Hæstiréttur íslands

Mál nr. 336/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Afhending gagna
  • Matsgerð
  • Sératkvæði


                                     

Föstudaginn 5. júní 2015.

Nr. 336/2015.

Orkuveita Reykjavíkur

(Jónas A. Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Glitni hf.

(Ólafur Eiríksson hrl.)

Kærumál. Afhending gagna. Matsgerð. Sératkvæði.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu O um að G eða dómkvöddum matsmönnum yrði gert að afhenda honum afrit allra gagna sem G hafði afhent matsmönnum á tilteknum matsfundi. Fyrir Hæstarétti beindi O kröfu sinni eingöngu að G. Í dómi Hæstaréttar kom fram að aðili, sem vildi krefja gagnaðila um að láta af hendi gögn til afnota í máli, hefði þau úrræði ein, sem mælt væri fyrir um í X. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að fylgja kröfunni eftir. Þar sem O hafði ekki farið þá leið var staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar að því leyti sem hann hafði verið kærður til Hæstaréttar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. maí 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila eða dómkvöddum matsmönnum yrði gert að afhenda sér afrit allra gagna sem sóknaraðili hafi afhent matsmönnunum á matsfundi 30. janúar 2015. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til c. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess að „kveðinn verði upp dómur Hæstaréttar þar sem viðurkennd er skylda varnaraðila að afhenda sóknaraðila afrit allra þeirra gagna sem sóknaraðili afhenti matsmönnum á matsfundi hinn 30. janúar 2015.“ Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði fékk sóknaraðili 15. maí 2014 dómkvadda tvo menn til að leggja mat á tilgreind atriði í tengslum við mál sem varnaraðili höfðaði á hendur honum 15. október 2012. Á matsfundi sem matsmenn efndu til 21. október 2014 beindu þeir til varnaraðila ósk um að þeim yrðu látin í té nánar tiltekin gögn vegna framkvæmdar matsins og varð hann að mestu við því á fundi 30. janúar 2015. Varnaraðili afhenti á hinn bóginn ekki sóknaraðila eintak af þessum gögnum á fundinum og neitaði síðan með tölvubréfi 31. mars sama ár að verða við beiðni þess síðarnefnda um það. Við þessu brást sóknaraðili með því að krefjast þess við dómara í málinu að varnaraðila „eða matsmönnum, eftir atvikum“ yrði gert að afhenda sér eintak af gögnunum til þess að sér gæfist kostur á að tjá sig um efni þeirra eftir þörfum, en um heimild til þessa vísaði sóknaraðili til 2. mgr. 62. gr. og 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991. Með hinum kærða úrskurði var þeirri kröfu hafnað.

Samkvæmt fyrrgreindri kröfugerð sóknaraðila fyrir Hæstarétti beinir hann kröfu sinni um afhendingu gagna nú eingöngu að varnaraðila en ekki jafnframt að dómkvöddu matsmönnunum eins og hann gerði í héraði. Í IX. kafla laga nr. 91/1991 er hvergi að finna stoð fyrir því að aðili máls geti afhent matsmönnum gögn við framkvæmd matsgerðar með áskilnaði um að gagnaðili sinn fái ekki aðgang að þeim eða að matsmenn geti farið á svig við meginreglu einkamálaréttarfars um jafnræði aðila með því að verða við slíkum áskilnaði. Þetta fær því á hinn bóginn ekki breytt að aðili, sem krefja vill gagnaðila um að láta af hendi gögn til afnota í máli, hefur þau úrræði ein, sem mælt er fyrir um í X. kafla sömu laga, til að fylgja slíkri kröfu eftir. Þá leið hefur sóknaraðili ekki farið í máli þessu og verður því að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar að því leyti sem hann hefur verið kærður til Hæstaréttar.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

