Hæstiréttur íslands
Mál nr. 334/2004
Lykilorð
- Börn
- Kynferðisbrot
- Fyrning
- Miskabætur
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 10. febrúar 2005. |
|
Nr. 334/2004. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn X (Guðmundur Ágústsson hdl.) |
Börn. Kynferðisbrot. Fyrning. Miskabætur. Sératkvæði.
X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn stúlkunni B á árunum 1990 til og með 1994, þá er hún var 9 til 13 ára gömul. Var X sýknaður af brotunum utan að talið var sannað að hann hefði áreitt B kynferðislega á árinu 1994. Brotið var hins vegar talið fyrnt þegar rannsókn hófst fyrir lögreglu á árinu 2003. Dómur var lagður á kröfu B um miskabætur þar sem X var eingöngu sýknaður vegna fyrningar. Var X gert að greiða B 800.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum og dráttarvöxtum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 26. júlí 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst sakfellingar samkvæmt ákæru, þó þannig að brot samkvæmt 1. lið hennar verði talin hafa átt sér stað einu sinni til tvisvar í viku [...] og fallið er frá þeirri verknaðarlýsingu að ákærði hafi í nokkur skipti brotið gegn B á heimili sínu. Þá er krafist staðfestingar héraðsdóms um greiðslu miskabóta til stúlkunnar.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfu brotaþola verði vísað frá dómi.
I.
Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar greinir er ákærði borinn sökum um kynferðisbrot gegn B á árunum 1990 til og með 1994 [...], þá er stúlkan var 9 til 13 ára gömul. Er ákæran í tveimur liðum. Í fyrri liðnum eru brot hans talin hafa falist í því að hafa oft í viku á árunum 1990 til 1994 tekið stúlkuna í fang sér og látið hana finna fyrir getnaðarlim sínum meðan hann hélt henni fastri, strauk henni um brjóst, maga og rass, og nuddaði getnaðarlimnum við rass og læri stúlkunnar. Brotin eiga oftast að hafa verið framin [...] en í nokkur skipti á heimili ákærða eða heimili stúlkunnar. Ákæruvaldið hefur lítillega breytt þessari lýsingu í greinargerð sinni til Hæstaréttar. Héraðsdómur sýknaði ákærða af þessum lið ákærunnar með þeim rökum að framburður stúlkunnar um efni hans hljóti ekki næga stoð í öðrum vitnaframburði. Tekið var fram að ákærði héldi því fram að stúlkan hafi sótt í fang hans og eins að láta hann klóra sér á bakinu. Fengi þetta stoð í framburði [...] og fleiri, sem að þessu hafi orðið vitni. Þessi vitni hafi aldrei tekið eftir neinu, sem þeim hafi þótt óeðlilegt.
Samkvæmt 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, endurmetur Hæstiréttur ekki niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar komi hlutaðeigandi vitni ekki þar fyrir dóm til skýrslugjafar. Í málinu nýtur ekki annarra sönnunargagna en munnlegs framburðar. Ekki eru efni til að kalla vitnin fyrir Hæstarétt til skýrslugjafar. Með vísun til forsenda héraðsdóms verður að staðfesta hann varðandi fyrri lið ákærunnar.
II.
Í síðari lið ákærunnar er ákærði sakaður um að hafa í apríl eða maí 1994, í sófa á heimili stúlkunnar, haft samræði við hana. Ágreiningslaust er í málinu að fljótlega eftir að kastast hafði í kekki milli ákærða og stúlkunnar í greint sinn hafi hún sagt móður sinni að ákærði hefði áreitt sig kynferðislega og var endir bundinn á samgang þeirra eftir það.
Ákærði neitar þessum áburði og heldur því fram að stúlkan hafi reiðst sér þar sem hann hafi neitað henni um að setjast í fang sér og klóra henni á bakinu. Honum hafi þótt beiðni hennar óþægileg, meðal annars vegna þess að þau voru tvö ein og hún að komast til þroska. Heldur hann því fram að móðir stúlkunnar hafi orðið tvísaga um hvað stúlkan sagði henni fljótlega eftir atburðinn. Hafi móðirin greint með öðrum hætti frá því fyrir héraðsdómi en hjá lögreglu. Héraðsdómur hafi byggt niðurstöðu sína um áreiðanleika framburðar stúlkunnar á framburði móður hennar fyrir dómi um að stúlkan hafi í lok aprílmánaðar 1994 sagt henni eða gefið í skyn að ákærði hafi átt við sig kynmök.
Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, verður Hæstiréttur að meta, hvort ákæruvaldinu hafi í heild tekist að færa fram nægilega sönnun um sök ákærða, sem ekki verði vefengd með nægilegum rökum, sbr. 45. og 46. gr. sömu laga. Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laganna skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi.
