Hæstiréttur íslands
Mál nr. 42/2007
Lykilorð
- Nytjastuldur
- Þjófnaður
- Skjalafals
- Fjársvik
- Umferðarlagabrot
- Fíkniefnalagabrot
- Svipting ökuréttar
- Upptaka
- Skaðabætur
- Vanaafbrotamaður
- Reynslulausn
- Skilorðsrof
|
|
Fimmtudaginn 3. maí 2007. |
|
Nr. 42/2007. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari) gegn Garðari Garðarssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Nytjastuldur. Þjófnaður. Skjalafals. Fjársvik. Umferðarlagabrot. Fíkniefnalagabrot. Svipting ökuréttar. Upptaka. Skaðabætur. Vanaafbrotamaður. Reynslulausn. Skilorðsrof.
G var sakfelldur fyrir nytjastuld, þjófnað, skjalafals, fjársvik, umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot. Við ákvörðun refsingar var m.a. litið til langs sakaferils G, ítrekunar, langrar brotahrinu, einbeitts brotavilja og þess að hann reyndi eftir fremsta megni að hylja slóð sína. Þá rauf hann með brotum sínum skilyrði reynslulausnar á eftirstöðvum 900 daga refsingar samkvæmt eldri dómi og var hún tekin upp og dæmd með. Refsing G var ákveðin fangelsi í 5 ár en til frádráttar henni kom gæsluvarðhald sem hann hafði sætt. Þá var G sviptur ökurétti ævilangt, gert að sæta upptöku fíkniefna og að greiða nánar tilgreindum aðilum skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 9. janúar 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu en þyngingar á refsingu. Þá er þess krafist að niðurstaða héraðsdóms um greiðslu skaðabóta verði staðfest.
Ákærði krefst sýknu af 1. til 5. tölulið ákæru að undanskildum ölvunarakstri og hraðakstri samkvæmt ákærulið 5.1. Að öðru leyti krefst hann mildunar refsingar og að gæsluvarðhald sem hann sætti frá 18. febrúar 2006 til 22. sama mánaðar, og frá 15. september 2006, komi til frádráttar henni. Ennfremur krefst hann þess að bótakröfum Olíuverslunar Íslands hf. og Kaupfélags Héraðsbúa verði vísað frá dómi.
Fyrir Hæstarétti hefur ekki verið gerð krafa um endurskoðun á ákvæði hins áfrýjaða dóms um ævilanga sviptingu á ökurétti ákærða og stendur það því óraskað.
Þá hefur ekki verið krafist endurskoðunar á ákvæðum héraðsdóms um upptöku fíkniefna og heldur ekki um frávísun skaðabótakrafna Landsbanka Íslands hf., Skeljungs hf. og Visa Ísland Greiðslumiðlunar hf. Standa þau því óröskuð.
Með hliðsjón af 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans um ákærulið 5.2 staðfest.
Í ákærulið 2.2 er ákærða gefið að sök að hafa átt þátt í innbroti í söluskála SJ að Búðavegi 60 á Fáskrúðsfirði 16. febrúar eða aðfararnótt 17. febrúar 2006 og þjófnaði úr skálanum og hraðbanka í eigu Landsbanka Íslands hf. sem þar var að finna. Var hann sakfelldur fyrir þetta brot í héraði meðal annars með vísan til þess að skófar hefði fundist á vettvangi innbrotsins sem verið gæti undan skóm þeim sem ákærði var í þegar hann var handtekinn á Akureyri að morgni 17. febrúar 2006. Rannsóknargögn málsins um skófar þetta eru misvísandi með þeim hætti að sakfelling ákærða verður ekki á þessu reist. Önnur atriði sem talin eru fram í héraðsdómi til stuðnings þessari sönnunarfærslu eru á hinn bóginn fullnægjandi til sakfellingar ákærða fyrir brot samkvæmt þessum ákærulið og verður dómurinn því staðfestur um það efni.
Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða fyrir þau brot sem málskotið tekur til og um heimfærslu þeirra til refsiákvæða.
Við meðferð málsins í héraði lágu ekki fyrir upplýsingar um þrjá dóma sem ákærði hlaut í Danmörku á árunum 1993 og 1994 fyrir ýmis hegningarlagabrot, þar á meðal auðgunarbrot. Var honum með þessum dómum gert að sæta fangelsisrefsingu í samtals fimm ár og níu mánuði. Ákærði var 18. febrúar 2000 dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í þriggja ára fangelsi fyrir þjófnað, tilraun til þjófnaðar og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Var þeim dómi ásamt dómi Héraðsdóms Suðurlands 7. apríl 2000 áfrýjað til Hæstaréttar sem kvað upp dóm sinn 26. október 2000. Þá var sátt sem gerð var 13. nóvember 2000 vegna umferðarlagabrots en ekki fíkniefnalagabrots, eins og segir í héraðsdómi. Þá var ákærði dæmdur í þriggja ára fangelsi með dómi Hæstaréttar 29. nóvember 2001 en ekki í janúar það ár eins og talið er í héraðsdómi og var ákærði þá sakfelldur fyrir líkamsárás og tilraun til þjófnaðar. Sakarferli ákærða er um annað rétt lýst í héraðsdómi. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms og 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 verður hann staðfestur um refsingu ákærða. Þá verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um skaðabætur til Kaupfélags Héraðsbúa og Olíuverslunar Íslands hf.
Niðurstaða héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málflutningslaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, Garðars Garðarssonar, sviptingu ökuréttar, upptöku fíkniefna, greiðslu skaðabóta og sakarkostnað.
Til frádráttar refsivist ákærða komi gæsluvarðhald hans 18. febrúar 2006 til 22. febrúar 2006 og frá 15. september 2006 til dómsuppsögu Hæstaréttar.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 461.702 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 22. nóvember sl., er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 27. október 2006 á hendur Garðari Garðarssyni, kt. 100165-4499, óstaðsettum í hús, Kópavogi, fyrir eftirtalin brot framin á árinu 2006:
1.
Nytjastuldi:
1.1
Mánudaginn 21. ágúst heimildarlaust ekið bifreiðinni SF-254, sem tekin var af bílasölunni Toyotasalanum í Reykjanesbæ, frá Reykjavík að Reykjanesbraut við Garðskagaveg þar sem bifreiðin endaði utan vegar.
1.2
Miðvikudaginn 13. september á bifreiðarstæði við Bílasöluna Bílavík að Njarðarbraut 1 í Reykjanesbæ heimildarlaust tekið bifreiðina PO-075 og ekið henni að Urðarstíg í Reykjavík þar sem lögregla stöðvaði aksturinn fimmtudaginn 14. september.
Eru brot þessi talin varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2.
Þjófnaði:
2.1
Fimmtudaginn 16. febrúar í versluninni Sparkaup á Fáskrúðsfirði stolið kr. 12.000 í reiðufé og lyklum.
2.2
Fimmtudaginn 16. febrúar eða aðfaranótt föstudagsins 17. febrúar í félagi við A [kennitala] og hugsanlega fleiri menn brotist inn í söluskála SJ að Búðavegi 60 á Fáskrúðsfirði með því að spenna upp hurð og stolið sígarettukartonum, kortum með símainneign að verðmæti kr. 226.440, happdrættisskafmiðum að verðmæti kr. 78.050, 2 stafrænum myndavélum, 16 úrum, arabískum peningaseðli, tékkneskum peningaseðli, hamri og alls kr. 802.000 í reiðufé, þar af kr. 744.000 úr hraðbanka í eigu Landsbanka Íslands sem spenntur var upp, en stór hluti þýfisins fannst á hótelherbergi nr. 307 á Hótel KEA, Akureyri, þar sem ákærði var handtekinn af lögreglu.
2.3
Laugardaginn 29. apríl brotist inn á skrifstofur á hótel Radisson SAS 1919 við Pósthússtræti í Reykjavík með því að spenna upp hurðir og stolið fartölvu, spennugjafa, áfengi og aðgangskortum, samtals að verðmæti um kr. 150.000.
2.4
Sunnudaginn 20. ágúst á bensínafgreiðslustöð Olís við Sæbraut í Reykjavík stolið kortum með símainneign, samtals að verðmæti kr. 500.000.
2.5
Mánudaginn 4. september á starfsmannasvæði veitingastaðarins TGI Fridays í Smáralind í Kópavogi stolið farsíma og kortaveski sem innihélt greiðslukort og skilríki.
Eru brot þessi talin varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
3.
Skjalafals, með því að hafa sama dag í félagi við B [kennitala] svikið út vörur og þjónustu á eftirgreindum stöðum í Reykjavík með því að framvísa þar heimildarlaust greiðslukortum C [kennitala], en B falsaði nafn hennar undir nótur, og láta skuldfæra andvirðið á reikning hennar:
3.1 Lukkusmáranum, Smáralind í Kópavogi, andvirði kr. 25.000 í 2 færslum.
3.2 Catalinu, Hamraborg 11 í Kópavogi, andvirði kr. 39.100 í 3 færslum.
3.3 Háspennu, Laugavegi 118 í Reykjavík, andvirði kr. 30.000 í 2 færslum.
3.4 Vínbúðinni, Smáralind í Kópavogi, andvirði kr. 9.319.
Eru brot þessi talin varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga.
4.
Fjársvik, með því að hafa sama dag í félagi við B í eftirgreind skipti svikið út vörur og þjónustu með því að hringja í þjónustuver símafyrirtækja og greitt fyrir símainneign með því að gefa heimildarlaust upp númer á greiðslukorti C:
4.1 Hringt í Og vodaphone, inneign að andvirði kr. 5.000 inn á símanúmerið [...] í eigu B.
4.2 Hringt í Símann, inneign að andvirði kr. 5.000 inn á símanúmerið [...] í eigu ákærða.
Er þetta talið varða við 248. gr. almennra hegningarlaga.
5.
Umferðarlagabrot:
5.1
Laugardaginn 29. júlí ekið bifreiðinni YZ-091 sviptur ökuréttindum og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 0,90) með 113 km hraða á klst. á Reykjanesbraut við Hvassahraun, þar sem leyfður hámarkshraði var 90 km á klst.
5.2
Mánudaginn 21. ágúst ekið bifreiðinni SF-254 sviptur ökuréttindum og ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa amfetamíns, MDMA, metýlfenidat og kókaíns frá Reykjavík að Reykjanesbraut við Garðskagaveg þar sem bifreiðin endaði utan vegar.
5.3
Föstudaginn 8. september ekið bifreiðinni JG-727 sviptur ökuréttindum og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 0,94) um Njarðvíkurveg í Reykjanesbæ.
5.4
Mánudaginn 11. september ekið bifreiðinni MZ-967 sviptur ökuréttindum norður Hringbraut í Reykjanesbæ.
5.5
Fimmtudaginn 14. september ekið bifreiðinni PO-075 sviptur ökuréttindum vestur Bergþórugötu og að Urðarstíg þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.
Er brotið í lið 5.1 talið varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr., 37. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr., brotið í lið 5.2 við 2. mgr. 44. gr. a, brotið í lið 5.3 við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr. og brotin í liðum 5.4 og 5.5 eru talin varða við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006
6.
Fíkniefnalagabrot:
6.1
Föstudaginn 17. febrúar á Hótel KEA að Hafnarstræti 89 á Akureyri haft í vörslum sínum 2,54 g af kókaíni.
6.2
Laugardaginn 29. apríl í Smáralind í Kópavogi haft í vörslum sínum 6,51 g af hassi, 2,66 g af kókaíni og 3,63 g af amfetamíni.
6.3
Mánudaginn 8. maí á veitingastaðnum Monakó að Laugavegi 78 í Reykjavík haft í vörslum sínum 1,62 g af amfetamíni sem lögregla fann við leit.
6.4
Laugardaginn 29. júlí í bifreiðinni JG-727 á Njarðvíkurvegi í Reykjanesbæ verið með í vörslum sínum 4 töflur með vímuefninu MDMA sem lögregla fann við leit á lögreglustöð.
6.5
Mánudaginn 21. ágúst á Reykjanesbraut við Garðskagaveg haft í vörslum sínum 5,24 g af hassi.
Þetta er talið varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. og 6. gr. sömu laga, varðandi meðferð ákærða á kannabis, MDMA og kókaíni, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002, sbr. auglýsingu nr. 232/2001, að því er varðar meðferð ákærða á kókaíni.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006. Þá er þess krafist að upptæk verði gerð framangreind fíkniefni, sem lagt var hald á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.
Í málinu krefjast eftirtaldir aðilar þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta:
1.
Landsbanki Íslands hf., kt. 550873-0449, að fjárhæð kr. 1.608.997 auk vaxta samkvæmt 8. og 9. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá tjónsdegi 17. febrúar til 27. mars 2006, en dráttarvaxta frá þeim degi samkvæmt III. kafla sömu laga til greiðsludags.
2.
Skeljungur hf., kt. 590269-1749, að fjárhæð kr. 300.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá tjónsdegi þann 17. febrúar 2006 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr, sbr. 9. gr., sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
3.
Kaupfélag Héraðsbúa, kt. 680169-6249, að fjárhæð kr. 12.000 auk vaxta samkvæmt 8. og 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá tjónsdegi 16. febrúar 2006, en síðan dráttarvaxta samkvæmt III. kafla sömu laga til greiðsludags.
4.
Olíuverzlun Íslands hf., kt. 500269-3249, að fjárhæð kr. 421.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. um vexti og verðtryggingu frá tjónsdegi sem var 20. ágúst 2006 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
5.
Visa Ísland, kt. 500683-0589, að fjárhæð kr. 94.100 auk vaxta og dráttarvaxta skv. 7. og 15. gr., sbr. 10. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987 til greiðsludags.
Verjandi ákærða krefst þess að ákærða verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa og að skaðabótakröfum verði vísað frá dómi. Þá krefst hann málsvarnarlauna sér til handa.
Ákæruliðir 1.1. og 5.2
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá 21. ágúst 2006 barst tilkynning frá Fjarskiptamiðstöð lögreglu þann dag kl. 06.10 um að bílvelta hefði orðið á Reykjanesbraut við Rósaselstorg. Hafi lögregla ekið með forgangsljósum á vettvang, en í tilkynningu hafi komið fram að ökumaður væri fastur í bifreiðinni. Á vettvangi hafi bifreiðin SF-254 verið á vinstri hlið um 30 metra fyrir utan veg. Greinileg hjólför hafi verið eftir bifreiðina og ljóst að henni hafi verið ekið norður Reykjanesbraut. Ökumaður bifreiðarinnar, ákærði í máli þessu, hafi enn verið í bifreiðinni og virst óslasaður. Hafi hann komið sjálfur út úr bifreiðinni og sjúkraflutningamenn enga ástæðu talið til að flytja hann á sjúkrahús. Hafi ákærði greint lögreglu frá því að kunningi ákærða ætti bifreiðina. Á meðan lögregla hafi verið að vinna á vettvangi hafi annar ökumaður gefið sig á tal við lögreglu og greint frá því að bifreiðinni SF-254 hafi verið ekið fram úr bifreið sinni og hafi henni sennilega verið ekið á um 150 km hraða á klst. Fram kemur að ákærði hafi verið færður á heilsugæslustöð þar sem læknir hafi skoðað hann. Eftir skoðun hafi læknirinn metið ákærða óhæfan til aksturs sökum lyfjaneyslu. Tekin hafi verið úr ákærða sýni til rannsóknar kl. 07.21. Við skoðun hafi komið í ljós að ákærði hafi verið sviptur ökuréttindum frá 29. apríl 2006. Við skoðun á bifreiðinni SF-254 hafi komið í ljós haglabyssa í aftursæti, sem hafi verið með afsöguðu hlaupi. Eitt haglaskot hafi verið í farangursrými bifreiðarinnar. Við eftirgrennslan lögreglu hafi komið í ljós að bifreiðin SF-254 hafi verið á bifreiðasölunni Toyotasalnum í Reykjanesbæ. Haft hafi verið samband við D hjá bifreiðasölunni og hafi hann greint lögreglu frá því að einstaklingur hafi reynsluekið bifreiðinni um tveimur vikum fyrir atburðinn. Við athugun hafi komið í ljós að lyklum að bifreiðinni hafi verið skilað en ekki bifreiðinni sjálfri.
D mætti á lögreglustöð síðar sama dag og lagði fram kæru vegna stuldar á bifreiðinni SF-254. Greindi hann frá því að hann hafi ekki orðið var við neitt óeðlilegt fyrr en lögregla hafi hringt til að grennslast fyrir um bifreiðina SF-254. Um tveimur vikum fyrir atburðinn hafi einstaklingur komið á bifreiðasöluna og fengið lánaða lykla að bifreiðinni SF-254. Lyklunum hafi verið skilað síðar sama dag. Við fyrirspurn lögreglu hafi verið aðgætt með lykla að bifreiðinni og þá komið í ljós að svo virtist sem skipt hafi verið um lykla á lyklakippu bifreiðarinnar. Þar sem ekki hafi verið farin eftirlitsferð um svæði bifreiðasölunnar hafi þjófnaður á bifreiðinni ekki uppgötvast.
Í lögregluskýrslu frá 30. ágúst 2006 kemur fram að lögregla hafi haft samband við skráðan eiganda bifreiðarinnar SF-254, E. Hafi E komið á lögreglustöð og gefið lögreglu þær upplýsingar að bifreiðin hafi verið í vörslu Toyotaumboðsins í Njarðvík en hún hafi verið þar til sölu. Bæði lyklasett bifreiðarinnar hafi átt að vera í vörslu bifreiðasölunnar.
Ákæruvald hefur lagt fram sem dskj. nr. 18 yfirlýsingu D framkvæmdastjóra Æco-Toyota í Reykjanesbæ, í tölvupósti frá 3. nóvember 2006. Í yfirlýsingunni kemur fram að bifreiðin SF-254 sé af gerðinni Santa Fe. Listaverð bifreiðarinnar sé 2.130.000 krónur en hafi verið á þeim tíma sem bifreiðin hafi verið tekin ófrjálsri hendi um 2.200.000 krónur.
Á dskj. nr. 16 liggur fyrir mat Davíðs Þórs Bragasonar læknis frá 21. ágúst 2006 á ákærða. Matið hafi verið framkvæmt kl. 07.00 þann dag. Í matinu kemur fram að ákærði hafi verið sljór, áttaður á tíma og stað, að hluta verið með eðlileg svipbrigði, eðlileg augu og ljósop og eðlileg viðbrögð við ljósi. Hann hafi verið aðeins óöruggur við gang eftir beinni línu. Ákærði hafi verið aðeins óöruggur á Skerptum Romberg. Í fingri-nef prófi hafi ákærði verið öruggur og ekki verið með skjálfta. Innri klukka hafi verið eðlileg en ákærði sljór eða svipbrigðalítill. Hafi hann verið óþolinmóður og fremur stuttur í honum þráðurinn. Málfar hafi verið eðlilegt að hluta. Hafi það verið niðurstaða Davíðs Þórs að ákærði hafi verið nokkuð undir áhrifum og hafi læknirinn byggt það á því að ákærði hafi verið haldinn sljóleika, einbeitingarskorti og verið með skerta dómgreind. Hafi skoðun samrýmst inntöku örvandi og róandi lyfja samtímis.
Rannsóknarstofa í lyfja- og eiturefnafræðum hefur 25. september 2006 ritað matsgerð vegna rannsóknar á sýnum er tekin voru úr ákærða í framhaldi af handtöku. Fram kemur að alkóhól hafi ekki mælst í blóði. Í þvagi hafi fundist amfetamín, MDMA og kókaín. Í blóði hafi magn amfetamíns mælst 45 ng/ml, MDMA hafi mælst 175 ng/ml og magn kókaíns 15 ng/ml. Metýlfenídat (Ritalin) hafi fundist í þvagi en ekki verið mælanlegt í blóði. Tetrahýdrókannabínól (hið virka efni í kannabis) eða alprazólam (Paxal) hafi ekki verið mælanlegt í blóði. Amfetamín, MDMA, metýlfenídat og kókaín séu í flokki ávana- og fíkniefna sem séu óheimil á íslensku forráðasvæði. Ökumaður teljist því hafa verið óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega þegar blóðsýnið hafi verið tekið, sbr. 45. gr. a umferðarlaga, nr. 50/1987. Tími sá sem liðið hafi frá því akstur ökumann hafi verið stöðvaður þar til blóðsýni hafi verið tekið breyti ekki niðurstöðu matsins.
