Hæstiréttur íslands

Mál nr. 160/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbússkipti
  • Erfð
  • Faðerni


Föstudaginn 8

 

Föstudaginn 8. maí 2009.

 

Nr. 160/2009.

Dánarbú B og

D

(Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.)

gegn

A

(Kristín Edwald hrl.)

 

Kærumál. Dánarbússkipti. Erfðir. Faðerni.

Með hinum kærða úrskurði var fallist á kröfu A um að ákvörðun skiptastjóra í dánarbúi C yrði hrundið og staðfest að A nyti erfðaréttar eftir C. Í málinu voru lagðar fram tvær yfirlýsingar prests þar sem hann staðfesti að C hefði viðurkennt fyrir sér að vera faðir A. Samkvæmt 1. tl. 1. gr. erfðalaga erfir óskilgetið barn föður sinn ef það er feðrað með þeim hætti, sem segir í löggjöf um óskilgetin börn. Áður hafði verið lagt til grundvallar að A teldist ekki vera feðraður samkvæmt ákvæðum I. kafla barnalaga á grundvelli þeirra gagna sem fyrir lágu í því máli, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 183/2008. Samkvæmt 8. gr. barnalaga nr. 9/1981 var faðernisviðurkenning fyrir presti fullnægjandi til feðrunar óskilgetinna barna. Það ákvæði var numið úr lögum 1. júlí 1992 með gildistöku barnalaga nr. 20/1992. Í málinu naut engra samtímaheimilda um þessa ætluðu faðernisviðurkenningu C fyrir prestinum. Samkvæmt þessu var talið að yfirlýsing prestsins, sem dagsett var tæpum 16 árum eftir að úr lögum voru numdar lögfylgjur faðernisviðurkenninga fyrir presti, gæti engu breytt um það að A teldist ekki feðraður samkvæmt ákvæðum barnalaga um feðrun óskilgetinna barna. Þar sem önnur gögn sem lögð voru fram í málinu gátu ekki bætt úr því og í ljósi þess að hægt var um vik fyrir A að leggja til gögn, sem gátu skorið úr um faðerni hans, var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og staðfest ákvörðun skiptastjóra í dánarbúi C að A nyti ekki erfðaréttar í dánarbúinu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. mars 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2009, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að ákvörðun skiptastjóra í dánarbúi C frá 6. júní 2008 yrði hrundið og staðfest að varnaraðili nyti erfðaréttar eftir C. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og staðfest ákvörðun skiptastjóra um að varnaraðili njóti ekki erfðaréttar í dánarbúinu. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. 

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðilar dæmdir til að greiða kærumálskostnað.

I

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði var dánarbú C tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2007. Þrír aðilar kalla til arfs eftir hinn látna, dánarbú B eiginkonu C heitins og D kjörsonur C og B, en þau eru sóknaraðilar þessa máls, og varnaraðilinn A fæddur 11. febrúar 1984 af erlendri móður, sem kveðst vera sonur hins látna.

