Hæstiréttur íslands
Mál nr. 293/2013
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 28. nóvember 2013. |
|
Nr. 293/2013. |
Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) gegn X (Gísli M. Auðbergsson hrl. Tryggvi Agnarsson hdl.) (Eva Dís Pálmadóttir hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.
X var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn dótturdóttur sinni A með því annars vegar að hafa í tvö skipti á heimili sínu nuddað kynfæri stúlkunnar innanklæða þar sem hún lá á dýnu í svefnherbergi og hins vegar að hafa í tjaldi nuddað kynfæri hennar innanklæða og haft við hana munnmök. Var háttsemi X talin falla undir 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og henni hafði verið breytt með 5. gr. laga nr. 37/2013. Með vísan til 1. og 2. töluliðar 1. mgr. og 3. mgr. 70. gr. og 5. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga var refsing X ákveðin fangelsi í 2 ár auk þess sem honum var gert að greiða A miskabætur.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. apríl 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað. Til vara krefst hann sýknu af kröfu ákæruvaldsins og að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en að því frágengnu að refsing verði milduð og fjárhæð einkaréttarkröfu lækkuð.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. desember 2011 til 11. júní 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Við ákvörðun refsingar ákærða í héraði bar einnig að vísa til 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. nú einnig 5. mgr. 202. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 37/2013. Að gengnum héraðsdómi var gerð sú breyting á þeim ákvæðum almennra hegningarlaga sem í ákæru greinir að nú varða brot ákærða við 1. mgr. 202. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 37/2013. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en refsingu ákærða, sem ákveðin verður fangelsi í tvö ár.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti, svo og útlagðan kostnað réttargæslumannsins allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í tvö ár.
Ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 789.867 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Evu Dísar Pálmadóttur hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur, auk útlagðs kostnaðar réttargæslumannsins 51.530 krónur.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 8. mars 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 24. janúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 5. september 2012, á hendur X, kt. [...], [...], „fyrir neðangreind kynferðisbrot gegn dótturdóttur sinni, A, fæddri [...] 2001, svo sem hér greinir:
1. Með því að hafa á ofangreindu heimili sínu að [...] í [...], í tvö skipti á tímabilinu 2009-2011, nuddað kynfæri stúlkunnar innanklæða þar sem hún lá á dýnu í svefnherbergi á annarri hæð hússins.
2. Með því að hafa 24. eða 25. júlí 2010, í tjaldi á tjaldsvæðinu við [...] í [...], nuddað kynfæri stúlkunnar innanklæða og haft við hana munnmök.“
Í ákæruskjali eru brot ákærða talin varða við 1. mgr. 200. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum og er þess þar krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu sakarkostnaðar.
Við dómtöku málsins var ennfremur haldið uppi eftirfarandi einkaréttarkröfu, eins og greinir í ákæru:
„Af hálfu B, kennitala [...], fyrir hönd ófjárráða dóttur hennar, A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 1.000.000. Gerð er krafa um vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. desember 2011 til greiðsludags af framangreindri fjárhæð en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá 12. júlí 2012 til greiðsludags.“
Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi og sakarkostnaður lagður á ríkissjóð, þar með talin hæfileg málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans. Til vara er þess krafist að ákærða verði gerð vægasta refsing sem lög leyfi, refsing verði skilorðsbundin, dæmdar bætur verði umtalsvert lægri en krafist er og að sakarkostnaði verði skipt að tiltölu milli ákærða og ríkissjóðs.
I
Málið hófst með tilkynningu aðstoðarskólastjóra grunnskóla, dags. 28. febrúar 2012, til félagsmálayfirvalda á [...] á grundvelli 17. gr. barnaverndarlaga, um grun um kynferðislega misnotkun á A. Kemur fram í tilkynningunni að stúlkan hafi upplýst umsjónarkennara sinn, í kjölfar umræðna í bekknum um kynferðislegt ofbeldi, að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hendi móðurafa síns á heimili hans á [...]. Stúlkan hafi sýnt líkamlega vanlíðan í formi höfuðverkja og magaverkja og eins hafi hún verið vansæl og dauf í dálkinn um veturinn. Forráðamenn hennar hafi ekki verið upplýstir um málið.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, dags. 6. mars 2012, upplýstu félagsmálayfirvöld lögreglu óformlega um málið 29. febrúar s.á., en síðan formlega með bréfi 5. mars s.á, eftir að fram hafði farið könnunarviðtal við barnið.
Í bréfi félagsmálastjóra [...] til lögreglustjórans á [...], dags. 5. mars 2012, er lýst könnun málsins skv. 22. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Kemur þar m.a. fram að rætt hafi verið við móður brotaþola 1. mars s.á., auk þess sem rætt hafi verið við umsjónarkennara hennar og móður vinkonu hennar. Þá er þar lýst í smáatriðum viðtali félagsmálastjórans við brotaþola í húsakynnum grunnskólans 5. mars s.á. með svofelldum hætti:
„Í upphafi samtalsins kynnti undirrituð sig og gerði grein fyrir hlutverki sínu og vitnaði auk þess í samtöl, sem átt hefðu sér stað í bekknum hjá C kennara, um góða og slæma framkomu fólks gagnvart börnum. Sagðist í því sambandi vilja spyrja A þriggja eða jafnvel fjögurra spurninga sem hún sagði að væri í lagi:
D: Hefur þú einhvern tíma upplifað að einhver hafi snert þig á þann hátt að þér hafi þótt það óþægilegt?
A: Eftir andartaks umhugsun horfði barnið á D og sagði „Já, afi á [...]“.
D: Hvar snerti hann þig?
A: Í gestaherberginu heima hjá ömmu og afa.
D: Viltu segja mér hvar á líkamanum hann snerti þig?
A: Hún byrjar að teikna með fingrinum á borðplötuna, líkan af manneskju og þá réttir D henni penna og dagbók og spyr hvort hún vilji frekar teikna á blaðið sem hún og gerir. A teiknar einfalda mynd af manneskju, höfuð, búk, hendur og fætur. Horfir á D og verður rauð í framan áður en hún dregur hring í kringum kynfærin og segir „hérna“.
D: Hversu oft gerðist þetta?
A: „Þrisvar, þegar ég var níu ára og tvisvar þegar ég var tíu ára. Afi sagði að ef ég segði einhverjum frá þessu þá færi hann í fangelsi. En ég þurfti að segja vinkonum mínum þetta af því að mér finnst þetta svo óþægilegt og mér líður mjög illa“.
Við skýrslutöku af ákærða hjá lögreglu 10. mars 2012 var honum kynnt að hann væri grunaður um að hafa brotið kynferðislega gegn barnabarni sínu, A. Ákærði neitaði sök, en kvað það rétt að stúlkan og bróðir hennar hefðu stundum gist á heimili hans.
