Hæstiréttur íslands
Mál nr. 77/2001
Lykilorð
- Bifreið
- Umferðarlög
- Vátrygging
- Skaðabætur
- Örorka
|
|
Fimmtudaginn 27. september 2001. |
|
Nr. 77/2001. |
Landsbanki Íslands hf. Halldór L. Jóhannesson og Vátryggingafélag Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) gegn Sigurgeir Kristjánssyni (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) |
Bifreiðir. Umferðarlög. Vátrygging. Skaðabætur. Örorka.
S varð fyrir slysi þegar timburborð féllu á hann úr stæðu, sem hafði verið lyft frá jörðu með krana, sem var festur við vörubifreið og knúinn af aflvél hennar. Hæstiréttur taldi að slysið yrði rakið til atvika við fermingu bifreiðarinnar með tæki, sem væri hluti af búnaði hennar. Var eigandi bifreiðarinnar talinn bera skaðabótaskyldu á tjóni S samkvæmt 1. mgr. 88. gr., sbr. 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, ásamt umráðamanni hennar, sem hreyfði ekki sérstökum mótmælum við skaðabótaskyldu sinni á þessum grunni. Voru þeir dæmdir ásamt vátryggingafélagi, sem bifreiðin var ábyrgðartryggð hjá, til greiðslu bóta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 2. mars 2001. Þeir krefjast sýknu af kröfu stefnda, svo og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi varð stefndi fyrir slysi að morgni 15. október 1996 á byggingarsvæði að Gullsmára 10 í Kópavogi, þar sem hann var við störf á vegum Járnbendingar ehf. Var stefndi að raða þar mótatimbri í stæður og binda um þær með mótavír til að undirbúa flutning þess af svæðinu. Munu stæðurnar hafa verið um 6,5 metrar á lengd, 0,8 metrar á hæð og 0,6 metrar á breidd, en í hverri um 50 borð. Til að flytja timbrið brott hafði verið fengin vörubifreiðin LK 361. Hún var á þessum tíma skráð eign Landsbanka Íslands, eignarleigu, sem áfrýjandinn Landsbanki Íslands hf. kemur nú í stað fyrir, og vátryggð hjá Vátryggingafélaginu Skandía hf., sem áfrýjandinn Vátryggingafélag Íslands hf. hefur tekið yfir, en í umráðum áfrýjandans Halldórs L. Jóhannessonar.
Samkvæmt gögnum málsins var vörubifreiðin af gerðinni Scania R142H 6X2. Eigin þyngd hennar var 14.990 kg, en heildarþyngd með farmi mátti verða allt að 33.000 kg. Á bifreiðina hafði verið festur krani af gerðinni HIAB, sem hafði 29 tonna lyftigetu og var knúinn af aflvél hennar. Í umrætt sinn var kraninn notaður til að lyfta timbrinu af jörðu upp á flutningapall bifreiðarinnar. Í því skyni var svokallaðri flatstroffu, 10 cm breiðri, brugðið um miðja timburstæðu, sem að öðru leyti hafði verið bundið um með 3 mm mótavír á tveimur stöðum, um 1,3 metra frá hvorum enda, en lykkja á stroffunni síðan fest í krók kranans.
Í lögregluskýrslu, sem gerð var í tilefni af slysi stefnda, sagði áfrýjandinn Halldór að umræddan morgun hafi einni timburstæðu verið lyft upp á pall bifreiðarinnar. Hann hafi síðan fært bifreiðina á annan stað, þar sem nokkrar timburstæður hafi verið vinstra megin við hana, sömu megin og stjórntæki kranans, en ein hægra megin. Hafi staðið til að lyfta þeim upp á pallinn með krananum. Fyrir Hæstarétti eru aðilarnir sammála um að stoðfætur á krananum hafi þá verið settir niður báðum megin við bifreiðina til að halda jafnvægi hennar. Í skýrslu sinni sagðist áfrýjandinn hafa ákveðið að svo komnu máli að taka fyrst upp timburstæðuna, sem var hægra megin við bifreiðina. Til þess hafi hann þurft leiðsögn til að stjórna krananum, þar sem bifreiðin hafi byrgt honum sýn. Nafngreindur starfsmaður Járnbendingar ehf. hafi veitt honum þá aðstoð. Hafi áfrýjandinn samkvæmt bendingum þess manns tekið stæðuna upp með krananum og snúið henni síðan til að koma henni inn á pallinn. Þegar stæðan hafi verið á lofti aftan við bifreiðina hafi timbur skyndilega byrjað að renna út úr henni. Hann hafi öskrað til að vara nærstadda við hættu. Stefndi, sem hafi verið að búa um timburstæðu vinstra megin við bifreiðina og snúið baki í áfrýjandann, hafi risið upp og litið við, en fengið þá yfir sig 15 til 20 borð úr stæðunni, sem enn hékk í krananum. Við það hlaut stefndi þau meiðsl, sem greinir í hinum áfrýjaða dómi.
Í málinu eru ekki bornar brigður á að stefndi hafi enga sök átt á framangreindu slysi. Þá er heldur ekki deilt um hversu lengi stefndi var óvinnufær vegna slyssins eða það stig varanlegrar örorku og varanlegs miska, sem hann reisir kröfu sína á. Stefndi unir við niðurstöðu héraðsdóms og er því ekki lengur ágreiningur um hvaða tekjur eigi að leggja til grundvallar við ákvörðun bóta fyrir tímabundið atvinnutjón og varanlega örorku. Aðilarnir deila á hinn bóginn um hvort stefndi geti leitað bóta vegna tjóns síns úr hendi áfrýjenda á grundvelli 1. mgr. 88. gr., sbr. 1. mgr. 90. gr. og 1. mgr. 95. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum. Þá er jafnframt uppi ágreiningur um ákvörðun þjáningabóta handa stefnda samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, lækkun örorkubóta vegna aldurs hans, sbr. 2. mgr. 9. gr. sömu laga, hvort greiðslur að fjárhæð alls 1.216.470 krónur, sem hann fékk frá Tryggingu hf. á árinu 1997, eigi að dragast frá kröfu hans á hendur áfrýjendum og loks um vexti af kröfunni.
II.
Samkvæmt framansögðu verður að leggja til grundvallar að stefndi hafi orðið fyrir slysi með því að timburborð féllu á hann úr stæðu, sem hafði verið lyft frá jörðu með krana, sem var festur við bifreiðina LK 361, til að færa stæðuna upp á flutningapall bifreiðarinnar. Slysið verður því rakið til atvika, sem gerðust beinlínis við fermingu bifreiðarinnar með tæki, sem var hluti af búnaði hennar. Þegar leyst er úr því hvort þessi aðgerð verði talin þáttur í notkun bifreiðarinnar getur engu breytt hvort hún hafi almennt ekki verið nýtt til að flytja vörur eða kraninn á henni hafi að einhverju eða verulegu leyti verið nýttur yfirleitt til annars en að ferma eða afferma bifreiðina. Er þá haft í huga að óumdeilt er að í þetta sinn var bifreiðin í raun notuð til að flytja vörur og kraninn á henni til að ferma hana. Þá getur heldur engu breytt að tveir stoðfætur voru þessu sinni settir niður til að halda jafnvægi á bifreiðinni á meðan kraninn yrði í notkun, enda getur þetta eitt og sér ekki ráðið úrslitum um að litið verði á krana bifreiðarinnar sem sérstaka vinnuvél þá stund, sem stoðfætur eru hafðir niðri. Að þessu gættu eru atvik hér í öllu, sem máli skiptir, sambærileg atvikum í máli, sem leyst var úr með dómi Hæstaréttar í dómasafni 1997, bls. 1071. Því til samræmis verður að líta svo á að bifreiðin LK 361 hafi verið í venjulegri og eðlilegri notkun sem vörubifreið þegar slys stefnda bar að höndum. Af þeim sökum ber áfrýjandinn Landsbanki Íslands hf. skaðabótaskyldu á tjóni stefnda samkvæmt 1. mgr. 88. gr., sbr. 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga, ásamt áfrýjandanum Halldóri, sem ekki hefur hreyft sérstökum mótmælum gegn skaðabótaskyldu sinni á þessum grunni. Ber áfrýjandinn Vátryggingafélag Íslands hf. jafnframt greiðsluskyldu á skaðabótum til stefnda samkvæmt 1. mgr. 95. gr. sömu laga.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um fjárhæð skaðabóta til stefnda úr hendi áfrýjenda, svo og um vexti, að öðru leyti en því að um dráttarvexti af kröfu stefnda fer samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júlí 2001 til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest. Áfrýjendur verða í sameiningu dæmdir til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að um dráttarvexti af kröfu stefnda, Sigurgeirs Kristjánssonar, fer samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júlí 2001 til greiðsludags.
