Hæstiréttur íslands
Mál nr. 67/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Endurupptaka
- Gjaldþrotaskipti
|
|
Föstudaginn 1. mars 2013. |
|
Nr. 67/2013.
|
Ideal fasteignir ehf. (Bjarni G. Björgvinsson hrl.) gegn sýslumanninum á Seyðisfirði (enginn) |
Kærumál. Endurupptaka. Gjaldþrotaskipti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni I ehf. um endurupptöku úrskurðar þess efnis að félagið skyldi tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu S. Hinn kærði úrskurður var staðfestur, enda var í beiðni I ehf. um endurupptöku ekki að finna neinar varnir sem kynnu að hafa leitt til höfnunar á upphaflegri kröfu S hefðu þær komið fram áður en I ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta. Þá var beiðnin sett fram eftir að liðinn var mánuður frá því að I ehf. varð kunnugt um að félagið hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. janúar 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 16. janúar 2013, þar sem beiðni sóknaraðila um endurupptöku máls aðila var hafnað. Kæruheimild er í q. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og krafa hans um endurupptöku málsins G 25/2012 verði tekin greina og héraðsdómi verði gert að ,,fella úr gildi úrskurð sinn frá 2. október 2012 um að bú [sóknaraðila] verði tekið til gjaldþrotaskipta.“ Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 16. janúar 2013.
Með bréfi, dags. 10. janúar 2013, sem barst dóminum rafrænt 14. s.m., var þess krafist af hálfu Ideal fasteigna ehf., kt. 661191-3689, Hleinargarði, Fljótsdalshéraði, að úrskurður yrði kveðinn upp um synjun dómsins á beiðni sama aðila um endurupptöku máls þessa, sem móttekin var 14. desember sl.
Málavextir eru þeir að með beiðni, sem barst dóminum 31. júlí 2012, krafðist sóknaraðili, Sýslumaðurinn á Seyðisfirði, kt. 490169-5479, Bjólfsgötu 7, Seyðisfirði, þess að bú varnaraðila, Ideal fasteigna ehf., yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Ekki var sótt þing af hálfu varnaraðila við þingfestingu málsins, 2. október s.á. Var málið þá tekið til úrskurðar að kröfu sóknaraðila og þegar í því þinghaldi upp kveðinn úrskurður um að bú félagsins væri tekið til gjaldþrotaskipta. Var Stefán Þór Eyjólfsson hdl. skipaður skiptastjóri í þrotabúinu. Í úrskurðinum kemur fram að varnaraðili skuldi opinber gjöld, sem að höfuðstól nemi 6.581.815 krónum, auk áfallandi vaxta og kostnaðar og að hinn 3. júlí 2012 hafi verið gert fjárnám hjá skuldaranum sem lokið hafi án árangurs.
Varnaraðili kærði úrskurð dómsins til Hæstaréttar með kæru, dags. 16. október 2012, sem barst dóminum þann sama dag. Með dómi Hæstaréttar 20. nóvember s.á. í máli nr. 660/2012 var málinu vísað af sjálfsdáðum frá Hæstarétti þar sem heimild brast til kæru málsins. Í dóminum kemur fram að allt frá dómi réttarins 9. desember 1992 í máli nr. 427/1992 hafi ítrekað verið slegið föstu í dómum réttarins að skýra verði kæruheimild í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., með hliðsjón af 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þannig verði úrskurður um gjaldþrotaskipti ekki kærður til Hæstaréttar ef útivist hefur orðið af hálfu skuldarans í héraði heldur verði hann að leita endurskoðunar slíks úrskurðar með kröfu um endurupptöku máls fyrir héraðsdómi samkvæmt 1. mgr. 137. gr. síðarnefndu laganna.
Með beiðni, dags. 12. desember 2012, sem barst héraðsdómi 14. s.m., krafðist varnaraðili endurupptöku á úrskurði dómsins í málinu G-25/2012, uppkveðnum 2. október s.á. og að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi. Þá var krafist málskostnaðar. Var beiðnin sögð reist á 1. og 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991.
Með bréfi dómsins, dags. 7. janúar sl., var framangreindri beiðni varnaraðila um endurupptöku málsins hafnað með vísan til 2. mgr. 138. gr. laga nr. 91/1991, þar sem beiðnin þótti ekki uppfylla skilyrði 2. málsliðar 1. mgr. sömu lagagreinar. Með bréfi varnaraðila, dags. 10. janúar sl., var krafist úrskurðar um þá synjun.
Í beiðni varnaraðila um endurupptöku málsins frá 12. desember sl. kemur fram að fyrirsvarsmanni varnaraðila hafi fyrst orðið kunnugt um það 16. október 2012 að félagið hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Í beiðni varnaraðila um uppkvaðningu úrskurðar um synjun dómsins á endurupptöku málsins, dags. 10. þ.m., kemur hins vegar fram að um þetta hafi varnaraðila orðið kunnugt tveimur dögum áður en varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar 16. október 2012. Í hvorugu bréfinu er upplýst hvernig upplýsingar um gjaldþrotaúrskurðinn hafi komið til vitundar fyrirsvarsmanns varnaraðila. Í báðum bréfunum er einkum fjallað um þá röksemd varnaraðila fyrir endurupptökubeiðni að fyrirkall hafi ekki verið birt réttilega. Kveðst varnaraðili telja tvo starfsmenn Íslandspósts hafa gert sér ferð að Hleinargarði á Fljótsdalshéraði og birting farið fram fyrir öðrum þeirra á grundvelli a. liðar 3. tölul. 85. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt birtingarvottorði hafi umslag verið sett inn um opið gluggafag, en varnaraðili fullyrðir að starfsmönnum Íslandspósts hafi verið fullkunnugt um að ekki hafi verið föst búseta að Hleinargarði um alllangt skeið og þýðingarlaust að skilja þar eftir fyrirkall með tveggja vikna fyrirvara. Í þessu tilviki hafi birtingarmönnum borið að fara að 4. tölul. 86. gr. sömu laga og endursenda fyrirkallið með upplýsingum um að enginn byggi á birtingarstað.