Eins og greinir í atkvæði meirihluta dómenda er í IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hvergi að finna stoð fyrir því að aðili máls geti afhent matsmönnum gögn við framkvæmd matsgerðar með áskilnaði um að gagnaðili fái ekki aðgang að þeim eða að matsmenn geti farið á svig við meginreglu einkamálaréttarfars um jafnfræði aðila með því að verða við slíkum áskilnaði. Í þessu máli er sú aðstaða uppi að varnaraðili hefur þegar afhent dómkvöddum matsmönnum umrædd gögn. Af þeim sökum ber sóknaraðila réttur til að kynna sér gögnin á matsfundi svo matið komi að gagni samkvæmt 2. mgr. 62. gr. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. hér einnig dóm Hæstaréttar 11. nóvember 1999 bls. 4199 í dómasafni réttarins það ár. Hafa bæði matsmenn og varnaraðili umrædd gögn undir höndum. Eins og atvikum er háttað tel ég að fallast eigi á kröfu sóknaraðila um afhendingu á afritum gagnanna.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2015.

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 20. apríl 2015 um kröfu stefnda um úrskurð um afhendingu afrits gagna, var höfðað 15. október 2012 af hálfu Glitnis hf., Sóltúni 26 Reykjavík á hendur Orkuveitu Reykjavíkur, Hvassaleiti 99, Reykjavík, til greiðslu skuldar.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 747.341.624 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 189.229.200 krónum frá 20. október 2008 til 27. október 2008, og frá þeim degi af 406.631.600 krónum til 28. október 2008, og frá þeim degi af 407.259.119 krónum til 29. desember 2008, og frá þeim degi af 681.688.319 krónum til 16. mars 2012, og frá þeim degi af 819.519.585 krónum til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum á 5.193.302 krónum þann 16. mars 2009, 1.592.930 krónum þann 28. apríl 2009, 2.168.343 krónum þann 16. september 2009, 1.854.674 krónum þann 28. október 2009, 841.662 krónum þann 16. mars 2010, 11.821.991 krónu þann 28. apríl 2010, 754.671 krónu þann 16. september 2010, 10.198.782 krónum þann 28. október 2010, 932.543 krónum þann 16. mars 2011, 12.407.295 krónum þann 28. apríl 2011, 1.802.699 krónum þann 16. september 2011, 12.760.162 krónum þann 28. október 2011 og 9.848.908 krónum þann 30. apríl 2012.

Stefnandi krefst þess einnig að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts.

Stefndi krefst þess aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Til vara krefst stefndi þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.

Verði aðalkrafa stefnda tekin til greina krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins. Verði varakrafa stefnda tekin til greina krefst stefndi þess að málskostnaður verði felldur niður.

Í þessum þætti málsins er til úrlausnar beiðni stefnda um úrskurð um afhendingu afrits gagna, sem stefnandi hefur afhent matsmönnum, til stefnda. Stefndi krefst afhendingar úr hendi matsmanna og/eða stefnanda eftir atvikum. Stefnandi krefst þess að kröfu stefnda verði hafnað. Aðilar gera ekki kröfu um málskostnað í þessum þætti málsins.

Málsatvik og helstu málsástæður aðila um dómkröfur sínar

Stefnandi og stefndi áttu í samningssambandi þar sem stefndi keypti þjónustu af stefnanda, m.a. við áhættustýringu og gerð afleiðusamninga. Gildistími þeirra samninga náði yfir tímabilið frá 2002 til 2019. Frá árinu 2002 þar til í október 2008 gerðu stefnandi og stefndi með sér fjölmarga afleiðusamninga. Um var að ræða stundargengissamninga, gjaldmiðlaskiptasamninga (vaxtaskiptasamninga) og framvirka samninga með gjaldeyri. Námu afleiðusamningarnir verulegum fjárhæðum. Allir þessir samningar eru uppgerðir ef frá eru taldir þeir átta samningar sem krafa stefnanda í málinu byggir á og nánar er lýst í stefnu, greinargerð og skjölum málsins.