Ágreiningur reis um arfstilkall A. Skiptastjóri féllst á arfstilkall hans á skiptafundi 12. desember 2007. D höfðaði í framhaldi af því mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og krafðist þess að viðurkennt yrði að C heitinn væri ekki faðir A. Gerði D kröfu undir rekstri þess máls um að A yrði með úrskurði gert að gangast undir mannerfðafræðilega rannsókn í samræmi við 15. gr. barnalaga nr. 76/2003. Á það féllst héraðsdómur með úrskurði 12. mars 2008. Sá úrskurður var kærður til Hæstaréttar. Í forsendum dóms Hæstaréttar 28. apríl 2008 í máli nr. 183/2008 kom meðal annars fram að þó fyrir lægi fæðingarvottorð A frá Bretlandi, íslenskt skírnarvottorð og skjöl sem virtust benda til þess að C heitinn hafi litið svo á að sá fyrrnefndi væri sonur hans, yrði ekki séð að neitt þessara skjala fullnægði áskilnaði 4. gr. barnalaga til að geta talist faðernisviðurkenning í skilningi laganna. Þá lægi fyrir að A hafi ekki verið feðraður í samræmi við 2. gr. eða 3. gr. barnalaga. Ekki væri á því byggt að fyrir lægi faðernisviðurkenning samkvæmt breskum lögum, sem dómsmálaráðuneytið hefði mælt fyrir um að jafngild væri slíkri viðurkenningu gefinni á Íslandi, sbr. 2. mgr. 4. gr. barnalaga. Málið gæti því á grundvelli fyrirliggjandi gagna hvorki talist vefengingarmál eða höfðað til ógildingar á faðernisviðurkenningu. Þessi atriði bæri dómara að athuga af sjálfsdáðum og taka afstöðu til áður en til úrlausnar gæti komið hvort skilyrði væru til þeirrar gagnaöflunar, sem um væri deilt í málinu. Væru því ekki að svo stöddu efni til að taka afstöðu til þess hvort umkrafin sönnunarfærsla væri þýðingarlaus til úrlausnar málsins. Var hinn kærð úrskurður því úr gildi felldur. Máli þessu mun hafa verið vísað frá héraðsdómi vorið 2008.

Á skiptafundi 9. maí 2008 taldi skiptastjóri rétt í ljósi forsendna og niðurstöðu í framangreindum dómi Hæstaréttar að taka til endurskoðunar fyrri afstöðu sína um rétt A til arftöku. Gaf hann varnaraðila færi á að afla faðernisviðurkenningar frá heimalandi sínu, Englandi, og staðfestingar dómsmálaráðuneytisins á því að hún væri jafngild faðernisviðurkenningu sem fengist hefði hér á landi. Slík staðfesting liggur ekki fyrir í málinu. Þá var aflað annarra gagna, en meðal þeirra er yfirlýsing séra E 28. maí 2008 og bréf dómsmálaráðuneytisins 29. maí 2008. Á skiptafundi 6. júní 2008 tók skiptastjóri síðan afstöðu til arfstilkalls A í dánarbúið og hafnaði nú kröfu hans. Ágreiningi um þá afstöðu var skotið til héraðsdóms með bréfi skiptastjóra 11. júní 2008.

Fyrir héraðsdóm var meðal annarra gagna lögð fram ný yfirlýsing séra E 26. júní 2008, þar sem séra E staðfestir að C hafi viðurkennt fyrir sér að vera faðir varnaraðila. Þetta hafi hann til dæmis gert þegar hann hafi beðið sig að skíra drenginn, sem hann hafi gert 30. maí 1984 á Englandi. Við skírnarathöfnina hafi móðir drengsins verið stödd og hún lýst C föður drengsins. Málsástæður aðila eru raktar í hinum kærða úrskurði.

II

Samkvæmt 1. tölulið 1. gr. erfðalaga nr. 8/1962 erfir óskilgetið barn föður sinn ef það er feðrað með þeim hætti, sem segir í löggjöf um óskilgetin börn. Í forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 183/2008, sem að framan eru raktar, var komist að þeirri niðurstöðu að varnaraðili teldist ekki vera feðraður samkvæmt ákvæðum I. kafla barnalaga á grundvelli þeirra gagna sem fyrir lágu í því máli. Í þessu máli hafa þau gögn einnig verið lögð fram, en auk þeirra fleiri gögn og þar á meðal yfirlýsing séra E, sem að framan er lýst. Samkvæmt 8. gr. barnalaga nr. 9/1981 var faðernisviðurkenning fyrir presti fullnægjandi til feðrunar óskilgetinna barna. Það ákvæði var úr lögum numið 1. júlí 1992 með gildistöku barnalaga nr. 20/1992. Í málinu nýtur engra samtímaheimilda um þessa ætluðu faðernisviðurkenningu Inga heitins fyrir prestinum. Við svo búið getur yfirlýsing séra E, sem dagsett er tæpum 16 árum eftir að úr lögum voru numdar lögfylgjur faðernisviðurkenninga fyrir presti, engu breytt um það að varnaraðili teljist ekki feðraður samkvæmt ákvæðum barnalaga um feðrun óskilgetinna barna. Með því að önnur gögn sem fram hafa verið lögð í málinu gera það ekki heldur og í ljósi þess að hægt er um vik fyrir varnaraðila að leggja til gögn, sem geta skorið úr um faðerni hans, verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og staðfest ákvörðun skiptastjóra í dánarbúi C að varnaraðili njóti ekki erfðaréttar í dánarbúinu.

