Hæstiréttur íslands

Mál nr. 419/2005

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Brynjar Níelsson hrl., Guðmundur Óli Björgvinsson hrl. 1. prófmál),
(Björn Ólafur Hallgrímsson réttargæslumaður )

Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur

Reifun

X var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft samræði við Y á meðan hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Í héraðsdómi, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans, var talið sannað að X hefði haft samræði við Y gegn vilja hennar og þar með gerst brotlegur við 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var hann dæmdur í 18 mánaða fangelsi og til að greiða Y 800.000 krónur í miskabætur.

Fimmtudaginn 23

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 5. september 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu og að ákærði verði dæmdur til að greiða 1.000.000 krónur í miskabætur.

Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvalds og bótakröfu verði vísað frá dómi.

Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en sakarkostnað.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanna, sem verða að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en sakarkostnað.

Ákærði, X, greiði sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 1.148.352 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði og fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 622.500 krónur, þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola í héraði, Tryggva Guðmundssonar héraðsdómslögmanns, og fyrir Hæstarétti, Björns Ólafs Hallgrímssonar hæstaréttarlögmanns, 112.050 krónur handa hvorum.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 13. júlí 2005. í máli nr. S-198/2004:

Mál þetta, sem var dómtekið 23. maí sl., endurupptekið, munnlega flutt og dómtekið að nýju í dag, höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 8. nóvember sl., gegn X, [...] fyrir kynferðisbrot, með því að hafa, að morgni sunnudagsins 20. júní 2004, haft samræði við Y, fædda 1986, gegn vilja hennar í svefnherbergi á heimili stúlkunnar að [...], en ákærði notfærði sér það að Y gat ekki spornað við kynferðisbrotinu sökum ölvunar og svefndrunga.

Er brotið talið varða við 196. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 40/1992 og þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Y krefst miskabóta að fjárhæð kr. 1.000.000 auk vaxta frá 20. júní 2004 til 6. nóvember 2004, en dráttarvaxta skv. lögum nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði neitar sök. Af hálfu verjanda er þess krafist að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds og að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

I

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á [...] kom Y, ásamt A, á lögreglustöðina á [...] 20. júní 2004, kl. 11.45. Hafi Y greint frá því að henni hafi verið nauðgað í svefnherbergi í kjallara á heimili sínu að [...] snemma um morguninn. Hafi hún sofnað undir morgun en vaknað við að ákærði, sem hafi verið gestkomandi í samkvæmi er hafi verið haldið á heimilinu um nóttina, hafi verið að hafa við hana samfarir. Er færð í lögregluskýrslu nánari frásögn Y af atburðum laugardagskvöldsins 19. júní og aðfaranótt 20. júní 2004. Fram kemur að haft hafi verið samband við vakthafandi lækni á Heilbrigðisstofnun [...] og hafi Y farið í réttarlæknisfræðilega skoðun. Hafi Y verið látin blása í alkóhólmæli og hafi hann sýnt 0,40 prómill alkóhóls. Í kjölfar þess að Y hafi farið í réttarlæknisfræðilega skoðun hafi lögregla framkvæmt vettvangsrannsókn í einbýlishúsinu að [...]. Liggur fyrir í gögnum málsins skýrsla rannsóknardeildar lögreglu um vettvangsrannsóknina. 

G læknir framkvæmdi réttarlæknisfræðilega skoðun á Y sunnudaginn 20. júní 2004. Fram kemur að Y hafi komið til læknisins kl. 11.00. Í skýrsluna hefur hann fært frásögn Y af atburðum á heimili hennar um nóttina og morguninn. Fram kemur að Y hafi við komu verið hágrátandi og miður sín. Hafi hún verið skýr í frásögn en lítið munað eftir atburðum þar til hún hafi vaknað við ákærða ofan á sér. Hefur læknirinn skráð að frásögn Y af atburðum hafi verið trúverðug. Engin átök hafi átt sér stað og engir áverkar hafi því verið sjáanlegir á Y.

