Hæstiréttur íslands

Mál nr. 232/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
  • Vanreifun
  • Lögvarðir hagsmunir


                                                                                                                 

Þriðjudaginn 15. júní 1999.

Nr. 232/1999.

Alice Ege Larsen

(Steingrímur Þormóðsson hdl.)

gegn

Lífeyrissjóði verslunarmanna

(Ólafur Gústafsson hrl.)

Íbúðalánasjóði

(Friðjón Örn Friðjónsson hrl.)

Pálma Björnssyni og

Íslandsbanka hf.

Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur. Vanreifun. Lögvarðir hagsmunir.

Í einkamáli, sem A hafði höfðað gegn L, Í, P og B, krafðist A þess, að ógilt yrði með dómi veðleyfi sem A hafði gefið P til tryggingar skuldabréfs í eigu L, og síðari skilmálabreyting skuldabréfsins. Talið var að A hefði ekki skýrt á viðhlítandi hátt hvers vegna málinu væri beint að Í og B. Með hliðsjón af því að íbúð A hafði verið seld nauðungarsölu og veðkrafa L greiðst að fullu þóttu hagsmunir, sem A kynni að hafa haft af kröfu sinni gagnvart L og P, ekki vera lengur fyrir hendi. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að vísa málinu í heild frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. maí 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. júní sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 1999, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir Lífeyrissjóður verslunarmanna og Íbúðalánasjóður krefjast þess hvor um sig að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðili dæmd til að greiða kærumálskostnað.

Aðrir varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka.

I.

Eins og nánar greinir í úrskurði héraðsdómara gerir sóknaraðili þá kröfu á hendur varnaraðilunum Lífeyrissjóði verslunarmanna og Pálma Björnssyni að ógilt verði undirskrift hennar á veðleyfi 10. mars 1992 handa Pálma til að veðsetja íbúð hennar að Miklubraut 56 í Reykjavík, en leyfi þetta nýtti Pálmi með veðskuldabréfi útgefnu 16. sama mánaðar til Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Þá gerir sóknaraðili þá kröfu á hendur öllum varnaraðilunum að ógilt verði samþykki hennar 13. september 1995 á breytingum á skilmálum fyrrnefnds veðskuldabréfs, en skjal þessa efnis var undirritað af varnaraðilanum Pálma ásamt sóknaraðila og forráðamanni varnaraðilans Lífeyrissjóðs verslunarmanna, svo og af hálfu varnaraðilans Íslandsbanka hf. og Byggingarsjóðs ríkisins, sem áttu veðrétti í íbúð sóknaraðila að baki Lífeyrissjóði verslunarmanna. Íbúðalánasjóður hefur nú komið í stað Byggingarsjóðs ríkisins.

Fyrir liggur í málinu að íbúð sóknaraðila var seld nauðungarsölu 1. október 1997. Gerðist Byggingarsjóður ríkisins þar kaupandi, en krafa Lífeyrissjóðs verslunarmanna á grundvelli áðurnefnds veðskuldabréfs frá 16. mars 1992 greiddist að fullu af söluverði íbúðarinnar.

II.

Sóknaraðila hefur ekki skýrt á viðhlítandi hátt ástæðu þess að kröfum í málinu sé beint meðal annars að varnaraðilunum Íbúðalánasjóði og Íslandsbanka hf., en ekki verður séð hvers vegna þörf geti verið á málsaðild þeirra þótt þeir hafi sem veðhafar í íbúð sóknaraðila veitt samþykki sitt fyrir breytingum á skilmálum skuldabréfs rétthærri veðhafa. Er málið að þessu leyti svo vanreifað að óhjákvæmilegt er að vísa kröfum á hendur þessum varnaraðilum frá héraðsdómi.