Rétt er að hver aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómsorð:

Staðfest er sú ákvörðun skiptastjóra í dánarbúi C 6. júní 2008 að varnaraðili, A, njóti ekki erfðaréttar eftir C.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2009.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 3. júlí 2007, var dánarbú C, kt.[...], [...], Reykjavík, tekið til opinberra skipta og Marteinn Másson hrl. skipaður skiptastjóri. Með bréfi skiptastjóra, mótteknu 12. júní 2008, var ágreiningsefni máls þessa skotið til úrlausnar dómsins. Málið var þingfest 27. júní 2008 og tekið til úrskurðar 26. febrúar sl. 

Sóknaraðili er A, fæddur 11. febrúar 1984.

Varnaraðilar eru dánarbú B, kt. [...] og D, kt. [...].

Dómkröfur sóknaraðila eru að ákvörðun skiptastjóra dánarbús C, frá 6. júní 2008, verði hrundið og staðfest með dómi að sóknaraðili njóti erfða­réttar eftir föður sinn, C

Þá er krafist málskostnaðar.

Endanleg dómkrafa varnaraðila er að ákvörðun skiptastjóra dánarbús C, frá 6. júní 2008, um að sóknaraðili njóti ekki erfðaréttar í dánarbúi C, verði staðfest.

Þá er krafist málskostnaðar.

I

Í bréfi skiptastjóra kemur fram að þrír aðilar kalli til arfs eftir hinn látna, C, dánarbú B, en B hafi verið eiginkona C heitins og lifað mann sinn. D, kjörsonur hins látna og A, sem kveðist vera sonur hins látna, og F, sem búi á Bretlandi. C heitinn muni hafa haldið tvö heimili, annars vegar með eigin­konu sinni, B, að [...] í Reykjavík, en hins vegar með F að [...],  Englandi.

Skiptastjóri hafi fallist á arfstilkall A á skiptafundi þann 12. desember 2007. Af hálfu D hafi verið höfðað mál samkvæmt barnalögum til ve­feng­ingar á faðerni A. Málinu hafi verið vísað frá héraðsdómi í vor. Áður hafði verið skotið til Hæstaréttar Íslands úrskurði héraðsdóms í málinu um að mann­erfða­fræðileg rannsókn færi fram á lífsýnum úr A og hinum látna. Hæsti­réttur hafi fellt úrskurðinn úr gildi í málinu nr. 183/2008, með tilgreindum rökum. Í for­sendum réttarins hafi jafnframt komið fram að ekki yrði séð að neitt þeirra gagna, er lægju fyrir í málinu (fæðingarvottorð A frá Bretlandi, skírnarvottorð eða önnur gögn), fullnægðu áskilnaði 4. gr. barnalaga til að geta talist fað­ernis­viður­kenning í skilningi laganna.

Á skiptafundi þann 9. maí 2008 hafi skiptastjóri talið, í ljósi forsendna og niður­stöðu Hæstaréttar, að óhjákvæmilegt væri að taka til endurskoðunar fyrri ákvörðun um rétt A til arftöku. Hafi A verið veittur tveggja vikna frestur til þess að afla staðfestingar dómsmálaráðuneytisins á því að sú faðernisviðurkenning er aflað yrði frá heimalandi hans, jafngilti faðernisviðurkenningu sem fengist hefði hér á landi, sbr. 2. mgr. 4. gr. barnalaga nr. 76/2003. Á skiptafundi þann 23. júní 2008 hafi frest­urinn verið framlengdur um eina viku.