Í rannsóknargögnum máls nr. 035-2006-8738 er yfirlit Sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli um ökuréttindi ákærða. Fram kemur að ákærði hafi fengið útgefið ökuskírteini 13. júní 2006 og það verið afhent eiganda 21. júní 2006. Á skjali nr. 13, bls. 1 er bráðabirgðaakstursheimild sem gefin hefur verið út til ákærða af lögreglustjóranum í Reykjavík 19. apríl 2006. Þá hefur bráðabirgðaakstursheimild aftur verið gefin út 8. júní 2006. Að lokum liggur frammi í rannsóknargögnum þess máls endurrit dóms í máli nr. S-364/2006 í máli ákæruvaldsins gegn ákærða, sem upp hefur verið kveðinn 10. apríl 2006. Samkvæmt dómsorði héraðsdóms var ákærði þann dag dæmdur til greiðslu sektar. Jafnframt var ákærði sviptur ökurétti í þrjú ár frá birtingu dómsins að telja. Dómur þessi er áritaður um birtingu í Kópavogi 29. apríl 2006. Undirritun ber með sér að dómfelldi hefur ritað undir dóminn í viðurvist Aðalsteins Aðalsteinssonar lögreglumanns. Undirritun ber með sér að ákærði unir niðurstöðu dómsins.
Ákærði var yfirheyrður um sakarefnið af hálfu lögreglu í framhaldi af handtöku. Við yfirheyrslu bar ákærði að vinur sinn, F væri eigandi bifreiðarinnar SF-254. Hafi ákærði hitt F á veitingastað í Hafnargötu í Keflavík. Ákærði þekkti sig ekki vel til í bæjarfélaginu og gæti því ekki sagt til um hvað veitingastaðurinn héti. Á mánudeginum 21. ágúst 2006 hafi ákærði verið að koma á bifreiðinni frá Reykjavík, en þar hafi hann verið á einhverjum skemmtistað. Ákærði og F hafi verið í Reykjavík til að ná í tölvur. Ákærði hafi skilið F eftir í Reykjavík hjá kærustu F og ekið einn Reykjanesbraut til suður. F þekkti ákærði lítið en hann ætti heima í Reykjanesbæ. Aðspurður um haglabyssu er fannst í bifreiðinni bar ákærði að nefndur F væri eigandi að byssunni. F hafi sýnt ákærða byssuna og hún greinilega verið biluð. Ákærði kvaðst vera í mikilli fíkniefnaneyslu um þessar mundir en hann hafi nýlega fallið. Ákærði kvaðst telja að hann hafi sofnað við aksturinn. Er hann var inntur eftir því hvort hann hafi neytt ólöglegra fíkniefna áður en hann hafi ekið bifreiðinni kvaðst ákærði hafa neytt kókaíns, ectasy, auk þess sem hann hafi drukkið eitthvað af bjór. Er ákærða var gerð grein fyrir að bifreiðin SF-254 hafi verið tekin ófrjálsri hendi við Toyotasalinn í Reykjanesbæ kvaðst ákærði ekki hafa gert það.
Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi kvaðst ákærði um atvik vilja vísa til skýrslu sinnar hjá lögreglu. Kvaðst ákærði ekki hafa frekari upplýsingar en hann hafi áður gefið um nefndan F. Kvaðst ákærði vilja ítreka að hann hafi á þessum tíma verið búinn að vera í mikilli fíkniefnaneyslu í um 4 til 6 mánuði. Þá væri hann að auki með lélegt minni. F hafi ákærði hitt á bar en hann hafi ætlað að hitta hann í Keflavík. Um nánari staðsetningu veitingastaðarins kvaðst ákærði ekki muna hvar hafi verið. F hafi sennilega verið með símanúmer hjá ákærða og þannig sett sig í samband við hann. Ákærði hafi verið með bifreiðina SF-254 frá því kvöldinu fyrir þann atburð er hann hafi velt bifreiðinni. Ákærði og F hafi verið samferða til Reykjavíkur. F hafi orðið eftir og ákærði því verið einn á ferð er hann hafi ekið suður Reykjanesbraut.
Ákærði kvaðst neita því að hafa ekið bifreiðinni SF-254 sviptur ökuréttindum og ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa amfetamíns, MDMA, Metýlfenidat og kókaíns. Kvaðst ákærði ekki hafa litið svo á að hann hafi verið próflaus á þessum tíma þar sem hann hafi fengið útgefið nýtt ökuskírteini hjá lögreglu. Hafi hann tekið við nýja skírteininu og því ekið bifreiðinni í þeirri trú að hann hafi verið með gild ökuréttindi. Lögregla hafi tekið hið nýja skírteinið af ákærða 21. ágúst 2006. Ákærði kvaðst hafa neytt fíkniefna deginum á undan en þau hafi verið hætt að hafa áhrif þegar hann hafi ekið bifreiðinni. Hann hafi einfaldlega sofnað undir stýri.
Jakob Kristinsson, dósent á Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum, staðfesti matsgerð rannsóknarstofunnar og greindi frá helstu niðurstöðum hennar. Kvað hann magn amfetamíns og kókaíns í blóði ákærða hafa verið mjög lítið og að það hefði ekki verið nægjanlegt til að uppfylla skilyrði eldri ákvæða umferðarlaga um akstur undir áhrifum lyfja, sem birst hafi í 44. gr. laganna. Lítið væri hins vegar vitað um virkni MDMA og því erfitt að meta undir hve miklum áhrifum ákærði hafi verið við aksturinn. Því væri t.a.m. ekki unnt að segja til með vissu um að hvaða marki neytendur þeirra efna mynduðu þol gagnvart efninu.
Aðalsteinn Aðalsteinsson rannsóknarlögreglumaður staðfesti fyrir dómi að hafa birt dóm í máli nr. S-364/2006 frá 10. apríl 2006 fyrir ákærða og að birtingin hafi farið fram 29. apríl 2006.
Niðurstaða:
Ákærði neitar sök og ber að hann hafi fengið bifreiðina SF-254 að láni hjá vini sínum, tilteknum F. Ákærði hefur ekki getað gert frekari grein fyrir nefndum F, svo sem eftirnafni hans eða hvar hann búi. Þá hefur ákærði engar upplýsingar um símanúmer hjá honum en kveður F sennilega hafa haft samband við ákærða að fyrra bragði. Þeir hafi síðan hist á bar í Hafnargötu í Keflavík. Ekki kvaðst ákærði geta gert grein fyrir þeim stað að öðru leyti. Þá hefur ákærði borið að hann hafi ekki ekið bifreiðinni sviptur ökurétti þar sem hann hafi þá fengið útgefið ökuskírteini hjá lögreglustjóranum í Reykjavík 13. júní 2006. Hafi ökuskírteinið verið tekið af ákærða við lögregluyfirheyrslu 21. ágúst 2006.
Ákærði hefur viðurkennt að hafa átt við mikinn fíkniefnavanda að stríða á tíma er sakarefni þessa ákæruefnis tekur til, en neysla hans hafi verið umtalsverð í um 4 til 6 mánuði þegar þar var komið sögu. Ákærði á ekki flekklausan sakaferil að baki. Á árinu 1983 var hann m.a. sakfelldur fyrir nytjastuld. Var hann aftur sakfelldur fyrir nytjastuld í október 1984 og síðan á ný í nóvember 1990. Að mati dómsins er framburður ákærða um afnot af bifreiðinni SF-254 ótrúverðugur. Hefur hann gefið skýringu á því með hvaða hætti hann hafði afnot af bifreiðinni sem ekki er unnt að sannreyna. Hefur hann hvorki getað gert viðhlítandi grein fyrir því hver lánaði honum bifreiðina, né hvernig unnt sé að hafa upp á þeim manni. Í ljósi alls þessa, sem og framburðar eiganda bifreiðarinnar og framkvæmdastjóra bifreiðasölunnar Toyotasalarins í Reykjanesbæ um heimildarlausa töku á bifreiðinni, er það niðurstaða dómsins að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði sé sannur að því að hafa brotið gegn 1. mgr. 259. gr. laga nr. 19/1940.
Í gögnum málsins liggur fyrir matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum um magn ólöglegra ávana- og fíkniefna er mældust í blóði ákærða eftir aksturinn. Þá liggur fyrir það mat læknis að ákærði hafi verið ófær um að stjórna bifreið örugglega. Byggir læknirinn það mat sit á viðtali við ákærða á lögreglustöð. Með lögum nr. 6/2006, sem samþykkt voru á Alþingi 3. júní 2006, var sú breyting gerð á ákvæðum umferðarlaga að tekin var upp ný grein, 45. gr. a. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins telst ökumaður vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega, mælist ávana- og fíkniefni skv. 1. mgr. í blóði eða þvagi ökumanns. Fyrir liggur að svo var í máli þessu. Í ákæru er brotið talið varða við 2. mgr. 44. gr. a. umferðarlaga. Hér hefur augljóslega misritast í ákæru heimfærsla til ákvæðis, því það ákvæði á við um aksturs- og hvíldartíma ökumanna. Verður þetta ekki til þess að áfall verði ekki dæmt, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991. Þá er verknaðarlýsing í ákæru um þetta ekki því til fyrirstöðu að sakfellt verði fyrir lyfjaakstur. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt þessum tölulið ákæru fyrir brot gegn 2. mgr. 45. gr. a. laga nr. 50/1987.
Ákærða er að auki gefi að sök að hafa ekið bifreiðinni sviptur ökuréttindum. Í gögnum málsins liggur fyrir óræk sönnun þess að ákærða var 29. apríl 2006 birtur dómur þar sem hann var sviptur ökurétti í 3 ár frá birtingu dómsins. Lýsti hann yfir að hann myndi una þeim dómi. Ákærði sótti um bráðabirgðaökuréttindi í tvígang árið 2006, eftir að honum hafði verið birtur dómurinn. Sakavottorð ákærða ber með sér að ákærði hefur margítrekað verið dæmdur fyrir brot gegn ákvæðum umferðarlaga sem hefur haft í för með sér sviptingu ökuréttar. Var honum því ljóst að til þess gat ekki komið að hann fengi útgefin gild ökuréttindi á nýjan leik á árinu 2006. Háttsemi þessi er hins vegar ekki færð til 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga í ákæru. Það varnar hins vegar ekki því að áfall verði dæmt þar sem verknaðarlýsing ákæru tilgreinir skýrlega að ákærði hafi ekið bifreiðinni sviptur ökuréttindum. Verður hann því einnig sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga.
Ákæruliðir 1.2. og 5.5.
Miðvikudaginn 13. september 2006 kl. 18.45 barst lögreglunni í Keflavík tilkynning um þjófnað frá starfsmanni Bílasölunnar Bílavík við Njarðarbraut í Reykjanesbæ. Á vettvangi hafi starfsmaðurinn tjáð lögreglu að nýlegri Canon myndavél og hátalarasetti hafi verið stolið af skrifborði í sýningarsal bílasölunnar. Kvaðst starfsmaðurinn telja að þjófnaðurinn hafi átt sér stað milli kl. 18.45 og 19.15 þann sama dag, en um það leyti hafi starfsmaðurinn séð mann ráfa um inni í sýningarsal bílasölunnar. Viðkomandi hafi verið dökkhærður, um 175 cm á hæð, dökkur yfirlitum og snyrtilegur. Síðar sama dag hafi starfsmaðurinn áttað sig á að búið hafi verið að taka bifreið af bílasölunni ófrjálsri hendi. Um hafi verið að ræða bifreið af gerðinni Hyundai Terracan með skráningarnúmerið PO-075.
Að morgni fimmtudagsins 14. september 2006 barst lögreglunni í Reykjavík tilkynning um að bifreiðin PO-075 hafi verið tekin ófrjálsri hendi í Keflavík. Í skýrslu lögreglu kemur fram að lögreglumaður hafi veitt bifreiðinni eftirtekt þar sem henni hafi verið ekið vestur Bergþórugötu í Reykjavík. Ákærði hafi verið ökumaður bifreiðarinnar en í hægra framsæti hafi verið G. Hafi lögregla haft tal af ökumanni og gert honum grein fyrir afskiptum af akstri hans. Hafi ákærði viðurkennt að hafa ekið bifreiðinni sviptur ökuréttindum. Hafi ákærði borið að hann hafi fengið bifreiðina lánaða hjá Unnari, vini sínum.
Þriðjudaginn 19. september 2006 mætti á lögreglustöð H. Kvaðst H mættur í þeim tilgangi að kæra þjófnað á bifreiðinni PO-075. Hafi H fengið bifreiðina afhenta 19. september, en henni hafi verið stolið af Bílasölunni Bílavík 13. september 2006.
Lagt hefur verið fram dskj. nr. 17, söluyfirlit um bifreiðina PO-075. Fram kemur að bifreiðin sé nýskráð í apríl 2004 og sé söluverð hennar 3.190.000 krónur.
Tekin var skýrsla af ákærða 15. september 2006. Ákærða var kynnt að hann væri yfirheyrður vegna þjófnaðar á myndavél og hátölurum og nytjastuld á bifreiðinni PO-075 13. september 2005 frá Njarðarbraut 1 í Njarðvík. Í lögregluskýrslu er fært eftir ákærða: ,,Það getur vel verið. Ég bara man það ekki.” Kvaðst ákærði hafa verið ,,útúrdópaður” í nokkra daga og væri hann orðinn mjög þreyttur á þessu líferni sínu. Kvaðst hann muna eftir að hafa verið stöðvaður af lögreglu á bifreiðinni PO-075 13. september 2006. Kvaðst ákærði verða réttindalaus og hafa ekið bifreiðinni án ökuréttinda, en hann hafi verið sviptur ökuréttindum í Keflavík í framhaldi af því að hann hafi ekið bifreiðinni SF-254 með þeim afleiðingum að bifreiðin hafi hafnað utan vegar.
Ákærði var á ný yfirheyrður um sakarefnið 19. september 2006. Kvaðst hann þá í engu vilja breyta fyrri framburði sínum. Undir ákærða var borið að hann hafi tjáð lögreglu á vettvangi 13. september 2006 að tiltekinn I, vinur ákærða, hafi lánað honum bifreiðina PO-075. Ákærði kvað umræddan I vera ,,gaur” sem ákærði hafi kynnst í Keflavík. Hafi ákærði fengið bifreiðina lánaða hjá honum en ekki hafa skilað honum bifreiðinni. Ákærði kvaðst ekki vita meira um þennan I og myndi ákærði ekki einu sinni hvar hann hafi hitt hann. Ákærði hafi einfaldlega verið ,,útúrruglaður” á þeim tíma. Ekki myndi ákærði hvenær hann hafi tekið við bifreiðinni. Þá hafi hann ekki haft vitneskju um að bifreiðin hafi verið tekin ófrjálsri hendi.
Fyrir dómi kvaðst ákærði vilja vísa í skýrslur þær er hann hafi gefið hjá lögreglu vegna málsins. Kvaðst hann vilja ítreka að I hafi látið sig hafa bifreiðina PO-075 að láni. I væri maður sem hafi komið til ákærða í Keflavík. G væri með fullt nafn I, en hann væri vinur hennar. Ákærði hafi verið með bifreiðina í nokkurn tíma áður en lögregla hafi stöðvað för hans. Er ákærði var yfirheyrður fyrir dómi um ákærulið 5.5 kvaðst hann ekki muna eftir að hafa ekið bifreiðinni umrætt sinn.
G gaf skýrslu hjá lögreglu 15. september 2006. Kvað hún ákærða hafa komið á heimili sitt að morgni fimmtudagsins 14. september 2006. Hafi hún innt ákærða eftir því hver ætti bifreiðina og hafi ákærði greint sér frá því að vinur hans hafi lánað honum bifreiðina. Hafi hún tekið það trúanlegt. Hafi hún því enga vitneskju haft um að bifreiði hafi verið tekin ófrjálsri hendi. Hafi henni fundist ákærði undarlega stressaður í bifreiðinni en hún hafi þó ekki spurt hann nánar úti í það. Ákæruvald hafði boðað G fyrir dóm við aðalmeðferð málsins til að gefa þar skýrslu. Mætti G ekki við aðalmeðferð málsins eða framhaldsaðalmeðferð og tók ákæruvald ákvörðun um að fresta málinu ekki frekar í ljósi þess að ákærði situr í gæsluvarðhaldi á grundvelli síbrotagæslu.
J kvaðst hafa unnið sem sölustjóri á Bílasölunni Bílavík. Hafi hann veitt því athygli að bifreið með skráningarnúmerið PO-075 hafi verið horfin af bifreiðastæði bílasölunnar að morgni miðvikudagsins 13. september 2006. Daginn á undan, eða 12. september um kl. 18.00, hafi einstaklingur komið inn á bílasöluna. Hafi viðkomandi vafrað um salinn og gengið að standi með bæklingum, sem hafi verið við skrifstofu J. Hafi hann horfið sjónum í 2 til 3 mínútur. Stuttu síðar hafi maðurinn gengið út af sölunni. Næsta morgun hafi því verið veitt eftirtekt að stafræn myndavél, ásamt hátölurum og bíllyklum, hafi verið horfin af skrifborði á bílasölunni. Þá hafi verið hringt á lögreglu og henni tilkynnt um atburðinn. Við það tækifæri hafi J rifjað upp atburði dagsins á undan og þá munað eftir þeim einstaklingi er hafi komið inn á bílasöluna um kl. 18.00. Viðkomandi hafi verið dökkhærður, í grænum jakka, sennilega á bilinu 175 til 185 cm á hæð, grannvaxinn og með venjulega klippingu. Bifreiðin hafi fundist í Reykjavík. Staðfesti J að þær upplýsingar sem fram kæmu á dskj. nr. 17 um tegund og verðmæti bifreiðarinnar PO-075 væru réttar.
Karl Arnarson lögreglumaður staðfesti frumskýrslu lögreglu frá 14. september 2006. Kvaðst hann hafa veitt bifreiðinni PO-075 athygli umrætt sinn og stöðvað för ökumanns. Kvaðst hann hafa borið kennsl á ákærða sem ökumann bifreiðarinnar. Hafi hann innt hann eftir ökuréttindum og þegar ökumaður hafi ekki getað framvísað þeim hafi hann séð í tölvukerfi lögreglu að ákærði væri sviptur ökuréttindum. Kvenmaður hafi setið í bifreiðinni með ákærða. Karl hafi í framhaldi fengið aðstoð fleiri lögreglumanna til að færa ákærða á lögreglustöð. Hafi ákærði ekki verið kominn út úr bifreiðinni er aðrir lögreglumenn hafi komið að.
Niðurstaða:
Ákærði neitar sök. Hefur hann borið að hann hafi fengið bifreiðina PO-075 að láni hjá vini sínum, I. Ekki hefur hann getað gert frekari grein fyrir nefndum I, hvorki að því er varðar eftirnafn eða heimili. Hefur hann fyrir dómi borið að hann sé vinur G. Það nefndi hann hins vegar ekki hjá lögreglu. Að því er varðar aksturinn umræddan dag hefur hann hins vegar fullyrt að hann muni einfaldlega ekki eftir akstrinum.
Í málinu liggur fyrir frumskýrsla lögreglu, sem staðfest hefur verið fyrir dómi af Karli Arnarsyni lögreglumanni. Ber hún með sér að tilteknir lögreglumenn hafi komið að rannsókn málsins. Með vísan til þess slær dómurinn föstu að ákærði hafi ekið bifreiðinni PO-075 umrætt sinn. Með vísan til niðurstöðu dómsins hér að framan undir ákæruliðum 1.1. og 5.2 er það jafnframt niðurstaða dómsins að ákærði hafi ekið bifreiðinni sviptur ökurétti. Skýring ákærða á því með hvaða hætti hann hafi komist yfir bifreiðina PO-075 er fjarstæðukennd að mati dómsins. Hefur ákærði með engu móti getað gert grein fyrir I, sem á að hafa lánað honum bifreiðina. Þá liggur fyrir staðfesting á því að bifreiðin PO-075 var tekin heimildarlaust af bifreiðastæði við Bílasöluna Bílavík. Ákærði hefur borið að hann hafi verið í mikilli neyslu fíkniefna á þessum tíma. Með vísan til alls þessa telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærða hafi verið ljóst að hann væri heimildarlaust að nota bifreið annars manns. Verður hann því sakfelldur samkvæmt þessum liðum ákæru. Á háttsemi hans undir 1. mgr. 259. gr. laga nr. 19/1940 og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga.
