Hæstiréttur íslands

Mál nr. 72/2009


Lykilorð

  • Landamerki
  • Landskipti


Fimmtudaginn 26

 

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009.

Nr. 72/2009.

Sigurjón O. Sigurðsson

Anna Sigrún Guðmundsdóttir

Vilhjálmur Helgi Guðmundsson

Hugrún Guðmundsdóttir

Jón Vilberg Karlsson og

Finnbogi Jóhann Jónsson

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

gegn

Vorlandi ehf. og

(Óskar Sigurðsson hrl.)

Kró ehf.

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

og gagnsök

 

Landamerki. Landskipti.

                        

S, A, VG og H höfðuðu mál á hendur V og K og kröfðust sem eigendur jarðarinnar Háfshóls í Háfshverfi í Rangárþingi ytra að landmerki hennar við jarðirnar Hala, Háf og Háfshjáleigu færu eftir nánar tilgreindum merkjapunktum. Þá kröfðust þau ásamt J og F, eigendum jarðarinnar Hala, að viðurkenndur yrði eignarréttur þeirra að þriðjungshluta vegna hvorrar jarðar í óskiptri sameign með V og K að nánar tilgreindu landsvæði í Háfshverfi, en norðurmörk svæðisins voru dregin eftir merkjapunktum á ætluðum bökkum vatnsfalls. Loks kröfðust J og F staðfestingar héraðsdóms um merki landspildnanna Engjareimar og Horntanga. Í málinu lá fyrir landskiptagerð frá 25. júní 1929, en við framkvæmd skiptanna hafði verið notast við kort af Háfshverfi, sem gert hafði verið í september 1928. Í skiptagerðinni sagði að landskiptamenn hafi litið svo á að það sem væri óskipt af sameignarlandinu yrði að skiptast eftir jarðamati frá 1861. Hafnað var kröfu V um frávísun á kröfu S, A, VG og H. Var talið að eftir núgildandi lögum bæru S, A, VG og H enga skyldu að viðlagðri frávísun málsins til að leita í einu lagi dóms um landamerki Háfshóls í ríkara mæli en þau sjálf kysu, eftir atvikum án tillits til þess hvort ágreiningur stæði um merkin. Þá var ekki talið að fyrrgreind krafa S, A, VG og H gæti átt stoð í orðalagi landskiptagerðarinnar, eins og það yrði skýrt með tilliti til uppdráttarins frá 1928. Voru V og K því sýknaðir af þessari kröfu, enda hefðu ekki verið færð fram haldbær rök fyrir henni á grundvelli annarra heimilda en orðalags landskiptagerðarinnar. Þá hafði því ekki verið borið við í málinu að landeigendur í Háfshverfi hefðu með löggerningi vikið frá þeirri skipan, sem leiddi af reglum 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923 um suðurmerki útskipts lands þeirra, en samkvæmt ákvæðinu skulu merki landareigna sem á eða lækur skilur að liggja í miðjum farvegi nema önnur lögmæt skipun sé gerð þar á. Slík merki breytast ekki þótt farvegur breytist. Þar sem krafa S, A, VG, H, J og F tók ekki mið af þessum lagaákvæðum var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu V og K af henni. Loks var talið að J og F hefðu ekki fært fram haldbær rök fyrir kröfum sínum um merki landspildnanna Engjareimar og Horntanga, en málsástæða þeirra á grundvelli eignarhefðar, sem fyrst hafði verið höfð uppi í Hæstarétti, fékk ekki komist að í málinu. Voru V og K því sýknaðir af þessum kröfum J og F.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 13. febrúar 2009. Aðaláfrýjendurnir Sigurjón O. Sigurðsson, Anna Sigrún Guðmundsdóttir, Vilhjálmur Helgi Guðmundsson og Hugrún Guðmundsdóttir krefjast sem eigendur jarðarinnar Háfshóls að viðurkennt verði að landamerki hennar við jarðirnar Hala, Háf og Háfshjáleigu séu svofelld: Að austanverðu frá punkti H-24, hornmarki Háfshóls og Hala við Háfshólsskurð á skurðhorni austan við Lambhúshól, í punkt H-23, þar sem bugur er á Háfshólsskurði, þaðan eftir áður handgröfnum skurði, nú vélgröfnum skurði, allt suður í Illukeldu við Háfshólsskurð, punkt H-22, síðan vestur eftir Illukeldu eftir punktunum H-21, H-20, H-19, H-18, H-17, H-16 og H-15 í punkt H-14 í Langaflóði, þaðan eftir Langaflóði í punktunum H-13, J-15, H-12, H-11, H-10 og H-9 að punkti H-8 í Langaflóðsþúfu, þaðan í punkt H-7 í Engjareim við Langaflóð og síðan suður eftir Háfshólsbökkum að punkti H-6 í Engjareim við Kvíós, en þaðan um Kvíós um punkta J-6, H-5, H-4, H-3 og H-2 að punkti H-1 við Þjórsá. Þá gera allir aðaláfrýjendur sem eigendur jarðanna Háfshóls og Hala í annan stað þá kröfu að viðurkenndur verði eignarréttur þeirra að þriðjungshluta vegna hvorrar jarðar í óskiptri sameign með gagnáfrýjendum að landsvæði, sem afmarkað er á eftirfarandi hátt: Frá punkti K-1 við Háfsósabrú eftir punktum K-2, K-3, K-4, K-5, K-6, K-7, K-8, K-9, K-10, K-11, K-12, K-13, K-14, K-15, K-16, K-17, K-18, K-19, K-20, K-21, K-22, K-23, K-24, K-25, K-26 og K-27, sem fylgi fornum farvegi Kálfalækjar allt til Þjórsár, en þaðan eftir Kálfalækjarskurði um punkta K-28 og K-29 aftur að punkti K-1 við Háfsósabrú. Allir punktarnir, sem kröfur aðaláfrýjenda taka mið af, koma fram á hnitasettum uppdrætti í málinu. Þá krefjast aðaláfrýjendurnir Jón Vilberg Karlsson og Finnbogi Jóhann Jónsson sem eigendur jarðarinnar Hala staðfestingar hins áfrýjaða dóms um merki landspildna, sem nefndar eru Engjareim og Horntangi, en til þeirra tóku 2. og 3. liður dómkrafna aðaláfrýjenda í héraði. Þá krefjast aðaláfrýjendur allir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandinn Vorland ehf. áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 19. febrúar 2009. Sem eigandi Háfshjáleigu krefst hann þess aðallega að fyrstnefndri kröfu aðaláfrýjendanna Sigurjóns, Önnu, Vilhjálms og Hugrúnar verði vísað frá héraðsdómi, en hann sýknaður af öðrum kröfum aðaláfrýjenda. Til vara krefst gagnáfrýjandinn þess að héraðsdómur verði staðfestur um tvær fyrstnefndu kröfur aðaláfrýjenda, en hann sýknaður af öðrum kröfum þeirra. Gagnáfrýjandinn krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandinn Kró ehf. áfrýjaði héraðsdómi 19. febrúar 2009. Hann krefst þess sem eigandi jarðarinnar Háfs að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um tvær fyrstnefndu kröfur aðaláfrýjenda, en hann sýknaður af öðrum kröfum þeirra. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómarar í málinu gengu á vettvang 5. nóvember 2009.

I

Eins og framan greinir eru aðaláfrýjendur eigendur Háfshóls og Hala, en gagnáfrýjendur eigendur Háfs og Háfshjáleigu. Þessar jarðir eru í Rangárþingi ytra og mynda til samans svokallað Háfshverfi, sem eftir framlögðum uppdrætti mun vera 1.341 ha að stærð. Samkvæmt gögnum málsins mun Háfur vera landnámsjörð, en hinar jarðirnar þrjár munu hafa byggst úr henni og land í Háfshverfi verið óskipt fram að því að þau atvik gerðust, sem hér á eftir greinir.

Í málinu er óumdeilt að á árinu 1928 hafi tekist samkomulag milli eigenda jarða í Háfshverfi um að skipta hluta af sameiginlegu landi, sem hafi verið á svokölluðu nesi fyrir sunnan Háf og Hala, frá Keldu norðan við Torfamel suður að Kálfalæk. Um þessi skipti mun ekkert hafa verið skjalfest, en girðing sett á merki. Eigendur jarðanna Hala og Háfshóls leituðu í framhaldi af þessu landskipta „á beitilandi og slæjum meðfram Kálfalæk og sunnan við Háfshól, svonefndrar Vatnsskákar“ og voru þau gerð 25. júní 1929. Í skiptagerðinni sagði að landskiptamenn hafi litið svo á að „það sem nú væri óskift af sameignar-landinu yrði að skiftast eftir jarðamati frá 1861, en hlutföll á engjaskiftum, sem nú liggja fyrir, yrðu að haldast.“ Á þessum grunni voru síðan „ákveðin þessi landamerki af úttektarmönnum með samþykki allra hlutaðeigandi: Nesi fyrir sunnan Háf og Hala var skift í fyrra af hlutaðeigendum sjálfum og girðing sett á merkjum; á Háfur með hjáleigu fyrir vestan girðinguna, en Hali fyrir austan að Keldu norðan við Torfamel. Á móti því hefir Háfshóll allt óyrkt land í kring um tún sitt, sem afmarkast af girðingu að vestan og skurði og girðingu að austan. Það, sem þá vantar á tiltölu jarðarinnar, fær hún með öðru beitilandi. Engjamörk við Kálfalæk og í Vatnsskákum eru ákveðin þannig: Háfshóll hefir spildu með Sandhólaferjulandi frá Kringlutjörn að Kálfalæk, 950 m. beina línu suður með honum og þaðan í Keldu sem rennur úr Kringlutjörn að sunnan. Þá taka við engjar frá Háfi og Háfshjáleigu 810 m. bein lína með Kálfalæk. Vestast eru Halaengjar, sem liggja frá síðast nefnda marki 1100 m. vestur og 200 m. breidd frá vikum í Vatnsbakkanum. Hagamörk eru ákveðin þannig: Háfshóll fær land fyrir norðan línu úr vörðu 535 m. norður frá bug á Háfshólsskurði í vörðu vestan við Kringlutjörn 70 m. frá Sandhólaferjulandi og út með því að Þjórsá. Háfur með Háfshjáleigu fær land vestur af áðurnefndum engjum að línu frá vörðu, sem er 40 m. vestur af Vatnsbugshorni í miðjar Gömlu-tættur, séð frá vörðunni. Þá tekur við beitiland Hala, sem afmarkast af Háfs og Háfshjáleigu beitilandi að austan, Háfshóls að norðan og áður skiftum engjum að vestan.“ Í landskiptagerðinni var að öðru leyti kveðið á um rétt til umferðar um landið og veiða fyrir því. Samkvæmt gögnum málsins voru þessi landskipti hvorki færð á uppdrátt né auðkenni sett upp um merki, en á hinn bóginn er óumdeilt að við framkvæmd þeirra hafi legið fyrir kort af Háfshverfi, sem Ásgeir L. Jónsson gerði í september 1928. Á því má meðal annars sjá girðingar, sem vikið er að í landskiptagerðinni, en staðarheita og örnefna er þar aðeins að litlu leyti getið.