Á skiptafundi þann 2. júní 2008 hafi af hálfu A verið lögð fram yfir­lýsing sr. E, dags. 28. maí 2008, þar sem sr. E staðfesti að C heit­inn hafi viðurkennt fyrir sér að vera faðir A. Þetta hefði C heitinn m.a. viðurkennt þegar hann hafi beðið sig, þá sóknarprest við Garðaprestakall í Kjalar­nes­prófastsdæmi, að skíra drenginn. Sr. E kveðist hafa skírt drenginn að C viðstöddum, meðal annarra, þann 30. maí 1984 í Englandi.

Á skiptafundinum þann 2. júní sl. hafi einnig verið lagt fram af hálfu A bréf dómsmálaráðuneytisins, dags. 29. maí 2008, og bréf Þjóðskrár, dagsett sama dag. Í tölvupósti lögmanns A til skiptastjóra, dags. 30. maí 2008, hafi verið bent á að samkvæmt 8. gr. þágildandi barnalaga nr. 9/1981, hefði faðernis­viður­kenn­ing fyrir presti verið fullnægjandi faðernisviðurkenning að íslenskum rétti á þeim tíma.

Lögmaður D hafi fengið frest til þess að yfirfara gögnin. Hann hafi sent skiptastjóra skriflega greinargerð, þar sem mótmælt hafi verið að fram­lögð gögn dygðu sem staðfesting á faðerni A. Hafi þess verið krafist að skipta­stjóri hafnaði arfstilkalli hans.

Málið hafi verið tekið fyrir á skiptafundi þann 6. júní 2008. Í fundargerð þess fundar sé bókuð sú afstaða skiptastjóra, og færð rök fyrir henni, að af hálfu A hefðu ekki verið lögð fram gögn sem fullnægðu áskilnaði 4. gr. barnalaga til þess að geta talist faðernisviðurkenning í skilningi laganna. Skiptastjóri hafi því talið óhjákvæmi­legt að líta svo á að A nyti ekki erfðaréttar eftir C við ákvæði erfðalaga.

Lögmaður A hafi mótmælt þessari afstöðu skiptastjóra og krafist þess að málinu yrði skotið til héraðsdóms til úrlausnar, sbr. 122. gr. skiptalaga nr. 20/1991.

II

Sóknaraðili byggir á að skiptastjóri byggi ákvörðun sína um að sóknaraðili njóti ekki erfðaréttar eftir föður sinn á því að faðernisviðurkenning að íslenskum rétti liggi ekki fyrir. Skiptastjóri kjósi að líta fram hjá fyrirliggjandi fæðingarvottorði og yfir­lýsingu sr. E.

Sóknaraðili hafi lagt fram lögmætt og gilt fæðingarvottorð að breskum rétti sem til­greini C sem föður og F sem móður. Vottorðið beri með sér að bæði móðir og faðir hafi tilkynnt um fæðingu sóknaraðila þann 24. febrúar 1984 eða þrettán dögum eftir fæðingu hans. Í reit nr. 4 sé nafn C tilgreint og í reit 14 sé vitnisburður um að bæði móðir og faðir hafi undir­ritað yfirlýsingu um það sem fæðingarvottorðið greinir. Í fæðingarvottorðinu felist faðernisviðurkenning C. Gildi þessa fæðingarvottorðs hafi ekki verið hnekkt.

Svo sem gögn málsins beri með sér telji íslensk stjórnvöld sig ekki bær til þess að hnekkja gildi erlendra fæðingarvottorða. Þannig leggi Þjóðskrá slík vottorð til grund­vallar í málum sem hún taki til afgreiðslu. Þá hafi dómsmálaráðuneytið lýst því yfir að feðrun sóknaraðila hafi þegar farið fram að breskum rétti og ráðuneytið hafi hvorki heimild né skyldu til þess að fjalla um gildi þeirrar feðrunar.

