sent beiðnina til Landspítalans. Af því leiði að stefnandi geti ekki byggt á því að starfsmenn Landspítalans hafi týnt beiðni sem aldrei hafi verið send til þeirra, enda geti ríkið ekki sannað hvaða beiðnir bárust ekki.

Af framangreindum ástæðum eigi að sýkna íslenska ríkið af kröfum stefnanda.

VIII

Það er niðurstaða dómsins að meðferð og skoðun heilsugæslulæknisins á Akranesi, Þóris Þórhallssonar, á stefnanda hinn 10. janúar 1997 hafi öll verið með eðlilegum hætti, svo og þau viðbrögð hans að senda stefnanda til frekari skoðunar hjá æðaskurðlækni. Þó að skoðun æðaskurðlæknisins hafi farið fram 17 dögum síðar þá verður sá tími ekki metinn lækninum til neinnar sakar þegar litið er til þeirrar niðurstöðu sem úr skoðuninni fékkst.

Viðbrögð æðaskurðlæknisins, stefnda Halldórs, að hlutast til um að stefnandi færi í röntgenmyndatöku, þ.e. æðaþræðingu og slagæðamyndatöku, voru og eðlileg og sjálfsögð. Það hefur verið leitt í ljós að stefndi, Halldór, ritaði þrjár beiðnir um rannsóknir í tölvu sína 24. febrúar 1997, þar á meðal beiðni um röntgenmyndatöku fyrir stefnanda. Stefndi sagði í upphafi fyrir dómi að hann hefði ekki farið sjálfur með beiðnina fyrir stefnanda á æðaskurðlækningadeild Landspítalans en breytti þeim framburði síðar í yfirheyrslunni og sagðist hafa afhent hana sjálfur. Leitt hefur verið í ljós að rannsóknir vegna hinna beiðnanna tveggja, sem ritaðar voru sama dag, fóru fram eins og beðið hafði verið um. Þykir stefndi hafa leitt svo sterkar líkur að því að hann hafi afhent beiðnina fyrir stefnanda á Landspítalanum að dómurinn telur óhætt að byggja á því að svo hafi verið. Það er ljóst að beiðnin hefur þá af einhverjum ástæðum glatast hjá starfsmönnum Landspítalans og verður því íslenska ríkið að bera þá sök sem af því leiðir. Hefði rannsóknin á stefnanda farið fram eins og til stóð verður að ætla að hann hefði í framhaldi af því fengið viðeigandi læknismeðferð innan skamms eða a.m.k. innan þess tíma sem hefði komið í veg fyrir, eða a.m.k. dregið verulega úr líkum á því, að taka þyrfti vinstri fótinn af honum. Má hér hafa í huga að aðgerð var framkvæmd á hægri fæti stefnanda árið 1998, væntanlega hliðstæð þeirri sem hefði verið framkvæmd á vinstri fætinum, en ekkert annað er upplýst heldur en hægri fótur stefnanda sé honum til fulls gagns. Samkvæmt framansögðu er niðurstaða dómsins sú að íslenska ríkið beri að sínu leyti sök á tjóni stefnanda.

Dómurinn telur hæpið, eins og fyrirkomulagi á rannsóknum og aðgerðum af þessu tagi var háttað á þeim tíma sem hér um ræðir, að leggja sök á stefnda, Halldór, fyrir það að hann fylgdist ekki með því hvort stefnandi hefði verið boðaður til röntgenmyndatökunnar. Hitt verður að meta honum til sakar, eftir að þeir stefndi töluðu saman, og þykir þá heldur ekki skipta máli hvort það var í janúar eða mars/apríl 1998, að hafa ekki þegar í stað sent stefnanda til rannsóknar og aðgerðar. Enda þótt stefnandi kunni að hafa borið sig vel í símtalinu við stefnda þá var stefnda eða mátti vera það ljóst að læknismeðferð stefnanda hafði þá fyrir mistök dregist í eitt ár a.m.k. og því verulegar líkur á að þörf væri skjótra viðbragða. Að minnsta kosti tveir mánuðir liðu frá því að stefnandi og stefndi töluðu saman þar til fóturinn var tekinn af stefnanda. Miklar líkur verður að telja á því, eins og sjúkrasaga stefnanda er, að hægt hefði verið að bjarga fætinum hefði stefnandi um mánaðamótin mars/apríl verið settur í bráðameðferð, eins og stefndi segist hafa ætlað að gera en gerði ekki. Þykir hér ekki skipta máli hvernig á stóð hjá stefnda eða aðstæður voru að öðru leyti. Verður því að meta stefnda, Halldóri, það til sakar að hafa ekki brugðist við með skjótum hætti eftir samtal þeirra stefnanda í mars/apríl 1998. Ber hann því að sínu leyti ábyrgð á tjóni stefnanda.

