Hæstiréttur íslands

Mál nr. 741/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Mánudaginn 2. nóvember 2015.

Nr. 741/2015.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Guðmundur Þórir Steinþórsson fulltrúi)

gegn

X

(Helga Leifsdóttir hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C-liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. október 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. október 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 5. nóvember 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.                

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. október 2015

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að kærða, X, fæddum [...], verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 5. nóvember nk., kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að lögreglan hafi frá því júní sl. haft til rannsóknar mál er varði ætlaða refsiverða háttsemi kærða, X. Annars vegar ætluð fjársvik í farmiðakaupum, sbr. mál nr. 008-2015-[...], og hins vegar ætlaðar vörslur og dreifing kærða á myndum og myndböndum er sýni börn á kynferðislegan eða klámfengin hátt, sbr. mál nr. 008-2015-[...], en rannsókn þessara máls sé lokið. Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar þessara mála frá 17. júní s.l., sbr. úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þess efnis frá [...]. júní, [...]. júní og [...]. júlí sl. Hinn [...]. júlí s.l. hafi Hæstiréttur Íslands hins vegar snúið við úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá [...]. júlí s.l., sbr. mál nr. [...]/2015, og hafi kærða verið gert að sæta farbanni til mánudagsins [...]. ágúst nk.

Kærði hafi gengið laus frá [...]. júlí s.l. og frá þeim tíma hafi lögregla fengið fjölda tilkynninga um ætluð auðgunarbrot kærða, sem rannsökuð séu undir máli nr. 007-2015-[...]. Hafi þau leitt til handtöku kærða hinn 12. ágúst sl. og síðar tveggja krafna lögreglustjóra um að honum yrði á ný gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun. Hafi kærði sætt gæsluvarðhaldi frá [...]. ágúst sl. vegna þessara mála.

Lögreglumál 008-2015-[...]

Í greinargerðinni segir að upphaf rannsóknar lögreglu á málefnum kærða megi rekja til máls nr. 008-2015-[...]. Rannsókn þess máls hafi hafist eftir að lögreglunni á Suðurnesjum hafði borist tilkynning frá A hf., kt. [...], um að kærði væri á leið hingað til lands og að farmiði hans hefði verið greiddur með illa fengnu greiðslukortanúmeri. Farmiðinn hefði verið bókaður í gegnum vef félagsins í ferðaleið með fluglegginn frá [...], 16. júní 2015, og til baka með fluglegginn [...], 17. júní 2015. Greiðsla að fjárhæð 3526,95 GBP, eða 722.178 kr., miðað við miðgengi Seðlabanka Íslands á kaupdegi hefði verið innt af hendi á sama tíma í gegnum vef félagsins. Nemi áætlað tjón A hf. í það minnsta sömu fjárhæð. Kærði hafi verið handtekinn á Keflavíkurflugvelli við komu hingað til lands 16. júní 2015. Degi síðar eða 17. júní 2015 hafi kærði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald, sbr. úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá [...]. júní og síðar [...]. júní 2015 og [...]. júlí 2015. Rannsókn þessa máls sé lokið.

Lögreglumál 008-2015-[...]