Í sáttakæru 18. desember 1931 lýsti þáverandi eigandi Háfshóls því að hann væri „óánægður með þau eignahlutföll sem landinu var skift eftir“, sem hann skýrði nánar með því að þegar fundur var haldinn vegna landskiptanna 25. júní 1929 „upplýstu matsmennirnir, að fara ætti eftir matinu frá 1861 við landaskiftin, og treysti jeg mjer ekki vegna ókunnugleika míns á gildandi lögum um þetta efni að mótmæla þessu, og skrifaði jeg því undir skiftagjörðina óánægður og nauðugur, þar sem eignarhlutföllin eftir “nýja matinu” frá 1861, urðu allt önnur eða þannig að Háfshóllinn fjekk minna en 1/3 af beitilandi.“ Óskaði hann því eftir að sáttanefnd Ásahrepps kveddi fyrir sig nafngreinda eigendur jarða í Háfshverfi „til að reyna samkomulag með okkur, um að landskiftin frá 25. júní 1929, verði felld úr gildi, og ný skifti verði látin fram fara, sem leggi til grundvallar, þau eignahlutföll sem matið frá 1845 byggist á, þannig að Háfshólnum verði úthlutaður 1/3 af engjum og beitilandi hverfisins.“ Á fundi sáttanefndar 20. janúar 1932 komst á sátt með eigendum jarðanna um eftirfarandi: „Til Háfshóls skal heyra, auk lands þess, sem landaskiftin frá 25. júní 1929 ákveða, allt það land, sem nú er innan við engjagirðingar Háfshóls, er liggja úr Kringlutjörn til Kálfalækjar, bæði sunnan og norðan við engjarnar og þar að aukji landspilda sú, úr beitilandi Háfs, sem verður norðan við þá línu, sem dregin er eða miðuð beint úr hliðastólpa á syðri armi engjagirðingar Háfshóls við Kringlutjörn (er hliðstólpi þessi ekki yfir 8 metra frá tjarnarbakkanum) og sjónhendingu í hornmarkið í milli landa Hala og Háfshóls við skurðinn, sem er skamt austan við Lambhúshólinn í Háfshól. Skal þessi lína vera markalína milli beitilands Háfs og Háfshóls alt vestur að mörkum beitilands Hala og Háfs, en gegn því að land þetta leggjist undir Háfshól skal stefnandinn Sigurður Sigurðsson bóndi í Háfshól greiða eiganda Háfs Sigfúsi Guðnasyni kr. 200.oo ... Láta allir hinir mættu aðilar sérstaklega getið, að með þessari sáttagerð sé öllum ágreiningi lokið viðvíkjandi landamerkjum nefndra jarða, og full og óhagganleg sátt komin milli þeirra um alt hvað landamerkjum þessum viðkemur og frjáls umferð“. Breytingar á merkjum jarðanna samkvæmt þessari sátt voru ekki færðar á uppdrátt fremur en upphaflegu landskiptin, en í málinu virðist enginn ágreiningur vera um að landið, sem með sáttinni kom í hlut Háfshóls, sé utan við þau svæði, sem dómkröfur aðilanna snúa að. Í dómi Hæstaréttar 21. september 1981 í máli nr. 126/1978, sem birtur er í dómasafni 1981 bls. 1060, var til úrlausnar ágreiningur milli eigenda Háfs og Háfshjáleigu annars vegar og Háfshóls hins vegar um merki milli jarðanna, þar sem þeir fyrrnefndu reistu kröfur sínar einkum á landskiptagerðinni frá 25. júní 1929, en þeir síðarnefndu á sáttinni frá 20. janúar 1932. Í héraðsdómi, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar, var sáttin talin skuldbindandi fyrir aðilana og bæri því að leggja ákvæði hennar til grundvallar við ákvörðun á merkjum milli Háfs og Háfshóls. Þá er þess að geta að í dómi Hæstaréttar 30. september 1999 í máli nr. 431/1998, sem birtur er í dómasafni 1999 bls. 3335 og varðaði ágreining milli þáverandi eigenda Háfs og Háfshjáleigu annars vegar og eigenda Háfshóls og Hala hins vegar um eignarrétt að svonefndri Háfsgljá og Háfsfjöru, var tekið fram að sáttin frá 20. janúar 1932 „hafi falið í sér breytingu á skiptagerðinni frá 1929 en ekki sölu á tilteknu landi.“

Í málinu liggur fyrir skiptagerð á landi Háfshóls frá 18. júní 1933, þar sem því var skipt til helminga í svokallaðar vestur og austur hálflendur. Í henni var landinu, sem kom í hlut vestur hálflendunnar, meðal annars lýst með því að til hennar félli „land allt niður með Þjórsá, að landamerkjum annara jarða, sem að norðan takmarkast af heimreiðinni og af vörðu, sem er á túngarðinum 80 m. frá heimreiðarhliði, þaðan af beinni línu um vesturbakka Dyraflóðs að mörkum annara jarða“ og að auki land „frá syðsta horni túnsins að hornmarki milli Hala og Háfshóls á skurðbakka, þaðan meðfram Hala mörkum og Háfs- að hliðastólpa, sem er um 8 m. frá suðurbakka Kringlutjarnar, þaðan meðfram tjörninni að Sandhólaferjumörkum og með þeim 700 m. frá tjörninni frá vörðu í beinni línu að túnmörkunum að austan, milli býlanna.“ Að tvennu leyti öðru var í þessari skiptagerð afmarkað land, sem félli til vestur hálflendunnar, en tekið var síðan fram að „hinn hluti Háfshólslands tilheyrir austur hálflendunni.“ Eigandi vestur hálflendunnar gaf út afsal fyrir henni 5. júní 1934 til eiganda þeirrar eystri og rann því jörðin Háfshóll saman á nýjan leik.

Með bréfi sýslumanns Rangárvallasýslu 7. júlí 1983 var Valur Þorvaldsson skipaður samkvæmt 4. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 „til að vera oddamaður til að annast endurskipti á landi Háfshverfisjarða“. Af þessu tilefni ritaði Valur greinargerð 27. júní 1984, þar sem fram kom að hann hafi verið kvaddur til verksins samkvæmt beiðni aðaláfrýjandans Jóns V. Karlssonar „til þess að ganga á landamörk jarðanna Hala og Brautartungu og skrásetja landamerki þessara jarða gagnvart aðliggjandi jörðum í Háfshverfi, Háfi, Háfshjáleigu og Háfshóli, á því svæði í heimaengjum norðan Háfshverfisbæjanna, þar sem skráð landamerkjalýsing hefur ekki verið til fram að þessu.“ Valur hafi kvatt „hlutaðeigandi aðila“ saman 2. júní 1984 til að fara með sér um svæðið og upplýsa um landamerki. Fram hafi komið að nokkur óvissa væri um merki Horntanga, sem sé „engjastykki norð-vestan Háfsholts, og tilheyrir Hala“, en eftir nokkrar umræður hafi samkomulag orðið um punkta, sem merktir hafi verið á landinu. Um þennan skika og tvo aðra sagði eftirfarandi í greinargerðinni: „I. engjaskák Hala, sem liggur að Háfshólslandi. Merki er sett við skurðbakka á móts við smáhólma (auðkenndur A á uppdrættinum), þaðan er dregin lína að merki um 25 metra frá skurðbakkanum til norð-vesturs. Frá síðarnefnda merkinu er dregin lína um 420 metra löng, í átt að Háfsósi, að merki sem sett er á bakka flóðsins, skammt norð-austan við Háfsósbrúna. Að sunnan og austan takmarkast spilda þessi, sem á uppdrættinum er auðkennd með rómverskum einum (I), af flóðinu. II. Horntangi. Engjaskák tilheyrandi Hala. Nokkur óvissa ríkti um nákvæma takmörkun þessarar spildu, en aðilar urðu ásáttir um eftirgreind landamerki: Á öðrum tanga norðan við smáhólmann (A) er sett merki (B), á vesturbrún Háfsholts er sett merki (D) og við flóðið norðan Háfsholts, þar sem hlaðinn torfgarður gengur út í flóðið, er sett merki (C). Norðurmörk Horntanga eru flóðið, frá merki (B) að merki (C). Austurmörk eru línan frá merki (C) að merki (D), frá flóðinu að rótum Háfsholts. Síðan lína sem dregin er með rótum Háfsholts, þar til hún mætir línu, sem dregin er frá merki (D) að merki (B), og er síðastnefnda línan landamerki gagnvart Háfshólsengjum frá rótum Háfsholts að merkinu (B) við flóðið. III. Hryggjarskák. Engjaskák tilheyrandi Hala. Spilda þessi takmarkast að vestan, á móti Háfsengjum, og að norðan á móti Háfsholti, af vélgröfnum framræsluskurði, að austan á móti engjaskák frá Háfshjáleigu, af lágum garði (plógstreng), og að sunnan af flóðinu.“ Um landamerki að öðru leyti sagði þetta í greinargerðinni: „Hið samfellda heimaland Hala og Brautartungu, takmarkast gagnvart landi Háfs og Háfshjáleigu, frá Háfshólsskurði og heim að flóðinu þannig: Frá Háfshólsskurði, kelda til suð-austurs, að túngirðingu Hala. Síðan eftir túngirðingunni og síðan línu í beinu framhaldi af henni, til vesturs, um vörðu á suðurenda holtsins (Háfsholts) skammt norðan flóðsins, að plógfari, sem liggur (sveigður) til norðurs á mótum holtsins og mýrarinnar, að enda skurðsins sem liggur á mótum Háfsholts og Hryggjarskákar ... Plógfar þetta er síðan í mörkum til norðurs, að garði suð-austan engjaskákar Háfshjáleigu (Hryggjarskák). Loks er síðastnefndi garðurinn landamerki milli Hala og Háfshjáleigu, frá Háfsholti (þar sem plógfarið og skurðurinn mætast) og til suð-vesturs að flóðinu. Að öðru leyti eru landamerki Hala og Brautartungu gagnvart áðurnefndum öðrum jörðum í Háfshverfi, skrásett í skiptagjörðum, og verður því ekki fjallað um þau hér. Landamerki þau, sem hér hefur verið lýst, eru dregin inn á meðfylgjandi uppdrátt, ... sem áritaður er af mér 14. júní 1984.“ Greinargerð Vals Þorvaldssonar, sem hér um ræðir, er undirrituð af honum einum, en svo virðist sem ráðgert hafi verið að aðrir myndu árita hana um samþykki í „des. 1988“, sem ekki hefur orðið úr. Þá er þess að geta að í málinu liggur aðeins fyrir smækkuð og mjög ógreinileg mynd af uppdrættinum, sem vísað var til í greinargerðinni.

