Hæstiréttur íslands
Mál nr. 438/2005
Lykilorð
- Verksamningur
- Matsgerð
|
|
Þriðjudaginn 11. apríl 2006. |
|
Nr. 438/2005. |
Smáralind ehf. (Othar Örn Petersen hrl.) gegn ÁHÁ byggingum ehf. (Kristján Stefánsson hrl.) og gagnsök |
Verksamningur. Matsgerð.
Málsaðilar gerðu með sér samkomulag í maí 2001 um að Á tæki að sér tiltekin verkefni við innréttingar Smárabíós í verslunarmiðstöðinni Smáralind í Kópavogi, sem S var með í smíðum. Samkomulag varð síðar með aðilum um að Á tæki að sér aðra nánar tilgreinda verkþætti varðandi bíóið. Fyrir dómi krafðist Á greiðslu samkvæmt nánar tilgreindum reikningum, sem voru meðal annars til komnir vegna magntöluleiðréttinga og deilna um einingarverð, og var hluti þeirrar kröfu tekinn til greina. S hafði uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar og var gagnkrafa hans tekin til greina að hluta, að því er varðaði kröfur vegna galla og ólokinna verka.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. október 2005. Hann krefst aðallaga sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara sýknu að svo stöddu. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Þá gerir hann kröfu um skuldajöfnuð við hugsanlegar kröfur gagnáfrýjanda að fjárhæð 48.869.663 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. maí 2003 til greiðsludags.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 16. desember 2005. Hann krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til þess að greiða sér 23.119.007 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 12.050.437 krónum frá 15. nóvember 2001 til 30. nóvember 2001, af 11.783.016 krónum frá þeim degi til 15. desember 2001 en af 23.119.007 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann lægri fjárhæðar úr hendi aðaláfrýjanda. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Málsaðilar gerðu með sér samkomulag 31. maí 2001 um að gagnáfrýjandi tæki að sér tiltekin verkefni við innréttingu Smárabíós í verslunarmiðstöðinni Smáralind í Kópavogi sem aðaláfrýjandi var með í smíðum. Er meginefni samkomulags þessa, sem telja verður ígildi verksamnings, tekinn orðrétt upp í hinum áfrýjaða dómi. Þar eru einnig tilgreind fylgiskjöl með samkomulaginu. Eins og þar kemur fram var verkhluta þeim sem samkomulagið laut að lýst með gögnum er lutu að útboði 01 varðandi Smárabíó. Gagnáfrýjandi mun strax hafa hafist handa við verkið, en nokkuð skammur tími var til stefnu þar sem taka átti húsnæðið í notkun 10 október sama ár. Samkomulag mun síðar hafa orðið með aðilum um að gagnáfrýjandi tæki að sé tiltekna verkþætti úr útboðsgögnum 02, 03 og 04 varðandi Smárabíó. Ekki var gerður skriflegur samningur um þessa þætti en af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að verkframkvæmd hafi verið með hliðstæðum hætti og vegna þeirra verka er féllu undir útboðslýsingu 01 og fyrrgreint samkomulag aðila tók til.
Í héraði gerði gagnáfrýjandi kröfu um greiðslu samkvæmt fimm reikningum, að teknu tilliti til eins kreditreiknings, samtals að fjárhæð 84.261.007 krónur. Héraðsdómur vísaði kröfum samkvæmt einum þeirra, reikningi númer 1425 að fjárhæð 61.142.000 krónur, sjálfkrafa frá dómi vegna vanreifunar. Aðaláfrýjandi unir þeirri niðurstöðu enda hefur hann ekki leitað endurskoðunar á þeim þætti héraðsdómsins með kæru til Hæstaréttar samkvæmt XXIV. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í héraði hafði aðaláfrýjandi uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar að fjárhæð 48.874.528 krónur. Heldur hann þeirri kröfu til streitu fyrir Hæstarétti ef frá er talinn kröfuliður að fjárhæð 4.865 krónur vegna brotinnar flísar undir ljósastaur í anddyri bíósins.
II.
Gagnáfrýjandi afhenti eftirlitsmanni aðaláfrýjanda þá fjóra reikninga sem ágreiningur aðila fyrir Hæstarétti varðar með sérstakri orðsendingu 5. desember 2001. (36) Aðaláfrýjandi gerði athugasemdir við þrjá þeirra, reikninga númer 1422, 1423 og 1424, og raflagnaþátt þess fjórða, reiknings númer 1420, með orðendingum 19. desember 2003, sem sagðar eru hafa verið sendar gagnáfrýjanda með símbréfi sama dag. Gagnáfrýjandi kvittaði fyrir móttöku þeirra daginn eftir. Áður hafði aðaláfrýjandi gert athugasemdir við aðra verkætti sem reikningur númer 1420 laut að. Ekki er ágreiningur með aðilum um að ákvæði ÍST 30 hafi gilt í samskiptum þeirra. Verk þau sem gagnáfrýjandi tók að sér verða ekki talin hafa verið unnin í reikningsvinnu, og voru fyrrgreindar athugasemdir aðaláfrýjanda við reikningana ekki of seint fram komnar, sbr. ÍST 30 grein 31.13.1.
Reikningur númer 1420 dagsettur 30. nóvember 2001 að fjárhæð 8.167.321 krónur mun að öllu leyti varða verk er féllu undir útboð 01 og ber hann yfirskriftina „v/Verkstaða nr. 6 Magnaukningar“. Honum tengist kreditreikningur númer 1421 dagsettur sama dag að fjárhæð 267.421 króna sem ber yfirskriftina „v/Verkstaða nr. 6 Leiðrétting á magnskrá“. Meðal þess sem gagnáfrýjandi krefur um greiðslu fyrir samkvæmt reikningi þessum eru 2.790.211 krónur vegna raflagna. Aðaláfrýjandi taldi sig hins vegar með greiðslu fyrri verkstöðureikninga hafa ofgreitt 1.274.921 krónu vegna raflaganna. Samkvæmt gögnum málsins byggir hann í þessu efni á magntöluleiðréttingum. Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, taldi að um væri að ræða hefðbundið magntöluuppgjör og féllst á sjónarmið aðaláfrýjanda sem væru í samræmi við gögn málsins. Er fallist á þá niðurstöðu. Gagnáfrýjandi heldur því fram að aðaláfrýjanda hafi við afgreiðslu þessa síðasta verkstöðureiknings vegna verks 01 verið óheimilt að koma að leiðréttingum vegna fyrri reikninga. Meðal fylgiskjala með samkomulagi aðila 31. maí 2001 var útboðslýsing og tilboðsskrá vegna útboðs 01 í Smárabíói. Í grein 0.4.3 í útboðskilmálunum var almennt vísað til kafla 31 í ÍST 30. Þar var síðan kveðið svo á að reikningar skuli lagðir fram mánaðarlega í fyrstu viku hvers mánaðar miðað við framvindu verks í síðasta mánuði og að greiðsla skuli fara fram þremur vikum frá dagsetningu reiknings. Þá var sérstaklega tilgreint að greiðsla á framvindureikningi feli ekki í sér samþykki á uppgjöri magntalna. Í ljósi þessa ákvæðis, sem er hluti af verksamningi aðila, verður framangreind magntöluleiðrétting aðaláfrýjanda ekki talin of seint fram komin. Með reikningi þessum gerði gagnáfrýjandi kröfu um greiðslu á 1.107.340 krónum vegna frágangs á veggjum. Aðaláfrýjandi taldi sig með greiðslu fyrri verkstöðureikninga hafa ofgreitt 9.357.492 krónur vegna þessa verkþáttar. Þessi ágreiningur lýtur að því við hvaða einingarverð skuli miða vegna greiðslu fyrir gipsveggi og gipsklæðningar. Samkvæmt samkomulagi aðila 31. maí 2001 skyldi samið um einingarverð verksins á grundvelli tilboða sem gagnáfrýjandi gerði í desember 2000 í innanhúsfrágang Hagkaups og Debenhams í Smáralind. Að því leyti sem ofangreint einingarverð ætti ekki við skyldi verkkaupi greiða verktaka sanngjarnt endurgjald fyrir viðkomandi framkvæmdir en næðu aðilar ekki samkomulagi um endurgjaldið skyldu dómkvaddir tveir menn til að meta það. Enda þótt ekki hafi verið gerðir skriflegir samningar um tiltekið einingarverð í einstaka verkþætti sýnist ofangreint einingarverð í gipsveggi og gipsklæðningar vera það eina sem aðilar náðu ekki samkomulagi um á meðan á verkinu stóð. Er fallist á það með héraðsdómi að samkomulag aðila verði ekki túlkað svo að það hafi staðið gagnáfrýjanda nær en aðaláfrýjanda að hafa frumkvæði að dómkvaðningu matsmanna þegar í ljós kom er leið að verklokum að aðaláfrýjandi samþykkti ekki það einingaverðverð sem gagnáfrýjandi krafðist vegna gipsveggjanna. Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum mat það svo að einingarverð það sem gagnáfrýjandi byggði þennan lið reikningsins á væri sanngjarnt. Á það mat verður fallist og krafa gagnaáfrýjanda vegna þessa verkþáttar því tekin til greina. Af hálfu aðaláfrýjanda hefur niðurstaða héraðsdóms um verðbætur ekki sætt sértökum andmælum. Með framangreindum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðafest sú niðurstaða hans að taka reikninga númer 1420 og 1421 til greina með 4.163.038 krónum.
Reikningur númer 1422 dagsettur 30. nóvember 2001 ber yfirskriftina „v/Verkstaða nr. 3 Útboð 02 og 03“ og reikningur númer 1423 dagsettur sama dag ber yfirskriftina „v/Verkstaða nr. 3 Útboð 02 og 03 Magnaukningar“. Aðaláfrýjandi hefur ekki andmælt sérstaklega niðurstöðu héraðsdóms varðandi verðbætur vegna þessara reikninga. Með þeirri athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er staðfest sú niðurstaða hans að taka þessa reikninga gagnáfrýjanda til greina með samtals 2.985.826 krónum.
Reikningur númer 1424 dagsettur 31. október 2001 að fjárhæð 12.050.437 krónur ber yfirskriftina „Aukaverk Nr. 13.6 og 32-33-34-35-36-37-38-39“. Meðal kröfuliða að baki þessa reiknings er aukaverk 34 að fjárhæð 2.240.240 krónur vegna brunaþéttinga með lögnum, en samkvæmt fylgiskjali með reikningnum þurfti að þétta með 232 götum. Ágreiningur aðila um þennan lið snýst um hvort greiða skuli sérstaklega fyrir brunaþéttingar sem aukaverk. Eru ekki efni til annars en að fallast á þá niðurstöðu héraðsdóms að brunaþéttingar hafi almennt verið innifaldar í öðrum verkþáttum. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að taka þennan reikning til greina með 8.706.679 krónum.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að hafna öðrum liðum í gagnkröfu aðaláfrýjanda en þeim er lúta að göllum og óloknum verkum, þar á meðal kröfum vegna dagsekta og hönnunar- og stjórnunarkostnaðar. Gagnkrafa aðaláfrýjanda vegna galla og ólokinna verka er reist á tveimur liðum í matsgerð 8. ágúst 2004. Sá fyrri varðar límingu á bláum gólfflísum, sem um er fjallað í 153. lið matsgerðarinnar. Matsmaður skoðaði flísalögnina tvívegis. Telur hann að víða vanti lím undir flísarnar og hafi átta flísar verið brotnar í júlí 2004 vegna ófullnægjandi undirvinnu, en áður muni hafa verið skipt um margar flísar. Miðar hann við að endurleggja þurfi allar flísarnar og metur kostnaðinn við það 2.491.056 krónur. Þessu mati hafnaði héraðsdómur án þess að færa fyrir því rök og án þess að hafa farið á vettvang, en með vísun til verklýsingar, sem ekki er meðal gagna málsins. Verður því um þennan lið gagnkröfu aðaláfrýjanda byggt á niðurstöðu matsmanns og hann tekinn til greina. Síðari liðurinn varðar flísalögn sem mislandar við rúllustiga og um er fjallað í 157. lið matsgerðarinnar. Meðal gagna málsins eru niðurstöður hæðarmælinga á umræddum stað, sem ekki lágu fyrir matsmanni. Telur héraðsdómur, sem eins og áður segir var skipaður sérfróðum meðdómsmönnum, að þær sýni að flísarnar hafi verið réttilega lagðar af hálfu gagnáfrýjanda. Er fallist á þá niðurstöðu og þessum lið gagnkröfunnar er því hafnað.