Ákæruliðir 2.1. og 2.2.
Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á Eskifirði frá 16. febrúar 2006 kl. 18.00 hringdi verslunarstjóri verslunarinnar Sparkaup á Fáskrúðsfirði í lögreglu á þeim tíma. Greindi hann frá því að um 10 mínútum áður hafi komið inn í verslunina tveir karlmenn og ein kona. Konan hafi verið með rauðleitt hár í tagli, mjög grönn og lágvaxin. Annar karlmaðurinn hafi verið á bilinu 20 til 30 ára, ljós yfirlitum með mjög snöggklippt hár og grannur. Hinn maðurinn hafi verið um 40 ára, dökkhærður og í dökkum mittissíðum jakka. Hafi holdafar hans verið venjulegt. Starfsfólk verslunarinnar hafi verið frammi í verslun að vinna en verslunarstjórinn komið að þeim síðastnefnda inni á lager verslunarinnar. Hafi hann borið því við að hann væri að leita að klósetti. Hafi hún vísað honum á salerni frammi í verslun. Hinn maðurinn og konan hafi verið komin með vörur í innkaupakerru en þar sem búið hafi verið að loka afgreiðslukössum hafi þau ekki verið afgreidd. Hafi þau við svo búið öll horfið úr versluninni. Við athugun hafi komið í ljós að peningar, sem verið höfðu í skúffu í aðstöðu verslunarstjóra inni á lager verslunarinnar hafi verið horfnir, sem og lykill að öryggisskáp verslunarinnar og annar að næturhólfi Landsbankans á Fáskrúðsfirði. Um 12.000 krónur í reiðufé hafi horfið úr skúffunni. Allir þessir hlutir hafi verið í sömu skúffunni. Í frumskýrslu kemur fram að upplýsingar sem fengist hafi við rannsókn málsins hafi gefið sterklega til kynna að á ferðinni hafi verið ákærði og með honum óþekkt fólk. Að öllum líkindum hafi þau verið á bifreið með skráningarnúmerið OM-028.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar á Eskifirði frá 17. febrúar 2006 voru lögreglumenn á eftirliti við söluskála SJ að Bústaðavegi 60 á Fáskrúðsfirði kl. 04.48. Veittu þeir því athygli að búið var að spenna upp og brjóta hurð á söluskálanum. Hafi vettvangi verið lokað og rekstraraðili skálans kallaður til. Við rannsókn á vettvangi hafi komið í ljós að hurð á suðurhlið skálans hafi verið spennt og brotin upp með áhaldi. Farið hafi verið inn í skálann og rótað í ýmsu. Teknar hafi verið lyklakippur með lyklum af ýmsu í tengslum við skálann. Hurð á lager hafi verið brotin upp. Sjóðsskúffur þriggja peningakassa hafi verið opnaðar og peningar teknir þar úr. Þá hafi verið farið í hraðbanka í eigu Landsbanka Íslands og hann brotinn upp. Allir peningar í honum hafi verið teknir, alls 744.000 krónur. Að auki hafi verið teknar 28 vindlingalengjur, kort með símainneignum, einn arabískur peningaseðill og annar tékkneskur og armbandsúr. Rannsóknardeild lögreglunnar á Eskifirði hefur ritað sérstaka tæknirannsóknarskýrslu vegna innbrots í söluskála SJ á Fáskrúðsfirði. Í skýrslunni eru myndir af vettvangi og nákvæm tilgreining á því er tekið var í innbrotinu. Í skýrslunni er gerð grein fyrir því að hurð að skrifstofu hafi verið brotin upp en hún hafi verið læst. Á hurðinni hafi fundist bútur úr skófari og hafi farinu verið lyft með skófaralyftara. Greina hafi mátt merki undan skó þess er hafi sparkað upp hurðinni. Skófarið hafi verið borið saman við skó er ákærði hafi verið í við handtöku á Akureyri og hafi það verið af gerðinni Ecco. Hafi um samskonar skómynstur verið að ræða.
Farið hafi verið í eftirlitsferð um Fáskrúðsfjörð og Reyðarfjörð til að kanna með mannaferðir. Strax hafi vaknað grunur um að bifreið með skráningarnúmerið OM-028 tengdist málinu, en í henni hafi verið tveir karlmenn og ein kona. Væri vitað að annar karlmaðurinn væri ákærði, en faðir hans væri skráður eigandi bifreiðarinnar. Ákveðið hafi verið að kanna með dvalarstað ákærða og þeirra tveggja sem með honum hafi verið í bifreiðinni. Í ljós hafi komi að þau hafi dvalið á gistiheimilinu Tærgesen á Reyðarfirði. Bifreiðin hafi verið horfin af svæðinu. Að sögn rekstraraðila gistiheimilisins hafi ákærði og samferðafólk hans farið frá ógreiddum reikningum vegna tveggja herbergja. Óskað hafi verið eftir aðstoð lögreglu víða um land við að hafa upp á bifreiðinni OM-028 og þeim sem í henni væru. Í niðurlagi skýrslunnar er tekið fram að bifreiðin hafi fundist kl. 08.20 þennan dag þar sem hún hafi verið mannlaus utan vegar í Námaskarði í Mývatnssveit.
Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á Akureyri frá föstudeginum 17. febrúar 2006 óskaði lögregla á Akureyri eftir aðstoð sérsveitar ríkislögreglustjóra vegna leitar að þremur aðilum á bifreiðinni OM-028. Haft hafi verið samband við bónda á Grímsstöðum á Fjöllum, en hann hafi með höndum vegaeftirlit á Mývatnsöræfum. Hafi bóndinn lýst því að þegar hann hafi komið í Námaskarð hafi bifreið verið þar utan vegar. Lögregla hafi haft samband við K í Reykjahlíð. Hafi K lýst sig reiðubúinn að fara upp í Námaskarð og athuga með bifreiðina. Hafi K látið lögreglu í té þær upplýsingar að skráningarnúmer bifreiðarinnar væri OM-028. Haft hafi verið samband við lögregluna á Akureyri og þessum upplýsingum komið áleiðis til hennar. Rætt hafi verið við formann björgunarsveitar í Mývatnssveit. Hafi hann greint lögreglu frá því að hann hafi dregið upp á veg nýlega Pajero bifreið sem hafi verið föst utan vegar skammt frá útsýnisplani í Námaskarði. Aðspurður um bifreið með skráningarnúmerið OM-028 hafi hann borið að sú bifreið hafi verið í samfloti með Pajerobifreiðinni en hann hafi ekki getað dregið þá bifreið upp á veginn. Fólkið hafi haldið áfram til Akureyrar á Pajerobifreiðinni. Kvaðst björgunarsveitarmaðurinn telja að ökumaður bifreiðarinnar hafi kynnt sig sem Garðar. Haft hafi verið samband við sig úr símanúmerinu [...] og óskað eftir aðstoð. Samkvæmt upplýsingum lögreglu sé ákærði skráður fyrir því símanúmeri. Við athugun á vettvangi hafi komið í ljós nokkuð af fótsporum. Sjá hafi mátt för eftir tvenns konar skó, aðra af Ecco gerð. Lögreglan á Akureyri hefur ritað sérstaka skýrslu vegna rannsóknar á vettvangi. Eru þar m.a. myndir sem teknar hafa verið í Námaskarði. Myndir hafa verið teknar af bifreið með skráningarnúmerið OM-028, skóförum á vettvangi, bakpoka sem grafinn hafði verið í snjóinn og innihaldi hans. Úr bakpokanum hafa verið teknar myndir af kúbeini, tveim hömrum, rörtöng, járnklippum, skrúfjárni, dúkahníf og minni lyklum. Annar hamarinn er með brúnu tréskafti og má sjá greinileg ummerki þess að haus hamarsins hefur verið límdur á skeftið.
Í rannsóknargögnum málsins er endurrit af leigusamningi um bifreið, sem gerður hefur verð 16. febrúar 2006. Samkvæmt samningi tekur ákærði þar á leigu Pajero bifreið með skráningarnúmerið RP-401.
Ákærði, A og L, voru handtekin við hótelherbergi nr. 307 á Hótel KEA á Akureyri kl. 9.11 að morgni föstudagsins 17. febrúar 2006. Voru þau færð á lögreglustöð. Rituð hefur verið skýrsla um muni er fundust á þremenningunum við handtöku. Fram kemur að við leit á ákærða í fangahúsi hafi m.a. fundist Motorola farsími, lyklakippa með ljósi og tveimur Assa lyklum, bíllykill af Pajero bifreið merktir Bílaleigu Akureyrar, 4 lyklar úr Sparkaup á Fáskrúðsfirði, 105.000 krónur í peningum í seðlaveski og 222.815 krónur í seðlum í vösum. Leitina hafi framkvæmt Jónas Halldór Sigurðsson lögreglumaður, en Ólafur Ásgeirsson hafi verið viðstaddur leitina. Þá kemur fram í skýrslu Tæknideildar lögreglu frá 23. febrúar 2006 á skjali merkt IV, 7.2-0 að ákærði hafi verið í skóm af gerðinni Ecco er hann hafi verið handtekinn á Hótel KEA á Akureyri. Er í skýrslunni mynd af umræddum skóm. Þá kemur fram að við leit á L hafi m.a. fundist 100.588 krónur í peningaseðlum. GH-9912 fangavörður hafi framkvæmt leit á L og lögreglumaðurinn GIV-8923 verið viðstaddur hana. Á A hafi fundist Nokia farsími, Samsung farsími, seðlaveski, lyklakippa með einum bíllykli, 2 Assa lyklum, Bird lykli, 30 símakort samtals að fjárhæð 48.500 krónur og 111.100 krónur í reiðufé. Daníel Snorrason lögreglufulltrúi hafi framkvæmt leit á A og lögreglumaðurinn FSS-8726 verið viðstaddur hana.
Tæknideild lögreglu hefur ritað skýrslu vegna athugunar á upptökum úr eftirlitsmyndavélakerfi Hótel KEA á Akureyri. Skýrslan sýnir myndir úr afgreiðslu hótelsins þar sem ákærði er í afgreiðslu 17. febrúar 2006 kl. 07.26. Ákærða er afhentur tómur plastpoki og fer hann með pokann út af hótelinu. Kl. 7.28 kemur hann inn aftur og sést ganga inn hótelgang. Er hann þá með pokann á bakinu og er eitthvað í honum. Ef myndir úr öryggismyndavélakerfinu eru skoðaðar í heild sinni sýna þau ákærða, A og L koma inn á hótelið. Fara þau á hótelherbergi. Upptakan ber ekki með sér að neinn annar hafi verið með þeim í för.
Rituð hefur verið lögregluskýrsla vegna leitar í herbergi nr. 307 þann 17. febrúar 2006 í kjölfar handtöku ákærða, A og L. Leitin hafi byrjað kl. 09.30 og lokið kl. 10.27. Í tveimur renndum hólfum á bakpoka hafi fundist peningar og símakort. Er varningur þessi sundurliðaður nánar í lögregluskýrslu. Í náttborði vinstra megin við rúm hafi fundist símakort og Winston sígarettur. Er varningur þessi einnig sundurliðaður nánar í lögregluskýrslu. Í náttborði hægra megin við rúm hafi fundist skafmiðar og arabískur peningaseðill. Er varningur þessi sundurliðaður nánar í lögregluskýrslu. Á skrifborði hafi fundist armbandsúr, Winston sígarettur og tékkneskur peningaseðill.
Rituð hefur verið lögregluskýrsla vegna leitar í bifreiðinni RP-401. Við leitina hafi fundist vinnuvettlingar, húslykill festur á járnplötu merkt nr. 15, sleggja, meitill, borvél, farsími og vindlingar. Þá hafi verið framkvæmd leit í bifreiðinni OM-028. Við leitina hafi m.a. fundist dagbók sem hafi verið í kassa í farangursrými. Við skoðun á bókinni hafi komið í ljós nöfn fyrirtækja og verslana allt frá Selfossi til Borgarness. Tekið er fram í skýrslunni að ákærði hafi viðurkennt að eiga umrædda dagbók. Hald hafi verið lagt á bókina í þágu rannsóknar málsins. Í gögnum málsins er afrit úr nefndri dagbók. Þá var dagbókin til staðar í dóminum við aðalmeðferð málsins.
Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á Eskifirði frá 1. mars 2006 mætti M þann dag á lögreglustöð í tengslum við innbrot í söluskála SJ á Fáskrúðsfirði. Hafi M verið sýndir tveir haldlagðir peningaseðlar, annar arabískur og hinn tékkneskur. Einnig hafi M verið sýndur hamar með tréskafti en haus hafi greinilega verið límdur á hamarinn með þykku brúnu lími. Hafi M upplýst að umræddir hlutir tilheyrðu sér. Seðlarnir hafi verið geymdir í peningaskúffu sjóðsvélar í söluskálanum. Peningaseðlana hafi M eignast fyrir nokkrum árum og ætíð geymt þá í sjóðsvélinni. Hamarinn hafi M eignast fyrir fjöldamörgum árum síðan. Hamarinn væri auðþekkjanlegur. Haus hamarsins hafi ætíð verið að detta af honum. Af þeim ástæðum hafi hann límt hausinn fastan með tveggja þátta lími. Hamarinn hafi verið hengdur á hillu í horni söluskálans við hurð að lager verslunarinnar. Hafi hamarinn horfið í innbrotinu í skálann að kvöldi 16. febrúar eða aðfaranótt 17. febrúar 2006.
Rituð hefur verið lögregluskýrsla vegna samanburðar á símakortum er fundust á A við handtöku og símakortum er lagt var hald á við húsleit í herbergi 307 á Hótel KEA á Akureyri. Er það niðurstaða lögreglu, þegar númer símakortanna eru borin saman, að allt bendi til þess að kortin séu komin frá sama söluaðila. Heildarfjárhæð þeirra símakorta er lagt hafi verið hald á hafi numið 226.440 krónum. Laugardaginn 25. febrúar 2006 hefur N fengið afhenta lyklakippu með fjórum lyklum á, sem eru af peningaskáp í verslun Sparkaupa á Fáskrúðsfirði, sem horfið hafi úr versluninni 16. febrúar 2006. Þá hefur O 10. maí 2006 tekið við tveimur lyklum á kippu sem merktir eru gistiheimilinu Tærgesen.
Ákærði var yfirheyrður af lögreglu föstudaginn 17. febrúar 2006, eftir vist í fangageymslu. Kvaðst hann hafa farið inn í verslun Sparkaupa á Fáskrúðsfirði 16. febrúar 2006. Hafi ákærði farið á snyrtinguna. Kvaðst ákærði telja að hann hafi verið í félagi við tvö eða þrjú önnur í versluninni. Í för með ákærða hafi verið A og L. Hafi þau verið á Fáskrúðsfirði á bifreið ákærða með skráningarnúmerið OM-028. Ekki kvaðst ákærði muna hvenær hann hafi farið frá Fáskrúðsfirði. Kvaðst ákærði ekki kannast við aðild að innbroti í söluskála SJ að Bústaðavegi 60 á Fáskrúðsfirði. Er ákærða var bent á að hluti af þýfi úr innbroti í söluskálann hafi fundist við leit hjá ákærða, A og L, kvaðst ákærði ekkert vita um það.
Ákærði var yfirheyrðu á ný 21. febrúar 2006. Kvaðst hann hafa farið frá Reykjavík sennilega á fimmtudeginum 16. febrúar 2006. Með í för hafi verið A, L og tiltekinn P. Ekið hafi verið í suður í átt frá Reykjavík. P hafi ekið bifreiðinni. Er ákærði var inntur eftir tilgangi með ferðinni bar hann að nefndur P hafi ætlað að sýna samferðafólki sínu ,,eitthvað, ég hef ekki hugmynd um það annars.” Ákærði kvaðst eiga bifreiðina Santa Fé, með skráningarnúmerið OM-028. Kvaðst hann ekkert vita um ástæðu þess að nöfn fyrirtækja og verslana er brotist hafi verið inn í hafi verið í dagbók, sem ákærði hafi sagt að hann ætti. Ákærði kvaðst telja að þau hafi gist eina nótt á gistiheimilinu Tærgesen á Reyðarfirði. A hafi átt að greiða fyrir gistinguna. Hafi ákærði tínt samferðafólki sínu og af þeim ástæðum tekið Pajero jeppabifreið á leigu. Bifreiðina hafi ákærði sennilega tekið á leigu á flugvellinum á Egilsstöðum. Ákærði kvaðst ekki vita hvað hafi orðið um nefndan P í ferðinni. Kvaðst ákærði ekki vita hvenær hann hafi séð hann síðast og ekki hafa hugmynd um hvernig ná mætti sambandi við hann. Ákærði kvaðst geta staðfest að hafa komið til Fáskrúðsfjarðar. Kvaðst ákærði ekki viss um hvort hann hafi komið í söluskála SJ á Fáskrúðsfirði 16. febrúar 2006 en bar að ef aðrir gætu staðfest það hlyti það að vera. Þá bar ákærði að A og L hafi farið inn í verslunina Sparkaup á Fáskrúðsfirði rétt fyrir kl. 18.00 þann 16. febrúar 2006. Ákærði kvaðst sjálfur hafa farið inn í verslunina til að fara á snyrtinguna. Kvað hann ekki geta staðist að lyklar úr innbroti í verslunina Sparkaup hafi fundist á ákærða við leit á honum við handtöku. Þá kvaðst ákærði ekki hafa tekið þátt í innbroti í söluskála SJ á Fáskrúðsfirði að kvöldi 16. febrúar eða aðfaranótt 17. febrúar 2006. Kvaðst ákærði ekki geta skýrt að þýfi úr innbroti í söluskála SJ á Fáskrúðsfirði hafi fundist í herbergi nr. 307 á Hótel KEA. Hafi ákærði einfaldlega séð ,,helling af drasli” í herberginu þegar þau hafi komið þar inn. Um hafi verið að ræða ,,inneignardrasl”, einhver símakort. Ákærði kvaðst eiga flest þau verkfæri sem hafi fundist. Ákærða var bent á að far hafi fundist eftir Ecco skó á hurð söluskálans SJ á Fáskrúðsfirði. Kvaðst ákærði hafa farið í Ecco skó á Akureyri þar sem hinir skór ákærða hafi blotnað. Hafi ákærði ekki áður verið í Ecco skóm í ferðinni. Kvaðst ákærði ekki vera eigandi að þeim skóm er hann hafi verið handtekinn í. Kvaðst ákærði nota skóstærð nr. 40 til 41, stundum þó nr. 42. Ákærða var bent á að hamar með tréskafti hafi fundist á meðal verkfæra í bláum bakpoka nærri bifreiðinni OM-028 við Námaskarð. Ákærði kvað verkfæri hafa verið út um allt í bifreiðinni er lagt hafi verið af stað. Kvaðst hann hafa sett þau í poka, en hann hafi ekki átt verkfærin. Ákærða var gerð grein fyrir að armbandsúr úr innbroti í söluskálann SJ hafi fundist í hótelherbergi nr. 307 á Hótel KEA. Kvaðst ákærði ekkert vita um það. Ákærði bar að nefndur P hafi ekið bifreiðinni með skráningarnúmerið OM-028. Ákærði, A og L hafi hins vegar verið í Pajero jeppanum. A hafi ekið bifreiðinni í upphafi en ákærði síðar tekið við akstrinum. P hafi ekið bifreiðinni OM-028 út af veginum í Námaskarði. Eftir að bifreiðin hafi verið komin út af veginum hafi ákærði og félagar hans náð í dót úr bifreiðinni. Ákærði kvaðst ekki vita hvar nefndur P hafi yfirgefið hópinn, þó sennilega er bifreiðin hafi verið föst í Námaskarði. Ákærði kvaðst hafa ekið Pajero bifreiðinni frá Námaskarði til Akureyrar. Kvaðst hann ekki kannast við að hafa grafið neitt í snjó nærri bifreiðinni OM-028 í Námaskarði. Á Akureyri hafi verið ekið um og síðan stöðvað við Hótel KEA. A hafi ,,reddað” herbergi. Ákærði hafi tekið saman dót í bifreiðinni og hann og L farið inn. Hafi ákærði beðið um að fá að setja í þvottavél. Ákærði kvaðst ekki vita hvaðan þau símakort hafi komið er hafi verið haldlögð við handtöku. Þá vissi ákærði ekki hvaðan skafmiðar hafi komið er einnig hafi verið haldlagðir. Að því er varðaði lausafé, kvaðst ákærði hafa tekið út af reikningi L 125.000 krónur og eitthvað meira út af sínum eigin reikningi. Fjármuni L hafi ákærði tekið út í Landsbankanum í Mjóddinni. Sína peninga hafi ákærði tekið út úr Íslandsbanka og Landsbanka. Ákærði kvaðst ekki geta skýrt tilvist arabísks peningaseðils sem fundist hafi við handtöku. Þá vissi hann ekki heldur hvaðan tékkneskur seðill hafi komið.