Með dómi Hæstaréttar 30. september 1999 í máli nr. 431/1998 var sem áður segir leyst úr ágreiningi þáverandi eigenda Háfs og Háfshjáleigu annars vegar og eigenda Háfshóls og Hala hins vegar um eignarrétt að svæði, sem þar var nefnt Háfsgljá og Háfsfjara og lýst sem strandlengju um 1.089 ha að stærð. Svæði þetta var afmarkað þannig að það næði til suðurs að hafi og að vestan að Þjórsá til Háfsósa, en frá þeim væri fylgt skurði að merkjum Háfshverfis og Þykkvabæjar, sem væru austurmörk svæðisins til sjávar. Í málinu var komist að þeirri niðurstöðu að svæðið væri í óskiptri sameign jarðanna fjögurra í Háfshverfi, en af henni fylgdi þriðjungur Háfi og Háfshjáleigu í sameiningu.

II

Fyrsta dómkrafa aðaláfrýjendanna Sigurjóns, Önnu, Vilhjálms og Hugrúnar fyrir Hæstarétti lýtur að landsvæði, sem þau nefna Háfshólsbakka en gagnáfrýjendur Háfsbakka. Aðaláfrýjendurnir styðja þessa kröfu við fyrrgreint ákvæði í landskiptagerðinni frá 25. júní 1929, þar sem sagði að í hlut Háfshóls kæmi „allt óyrkt land í kring um tún sitt, sem afmarkast af girðingu að vestan og skurði og girðingu að austan.“ Við landskiptin og þá breytingu, sem gerð hafi verið á þeim með sátt 20. janúar 1932, hafi verið lagt til grundvallar að landinu yrði skipt í þriðjungshluta, þar sem einn kæmi í hlut Háfshóls, annar í hlut Hala, en sá þriðji sameiginlega í hlut Háfs og Háfshjáleigu. Slíkur jöfnuður fáist með því að skýra orðalag landskiptagerðarinnar, sem að framan greinir, á þann hátt, sem fyrsta dómkrafan feli í sér, en sú skýring eigi að auki stoð í áðurnefndri landskiptagerð fyrir Háfshól frá 18. júní 1933, svo og greinargerð Vals Þorvaldssonar frá 27. júní 1984. Í tengslum við þá greinargerð benda aðaláfrýjendurnir einnig á að í málinu, sem leyst var úr með fyrrnefndum dómi Hæstaréttar 30. september 1999, hafi aðaláfrýjandinn Jón í aðilaskýrslu vísað til uppdráttar Vals frá 14. júní 1984 og sagt „að Háfshóll eigi samkvæmt skiptunum frá 1929 bakka Þjórsár fram að útfalli Kvíóss en innan þess svæðis eigi Halinn reim upp með Kvíóss sem fram komi á uppdrætti Vals“, en þessi lýsing hafi ekki sætt andmælum þar. Þá liggi fyrir skýrslur aðila og vitna um að eigendur Háfshóls og síðar eigandi Hala sem leigjandi Háfshóls á árabilinu 1958 til 2007 hafi nýtt Háfshólsbakka til slægju og beitar án nokkurra athugasemda frá eigendum Háfs, en það sýni einnig að litið hafi verið á það svæði sem land Háfshóls. Gegn þessu bera gagnáfrýjendur því meðal annars við að hvorki í landskiptagerðinni frá 1929 né sáttinni frá 1932 verði fundin stoð fyrir því að Háfshóll eigi land suður að Illukeldu, Langaflóði eða Kvíósi, enda hafi þessara örnefna ekki verið getið í merkjalýsingu, heldur hafi landið verið afmarkað með því að vísa til girðinga og skurðar, sem sjá megi á uppdrætti Ásgeirs L. Jónssonar frá september 1928, en við þann uppdrátt hafi verið stuðst við landskiptin. Landskiptagerð fyrir Háfshól frá 1933 styðji heldur ekki fyrstu kröfu þessara aðaláfrýjenda, en í henni hafi eigendur jarðarinnar sjálfir skipt landinu að Dyraflóði, sem liggi norðar en fyrrnefnd þrjú kennileiti, sem krafan taki mið af.

Önnur dómkrafan, sem aðaláfrýjendur gera öll fyrir Hæstarétti, lýtur að landi, sem liggur í beinu framhaldi norðan við svæðið Háfsgljá og Háfsfjöru, sem áðurnefndur dómur Hæstaréttar frá 30. september 1999 tók til. Aðaláfrýjendur telja þetta vera óskipt land jarðanna í Háfshverfi, enda taki það við sunnan við svæðið að Kálfalæk, sem landskiptagerðin frá 25. júní 1929 hafi varðað. Læknum hafi síðar verið veitt í skurð, sem grafinn hafi verið á árinu 1968. Skurðurinn sé nokkuð sunnar en farvegur vatnsfallsins hafi verið þegar landskiptin voru gerð, en við skurðinn hafi miðast norðurmörk svæðisins, sem dómurinn frá 1999 tók til. Landið, sem þessi krafa lúti að, markist að sunnan af skurðinum, sem Kálfalækur renni nú um, og að norðan af farveginum, sem hann hafi fylgt fyrir 1968 samkvæmt kortum og loftmyndum, en samkvæmt 2. mgr. 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923 eigi merki að ráðast af þeim farvegi. Um þessa kröfu bera gagnáfrýjendur á hinn bóginn fyrir sig að markalínan, sem aðaláfrýjendur miði við milli punktanna K-2 og K-25, sé ýmist upp við eða ofan við bakka á fyrrum farvegi Kálfalækjar, en ekki í miðjum farveginum eins og vera ætti samkvæmt 3. gr. vatnalaga. Þá sé umdeilt hvar farvegur þessi hafi nánar legið og skorti að auki skýringar á því hvað ráði staðsetningu merkjapunktanna K-25 til K-27 í kröfugerð aðaláfrýjenda.

Aðaláfrýjendurnir Jón og Finnbogi reisa kröfu sína um staðfestingu á ákvæðum héraðsdóms um kröfuliði 2 og 3 í héraði, sem lúta að spildunum Engjareim og Horntanga, á því að þær hafi fallið undir Hala með landskiptunum 1928 og 1929, en eigendur þeirrar jarðar hafi allar götur síðan athugasemdalaust nýtt þessar spildur og ráðið yfir þeim. Þá vísa aðaláfrýjendurnir til þess að í greinargerð Vals Þorvaldssonar frá 1984 hafi skýrlega verið lýst merkjum þessara tveggja spildna og rætt um þær sem land, sem tilheyri Hala. Í málflutningi fyrir Hæstarétti byggðu aðaláfrýjendurnir í þessu efni jafnframt á reglum um eignarhefð. Um þessa liði í dómkröfum aðaláfrýjendanna vísa gagnáfrýjendur til þess að því hafi fyrst verið hreyft í málatilbúnaði þeirra fyrrnefndu fyrir Hæstarétti að landspildurnar tvær hafi komið í hlut Hala við landskiptin, svo og að þeir hafi unnið rétt yfir spildunum fyrir hefð. Gagnáfrýjendur andmæla því að stoð verði fundin fyrir eignarrétti aðaláfrýjendanna að spildunum í landskiptagerðinni og bera því jafnframt við að greinargerð Vals Þorvaldssonar geti hér engu breytt, enda hafi hann verið skipaður af sýslumanni 7. júlí 1983 til að „annast endurskipti á landi Háfshverfisjarða“ samkvæmt landskiptalögum, en ekki til að kanna landamerki. Greinargerðin, sem eigendur Háfs og Háfshjáleigu hafi ekki samþykkt fyrir sitt leyti, beri að auki með sér að hún hafi aðeins haft að geyma tillögu að sáttagerð sem ekki hafi náð fram að ganga.

III

Gagnáfrýjandinn Vorland ehf. reisir kröfu um að vísað verði frá héraðsdómi fyrstu dómkröfunni, sem aðaláfrýjendurnir Sigurjón, Anna, Vilhjálmur og Hugrún gera fyrir Hæstarétti, á því að í henni sé aðeins að takmörkuðu leyti lýst merkjum landsins, sem þau telji þar að heyri til Háfshóls, en þar skorti meðal annars á að greint sé frá vesturmörkum þess. Um þetta er til þess að líta að samkvæmt framlögðum uppdráttum og loftmyndum er talsverður hluti af landi Háfshóls norðan við merkjapunktinn H-24, sem liggur nyrst á línunni sem dregin er í þessari dómkröfu aðaláfrýjendanna allt til merkjapunktsins H-1 syðst og vestast í þrætulandinu, en hann er í málatilbúnaði þeirra kenndur við Kvíós við Þjórsá. Ekki verður séð af gögnum málsins að deilur standi milli aðilanna um landið norðan við merkjapunktinn H-24 eða hvort aðaláfrýjendurnir geri tilkall til lands frá merkjapunktinum H-1, eins og hann er sýndur á uppdráttum, vestur í farveg Þjórsár. Eftir núgildandi lögum bera aðaláfrýjendurnir enga skyldu að viðlagðri frávísun málsins til að leita hér í einu lagi dóms um landamerki Háfshóls í ríkari mæli en þau sjálf kjósa, eftir atvikum án tillits til þess hvort ágreiningur standi um merkin. Verður því hafnað þessari kröfu gagnáfrýjandans Vorlands ehf.