Fyrir héraðsdómi bar móðir stúlkunnar fyrst að hún hafi sagt að ákærði léti sig aldrei í friði. Hann væri að káfa á sér á ósæmilegan hátt. Móðirin hafi reiknað með því að um kynmök hafi verið að ræða. Þegar hins vegar var nánar gengið á hana um hvað stúlkan hefði sagt nákvæmlega hafði móðirin eftir henni að hann hefði káfað á henni innan klæða og verið með kynferðislega tilburði. Stúlkan hefur borið að hún hafi fljótlega eftir atburðinn sagt móður sinni að hún vildi ekki hafa ákærða nálægt sér en hafi ekki þorað að segja henni nákvæmlega hvað hefði gerst. Ákæran er reist á framburði stúlkunnar hjá lögreglu. Framburður hennar fyrir dómi er með svipuðum hætti og hefur héraðsdómur metið hann afar trúverðugan en framburð ákærða hins vegar ótrúverðugan. Í dóminum er rakið að framburður stúlkunnar um að ákærði hafi misboðið henni kynferðislega sé studdur framburði þó nokkurra vitna, sem hún hafi sagt frá atvikum samkvæmt þessum ákærulið. Þegar til alls þessa er litið og þess að ráðstafanir voru gerðar til að koma í veg fyrir samneyti ákærða við stúlkuna fljótlega eftir atburðinn, verður með vísun til forsendna héraðsdóms, sem skipaður var þremur dómurum, að fallast á það að fram sé komin sönnun fyrir því að ákærði hafi misnotað stúlkuna kynferðislega. Þótt framburður stúlkunnar sé út af fyrir sig trúverðugur, verður hins vegar ekki fallist á það með héraðsdómi að fram sé komin sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, fyrir því að ákærði hafi haft samræði við stúlkuna eða haft við hana önnur kynferðismök, sem falli undir 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, eins og hún er nú orðuð, sbr. 4. gr. laga nr. 40/2003. Um að svo hafi verið nýtur ekki annarra gagna en frásagnar hennar einnar. Þá liggur ekki skýrlega fyrir að hún hafi lýst atburðinum með þeim hætti fyrir vitnum fyrr en löngu síðar. Verður, þegar litið er til þess hvernig hún lýsti atvikum fyrir móður sinni og öðrum vitnum fljótlega eftir atburðinn, að meta það svo að ekki sé næg sönnun fyrir því að brot hans verði færð til annarrar háttsemi en um getur í 2. mgr. 202 gr. almennra hegningarlaga, áður 2. ml. 1. mgr. þeirrar greinar. Fyrningarfrestur brotsins telst í síðasta lagi frá 1. júní 1994. Rannsókn málsins hófst fyrir lögreglu 27. apríl 2003. Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga er fyrningarfrestur þessa brots 5 ár og var það því fyrnt þegar rannsókn þess hófst. Verður ákærði því sýknaður af kröfu ákæruvaldsins.
Ákæruvaldið hefur gert kröfu til miskabóta af hálfu stúlkunnar að kröfu hennar. Samkvæmt 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 þykir mega leggja dóm á þá kröfu þar sem ákærði er eingöngu sýknaður af refsikröfu vegna fyrningar. Ákærði hefur ekki mótmælt fjárhæð kröfunnar tölulega eða vöxtum af henni. Með vísun til forsendna héraðsdóms er rétt að hann verði staðfestur að því er miskabæturnar varðar.
Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði að undanskilinni þóknun til skipaðs réttargæslumanns stúlkunnar í héraði og fyrir Hæstarétti sem rétt er að greiðist af ákærða.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfu ákæruvaldsins.
Ákvæði héraðsdóms um miskabætur og réttargæslulaun svo og fjárhæð málsvarnarlauna skulu vera óröskuð.
Allur sakarkostnaður málsins að undanskildum réttargæslulaunum greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Guðmundar Ágústssonar héraðsdómslögmanns, 250.000 krónur. Ákærði greiði þóknun skipaðs réttargæslumanns bótakrefjanda fyrir Hæstarétti, Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, 70.000 krónur.
Sératkvæði
Garðars Gíslasonar og
Gunnlaugs Claessen
Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi gáfu mörg vitni skýrslu fyrir dóminum, sem var skipaður þremur héraðsdómurum. Hæstiréttur endurmetur ekki niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar komi vitnin ekki þar fyrir dóm til skýrslugjafar, en sönnun í þessu máli er fyrst og fremst reist á framburði vitna. Með vísan til forsendna héraðsdóms teljum við að staðfesta eigi hann um báða liði ákæru og um önnur atriði. Þá teljum við að dæma eigi ákærða til að greiða kostnað af áfrýjun málsins.
Dómur Héraðsdóms [...] 15. júlí 2004.
Mál þetta, sem var dómtekið 7. júní sl., höfðaði ríkissaksóknari hinn 29. mars sl. gegn X, f. [...], [...],
„fyrir kynferðisbrot gegn B á árunum 1990 til og með 1994, [...], þá er stúlkan var 9 til 13 ára gömul:
1. Með því að hafa oft í viku á árunum 1990 til og með 1994 tekið stúlkuna í fang sér og látið hana finna fyrir getnaðarlim sínum á meðan ákærði hélt henni fastri, strauk henni um brjóst, maga og rass, og nuddaði getnaðarlimnum við rass og læri stúlkunnar. Brotin framdi ákærði oftast [...], en í nokkur skipti á heimili sínu og á heimili B að [...].
2. Með því að hafa í apríl eða maí 1994, í stofusófa á heimili stúlkunnar, haft samræði við hana.
Brot ákærða teljast varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 4. gr. laga nr. 40/2003.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“
Í málinu gerir B kröfu um miskabætur úr hendi ákærða að fjárhæð 800.000 krónur, auk almennra vaxta frá 1. júní 1994 til 3. janúar 2004, en dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði krefst sýknu og að bótakröfu verði vísað frá dómi.
