Hæstiréttur íslands
Mál nr. 252/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Lögvarðir hagsmunir
- Aðild
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
Mánudaginn 1. september 2003. |
|
|
Nr. 252/2003. |
Sjómannafélag Reykjavíkur(Jónas Haraldsson hrl.) gegn Atlantsskipum ehf. (Magnús Guðlaugsson hrl.) |
Kærumál. Lögvarðir hagsmunir. Aðild. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli S á hendur A ehf. var vísað frá dómi. Talið var að S hefði ekki tekist að sýna fram á að það ætti lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr kröfum sínum fyrir dómstólum. Var frávísunarúrskurður héraðsdóms því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júní 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. júní 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Sjómannafélag Reykjavíkur, greiði varnaraðila, Atlantsskipum ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. júní 2003.
I.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda að loknum munnlegum málflutningi um formhlið þann 2. maí sl., hefur Sjómannafélag Reykjavíkur, kt. 570269-1359, Skipholti 50, Reykjavík, höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjaness gegn Atlantsskipum ehf., kt. 480596-2349, Vesturvör 29, Kópavogi, með stefnu birtri þann 27. nóvember 2002 fyrir formanni stjórnar, Símoni I. Kærnested, kt. 180245-4999, Þrastanesi 16, Garðabæ fyrir hönd félagsins.
Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur að viðurkennt verði með dómi, að stefndi hafi brotið í bága við 1. gr. milliríkjasamnings milli Íslands og Bandaríkjanna frá 24. september 1986 til að auðvelda framkvæmd varnarsamnings ríkjanna, “Treaty Between the United States of America and the Republic of Iceland To Facilitate Their Defense Relationship”, með því að gera ekki sjálfur út skip til sjóflutninga fyrir varnarliðið milli Bandaríkjanna og Íslands.
Að viðurkennt verði með dómi, að stefndi sé skyldur að greiða 1% af öllum launum háseta á Bremer Uranus til Styrktar- og sjúkrasjóðs Sjómannafélags Reykjavíkur, skv. gr. 6.4. í kjarasamningi Sjómannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins frá 6. maí 2000.
Að viðurkennt verði með dómi, að stefndi sé skyldur til að greiða til Orlofsheimilasjóðs Sjómannafélags Reykjavíkur 0.25% af öllum launum háseta á Bremer Uranus skv. gr. 6.5 í kjarasamningi Sjómannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins frá 6. maí 2000. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi hefur aðallega krafist þess að öllum kröfum stefnanda verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefnandi gerir þá kröfu að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda vegna þessa þáttar málsins.
Málavextir eru þeir að þann 24. september 1986 gerðu íslensk og bandarísk stjórnvöld með sér samning um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna. Samningur þessi ber heitið Treaty Between the United States of America and the Republic of Iceland To Facilitate Their Defense Relationship. Þessum milliríkjasamningi fylgdi minniblað um framkvæmd og túlkun þessa samnings, sem er hluti milliríkjasamningsins og ber heitið Memorandum of Understanding Between the United States of America and the Republic of Iceland in Implementation of the Treaty to Facilitate Their Defense Relationship. Þessi milliríkjasamningur grundvallaðist á varnarsamningi milli lýðveldisins Íslands og Bandaríkja Ameríku á grundvelli Norður-Atlandshafssamningsins frá 5. maí 1951 og viðbæti við hann um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra frá 8. maí 1951, sem veitt var lagagildi með lögum nr. 110/1951.
Stefnandi kveður að samkvæmt milliríkjasamningnum frá 24. september 1986 skulu allir sjóflutningar fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli vera annars vegar í höndum íslensks skipafélags sem gerir sjálft út skip og hins vegar bandarísks skipafélags sem gerir út skip undir bandarískum fána. Í samningnum hafi komið fram að til þess að geta fengið íslenska hluta samningsins verði viðkomandi aðili að fullnægja tveimur skilyrðum sem séu alger forsenda þess að viðkomandi eigi rétt á að annast sjóflutningana. Annars vegar hafi verið um það að ræða að viðkomandi fyrirtæki sem annast íslenska hluta sjóflutninganna sé íslenskt fyrirtæki. Hins vegar að skip það sem íslenska fyrirtækið notar til flutninganna sé gert út af þessu sama íslenska skipafyrirtæki.