Fyrsta dómkrafa aðaláfrýjendanna Sigurjóns, Önnu, Vilhjálms og Hugrúnar fyrir Hæstarétti er sem fyrr segir aðallega reist á því að landið, sem afmarkað er með henni, falli undir það, sem segi í landskiptagerðinni 25. júní 1929 um að í hlut Háfshóls komi „allt óyrkt land í kring um tún sitt, sem afmarkast af girðingu að vestan og skurði og girðingu að austan.“ Eins og fram er komið er ágreiningslaust að við landskiptin milli jarðanna fjögurra í Háfshverfi hafi verið stuðst við uppdrátt Ásgeirs L. Jónssonar frá september 1928. Á þeim uppdrætti sést hvernig girðingar hafa legið norðan frá stað um 550 m sunnan við merki Háfshverfis gegnt Sandhólaferju, annars vegar til suðvesturs nærri bökkum Þjórsár, sem óskipt land hverfisins náði þá að, og hins vegar til suðurs gegnum landið. Eftir uppdrættinum hefur vestari girðingin fylgt bökkum Þjórsár um 1000 m þar til hún var komin nokkuð suður fyrir bæjarstæði á Háfshóli, en þaðan beygði hún til suðausturs og hélt áfram í þeirri stefnu um 400 m. Frá þeim stað, sem þessi girðing beygði frá bökkum Þjórsár, eru samkvæmt uppdrættinum yfir 1500 m í beinni loftlínu að Kvíósi við Þjórsá, sem fyrsta dómkrafa aðaláfrýjendanna miðar við sem suðurhorn lands Háfshóls að vestanverðu. Girðingin að austan virðist samkvæmt uppdrættinum hafa fylgt skurði rúmlega 1500 m til suðurs, en í áframhaldandi stefnu hennar virðast frá þeim stað enn vera tæplega 500 m suður að Illukeldu, þar sem aðaláfrýjendurnir hafa sett hornpunkt að suðaustan í fyrstu dómkröfu sinni. Vegna þessa alls verður ekki séð að þessi dómkrafa geti átt stoð í orðalagi landskiptagerðarinnar, eins og það verður skýrt með tilliti til uppdráttarins frá september 1928. Um þessa kröfu er og til þess að líta að engin haldbær skýring hefur komið fram á því að ekki hafi berum orðum verið rætt í landskiptagerðinni um merki í Illukeldu, Langaflóði og Kvíósi ef land Háfshóls hefði átt að ráðast af þeim kennileitum til suðurs, en óumdeilt virðist að þau hafi verið alþekkt af staðkunnugum. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi reistu aðaláfrýjendurnir þessa kröfu ekki á því að þau hafi öðlast eignarrétt að landinu á grundvelli ákvæða laga nr. 14/1905 um hefð og kemur sú málsástæða ekki til álita fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með áorðnum breytingum. Þegar af þessum ástæðum verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu gagnáfrýjenda að fyrstu dómkröfu aðaláfrýjendanna Sigurjóns, Önnu, Vilhjálms og Hugrúnar, enda hafa þau ekki fært fram haldbær rök fyrir henni á grundvelli annarra heimilda en að framan er getið. Úr ágreiningi um merki jarðanna á þessu svæði verður á hinn bóginn ekki frekar leyst í máli þessu, enda eru ekki að þessu leyti aðrar kröfur hafðar hér uppi til efnisdóms um hvernig merkin skuli ákveðin.

Önnur dómkrafa aðaláfrýjenda fyrir Hæstarétti tekur sem fyrr segir til lands með norðurmörk eftir línu, sem dregin er í málatilbúnaði þeirra eftir merkjapunktum á ætluðum bökkum vatnsfalls, sem mun fram til ársins 1968 hafa runnið til vesturs við suðurjaðar eignarlanda Hala, Háfs og Háfshjáleigu samkvæmt landskiptum í Háfshverfi 1928 og 1929, en með kröfunni leita aðaláfrýjendur viðurkenningar á því að þetta land sé í óskiptri sameign allra málsaðila í nánar tilteknum hlutföllum. Þegar á eða lækur skilur landareignir eiga merki þeirra að liggja í miðjum farvegi nema önnur lögmæt skipun sé gerð þar á, sbr. 1. mgr. 3. gr. vatnalaga, en ekki breytast slík merki þótt farvegur breytist, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Því hefur ekki verið borið við í málinu að landeigendur í Háfshverfi hafi með löggerningi vikið frá þeirri skipan, sem leiðir af þessum reglum um suðurmerki útskipts lands þeirra. Samkvæmt framansögðu tekur önnur dómkrafa aðaláfrýjenda á hinn bóginn ekki mið af þessum lagaákvæðum og verður þegar af þeirri ástæðu staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu gagnáfrýjenda af henni.

Gagnáfrýjendur krefjast sem áður segir sýknu af kröfum aðaláfrýjendanna Jóns og Finnboga, sem gerðar voru í 2. og 3. lið dómkrafna þeirra fyrir héraðsdómi og þar voru teknar til greina, en með þeim kröfum leituðu aðaláfrýjendurnir viðurkenningar á eignarrétti sínum að landspildum, sem nefndar eru Engjareim og Horntangi, með nánar tilgreindum merkjum. Fyrir eignarrétti aðaláfrýjendanna sem eigenda Hala að þessum spildum verður ekki fundin stoð í landskiptagerðinni fyrir Háfshverfi 25. júní 1929 og kemur áðurnefnd sátt 20. janúar 1932 þessum landspildum í engu við. Að spildum þessum er að sönnu vikið í greinargerð Vals Þorvaldssonar 27. júní 1984 og rætt um þær sem eignarland Hala með nánar tilteknum merkjum, en til þess verður á hinn bóginn að líta að gagnáfrýjendur andmæla réttmæti þess, sem þar kemur fram, og er ósannað að þáverandi eigendur Háfs og Háfshjáleigu hafi fyrir sitt leyti samþykkt það, sem um þetta sagði í greinargerðinni. Að þessu frágengnu hafa aðaláfrýjendurnir ekki fært fram haldbær rök fyrir þessum dómkröfum, en málsástæða þeirra á grundvelli eignarhefðar, sem fyrst var höfð uppi fyrir Hæstarétti, fær ekki komist að í málinu. Samkvæmt þessu verða gagnáfrýjendur sýknaðir af þessum kröfum aðaláfrýjendanna Jóns og Finnboga.

Samkvæmt framansögðu verða gagnáfrýjendur sýknaðir af kröfum aðaláfrýjenda. Verða þeir síðarnefndu dæmdir til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi handa hvorum gagnáfrýjenda eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Gagnáfrýjendur, Vorland ehf. og Kró ehf., eru sýknir af kröfum aðaláfrýjenda, Sigurjóns O. Sigurðssonar, Önnu Sigrúnar Guðmundsdóttur, Vilhjálms Helga Guðmundssonar, Hugrúnar Guðmundsdóttur, Jóns Vilbergs Karlssonar og Finnboga Jóhanns Jónssonar.

Aðaláfrýjendur greiði óskipt hvorum gagnáfrýjenda samtals 750.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 21. nóvember 2008.

                Mál þetta, sem dómtekið var 26. september sl. er höfðað með stefnu birtri 11.og 12. október 2007.

                Stefnendur eru Sigurjón O. Sigurðsson, kt. 080527-3499, Hvassaleiti 16, Reykjavík, Anna Sigrún Guðmundsdóttir, kt. 190353-5759, Brattholti 1, Mosfellsbæ, Vilhjálmur Helgi Guðmundsson, kt. 230256-2179, Sæviðarsundi 35, Reykjavík, Hugrún Guðmundsdóttir, kt. 201262-3659, Bakkastöðum 23, Reykjavík, Jón Vilberg Karlsson, kt. 170133-4209, Hala og Finnbogi Jóhann Jónsson, kt. 100473-3489, Brautartungu.

                Stefndu eru Vorland ehf., kt. 481096-2279, Háfi og Kró ehf., kt. 440297-2699, Lyngási 4, Hellu.

                Dómkröfur stefnenda eru eftirfarandi:

1.            Að viðurkennd verði með dómi svofelld landamerki milli jarðanna Háfshóls, Hala og Háfshjáleigu fyrir jörðina Háfshól í Rangárþingi ytra:

Að austanverðu frá hornamarki Háfshóls og Hala frá punkti H-24,  hornamark við Háfshólsskurði 120 (E417463-N366675), á skurðhorni austan við Lambhúshólinn í Háfshól, punktur H-23 Bugur á Háfshólsskurði 121, (E417456-N366135), suður eftir áður handgröfnum skurði, nú vélgröfnum skurði, allt suður í Illukeldu, punktur H-22, Illakelda við Háfshólsskurð 122 (E417338-N365688) og vestur eftir henni eftir punktunum H-21, Illakelda 123 (E417202-N365774), H-20, Illakelda 124, (E417171-N365762), H-19, Illakelda 125 (E417145-N365792), H-18, Illakelda 126 (E4177112-N365792), H-17, Illakelda 127 (E417082-N365842), H-16, Illakelda 128 (E417044-N365845), Illlakelda 129 (E417003-N365910) og H-14, Langaflóð 130 (E416962-N365944) í Langaflóð eftir punktunum H-13, Langaflóð 131 (E416784-N365982), J-15, Langaflóð LA 5 (E416751-N366036), H-12, Langaflóð 132 (E416725-N366070), H-11, Langaflóð 133 (E416661-N366103), H-10, Langaflóð 134 (E416610-N366169), H-9, Langaflóð 135 (E416507-N366121), H-8, Langaflóðsþúfa 136 (E416445-N366025), H-7, Engjareim við Langaflóð 140 (E416379-N366073) og síðan suður eftir Háfshólsbökkum að punkti H-6, Engjareim við Kvíaós 141 (E416079-N365773), um Kvíaós um punkta J-6, Kvíaós 175 (E416085-N365757), H-5, Kvíaós 113 (E416016-N365742), H-4, Kvíaós við brú 114 (E415938-N365720), H-3, Kvíaós 115 (E415612-N365618), H-2, Kvíaós 116 (E415539-N365697) og vestur að Þjórsá um punkt H-1, Kvíaós við Þjórsá (E415542-N365707), eins og fram kemur á uppdrætti á dskj. nr. 3.