Aðaláfrýjandi heldur því fram að gagnáfrýjandi hafi afturkallað framangreinda fjóra reikninga en því andmælir gagnáfrýjandi. Ekki verður fallist á með aðaláfrýjanda að þessi ágreiningur geti neinu breytt um rétt gagnáfrýjanda til að krefjast þeirra greiðslna sem um er deilt í málinu.
Samkvæmt framansögðu verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda samtals 15.855.543 krónur að frádreginni gagnkröfu að fjárhæð 2.491.056 krónur eða 13.364.487 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.
Hvor aðili verður látinn bera sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Smáralind ehf., greiði gagnáfrýjanda, ÁHÁ byggingum ehf., 13.364.487 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 8.706.679 krónum frá 21. nóvember 2001 til 30. sama mánaðar, af 8.447.216 krónum frá þeim degi til 21. desember sama ár, af 15.855.543 krónum frá þeim degi til 8. maí 2003 en af 13.364.487 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 6. júlí 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 16. júní 2005, var höfðað 21. febrúar 2003.
Stefnandi er ÁHÁ byggingar ehf, Hlíðarsmára 9, Kópavogi.
Stefndi er Smáralind ehf., Hagasmára 1, Kópavogi.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 84.261.007 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 12.050.437 krónum frá 15.11.2001 til 30.11.2001, af 11.783.016 krónum frá þeim degi til 15.12.2001, af 23.122.007 frá þeim degi til 25.12.2001, en af 84.261.007 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Stefnandi krefst málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara sýknu af öllum kröfum stefnanda að svo stöddu. Þá gerir stefndi einnig varakröfu um skuldajöfnuð við hugsanlegar kröfur stefnanda að fjárhæð 48.874.528 auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 8. maí 2001 til greiðsludags. Stefndi krefst í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.
I.
Verslunarmiðstöðin Smáralind í Kópavogi var reist á vegum stefnda. Í desember 2000 gerði stefnandi, í lokuðu útboði, tilboð í framkvæmd stefnda við gerð innréttinga fyrir verslanir Hagkaups og Debenhams í verslunarmiðstöðinni. Tilboði stefnanda var ekki tekið. Stefndi hafði gert samning við Norðurljós ehf. um leigu þess félags á fullbúnu kvikmyndahúsi. Stefndi bauð það verk ekki út heldur samdi við stefnanda um verkið. Aðilar gerðu með sér samkomulag um verkið sem hefur verið lagt fram sem dómskjal nr. 3. Það er dagsett 31. maí 2003 og í því segir m.a.:
“Smáralind ehf. lýsir yfir vilja til þess að ganga til samninga við ÁHÁ-byggingar ehf. um framkvæmdir við innréttingar Smárabíós í Smáralind, eins og þeim er lýst í útboðsgögnum Byggingarstjórnar Smáralindar fyrir innréttingar Smárabíós, útboð 01 dagsettu í maí 2001 (hér eftir nefnt verkið).
Aðilar eru sammála um að samið verði um einingarverð verksins á grundvelli tilboða, sem ÁHÁ-byggingar ehf. gáfu verkkaupa í desember 2000 í innanhúsfrágang Hagkaups og Debenhams í Smáralind.
Aðilar eru sammála um að verktaki hefji framkvæmdir við verkið strax og skrifað hefur verið undir samkomulag þetta. Framkvæmdir verktaka hefjast á þeim forsendum að samningar muni nást milli aðila um verð og aðra skilmála fyrir verkið en aðilar skuldbinda sig til að taka þegar upp markvissar viðræður um slíka samninga. Náist ekki samningur um verkið skal verkkaupi greiða verktaka fyrir þær framkvæmdir sem hafa átt sér stað í samræmi við ofangreint einingaverð að því leyti sem það á við þær framkvæmdir sem hafa átt sér stað. Að því leyti sem ofangreint einingaverð á ekki við skal verkkaupi greiða verktaka sanngjarnt endurgjald fyrir viðkomandi framkvæmdir en nái aðilar ekki samkomulagi um endurgjaldið skulu dómkvaddir tveir matsmenn fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til að meta það. Verktaka skal vera skylt, náist ekki samningur um verkið, að koma verkinu í hendur annars verktaka, sem verkkaupi tilnefnir, í samráði við verkkaupa og sýna fyllstu tillitsemi í því sambandi.”
Stefndi kveður þennan hátt hafa verið hafðan á til þess að verk gæti hafist strax. Tilboðsskrá hafi því ekki verið fyllt út. Stefnandi kveður aðila einnig hafa gert samkomulag um að ákvæði ÍST 30 giltu í samningum þeirra.
Fylgiskjöl með framangreindu samkomulagi aðila voru:
1. Smárabíó útboð 01: Útboðslýsing og tilboðsskrá dags. maí 2001
2. Smárabíó útboð 01: Verklýsing dags. maí 2001.
3. Smárabíó útboð 01: Teikningar burðarvirkis, arkitekta, lagnakerfa, rafkerfa, töflu og einlínumynda til samræmis við teikningaskrá í kafla o.8 í útboðslýsingu
4. Tilboð ÁHÁ-bygginga í innanhúsfrágang Hagkaups Smáralind.
5. Tilboð ÁHÁ-bygginga í innanhúsfrágang Debenhams Smáralind.
Stefnandi kveðst þegar hafa hafið framkvæmdir við verkið. Um hafi verið að ræða fjölþætt verkefni og hafi stefnandi þurft að fá fjölda undirverktaka að einstaka verkþáttum. Starfsmenn stefnanda Árni Jóhannsson byggingarmeistari og Björgvin Magnússon byggingartæknifræðingur hafi haft eftirlit með verkinu og samskipti við undirverktaka, starfsmenn stefnda og eftirlitsaðila stefnda. Af hálfu stefnda hafi Sveinn Jónsson byggingarverkfræðingur ásamt Jóni Ágústi Péturssyni byggingartæknifræðingi hjá Hönnun annast eftirlit. Samtímis hafi fjöldi annarra verktaka á vegum stefnda unnið við framkvæmdir í Smáralind, en að framkvæmdinni hafi ekki legið fyrir heildstæð verkáætlun af hálfu stefnda eins og áskilið hafi verið í 13. gr. í ÍST 30. Miklir árekstrar hafi verið með framkvæmdaaðilum og hafi starfsmenn stefnanda oft þurft að hliðra til og jafnvel víkja úr verkum að kröfu eftirlitsmanns stefnda. Hafi stefnandi þá þegar áskilið sér greiðslu vegna þessara tafa. Á verktímanum hafi stefndi falið stefnanda enn frekari verkefni í Smáralindinni án þess að þeim verkefnum fylgdu sérstök útboðsgögn, en í samskiptum aðila kölluð útboð 2, 3 og 4.
Stefnandi kveðst hafa átt að leggja til megnið af efni til verksins samkvæmt samkomulagi aðila, en stefndi hafi hins vegar áskilið sér að leggja sjálfur til hluta af efni, m.a. einangrunarborða Silomer, en stefndi hafi haft viðskiptasambönd í Svíþjóð og talið sig hafa af því sérstakan ávinning. Þessir borðar hafi verið notaðir í verulegum mæli til hljóðeinangrunar á milli gólfa og veggja í bíósölum og hafi þeir tegundarlega verið sérstaklega tilgreindir í útboðsgögnum. Stefndi hafi ekki getað útvegað borðana á umsömdum tíma og hafi það leitt til mikilla tafa og óhagræðis í verkinu og þrátt fyrir mikla eftirgangsmuni hafi borðarnir fyrst komið til landsins um mánaðarmót júlí/ágúst eða um 6 vikum eftir að stefndi tók að sér útvegun þeirra.
Samkvæmt samkomulagi aðila og útboðslýsingu hafi stefnandi átt að fá allt vinnusvæðið afhent við upphaf verks 1. júní 2001, en raunin hafi orðið önnur. Þá hafi stefnandi átt að fá baðkjarnasvæðið afhent en fyrst fengið það í lok ágúst. Vegna þessa dráttar hafi stefnandi strax gert kröfur um að fá greitt álag á vinnu við baðkjarna. Athafnasvæðið hafi verið lítið um sig og þröngt svo ekki hafi verið unnt að fjölga mönnum í verkinu heldur hafi orðið að lengja vinnutímann til þess að koma verkinu fram. Samkvæmt útboðsgögnunum hafi stefnandi átt að hafa óskertan aðgang að vinnusvæðinu sem ekki hafi reynst vera. Þá hafi stefnanda, með orðsendingu dagsettri 7. 9. 2001, verið skipað að rýma til fyrir Ístaki hf., sem hafi unnið að loftaklæðningu. Þessi orðsending hafi verið án nokkurs samráðs við stefnanda sem á þessu tímamarki hafi verið með 73 menn í vinnu á svæðinu. Stefnandi hafi þá þegar sett fram kröfur um næturvinnuálag á þá vinnu sem unnin var í sal I.
Meðal verkefna í útboðsgögnum I, sem stefnandi vann fyrir stefnda, hafi verið vinna við stálvirki í gólfum vegna uppbyggingu þeirra. Til þess verkefnis hafi farið ríflega 23 tonn af stáli. Fyrir þetta verkefni hafi stefnandi áskilið sér ákveðin einingaverð. Stefndi hafi staðhæft að unnt væri að forvinna smíði stáleininga með því að þær væru allar jafnstórar og hafi hann sett fram kröfur um lægra einingarverð. Þessar upplýsingar og staðhæfingar stefnda hafi reynst rangar með því að gólf voru ójöfn og hafi orðið að sérsmíða hverja uppistöðu. Þetta verkefni hafi Stálafl ehf. unnið fyrir stefnanda sem undirverktaki.
Stefndi hafi krafist þess að gataplötur í forsal yrðu endurmálaðar með því að arkitekt taldi að á þeim væri röng áferð. Stefnandi hafi látið endurmála þær og setja upp að nýju. Þetta hafi þurft að vinna að næturlagi auk þess sem þurft hafi að sérsníða plötur að lofti. Mistök arkitekta eða starfsmanna stefnda við upplýsingagjöf sem gefnar voru beint til þeirra er máluðu plöturnar hafi verið á ábyrgð stefnda. Stefnandi hafi því krafist greiðslu vegna þessa verkþáttar.
Stefnandi hafi áskilið sér 15% álags vegna aukaverka, en stefndi hafi einungis greitt 10% álag. Stefnandi hafi því strax áskilið sér að fá það leiðrétt og sett fram kröfur um 15% álag.
Þá hafi stefnandi áskilið sér leiðréttingu á reikningsskilum á verðlagsgrundvelli reikninga. Kveður stefnandi heildarsamtölu ofangreindra þátta mynda reikning nr. 1425 að fjárhæð 61.142.000 krónur.
