Hæstiréttur íslands
Mál nr. 309/2006
Lykilorð
- Vátryggingarsamningur
- Slysatrygging
- Kröfugerð
- Málsforræði
|
|
Fimmtudaginn 9. nóvember 2006. |
|
Nr. 309/2006. |
Sveinn Lárus Ólafsson(Jónatan Sveinsson hrl.) gegn ACE Insurance S.A.N.V. (Baldvin Hafsteinsson hrl.) |
Vátryggingarsamningur. Slysatrygging. Kröfugerð. Málsforræði.
S keypti af A lög- og samningsbundna líf- og slysatryggingu sjómanna fyrir áhöfn sína 14. júní 2001. Var um að ræða vátryggingu í samræmi við ákvæði 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Þann 30. júní 2001 kvað gerðardómur upp úrskurð sem breytti ákvæði kjarasamnings þess sem S var aðili að, varðandi slysatryggingar sjómanna þannig að bætur skyldu ákvarðast á grundvelli reglna skaðabótalaga nr. 50/1993 ef það leiddi til hærri heildarbóta en samkvæmt 172. gr. siglingalaga. Skipverji í áhöfn S slasaðist við vinnu sína 14. ágúst 2001. S var dæmdur skyldur til að greiða skipverjanum skaðabætur í samræmi við úrlausn gerðardómsins. S krafðist þess að A yrði gert að greiða S sömu fjárhæð og honum sjálfum var skylt að greiða skipverjanum. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti, var kröfu S hafnað. Þar sem A var hvorki aðili að umræddum kjarasamningi né bundinn af niðurstöðu gerðardómsins var bótaskylda hans eingöngu leidd af vátryggingasamningum hans við S. A hafði þegar innt af hendi bótagreiðslur í samræmi við vátryggingasamninga aðila og var því sýknaður af kröfu S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. júní 2006. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 9.544.459 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 8.807.675 krónum frá 14. júlí 2004 til 15. júlí 2005, en af 9.544.459 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í hinum áfrýjaða dómi kemur fram að áfrýjandi kveðist „standa frammi fyrir því“ að gera upp slysabætur til skipverjans sem slasaðist 14. ágúst 2001 og fékk tildæmdar bætur í Héraðsdómi Reykjaness 1. júlí 2005. Þeim dómi var ekki áfrýjað. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti staðfesti áfrýjandi að hann hefði ekki enn greitt skuld sína samkvæmt þessum héraðsdómi. Hugsanleg fjárkrafa hans á hendur stefnda verður ekki til fyrr en skuldin samkvæmt dóminum hefur verið greidd. Samkvæmt þessu skortir almenn skilyrði fyrir því að áfrýjandi geti krafist aðfarardóms á hendur stefnda svo sem hann gerir í málinu. Á hinn bóginn hefur stefndi ekki mótmælt kröfunni á þessum grundvelli heldur þvert á móti samþykkt að um aðfararhæfa kröfu á hendur sér sé að ræða, verði á hana fallist. Þar sem um er að ræða málsatriði sem hann hefur forræði á, verður krafa áfrýjanda af þessum sökum tekin til efnisdóms þrátt fyrir að svona standi á um hana. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Eftir þessum úrslitum skal áfrýjandi greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Sveinn Lárus Ólafsson, greiði stefnda, ACE Insurance S.A.N.V., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. mars 2006.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 1. mars 2006, var höfðað 23. september 2005. Stefnandi er Sveinn Lárus Ólafsson, Suðurgötu 53, Siglufirði en stefndi er tryggingafélagið ACE Insurance S.A.N.V. Stortorvet 3, Osló, Noregi.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 9.544.459 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 6. og 9. gr. laga nr. 38/2001 af 8.807.675 krónum frá 14. júlí 2004 til 15. júlí 2005 en af 9.544.459 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda eru að hann verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
II
Stefnandi er eigandi og útgerðarmaður fiskiskipsins Reynis GK-177 (1105). Stefndi er norskt tryggingafélag sem fyrir milligöngu vátryggingamiðlarans Alþjóðlegrar miðlunar ehf. hefur á undanförnum árum haft með höndum vátryggingastarfsemi hér á landi. Stefnandi kveðst um árabil hafa átt og gert út fiskibáta af minni gerðinni og hafi hann hafið tryggingaviðskipti við stefnda vegna þessara báta snemma ársins 1997. Þessari fullyrðingu stefnanda mótmælir stefndi þar sem hið rétta sé að einu samskipti aðila þessa máls hafi verið vegna þeirrar tryggingar sem tekist sé á um í máli þessu.
Stefnandi kveður að í júní 2001 hafi orðið kaflaskipti í útgerðarmálum hans er hann hafi keypt Reyni GK-177. Til undirbúnings lögskráningu áhafnar á það skip hafi hann keypt af stefnda lög- og samningsbundna líf- og slysatryggingu sjómanna fyrir fjögurra manna áhöfn á skipið hinn 14. júní 2001. Hér var um að ræða vátryggingu í samræmi við ákvæði 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Umboðsmaður stefnda sendi lögskráningastjóranum í Keflavík staðfestingu um kaupin á tryggingunum en til stóð að lögskrá á skipið 18. júní 2001. Hinn 1. ágúst 2001 var fjölgað í áhöfn skipsins um tvo skipverja og óskaði stefnandi eftir því að þeim yrði bætt inn á þá tryggingu sem fyrir var og eftir það var sex manna áhöfn skipsins tryggð hjá stefnda fram til 13. júní 2002.