 Y skýrði svo frá hér fyrir dómi að hún hafi verið á dansleik í [...] að kvöldi laugardagsins 19. júní 2004 og komið við á skemmtistaðnum [...] síðar um nóttina. Hafi hún ákveðið að halda samkvæmi heima hjá sér. Hafi hún drukkið áfengi frá því um klukkan 20.00 til 21.00 um kvöldið, eina 3 til 5 bjóra og hálfa flösku eða svo af líkjör. Seint um nóttina hafi hún farið niður í svefnherbergi í kjallara hússins ásamt vini sínum B. Þau hafi lagst í rúmið og kysst, en sofnað síðan. Hún hafi ekki farið úr fötum. Hafi hún vaknað við að ákærði hafi verið að hafa við hana samfarir. Hún hafi þá verið milli svefns og vöku og varla áttað sig á að þetta væri raunverulegt. Hafi hún verið komin úr pilsi og nærbuxum er hún hafi vaknað. Ákærði hafi ,,lokið sér af” og hún varla vaknað til fulls fyrr en hann hafi verið kominn ofan af henni og legið við hlið hennar. Hún kveðst hafa farið á fætur, klætt sig og farið upp á efri hæð og hitt þar C. C hafi farið með henni inn á baðherbergi og reynt að róa hana niður, en hún hafi verið mjög miður sín. Ákærði hafi þá verið kominn upp úr svefnherberginu. C hafi sagt henni að ákærði væri ,,handrukkari” og tengdur dópheiminum og gæti auðveldlega barið hana. Hafi hún því ekki þorað að segja neitt við ákærða eða segja honum að fara. Hún hafi hins vegar ákveðið að taka til í íbúðinni. Ákærði hafi spurt hvort hún væri eitthvað ósátt og hún ekki þorað að segja honum hvers kyns væri. Hún hafi síðan farið upp á efri hæð hússins og vakið vinkonu sína D og sagt henni hvað hefði komið fyrir. D hafi fylgt sér upp á sjúkrahús, þar sem hún hafi vitað að vinkona hennar, A væri við vinnu. Á sjúkrahúsinu hafi hún leitað til læknis og síðan farið á lögreglustöð í fylgd A.   

Í tilefni framburðar B kvaðst Y kannast við atvik frá í apríl eða byrjun maí 2005, sem hún lýsti þannig að B hafi viljað kyssa hana en hún ekki viljað það. Síðan hafi þau verið í samkvæmi og eftir það hafi hún komið við heima hjá B ásamt fleirum. Hún hafi eitthvað minnst á pilt sem hún hafi verið að slá sér upp með og B þá kallað hana hóru. Hún hafi reiðst verulega og opnað herbergi hans með hníf og sagt honum að biðjast fyrirgefningar, en hann ekki sagst vilja það. Hafi hún þá slegið hann létt á kinnina. Þá hafi B ætlað að ráðast á hana en hún varið sig með hækju. Hann hafi ,,skallað” hana svo að blæddi úr vör á henni. Hún hafi slegið hann aftur. Hann hafi þá tekið hana hálstaki og sagt henni að koma sér út.

Y lýsti líðan sinni eftir atvikið þannig að sér hafi fundist hún vera skítug og aldrei fundist hún hrein, sama hve mikið hún hafi þvegið sér. Hún hafi átt erfitt með að treysta fólki eftir þetta, sérstaklega strákum. Hún hafi leitað sér hjálpar hjá sálfræðingum, geðlækni og ráðgjafa hjá Stígamótum. Hún noti þunglyndislyf vegna þunglyndis og svefntöflur þar sem hún hafi átt erfitt með svefn.