Ákærði var yfirheyrður af lögreglu næsta dag. Var honum í upphafi yfirheyrslunnar gerð grein fyrir því að A og L hafi greint lögreglu frá því að þau hafi farið þrjú frá Reykjavík og að enginn fjórði aðili hafi verið með í för. Kvaðst ákærði þá hafa staðið í þeirri meiningu að þau hafi verið fjögur er þau hafi farið frá Reykjavík. Það hlyti þá að hafa verið ofskynjun hjá ákærða. Kvaðst ákærði telja að hann hafi ekið bifreiðinni OM-028 að austan og út af veginum í Námaskarði. Pajero bifreiðinni hafi verið ekið á eftir og yrði A að svara því hvort hann hafi ekið bifreiðinni.
Fyrir dómi bar ákærði að langt væri um liðið síðan atburðir hafi átt sér stað og myndi hann þá þar af leiðandi illa. Ákærði hafi verið á ferð fyrir austan ásamt A og Log manni að nafni P. P hafi ákærði ekki þekkt en hann hafi verið þeim samferða frá Reykjavík. Ferðin hafi verið ,,sukkferð” en ákærði hafi verið nýfallinn. Ákærði kvaðst ekki hafa tekið lykla eða reiðufé úr versluninni Sparkaup á Fáskrúðsfirði 16. febrúar 2006. Kvaðst ákærði muna að hann hafi farið inn á lager verslunarinnar í leit að snyrtingu. Kvaðst hann telja að fyrir mistök af hálfu lögreglu hafi verið tilgreint að tilteknir hlutir úr því innbroti hafi fundist á ákærða við leit við handtöku. Þeir hafi sennilega fundist á A. Þá kvaðst ákærði ekkert vita um innbrot í söluskála SJ að Bústaðavegi á Fáskrúðsfirði. Að kvöldi fimmtudagsins 16. febrúar 2006 hafi ákærði verið að drekka áfengi og nota fíkniefnið kókaín. Gæti verið að ákærði hafi farið til Egilsstaða þetta kvöld og leigt Pajero jeppabifreið á bílaleigu. Kvaðst ákærði ekki minnast þess hvort hann hafi farið aftur til Fáskrúðsfjarðar um kvöldið. Myndi ákærði hreint ekki hvert hann hafi farið. Þá kvaðst ákærði ekkert muna eftir ferð sinni til Akureyrar. Væri honum ekki minnistætt er bifreiðin OM-028 hafi hafnað utan vegar. Ákærði hafi sennilega verið í bifreið ásamt L. Ákærði kvaðst ekki muna hver hafi ekið bifreiðinni OM-028. Ákærði kvaðst ekki þekkja til þess að lögregla hafi fundið bakpoka skammt frá bifreiðinni OM-028 í Námaskarði. Kvaðst hann ekki kannast við dagbók er lögregla hafi fundið við leit í bifreiðinni OM-028. Er undir ákærða var borið ljósrit úr dagbókinni með færslum á tilteknum fyrirtækjum og verslunum kvaðst ákærði ekki vita hvort hann hafi skrifað það í dagbókina. Gæti það vel verið. Ákærði kvaðst hafa verið handtekinn á Hótel KEA á Akureyri kl. 9.00 að morgni föstudagsins 17. febrúar 2006. Hafi ákærði verið gestur í herberginu, en þau hafi verið þrjú þar. Kvaðst ákærði því ekki geta svarað fyrir það þýfi er hafi fundist í herberginu. Vissi hann ekki hver hafi komið með þýfið inn í herbergið. Kvaðst ákærði muna eftir að hafa komið á hótelið undir morgun en ekki muna hvar hann hafi hallað sér. Ákærði kvaðst ekki muna eftir að hafa fengið lánaðan plastpoka í móttöku hótelherbergisins um morguninn. Hann hafi sennilega komið með óhreinan þvott úr bifreiðinni til að láta þvo. Að því er varðaði fjármuni er hafi verið á ákærða við handtöku kvaðst ákærði hafa verið búin að vinna í 1 og ½ ár og verið nýfallinn. Hafi hann einfaldlega ætlað í skemmtiferð og ætlað að hafa fjármuni með sér vegna þess. Kvaðst ákærði nota greiðslukort lítið.
A var yfirheyrður í kjölfar vistar í fangageymslum eftir handtöku að morgni 17. febrúar 2006. Kvaðst A, ásamt ákærða og L, hafa verið fyrir austan. Tilgangur með ferðinni hafi einfaldlega verið að skoða landið. Þau hafi verið í ferð á bifreið af gerðinni Santa Fé og hafi bifreiðin verið svört að lit. Þau hafi lagt af stað í ferðina tveimur dögum fyrir handtöku. Ekið hafi verið frá Reykjavík, um Hornafjörð og fram hjá Fáskrúðsfirði. Ákærði hafi ekið bifreiðinni. Þau hafi stoppað á Fáskrúðsfirði og fengið sér pylsu. Þar hafi þau stoppað í innan við eina klukkustundu. A kvaðst ekkert muna eftir ferðalaginu. Það gæti þó staðist að bifreiðin OM-028 hafi hafnað utan vegar í Námaskarði. Þau hafi verið á annarri bifreið og haldið áfram á henni til Akureyrar. Um hafi verið að ræða Pajero jeppa sem ákærði hafi leigt á Egilsstöðum. Kvaðst A vilja taka fram að hann væri mikill fíkill.
A var yfirheyrður á ný þriðjudaginn 21. febrúar 2006. Er A var inntur eftir ferð sinni frá Reykjavík kvaðst hann ítreka að tilgangur með ferðinni hafi verið að skoða landið. Í för frá Reykjavík hafi verið A, ákærði og L. A kvaðst hafa komið á eitthvað gistiheimili, sem hann vissi ekki hvar hafi verið. Er hann hafi ætlað að greiða fyrir gistinguna næsta dag hafi verið lokað og hann ekki hitt á neinn til að greiða. Ákærði hafi leigt Pajerojeppa á Egilsstöðum. Einhver náungi hafi fengið bifreiðina OM-028 lánaða og jeppinn því verið tekinn á leigu. A kvaðst ekki geta svarað fleiru varðandi sakarefnið á því stigi og var yfirheyrslum því frestað. A var aftur yfirheyrður næsta dag. Kvaðst hann þá muna að gist hafi verið í tvær nætur á gistiheimili á Reyðarfirði. Hafi hann ætlað að greiða fyrir gistinguna en enginn verið til að taka við greiðslu. Ekki hafi verið ætlunin að hlaupast á brott frá reikningnum. Þau hafi síðan hitt einhvern sem hafi rúntað um á bifreið ákærða. Þann hafi A aldrei séð áður. Þau hafi farið á Fáskrúðsfjörð og stoppað þar í sjoppu til að fá sér pylsu. A og L hafi ætlað í Sparkaup til að kaupa mat en ákærði ætlað að nota snyrtinguna. Þegar þau hafi verið komin að kassanum hafi verið búið að loka versluninni og þau orðið að skilja matinn eftir. A kvaðst ekki hafa farið inn í söluskála SJ á Fáskrúðsfirði 16. febrúar 2006. Aðspurður kvaðst A ekki kannast við skó af gerðinni Ecco. Þá kvaðst A ekkert kannast við hamar með tréskafti er hafi fundist á meðal verkfæra í bláum bakpoka sem hafi verið falinn skammt frá bifreiðinni OM-028 í Námaskarði. Þá kvaðst A ekki kannast við armbandsúr af gerðinni Q&Q er hafi fundist á meðal þýfis er hafi verið haldlagt í herbergi nr. 307 á Hótel KEA á Akureyri. Að því er varðaði ferðina að austan til Akureyrar hafi allt verið hálfpartinn ófært. Þau hafi lagt af stað að austan um kl. 2.30 um nóttina og verið föst einhvern tímann um nóttina. A hafi verið í Pajero jeppanum og hafi hann verið einn í bifreiðinni. Í hinni bifreiðinni hafi verið ákærði, L og einhver maður sem setið hafi í aftursæti bifreiðarinnar. Sá hafi farið af stað að leita eftir hjálp eftir að bifreiðin hafi orðið föst. Hann hafi ekki komið aftur. Er A var bent á að L hafi borið að þau hafi verið þrjú allan tímann kvað A það geta verið rétt, en þetta gæti hafa verið ofskynjun hjá honum. A kvaðst ekki vita um neitt sem hafi verið grafið í snjó rétt hjá bifreiðinni OM-028 í Námaskarði. Eftir Námaskarðið hafi þau ekið til Akureyrar. Hafi hann skilið ákærða og L eftir á Hótel KEA og farið í verslunina 10-11 til að ná sér í eitthvað til að borða. Er hann hafi komið til baka á hótelið hafi A verið handtekinn af lögreglu. Er A var inntur eftir því hvaðan öll þau símakort kæmu sem lagt hafi verið hald á hjá honum og samferðafólki hans bar A að eitthvað hafi hann keypt sjálfur, en hann keypti oft mikið af kortum þar sem hann eyddi svo miklu. Væri hann bæði með símakort frá Og vodaphone og Símanum. Kortin hafi hann keypt í Reykjavík. Hafi hann örugglega keypt kort fyrir 50.000 krónur í Reykjavík. Kvaðst A ekki kannast við skafmiða er hafi verið haldlagðir. Að því er varðaði reiðufé kvaðst A hafa verið með um 100.000 krónur í veskinu sínu. Um hafi verið að ræða laun vegna smíðavinnu. Í upphafi ferðarinnar hafi hann verið með 160.000 krónur, en um væri að ræða peninga vegna 3ja vikna vinnu. Kvaðst A ekki vilja gefa annað upp en að hann hafi unnið hjá tilteknum Þór og hafi vinnan verið ,,svört”. A kvaðst ekkert kannast við arabískan peningaseðil og tékkneskan peningaseðil er lögregla hafi lagt hald á. A kvaðst nota fíkniefnið kókaín.
Fyrir dómi bar A að hann hafi verið fyrir austan ásamt ákærða, L og tilteknum P, sem hann vissi ekki hver væri. A kvaðst ekkert vita um það ætlaða þýfi er lögregla hafi lagt hald á í herbergi nr. 307 á Hótel KEA á Akureyri föstudaginn 17. febrúar 2006. Kvaðst A ekki vita hvernig varningurinn hafi komist inn í herbergið. Kvaðst hann ekki hafa komið nærri innbrotum í verslunina Sparkaup á Fáskrúðsfirði eða söluskála SJ að Bústaðavegi á Fáskrúðsfirði 16. febrúar 2006. Hafi þau farið að austan og komið á hótelið kl. 7.22 að morgni 17. febrúar 2006. Kvaðst A vera með mikið skammtímaminni og myndi hann því atvikin illa. Kvaðst hann ekki geta skýrt þá fjármuni er hann hafi verið með við handtöku. Kvaðst hann ekki vita af hverju bifreiðin OM-028 hafi lent utan vegar í Námaskarði. Þá kvaðst A ekki geta útskýrt bakpoka er fundist hafi nærri bifreiðinni í Námaskarði. Þá kvaðst hann ekki kannast við hamar úr innbroti að austan eða dagbók er lögregla hafi fundið í bifreiðinni OM-028. A kvað P hafa farið suður um kl. 6.00 að morgni 17. febrúar. Ekki kvaðst hann muna hvort það hafi verið á undan eða eftir að bifreiðin hafi farið út af vegi í Námaskarði. P hafi sennilega farið ,,í bæinn”. A kvaðst ekki kannast við þau símakort er hafi fundist í bakpoka í herbergi nr. 307.
Mál þetta var endurupptekið 6. desember 2006 í ljósi framburðar A við aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn honum sem til meðferðar var í héraðsdómi 1. desember 2006, en þar var A m.a. gefið að sök þjófnaður í söluskála SJ á Fáskrúðsfirði, í félagi við ákærða. Við endurupptöku málsins bar A að hann hafi brotist inn í söluskála SJ að Bústaðavegi 60 á Fáskrúðsfirði 16. febrúar 2006 og stolið þaðan sígarettukartonum, kortum með símainneignum að verðmæti 226.440 krónur, úrum, arabískum peningaseðli, tékkneskum peningaseðli, hamri og 802.000 krónum í reiðufé, þar af 744.000 krónum úr hraðbanka í eigu Landsbanka Íslands. Hafi A verið einn í ferð í bæði skiptin og ákærði ekki með honum í för. Á meðan A hafi brotist inn í söluskálann hafi ákærði verið á gistiheimilinu Tærgesen á Reyðarfirði með L. A hafi látið ákærða leigja Pajerojeppa fyrir sig til að komast suður til Reykjavíkur. Eftir að hafa brotist inn í söluskálann hafi A ekið að gistiheimilinu Tærgesen og sagt ákærða að hann væri á leið suður. Í framhaldi hafi A, ákærði og L ekið norður og hafi bifreiðin OM-028 hafnað utan vegar í Námaskarði. A kvað engan P hafa verið með í för. Það hafi allt verið uppspuni.
L gaf skýrslu hjá lögreglu í framhaldi af handtöku á Hótel KEA á Akureyri. Greindi hún frá því að hún hafi hitt ákærða í Reykjavík. Þá hafi hún verið ,,uppdópuð”. Hafi hún farið út á land með ákærða og A. Eftir ferðinni myndi hún ekkert. Hafi hún verið ,,morfínsjúklingur” til fjölda ára og verið á lyfjum vegna þess. Hafi hún legið aftur í svörtum jeppa megnið af ferðinni. Myndi hún ekki eftir neinu innbroti í verslun eða söluskála. L gaf aftur skýrslu hjá lögreglu 21. febrúar 2006. Bar hún með sama hætti og áður að hún myndi lítið eftir því ferðalagi er hún, ákærði og A hafi farið í austur. Hafi þau eingöngu verið þrjú í ferðinni. Þá kvaðst L muna eftir að farið hafi farið í einhverja sjoppu á Fáskrúðsfirði. Hafi hún og A ætlað að kaupa mjólk og brauð en búið hafi verið að loka og þau því ekki getað verslað. Ekki hefði hún hugmynd um þjófnað úr versluninni. Ekki myndi hún eftir ferð í söluskála SJ á Fáskrúðsfirði. Hún hafi sofið mikið aftur í bifreið er þau hafi verið á. Varðandi ferðina til Akureyrar þá myndi hún eftir því að hún hafi vaknað eftir að bifreið sem þau hafi verið á hafi verið komin út af veginum. Hafi hún verið í svarta jeppanum, sem ákærði hafi ekið. A hafi ekið hinni bifreiðinni. Ekki hefði hún hugmynd hver hefði ekið bifreiðinni frá þeim stað til Akureyrar, en hún hafi verið ,,úti” þá. Ekki hefði hún hugmynd um hvaðan símakort og skafmiðar hafi komið er lögregla hafi lagt hald á við handtöku þeirra. L kvaðst hafa tekið 110.000 krónur út af bók sinni áður en hún hafi farið austur. Hafi hún lítið verið búin að nota af þeim fjármunum er hún hafi verið handtekin á Akureyri. Ekki kvaðst hún vita hvernig tékkneskur peningaseðill og arabískur peningaseðill hafi komist í hendur þeirra.
Við endurupptöku málsins kom L fyrir dóminn. Bar hún um atvik með sama hætti og hjá lögreglu. Kvaðst hún ekki muna nánast neitt eftir ferðinni austur, en hún hefði sofið megnið af leiðinni. Hún hafi verið í viðhaldsmeðferð vegna morfínneyslu. Af þeim sökum hafi hún orðið mjög veik og nánast verið í móki alla leiðina. Hafi hún tekið inn svefntöflur. Myndi hún ekki eftir því er lagt hafi verið af stað. Myndi hún eftir sér er hún hafi farið inn á gistiheimili fyrir austan. Þá myndi hún eftir sér í einhverri sjoppu. Loks myndi hún eftir því er bifreið hafi hafnað utan vegar í Námaskarði. Kvaðst hún muna eftir því er hún hafi verið handtekin á Akureyri. Hefði hún enga hugmynd um hvernig þýfi hefði komist inn á herbergi nr. 307 á Hótel KEA á Akureyri. L kvaðst hafa verið með ákærða á þessum tíma og deilt með honum herbergi fyrir austan.
Q, verslunarstjóri í versluninni Sparkaup á Fáskrúðsfirði, bar að hún hafi verið í versluninni fimmtudaginn 16. febrúar 2006. Rétt fyrir klukkan 18.00 hafi komið inn í verslunina tveir karlmenn og ein kona. Annar mannanna hafi verið á miðjum aldri en hinn ungur. Þau hafi tekið varning í körfu. Q kvaðst hafa verið að undirbúa lokun á versluninni. Maðurinn á miðjum aldri hafi þá verið kominn inn á lager verslunarinnar þar sem Q hafi komið að honum. Hafi hann staðið nálægt peningaskáp sem hafi verið þar inni. Hafi hann spurt hvar snyrtingin væri og hún bent honum fram í búð þar sem salernisaðstaða hafi verið. Þremenningarnir hafi farið út úr versluninni og skilið vörurnar eftir. Bar hún að hurð að lager verslunarinnar hafi ekki verið læst, en bæri það þó með sér að ekki væri ætlast til að almenningur færi þar inn. Eftir að fólkið hafi verið farið hafi Q ætlað að ná í lykil að peningaskáp, sem hafi verið í efstu skúffu í skrifborði inni á lager verslunarinnar. Lykillinn hafi verið horfinn, sem og peningar sem hafi verið geymdir á sama stað. Um hafi verið að ræða 12.000 krónur í reiðufé, sem geymdir hafi verið þar fyrir Landflutninga. Í kjölfar handtöku ákærða og félaga hans á Akureyri kvaðst Q hafa fengið lykilinn til baka, en um hafi verið að ræða lyklakippu með lyklum á. Peningana hafi hún ekki fengið senda til baka.