I.
Móðir B mun hafa rekið ofangreinda verslun frá árinu 1990 til 1995 og starfað þar allan þann tíma. Eiginkona ákærða vann í versluninni og mun ákærði hafa komið þar oft. B kveðst ekki muna hvenær það var fyrst sem ákærði hafi farið að bjóða henni að koma til sín að klóra sér og strjúka sér um bakið. Hún lýsir dæmigerðu tilviki þannig að hann hafi boðið henni að setjast í kjöltu sína og hún gert það. Hann hafi þá strokið henni utan sem innan klæða, niður á rass og fram á brjóst, þótt hún héldi höndum saman eins fast og hún gat. Hún hafi fundið fyrir hörðum getnaðarlim hans við rass og læri. Þetta hafi aðallega gerst í versluninni, en ákærði hafi einnig oft komið inn á heimili hennar og notað sér að foreldrar hennar voru ekki heima. Eitt sinn hafi þær I frænka hennar verið heima að horfa á sjónvarp. Hún hafi setið í stól og ákærði hafi kosið að lyfta henni og setjast undir hana, í stað þess að fá sér sæti annars staðar.
B kveðst alltaf hafa dofnað upp þegar þetta gerðist. Ákærði hafi gjarnan byrjað á að strjúka sér utan klæða og fært hendurnar inn fyrir föt. Hún hafi þá frosið. Hann hafi e.t.v. lagt hönd á öxl henni, en ekki haldið henni á annan hátt.
B segir að þegar þetta hafi gerst í versluninni hafi það verið í kaffistofu hennar. Eitt sinn hafi C vinkona hennar verið með henni og þær verið á leið í verslunina. Hún hafi þá sagt henni að sér þætti ákærði ógeðslegur og hún væri hrædd við hann. C hafi gengið með sér inn og þær farið að föndra inni í bakherbergi verslunarinnar. Ákærði hafi verið þarna og beðið hana að koma til sín. Hún hafi ekki þóst taka eftir því, en er hann hefði endurtekið beiðnina hefði hún ekki þorað annað en að fara til hans. C hafi þá beðið hana að koma með sér upp á loft, þótt hún hefði ekki áttað sig á því hvað væri að gerast.
B segir að þetta hafi einnig gerst á [vinnustað ákærða]. Hann hafi oft hringt og beðið móður hennar að láta hana sendast fyrir hann og hún hafi farið til hans og þá hafi hann leikið sama leikinn. Þetta hafi alltaf verið svipað, hún hafi sest í fang hans og hann káfað og stundum nuddað sér við upp við hana, þannig að hún hafi fundið fyrir hörðum lim hans. Hún kveðst ekki geta sagt til um hversu oft þetta hafi gerst, en það hafi verið mjög oft. Ef hún ætti að giska væri það einu sinni til tvisvar í viku sem hann hafi verið í versluninni.
B var spurð hvort hún hefði átt það til að setjast í fangið á fleirum og sagði að það hefði þá ekki verið nema faðir hennar. Spurð hvort hún hefði sest í fang D, mágs móður hennar, svaraði hún að það hefði hún örugglega gert, en ekki til að hann klóraði hana á bakinu eða snerti hana innan klæða.
B lýsir því að það hafi verið um vor, skömmu eftir að hún hafi verið lögð inn á sjúkrahús vegna kirtlatöku, að hún hafi verið ein heima að kvöldlagi og verið lasin. Hún hafi setið í sófa, klædd nærbol og nærbuxum og verið að horfa á sjónvarp. Ákærði hafi komið inn. Hún kveðst muna hve heitt hún hafi óskað þess að það væri móðir hennar sem væri að koma. Hann hafi sest við hlið hennar og hún hafi hugsað: „oh, nú byrjar þetta aftur.“ Hann hafi byrjað að koma við hana og lagt hana á hliðina, losað um belti sitt og girt niður um sig. Hann hafi fært buxur hennar til og síðan hagrætt henni þannig að hún hafi legið á maganum, en hann hafi þó haldið henni uppi. Hún muni eftir miklum sársauka. Hún viti ekki hvort ákærði hafi haft samfarir við hana í leggöng eða endaþarm, en sér hafi blætt. Eftir þetta hafi hún haft blóðgúlp við endaþarm og verið með gyllinæð, sem þjái hana ennþá. Hún kveðst ekki gera sér grein fyrir því hvort ákærða hafi orðið sáðlát. Hún kveðst ekki hafa getað áttað sig á því 12 ára gömul hvað var verið að gera við hana. Þegar hún hafi gefið skýrslu fyrir lögreglu hafi hún verið búin að eyða áratug í að reyna að gleyma þessu og vera búin að rifja það upp með miklum sárindum.
Að þessu afstöðnu hafi hún sagst vilja fara til móður sinnar. Ákærði hafi klætt hana í föt og ekið henni niður í bæ. B kveðst muna að hafa horft á móður sína gegnum glugga og hafa vitað að hún hugsaði um hvað barnið væri að gera úti svona seint. Hún kveðst ekki muna frekar eftir því hvað gerðist þetta kvöld.