Þegar af þessari ástæðu krefjist sóknaraðili þess að ákvörðun skiptastjóra verði hrundið og fyrir hann lagt að taka fæðingarvottorð sóknaraðila gilt við ákvörðun um arf­töku úr dánarbúi C.

Ljóst sé að afstaða skiptastjóra til yfirlýsingar sr. E sé ekki í samræmi við efni yfirlýsingarinnar. Þótt í fyrri yfirlýsingu sr. E hafi ekki berum orðum verið vísað til afstöðu móður sóknaraðila þá hafi það legið í hlutarins eðli hver hennar af­staða til feðrunarinnar var og að sr. E var kunnugt um hana enda hafi hann skírt sóknaraðila að báðum foreldrum viðstöddum. Enda hafi ekki verið ágreiningur um af­stöðu hennar í málinu. Allt að einu liggi nú fyrir yfirlýsing sr. E sem staðfesti að móðir sóknaraðila hafi lýst C heitinn föður hans. Íslenskir karlmenn sem eignist börn erlendis verði ekki sviptir rétti til þess að gefa út faðernisyfirlýsingu að íslenskum rétti. Það hafi faðir sóknaraðila gert í góðri trú samkvæmt 8. gr. þágildandi barna­laga nr. 9/1981.

Ákvörðun skiptastjóra um að líta fram hjá hinu gilda fæðingarvottorði, sem ekki hafi verið hnekkt hvorki af varnaraðilum né skiptastjóra, eigi sér enga lagastoð. Við mat skiptastjóra á réttmæti krafna aðila um arftöku verði skiptastjóri að líta til allra fyrir­liggjandi gagna og meta hvort raunverulegur vafi sé fyrir hendi um faðerni, eða eftir atvikum móðerni aðila.

Í máli þessu sé ekki vafi um faðernið. Varnaraðili hafi í ljósi ágreinings við skiptin ákveðið að gera ýtrustu kröfur og vefengja rétt sóknaraðila til arftöku með þeim hætti að vefengja faðernið. Varnaraðila megi hins vegar vera ljóst að sóknaraðili er sonur C heitins. Það hafi hann enda viðurkennt á fyrri stigum málsins.

Hið lögmæta fæðingarvottorð, yfirlýsing sr. E ásamt fjölda annarra gagna renni stoðum undir faðerni sóknaraðila. Öll þessi gögn hafi verið lögð fyrir skiptastjóra og ekkert þeirra verið vefengt. Faðernið liggi því fyrir og hefði skipta­stjóri átt að leggja þau til grundvallar við ákvörðun sína.

III

Varnaraðilar byggja á að ekki sé hægt að staðfesta arfstilkall sóknaraðila fyrr en feðrun liggi fyrir og sú feðrun hafi ekki farið fram svo gilt sé samkvæmt íslenskum rétti. Varnaraðilar telji að yfirlýsing sr. E, sem útbúin sé 24 árum eftir meinta viðurkenningu á faðerni sóknaraðila, nægi ekki til að feðra erlenda ríkis­borgara, sem alla tíð hafi verið búsettir og átt lögheimili erlendis, eins og raunin sé í þessu máli. Varnaraðili byggi á því að feðrun sóknaraðila falli utan gildissviðs íslenskra barnalaga og því geti feðrun fyrir presti ekki verið lögð til grundvallar. Þá bendi varnaraðilar á ósannindi í yfirlýsingu sr. E er hann segi að feðrunin hafi með trúnaði verið skráð í kirkjubækur. Samkvæmt upplýsingum biskupsstofu sé slíku aldrei fyrir að fara þar sem kirkjubækur séu opinber gögn og ekki hægt að skrá neitt í þær með trúnaði. Telji varnaraðilar að þessi ósannindi staðfesti að efni yfir­lýs­ing­ar­innar sé rangt og dugi hún engan veginn til að feðra sóknaraðila svo hann njóti tilkalls til arfs. Fara verði eftir ákvæðum erlends réttar við feðrun sóknaraðila, annað hvort lögum í Úganda eða lögum í Bretlandi. Gildri feðrun sé ekki fyrir að fara, og því beri að staðfesta ákvörðun skiptastjóra.