Hinn 16. maí 2001 voru samþykkt lög nr. 34/2001 um kjaramál fiskimanna og fleira sem bönnuðu verkfall sjómanna sem þá hafði staðið um nokkra hríð. Kváðu lögin á um skipan þriggja manna gerðardóms sem skyldi skera úr um tiltekin ágreiningsefni aðila vinnudeilunnar þar á meðal um atriði er vörðuðu slysatryggingar sjómanna.
Stefnandi kveðst hafa lögskráð á skipið í samræmi við ákvæði gerðardómslaganna upp á væntanlega kjarasamninga, svo sem öll önnur fiskiskip sem hófu veiðar á þessu tímabili hafi gert, og kveður hann að hvorki við kaupin á slysatryggingunni né við lögskráningu áhafnarinnar hafi verið rætt sérstaklega um horfur á niðurstöðu gerðardómsins í þessum efnum. Hafi verið gengið út frá því að slysatryggingin hefði að geyma fullnægjandi tryggingarvernd fyrir hina tryggðu sjómenn samkvæmt hinum væntanlegu kjarasamningum.
Gerðardómurinn kvað upp úrskurð 30. júní 2001 um breytingar á kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna og Sjómannasambands Íslands og kemur þar fram að hinn lögfesti kjarasamningur málsaðilanna Sjómannasambands Íslands og Landsambands íslenskra útvegsmanna frá 27. mars 1998 framlengdist með nánar tilgreindum breytingum til 31. desember 2003. Með úrskurði gerðardómsins breyttist ákvæði kjarasamningsins um slysatryggingar og var meginbreytingin fólgin í því að bætur skyldu ákvarðast á grundvelli reglna skaðabótalaga nr. 50/1993 ef það leiddi til hærri heildarbóta en samkvæmt 172. gr. laga nr. 34/1995.
Skipverji á Reyni GK-177, Ásgeir Jónsson, slasaðist 14. ágúst 2001 við vinnu sína um borð í skipinu er fiskkar rann á hann og fékk hann við slysið áverka á hægra hné. Afleiðingar slyssins á heilsu skipverjans voru metnar af matsmanninum Sigurjóni Sigurðssyni lækni og var það hans niðurstaða að varanlegur miski Ásgeirs teldist 10% og varanleg örorka hans teldist 15%. Ásgeir höfðaði mál á hendur stefnanda þessa máls til greiðslu bóta vegna tjónsins sem hann hlaut í slysinu og var það mál þingfest í Héraðsdómi Reykjaness 11. september 2002. Dómur var kveðinn upp í því máli 1. júlí 2005 og voru dómkröfur skipverjans á hendur stefnanda teknar til greina og var stefnandi þannig dæmdur til að greiða honum 9.275.526 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 14. ágúst 2001 til 14. apríl 2004 en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. og 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags allt að frádregnum 1.444.990 krónum. Þá var stefnandi dæmdur til greiðslu málskostnaðar og viðurkenndur var sjóveðréttur í bátnum fyrir tildæmdum fjárhæðum.
Áður en dómur var kveðinn upp í fyrrgreindu dómsmáli í Héraðsdómi Reykjaness höfðaði stefnandi mál á hendur stefnda í Héraðsdómi Reykjavíkur, sbr. mál nr. E-14308/2004 þar sem hann gerði þær kröfur aðallega að viðurkennt væri með dómi að stefnda væri skylt að bæta stefnanda það tjón sem hann kynni að verða dæmdur til að greiða Ásgeiri Jónssyni í fyrrgreindu dómsmáli. Til vara krafðist hann þess að viðurkennt væri með dómi að bótaábyrgð stefnda vegna slyssins verði eigi ákveðin takmarkaðri en sem nemi bótarétti skipverjans samkvæmt ákvæðum 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985 svo sem hann hafi verið ákveðinn með úrskurði gerðardóms 30. júní 2001. Í málinu byggði stefndi sýknukröfu sína fyrst og fremst á því að umrædd trygging væri fallin úr gildi vegna vanskila stefnanda en á það féllst dómurinn ekki. Niðurstaða dómsins var sú að viðurkennd var krafa stefnanda um að stefnda væri skylt að bæta stefnanda það tjón sem hann kynni að verða dæmdur til að greiða skipverjanum í Héraðsdómi Reykjaness og miðist bótaábyrgð hans við ákvæði 172. gr. siglingalaga.