Um viðskipti þessi giltu almennir skilmálar fyrir markaðsviðskipti stefnanda og þar sem þeim sleppti giltu almennir skilmálar fyrir framvirk gjaldmiðlaviðskipti og skiptasamninga, útgefnir af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og sparisjóða, 1. útgáfa, febrúar 1998. Stefndi hlaut flokkun sem viðurkenndur gagnaðili í skilningi laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 í kerfum stefnanda 28. október 2007.

Kröfur stefnanda á hendur stefnda samkvæmt afleiðusamningunum átta byggi stefnandi á því að þær séu samrættar peningakröfur samkvæmt gagnkvæmum samningum og sem hafi orðið hæfar til að mætast á gjalddögum og skuldajöfnuður hafi þá orðið virkur. Stefnandi hafi efnt sinn hluta allra afleiðusamninganna á gjalddaga og hafi því að engu leyti vanefnt þá. Vanefnd stefnda liggi fyrir og nemi hún stefnukröfunum. Stefndi hafi staðfest að samningarnir séu óuppgerðir en mótmæli uppgjöri miðað við lokadag þeirra.

Stefndi geri aðallega kröfu um sýknu. Sýknukrafa stefnda sé m.a. byggð á gögnum slitastjórnar stefnanda, gögnum sem sýni ótvírætt að stefnandi hafi þverbrotið fjölda ákvæða laga sem gilda á fjármagnsmarkaði á árunum 2007 og 2008, með saknæmum og ólögmætum hætti allt til þess tíma sem FME hafi tekið yfir vald hluthafafundar stefnanda hinn 7. október 2008. Telji stefndi að af þeim lögbrotum leiði að ógilda beri GVT-samninga aðila á grundvelli 30., 33. eða 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þá beri jafnframt að ógilda vaxtaskiptasamninga aðila á grundvelli sömu lagaákvæða, þar sem stefnandi hafi orðið ófær um að efna aðalskyldu samninganna þegar hann hafi í raun og sanni verið ógjaldfær.

Stefndi byggi dómkröfur sínar öðrum þræði einnig á því að stefnandi hafi sagt öllum afleiðuviðskiptum við stefnda upp með tilkynningu hinn 27. október 2008, uppsögn sem stefndi hafi samþykkt.  Aðila málsins greini á um uppgjörsdag þeirra viðskipta en stefndi byggi sýknukröfu sína varðandi þessa málsástæðu á því að sú uppgjörsdagsetning eigi að miðast við 2. september 2008, en þá hafi stefndi ekkert skuldað stefnanda. Stefndi byggi á því að við gerð GVT-samninga aðila og á meðan þeir samningar hafi verið í gildi hafi stefnandi ekki hegðað sér í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum og á fjármálamarkaði, með trúverðugleika fjármálamarkaðarins og hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi.

Dómkvaðning matsmanna

Tveir menn, dr. Hersir Sigurgeirsson dósent og Stefán Svavarsson lektor, voru kvaddir til matsstarfa á dómþingi í máli þessu hinn 15. maí 2014 á grundvelli matsbeiðni stefnda sem matsbeiðanda. Tilgangur matsbeiðni stefnda er að færa sönnur á að matsþoli, stefnandi, hafi veitt rangar upplýsingar um fjárhagsstöðu sína og að raunsönn fjárhagsleg staða matsþola hafi nokkru fyrir samningsgerð aðila, við samningagerð aðila og allt til 7. október 2008 verið miklum mun verri en opinberar upplýsingar hafi gefið til kynna. Þau atriði sem matsmönnum var falið að meta eru eftirfarandi.

