Hæstiréttur íslands

Mál nr. 215/2007


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Missir framfæranda
  • Fordæmi
  • Gjafsókn


         

Fimmtudaginn 29. nóvember 2007.

Nr. 215/2007.

Olga Sif Guðgeirsdóttir

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.

 Ragnar Tómas Árnason hdl.)

 

Skaðabætur. Missir framfæranda. Fordæmi. Gjafsókn.

 

Talið var að skaðabætur vegna missis framfæranda ættu að vera 30% af þeirri fjárhæð sem hinn látni hefði átt rétt á vegna 100% varanlegrar örorku að teknu tilliti til þess frádráttar sem slíkar bætur hefðu sætt vegna reiknaðs verðmætis bóta frá almannatryggingum og 40% reiknaðs eingreiðsluverðmætis örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum. Vísað var til tveggja fyrri dóma Hæstaréttar um þessa niðurstöðu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. apríl 2007 og krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 6.778.904 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 29. ágúst 2003 til 1. janúar 2005, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni var veitt.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar greinir nánar drukknaði eiginmaður áfrýjanda, Páll Guðmundsson, í Grenlæk 29. ágúst 2003. Var andlát Páls rakið til flogaveiki er matsmenn töldu sennilega afleiðingu umferðarslyss sem hann varð fyrir í febrúar 1992. Ekki er ágreiningur um bótaskyldu stefnda. Stefndi hefur greitt að fullu bætur vegna aukinna afleiðinga umferðarslyssins, þar á meðal bætur til barna Páls og áfrýjanda vegna missis framfæranda, að öðru leyti en því að ágreiningur er með aðilum um fjárhæð bóta til handa áfrýjanda vegna missis framfæranda og er hann til úrlausnar í máli þessu. Aðilar eru sammála um að við ákvörðun bóta skuli lögð til grundvallar ákvæði 12. gr. og 13. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum, en greinir á um hvernig beita skuli frádráttarreglum 4. mgr. 5. gr laganna. Hinn 16. desember 2004 greiddi stefndi áfrýjanda 4.293.500 krónur, sem voru lágmarksbætur samkvæmt 13. gr. skaðabótalaga. Eftir að málið var höfðað innti stefndi af hendi til áfrýjanda 8. janúar 2007 viðbótargreiðslu að höfuðstól 3.122.138 krónur, en hann taldi sig ekki hafa fengið upplýsingar til að ákveða frádráttarliði fyrr en í nóvember 2006. Ekki er tölulegur ágreiningur með aðilum.

Í 1. mgr. 12. gr. skaðabótalaga er kveðið á um rétt til bóta fyrir tjón vegna missis framfæranda. Í 2. mgr. 12. gr. er um frádrátt greiðslna frá þriðja manni vísað til 4. mgr. 5. gr. laganna. Þær frádráttarreglur eiga meðal annars við um útreikning bóta samkvæmt 13. gr. skaðabótalaga, þar sem kveðið er á um að bætur til maka fyrir missi framfæranda skuli vera 30% af bótum, sem hinn látni myndi hafa átt rétt á fyrir 100% örorku, sbr. 5. til 8. gr. laganna, þó að nánar tiltekinni lágmarksfjárhæð. Samkvæmt þessu skal frá ætluðum bótum til hins látna vegna 100% örorku koma til frádráttar reiknað verðmæti bóta frá almannatryggingum og 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum sem honum hefði borið, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Skorið hefur verið úr ágreiningi um uppgjör bóta að þessu leyti með dómi Hæstaréttar 26. september 2002 í máli nr. 127/2002, sem birtur var á bls. 2888 í dómasafni þess árs, sbr. einnig dóm 29. janúar 2004 í máli nr. 283/2003 á bls. 323 í dómasafni þess árs. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmd til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði. Um gjafsóknarkostnað hennar fer samkvæmt því sem segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Olga Sif Guðgeirsdóttir, greiði stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2007.