Stefnandi áfrýjaði framangreindum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur til Hæstaréttar og krafðist þess að fallist yrði á þá kröfu hans að bótaábyrgð stefnda samkvæmt umræddum vátryggingasamningum við stefnda frá 14. júní og 1. ágúst 2001 um líf- og slysatryggingu áhafnarinnar á vs. Reyni GK-177 markist af ákvæðum greinar 1.22 í gildandi kjarasamningi sjómanna á slysdegi svo sem þau voru ákvörðuð af gerðardómi samkvæmt lögum nr. 34/2001 um kjaramál fiskimanna og fleira, sem upp var kveðinn 30. júní 2001. Í niðurstöðu Hæstaréttar er staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að 14. ágúst 2001 hafi verið í gildi vátryggingasamningur milli aðila en kröfum stefnanda var að öðru leyti vísað frá héraðsdómi með vísan til 4. mgr. 114. gr. 80. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi kveðst fyrst hafa verið kunnugt um slys það sem hér er fjallað um þann 28. september 2001 er lögmaður tjónþolans krafði uppgjörsaðilann, Tjónamat og Skoðun ehf., um upplýsingar. Þar sem greiðslur vegna iðgjalda hefðu misfarist leit stefndi svo á að tryggingin væri niður fallin en hann féll síðar frá þeirri skoðun sinni.
Stefndi greiddi tjónþolanum, Ásgeiri Jónssyni, bætur hinn 15. apríl 2005 miðað við þær forsendur sem hann taldi vera í samræmi við ákvæði tryggingarinnar og hefur litið svo á að þar með hafi hann uppfyllt skyldur sínar samkvæmt vátryggingasamningi aðila. Voru þær bætur mótteknar með fyrirvara um fjárhæð þeirra og dráttarvexti en samtals greiddi stefndi 1.125.960 krónur,þar af bætur að fjárhæð 823.650 krónur.
Í málinu er ekki ágreiningur um útreikning kröfunnar heldur deila aðilar um inntak tryggingar þeirrar sem stefnandi keypti af stefnda 14. júní 2001 og 1. ágúst 2001 en ekki er ágreiningur um að vátryggingarsamningur var í gildi milli aðila þegar umræddur tjónsatburður átti sér stað.
III
Stefnandi kveður kröfugerð sína vera í samræmi við dómsorð dóms Héraðsdóms Reykjaness frá 1. júlí 2005 í máli nr. E-2908/2002, Ásgeir Jónsson gegn stefnanda og sundurliðist hún svo:
|
Höfuðstóll |
9.275.526 |
|
Innborganir |
-1.444.990 |
|
4,5% vextir frá 14.apríl 2001 til 14.apríl 2004 |
977.139 |
|
Höfuðstóll dómkröfu |
8.807.675 |
|
Dæmdur málskostnaður |
613.120 |
|
Annar kostnaður |
88.992 |
|
Vextir af kostnaði |
34.672 |
|
Dómkrafa í heild pr. 15. júní 2005 |
9.544.459 |
Í samræmi við niðurstöðu slysamálsins sé krafist dráttarvaxta af 8.807.139 krónum frá 14. apríl 2004 til 15. júní (sic) 2005 og af 9.544.459 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnandi kveðst standa frammi fyrir því að gera upp slysabætur til skipverjans og tjónþolans Ásgeirs Jónssonar á grundvelli framangreinds dóms. Hafi hann því lögvarða hagsmuni af því að fá dóm fyrir því að stefnda sé skylt, á grundvelli þeirrar slysatryggingar sem hann seldi stefnanda vegna áhafnar skipsins, að greiða stefnanda sömu fjárhæð og stefnandi hafi verið dæmdur til að greiða tjónþolanum.
Stefnandi kveðst byggja dómkröfu sína á hendur stefnda á því að hann eigi rétt til bóta úr hendi stefnda á grundvelli slysatryggingarsamnings milli aðila sem gerður var 14. júní 2001 og viðauka við þann samning sem gerður var 1. ágúst 2001. Eigi hann rétt til bóta úr hendi stefnda sem svari til þeirrar skaðabótafjárhæðar sem skipverjanum hafi verið dæmd með fyrrgreindum dómi Héraðsdóms Reykjaness 1. júlí 2005. Hafi skipverjanum verið dæmdar bætur úr hendi stefnanda sem útgerðarmanns á grundvelli 1. mgr. 172. gr. siglingalaga að því er varði sjálfa bótaábyrgð stefnanda sem útgerðarmanns skipsins og hvað snerti fjárhæð bótanna á grundvelli greinar 1.22. í þeim kjarasamningi sjómanna sem gilt hafi þegar slysið varð. Á grundvelli þessara sömu lagaákvæða og ákvæða í kjarasamningi sjómanna hafi stefnanda sem útgerðarmanni skipsins borið að kaupa slysatryggingu til verndar áhöfn skipsins fyrir þessari skilgreindu áhættu og ábyrgð útgerðarmannsins samkvæmt 1. mgr. 172. gr. siglingalaga.