Við meðferð máls 008-2015-[...] hafi farið fram rannsókn á þeim tölvubúnaði sem kærði hafði meðferðis og hafi þar fundist fjöldi flugbókana á vegum kærða og greiðslukortanúmer sem tilheyrt hafi öðrum aðilum. Þá hafi fundist umtalsvert magn skráa sem geymi myndir og myndbönd af börnum, mestmegnis ungum drengjum, í kynferðislegum athöfnum. Sé kærði undir rökstuddum grun um að hafa haft í vörslum sínum og til dreifingar þúsundir myndbanda og mynda sem sýni börn á kynferðislegan eða klámfengin hátt, í skrám á hörðum diskum og svo kölluðum tölvuskýjum (Dropbox). Í heild sé um að ræða 27 aðganga sem lögregla telji að kærði hafi haft umráð yfir og innihaldi slíkt efni. Lögregla hafi aðgengi að sex þeirra og sé skoðun á þeim langt á veg komin. Telji skrár sem innihaldi slíkt efni á áttunda þúsund. Telji lögregla að mun meira magn af slíku efni sé að finna á þeim 21 aðgangi sem eftir standi. Jafnframt hafi fundist gögn um það að kærði hafi dreift slíku efni til ótilgreindra aðila í spjallhópum á veraldarvefnum sem kynferðislegar kenndir hafi til barna. Sé rannsókn þessa máls nú lokið en beðið hafi verið tölvugagna frá Dropbox Inc., sbr. beiðnir um réttaraðstoð hvað þau varði sem sendar hafi verið í júlí sl., en gögn hafi borist Innanríkisráðuneytinu hér á landi [...]. október sl. og í framhaldi lögreglustjóra [...]. október sl.

Ætluð fjársvik, lögreglumál 007-2015-[...]

Undanfarið hafi lögregla haft til rannsóknar ætluð fjársvik kærða í fjölda tilvika frá þeim tíma er honum hafi verið gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds hinn [...]. júlí sl. Um hafi verið að ræða pantanir á vöru og þjónustu með illa fengnum greiðslukortaupplýsingum á mörgum mismunandi kortanúmerum.

Kærði hafi verið handtekinn 6. ágúst 2015 á höfuðborgarsvæðinu er hann hafi gert tilraun til að sækja muni sem greitt hafði verið fyrir með stolnum greiðslukortaupplýsingum í vefverslun B. Kærða hafi verið sleppt degi síðar eða 7. ágúst 2015 og hafi frá þeim tíma fjöldi áþekkra tilvika bæst við eins og fram komi í rannsóknargögnum. Hafi kærði verið handtekinn á ný 12. ágúst 2015 á [...] í Reykjavík er hann hafi gert tilraun til að sækja muni sem pantaðir höfðu verið á nafn [...], en kærði hafi bókað sig á á hótelið undir nafni þess manns frá 10. til 11. ágúst 2015. Eins og fram komi í rannsóknargögnum sé um að ræða fjölda tilvika þar sem pöntun hafi verið gerð á veraldarvefnum á vörum, einkum dýrum tölvubúnaði, og þjónustu, t.a.m. dýrum dagsferðum í ferðaþjónustu, og loks séu til rannsóknar nokkur tilvik þar sem kærði sé grunaður um fjársvik með því að hafa stungið af frá ógreiddum reikningum hjá hótelum í Reykjavík. Við rannsókn málsins hafi lögregla meðal annars lagt hald á eina fartölvu, tvo Iphone-farsíma og Ipad-spjaldtölvu sem kærði hafi verið með undir höndum við handtöku. Hafi sá búnaður verið í tæknirannsókn, m.a. til að afla sönnunargagna um ætluð fjársvik kærða. Við þá rannsókn hafi fljótlega bæst við tilvik sem snúi að ætluðum fjársvikum kærða, svo og tilraunum til þeirra og séu þau yfir 30 talsins.

Ætlaður þjófnaður á fartölvu og myndavél, lögreglumál nr. 007-2015-[...] og [...]

Við rannsókn lögreglu hafi komið í ljós að fartölvu og myndavél, sem kærði hafði í fórum sínum við handtöku, hafði verið stolið á gistiheimilinu [...] af erlendum ferðamönnum sem dvalist höfðu þar. Um sé að ræða Macbook Pro-fartölvu og Sony NEX-6-ljósmyndavél. Séu þessi mál rannsökuð undir málsnúmerum 007-2015-[...] og [...]. Í málinu liggi fyrir að kærði hafði fengið sendan aðgangskóða að gistiheimilinu til að komast þar inn í kjölfar þess að bókuð hafði verið gisting á nafni hans sem ekki hafði verið veitt heimild fyrir.