Hinn 19. mars 2012 fór að beiðni lögreglustjórans á [...] fram skýrslutaka af A, undir stjórn dómara, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Við skýrslutökuna greindi stúlkan frá því að ákærði hafi í þrjú aðgreind skipti snert „einkastaðina“ hennar. Í fyrsta skiptið kvaðst stúlkan hafa gist í tjaldi í [...], ásamt bróður sínum, ömmu sinni og ákærða. Hafi hún vaknað við það að ákærði tók af henni sæng, girti niður um hana og fór að „nudda“ á henni klofið, en síðan hafi hann farið að „sleikja“ það. Hún hafi legið á bakinu en reynt að klemma lærin saman og ýta honum frá með fótunum. Taldi hún að á þessu hafi gengið í um 10-15 mínútur. Hún hafi reynt að troða sér yfir bróður sinn með sængina og koddann, en ekki tekist það og hann ekki vaknað við það. Að lokum hafi hún sagt ákærða að hætta. Þá hafi hann hætt og farið að sofa og hún líka. Kvaðst hún hafa séð ákærða drekka bjór fyrr um kvöldið.
Síðari tilvikunum tveimur lýsti stúlkan svo að í bæði skiptin hafi ákærði komið til hennar að næturlagi og lagst hjá henni þar sem hún svaf á dýnu á gólfi heima hjá ákærða, en bróðir hennar hafi sofið í rúmi í sama herbergi. Síðara skiptið af þessum tveimur hafi átt sér stað um helgi að sumarlagi og lýsti hún því svo að ákærði hafi farið með hönd inn undir náttbuxur hennar og „nuddað“ klof hennar innanklæða, en það hafi verið „mjög óþægilegt“. Þetta hafi staðið í um 5 mínútur. Hafi ákærði sagt við hana að hann myndi fara eftir smá stund og síðan hætt sjálfur. Fyrra skiptið hafi átt sér stað að vetrarlagi, en hún kvaðst minnast þess að hafa litið út um glugga eftir að ákærði var farinn út úr herberginu til að sjá hvort enn væri nótt og séð þá snjó úti. Lýsti hún því tilviki sem „eiginlega bara svona eins“ og síðara tilvikið, nema ákærði hafi ekkert sagt við hana og sofnað við hlið hennar í um 5 mínútur, þar til hún vakti hann og sagði honum að fara í rúmið sitt. Í þetta skiptið hafi hún verið í náttkjól og nærbuxum sem ákærði hafi farið með hönd inn undir þegar hann „nuddaði“ klofið. Einnig kom fram að í það skiptið hafi hún heyrt marra í gólfinu þegar ákærði gekk „upp í herbergið“ og inn í það.
Að auki lýsti stúlkan tveimur skiptum þar sem ákærði hafi að degi til reynt að fara inn á föt hennar, en ekki tekist það þar sem hún hafi ýtt honum frá og færst undan honum. Kom fram að í annað skiptið hafi ákærði sagt við hana að hún mætti ekki segja neinum frá, því þá þyrfti hann að fara í fangelsi, en stúlkan kvaðst ekki hafa „getað annað“ en sagt frá.
Stúlkan kvaðst fyrst hafa sagt umsjónarkennara sínum, C, frá þessum atburðum og síðan D félagsmálastjóra. Aðspurð hvort hún hafi sagt öðrum börnum frá, sagðist hún hafa reynt að segja bróður sínum frá þessu eftir annað skiptið, en hann hafi ekki trúað henni. Sérstaklega aðspurð kvaðst hún ekki hafa sagt vinkonum sínum frá og að þær C hafi rætt saman í einrúmi. Hún kvað engan annan hafa snert sig með sama hætti og ákærði. Henni hafi liðið mjög illa þegar þessi atvik áttu sér stað. Hún hafi hugsað um þetta „endalaust“ og ekki getað sofnað á kvöldin. Þá hafi hún „stanslaust“ verið að hugsa um það hvort stjúpfaðir hennar myndi brjóta gegn henni, þótt hún teldi næsta víst að það myndi ekki gerast. Núorðið liði henni „bara svona ágætlega“.
Hinn 30. apríl s.á. voru að beiðni lögreglustjóra teknar skýrslur undir stjórn dómara af bróður A, E, 13 ára og bekkjarsystur hennar, F, 10 ára, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008.
Í skýrslu E kom fram að A hafi eitt sinn, líklega „í fyrra eða hittifyrra“, sagt honum að ákærði hafi komið inn til þeirra og snert hana þegar þau systkinin gistu á heimili ákærða á [...], en vitnið kvaðst ekki muna hvort eða hvernig stúlkan hafi lýst þessu. Hann kvaðst ekki hafa getað trúað slíku upp á afa sinn og því strax rengt frásögn systur sinnar og reynt að gleyma þessu. Þau systkinin hafi gist í sama herbergi á efri hæð hússins og misjafnt hafi verið hvort þeirra svaf á dýnu á gólfi og hvort þeirra í rúmi þar í herberginu. E kvaðst aldrei hafa orðið var við að ákærði kæmi inn til þeirra að næturlagi. Hann kvaðst muna eftir að hafa gist með A, ömmu þeirra og ákærða í tjaldi í [...] og minna að ákærði hafi veikst í þeirri ferð, en annað hafi ekki borið til tíðinda.
Í skýrslu F kom fram að A hafi eitt sinn sagt henni frá því í einrúmi heima hjá vitninu, að móðurafi hennar hefði snert hana. Hafi A bent á klof sitt. Hafi A sagt frá þessu upp úr þurru, virst líða „pínu illa“ og beðið vitnið að segja tveimur öðrum vinkonum þeirra frá þessu. A hafi sagt þetta hafa gerst tvisvar sinnum er hún hafi sofið á dýnu heima hjá afa sínum, en bróðir hennar hafi sofið í rúmi í sama herbergi. Hafi A sagst eiginlega aldrei vilja fara til afa síns. Fáeinum dögum síðar hafi verið haldinn bekkjarfundur þar sem rætt hafi verið um að krakkar ættu að segja kennara sínum ef eitthvað af þessu tagi kæmi fyrir og stuttu eftir það hafi vitnið, ásamt annarri vinkonu þeirra, fylgt A á fund umsjónarkennara þeirra til að skýra frá málinu.
Í málinu liggur ennfremur fyrir vottorð Þóru Sigfríðar Einarsdóttur sálfræðings, dags. 18. janúar 2013, þar sem fram kemur að A hafi frá 22. mars 2012 sótt 12 viðtöl til sálfræðingsins. Í niðurstöðukafla vottorðsins kemur fram að viðtölin hafi leitt í ljós mörg einkenni sem þekkt séu á meðal barna sem orðið hafi fyrir kynferðisbrotum. Er þar m.a. nefnt að minningar varðandi ætluð brot hafi sótt á stúlkuna, hún hafi verið kvíðin, sem komið hafi m.a. fram í líkamlegum einkennum, strítt við öryggisleysi, skömm, sektarkennd og sjálfsásakanir. Stúlkan hafi glímt við misvísandi tilfinningar og leitað skýringa, m.a. í eigin hegðun, eins og algengt sé á meðal þolenda kynferðisbrota. Hún hafi upplifað alvarlegan trúnaðarbrest af hálfu einstaklings sem hún hafi litið upp til, þótt vænt um og treyst. Í meðferð hafi þurft að leggja töluverða áherslu á hugræna úrvinnslu vegna þessa, þ.e. hjálpa stúlkunni að skilja hvernig þetta hafi getað gerst og einnig aðstoða hana til að sjá að hún hafi ekki borið ábyrgð á því.