Áfrýjendur, Landsbanki Íslands hf., Halldór L. Jóhannesson og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði í sameiningu stefnda 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2000.
I
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi 27. nóvember sl., var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu, birtri 5. apríl 2000. Málið var þingfest 6. apríl 2000.
Stefnandi er Sigurgeir Kristjánsson, kt. 151130-4889, Tjarnarflöt 3, Garðabæ.
Stefndu eru, Landsbanki Íslands hf., kt. 540291-2259, Austurstræti 11, Reykjavík, Halldór L. Jóhannesson, kt. 231155-2529, Efstasundi 89, Reykjavík og Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði dæmdir til þess að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 14.528.170 krónur með þessum vöxtum:
A) Með dráttarvöxtum af 654.500 krónum frá 14. febrúar 1997 til 1. mars s.á., af 841.500 krónum frá þ.d. til 1. apríl s.á., af 1.028.500 krónum frá þ.d. til 1. maí s.á., af 1.215.500 krónum frá þ.d. til 1. júní s.á., af 1.402.500 krónum frá þ.d. til 1. júlí s.á., af 1.589.500 krónum frá þ.d. til 1. ágúst s.á., af 1.776.500 krónum frá þ.d. til 1. september s.á., af 1.963.500 krónum frá þ.d. til 1. október s.á., af 2.150.500 krónum frá þ.d. til l. nóvember s.á., af 2.337.500 krónum frá þ.d. til 1. desember s.á., af 2.524.500 krónum frá þ.d. til 1. janúar 1998, af 2.711.500 krónum frá þ.d. til 1. febrúar s.á., af 2.898.500 krónum frá þ.d. til 1. mars s.á., af 3.085.500 krónum frá þ.d. til 1. apríl s.á., af 3.272.500 krónum frá þ.d. til 1. maí s.á., af 3.459.500 krónum frá þ.d. til 1. júní s.á., af 3.646.500 krónum frá þ.d. til 1. júlí s.á., af 3.833.500 krónum frá þ.d. til 1. ágúst s.á., af 4.020.500 krónum frá þ.d. til 1. september s.á., af 4.207.500 krónum frá þ.d. til 1. október s.á., af 4.394.500 krónum frá þ.d. til 1. nóvember s.á., en af 4.581.500 krónum frá þ.d. til greiðsludags.
B) Með 2% ársvöxtum af 9.946.670 krónum frá 15. október 1996 til 18. nóvember 1999, en með dráttarvöxtum frá þ.d. til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt gjaldskrá Landslaga ehf., og framlögðum málskostnaðarreikningi og taki málskostnaður mið af því að stefnandi stundar ekki virðisaukaskattsskylda starfsemi.
Dómkröfur stefndu eru þær að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda og þeim dæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins, að teknu tilliti til skyldu stefndu til að greiða virðisaukaskatt af lögmannsþóknun.
II
Óumdeild málsatvik og helstu ágreiningsefni
Stefnandi slasaðist alvarlega við störf hjá fyrirtækinu Járnbendingu hf. 15. október 1996. Lögreglan í Kópavogi tók skýrslur af þeim sem vitni urðu að slysinu og teiknaði mjög glögga afstöðumynd. Þá ritaði Vinnueftirlit ríkisins eftirlitsskýrslu um slysið.
Ekki er ágreiningur með aðilum um hvernig slysið bar að höndum. Samkvæmt framangreindum gögnum voru nánari tildrög að slysinu þau að stefnandi vann í umrætt sinn sem verktaki hjá Járnbendingu hf. við að stafla mótatimbri á byggingarsvæði við Gullsmára í Kópavogi. Flutningabifreiðinni LK 361 var þá ekið inn á byggingarsvæðið í þeim tilgangi að færa þaðan mótatimbur.
Bifreiðin er af tegundinni Scania, árgerð 1998, búin áföstum krana af tegundinni HIAB. Kraninn gengur fyrir vélarafli bifreiðarinnar og er lyftigeta hans 29 tonnmetrar. Bifreiðin var í eigu Landsbanka Íslands, eignaleigu, kt. 610886-1679, Lynghálsi 9, Reykjavík, en félagið var sameinað stefnda Landsbanka Íslands 30. desember 1994. Bankanum hefur nú verið breytt í hlutafélag. Umráðamaður bifreiðarinnar, samkvæmt eignarleigusamningi, var stefndi Halldór L. Jóhannesson og stjórnaði hann bifreiðinni og krananum í umrætt sitt.
Flutningabifreiðinni var ekið beint að stökum timburstafla og krani bifreiðarinnar notaður til að hífa staflann upp á flutningabifreiðina. Bifreiðinni var því næst ekið að næsta stafla sem átti að fjarlægja. Um 50 borð af mótatimbri voru í búntinu. Hafði það verið bundið saman á tveimur stöðum með 3 mm mótavír og starfsmaður Járnbendingar unnið það verk. Stefndi lét umræddan starfsmann koma fyrir einni flatstroffu á timburbúntið og byrjaði síðan að hífa. Búntið var hægra megin við bifreiðina en Halldór stóð vinstra megin við hana. Stefnandi var þá að vinna við timburhlaða vinstra megin við bifreiðina. Þegar timburbúntið var komið á loft og aftur fyrir bifreiðina kom í ljós að það var ekki í jafnvægi og rann til í stroffunni. Við það slitnaði mótavírinn sem timburbúntið hafði verið bundið saman með og 15-20 borð lentu á baki stefnanda sem sneri baki við bifreiðinni. Við höggið kastaðist stefnandi áfram og féll til jarðar og klemmdist upp við timburhlaðann sem hann var að vinna við.
Stefnandi slasaðist mjög illa og var þegar fluttur á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur í Fossvogi. Samkvæmt framlögðum læknisfræðilegum gögnum komu í ljós við rannsókn mjög alvarleg innvortis meiðsli, þ. á m. slæmt brot á mjaðmaskál vinstra megin ásamt liðhlaupi, rifbrot og innvortis blæðingar. Í kjölfarið fylgdi svo bráð nýrnabilun og alvarleg sýking í kviðarholi.