Byggi stefnandi á því að hér sé um að ræða lög- og kjarasamningsbundna ábyrgðartryggingu útgerðarmanna sem í öllum aðalatriðum megi jafna við ábyrgðartryggingu eiganda ökutækis samkvæmt XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987. Slysatrygginguna hafi stefnandi keypt af stefnda í þeirri góðu trú að hann væri að efna þá skyldu sem á honum hafi hvílt um kaup slysatryggingar. Hafi hann talið að hún hefði að geyma fullnægjandi tryggingarvernd fyrir stefnanda sem útgerðarmann og um leið fullnægjandi tryggingarvernd fyrir áhöfn skipsins vegna þeirrar bótaábyrgðar sem hvílt hafi á stefnanda sem útgerðarmanni skipsins á grundvelli 1. mgr. 172. gr. siglingalaga og tilsvarandi ákvæða í gildandi kjarasamningum sjómanna á hverjum tíma. Þá hafi stefnandi trúað því að tryggingin fæli í sér tryggingarvernd samkvæmt væntanlegum kjarasamningi sem komist hafi á þann 30. júní 2001 og hafi verið í gildi þegar slysið varð. Sömu trúar um inntak slysatryggingarinnar hafi lögskráningarstjórinn í Keflavík verið, en hann hafi fengið senda staðfestingu frá stefnda á því að stefnandi hefði keypt þar slysatryggingu fyrir áhöfn skipsins til að mæta ábyrgð stefnanda sem útgerðarmanns samkvæmt 1. mgr. 172. gr. og tilsvarandi ákvæði í væntanlegum kjarasamningi sjómanna sem stefnanda hafi verið skylt að kaupa svo að unnt væri og heimilt að lögskrá skipið 18. júní 2001.
Stefnandi fellst ekki á þau sjónarmið stefnda að hann hafi þegar greitt tjónþola bætur á grundvelli slysatryggingarsamnings aðila á þeim rökum að trygging sú sem stefnandi hafi keypt af stefnda hafi verið svokölluð frjáls trygging í skilningi laga um vátryggingasamninga, þar sem aðilar ráði efni tryggingarsamnings. Í fyrsta lagi megi nefna að enginn skriflegur vátryggingasamningur hafi verið gerður um áhafnartrygginguna og verði því ekkert ráðið af efni slíks samnings um inntak tryggingarinnar. Að mati stefnanda hafi stefnda átt eða mátt vera ljóst, sbr. hina almennu tryggingaskilmála sem fylgdu tryggingakaupunum, að hér hafi verið um að ræða lög- og kjarasamningsbundna líf- og slysatryggingu sem útgerðarmönnum hafi verið skylt að kaupa til að fullnægja tilteknum laga- og kjarasamningsskyldum sínum, sbr. 2. mgr. 1. mgr. 172. gr. siglingalaga og tilsvarandi ákvæði í gildandi kjarasamningi sjómanna á hverjum tíma þar sem sjómönnum hafi verið áskilin tiltekin lágmarks tryggingavernd. Hafi stefndi staðið frammi fyrir því 14. júní 2001 að selja stefnanda slysatryggingu með fullnægjandi tryggingavernd eða selja honum enga slíka tryggingu.
Hafi stefndi í raun talið sig vera að selja slysatryggingu með takmarkaðri og ófullnægjandi tryggingavernd í framangreindum skilningi hafi honum borið að geta þess sérstaklega í staðfestingu sinni um tryggingakaupin til lögskráningarstjórans í Keflavík. Það hafi stefndi ekki gert svo sem staðfestingargögn hans beri með sér og því sé fráleitt að hann beri slíkar varnir fyrir sig nú. Sé ljóst að lögskráningarstjórinn hafi tekið staðfestingarnar góðar og gildar um að stefnandi hefði keypt fullnægjandi slysatryggingu þannig að heimilt hafi verið að lögskrá áhöfn á bátinn.
Við lögskráningu á bátinn í byrjun árs 2002 hafi stefndi staðfest með símbréfi til lögskráningarstjórans í Keflavík 2. janúar 2002 að hjá stefnda væri til staðar slysatrygging fyrir áhöfn bátsins samkvæmt samningum og lögum nr. 34/1984. Hér sé að sjálfsögðu verið að staðfesta tilvik og inntak slysatrygginganna sem teknar hafi verið 14. júní og 1. ágúst 2001 og að tryggingavernd skipverja á grundvelli hennar væri í samræmi við ákvæði 172. gr. siglingalaga og grein 1.22 í gildandi kjarasamningi sjómanna.
Þá telur stefnandi að ganga verði út frá því að starfsmenn erlendra tryggingafélaga sem starfsleyfi hafi hér á landi, sbr. 81. gr., sbr. 22. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi, þekki efni íslenskra laga um lögskráningu sjómanna, einkum þó ákvæði 6. tl. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 43/1987 og ákvæði 172. gr. siglingalaga um skyldu útgerðarmanna til að kaupa slysatryggingu fyrir sjómenn og ákvæði kjarasamninga sjómanna í þeim efnum. Samkvæmt því eigi slík félög aðeins að hafa á boðstólum þær slysatryggingar sjómanna sem séu í samræmi við gildandi lög og kjarasamninga. Sala á slysatryggingum sjómanna sem veiti lakari réttindi en ákvæði gildandi kjarasamningar kveði á um sé andstæð þessum lögum og því ólögmæt.