Meðal gagna málsins eru einnig ýmis gögn um heilsufar stúlkunnar, m.a. úr sjúkraskrá hennar, sem og ljósmyndir af ætluðum brotavettvangi á heimili ákærða á [...].
Þá liggur fyrir læknisvottorð, dags. 23. janúar 2013, þar sem teknar eru saman upplýsingar úr sjúkraskrá ákærða. Kemur þar m.a. fram að ákærði hafi farið til áfengismeðferðar á Vog [...] og að komur hans á heilsugæslu eftir það hafi ekki tengst áfengisvanda eða eftirmeðferð. Ennfremur greinir þar að ákærði hafi tvívegis verið fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur vegna gruns um [...], fyrst [...] og síðan [...]. Í bæði skiptin hafi orsök [...] verið útilokuð. Ákærði hafi við önnur tækifæri margoft leitað á heilsugæslu með verki frá [...] sem aldrei hafi verið tengdir við [...].
II
Hér verður framburður ákærða og vitna fyrir dómi rakinn eftir því sem þurfa þykir og eftir atvikum getið um framburð þeirra hjá lögreglu.
Ákærði kvaðst fyrir dómi kannast við það að barnabörn hans, A og bróðir hennar E, hafi margoft gist á heimili hans og eiginkonu hans á [...], allt frá því að þau voru lítil. Kvaðst hann þó telja sig oft hafa verið fjarverandi við vinnu [...] þegar þau gistu. Á tímabilum hafi börnin gist á heimili hans aðra hvora helgi. Börnin hafi gist í herbergi á efri hæð hússins, þar sem áður hafi verið tvö rúm en í seinni tíð eitt rúm og ein dýna á gólfi. Hann kvaðst ekki muna hvenær börnin gistu síðast á heimili hans.
Ákærði kvaðst lengi hafa drukkið áfengi í óhófi og drukkið daglega síðustu 4 til 5 árin áður en hann fór í áfengismeðferð í byrjun [...]. Hafi hann þá yfirleitt hafið drykkjuna síðdegis og drukkið upp undir eina flösku af sterku áfengi fram eftir kvöldi. Kvaðst hann sérstaklega í seinni tíð yfirleitt lítið sem ekkert muna frá því skömmu eftir að drykkjan hófst þar til daginn eftir. Yfirleitt hafi hann sofnað hér og hvar um húsið. Hann hafi einnig drukkið þegar börnin voru í pössun á heimilinu.
Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa brotið gegn barnabarni sínu, A, og engar skýringar hafa á framburði hennar, en eiga bágt með að trúa slíku upp á sig. Engin illindi hafi verið milli hans og stúlkunnar eða við móður hennar. Kom fram að ákærði hafi margsinnis orðið fyrir kynferðisbrotum sjálfur og hafi andstyggð á slíku. Þá kvaðst ákærði eiga erfitt með að trúa því að þeir atburðir gætu hafa átt sér stað sem greinir í fyrri lið ákærunnar án þess að aðrir sem sváfu í húsinu yrðu þess varir, enda braki mikið í trégólfi á efri hæð og stiga hússins, sem sé um [...] ára gamalt. Kom fram að auk eiginkonu ákærða hafi búið á heimili þeirra sonur þeirra, vitnið G, sem sofið hafi í herbergi næst því herbergi sem börnin gistu í. Ákærði kvað eiginkonu sína hafa sótt áfengismeðferð í [...], en hún hafi ekki drukkið áfengi þegar börnin voru í pössun. Borinn var undir ákærða framburður eiginkonu hans hjá lögreglu um svefnlyfjanotkun hennar og staðfesti hann að hún tæki að jafnaði nokkrar tegundir lyfja.
Hvað síðari lið ákærunnar snertir kvaðst ákærði muna eftir umræddu tjaldferðalagi, sem átt hafi sér stað sömu helgi og [...]. A og bróðir hennar hafi gist í tjaldi með ákærða og eiginkonu hans. Kvaðst ákærði hafa drukkið bjór um kvöldið, auk þess sem hann hafi staupað sig í laumi með sterku áfengi og sagðist ekkert muna frá því skömmu eftir kvöldmat þar til daginn eftir.
Ákærði tók fram að honum þætti frásögn A ótrúleg af ýmsum sökum. Nefndi hann sem dæmi að stúlkan hafi við heimkomu hans [...], eftir tjaldferðalagið í [...], komið til hans og sýnt honum umhyggju, sem stangaðist á við fullyrðingar í rannsóknargögnum málsins um að hún hræddist og forðaðist hann. Þá nefndi ákærði að hann og eiginkona hans stunduðu ekki munnmök og því þætti honum ótrúlegt að hann tæki upp á því. Ef einhver stoð væri fyrir framburði stúlkunnar um atburði í tjaldinu þá hlyti hann að hafa ruglast á henni og eiginkonu sinni og því enginn ásetningur til brota gagnvart stúlkunni.
Í framburði ákærða kom fram að hann hafi einhvern tímann verið ásakaður af systur sinni um kynferðisbrot gagnvart henni, en þá hafi verið um að ræða atburð sem hafi átt að hafa gerst um 8-10 árum fyrr. Ákærði kvað ásakanirnar ekki hafa átt við rök að styðjast. Aðspurður sagðist hann hafa átt að hafa verið undir áhrifum áfengis umrætt sinn.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 10. mars 2012 og aftur 30. s.m. Framburður hans fyrir dómi samræmist í öllum meginatriðum framburði hans hjá lögreglu.
B, móðir A og dóttir ákærða, kaus að gefa skýrslu fyrir dómi. Kvaðst hún hafa frétt af málinu frá starfsmönnum félagsþjónustunnar, sem skýrt hafi henni frá því að A hefði fyrst sagt vinkonu sinni frá og síðan kennara sínum tveimur dögum fyrr. Vitnið kvaðst hafa verið beðin um að ræða þetta ekki við stúlkuna að fyrra bragði og ekki hafa verið viðstödd könnunarviðtal félagsmálastjóra við stúlkuna.
Vitnið kvaðst muna eftir tjaldferðalagi í [...] nálægt verslunarmannahelgi sumarið 2010, þegar ákærði hafi veikst [...], eftir að hafa gist þar ásamt eiginkonu sinni, A og E. Vitnið kvaðst sjálf ekki hafa gist þar, heldur haldið heim fyrir nóttina, ásamt sambýlismanni og yngri [...].
A og bróðir hennar hafi oft gist á heimili ákærða og eiginkonu hans, ömmu barnanna, sérstaklega á sumrin, en eina og eina helgi að vetrarlagi. Þau hafi sóst eftir því að fara þangað og þótt það skemmtilegt. Það hafi síðan breyst hvað stúlkuna snerti og kvaðst vitnið telja það hafa verið rétt fyrir jólin 2010 sem stúlkan hafi tekið mjög illa í að fara og gista heima hjá ákærða.