  1. Lagt verði mat á hlutfall eigin fjár matsþola annars vegar hinn 31. desember 2007 og hins vegar hinn 25. mars 2008.
  2. Lagt verði mat á hvort matsþoli hafi með framvirkum samningum allt frá árinu 2007 byggt upp gjaldeyriseignir í jöfnuði sínum.
  3. Komist matsmenn að þeirri niðurstöðu að hlutfall eigin fjár matsþola hafi verið annað en opinber gögn hafi gefið til kynna og/eða að matsþoli hafi með framvirkum samningum byggt upp gjaldeyriseignir í jöfnuði sínum, er þess óskað að lagt verði mat á:

a.       áhrif fyrrgreinds á íslensku krónuna ef þessar upplýsingar hefðu verið opinberar í lok árs 2007 eða á fyrsta ársfjórðungi 2008,

b.       áhrif fyrrgreinds á gengisvísitölu íslensku krónunnar frá árslokum 2007 til 30. júní 2008, þ.e. er fullvíst eða eru verulegar líkur á að gengisvísitalan hefði orðið hærri eða lægri en sú sem var skráð og opinber á nefndu tímabili, og

c.        hver hefði verið líkleg gengisvísitala íslensku krónunnar hinn 31. Desember 2007 og hinn 25. mars 2008.

  1. Lagt verði mat á það á hvaða tímapunkti fjárhagsleg staða matsþola varð þannig að fyrirsjáanlegt var að hann gæti ekki staðið í fullum skilum við lánardrottna sína þegar kröfur þeirra féllu í gjalddaga og ekki var sennilegt að greiðsluörðugleikar hans undu líða hjá innan skamms tíma.

Á matsfundi sem matsmenn boðuðu til hinn 28. júlí 2014 komu fram athugasemdir af hálfu stefnanda við hæfi annars matsmannanna, Stefáns Svavarssonar lektors, sem leiddi til þess að hann óskaði eftir því að verða leystur frá matsstörfum. Á dómþingi í málinu hinn 10. september 2014 var Stefán leystur formlega frá matsstörfum og á dómþingi 10. október 2014 var Jón Arnar Baldurs, löggiltur endurskoðandi, kvaddur til matsstarfa í málinu í hans stað. Hinir dómkvöddu matsmenn hófu nú matsstörf á ný.

Matsmenn boðuðu til þriggja matsfunda, dags. 21. október 2014, 5. nóvember 2014 og 30. janúar 2015. Á fyrsta matsfundi hinn 21. október 2014 lögðu matsmenn fram beiðni til matsþola um framlagningu gagna. Stefnandi óskaði eftir nánari útskýringum á þeirri beiðni og tók sér frest til að taka afstöðu til þeirrar gagnabeiðni. Á öðrum matsfundi hinn 5. nóvember 2014 var farið yfir afstöðu matsþola til sérhvers liðar í gagnabeiðni matsmanna en matsbeiðandi áréttaði áskorun til matsþola um afhendingu umbeðinna gagna til matsmanna með vísan til 2. og 3. mgr. 62. greinar laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Á þriðja matsfundi hinn 30. janúar 2015 afhenti matsþoli matsmönnum „öll umbeðin gögn nema fundargerðir stjórnar“ á USB-lyklum. 

Síðar sama dag, eftir að matsfundi var lokið, upplýsti annar hinna dómkvöddu matsmanna, dr. Hersir Sigurgeirsson dósent, að hann hefði verið ráðinn til ákveðinnar verktöku hjá matsþola fyrr á þessu ári og óskaði eftir því að verða leystur frá matsstörfum ef sú verktaka teldist ekki samrýmast störfum hans sem matsmanns í máli þessu. Stefnandi/matsþoli staðfesti á dómþingi í málinu hinn 6. febrúar 2015 að hér væri rétt frá greint og var matsmaðurinn leystur frá matsstörfum í máli þessu á því dómþingi. Á dómþingi í málinu hinn 26. febrúar 2015 var nýr maður kvaddur til matsstarfa, Ingvar Garðarsson viðskiptafræðingur. Enn á ný hófu hinir dómkvöddu matsmenn störf og boðuðu til matsfundar 27. mars 2015.

