Hæstiréttur íslands
Mál nr. 289/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Hjördís Hákonardóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. apríl 2016 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. apríl 2016 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 19. apríl 2016 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að honum verði gert að sæta farbanni, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og að honum verði ekki gert að sæta einangrun meðan á því stendur.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. apríl 2016.
Héraðssaksóknari hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 19. apríl 2016 kl. 18:00. Þá er þess krafist að X verði látinn vera í einrúmi á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.
Krafan er reist á a – c liðum 1. mgr. 95. gr. og b lið 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008
Saksóknari telur að meint brot kunni að varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. einnig 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 37. sbr. 36. gr. laga um bókhald nr. 45/1987. Að auki kunna brotin að varða við XXVI. og XXVII. kafla almennra hegningarlaga, einkum 247. gr. og 264. gr. laganna.
Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess aðallega að henni verið hafnað en til vara að gæsluvarhaldi verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð með kröfunni segir að upphaf málsins megi rekja til vísunar skattrannsóknarstjóra ríkisins, dagsett 19. nóvember 2015, á málum A ehf., kt. [...], B ehf., kt. [...], C ehf., kt. [...], D ehf., kt. [...] og E ehf., kt. [...].
Þá hafi embættinu einnig borist tilkynning frá skiptastjóra þrotabús D ehf., dags. 30. nóvember 2015, vegna gruns um refsiverða háttsemi í rekstri félagsins, er beinist að Y, meintum fjárdrætti og ráðstöfun fjármuna félagsins í einkaþágu, meintum brotum gegn lögum um bókhald og lögum um ársreikninga. Í tilkynningu skiptastjóra sé rakið að ekkert bókhald hafi verið fært í félaginu og engum ársreikningum verið skilað.
Á grundvelli 17. gr. laga nr. 64/2006 peningaþvættisskrifstofu embættis héraðssaksóknara borist tilkynningar um ætlað peningaþvætti. Málin hafi verið send héraðssaksóknara til viðeigandi meðferðar, sbr. 3. tl. 8. gr. reglugerðar nr. 626/2006 um meðhöndlun tilkynninga um ætlað peningaþvætti.
Grunur leiki á að forsvarsmenn A ehf. og B ehf. hafi verið að gjaldfæra rekstrarkostnað og telja fram innskatt á grundvelli tilhæfulausra sölureikninga frá félögunum C ehf., E ehf. og D ehf., í þeim tilgangi að lækka tekjuskattsstofn og virðisaukaskatt sinn. Félögin C ehf., E ehf. og D ehf. hafi ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum, virðisaukaskatti, staðgreiðsluskilagreinum eða staðgreiðslu opinberra gjalda, þrátt fyrir að umtalsverðar fjárhæðir hafi farið í gegnum félögin. Virðist þannig lítil sem engin starfsemi hafi verið í félögunum þremur. Leiki grunur á að þau hafi verið stofnuð í þeim tilgangi að gefa út tilhæfulausu sölureikninga sem A ehf. og B ehf. hafi síðan keypt, fært í bókhald og talið fram innskatt samkvæmt innsendum virðisaukaskattsskýrslum.
Grunur sé um að A ehf. og B ehf. hafi fengið hluta eða allar greiðslurnar endurgreiddar, en þær hafi verið teknar út í reiðufé um leið og þær bárust inn á bankareikninga E ehf. og D ehf. C ehf. hafi ekki átt bankareikning og hafi rannsókn á bókhaldi og bankareikningum A ehf. og B ehf. vakið grun um að lítill hluti af greiðslum vegna útgefinna reikninga C ehf. hafi skilað sér til félagsins eða forsvarsmanna þess, eins og nánar er rakið hér á eftir.