Vitnið kvað dóttur sína alltaf hafa verið glaða, mannblendna og uppátækjasama, en að hún hafi tekið miklum breytingum um tíma. Hafi hún þá farið að kvarta oft yfir ýmsum verkjum, hætt í íþróttum og farið að borða of mikið. Þá hafi hún haldið sig mest heima og hætt t.d. að vilja gista hjá vinkonum sínum. Þetta hafi verið mest áberandi á því ári sem fjölskyldan festi kaup á íbúð í [...], eða á árinu [...]. Kvaðst vitnið oft hafa farið með dóttur sína til læknis út af verkjum í maga, höfði, baki og hálsi, en það hafi aldrei fundist nein skýring á þeim. Vitnið kvaðst hafa tengt þetta grun sínum um að stúlkan væri haldin athyglisbresti og pantað tíma hjá barnageðlækni á [...], en einnig hafi hún nefnt það við lækna að stúlkan hafi [...].
Vitnið kvað stúlkuna hafa átt mjög erfitt í byrjun árs 2012. Hún hafi ekki getað einbeitt sér að neinu, verið vælin, pirruð, utan við sig og með skapsveiflur. Kvaðst vitnið hafa álitið að stúlkan væri að ganga í gegnum einhverjar breytingar tengdar aldri hennar. Vitnið sagðist hafa fundið fyrir létti hjá stúlkunni eftir að hún sagði frá, en hún hafi þó verið stressuð og óörugg í einhvern tíma eftir að hún hóf viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi. Eftir þetta hafi ekki borið á kvörtunum hjá henni yfir höfuð- og magaverkjum, en fundist hafi líkamleg skýring á kvörtunum hennar vegna verkja í fótum. Hún sé öruggari, gisti stundum hjá vinkonu sinni og sé farin að stunda íþróttir og félagsmiðstöð. Líðan hennar í dag sé „bara mjög góð“, enda hafi hún fengið góða hjálp. Vitnið kvaðst þó hafa áhyggjur af bakslagi þegar komi fram á unglingsár stúlkunnar.
Vitnið kvað samskipti sín og ákærða ávallt hafa verið „bara fín“ og engin illindi milli þeirra. Eftir á að hyggja hafi henni þótt meira „stress“ í kringum hann í aðdraganda þess að stúlkan sagði frá, en hafa tengt það fjárhagsáhyggjum á þeim tíma.
Vitnið kvað áfengisneyslu ákærða hafa verið stöðuga og mjög slæma í gegnum árin, allt frá því að hún sjálf var barn. Kvaðst hún telja neyslu hans hafa versnað á síðastliðnum árum og hafa orðið vör við að drykkja hans leiddi til minnisleysis. Aðspurð hvort hún vissi til þess að drykkja hafi verið á heimili ákærða þegar börnin gistu þar kvaðst vitnið telja að ákærði hefði „alveg fengið sér í glas“ en að móðir hennar hefði aldrei drukkið áfengi á meðan börnin væru í pössun.
Vitnið kvað son hennar og bróður A, E, hafa skýrt henni frá því, eftir að málið kom upp, að A hafi eitt sinn reynt að segja honum frá gjörðum ákærða. Hafi E iðrast þess að hafa rengt systur sína, en sagst ekki hafa getað trúað slíku upp á afa sinn.
Vitnið kvaðst enn í dag ekki hafa rætt neitt við dóttur sína um atvik málsins, enda hafi A ekki snúið sér til hennar til að ræða þau að fyrra bragði. Hún hafi hins vegar fengið upplýsingar um frásögn hennar í gegnum skriflegar skýrslur og hjá meðferðaraðila. Kvaðst hún enga ástæðu hafa til að rengja frásögn dóttur sinnar og að ekkert í lífshlaupi hennar eða umhverfi gæti skýrt að hún kæmi fram með slíka frásögn að ósekju. Um fjölskylduhagi þeirra mæðgna kom fram í framburði vitnisins að [...]. Um sama leyti hafi vitnið hafið sambúð með núverandi sambýlismanni sínum og hafi stúlkan tekið honum mjög vel. Þeim hafi fæðst [...] í [...].
Framburður B fyrir dómi samræmist í öllum meginatriðum skýrslu sem hún gaf hjá lögreglu 26. mars 2012.
Vitnið C kvaðst fyrir dómi hafa verið umsjónarkennari A frá hausti 2011. Stúlkan sé kát og létt að eðlisfari, en fljótlega eftir að kennsla hófst hafi farið að bera á töluvert miklum kvörtunum hennar yfir líkamlegum verkjum, einkum höfuð- og magaverkjum. Einnig hafi borið á einbeitingarskorti. Vitnið kvaðst í eitt skipti hafa sent stúlkuna í „spjall“ til skólahjúkrunarfræðings og nokkrum sinnum hafi stúlkan verið send heim vegna höfuðverkjakasta. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að hafa aflað sér upplýsinga um stúlkuna frá fyrri kennara hennar, en móðir stúlkunnar hafi verið búin að nefna þessi höfuðverkjaköst við vitnið. Henni væri ekki kunnugt um að líkamlegar skýringar hafi fundist á þessum verkjum.
Í aðdraganda þess að stúlkan leitaði til vitnisins hafi verið búið að leggja nafnlausa eineltiskönnun fyrir nokkra bekki, þar sem m.a. hafi verið spurt um kynferðislega misnotkun. Í bekk stúlkunnar hafi komið fram að einn nemandi svaraði jákvætt þeirri spurningu. Í framhaldi af því hafi námsráðgjafi verið fenginn til að spjalla við bekkinn á bekkjarfundi. Eftir einhverja daga hafi A komið ásamt tveimur vinkonum sínum á fund vitnisins og skýrt frá misnotkun af hálfu afa síns á [...]. Fram hafi komið að stúlkan hafi verið búin að skýra vinkonum sínum frá þessu áður en bekkjarfundurinn fór fram. Þá hafi komið fram að þegar stúlkan færi í heimsókn á [...] kæmi það fyrir að afi hennar þuklaði á henni undir sæng, en vitnið kvaðst ekki hafa spurt nánar út í atvik. Stúlkan hafi roðnað meðan hún skýrði frá, en staðið sig vel, enda sé hún sterkur einstaklingur. Vitnið kvaðst ekki hafa rætt þetta neitt frekar við stúlkuna. Aðspurð um líðan stúlkunnar, kvaðst vitninu hafa fundist stúlkunni létt eftir að hún sagði frá. Hún virtist nú í ágætu jafnvægi og ekki hafi borið á umkvörtunum um líkamlega verki undanfarinn vetur.
C gaf skýrslu hjá lögreglu 10. apríl 2012. Framburður hennar fyrir dómi er í öllum meginatriðum í samræmi við þá skýrslu. Aðspurð fyrir dómi í tilefni af þeim orðum í samantekt á framburði hennar hjá lögreglu að hún hafi eftir frásögn A farið að velta fyrir sér hvort hún ætti að rengja stúlkuna, kvaðst vitnið þar hafa vísað til þess formlega ferlis sem hún hefði komið af stað með tilkynningu sinni, en tók fram að hún hafi aldrei haft neina ástæðu til að rengja frásögn stúlkunnar.