Stefnandi gekkst undir margar og erfiðar læknisaðgerðir, bæði á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og á Landsspítalanum til að fá bót meina sinna. Stóðu þær linnu lítið til 8. apríl 1998 þegar hann útskrifaðist af Sjúkrahúsi Reykjavíkur eftir aðgerð vegna mikils kviðslits er myndaðist við sýkingu í kviðarholi.
Jónas Hallgrímsson læknir mat varanlega örorku og miska stefnanda samkvæmt skaðabótalögum, svo og tímabil þjáningabóta og tímabundins atvinnutjóns, að beiðni lögmanns stefnanda. Mat hann miska stefnanda 60% en varanlega örorku 100%.
Flutningabifreiðin LK 361 var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. Hinn áfasti HIAB-krani var ábyrgðartryggður hjá Tryggingu hf. en Tryggingarmiðstöðin hf. hefur nú yfirtekið tryggingarstarfsemi Tryggingar hf.
Trygging hf. greiddi stefnanda upp í bætur vegna tímabundinnar örorku samtals 1.216.470 krónur án þess að fallast á bótaskyldu. Tryggingarfélagið skaut síðan málinu til úrskurðar tjónanefndar vátryggingafélaganna sem komst að þeirri niðurstöðu að stefnandi ætti skaðabótakröfu á grundvelli sérreglu 88. gr. umferðarlaga á hendur eiganda bifreiðarinnar LK 361 og kröfu um greiðslu úr lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækisins. Á þessa niðurstöðu hafa stefndu ekki fallist og er mál þetta sprottið af ágreiningi um það úr hvaða tryggingu eigi að bæta líkamstjón stefnanda.
Þá er deilt um hvaða tekjur eigi að leggja til grundvallar útreikningi á tímabundnu atvinnutjóni og varanlegri örorku og einnig um hvort lækka eigi frádrátt vegna aldurs stefnanda úr 80% í 70% á grundvelli 2. mgr. 9. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Jafnframt er ágreiningur um vexti og upphafstíma dráttarvaxta.
III
Málsástæður og lagarök stefnanda
Af hálfu stefnanda er byggt á því að skylt sé að bæta tjón hans úr ábyrgðartryggingu vörubifreiðarinnar, LK 361, en aðalorsök slyssins hafi verið óaðgæsla bílstjórans, stefnda Halldórs, við hífingu þar sem einungis hafi verið notuð ein "stroffa" í stað tveggja eins og vanalegt sé og Vinnueftirlit ríkisins hafi sett fyrirmæli um. Beri hann því skaðabótaábyrgð vegna slyssins á grundvelli sakareglu skaðabótaréttar og strangari bótareglna, samanber einnig 3. mgr. 90. gr. umferðarlaga.
Á því er byggt að bifreiðin hafi í umrætt sinn verið í venjulegri og eðlilegri notkun sem vöruflutningabifreið með áföstum lyftikrana, krana sem sé hluti af bifreiðinni og knúinn með aflvél hannar. Ekki liggi fyrir að stoðfætur sem hægt sé að skjóta út þegar kraninn sé notaður hafi verið notaðir í umrætt sinn. Lestun og losun með þessum krana sé þáttur í notkun bifreiðarinnar sem ökutækis og flutningatækis í merkingu 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Stefndu Halldór og Landsbanki Íslands hf., beri því hlutlæga ábyrgð á tjóni stefnanda, samanber 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga.
Um framangreinda lögskýringu er af hálfu stefnda vísað til fordæma Hæstaréttar, t.d. hrd. 1962:907 og 1997:1071. Um bótarétt stefnanda á hendur stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., er vísað til 1. mgr. 95. gr. umferðarlaga, sbr. 1. mgr. 91. gr. sömu laga en bifreiðin hafi verið tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá félaginu þegar slysið hafi orðið.
Vísað er til þess að Jónas Hallgrímsson, læknir hafi í matsgerð, dagsettri 20. september 1999, metið miska stefnanda 60% og varanlega örorku 100% og að ekki sé um þetta mat deilt.
Tekjutap stefnanda vegna varanlegrar örorku sé reiknað út með hliðsjón af launum hans janúar - september 1996, sem undirverktaki við járnabindingar hjá byggingafyrirtækinu Járnbendingu hf., sem sé í eigu sona hans. Meðallaun á mánuði hafi verið 220.000 krónur, brúttó, en þar sem stefnandi hafi unnið á verktakakjörum sé dreginn frá áætlaður 15% kostnaður við verktöku. Bótakrafan sé því miðuð við 187.000 króna mánaðarlaun eða 2.244.000 króna árslaun. Árin á undan hafi stefnandi starfað hjá sonum sínum á lágum launum meðan þeir hafi verið að koma fyrirtækinu á laggirnar, gegn því að halda vinnu og launum eftir sjötugt. Til hafi staðið að hækka laun stefnanda og þau raunar verið farin að hækka vegna betra gengis félagsins.
Með hliðsjón af þessum árslaunum, fyrrnefndu mati Jónasar Hallgrímssonar og ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 sundurliðast höfuðstóll stefnukröfunnar þannig að teknu tilliti til verðbóta, samanber 15. gr. laganna:
1. Tímabundið atvinnutjón frá 15.10.1996 til 29.10.1998
í 24 og hálfan mánuð, 24,5 x 187.000 kr. 4.581.500
2. Þjáningabætur í samtals 744 daga.
Rúmliggjandi í 245 daga x kr. 1.500.- á dag. kr. 367.500
Veikur en ekki rúmliggjandi 499 daga x 810 á dag kr. 404.190
3. Varanlegur miski, 60% af kr. 4.615.500 = kr. 2.769.300.
Skerðing vegna aldurs, 30% = kr. 830.790 kr. 1.938.510
4. Varanleg örorka 100%, 2.244.000 x 10 x 100% kr. 22.440.000
Hækkun skv. 2. málsl. 2. mgr. 15. gr. skaðabótalaga
okt. 1996 til okt. 1999 kr. 1.681.567
Skerðing vegna aldurs, 70% kr. 16.885.09
Samtals kr. 14.528.170
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að vegna þess hversu hann hafi verið við góða heilsu og líkamlega sterkur séu miklar líkur á að hann hefði stundað vinnu eftir sjötugt. Frádráttur sé því lækkaður úr 80% í 70% á grundvelli heimildar í 2. mgr. 9. gr. skaðabótalaga.
Krafist er greiðslu vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá slysdegi af öðrum liðum en kröfu um greiðslu tímabundins atvinnutjóns samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga, þar til liðinn hafi verið einn mánuður frá 18. október 1999, þegar kröfubréf hafi verið sent. Því er haldið fram að tímabundið atvinnutjón stefnanda sé allt ógreitt og krafist greiðslu dráttarvaxta af því þannig að dráttarvextir reiknist fyrst frá 14. febrúar 1997 fyrir tímabilið 15. október 1996 til 1. febrúar 1997 og þannig af breyttum höfuðstól áfram þar til tímabili tímabundins atvinnutjóns ljúki samkvæmt örorkumatinu, 29. október 1998. Stefndu hafi frá upphafi haft undir höndum ljósrit launaseðla og önnur nauðsynleg gögn, svo unnt væri að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta fyrir tímabundið atvinnutjón, sbr. meginreglu 15. gr. vaxtalaga. Dráttarvaxtakrafan sé að öðru leyti byggð á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.