Við úrlausn þess ágreinings sem hér sé uppi stoði ekki fyrir stefnda að bera fyrir sig lögvillu varðandi tryggingaréttindi sjómanna heldur verði að ganga út frá því að starfsmenn stefnda sem hafi gefið sig sérstaklega út fyrir að selja útgerðarmönnum slysatryggingar sjómanna hefðu átt að hafa vitneskju um efni greinar 1.22. í eldri kjarasamningum frá 1995 og 1998 og þannig átt að hafa vitneskju hinn 14. júní 2001 um að gerðardómi hefði verið falið að skera úr ágreiningi um tiltekin kjaraatriði, meðal annars um hækkun slysabóta samkvæmt ákvæði greinar 1.22. og að bætur samkvæmt þeirri grein yrðu ákveðnar á grundvelli reglna skaðabótalaga nr. 50/1993 og að skylt væri að lögskrá á skip sem hæfu úthald áður en úrskurðurinn gengi á grundvelli væntanlegs kjarasamnings sbr. 2. mgr. 3. gr. gerðardómslaga nr. 34/2001.
Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður byggi stefnandi á því að milligöngumönnum stefnda, starfsmönnum Alþjóðlegar miðlunar ehf., sem séð hafi um sölu á slysatryggingunni til stefnanda, hafi orðið á stórfelld mistök í störfum sínum við það verk með þeim afleiðingum að stefnandi sitji nú uppi með óbætt tjón vegna slyssins á skipverjanum sem nemi stefnufjárhæð. Stefnda beri að bæta það tjón á grundvelli reglna skaðabótaréttarins um húsbóndaábyrgð þar sem líta verði á þessa milligöngumenn sem starfsmenn hans í skilningi reglu skaðbótaréttarins um húsbóndaábyrgð.
Til viðbótar framangreindum lagarökum vísar stefnandi til ákvæða laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga, laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi, reglna skaðabótaréttarins um bætur innan samninga og meginreglna samnings- og kröfuréttarins um skyldur til efnda á loforðum. Varðandi málskostnaðarkröfu vísar stefnandi til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Aðalkröfu sína um sýknu kveðst stefndi byggja á því að tjónþola hafi nú þegar verið greiddar bætur í samræmi við ákvæði skilmála vátryggingar þeirrar sem stefnandi keypti 14. júní 2001. Eigi hvorki stefnandi né tjónþoli því frekari kröfur á hendur stefnda. Er tryggingin hafi verið tekin hafi hún verið í fullu samræmi við gildandi reglur um slysatryggingar sjómanna. Á staðfestingu fyrir vátrygginguna komi skýrt fram að hún greiði dánarbætur, örorkubætur og dagpeninga í samræmi við ákvæði 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Sé þetta ítrekað í skilmálum tryggingarinnar þar sem segi að bætur fyrir tímabundna örorku greiðist samkvæmt 172. gr. siglingalaga. Stefndi hafi þannig að fullu staðið við skyldur sínar samkvæmt tryggingarsamningi aðila með greiðslu til tjónþola 15. apríl 2005.
Af málatilbúnaði stefnanda verði helst ráðið, að gerðardómur hafi með afturvirkum hætti átt að binda stefnda og hafi stefnda borið að gæta hagsmuna stefnanda varðandi umfang og inntak slysatryggingarinnar. Þessum sjónarmiðum stefnanda sé alfarið hafnað og mótmælt sem röngum.
Í þessu sambandi bendi stefndi á að gerðardómur sá sem tekið hafi til starfa 1. júní 2001 og settur hafi verið með stoð í lögum nr. 34/2001, hafi verið ætlað að leysa langvinna kjaradeilu milli sjómanna og útvegsmanna. Hvergi í lögunum eða í greinargerð með þeim sjái þess nokkurs staðar merki að þeim hafi verið ætlað að binda aðra aðila en þá sem þar séu nefndir. Hafi það verið ætlun löggjafans, að niðurstaða gerðardómsins yrði bindandi fyrir aðra aðila en í lögunum séu nefndir hafi borið að taka það fram með skýrum og afdráttarlausum hætti. Niðurstaða gerðardómsins geti þannig aldrei bundið aðra en aðila hans. Krafa um bætur á grundvelli ákvæða skaðabótalaga eins og kveðið sé á um í umræddum gerðardómi verði því aldrei reist á hendur stefnda með vísan til gerðardómsins.
Samkvæmt skilmálum tryggingarinnar hafi stefnanda borið að tilkynna stefnda tafarlaust allar breytingar sem valdið gætu aukinni áhættu hjá vátryggjanda. Engar upplýsingar eða ábendingar hafi borist frá stefnanda, hvorki um að gerðardómur væri að störfum né, þegar niðurstaða gerðardóms hafi legið fyrir, hvers eðlis niðurstaðan væri. Sé þetta meðal annars staðfest af stefnanda sjálfum í stefnu. Þá geri skilmálar tryggingarinnar heldur ekki ráð fyrir að bætur til bótaþega séu ákveðnar á grundvelli skaðabótalaga, heldur eftir skilmálum tryggingarinnar og með hliðsjón af fjárhæðum 172. gr. siglingalaga eins og þær hafi verið uppfærðar miðað við slysdag.
Með öllu sé útilokað að stefnandi geti í ljósi þessa borið fyrir sig að hann hafi verið í góðri trú um að tryggingin veitti aðra eða víðtækari vernd en skýrt komi fram í skilmálum og staðfestingum tryggingarinnar. Sé því jafnframt mótmælt sem röngu að ekki sé til skriflegur vátryggingasamningur milli aðila. Stefndi bendir í því sambandi á skriflega beiðni stefnanda, skilmála stefnda og staðfestingar miðlarans á gildi tryggingarinnar sem líta beri á sem hluta af þessum samningi.