Eins og áður greinir hefur íbúð sóknaraðila verið seld við nauðungarsölu og veðkrafa varnaraðilans Lífeyrissjóðs verslunarmanna greiðst þannig að fullu. Hagsmunir, sem sóknaraðili kann að hafa haft af því að leita dóms einvörðungu um ógildingu veðleyfis að baki veðrétti lífeyrissjóðsins, eru því ekki lengur fyrir hendi. Samkvæmt því verður að vísa frá héraðsdómi kröfum á hendur varnaraðilunum Lífeyrissjóði verslunarmanna og Pálma Björnssyni.

Samkvæmt framansögðu verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að vísa málinu frá dómi.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað skal vera óraskað. Sóknaraðili verður dæmd til að greiða varnaraðilunum Lífeyrissjóði verslunarmanna og Íbúðalánasjóði kærumálskostnað, svo sem nánar greinir í dómsorði, en að öðru leyti fellur kærumálskostnaður niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Alice Ege Larsen, greiði varnaraðilum, Lífeyrissjóði verslunarmanna og Íbúðalánasjóði, hvorum um sig 40.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 1999.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um framkomna frávísunarkröfu stefndu, Líf­eyrissjóðs verzlunarmanna og Byggingarsjóðs ríkisins, 26. apríl sl., er höfðað af Alice Ege Larsen, kt. 111243-6039, Miklubraut 56, Reykjavík, með stefnu birtri 22., 23. og 27. október 1998 á hendur Lífeyrissjóði verslunarmanna, kt. 420369-4459, Húsi verzlunarinnar, Kringlunni 7, Reykjavík, Pálma Björnssyni, kt. 100353-2889, Gránu­félagsgötu 28, Akureyri, Íslandsbanka hf., kt. 421289-5069, Kirkjusandi, Reykja­vík, Byggingarsjóði ríkisins, kt. 460169-2409, Suðurlandsbraut 24, Reykjavík, og til réttargæzlu Haraldi Jónassyni hdl., kt. 011230-3779, Snorrabraut 52, Reykjavík.

Á hendur stefndu, Lífeyrissjóði verzlunarmanna og Pálma Björnssyni gerir stefnandi þær kröfur, að undirskrift hennar undir veðleyfi til handa Pálma Björnssyni, út­gefið 10. marz 1992, til að veðsetja íbúð hennar að Miklubraut 56, Reykjavík, til trygg­ingar láni að fjárhæð allt að kr. 1.200.000 frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna, verði ógilt með dómi. Á hendur öllum aðalstefndu gerir stefnandi þær kröfur, að samþykki hennar þann 13. september 1995 á skilmálabreytingum veðskuldabréfs, útgefnu 16. marz 1992 af Pálma Björnssyni, að fjárhæð kr. 1.100.000, upphaflega tryggðu með 2. veðrétti í Miklubraut 56, Reykjavík, verði ógilt með dómi. Stefnandi krefst málskostnaðar samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.

Dómkröfur stefnda, Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, en til vara, að ógildingarkröfum stefnanda verði hafnað og stefndi verði alfarið sýknaður af kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum gerir stefndi kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda að mati dómsins ásamt virðisaukaskatti sam­kvæmt lögum.

Dómkröfur stefnda, Byggingarsjóðs ríkisins, eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, en til vara, að kröfu stefnanda í II. lið dómkrafna um ógildingu á sam­þykki hennar, dags. 13. september 1995 á skilmálabreytingu veðskuldabréfs, útgefnu 16.03.1992 af Pálma Pjörnssyni, að fjárhæð kr. 1.100.000, verði hafnað. Þá er þess krafizt, að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum máls­kostnaðarreikningi eða að mati dómsins, ásamt 24,5% virðisaukaskatti á dæmdan málskostnað.

Ekki var haldið uppi vörnum af hálfu annarra stefndu.

I.

Málavaxtalýsing stefnanda.