IV
Málsástæður og lagarök stefndu
Af hálfu stefnda er fallist á, að slys stefnanda hafi stafað af mistökum við stjórntök viðfests krana, sem falist hafi í mistökum varðandi frágang fyrir hífingu þá sem slysinu hafi valdið. Ekki sé heldur deilt um, að stefnandi hafi engan þátt átt í orsökum slyssins. Megin deiluefni málsins sé í raun það hvort bæta eigi tjón stefnanda úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar LK 361, eða frjálsri ábyrgðartryggingu, sem eigandi kranans hafi tekið vegna hans. Deila stefndu í máli þessu sé þannig ekki í reynd við stefnanda, heldur snúist dómsmálið um hagsmuni tveggja tryggingafélaga, stefnda VÍS og Tryggingamiðstöðvarinnar hf. sem tekið hafi verið réttindum Tryggingar hf. VÍS hafi lagt til, að félögin sammæltust um að tjón stefnanda yrði gert upp, en úrslit í endurkröfumáli á milli félaganna réðu því, hvort þeirra bæri kostnaðinn.
Upplýst hafi verið í málinu að Trygging hf. hafi stutt stefnanda við málarekstur á hendur stefndu með því að greiða inn á bætur og með því að lána honum fé.
Stefndu krefjast sýknu á þeim forsendum, að hin sérstaka ábyrgðarregla l. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 nái ekki til slyssins. Slysið hafi stafað af þeim alvarlegu mistökum stjórnanda kranans að hífa svo erfitt heisi á einni stroffu, svo og þeim mistökum vinnuveitanda stefnanda að láta binda timburbúntin með mótavír, en ekki vír sem til þess sé fallinn. Er um þetta er vísað til framlagðs álits Vinnueftirlits ríkisins.
Af hálfu stefndu er á því byggt að dómur Hæstaréttar 1997:1071 hafi ekki fordæmisgildi í þessu máli. Í því máli hafi verið um að tefla venjulega vörubifreið með venjulegum pallkrana eins og nánar sé lýst í dóminum. Sérstaklega er vísað til þeirra ummæla í dóminum að þyngd vörubifreiðarinnar hafi verið rúm 8 tonn og burðargeta rúm 12 tonn. Kranans hafi verið getið á bifreiðaskrá sem búnaðar með bifreiðinni. Ágreiningslaust hafi verið talið að hann hafi einkum verið ætlaður til nota við fermingu og affermingu bifreiðarinnar sjálfrar og lyftigeta hans einkum við það miðuð. Tekið hafi verið fram að slíkur búnaður hafi mjög rutt sér til rúms hin síðari ár, og að hann væri að finna á miklum hluta þeirra atvinnubifreiða, sem hafðar væru til stykkjaflutninga.
Því er haldið fram að bifreiðin LK 361 sé allt annarrar gerðar. Um sé að ræða tæpra 15 tonna flutningabifreið með 18 tonna burðargeta, eða alls 33 tonna heimilaða heildarþyngd. Kraninn sé ekki venjulegur pallkrani, heldur öflugur fjölnotakrani, þótt hann sé festur á bifreið til almennra nota. Í málinu liggi fyrir yfirlýsingu þess efnis að u. þ. b. 70% af þeim hífingum sem kraninn hafi verið notaður til fyrir Járnbendingu ehf. hafi ekki verið losun og lestun vörubifreiðar, heldur hafi kraninn verið notaður sem sjálfstætt vinnutæki. Sama megi sjá af fram lögðum ljósmyndum sem sýni að kraninn sé notaður til þess að hífa þung hlöss, að vísu af bílpallinum, en inn um glugga á fjórðu hæð á stórri skrifstofubyggingu. Þá sé kraninn ekki skráður í ökutækjaskrá sem fastur fylgibúnaður bifreiðarinnar. Kraninn hafi verið skorðaður af með tveimur stoðfótum. Við samanburð þessa krana og þess sem um hafi verið fjallað í fyrrnefndum dómi sjáist, að rökstuðningur fyrir því, að notkun kranans í því máli hafi verið bundin við bifreiðina sjálfa, losun hennar og lestun, eigi ekki við um þennan krana, jafnvel þótt í slysatilvikinu hafi átt að hífa timbur upp á vörupallinn.
Vísað er til þess að bótaregla 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga miðist við að bæta tjón sem hljótist af notkun bifreiðar sem ökutækis. Í þessu tilviki hafi kraninn gegnt hlutverki sjálfstæðrar vinnuvélar, þótt hún væri fest á LK-361. Bifreiðin hafi verið undirstaða kranans sem vinnuvélar, slysið hafi ekki á neinn hátt stafað af sérstökum hættueiginleikum bifreiðarinnar sem ökutækis og kraninn ekki verið venjulegur og eðlilegur búnaður bifreiðarinnar. Enginn eðlismunur hafi verið á notkun kranans og notkun algjörlega sjálfstætt standandi krana. Slíkar vinnuvélar lúti ekki hinni sérstöku ábyrgðarreglu 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga og engin rök til að láta aðra reglu gilda um slys af völdum slíks krana sem um er fjallað í málinu.
Þá er einnig á því byggt að aðeins þrír af fimm dómurum hafi myndað meirihluta í dómi Hæstaréttar 1997:1701, en niðurstaða minnihlutans um sýknu hafi verið rökstudd á mjög afdráttarlausan hátt. Réttinn skipi 9 dómarar og óvíst sé hver skoðun þeirra dómara sé sem ekki hafi setið í dómi í umrædd sinn. Er á því byggt að enda þótt tilvik það sem fjallað er um í þessu máli yrði talið sambærilegt við það tilvik sem dæmt hafi verið um í fyrrgreindu máli sé fordæmisgildi dómsins af framangreindum ástæðum afar veikt. Hrd. 1998:3378 bendi til þess að Hæstiréttur muni ekki komast aftur að sambærilegri niðurstöðu og meirihluti réttarins komst að í dómi 1997:1701.
Hvað varðar einstaka liði dómkröfunnar eru gerðar nokkrar athugasemdir af hálfu stefnda. Því er haldið fram að þær að krafa um tímabundið atvinnutjón sé ekki studd viðhlítandi gögnum. Því er mótmælt að fram lagðir reikningar stefnanda verði teknir fram yfir upplýsingar sem fram komi á skattframtali stefnanda fyrir tekjuárið 1996. Samkvæmt umræddu skattframtali hafi mánaðarlegar tekjur stefnanda á árinu 1996, þ.e. frá janúar og til slysdags 15. október, numið 1.160.231 krónum, eða 122.130 krónum á mánuði. Ætti því krafan að vera 2.992.174 krónur.
Þá er því haldið fram að krafa um þjáningabætur á grundvelli 3. gr. skaðabótalaga sé langt umfram viðmiðunarmark í síðasta málslið greinarinnar og beri að lækka hana. Um það er vísað til greinargerðar með upphaflegu frumvarpi til skaðabótalaga.
Kröfu stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku samkvæmt 5.-7. gr., sbr. 9. gr. skaðabótalaga, er mótmælt með sömu rökum og kröfu um tímabundna örorku. Miða eigi við tekjur stefnanda eins og þær hafi verið gefnar upp af honum sjálfum á skattframtali. Samkvæmt því hefðu 12 mánaða tekjur stefnanda verið 1.465.555 krónur og beri að ákvarða honum bætur í samræmi við það.
Talið er ósannað, að stefnandi hefði getað unnið hið erfiða starf járnabindingamanns eftir sjötugt, þótt ekki sé dregið í efa, að hann hafi verið vel á sig kominn. Því er mótmælt að lækkun sé færð úr 80% í lægri tölu, sbr. 1. mgr. 9. gr.