             Mál þetta, sem var dómtekið 19. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Olgu Sif Guðgeirsdóttur, Hvammsdal 13, Vogum á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf. með stefnu dags. 21. júní 2006.

             Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefnda verði gert að greiða stefnanda 6.778.904 kr. auk 4,5% ársvaxta frá 29. ágúst 2003 til 1. janúar 2005, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 1. janúar 2005 til greiðsludags.

Til vara að stefndi greiði 2.001.940 kr. auk 4,5% ársvaxta frá 29. ágúst 2003 til 1. janúar 2005, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 1. janúar 2005 til greiðsludags.

Til þrautavara að stefndi greiði 1.542.986 kr. auk 4,5% ársvaxta frá 29. ágúst 2003 til 1. janúar 2005, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 1. janúar 2005 til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi. Jafnframt er krafist að dæmdur málskostnaður taki mið af því að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og að málskostnaður verði dæmdur eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi gerir aðallega þær dómkröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður að mati dómsins.

             Í greinargerð sinni krefst stefndi þess að málinu verði vísað frá dómi, en í fyrirtöku 24. nóvember sl. féll hann frá þeirri kröfu. Jafnframt féll stefndi frá varakröfu sinni hinn 8. janúar sl.

Málavextir.

Hinn 11. febrúar 1992 lenti eiginmaður stefnanda, Páll Guðmundsson, í umferðarslysi og slasaðist alvarlega. Afleiðingar slyssins voru metnar af Júlíusi Valssyni í matsgerð hans frá 4. janúar 1994. Síðan var fengið tveggja lækna mat Atla Þórs Ólasonar og Jónasar Hallgrímssonar og var gert upp á grundvelli þess hinn 5. desember 1994.

            Með stefnu birtri 28. janúar 2002 rauf stefnandi 10 ára fyrningarfrestinn. Hinn 11. mars 2003 var gerð sameiginleg matsbeiðni til tveggja lækna til þess að meta að nýju tímabundnar og varanlegar afleiðingar slyssins frá 1992. Hinn 29. ágúst 2003 drukknaði Páll Guðmundsson með sviplegum hætti í veiðiferð í Grenilæk. Vegna þessa voru sendar viðbótarspurningar til matsmanna með bréfi þann 8. september 2004. Matsgerð þeirra lá fyrir 22. nóvember 2004. Andlát Páls er rakið til flogaveiki sem matsmennirnir Páll E. Ingvarsson læknir og Atli Þór Ólason læknir töldu í matsgerðinni vera sennilega afleiðingu umferðarslyssins í febrúar 1992.

            Bætur vegna aukinna afleiðinga slyssins voru greiddar 7. desember 2004, samtals 5.546.825 kr.  Hinn 16. desember 2004 var gert samkomulag og þar miðað við lágmarks dánarbætur til stefnanda vegna missis framfæranda en gerður var fyrirvari af hálfu lögmanns stefnanda. Bætur fyrir missi framfæranda til barna hins látna voru greiddar 16. desember 2004, samtals 6.735.625 kr.

            Með kröfubréfi stefnanda dags. 11. ágúst 2005 var stefndi krafinn um eftirstöðvar skaðabóta vegna missis framfæranda. Því kröfubréfi var ekki svarað. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir stefnanda að höfða dómsmál til að innheimta eftirstöðvar skaðabóta sem hann á samkvæmt skaðabótalögum. Hinn 8. janúar sl. greiddi stefndi stefnanda samtals 3.122.138 kr.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Um bótaskylduna:  Stefnukrafan er reist á 13. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, ásamt síðari breytingum. Stefndi hefur viðurkennt bótaábyrgð sína en ágreiningur er um útreikning bótanna og frádrátt frá þeim.

         Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. skaðabótalaga skal sá sem ber skaðabótaábyrgð á dauða manns greiða þeim sem misst hefur framfæranda bætur fyrir það tjón sem ætla megi að af því leiði fyrir hann. Í 13. gr. laganna eru reglur til þess að reikna út tap tjónþola. Tjónþoli í skilningi skaðabótalaga er í þessu máli stefnandi. Það sést af 12. og 13. gr. laganna, og er sérstaklega tekið fram í greinargerð með frumvarpi skaðabótalaga nr. 50/1993. Í 13. gr. laganna kemur fram sú reikniregla laganna að bætur til maka fyrir missi framfæranda til maka skuli vera 30% af bótum þeim, sem ætla megi, að hinn látni myndi hafa átt rétt á fyrir algera, 100% örorku, sbr. 5-8. gr. Með tilvísun ákvæðisins til 5.-8. gr. laganna er átt við að reikna skuli út bætur fyrir ætlaða 100% varanlega örorku hins látna þar sem örorkustig hans samkvæmt 5. gr. er margfaldað með árslaunum hans samkvæmt 7. gr. og útkoman er síðan margfölduð með margföldunarstuðli 6. gr. laganna. Bætur stefnanda reiknast 30% af þeirri fjárhæð samkvæmt reiknireglu 13. gr. skaðabótalaga.

         Í 2. mgr. 12. gr. skaðabótalaga kemur fram að um greiðslur frá þriðja manni fari samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laganna. Með vísun ákvæðisins til „greiðslna” frá þriðja manni hlýtur að vera átt við raunverulegar greiðslur peninga eða annarra verðmæta til tjónþola, þ.e. hins eftirlifandi maka. Ekki er átt við örorkulífeyrisgreiðslur eða önnur réttindi sem hinn látni sjálfur hefði átt rétt til að fá greiddar ef hann væri lifandi en ekki látinn.

         Stefnandi telur sig eiga rétt á fullum bótum fyrir missi framfæranda samkvæmt fyrrnefndum ákvæðum skaðabótalaga án nokkurs frádráttar, því að stefnandi hefur ekki fengið og mun ekki fá neinar „greiðslur” af því tagi sem taldar eru upp í 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga „vegna líkamstjóns” látins eiginmanns síns. Lagaákvæðið á samkvæmt orðanna hljóðan aðeins við um greiðslur til þess sem verður fyrir örorku í bótaskyldu slysi, en á samkvæmt eðli máls ekki við um dánarbætur til eftirlifandi maka. Þetta má m.a. sjá af þeim tegundum bóta sem taldar eru upp í ákvæðinu.

Í 4. mgr. 5. gr. eru frádráttarreglur sem beita skal þegar bætur vegna líkamstjóns eru reiknaðar út. Þær lúta að útreikningi vegna bóta til tjónþola sem orðið hefur fyrir varanlegri örorku vegna bótaskylds slyss og eiga að koma í veg fyrir að tjón hans verði ofbætt. Þessar frádráttarreglur eiga ekki að leiða til skerðingar á heildarbótum til tjónþola.

             Stefndi krefst þess að frádráttarreglum 4. mgr. 5. gr. verði beitt, þannig að frá útreiknuðu heildartjóni vegna missis framfæranda eigi að draga bætur sem Páll heitinn hefði fengið við 100% örorku, bætur sem stefnandi, eftirlifandi maki hans, fær ekki greiddar. Ef þetta er viðurkennt, fær stefnandi aðeins hluta af tjóni sínu bættan því frádráttur stefnda á bótum stefnanda byggir á reiknuðum fjárhæðum sem stefnandi mun aldrei fá. Með slíkum útreikningi og frádrætti samkvæmt honum fær stefnandi því ekki réttar bætur samkvæmt skaðabótalögum.

         Frá þeim bótum, sem stefndi hefur skuldbundið sig með vátryggingasamningi að greiða stefnanda, dregur stefndi þannig fjárhæðir sem stefnandi fær aldrei greiddar og geta aldrei talist vera greiðslur í merkingu 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Frádráttur stefnda uppfyllir þannig ekki skilyrði laganna fyrir því að beita megi honum.