Beiðni um úrskurð um afhendingu gagna

Dóminum barst þann 7. apríl 2015 sú beiðni stefnda, matsbeiðanda, um afhendingu afrits gagna sem til úrlausnar er í úrskurði þessum. Í beiðninni segir að matsbeiðandi hafi ekki fengið í hendur USB-lykil með þeim gögnum sem matsþoli hafi afhent matsmönnum á matsfundi hinn 30. janúar sl. Lögmaður matsbeiðanda hafi sent lögmanni matsþola svohljóðandi skeyti hinn 30. mars sl.:

Á 3. matsfundi í máli þessu hinn 30. janúar s.l. afhentir þú matsmönnum „öll umbeðin gögn nema fundargerðir stjórnar“ eins og það er orðað í fundargerð matsfundarins.

Á 1. og 2. matsfundi höfðu matsmenn farið yfir óskir sínar um gögn en engin gögn voru afhent fyrr en á framangreindum 3. matsfundi.

Á framangreindum 3. matsfundi láðist að láta undirritaðan, f.h. umbjóðanda undirritaðs, matsbeiðanda í matsmálinu, fá eintak þeirra gagna sem matsmenn fengu.  Hér með er óskað eftir því að úr því verið bætt eins fljótt og kostur þannig að matsbeiðanda gefist kostur þess að kanna og tjá sig um efni þeirra gagna eftir því sem við á að hans áliti.

Daginn eftir eða hinn 31. mars 2015 hafi lögmaður matsþola hafnað þessari beiðni með tölvupósti þar sem segi:

Samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 er þeim sem hafa umráð þess sem matsgerð lýtur að skylt að veita matsmanni aðgang að því nema skorast megi undan vitnaskyldu um matsatriði eða óheimilt er að bera vitni um það. Á grundvelli þessarar skyldu var matsmönnum veittur aðgangur að umræddum gögnum. Að svo stöddu liggur ekki fyrir hvort Glitnir muni leggja umrædd gögn fram sem dómskjöl, enda með öllu óljóst hvort þau hafi nokkuð með ágreining aðila að gera. Þar til það liggur fyrir mun Glitnir ekki afhenda umbjóðendum þínum afrit umræddra gagna.

Beiðni matsbeiðanda um afhendingu og sjálfstæða könnun allra þeirra gagna sem matsþoli afhendi matsmönnum til afnota við mat þeirra sé byggð á almennum réttarfarsreglum og dómvenju um það efni sem og ákvæðum 2. mgr. 62. greinar laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar sem sérstaklega sé kveðið á um það að aðilum matsmáls skuli gefinn kostur á að kanna og tjá sig um þau gögn sem matsmenn afla til afnota við matið. Sú réttarregla hvíli á þeirri grunnreglu réttarfars að jafnræði skuli ríkja með aðilum mála um aðgang að þeim gögnum sem lögð séu fram í málum. Einu undantekningu frá þeirri grunnreglu réttarfarsins sé að finna í ákvæðum 69. greinar laga nr. 91/1991. Sú lagagrein eigi ekki við í þessu máli. 

Matsþoli vísi til 3. mgr. 62. greinar laga nr. 91/1991 til stuðnings þeirri afstöðu að hafna beiðni matsbeiðanda um afhendingu afrita þeirra gagna sem matsþoli hafi þegar afhent matsmönnum. Sá rökstuðningur standist ekki, eftir afhendingu umræddra gagna til matsmanna hafi matsþoli ekki möguleika að lögum til þess að hafna, hindra eða takmarka rétt matsbeiðanda til að fá í hendur og kynna sér afrit allra þeirra gagna sem matsþoli hafi afhent matsmönnum.

Matsbeiðandi hafi beint beiðni sinni um afhendingu afrits umræddra gagna að matsþola. Skilja verði höfnun matsþola við þeirri beiðni þannig að hann leggist gegn því að matsmenn afhendi matsbeiðanda afrit þeirra gagna og því hafi beiðni um afhendingu afrits gagnanna ekki verið beint að matsmönnum með formlegum hætti.