Í beiðni varnaraðila um uppkvaðningu úrskurðar frá 10. þ.m. kemur ennfremur fram að skattkröfur þær sem krafa sóknaraðila um gjaldþrotaskipti hafi verið byggð á séu byggðar á áætlunum en ekki skattframtölum og að vinna við gerð ársreikninga og skattframtala hafi staðið yfir þegar bú varnaraðila hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta, en vegna skiptanna hafi ekki verið hægt að halda þeirri vinnu áfram. Varnaraðili telji fullvíst að áætluð opinber gjöld muni falla niður að mestu eða öllu leyti eftir að gerð ársreikninga verði lokið. Meginatriðið sé þó að félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota án þess að forsvarsmaður þess ætti þess kost að taka til varna fyrir félagið. Varnaraðili telji tvímælalaust að skilyrði a. liðar 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991, fyrir endurupptöku útivistarmáls í héraði, sé uppfyllt. Varnaraðili krefjist þeirra breytinga á málsúrslitum að úrskurður dómsins í málinu G-25/2012 um gjaldþrotaskipti á búi hans verði felldur úr gildi. Um málsástæður, réttarheimildir og sönnunargögn sé vísað til þess að fyrirsvarsmanni varnaraðila hafi ekki verið gert mögulegt að gæta réttar síns og félagsins við fyrirtöku gjaldþrotaskiptabeiðninnar þar sem birting fyrirkalls hafi ekki farið fram með lögmætum hætti. Vísað sé til XII. kafla laga nr. 91/1991, um birtingu stefnu og til framlagðs birtingarvottorðs
Niðurstaða:
Beiðni varnaraðila um endurupptöku máls þessa barst dóminum 14. desember 2012 eða innan þriggja mánaða frá því að úrskurður gekk um töku bús varnaraðila til gjaldþrotaskipta 2. október s.á. Fer því um heimild til endurupptöku málsins eftir 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en ekki 2. mgr. sömu lagagreinar og gerist því ekki þörf á að fjalla um það hvort eitthvert skilyrða 2. mgr. greinarinnar sé uppfyllt. Auk framangreinds skilyrðis um að krafist sé endurupptöku innan þriggja mánaða frá því að máli lauk í héraði er það gert að skilyrði, bæði í 1. og 2. mgr. 137. gr. laganna, að beiðni um endurupptöku berist dómara innan mánaðar frá því að stefnda (hér varnaraðila) urðu málsúrslit kunn. Ljóst er að beiðni varnaraðila um endurupptöku barst dóminum ekki innan þess frests, enda var málið lagt í farveg kæru til Hæstaréttar 16. október sl. í stað þess að beiðast endurupptöku málsins. Er af hálfu varnaraðila í engu vikið að því hvort hann telji misskilning um kæruleiðir geta leitt til þess að víkja megi frá framangreindu lagaskilyrði, en í dómaframkvæmd réttarins hafa vanhöld á því að skilyrði þetta teljist fullnægt leitt til þess að beiðni um endurupptöku hefur verið hafnað.
Samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 138. gr. laga nr. 91/1991 skal í beiðni um endurupptöku greint skýrlega frá því hverra breytinga stefndi krefjist á fyrri málsúrslitum og á hverjum málsástæðum, réttarheimildum og sönnunargögnum það sé byggt, svo og hvenær og hvernig stefnda varð kunnugt um málsúrslit. Af dómaframkvæmd Hæstaréttar, m.a. dómum réttarins frá 2. mars 2010 í máli nr. 95/2010, frá 12. maí 2010 í máli nr. 207/2010 og frá 7. maí 2012 í máli nr. 233/2012, verður ráðið að í samræmi við framangreint lagaákvæði þurfi í beiðni um endurupptöku mála vegna úrskurða um gjaldþrotaskipti að koma fram hvaða varnir beiðandi telji sig hafa getað teflt fram gegn því að búið yrði tekið til skipta, en ella verði beiðni um endurupptöku hafnað. Í beiðni varnaraðila um endurupptöku málsins frá 12. desember sl. er hvergi vikið að því hver afstaða hans sé til kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti, þ.e. hvort hann hafi haft einhverjar varnir fram að færa sem leitt kynnu að hafa til höfnunar þeirrar kröfu ef þær hefðu komist að í málinu fyrir uppkvaðningu úrskurðarins. Fullyrðingar sem fram koma í beiðni varnaraðila frá 10. þ.m., um að skattkröfur þær sem urðu til þess að bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta muni falla niður að mestu eða öllu leyti þegar gerð ársreikninga félagsins verði lokið, eru engum gögnum studdar og í engu rökstutt að þessi atriði hefðu getað leitt til annarrar niðurstöðu en raun varð á með úrskurðinum frá 2. október sl.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og þegar af þeirri ástæðu að beiðni varnaraðila uppfyllir ekki skilyrði 2. málsliðar 1. mgr. 138. gr. laga nr. 91/1991, er kröfu varnaraðila um endurupptöku máls þessa hafnað.
Hildur Briem héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Beiðni varnaraðila, Ideal fasteigna ehf., um endurupptöku máls nr. G-25/2012 er hafnað.