         Í athugasemdum við 4. gr. í greinargerð frumvarps til laga 37/1999 sem breyttu skaðabótalögum nr. 50/1993 segir:  Margföldunarstuðull 5. gr. frumvarpsins er annars eðlis en í gildandi lögum og við það miðaður að tjónþoli fái að fullu bætt það tekjutap sem hann verður fyrir vegna varanlegrar örorku. Vegna þessa er lagt til að til frádráttar bótum komi greiðslur af félagslegum toga sem koma í hlut tjónþola vegna örorkunnar.”

Orðið tjónþoli á hér greinilega við þann einstakling sem slasast og verður fyrir varanlegri örorku vegna þess slyss. Hér er ekki átt við bætur til eftirlifandi maka sem nýtur bóta samkvæmt reiknireglu 13. gr. svo sem fyrr segir.

Af ummælum í greinargerð verður ráðið að samkvæmt 4. mgr. 5. gr. á að draga frá skaðabótakröfu 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris úr lífeyrissjóði þegar fjárhæðin hefur komið eða mun koma í hlut hins slasaða. Stefnandi, eftirlifandi maki Páls samkvæmt 13. gr., hefur ekki fengið neinar lífeyrissjóðsgreiðslur vegna örorku Páls. Stefnandi mun heldur ekki fá slíkar greiðslur í framtíðinni.

Frádráttur samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga frá kröfu stefnanda, eftirlifandi maka Páls heitins, er í andstöðu við 2. ml. 1. mgr. 12. gr. laganna, 13. gr. laganna og athugasemdir í greinargerð við 4. gr. laga nr. 37/1999. Enn fremur fer frádráttarreglan í bága við þær meginreglur skaðabótaréttar að stefnandi á að fá tjón sitt að fullu bætt og einungis raunverulegar greiðslur sem stefnandi fær greiddar dragast frá réttum bótum til hans. Loks er frádráttarregla 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga undantekning frá almennri reglu skaðabótaréttar um fullar bætur til handa tjónþola. Þess vegna á að skýra ákvæðið þröngri lögskýringu.

         Framangreind sjónarmið leiða til þess að frádráttarreglu 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga skal ekki beita þegar reiknaðar eru bætur til stefnanda vegna missis framfæranda samkvæmt 13. gr. skaðabótalaga. Þess vegna á að fallast á stefnukröfuna.

Um Bótaútreikningur og bótafjárhæð.

Tekjur Páls heitins Guðmundssonar voru þessar fyrir slysið:

Ár

Tekjur

Vísitala ársins

Vísitala á stöðugleikapunkti

Tekjur uppreiknaðar til stöðugleika- punkts, samtals

2000

2.855.710,-

194,1

239,6

3.525.132,-

2001

3.335.902,-

211,3

239,6

3.782.689,-

2002

3.326.314,-

226,4

239,6

3.520.251,-

Ágreiningslaust er að meðallaun Páls að viðbættu 6% lífeyrissjóðsframlagi vinnuveitanda námu því 3.825.919 kr.

Bótakrafa til stefnanda, skv. 13. gr. skaðabótalaga er því 30% af 3.825.919,- x 12.367 = 14.194.542 kr. Frá dregst innborgun stefnda 4.293.500 kr.  og 3.122.138 kr. Samtals er því krafist greiðslu á 6.778.904 kr. Hér er byggt á bótum fyrir missi framfæranda án frádráttar að frádregnum innborgunum á höfuðstólinn.

Varakrafan hljóðar upp á 2.001.940 kr. (þ.e. (47.315.140 – 15.923.212) x 30%= 9.417.578 kr.- 4.293.500 kr. - 3.122.138 kr.=2.001.138 kr. Hér er ætluð tekjutrygging og barnabætur frá Tryggingastofnun ekki dregnar frá.