M kvaðst hafa rekið söluskála SJ að Bústaðavegi 60 á Fáskrúðsfirði 16. febrúar 2006. Brotist hafi verið inn í söluskálann og stolið þaðan peningum, farsímakortum, happaþrennum, stafrænni myndavél og hamri. Tveir óvenjulegir seðlar hafi verið teknir í innbrotinu, en þeir hafi verið í sjóðsvél. Annar þeirra hafi verið arabískur og hinn tékkneskur. M kvaðst hafa fengið til baka megnið af happaþrennunum er teknar hafi verið og símakortunum. Ekki hafi hann séð aftur arabíska peningaseðilinn og tékkneska seðilinn, en lögregla hafi tjáð honum að þeir hafi fundist í fórum ákærða. Hamar er tekinn hafi verið hafi verið með brúnu skafti. Hafi M frétt frá lögreglu að hamarinn hafi komið í leitirnar á Akureyri. Hamarinn væri sérstakur því haus hans hafi verið límdur á skefti hamarsins með ,,exposy” tveggja þátta lími. Áður en innbrotið hafi verið framið kvaðst M hafa séð grunsamlega einstaklinga á staðnum. Tveir menn, á svartri Santa Fe bifreið, hafi komið milli kl. 12.00 og 13.30 deginum fyrir innbrotið. Hafi þeir farið á snyrtinguna. Þeir hafi litið mikið í kringum sig og horft upp í loftið. Annar mannanna hafi farið á karlasnyrtinguna en hinn á kvensnyrtinguna. Ekki hafi M kannast við þessa menn á þeim tíma en verið sýndar myndir af hálfu lögreglu næsta dag og þá borið kennsl á þá sem ákærða og A. M staðfesti að lögregla hafi sýnt honum myndir af hamri þeim er lögregla hafi lagt hald á vegna málsins, sem og myndir af arabískum og tékkneskum peningaseðlum. Hafi hamarinn verið sá sem hvarf úr söluskálanum og seðlarnir verið eins og þeir er hann hafi geymt í sjóðsvél söluskálans.
Jónas Halldór Sigurðsson lögreglumaður kvaðst hafa farið á Hótel KEA á Akureyri eftir að tilkynning hafi borist að austan um grunsamlega aðila er hugsanlega tengdust innbrotum fyrir austan. Er Jónas hafi komið á hótelið hafi hann mætt umræddu fólki á gangi hótelsins. Hafi þau verið með poka með sér. Þau hafi öll verið handtekin og færð á lögreglustöð. Hafi Jónas fylgt ákærða að klefa sínum. Aðrir lögreglumenn hafi séð um önnur handteknu. Við leit á ákærða hafi Jónas fundið fíkniefni, lykla sem hafi reynst koma úr innbroti á Fáskrúðsfirði og talsvert af reiðufé. Lyklar af bílaleigubifreið af gerðinni Pajero hafi fundist á ákærða sem og seðlaveski með reiðufé. Jónas kvaðst í framhaldi hafa tekið skýrslur af ákærða og farið upp í Námaskarð þar sem bifreiðin OM-028 hafi fundist utan vegar. Þar hafi lögregla fundið bakpoka með verkfærum í. Í þeim poka hafi t.a.m. verið hamar sem hafi reynst koma úr innbroti í söluskála SJ á Fáskrúðsfirði. Eigandi hamarsins hafi síðar borið kennsl á hamarinn. Dagbók hafi fundist í bifreiðinni. Ákærði hafi kannast við að eiga dagbókina. Við leit á hótelherberginu á Hótel KEA hafi fundist tóbak, símakort, skafmiðar og dót. Hafi Jónas framkvæmt leit á ákærða áður en hann hafi verið færður í fangaklefa. Ólafur Ásgeirsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hafi verið viðstaddur þá leit. Með öllu væri útilokað að einhverjir þeir munir sem hafi verið skráðir á ákærða við leit hafi komið frá A, sem hafi verið handtekinn á sama tíma. Það dót sem handtekinn maður væri með á sér væri sett í poka og merkt viðkomandi. Engar líkur væru á því að slík skráning misfærist. Jónas kvaðst hafa ritað lögregluskýrslur vegna leitar á öðrum handteknu. Það hafi hann gert, þó svo hann hafi ekki komið nærri leit á þeim sjálfur.
Ólafur Ásgeirsson aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfesti þátt sinn í rannsókn málsins. Kvaðst Ólafur hafa aðstoðað við leit á ákærða á lögreglustöð. Leitina hafi Jónas Halldór Sigurðsson framkvæmt en Ólafur staðið hjá á meðan. Ekki hafi Ólafur komið nærri leit á öðrum handteknu við sama tækifæri.
Niðurstaða:
Ákærði neitar sök. Hefur hann viðurkennt að hafa komið í verslunina Sparkaup á Fáskrúðsfirði 16. febrúar 2006 og að hafa komið í söluskála SJ að Bústaðavegi 60 á Fáskrúðsfirði, en hann hafi engu stolið á þessum stöðum. Ákærði var, ásamt A og L, handtekinn á Hótel KEA á Akureyri að morgni föstudagsins 17. febrúar 2006. Við leit á ákærða, A, L og í hótelherberginu, fannst þýfi. Um var að ræða lykla er hurfu úr versluninni Sparkaup á Fáskrúðsfirði, töluvert magn af kortum með símainneignum, sígarettukarton, happdrættisskafmiðar, úr, arabískur peningaseðill og tékkneskur peningaseðill. Loks fundust á ákærða og samferðafólki hans tæplega 600.000 krónur í reiðufé, þar af um 320.000 krónur á ákærða einum. Þá fannst hamar í poka skammt frá bifreiðinni OM-028, sem var utan vegar í Námaskarði í Mývatnssveit, en ákærði hefur borið að hann hafi verið eigandi bifreiðarinnar, en á henni hafi hann og samferðafólk hans verið fyrir austan. Hafi ákærði ekið henni að austan allt þar til bifreiðin hafi hafnað utan vegar í Námaskarði. Far eftir skó af gerðinni Ecco var merkjanlegt á hurð að skrifstofu í söluskála SJ á Fáskrúðsfirði en hurðinni hafði verið sparkað upp í innbrotinu. Þá fannst samskonar skófar nærri bifreiðinni OM-028 sem hafði hafnað utan vegar í Námaskarði í Mývatnssveit. Ákærði var samkvæmt gögnum lögreglu í skóm af gerðinni Ecco er hann var handtekinn á Akureyri að morgni föstudagsins 17. febrúar 2006. Var um samskonar skó að ræða og för fundust eftir í Námaskarði og í söluskála SJ.
Verslunarstjóri verslunarinnar Sparkaup hefur borið að þrír einstaklingar, tveir karlmenn og ein kona, hafi komið í verslunina Sparkaup fimmtudaginn 16. febrúar 2006. Hafi annar mannanna verið kominn inn á lager verslunarinnar. Hafi það verið undir lokun kl. 18.00 Er hún hafi ætlað að taka lykil að peningaskáp úr skúffu skrifborðs inni á lager eftir lokun hafi hún tekið eftir að lykillinn var horfinn, sem og 12.000 krónur í reiðufé, er hafi verið geymt á sama stað og lykillinn. Verslunarstjórinn hefur staðfest að hún hafi fengið lykilinn afhentan í kjölfar handtöku ákærða og samferðafólks hans á Hótel KEA á Akureyri að morgni föstudagsins 17. febrúar 2006.
Verslunarstjóri í söluskálanum SJ á Fáskrúðsfirði hefur lýst því hvað hvarf úr innbroti í söluskálann fimmtudagskvöldið 16. febrúar eða aðfaranótt föstudagsins 17. febrúar 2006. Var þar um að ræða 58.000 krónur í skiptimynt, arabískur peningaseðill og annar tékkneskur, mikið magn af kortum með símainneignum, happdrættisskafmiðar, tvær stafrænar myndavélar og úr. Þá hafi horfið úr innbrotinu hamar, sem hafi verið þannig úr garði gerður að haus hamarsins hafi verið límdur á skaftið með sérstöku lími. Þá hafi skaft hamarsins verið brúnt að lit. Verslunarstjórinn bar kennsl á hamarinn og peningaseðlana á mynd hjá lögreglu. Staðfesti hann það fyrir dómi. Þá liggur fyrir samkvæmt kæru Landsbanka Íslands, að 744.000 krónur af reiðufé var tekið úr hraðbanka sem staðsettur var í söluskálanum.
Þegar til þess er litið að ákærði hefur viðurkennt að hafa verið á ferð með A og L á Fáskrúðsfirði á svipuðum tíma og innbrot áttu sér stað í verslunina Sparkaup og söluskála SJ, að verslunarstjóri í Sparkaup hitti fyrir mann svipaðan ákærða inn á lager verslunarinnar þaðan sem lyklum og reiðufé var stolið, að þýfi úr þessum innbrotum fannst á ákærða, A og L og í herbergi nr. 307 á Hótel KEA á Akureyri þar sem þau dvöldu, að ákærði var með ríflega 320.000 krónur í reiðufé á sér við handtöku, að ákærði hefur viðurkennt að hafa verið á bifreiðinni OM-028 fyrir austan, en bifreiðin fannst utan vegar í Námaskarði og rétt hjá henni poki með verkfærum, þ.á m. hamri, sem hvarf úr söluskála SJ við innbrotið, og loks að ákærði var handtekinn í skóm af gerðinni Ecco, en skófar þeirrar gerðar fannst á vettvangi innbrotsins í söluskála SJ á Fáskrúðsfirði og við hlið bifreiðarinnar OM-028 í Námaskarði, er að mati dómsins hafið yfir allan vafa að ákærði hafi tekið lykla og reiðufé úr versluninni Sparkaup 16. febrúar 2006 og að hann hafi í félagi við A brotist inn í söluskála SJ á Fáskrúðsfirði og stolið þaðan varningi sem tilgreindur er í ákæru. Sá breytti framburður A hér fyrir dómi við endurupptöku málsins um að hann einn hafi brotist inn í söluskála SJ fær að mati dómsins ekki staðist í ljósi þeirra atriða sem hér að framan voru rakin, en styður öllu fremur að brot þetta hafi ákærði og A unnið í félagi. Í því efni er einnig til þess að líta að ákærði og A hafa orðið margsaga í málinu og framburður þeirra í heild sinni ótrúverðugur. Með vísan til þessa verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum liðum ákæru og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákæruliður 2.3.
Samkvæmt skýrslu lögreglunnar í Reykjavík frá 1. maí 2006 var lögreglu þann dag tilkynnt um innbrot inn á skrifstofur á hótel Radisson SAS 1919 við Pósthússtræti í Reykjavík. Í skýrslunni kemur fram að á vettvangi hafi verið haft tal af tilkynnanda, fjármálastjóra, sölustjóra, bókhaldsstjóra og yfirþernu. Fram kom að saknað væri fartölvu, áfengis og aðgangskorta. Fartölvan hafi verið tekin úr vinnuaðstöðu starfsmanns, R sölustjóra. Samkvæmt lögregluskýrslu hafi vinnuaðstaðan verið í kjallara hótelsins. Fjórir útgangar séu út úr hótelinu, einn á austurhlið, annar á suðurhlið og þriðji og fjórði á norðurhlið. Annar inngangurinn á norðurhlið sé vörumóttaka og starfsmannainngangur og sé í porti. Það hafi átt að vera girt af með hliði, en svo hafi ekki verið aðfaranótt laugardagsins 29. apríl 2006. Í kjallara hótelsins séu 4 skrifstofur, salerni, þvottahús, mötuneytisaðstaða og vörugeymsla. Þrjár leiðir séu niður í kjallarann. Er lögregla hafi komið að hafi greinilegar ákomur verið meðfram dyrakörmum við læsingar á fjórum skrifstofum, þ. á m. á skrifstofu er fartölvan hafi horfið úr og annarri er áfengið hafi verið tekið úr. R hafi tjáð lögreglu að fartölvan væri eign hótelsins. Hafi hún yfirgefið skrifstofuna kvöldið á undan og þá allt verið í stakasta lagi. Í skýrslunni kemur fram að tæknideild lögreglu hafi verið kölluð á vettvang.
Tæknideild lögreglu hefur ritað skýrslu um rannsókn á vettvangi. Er vettvangi lýst og hann ljósmyndaður. Fram kemur að gagna hafi verið leitað á innbrotsstað og við það m.a. notaður ljósgjafi og fingrafaraduft. Á kassa undan farsíma á skrifstofu R hafi fundist fingrafarapartur. Farinu hafi verið lyft af fleti sínum með þar til gerðri fingrafaralyftu. Því hafi síðan verið komið til fingrafarasérfræðings lögreglu.
Sævar Þ. Jóhannesson fingrafarasérfræðingur hefur ritað lögregluskýrslu vegna fingrafarasamanburðar. Í skýrslunni kemur fram að honum hafi borist fingrafar í kjölfar innbrots á hótel Radisson SAS 1919 við Pósthússtræti. Fingrafarið hafi verið borið saman við fingrafar ákærða. Við samanburð á vettvangsfingrafarinu og fingrafari ákærða hafi komið í ljós að það hafi verið eftir þumalfingur hægri handar ákærða.
Lagt hefur verið fram sem dskj. nr. 23 mynd af fingrafarasamanburði á fingrafari er fannst á kassa utan af farsíma á skrifstofu hótels Radisson SAS 1919 og fingrafari ákærða.
Þriðjudaginn 2. maí 2005 mætti R á lögreglustöð. Gerði hún lögreglu grein fyrir að fyrrverandi starfsmaður hótelsins hafi verið látinn fara vegna þess að hún hafi boðið unnusta sínum að gista á hótelinu 12. til 13. apríl 2006. Þá nótt hafi flatskjár af tölvu horfið af hótelinu. Ekki væri vitað um deili á unnustanum. Viðkomandi starfsmaður hafi fengið lánað aðgangskort tiltekins starfsmanns hótelsins og aldrei skilað því til baka. Gögn úr aðgangsstýringakerfi hótelsins hafi sýnt að aðgangskort viðkomandi starfsmanns hafi í tvígang verið notað á útidyrahurð vörumóttöku hótelsins kl. 1.30 aðfaranótt 29. apríl 2006.
R mætti aftur á lögreglustöð 7. júlí 2006. Kvaðst hún sem sölustjóri hafa notað símanúmerið [...], sem væri skráð á hótelið. Karlmaður hafi hringt í sig og spurt hana að því hvort hún gæti hitt sig vegna tölvu sem hann hafi tjáð henni að væri greinilega þýfi og hennar eign. Hringt hafi verið úr óskráðu númeri. Áður hafi verið búið að hringja í hana á þeim tíma úr símaklefa og númerinu [...] en hún ekki náð að svara símanum í þeim tilvikum. Klukkan 14.23 þann 30. júní 2006 hafi verið hringt úr óskráðu númeri í síma [...]. Karlmaður hafi innt R eftir því hvort hún vildi kaupa tölvu sem stolið hafi verið frá henni. Hafi henni verið boðin tölvan til kaups á 100.000 krónur. Kvaðst R hafa hafnað því og símtalinu þar með lokið. R kom fyrir dóminn og lýsti atvikum með sama hætti og hjá lögreglu. Bar hún að kassi utan af farsíma hafi verið settur upp á skrifborð sitt í innbrotinu 29. apríl 2006.
Lögregla lét rannsaka úr hvaða símanúmerum hringt hafi verið í númerið [...] um kl. 14.23 þann 30. júní 2006. Fyrir liggja upplýsingar frá símafyrirtækinu Og vodaphone um að kl. 14.00 hafi verið hringt úr símanúmerinu [...], sem sé símanúmer hótels Radisson SAS 1919 og kl. 14.25 hafi verið hringt úr símanúmerinu [...], en rétthafi að því númeri sé Garðar Garðarsson.
Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 10. júlí 2006. Kvaðst hann ekki kannast við innbrot í hótel Radisson SAS 1919 aðfaranótt 29. apríl 2006. Þá kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa hringt úr síma [...] í símanúmerið [...] þann 30. júní 2006. Hann hlyti að hafa lánað einhverjum símann sinn. Þá kvaðst ákærði ekki geta gefið neina skýringu á því að fingrafar af honum hafi fundist á kassa utan af farsíma á skrifstofu hótelsins. Við meðferð málsins fyrir dómi greindi ákærði frá atvikum með sama hætti og hjá lögreglu.
Sævar Þ. Jóhannesson fingrafarasérfræðingur staðfesti þátt sinn í rannsókn málsins. Sævar kvað við það miðað að nægjanlegt væri ef unnt væri að finna 12 einkenni úr fari sem væri til rannsóknar og tengja við samanburðarfarið. Í því tilviki er hafi verið til meðferðar hafi fundist 14 einkenni úr því fari sem hafi fundist á kassa utan af farsíma borin saman við fingrafar af ákærða. Væri því enginn vafi á því að um fingrafar ákærða væri að ræða á kassanum og útilokað að það gæti komið frá einhverjum öðrum.
Niðurstaða:
Ákærði neitar sök og kveðst ekkert kannast við innbrot inn á skrifstofur hótel Radisson SAS 1919 við Pósthússtræti í Reykjavík laugardaginn 29. apríl 2006. Þá kveðst hann ekki hafa skýringu á því að fingrafar af sér hafi fundist á kassa utan af farsíma sem var á skrifstofunni eða að hringt hafi verið úr símanúmeri sem hann sé rétthafi að í símanúmerið [...].
Að mati dómsins liggur fyrir í rannsóknargögnum málsins með fingrafararannsókn lögreglu fullnægjandi sönnun þess að fingrafar ákærða fannst á kassa utan af farsíma, sem var á skrifborði R, en fartölva var tekin af skrifborði hennar laugardaginn 29. apríl 2006. Þá liggur fyrir í gögnum málsins staðfesting þess að hringt var úr símanúmeri er ákærði var rétthafi að í símanúmerið [...] kl. 14.25 þann 30. júní 2006. Hefur R borið að í því símatali hafi henni verið boðin fartölvan til kaups. Þegar þessi gögn málsins eru virt er að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi brotist inn á skrifstofu á hótel Radisson SAS 1919 og tekið þaðan fartölvu ásamt fylgihlutum, áfengi og aðgangskort, en upplýsingar úr aðgangsstýrikerfi hótelsins hafa leitt í ljós að aðgangskort sem komist hafði úr vörslu starfsmanna var notað kl. 01.30 aðfaranótt laugardagsins 29. apríl 2006. Með vísan til þessa verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum tölulið ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæðis.
Ákæruliður 2.4.
Mánudaginn 21. ágúst 2006 barst lögreglu tilkynning um þjófnað á bensínafgreiðslustöð Olís við Sæbraut í Reykjavík. Í viðræðum við verslunarstjóra kom fram að saknað væri korta með símainneignum. Er það hafi komið í ljós hafi verið haft samband við lögreglu auk þess sem myndbandsupptökur úr eftirlitsmyndavélakerfi hafi verið athugaðar. Á myndskeiðum komi fram að sunnudaginn 20. ágúst 2006 kl. 15.24 kom maður inn í afgreiðslustöðina. Gangi hann að kaffivél og fái sér kaffi. Í framhaldi fari hann inn í aðstöðu starfsmanna og inn á skrifstofu verslunarstjóra. Þar inni sé myndavél og snúi maðurinn eftirlitsmyndavélinni til að hann sjáist ekki athafna sig. Maðurinn hafi verið inni á skrifstofunni í um fimm mínútur. Tekið er fram að í efstu skrifborðsskúffu sé lykill að skáp, sem hafi að geyma kort með símainneignum. Skápurinn hafi verið opnaður og kortin tekin upp úr kassa. Í skýrslunni kemur fram að verslunarstjórinn hafi sýnt lögreglu myndir úr eftirlitsmyndavélakerfinu. Þá er þess getið að fyrirtæki er sjái um eftirlitsmyndavélakerfið hafi haft samband við lögreglu og greint frá því að á myndskeiði sjáist að maðurinn hafi komið að bensínafgreiðslustöðinni á bifreið með skráningarnúmerið SF-254.
Í málinu liggur frammi kæra frá 14. september 2006. Er kærður þjófnaður á kortum frá Olíuverzlun Íslands hf. 20. ágúst 2006 með símainneign samtals að fjárhæð 500.000 krónur.
Í rannsóknargögnum málsins liggja frammi myndir úr eftirlitsmyndavélakerfi bensínafgreiðslustöðvarinnar. Á myndunum sést karlmaður koma inn í afgreiðslustöðina. Er hann með húfu á höfði og með sólgleraugu. Sést maðurinn inni á skrifstofu er kortum með símainneignum var stolið úr. Myndir bera með sér að eftirlitsmyndavél inni á skrifstofunni er færð til og sjónarhorni hennar breytt þannig að henni er beint upp að vegg. Á einni myndinni sést dökk jeppabifreið fyrir utan afgreiðslustöðina. Skráningarnúmer bifreiðarinnar er ekki greinanlegt í heild sinni, en þó má sjá að aftasti tölustafur í skráningarnúmeri er 4. Bifreiðin augljóslega af gerðinni HUNDAI, Santa Fe og dökk að lit.