Varnaraðili telji að sú niðurstaða, að sóknaraðili sé ekki feðraður, felist í for­sendum og dómi Hæstaréttar í máli nr. 183/2008 þar sem Hæstiréttur tiltaki sér­stak­lega að ekki sé af hálfu sóknaraðila á því byggt að fyrir liggi faðernisviðurkenning samkvæmt breskum lögum, sem dómsmálaráðuneytið hafi mælt fyrir um að jafngild sé slíkri viðurkenningu gefinni á Íslandi, sbr. 2. mgr. 4. gr. barnalaga. Yfirlýsing prests breyti engu þar um og fullnægi ekki ákvæðum núgildandi barnalaga um fað­ernis­viður­kenn­ingar, sbr. 4. gr. þar sem hvorki fæðingarvottorð, skírnarvottorð né yfirlýsing prests teljist fullgild faðernisviðurkenning.

Sóknaraðili sé fæddur í Bretlandi 1984 og hafi aldrei verið búsettur eða átt nokkur tengsl við Ísland svo sannað sé. Sóknaraðili sé erlendur ríkisborgari, frá Úganda eða Bretlandi og hafi ávallt lotið forsjá móður sinnar en lengst af búið í Úganda. Sóknaraðili hafi aldrei lotið forsjá C enda C löglega kvæntur. Ekki sé vitað til þess að sóknaraðili hafi nokkurn tíma komið eða dvalist á Íslandi fyrr en hann kom til Íslands undir lok banalegu C heitins.

Varnaraðili bendi á að sóknaraðili hafi upplýst að hann sé gervifrjóvgaður sonur konu sem hafi verið hjákona C. Varnaraðili hafi frá upphafi haldið því fram að C heitinn hafi verið alls ófær um að geta börn. Engra samtímaheimilda eða upplýsinga njóti við um meinta feðrun sóknaraðila fyrr en 24 árum síðar, en skiptastjóri hafi skorað á sóknaraðila að afla staðfestingar frá Dómsmálaráðuneyti á gildi gagna frá Englandi um faðerni sitt. Í stað þess að fá staðfestingu Dóms­mála­ráðu­neytisins á breskri feðrun, ákveði sóknaraðili skyndilega að grípa til barnalaga nr. 9/1981 og útbúa yfirlýsingu frá presti sem skírði sóknaraðila, en var vinur C. Sami prestur hafi verið vinur fjölskyldunnar og oft gestur á heimili varnaraðila, en upplýsti aldrei um tilvist sóknaraðila eða gaf nokkuð í skyn um hana. Varnaraðili byggi á því að viðurkenning á faðerni sem fram fari við fæðingu eða fljótlega eftir hana, sé einkum ætlað að hafa réttaráhrif og lögfylgjur í heimalandi barnsins, þar sem það býr. Því byggi varnaraðili á að fara eigi eftir breskum reglum við feðrun sóknaraðila, ekki íslenskum. Hafi skiptastjóri fallist á þá skoðun.

Varnaraðili byggi á því að mikilvæg réttaráhrif, s.s. erfðaréttur, sé tengdur við feðrun og því mikilvægt að sú feðrun sé rétt og eigi sér stað með óyggjandi hætti. Það að nafn föður sé tilgreint á erlendu fæðingarvottorði geti engan veginn þýtt að feðrun hafi átt sér stað, eins og niðurstaða Hæstaréttar í máli nr. 183/2008 feli í sér. Fæð­ing­ar­vottorð dugi ekki sem feðrun. Telji varnaraðili öll gögn málsins staðfesta að ákvörðun skiptastjóra um að hafna arfstilkalli sóknaraðila sé rétt og því beri dóminum að staðfesta hana.