Matsbeiðandi vitni til HRD 28/1992 um hliðstætt álitaefni.

Krafist sé úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um þá kröfu matsbeiðanda, stefnda í máli þessu, að matsþola, stefnanda í máli þessu, og eða matsmönnum, eftir atvikum, sé skylt að afhenda matsbeiðanda afrit allra þeirra gagna sem matsþoli, stefnandi í máli þessu, hafi afhent matsmönnum í máli þessu þannig að matsbeiðanda gefist kostur á að tjá sig um efni þeirra gagna eftir þörfum. 

Krafa matsbeiðanda byggist á ákvæðum 1. mgr. 66. greinar laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Sjónarmið aðila um ágreiningsefnið

Í tilefni af beiðni stefnda reifuðu lögmenn aðila sjónarmið sín fyrir dómara í þinghaldi 20. apríl sl. og krefst stefnandi þess að beiðni stefnda verði hafnað.

Stefndi vísar til þess að það sé almenn grundvallarregla í réttarfari að aðilum sé tryggt jafnræði varðandi aðgang að gögnum og ættu sömu sjónarmið við í matsmáli og í almennum einkamálum. Í matsmáli séu gögnin matsandlagið, stefnandi hafi orðið við beiðni matsmanna um gögn að hluta til og hafi þegar afhent matsmönnum þau á USB-lykli og sé hann því gagn í matsmálinu. Það sé grunnregla í íslensku réttarfari að afhenda eigi aðila slík gögn til þess að honum gefist kostur á að tjá sig um þau eftir þörfum í samræmi við 2. mgr. 62. gr. laga um meðferð einkamála, en til þess að geta tjáð sig um þau sé matsbeiðanda nauðsynlegt að fá gögnin í hendur. Hann þurfi að geta skoðað þau til að koma á framfæri athugasemdum. Engin heimild sé til þess í lögum að binda matsmenn trúnaði um gögn í matsmáli, eina lagaheimild til að leggja fram gögn í trúnaði sé í 1. mgr. 69. gr. um framlagningu skjals fyrir dómara í trúnaði.

Af dómi Hæstaréttar í málinu nr. 28/1992 megi ráða að andmælaregla stjórnsýslulaga gildi um matsstörf þar sem aðilar þess máls hafi átt rétt á því að fá í hendur helstu gögn um staðreyndir málsins og til þess að tjá sig um þau áður en matsmenn lögðu endanlegt álit sitt á úrlausnarefnið. Með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 281/2014 hafi Glitni hf. í dómsorði verið gert skylt að afhenda gagnaðila, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, tiltekin gögn sem matmenn höfðu óskað eftir. Af því leiði að þegar óskað sé aðgangs að gögnum fyrir matsmenn eigi gagnaðili einnig rétt á þeim gögnum.

Stefnandi vísar til þess að það sé grundvallarregla réttarfars að aðili hafi forræði á því hvaða gögn hann sýni í dómsmáli. Verði aðili einkamáls ekki við áskorun gagnaðila samkvæmt 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 að leggja fram skjal, sem sá hefur undir höndum, geti dómari skýrt það svo að hann samþykki frásögn áskoranda um efni skjalsins, sbr. 1. mgr. 68. gr. sömu laga. Úrræði aðila til að knýja á um að fá aðgang að skjali í vörslum gagnaðila séu tæmandi talin á þennan hátt, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í máli nr. 11/2015. Það leiði til þess að matsmenn verði að eiga ríkari rétt til aðgangs að gögnum en aðili í einkamáli, önnur niðurstaða leiddi til þess að aðilar gætu með því að beita matsbeiðnum fengið aðgang að gögnum sem þeir annars ættu ekki kost á að fá. Afhending gagna til matsmannanna í málinu hafi ekki byggst á skyldu til afhendingar skjala á grundvelli 67. gr. laga um meðferð einkamála.