2.           Að viðurkennd verði með dómi svofelld landamerki engjareimar Hala milli jarðanna Háfshóls, Háfs og Háfshjáleigu:

Frá punkti H-8 Langaflóðsþúfa 136 (E416445-N366025) í gegnum punkt J-10 Langaflóð 179 (E416405-N365957), punkt J-9 Langaflóð 178 (E416347-N365933), punkt J-8 Kvíaós við Langaflóð 177 (E416311-N365830), punkt J-7 Kvíaós 176 (E416267-N365846), punkt J-6 Kvíaós 175 (E416085-N365757), punkt H-6 Engjareim við Kvíaós 141 (E416079-N365773), punkt H-7 Engjareim við Langaflóð 140 (E416379-N366073) aftur að punkti H-8 Langaflóðsþúfa 136 (E416445-N366025) eins og fram kemur á uppdrætti á dskj. nr. 4.

3.           Að viðurkennd verði með dómi svofelld landamerki af hluta horntanga Hala milli Háfshóls, Háfs og Háfshjáleigu:

Frá punkti H-9 Langaflóð 135 (E416507-N366121), í gegnum punkt H-10 Langaflóð 134 (E416610-N366169), punkt H-11 Langaflóð 133 (E416661-N366103), punkt H-12 Langaflóð 132 (E416725-N366070), punkt J-15 Langaflóð LA5 (E416751-N366036), punkt J-14 Skurður 182 (E416699-N365968), punkt J-13 Skurður 181 (E416623-N365998), punkt J-12 Skurður 180 (E416553-N365967), punkt J-11 Langaflóð LA4 (E416494-N366114), aftur að punkti H-9 Langaflóð 135 (E416507-N366121), eins og fram kemur á uppdrætti á dskj. nr. 5.

4.           Að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur stefnenda, eigenda Háfshóls, 1/3 og stefnenda, eigenda Hala, 1/3 í óskiptri sameign að því landsvæði innan Rangárþings ytra, þannig hnitmerkt:

Frá punktinum K-1 Háfsósabrú 143 (E417317-N363649), að punktinum K-2 Kálfalækjarfarvegur 174 (E417232-N363832), frá þeim punkti að punktinum K-3 Kálfalækjarfarvegur 147 (E417155-N363860), frá þeim punkti að punktinum K-4 Kálfalækjarfarvegur 148 (E417027-N363917), frá þeim punkti að punktinum K-5 Kálfalækjarfarvegur 149 (E416905-N363908), frá þeim punkti að punktinum K-6 Kálfalækjarfarvegur 150 (E416734-N363944), frá þeim punkti að punktinum K-7 Kálfalækjarfarvegur 151 (E416622-N364002), frá þeim punkti að punktinum K-8 Kálfalækjarfarvegur 152 (E416536-N364055), frá þeim punkti að punktinum K-9 Kálfalækjarfarvegur 153 (E416412-N364132), frá þeim punkti að punktinum K-10 Kálfalækjarfarvegur 154 (E416264-N364214), frá þeim punkti að punktinum K-11 Kálfalækjarfarvegur 155 (E416153-N364253), frá þeim punkti að punktinum K-12 Kálfalækjarfarvegur 156 (E416075-N364271), frá þeim punkti að punktinum K-13 Kálfalækjarfarvegur 157 (E416003-N364308), frá þeim punkti að punktinum K-14 Kálfalækjarfarvegur 158 (E415918-N364356), frá þeim punkti að punktinum K-15 Kálfalækjarfarvegur 159 (E415837-N364408), frá þeim punkti að punktinum K-16 Kálfalækjarfarvegur 160 (E415753-N-364490), frá þeim punkti að punktinum K-17 Kálfalækjarfarvegur 161 (E415712-N364517), frá þeim punkti að punktinum K-18 Kálfalækjarfarvegur 162 (E415652-N364562), frá þeim punkti að punktinum K-19 Kálfalækjarfarvegur 163 (E415582-N364595), frá þeim punkti að punktinum K-20 Kálfalækjarfarvegur 164 (E415505-N364617), frá þeim punkti að punktinum K-21 Kálfalækjarfarvegur 165 (E415429-N364646), frá þeim punkti að punktinum K-22 Kálfalækjarfarvegur 166 (E415327-N364633), frá þeim punkti að punktinum K-23 Kálfalækjarfarvegur 167 (E415255-N364680), frá þeim punkti að punktinum K-24 Kálfalækjarfarvegur 168 (E415185-N364716), frá þeim punkti að punktinum K-25 Kálfalækjarfarvegur 169 (E414915-N364972), frá þeim punkti að punktinum K-26 Kálfalækjarfarvegur 170 (E414503-N364817), frá þeim punkti að punktinum K-27 Kálfalækjarfarvegur við Þjórsá 171 (E413616-N364352), frá þeim punkti að punktinum K-28 Kálfalækjarskurður 172 (E414681-N364356), frá þeim punkti að punktinum K-29 Kálfalækjarskurður 173 (E416829-N363761) aftur að punkti K-1 Háfsósabrú 143 (E417317-N363649), eins og fram kemur á uppdrætti á dskj. nr. 6.

      Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt reikningi.

                Dómkröfur stefndu eru þær að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og þeim verði dæmdur málskostnaður úr  hendi þeirra samkvæmt reikningi.

                Gengið var á vettvang 22. september sl.

Málavextir.

                Stefnendur lýsa málavöxtum svo að þeir séu eigendur jarðanna Háfshóls og Hala í Rangárþingi ytra en stefndu séu eigendur jarðanna Háfs og Háfshjáleigu.  Hafi  eigendur síðargreindu jarðanna lengi staðið í deilum við eigendur fyrrgreindu jarðanna vegna landamerkja í svokölluðu Háfshverfi.  Með samkomulagi árið 1928 hafi eigendur jarða í Háfshverfi skipt með sér nesinu fyrir sunnan jarðirnar Háf og Hala, frá Keldu norðan við Torfamel að Kálfalæk að sunnan og hafi girðing verið sett á merkjum.  Samkomulagsskiptin séu hins vegar ekki til á pappír en vísað sé til þeirra í landskiptum frá 25. júní 1929 þegar fram hafi farið skipti á svonefndri Háfsbót og engjum við Kálfalæk.  Hafi þáverandi eigendur jarðanna ritað undir þá landskiptagerð.  Hafi skipti farið fram eftir jarðamati frá 1861, hinu svokallaða nýja mati til aðgreiningar frá hinu forna mati frá 1845.  Samkvæmt skiptunum skyldi Háfur eiga heimaland með Háfshjáleigu fyrir vestan girðinguna en Hali heimaland með Horni fyrir austan girðinguna að Keldu norðan við Torfamel.  Á móti fengi Háfshóll allt óyrkt land sem umlyki tún hans sem afmarkist af girðingu að vestan og handgröfnum skurði og girðingu að austan en Illukeldu og Langaflóði um Kvíaós að sunnan út í Þjórsá.  Það sem á vanti á tiltölu jarðarinnar, fái Háfshól með öðru beitilandi.

                Þann 18. desember 1931 hafi þáverandi eigandi Háfshóls gefið út sáttakæru þar sem hann hafi beðið sáttanefndarmenn Ásahrepps að kalla á fund sameignarmenn Háfshverfis og hann sjálfan í því skyni að fá landskiptin frá 25. júní 1929 felld úr gildi og ný skipti færu fram í samræmi við jarðamatið frá 1845.  Hafi verið haldinn sáttafundur 20. janúar 1932 og komist á sátt með þeim skilyrðum að til Háfshóls skyldi heyra, auk lands þess sem landskiptin frá 25. júní 1929 ákváðu, allt það land sem nú er innan við engjagirðingar Háfshóls, er liggja úr Kringlutjörn til Kálfalækjar, bæði sunnan og norðan við engjarnar og þar að auki landspilda sú, úr beitilandi Háfs, sem verður norðan við þá línu, sem dregin er eða miðuð beint úr hliðastólpa á syðri armi engjagirðingar Háfshóls við Kringlutjörn og sjónhendingu í  hornmarkið milli landa Hala og Háfshóls við skurðinn, sem er skammt austan við Lambhúshólinn í Háfshól.  Skuli þessi lína vera markalína milli beitilands Háfs og Háfshóls allt vestur að mörkum beitilands Hala og Háfs.  Skyldi eigandi Háfshóls gegn þessu greiða eiganda Háfs 200 krónur.  Er tekið fram að allir aðilar geti þess sérstaklega að með þessari sáttagerð sé öllum ágreiningi lokið viðvíkjandi landamerkjum nefndra jarða og full og óhagganleg sátt komin á milli þeirra um allt sem landamerkjum viðkomi.  Þessu skjali mun hafa verið þinglýst 27. júní 1933.

                Í júní 1933 óskaði Sigurður Jósepsson, þáverandi umráðamaður að hálfum Háfshól, eftir því að fá skipti á landi jarðarinnar til helminga samkvæmt landskiptalögum.  Samkvæmt skiptagjörð, sem dagsett er 18. júní 1933, var jörðinni skipt í 6 spildur og fékk hvor helmingur jafn stórar hálflendur.  Vestur-hálflenda jarðarinnar fékk allt frá heimreiðinni að austan og fyrir sunnan bæ að heimreiðinni að vestan og að auki fyrir norðan heimreiðina, frá norðvesturhorni matjurtagarðsins fyrir vestan bæinn, á beina línu að vörðu við útafbindingastaur í girðingunni á árbakkanum.  Þá fékk vesturhlutinn land allt niður með Þjórsá, að landamerkjum annarra jarða, sem að norðan takmarkast af heimreiðinni og af vörðu sem er á túngarðinum 80 m frá heimreiðarhliði, þaðan af beinni línu um vesturbakka Dyraflóðs að mörkum annarra jarða.  Vesturhlutinn fékk land frá syðsta horni túnsins að hornmarki milli Hala og Háfshóls á skurðbakka, þaðan meðfram Halamörkum og Háfs- að hliðstólpa, sem er um 8 m frá suðurbakka Kringlutjarnar, þaðan meðfram tjörninni að Sandhólaferjumörkum og með þeim 700 m frá tjörninni frá vörðu í beinni línu að túnmörkunum að austan, milli býlanna.  Engjum og beitilandi við Kálfalæk var þaðan skipt frá landamörkum Háfs við lækinn 500 m norður með áðurnefndum læk, þaðan í beinni línu að fyrrnefndum hliðstólpa við Kringlutjörn.  Segir í skiptagjörðinni að hinn hluti Háfshólslands tilheyri austur-hálflendunni.