Tæknideild lögreglu hefur ritað skýrslu um vettvangsrannsókn á bensínafgreiðslustöðinni. Í skýrslunni eru myndir af vettvangi sem sýna leið inn í starfsmannarými og skrifstofu verslunarstjóra. Þá hafa verið teknar myndir af skúffu þar sem lykill að skáp var geymdur, sem og af hillu þaðan sem kort með símainneignum voru tekin. Loks hafa verið teknar myndir af eftirlitsmyndavél sem snúið hafði verið.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá 31. ágúst 2006 barst lögreglu tilkynning þann dag um að aðilar á bifreið með skráningarnúmerið ZS-212 væru að selja varning fyrir utan hús Domus Medica við Egilsgötu í Reykjavík. Skömmu síðar var bifreiðin ZS-212 stöðvuð á Skúlagötu. Í bifreiðinni voru ákærði ásamt fjórum öðrum einstaklingum. Ökumaður hafi tjáð lögreglu að hann væri með bifreiðina í láni en að hann heimilaði leit í henni. Hafi ákærða verið tilkynnt að hann væri handtekinn þar sem út hefði verið gefin handtökuskipun á hendur honum. Ákærði hafi verið með fartölvutösku meðferðis og litla skjóðu. Í töskunni hafi verið fartölva og um 60 kort með símainneignum í skjóðunni. Hafi ákærði lýst því yfir að hann ætti þessa hluti. Hafi hann keypt kortin á bensínstöð og væri hann á leið á Litla Hraun með þau. Kortin hafi hann keypt ,,hér og þar”. Kortin og fartölvan hafi verið haldlögð og ákærði færður á lögreglustöð.
Samkvæmt afhendingarskýrslu frá 12. september 2006 móttók verslunarstjóri bensínafgreiðslustöðvar Olís við Sæbraut alls 77 kort með símainneignum þann dag frá lögreglu.
Ákærði var yfirheyrður um atvik 1. september 2006. Kvaðst hann ekki kannast við að hafa farið inn á skrifstofu á bensínafgreiðslustöð Olís við Sæbraut og tekið þaðan kort með símainneignum. Er ákærði var beðinn um að skýra tilvist korta er hann hafi verið með í fórum sínum við handtöku kvaðst hann hafa fundið kortin í plastpoka inni á salerni bensínafgreiðslustöðvar við Sundagarða. Kvaðst ákærði hafa ætlað að skila kortunum. Hafi ákærði ekki áttað sig á því að skila þeim til afgreiðslufólks á bensínafgreiðslustöðinni við Sundagarða.
Fyrir dómi bar ákærði með sama hætti um atvik. Kvaðst ákærði ekki kannast við þá lýsingu lögreglu í frumskýrslu að ákærði hafi sagt að hann hafi keypt umrædd kort á bensínafgreiðslustöðvum og að hann væri á leið með þau á Litla Hraun. Þá kvaðst ákærði ekki kannast við að vera sá einstaklingur er væri á myndum úr eftirlitsmyndavélakerfi bensínafgreiðslustöðvarinnar frá sunnudeginum 20. ágúst 2006.
Gunnsteinn Rúnar Sigfússon lögreglumaður staðfesti aðkomu sína að málinu. Kvaðst Gunnsteinn hafa handtekið ákærða 31. ágúst 2006. Við handtöku hafi komið í ljós að ákærði hafi verið með skjóðu meðferðis sem í hafi verið talsvert af kortum með símainneignum. Hafi ákærði borið að hann ætti kortin sem hann hafi fengið hér og þar. Hafi hann ætlað að fara með þau á Litla Hraun. Kortin hafi öll verið í plasti og ekki verið búið að skafa af þeim.
Niðurstaða:
Ákærði neitar sök. Hefur hann synjað fyrir að hafa brotist inn í skrifstofu á bensínafgreiðslustöð Olís við Sæbraut í Reykjavík sunnudaginn 20. ágúst 2006. Við skýrslugjöf hjá lögreglu, sem og við skýrslugjöf fyrir dómi, hefur hann borið að hann hafi fundið kort með símainneignum á snyrtingu á bensínafgreiðslustöð Olís við Sundagarða.
Í málinu eru myndir úr eftirlitsmyndavélakerfi bensínafgreiðslustöðvarinnar. Sýna myndskeið mann, sem er mjög áþekkur ákærða í útliti, koma inn í afgreiðslustöðina sunnudaginn 20. ágúst 2006. Maðurinn fer inn á skrifstofu verslunarstjóra. Eftir að hafa staðið þar skemma stund færir hann augljóslega eftirlitsmyndavél úr stað þannig að hún hefur ekki lengur yfirsýn yfir skrifstofuna. Samkvæmt framburði verslunarstjóra voru kort með símainneignum, samtals að verðmæti 500.000 krónur, teknar af skrifstofunni í framhaldinu. Þá sýnir myndskeið úr eftirlitsmyndavélakerfinu bifreið af gerðinni HUNDAI Santa Fe, dökka að lit, með skráningarnúmer sem endar á 4, standa fyrir utan afgreiðslustöðina. Staðhæfir umsjónaraðili eftirlitsmyndavélakerfisins að bifreiðin hafi verið með skráningarnúmerið SF-254. Ákærði hefur viðurkennt í ákærulið 1.1 að hafa 21. ágúst 2006 ekið bifreið af gerðinni HUNDAI, Santa Fe, sem er dökk að lit og með skráningarnúmerið SF-254. Þá liggur það fyrir að ákærði var handtekinn 31. ágúst 2006 og var þá með kort með símainneignum í fórum sínum samtals að verðmæti 77.000 krónur. Kortum þessum skilaði lögregla í framhaldi til verslunarstjóra bensínafgreiðslustöðvar Olís við Sæbraut sem þeirra eign. Ákærði gaf þá skýringu á tilvist kortanna í sínum vörslum að hann hafi fundið þau inni á snyrtingu á bensínafgreiðslustöð. Loks hefur lögreglumaður, sem handtók ákærða 31. ágúst 2006, borið að ákærði hafi lýst yfir að hann hafi keypt umrædd kort hér og þar og að hann hafi verið á leið með þau á Litla Hraun.
Þegar til framangreinds myndskeiðs úr eftirlitsmyndavél er litið og bifreiðar þeirrar er þá var við bensínafgreiðslustöðina, þess að ákærði var með verulegan fjölda símakorta í vörslum sínum 31. ágúst 2006 sem skilað var starfsmanni afgreiðslustöðvarinnar sem eign hennar og að ákærði gaf einkar ósennilega skýringu á tilvist kortanna í sínum vörslum, er það mat dómsins að fram sé komin fullnægjandi sönnun þess að ákærði hafi verið sá einstaklingur er braust inn á skrifstofu bensínafgreiðslustöðvarinnar og tók þaðan kort með símainneignum samtals að verðmæti 500.000 krónur. Með vísan til þess verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er brotið þar rétt heimfært til refsiákvæðis.
Ákæruliðir 2.5, 3 og 4.
Miðvikudaginn 6. september 2006 var óskað aðstoðar lögreglu að veitingastaðnum TGI Friday´s í Smáralind í Kópavogi vegna þjófnaðar. Á vettvangi var rætt við starfsmann veitingastaðarins, S. Greindi hún lögreglu frá því að mánudaginn 4. september 2006 hafi maður komið inn á starfsmannasvæði veitingastaðarins í gegnum bakdyr sem alltaf væru opnar. Hafi maðurinn farið inn á skrifstofu og tekið þar kortaveski og farsíma. Umræddir munir hafi verið í veski starfsmannsins sem hafi hangið á snaga inni á skrifstofu. Myndataka væri til af manninum þar sem hann hafi gengið um starfsmannasvæðið. Í kortaveski S hafi verið debetkort, kreditkort, ökuskírteini, háskólakort og fyrirtækjakort. Í frumskýrslu kemur fram að lögreglumaður hafi litið á upptökur úr eftirlitsmyndavélakerfi og hafi hann þar þekkt ákærða sem þann er gengið hafi inn um neyðarútgang baka til á veitingastaðnum. Hafi hann gengið að skrifstofunni en horfið þar úr mynd. Komi hann aftur skömmu síðar og gangi aftur út um neyðarútganginn, en dyr hans hafi verið opnar. Fram kemur að S hafi tjáð lögreglu að starfsmaður KB-banka hafi haft samband og látið vita að hugsanlega væri verið að misnota greiðslukort starfsmannsins. Teknar hafi verið út fjárhæðir af debetkorti S. Í Lukkusmáranum, Smáralind í Kópavogi hafi verið teknar út 10.000 krónur og 15.000 krónur. Í skýrslunni er tekið fram að myndupptaka sé til af því en ekki unnt að prenta hana út eða senda á tölvupósti. Í skýrslu sem rituð hefur verið 12. september 2006 gerir Páll Sigurðsson lögreglumaður grein fyrir því að hann, ásamt Aðalsteini Aðalsteinssyni rannsóknarlögreglumanni, hafi 8. september 2006 farið í aðstöðu Lukkusmárans í Kópavogi til að skoða þar myndskeið í eftirlitsmyndavél. Við skoðun á myndskeiði megi sjá ljóshærða stúlku í peysu með áletruninni ,,Nike 22”, framvísa greiðslukorti í afgreiðslu kl. 15.07 og aftur kl. 15.16. Með henni í för sé ákærði. Ekki hafi reynst unnt að fá umrætt myndskeið afhent vegna tæknilegra örðugleika.
Í frumskýrslu kemur fram að á Catalinu í Hamraborg hafi verið teknar út 16.100 krónur, 12.000 krónur og 11.000 krónur. Tekið er fram að myndavél sé á staðnum en ekki vitað hvort upptaka sé til. Í Háspennu hf. á Laugavegi hafi verið teknar út 15.000 krónur í tvígang. Tekið er fram að myndupptaka sé til. Í skýrslu sem rituð hefur verið 24. september 2006 gerir Páll Sigurðsson lögreglumaður grein fyrir því að hann, ásamt Aðalsteini Aðalsteinssyni rannsóknarlögreglumanni, hafi farið í aðstöðu Háspennu við Laugaveg til að skoða þar myndskeið í eftirlitsmyndavél. Við skoðun á myndskeiði megi sjá B við úttektir á reiðufé. Ákærði sjáist með henni og ljóst sé að þau séu saman þar sem hann láti vel að B við afgreiðsluborðið. Úttektir hafi verið framkvæmdar kl. 16.54 og 17.00 þann 4. september 2006.
Þá hafi verið teknar út á kreditkort S 9.319 krónur í Vínbúðinni í Smáralind. Í skýrslu Páls Sigurðssonar frá 24. september 2006 kemur fram að hann, ásamt Aðalsteini, hafi skoðað myndskeið af diski sem aflað hafi verið hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Sýni myndskeið B og ákærða kaupa áfengi. B framvísi korti til greiðslu á áfenginu. Úttektin hafi verið framkvæmd 4. september 2006 kl. 15.29. Með skýrslunni eru myndir úr eftirlitsmyndavélakerfi verslunarinnar sem sýna ákærða, ásamt ljóshærðri stúlku, í Vínbúðinni í Smáralind í Kópavogi.
Þá kemur fram að S hafi rætt símleiðis við lögreglu daginn eftir kæru og hafi hún þá gert grein fyrir því að hún hafi átt erindi í KB-banka í Mjódd stuttu áður og húsvörður í Mjóddinni þá fundið ökuskírteini og kreditkort S fyrir utan bankann. Reynt hafi verið að nota kortið í versluninni P. Eyfeld á Laugavegi. Hafi lögreglumaður haft samband við starfsmann verslunarinnar og hafi starfsmaðurinn kannast við að hafa afgreitt stúlku sem hafi ætlað að greiða fyrir vörur fyrir sig og mann með henni í för. Er starfsmaðurinn hafi rennt korti hennar í gegnum posa hafi komið athugasemd. Stúlkan hafi verið ljóshærð en karlmaðurinn á milli þrítugs og fertugs. Maðurinn hafi sagt að hann kannaðist við starfsmanninn og sagt ,,þekkirðu mig ekki, ég er sonur Garðars.”
Á meðal rannsóknargagna málsins er reikningsyfirlit frá KB-banka og varðar færslur á kreditkort í eigu S. Á yfirlitinu kemur fram að 4. september 2006 hafa verið teknar út 5.000 krónur vegna Og vodaphone, 5.000 krónur vegna Söluvers-Síminn og 9.319 krónur vegna Vínbúðarinnar Smáralind. Þá liggur fyrir í rannsóknargögnum yfirlit frá KB-banka frá 4. september 2006 um færslur á debetkort S. Samkvæmt yfirlitinu hafa verið teknar út í tveimur færslum hjá Háspennu samtals 30.000 krónur, samtals 39.100 krónur í þremur færslum hjá Catalinu og samtals 25.000 krónur í tveimur færslum hjá Lukkusmáranum.
Í lögregluskýrslu frá 24. október 2006 er rakið að við rannsókn málsins hafi komið í ljós að framkvæmdar hafi verið tvær færslur með því að hringja í þjónustuver símafyrirtækja og greiða fyrir símainneign með því að gefa heimildarlaust upp númer á greiðslukorti S. Hringt hafi verið í þjónustuver Og vodaphone 4. september 2006 kl. 15.35 og greitt fyrir 5.000 króna inneign með því að gefa upp númer á greiðslukorti S. Hringt hafi verið úr símanúmerinu [...] og inneignin látin inn á símanúmerið [...], en rétthafi að símanúmerinu sé B. Sama dag kl. 16.44 hafi verið hringt í þjónustuver Símans og greitt fyrir 5.000 króna símainneign á símanum [...], en ákærði hafi borið að hann væri rétthafi að því símanúmeri er tekin hafi verið af honum skýrsla hjá lögreglu 28. september 2006.
Ákæruvald hefur lagt fram sem dskj. nr. 22 skýrslu Tæknideildar lögreglu. Í skýrslunni eru afrit af myndum úr eftirlitsmyndavélakerfum. Á myndum nr. 1 til 4 má sjá ákærða koma inn á starfsmannaaðstöðu veitingastaðarins TGI Friday´s í Smáralind í Kópavogi. Á myndum nr. 5 til 12 má sjá ákærða og ljóshærða stúlku við afgreiðsluborð inni á Háspennu við Laugaveg í Reykjavík. Þá hefur ákæruvald lagt fram sem dskj. nr. 21 ljósmyndir sem staðhæft er að séu af B. Er um að ræða sömu stúlku og sést með ákærða á myndum úr eftirlitsmyndavélakerfum á dskj. nr. 22. B kom fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins. Fer ekki milli mála að á dskj. nr. 21 eru myndir af henni ásamt ákærða.
Ákæruvald hefur lagt fram sem dskj. nr. 19 afrit af umsókn fanga um heimsókn. Umsóknin ber með sér að ákærði sé að sækja um leyfi til að B fái leyfi til að heimsækja ákærða 28. september 2006. Umsóknin er dagsett 26. september 2006 og heimiluð með áritun starfsmanna fangelsisins 27. september 2006. Með skjalinu er afrit af lögregluskýrslu frá 17. október 2006. Samkvæmt henni barst lögreglu 28. september 2006 tilkynning frá fangelsisyfirvöldum á Litla Hrauni þess efnis að fíkniefnaleitarhundur hafi fundið lykt af B, sem komið hafi í fangelsið til að heimsækja fanga. Hafi B afhent fangavörðum efni er lögregla hafi talið vera hass. Sama dag var tekin af henni skýrsla vegna málsins. Kvaðst hún hafa komið í fangelsið til að heimsækja ákærða.
Ákærði var yfirheyrður um sakarefnið 28. september 2006. Kvaðst hann ekki muna eftir að hafa farið inn á starfsmannasvæði TGI Friday´s í Smáralind í Kópavogi 4. september 2006 eða hafa stolið þaðan farsíma og kortaveski, sem innihélt greiðslukort og skilríki. Kvaðst ákærði á þeim tíma hafa verið á ,,skralli og fyllirí.” Kvaðst hann endurþekkja sig á mynd úr eftirlitsmyndavélakerfi Vínbúðarinnar í Smáralind í Kópavogi. Kvaðst ákærði ekki þekkja B. Hann hafi verið í mikilli neyslu á þessum tíma. Fyrir dómi kvaðst ákærði ekkert kannast við atburði tengda þessum ákæruliðum. Þá kvaðst hann ekki kannast við B. Er undir ákærða var borið að samkvæmt dskj. nr. 19 hafi ákærði sótt um heimild til að B mætti heimsækja ákærða í fangelsið að Litla Hrauni 28. september 2006 kvaðst hann hafa viljað ræða við B, þó svo hann hafi ekki þekkt hana. Er mál tengd veitingastaðnum TGI Friday´s hafi komið upp hjá lögreglu hafi ákærði einfaldlega viljað ræða við B til að reyna að átta sig á hvað væri í gangi. Ákærði kvaðst kannast við símanúmerið [...], en hann hafi verið með það símanúmer á tímabili. Kvaðst hann ekki kannast við að hafa sett inneign inn á það símanúmer 4. september 2006.
B var yfirheyrð af lögreglu 26. september 2006. Kvaðst hún við það tilefni ekki þekkja ákærða en hafa hitt hann stöku sinnum. Var henni gerð grein fyrir því að lögregla væri með til rannsóknar atburði frá 4. september 2006 er farsíma og kortaveski hafi verið stolið úr starfsmannaaðstöðu veitingastaðarins TGI Friday´s og greiðslukort starfsmannsins verið notuð í kjölfarið. B kvað ákærða hafa verið að þvælast í kringum sig þennan dag en ekkert hafa fengið af þeim peningum sem teknir hafi verið út á kortin. Kvaðst B viðurkenna að hafa tekið 10.000 krónur út á greiðslukort í Lukkusmáranum í Kópavogi 4. september 2006. Þá kvaðst hún viðurkenna að hafa tekið út 15.000 krónur á sama stað nokkrum mínútum síðar. Kvaðst hún hafa keypt áfengi fyrir 9.319 krónur með því að nota greiðslukortið í Vínbúðinni í Smáralind í Kópavogi 4. september. Þá kvaðst hún kannast við að hafa tekið út 15.000 krónur í tvígang í spilasalnum Háspennu á Laugavegi. Þá kvaðst hún hafa notað greiðslukortið í Catalinu í Hamraborg í Kópavogi, en hún vissi ekki hve mikið hún hafi tekið. Ekki kvaðst B kannast við að hafa notað greiðslukortin hjá símafyrirtækjunum Símanum og Og vodaphone til að setja símainneignir inn á síma.
Við aðalmeðferð málsins bar B að hún hafi þekkt ákærða lítið á þessum tíma. Hafi hún ekki verið með ákærða mánudaginn 4. september 2006. Þá kvaðst hún ekki geta sagt til um hvernig hún hafi fengið greiðslukort S í hendur. Þá kvaðst hún kannast við að hafa reynt að heimsækja ákærða í fangelsið á Litla Hraun. Er undir B voru borin myndskeið úr eftirlitsmyndavélakerfum samkvæmt þessum ákæruliðum kvaðst B kannast við sig á myndum. Kvaðst hún ekki þekkja ákærða á myndunum. Var borið undir hana dskj. nr. 22. Kvaðst hún þar kannast við sig en ekki þann er með henni væri á myndunum. Kvaðst hún ekki muna eftir umræddum tilvikum.