Við rannsókn málsins hafi einnig vaknað grunur um að félögin F ehf. og G ehf. tengist brotastarfseminni. Samkvæmt upplýsingum úr fyrirtækjaskrá sé félagið F ehf. í eigu [...], sem jafnframt sé framkvæmdastjóri og stjórnarmaður félagsins með prókúru. [...] sé samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra stjórnarmaður G ehf. með prókúru en auk hans hafi Y bankaprókúru á reikninga félagsins. Rannsókn málsins hafi leitt í ljós að G ehf. hafi þegið umtalsverðar fjárhæðir frá A ehf. og B ehf., þrátt fyrir að ekki verði séð að raunveruleg starfsemi sé í félaginu. Þá sýni bankareikningur G ehf. að Y taki innborganir frá A ehf. og B ehf. nær umsvifalaust út af bankareikningi félagsins í reiðufé. Rannsókn málsins hafi leitt í ljós að F ehf. hafi fengið greiddar umtalsverðar fjárhæðir frá A ehf., en samkvæmt stofngögnum þess sé tilgangur félagsins starfsmannaleiga. Grunur sé um að forsvarsmenn A ehf. séu raunverulegir stjórnendur félagsins og að félagið sé notað til að gefa út tilhæfulausa reikninga á A ehf. Sýni bankareikningar F ehf. að innborganir frá A ehf. séu teknar nær jafnóðum út í reiðufé, líkt og í hinum félögunum sem rannsóknin beinist að.
Félagið D ehf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota [...]. júlí 2015 og voru C ehf. úrskurðaðar gjaldþrota [...].03.2016. Þá hafi ríkisskattsstjóri afskráð virðisaukaskattsnúmer félaganna E ehf. og G ehf., með úrskurði á grundvelli 27. gr. A laga um virðisaukaskatt.
Rannsókn málsins beinist einkum að raunverulegum fyrirsvarsmönnum ofangreindra félaga. Y, kt. [...], fyrir hönd C ehf., E ehf., D ehf. og G ehf. og Z, kt. [...], fyrir hönd C ehf. og D ehf. X, kt. [...], Þ, kt. [...], og Æ, kt. [...] fyrir hönd A ehf. Ö, kt. [...], og [...], kt. [...], fyrir hönd B ehf. og [...], kt. [...], og [...], kt. [...] fyrir hönd F ehf.
Sambýliskona X er Þ og sé hún samkvæmt upplýsingum lögreglu einn af daglegum stjórnendum A ehf., þrátt fyrir að hennar sé ekki getið í opinberri skráningu félagsins. Dóttir Þ er [...] barnsmóðir og sambýliskona [...], annars eiganda B ehf. Samkvæmt gögnum úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra sé X annar eigandi A ehf. og hafi hann verið skráður sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður félagsins með prókúru frá stofnun þess og fram til 18. febrúar 2014. [...] hafi þá verið skráður sem varamaður í stjórn A ehf. með prókúru en tekið við sem skráður stjórnarmaður félagsins með prókúru 18. febrúar 2014. X sé með prókúru og bankaprókúru á bankareikninga A og sé handhafi útgefinna debetkorta á bankareikninga félagsins. X og [...] eigi einnig félögin H ehf. og I ehf. X sé skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður I ehf. með prókúru og sé [...] skráður sem varamaður í stjórn með prókúru. Í H ehf. sé [...] hins vegar skráður stjórnarmaður með prókúru og X sem varamaður í stjórn félagsins með prókúru.
Þá hafi X átt félagið D ehf. með Y, en félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta [...]. júlí 2015.
Frumrannsókn lögreglur hafi leitt í ljós að útborganir út af bankareikningi A ehf. inn á bankareikning X nemi samtals kr. 8.468.386 á árunum 2012-2016. Þá hafi umtalsverðar greiðslur runnið til sambýliskonu hans, Þ. Þá sé X einnig einn af þremur handhöfum útgefinna debetkorta á reikninga félagsins sem grunur leiki á að hafi verið notuð til einkaneyslu. Nemi sú fjárhæð á framangreindu tímabili kr. 24.494.646.