Stefndi hafi óskað eftir því skriflega að stefnandi legði fram fullnaðarkröfur og lokareikninga vegna verktöku samkvæmt ákvæðum ÍST 30 og hafi stefnandi orðið við því.
Stefndi kveður fullyrðingar stefnanda um að stefndi hafi verið kominn í tímaþröng ekki eiga við rök að styðjast að öðru leyti en því auðvitað hefði allt verkið þurft að ganga eftir. Um hafi verið að ræða stærstu framkvæmd á Reykjavíkursvæðinu þar sem verktími hafði verið markaður. Stefnandi hafi ekki hreyft neinum athugasemdum um verktímann.
Stefndi kveður fjölda undirverktaka hafa unnið fyrir stefnanda, en starfsmenn stefnanda hafi unnið við trésmíðavinnu. Fljótlega hafi tekist samkomulag um þá þætti sem undirverktakarnir sinntu og hafi ekki verið erfiðleikar við að flytja einingaverð úr tilboðum stefnanda í innanhúsfrágang í verslanir Hagkaups og Debenhams vegna undirverktakanna. Hins vegar hafi stefnandi gert auknar kröfur frá ofangreindum tilboðum vegna þeirrar vinnu sem hann framkvæmdi sjálfur, það er fyrst og fremst í trésmíðavinnu. Einkum hafi verið um að ræða hækkað verð í gipsveggi. Eftir að eftirlitsmaður stefnda hafi lagt fram þau verð sem hann taldi eðlileg og samrýmast verðum í ofangreindum tilboðum hafi hann fengið stefnanda til að leggja fram sundurliðun verða í ofangreind tilboð og hafi þá komið í ljós að verð þau, er eftirlitsmaðurinn lagði fram, voru í góðu samræmi við tilboðin en jafnframt að verð stefnanda voru allt of há. Vísar stefndi í þessu sambandi til dskj. nr. 49, tilboðsskrár stefnanda í gipsveggi. Með þeirri skrá hafi fylgt útreikningar sem tóku mið af framkvæmd við Bakkastaði 165 og byggðu á mælingablaði. Stefnandi fái með útreikningi sínum miklu hærra verð í vinnu en var í tilboði í innanhús innanhúsfrágang í verslanir Hagkaups og Debenhams. Í skjalinu komi fram efnisverð þannig að auðvelt sé að finna verð í samræmi við ofangreind tilboð sem eru á dskj. nr. 50 og 51.
Stefndi vekur athygli á því að verklýsing skilgreini allt verkið þar með talið trésmíðavinnu og gipsveggina.
Stefndi kveður verkið hafa farið vel af stað og hafi verkstjóri verið á staðnum til að byrja með en hann forfallast fljótlega og eftir það hafi allt stefnt í óefni. Stefnandi hafi tilkynnt að Björgvin Magnússon yrði verkstjórnandi en hann hafi ekki sinnt því verkefni eins og nauðsyn krafði og hafi vinnustaðurinn því orðið stjórnlaus af hálfu stefnanda. Árni Jóhannesson byggingameistari hafi ekkert komið að verkinu fyrr en á síðustu dögum.
Stefndi hafi brugðist þannig við óstjórn stefnanda að halda nánast daglega verkstöðufundi síðasta mánuðinn með Björgvini og hafi Jón Ágúst Pétursson byggingartæknifræðingur og Brynjar Jónsson verkfræðingur, sem voru eftirlitsmenn stefnda, sinnt nánast daglegum eftirrekstri. Jafnframt hafi verið fengnir fjölmargir aðrir verktakar að verkinu, eftir því sem á leið, til þess að knýja verkið áfram með eðlilegum hraða.
Stefndi kveður þess misskilnings gæta í stefnu um verkáætlun að það sé verkkaupa að leggja slíka áætlun fram. Samkvæmt 13. kafla ÍST 30 sé það verktaka að leggja fram verkáætlun. Þá hafi alltaf verið ljóst af gögnum samningsins að öll áfangaskil og heildarframkvæmdatíminn hafi verið skýrlega markaður.
Stefndi kveður það hafa legið ljóst fyrir við gerð samkomulagsins að fleiri verktakar yrðu að vinna á staðnum. Stefnandi hafi haft ágæta aðstöðu í sölum kvikmyndahússins sem hafi verið meginhluti verks hans. Hins vegar hafi verið ljóst að við vinnu utan salanna hlyti að koma til samskipta við aðra verktaka, einkum Ístak hf. Verk sem nefnd væru útboð 02, 03 og 04 svari í grófum dráttum til framkvæmda utan sala, það er við verslun, miðasölu og framhlið kvikmyndahúsanna. Þessum verkum hafi fylgt verklýsingar og teikningar eins og við átti. Verkin hafi verið sjálfstæð verk samkvæmt sérstökum verklýsingum, sbr. dskj. nr. 25, 26, 27 og 28. Stefnandi hafi þó ekki framkvæmt alla þessa verkliði því ekki hafi náðst samkomulag um þá alla, sbr. dskj. nr. 47. Það hafi hins vegar verið stefnandi sem sinnti ekki samstarfi við aðra verktaka eins og fram komi í skýrslu Einars Ragnarssonar á dskj. nr. 48. Stefnandi hafi hlaðið alls konar drasli fyrir framan kvikmyndasalina þar sem aðrir verktakar þurftu að hafa rými. Þrátt fyrir margítrekuð tilmæli um að hafa svæðið með eðlilegum hætti hafi engu verið sinnt. Að endingu hafi komið að því að starfsmenn Ístaks gátu ekki sinnt verkum sínum og hafi þeir verið fengnir til þess að hreinsa svæðið. Það sé því ekki rétt að hallað hafi á stefnanda að þessu leyti eins og haldið sé fram í stefnu.
Stefndi kveður stefnanda ekki hafa tekist að afla Silomer einangrunarborða eins og tilskilið var í gögnunum. Til að leysa málið hafi Jón Ágúst Pétursson haft samband við þá aðila sem annast höfðu hljóðhönnun kvikmyndasalanna og hafi orðið úr að þeir pöntuðu efnið. Að öðru leyti hafi stefndi ekki komið að málinu. Efnið hafi ekki komið seinna fyrir það að hönnuðir pöntuðu efnið í stað stefnanda sem ekki gat gert það.
Stefndi kveður það ranga staðhæfingu hjá stefnanda að stefndi hafi staðhæft að allar stáleiningar í stálvirki í gólfi væru jafnstórar. Þvert á móti hafi stefnanda verið bent á að einingarnar væru jafnstórar innan hverrar sætaraðar en ekki á milli raða, en starfsmenn stefnanda hafi hvorki farið eftir ábendingum stefnda né farið eftir málsetningu á teikningum. Stefnandi hafi því látið smíða stærðir sem féllu ekki að verkinu þrátt fyrir að augljóst væri að slíkt væri ekki hægt og hafi því orðið að endurvinna verkið. Ekki hafi verið um það að ræða að gólf væru ójöfn heldur hafi staðreyndin verið sú að það var ekki samsíða lína sem gekk í gegnum allt stálvirkið og því hafi uppistöður verið misstórar á milli sætaraða. Það hafi komið skýrt fram á teikningum.
Stefndi kveður stefnanda hafa látið mála gataplötur í forsal án þess að hafa samráð við verkkaupa og fara formlega boðleið. Áferðin hafi ekki verið rétt og því hafi orðið að endurmála. Ekki hafi verið um mistök arkitekta eða starfsmanna stefnda að ræða.
Stefnandi hafi krafist 15% álags á aukaverk sem aðrir unnu, þótt í grein 0.4.1 í útboðslýsingu væri tekið fram að álag væri 10 %. Gerð hafi verið athugasemd á fyrsta reikningi. Verktaki hafi leiðrétt reikninga en lagt fram kröfu vegna álagsins við lokauppgjör. Þá hafi stefnandi krafist verðbóta sem ekki séu í samræmi við samning aðila.
Stefndi vekur athygli á því að í orðsendingu nr. SB-197, á dskj. nr. 45, séu dregnar saman niðurstöður úr uppgjöri verksins og séu þar m.a. reikningar nr. 1420 og 1421 dregnir saman. Þetta hafi m.a. verið gert vegna þess að stefndi hafði greitt inn á framvindu, eins og gert sé í verksamningum, þannig að síðustu reikningar standa ekki sjálfstæðir vegna þess að við lokauppgjör hafi greiðsluliðir verið stilltir af. Magntakan verði að liggja fyrir til þess að hægt sé að gera upp verk endanlega. Í ofangreindri orðsendingu komi fram að við endanlegt uppgjör hafi komið í ljós að ofgreidd hafi verið umtalsverð fjárhæð vegna þeirra verkliða sem reikningar nr. 1420 og 1421 fjalla um. Þess vegna séu liðir í t.d. reikningi, á dskj. nr. 11, greiddir með ofgreiddum liðum í öðrum reikningum. Þetta sé staða sem er þekkt í verksamningum.
Í ofangreindri orðsendingu stefnda nr. SB-197 á dskj.nr. 45 gerir stefndi auk athugasemda við reikninga stefnanda nr. 1420 og 1421, athugasemdir við reikninga stefnanda nr. 1422-1425. Í orðsendingunni, sem er dagsett 15. apríl 2002 og fjallar um yfirferð reikninga segir: “Meðfylgjandi er uppfært yfirlit um stöðu reikninga ÁHÁ bygginga ehf. gagnvart Smáralind ehf. vegna Smárabíós. Helstu breytingar eru að búið er að færa inn einingarverð og uppgjör magntalna og aukaverka til samræmis við niðurstöðu funda eftirlits með ÁHÁ byggingum ehf. og undirverktöku. Samkvæmt yfirlitinu hefur Smáralind ehf, þegar ofgreitt ÁHÁ byggingum ehf. 686.569 kr. Samþykktir verkliðir hafa því þegar verið greiddir með ofgreiðslu annarra verkliða.”
Í fylgiskjali með orðsendingunni er yfirferð stefnda á lokareikningum stefnanda þannig sett upp:
|
|
Krafa |
Samþykkt |
|
Reikningur nr. 1420 verkstaða nr. 6 magnaukningar |
8.167.321 |
|
|
Reikningur nr. 1421 verkstaða nr. 6 leiðrétting á magnskrá |
- 267.421 |
-6.521.424 |
|
Reikningur nr. 1422 verkstaða nr. 3 útboð 02 og 03 |
2.701.562 |
475.671 |
|
Reikningur nr. 1423 verkstaða nr. 3 útboð 02 og 03- magnaukningar |
464.108 |
271.280 |
|
Reikningur nr. 1424 aukaverk 13, 6 og 32-39 |
12.050.437 |
5.087.904 |
|
Reikningur nr. 1424 reikningur vegna kröfugerðar |
61.142.000 |
0 |
|
|
84.258.007 |
-689.569 |
Í fylgiskjölum með orðsendingunni er fjallað ítarlega um hvern reikning fyrir sig og þau atriði rakin sem stefndi telur að eigi að leiða til framangreindrar niðurstöðu. Í fylgiskjölum er fylgdu reikningum stefnanda til stefnda koma fram þau atriði sem stefnandi telur sýna að reikningar hans séu réttir. Verður nánar fjallað um þessa reikninga stefnanda, athugasemdir stefnda við þá og afstöðu dómsins til ágreinings aðila um reikningana í niðurstöðukafla dómsins.
