Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-114
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Líkamstjón
- Umferðarslys
- Slysatrygging ökumanns
- Sönnun
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 21. apríl 2021 leitar Vörður tryggingar hf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 26. mars sama ár í málinu nr. 121/2020: Vörður tryggingar hf. gegn A, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um viðurkenningu á skyldu leyfisbeiðanda til greiðslu bóta úr lögbundinni slysatryggingu ökumanns bifhjóls vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í umferðarslysi. Aðila greinir á um hvort gagnaðili hafi verið undir áhrifum vímuefna og lyfja við aksturinn og þannig valdið slysinu með stórkostlegu gáleysi sem leiði til þess að bótaábyrgð leyfisbeiðanda falli niður í heild eða að hluta.
4. Héraðsdómur féllst á kröfu gagnaðila um viðurkenningu á bótaskyldu. Í dómi Landsréttar kom fram að leyfisbeiðandi bæri sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði væru til að lækka eða fella niður ábyrgð félagsins. Með matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, sem var aflað af lögreglu við rannsókn á ætluðu umferðarlagabroti gagnaðila og öðrum gögnum sem leyfisbeiðandi lagði fram fyrir héraðsdómi, hefðu ekki verið færðar viðhlítandi sönnur fyrir því að gagnaðili hefði, gegn þeirri sönnunarfærslu sem fór fram fyrir dómi af hans hálfu, verið undir áhrifum vímuefna eða lyfja þegar hann missti stjórn á bifhjólinu. Bréf sömu rannsóknarstofu 13. febrúar 2020 sem leyfisbeiðandi aflaði einhliða og lagði fyrir Landsrétt, var ekki talið geta hnekkt þeirri niðurstöðu. Héraðsdómur var því staðfestur.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi mikilvæga almenna þýðingu um gildi vátryggingarsamninga og hvenær heimilt sé að fella niður bætur eða lækka þær vegna eigin sakar vátryggðs. Með dómi Landsréttar sé vikið frá fordæmum Hæstaréttar um mat á gáleysi í umferðarslysum og sönnunarbyrði um eigin sök og því sé uppi óvissa um mat á því hvenær vátryggður teljist hafa sýnt af sér stórkostlegt gáleysi sem leiði til þess að hann skuli bera tjón sitt sjálfur í heild eða að hluta. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur hvað varðar niðurstöðu um sönnunarbyrði um eigin sök gagnaðila. Hæstiréttur hafi margsinnis staðfest að tjónþoli sem mælist undir áhrifum lyfja eða áfengis eftir umferðarslys beri sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu sinni að áfengis eða lyfja hafi verið neytt eftir slysið. Í því sambandi vísar leyfisbeiðandi til dóma Hæstaréttar 15. febrúar 2001 í málum nr. 360/2000 og nr. 357/2000, 19. júní 2003 í máli nr. 51/2003 og 12. október 1995 í máli nr. 209/1993. Málið hafi verulegt almennt gildi, ekki síst hvað varðar sönnunargildi gagna frá Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum.
6. Gagnaðili leggst gegn beiðninni. Hann kveður veigamiklar breytingar hafa verið gerðar á réttarstöðu tjónþola gagnvart vátryggingafélagi með gildistöku laga nr. 30/2004. Sönnunarbyrði um að vátryggður hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi, sem leiði til þess að bætur skerðist eða falli niður, hvíli ótvírætt á vátryggingafélagi. Vísar hann meðal annars til dóms Hæstaréttar 3. nóvember 2011 í máli nr. 689/2010. Hann mótmælir því að sérstök sjónarmið eigi við þegar ágreiningur snýr að því hvort tjónþoli hafi verið undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Þá séu málsatvik með öðrum hætti en í þeim dómum sem leyfisbeiðandi vísi til.
7. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi meðal annars um sönnun og sönnunarbyrði í málum af þessum toga, sbr. 3. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.