            Ákærði lýsti atvikum svo að hann hafi verið að vinna sem dyravörður á skemmtistaðnum [...] aðfaranótt sunnudagsins 20. júní 2004. Hann hafi ásamt fleirum verið að ganga frá á veitingastaðnum til um klukkan 5.00 um nóttina. Y hafi verið búin að hringja í einn félaga ákærða um nóttina og boðið öllum að koma í samkvæmi heima hjá sér. Ákærði ásamt öðrum hafi farið þangað undir morgun og ákærði tekið með sér 4 til 5 bjóra. Hann hafi drukkið þá bjóra og eitt eða tvö viskíglös til viðbótar um nóttina. Hópurinn hafi komið við heima hjá vinkonu eins þeirra, þar sem hún hafi viljað skipta um föt, og dvalið þar í um klukkustund áður en hópurinn hafi farið heim til Y. Á einhverjum tímapunkti um nóttina hafi ákærði og Y farið að tala saman og kyssast. Hafi hann vitað af því þegar Y og B hafi farið saman niður í svefnherbergi að [...], því að B hafi beðið ákærða að vekja sig milli klukkan 9.00 og 9.30 um morguninn, þar sem B hafi átt að mæta í vinnu klukkan 11.00 um morguninn. Ákærði hafi síðan farið niður í svefnherbergið rétt fyrir klukkan 9.00 til að vekja B. B og Y hafi þá verið sofandi. Ákærði hafi vakið B en Y hafi vaknað við það. Þau hafi spjallað saman einhverja stund öll þrjú. Síðan hafi B farið og þau Y haldið áfram að spjalla saman. Við skýrslugerð hjá lögreglu 4. ágúst 2004 var sérstaklega borinn undir ákærða sá framburður B hjá lögreglu að ákærði hafi fylgt honum eftir þar til B hafi farið í skó og yfirgefið húsið. Bar ákærði þá að sú frásögn B hafi ekki átt við rök að styðjast, en þeir hafi kvaðst í svefnherberginu. Ákærði hafi lagst við hlið hennar og hún nefnt að heitt væri í herberginu. Hafi ákærði stungið upp á því að þau færu úr fötum og Y samþykkt það. Eftir það hafi eitt leitt af öðru, hún hafi afklætt sig og hann afklætt sig sjálfur. Þau hafi síðan haft samfarir. Ákærði tók fram að á meðan á þeim hafi staðið hafi limur hans lent út úr leggöngum hennar og hún þá tekið um hann og sett hann sjálf inn aftur. Ákærði hafi orðið var við er E hafi opnað herbergisdyrnar en hún hafi sagt „æ, sorrý“ og lokaði hurðinni aftur. Eftir að samförunum hafi lokið hafi ákærði og Y legið í rúminu og hún kúrt sig upp að honum. Ákærði hafi spurt hvort hún vildi hafa samfarir aftur, en hún neitað. Síðan hafi hún hrokkið eitthvað til og staðið upp. Ákærði hafi þá einnig staðið upp og rétt henni föt, klæðst sjálfur og farið upp á eftir henni. Hafi ákærði farið inn í eldhús en Y hafi verið þar og farið að tala um að allt væri í drasli eftir samkvæmið. Hafi ákærði boðist til að aðstoða hana við að taka til, en hún afþakkað það. Hafi þau verið að spjalla eitthvað og hún í eitt sinn tekið utan um ákærða og kysst hann. Hún hafi einnig kysst ákærða þegar hann hafi yfirgefið húsið. Ákærði kvaðst hafa yfirgefið húsið um leið og Y og D. Ákærði kvaðst hafa komið heim til sín klukkan 10.00 til 10.30 um morguninn.

Ákærði kvaðst kannast við að hafa einhverju sinni hitt B og spurt hann að því hvort búið væri að taka skýrslu af honum hjá lögreglu. Hafi B sagt svo vera og greint ákærða frá því er hann hafi sagt við skýrslugjöfina. Hafi ákærði sagt B að það væri ekki rétt hjá honum að Y hafi verið sofandi er B hafi yfirgefið herbergið. Ítrekað aðspurður kvaðst ákærði hafa fengið beiðni frá B um að vekja sig um morguninn.