Skömmu eftir þetta hafi hún sagt móður sinni að hún vildi ekki hafa ákærða nálægt sér því að hann gæti ekki séð sig í friði. Hún hafi ekki þorað að segja móður sinni nánar hvað hefði gerst, því að hún hafi óttast að hún myndi ekki trúa sér.
B var spurð hvort ákærði hefði einhvern tíma sagt henni að hún mætti ekki segja frá einhverju sem fór þeim á milli. Hún nefndi tilvik sem hefði gerst á heimili ákærða, þegar hún hefði fylgt móður sinni í heimsókn þangað. Hún hafi þá verið í sjónvarpskrók að horfa á sjónvarp er ákærði hafi komið og þuklað á baki hennar, fyrst utan og svo innan klæða og spurt hvort henni þætti það ekki gott og síðan sagt eitthvað á þá leið, þótt hún muni ekki hvernig hann hafi orðað það, að hún mætti ekki segja móður sinni frá, eða að hún mætti ekki segja öðrum frá.
B kveðst hafa sagt vinkonu sinni E frá þessu þegar hún var þrettán ára gömul. Þegar hún hafi verið 15 ára gömul hafi hún sagt kærasta sínum, F, frá þessu. Hann hafi þá verið að strjúka henni um bakið og það hafi vakið upp hjá sér óþægilega tilfinningu. Hún hafi sagt honum að hætta og hann hlegið að því og hún hafi þá gengið frá. Hann hafi þá gengið á hana og hún þá sagt honum frá hvað gerst hefði.
Spurð um samskipti við eiginkonu ákærða eftir þetta sagði B að þau hefðu ekki verið mikil. Hún hefði beðið sig í gegnum móður hennar að kæra ákærða ekki. Þegar hún hafi verið 17-18 ára gömul hafi þær hist á balli. Segist B hafa sagt henni að hún væri svo góð kona að hún ætti ekki skilið að vera með svona barnaníðingi. Hún hafi farið að gráta og beðið hana að segja ekki svona um manninn sinn. Eftir það hafi hún ekki haft samskipti við hana.
B nefndi að eiginkona ákærða hafi gefið henni afmæliskort, blóm og hring á 13. afmælisdegi hennar [...] 1994. Telji hún það hljóta að vera að það hafi verið eftir að ákærði hafði samfarir við hana. Spurð hvort hún hafi verið búin að segja móður sinni frá því þá að hún vildi ekki hafa hann nálægt sér taldi hún svo vera, því hann hefði verið hættur að venja komur sínar í verslunina.
B kveðst hafa unnið í svokallaðri bæjarvinnu annað hvort sumarið áður eða eftir að hún var í 10. bekk. Hún hafi verið að hreinsa garð hjá [vinnustað ákærða]. Hann hafi stöðvað skammt frá henni, séð hana og horft á hana. Hún hafi orðið svo hrædd að hún hafi skriðið burtu, að bifreið og undir hana. Þar hafi flokksstjórinn komið að henni hágrátandi. Hún hafi óttast ákærða og að hann myndi á einhvern hátt vilja hefna sín á henni. Hún kveðst hafa sagt flokksstjóranum að ákærði hefði nauðgað henni og að sér fyndist hann vera að fylgjast með henni. Flokksstjórinn hafi farið með hana til H, sem þá var starfandi á skólaskrifstofu [...]. Hún hafi grátið allan tímann og sagt að sér hefði verið nauðgað, að ákærði hefði komið og horft á hana og að hún hefði verið svo hrædd að hún hefði ekki verið í ástandi til að ljúka vinnudeginum.
B kveðst hafa byrjað á blæðingum líklega í janúar eða febrúar árið 1994. Er hún hafi legið á sjúkrahúsi vegna kirtlatöku hafi ákærði og eiginkona hans komið þangað í heimsókn með blóm. Þá hafi ákærði óskað henni til hamingju með að vera orðin kona. Kveðst hún muna greinilega eftir þessu því að sér hafi fundist það óeðlilegt á einhvern hátt.
B kveðst hafa rætt við lögregluvarðstjóra [...] vorið 2002, eftir að hann hafði komist á snoðir um hugsanleg brot ákærða gegn henni gegnum frænku hennar sem þá hafi starfað í lögreglunni. Hún kveðst hafa flutt suður í ágúst sama ár og hugsað málið. Hún hafi sótt fund hjá Stígamótum og talað þar við konu og lýst fyrir henni hvernig sér væri búið að líða yfir að gera ekkert og gert sér grein fyrir að hún myndi sjá eftir því alla ævi ef hún léti standa við svo búið. Hún gaf sig fram við lögreglu 27. apríl 2003 og gaf skýrslu um þá háttsemi sem ákærða er gefin að sök í ákærunni.
II.
Ákærði kveður samskipti sín við B einkum hafa verið í versluninni, þar sem oft hafi verið mikill umgangur. B hafi virst þurfa athygli og virst sækja í alla og viljað sitja í fangi fólks og láta klóra sér á bakinu. Kveðst hann hafa leyft henni að sitja í fangi sínu og klórað henni bæði innan og utan fata. Hann kveðst ekki kannast við að hafa komið heim til hennar nema í tengslum við matarboð og þess háttar og kannast ekki við að hafa komið heim til hennar þegar hún var ein heima með I frænku sinni.