Þrautavarakrafan hljóðar upp á 1.542.986 kr. (þ.e. (47.315.140 – 17.453.058) x 30%= 8.958.624 kr.- 4.293.500 kr. - 3.122.138 kr.=1.542.986 kr. Hér eru ætlaðar barnabætur ekki dregnar frá.

Um lagarök varðandi vexti er byggt á 16. gr. skaðabótalaga og 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Vaxta er krafist af allri kröfunni skv. 16. gr. skaðabótalaga. Um varnarþing vísast til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 42. gr. laganna. Málskostnaðarkrafa stefnanda á sér stoð í 1. mgr. 129. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Málskostnaðar er krafist eins og málið sé ekki gjafsóknarmál. Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og því er nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskattsins við ákvörðun málskostnaðar.

Málsástæður og lagarök stefnda.

            Sýknukrafa stefnda byggir á að við útreikning á bótum fyrir á missi framfæranda samkvæmt 12. og 13. gr. skaðabótalaga eigi að áætla, hverjar örorkubætur hins látna hefðu orðið að teknu tillit til frádráttarliða 4. mgr. 5. gr. skaðbótalaga, sbr. 4. gr. laga nr. 37/1999, og reikna bætur til eftirlifandi maka sem 30% af þeirri fjárhæð.

            Í 12. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er heimild til heimtu skaðabóta vegna missis framfæranda. Segir þar í 2. málsl. 1. mgr., að sá sem skaðabótaábyrgð ber á dauða annars manns skuli greiða þeim sem misst hafa framfæranda fyrir það tjón sem ætla megi að af því leiði fyrir hann. Um er að ræða ákvæði sem inniheldur meginreglur hvað varðar bætur fyrir missi framfæranda. Nánari reglur um ákvörðun bóta er að finna í 13. og 14. gr. laganna hvað varðar fjölmennustu hópa kröfuhafa í dánarbótamálum.

            Í 13. gr. segir orðrétt:  „Bætur fyrir missi framfæranda til maka eða sambúðarmaka skulu vera 30% af bótum þeim sem ætla má að hinn látni mundi hafa átt rétt á fyrir algera örorku, sbr. 5. - 8. gr.“

            Í ákvæðinu er vísað í 5. – 8. gr. laganna um hvernig eigi að reikna út bætur fyrir varanlega örorku. Í 4. mgr. 5. gr. kemur fram hvað eigi að draga frá skaðabótum, s.s. greiðslur frá almannatryggingum og greiðslur frá lífeyrissjóðum. Þar sem vísað er til þessara ákvæða er ekki hægt að skilja 13. gr. öðruvísi en að reglur 5. – 8. gr. laganna eigi að gilda um útreikning bóta til handa maka eða sambúðarmaka.

            Um er að ræða staðlaða reikniformúlu laganna um hvað fullar bætur fyrir missi framfæranda á að vera há upphæð. Stefndi hafnar öllum málsástæðum stefnanda um að 4. mgr. 5. gr. eigi eingöngu við um bætur til handa þeim sem á að fá varanlega örorku. Það stenst ekki enda er vísað til allra reglna í 5. – 8. gr. laganna en ekki eingöngu þeirra sem hentar stefnanda.

            Í 2. mgr. 12. gr. kemur enn fremur fram að um greiðslur frá þriðja manni fari eftir 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaganna. Þar er vísað beint í frádráttarákvæði skaðabótalaga hvað varðar varanlega örorku.

            Stefndi hafnar því að túlkun á „greiðslum“ í 2. mgr. 12. gr. eigi að leiða til þeirrar niðurstöðu að átt sé við greiðslur til makans, þ.e. hins eftirlifandi.