Ætlað tölvuinnbrot, rannsakað undir lögreglumáli nr. 007-2015-[...]

Við rannsókn lögreglu á fartölvu í máli nr. 007-2015-[...] hafi komið í ljós að skömmu eftir að tölvunni hafði verið stolið hafi öllum gögnum verið eytt af henni og nýtt stýrikerfi verið sett upp á henni. Telji lögregla fram kominn rökstuddan grun um að kærði hafi verið þar að verki og byggi sá grunur m.a. á því að á tölvunni hafi verið að finna fjölda gagna sem vísi til kærða. Þá hafi komið í ljós að svo virtist sem brotist hefði verið inn í tölvu gistiheimilisins [...] og telji lögregla að þannig hafi kærði eða aðilar tengdir honum komist yfir kortanúmer þeirra erlendu ferðamanna sem bókað höfðu gistingu á umræddu gistiheimili í gegnum bókunarkerfi og tölvupóst gistiheimilsins. Hafi þau kortanúmer komið heim og saman við þau kortanúmer sem notuð hafi verið við kaup á varningi, sbr. það sem áður hafi verið rakið í máli nr. 007-2015-[...]. Virðist kærði eða annar á hans vegum einnig hafa haft aðgang að tölvupósti gistiheimilisins og jafnframt útbúið nýtt póstfang og gert tilraun til samskipta við komandi gesti gistiheimilisins.

Um framburð kærða segir í greinargerð lögreglustjóra að hann hafi verið yfirheyrður fjórum sinnum frá því að honum var gert að sæta farbanni, þar af þrisvar frá því honum var á ný verið gert að sæta gæsluvarðhaldi. Í fjórðu yfirheyrslu hafi kærði játað að hafa staðið að baki þeim auðgunarbrotum sem framangreind mál snúist um, en fram að því hafi framburður hans í öllum atriðum verið ótrúverðugur og með miklum ólíkindablæ að mati lögreglu.

Hvað varðar stöðu mála kærða hjá lögreglustjóra segir í greinargerðinni að ákvörðun um saksókn liggi fyrir varðandi fyrstnefnda málið, þ.e. mál nr. 008-2015-[...] er varði fjársvik. Þá hafi mál nr. 008-2015-[...] er varði vörslur barnakláms verið sent ríkissaksóknara til ákvörðunar um saksókn. Þau mál sem síðar hafi komið til, þ.e. frá farbanni kærða í júlí, séu í ákærumeðferð. Lögreglustjóri vinni að útgáfu ákæru í þeim málum sem á hans forræði séu og sé þess að vænta að ákvörðun ríkissaksóknara um saksókn í máli nr. 008-2015-[...] liggi fyrir á svipuðum tíma.

Samkvæmt því sem að framan hafi verið rakið telji lögreglustjóri fram kominn rökstuddan grun um að kærði hafi með háttsemi sinni gerst sekur um brot á 244. gr., 248. gr. og 249. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem við liggi allt að sex ára fangelsi og 210. gr. sömu laga, sem við liggi allt að tveggja ára fangelsi. Að mati lögreglustjóra sé sýnt að þau brot sem kærði sé sakaður um muni ekki hafa í för með sér sektir eða skilorðsbundna refsingu miðað við aðstæður og að tímalengd þess gæsluvarðhalds sem krafist sé að kærða verði gert að sæta sé ekki meiri en sýnt þyki að fangelsisrefsing verði dæmd.

Af framansögðu telji lögreglustjóri nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans séu til rannsóknar og meðferðar hjá lögreglu. Það sé mat lögreglu að þau sjónarmið sem Hæstiréttur Íslands byggi niðurstöðu á í dómi sínum í máli nr. [...]/2015 eigi ekki við á þessu stigi málsins. Sé einkum vísað til þess sem áður hafi verið rakið, þ.e. að kærði hafi við fyrsta tækifæri haldið brotastarfsemi sinni áfram sem gert hafi það að verkum að fjöldi nýrra mála séu nú til meðferðar hjá lögreglu.