Vitnið D félagsmálastjóri á [...] gerði fyrir dómi grein fyrir aðkomu sinni að málinu og reynslu sinni af barnaverndarmálum, sérstaklega á sviði mála vegna gruns um kynferðisbrot gegn börnum. Henni hafi borist símtal frá grunnskóla [...] um málið og í kjölfarið formleg tilkynning um að A hafi skýrt kennara sínum frá því að hún hafi orðið fyrir kynferðisbroti. Kvaðst vitnið hafa boðað kennarann á sinn fund og ráðfært sig við Barnahús, áður en ákveðið hafi verið að taka könnunarviðtal við stúlkuna í húsnæði skólans. Í viðtalinu hafi komið fram að afi stúlkunnar á [...] hafi snert kynfæri hennar þegar stúlkan og bróðir hennar gistu á heimili hans. Systkinin hafi sofið í herbergi uppi á lofti, annað á rúmi og hitt á dýnu. Þetta hefði gerst þegar hún svaf á dýnunni. Stúlkunni hafi verið sagt að móður hennar yrði sagt frá þessu en þær ættu ekki að ræða þetta fyrr en búið væri að taka skýrslu af stúlkunni. Móðir stúlkunnar hafi einnig verið boðuð til fundar og upplýst um málið, en vitnið kvaðst ekki muna fyrir víst hvort það hafi verið fyrir eða eftir að könnunarviðtalið fór fram.
Þóra Sigfríður Einarsdóttir sálfræðingur staðfesti fyrir dómi vottorð sitt, dags. 18. janúar 2013, og gerði grein fyrir því sem fram hefði komið við 12 meðferðarviðtöl hennar við stúlkuna. Hafi komið í ljós að stúlkan hafi verið með frekar alvarleg kvíðaeinkenni og áleitnar minningar, en sálfræðipróf hafi ekki verið lögð fyrir hana strax, enda hafi hún átt erfitt með að einbeita sér. Í fyrstu hafi verið unnið að því að hjálpa stúlkunni að takast á við þennan kvíða og minningar. Í framhaldi hafi stúlkan verið að takast á við blendnar tilfinningar í garð ákærða, sem einkennst hafi af söknuði og hræðslu frekar en reiði. Stúlkan hafi að einhverju leyti réttlætt gerðir ákærða og tekið ábyrgð á þeim sjálf. Hvort tveggja sé algengt einkenni þolenda kynferðisbrota, sérstaklega hjá börnum vegna brota af hálfu nátengdra. Eðlilegt sé að barn í þessari stöðu sýni gerandanum hlýju þegar aðstæður séu öruggar, þ.e. innan um aðra og hafi það raunar komið fram í viðtölum við stúlkuna að hún óttaðist ekki að hann bryti gegn henni við þær aðstæður. Stúlkan hafi velt fyrir sér skýringum á hegðun ákærða, hvort hann hafi drukkið of mikið og „ruglast í höfðinu“ eða ekki heyrt í henni þegar hún sagði honum að hætta. Stúlkan hafi haft áhyggjur af því hvort afi hennar þyrfti að fara í fangelsi, en samt hafi henni eiginlega fundist það rétt þar sem þá fengi hann hjálp til að hætta þessu.
Þar sem áleitnar minningar hafi verið að trufla stúlkuna hafi verið þörf á að fara ítarlega í atburði og alltaf hafi verið samræmi í frásögnum hennar. Ekkert í frásögnum hennar eða persónuleika gefi vísbendingar um að stúlkan sé ekki að segja satt og rétt frá. Við meðferðina hafi stúlkan skrifað frásögn sína af atburðum í svokallaða „áfallabók“. Rakti vitnið helstu atriði úr frásögn stúlkunnar. Kom fram að fyrsta skiptið sem ákærði hefði brotið gegn henni hafi verið í tjaldi í [...]. Hún hafi vaknað við að ákærði var að hreyfa sig, snerti læri hennar, fór inn á nærbuxur hennar og nuddaði kynfærin, sem henni hafi þótt mjög óþægilegt og loks hafi hann sleikt kynfæri hennar. Ekki hafi komið fram hvar næsta skipti hafi átt sér stað en síðasta skiptið hafi átt sér stað á heimili ákærða á [...], þar sem hann hafi aftur snert kynfæri hennar. Hún hafi vaknað við það að það brakaði í gólfi hússins. Hún hafi ekki rætt sérstaklega um drykkju ákærða, nema í tengslum við atvikið í [...].
Stúlkan hafi sagst hafa sagt vinkonum sínum frá því í upphafi sem hún hafi orðið fyrir og síðan kennara sínum, félagsmálastjóra og móður sinni, en ekkert bendi til þess að mikið hafi verið rætt við stúlkuna um þessa atburði.
Sálfræðipróf hafi fyrst verið lögð fyrir stúlkuna í október 2012, en þá hafi verulega verið búið að draga úr kvíðaeinkennum hennar. Ekki sé hægt að fullyrða um afleiðingar en almennt megi segja að börn sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi muni þurfa hjálp síðar á lífsleiðinni. Meðferð stúlkunnar sé ekki lokið. Vitnið kvað ekkert hafa komið fram í viðtölunum sem bendi til þess að [...] hafi haft áhrif á líðan hennar og aukið á kvíða hennar, en fyrri áföll geri fólk vissulega viðkvæmara.
Vitnið H gaf ekki skýrslu hjá lögreglu, en fyrir dómi bar hún um að dóttir hennar, F, hafi greint henni frá því, líklega í febrúarmánuði 2012, að A hefði u.þ.b. 10 dögum fyrr sagt F frá því að hún hefði orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu afa síns. Að sögn F hafi A skýrt svo frá að þetta hafi gerst að næturlagi er hún gisti á heimili afa síns á [...]. Hún hafi verið hálfsofandi á dýnu og bróðir hennar sofið í sama herbergi. Hún hafi sagst vera hrædd við að gista þar. Hafi A sagt þetta hafa gerst þrisvar og lýst því fyrir F með bendingum hvar afi hennar hefði snert hana. Fram hafi komið að A væri ekki búin að segja móður sinni frá. Vitnið hafi á þessum tíma verið á leið erlendis og ekki getað fylgt málinu eftir, en úr hafi orðið að F hafi hvatt A til að segja frá og fylgt henni í því skyni til kennara þeirra, C. Kvaðst vitnið hafa þessar upplýsingar frá dóttur sinni en aldrei hafa rætt þetta sjálf við A.