Kveður stefnandi að eftir útboð í september 1998 þar sem stefndi hafi boðið lægst hafi verið gerður samningur milli stefnda og bandarískra stjórnvalda um íslenska hluta sjóflutningasamningsins sem féll í hlut stefnda og hafi stefndi séð um íslenska hluta samningsins síðan þá. Stefndi sem sé íslenskt sjóflutningafyrirtæki hafi notað til flutninganna ýmis erlend skip sem stefndi hafi öll leigt á tímaleigu til þess að sinna þessu verkefni. Allir skipverjar þeirra skipa hafi verið erlendir, á erlendum launakjörum og ráðnir af útgerðarmanni skipsins sem jafnframt hafi verið eigandi þess. Skip í tímaleigu séu gerð út af eiganda þess enda sé það hann sem ræður útgerð skipsins, ræður skipverja til starfa og greiðir þeim laun og sér um útgerð skipsins að öllu leyti. Launakjör undirmanna á þessum erlendu tímaleigskipum sem stefndi hafi notað í þessa sjóflutninga fyrir varnarliðið hafa ýmist verið samkvæmt lágmarkskjörum Alþjóðaflutningaverkamannasambandsins (ITF) eða í samræmi við hollenska eða þýska sérsamninga.
Stefnandi kveður að hann sé eini kjarasamningsaðilinn sem semur um kjarasamninga undirmanna á kaupskipum og hafi stefnandi margoft kvartað yfir því við stefnda og utanríkisráðuneytið að með því að stefndi hafi notað skip í tímaleigu til flutninganna þá hafi stefndi ekki fullnægt því skilyrði sjóflutningasamningsins um að skip það sem notað sé til sjóflutninganna vegna íslenska hluta sjóflutningasamningsins sé gert út af íslenskum útgerðaraðila. Stefnandi hafi margoft bent stefnda á þá staðreynd að þetta skilyrði sjóflutningasamingsins hafi þá skuldbindingu í för með sér fyrir þann aðila sem hreppti íslenska hluta flutninganna að verða að greiða skipverjum skipsins laun í samræmi við íslenska kjarasamninga sbr. lög um starfskjör launþega nr. 55/1980 og 4. gr. l. nr. 35/1985 sem mæla fyrir um það að laun og önnur starfskjör sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um skulu vera lágmarkskjör. Breyti þá ekki hvort heldur íslenski flutningsaðilinn eigi sjálfur viðkomandi skip eða leigi skipið þurrleigu, hvort heldur íslenskt eða erlent og þá hvort heldur skipverjarnir séu íslenskir eða erlendir með ísl. atvinnuleyfi. Hafi skip verið leigt á þurrleigu sé það leigutakinn sem sé útgerðarmaður þess. Stefnandi hafi margoft reynt að leita liðsinnis utanríkisráðuneytisins í þessu máli vegna þessara brota stefnda á þessu ákvæði milliríkjasamningsins en án árangurs. Þann 23. nóvember 2001 hafi stefnandi sent ráðuneytinu stjórnsýslukæru vegna málsins en með bréfi ráðuneytisins dags. 30. janúar 2002 til stefnanda hafi ráðuneytið hafnað öllum afskiptum af málinu. Þá hafi stefnandi bent stefnda á skyldur sínar í þessum efnum. Þær ábendingar hafi ekki borið árangur. Stefnandi hafi þann 5. febrúar 2002 reynt að hindra uppskipun úr hollensku skipi með erlendri áhöfn sem stefndi hafi tekið á tímaleigu til að annast þessa sjóflutninga fyrir varnarliðið. Þann 6. febrúar 2002 hafi fulltrúi sýslumannsembættisins í Keflavík lagt lögbann á aðgerðir stefnanda. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur dags. 6. júní 2002 hafi málinu verið vísað frá. Þessar hindrunaraðgerðir stefnanda hafi verið framkvæmdar til þess að freista þess að knýja stefnda til að virða ákvæði sjóflutningasamningsins að gera sjálfur út skip þar sem launakjör áhafnar yrðu í samræmi við kjarasamninga íslenskra farmanna í stað þess að láta erlendan verktaka annast tilgreinda sjóflutninga gegn ákveðnu gjaldi þar sem leigutakinn kemur hvergi nálægt útgerð skipsins eins og í tilviki stefnda.
