Hæstiréttur íslands

Mál nr. 594/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðild
  • Geðrannsókn


                                     

Fimmtudaginn 12. september 2013.

Nr. 594/2013.

Ríkissaksóknari

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

X

(Haukur Örn Birgisson hrl.)

Kærumál. Aðild. Geðrannsókn.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu um að X yrði gert að sæta geðrannsókn.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. september 2013 sem barst héraðsdómi degi síðar og réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 3. september 2013, þar sem hafnað var kröfu lögreglustjórans á Vestfjörðum um að varnaraðila yrði gert að sæta geðrannsókn. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á kröfu hans um að varnaraðili sæti geðrannsókn og að dómkvaddur verði geðlæknir til að framkvæma rannsóknina.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Lögreglustjórinn á Vestfjörðum hefur annast rannsókn mála þar sem varnaraðili er grunuð um refsiverða háttsemi en ríkissaksóknari hefur nú tekið við aðild málsins til sóknar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 3. september 2013.

Sóknaraðili, lögreglustjórinn á Vestfjörðum, hefur með erindi, dagsettu og mótteknu 28. júní 2013, krafist þess að varnaraðila, X, [...], [...], verði gert að sæta geðrannsókn og að dómkvaddur verði geðlæknir til að framkvæma geðrannsóknina.

Varnaraðili krefst þess í málinu að ofangreindri kröfu sóknaraðila verði hrundið.

Málið var þingfest 29. júlí 2013 og tekið til úrskurðar 12. ágúst sl.

I

Krafa lögreglustjóra er til komin vegna tveggja sakamála, sem lögreglan á Vestfjörðum hefur til rannsóknar, er varða meinta refsiverða háttsemi varnaraðila. Annars vegar er um að ræða atvik er áttu sér stað um miðnætti 20. janúar 2012. Er varnaraðila meðal annars gefið að sök að hafa þá reynt að stinga mann með hnífi og skærum og í kjölfarið veist að lögreglu með hnífnum. Hins vegar er varnaraðila gefið að sök brot gegn valdstjórninni með hótunum í garð lögreglumanna 12. nóvember 2012.

Í kröfu lögreglustjóra kemur fram að hann telji nauðsynlegt að dómkvaddur verði matsmaður til að framkvæma geðrannsókn á varnaraðila. Leggja þurfi fyrir matsmann að meta:

1.       Hvort varnaraðili hafi verið sakhæfur, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, er hin meintu brot voru framin.

2.       Hvort ástand varnaraðila hafi verið með þeim hætti að 16. gr. almennra hegningarlaga hafi átt við um hann er hin meintu brot voru framin.

3.       Geðrænt heilbrigði X nú og hvort refsing geti borið árangur, sbr. 16. gr. almennra hegningarlaga, eins og ástand hennar og þroskastig sé í dag.

4.       Og, ef talið verði að 15. eða 16. gr. almennra hegningarlaga eigi við um varnaraðila, hvort nauðsynlegt þyki vegna réttaröryggis, að gerðar skuli ráðstafanir til að vernda því að háski verði af varnaraðila með því að hann sæti öruggri gæslu, eða hvort beita skuli vægari ráðstöfunum eða vistun á hæli, sbr. 62. og 63. gr. almennra hegningarlaga.

Til stuðnings kröfum sínum vísar lögreglustjóri til 2. mgr. 77. gr. og 1. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

II

Fyrir liggur að á þriðja ár er liðið frá því varnaraðili gekkst undir geðrannsókn á grundvelli úrskurðar héraðsdómara, sbr. framlagða matsgerð Láru Björgvinsdóttur geðlæknis, dagsetta 12. janúar 2011. Voru niðurstöður hins dómkvadda matsmanns þessar:

1.       Það er niðurstaða mín að X sé sakhæf.

2.       Hún hefur engin merki um sturlun, geðrof né rugl nú og ekkert bendir til þess að hún hafi verið í slíku ástandi þegar meint brot var framið.

3.       Erfitt er að meta grunnpersónuleika hennar vegna langvarandi neyslu og þunglyndis en ekkert bendir til alvarlegrar persónuleikaröskunar, heilaskaða eða greindarskorts sem eru af þeirri gráðu að þau firri hana ábyrgð gerða sinna.

4.       Daginn sem meint brot átti sér stað var hún örugglega undir miklum áhrifum frá áfengi og róandi lyfjum. Slíku vímuástandi fylgja margvísleg einkenni eins og miklar tilfinningalegar sveiflur, afhömlun, skert dómgreind, minnkuð skynjun á umhverfinu, truflun á minni og skilningi. Það eitt getur útskýrt hegðun hennar brotadag.

5.       Geðræn einkenni þau sem að ofan er lýst leiða ekki til ósakhæfni samkvæmt 15. grein hegningarlaga.

6.       Þau útiloka heldur ekki fangelsisvist né að refsing komi að gagni.

7.       X hefur að mörgu leyti tekið sig á. Hún er búin að stunda endurhæfingarprógramm í haust. Hún hefur tekið lyf en þó nokkuð óreglulega, sleppt úr skömmtum eða tekið uppsafnaða skammta (samkvæmt henni). Hún hefur einnig reykt hass og misnotað lyf. Glímir á köflum við mikla fíkn. Hennar batahorfur teljast þokkalegar ef hún heldur sig frá vímuefnum. Það mætti hugsa sér að ef hún væri fundin sek að fullnusta dóms færi að einhverju leyti fram á viðeigandi stofnun fyrir vímuefnaneytendur.

III

Í 2. mgr. 77. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er kveðið á um það að ef vafi leiki á hvort sakborningur sé sakhæfur eða refsing geti borið árangur vegna andlegs ástands hans sé rétt að láta hann sæta sérstakri geðrannsókn til þess að leiða þessi atriði í ljós. Skilyrði fyrir geðrannsókn er að rökstuddur grunur leiki á að sakborningur hafi framið brot sem varðað getur fangelsisrefsingu að lögum.

Svo sem rakið er í kafla II hér að framan gekkst varnaraðili undir geðrannsókn að kröfu ákæruvalds í upphafi árs 2011. Var niðurstaða hins dómkvadda matsmanns afdráttarlaus um að varnaraðili væri sakhæfur og að þau geðrænu einkenni sem fram hefðu komið við geðrannsóknina útilokuðu ekki að fangelsisvist eða refsing kæmi að gagni. Í máli þessu hefur ekkert haldbært fram komið um að ástand varnaraðila sé nú breytt hvað nefnd atriði varðar. Þvert á móti má af gögnum málsins ráða að meint háttsemi varnaraðila geti, nú sem fyrr, skýrst af vímuástandi varnaraðila einu. Að þessu virtu þykja því ekki vera uppfyllt lagaskilyrði fyrir þeirri kröfu sóknaraðila að varnaraðila verði gert að sæta geðrannsókn gegn vilja sínum. Verður henni því hrundið.

Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu sóknaraðila, lögreglustjórans á Vestfjörðum, um að varnaraðila, X, verði gert að sæta geðrannsókn, er hrundið.