Stefndi kveður stefnanda hafa fengið baðkjarnasvæðið afhent nokkuð seinna en efni stóðu til. Hins vegar hafi þessi verkhluti verið lengra kominn þegar afhending fór fram en gögn gerðu ráð fyrir. Jafnframt hafi stefnandi ekki unnið í verkhlutanum sem skyldi og hafi það verið orsök vandans. Þá hafi ekki komið fram rökstuðningur fyrir kröfu stefnanda.
Stefndi kveðst ávallt hafa mótmælt kröfum stefnanda og séu bókanir um það í gögnum málsins, fjöldi bókana, orðsendinga og fundargerða. Þá hafi stefndi greitt reikninga vegna gipsveggjanna með fyrirvara m.a. til þess að láta verkið ganga vel eftir. Þá hafi stefnandi afturkallað alla þá reikninga sem nú sé krafist greiðslu á. Það hafi verið gert á fundi með fulltrúum stefnda.
Stefndi kveður stefnanda hafa afhent verkið of seint og hafi komið fram gallar í verkinu auk þess sem verkinu hafi ekki verið lokið og vísar stefndi til dskj. nr. 53-56.
Þann 16. janúar 2004 var Örn Steinar Sigurðsson byggingarverkfræðingur dómkvaddur sem matsmaður að beiðni stefnda til að skoða og meta 1) galla sem voru á verki stefnanda við afhendingu og ekki var bætt úr af hálfu stefnanda og 2) Ólokin verk samkvæmt verksamningi. Matsmaður skilaði skriflegri matsgerð þann 8. ágúst 2004. Í matsgerðinni er sundurliðuð kostnaðaráætlun fyrir kostnað á þeim verkþáttum sem matsmaður telur gallaða eða er ólokið og á þeim verkþáttum sem hann telur hafa verið gallaða en verkkaupi, stefndi, lauk sjálfur við. Samtals metur matsmaður kostnað við úrbætur á þessum verkþáttum á 7.098.037 krónur, sem skiptist í vinnu 3.469.441 krónur, tæki 43.550 krónur og efni 3.585.045 krónur. Matsmaður hefur metið eðlilegan aukakostnað við byggingarstjórn og eftirlit 10% af verkkostnaði, eða 709.804 krónur. Í matsgerðinni segir matsmaður, að við mat á kostnaði, með þeirri aðferð sem hann hafi beitt, séu almennt meiri líkur á því að kostnaður sé vanmetinn, en ofmetinn. Þ.e. margir hlutar þess, sem eru skoðaðir séu ekki sýnilegir og meiri líkur á því að efnisatriði, sem verðlögð séu, séu vantalin en oftalin. Til að gera við þessu sé bætt við 15% álagi, sem nefnt sé ófyrirséð. Gera megi ráð fyrir að umsjón og ófyrirséð dreifist jafnt á alla verkþættina í því tilviki ef sundurliða þyrfti matið á einstaka liði áætlunarinnar við frekari málsmeðferð. Matsmaður metur liðinn ófyrirséð á 1.064.706 krónur. Heildarfjárhæð allra matsliða nemur því 8.872.546 krónum án 24,5% virðisaukaskatts, en að viðbættum virðisaukaskatti, sem nemur 2.173.774 krónur, er heildarkostnaður samkvæmt matinu 11.046.320 krónur á verðlagi í júlí 2004.
Í yfirferð stefnanda á matsgerðinni og athugasemdum sem hann gerir við hana, sbr. dskj. nr. 97, samþykkir stefnandi matsliði samtals að fjárhæð 931.472 krónur auk virðisaukaskatts en hafnar öðrum matsliðum. Verður síðar og þar sem það á við fjallað um matsgerðina og afstöðu aðila til hennar.
Við aðalmeðferð málsins gáfu eftirtaldir munnlegar skýrslur. Aðilaskýrslur gáfu Árni Jóhannesson, og Björgvin Magnússon. Vitnaskýrslur gáfu Sveinn Jónsson, Kolviður Helgason, Þorgeir Kristófersson, Þórir Magnússon, Einar Axelsson, Halldór Þorvaldsson, Kolbeinn Kolbeinsson, Jón Ágúst Pétursson, Friðrik Friðriksson, Brynjar Jónsson og matsmaðurinn Örn Steinar Sigurðsson.
II.
|
Af hálfu stefnanda eru dómkröfur þannig sundurliðaðar: |
|
|
|
Reikn. nr. 1420, dags. 30.11.2001 vegna magnaukninga |
kr. |
8.167.321 |
|
reikn. nr. 1422, dags. 30.11.2001 vegna útboða 2 og 3 |
kr. |
2.704.562 |
|
reikn. nr. 1423, dags 30.11.2001 vegna útboða 2 og 3 |
kr. |
464.108 |
|
reikn. nr. 1424, dags 31.10.2001 aukaverk |
kr. |
12.050.437 |
|
reikn. nr. 1425, dags 10.12.2001 lokareikn. v/kröfugerðar |
kr. |
61.142.000 |
|
Samtals |
kr. |
84.528.428 |
|
Leiðrétting vegna magnskrár. |
|
|
|
reikn. nr. 1421, dags. 30.11.2001 til lækkunar |
kr. |
267.421 |
|
Eftirstöðvar |
kr. |
84.261.007 |
Stefnandi kveður stefnda með bréfum eftirlitsaðila dagsettum 16. október og 24. október 2001 hafa sett fram kröfu um að stefnandi legði fram verktryggingu, að örðum kosti greiddi hann ekki fyrirliggjandi reikninga. Við þeirri kröfu hafi stefnandi orðið og lagt fram verktryggingu 31. október 2001.
Stefnandi byggir á því að ekki hafi verið um annað samið en að stefndi greiddi fyrir verkið samkvæmt framgangi þess, þ.e. framlögðum reikningum og reglum ÍST 30. Stefndi hafi engin efnisleg mótmæli haft uppi gegn reikningum stefnanda eða gert við þá athugasemdir. Samkvæmt ákvæðum ÍST 30 hafi stefnda borið, ef hann sætti sig ekki við framlagðan reikning, að setja fram skrifleg mótmæli innan ½ mánaðar að viðlögðum mótbárumissi.
Stefnandi reisir kröfur sínar á meginreglum samningalaga, ákvæðum kaupalaga og ákvæðum IST 30.
III.
Sýkna.
Af hálfu stefnda er sýknukrafa m. a. byggð á því að stefndi hafi frá upphafi mótmælt kröfum stefnanda og þar af leiðandi hafi reikningar stefnanda aldrei verið samþykktir. Stefnandi hafi jafnframt viðurkennt þessi mótmæli með því að óska eftir því að afturkalla reikningana. Stefnandi geti ekki bæði sleppt og haldið. Er reikningarnir hafi verið teknir til baka hafi Sveinn Jónsson byggingarstjóri Smáralindar og Jón Ágúst Pétursson verið viðstaddir. Sé því skorað á stefnanda að leggja fram yfirlýsingu löggilts endurskoðanda, staðfesta af skattayfirvöldum, sem sýni að reikningarnir séu í bókum fyrirtækisins sem ógreiddir og að af þeim hafi verið greiddur virðisaukaskattur sem ekki hafi verið bakfærður eða með öðrum hætti færður stefnanda til tekna. Af hálfu stefnda er afturköllun stefnanda á reikningunum talin hafa þá þýðingu að stefnandi hafi fallist á mótmæli stefnda eða hafi að minnsta kosti þá þýðingu að stefnandi hafi viðurkennt mótmælin. Jafnframt hafi afturköllunin þá þýðingu að stefnandi geti ekki gert þær kröfur sem hann gerir á grundvelli reikninganna.
Stefndi telur önnur gögn, sem sýna mótmæli stefnda við kröfu stefnanda, leiða til sömu niðurstöðu, svo sem dómskjöl 31-40 sem fjalla um athugasemdir og fyrirvara stefnda. Einkum þó dómskjal nr. 42 er sýnir afstöðu stefnda til reikninga nr. 1422,1423,1424 og 1425 og dómskjal nr. 43 sem lýsir afstöðu til reiknings nr. 1420.
Þá byggir stefndi á því að við uppgjör verksamninga hafi frestákvæðum í ÍST-30 ekki verið beitt þegar sýnt sé að ágreiningur sé um veigamikil atriði.
Samkvæmt orðsendingu nr. SB-197 á dskj. nr. 45 hafi niðurstaðan verið að stefndi hefði ofgreitt stefnanda 686.569 krónur. Niðurstaðan á dskj nr. 45 taki ekki tillit til þeirra krafna sem koma fram á dskj. nr. 22. Bent sé á að í orðsendingu nr. SB-197 á dskj. nr. 45 hafi verið tekið tillit til samninga sem höfðu náðst um atriði í reikningum nr. 1420 og 1421. Í því sambandi megi benda á að stefndi samþykkti hærra einingaverð en hann hafði áður gert í orðsendingu nr. SB-179, á dskj. nr. 38.
Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnandi verði að rökstyðja einingaverð sín í gipsveggi með hliðsjón af tilboðum í innanhúsfrágang í verslanir Hagkaups og Debenhams. Það hafi hann ekki gert en í þess stað tekið mælingu úr allt öðru húsi til hliðsjónar.
Stefnandi haldi því fram að um það hafi verið samið að stefndi greiddi fyrir verkið “samkvæmt framgangi þess, þ.e. framlögðum reikningum og reglum ÍST-30.” Þessa fullyrðingu mætti skilja svo að ekki hafi verið samið um verð. Sýnt hafi verið fram á að samið var um verð. Enda byggi stefnandi mál sitt öðrum þræði á því að verkið hafi átt að vinna samkvæmt samkomulaginu, þar sem skýrt hafi verið tekið fram á hverju skuli byggja um verð. Stefnandi sé því ekki sjálfum sér samkvæmur að þessu leyti.
Um einstakar kröfur stefnanda kveðst stefndi hafa gert athugasemdir. Hann hafi gert athugasemd við reikning stefnanda nr. 1420 á dskj. nr. 8, er varði magnaukningu, með orðsendingu nr. SB-193 á dskj. nr. 43. Þá sé athugasemdir við reikninga á dskj. nr. 9, 10, 11 og 12 að finna á dskj. nr. 42.
Stefndi vekur athygli á því að kröfur stefnanda eru ekki rökstuddar með gögnum eins og t.d. kröfur samkvæmt reikningi á dskj. nr. 12. Þá hafi stefnandi sýnt tómlæti við innheimtu kröfunnar.
Sýkna að svo stöddu.
Kröfu um sýknu að svo stöddu byggir stefndi á því að aðilar málsins hafi samið svo um að tveir dómkvaddir matsmenn meti sanngjarnt endurgjald framkvæmdarinnar. Texti verksamningsins, á dskj. nr. 3, sé skýr og eigi dómkvaðningin við um alla framkvæmdina og allar kröfur. Kröfur stefnanda séu því ekki dómtækar og verði hann að óska eftir mati dómkvaddra matsmanna og eftir atvikum að leggja það síðan til grundvallar málssókn. Nái sýknukrafan ekki fram að ganga beri að sýkna stefnda að svo stöddu.
Gagnkröfur til skuldajafnaðar.