Af hálfu stefndu er því haldið fram að í kröfubréfi lögmanns stefnanda til stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. hafi ekki komið fram þær upplýsingar, sem áskildar séu í 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 og hafi þær ekki komið fram fyrr en í bréfi dagsettu 18. október 1999. Upphafstíma dráttarvaxtakröfu er mótmælt með hliðsjón af því. Þá er því haldið fram að þar sem málið sé í raun sprottið af deilu tveggja tryggingafélaga um ábyrgðargrundvöll bóta fyrir tjón stefnanda, sé óeðlilegt að dráttarvextir verði dæmdir fyrr en frá raunverulegum vanskilum, þ.e. frá uppsögu endanlegs dóms í málinu.
V
Niðurstaða
Í máli þessu er ekki deilt um atvik að vinnuslysi því sem stefnandi varð fyrir og ekki um heilsufarslegar afleiðingar þess fyrir hann. Þá er heldur ekki deilt um að meginorsök slyssins voru mistök við hífingu á timburbúnti en borð úr því féllu ofan á stefnanda. Mistökin lágu annars vegar í því að einungis var notuð ein stroffa við að hífa timburbúntið í stað tveggja, sem leiddi til þess að jafnvægi náðist ekki við hífingu og búntið rann til í stroffunni. Hins vegar lágu mistökin í því að starfsmaður Járnabendingar hf. notaði 3 mm mótavír til að binda mótatimbrið saman en þegar búntið byrjaði að renna til í stroffunni slitnaði mótavírinn. Telja verður að stefndi Halldóri hafi sýnt af sér gáleysi við undirbúning að hífingu timburbúntsins og það hafi verið meginorsök þess líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir. Ber hann skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda á afleiðingum slyssins á grundvelli almennu skaðabótareglunnar.
Í málinu er einkum deilt um það hvort stefndu beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli hlutlægrar ábyrgðarreglu 3. mgr. 90. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 91. gr. og 95. gr. laganna.
Fyrstu lög um umferðarmál hér á landi voru lög um notkunar bifreiða nr. 21/1914. Í 1. mgr. 13. gr. laganna var að finna svohljóðandi bótareglu:
„Hljótist slys eða tjón af notkun bifreiðar, annaðhvort beinlínis af akstri hennar eða af því að hestur vegfaranda fælist, eða á annan svipaðan hátt, er sá, sem ber ábyrgð á bifreiðinni skaðabótaskyldur, nema sá, sem fyrir slysinu eða tjóninu varð, eða einhver þriðji maður, hafi orðið valdur að slysinu eða tjóninu af ásettu ráði eða með vítaverðri óvarkárni, eða uppvíst verður að slysið hlaut að vilja til, þrátt fyrir þá aðgæslu og varkárni, sem ökumanni er skylt að gæta.”
Þessi bótaregla var sérregla sem fól í sér það afbrigði frá almennu skaðabótareglunni að lögð var á ábyrgðarmann bifreiðar sönnunarbyrði fyrir því að slysi eða tjóni hefði ekki mátt afstýra.Vegna erfiðleika við slíka sönnun fól reglan í raun í sér mjög stranga ábyrgðarreglu.
Ýmsar breytingar voru gerðar á lögum um bifreiðir á næstu árum og þau endurútgefin sem lög nr. 88/1917 og lög nr. 56/1926. Bótareglur þeirra tóku nokkrum breytingum á þessum tíma en framangreind sérregla þó lítið.
Á 52. löggjafarþingi, veturinn 1937-1938, kom fram frumvarp til nýrra bifreiðalaga. Í 34. gr. frumvarpsins var lagt til að tekin yrði upp hlutlæg bótaábyrgð ábyrgðarmanns bifreiðar á tjóni af notkun hennar. Í greinargerð með frumvarpinu var að finna svohljóðandi athugasemd við ákvæðið.
„Samkvæmt almennum skaðabótareglum skapar maður sér - utan samninga - aðeins skaðabótaábyrgð með því að valda öðrum tjón af ásetningi eða gáleysi. Réttarþróunin gengur þó í þá átt, að láta skaðabótaábyrgðina ná lengra, þegar um einstaklinga eða fyrirtæki er að ræða, sem reka hættulega starfsemi. Byggist þetta á þeirri skoðun, að það standi þeim, sem rekur slíka starfsemi, næst að bera áhættuna, sem henni er samfara, enda þótt honum verði ekki gefin subjectiv sök á tjóni, sem verða kann í sambandi við starfsemina. Nú er notkun bifreiða allhættuleg starfsemi, og eru því ákvæði 1. og 2. málsgr. um bótaskyldu vegna tjóns, sem af notkun þeirra hlýst, í samræmi við framangreinda skoðun. Hin víðtæka bótaskylda greinarinnar tekur aðeins til tjóns, sem hlýst af notkun bifreiðar. Standi bifreið t.d. kyrr á bifreiðastæði og rekist einhver á hana þar og meiði sig, mundu um það tilvik gilda almennar reglur.”
Í þessum athugasemdum kemur fram grundvallarhugsunin að baki sérreglum bifreiðalaga og síðar umferðarlaga um ábyrgð vegna hættueiginleika ökutækja. Frumvarp þetta varð loks að lögum nr. 75/1940 í talsvert breyttri mynd. Horfið var frá því að sinni að lögfesta hlutlæga ábyrgðarreglu en hins sérstaka ábyrgðarregla eldri laga látin halda sér í 1. mgr. 34. gr. í nokkuð breyttri mynd. Ekki var lengur getið um til hvaða notkunar bifreiðar ábyrgðin tæki og fól það í sér nokkra rýmkun á notkunarhugtakinu. Ábyrgðarregla þessi var svohljóðandi:
„Hljótist slys eða tjón af notkun bifreiðar á mönnum eða munum, er sá, sem ábyrgð ber á henni, skyldur til að bæta það fé, nema leitt sé í ljós, að slysi eða tjóni hefði ekki verið afstýrt, þótt bifreiðin hefði verið í lagi og ökumaður sýnt fulla aðgæslu og varkárni. ”
Með 67. gr. laga nr. 26/1958 var fyrst tekin í umferðarlög hlutlæg bótaregla, sambærileg ákvæði 1. mgr. 88. gr. laga nr. 50/1987. Ákvæðið var svohljóðandi:
„Nú hlýst slys eða tjón á mönnum eða munum af skráningarskyldu, vélknúnu ökutæki í notkun, og er þá þeim, sem ábyrgð ber á ökutækinu, skylt að bæta það fé, enda þótt slysið eða tjónið verði eigi rakið til bilunar eða galla á tækinu eða ógætni ökumanns.”