            B kvaðst hafa verið að vinna á skemmtistaðnum [...] til um klukkan 1.30 aðfaranótt sunnudagsins 20. júní 2004. Hafi hann þá farið að drekka bjór með vinum sínum og hitt Y, sem hafi boðið honum í samkvæmi heim til sín eftir dansleik í [...]. B hafi komið heim til Y um klukkan 3.00 til 3.30 um nóttina. B og Y hafi farið að daðra og kyssast og endað niðri í svefnherbergi í kjallara, líklega um klukkan 6.30 um morguninn. Þau hafi kysst eitthvað í rúminu og Y síðan sofnað. Hafi hún þá verið fullklædd. B hafi stillt vekjara í síma sínum og farið að sofa, en hann hafi ætlað að vakna rétt fyrir klukkan 11.00 til að fara í vinnu. Er tekin var skýrsla af B hjá lögreglu 25. júní 2004 bar B að hann hafi vaknað við það að ákærði hafi verið að vekja hann um kl. 9.00 um morguninn. Hafi B litið á klukkuna og ákveðið að fara strax til vinnu. Ekki kvaðst B vita af hverju ákærði hafi vakið hann. Hafi B klofað yfir Y þar sem hann hafi verið fyrir innan hana í rúminu, en rúmið hafi verið staðsett við horn herbergisins, hægra megin þegar gengið væri inn í herbergið. Á meðan B hafi vaknað og farið fram úr rúminu hafi ákærði staðið við hliðina á rúminu. Af hvaða ástæðum það hafi verið hafi B ekki áttað sig á. Ákærði hafi því næst fylgt B að útidyrahurðinni og fylgst með er B hafi klætt sig í skó. Sérstaklega aðspurður kvað B mjög ólíklegt að Y hafi vaknað er ákærði hafi vakið B. Y hafi verið sofandi er B hafi farið úr rúminu og yfirgefið herbergið. Kvaðst B þess reyndar fullviss að Y hafi greinilega verið steinsofandi. Ekki hafi B gert tilraun til að vekja hana. Y hafi verið mjög drukkin þessa nótt. Tekin var önnur skýrsla af B hjá lögreglu 17. ágúst 2004. Kvaðst B þá ekki hafa þekkt ákærða nánast neitt fyrir þessa atburði. Þeir hafi rétt heilsast í samkvæminu. Undir morgun, eða milli kl. 6.00 og 7.00, hafi B og Y farið tvö niður í svefnherbergið á neðstu hæðinni. Ekki hafi þau haft kynmök í herberginu heldur hafi einungis verið um kossa að ræða. Þau hafi síðan sofnað. Hafi hann vaknað við að ákærði var að vekja B. Ákærði hafi þá spurt B af hverju hann væri sofandi, af hverju hann kæmi ekki upp aftur og tæki þátt í samkvæminu. Er hann hafi vaknað hafi hann litið á klukkuna og hafi hún verið á bilinu 8.30 til 9.00. Hafi B farið strax úr rúminu, klætt sig í bol og hafa yfirgefið herbergið um leið og ákærði. Hafi hann gengið beint að útidyrahurðinni og farið út. Ákærði hafi fylgt honum frá svefnherberginu og að útidyrahurðinni og fylgst með er B hafi yfirgefið húsið. B kvað Y greinilega hafa verið sofandi þegar hann hafi yfirgefið svefnherbergið. Hann hafi ekki beðið ákærða um að vekja sig þennan morgun. Ekkert tilefni hafi verið til að biðja einhvern um að vekja B þó svo hann hafi ætlað að mæta til vinnu kl. 11.00 að morgni sunnudagsins. Er undir B voru bornar fullyrðingar ákærða í skýrslu hjá lögreglu um samræður í herberginu áður en B hafi yfirgefið herbergið þá kvað hann það ekki við rök eiga að styðjast. B, ákærði og Y hafi ekki ræðst við áður en B hafi yfirgefið herbergið. Fullyrðing ákærða um samræður þeirra í 5 mínútur væri röng. Ítrekaði B þá fullyrðingu sína að Y hafi verið sofandi er B hafi yfirgefið herbergið.  