Stefnandi lýsir málavöxtum svo, að á tímabilinu október/nóvember 1990 til mars 1992 hafi Haraldur Jónasson, fyrrverandi eiginmaður hennar, notað sér bágindi og ölvun­arástand hennar til að hafa af henni fé og fá hana til að skrifa undir löggerninga, sem hann hafi notfært sér. Hafi þetta athæfi leitt til þess, að eign stefnanda að Miklu­braut 56, Reykjavík varð brátt yfirveðsett, sem endaði með því, að hún var seld á nauð­ungaruppboði 1. október 1997 til Byggingarsjóðs ríkisins.

Skjöl þau, sem stefnandi kveðst hafa undirritað undir framangreindum kring­um­stæð­um eru skuldabréf við húsbréfadeild Húsnæðisstofnunar, að upphæð kr. 2.003.134, og útgáfa veðleyfis í íbúð hennar að Miklubraut 56, Reykjavík, til trygg­ingar láni Pálma Björnssonar, 100353-2889, Gránufélagsgötu 28, Akureyri, við Líf­eyr­issjóð verslunarmanna, að upphæð kr. 1.100.000. Þá kveður stefnandi Harald hafa fengið hana til að undirrita yfirlýsingu hinn 19. apríl 1992, um að framangreindar veð­setningar væru gerðar með hennar samþykki. Stefnandi kveðst hafa verið ofurölvi og ekki vitað, hvað hún var að gera, þegar hún ritaði undir framangreind skjöl. Hún kveðst vera drykkjusjúk, og hafi Haraldur séð til þess að hella hana fulla til þess að fá hana til að rita undir skjölin.

Stefnandi kveður skuldabréfið frá 29.10.1991 til Húsbréfadeildarinnar hafa verið notað til að greiða niður skuldabréf sem Haraldur hafði falsað, og það, sem þá hafi verið eftir, hafi Haraldur tekið sér. Einnig kveður hún undirskrift sína á veðleyfið frá 10.03.1992 hafa verið falsaða.

Stefnandi kveðst hafa farið í sex eða átta skipti í meðferð vegna áfengissýki á þessum tíma. Stundum hafi hún verið flutt meðvitundarlaus. Hún hafi farið á Land­spítal­ann, Vog og Vífilsstaði.

Stefnandi kveðst margsinnis hafa reynt að fá stefnda til að afturkalla nauð­ung­ar­sölu­beiðni sína. Allar slíkar beiðnir hafi orðið árangurslausar.

Stefnandi kveður ljóst, að þótt hún fengi dóm á hendur Haraldi Jónassyni hdl., væri hann eignalaus með öllu. Eina leið hennar til að ná rétti sínum sé því að fá þær skuld­bindingar, sem hún undirgekkst á sambúðartíma sínum og Haraldar, ógilta með dómi.

II.

Málsástæður stefnanda.

Stefnandi kveður má1 þetta snúast um skuldbindingu sína samkvæmt eftirfarandi gern­ingum:

I) Veðleyfi nr. 5209, útg. 10. mars 1992, (dskj. nr. 7) og II) breytingu frá 13. september 1995 á skilmálum veðskuldabréfs frá 16.03.1992, útgefnu af Pálma Björns­syni, tryggðu með 2. veðrétti í Miklubraut 56 (dskj. nr. 8).

Stefnandi byggir kröfu sína um ógildingu undirskriftar sinnar á veðleyfinu á því, að undir­skriftin sé fölsuð. Þá sé skilmálabreytingin þannig til komin, að bréfið, í upp­haflegri mynd, hafi verið komið í vanskil, þar sem ekkert hefði verið greitt af því. Hún hafi, í september 1995, ekki haft annan kost en að samþykkja skuldbreytingu bréfs­ins, þar sem uppboðstilraunir hafi verið hafnar á veðinu. Stefnandi kveðst ekki muna gjörla eftir því, að hún hafi undirritað skilmálabreytinguna, enda þótt það eigi að hafa verið gert í viðurvist lögbókanda.