Stefndi kveður að hann hafi frá árinu 1998 annast sjóflutninga fyrir varnarliðið á Íslandi á grundvelli samnings við Bandaríkjaher að undangengnu útboði. Stefndi hafi við samningsgerðina fullnægt og fullnægi enn þann dag í dag öllum þeim skilyrðum sem sett séu í milliríkjasamningnum um hæfi farmflytjanda til þess að annast íslenska hluta varnarliðsflutninganna.
Kveður stefndi að fjölmörgum aðgerðum hafi verið hrint í framkvæmd með það að markmiði að taka umrædda flutninga af stefnda. Þar má nefna málarekstur í Bandaríkjunum sem hafi lyktað með því að stefndi var talinn hafa fullnægt öllum þeim skilyrðum sem honum hafi verið sett. Þá má nefna það að þess hafi verið freistað af hálfu íslenskra stjórnvalda að fá leitt í íslensk lög að meina Bandaríkjaher að framlengja samning sinn við stefnda og hafi í því skyni m.a. verið auglýst forval af Varnarmálaskrifstofu Utanríkisráðuneytisins. Vilji ráðuneytisins hafi staðið til þess að fá fram nýtt útboð enda hafi stefnda verið hafnað af hálfu forvalsnefndar við forvalið. Bandaríkjaher hafi hinsvegar framlengt samning sinn við stefnda án þess að ríkisstjórn Íslands hafi gert við það sérstakar athugasemdir.
Stefndi kveður að til þess að annast flutningana hafi hann leigt skip af erlendum skipaeigendum fyrir milligöngu skipamiðlara á tímaleigu þ.e.a.s. að stefndi hafi leigt skipin með áhöfn. Áhafnir skipanna hafi verið starfsmenn þeirra erlendu skipseigenda sem stefndi hafi leigt af skip hverju sinni. Stefndi hafi hinsvegar umfram skyldu sett það skilyrði að skipverjar leiguskipa stefnda hverju sinni njóti launakjara sem séu í samræmi við lágmarkskjör Alþjóðaflutningaverkamannasambandsins (ITF) og hafi viðsemjendur stefnda og vinnuveitendur skipverja fallist á þá kröfu og samið við skipverja um kjör á þeim nótum. Stefnandi hafi engu að síður verið í kjarabaráttu fyrir einhvern ótilgreindan hóp skipverja í þeirra óþökk gegn stefnda.
Stefnandi byggir á því að samkvæmt milliríkjasamningi milli Íslands og Bandaríkjanna frá 24. september 1986 svokölluðum sjóflutningasamningi hafi tvö skilyrði verið sett fyrir því að íslenskur aðili fái að annast sjóflutningana. Annars vegar að um sé að ræða íslenskt skipafyrirtæki og hinsvegar að viðkomandi skip sé gert út af íslenskum útgerðarmanni. Stefndi hafi fullnægt fyrra skilyrðinu en ekki því seinna. Stefndi hafi leigt erlent skip í tímaleigu en skip leigt tímaleigu sé gert út af eiganda þess og á ábyrgð hans og í eigin áhættu þess sem annast útgerð þess að öllu leyti svo sem að ráða áhöfn og greiða henni laun. Laun áhafnarinnar hafi verið mun lakari en laun samkvæmt kjarasamningum íslenskra farmanna.
Stefnandi byggir aðild sína að máli þessu á þeim forsendum að stefnandi sé eina stéttarfélag sjómanna á Íslandi sem hafi samið um kaup og kjör undirmanna á kaupskipum. Samkvæmt kjarasamningi stefnanda og Samtaka atvinnulífsins hafi fullgildir félagsmenn stefnanda forgangsrétt til starfa á kaupskipum á svæði sem stefndi starfar á sem jafnframt leiðir til þess að stefnandi hafi átt rétt á greiðslu félagsgjalda úr hendi háseta skipa stefnda sem hann gerði sjálfur út til flutninganna fyrir varnarliðið. Sama hafi átt við um sjóðagjöldin.
Þá byggir stefnandi á því að hann hafi lögvarða hagsmuni að fá leyst úr ágreiningi aðila, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Tilgangur stefnanda með máli þessu sé að fá neikvæðan viðurkenningardóm fyrir stefnukröfum sínum sem yrði grundvöllur fjárkröfu hans á hendur stefnda í kjölfarið. Það skiptir stefnanda miklu máli að fá niðurstöðu í þessu dómsmáli sem hann gæti byggt fjárkröfur sínar á hendur stefnda varðandi skyldu stefnda til að greiða skipverjum þeirra skipa sem honum hafi sjálfum verið skylt að gera út réttmæt og lögmæt laun skv. íslenskum kjarasamningum og jafnframt til að greiða til stefnanda lögboðin gjöld í styrktar- og sjúkrasjóð og orlofsheimilasjóð stefnanda, sbr. lög nr. 55/1980, einkum 6. gr. laganna. Þá hafi félagsmenn stefnanda væntanlega orðið af störfum á þessum skipum og stefnandi orðið af greiðslu félagsgjalda vegna brota stefnda á skilyrðum sjóflutningasamningsins.