Er B gaf skýrslu fyrir dómi kvaðst hann hafa vaknað um kl. 9.00 um morguninn við það að ákærði hafi verið að ýta við honum. B hafi þó ekki beðið ákærða um að vekja sig. Ákærði hafi einnig vakið Y. Þau hafi spjallað saman í um 10 mínútur og B ákveðið að fara heim þegar klukkan hafi verið eitthvað um 9.00. Er leitað var eftir skýringum á því hvers vegna framburður B hefði breyst kvaðst hann vera búinn að hugsa sig betur um og hafa talað við mikið af fólki, þ.á m. ákærða, í júní eða júlí 2004. Ákærði hafi sagt sér að það væri rangt að Y hafi verið sofandi er B hafi yfirgefið herbergð. Að því er varðaði samskipti við Y kvaðst B tveimur til þremur vikum fyrir réttarhaldið hafa verið í samkvæmi þar sem hún hafi verið og hafi hún viljað tala við hann. B kvaðst hafa lokað sig af inni í herbergi. Y hafi ráðist þangað inn og slegið B, en hann hafi í kjölfarið varpað henni á dyr og ekki talað við hana síðan.

            F kvaðst hafa verið gestur í samkvæminu að [...]. Kvaðst hann ekki muna vel eftir atvikum, en hann hafi verið í húsinu um morguninn. Kvaðst hann telja að Y hafi þá verið ,,skælandi”, en hann myndi það þó ekki nákvæmlega. Hann hafi yfirgefið húsið ásamt C, sem þá hafi sagt honum að Y hafi verið nauðgað um nóttina.

            D kvaðst hafa tekið eftir er Y hafi um nóttina farið niður í svefnherbergi á neðri hæð [...] með B. Eftir það hafi D farið upp og lagt sig. Y hafi vakið sig um morguninn og greint henni frá því að hún hafi vaknað ,,með einhvern mann ofan á sér”, en hann væri ennþá niðri. Hafi Y ætlað að fara upp á sjúkrahús vegna atburðarins. F og C hafi þá verið í næsta herbergi og gengið niður í sama mund og hún. Ákærði hafi verið niðri. D hafi síðan gengið með Y upp á sjúkrahús. Kvaðst D hafa verið undir áhrifum áfengis þessa nótt.

A kvaðst hafa verið að vinna uppi á sjúkrahúsi að morgni sunnudagsins 20. júní 2004. Vinkona hennar, Y, hafi komið þangað um klukkan 10.30 um morguninn og verið grátandi. Hafi hún talað um að hún vildi fá „eftir á pillu“. Hún hafi greint sér frá því að hún hafi sofnað heima hjá sér eftir samkvæmi er þar hafi verið um nóttina og vaknað við það að einhver maður hafi verið ofan á henni. Hún hafi ekki þorað að segja neitt við hann af því að hún hafi verið hrædd við hann. 

E kvaðst hafa komið í samkvæmið að [...] um klukkan 4.00 um nóttina og verið þar í einhvern tíma. Hafi hún síðan farið úr samkvæminu, en komið aftur líklega milli klukkan 8.00 og 9.00 um morguninn. Hafi hún opnað dyr að herbergi í kjallara og séð ákærða þar í rúmi nakinn að ofan. Henni hafi virst sem hann hafi verið í samförum, en ekki séð við hvern. Hún hafi sagt „sorry“ eða eitthvað svoleiðis og lokað aftur hurðinni.

C kvaðst hafa komið heim til Y um klukkan 8.00 um morguninn. Þá hafi nokkrir gestir verið þar, þ.á m. ákærði. Y hafi hún ekki séð fyrr en síðar. Y hafi komið inn í eldhúsið og ákærði eitthvað seinna. Y hafi sagt henni að hún hafi vaknað við að ákærði hafi verið að hafa við hana samfarir. Y hafi verið miður sín og grátið. Hún hafi verið hrædd við ákærða. C kvaðst hafa sagt Y að hún hafi heyrt að ákærði væri „handrukkari“. Y hafi beðið sig að hjálpa sér við að hafa allt rólegt, en síðan hafi hún ætlað upp á sjúkrahús. Hafi C hjálpað Y við að taka til. Ákærði hefði spurt hana hvað Y hafi verið að ræða við hana um en C ekki greint honum frá því. C hafi eftir þetta farið upp á efri hæð hússins og verið þar uns Y hafi komið og sagt þeim að hún væri að fara. 