Frumvarp til umferðarlaga hafði komið fram á 76. löggjafarþingi 1956 og var 67. gr. þess samhljóða sömu grein í lögum nr. 26/1958. Í greinargerð með frumvarpinu er m.a. að finna svohljóðandi athugasemdir um 67. gr.:
„Fébótaábyrgðarregla sú, sem hér kemur fram, nær til fleiri tegunda ökutækja en áður. Er hér miðað við öll vélknúin ökutæki, sem skráningarskyld eru samkvæmt 11. gr. frumvarpsins. Virðist sjálfsagt að rýmka ákvæði laga á þessu svið, enda alkunna að, mörg önnur ökutæki en bifreiðar eru nú þegar í umferð á vegum og valda þar svipuðum hættum. ... Að því er varðar ábyrgðarreglurnar sjálfar, þá hefur það gilt, að sá, er ábyrgð ber á bifreið, er fébótaskyldur, nema leitt sé í ljós, að slysi eða tjóni hefði ekki orðið afstýrt, þótt bifreiðin hefði verið í lagi og ökumaður sýnt fulla aðgæslu og varkárni. Hér á landi hefur reynslan orðið sú, að þeim er ábyrgð ber á bifreið, hefur sjaldnast tekist að sanna gallaleysi tækisins eða fulla aðgæslu eða varkárni ökumanns. Hefur gildandi reglum því í framkvæmd verið beitt sem um algera (objectiva) bótaábyrgð væri að ræða. ”
Samkvæmt framansögðu var gildissvið ábyrgðarreglunnar rýmkað og hún látin taka til skráningarskyldra ökutækja í stað bifreiða. Í frumvarpinu er hins vegar ekki að finna skýringar á efnisinntaki hugtaksins „ökutæki í notkun” eða nefnd dæmi um tilvik sem féllu þar undir. Verður að líta svo á að innihald notkunarhugtaksins hafi verið það sama og samkvæmt eldri bifreiðalögum en þegar hér var komið sögu höfðu fjölmargir dómar gengið þar sem fjallað hafði verið um hugtakið „notkun bifreiðar” í eldri bifreiðalögum.
Umferðarlög nr. 26/1958 voru gefin út að nýju sem lög nr. 40/1968 eftir að á þeim höfðu verið gerðar ýmsar breytingar, m.a. vegna hægri umferðar. Ábyrgðarregla 67. gr. hélst óbreytt.
Í upphaflegu frumvarpi til umferðarlaga nr. 50/1987 var lögð til sú breyting á ábyrgðarákvæðinu í 1. mgr. 88. gr. að hlutlæg bótaábyrgð tæki aðeins til tjóns sem hlytist af ökutækinu vegna umferðarslyss eða annars umferðaróhapps eða vegna sprengingar eða bruna sem stafaði frá eldsneytiskerfi í ökutækinu. Allsherjarnefnd lagði til breytingar á ákvæðinu, fyrir 2. umræðu í efri deild, til þess horfs sem það var endanlega samþykkt í. Í ræðu formanns allsherjarnefndar við 2. umræðu um frumvarpið í efri deild kom fram að gagnrýni hefði borist á hinar nýju ábyrgðarreglur og ekki væri tímabært að taka þær upp hér á landi. Nefndin hafi verið sammála um að þessi efni þyrfti að skoða betur og teldi því rétt að frumvarpið yrði að verulegu leyti fært í fyrra horf eins og það hafi verið borið upp á síðasta þingi og svipað því sem gildandi ábyrgðarreglur væru.
Gildandi ábyrgðarregla 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er því efnislega samhljóða 67. gr. eldri umferðarlaga og hljóðar svo:
„Sá sem ábyrgð ber á skráningarskyldu vélknúnu ökutæki skal bæta það tjón sem hlýst af notkun þess enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á tækinu eða ógætni ökumanns. Ábyrgðarmaður dráttartækis er skaðabótaskyldur ef tjón hlýst af þegar skráningarskylt vélknúið ökutæki dregur annað ökutæki.”
Samkvæmt ákvæðinu er ábyrgðin bundin við tjón af notkun skráningarskylds, vélknúins ökutækis og engir fyrirvarar gerðir um hvers kyns notkun er að ræða.
Samkvæmt því sem að framan er rakið verður ekki séð að löggjafinn hafi hreyft við notkunarhugtakinu í bifreiðalögum og síðan umferðarlögum eins og það hefur verið í stórum dráttum allt frá 1914. Má af því draga þá ályktun að löggjafinn hafi lagt blessun sína yfir þá túlkun notkunarhugtaksins sem mótuð hefur verið af dómstólum allt frá setningu fyrstu bifreiðalaganna fram til laga nr. 50/1988 og að ekki hafi verið löggjafarvilji til að þrengja gildissvið hlutlægu ábyrgðarreglunnar.
Framangreind dómvenja hefur tekið mið að þeirri grundvallarhugsun að baki hinum ströngu bótaákvæðum bifreiðalaga og síðar umferðarlaga, þ.e. að bifreið væri hættulegt tæki. Í samræmi við það hefur sérreglan aðeins verið talin taka til tjóns sem rekja má til notkunar þar sem fram koma hinir sérstöku hættueiginleikar bifreiða og síðar allra skráningarskyldra, vélknúinna ökutækja. Þessir sérstöku hættueiginleikar tengjast fyrst og fremst hraða eða hreyfingu vélknúinna ökutækja, vélarafli þeirra, stærð og þunga.
Enda þótt hættueiginleikar vélknúinna ökutækja tengist fyrst og fremst akstri, hafa tjón sem orsakast af ýmissi annarri notkun ökutækis þó verið felld undir sérregluna. Þannig hefur myndast um það dómvenja að tjón sem hlýst af fermingu eða affermingu vörubifreiða, með eðlilegum útbúnaði, sem knúinn er af aflvél bifreiða, hefur verið fellt undir sérregluna. Í eldri dómum var fallist á að tjón sem hlaust af því að lyfta palli með vélarafli bifreiðar yrði fellt undir sérregluna, sbr. hrd. 1962:907. Þá hefur tjón sem hlýst af affermingu vörubifreiðar með krana, knúðum vélarafli bifreiðar, verið fellt undir regluna, sbr. hrd. 1997:1071.
Aftur á móti hafa tjón sem hlotist hafa af notkun vinnuvéla, sem eru áföst vélknúnu ökutæki en knúin af sérstakri vél, þannig að ökutækið er í raun aðeins notað til að flytja vinnuvélina og sem föst undirstaða undir hana, ekki verið talin falla undir regluna, sbr. t.d. hrd. 1996:1547. Þá hefur notkun krana á vörubifreið til að færa til farm eftir að farmurinn hefur verið hífður af vörubifreið með krananum ekki verið talin falla undir sérregluna, enda þótt um væri að ræða krana sem knúinn hafi verið af vélarafli bifreiðar, sbr. hrd. 1998:3378.
Bifreið sú sem fjallað er um í máli þessu er fjögurra hásinga, 15 tonna flutningabifreið með 18 tonna burðargetu. Bifreiðin er búin krana sem m.a. er notaður til að ferma og afferma bifreiðina og er hann knúinn aflvél bifreiðarinnar. Vegna þess hversu bifreiðin hefur mikla burðargetu og kraninn er öflugur og getur híft þunga hluti hátt upp, hentar bifreiðin vel til þess að flytja þunga hluti og koma þeim fyrir þar sem á þarf að halda t.d. í nýbyggingum eða til þess að fjarlægja hluti, þaðan sem lyftitækja nýtur ekki við, eins og í því tilviki sem hér um ræðir.
Umrædd bifreið er skráð í ökutækjaskrá sem vörubifreið II en í notkunarflokki er skráð "Almenn notkun". Ætla má að flutningatæki séu sífellt að verða stærri og öflugri ekkert er annað komið fram í málinu en að stærð kranans á bifreiðinni hafi verið í samræmi við stærð bifreiðarinnar og eðlilega notkun hennar í þeirri flutningastarfsemi sem hún er notuð. Ekki er getið um umræddan krana í bifreiðaskrá og ljóst er að hann er ekki meðal staðalbúnaðar bifreiðar af umræddri tegund.