            Því er enn fremur hafnað að með því að beita frádrætti samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laganna muni stefnandi ekki fá allt tjón sitt bætt. Um er að ræða nokkuð staðlaðar bætur, eins og fram kemur í greinargerð með lögunum, sem byggir á ákveðinni reikniformúlu. Tjón stefnanda er einmitt reiknað út frá þessari formúlu og hefur stefnandi ekki sýnt fram á að þessi reikniformúla sé röng. Lögin voru sett með stjórnskipulegum hætti, sbr. einnig dómaframkvæmd Hæstaréttar.

            Því er hafnað að frádráttur samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laganna sé í andstöðu við 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna, 13. gr. og athugasemdir við 4. gr. laga nr. 37/1999. Þvert á móti er frádrátturinn í algjöru samræmi við tilvísanir ákvæðanna í 5. – 8. gr. laganna.

            Því er enn fremur hafnað að frádráttarreglan fari í bága við meginreglur skaðabótaréttarins um að tjónþolar eigi að fá allt tjón sitt bætt. Önnur meginregla skaðabótaréttar segir að tjónþolar eigi ekki að fá meira en raunverulegt tjón sitt bætt. Fullt tjón stefnanda fæst með því að fylgja reiknireglum 12. og 13. gr. laganna.

            Því er hafnað að frádráttarregla 4. mgr. 5. gr. laganna sé undantekningarregla og að því eigi að skýra ákvæðið þröngri lögskýringu. Þvert á móti er þessi regla meginreglan um það hvernig eigi að reikna út bætur fyrir varanlega örorku og bætur fyrir missi framfæranda. Reglan sér til þess að tjónþoli fái tjón sitt ekki ofbætt og gangi ekki frá borði fjárhagslega betur stæður en fyrir slys.

            Samkvæmt mjög afdráttarlausum dómum Hæstaréttar nr. 127/2002 og 283/2003 hefur skilningur stefnda orðið ofan á í málum sem varða túlkun á 12. og 13. gr. skaðabótalaga. Þetta eru skýr fordæmi sem ber að fylgja.

            Hinn 16. desember greiddi stefndi lágmarksbætur samkvæmt samkomulagi við stefnanda að fjárhæð 4.293.500 kr. Greitt var, til þess að stefnandi fengi eitthvað í sinn hlut, þótt ágreiningur væri um heildarkröfu hans. Einnig greiddi stefndi vexti að fjárhæð 253.501 kr. frá dánardegi Páls, eða frá 29. ágúst 2003 til 16. desember 2004. Í dómkröfu stefnanda er ekki tekið tillit til vaxtagreiðslu stefnda.

            Samkvæmt öllu framangreindu ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

            Málskostnaðarkrafa stefnda í varakröfu byggir á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. og a. lið 1. mgr. 131. gr. laganna. Skýr dómafordæmi Hæstaréttar liggja fyrir og telur stefndi að þau dómafordæmi sýni með afdráttarlausum hætti hvernig eigi að reikna út bætur til handa stefnanda. Stefndi telur því þessa málsókn vera algerlega óþarfa enda hefur ekkert nýtt komið fram í þessu máli.

            Vaxtakröfu stefnanda er mótmælt. Upphafsdegi vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga er mótmælt en stefnandi vill miða við 28. ágúst 2003, degi áður en Páll andaðist. Miða ber við dánardag Páls. 

Forsendur og niðurstöður.

             Ekki er ágreiningur um bótaskyldu stefnda, heldur lítur hinn efnislegi ágreiningur að því hvernig reikna eigi út bætur fyrir missi framfæranda, sbr. 12. og 13. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, þ.e. hvort eigi að beita frádráttarreglum 4. mgr. 5. gr. laganna eða ekki.