Lögreglumennirnir Albert Örn Sigurðsson, Páll Sigurðsson og Aðalsteinn Aðalsteinsson komu fyrir dóminn og staðfestu þátt sinn í rannsókn málsins. Albert kvaðst hafa verið kallaður að veitingastaðnum TGI Friday´s 6. september 2006 vegna þjófnaðar úr aðstöðu starfsmanna. Kvaðst Albert hafa séð upptökur úr eftirlitsmyndavélakerfum hjá Lukkusmáranum, Háspennu og úr aðstöðu hjá TGI Friday´s. Á myndum úr þessum kerfum hafi mátt sjá ákærða ásamt konu. Kvaðst Albert oft áður hafa haft afskipti af ákærða og því hafa þekkt hann vel í sjón. Á myndskeiðum er Albert hafi séð hafi konan sést nota greiðslukort í Lukkusmáranum og Háspennu. Páll Sigurðsson kvaðst hafa farið í Smáralindina og séð upptökur úr eftirlitsmyndavélakerfum þar. Með honum í för hafi verið Aðalsteinn Aðalsteinsson rannsóknarlögreglumaður. Á myndskeiðum er þeir hafi séð hafi sést til ákærða og B. Á þeim tíma hafi Páll þekkt vel ákærða en ekki B. Hafi Páll fengið í hendur myndskeið frá TGI Friday´s, Háspennu og Vínbúðinni í Smáralind. Aðalsteinn Aðalsteinsson kvaðst hafa borið kennsl á ákærða á myndskeiðum úr Smáralindinni en hann hafi á þeim tíma þekkt ákærða vel í sjón.
Niðurstaða:
Ákærði neitar sök samkvæmt þessum töluliðum ákæru. Kveðst hann hafa verið á ,,fylleríi og skrall” á þessum tíma. Hefur hann viðurkennt að hafa verið með símann [...] um þetta leyti. Þá hefur hann borið að hann hafi sótt um leyfi fyrir B til að heimsækja sig í fangelsið að Litla Hrauni 28. september 2006. Hann hafi ekki þekkt B en viljað ræða við hana um atburði tengda þessu sakarefni eftir að það hafi komið upp.
B viðurkenndi hjá lögreglu að hafa notað greiðslukort S 4. september 2006 með þeim hætti er lýst er í tl. 3 og 4 í ákæru. Framburð hennar fyrir dómi verður að skilja á sama veg. Hún hefur ekki viljað kannast við ákærða eða að hafa verið með honum þennan dag. Hún hefur þó viðurkennt að hafa ætlað að heimsækja hann í fangelsið að Litla Hrauni 28. september 2006.
Í rannsóknargögnum málsins liggur frammi nokkur fjöldi myndskeiða úr eftirlitsmyndavélakerfum. Er þar um að ræða myndir af lager veitingastaðarins TGI Friday´s frá 4. september 2006, myndir úr Háspennu og myndir úr Vínbúðinni í Smáralind. Bera þessar myndir augljóslega með sér að ákærði hafi verið inni á svæði starfsmanna á veitingastaðnum TGI Friday´s og að B og ákærði hafi verið saman á ferð inni á Háspennu og í Vínbúðinni. Þá liggur fyrir samhljóða framburður lögreglumanna um að þau hafi einnig sést á myndum úr eftirlitsmyndavélakerfi í Lukkusmáranum í Kópavogi. Einnig liggur fyrir með hvaða hætti debetkort og kreditkort S var notað þennan dag. Er notkun þess að fullu í samræmi við myndir af ákærða og B í eftirlitsmyndavélakerfum. Þegar til þessa er litið er að mati dómsins komin fram óvefengjanleg sönnun þess að ákærði hafi brotist inn á svæði fyrir starfsmenn á veitingastaðnum TGI Friday´s 4. september 2006 og að hann hafi tekið þaðan farsíma og kortaveski sem innihélt greiðslukort. Er þessari háttsemi ákærða lýst í ákærulið 2.5 í ákæru. Hann hafi í kjölfarið látið greiðslukort S í hendur á B og þau hafi í framhaldi svikið út vörur og þjónustu í Lukkusmáranum í Kópavogi, Catalinu í Hamraborg, Háspennu við Laugaveg og loks í Vínbúðinni í Smáralind, með þeim hætti sem rakið er í 3. kafla ákæru. Þó svo B hafi framvísað bæði debetkorti og kreditkorti S, ritað undir úttektir í nafni S og borið að hún hafi verið ein í brotunum er að mati dómsins ljóst, í ljósi gagna málsins, að þau stóðu saman að brotinu. Að síðustu hafi ákærði í félagi við B hringt í þjónustuver Og vodaphone og Símans og greitt fyrir 5.000 króna inneignir á báðum stöðum með því að gefa heimildarlaust upp númer á greiðslukorti S og látið færa inneignirnar inn á símanúmerin [...] í eigu B og [...] í eigu ákærða. Með vísan til alls þessa verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum töluliðum ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákæruliður 5.1.
Laugardaginn 29. júlí 2006 kl. 02.58 voru lögreglumenn við umferðareftirlit á Reykjanesbraut. Veittu þeir athygli bifreiðinni YZ-091 þar sem henni var ekið austur Reykjanesbraut. Hafi hraði bifreiðarinnar verið mældur 117 km. á klst. en leyfilegur hámarkshraði á Reykjanesbraut hafi verið 90 km. á klst. Hafi ökumanni, ákærða í máli þessu, verið gefið merki um að stöðva akstur. Hafi verið rætt við hann í lögreglubifreiðinni. Í viðræðum við hann hafi áfengisþef lagt frá vitum hans. Hafi hann gefið öndunarsýni og hafi það gefið til kynna að ákærði hafi verið undir áhrifum áfengis. Ákærði hafi verið færður á lögreglustöð. Klukkan 03.50 hafi sýni verið tekið úr honum til ákvörðunar á áfengisinnihaldi í blóði. Að skýrslutöku lokinni hafi ákærði verið frjáls ferða sinna. Samkvæmt niðurstöðu Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum frá 2. ágúst 2006 mældist 0,90 o/oo alkóhóls í blóði ákærða greint sinn.
Ákærði hefur við rannsókn og meðferð málsins viðurkennt að hafa ekið bifreiðinni YZ-091 greint sinn með 113 km. hraða á klst. og að hafa verið undir áhrifum áfengis við aksturinn. Hann kveðst hins vegar ekki hafa verið sviptur ökurétti á þeim tíma en hann hafi 19. apríl 2006 fengið útgefna bráðabirgðaakstursheimild og aftur 8. júní 2006. Ökuskírteini hafi hann fengið útgefið 13. júní 2006.
Niðurstaða:
Ákærði hefur játað að hafa ekið bifreiðinni YZ-091 með 113 km hraða á klst. og að hafa verið undir áhrifum áfengis greint sinn með því að 0,90 o/oo af alkóhóli mældist í blóði ákærða. Með vísan til þess verður ákærði sakfelldur fyrir að hafa ekið bifreiðinni yfir leyfilegum hámarkshraða og undir áhrifum áfengis. Með vísan til niðurstöðu dómsins undir ákærulið 5.2 hér að framan verður ákærði einnig sakfelldur fyrir að hafa ekið bifreiðinni YZ-091 sviptur ökurétti. Verður hann því sakfelldur samkvæmt þessum ákæruliðum og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákæruliður 5.3.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá 8. september 2006 barst lögreglu þann dag kl. 01.08 tilkynning um einkennilegt aksturslag bifreiðar af gerðinni VW Golf en bifreiðin væri kóngablá að lit. Bifreiðinni væri ekið eftir Reykjanesbraut áleiðis til Keflavíkur. Væri henni ekið á mikilli ferð og um allan veg. Í tilkynningunni kom jafnframt fram að bifreiðinni hafi rétti í því verið ekið út af tvöföldun Reykjanesbrautar á Strandheiði. Í skýrslunni kemur fram að lögreglumenn úr Keflavík hafi þegar haldið út á Reykjanesbraut. Skammt austan við gatnamót Njarðvíkurvegar hafi lögregla veitt athygli bifreið er hafi komið suður Reykjanesbraut. Bifreiðin hafi verið dökkblá að lit og af gerðinni VW Golf. Hafi verið ákveðið að hafa tal af ökumanni. Lögreglubifreiðinni hafi verið snúið við og hafi þá virst sem ökumaður hinnar bifreiðarinnar hafi aukið hraðann. Hafi hann beygt strax til hægri og inn Njarðvíkurveg. Myrkur hafi verið úti, götulýsing slæm og mikið regn. Af þeim ástæðum hafi blá aðvörunarljós lögreglubifreiðarinnar ekki verið tendruð, en það hefði gert lögreglumönnum erfitt með að sjá veginn, sem hafi verið holóttur og vegavinnuframkvæmdir á stórum hluta hans. Ökumaður fólksbifreiðarinnar hafi ekið sem leið lá Njarðvíkurveg til norðurs. Bil á milli lögreglubifreiðarinnar og fólksbifreiðarinnar hafi verið á bilinu 300 til 500 metrar á vegakafla frá gatnamótum Reykjanesbrautar og Njarðvíkurvegar. Í myrkrinu hafi bæði afturljós fólksbifreiðarinnar sést. Þegar lögregla hafi komið að húsi nr. 2 við Njarðvíkurveg hafi bilið á milli bifreiðanna verið orðið meira og hafi afturljós fólksbifreiðarinnar sést skammt norðan gatnamóta Stapavegar. Hafi för verið haldið áfram norður veginn. Á móts við Innri Njarðvíkurkirkju hafi lögreglumenn misst sjónir af fólksbifreiðinni en haldið för áfram norður götuna. Á móts við hús nr. 56 hafi verið ákveðið að snúa við og aka til baka þar sem bifreiðin hafi hvergi verið sjáanleg. Er lögregla hafi komið á móts við hús nr. 33 hafi fólksbifreiðin, með skráningarnúmer JG-727, verið kyrrstæð úti á túni og maður að létta af sér við húsvegg. Greinileg hjólför hafi verið á túninu eftir bifreiðina sem hafi sýnt að bifreiðinni hafi verið ekið norður götuna þar sem henni hafi verið beygt til vinstri og inn á túnið. Rætt hafi verð við ökumann, sem hafi upplýst lögreglu um að hann héti Garðar Garðarsson, ákærði í máli þessu. Greinilegan áfengisþef hafi lagt frá vitum hans og hafi hann verið ,,þvöglumæltur.” Hafi hann verið spurður um bifreiðina JG-727 og hafi hann lýst yfir að hann vissi ekkert um bifreiðina. Hafi hann gert grein fyrir því að hann hafi verið í gleðskap skammt frá og væri að létta af sér. Kannað hafi verið hvort einhver hafi verið á bifreiðinni JG-727 og engan verið að sjá. Bifreiðin hafi verið ólæst, enginn kveikjuláslykill í henni, en vélarhlíf heit viðkomu. Opin dós af áfengum bjór hafi verið á milli framsæta og tveir kassar af bjór á gólfi bifreiðarinnar. Í ljósi þess að enginn annar hafi verið á staðnum hafi ákærði verið handtekinn í þágu rannsóknar málsins. Hafi ákærði ekki getað framvísað ökuskírteini eða öðrum skilríkjum. Ákærða hafi verið boðið að vísa á það hús er hann hafi verið í gleðskap í en hann hafi ekki verið viss um hvar það væri. Hafi hann borið því við að hann sæi ekki nægjanlega vel út úr lögreglubifreiðinni er henni hafi verið ekið eftir götunni. Ákærði hafi verið færður á lögreglustöð. Við leit á ákærða hafi fundist kveikjuláslykill, sem hafi reynst vera að bifreiðinni JG-727. Hafi ákærði borið að um væri að ræða einn lykil af mörgum sem gengju að bifreiðinni. Þvagsýni hafi verið tekið úr ákærða kl.01.52 en kl. 02.10 hafi læknir tekið úr ákærða blóð til rannsóknar. Vegna rannsóknar málsins hafi ákærði verið vistaður í fangaklefa. Bifreiðin JG-727 hafi verið færð á lögreglustöð og kveikjuláslykill hennar afhentur varðastjóra. Við athugun í málaskrá lögreglu hafi komið í ljós að ákærði væri sviptur ökuréttindum frá 29. apríl 2006 til 29. apríl 2009.
Samkvæmt niðurstöðu Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum frá 12. september 2006 mældist 0,94 o/oo alkóhóls í blóði ákærða greint sinn. Í þvagi mældist 1,52 o/oo alkóhóls.
Að fenginni skriflegri heimild G, umráðamanns bifreiðarinnar JG-727, leitaði lögregla í bifreiðinni. Við leit fundust tvær lyklakippur. Var önnur þeirra með einum kveikjuláslykli að bifreið af gerðinni Toyota. Á hinni voru fjórir kveikjuláslyklar.
Ákærði var yfirheyrður af lögreglu í framhaldi af handtöku. Kvaðst ákærði ekki hafa ekið bifreiðinni JG-727 um nóttina. Kvaðst hann hafa verið nýkominn úr samkvæmi sem hafi verið í ofar í þeirri götu er lögregla hafi haft afskipti af honum í. Hafi ákærði farið úr samkvæminu til að létta af sér. Var ákærði inntur eftir því hvort hann kannaðist við bifreið með skráningarnúmerið JG-727. Kvaðst hann ekki átta sig á bifreið út frá skráningarnúmeri. Var ákærða í framhaldi gerð grein fyrir að skráður eigandi bifreiðarinnar væri G. Kvaðst ákærði kannast við G. Bar ákærði að Gunnar nokkur hafi verið á bifreiðinni. Er ákærða var bent á að kveikjuláslykill að bifreiðinni hafi verið í vörslum ákærða bar hann að um væri að ræða einn lykil af mörgum að bifreiðinni. Er ákærði var inntur eftir því að hann hafi verið alveg þurr er lögregla hafi komið að honum en rignt hafi mikið úti bar ákærði að hann hafi verið nýkominn út er lögregla hafi haft afskipti af honum. Hafi hann gengið meðfram húsi og því ekki náð að blotna. Hafi ákærði lýst yfir að hann væri sviptur ökurétti til þriggja ára.
Ákærði var aftur yfirheyrður af lögreglu næsta dag. Bar ákærði að G væri umráðamaður bifreiðarinnar JG-727. Kvaðst ákærði ekki hafa verið með bifreiðina í láni hjá G. Hafi ákærði verið með lykla að bifreiðinni ef hann þyrfti að fara út í bifreiðina. Er ákærði var inntur eftir því hvernig hann hafi komist að þeim stað er hann hafi verið handtekinn á kvaðst ákærði hafa gengið þaðan úr húsi er hann hafi verið í samkvæmi í. Um hafi verið að ræða næsta eða þarnæsta hús. Hafi ákærði ætlað að skoða kirkjuna. Er ákærða var bent á að lögregla hafi gengið í næstu hús í nágrenninu og ekki getað sannreynt að samkvæmi hafi verið í gangi bar ákærði að um rólegt samkvæmi hafi verið að ræða. Ákærði kvaðst á þeirri stundu ekki geta tilgreint neinn sérstakan er myndi eftir honum í samkvæminu. Hann myndi eflaust muna það síðar. Ákærði bar að bifreiðin JG-727 hafi verið á þeim stað er lögregla hafi komið að henni er ákærði hafi komið að. Hafi hann verið rétt nýkominn fyrir hornið er lögregla hafi komið að.
Fyrir dómi bar ákærði að hann hafi ekki ekið bifreiðinni JG-727 aðfaranótt föstudagsins 8. september 2006. T hafi hins vegar ekið bifreiðinni þetta kvöld. Ákærði hafi drukkið áfengi um kvöldið og hafi hann ætlað að skemmta sér. Er ákærða var bent á að hann hafi í lögregluskýrslu tilgreint einhvern Gunnar sem þann sem hafi verið með bifreiðina, bar ákærði að tiltekinn Gunnar hafi verið með bifreiðina, sem og einhver stúlka. Vissi ákærði ekki nein deili á nefndum Gunnari. Kvaðst ákærði hafa verið í samkvæmi í Njarðvík þetta kvöld. Kvaðst hann ekki vita nákvæmlega hvar hann hafi verið í samkvæminu. Hafi ákærði kannast við einhverja í samkvæminu en ekki vita hverjir þeir hafi verið. T hafi verið í samkvæminu. Ákærði bar að þrennir lyklar væru að bifreiðinni JG-727. Hafi ákærði verið með eina í fórum sínu, G með aðra en þeir þriðju hafi verið í bifreiðinni. Ákærði kvaðst ekki hafa séð er bifreiðin JG-727 hafi komið að húsinu þar sem hún hafi verið er lögregla hafi komið að. T hafi hringt í ákærða og sagt að hann væri kominn en ákærði hafi hvergi séð hann.
G gaf skýrslu hjá lögreglu vegna málsins 12. september 2006. Bar hún að ákærði hafi verið á bifreiðinni JG-727 þann 7. og 8. september 2006, en hann hafi verið með lykla að bifreiðinni. Hafi hún verið veik á þessum tíma og veitt því athygli að ákærði hafi tekið bifreiðina. Enginn annar en ákærði hafi haft aðgang að kveikjuláslyklum bifreiðarinnar. Ákærði hafi tekið bifreiðina af bifreiðastæði við Tjarnargötu 39 í Reykjanesbæ. Ákæruvald ákvað að leiða G sem vitni við aðalmeðferð málsins. Var m.a. gefin út handtökuskipun á hendur henni í þeim tilgangi. Lögreglu tókst ekki að hafa upp á G og ákvað ákæruvald að fresta málinu ekki frekar en orðið væri í ljósi þess að ákærði væri í síbrotagæslu. Kom G því ekki fyrir dóm.
T bar svo við aðalmeðferð málsins að hann hafi vitað að ákærði hafi verið með bifreiðina JG-727 til umráða 8. september 2006. Hafi T fengið bifreiðina lánaða þetta kvöld hjá ákærða, en til hafi staðið að ná í stúlku. Í kjölfarið hafi hann farið í ferðina. Hafi hann skilið bifreiðina eftir hjá tilteknu húsi á milli kl. 12.00 og 1.00 um nóttina. Kvaðst T ekki hafa orðið var við að lögregla hafi ekið á eftir sér. Eftir að hafa skilið bifreiðina eftir T farið til félaga síns, sem hafi búið þar skammt frá. Sá heiti U. Hafi T lagt bifreiðinni aðeins frá því húsi er hann hafi farið í og hafi ákærði verið í einhverju öðru húsi. Hafi T ætlað að ná í ákærða og knúið dyra á húsi. Ákærði hafi ekki svarað. Síðar hafi ákærði látið T vita um að lögregla hafi komið, handtekið ákærða og tekið bifreiðina. T kvaðst hafa hringt í ákærða þetta kvöld úr gamla símanum sínum. Ekki myndi hann hvaða númer hafi verið í símanum. T kvaðst ekki hafa séð til ferða ákærða er hann hafi stöðvað bifreiðina fyrir utan húsið. Með T í bifreiðinni hafi verið stúlka að nafni Eyrún, er byggi í Breiðholti í Reykjavík. Ekki kvaðst T vita hvers dóttir hún væri. Ekki kvaðst hann vita af hverju hann hafi átt að gefa sig fram við lögreglu til að láta vita um að hann hafi ekið bifreiðinni greint sinn.
Guðmundur Sæmundsson lögreglumaður staðfesti þátt sinn í rannsókn málsins. Bar hann að lögreglu hafi verið tilkynnt um undarlegt aksturslag bifreiðar og hafi Guðmundur, ásamt öðrum lögreglumanni, farið á vettvang. Er lögreglumennirnir hafi verið á Reykjanesbraut, nærri ,,Gokart” brautinni, hafi þeir mætt bifreið er hafi svarað til þeirrar lýsingar er lögreglumenn hafi haft á umræddri bifreið. Sökum þess að myrkur hafi verið úti og rigning hafi lögreglumenn ekki getað greint andlit ökumanns. Hafi lögreglubifreiðinni verið snúið við og henni ekið í humátt á eftir bifreiðinni. Bifreiðinni hafi verið ekið inn á Njarðvíkurveg. Hafi henni verið ekið áfram og niður að sjó allt þar til komið hafi verið að Njarðvíkurkirkju. Þar hafi bifreiðin horfið sjónum. Hafi lögreglubifreiðinni þá verið snúið við og bifreiðin sést kyrrstæð á túnfleti. Hafi maður verið að kasta af sér vatni við hús um 4 til 5 metra frá bifreiðinni. Er lögreglumenn hafi veitt bifreiðinni eftirför hafi verið á bilinu 200 til 300 metrar á milli bifreiðanna. Hafi þeir misst sjónir af bifreiðinni í einhverjar sekúndur, ekki mínútur. Hafi sá sem hafi verið að kasta af sér vatni verið eini einstaklingurinn á svæðinu. Hafi hann borið að hann hafi verið í samkvæmi. Hafi hann verið beðinn um að sýna lögreglumönnum hvar það hafi verið en hann hafi ekki getað gert það. Ekki hafi verið unnt að greina nein fótspor á vettvangi. Lyklar að bifreiðinni hafi fundist í fórum ákærða á lögreglustöð. Þá hafi hann lagt á borðið hjá varðstjóra. Í kjölfarið hafi lögreglumenn náð í bifreiðina. Guðmundur kvað ákærða ekki hafa verið að ræða í síma er lögreglu hafi borið að. Öll ljós hafi verið slökkt í því húsi er ákærði hafi verið við, sem og í öllum nærliggjandi húsum. Hafi ákærði greinilega verið nýstiginn út úr bifreiðinni JG-727.