Flutningabifreiðin var í umrætt sinn notuð til þess að fjarlægja timbur af byggingarstað. Bifreiðin var færð frá einum timburhlaða til annars og kraninn notaður til að ferma hana. Umræddur krani var staðsettur milli stýrishúss og palls flutningabifreiðarinnar og knúinn af aflvél hennar. Leggja verður til grundvallar í málinu að þótt um stóran og öflugan krana hafi verið að ræða verði hann með hliðsjón af stærð bifreiðarinnar að teljast eðlilegur búnaður slíkrar bifreiðar. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er ekkert sem bendir til þess að stoðfætur sem hægt er að skjóta niður þegar kraninn er notaður hafi verið notaðar í umrætt sinn og með hliðsjón af því sem fram hefur komið um fermingu bifreiðarinnar verður að leggja til grundvallar að svo hafi ekki verið. Ekki er því hægt að líta á kranann sem fastskorðaða vinnuvél þegar hann var notaður til að hífa timburbúntin upp á pall bifreiðarinnar. Ökumaður flutningabifreiðarinnar stjórnaði krananum í umrætt sinn og við það verk stóð hann vinstra megin við bifreiðina.
Ljóst er að fjöldi vörubifreiða er búinn krana til að auðvelda fermingu og affermingu og hefur slíkur krani talist eðlilegur útbúnaður vörubifreiða. Óumdeilt er að umrædd flutningabifreið er mjög stór og kraninn sömuleiðis og að krani þessi hefur verið notaður sem sjálfstæð vinnuvél, enda er hann vel til þess fallinn að lyfta þungum hlutum í mikla hæð. Í slíkum tilvikum eru stoðfætur settar niður og kraninn þá í raun fastskorðuð, óhreyfanleg vinnuvél en flutningabifreiðin þá aðeins undirstaða vinnuvélarinnar. Þetta þykir þó ekki skipta máli við úrlausn þessa máls þar sem notkun kranans var ekki slík þegar umrætt slys varð heldur var hann í eðlilegri notkun sem hver annar bílkrani við að ferma flutningabifreiðina.
Það tilvik sem hér um ræðir er vissulega nokkuð takmarkatilvik. Það sem úrslitum þykir ráða í málinu er að flutningabifreiðin var í umrætt sinn færð á milli timburhlaða til að ferma hana, kraninn var knúinn aflvél bifreiðarinnar og telst vera eðlilegur búnaður svo stórrar flutningabifreiðar, slysið hlaust af venjulegri notkun kranans sem bílkrana við að ferma bifreiðina með venjulegum farmi og kraninn var ekki skorðaður af með stoðfótum í umrætt sinn.
Með hliðsjón af framansögðu og framangreindri dómvenju um afmörkun notkunarhugtaks 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga og sambærilegra ákvæða í eldri lögum þykja stefndu eiga að bera hlutlæga fébótaábyrgð samkvæmt fyrrnefndu lagaákvæði á tjóni stefnanda sem hlaust af umræddri notkun bifreiðarinnar. Um bótaskylda stefnda Landsbanka Íslands hf. vísast jafnframt til 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga og um greiðsluskyldu stefnda Vátryggingarfélags Íslands hf. til 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 91. gr. sömu laga. Bótaskylda stefnda Halldórs byggist jafnframt á almennu skaðabótareglunni, sbr. 3. mgr. 90. gr. umferðarlaga, samkvæmt því sem áður er rakið um tildrög slyssins.
Um fjárhæð skaðabóta
Skaðabótalög nr. 50/1993 tóku gildi 1. júlí 1993. Margföldunarstuðli 1. mgr. 6. gr. laganna var breytt úr 7,5 í 10 með 1. gr. laga nr. 42/1996 sem tóku gildi 1. júlí 1996. Lögunum hefur veri breytt síðan með lögum nr. 37/1999 og lögum nr. 111/2000, sem taka gildi 1. janúar 2001. Um útreiknings skaðabóta í máli þessu fer því eftir ákvæðum skaðabótalaga, eins og þau voru á slysdegi 15. október 1996.
Um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns
Málsaðilar eru um það sammála að miða tímabundið atvinnutjón stefnanda við 24 og hálfan mánuð. Ágreiningur er hins vegar um tekjugrundvöll sem leggja beri til grundvallar útreikningi tjónsins. Stefnandi varð fyrir slysi 15. október 1996. Hann starfaði hjá einkahlutafélagi í eigu sona sinna sem sjálfstæður undirverktaki og gerði félaginu reikninga vegna starfa sinna. Lagðir hafa verið fram átta slíkir reikningar vegna vinnu janúar til ágúst 1996 og kemur fram á þeim krafa um endurgjald fyrir vinnu og einingarverð frá 1250 krónum og upp í 1295 krónur fyrir hverja vinnustund. Stefnandi kýs að miða tekjugrundvöllinn við 220.000 króna útselda vinnu á mánuði, sem hann finnur út með því deila í samtölu útseldrar vinnu stefnanda á árinu 1996 með 9 mánuðum. Hann dregur frá 15% vegna kostnaðar við verktöku og miðar því kröfu sína við 187.000 króna mánaðarlaun.
Í málinu hefur verið lagt fram skattframtal stefnanda fyrir tekjuárið 1996, ásamt meðfylgjandi rekstraryfirliti járnabindingavinnu, janúar til september 1996. Á yfirlitinu kemur fram að tekjur af seldri vinnu og efni á árinu 1996 hafi verið 1.958.848 krónur, efniskostnaður 228.732 krónur, annar rekstrarkostnaður svo sem rekstrarvörur, akstur, verkfæri, áhöld, tryggingar o.fl. samtals 495.041 króna og tryggingargjald 74.844 krónur. Reiknuð eigin laun voru 1.080.000 krónur en rekstrarafgangur 80.231 króna og tekjur færðar á skattframtal því 1.160.231 króna.
Stefnandi þykir ekki hafa sýnt fram á að horfur hafi verið á tekjur stefnanda af vinnu í þágu Járnbendingar hf. færu hækkandi vegna betra gengis félagsins. Svo virðist sem gjaldaliðir á reiknisyfirliti teljist allir til breytilegs kostnaðar sem ætla má að tengist alfarið tekjuöflun stefnanda á rekstrarárinu 1996. Engir afskriftarliði eða slíka reiknaða rekstrarliði er að finna á yfirlitinu. Ekki verður því fallist á með stefnanda að unnt sé að miða mánaðarlaun stefnanda við hærri fjárhæð en þá sem hann hefur sjálfur fært sem tekjur á skattframtal. Með hliðsjón af því má fallast á það með stefndu að miða eigi tekjugrundvöllinn við mánaðarlegar tekjur stefnanda á árinu 1996 þannig reiknaðar að deilt sé í tekjur stefnanda samkvæmt skattframtali með þeim 9 og hálfa mánuði sem stefnandi vann fram að slysdegi. Viðmiðunartekjur stefnanda teljast því 122.130 krónur á mánuði og verður samkvæmt því fallist á að tjón stefnanda vegna tímabundins vinnutekjutaps hafi verið 2.992.185 krónur í 24 mánuði og 15 daga.