Ákærði segist muna eftir því þegar hann hitti B síðast heima hjá henni. Eins og hann muni það best hafi það atvikast þannig að þau J kona hans hafi farið með M, móður B, heim í mat, en konurnar hafi að því búnu farið aftur að vinna í versluninni. Er þær hafi verið farnar hafi B viljað að hann klóraði sér á bakinu og það hafi hann gert skamma stund og telur líklegt að hann hafi þá setið með hana í fanginu. Sér hafi þótt þetta óþægilegt og óþægilegra en í fjölmenni eins og hafi verið í versluninni. Hafi hann viljað taka fyrir þetta og sagt B það. Hún hafi verið farin að eldast, ekki verið hans barn og ekki skyld honum. B hafi brugðist illa við þessu og grátið töluvert. Hún hafi þegið boð hans um að aka henni niður í verslunina. Þar hafi þau hitt M og J, sem hafi verið að leggja af stað heimleiðis. Hann hafi síðan farið heim með konu sinni og sagt henni um kvöldið hvað þeim B hefði farið á milli. Eftir þetta hafi hann hitt B a.m.k. tvisvar í versluninni og hún þá enn sótt í að hann klóraði henni á bakinu, en hann hafi haldið henni frá.
Ákærði var spurður hvort hann hefði einhvern tíma verið einn með B í bakherbergi verslunarinnar. Taldi hann það ekki geta hafa verið meira en í einhverjar sekúndur eða mínútur og tók fram að þarna hefði verið stöðugur umgangur.
Ákærði segir að sakargiftir B hafi aldrei verið ræddar við hann að öðru leyti en því að kona hans hafi sagt honum eftir móður hennar að hún hefði borið hann sökum um að hann hefði verið að þukla á henni og verið með ósæmilegt orðbragð. Hann hefði ekki viljað sitja undir þessu, en ekki fengið að gert. Hann hefði fengið ásakanir framan í sig frá fólki úti í bæ, mest unglingum, en einnig fullorðnu fólki. Bifreið hans hefði verið skemmd, hrópað á hann og honum neitað um afgreiðslu í fyrirtækjum.
Ákærði kveður útilokað að hann hafi heimsótt B á sjúkrahús, því að hann sé haldinn mikilli sjúkrahúsfælni og fari ekki inn á sjúkrahús nema algerlega tilneyddur. Þá kveðst hann ekki muna eftir að hafa vitað að B væri farin að hafa blæðingar.
Ákærði kveðst hafa verið afar feitlaginn á þeim árum sem ákæran tekur til og verið um 135-137 kg á þyngd. Hann hafi ekki lést fyrr en síðustu þrjú ár og sé nú um 37 kg. léttari. Sér hafi ekki risið hold er hann sat undir B og auk þess sé útilokað að hún hefði getað fundið það sitjandi á hnjám hans, vegna ístrunnar. Þá hafi hann átt við bakvandamál að stríða og hefði verið ómögulegt að hafa samfarir í þeirri stöðu sem B lýsi.
III.
Eiginkona ákærða, J, kveðst hafa farið að vinna í versluninni eftir að hún flutti til [...] árið 1990. Hún hafi myndað vináttubönd við M móður B og upp úr því hafi skapast vinatengsl milli þeirra ákærða við foreldra B. Ákærði hafi komið af og til í verslunina og oftar eftir að hann hætti í vinnu hjá öðrum og fór að starfa á eigin vegum, þ.e. 1992-1993. Hann hafi komið þarna vegna kunningsskapar, til að drekka kaffi og spjalla. Snemma hafi orðið hlýtt milli hans og B sem hafi verið ástríkt barn, sóst eftir hlýju og viljað vera í fangi fólks. Hún hafi viljað sitja hjá ákærða, sem hún hafi kallað besta vin sinn. Hún hafi oft beðið bæði sig og ákærða að sér væri klórað á bakinu, hún kitluð á hálsi og rótað í hári hennar. Hún hafi einnig sótt í fang föður síns og móður sinnar og fleiri.
J kveðst minnast þess að þær M hafi verið að vinna í versluninni og að B hafi verið hjá þeim. Ákærði hafi komið þarna og þar sem B hafi verið orðin leið að bíða eftir móður sinni hafi orðið úr að hann færi með hana heim. Þegar þær M hafi verið að fara og komnar út í bíl hafi þær mætt ákærða og B. Þau ákærði hafi síðan farið heim. J kveðst ekki geta tímasett þetta atvik, en segir að sér finnist að það hafi verið veturinn 1994, e.t.v. í mars. Er þau komu heim hafi ákærði sagt henni að kastast hefði í kekki milli þeirra B, þegar hann hefði sagt henni að hún væri orðin of stór til að vera í einhverju keleríi við fullorðinn mann. Það hafi ekki verið löngu eftir þetta sem M hafi sagt henni að B hefði borið eitthvað á ákærða. J kvaðst nota orðið kelerí hér um það að klóra henni á bakinu og láta hana sitja í fangi sér.