Skylda samkvæmt 3. mgr. 62. gr. til þess að afhenda matsmönnum gögn feli ekki í sér skyldu til afhendingar gagna til gagnaðila. Gögnin sem hér um ræði hafi verið afhent matsmönnum gegn skriflegri trúnaðaryfirlýsingu þeirra. Í tengslum við fyrstu matsspurninguna um eiginfjárstöðu bankans hafi matsmenn talið sig þurfa upplýsingar um fjárhagsstöðu viðskiptamanna bankans, m.a. um það hvaða tryggingar þeir hefðu sett. Væri þar bæði um að ræða viðskiptamenn sem nú væru gjaldþrota og félög sem enn eru í fullum rekstri. Þessar upplýsingar um stöðu viðskiptamanna séu háðar ákvæðum um bankaleynd, sbr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þá sé um að ræða lista yfir hluthafa í bankanum og fleira. Viðurkennt hafi verið að matsmenn þyrftu að hafa svigrúm til viðamikillar gagnaöflunar til að geta ákveðið að lokum að hvaða marki þeir þurfi að styðjast við þau gögn í mati sínu. Engin þörf sé á að heimila á þessu stigi gagnaðila aðgang að gögnum sem ekki enn hefur verið ákveðið að byggt verði á við matið. Matsmenn séu hlutlausir aðilar á vegum dómsins og aðilar málsins eigi ekki að reyna að hafa áhrif á matstörf þeirra.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 66. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 leysir dómari úr ágreiningi um atriði sem varða framkvæmd matsgerðar með úrskurði. Ágreining aðila um rétt stefnda til að fá afhent afrit gagna sem stefnandi hefur afhent matsmönnum í trúnaði leggur stefndi fyrir dóminn á þeim grundvelli.

Matsmanni er rétt að afla sér gagna til afnota við matið, en aðilum sem eru viðstaddir skal þá gefinn kostur á að tjá sig um þau eftir þörfum segir í 3. málslið 2. mgr. 62. gr. laga um meðferð einkamála. Styður stefndi kröfu sína við það að honum sem matsbeiðanda sé nauðsynlegt að fá aðgang að öllum gögnum sem matsmenn hafi fengið til þess að hann eigi þess kost að tjá sig um þau eftir þörfum, svo sem hann eigi rétt til á grundvelli þessa ákvæðis, og vísar til meginreglu um jafnræði aðila máls. Stefndi hefur ekki stutt kröfu sína öðrum rökum eða tiltekið nánar hvaða gögn honum væri nauðsyn á að tjá sig um á matsfundi eða af hvaða ástæðum. Við málflutning tók lögmaður stefnda fram að til þess að tilgreina það þyrfti hann fyrst að sjá gögnin. Af hálfu stefnanda er vísað til þess að um trúnaðargögn sé að ræða sem m.a. njóti verndar 58. gr. laga nr. 161/2002 um bankaleynd. Stefndi geti ekki átt ríkari rétt til gagna í vörslum gagnaðila á grundvelli ákvæða laga um meðferð einkamála um matsgerðir en hann ætti á grundvelli X. kafla laganna um skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn í einkamáli.

Réttur matsmanns til aðgangs að öllum gögnum sem mat kunna að varða samkvæmt fyrrnefndu ákvæði 2. mgr. 62. gr. laga um meðferð einkamála er ekki fortakslaus, sbr. það að samkvæmt 3. mgr. 62. gr. er ekki skylt að veita matsmanni aðgang að því sem matsgerð lýtur að, ef sá sem hefur umráð þess má skorast undan vitnaskyldu um matsatriði eða er óheimilt að bera vitni um það. Samkvæmt því sem greinir í fundargerðum matsfunda, sem lagðar hafa verið fram í málinu, lögðu matsmenn fram beiðni um gögn frá stefnanda á fyrsta matsfundi 21. október 2014. Á öðrum matsfundi 5. nóvember s.á. er bókað um afstöðu stefnanda til hvers og eins af sautján liðum í beiðni matsmanna. Þar kemur fram að í sumum tilvikum telji stefnandi umbeðin gögn geta fallið undir takmarkanir sem stefnanda eru settar um bankaleynd og í öðrum tilvikum er óskað frekari rökstuðnings matsmanna fyrir þörf á umbeðnum gögnum vegna matsins. Á þriðja matsfundi 30. janúar 2015 er bókað að stefnandi afhendi matsmönnum öll umbeðin gögn nema fundargerðir stjórnar. Hvorki er bókað nánar um fyrirkomulag á afhendingu gagnanna til matsmanna né um óskir stefnda til þess að fá afrit þeirra, en lögmaður stefnda var viðstaddur á öllum fyrrgreindum matsfundum.