Af hálfu stefnda er höfð uppi í málinu sem varakrafa, gagnkrafa til skuldajafnaðar að fjárhæð 48.874.528 krónur. Samkvæmt greinargerð stefnda var gagnkrafa hans 63.524.569 krónur. Munurinn stafar af því að í greinargerðinni var liðurinn gallar og ólokin verk áætlaður 17.600.000 krónur en í endanlegri kröfugerð nemur sami liður 2.949.959 krónum. Gagnkrafa stefnda er annars þannig sundurliðuð:
|
Ofgreidd verklaun |
kr. 686.569 |
|
Dagsektir |
kr. 35.287.000 |
|
Hönnunar- og stjórnunarkostnaður |
kr. 9.951.000 |
|
Gallar og ólokin verk |
kr. 2.949.959 |
|
Samtals |
kr. 48.874.528 |
Kröfurnar sundurliðar og rökstyður stefndi svo:
1. Tafabætur (dagsektir.)
Kröfu um tafabætur (dagsektir) byggir stefndi á því að samkvæmt grein 0.0.6 í útboðslýsingu, á dskj. nr. 4, hafi stefnanda borið að skila sýningarklefum tilbúnum og rykþéttum til uppsetningar búnaðar 20. ágúst 2001. Honum hafi borið að skila sölum 1-5 með frágengnum veggjum, gólfum og loftum 1. september 2001. Við þessar dagsetningar hafi stefnandi ekki staðið en sýningarklefar og bíósalir hafi verið teknir í notkun af verkkaupa 10. október 2001 og teljist verktaki hafa skilað verkinu þann dag, sbr. grein 28.9 í ÍST 30/1997. Í útboðslýsingu, sem sé hluti af samningi aðila, sé ítrekað í grein 0.4.2 að verktaki skuli ljúka verki sínu á tilskildum skiladögum samkvæmt grein 0.0.6. Síðan sé mælt fyrir um tafabætur (dagsektir). Segi þar að fyrir hvern almanaksdag sem það dregst að verkinu sé að fullu lokið og lokaúttekt geti farið fram skuli verktaki greiða verkkaupa 1 0/00 samningsupphæðar í tafabætur vegna dráttar á áfangaskilum og 2 0/00 samningsupphæðar í tafabætur vegna dráttar á lokaskilum. Ljóst sé að lokaskilum hafi seinkað verulega eftir að stefndi tók verkið í notkun, þ.e. frá 10. október 2001, og hafi því enn ekki verið skilað. Stefndi sé hins vegar tilbúinn af sanngirnisástæðum að miða lokaskil við 7. desember 2001, en áskilinn sé allur réttur til að auka við kröfur í því sambandi. Stefndi krefjist ekki fullra tafabóta fyrir síðastnefnda tímabilið. Í stað 2 0/00 tafabóta sé krafist 0,5 0/00 tafabóta. Í samræmi við framangreint og tilvitnuð ákvæði útboðslýsingar og ÍST 30/1997 sé krafa stefnda eftirfarandi:
|
Seinkun skilatíma sýningarklefa frá 20. ágúst 2001 til 10. október 2001 eða 51 dagur á kr. 257.570 |
kr.13.136.000 |
|
Seinkun skilatíma sala frá 1. september 2001 til 10. október 2001 eða 39 dagar á kr. 257.570 |
kr.10.045.000 |
|
Seinkun lokaskila frá 1. október 2001 til 10. október 2001 eða 9 dagar á kr. 515.140 |
kr. 4.636.000 |
|
Seinkun lokaskila frá 11. október 2001 til 7. desember 2001 eða 58 dagar á kr. 128.785 |
kr. 7.470.000 |
|
Samtals |
kr.35.287.000 |
2.Hönnunar- og stjórnunarkostnaður.
Af hálfu stefnda er byggt á því að tilefnislausar kröfur stefnanda og óvönduð vinnubrögð við framkvæmd verksins hafi valdið gífurlegu álagi á yfirstjórn stefnda sem verkkaupa, byggingastjórn hans, hönnuði og ráðgjafa. Sé sá kostnaður, sem stefndi telji stefnanda hafa valdið með þessum vinnubrögðum við framkvæmd verksins, orðinn af slíkri stærðargráðu að ekki sé unnt að horfa framhjá honum. Kröfurnar sundurliðist þannig:
|
Hönnunarkostnaður |
kr. 1.764.000 |
|
Byggingastjórn |
kr. 7.057.000 |
|
Yfirstjórn |
kr. 706.000 |
|
Lögfræðikostnaður |
kr. 423.000 |
|
Samtals |
kr. 9.951.000 |
3. Gallar og ólokin verk.
Þessa kröfu byggir stefndi á matsliðum nr. 153, 157 og 158 í matsgerð.
Um matslið 153 segir í matsgerð: “Bláar flísar, líming. Víða vantaði lím undir flísarnar og verkkaupi hefur skipt út miklu magni af flísum að sögn eftirlitsmanns (JÁP). Matsmaður hefur farið tvisvar og skoðað flísarnar. Í júlí 2004 eru um 8 flísar greinilega brotnar vegna ófullnægjandi undirvinnu. Matsmaður telur eðlilegt að miða viðgerð við að endurleggja allar flísarnar”. Matsmaður metur kostnað við þennan matslið á 2.491.056 krónur sem sundurliðast í vinnu 581.681 krónur og efni 1.909.375 krónur.
Um matslið 157 segir í matsgerð: “Gólfefni við rúllustiga, hæðarmunur. Flísalögn mislandar. Taka þarf upp flísalögnina á nokkuð stóru svæði þannig að jafna megi út mismuninum og endurleggja. Matsmaður telur að eðlilegt sé að miða við 40 m2.” Kostnaðarmat matsmanns hljóðar upp á 454.038 krónur sem skiptist í vinnu 186.138 krónur og efni 267.900 krónur.
Um matslið 158 segir í matsgerð að skipta þurfi um brotna flís undir ljósastaur við bar. Kostnaður er metinn á 4.865 krónur sem skiptist í vinnu 3.102 krónur og efni 1.763 krónur.
Af hálfu stefnda er ekki höfð uppi gagnkrafa vegna annarra matsliða en stefndi kveður þá hafa verið dregna frá í uppgjöri aðila og komi þeir þar fram.
IV.
Eins og að framan getur er stór hluti dómkröfu stefnanda byggður á reikningi nr. 1425, dagsettum 10. desember 2001 að fjárhæð 61.142.000 krónur með virðisaukaskatti. Reikningurinn ber yfirskriftina: Reikningur vegna kröfugerðar. Í stefnu er krafa samkvæmt þessum reikningi skýrð almennum orðum en með reikningum voru ekki lögð fram nein gögn honum til stuðnings. Undir rekstri málsins á síðari stigum var gerð nokkur grein fyrir reikningi þessum með framlagningu gagna er fylgdu reikningnum til stefnda svo og með framburði Björgvins Magnússonar fyrir dómi.
Í orðsendingu stefnanda nr. OS-34-BM, dagsettri 5. 12. 2001, segir að kröfur sem reikningurinn byggist á og séu kröfur sem séu gerðar umfram kröfur um magnaukningar og aukaverk, séu þessar:
Bætur vegna seinkunar á afhendingu baðkjarna (vestur) af hálfu Ístaks. Í fylgiskjali með orðsendingunni er þessi liður metinn á 16.520.000 krónur. Í fylgiskjalinu segir að samkomulag um innréttingu Smárabíós hafi verið undirritað 31. maí 2001 og samkvæmt útboðslýsingu hafi verktaki átt að fá allt vinnusvæðið afhent í upphafi verks en raunin hafi orðið sú að baðkjarnar í vesturhluta fengust afhentir 28. ágúst 2001 eða tæpum þremur mánuðum seinna en áætlað var. Þetta hafi orðið til þess að vinna þurfti ómælda næturvinnu til þess að baðkjarnarnir yrðu tilbúnir á tilsettum tíma. Er krafa byggð á því að fá greitt næturvinnuálag á 53,5% þeirrar vinnu sem unnin var í baðkjörnum þessum
Bætur vegna seinkunar á afhendingu Silomer hljóðeinangrunarborða af hálfu Smáralindar. Í fylgiskjali með ofangreindri orðsendingu er þessi liður metinn á 15.658.000 krónur. Í fylgiskjalinu segir að stefndi hafi átt að útvega Silomer hljóðeinangrunarborða sem notaðir voru í bíósali. Samkvæmt verkáætlun verktaka hafi vinna við stálgólf í sal 1 átt að hefjast í byrjun júní 2001. Seinkun hafi orðið á afhendingu borðans til júlíloka 2001 og hafi vinna við stálgólf ekki getað hafist fyrr en þá. Til þess að geta afhent verkið á tilsettum tíma hafi verið unnin umtalsverð næturvinna í salnum. Krafa stefnanda sé reist á því að fá greitt næturvinnuálag á 53,5% þeirrar vinnu sem unnin var í sal 1.
Bætur vegna skerðingar á athafnasvæði og efnislager. Í fylgiskjali með ofangreindri orðsendingu er þessi liður metinn á 10.424.000 krónur. Í fylgiskjalinu segir að samkvæmt útboðslýsingu hafi verktaki fullan aðgang að vinnusvæðinu. Með orðsendingu nr. 1424 dags. 7.9. 2001 hafi Ístaki verið skipað að rýma bíópall til að hleypa þeim að í loftaklæðningu. Þetta hafi verið gert án samráðs við forsvarsmenn stefnanda og hafi undirverktakar verið reknir heim. Á bíópalli hafi m.a. verið unnið við flísalögn og þar hafi einnig verið efnislager, svo sem gipsplötur, blikkstoðir og verkfæri. Á staðnum hafi verið 73 starfsmenn á vegum stefnanda. Eftir þetta hafi athafnasvæði verktaka verið mjög takmarkað og efnislager fjarri vinnusvæði. Gipsplötubúnt hafi verið geymd utanhúss sunnan við Vetrargarðinn og hafi verktaki m.a. verið með tvo lyftara á leigu það sem eftir var verktímans við að selflytja efni inn í húsið og upp á bíópallinn. Stefnandi geri kröfu um að fá bætt það vinnutap sem varð vegna þeirrar uppákomu þegar pallurinn var rýmdur. Jafnframt sé gerð krafa um bætur vegna erfiðra aðstæðna á efnislager, lyftaraleigu, tapaðs efnis og verkfæra.
Í orðsendingu stefnanda nr. OS-17-BM, dagsettri 8. september 2001 segir um þetta tilvik:
Forsendur fyrir áframhaldandi starfi ÁHÁ bygginga ehf. við bíósali:
1. Allt tjón verði bætt að fullu, skemmdir á efni, verkfæri og þess háttar.
2. Allt vinnutap nú um helgina lauslega áætlað 509 vinnustundir verði að fullu greitt (fyrir föstudag og laugardag en fyrirtækið er nú með 83 starfsmenn á staðnum).
3. Að múrarar fái greitt fyrir vinnutap og tjón um helgina en þeir voru sendir heim á föstudag og þeir fletir sem lagðir voru flísum á föstudag hafði verið keyrt yfir þá strax um kvöldið eru þeir trúlega stórskemmdir.
4. Smáralind greiði yfirvinnuálag á alla vinnu umfram 60 tíma á viku til verkloka (Þetta á sér lengri aðdraganda).
5. Að byggingarstjórn Smáralindar undirriti plagg þess efnis að ÁHÁ Byggingar ehf. verði ekki beitt dagsektum náist ekki að ljúka öllum verkþáttum í tæka tíð.”
Bætur vegna ósléttra steingólfa í bíósölum. Í fylgiskjali með ofangreindri orðsendingu metur stefnandi þennan kröfulið á 8.820.000 krónur. Um þennan lið segir stefnandi í fylgiskjalinu, að þegar samið hafi verið um verkið hafi verktaki verið krafinn um afslátt á stálverði í bíógólfum. Rök verkkaupa hafi verið þau að hægt væri að “raðsmíða” stálvirkið í gólfinu því allar undirstöður væru jafnlangar. Á þetta hafi verið fallist af hálfu verktaka og afsláttur gefinn. Raunin hafi orðið sú að gólf voru óslétt og mishæðótt og hafi orðið að framleiða nánast hverja undirstöðu eftir máli. Stefnandi geri því þá kröfu að afslátturinn verði felldur niður þar eð forsendur hans séu brostnar.