Stefnandi kveður láni þessu hafa upphaflega verið þinglýst á húsið, þannig að leynt hafi farið gagnvart henni. Ljóst sé og, samkvæmt skýrslutöku af útgefanda bréfs­ins og Ólafi Hilmarssyni hjá rannsóknarlögreglu, að andvirði skuldabréfsins hafi runnið til Haraldar Jónassonar, sem keypt hafi rétt til lánsins af Pálma Björnssyni, Akureyri, sem og til Pálma Björnssonar.

Stefnandi kveður Harald Jónasson hafa hagnýtt sér bágindi hennar og afleiðingar ölvunar­ástands hennar tiI að útvega sér peninga með þessum hætti, auk þess sem undir­skrift hennar á veðleyfið sé fölsuð og henni hafi verið leynd veðsetning eignar sinnar.

Varðandi ógildingu skilmálabreytingarinnar, frá 13. september 1995, verði að líta til efni þess samnings, sem þá var fyrir hendi, stöðu samningsaðila og atvika við samn­ingsgerðina. Verði þá ekki hjá því komist að líta svo á, með hliðsjón of þessum stað­reyndum, að ósanngjarnt hafi verið af Lífeyrissjóði verzlunarmanna að ganga að stefn­anda með þeim hætti, sem gert var.

Stefnandi kveður og, að á þeim tíma, sem skilmálabreytingin var gerð, hafi hún einnig verið nær ósjálfbjarga vegna áfengisneyslu og veikinda henni samfara. Hafi því verið auðvelt að fá hana til undirskriftar, sé sú raunin, að hún hafi undirritað téðar skil­málabreytingar.

Stefnandi styður dómkröfur sínar einnig við, að stefnda hafi ekki átt að dyljast, að verið var að misfara með lánsréttindi hjá sjóðnum. Hafi framkoma Haraldar Jónas­sonar varðandi lánveitingu sjóðsins og verið með þeim hætti, að stefndi hefði átt að at­huga frekar, hvernig að málum var staðið.

Stefnandi byggir einnig á, að þar sem hið upphaflega veðleyfi hafi verið falsað, verði ekki séð, að samþykkt hennar á skilmálabreytingunni geti skoðazt sem gilt „eftirá­samþykki“ fyrir veðsetningu.

Það standi enn, að veðleyfið sjálft hafi verið og sé byggt á fölsuðum löggerningi.

Stefnandi styður dómkröfur sínar við ógildingarákvæði samningalaga, svo sem þegar löggerningur er falsaður og fenginn með svikum. Einnig vísar stefnandi til mis­neyt­ingarákvæðis 31. greinar samningalaga. Þá vísar stefnandi til 36. greinar samn­ingalaga með áorðnum breytingum með lögum nr. 14/1995.

Stefnandi vísar og til þess að veðsamningar verði að byggja á gildum loforðum.

Málsástæður stefnda, Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.

Aðalkrafa stefnda er sú, að málinu verði vísað frá dómi og honum verði til­dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins, ásamt virðisaukaskatti skv. lögum. Er þessi þáttur málsins einungis hér til úrslausnar.

Stefndi kveður helztu atvik máls þessa, eins og þau horfi við Lífeyrissjóði verzl­unar­manna, vera þessi:

Með lánsumsókn, dags. 01.12.1991, hafi Pálmi H. Björnsson, kt. 100353-2889, sótt um sjóðfélagalán hjá stefnda. Pálmi hafi verið búinn að ávinna sér lánsrétt hjá stefnda, en lánsrétturinn myndist við greiðslur til stefnda í tiltekinn tíma, og gildi sömu reglur fyrir alla sjóðfélaga. Samþykkt hafi verið hjá stefnda að veita Pálma um­beðið lán með fyrirvara um, að fyrir lægi fasteignaveð, sem uppfyllti kröfur stefnda um veðtryggingu fyrir slíku láni. Af hálfu Pálma hafi verið lögð inn gögn þar að lútandi, þ.e. veðbókarvottorð fyrir íbúð að Miklubraut 56, Reykjavík, dags. 06.03.1992, og veðleyfi frá þinglýstum eiganda íbúðarinnar, Alice Ege Larsen, stefn­anda þessa máls, dags. 10.03.1992.