I, eiginkona ákærða, kaus að gefa skýrslu vegna málsins hjá lögreglu 23. apríl 2012, en fyrir dómi skoraðist hún undan því að tjá sig um málið. Í framburði hennar hjá lögreglu kom fram að hún hafi aldrei hafa orðið vör við eða haft grun um að ákærði hefði brotið kynferðislega gegn A. Ákærði hafi skýrt henni frá málinu á [...], áður en hann fór á Vog til áfengismeðferðar. Fram kom að ákærði hafi gjarnan drukkið ótæpilega og sofnað í stofusófa, einnig þegar A og bróðir hennar gistu hjá þeim, og að það kæmi fyrir að hann myndi ekki neitt eftir að hafa verið að drekka. Kvaðst hún sjálf telja ólíklegt að hún hefði vaknað við það ef ákærði hefði farið inn í herbergi þar sem börnin sváfu og tók fram að hún hafi árum saman notað svefnlyf að staðaldri. Hún kvaðst minnast þess að hafa í eitt skipti gist í tjaldi með börnunum og ákærða í [...], líklega í júlí eða ágústmánuði árið 2009, en ákærði hafi daginn eftir [...]. Hún hafi drukkið fjóra bjóra umrætt kvöld og farið inn í tjald að sofa með börnunum, en ákærði hafi þá enn verið úti að drekka. Morguninn eftir hafi hún komið að honum í stól utan við tjaldið í sólbaði. Kvaðst hún ekkert hafa orðið vör við hann um nóttina.
G, sonur ákærða, var ekki yfirheyrður við rannsókn málsins hjá lögreglu en hann kaus að gefa skýrslu fyrir dómi. Kvaðst hann hafa búið á heimili foreldra sinna á árunum [...]. Hann kannaðist við að A og E hafi stundum gist á heimilinu en kvaðst aldrei hafa orðið var við neitt óeðlilegt. Vitnið kvaðst hafa sofið í herbergi á sömu hæð og börnin en haft lokað inn til sín. Það marraði örlítið í stiganum upp á loftið og eitthvað í gólfinu, en vitnið kvaðst vant því hljóði og örugglega ekki vakna við það. Ákærði væri ofdrykkjumaður, drykki alla daga og yrði „ruglaður“ en þó yfirleitt rólegur.
III
Ákærða er gefið að sök að hafa þrívegis brotið kynferðislega gegn barnabarni sínu, A, í eitt skipti í tjaldi í [...] í helgina 24.-25. júlí 2010 og í tvö skipti á árabilinu 2009 til 2011 er stúlkan gisti á heimili hans á [...].
Ákærði hefur frá upphafi neitað sök. Hefur framburður hans verið á þann veg að hann minnist þess ekki að hafa snert stúlkuna með þeim hætti sem greinir í ákæru og trúi því ekki upp á sig. Hann kannast hins vegar við að stúlkan hafi margsinnis gist í tilteknu herbergi á heimili hans, ásamt bróður sínum og að börnin hafi gist ásamt honum og eiginkonu hans í tjaldi í [...] umrædda helgi, þá sömu og [...]. Þá hefur hann bæði hjá lögreglu og fyrir dómi skýrt frá því að hann hafi á umræddu tímabili verið ofdrykkjumaður. Hafi hann yfirleitt hafið drykkju síðdegis og drukkið upp undir eina flösku af sterku áfengi, uns hann sofnaði. Það hafi orðið æ algengara að hann missti minnið vegna drykkjunnar og í seinni tíð hafi það gerst nánast undantekningalaust. Umrætt kvöld í [...] hafi hann, auk þess sem hann drakk bjór, staupað sig á sterku áfengi í laumi og misst minnið fljótlega eftir kvöldmat. Sé framburður stúlkunnar réttur, hljóti hann að hafa ruglast á henni og eiginkonu sinni í tjaldinu.
Framburður ákærða um daglega áfengisdrykkju og minnisleysi á sér stoð í framburði sonar hans og dóttur fyrir dómi, sem og eiginkonu hans hjá lögreglu og er ekkert fram komið sem gerir þann framburð ótrúverðugan. Ákærði kvað fyrir dómi engin illindi hafa verið innan fjölskyldunnar, hvorki við stúlkuna né móður hennar, B og samræmist það framburði móðurinnar, B. Kvaðst hann ekki geta getið sér til um skýringar þess ef stúlkan væri að skýra rangt frá. Verður framburður hans ekki skilinn með öðrum hætti en svo að hann geti ekki útilokað að framburður stúlkunnar sé réttur.
Ákæran er byggð á framburði sem A gaf við rannsókn málsins undir stjórn dómara er hún var liðlega 11 ára gömul og eru meginatriði hans rakin hér að framan. Framburður hennar var skýr og skilmerkilegur miðað við aldur hennar og jafnframt stöðugur og í innbyrðis samræmi, þrátt fyrir að við skýrslutökuna væri farið nokkuð fram og til baka milli atburða. Nokkurs misræmis gætti varðandi ártöl og aldur hennar við hvert brotanna, sem ekki þykir þó til þess fallið að draga úr trúverðugleika framburðar hennar þegar litið er til aldurs hennar.
Skýrt kom fram í framburði stúlkunnar að ákærði hafi fyrst brotið gegn henni í tjaldferðalagi í [...], sbr. síðari lið ákærunnar, og að [...] hennar, [...], hafi á þeim tíma verið eins eða tveggja ára og farin að ganga. Upplýst er, með framburðum vitna og læknisvottorði sem ákærði lagði fram, að það tjaldferðalag stóð yfir helgina 24.-25. júlí 2010, er stúlkan var á 10. ári. Samræmist framburður hennar um atburði og aðstæður í tjaldferðalaginu framburði ákærða sjálfs og vitna svo langt sem þeir ná. Má þar nefna að stúlkan bar á sama veg og ákærði um að hann hafi setið í stól við tjaldið um kvöldið og drukkið bjór.
Framburður stúlkunnar um tvö tilvik á heimili ákærða, þar sem hún kveður ákærða hafa komið inn í herbergi þar sem hún svaf á dýnu á gólfi við hlið rúms þar sem bróðir hennar svaf, samræmist einnig framburði ákærða og vitna um aðstæður í herberginu. Liggur fyrir að stúlkan gisti á tíðum oft hjá ákærða, sjaldnar þó á veturna. Lýsti hún háttsemi ákærða sem svipaðri í bæði skiptin, þ.e. að hann hafi lagst hjá henni að næturlagi, farið inn undir föt hennar og „nuddað“ klof hennar. Gerði hún skýran greinarmun á þessum tveimur tilvikum, t.d. hvað varðaði árstíma og fatnað hennar, auk þess sem fram kom að í annað skiptið hafi ákærði sofnað við hlið hennar, þar til hún vakti hann og sagði honum að fara. Framburður hennar um að hafa í sama skipti vaknað við marr í gólfi þegar ákærði var á leið í herbergið til hennar samræmist framburði ákærða sjálfs og G sonar hans, um að nokkuð marri í trégólfi og tröppum í húsinu, en ekki gerir það framburð stúlkunnar ótrúverðugan þótt aðrir í húsinu hafi ekki vaknað við marrið.