Bætur vegna endurmálunar og uppsetningar á gataplötum á A-B vegg. Í fylgiskjali með ofangreindri orðsendingu metur stefnandi þennan lið á 5.120.000 krónur. Um þennan lið segir stefnandi að áferð á pólýhúðuðum gataplötum í forsal hafi ekki verið rétt að dómi arkitekts og hafi verktaka verið gert að mála þær aftur. Þegar verkkaupi hafi gefið út orðsendingu um lit og áferð á plötunum hafi þegar verið búið að mála þær. Svo virðist sem arkitekt hafi komið upplýsingum um lit til málara áður en orðsendingin var gefin út. Endurmálun platna hafi orðið til þess að uppsetningu þeirra seinkaði og hafi hún verið unnin á síðustu sólarhringum verksins. Verktaki geti ekki tekið ábyrgð á röngum upplýsingum um lit og áferð. Jafnframt hafi þurft að sérsníða plötur að lofti vegna breytilegrar hæðar. Stefnandi geri kröfu um að endurmálun gataplatna verði greidd að fullu. Gerð sé krafa um næturvinnuálag vegna uppsetningu platnanna, en sú vinna hafi verið unnin að næturlagi síðustu daga verktímans. Þá sé gerð krafa vegna vinnu við að sérsníða plötur að lofti.
Álag verktaka vegna aukaverka verði 15%. Í fylgiskjali með ofangreindri orðsendingu metur stefnandi þennan lið á 2.000.000 krónur. Um þennan lið segir stefnandi, að þegar samkomulagið um verkið hafi verið gert þann 31. maí 2001 hafi legið fyrir að samkomulagsgrundvöllur væri tilboð stefnanda í Debenhams og Hagkaup. Í þeirri útboðslýsingu hafi ekki verið ákveðin álagsprósenta af hálfu verkkaupa. Í útboðslýsingu Smárabíós hafi verkkaupi ákveðið einhliða að álagsprósenta skuli vera 10% á aukaverk. Verktaki hafi frá upphafi mótmælt þessu og krafist 15% álags á aukaverksreikningum Að kröfu eftirlits hafi verktaki lækkað álag niður í 10% til þess að aukaverksreikningar fengjust greiddir. Sú lækkun feli ekki í sér samþykki verktaka heldur fyrst og fremst gerð til að liðka fyrir greiðslum. Álagi á aukaverk sé ætlað að standa straum af kostnaði verktaka sem annars sé innifalinn í einingaverði. Stefnandi geri kröfu um að stefndi greiði sanngjarnt álag 15% á aukaverk.
Greiðslur, reikningsskil og verðlagsgrundvöllur verði leiðrétt til samræmis við útboðslýsingu. Í fylgiskjali með ofangreindri orðsendingu metur stefnandi þennan lið á 2.600.000 krónur. Um þennan lið segir stefnandi í fylgiskjalinu að útboðslýsing kveði á um að reikninga skuli gera í fyrstu viku hvers mánaðar og miðað við framvindu síðasta mánaðar. Þetta sé viðtekin venja í samningsverkum. Framvindureikningur sé þá dagsettur á fyrstu dögum mánaðarins og vísitala þess mánaðar notuð til að verðbæta reikningsupphæð. Vísitalan endurspegli verðlag fyrra mánaðar og sé því réttur mælikvarði á þau verk sem þá voru unnin. Þessu fyrirkomulagi hafi verkkaupi viljað breyta þrátt fyrir kröftug mótmæli verktaka. Verkkaupi hafi krafist þess að framvindureikningar væru dagsettir í lok þess mánaðar sem verkið var unnið og vísitala sama mánaðar notuð til verðbótaútreiknings. Með þessu sé verkkaupi að spara sér greiðslu réttra verðbóta auk þess að auka fjármagnskostnað verktaka þar sem greiða þurfi virðisaukaskatt af öðrum hverjum framvindureikningi tveimur mánuðum fyrr en ella. Í nokkrum tilvikum hafi greiðslur verið í formi víxla með tilheyrandi kostnaði fyrir verktaka. Stefnandi geri kröfu um að útreikningur verðbóta verði leiðréttur til samræmis við útboðslýsingu. Jafnframt sé gerð sú krafa að verkkaupi greiði fjármagnskostnað verktaka af upphæð virðisaukaskatts af framvindureikningum dagsettum í lok júní, ágúst og október. Krafist sé dráttarvaxta frá gjalddaga reikninga í þeim tilfellum sem greiðslur hafa dregist. Jafnframt sé krafist greiðslu víxilkostnaðar þar sem það á við.
Samkvæmt ofansögðu hefur verið lýst þeim atvikum og þau atriði rakin sem stefnandi byggir kröfur sínar samkvæmt reikningi nr. 1425 á. Ekkert er við þá útlistun að athuga svo langt sem hún nær. Á hinn bóginn ber til þess að líta að reikningur þessi er ekki studdur viðhlítandi gögnum og tölulegan grundvöll og rökstuðning skortir. Dómurinn getur því ekki lagt efnisdóm á þennan kröfulið í þeim búningi sem hann er í. Ber því með vísan til heimildar í . 4. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að vísa þeim kröfulið samkvæmt stefnu sem byggir á reikningi stefnanda nr. 1425, að fjárhæð 61.142.000 krónur, frá dómi ex officio vegna vanreifunar.
Verður þá fjallað um aðra reikninga stefnanda sem hann byggir dómkröfur sínar á. Við höfðun máls þessa fylgdu engin gögn þessum reikningum, en undir rekstri málsins hefur verið úr því bætt. Hvorugur aðili hefur lagt fram verklýsingar vegna útboða 02,03 og 04. Með hliðsjón af kröfugerð aðila og málatilbúnaði verður annar þeirra þó ekki talinn bera meiri halla af skorti á framlagningu þeirra gagna en hinn. Þrátt fyrir annmarka á málatilbúnaði aðila að þessu leyti telur dómurinn sér fært að leggja efnisdóm á kröfur stefnanda samkvæmt þessum reikningum.
Hér að neðan verður reikningum stefnanda og sundurliðunum þeirra stillt upp eins og stefndi hefur gert í fylgiskjölum með fyrrnefndri orðsendingu á dskj. nr. 45 þar sem fram kemur afstaða stefnda til einstakra þátta reikninganna og sjónarmið hans. Þar á eftir verður getið sjónarmiða dómsins og niðurstaðna varðandi einstaka reikninga.
Í fremri dálki hér að neðan koma fram sundurliðanir á reikningum stefnanda í samræmi við fylgiskjöl með reikningunum, en í dálki þar til hægri með hvaða fjárhæð stefndi samþykkir einstaka liði reikninganna, eða hvort hann hafnar þeim liðum svo og þær fjárhæðir sem stefndi telur stefnanda áður hafa fengið ofgreiddar vegna rangra einingaverða og stefndi notar nú til greiðslu nýrri reikninga. Athugasemda stefnda sem fram koma í dskj. nr. 45 er síðan stuttlega getið við einstaka liði eins og þörf krefur.
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Reikningar 1420 og 1421: |
|
|
|
|
|
||
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
ÁHÁ |
|
Smáralind |
|
Reikningur 1420 |
|
|
|
|
|
|
|
|
3. Pípulagnir |
|
|
|
2.020.308 |
|
2.472.456 |
|
|
Hér miðar stefndi við meira magn en stefnandi |
|
|
|
|
|
|
|
|
3.7. Loftræstikerfi |
|
|
|
296.886 |
|
296.886 |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
4. Raflagnir |
|
|
|
2.790.211 |
|
-1.274.921 |
|
|
Hér sýnir stefndi fram á mismun á grundvelli hefðbundins magntöluuppgjörs |
|
|
|
|
|
|
|
|
5.2 Frágangur veggja |
|
|
1.107.340 |
|
-9.357.492 |
||
|
Hér telur stefndi að leiðrétta eigi einingaverð sem áður hafði verið greitt vegna gipsveggja |
|
|
|
|
|
|
|
|
5.3.1 Stöllun gólfi sölum |
|
|
570.000 |
|
446.122 |
||
|
Hér dregur stefndi frá kostnað vegna spörtlunar þrepa. |
|
|
|
|
|
|
|
|
5.4 Frágangur lofta |
|
|
|
324.000 |
|
274.080 |
|
|
Hér dregur stefndi frá afslátt vegna rangs efnisvals. |
|
|
|
|
|
|
|
|
5.5 Málun |
|
|
|
815.520 |
|
815.520 |
|
|
Þennan lið samþykkir stefndi |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Reikningur 1421 |
|
|
|
|
|
|
|
|
Leiðrétting á magni í 1420 |
- |
|
|
-259.463 |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Verðbætur |
|
|
|
235.098 |
|
194.075 |
|
|
Hér miðar stefndi við að reikningar séu dagsettir síðasta dag hvers mán. Stefnandi miðar hins vegar við ákvæði útboðs 01 |
|
|
|
|
|
|
|
|
Samtals: |
|
|
|
|
7.899.900 |
|
-6.133.274 |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Reikningur 1422: |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
1. Málun |
|
|
|
|
73.700 |
|
73.700 |
|
Þennan lið sam,þykkir stefndi |
|
|
|
|
|
|
|
|
2. Fastar innréttingar |
|
|
|
650.160 |
|
166.268 |
|
|
Hér hefur stefndi uppi kröfur til lækkunar vegna galla |
|
|
|
|
|
|
|
|
3. Flísalögn |
|
|
|
866.625 |
|
338.825 |
|
|
Hér hefur stefndu uppi kröfu til lækkunar vegna rýrnunar á flísum |
|
|
|
|
|
|
|
|
4. Stálsmíði |
|
|
|
1.030.590 |
|
463.500 |
|
|
Hér hafnar stefndi hluta af reikningi stefnanda vegna fleyga og vinkla sem ekki hafi verið notað í verki |
|
|
|
|
|
|
|
|
Verðbætur |
|
|
|
80.487 |
|
468 |
|
|
Sama athugasemd og í reikningi 1421 |
|
|
|
|
|
|
|
|
Samtals: |
|
|
|
|
2.701.562 |
|
1.042.761 |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Reikningur 1423: |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
1. Fastar innréttingar |
|
|
|
450.296 |
|
270.452 |
|
|
Hér lækkar stefni reikning stefnanda vegna þess að ýmislegt vanti upp á verk |
|
|
|
|
|
|
|
|
Verðbætur |
|
|
|
13.812 |
|
828 |
|
|
Sama og að ofan |
|
|
|
|
|
|
|
|
Samtals: |
|
|
|
|
464.108 |
|
271.280 |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Reikningur 1424: |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
1. Aukaverk nr. 13,6 |
|
|
|
1.199.034 |
|
1.199.034 |
|
|
Þennan lið samþykkir stefndi |
|
|
|
|
|
|
|
|
2. Aukaverk 32 |
|
|
|
183.267 |
|
170.619 |
|
|
Hér lækkar stefndi kröfu þar sem miða eigi við tímagjald. |
|
|
|
|
|
|
|
|
3. Aukaverk 33 |
|
|
|
30.580 |
|
36.676 |
|
|
Þessari kröfu hafnar stefndi þar sem hún sé innifalin í einingaverði. |
|
|
|
|
661.026 |
|
0 |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
4 Aukaverk 34 |
|
|
|
2.240.240 |
|
156.817 |
|
|
Hafnað að undanskildum 156.817 þar sem brunaþéttingar hafi verið innifaldar í verkþætti |
|
|
|
|
|
|
|
|
5 Flísar |
|
|
|
|
62.910 |
|
|
|
Þessum liðum hafnar stefndi að mestu af margvíslegum ástæðum. |
|
|
|
|
122.325 |
|
|
|
sem hann telur á ábyrgð stefnanda. |
|
|
|
|
111.840 |
|
|
|
|
|
|
|
|
31.455 |
|
17.475 |
|
|
|
|
|
|
55.920 |
|
|
|
|
|
|
|
|
94.365 |
|
|
|
|
|
|
|
|
52.425 |
|
|
|
|
|
|
|
|
132.810 |
|
|
|
|
|
|
|
|
34.950 |
|
34.950 |
|
|
|
|
|
|
13.980 |
|
|
|
|
|
|
|
|
17.475 |
|
|
|
|
|
|
|
|
80.385 |
|
|
|
|
|
|
|
|
34.950 |
|
13.980 |
|
|
|
|
|
|
27.960 |
|
17.475 |
|
|
|
|
|
|
191.900 |
|
|
|
|
|
|
|
|
19.190 |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
6 Aukaverk 36 |
|
|
|
|
|
|
|
|
Þennan lið lækkar stefndi þar sem hann samþykkir ekki einingaverð stefnanda |
|
|
|
|
432.936 |
|
211.861 |
|
Þessum lið hafnar stefndi þar sem sundurliðun og nótur skorti |
|
|
|
|
617.833 |
|
0 |
|
Hafnað þar sem verk stefnanda sé illa unnið |
|
|
|
|
340.036 |
|
0 |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
7. Loftræsting |
|
|
|
94.664 |
|
94.664 |
|
|
|
|
|
|
|
90.157 |
|
90.157 |
|
|
|
|
|
|
18.482 |
|
18.482 |
|
Þessa liði samþykkir stefndi |
|
|
|
|
|
|
|
|
8. aukaverk pípulagnir |
|
|
4.954.805 |
|
2.935.729 |
||
|
Hér hefur stefndi samþykkt stóran hluta krafna stefnanda en notar önnur verð |
|
|
|
|
|
|
|
|
9. Aukaverk raflagnir Samþykkt |
|
|
|
20.508 |
|
20.970 |
|
|
Samþykkt |
|
|
|
|
3.040 |
|
3.040 |
|
Samþykkt |
|
|
|
|
23.926 |
|
24.465 |
|
Samþykkt |
|
|
|
|
18.397 |
|
18.397 |
|
Hafnað þar sem ljós hafi ekki verið sett upp í samræmi við teikningar. |
|
|
|
|
6.836 |
|
0 |
|
Samþykkt |
|
|
|
|
20.508 |
|
20.970 |
|
Efni samþykkt en vinnulið hafnað |
|
|
|
|
9.322 |
|
2.144 |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Samtals: |
|
|
|
|
12.050.437 |
|
5.087.905 |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
Samtals 1420-1424: |
|
|
|
23.116.007 |
|
268.672 |
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|
|||
Verður nú fjallað um einstaka reikninga stefnanda nr. 1420 1424.
