Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-15

Finnbogi Jóhannsson (Hróbjartur Jónatansson lögmaður)
gegn
Bílastjörnunni ehf. (Sveinn Andri Sveinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Lóðarleigusamningur
  • Riftun
  • Túlkun samnings
  • Tómlæti
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson.

Með beiðni 8. janúar 2020 leitar Finnbogi Jóhannsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 13. desember 2019 í máli nr. 244/2019: Finnbogi Jóhannsson gegn Bílastjörnunni ehf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Bílastjarnan ehf. tekur ekki afstöðu til beiðninnar.

Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta 11. júní 2018 og krafðist þess að staðfest yrði með dómi riftun á lóðarleigusamningi 24. september 2003 og að gagnaðila yrði gert að fjarlægja mannvirki í sinni eigu og afmá jafnframt jarðrask vegna þessa innan 30 daga frá uppkvaðningu dómsins að viðlögðum dagsektum. Þá krafðist hann þess að gagnaðila yrði gert að greiða sér vangoldna leigu frá september 2013 til janúar 2017. Í málinu lá fyrir að leyfisbeiðandi sendi forvera gagnaðila bréf í ágúst 2013 þar sem hann krafðist greiðslu vangoldinnar leigu frá 1. september 2010 til 1. september 2012 að fjárhæð 247.059 krónur, auk þess sem hann tilkynnti um að leigufjárhæðin yrði hækkuð úr 30.000 krónum í 1.200.000 krónur á ári frá og með 1. september 2013.

Með fyrrgreindum dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Var einkum vísað til þess að þótt heimilt væri samkvæmt lóðarleigusamningnum að endurskoða lóðarleiguna á fimm ára fresti væri þar ekki kveðið á um heimild leyfisbeiðanda til að taka einhliða ákvörðun um hækkun hennar. Yrði ákvæðið ekki skilið á annan hátt en að forsenda breytingar á lóðarleigu væri að samkomulag næðist milli aðila lóðarleigusamningsins. Við þessar aðstæður yrði ekki talið að gagnaðila hafi borið skylda til að eiga frumkvæði að efndum kröfunnar og var honum talið heimilt að halda eigin greiðslu þar til úr ágreiningi um fjárhæð lóðarleigunnar yrði leyst eða eftir atvikum þar til leyfisbeiðandi myndi krefjast greiðslu í samræmi við óbreytt efni samningsins. Þá var talið að með greiðslu gagnaðila á lóðarleigu fyrir tímabilið 2010 til 2012 hefði hann sýnt bæði vilja og getu til að greiða þá lóðarleigu sem samið hefði verið um í upphafi. Var því talið að leyfisbeiðandi hefði ekki haft heimild til að rifta lóðarleigusamningi aðila á grundvelli þess að um verulega vanefnd gagnaðila hefði verið að ræða, auk þess sem ekki væru efni til að breyta samningnum með stoð í 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Leyfisbeiðandi byggir á að úrslit málsins hafi verulega almenna þýðingu um áhrif tómlætis í samningssamböndum og hvenær viðtökudráttur geti verið fyrir hendi þegar um peningagreiðslu er að ræða. Í þeim efnum vísar hann meðal annars til þess að gagnaðili hafi sýnt af sér verulegt tómlæti með því að mótmæla hvorki því að leyfisbeiðandi hefði heimild til að hækka leiguna einhliða né að leigufjárhæðin væri of há. Leyfisbeiðandi telur að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem hann fari á svig við fordæmi Hæstaréttar um beitingu réttarreglna um skýringu samninga, tómlætisáhrif í gagnkvæmum samningum og viðtökudrátt. Þá bendir hann á að í dómi Landsréttar sé engar leiðbeiningar að finna um hvernig komið verði fram endurskoðun á umræddu leigugjaldi. Loks vísar leyfisbeiðandi til þess að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.

Af gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi um þau atriði sem leyfisbeiðnin er reist á né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.