            Fjölnir Freyr Guðmundsson læknir bar að Y hafi leitað til sín 7. janúar 2005, en fyrir það hafi hún leitað til annarra lækna á [...]. Komi fram í sjúkraskýrslu um hana síðan í nóvember 2004 að hún hafi lýst andlegri vanlíðan, því að hún svæfi illa, fengi grátköst og sinnti ekki áhugamálum. Gert hafi verið á henni þunglyndispróf og hún skorað töluvert hátt á þeim skala. Hún hafi fengið ávísað þunglyndislyfi. 

Marteinn Steinar Jónsson sérfræðingur í klínískri sálfræði gaf skýrslu fyrir dómi. Hann kvað Y hafa leitað til sín nokkrum sinnum árið 2003 vegna tiltekinna atriða, en síðan tvívegis á árinu 2005 vegna þeirra atburða er sakamálið fjallaði um. Hún hafi greint sér frá því að hún hafði sofnað umrætt sinn og vaknað við að maður hafi verið að hafa við hana samfarir. Hafi hún lýst viðbrögðum sínum þannig að hún hafi verið eins og ,,frosin” og eiginlega ekki getað gert neitt. Hafi hún ekki getað varið sig, en samt getað hrakið ákærða frá sér. Hafi hún lýst andlegum afleiðingum í kjölfar atburða þannig að hún hafi upplifað gífurlega reiði og sjúka vanlíðan, sjálfsfyrirlitningu og ótta við ákærða, kvíða og sektarkennd. Marteinn kvað þau einkenni er hafi komið fram hjá Y vera þekkt einkenni kynferðisbrota. Kvað hann ljóst að Y hafi ekki verið eins og hún hafi átt að sér, það væri ljóst. Sjálfsmynd hennar hafi ekki verið góð fyrir og hafi atburðir greinilega haft áhrif á hana. Greinileg sektarkennd hafi verið augljós, sem og gríðarleg reiði í garð ákærða.

II

Ákærði hefur viðurkennt að hafa haft samfarir við Y í svefnherbergi á heimili stúlkunnar að [...] að morgni sunnudagsins 20. júní 2004. Hefur hann fullyrt að hann hafi farið í svefnherbergið fyrir tilmæli B, sem hafi beðið ákærða um að vekja sig um morguninn. Hafi ákærði vakið B og Y og rætt við þau um stund. Eftir að B hafi horfið á braut hafi ákærði og Y farið að láta vel hvort að öðru og í framhaldinu haft samfarir.

Y hefur hins vegar borið að hún hafi farið í svefnherbergið undir morgun með B. Hafi þau rætt saman og kysst hvort annað. Í kjölfarið hafi þau bæði sofnað og Y ekki vaknað fyrr en ákærði hafi verið að hafa við hana samfarir. Nokkra stund hafi tekið fyrir hana að átta sig á aðstæðum. Hafi hún farið upp í eldhús og hitt C. Eftir að hafa lýst því er hún hafi upplifað hafi C sagt henni að ákærði væri sennilega svokallaður ,,handrukkari”. Hafi Y óttast ákærða mjög og ákveðið að láta sem ekkert væri, þar til ákærði hefði yfirgefið húsið. Fyrir liggur að Y skýrði bæði D og C frá því að hún hafi vaknað við að ákærði hafði við hana samfarir. Þá liggur fyrir að er ákærði yfirgaf [...] fór Y á sjúkrahúsið á [...]og lagði í framhaldinu fram kæru á hendur honum fyrir kynferðisbrot.   