Um reikninga 1420 og 1421.
Stefndi hefur fallist á lið nr. 3, pípulagnir með 2.472.456 krónum, sem er hækkun frá því sem stefnandi fer fram á. Þykir rétt að miða við tölu stefnda og er þessi kröfuliður því tekinn til greina með 2.472.456 krónum.
Liður 3.7. loftræstikerfi sætir ekki ágreiningi og er hann tekinn til greina með 296.886 krónum.
Samkvæmt lið 4 raflagnir krefst stefnandi 2.790.211 króna en stefndu telur þennan lið eiga að vera 1.274.921 krónur. Byggir hann það á magntöluleiðréttingum. Því sé um að ræða hefðbundið magntöluuppgjör. Dómurinn fellst á sjónamið stefnda að þessu leyti sem er í fullu samræmi við gögn málsins. Ákveðst þessi liður því -1.274.921 krónur.
Samkvæmt lið 5.2. frágangur veggja, krefst stefnandi 1.107.340 króna. Stefndi telur að þessum lið til frádráttar eigi að koma 9.357.492 krónur. Byggir stefndi þá niðurstöðu á leiðréttingu einingaverða í gipsveggjum og gipsklæðningum. En með hliðsjón af þeim leiðréttingum hafi stefnanda áður verið ofgreitt sem nemi 9.357.492 krónum.
Samkvæmt samkomulagi aðila á dskj. nr. 3 var svo umsamið að samið skyldi um einingarverð verks samkvæmt útboði 01 á grundvelli tilboða, sem stefnandi gaf stefnda í desember 2000 í innanhúsfrágang Hagkaups og Debenhams í Smáralind. Var tekið fram að næðu aðilar ekki samningi um verkið skyldi stefndi greiða stefnanda fyrir þær framkvæmdir sem átt hefðu sér stað í samræmi við ofangreind einingaverð að því leyti sem það ætti við þær framkvæmdir sem átt hefðu sér stað. Að því leyti sem einingaverðin ættu ekki við skyldi stefndi greiða stefnanda sanngjarnt endurgjald fyrir framkvæmdirnar. Ef aðilar næðu ekki samkomulagi um endurgjaldið skyldu dómkvaddir tveir matsmenn til að meta það. Fram hefur komið að stefndi greiddi stefnanda í samræmi við það einingaverð sem stefnandi byggði á. Var það framan af gert með fyrirvara. Hvorugur aðila hefur séð ástæðu til að fara fram á dómkvaðningu matsmanna. Samkomulag aðila verður ekki túlkað svo að stefnanda hafi fremur en stefnda borið að hafa frumkvæði að dómkvaðningunni. Dómurinn verður því skera úr því hvort það einingarverð sem stefnandi byggði reikninga sína í gipsveggjum- og klæðningum á hafi verið grundvöllur að sanngjörnu endurgjaldi fyrir framkvæmdirnar. Til þess ber að líta að aðstæður til vinnu eru allt aðrar í Smárabíói en í ofangreindum verslunum, mun hærra til lofts og aðstæður allar mun erfiðari. Að mati dómsins voru einingaverð þau er stefnandi byggði reikninga sína á sanngjörn í skilningi samkomulags aðila. Af hálfu stefnda hefur ekki verið sýnt fram á að þau hafi verið ósanngjörn. Dómurinn tekur því þennan reikningslið til greina með 1.107.340 krónum, en hafnar kröfu stefnda um frádrátt að fjárhæð 9.357.492 vegna leiðréttingar einingaverða.
Kröfuliðurinn stölluð gólf í sölum að fjárhæð 570.000 krónur er samþykktur af stefnda sem krefst lækkunar fjárhæðarinnar um 123.878 krónur vegna kostnaðar við spörtlun á þrepum. Samkvæmt gögnum málsins hafnaði stefnandi því ekki að honum bæri að framkvæma þessa spörtlun, en lét aldrei framkvæma hana. Er þessi kröfuliður því tekinn til greina að þessu frádregnu með 446.122 krónum.
Kröfuliðurinn frágangur lofta að fjárhæð 324.000 krónur er samþykktur af stefnda sem aftur krefst afsláttar að fjárhæð 49.920 vegna rangs efnis. Stefndi þykir ekki hafa sýnt fram á tjón er réttlæti afslátt. Er þessi kröfuliður stefnanda því tekinn til greina með 324.000 krónum.
Stefndi samþykkir kröfulið nr. 5.5. málun og er hann tekinn til greina með 815.520 krónum.
Stefnandi gefur út reikning nr. 1421 vegna verkstöðu nr. 6 þar sem hann leiðréttir magnskrá. Er fjárhæð reikningsins 259.463 krónur og verður hún lögð til grundvallar niðurstöðu í málinu.
Stefnandi krefst verðbóta vegna reikninga 1420 og 1421 samtals að fjárhæð 235.098. Stefndi samþykkir 194.075 verðbætur. Dagsetningar reikninga stefnanda er í samræmi við útboðslýsingu og verðbætur þær er hann reiknar í samræmi við það. Er krafa stefnanda um verðbætur vegna reikninga nr. 1420 og 1421 því tekin til greina með 235.098 krónum.
Samkvæmt ofansögðu eru reikningar nr. 1420 og 1421 teknir til greina með samtals 4.163.038 krónum.
Um reikning nr. 1422.
Liður 1. 5-5-00 málun sætir ekki ágreiningi og er hann tekinn til greina með 73.700 krónum.
Liður 2. 5-6-00 fastar innréttingar að fjárhæð samtals 650.160 er samþykktur af stefnda með 166.268 krónum. Stefndi krefst í fyrsta lagi lækkunar um 198.200 vegna þess að skipta þurfi út 6 hurðapumpum sem hafi verið of stórar. Í annan stað krefst hann afsláttar að fjárhæð 122.292 krónur vegna lélegs frágangs í kringum S-5 hurðir. Í þriðja lagi krefst hann 163.400 króna vegna nýrrar hurðar er stefnanda beri að leggja til. Af hálfu stefnda hefur ekki verið sýnt fram á að þessi atriði hafi ekki verið í samræmi við verklýsingu. Stefndi hefur ekki lagt fram gögn til stuðnings staðhæfingu sinni. Ber því að taka þennan kröfulið stefnanda til greina með 650.160 krónum.
Stefndi kefst lækkunar á liðnum 3. 5-8-00 flísalögn. Krafa stefnanda samkvæmt þessum lið er samtals 866.625. Stefndi samþykkir þennan lið með 338.825 og byggir hann lækkunina á því að stefnandi eigi að bæta tiltekna rýrnun á flísum. Dómurinn telur stefnda ekki hafa sýnt fram á að stefnandi beri ábyrgð á rýrnun umræddra flísa. Stefndi hefur ekki sýnt fram á að rýrnunina megi rekja til bótaskyldrar vanrækslu stefnanda. Er þessi kröfuliður stefnanda því tekinn til greina með 866.625 krónum.
Samkvæmt kröfuliðnum nr. 4. 5-10-00 stálsmíði hljóðar krafa stefnanda samtals upp á 1.030.590 krónur. Af þeirri fjárhæð samþykkir stefndi kröfuliðinn aðra lið að fjárhæð 463.500 en hafnar með öllu kröfulið að fjárhæð 525.840 krónur vegna harðviðarfleyga, sem ekki hefðu verið notaðir í umræddu verki og kröfulið að fjárhæð 41.250 krónur vegna álvinkla sem ekki hefðu verið notaðir í verki. Í dómskjali nr. 45 eru umræddir liðir ranglega tilgreindir með mínusmerki undir liðnum samþykkt af stefnda, en eiga að sjálfsögðu að falla út sem hafnað. Að mati dómsins eru engin rök til að fallast á lækkun þessa kröfuliðar stefnanda þótt hann hafi ekki notað umrædda fleyga og vinkla í verkinu, þar sem kostnaður sem þeim liðum nemur kemur þá fram með öðrum hætti í verkinu. Er þessi kröfuliður stefnanda því tekinn til greina með 1.030.590 krónum.
Kröfuliður nr. 5 verðbætur er tekinn til greina með 80.487 krónum með sömu rökum og í umfjöllum um reikninga nr. 1420 og 1421 hér að framan.
Samkvæmt ofansögðu er reikningur nr. 1422 tekinn til greina með samtals 2.701.562 krónum.
Um reikning nr. 1423.
Samkvæmt kröfulið 1. 5-6-00 fastar innréttingar nemur heildarfjárhæð kröfu stefnanda 450.256 krónum. Stefndi fellst á þennan kröfulið með 270.452 krónum. Mismunurinn stafar af leiðréttingu magntalna. Sú leiðrétting á við rök að styðjast og er þessi kröfuliður því tekinn til greina eins og stefndi samþykkir hann með 270.452 krónum.