Stefnandi byggir varnaraðild stefnda á því að stefndi sé eini aðilinn sem hafi brotið ákvæði sjóflutningasamningsins en það hafi aðrir aðilar ekki gert. Nái mál þetta fram að ganga fyrir stefnanda sem hér sé rekið þá munu fjárkröfur stefnanda í kjölfarið eingöngu beinast að stefnda en ekki öðrum aðilum.
Stefnandi byggir einnig á því að samkvæmt berum orðum sjóflutningasamningsins hafi stefnda borið skylda til að gera sjálfur út skip það sem notað yrði til sjóflutningana fyrir varnarliðið á Ísland en það hafi verið alger forsenda þess að stefndi myndi fá að annast þessa sjóflutninga. Vegna brota stefnda á skilyrðum sjóflutningasamningsins hafi stefnandi m.a. misst af tekjum í styrkjar og sjúkrasjóð og orlofsheimilasjóð stefnanda sem stefnandi mun síðar krefja stefnda um. Þá hafa félagsmenn stefnanda misst af atvinnutækifærum vegna þess að skipin hafa verið mönnuð erlendri áhöfn sem útgerðarmaður skipsins og eigandi hafi ráðið á skipið.
Aðalkrafa stefnda er sú að málinu verði vísað frá dómi og er einungis sú krafa hér til umfjöllunar. Því verða einvörðungu raktar þær málsástæður stefnda sem lúta að þeim þætti.
Stefndi byggir kröfu sína um frávísun málsins á því að fyrsta dómkrafa stefnanda sé ekki dómtæk og að hún sé sett fram sem lögspurning til dómsins og þegar af þeirri ástæðu beri að vísa henni frá dómi. Þá beri að líta til þess að stefnandi geti ekki átt lögvarinna hagsmuna að gæta af kröfunni að þessu leyti til og skorti því á skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Hér sé til þess að líta að stefnandi sé ekki aðili að milliríkjasamningi Íslands og Bandaríkjanna frá 24. september 1986, sbr. 2. ml. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála. Stefndi sé ekki heldur aðili að þessum samningi þ.a. útilokað sé fyrir stefnanda að setja fram kröfur af þessum meiði. Túlkun ákvæða samningsins og hugsanlegar deilur um framkvæmd hans séu þjóðréttarlegs eðlis. Útilokað sé að einstaklingar eða lögpersónur í öðru landinu geti borið túlkun um efni hans undir héraðsdóm í því landi. Jafnframt sé til þess að líta að stefnandi sé ekki heldur aðili að samningi flutningadeildar Bandaríkjahers og stefnda frá því í september 1998. Sé því útilokað fyrir stefnanda að höfða mál með þeim hætti sem hann hafi gert til túlkunar á framkvæmdasamningnum þ.e. þeim samningi sem stefndi hafi gert við flutningadeild Bandaríkjahers þar sem stefnandi sé ekki aðili að þeim samningi.
Stefndi byggir kröfu sína um frávísun málsins varðandi aðra og þriðju dómkröfu stefnanda á því að kröfugerðin sé að þessu leyti þess eðlis að Félagsdómur eigi að hafa um hana úrskurðarvald en ekki héraðsdómur. Stefnandi hafi krafist þess að stefndi greiði tiltekið hlutfall af launum skipverja í sjóð stefnanda samkvæmt ákvæðum kjarasamnings stefnanda við Samtök atvinnulífsins. Félagsdómur leysi úr málum sem rísa vegna meintra brota á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, sbr. lög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.