Með tæplega tveggja mánaða millibili gaf B skýrslu hjá lögreglu vegna málsins, fyrst 24. júní 2004, fjórum dögum eftir að umræddur atburður átti sér stað. Í báðum tilvikum fullyrti hann að ákærði hafi vakið sig í svefnherberginu, þó svo hann hafi ekki beðið hann um það. Ennfremur fullyrti hann að Y hafi ekki vaknað er B hafi haldið á brott úr herberginu. Fráleitt væri að B, ákærði og Y hafi rætt saman, svo sem ákærði héldi fram. Hafi ákærði fylgt B að útidyrahurð hússins er B hafi haldið á brott. Þrátt fyrir boðun mætti B ekki fyrir dóm við aðalmeðferð málsins. Náðist símasamband við hann undir aðalmeðferðinni og var hann þá staddur í [...]. Bar hann að far með bifreið til [...] hafi brugðist og að hann gæti því ekki komið fyrir dóminn. Var brugðið á það ráð að taka skýrslu af B í gegnum síma. Við símayfirheyrsluna breytti B framburði sínum í grundvallaratriðum. Bar hann þá að ákærði hafi vakið sig og Y um morguninn og að þau hafi rætt saman um stund áður en B hafi yfirgefið herbergið. Hafi Y því verið vakandi er B hafi horfið á braut. Er leitað var skýringa á þessum breytta framburði B kvaðst hann hafa hugsað málið betur eftir að hafa rætt málið við fjölda aðila. Hafi það verið eftir að hann hafi gefið skýrslur hjá lögreglu, en þá hafi hann m.a. rætt við ákærða sem hafi fullyrt að Y hafi verið vakandi er B hafi yfirgefið herbergið. Er B gaf skýrslu fyrir dómi staðfesti hann að hafa ekki beðið ákærða um að vekja sig um morguninn. Mál þetta var endurupptekið í dag. Við það tækifæri kom B fyrir dóminn. Var framburður hans þá í öllum aðalatriðum með sama hætti og er hann gaf skýrslu í gegnum síma við aðalmeðferð málsins. 

B hefur tvívegis fyrir lögreglu gefið afar nákvæma lýsingu á einstökum þáttum í atburðum næturinnar og morgunsins, nánast í beinu framhaldi af atburðum. Í ljósi mikilvægis þess atriðis hvort Y hafi verið vakandi er B yfirgaf herbergið var ítrekað gengið eftir því hvort svo hafi verið. Voru yfirlýsingar B ætíð þær sömu. Að mati dómsins er sú skýring er B hefur gefið á breyttum framburði sínum ótrúverðug, en afar ósennilegt verður að telja að B hafi munað atburði betur er frá leið. Er einnig til þess litið að breytt skýring hans kemur fram eftir að hann ræddi við ákærða sem hafði brýna hagsmuni af því hvernig um þessi tilteknu atriði yrði borið fyrir dómi. Í ljósi þessa er hinn breytti framburður hans fyrir dómi að engu hafandi og verður við þá lýsingu B á atvikum miðað að Y hafi verið sofandi er B yfirgaf herbergið.  