Eftir því sem best verði séð haldi stefnandi því fram að tryggingin hafi átt að veita vernd samkvæmt lögum og samningum eins og þau séu á hverjum tíma og að stefnda hafi borið að selja stefnanda tryggingu með fullnægjandi tryggingarvernd. Þegar stefnanda hafi verið seld trygging 14. júní 2001 hafi hún verið í fullu samræmi við ákvæði siglingalaga. Komi það skýrt fram í bæði skilmálum og staðfestingu á tryggingu. Hafni stefndi því alfarið sem röngu að utanaðkomandi atriði eins og kjarasamningar og niðurstaða gerðardóms milli annarra aðila geti með sjálfvirkum hætti haft áhrif á efni og inntak tryggingar án beinnar aðkomu þess sem tryggingarverndina veiti. Af orðalagi ákvæða 172. gr. siglingalaga, 1.22. greinar kjarasamnings og niðurstöðu gerðardóms sé það alveg ótvírætt að öflun trygginga fyrir sjómenn sé alfarið í höndum og á ábyrgð útgerðarmanns. Þá sé sérstaklega tekið fram í 7. gr. 6.tl. laga nr. 43/1987 að líf- og slysatryggingar sjómanna séu alfarið á ábyrgð útgerðarmanns. Til þess að uppfylla skyldur sínar samkvæmt framgreindum ákvæðum hafi stefnanda borið að tilkynna stefnda um breytingar á áhættu og óska eftir hækkun vátryggingar í samræmi við ákvæði gerðardóms. Þessu hafi stefnandi ekki sinnt og verði sjálfur að bera hallann af þessari vanrækslu sinni.
Miðað við þá grundvallar breytingu og aukna áhættu sem gerðardómurinn hafi haft í för með sér hafi stefnandi á engan hátt getað dulist að það myndi leiða til stóraukins iðgjalds. Hafi stefnanda því mátt vera ljóst, út frá iðgjaldakröfum stefnda, að tryggingin veitti ekki þá vernd sem kröfur gerðardómsins hafi gert til hans sem útgerðarmanns.
Með sömu rökum bendi stefndi á að tilkynning til skráningarstjóra varðandi slysatryggingu sem send hafi verið 14. júní 2001 hafi verið rétt og í fullu samræmi við lög og reglur. Tilvísun stefnanda til dómskjals nr. 8 sem staðfestingar á efni og inntaki tryggingarverndar stefnanda sé bæði röng og misvísandi. Tilvitnað dómsskjal sé dagsett 2. janúar 2002, mörgum mánuðum eftir tjónsatburðurinn, og varði allt aðra þætti en hér séu til umfjöllunar. Komi skjal þetta þessu máli ekkert við.
Þá sé því alfarið mótmælt og hafnað sem röngu að unnt sé að leggja svo víðtæka skyldu á starfsmenn vátryggjenda, hvort heldur er innlendra eða erlendra, að þeim sé efnislega kunnugt um kröfur eða deilur milli sjómanna og útgerðarmanna eins og stefnandi telji. Hér verði að líta til meðalhófsins og skoða hvorum aðila það hafi staðið nær að upplýsa um þessi atriði. Óumdeilanlega hafi það staðið stefnanda nær en stefnda.
Þá málsástæðu stefnanda, að stefndi beri ábyrgð á starfsmönnum Alþjóðlegrar Miðlunar ehf. á grundvelli húsbóndaábyrgðar þar sem þeim hafi orðið á stórfelld mistök gagnvart stefnanda, telur stefndi verulega vanreifaða. Sé í engu getið um í hverju meint mistök þessara starfsmanna séu falin. Stefndi bendir sérstaklega á að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að starfsmönnum Alþjóðlegrar miðlunar ehf. hafi orðið á mistök við framkvæmd verka sinna. Þannig hafi stefnanda verið seld trygging sem staðist hafi þær kröfur sem til slíkrar tryggingar hafi verið gerðar á þeim tíma sem hún var seld. Engin önnur atriði hafi komið fram sem réttlæti þessa málsástæðu.
Jafnvel þótt talið verði að starfsmönnum Alþjóðlegrar miðlunar ehf. hafi orðið á mistök, þá hafi ekkert slíkt samningssamband verið milli stefnda og félagsins að hann hefði húsbóndavald yfir þeim starfsmönnum. Alþjóðleg miðlun ehf. hafi verið sjálfstæður vátryggingarmiðlari sem starfað hafi með sérstöku leyfi til að miðla tryggingum milli vátryggingartaka og vátryggjenda. Það geti hins vegar aldrei skapað stefnda þá stöðu að hann hafi beint eða óbeint boðvald yfir Alþjóðlegri miðlun ehf. eða starfsmönnum þess, þó svo að miðlað hafi verið tryggingum fyrir milligöngu þess fyrirtækis og aðila þessa máls.
Um lagarök vísar stefndi til ákvæða laga nr. 20/1954 um vátryggingasamninga, einkum gr. 4 10, laga nr. 34/1985, sbr. 172. gr., laga nr. 43/1987, 5. - 7. gr. Þá vísar stefndi til 130. gr., sbr. 129 gr. laga nr. 91/1991 um málskostnað.