Fyrir dóminum hefur lögmaður stefnanda upplýst að ákveðið hafi verið í samráði við matsmenn að afhenda þeim gögnin sem þeir óskuðu eftir, að undanskildum fundargerðum stjórnar, til athugunar í trúnaði. Af fundargerð frá öðrum matsfundi verður ráðið að stefnandi efaðist um að matsmönnum væri þörf á öllum gögnunum sem þeir óskuðu eftir til þess að svara matsspurningunum og liggur það ekki fyrir á þessu stigi að hve miklu leyti verður byggt á þessum gögnum við matið.

Ákvæði 2. mgr. 62. gr. laga um meðferð einkamála útilokar það ekki að gögn séu afhent matsmanni í trúnaði til athugunar. Matsmaður ákveður hvaða gögn hann leggur mati sínu til grundvallar og ákveður hvernig hann kynnir aðilum matsmáls gögn til þess að þeir geti tjáð sig um þau eftir þörfum, sbr. 3. málslið 2. mgr. 62. gr. laga um meðferð einkamála. Heimild dómara samkvæmt 1. mgr. 66. gr. sömu laga til að úrskurða um atriði sem varða framkvæmd matsgerðar, sem aðila dómsmálsins greinir á um, felur dóminum ekki vald til þess að skylda matsmann, sem móttekið hefur gögn af þeim toga sem hér um ræðir í trúnaði, til þess að afhenda aðila máls slík gögn. Heimildinni verður ekki beitt með þeim hætti og verður kröfu stefnda þar að lútandi hafnað. Með því er engin afstaða tekin til þess hvort það kunni að hafa áhrif á sönnunargildi matsgerðar að matsmaður kynni ekki gögn sem þýðingu hafa fyrir matið, áður en mat er unnið, fyrir aðila matsmáls á matsfundi, sbr. 2. mgr. 62. gr. 

Atvik og kröfugerð í máli þessu, eins og ágreiningsefnið er lagt fyrir dóminn til úrlausnar, eru ekki sambærileg þeim sem fjallað er um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 281/2014, sem stefndi vísar til, þar sem stefnanda var gert að afhenda gagnaðila sínum í því máli tiltekin gögn af tilgreindum ástæðum. Aðila dómsmáls eru tæk úrræði 67. gr. til 69. gr. laga um meðferð einkamála um aðgang að gögnum sem eru í vörslum gagnaðila og eru þau úrræði þar tæmandi talin, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 11/2015. Í máli þessu er afhendingar gagna krafist úr hendi gagnaðila einkamáls með vísun til ákvæðis um rétt aðila matsmáls til að tjá sig um gögn á matsfundi sem matsmaður stjórnar. Stefnanda verður ekki gert að afhenda stefnda gögn á þessum grundvelli og ber því að hafna kröfu stefnda.

Aðilar gera ekki kröfu um málskostnað í þessum þætti málsins.

Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu stefnda, Orkuveitu Reykjavíkur, um að stefnanda, Glitni hf., eða matsmönnum sé skylt að afhenda stefnda afrit allra þeirra gagna sem stefnandi afhenti matsmönnum á matsfundi hinn 30. janúar 2015, er hafnað.