                Þann 23. júlí 1951var fjórðungi jarðarinnar Háfs skipt út og lagðist sá hluti undir Háfshjáleigu.  Þá var túni og engjum skipt í þessum skiptum.  Þann 11. desember 1952 var beitilandi þessara jarða skipt.  Ágreiningur reis síðar um landamerki tiltekinna jarða í Háfshverfi milli eigenda jarðanna Háfs og Háfshjáleigu annars vegar og eiganda jarðarinnar Háfshóls hins vegar.  Var deilt um gildi sáttagerðarinnar frá 20. janúar 1932 en með dómi landamerkjadóms Rangárvallasýslu 20. maí 1978 var sáttagerðin staðfest og talin fela í sér fullgilda skuldbindingu um þau atriði sem þar greindi.  Hæstiréttur staðfesti þessa niðurstöðu með dómi 21. september 1981.

                Þann 15. júní 1983 var þess farið á leit við sýslumanninn í Rangárvallasýslu að hann tilnefndi mann til þess að ganga á landamörk jarðanna Hala og Brautartungu.  Í greinargerð oddamanns var landamerkjum þessara jarða gagnvart jörðunum Háfi, Háfshjáleigu og Háfshól lýst og kemur fram að ekki hafi verið ágreiningur um þau landamerki.

                Enn deildu aðilar í Háfshverfi og stóðu deilur um eignarrétt að Háfsgljá og Háfsfjöru.  Með dómi Hæstaréttar Íslands árið 1999, sem staðfesti dóm Héraðsdóms Suðurlands, var staðfest að Háfi og Háfshjáleigu tilheyri í óskiptri sameign með Hala og Háfshól 1/3 hluti þess landsvæðis sem nefnt hefur verið Háfsgljá og Háfsfjara.  Fyrir héraðsdómi hafi Jón V. Karlsson, stefnandi, borið að Háfshóll eigi samkvæmt skiptunum frá 1929 bakka Þjórsár fram að útfalli Kvíóss en innan þess svæðis eigi Halinn engjareim upp með Kvíóss.  Hafi þessi framburður ekki verið vefengdur í málinu.

                Með kauptilboði 14. desember 2004 mun stefndi Kró ehf. hafa boðið í jörðina Háfshól, en tilboðinu mun ekki hafa verið tekið.  Með bréfi dagsettu 31. ágúst 2005 lagði lögmaður eigenda Háfs fram beiðni fyrir þeirra hönd um sáttafund samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga um landamerki nr. 41/1919, en sáttaþolendur voru eigendur Háfshóls.  Var óskað eftir því að sýslumaður reyndi sættir þar sem aðilar væru ekki sammála um hvar landamerki að vestan milli jarðanna við Þjórsá séu.  Ekki reyndist grundvöllur til sátta í málinu.

                Stefndi Vorland ehf. mun hafa óskað eftir því með beiðni, dags. 22. maí 2006, til hreppsráðs Rangárþings ytra að spildum úr jörðinni Háfshjáleigu yrði skipt úr landi sínu Háfshjáleigu og fengið slíka beiðni samþykkta. Þó hefði samþykktin verið með þeim fyrirvara að eignarréttur á viðkomandi landi væri þinglýstur og óumdeildur og að sýnd mörk milli jarða á uppdrætti væru rétt og að stefndi bæri alla ábyrgð á því að svo væri. Stefnendur, sem hafi ekki uppgötvað landskiptin fyrr en vorið 2007, telji að jarðirnar sem um ræði séu að stórum hluta í eigu þeirra og því alls ekki skipt út úr landi stefnda Vorlands ehf. 

                Stefndu benda á að kort sem Ásgeir Jónsson gerði í september 1928 hafi verið notað sem grundvöllur skiptagerðarinnar frá 1929 og sáttagerðarinnar frá 1932.

                Stefndi Vorland segist vera eigandi Háfshjáleigu og þann 18. maí 2006 hafi hann afmarkað fimm spildur sem nefndar hafi verið Háfshjáleiga, land 1-5.  Hafi spildur 1-4 verið úr landi Háfshjáleigu en spilda nr. 5 úr sameiginlegu landi Háfs og Háfshjáleigu og sé sú spilda í sameign stefnda og Ólafs Þórarinssonar.  Landskiptin hafi verið samþykkt af sveitarstjórn 24. maí 2006 og staðfest af landbúnaðarráðuneytinu 30. maí sama ár.  Háfshjáleiga, land 1 hafi verið selt Vélfangi ehf.

                Stefndi Kró ehf. mun hafa keypt jörðina Háf 23. júní 2006 og mun forráðamanni félagsins hafa verið falið að ítreka landamerki jarðarinnar gagnvart Háfshóli.  Telur þessi stefndi að átt sé við girðingu sem merkt sé á kort Ásgeirs Jónssonar og sé því ljóst að landamerki Háfshóls nái ekki að Langaflóði.

Málsástæður og lagarök stefnenda.

                Stefnendur byggja fyrstu dómkröfu sína í stefnu á því að svæði það sem um ræði, svokallaðir Háfshólsbakkar hafi tilheyrt Háfshólnum að minnsta kosti allt frá því að sáttagerð hafi verið gerð þann 20. janúar 1932 með eigendum í Háfshverfi.  Hafi sáttagerðin staðfest að fara hefði átt eftir jarðamati frá 1845 og hafi komist á sátt með aðilum um endanleg landskipti á Háfshverfinu.  Gegn því hafi eigandi Háfs fengið greiddar 200 krónur. Þessum skiptum hafi ekki verið hnekkt og byggja stefnendur á því að skiptin á Háfshólnum sjálfum, sem fram fóru þann 17. júní 1933, sýni svart á hvítu að Háfshólsbakkarnir tilheyri Háfshólnum. Þar segi orðrétt „Land allt niður með Þjórsá, að landamerkjum annarra jarða, sem að norðan takmarkast af heimreiðinni og af vörðu, sem er á túngarðinum 80 m frá heimreiðarhliði, þaðan af beinni línu um vesturbakka Dyraflóðs að mörkum annarra jarða“. Þá byggja stefnendur á því að samkvæmt 4. mgr. 2. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 sé heimilt að skipta eftir eignahlutföllum, sem hafi gilt manna á meðal í 20 ár eða meira og allir eigendur hafa samþykkt, þrátt fyrir að eignahlutföllin séu önnur en jarðamatsbækur gefi til kynna.  Stefnendur byggja einnig á því að skiptin frá 20. janúar 1932 hafi enn fremur verið staðfest með Hæstaréttardómi árið 1981 en þar segi að leggja beri ákvæði sáttagerðarinnar til grundvalllar ákvörðunar merkjum milli Háfs og Háfshóls og Háfshjáleigu og Háfshóls.  Staðfesti dómurinn því að hið forna mat þar sem Háfshverfinu hafi verið skipt milli jarðanna og Háfshóllinn hafi fengið þriðjung af Háfshverfinu, sé gilt og hafi hið nýja mat frá 1861 ekki gildi í neinum skiptum í Háfshverfinu.  Þá benda stefnendur á að ekki hafi verið gerðar athugasemdir af hálfu þáverandi eiganda Háfs við þann framburð Jóns V. Karlssonar fyrir dómi árið 1998 þess efnis að Háfshóll eigi samkvæmt skiptunum frá 1929 bakka Þjórsár fram að útfalli Kvíóss en innan þess svæðis eigi Halinn reim upp með Kvíós.

                Þá hafi við skipti á eignarhluta Háfs og Háfshjáleigu, sem fóru fram árin 1951-1952, hvergi verið minnst á Háfshólsbakkana, þar sem hlutaðeigendur hafi ekki litið svo á að Háfshólsbakkarnir tilheyrðu Háfi, enda hefðu allir hlutar Háfshólsbakka verið nýttir til slægju og beitar af eigendum Hala, sem leigt hefðu afnot af allri Háfshólsjörðinni frá árinu 1958 til 2006, án athugasemda frá eigendum Háfs eða Háfshjáleigu. Stefnendur byggja jafnframt á því að spilda sú, sem merkt sé sem Háfshjáleiga land 5, sé að mestu leyti skipt úr landi í eigu stefnenda. Stefnendur vísa einnig til bréfs lögmanns stefnda Kró ehf. til sýslumannsins á Hvolsvelli þar sem hann fór fram á það að hinar umdeildu spildur yrðu afmáðar úr þinglýsingabók ellegar yrði þinglýst inn á viðkomandi eignir athugasemd um vafa á réttmæti eignarréttar þess sem sé þinglýstur eigandi í dag. Samkvæmt framansögðu telja stefnendur að sannað sé að landamerki milli jarðanna Háfshóls, Hala, Háfs og Háfshjáleigu eigi að vera eins og dómkrafa nr. 1 kveði á um og að landamerki afmarki land Háfshóls gagnvart hinum jörðunum.

                Stefnendur byggja aðra og þriðju dómkröfu sína í stefnu, um landamerki engjareimar og hluta horntanga Halans, á því að í greinargerð oddamanns um landamerki jarðanna Hala og Brautartungu sé sérstaklega tekið fram hvernig landamerki engjareimar og horntanga Halans séu. Hefði greinargerð þessi verið lögð fram í Hæstaréttarmálinu nr. 431/1998 og ekki verið vefengd eða á annan hátt mótmælt. Ennfremur vísa stefnendur til framburðar stefnanda Jóns V. Karlssonar fyrir Héraðsdómi Suðurlands, sem staðfestur var af Hæstarétti í dómi Hrd. 1999 bls. 3335, um það að Halinn eigi reim upp með Kvíaós, sem sé engjareim sú sem hnitsett sé í dómkröfu nr. 2 í stefnu. Þá byggja stefnendur á því að eigendur Hala, en jörðin hefur verið í eigu fjölskyldu stefnenda, eigenda Hala, síðan 1936, hafi heyjað og nýtt þessi svæði til beitar frá því jörðin komst í þeirra hendur. Þar áður hafi eigandi Hala nýtt þessi svæði eins og væru þau hans eign án þess að nokkur hafi gert athugasemd við þá nýtingu. Þetta bendi eindregið til þess að svæðin hafi ávallt tilheyrt jörðinni Hala.