J segir að það hafi verið eftir lokun verslunarinnar eitt kvöld í lok apríl 1994 sem M hafi sagt sér að B segðist hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni frá ákærða. Sér hafi brugðið mikið við þetta, grátið og verið niðurbrotin. M hafi haft eftir B að ákærði hefði káfað á henni innan klæða, snert á henni brjóstin og talað við hana um kynlíf. Þær hafi ekki rætt þetta meira um kvöldið. Hún hafi skýrt ákærða frá þessu sama kvöld og hann hafi neitað þessu alveg. Hann hafi ekki komið í verslunina framar, enda hafi hún skilið að M vildi það ekki.
J segist hafa rætt það við M síðar hvort kært yrði, en skilist að það yrði ekki gert.
J kveðst minnast þess að M hafi sagt henni þegar B fékk fyrst blæðingar. Sér hafi þótt eftirtektarvert að B gerði mikið úr því og hringdi meðal annars í föður sinn út á sjó til að segja honum tíðindin. Sér hafi þótt þetta breytt viðhorf frá því hún var sjálf í æsku og því sé þetta minnisstætt. Hún kveðst ekki muna hvenær þetta var og ekki muna hvort hún nefndi þetta við ákærða. Hún kveðst muna eftir því þegar B fór í kirtlatöku og hafa séð í dagbók að þann dag hefði hún unnið fyrir hádegi í versluninni vegna þess að M tók sér frí. Hún kveðst ekki muna hvort hún heimsótti B á sjúkrahúsið og útilokað sé að ákærði hafi gert það, því hann sé haldinn mikilli sjúkrahúsfælni.
J staðfesti að ákærði hafi verið feitlaginn og taldi að hann hefði þyngstur verið um 125-130 kg. Hann hafi haft það mikla ístru að útilokað sé að barn í fangi hans hefði getað fundið fyrir hörðum lim. Vegna bakveiki hefði ákærða verið útilokað að hafa samfarir við B í lágum stofusófa í þeirri stöðu sem hún lýsi. Aðspurð kvaðst hún aldrei hafa orðið vör við barnhneigð hjá ákærða, sem hún segir einkum hrífast af feitlögnum konum.
Vitnið M segir að ákærði hafi oft komið í verslunina á því tímabili sem ákæran greinir, en hún hafi aldrei orðið vör við óeðlileg samskipti hans við B. B hafi alltaf verið „keligrís“ og ákærði hafi verið almennilegur við hana. Hún kveðst ekki geta munað beint að hún hafi sótt í fangið á fólki, en það geti vel verið að hún hafi verið að biðja fólk að klóra sér á bakinu, þótt hún muni ekki eftir því. Ákærði hafi haldið svolítið upp á B og hún hafi ekki séð neitt óeðlilegt við það á þeim tíma.
M kveðst minnast þess að ákærði hafi eitt kvöld, er þær J voru að vinna, spurt hvort hann mætti fara heim til hennar að horfa á Stöð 2 og hún leyft honum það. Ef þetta hafi verið sama kvöldið, hafi þær J síðan séð þau ákærða og B á [...] og elt þau uppi. Þær hafi báðar verið svolítið hissa að sjá þau [...] þarna. B hljóti síðan að hafa skipt um bíl og farið með sér heim, en þetta hafi ekki gripið sig mikið. Spurð hvort eitthvað í fari B hefði vakið athygli hennar neitaði hún því, en tók fram að hún hefði unnið afar mikið og alltaf verið dauðþreytt.
M segir að þær B hafi setið í versluninni, líklega á sunnudegi og þá hafi hún sagt sér frá háttsemi ákærða. B hafi haft á tilfinningunni að hún myndi ekki trúa sér. Líklega hafi hún þá verið orðin 13 ára gömul. Hún hafi sagt að ákærði léti sig aldrei í friði og væri að káfa á sér og þetta væri eitthvað ósæmilegt. Síðan hafi komið grátur og gnístran tanna, hún hafi spurt B hvort þetta hefði farið lengra og hún hafi sagt já, hvort hann hefði farið alla leið og hún hafi sagt já. Hún hafi reiknað fastlega með að um kynmök hefði verið að ræða. M segir að þetta hljóti að hafa verið árið 1994 því að fljótlega eftir þetta og af þessu tilefni hafi hún ákveðið að selja verslunina og flytja úr landi. Það hafi tekið um eitt ár að koma því í framkvæmd. Hún hafi rætt ásakanir B við J nokkrum dögum seinna og kveðst hafa sagt henni allt sem B sagði. J hafi grátið og þær setið og spjallað. M kveðst ekki hafa efast um að J tryði þessu. Hún hafi spurt hvort ætlunin væri að kæra og þá hafi hún verið búin að tala við B sem hafi ekki viljað það. J hafi beðið sig að kæra ekki og sagt „ég skal passa hann.“ J hafi unnið hjá sér fram á síðasta dag og hjálpað sér og stutt sig mikið.
M kveðst ekki muna hvort hún sagði J frá því er B fékk fyrst blæðingar, en kveðst muna vel er hún fór í kirtlatöku og þau ákærði og J hafi bæði komið að heimsækja hana og nefndi að sér hefði þótt það fallegt af þeim og sér hlýnað um hjartarætur.