Á grundvelli þessara gagna hafi verið útbúið hjá stefnda veðskuldabréf vegna lán­veit­ingarinnar. Skuldabréfið hafi verið undirritað 16.03.1992 af Ólafi Ragnari Hilmars­syni, kt. 160562-7819, fyrir hönd lántakans Pálma H. Björnssonar, samkvæmt umboði þar að lútandi dags. 15.03.1992. Skuldabréfinu hafi verið þinglýst athuga­semdalaust þann 17.03.1992 og hafi lánsfjárhæðin verið greidd út næsta dag til sama Ólafs, samkvæmt umboðinu.

Fyrsti gjalddagi skuldabréfsins hafi verið 16.09.1992 og hafi vanskil á skuldinni sam­kvæmt bréfinu orðið þegar á fyrsta gjalddaga. Vanskilin vegna þessa gjalddaga hafi verið að fullu greidd í júní 1994, en skuldabréfið hafi þá enn verið í vanskilum frá og með gjalddaga 16.03.1993.

Með bréfi ráðgjafastöðvar Húsnæðisstofnunar ríkisins til stefnda, Lífeyrissjóðs verzlunar­­manna, dags. 21.10.1994, sé þess farið á leit við stefnda, að hann skuldbreyti þessu láni og sameini vanskil og höfuðstól. Komi fram í bréfinu, að til ráð­gjafa­stöðvarinnar hafi leitað Alice Ege Larsen og beðið um aðstoð vegna greiðslu­erfiðleika.

Það sé síðan með sérstöku skjali: „Breyting á greiðsluskilmálum veðskuldbréfs“, dags. 13.09.1995, að skuldinni við stefnda samkvæmt umræddu skuldabréfi sé skuld­breytt. Þetta skjal sé undirritað af útgefanda skuldabréfsins, Pálma Björnssyni, af starfs­manni stefnda fyrir hans hönd, og af stefnanda, sem þinglýstum eiganda hinnar veð­settu eignar. Sé undirskrift hennar vottuð sérstaklega af lögbókandanum í Reykjavík, sem þá muni hafa verið Þorkell heitinn Gíslason, borgarfógeti. Enn fremur hafi skjalið verið áritað um samþykki af Byggingarsjóði ríkisins og Íslands­banka hf. sem síðari veðhöfum.

Enn hafi orðið vanskil á framangreindu skuldabréfi stefnda sem og fleiri veð­skuldum áhvílandi á eign stefnanda, og hafi verið beiðzt nauðungarsölu á eigninni vegna þeirra. Hinn 01.10.1997 hafi síðan farið fram framhaldsuppboð á eigninni, og hafi Byggingarsjóður ríkisins verið hæstbjóðandi. Hafi boð hans verið samþykkt og hafi stefndi, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, fengið kröfu sína samkvæmt skulda­bréfinu að fullu greidda, og hafi henni þá verið aflýst af eigninni.

Stefnandi hafi sjálf verið mætt við framhaldsuppboðið, og hafi hún engar at­huga­semdir gert við kröfu stefnda eða framgang uppboðsins. Hafi hún hins vegar farið fram á 8 vikna samþykkisfrest, sem aðilar uppboðsins samþykktu. Stefnandi hafi heldur ekki gert athugasemdir við frumvarp að úthlutun uppboðsandvirðisins. Lög­maður hennar, Steingrímur Þormóðsson hdl., hafi hins vegar sent stefnda bréf dags. 30.09.1997, þar sem segi, að stefnandi kveði nafnritun sína á „skuldabréfið“ falsaða.