                Stefnendur byggja fjórðu dómkröfu sína á því að samkvæmt samkomulagsskiptunum árið 1928, sem getið sé um í skiptagerðinni frá árinu 1929, séu suðurmörk heimalands Háfs með Háfshjáleigu og Hala með Horni, endimörk nessins suður af bæjunum, takmörkuð við Kálfalæk sem rann við nesbakkann. Nú hafi Kálfalæk verið veitt í vélgrafinn skurð töluvert suður á Háfsgljánni. Upprunalegan farveg Kálfalækjar megi sjá á loftmynd frá árinu 1946. Stefnendur byggja á því að samkvæmt 2. mgr. 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923 breytast eigi merki þótt farvegur breytist. Stefnendur byggja því á því að þau hnit sem sett séu fram í dómkröfu nr. 4 marki óskipt sameignarland jarðanna Háfs með Háfshjáleigu, Hala með Horni og Háfshóls.  Stefnendur vísa til Hæstaréttardómsins frá 1999 þar sem niðurstaðan hafi orðið sú að um væri að ræða óskipt sameignarland jarðanna.  Stefnendur hafi hins vegar miðað dómkröfur sínar við hinn vélgrafna skurð sem Kálfalæk hafi verið veitt í. Byggja stefnendur á því að merki hins óskipta sameignarlands eigi í raun að ná norðar, þ.e. að því þar sem Kálfalækur hafi áður runnið. 

                Stefnendur segjast byggja allar dómkröfur sínar á því að landamerki þau sem krafist sé að séu viðurkennd séu rétt og í samræmi við öll framlögð gögn og heimildir.  Háfshólsbakkarnir hafi allt frá upphafi tilheyrt Háfshólnum og það sé ekki fyrr en nú sem stefndu, eigendur Háfshjáleigu og Háfs hafi gert athugasemdir eða fullyrt að Háfshólsbakkarnir tilheyri þeirra jörðum.

                Stefnendur byggja á meginreglum laga um stofnun eignarréttar og eignarráða fasteignareigenda.  Þá er byggt á 2. mgr. 3. gr. vatnalaga nr. 15/1921 og 4. mgr. 2. gr. landskiptalaga nr. 46/1941.  Krafa um málskostnað er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991, einkum 129. gr. og 130. gr.

Málsástæður og lagarök stefnda Vorlands ehf.

                Stefndi byggir á því að við afmörkun á umræddum fimm spildum hafi verið farið eftir fyrirmælum landskiptagerðarinnar frá 25. júní 1929.  Virðist þessum stefnda stefnendur hafa uppi ágreining um túlkun landskiptagerðarinnar, þ.e. hvernig beri að afmarka það land sem skiptin hafi tekið til en erfitt sé að átta sig á kröfum þeirra þar sem nokkuð skorti á skýrleika í málatilbúnaði þeirra.  Í skiptagerðinni segi svo varðandi það landsvæði sem land 1-4 tekur til:  „Nesi fyrir sunnan Háf og Hala var skift í fyrra af hlutaðeigendum sjálfum og girðing sett á merkjun; á Háfur með hjáleigu fyrir vestan girðinguna, en Hali fyrir austan að Keldu norðan við Torfamel.  Á móti því hefir Háfshóll allt óyrkt land í kring um tún sitt, sem afmarkast af girðingu að vestan og skurði og girðingu að austan. Það, sem þá vantar á tiltölu jarðarinnar, fær hún með öðru beitilandi.“  Samkvæmt þessu telur stefndi að land 1-4 tilheyri því landi sem Háfur og Háfshjáleiga hafi fengið í sinn hlut við skiptin 1929 og afmarkað hafi verið með girðingu, sbr. 1. mgr. 1. gr. landamerkjalaga nr. 41/1919.  Að neðanverðu afmarkist landið við sameignarland Háfshóls, Hala, Horns, Háfs og Háfshjáleigu, eins og það hafi verið markað með dómi Hæstaréttar frá 1999, þ.e. þar sem Kálfalækur rennur um Háfsósa út að Þjórsá.  Sé það í samræmi við 1. og 2. mgr. 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923.  Stefnendur telji að hluti umrædds lands sé svokallað „sameignarland“ en samkvæmt kröfugerð stefnenda taki það einungis til lands Háfs og Háfshjáleigu.  Af hálfu stefnenda sé ekki skýrt hvers vegna þeir telji ekki land Kálfalækjarfarvegar inn að Vatnsbug og land framan við svonefnda landgræðslu girðingu  ekki vera hluta af þessu svonefnda „sameignarlandi.“ 

                Þá byggir þessi stefndi á því að með skiptagerðinni hafi verið afmarkað það land sem land nr. 5 taki til og tilheyri það Háfi og Háfshjáleigu.  Í skiptagerðinni segi svo um hagamörk að land Háfshóls afmarkist af girðingu að vestan að bugðu á Háfshólsskurð, með Halalandi að austan að landi Háfs og Háfshjáleigu í suður.  Hvergi komi fram í skiptagerðinni að Háfshóll hafi land að svonefndu Langaflóði eða vestur að Kvíós eins og kröfugerð stefnenda miði við.  Þá vísar stefndi til korts Ásgeirs Jónssonar þar sem landamerkin séu tilgreind á kortinu með girðingu að vestanverðu.  Síðan afmarkist spildan af skurði og girðingu að vestan í samræmi við skiptagerðina, sbr. 1. mgr. 1. gr. landamerkjalaga nr. 41/1919.

                Eigendur hafi skipt Háfshólnum í tvo hluta 18. júní 1933 að Dyraflóði en ekki að Langaflóði eða Kvíós, sem tilheyri Háfshjáleigu og Háfi.  Í skiptunum sé hvergi minnst á engjar við Langaflóð, en vísað til beinnar línu um vesturbakka Dyraflóðs að mörkum annarra jarða, en það séu Háfur og Háfshjáleiga.

                Stefndi vekur athygli á kröfugerð stefnenda varðandi svokalla engjareim í 2. kröfulið og hornstykki í 3. kröfulið sem byggist á greinargerð Vals Þorvaldssonar en hún sé ósamþykkt af hálfu Háfs og Háfshjáleigu og í engu vikið að skiptagerðinni frá 1929.  Þá byggi stefnendur á framburði Jóns V. Karlssonar, eins stefnenda, fyrir dómi og einhliða lýsingu hans á merkjum sem sé andstæð fyrirmælum skiptagerðarinnar.

                Stefndi kveðst hafa hagnýtt umrætt land sem nýtt hafi verið af Háfi og Háfshjáleigu frá 1929.  Hafi hann ítrekað þurft að kæra stefnanda Jón V. Karlsson vegna tilrauna hans til að koma í veg fyrir hagnýtingu stefnda á landi sínu.

                Stefndi telur að stefnendur hafi ekki fært fram sannanir fyrir því að landamerki milli fasteigna stefnenda og stefnda séu með þeim hætti sem stefnendur haldi fram.

                Stefndi byggir á meginreglum laga um stofnun eignarréttar og eignarráða fasteignareiganda, landskiptalögum nr. 46/1941 og 1. og 2. mgr. 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923.  Krafa um málskostnað er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda Kró ehf.

                Þessi stefndi byggir sýknukröfu sína af dómkröfum 1, 2 og 3 á því að hið forna höfuðból Háfur hafi fengið viðkomandi landsvæði allt frá Keldu sem liggi norðan bæjarstæðanna Hala, Háfshjáleigu og Háfs, að skurði að austan sem merktur sé D á dómskjali nr. 51, allt norður að girðingu merktri C sem afmarki land Háfshóls að sunnan og vestan og allt út í miðjan árfarveg Þjórsár fyrir sínu landi og einnig fyrir landi Háfshóls með girðingu merktri C þar sem Háfur á samkvæmt sama dómskjali ræmu með girðingu merktri C allt til enda þeirrar girðingar sem merkt sé L á kortinu.  Telur stefndi þetta staðfesta að Háfshóll eigi ekki land sunnan við hornmark á skurði á punkti þar sem C og D mætast á sama korti.  Byggir stefndi á því að girðing að vestan sem skýrlega sé tilgreind á korti Ásgeirs Jónssonar marki land Háfshóls gagnvart landi Háfs og séu landamerki samkvæmt 1. mgr. 1. gr. landamerkjalaga nr. 41/1919.  Vísar stefndi til skiptagerðarinnar frá 1929 og sáttagerðarinnar frá 1932.

                Stefndi byggir einnig á því að skipti jarðarinnar Háfshóls innan marka þeirrar jarðar geti ekki haft nokkur réttaráhrif á ofangreind landamerki, þar sem þau skipti hafi ekki snert jörðina Háf, þar sem einungis hafi verið um að ræða löggerning milli eigenda Háfshóls.  Þá sé hvergi tilgreint að hið skipta land nái að Langaflóði eða Kvíósi.

                Stefndi byggir einnig á að stefnendur geti ekki byggt á rangfærslum sem fram komi í stefnu þar sem vitnað sé í landskiptin frá 1929 og bætt við orðunum „en Illukeldu og Langaflóði um Kvíaós að sunnan út í Þjórsá.“  Sé þessi umfjöllun stefnenda um skiptin frá 1929 kolröng og sé um ámælisverða rangfærslu að ræða.

                Þá byggir stefndi á því að framburður stefnanda Jóns V. Karlssonar geti ekki haft nein áhrif þar sem sú skipting sem þar komi fram hafi aldrei verið viðurkennd hvorki fyrr né síðar og ekkert í skiptagerðinni frá 1929 eða sáttagerðinni frá 1932 segi til um að svo sé.  Það sem Jón hafi tjáð sig um í dómsmáli fyrir allmörgum árum hafi ekki fjallað um landsvæði það sem hér sé til umfjöllunar.  Þá geti vettvangsganga Jóns samkvæmt bréfi dags. 15. júní 1983 ekki haft nein réttaráhrif í þessu máli.  Þegar skiptin árið 1929 hafi átt sér stað hafi þáverandi eigandi Hala með Horni skrifað undir það að hafa fengið sitt heimaland, beit og engjaland útskipt úr Háfnum að eigin beiðni.  Hafi markalínan þá verið dregin frá Hornmarki í handgröfnum skurði og girðingu, frá skurði niður í Keldu norðan við Torfamel.  Jón í Hala hafi fengið beiti- og engjaland sitt með mörkum að vestan að áður skiptum engjum, sbr. kortið frá 1928 sem búið hafi verið til samhliða skiptum 1929.  Þá áréttar stefndi að þegar Jón gangi á merkin með Val Þorvaldssyni, semji Valur greinargerð sem lögð hafi verið fram í málinu.  Hún sé hins vegar ekki undirrituð af eigendum jarðanna og er byggt á því að hún hafi ekki gildi í máli þessu.