Gunnar Helgi Einarsson lögreglumaður staðfesti sinn þátt í rannsókn málsins. Kvaðst hann hafa sinnt málinu ásamt Guðmundi Sæmundssyni lögreglumanni. Bar hann um atvik með sama hætti og Guðmundur. Ítrekaði Gunnar að lögreglumenn hafi einungis misst sjónir af bifreiðinni JG-727 í mesta lagi í eina mínútu eftir að afturljós hennar hafi horfið þeim sjónum, þar til lögreglumenn hafi fundið bifreiðina úti á túnfleti.
Niðurstaða:
Ákærði neitar sök og kveðst ekki hafa ekið bifreiðinni JG-727 umrædda nótt. Fyrir lögreglu bar hann að tiltekinn Gunnar hafi ekið bifreiðinni, en fyrir dómi ber hann að T hafi ekið bifreiðinni. Hann kvað nefndan Gunnar einnig hafa ekið bifreiðinni og þá væntanlega fyrr um kvöldið.
Lögreglumenn veittu athygli bifreiðinni JG-727 þar sem henni var ekið suður Reykjanesbraut. Er lögregla snéri við og fór á eftir bifreiðinni, var bifreiðinni JG-727 ekið Njarðvíkurveg í Reykjanesbæ, allt þar til hún var stöðvuð á grasfleti við hús nr. 33 við Njarðvíkurveg. Hafa lögreglumenn staðhæft að þeir hafi misst sjónir af bifreiðinni í einhverjar sekúndur, í öllu falli ekki lengri tíma en í eina mínútu. Er þeir hafi fundið bifreiðin hafi hún verið fyrir utan hús nr. 33. Vél bifreiðarinnar hafi ekki verið í gangi en vélarhlíf hennar heit viðkomu. Ákærði hafi staðið um 4 til 5 metra frá bifreiðinni og verið að kasta af sér vatni. Fyrir liggur að ákærði lét varðstjóra í té kveikjuláslykla að bifreiðinni í framhaldi af handtöku. Lögreglumenn þeir er handtóku ákærða fullyrða að engin ljós hafi verið kveikt í húsi nr. 33 við Njarðvíkurveg eða í nærliggjandi húsum. Þá lýsti umráðamaður bifreiðarinnar JG-727, G, yfir hjá lögreglu að ákærði hafi haft bifreiðina til umráða 7. og 8. september 2006.
Þegar til þess er litið að lögreglumenn misstu sjónir af bifreiðinni JG-727 einungis í um eina mínútu, að ákærði stóð nærri bifreiðinni er lögreglumenn sáu hana aftur kyrrstæða á túnbletti við hús nr. 33 við Njarðvíkurveg, að ákærði var þá með kveikjuláslykla af bifreiðinni í vasa sínum, að hann gat ekki bent á það hús er hann bar að hann hafi verið í samkvæmi í, að engin ljós voru kveikt í nærliggjandi húsum samkvæmt framburði lögreglumanna og að hann hefur gefið misvísandi upplýsingar um hver hafi verið ökumaður bifreiðarinnar þetta kvöld, er að mati dómsins komin fram lögfull sönnun þess að ákærði hafi ekið bifreiðinni JG-727 umrætt sinn. Samkvæmt því verður ekkert mark tekið á þeim framburði ákærða fyrir dómi og vitnisins T að T hafi verið ökumaður bifreiðarinnar umrædda nótt, enda sá framburður ótrúverðugur í ljósi þess hve seint hann kemur fram en fullt tilefni var fyrir ákærða og T að greina frá því á fyrstu stigum málsins. Í ákærulið 5.2 hér að framan var því slegið föst að ákærði hafi verið sviptur ökurétti 29. apríl 2006 og breytti engu þar um þó svo hann hafi fengið bráðabirgðaakstursheimild hjá lögreglu í apríl og júní 2006 og útgefið nýtt ökuskírteini 13. júní 2006. Með vísan til alls þessa verður ákærði sakfelldur samkvæmt þessum lið ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákæruliður 5.4.
Samkvæmt skýrslu lögreglu frá mánudeginum 11. september 2006 kl. 16.00 var lögreglumaðurinn Guðmundur Sæmundsson þann dag á lögreglubifreið sem ekið var suður Hringbraut í Keflavík. Er hann átti skammt ófarið að gatnamótum Hringbrautar og Faxabrautar veitti hann athygli bifreiðinni MZ-967 sem ekið var norður Hringbraut. Í skýrslunni kemur fram að ökumann bifreiðarinnar hafi Guðmundur þekkt sem ákærða. Hafi Guðmundi verið kunnugt um að ákærði væri sviptur ökurétti. Í frumskýrslu kemur fram að ákærði hafi verið einn í bifreiðinni. Hafi Guðmundur ákveðið að aka á eftir ákærða. Guðmundur Helgi Einarsson hafi verið í annarri lögreglubifreið næst á eftir Guðmundi. Hafi Guðmundur Sæmundsson veitt því athygli er ákærði hafi ekið til hægri af Hringbraut og numið staðar í bifreiðastæði við hús nr. 99 og hlaupið þaðan inn í Lyfju, sem hafi verið þar til húsa. Hafi Guðmundur Sæmundsson og Guðmundur Helgi farið þegar inn í Lyfju og handtekið ákærða, sem ekki hafi brugðist illa við. Hafi ákærði í kjölfarið verið færður á lögreglustöð. Hafi ákærði viðurkennt að hafa ekið bifreiðinni sviptur ökurétti.
Tekin var skýrsla af ákærða í beinu framhaldi af handtöku. Kvaðst hann viðurkenna að hafa ekið bifreiðinni MZ-967 sviptur ökuréttindum á Hringbraut í Keflavík áður en lögregla hafi haft afskipti af honum. Kvaðst ákærði vita að hann væri sviptur ökurétti.
Fyrir dómi bar ákærði að bifreiðin MZ-967 hafi verið bílaleigubifreið er G hafi tekið á leigu. Hafi ákærði, ásamt G, farið í Lyfju 11. september 2006. Hafi hún ekið bifreiðinni. Hafi ákærði ekki viljað blanda henni í málið er lögregla hafi komið inn í apótekið og því hafi hann ekki greint frá því á staðnum.
Lögreglumaðurinn Guðmundur Sæmundsson kvaðst hafa verið einn í lögreglubifreið er hann hafi veitt athygli akstri ákærða. Lögreglumaðurinn Guðmundur Helgi Einarsson hafi verið í annarri lögreglubifreið fyrir aftan Guðmund. Hafi Guðmundur snúið lögreglubifreiðinni við og elt ákærða. Sama hafi Guðmundur Helgi gert. Hafi ákærði stöðvað bifreiðina við Lyfju og lögreglumennirnir báðir farið þangað inn á eftir honum. Ákærði hafi í framhaldi verið færður á lögreglustöð. Guðmundur kvað ákærða hafa verið einan á ferð í bifreiðinni og væri rangt að G hafi verið með honum í för. Guðmundur hafi séð ökumann greinilega.
Lögreglumaðurinn Guðmundur Helgi Einarsson kvaðst hafa verið að ná í lögreglubifreið á verkstæði ásamt lögreglumanninum Guðmundi Sæmundssyni. Guðmundur Sæmundsson hafi ekið lögreglubifreið á undan Guðmundi Helga. Hafi Guðmundur Sæmundsson skyndilega snúið lögreglubifreið sinni við og bent Guðmundi Helga á að gera slíkt hið sama. Ekki hafi Guðmundur Helgi séð hver hafi verið ökumaður þeirrar bifreiðar er þeir hafi veitt eftirför eða hve margir hafi verið í þeirri bifreið. Hafi lögreglumennirnir stöðvað bifreiðar sínar við verslunina Lyfju og farið þar inn. Í framhaldi hafi ákærði verið handtekinn. Hvorki G eða neinn annar hafi verið í för með ákærða. G hafi Guðmundur Helgi þekkt í sjón á þeim tíma.
Ákæruvald ákvað að leiða G sem vitni við aðalmeðferð málsins. Var m.a. gefin út handtökuskipun á hendur G í þeim tilgangi. Lögreglu tókst ekki að hafa upp á henni og ákvað ákæruvald að fresta málinu ekki frekar en orðið væri í ljósi þess að ákærði væri í síbrotagæslu. Kom G því ekki fyrir dóm.
Niðurstaða:
Ákærði neitar sök og ber fyrir dómi að G hafi ekið bifreiðinni MZ-967 norður Hringbraut í Reykjanesbæ mánudaginn 11. september 2006. Hjá lögreglu viðurkenndi ákærði að hafa ekið bifreiðinni en bar fyrir dómi að hann hafi viljað hlífa G við því að þurfa að eiga við lögreglumenn þennan dag.
Fyrir dóminn hafa komið lögreglumennirnir Guðmundur Sæmundsson og Guðmundur Helgi Einarsson. Guðmundur Sæmundsson hefur fullyrt að ákærði hafi ekið bifreiðinni greint sinn. Guðmundur Helgi hefur hins vegar ekki getað staðfest það, en borið að ákærði hafi verið handtekinn í Lyfju í beinu framhaldi af akstri bifreiðarinnar MZ-967. Hafi ákærði verið einn í för og G ekki með honum. Til þess er að líta að skýring ákærða fyrir dómi á því af hvaða ástæðu hann játaði brot sitt hjá lögreglu er ósennileg. Var ekkert sem varnaði honum því að greina strax frá því að G hefði ekið bifreiðinni en það hefði orðið til þess að málið yrði upplýst þegar á upphafsstigum þess. Þegar litið er til framburðar lögreglumanna um akstur og afskipti af ákærða og hliðsjón höfð af því að ákærði játaði brot sitt greiðlega hjá lögreglu, er að mati dómsins komin fram lögfull sönnun um að ákærði hafi ekið bifreiðinni MZ-967 norður Hringbraut í Reykjanesbæ mánudaginn 11. september 2006. Í ákærulið 5.2 hér að framan var því slegið föstu að ákærði var sviptur ökurétti í þrjú ár frá 29. apríl 2006 og að honum hafi verið ljós sú niðurstaða. Með vísan til þess verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæðis í þessum ákærulið.
Ákæruliðir 6.1 til 6.5.
Ákærði játar sök samkvæmt ákæruliðum 6.1 til og með 6.5. Með vísan til þeirrar játningar hans, sem samrýmist gögnum málsins, verður hann sakfelldur samkvæmt þessum liðum ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákærði er fæddur í janúar 1965. Á hann að baki langan sakaferil sem nær aftur til ársins 1982, er hann var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi og greiðslu sektar fyrir þjófnað. Frá þeim tíma allt til ársins 1992 var ákærði samtals 14 sinnum dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og umferðarlögum. Voru hegningarlagabrotin vegna brota ákærða gegn 1. mgr. 155. gr., 157. gr., 244. gr. og 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga. Á árinu 1992 kom nokkuð rof í sakaferil ákærða, allt til 18. febrúar 2000 er hann var dæmdur í 3ja ára fangelsi fyrir tilraun til þjófnaðar og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Hæstiréttur Íslands dæmdi ákærða í 4 ára fangelsi 26. október 2000 fyrir þjófnað, en áfrýjað var dómi Héraðsdóms Suðurlands frá 7. apríl 2000. Ákærði gekkst 13. nóvember 2000 undir sátt vegna fíkniefnalagabrots. Þá var honum ekki gerð sérstök refsing í dómi 19. janúar 2001 fyrir hylmingu. Hann gekkst undir viðurlagaákvörðun í dómi 2. febrúar 2001 fyrir brot gegn umferðarlögum. Með dómi Hæstaréttar 17. maí 2001 var ákærði dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir þjófnað, en áfrýjað var Héraðsdómi Reykjavíkur frá 19. janúar 2001. Þá var ákærði dæmdur í 3ja ára fangelsi með dómi Hæstaréttar 29. janúar 2001 fyrir líkamsárás og þjófnað, en áfrýjað var dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júlí 2001. Ákærða var 18. október 2005 veitt reynslulausn í 3 ár á eftirstöðvum refsingar 900 dögum. Ákærði var dæmdur í sekt í Héraðsdómi Reykjaness 10. apríl 2006 fyrir ölvunarakstur. Var hann samkvæmt sakavottorði sviptur ökurétti í 3 ár. Þá gekkst hann undir sátt hjá lögreglustjóra 1. september 2006 fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni.
Brot ákærða samkvæmt ákæruliðum 1.1, 2.1, 2.2, 2.3, 2.4, 5.1, 5.2 og 6 eru öll framin áður en ákærði gekkst undir sátt hjá lögreglustjóra 1. september 2006. Þá eru brot samkvæmt ákæruliðum 2.1, 2.2 og 6.1 framin áður en ákærði var dæmdur í héraðsdómi 10. apríl 2006 í sekt fyrir brot gegn ákvæðum umferðarlaga. Eru brotin hegningarauki að því leyti og ber í því tilliti að ákvarða refsingu með hliðsjón af 78. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 77. gr. Eins og áður var rakið var ákærða veitt reynslulausn 18. október 2005 í þrjú ár á eftirstöðvum refsingar 900 dögum. Með brotum sínum hefur ákærði rofið skilorð reynslulausnarinnar og ber því nú að ákvarða honum refsingu samkvæmt 60. gr. laga nr. 19/1940 þannig að reynslulausnin verði tekin upp og henni bætt við þá refsingu er ákærða verður dæmd vegna þeirra brota er hann hefur verið sakfelldur fyrir. Ákærði er síbrotamaður samkvæmt 72. gr. laga nr. 19/1940. Þá hefur hann framið brot samkvæmt ákæruliðum 2.1, 2.2. 3 og 4 í félagi við aðra. Er það virt honum til refsiþyngingar á grundvelli 2. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940. Þá hafa fyrri brot ákærða ítrekunaráhrif í þessu máli, sbr. 255. gr. laga nr. 19/1940, en ákærði hefur áður verið dæmdur í þungar refsingar fyrir auðgunarbrot. Brotahrina ákærða var löng. Hefur hann sýnt einbeittan brotavilja og af fremsta megni reynt að hylja slóð sína. Á ákærði sér þær einu málsbætur að hann hefur játað brot sín vegna brota á lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum um ölvunar- og hraðakstur samkvæmt ákærulið 5.1. Með vísan til alls þessa, sbr. og 77. gr. laga nr. 19/1940, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 5 ár. Gæsluvarðhald ákærða frá 15. september 2006 til dómsuppsögudags kemur til frádráttar refsingu.
Ákærði hefur með brotum sínum samkvæmt ákæruliðum 5.1, 5.2 og 5.3 unnið sér til sviptingar ökuréttar. Skal hann sviptur ökurétti ævilangt frá uppkvaðningu dómsins að telja.
Með vísan til lagaákvæða í ákæru eru upptæk gerð til ríkissjóðs ávana- og fíkniefni er lögregla lagði hald á undir rannsókn málsins. Er nánara mælt fyrir um fíkniefni þessi í dómsorði.
Í ákæru hafa verið teknar upp skaðabótakröfur. Landsbanki Íslands hefur krafist skaðabóta að fjárhæð 1.608.997 krónur auk vaxta. Er krafan sundurliðuð nánar í skriflegri kröfugerð. Skaðabótakrafan byggir á ákærulið 2.2, en í því tilviki hefur ákærði, í félagi við annan mann, verið sakfelldur fyrir þjófnað. Ákærði ber skaðabótaábyrgð á þessu tjóni í félagi við annan mann. Þar sem skaðabótakröfunni hefur í þessu máli ekki verið beint að öllum þeim er bótaábyrgð bera, verður ekki hjá því komist að vísa henni frá dómi.
Skeljungur hf. hefur krafist skaðabóta að fjárhæð 300.000 krónur auk vaxta. Með vísan til þess sem segir um afdrif skaðabótakröfu Landsbanka Íslands verður þessari skaðabótakröfu einnig vísað frá dómi. Kaupfélag Héraðsbúa hefur krafist skaðabóta að fjárhæð 12.000 krónur auk vaxta. Ákærði ber skaðabótaábyrgð á tjóni samkvæmt ákærulið 2.1. Verður hann því dæmdur til greiðslu þessara skaðabóta, ásamt vöxtum, svo sem í dómsorði greinir.
Olíuverzlun Íslands hf. hefur krafist skaðabóta að fjárhæð 421.000 krónur auk vaxta. Byggir krafan á skriflegri bótakröfu frá 14. september 2006. Fram kemur að ákærði hafi stolið kortum með símainneignum samtals að fjárhæð 500.000 krónur. Í rannsókn málsins hafi lögregla lagt hald á hjá ákærða kort samtals að verðmæti 79.000 krónur. Hafi Olíuverzlun Íslands hf. fengið þau kort afhent. Sé krafa því gerð um skaðabætur að fjárhæð 421.000 krónur. Ákærði hefur undir ákærulið 2.4 verið sakfelldur fyrir þjófnað á bensínafgreiðslustöð Olís við Sæbraut í Reykjavík á kortum með símainneignum samtals að fjárhæð 500.000 krónur. Þá liggur fyrir í gögnum málsins að lögregla afhenti Olíuverzlun Íslands hf. kort samtals að fjárhæð 79.000 krónur er lagt var hald hjá ákærða. Ákærði ber skaðabótaábyrgð á því tjóni er hann olli Olíuverzlun Íslands hf. Samkvæmt því verður hann dæmdur til að greiða hinar umkröfðu bætur. Ber fjárhæðin vexti með þeim hætti er í dómsorði greinir.
Visa Ísland hefur krafist skaðabóta að fjárhæð 94.100 krónur ásamt vöxtum. Er hér um að ræða brot samkvæmt ákæruliðum 3 og 4 í tilefni af heimildarlausri notkun á greiðslukorti S. Í því tilviki hefur ákærði einn verið sakfelldur fyrir þjófnað, en í félagi við B ákærður fyrir skjalafals og fjársvik. Ákærði ber skaðabótaábyrgð á því tjóni sem hann olli í félagi við B. Þar sem skaðabótakröfunni hefur í þessu máli ekki verið beint að öllum þeim er bótaábyrgð bera, verður ekki hjá því komist að vísa henni frá dómi.
Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt yfirlitum lögreglustjóra um sakarkostnað og nemur fjárhæð hans 498.414 krónum. Þá greiði hann aksturskostnað verjanda að fjárhæð 27.864 krónur. Loks greiði hann málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, með þeim hætti er í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Dagmar Arnardóttir fulltrúi lögreglustjóra.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð
Ákærði, Garðar Garðarsson, sæti fangelsi í 5 ár. Til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhald ákærða frá 15. september 2006 til dómsuppsögudags.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá uppkvaðningu dómsins að telja.
Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 5,2 g af kókaíni, 5,25 g af amfetamíni, 4 töflur af vímuefninu MDMA og 11,75 g af hassi, er lagt var hald á við rannsókn málsins.
Ákærði, greiði Olíuverzlun Íslands hf., 421.000 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 20. ágúst 2006 til 27. nóvember 2006, en vöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði, greiði Kaupfélagi Héraðsbúa, 12.000 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 16. febrúar 2006 til 27. nóvember 2006, en vöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Skaðabótakröfum Landsbanka Íslands, Skeljungs hf., og Visa Ísland er vísað frá dómi.
Ákærði greiði 1.095.990 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 569.712 krónur.