Kröfuliðurinn nr. 2 verðbætur er með vísan til þess er áður getur tekinn til greina samkvæmt kröfu stefnanda með 13.812 krónum.
Samkvæmt ofansögðu er reikningur nr. 1423 tekinn til greina með samtals 284.264 krónum.
Um reikning nr. 1424.
Ekki er ágreiningur um kröfuliðinn 1. Aukaverk nr. 13.6. magnaukning í þrepalýsingu og er hann tekinn til greina með 1.199.034 krónum.
Stefndi gerir þá einu athugasemd við kröfulið 2. Aukaverk 32, breyting á handriði út úr sal 4 að fjárhæð 183.267 krónur að miða beri við tímagjald sem geri 170.619 krónur. Dómurinn telur athugasemd stefnda rétta og er þessi kröfuliður því tekinn til greina með 170.619 krónum.
Kröfuliðurinn nr. 3, Aukaverk 33 breyting á veggjum er annars vegar að fjárhæð 30.580 krónur vegna breytinga á gipsvegg við videovegg og hins vegar að fjárhæð 661.026 krónur vegna breytingar á gipsvegg í böðum. Fyrri kröfuliðinn samþykkir stefndi með 36.676 krónum og er kröfuliðurinn tekinn þannig til greina. Seinni kröfuliðnum hafnar stefndi með öllu og byggir á því að samkvæmt verklýsingu, liður 5.2.01, skuli verktaki gera ráð fyrir í einingarverði sínu að styrkja þurfi veggi þar sem festa þarf innréttingar, vaska og aðra þunga hluti á vegg. Að mati dómsins þykir stefndi ekki hafa sýnt fram á að báðir veggir falli undir lið 5.2.01 í verklýsingu. Er því ekki fallist á að þessi liður verði felldur niður. Á hinn bóginn ber að lækka kröfu stefnanda samkvæmt þessum kröfulið vegna reikningsskekkju þar sem gleymst hefur að draga gipslag frá í reikningi. Er þessi kröfuliður stefnanda því tekinn til greina með 444.614 krónum.
Samkvæmt kröfuliðnum nr. 4. Aukaverk 34 brunaþéttingar fer stefnandi fram á 2.240.240 krónur. Stefndi samþykkir einungis að greiða 156.817 krónur. Rök stefnda eru þau að frágangur gata skuli vera í samræmi við brunaþol viðkomandi byggingarhluta. Ekki sé greitt sérstaklega fyrir fráganginn þar sem hann sé innifalinn. Fallist er á það með stefnda að brunaþétting með lögnum hafi almennt verið innifalin í viðkomandi verkþáttum. Tekin er til greina gjaldfærsla á brunaþéttingu með lögnum á vegum Ístaks hf. sem nemur ofangreindum 156.817 krónum.
Kröfuliður stefnanda nr. 5 Aukaverk 35 flísalögn nemur samtals 1.084.840 krónum. Stefndi hafnar þessum kröfulið að mestu leyti og telur kröfur ekki á sinni ábyrgð. Með aukaverkum samkvæmt þessum kröfulið stefnanda fylgja nokkuð ítarleg gögn og er ekki annað að sjá en að krafa stefnanda sé sanngjörn. Af hálfu stefnda skortir rök og gögn fyrir höfnun kröfunnar. Er þessi kröfuliður stefnanda tekinn til greina með 1.084.840 krónum.
Kröfuliður stefnanda nr. 6. Aukaverk 36 Handriðsveggir í sal 2 o.fl. nemur 432.936 krónum. Stefndi samþykkir að greiða 211.861 krónur fyrir kröfuliðinn. Stefndi telur einingarverð í vegg ekki vera í samhengi við aðra veggi í verkinu. Að mati dómsins verður ekki séð að hægt hafi verið að styðjast við einingaverð úr Debenhams og Hagkaup varðandi þessa veggi. Ekki hefur verið sýnt fram á að einingarverð það er stefnandi styðst við hafi verið ósanngjarnt. Er þessi kröfuliður stefnanda því tekinn til greina með 432.936 krónum.
Stefndi hafnar kröfuliðnum hringlaga hatti yfir videovegg að fjárhæð 617.833 þar sem nákvæma sundurliðun og nótur fyrir efni og vinnu vanti. Ekki hefur verið sýnt fram á að þessi kröfuliður stefnanda sé ósanngjarn og er hann tekinn til greina með 617.833 krónum.
Stefnandi hafnar kröfuliðnum áfellur við útganga á sölum að fjárhæð 340.036 krónur. Byggir stefndi á því að verk stefnanda hafi verið svo illa unnið að vinna þurfi verk að nýju. Stefnandi vann umrætt verk og þykir stefndi ekki hafa sýnt fram á slíka galla í verkinu að stefnanda beri ekkert endurgjald fyrir það. Þessi kröfuliður stefnanda er því tekinn til greina með 340.036 krónum.
Kröfuliðurinn nr. 7. aukaverk 37 loftræsting samtals að fjárhæð 203.203 krónur sætir ekki ágreiningi og er hann tekinn þannig til greina.
Kröfuliðurinn nr. 8 aukaverk 38 pípulagnir nemur 4.954.805 krónum. Stefndi samþykkir að greiða 2.935.729 krónur fyrir þennan kröfulið. Stefndi hefur með réttu hafnað nokkrum liðum í þessum kröfulið. Á hinn bóginn hefur stefndi notað önnur verð en stefnandi á aukaverk þau er hann samþykkir. Dómurinn telur réttara að byggja á verðum stefnanda og í samræmi við það er þessi kröfuliður tekinn til greina með 3.916.071 krónum.
Kröfuliðurinn nr. 9. aukaverk 39 raflagnir nemur samtals 103.997 krónum að teknu tilliti til kröfuliða sem stefndi samþykkir hærri en stefnandi krefst. Er þessi kröfuliður því tekinn til greina með 104.000 krónum.
Samkvæmt ofansögðu er reikningur nr. 1424 tekinn til greina með samtals 8.706.679 krónum.
Samtals eru reikningar 1420-1424 teknir til greina með 15.855.543 krónum.
Samkvæmt ofansögðu á stefnandi kröfu á hendur stefnda vegna ofangreindra reikninga að fjárhæð 15.855.543 krónum krónur og ber sú fjárhæð dráttarvexti eins og í dómsorði greinir en samkvæmt útboðslýsingu 01 er gjalddagi reikninga þremur vikum eftir dagsetningu þeirra.
Um gagnkröfur stefnda.
|
Ofgreidd verklaun |
kr. 686.569 |
|
Dagsektir |
kr. 35.287.000 |
|
Hönnunar- og stjórnunarkostnaður |
kr. 9.951.000 |
|
Gallar og ólokin verk |
kr. 2.949.959 |
|
Samtals |
kr. 48.874.528 |
Með hliðsjón af úrslitum málsins um kröfur stefnanda vegna reikninga nr. 1420-1424 þar sem fallist er á að stefndi sé í skuld við stefnanda, fellur gagnkröfuliðurinn ofgreidd verklaun að fjárhæð 686.569 um sjálfan sig og er hann því ekki tekinn til greina til skuldajafnaðar við tildæmdar kröfur stefnanda.
Um kröfu stefnda um dagsektir ber til þess að líta að sú krafa kom fyrst fram eftir að stefnandi hafði að mestu lokið sínu verki og eftir að stefndi tók í notkun þau rými sem stefnandi vann við. Þá kom það fram hjá eftirlitsmanni stefnda að ekki hefði staðið til að krefja stefnanda um dagsektir. Hins vegar hefði verið ákveðið að gera slíka kröfu eftir að stefnandi afhenti stefnda kröfugerðarreikninginn nr. 1425 að fjárhæð 61.142.000 krónur. Þá ber að líta til þess að ekki er hægt að kenna stefnanda einum um þá seinkun sem varð á áfangaskilum, en viðurkennt er af hálfu stefnda að verulegur dráttur varð á afhendingu aðstöðu til stefnanda og að sá dráttur hafi verið vegna tafa hjá aðalverktaka Smáralindar, Ístaki hf. Með hliðsjón af þessu þykir stefndi ekki eiga rétt til tafabóta og er þeim kröfum hans hafnað.
Krafa stefnda um bætur vegna hönnunar-, stjórnunar-og lögfræðikostnaðar er án allra gagna og þykir skorta nægan rökstuðning. Er henni því hafnað
Krafa stefnda um bætur vegna galla og ólokinna verka. Krafan byggist á matsliðum 153, 157 og 158 í matsgerð. Eins og áður getur voru 8 bláar flísar brotnar er matsmaður skoðaði umræddar flísar og kvað hann það hafa stafað af ófullnægjandi undirvinnu. Hann kvað víða hafa vantað lím undir flísarnar. Þessar bláu flísar eru þynnri en aðliggjandi flísar og gerði verklýsing ráð fyrir að lím yrði borið bæði á flísarnar og gólfið til að vinna upp þykktarmuninn. Þessi verklýsing var á ábyrgð stefnda. Að mati dómsins hefur stefnda ekki tekist að sýna fram á handvömm við niðurlagningu flísanna sem stefnandi beri ábyrgð á gagnvart stefnda. Er þessi matsliður að fjárhæð 2.491.056 því ekki tekinn til greina til skuldajafnaðar við kröfur stefnanda.
Að því er matslið 157 varðar kemur fram í fylgisskjali 157 með dskj nr. 97 að flísar við umræddan rúllustiga voru af hálfu stefnanda lagðar samkvæmt réttri mælingu. Mislöndun flísa við rúllustiga var því ekki á ábyrgð stefnanda eða aðila sem stefnandi bar ábyrgð á. Ber því að hafna þessum kröfulið, 454.038 krónum.
Matsliðurinn brotin flís undir ljósastaur við bar, 4.865 krónur, er ekki tekinn til greina enda ósannað að rekja megi það til atvika er stefnandi ber ábyrgð á að umrædd flís var brotin.
Samkvæmt framansögðu hafnar dómurinn öllum gagnkröfum stefnda.
Eins og að framan getur hefur dómurinn vísað kröfum stefnanda að hluta frá dómi ex officio en tekið efnislega afstöðu til annarra kröfuliða. Kemur því ekki til álita að sýkna stefnda að svo stöddu af kröfum stefnanda eins og stefndi hefur krafist til vara. Er þeirri kröfu því hafnað.
Niðurstaða málsins er því sú að kröfu stefnanda að fjárhæð 61.142.000 krónur, er vísað frá dómi ex officio og að stefndi er dæmdur til að greiða stefnanda 15.855.543 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 8.706.679 krónum frá 21. nóvember 2001 til 30. nóvember s. á., en af 8.447.216 krónum frá þeim degi til 21. 12. s.á. og af 15.855.543 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Eftir þessum úrslitum þykir rétt að ákveða að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Dóm þennan kveða upp Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari og meðdómsmennirnir Ásmundur Ingvarsson verkfræðingur og Gústaf Vífilsson verkfræðingur.
D Ó M S O R Ð :
Kröfu stefnanda, ÁHÁ bygginga ehf., að fjárhæð 61.142.000 krónur samkvæmt reikningi nr. 1425, dagsettum 10. desember 2001, er vísað frá dómi ex officio.
Stefndi, Smáralind ehf., greiði stefnanda, ÁHÁ byggingum ehf., 15.855.543 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 af 8.706.679 krónum frá 21. nóvember 2001 til 30. nóvember s. á., en af 8.447.216 krónum frá þeim degi til 21. 12. s.á. og af 15.855.543 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.