Við rannsókn á bókhaldi og bankareikningum A ehf. hafi vaknað grunur lögreglu um að forsvarsmenn og prókúruhafar félagsins hafi, á árunum 2012 og 2013, dregið til sín greiðslur sem merktar eru í bókhaldi A ehf. sem greiðslur vegna C ehf. Stærsti hluti þessara greiðslna hafi verið tekinn út í reiðufé, en einnig hafi verið um að ræða beinar greiðslur inn á bankareikninga og greiðslukort forsvarsmanna félagsins. Nemi þessar fjárhæðir samkvæmt frumrannsókn lögreglu samtals kr. 60.919.256. Þá hafi rannsóknin einnig leitt í ljós að sambærileg háttsemi virðist eiga sér stað í B ehf. á árunum 2013 og 2014 og nemi þessar fjárhæðir í tilviki B ehf. samtals kr. 19.575.500.
Eins og að ofangreinir þá virðist vera lítil sem engin starfsemi í félögunum D ehf. E ehf. og G ehf. þrátt fyrir að A ehf. og B ehf. greiði háar fjárhæðir til félaganna. Að mati lögreglu sé Y daglegur stjórnandi félaganna og sé hann með prókúru á bankareikninga þeirra. Lögregla hafi tekið saman yfirlit yfir þær greiðslur sem teknar hafi verið út af bankareikningum ofangreindra félaga, í kjölfar innborgana frá A ehf. og B ehf. Samkvæmt frumrannsókn lögreglu hafi Y tekið út samtals kr. 682.219.759 af bankareikningum D ehf., E ehf. og G ehf. með þessum hætti. Að auki hafi forsvarsmenn F ehf. tekið út af bankareikningum félagsins samtals kr. 23.831.571, og hafi stærsti hluti þess verið tekinn út í reiðufé. Nemi fjárhæðir sem teknar hafa verið út úr ofangreindum félögunum því samtals kr. 706.051.330.
Til rannsóknar séu ætluð brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. einnig 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga sbr. 37. sbr. 36. gr. laga um bókhald nr. 45/1987. Að auki kunna brotin að varða við XXVI. og XXVII. kafla almennra hegningarlaga, einkum 247. gr. um fjárdrátt og 264. gr. um peningaþvætti. Rannsóknin beinist að meintum refsiverðum brotum gegn ákvæðum fyrrnefndra laga sem varðað geta fangelsi allt að sex árum. Hér beinist grunur jafnframt að samverknaði einstaklinga og meintri skipulagðri brotastarfsemi þeirra, í starfsemi lögaðila, sem mjög ríkir hagsmunir krefjast að rannsakað verði og leitast verði við að upplýsa.
Á næstu dögum séu fyrirhugaðar skýrslutökur af hátt í annan tug einstaklinga, sem ýmist hafa stöðu sakbornings eða vitnis í þeim málum sem til rannsóknar eru. Talið sé nauðsynlegt að X sæti gæsluvarðhaldi þann tíma sem fyrirhugaðar yfirheyrslur standa yfir.
Með vísan til framangreinds er talið nauðsynlegt að X sæti gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins, þar sem ætla megi að gangi hann laus, þá muni hann torvelda rannsókn málsins með því að hafa áhrif á samseka og/eða vitni. Er það mat lögreglu að hann kunni að skjóta undan gögnum sem sönnunargildi hafa í málinu og hafa enn ekki verið haldlögð. Þykir þannig nauðsynlegt að vernda rannsóknarhagsmuni málsins með því að X sæti gæsluvarðhaldi og sömu rök talin standa til þess að hann verði látinn vera í einrúmi meðan á gæsluvarðhaldi stendur.
Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a - c liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og til b liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga hvað varðar kröfu um einangrun. Verði ekki fallist á kröfu um gæsluvarðhald er gerð krafa um að sakborningi verði bönnuð brottför af landinu, með vísan til 1. mgr. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Samkvæmt framansögðu og þeim rannsóknargögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn er ljóst að rannsókn málsins er umfangsmikil og um verulegar fjárhæðir er að ræða. Rökstuddur grunur er kominn fram um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Rannsókn málsins er á frumstigi og má ætla að kærði geti torveldað rannsókn málsins gangi hann laus. Að þessu virtu eru skilyrði a liðar 1. mgr. 95. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 uppfyllt í málinu. Er því fallist á að kærði sæti gæsluvarðhaldi á þann hátt sem í úrskurðarorði greinir.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 19. apríl nk. kl. 16:00.
Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.