Kærði hafi nú sætt gæsluvarðhaldi í ellefu vikur vegna hinna nýju mála, en lúkning rannsókna á þeim hafi tafist vegna umfangs og eðlis þeirra. Eins og að framan greini sé stefnt að útgáfu ákæru á næstu dögum og liggi fyrir að ákæra verði gefin út vegna þeirra mála sem séu á forræði lögreglustjóra. Telji lögreglustjóri nauðsyn að kærða verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan lokið er við mál hans.

Í fyrsta lagi telji lögreglustjóri að mikil hætta sé á að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast og koma sér þannig undan málsókn eða fullnustu refsingar gangi hann laus. Á það sé bent að kærði, sem sé erlendur ríkisborgari, virðist ekki eiga nein tengsl við landið önnur en að ætluð brot hans séu til rannsóknar hér á landi. Hann eigi þannig hvorki fjölskyldu né stundi atvinnu hér. Sé m.a. vísað til dóms Hæstaréttar frá [...]. nóvember 2011 í málinu nr. [...]/2011. Með vísan til þeirra brota sem til meðferðar séu hér á landi sé því fullt tilefni til þess að ætla að kærði kunni að reyna að yfirgefa landið til að komast hjá refsingu. Þannig sé skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála fullnægt.

Í öðru lagi telji lögreglustjóri að ætla megi að kærði muni halda áfram brotum á meðan málum hans er ekki lokið hér á landi. Í þessu sambandi bendir lögregla á að kærði eigi sér nokkra sögu fjársvika erlendis. Þá sé kærði undir sterkum rökstuddum grun um að hafa staðið að baki umfangsmiklum auðgunarbrotum hér á landi, mestmegnis á þeim tíma sem hann hafi verið í farbanni. Kærði sé því að mati lögreglu vanaafbrotamaður sem láti sér ekki segjast og hafi sýnt það í verki að hann hafi og muni halda brotum sínum áfram verði honum ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram. Sé skilyrðum c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 því einnig fullnægt í málinu.

Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, b- og c-liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 telji lögreglustjóri brýna refsivörsluhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 5. nóvember 2015.

Varnaraðili er undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um fjölda brota gegn 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk brots gegn 244. gr., svo og 249. gr. a. sömu laga, en öll þessi brot voru framin eftir að varnaraðili losnaði úr gæsluvarðhaldi og var gert að sæta farbanni með dómi Hæstaréttar [...]. júlí 2015 í máli nr. [...]/2015. Áður hafði kærði sætt gæsluvarðhaldi frá [...]. júní sl. vegna gruns um brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga, svo og 210. gr. sömu laga. Brot kærða varða öll fangelsisrefsingu og í ljósi fjölda þeirra brota sem kærði er grunaður um að hafa framið og sakarferils hans þykir sýnt að að tímalengd þess gæsluvarðhalds sem krafist er að kærða verði gert að sæta sé ekki meiri en sýnt þyki að fangelsisrefsing verði dæmd, sbr. 3. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Rannsókn á málum kærða er nú lokið og kom fram við meðferð málsins að ákvörðun ríkissaksóknara um saksókn í kynferðisbrotamáli kærða liggi nú fyrir og að ákæra verði gefin út von bráðar. Þá hefur komið fram að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hyggist gefa út ákæru vegna auðgunarbrota kærða á næstu dögum. Þegar litið er til þeirrar hrinu brota sem kærði er undir rökstuddum grun um að hafa framið á þeim tíma sem hann sætti farbanni, þ.e. frá 27. júlí til 13. ágúst 2015, sem og með vísan til skýrslu geðlæknis um geðrannsókn á kærða, má ætla að kærði muni halda áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið, sbr. c-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Með vísan til framangreinds er fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði.

                Úrskurð þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

                Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 5. nóvember 2015, kl. 16.00.