Ekkert hafi síðan gerzt í málinu, þar til lögmaður stefnanda sendi stefnda bréf, dags. 24.08.1998, þar sem leitað sé eftir afstöðu stefnda til málsins og spurt, hvar málið sé statt. Stefndi hafi svarað bréfi þessu með bréfi, dags. 10.09.1998, þar sem hann greini frá því, að krafa hans samkvæmt umræddu skuldabréfi sé uppgreidd og hann líti svo á, að málinu sé lokið, hvað sig varði. Í framhaldi þess höfði stefnandi má1 þetta.

Dómkröfur stefnanda lúti eingöngu að því að fá ógilt með dómi skuldbindingar­gildi, annars vegar veðleyfis, útg. 10. mars 1992, og hins vegar yfirlýsingar um breyt­ingu á greiðsluskilmálum veðskuldabréfs, dags. 13. september 1995.

Fyrir liggi í málinu, að veðskuldbréfið, sem var í eigu stefnda, hafi verið að fullu upp­greitt í framhaldi áðurgreinds framhaldsuppboðs, og hafi því þá verið aflýst af fast­eign stefnanda og það kvittað um fullnaðargreiðslu. Krafan samkvæmt skulda­bréfinu hafi þar með verið liðin undir lok. Tilvist veðskuldabréfsins, og þar með veð­leyf­isins og skilmála­breytingarinnar, hafi því verið niður fallin.

Stefndi haldi því fram, að ógildingarkrafa stefnanda á löggerningi, sem ekki sé lengur til, sé ekki dómhæf, og því beri að vísa málinu frá dómi.

Stefndi vísar til meginreglna skv. ákvæðum IV. kafla eml. nr. 91/1991.

Stefndi vísar jafnframt til þess, að samkvæmt 3. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauð­ungarsölu hefði stefnandi mátt hafa uppi „kröfu um skaðabætur eða aðra pen­inga­greiðslu, sem byggist á því, að ekki hafi verið skilyrði fyrir nauðungarsölu“. Með gagnályktun frá þessu ákvæði verði að líta svo á, að kröfu um ógildingu lög­gernings, sem sé niður fallinn vegna nauðungarsölu, verði vísað frá dómi.

Málsástæður stefnda, Byggingarsjóðs ríkisins.

Stefndi, Byggingarsjóður ríkisins, kveður sér vera algerlega ókunnugt um per­sónu­lega hagi stefnanda. Hann hafi verið grandlaus um þann áfengisvanda, sem stefn­andi lýsi í stefnu, og afleiðingar hans.

Samþykki sjóðsins á skilmálabreytingu, dags. 13. september 1993, sbr. dskj. nr. 8, hafi verið veitt að beiðni og í þágu skuldara viðkomandi láns og á þeirri forsendu, að hags­munir sjóðsins væru eftir sem áður tryggðir. Stefndi, Byggingarsjóður ríkisins, hafi enga hagsmuni haft af skilmálabreytingunni, og þegar undir hana var ritað, hafi legið fyrir undirritun skuldara og samþykki stefnanda. Stefndi telji ósannað, að bág­indi stefnanda, eins og þeim sé lýst í stefnu, hafi haft áhrif á samþykki hennar fyrir skil­málabreytingunni.

Stefndi hafi þurft að verja hagsmuni sína á nauðungaruppboði, er fram fór á eign stefn­anda, Miklubraut 56, Reykjavík, þann 1. október 1997, og hafi hann verið hæst­bjóðandi, eins og fram komi á dskj. nr. 9. Stefndi, Byggingarsjóður ríkisins, hafi greitt kaupverðið að fullu og fengið uppboðsafsal. Hafi eignin þegar verið sett í end­ur­sölu.

Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á eftirfarandi málsástæðum:

Byggingarsjóður ríkisins hafi þegar efnt að fullu boð sitt í eignina að kröfu sýslu­manns­ins í Reykjavík. Uppboðsandvirðið hafi verið greitt og því ráðstafað til greiðslu veðkrafna, þ.á m. til greiðslu á kröfu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, áhvílandi á 2. veðrétti eignarinnar.

Veðskuldabréfið, sem stefnandi krefjist ógildingar á, sé því að fullu greitt og þegar af þeirri ástæðu fallið niður. Á því sé byggt, að stefnandi geti ekki krafizt ógilding­ar á veðskuldabréfi og skilmálabreytingu, sem þegar sé niður fallin.

Stefndi byggi enn fremur á því, að stefnandi reki málið ekki í réttum farvegi.

Lögum samkvæmt hefði stefnandi átt að koma að mótmælum sínum við upp­boðs­meðferð á eigninni. Skv. 51. gr. laga nr. 90/1991 hafi hagsmunaaðilar ákveðinn frest til að koma að athugasemdum við frumvarp til úthlutunar á uppboðsandvirði. Komi fram mótmæli, taki sýslumaður afstöðu, sem bera megi undir héraðsdóm sam­kvæmt nánari ákvæðum laganna.

III.

Forsendur og niðurstaða.

Krafa stefnanda er tvíþætt. Annars vegar krefst hún ógildingar á undirskrift sinni undir upphaflegt veðleyfi til handa Pálma Björnssyni og hins vegar undir skil­mála­breyt­ingu veðskuldabréfsins.

Telja verður, að með breytingu á greiðsluskilmálum veðskuldabréfs, útgefnu 16. marz 1992 af Pálma Helga Björnssyni, hafi skuldin, eins og hún var upphaflega sam­kvæmt bréfinu, fallið niður, en ný skuldbinding tekið við. Stefnandi ritar samþykki sitt á skuldbreytingarskjalið og gefur með þeim hætti nýtt leyfi til þess að veðsetja hús­eign sína að Miklubraut 56. Verður að líta svo á, að þar með hafi fallið niður hið fyrra veðleyfi stefnanda og veðskuldbinding, en ný stofnazt í staðinn.

Stefnandi þykir ekki hafa sýnt fram á, að hún hafi nú lögvarða hagsmuni af því að fá undirskrift sína undir fyrra veðleyfið ógilta og ber af þeim sökum að vísa fyrri kröfulið hennar frá dómi.

Í máli þessu er eingöngu deilt um gildi undirskriftar stefnanda undir þar til greind skjöl, sem þegar hafa verið greidd og liggur því ekki ógreidd skuld að baki þeim. Engin bótakrafa er samfara þessari kröfugerð. Stefnandi skýrir ekki forsendur þess, að krafan sé sett fram á þann hátt, sem hér er gert. Þykir hún ekki hafa sýnt fram á, hverja lögvarða hagsmuni hún kunni að hafa af því að fá efnisdóm um þessa kröfu eina og sér. Sýnist þó mega draga þá ályktun af málatilbúnaði stefnanda, að niðurstaða í máli þessu gæti verið grundvöllur að sérstöku bótamáli á hendur málsaðilum. Má því líta svo á, að stefnandi sé hér að fara fram á dóm um málsástæðu til að nota í öðru máli. Er slíkt ekki heimilt samkvæmt lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991, og er ekki fallizt á, að krafa þessi falli 2. mgr. 25. gr. þeirra laga.

Samkvæmt framansögðu ber að vísa máli þessu í heild sinni frá dómi. Eftir þessum úrslitum ber að úrskurða stefnanda til að greiða hvorum stefndu um sig kr. 20.000 í málskostnað.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Málinu er vísað frá dómi.

 Stefnandi, Alice Ege Larsen, greiði stefndu, Lífeyrissjóði verzlunarmanna og Bygg­ingarsjóði ríkisins, hvorum um sig kr. 20.000 í málskostnað.