V
Óumdeilt er í máli þessu að milli aðila var gildur samningur um slysatryggingu fyrir áhöfn á skipi stefnanda, Reyni GK-177, þegar skipverjinn Ásgeir Jónsson slasaðist um borð í skipinu hinn 14. ágúst 2001. Aðilar deila hins vegar um inntak þeirrar tryggingar sem stefnandi keypti af stefnda 14. júní 2001, sbr. viðauka við þá tryggingu 1. ágúst 2001. Byggir stefndi sýknukröfu sína á því að hann hafi bætt tjónþola það tjón sem honum bar á grundvelli samnings aðila og í samræmi við ákvæði 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985.
Stefnandi var með fyrrgreindum dómi Héraðsdóms Reykjaness dæmdur til að greiða tjónþolanum, Ásgeiri Jónssyni, bætur á grundvelli 172. gr. siglingalaga og að því er fjárhæð bótanna varðar á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993. Telur stefnandi að hann eigi rétt til bóta úr hendi stefnda sem svarar til þeirrar bótafjárhæðar.
Í 1. mgr. 172. gr. siglingalaga segir að útgerðarmaður beri ábyrgð á kröfum vegna lífs- eða líkamstjóns þeirra sem ráðnir eru í skiprúm hjá honum hafi slys borið að höndum er hlutaðeigandi var staddur á skipi eða vann í beinum tengslum við rekstur skips enda þótt slysið eða tjónið verði ekki rakið til bilunar á tækjum eða ónógra öryggisráðstafana né heldur yfirsjónar þeirra er starfa í þágu skips. Þá segir að lækka megi fébætur eða láta þær niður falla ef sá, sem fyrir slysi eða tjóni varð, sýndi vítavert gáleysi sem leiddi til slyssins eða tjónsins. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins er útgerðarmanni skylt að kaupa tryggingu fyrir dánarbótum og slysabótum er á hann kunna að falla skv. 1. mgr. og sé útgerðarmaður jafnframt í áhöfn skips er honum skylt að tryggja sig með sama hætti. Þá er í ákvæðinu nánar tilgreint hvernig tryggingin skuli vera.
Í málinu er ekki deilt um fjárhæðir og er ekki viðfangsefni þessa máls að fjalla um hinar dæmdu skaðabætur til handa tjónþolanum Ásgeiri Jónssyni. Þá er heldur enginn ágreiningur um það að bætur þær sem stefndi hefur innt af hendi til tjónþolans 15. apríl 2005 séu í samræmi við ákvæði 172. gr. siglingalaga, uppfærðar miðað við slysdag.
Í staðfestingu á slysatryggingu þeirri sem stefnandi keypti af stefnda í gegnum Alþjóðlega miðlun ehf. vegna sex áhafnarmeðlima Reynis GK-177 segir um gildissvið tryggingarinnar að vátryggjandi greiði dánarbætur, örorkubætur og dagpeninga samkvæmt 172. gr. laga nr. 34/1985. Vátryggingatímabil er frá 14. júní 2001 til 13. júlí 2002 vegna fjögurra skipverja en frá 1. ágúst 2001 til 13. júlí 2002 vegna tveggja skipverja. Þá er í staðfestingunni vísað til vátryggingaskilmála fyrir slysatryggingu sjómanna sem dagsettir voru 1. janúar 2001.
Í kjarasamningi milli Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna frá 27. mars 1998, sem var í gildi þegar aðilar gerðu samninginn um slysatryggingu áhafnarinnar á Reyni GK-177 var ákvæði nr. 1.22. sem fjallaði um tryggingar. Þar segir að um líf- og örorkutryggingar fari samkvæmt lögum nr. 34/1985 en jafnframt tilgreind nokkur frávik frá ákvæðum 172. gr. laganna varðandi dánarbætur auk þess sem örorkubætur frá 1. apríl 1998 skuli vera 50% hærri en segi í 172. gr. siglingalaga. Þessum kjarasamningi var breytt í kjölfar vinnudeilna Sjómannasambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Alþýðusambands Vestfjarða annars vegar og hins vegar aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna hins vegar. Höfðu verkföll og verkbönn þessara aðila staðið frá 1. apríl 2001 og á grundvelli 2. gr. laga nr. 34/2001 um kjaramál fiskimanna og fleira var skipaður gerðardómur sem ætlað var að leysa deiluna.
Í úrskurði gerðardómsins 30. júní 2001 var kjarasamningur aðila frá 27. mars 1998 framlengdur til 31. desember 2003 með nánar tilgreindum breytingum. Meðal breytinganna var ákvæði samningsins nr. 1.22. um tryggingar breytt. Er þar sérstaklega tekið fram að útgerðin skuli tryggja hvern þann mann sem samningurinn nái til og slasist um borð í skipi eða í vinnu í beinum tengslum við rekstur skips í samræmi við ákvæði 172. gr. siglingalaga. Þá er sett inn í samninginn það nýmæli að bætur úr tryggingu þessari skuli ákvarðast á grundvelli reglna skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum leiði það til hærri heildarbóta en samkvæmt 172. gr. siglingalaga. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 34/2001 um kjaramál fiskimanna skyldu ákvarðanir gerðardómsins vera bindandi frá 16. maí 2001.