                Að því er fjórðu dómkröfu stefnenda varðar er sýknukrafa stefnda byggð á því að höfuðbýlið eigi eignarrétt á öllu landi utan skýrra marka útskiptra hjáleigna.  Það land sem myndast hafi sunnan við bæina Háf og Háfshjáleigu sé ný landmyndun sem sé eign höfuðbólsins.  Verði ekki á þetta fallist er byggt á því landspildan sé eign þeirra jarða er eiga land fyrir spildunni, þ.r. Háfs og Háfshjáleigu.  Hið umþrætta land nái niður að þeim merkjum sem marki norðurmerki á svokallaðri Háfsgljá sem dómur hafi gengið um í máli nr. 431/1998.

                Að því er frekari mörk Háfshóls og Hala gagnvart jörðinni Háfi varðar er vísað til greinargerðar meðstefnda án þess að viðurkenndur sé eignarréttur meðstefnda að viðkomandi umdeildum landsvæðum.

                Stefndi byggir einnig á því að jörðin Háfur eigi sitt heimaland og það land sem ekki hafi verið skipt úr jörðinni.  Sé fráleitt að halda því fram að jörðin sé nánast í sameign þeirra hjáleigna sem skipt hafi verið út úr jörðinni eins og stefnendur haldi fram.  Verði að leggja þunga sönnunarbyrði á stefnendur fyrir þeim staðhæfingum.  Þá bendir stefndi á að þrátt fyrir að jörðin Háfur með Háfshjáleigu telji stærri hluta af landsvæði í hekturum talið, verði að líta til þess að land jarðarinnar Háfs sé sundur slitið með eignahlutum annarra aðila málsins og virðist því rýrari eign fyrir vikið.

                Stefndi tekur fram að jörðin Háfur hafi verið í eyði frá 1938 og ekki verið nýtt að neinu gagni af eigendum sínum allt þar til Ólafur Þórarinsson hafi keypt jörðina um 1951.  Á þeim tíma sem ekki hafi verið búið á jörðinni hafi nærliggjandi jarðir nýtt Háfinn hvort sem það hafi verið með leyfi landeiganda eður ei.

                Stefndi byggir á meginreglum laga um stofnun eignarréttar og eignarráða fasteignareiganda, landskiptalögum nr. 46/1941 og 1. og 2. mgr. 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923.  Krafa um málskostnað er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Niðurstaða.

                            Stefnendur byggja fyrstu dómkröfu sína á því að svokallaðir Háfshólsbakkar hafi tilheyrt Háfshólnum að minnsta kosti allt frá því að sáttagerð hafi verið gerð þann 20. janúar 1932 með eigendum í Háfshverfi.  Hafi sáttagerðin staðfest að fara hefði átt eftir jarðamati frá 1845 og hafi komist á sátt með aðilum um endanleg landskipti á Háfshverfinu.  Stefndu byggja á því að hvorki í skiptagerðinni frá 1929 né í sáttagerðinni frá 1932 komi fram að Háfshóll eigi land að Langaflóði.  Girðing að vestan sem merkt sé á korti Ásgeirs Jónssonar frá 1928 sé í samræmi við þessa gerninga og komi þar skýrt fram að land Háfshóls nái ekki að Langaflóði.

                Með dómi Hæstaréttar Íslands upp kveðnum 21. september 1981 var staðfest sú niðurstaða landamerkjadóms Rangárvallasýslu frá 29. maí 1978 þess efnis að leggja beri ákvæði sáttagerðarinnar frá 20. janúar 1932 til grundvallar ákvörðunar merkjum milli Háfs og Háfshóls og af því leiði að um merki mili Háfshjáleigu og Háfshóls skuli einnig fara eftir sáttagerðinni.  Með undirritun sáttagerðarinnar létu aðilar hennar þess sérstaklega getið að með henni væri lokið öllum ágreiningi viðvíkjandi landamerki nefndra jarða og full og óhagganleg sátt komin milli þeirra um allt hvað landamerkjunum viðkæmi. 

                Fallast ber á þá málsástæðu stefndu að hvergi í ofangreindum gerningum komi fram að Háfshóll eigi land að Langaflóði.  Þá verður að hafna þeirri málsástæðu stefnenda að byggja beri á framburði eins stefnenda fyrir dómi í öðru dómsmáli um mörk landareignanna.  Þar sem stefnendum hefur að mati dómsins ekki tekist að sanna að Háfshólsbakkar tilheyri Háfshólnum verður þessum kröfulið hafnað.

                Önnur og þriðja dómkrafa stefnenda er byggð á greinargerð oddamannsins Vals Þorvaldssonar frá 27. júní 1984 um landamerki jarðanna Hala og Brautartungu gagnvart jörðunum Háfi, Háfshjáleigu og Háfshóli, en þar sé sérstaklega tekið fram hvernig landamerki engjareimar og horntanga Halans séu.  Hafi greinargerðin verið lögð fram í Hæstaréttarmálinu nr. 431/1998 og ekki verið vefengd eða mótmælt.  Stefndu hafa mótmælt greinargerð þessari sem óstaðfestri en hún er ekki undirrituð af öðrum en oddamanni. 

                Samkvæmt greinargerðinni var umræddur Valur dómkvaddur af sýslumanni Rangárvallasýslu 7. júlí 1983 til þess að ganga á landamörk ofangreindra jarða og skrásetja landamerki.  Kemur fram í greinargerðinni að mættir hafi verið eigendur jarðanna og hafi við lok vettvangsgöngu ekki verið ágreiningur um þau landamerki sem lýst var í greinargerðinni, m.a. að því er varðar þá landskika sem annar og þriðji kröfuliður stefnenda tekur til.  Eigandi Háfshjáleigu, Dieter Pollitz, kom fyrir dóm og skýrði svo frá að hann myndi eftir þessari vettvangsgöngu en hann mundi ekki lengur hver niðurstaðan varð.  Hann staðfesti að eigandi Hala hefði ávallt nytjað þá landskika sem hér er fjallað um.  Ekki er að sjá að neinar athugasemdir hafi komið fram um þá nýtingu og þá verður ekki séð að skýrsla Vals hafi verið vefengd fyrr en stefndu tóku til varna í þessu máli.  Eins og rakið hefur verið voru ekki gerðar athugasemdir við efni þessa skjals við framlagningu þess í ofangreindu Hæstaréttarmáli og verður því að byggja á því að eigendur umræddra jarða hafi á árinu 1984 orðið ásáttir um að landskikar þessir tilheyrðu Hala.  Þeirri niðurstöðu hefur ekki verið hnekkt og þar sem stefndu hafa ekki gert athugasemdir við hnitasetningar stefnenda verður fallist á þessar dómkröfur þeirra.

                Fjórða dómkrafa stefnenda byggir á skiptagerðinni frá 1929 þar sem þess er getið að suðurmörk heimalands Háfs með Háfshjáleigu og Hala með Horni séu endimörk nessins suður af bæjunum, takmörkuð við Kálfalæk sem rann við Nesbakkann.  Kálfalæk hafi verið veitt í vélgrafinn skurð töluvert suður á Háfsgljánni og byggja stefnendur á því að samkvæmt 2. mgr. 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923 breytist merki eigi þótt farvegur breytist.  Stefnendur marka kröfulínu sína að sunnan við hinn vélgrafna skurð.  Málsaðilar deila um það hvar hinn forni farvegur Kálfalækjar liggur. 

                Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923 á hvort land í miðjan farveg skilji á eða lækur landareignir og samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laganna breytast merki eigi þótt farvegur breytist.  Eins og rakið hefur verið hefur Kálfalæk verið veitt í vélgrafinn skurð og við vettvangsgöngu í máli þessu var þess freistað að upplýsa hvar hinn forni farvegur Kálfalækjar væri.  Voru skoðanir aðila vægast sagt mjög skiptar um það atriði.  Að mati dómsins hafa stefnendur ekki aflað viðhlítandi sérfræðigagna að þessu leyti, t.d. álits jarðfræðinga, en sönnunarbyrðin um það hvar hinn forna farveg sé að finna hvílir á stefnendum.  Bera stefnendur hallann af þessum sönnunarskorti og verður fjórðu dómkröfu þeirra því hafnað.

                Eftir þessum úrslitum og með hliðsjón af atvikum öllum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

                Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kvað upp dóminn.  Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en lögmenn aðila töldu ekki þörf endurflutnings.

DÓMSORÐ:

Fallist er á þá kröfu stefnenda, Sigurjóns O. Sigurðssonar, Önnu Sigrúnar Guðmundsdóttur, Vilhjálms Helga Guðmundssonar, Hugrúnar Guðmundsdóttur, Jóns Vilbergs Karlssonar og Finnboga Jóhanns Jónssonar að landamerki engjareimar Hala milli jarðanna Háfshóls, Háfs og Háfshjáleigu séu sem hér segir:

Frá punkti H-8 Langaflóðsþúfa 136 (E416445-N366025) í gegnum punkt J-10 Langaflóð 179 (E416405-N365957), punkt J-9 Langaflóð 178 (E416347-N365933), punkt J-8 Kvíaós við Langaflóð 177 (E416311-N365830), punkt J-7 Kvíaós 176 (E416267-N365846), punkt J-6 Kvíaós 175 (E416085-N365757), punkt H-6 Engjareim við Kvíaós 141 (E416079-N365773), punkt H-7 Engjareim við Langaflóð 140 (E416379-N366073) aftur að punkti H-8 Langaflóðsþúfa 136 (E416445-N366025) eins og fram kemur á uppdrætti á dskj. nr. 4.

                Þá er fallist á þá kröfu stefnenda að landamerki af hluta horntanga Hala milli Háfshóls, Háfs og Háfshjáleigu séu sem hér segir:

Frá punkti H-9 Langaflóð 135 (E416507-N366121), í gegnum punkt H-10 Langaflóð 134 (E416610-N366169), punkt H-11 Langaflóð 133 (E416661-N366103), punkt H-12 Langaflóð 132 (E416725-N366070), punkt J-15 Langaflóð LA5 (E416751-N366036), punkt J-14 Skurður 182 (E416699-N365968), punkt J-13 Skurður 181 (E416623-N365998), punkt J-12 Skurður 180 (E416553-N365967), punkt J-11 Langaflóð LA4 (E416494-N366114), aftur að punkti H-9 Langaflóð 135 (E416507-N366121), eins og fram kemur á uppdrætti á dskj. nr. 5.

Stefndu, Vorland ehf. og Kró ehf., eru að öðru leyti sýknir af kröfum stefnenda í máli þessu.

                 Málskostnaður fellur niður.