Framburður stúlkunnar um að hafa sagt bróður sínum, E, frá háttsemi ákærða, en hann hafi ekki trúað henni, á sér stoð í framburði E. Framburður hennar samræmist einnig framburði vitna um frásögn hennar þegar hún skýrði frá háttsemi ákærða snemma árs 2012. Kom fram hjá jafnaldra vinkonu hennar, vitninu F, að A hafi sagt henni frá því með orðum og líkamstjáningu sinni að ákærði hafi snert klof hennar tvívegis á heimili hans á [...]. Svipuð lýsing kom fram hjá vitninu C, sem sagði stúlkuna hafa komið að máli við sig í fylgd tveggja vinkvenna, en vitnið kvaðst þó hafa gætt sín á því að spyrja ekki stúlkuna ítarlega út í atburði. Framburður stúlkunnar er einnig í samræmi við þá lýsingu sem vitnið D skráði eftir henni í könnunarviðtali og fram kemur í tilkynningu vitnisins um málið til lögreglu, dags. 5. mars 2012.
Framburður stúlkunnar á sér jafnframt stoð í vottorði Þóru Sigfríðar Einarsdóttur sálfræðings og framburði hennar fyrir dómi, þar sem fram kom að stúlkan hafi sýnt mörg einkenni sem algeng séu meðal þolenda kynferðisbrota, sér í lagi þeirra sem verði fyrir brotum af hendi nákominna. Lýsti vitnið því m.a. hvernig stúlkan hefði leitað skýringa á atburðunum og tekið á sig ábyrgð á þeim að hluta, auk þess sem hún hafi átt erfitt með að henda reiður á misvísandi tilfinningum sínum í garð ákærða. Í framburði sálfræðingsins fyrir dómi kom fram að í frásögn stúlkunnar af atburðum, sem ítarlega hefði þurft að fara í vegna minninga sem ásóttu hana, hafi hún ávallt verið samkvæm sjálfri sér og ekkert að áliti vitnisins í persónuleika hennar eða frásögn gæfi tilefni til að efast um sannleiksgildi frásagnar hennar.
Samkvæmt framburði B, móður stúlkunnar, hafði hegðun stúlkunnar breyst töluvert áður en hún skýrði frá brotum ákærða og hafi þetta einkum verið áberandi árið 2010. Tengdi B þetta jafnframt við þann tíma þegar fjölskyldan festi kaup á íbúð í [...], en af framburði hennar fyrir dómi varð ráðið að þangað hafi þau ekki flutt fyrr en síðla ársins [...] eða síðar. Stúlkan hafi einangrað sig, átt við meiri svefnörðugleika að stríða en áður og kvartað sífellt yfir verkjum sem engar skýringar fundust á. Stúlkan hafi átt áberandi erfitt í upphafi ársins 2012, en henni hafi virst létta nokkuð um það leyti sem hún skýrði frá það vor og heyrðu kvartanir um líkamlega verki nú sögunni til. Framburður C, umsjónarkennara stúlkunnar frá hausti 2011, um tíðar kvartanir stúlkunnar yfir líkamlegum einkennum sem linnt hafi um það leyti sem hún sagði frá, er mjög á sömu lund og framburður B. Fær framburður þeirra auk þess nokkra stoð í framlögðum gögnum úr sjúkraskrá stúlkunnar. Þótt ekki verði mikið lagt upp úr hugsanlegum tengslum einkenna stúlkunnar við ætluð brot ákærða, er framangreint þó fremur til þess fallið að styðja framburð stúlkunnar heldur en hitt.
Við skýrslutöku undir stjórn dómara 19. mars 2012 sagðist A hafa rætt í einrúmi við umsjónarkennara sinn, C, þegar hún skýrði henni frá atburðum og ekki hafa sagt vinkonum sínum frá þeim. Að þessu leyti stangast framburður hennar á við framburði vitnanna C, F og móður F, H. Samkvæmt vottorði Þóru Sigfríðar Einarsdóttur sálfræðings og framburði hennar fyrir dómi kom fram í meðferðarviðtölum við stúlkuna að hún hafi skýrt vinkonum sínum frá atburðum þar sem hún hafi ekki getað „haldið því inni“. Ósamræmi þetta lýtur að aukaatriði málsins. Bendir ekkert til þess að stúlkan hafi með þessu reynt að hagræða framburði sínum, heldur þykir framanritað benda til þess að minni stúlkunni um þetta atriði hafi brugðist er skýrslutakan fór fram, en stúlkan var ekki leidd fyrir dóm að nýju við aðalmeðferð málsins. Er þetta ósamræmi því ekki til þess fallið að draga úr trúverðugleika framburðar stúlkunnar um önnur atvik, sem eins og áður sagði hefur verið stöðugur.
Ekkert er fram komið í málinu sem gefið getur tilefni til að ætla að frásögn stúlkunnar um brot ákærða gagnvart henni skýrist af upplifun eða reynslu sem hún hafi öðlast með öðrum hætti. Þá er ekkert fram komið sem bendir til þess að framburður stúlkunnar sé ekki hennar að öllu leyti eða hafi litast af leiðandi spurningum annarra, eins og vörn ákærða byggist öðrum þræði á. Þá verður ekki fallist á þá vörn ákærða, sem fram kemur í greinargerð hans og að nokkru leyti var haldið uppi við munnlegan flutning málsins, að ákvæðis 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, hafi ekki verið gætt með fullnægjandi hætti við skýrslutöku af stúlkunni, enda kemur fram á upptöku af skýrslutökunni að stúlkunni var kynntur sá réttur í samræmi við aldur hennar og þroska.
Eins og fyrr sagði verður ekki annað séð en að ákærði hafi leitast við að skýra frá eftir bestu getu og er ekkert fram komið sem rýrir trúverðugleika framburðar hans. Hjá því verður þó ekki litið að samkvæmt framburði hans sjálfs drakk hann sig til óminnis svo til á hverju kvöldi á umræddu tímabili og er því í raun ekki til frásagnar um athafnir sínar að næturlagi.
Gegn neitun ákærða, sem eins og rakið hefur verið byggir á algjöru minnisleysi hans, þykir samkvæmt öllu framanrituðu verða að leggja til grundvallar stöðugan og trúverðugan framburð A um atburði, enda á hann sér slíka stoð í gögnum málsins og framburði framangreindra vitna, sem dómurinn metur trúverðug, að hafið þykir yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir.
Vörn ákærða byggist m.a. á því að hafi hann gerst sekur um háttsemi samkvæmt ákæru hljóti hann sökum ölvunar að hafa ruglast á eiginkonu sinni og stúlkunni, a.m.k. í tjaldinu, sbr. síðari lið ákærunnar. Samkvæmt 17. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 leysir ölvun menn almennt ekki undan refsiábyrgð. Ákærði hefur ekki sýnt fram á að ástand hans hafi verið slíkt sem um ræðir í síðari málslið lagagreinarinnar.
Samkvæmt framanrituðu verður ákærði því sakfelldur fyrir háttsemi samkvæmt báðum liðum ákærunnar. Við ákvörðun refsingar verður lagt til grundvallar að ákærði hafi fyrst brotið gegn stúlkunni 24. eða 25. júlí 2010, í samræmi við framburð hennar og að brot samkvæmt fyrri lið ákærunnar séu því framin á tímabilinu 2010 til 2011.