Eins og rakið hefur verið var fjárhæð bóta sem stefnandi var dæmdur til að greiða tjónþolanum Ásgeiri Jónssyni reiknuð út á grundvelli reglna skaðabótalaga svo sem framangreint ákvæði kjarasamningsins gerir ráð fyrir og er ekki ágreiningur um að stefnandi sem útgerðarmaður skipsins var bundinn af því. Stefndi var hins vegar hvorki aðili að umræddum kjarasamningi né bundinn af niðurstöðu gerðardómsins að þessu leyti heldur verður bótaskylda hans leidd af þeim samningum, og skilmálum samkvæmt þeim, sem hann gerði við stefnanda.
Samkvæmt fyrirliggjandi staðfestingum á slysatryggingu þeirri sem stefnandi keypti hjá stefnda er eingöngu vísað til þess að vátryggjandi, í þessu tilviki stefndi, greiði bætur á grundvelli 172. gr. siglingalaga. Af gögnum málsins er ljóst að ákvæði 1.22. í kjarasamningi sjómanna, sem breytt var með gerðardómi 30. júní 2001, leiddi til mun víðtækari tryggingar í því tilviki sem hér um ræðir. Sú víðtæka trygging fólst ekki í samningum aðila og tryggingaskilmálum, en ekki var gerður viðbótarsamningur við samninginn frá 14. júní 2001 sem gerður var áður en gerðardómur kvað upp úrskurð sinn og slíkt ákvæði var ekki tekið upp í síðari samning aðila 1. ágúst 2001.
Ekki verður séð að staðfesting Alþjóðlegrar miðlunar ehf. 2. janúar 2002 til lögskráningarstjórans í Keflavík um að það félag slysa- og líftryggi fyrir stefnanda skipverja á bátnum Reyni GK-177 samkvæmt samningum og lögum nr. 34/1985 fyrir vátryggingatímabilið 1. janúar 2002 til 31. desember 2002 hafi þýðingu fyrir það úrlausnarefni sem hér er til umfjöllunar enda um að ræða vátryggingatímabil löngu eftir umræddan tjónsatburð. Hefur stefnandi ekki lagt fram haldbær gögn sem sýna fram á að um annað hafi verið samið milli aðila en fram kemur í umræddum staðfestingum á slysatryggingu og verður hann að bera hallann af því. Þá verður stefndi ekki gerður ábyrgur fyrir víðtækari tryggingarvernd á þeim grunni að stefnandi hafi talið sig vera að gera slíkan samning eða að lögskráningarstjórinn í Keflavík hafi staðið í þeirri trú. Þá verður heldur ekki séð hvaða þýðingu tilvísun stefnanda til umferðarlaga hefur í þessu máli þar sem ákvæði siglingalaga gilda um skyldu útgerðarmanna til kaupa á vátryggingu vegna bóta sem á þá kunna að falla á grundvelli laganna.
Í lögum nr. 43/1987 um lögskráningu sjómanna segir í 6 tl. 7. gr. að það sé hlutverk skráningarstjóra að ganga úr skugga um að yfirlýsing frá viðkomandi tryggingarfélagi um líf- og slysatrygging sé í samræmi við gildandi lög og kjarasamninga og ef útgerðarmaður vanrækir að hafa líf- og slysatryggingu í gildi er hann ábyrgur fyrir viðkomandi bótagreiðslum. Var það því hlutverk stefnanda að tryggja það að hann hefði viðunandi tryggingu fyrir þeim bótagreiðslum sem á hann kynnu að falla og hefði honum verið í lófa lagið að gera ráðstafanir í þá veru eftir fyrrgreindar breytingar á kjarasamningi sjómanna. Stefndi verður ekki gerður ábyrgur fyrir þessari vanrækslu stefnanda og ekkert fyrirliggjandi í málinu um að það sé takmörkum sett hvers konar tryggingar stefndi eða önnur erlend tryggingafélög megi hafa á boðstólnum.
Þá hefur stefnandi á engan hátt sýnt fram á að starfsmenn stefnda hafi gert mistök í störfum sínum þegar þeir sáu um sölu á tryggingum til stefnanda sem leiði til þess að stefnda beri að bæta tjón stefnanda á grundvelli reglna um húsbóndaábyrgð. Þá er ekkert fyrirliggjandi í málinu um að samningssamband milli stefnda og starfsmanna tryggingamiðlunarinnar hafi verið þess eðlis að slíkar reglur eigi við hér væri talið að um mistök hafi verið að ræða. Þessi málsástæða stefnanda er því engum haldbærum gögnum studd og í engu lýst hver voru hin meintu mistök.
Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið hefur stefndi innt af hendi þær bótagreiðslur sem honum bar á grundvelli samninga hans og stefnanda og verður því að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir þessum úrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Jónatan Sveinsson hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Baldvin Hafsteinsson hrl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓ M S O R Ð
Stefndi, ACE Insurance S.A.N.V., er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Sveins Lárusar Ólafssonar.
Stefnandi greiði stefnda 350.000 krónur í málskostnað.