IV.

Á skiptafundi þann 6. júní 2008 komst skiptastjóri í dánarbúi C að þeirri niðurstöðu að af hálfu sóknaraðila, A, hefðu ekki verið lögð fram gögn sem fullnægðu áskilnaði 4. gr. barna­laga til að geta talist faðernisviðurkenning í skilningi laganna og því væri óhjákvæmi­legt að líta svo á að sóknaraðili nyti ekki erfðaréttar eftir C. Af hálfu sóknaraðila var þessari afstöðu skiptastjóra mótmælt.

Skiptastjórinn beindi ágreiningnum um erfðaréttinn til dómsins með vísan til 3. mgr. 53. gr. og 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Sóknaraðili, sem er fæddur í Bretlandi 11. febrúar 1984 af erlendri móður, reisir kröfu sína um erfðarétt eftir C á því að hann sé óskilgetinn sonur hans.

Samkvæmt 1. tl. 1. gr. erfðalaga nr. 8/1962 erfir óskilgetið barn föður og föður­frændur og þeir það, ef það er feðrað með þeim hætti, sem segir í löggjöf um óskil­getin börn.

Í málinu liggur fyrir yfirlýsing séra E, dags. 26. júní 2008, um að C heitinn hafi viðurkennt fyrir honum t.d. þegar hann hafi beðið hann um að skíra sóknaraðila, sem hann hafi gert 30. maí 1984, að sóknaraðili, sem móðir hans, F, hafði lýst hann föður að, væri sonur hans. Slík viðurkenning fyrir presti var fullnægjandi faðernisviðurkenning að íslenskum rétti á þeim tíma, sbr. 8. gr. þá­gild­andi barnalaga nr. 9/1981.

Tilvitnað ákvæði 1. gr. erfðalaga er eyðuákvæði, sem vitnar til löggjafarinnar um feðrun óskilgetinna barna, eins og hún hefur verið eða verður á þeim tíma, sem á getur reynt um tiltekinn erfingja. Því haggar það því ekki, að faðernisviðurkenning, sem gerð var í tíð barnalaga nr. 9/1981, skapar lögerfðatengsl, þó sá háttur á fað­ernis­viður­kenningu sem kveðið var á um í 8. gr. laganna, sé úr lögum numinn.

Eins og áður greinir er sóknaraðili fæddur 11. febrúar 1984 á Bretlandi af erlendri móður. Um feðrun hans gilda eða giltu því breskar reglur. Liggur fyrir í málinu fæð­ing­arvottorð sóknaraðila, sem er opinbert skjal, þar sem fram kemur að C sé faðir hans. Hefur því fæðingarvottorði ekki verið hnekkt. Verður það því lagt til grundvallar um faðerni sóknaraðila.

Samkvæmt því, auk þess sem fyrir liggur, eins og áður greinir, fað­ernis­viður­kenning sem hefði á þeim tíma er hún var gerð verið fullnægjandi fað­ernis­viður­kenn­ing barns sem fæðst hefði hér á landi, er það niðurstaða dómsins að sóknaraðili njóti lög­erfðaréttar samkvæmt 1. tl. 1. gr. erfðalaga nr. 8/1962 eftir föður sinn, C.

Verður því tekin til greina krafa sóknaraðila um að ákvörðun skiptastjóra dánar­bús C, frá 6. júní 2008, verði hrundið og staðfest að sóknaraðili njóti erfða­réttar eftir föður sinn, C.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu. 

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Tekin er til greina dómkrafa sóknaraðila, A, um að ákvörðun skiptastjóra dánarbús C, frá 6. júní 2008, verði hrundið og staðfest að sóknaraðili njóti erfðaréttar eftir föður sinn, C.

Málskostnaður fellur niður.