Hæstiréttur íslands
Mál nr. 462/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 29. nóvember 1999. |
|
Nr. 462/1999. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Karl G. Sigurbjörnsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður l. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. nóvember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 14. desember nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 1999.
Ár 1999, þriðjudaginn 23. nóvember er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara, kveðinn upp úrskurður um kröfu lögreglustjórans í Reykjavík að [...] verði látinn sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 14. nóvember 1999, kl. 16,00.
Málavextir.
Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að kærði í máli þessu, [...], verði látinn sæta gæsluvarðhaldi áfram til þriðjudagsins 14. desember nk., kl. 14.00 vegna gruns um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti sem varðað geti við 173. gr. a almennra hegningarlaga.
[...]
Niðurstaða.
Kærði hefur viðurkennt að vera riðin við stórfellt fíkniefnabrot. Rannsókn málsins er ekki lokið og ber mikið á milli kærða og annarra sem grunaðir eru í málinu. Þá er eftir að afla gagna í því frá [...]. Þykir vera hætta á því að kærði geti spillt fyrir rannsókn málsins svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum eða hafa áhrif á vitni eða samseka, fái kærði að ganga laus. Ber því og með heimild í a - lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála að ákveða að hann sæti gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 14. nóvember 1999, kl. 16,00.
Úrskurðarorð:
Kærði, [...], sæti gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 14. desember 1999, kl. 16.00.