Vitnið U, faðir B, kveður móður hennar hafa sagt sér frá frásögn hennar. Hann kveðst hafa einhvern veginn náð að þurrka þetta úr minni sínu, en eins og hann muni best hafi sér verið sagt að ákærði hefði verið með einhverjar þreifingar við B í stofu á heimili hennar og í bíl ákærða. Spurður hvort talað hafi verið um kynmök sagðist hann vera nokkuð viss um að svo hafi ekki verið. Eitthvað hafi verið rætt um að kæra, en það hafi þó ekki verið gert, en hann muni ekki hvort afstaða B réði þar einhverju. Hann kvaðst muna að B hafi oft hlaupið í fangið á honum og þau klórað hvort öðru á bakinu, en hann vissi ekki til að hún hafi verið að hlaupa í fangið á fleirum.
Vitnið X, móðursystir B, kveðst hafa unnið í versluninni um sumur og í jólaleyfum. Hún man eftir ákærða sem tíðum gesti þar og vináttu sem þeim hafi fundist vera með þeim B. Þannig muni hún eftir einu skipti er hann bauðst til að heimsækja hana þegar hún var ein heima. B hafi komið töluvert mikið í búðina, hún hafi verið hlýlegt barn og mikið fyrir að fara í fang fólks. Hún kveðst muna að hún hafi sest hjá ákærða og hallað sér að honum en ekki sérstaklega eftir því að hann hafi verið að klóra henni á bakinu. Hún kveðst muna að M hafi sagt sér frá frásögn B, en ekki hvenær það var. M hafi nefnt að J hefði trúað frásögn B er hún skýrði henni frá henni.
Vitnið R, móðursystir B, kveðst hafa unnið í versluninni um helgar og þegar mikið var að gera. Hún segir að B hafi verið kelin, bæði við konur og karla, en ekki muna eftir að hún hafi sest í fangið á öðrum körlum en föður sínum. Hún segir B hafa rætt reynslu sína við sig eftir að hún var orðin um 13-14 ára og þá sagt að hún hefði orðið fyrir alls konar þreifingum. Henni hefði liðið illa og ekki lýst þessu beinlínis og hún ekki gengið á hana, en þetta hefði ekki verið á þeim nótum að um samfarir hefði verið að ræða.
Vitnið D, eiginmaður R, kveðst oft hafa komið í verslunina. Hann segir að B hafi verið kelinn krakki og oft sest hjá honum og í fangið á honum. Það geti verið að hún hafi viljað láta klóra sér þótt hann muni það svo sem ekki. Hún hafi síðan hætt þessu, en hann muni ekki beinlínis hvenær, þótt hann telji að hún hafi þroskast upp úr því. Ákærði hafi komið í verslunina, svona álíka og hann og samskipti B og ákærða verið hliðstæð, hún hafi farið í fangið á honum, en hann hafi aldrei séð neitt sem sér hafi þótt óeðlilegt og aldrei séð hana vansæla í fangi fólks.
Vitnið T kveðst hafa unnið í versluninni fyrst árið 1990 og síðan í tvö ár frá árinu 1991. Ákærði hafi oft komið þangað. Hún muni að B hafi virst í uppáhaldi hjá honum en hún muni ekki eftir neinum samskiptum þeirra sem sér hafi þótt vera óeðlileg. B hafi sagt sér frá því í vetur sem leið að ákærði hefði haft samfarir við hana. Móðir hennar hefði sagt sér löngu fyrr, þó eftir að verslunin hætti, að ákærði hefði misboðið B kynferðislega, en hún muni ekki að hún hafi lýst því nánar.
Vitnið I, frænka B, segir að þær hafi verið vinkonur í gegnum tíðina og leikið sér mikið saman. Þær hafi verið með annan fótinn í versluninni hjá móður B. Ákærði hafi verið þar mikið og alltaf verið að biðja B að setjast hjá sér og fá hana í fangið. Hún hafi ekki verið brosandi yfir því en alltaf hlýtt. Hún hafi ekki séð neitt meira gerast en það. Hún kveðst muna að þær B hafi eitt sinn verið heima hjá henni að horfa á sjónvarp. Ákærði hafi þá komið þangað og sest hjá B og talað við hana, strokið um hár hennar og bak undir fötum, en látið eins og hann tæki ekki eftir því að I væri þarna. B hafi setið stjörf uns ákærði stóð upp og fór. Eftir þetta hafi B farið að læsa ef þær voru einar heima hjá henni. Eitt sinn hafi þær verið þar og heyrt einhvern koma og þá flúið inn í kompu að beiðni B. I kveðst hafa gægst fram og séð að ákærði var fyrir utan. I, sem er fædd árið 1980, segir að þetta hafi líklega gerst áður en hún flutti til [...] í nóvember eða desember árið 1991.
I segir að B hafi sagt sér árið 2001 að ákærði hefði nauðgað henni þegar hún var veik heima 11 ára gömul. Hún kveðst ekki muna nánari lýsingu hennar, en rámi í að það hafi verið inni á baðherbergi. Sumarið 2002 hafi hún verið að vinna sem lögreglumaður í afleysingum er ákærði hafi gengið inn á lögreglustöðina. Sér hafi brugðið og það hafi ekki farið fram hjá neinum. Varðstjóri hafi síðan gengið á hana um skýringu og hún þá sagt frá sögu B. Varðstjórinn hafi beðið hana að segja B að hann væri til staðar ef hún vildi ræða þetta við hann, sem B hafi gert skömmu síðar.