Út af fyrir sig er hægt að fallast á það að stefnandi sjálfur hafi verið seinn til viðbragða þegar hann beið án aðgerða eftir fyrirhugaðri rannsókn allt þar til hann hafði samband við stefnda, hvort heldur það var í janúar eða seinna. Þótt hverjum og einum beri að gæta heilsu sinnar þá verður þess að gæta þegar læknismeðferð er hafin, að um hana gildir ströng skaðabótaábyrgð, svokölluð sérfræðiábyrgð. Með það í huga þykir ekki ástæða til að meta stefnanda aðgerðaleysið til sakar með þeim hætti að hann eigi að bera hluta tjóns síns sjálfur.

Viðbrögð starfsfólks Sjúkrahússins og heilsugæslustöðvarinnar á Akranesi, þegar komið var með stefnanda þangað illa á sig kominn, hinn 24. maí 1998, verður að telja eðlileg eins og aðstæðum var háttað. Verður ekki dregið í efa að rétt sé að kvalir stefnanda hafi ekki verið hægt að lina með deyfilyfjum og því hafi utanbastsdeyfing verið rökrétt í framhaldi af því, en við blasti að stefnanda þyrfti að flytja á Landspítalann. 

Dómurinn telur ekki ástæðu til að gera neinar athugasemdir við viðbrögð æðaskurðlæknisins, Höskuldar Kristvinssonar, þegar hann tók á móti stefnanda eða aðgerðina sem hann framkvæmdi á honum. Því er að vísu haldið fram í stefnu að gera hafi átt intraoperativa angiographíu, [slagæðamyndatöku í aðgerð] og að beita segaleysandi lyfjameðferð og er þetta hið eina sem stefnandi metur lækninum til sakar og gerði það reyndar tæpast í munnlegum flutningi málsins. Eins og fyrr segir þá er niðurstaða dómsins sú að ekki sé hægt að virða það starfsmönnum á Sjúkrahúsinu og heilsugæslustöðinni á Akranesi til sakar að hafa deyft stefnanda með þeim hætti  sem varð. Sú deyfing var til staðar þegar aðgerðin hófst og því kom ekki til álita að beita segaleysandi lyfjum, auk þess sem brýnt var að framkvæma aðgerð í skyndi. Þá fellst dómurinn á þær skýringar læknisins að myndataka af æðum meðan á aðgerðinni stóð myndi hafa haft litla sem enga þýðingu.

Af hálfu stefnda, Halldórs, er því hins vegar haldið fram að rangt hafi verið staðið að aðgerðinni eins og fyrr hefur verið lýst, æðagúllinn hafi þegar verið lokaður og hjáæðar lokast vegna blóðsega frá öðrum stað í líkamanum en æðagúlnum. Verður að skilja þessar málsástæður svo að stefndi, Halldór, telji að hinn 24. maí hafi skaðinn verið skeður að því er æðagúlinn varðar og rangri aðferð við aðgerðina hafi verið beitt og af þeim sökum hafi fætinum ekki verið bjargað. Sýnist stefndi með þessu telja að ekki hafi skipt máli þótt aðgerð á æðagúlnum hafi ekki verið framkvæmd fyrir 24. maí og því verði honum ekki um kennt hvernig fór. Enda þótt því megi halda fram að annars konar aðgerð hefði átt að framkvæma á stefnanda en gert var þá er það allsendis ósannað að þar með hefði fætinum verið bjargað. Langmestu líkurnar á því að ekki hefði farið sem fór eru að aðgerð á æðagúlnum hefði verið framkvæmd á þeim tíma sem fyrirhugað var og ekki síðar en strax eftir að stefnda, Halldóri, var ljóst um mánaðamótin mars/apríl 1998 hvernig staða stefnanda var. Þessi niðurstaða dómsins er studd af áliti fimm matsmanna sem dómkvaddir voru að beiðni stefnda, Halldórs.

Samkvæmt öllu framansögðu er niðurstaða dómsins sú að dæma beri stefndu, íslenska ríkið og Halldór Jóhannsson, in solidum til að greiða stefnanda í skaðabætur þá fjárhæð sem hann krefst. Stefnandi gerði skaðabótakröfu á hendur stefnda, Halldóri, með bréfi dags. 5. nóvember 2001. Fallast ber á það með stefnanda að miða skuli upphafstíma dráttarvaxta við 5. desember s.á.              

Málskostnaður sem stefndu greiði stefnanda in solidum er ákveðinn kr. 1.600.000, þ.m.t. virðisaukaskattur.

Dóm þennan kváðu upp héraðsdómararnir Friðgeir Björnsson og Ásgeir Magnússon og Elín Laxdal æðaskurðlæknir.

Dómsorð.

Stefndu, íslenska ríkið og Halldór Jóhannsson, greiði in solidum stefnanda, Svani Geirdal Oddssyni, kr. 5.634.613 með 2% ársvöxtum frá 24. maí 1998 til 5. desember 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 frá þeim tíma til greiðsludags og kr. 1.600.000 í málskostnað.