Y hefur verið einkar trúverðug í frásögn sinni af atburðum og ætíð sjálfri sér samkvæm. Hefur hún greint fjölda manns frá atburðum næturinnar og ávallt á sömu lund. Ástand hennar í kjölfar verunnar í svefnherberginu ber þess augljós merki að hún hafi orðið fyrir áfalli, en hún var grátandi og miður sín er hún skýrði C frá þeim, sem og G lækni á sjúkrahúsi við réttarlæknisfræðilega skoðun. Þá bera Fjölnir Freyr Guðmundsson læknir og Marteinn Steinar Jónsson sérfræðingur í klínískri sálfræði að hún hafi í kjölfar atburða lýst andlegri vanlíðan, illum svefni, grátköstum og sinnuleysi. Þá liggur einnig fyrir að hún hafi sýnt þunglyndiseinkenni og verið sett á þunglyndislyf. Þá hefur Marteinn Steinar borið að Y hafi borið dæmigerð einkenni þess að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Að mati dómsins átti ákærði ekkert erindi í svefnherbergið í kjallara hússins þar sem Y og B sváfu, þar sem B hefur staðfastlega borið að hann hafi ekki beðið ákærða um að vekja sig. Þá eru ákærði og B ekki á einu máli um hvort ákærði hafi fylgt B að útidyrum hússins um morguninn. Mæling á öndunarsýni staðfestir að Y hefur verið undir talsverðum áhrifum áfengis um nóttina, en undir hádegi mældist 0,40 prómill alkóhóls í blóði hennar. Y var einungis 18 ára að aldri er atburðir áttu sér stað en ákærði 37 ára. Svo sem áður hefur verið slegið föstu verður byggt á því að Y hafi verið sofandi er B yfirgaf herbergið. Að því gefnu er engin skynsamleg skýring komin fram á því hvers vegna ákærði dvaldi áfram hjá sofandi stúlkunni önnur en sú sem framburður hennar gefur til kynna. Þegar framangreint er virt er það niðurstaða dómsins að fullyrðingar ákærða um atburði séu ósennilegar, en þær fá ekki stoð í framburði annarra vitna eða gögnum málsins. Með vísan til alls þessa er það niðurstaða dómsins að ákærði hafi haft samræði við Y gegn vilja hennar greint sinn og notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemi hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

III

Ákærði hefur ekki áður sætt refsingum svo kunnugt sé er máli skipta fyrir niðurstöðu. Brot ákærða er trúnaðarbrot. Við ákvörðun refsingar er litið til þess að hann hefur verið sakfelldur fyrir alvarlegt brot sem hefur beinst gegn persónu- og kynfrelsi ungrar stúlku. Ráða má af framburði læknis og sálfræðings að brotið hafi haft í för með sér verulegar andlegar afleiðingar fyrir hana. Er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 18 mánuði.

Tryggvi Guðmundsson héraðsdómslögmaður hefur krafist skaðabóta fyrir hönd Y, að fjárhæð 1.000.000 króna, auk vaxta. Um rökstuðning er vísað til þess að brot ákærða gagnvart Y hafi verið mjög alvarlegt þar sem ákærði hafi nýtt sér varnarleysi hennar sökum þreytu og svefndrunga og haft við hana mök gegn vilja hennar. Hafi Y orðið fyrir verulegu miskatjóni vegna háttsemi ákærða. Um lagarök er vísað til skaðabótalaga, nr. 50/1993. Y á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Með hliðsjón af atvikum málsins þykja þær hæfilega ákveðnar 800.000 krónur, ásamt vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

Um sakarkostnað, málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns fer sem í dómsorði greinir.

Dóm þennan kveða upp Erlingur Sigtryggsson dómstjóri og héraðsdómararnir Hervör Þorvaldsdóttir og Símon Sigvaldason.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákærði greiði Y, kt. [...], 800.000 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. júní 2004 til 1. janúar 2005, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 244.980 krónur í sakarkostnað og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur og réttargæsluþóknun Tryggva Guðmundssonar héraðsdómslögmanns, 90.000 krónur.

Sératkvæði Erlings Sigtryggssonar dómstjóra:

Ég tel óhjákvæmilegt að líta til þess að framburður ákærða um að stúlkan hafi vaknað fær stoð í framburði B eins og hann hljóðar hér fyrir dómi.  Verður ekki að mínu mati slegið föstu hvort vitnið bar rangt um þetta atriði fyrir lögreglu eða dómi.  Að svo komnu máli tel ég of mikinn vafa leika á því hvert ástand stúlkunnar var til að nægilega sé sannað að ákærði hafi af ásetningi nýtt sér svefndrunga hennar til að hafa við hana samfarir.  Ég tel því að sýkna beri ákærða af kröfum ákæruvaldsins, vísa bótakröfu frá dómi og fella sakarkostnað á ríkissjóð.  Þar sem meirihluti dómara hefur komist að þeirri niðurstöðu að sakfella beri ákærða, er ég samþykkur ofangreindri ákvörðun um viðurlög, skaðabætur og sakarkostnað.