Í ákæru eru brot ákærða samkvæmt báðum ákæruliðum talin varða við 1. mgr. 200. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum, en þessi lagaákvæði eiga það sammerkt að þar er lýst þeirri refsiverðu háttsemi að hafa samræði eða önnur kynferðismök við börn. Í lögskýringargögnum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 40/1992, er fól m.a. í sér þær breytingar á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga að hugtakið „önnur kynferðismök“ var lagt að jöfnu við samræði, kemur fram að skýra beri hugtakið fremur þröngt þannig að átt sé við kynferðislega misnotkun á líkama annarrar manneskju, er komi í stað hefðbundins samræðis eða hafi gildi sem slíkt (surrogat), en um sé að ræða athafnir sem veiti eða séu almennt til þess fallnar að veita hinum brotlega kynferðislega fullnægingu. Af dómaframkvæmd Hæstaréttar, t.d. dómum réttarins frá 4. mars 2010 í máli nr. 672/2009 og frá 18. október 2012 í máli nr. 428/2012 verður ráðið að til þess að snerting handar við kynfæri brotaþola verði felld undir hugtakið „önnur kynferðismök“ í skilningi framangreindra lagaákvæða þurfi hún að vera af því tagi sem kalla má fróun eða nudd, þ.e. ekki óveruleg eða mjög skammvinn snerting.
Í framburði brotaþola kom skýrt fram að í bæði skiptin sem greinir í fyrri lið ákærunnar hafi ákærði „nuddað“ klof hennar innanklæða. Í síðara tilvikinu hafi atburðurinn varað í um 5 mínútur og lýsti stúlkan því svo að nuddið hefði verið „mjög óþægilegt“. Á myndbandi af skýrslutökunni sést hvernig stúlkan sýnir stuttlega með fingrum sínum hvernig ákærði hreyfði vísifingur og löngutöng, er hún var spurð út í þetta tilvik. Fyrra tilvikinu lýsti stúlkan sem „eiginlega bara svona eins“ og hið síðara. Þykir með framburði stúlkunnar nægilega leitt í ljós að háttsemi ákærða samkvæmt fyrri lið ákærunnar hafi verið þess eðlis að fallast verði á það með ákæruvaldinu að þau brot verði heimfærð til 1. mgr. 200. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, líkt og í ákæru greinir. Brot ákærða samkvæmt síðari lið ákærunnar fellur ótvírætt undir sömu lagaákvæði.
Ákærði er 53 ára að aldri. Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur hann tvívegis gengist undir sekt hjá lögreglustjóra vegna tollalagabrota, en hefur ekki áður gerst sekur um brot gegn almennum hegningarlögum.
Við ákvörðun refsingar ákærða verður til þess litið að ákærði braut þrívegis alvarlega gegn ungu barnabarni sínu við aðstæður þar sem stúlkan var í umsjá hans og var háttsemi hans til þess fallin að valda stúlkunni skaða, sbr. 1. og 2. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Af framburði ákærða, svo langt sem hann nær, verður ráðið að hann hafi reynt að skýra frá af hreinskilni og ekki leitast við að fegra hlut sinn. Að öðru leyti á ákærði sér engar málsbætur. Með hliðsjón af öllu framanrituðu þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Engin efni eru til að fresta fullnustu þeirrar refsingar skilorðsbundið.
Í málinu gerir móðir A kröfu fyrir hennar hönd um að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta. Er krafan á því byggð að ákærði hafi gerst sekur um ólögmæta meingerð gegn persónu brotaþola, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Brot ákærða séu til þess fallin að valda stúlkunni andlegri vanlíðan, þau séu sérstaklega gróf í ljósi þess að hann sé afi hennar og hafi verið treyst til að gæta hennar, auk þess sem brotin hafi átt sér stað á löngum tíma og valdið henni miklum þjáningum. Stúlkan hafi átt við svefnvandamál að stríða og ýmsir álagstengdir kvillar hafi verið farnir að há henni, s.s. höfuðverkur og magaverkur. Þá hafi atburðirnir valdið henni óöryggi og vantrausti í garð karlmanna.
Ákærði hefur gerst sekur um alvarlega meingerð gagnvart brotaþola og á hún því rétt á miskabótum úr hendi hans, með vísan til b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt vottorði og framburði Þóru Sigfríðar Einarsdóttur sálfræðings hefur meðferð stúlkunnar gengið vel, en er ólokið. Algengt sé að þolendur kynferðisbrota glími við afleiðingar þeirra á ýmsum skeiðum lífsins, t.d. við unglingsaldur og á fullorðinsárum, s.s. í tengslum við kynlíf, meðgöngur og fæðingar. Þykja miskabætur til brotaþola, að ungum aldri hennar, eðli brota ákærða og afleiðinga þeirra virtum, hæfilega ákveðnar 800.000 krónur, með vöxtum eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði.
Af niðurstöðu málsins leiðir að ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað. Samkvæmt yfirliti ákæruvaldsins féll við rannsókn málsins til kostnaður að fjárhæð alls 74.450 krónur vegna öflunar vottorðs sálfræðings og vegna flugfargjalds verjanda ákærða. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Gísla M. Auðbergssonar hdl., vegna starfa hans á rannsóknarstigi og fyrir dómi, þykja hæfilega ákveðin 564.750 krónur. Útlagður kostnaður verjandans vegna öflunar læknisvottorðs nemur að auki 7.500 krónum og þá ber honum að fá bættan kostnað vegna aksturs, 32.830 krónur. Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Evu Dísar Pálmadóttur hrl., þykir hæfilega ákveðin 326.300 krónur, auk þess sem útlagður kostnaður réttargæslumannsins vegna flugferðar og bílaleigubíls nemur alls 43.597 krónum. Við ákvörðun málsvarnarlauna verjanda og þóknunar réttargæslumanns hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Samtals verður ákærði því dæmdur til að greiða 1.049.427 krónur í sakarkostnað.
Dómur þessi er kveðinn upp af Hildi Briem héraðsdómara sem dómsformanni, ásamt meðdómsmönnunum Erlingi Sigtryggssyni héraðsdómara og Þorsteini Davíðssyni héraðsdómara, föstudaginn 8. mars 2013 kl. 15:00, í dómsal Héraðsdóms Austurlands að Lyngási 15, Egilsstöðum. Við dómsuppsögu var gætt ákvæðis 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, en dráttur varð á dómsuppsögu vegna embættisanna og veikindaforfalla dómsformanns.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 18 mánuði.
Ákærði greiði B, fyrir hönd ófjárráða dóttur hennar, A, 800.000 krónur, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. desember 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá 12. júlí 2012 til greiðsludags.
Ákærði greiði 1.049.427 krónur í sakarkostnað. Eru þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Gísla M. Auðbergssonar hdl., að fjárhæð 564.750 krónur, auk útlagðs kostnaðar verjandans, alls 40.330 krónur. Þá er þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Evu Dísar Pálmadóttur hrl., að fjárhæð 326.300 krónur, auk útlagðs kostnaðar réttargæslumannsins, alls 43.597 krónur.