Eins og að framan greinir drukknaði eiginmaður stefnanda 29. ágúst 2003.  Stefndi hefur viðurkennt bótaskyldu sína. Hinn 16. desember 2004 fékk stefnandi greiddar lágmarksbætur vegna missis framfæranda eða 4.293.500 kr. Stefnandi höfðaði mál þetta með stefnu birtri í júní 2006. Upphaflegu dómkröfur málsins eru að fjárhæð 9.901.042 kr. og byggðar á útreikningi skv. 13. gr. skaðabótalaganna þ.e. 30% af 3.825.919 x 12.367 = 14.194.542 kr. Frá er  síðan dregin innborgun stefnda, 4.293.500 kr. frá 16. desember 2004. Samtals var því krafist greiðslu á 9.901.042 kr. Eins og að framan greinir náði uppgjör og greiðslan til stefnanda einungis til lágmarksbóta.  Þar af leiðandi kom ekki til álita frádráttur skv. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaganna. 

Hinn 8. janúar sl. greiddi stefndi stefnanda 3.403.385 kr. vegna fráfalls eiginmanns hennar. Höfuðstóll þeirrar greiðslu var 3.122.138 kr., dráttarvextir frá 19. desember 2006 og til greiðsludags voru 39.634 kr. og innheimtukostnaður 241.613 kr. Höfuðstóllinn var fundinn út miðað við viðmiðunartekjurnar 3.825.919 kr. og 100% örorku eiginmanns stefnanda miðað við 32 ára aldur.  Síðan voru dregnar frá 22.596.346 kr. sem byggðar eru á útreikningi Ragnars Þ. Ragnarssonar.  Forsendur reiknings hans eru þær að greiðslur frá lífeyrissjóðunum Lífiðn og Festa komi til frádráttar svo og allar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, þar á meðal tekjutrygging að fjárhæð 1.529.846 kr. og  barnabætur þriggja barna stefnanda og eru þær samtals að fjárhæð 5.143.288 kr.

            Með því að stefndi greiddi nefnda fjárhæð til stefnanda og tók þá tillit til frádráttar samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaganna verður ekki hjá því komist að taka afstöðu til hins efnislega ágreinings. Skv. 13. gr. skbl. eru bætur fyrir missi framfæranda til maka 30% af bótum sem ætla má að hinn látni mundi hafa átt rétt á fyrir algera (100%) örorku, sbr. 5. - 8. gr.  Samkvæmt ákvæðinu ber fyrst að reikna út þær bætur sem hinn látni á rétt til samkvæmt 5.- 8. gr. laganna.  Að mati dómsins er ákvæðið skýrt um það að draga eigi frá þær greiðslur sem nefndar eru í 4. mgr. 5. gr. skbl. að öðrum kosti hefði slíkt verið tekið fram í 13. gr. Ekki skiptir máli að mati dómsins, þótt talað sé um „greiðslur“ í 4. mgr. 5. gr., þar sem til grundvallar útreikningnum liggja forsendur sem eiga við um látinn mann sem eðli máls samkvæmt nýtur aldrei þeirra greiðslna sem fjallað er um. Hér er einnig til þess að líta, að með skaðabótalögunum var reglum um bætur fyrir missi framfæranda verulega breytt, svo sem ítarlega var skýrt í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna. Þá ber einnig að líta til þess að tilgangurinn með skaðabótalögunum var meðal annars að staðla bætur eftir því sem unnt var og sést það meðal annars á lokamálslið 13. gr. laganna. Með dómum Hæstaréttar í málunum nr. 283/2003 og nr. 127/2002 var skorið úr ágreiningi þeim sem hér er uppi. Í þeim dómum kemur fram skýrt fordæmi um að greiðslur úr almannatryggingum og 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris hjá lífeyrissjóði eigi að koma til frádráttar.

Samkvæmt framanrituðu er það niðurstaða dómsins, að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmannsins, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., sem er hæfilega ákveðin 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu stefnanda flutti málið Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.

             Af hálfu stefnda flutti málið Ólafur Lúther Einarsson hdl.

             Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi,  Vátryggingafélag Íslands hf.,  er sýknað af kröfu stefnanda, Olgu Sif Guðgeirsdóttur.

Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkis­sjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, 300.000 krónur.