Um þjáningabætur
Um útreikning þjáningabóta fer eftir 3. gr. skaðabótalaga. Óumdeilt er að byggja megi þann útreikning á niðurstöðu Jónasar Hallgrímssonar læknis um að stefnandi hafi verið rúmliggjandi í 245 daga og veikur en ekki rúmliggjandi í 499 daga. Óumdeilt er að viðmiðunarfjárhæðir hækkuðu í 1.500 krónur og 810 krónur vegna hækkunar lánskjaravístölu frá júlí 1993 og þar til lögmaður stefnanda sendi stefnda, Vátryggingarfélagi Íslands hf., kröfubréf í október 1999. Byggt er á þessum fjárhæðum í dómkröfum og þykir ekki rétt að fara út fyrir þær. Fyrir liggur að afleiðingar slyssins voru mjög alvarlegar og stefnandi átti við mikinn og langvarandi heilsufarsvanda að stríða. Ekki verður fallist á með stefndu að ástæða sé til að víkja frá föstum taxta þjáningarbóta með hliðsjón af niðurlagi 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga, enda þótt veikindatímabil stefnanda hafi verið mjög langt. Samkvæmt því verður fallist á kröfu stefnanda um þjáningarbætur að fjárhæð 771.690 krónur (245 x 1.500 krónur = 367.500 krónur + 499 x 810 krónur = 404.190 krónur).
Um varanlegan miska
Ekki er ágreiningur með aðilum um útreikning bóta fyrir varanlegan miska og ber að taka til greina kröfu stefnanda samkvæmt þessum lið að fjárhæð 1.938.510 krónur.
Um bætur vegna varanlegs örorkutjóns
Jónas Hallgrímsson læknir mat varanlega örorku stefnanda vegna slyssins 100% og er ekki um hana deilt. Um tekjugrundvöll til viðmiðunar er vísað til rökstuðnings í kaflanum um tímabundið örorkutjón hér að framan og þykir samkvæmt því rétt að miða bætur fyrir varanlega örorku við útreiknuð mánaðarlaun 122.130 krónur x 12 eða 1.465.560 krónur.
Stefnandi var 65 ára þegar hann varð fyrir umræddu slysi og ættu því bætur vegna varanlegrar örorku að skerðast um 80% á grundvelli almennrar lækkunarreglu 1. mgr. 9. gr. skaðabótalaga. Af hálfu stefnanda hefur því verið haldið fram að hann hafi starfað við járnabindingar hjá félagi í eigu sona sinna og verið mjög heilsuhraustur fyrir slysið. Því megi ætla að hann hefði haldið vinnunni og starfsorku fram yfir sjötugt. Samkvæmt því væru full rök til að víkja frá reglu 1. mgr. og færa frádrátt úr 80% niður í 70%.
Læknisfræðileg gögn benda til þess að stefnandi hafi verið við mjög góða heilsu þegar hann varð fyrir slysinu og með hliðsjón af því að hann starfaði hjá fyrirtæki sona sinna má fallast á með stefnanda að sennilegt sé að hann hefði starfað lengur en til sjötugs ef hann hefði ekki orðið fyrir umræddu slysi. Með hliðsjón af því og athugasemda við 9. gr. í greinargerð með frumvarpi til skaðabótalaga þykir rétt að beita heimildinni í 2. mgr. 9. gr., þó þannig að skerðing bóta verði lækkuð í 75% en sú lækkun samsvarar því að stefnandi hefði haldið áfram að hafa vinnutekjur í rúmt ár eftir 70 ára aldur.
Rétt þykir að miða höfuðstól bóta við október 1999 eins og gert er í kröfugerð stefnanda og hækkar því bótafjárhæð samkvæmt 2. mgr. 15. gr. skaðabótalaga sem nemur hækkun lánskjaravísitölu frá slysdegi til október 1999. Samkvæmt því ber stefndu að greiða stefnanda skaðabætur vegna varanlegrar örorku að fjárhæð 3.938.458 krónur (1.465.560 krónur x 10 x 100% x 3787/3523 x 25%)
Samantekt
Samkvæmt framansögðu ber stefndu að bæta stefnanda tímabundið atvinnutjón, varanlegan miska, þjáningar og varanlega örorku vegna slyssins með samtals 9.640.843 krónum (2.992.185+771.690+1.938.510+3.938.458). Af hálfu stefndu hefur því ekki verið haldið fram að aðrar greiðslur til stefnanda eigi að koma þeirri fjárhæð til frádráttar.
Við ákvörðun dráttarvaxta þykir ekki rétt að stefnandi gjaldi fyrir það að mál þetta mun einkum rekið vegna ágreinings stefnda Vátryggingarfélags Íslands hf. og Tryggingar hf. en síðan Tryggingarmiðstöðvarinnar hf. um hvaða tryggingarfélagi beri að greiða stefnanda bætur.
Stefnda, Vátryggingarfélagi Íslands hf., var fyrst send krafa um greiðslu úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar LK 361 hinn 14. janúar 1997. Í því bréfi var vísað til bréfs lögmanns stefnanda til Tryggingar hf., þar sem krafist var greiðslu á tímabundnu tekjutapi, að fjárhæð 300.000 krónur, fyrir tímabilið 15. október til 15. desember 1996, og fylgdi bréfið með. Bréf þetta þykir því eftir atvikum fullnægja skilyrði 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987. Samkvæmt því ber að að fallast á aðferð stefnanda við vaxtareikning af tímabundnu atvinnutjóni.
Fallast er á kröfu stefnanda um 2% ársvexti af öðrum liðum bótakröfunnar frá tjónsdegi til 18. nóvember 1999. Miða ber upphaf dráttarvaxta af þessum bótaliðum við 18. nóvember 1999 en þann dag var mánuður liðinn frá því að stefnda Vátryggingarfélagi Íslands hf. var sent kröfubréf með tjónsútreikningi. Með hliðsjón af úrslitum málsins þykir rétt að stefndi greiði stefnanda 1.000.000 krónur í málskostnað og er þá tekið tillit til þess að stefnandi stundar ekki virðisaukaskattskylda starfsemi.
Af hálfu stefnanda flutti málið Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl. en af hálfu stefndu Hákon Árnason hrl.
Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Stefndu, Landsbanki Íslands hf., Halldór L. Jóhannesson og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, Sigurgeiri Kristjánssyni, 9.640.843 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af 427.455 krónum frá 14. febrúar 1997 til 1. mars s.á., af 549.585 krónum frá þ.d. til 1. apríl s.á., af 671.715 krónum frá þ.d. til 1. maí s.á., af 793.845 krónum frá þ.d. til 1. júní s.á., af 915.975 krónum frá þ.d. til 1. júlí s.á., af 1.038.105 krónum frá þ.d. til 1. ágúst s.á., af 1.160.235 krónum frá þ.d. til 1. september s.á., af 1.282.365 krónum frá þ.d. til 1. október s.á., af 1.404.495 krónum frá þ.d. til l. nóvember s.á., af 1.526.625 krónum frá þ.d. til 1. desember s.á., af 1.648.755 krónum frá þ.d. til 1. janúar 1998, af 1.770.885 krónum frá þ.d. til 1. febrúar s.á., af 1.893.015 krónum frá þ.d. til 1. mars s.á., af 2.015.145 krónum frá þ.d. til 1. apríl s.á., af 2.137.275 krónum frá þ.d. til 1. maí s.á., af 2.259.405 krónum frá þ.d. til 1. júní s.á., af 2.381.535 krónum frá þ.d. til 1. júlí s.á., af 2.503.665 krónum frá þ.d. til 1. ágúst s.á., af 2.625.795 krónum frá þ.d. til 1. september s.á., af 2.747.925 krónum frá þ.d. til 1. október s.á., af 2.870.055 krónum frá þ.d. til 1. nóvember s.á., en af 2.992.185 krónum frá þ.d. til greiðsludags. Einnig greiði stefndu stefnanda 2% ársvexti af 6.648.658 krónum frá 15. október 1996 til 18. nóvember 1999, en dráttarvexti, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af sömu fjárhæð, frá þ.d. til greiðsludags.
Stefndu greiði stefnanda 1.000.000 krónur í málskostnað.