Hæstiréttur íslands

Mál nr. 657/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


         

Þriðjudaginn 18. desember 2007.

Nr. 657/2007.

Ríkissaksóknari

(enginn)

gegn

X

(Ingimar Ingimarsson hdl.)

 

Kærumál. Farbann.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta farbanni samkvæmt b. lið 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. desember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. desember 2007, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi á meðan máli hans er ólokið, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 16. janúar 2008, klukkan 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

       Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. desember 2007.

          Ríkissaksóknari hefur krafist þess með beiðni dagsettri í dag að X, pólskum ríkisborgara, kt. [...], [...], Selfossi, verði gert að sæta áfram farbanni þar til dómur fellur í máli hans, þó ekki lengur en til miðvikudagsins 6. febrúar 2008 kl. 16:00.

             Kærði mótmælir framkominni kröfu og krefst þess að kröfu ríkissaksóknara verði hafnað en gerir þá varakröfu að farbanninu verði markaður skemmri tími.

             Með bréfi lögreglustjórans á Suðurnesjum, sem móttekið var 29. nóvember 2007, bárust ríkissaksóknara gögn í lögreglumáli gegn kærða. Ríkissaksóknari höfðaði mál á hendur X með útgáfu ákæru þann 6. desember 2007 fyrir tilraun til manndráps, en til vara fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa, aðfaranótt fimmtudagsins 8. nóvember 2007, á heimili sínu, slegið A ítrekað með brotinni glerflösku í höfuð, háls og víðar í líkamann, með þeim afleiðingum að A fékk mar á augnknetti og augnatóftarvefjum, yfirborðsáverka á brjóstkassa, öxl og upphandlegg og djúpt sár í gegnum hálsvöðva. Málið hafi ekki verið þingfest.

Brot ákærða í ákæru sé aðallega talið varða við 211. gr. sbr. 20. gr., en til vara við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981. Ákærði hafi sætt farbanni frá 9. nóvember 2007 til dagsins í dag kl. 16:00 samkvæmt dómi Hæstaréttar nr. 594/2007.

Af hálfu ríkissaksóknara er vísað til alvarleika þess brots sem ákært er fyrir, ennfremur þess að ákærði er erlendur ríkisborgari. Þyki hætta á að hann hverfi af landi brott til að komast undan saksókn og sé því nauðsynlegt að tryggja nærveru hans til að ljúka megi meðferð málsins fyrir dómi. Um lagarök er vísað til ákvæða b-liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Kærði byggir kröfur sínar aðallega á því að hann hafi ekki í hyggju að koma sér undan málsókn og stundi nú vinnu hér á landi. Hins vegar standi hugur hans til að fara utan um jólin til að vera hjá unnustu sinni og ættingjum yfir hátíðirnar og hafi hann í hyggju að koma aftur til Íslands eftir jól.          

Rökstuddur grunur er fram kominn um að kærði hafi framið þann verknað sem að framan greinir. Kærði er erlendur ríkisborgari. Fram kom við fyrirtöku fyrr í dag að kærði hefur nú fengið vinnu. Þykir það þó ekki breyta því mati að ekki verði séð að hann hafi þau tengsl við landið sem séu líkleg til að valda því að hann yfirgefi ekki landið eða komi sér ekki undan saksókn. Þykir heimilt á grundvelli 110 gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að samþykkja að kærða verði gert að sæta farbanni. Ákæra hefur verið gefin út og verður hún þingfest fyrir dómi síðar í dag. Samkvæmt þessu verður kærða bönnuð för úr landi meðan máli hans er ólokið, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 16. janúar 2008 kl. 16:00.

             Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kærða, X, er bönnuð för úr landi meðan máli hans er ólokið en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 16. janúar 2008 kl. 16:00.