Þá byggir stefndi frávísunarkröfu sína á því að samkvæmt 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála megi ekki í dómi skírskota til sannana eða atvika sem kunna síðar að koma fram. Eins og dómkröfum stefnanda sé háttað fæst ekki séð hvernig ætti að komast hjá slíku ef þær yrðu teknar til greina þar sem þær séu háðar atvikum sem ekki hafi verið krafist úrlausnar á í þessu máli eins og því hvort stefnda beri að greiða sjómönnum þeim sem starfa á leiguskipum á vegum stefnda laun samkvæmt kjarasamningi Sjómannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins frá 6. maí 2000. Í því sambandi beri að líta til þess að í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála segir að ef mál sé höfðað til úrlausnar um rétt eða skyldu sem sóknaraðili játar eða sýnt sé á annan hátt að ekki sé enn orðin til þá skuli vísa máli frá dómi. Verður ekki annað séð en að þetta ákvæði eigi við hvað varðar aðra og þriðju dómkröfu stefnanda þ.e.a.s. þess sé krafist að stefndi sé skyldur að greiða eftir kjarasamningi sem stefndi eigi enga aðild að.
Niðurstaða
Þann 24. september 1986 gerðu íslensk og bandarísk stjórnvöld með sér samning um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi ríkjanna “Treaty Between the United States of America and the Republic of Iceland To Facilitate Their Defense Relationship” Á grundvelli samningsins fór fram útboð af hálfu Bandaríkjahers árið 1998 um sjóflutninga fyrir varnarliðið á Íslandi. Stefndi var lægstbjóðandi í íslenska hluta flutninganna og hefur annast þá allar götur síðan á grundvelli samnings við flutningsdeild Bandaríkjahers. Til að annast flutningana hefur stefndi leigt skip af erlendum skipaeigendum fyrir milligöngu skipamiðlara á tímaleigu, þ.e.a.s að stefndi hefur leigt skipin með áhöfn. Með því að leigja skip í tímaleigu til flutninganna í stað þess að gera þau út sjálfur er stefndi að mati stefnanda að brjóta í bága við 1. gr. milliríkjasamningsins milli Íslands og Bandaríkjanna frá 24. september 1986.
Fyrsta og aðalkrafa stefnanda er orðuð sem viðurkenningarkrafa. Stefndi hefur haldið því fram að þessi krafa sé sett fram sem lögspurning til dómsins og þegar af þeirri ástæðu beri að vísa henni frá dómi. Þá geti stefnandi ekki átt lögvarinna hagsmuna að gæta af fyrstu kröfu stefnanda um að viðurkennt verði með dómi að stefndi hafi brotið í bága við 1. gr. milliríkjasamnings milli Íslands og Bandaríkjanna frá 24. september 1986 og skorti því á skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um að sá einn sem eigi lögvarða hagsmuni af því að skorið verði úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands geti leitað viðurkenningardóms um kröfur sínar í þeim efnum. Aðrar kröfur stefnanda eru kröfur sem leiða beint af kröfu hans um viðurkenningu á að stefndi hafi brotið í bága við 1. gr. milliríkjasamnings milli Íslands og Bandaríkjanna frá 24. september 1986. Stefndi hefur haldið því fram hvað þessa kröfuliði varðar að kröfugerðin sé að þessu leyti þess eðlis að Félagsdómur eigi að hafa um hana úrskurðarvald en ekki hérðasdómur.
Stefnandi er ekki aðili að milliríkjasamningi Íslands og Bandaríkjanna frá 24. september 1986 en í málinu er krafist viðurkenningar á því að stefndi hafi brotið í bága við 1. gr. þess samnings. Stefndi er ekki heldur aðili að þeim samningi. Þá er stefnandi ekki aðili að samningi flutningadeildar Bandaríkjahers og stefnda frá því í september 1998 en á grundvelli þess samnings hefur stefndi annast sjóflutninga fyrir varnarliðið á Íslandi síðan 1998. Þá er heldur ekki að sjá af gögnum málsins að neinir tilteknir félagsmenn stefnanda hafi orðið af störfum á skipum sem stefndi hefur leigt til sjóflutninganna fyrir varnarliðið á Íslandi og stefnandi þannig orðið af greiðslu félagsgjalda.
Samkvæmt því sem að framan segir hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann eigi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr stefnukröfum sínum fyrir dómstólum. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki hjá því komist að vísa öllum kröfum stefnanda frá dómi.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda kr. 130.000,- í málskostnað.
Úrskurð þennan kveður upp Guðmundur L. Jóhannesson, héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Sjómannafélag Reykjavíkur, greiði stefnda, Atlantsskipum ehf., kr. 130.000,- í málskostnað.