Vitnið C, [...] kveðst hafa verið vinkona B frá barnæsku. Hún hafi oft komið í verslunina með B og móðir hennar hafi unnið þar. Ákærði hafi stundum verið þar. Hún kveðst ekki muna eftir neinum sérstökum samskiptum þeirra B, fyrir utan eitt skipti að hún hafi komið til sín og sagst vera orðin svolítið smeyk og beðið sig að hjálpa sér. Hún hafi spurt B um ástæðu og hún sagst bara vera hrædd við ákærða. Þær hafi farið í verslunina og sest inn í bakherbergið. Ákærði hafi verið þar og beðið B að setjast hjá sér. Hún hafi færst undan í fyrstu en síðan sest hjá honum. Hann hafi verið að nudda á henni bakið fyrir innan fötin og farið með hendurnar eitthvað fram á brjóstið. Hún hafi séð hræðslusvip á B og beðið hana að koma. Þær hafi síðan farið upp á loft yfir versluninni og verið þar í tvo til þrjá tíma. Eftir þetta hafi þær reynt að vera sem minnst þarna niðri.
Aðspurð kveðst C eitt sinn hafa komið með B heim til ákærða, en séð til þeirra allan tímann og ekki muna eftir neinu athugaverðu þá. Hún hafi heyrt um meint brot ákærða frá frænku B fyrir einu og hálfu ári og spurt hana um þau. Hafi hún þá lýst því að hann hafi nauðgað henni í sófa heima hjá henni.
Vitnið Z, sem er ári eldri en B, kveðst hafa verið í barnaskóla með B frá 10 ára aldri, en þær hafi farið að þekkjast vel þegar þær voru um 13-15 ára gamlar. Hún kveðst muna eftir atviki þegar þær voru í 10. bekk og höfðu farið út til að reykja, er J gekk hjá. B hafi þá sagt sem svo að hún hefði eyðilagt líf þessarar konu, en þær hafi ekki rætt þetta nánar þá.
Þegar B hafi verið að hugsa um að kæra hafi hún haft samband og spurt hvort hún hefði orðið fyrir svipuðu. Þær hefðu rætt þetta og haft svipaða sögu að segja hvor annarri. Spurð hvort ákærði hefði áreitt hana sjálfa sagði hún að hann hefði gert það með káfi og kossum þegar hún var í kringum fermingu.
Vitnið E, [...], kveðst hafa kynnst henni fyrst að ráði þegar þær voru 9-10 ára gamlar og verið vinkonur í einhver ár. B hafi sagt sér þegar þær voru 11 eða 12 ára að hún hefði orðið fyrir einhverju kynferðislegu af hálfu fullorðins manns. B hafi liðið mjög illa er hún sagði frá þessu. E kveðst ekki hafa áttað sig á því hvers eðlis brot gegn B hefðu verið og ekki muna hvað hún sagði orðrétt eða hvert innihald frásagnarinnar var að öðru leyti. Hún kveðst muna að B hafi liðið illa. Hún kveðst ekki hafa vitað hver maðurinn var.
Vitnið K kveðst hafa verið vinkona B þegar þær voru um 12 ára gamlar og þær hafi umgengist hvor aðra mikið í um eitt ár. Hún kveðst ekki muna vel eftir frásögn B, en þær hafi verið heima hjá henni þegar hún hafi sagt sér að maður hefði komið heim til hennar þegar hún var veik og að hún hefði verið ein heima. Sig minni að hún hafi lýst því að hann hafi þá þuklað eitthvað á henni og eitthvað talað við hana í annað sinn þegar þau voru saman í bíl, um hve hún væri vel þroskuð og með stór brjóst. Sig minni að þær hafi verið 12 ára er B hafi sagt sér frá þessu. Þær hafi rætt þetta einhvern tíma seinna og þá einnig reynslu sem K hefði orðið fyrir, en mjög lítið þó og talað um að vinna eitthvert fræðsluefni í skólanum um svona og eitthvað orðað það við skólastjórann.
L segir að sig minni að B hafi sagt að hún hefði engum sagt frá þessu. Í kjölfarið hefði B síðan sagt móður sinni frá þessu. Nánar spurð um í hverju áreitni mannsins hefði verið fólgin samkvæmt frásögn B endurtók L að það hefði verið eitthvert þukl, sem hefði e.t.v. gengið lengra ef einhver hefði ekki komið heim.
Vitnið Y, fædd árið 1980, kveðst hafa kynnst B árið 1997. Þær hafi verið vinkonur og verið mikið saman. Það hafi líklega verið árið 1997 sem þær hafi verið heima hjá Y, að B hafi verið langt niðri og farið að segja henni frá því að hún hefði verið heima hjá sér lasin, um 12 ára gömul og sér hefði verið nauðgað. Aðdragandinn hefði verið að hún hefði oft verið að sendast fyrir þann sem þetta gerði og hann hefði káfað eitthvað á henni. Hann hefði komið heim til B og farið að þukla á henni og síðan nauðgað henni. B hefði lýst því að hún hefði legið í sófa og maðurinn sest hjá henni og tekið hana yfir sig fyrst og þuklað á henni, en hún hefði ekki lýst stellingu þeirra er hann hefði nauðgað henni. B hefði ekki grátið er hún sagði frá þessu, en verið í eigin hugarheimi og verið mjög langt niðri. Hún hefði síðar bent sér á ákærða sem þennan mann.
Vitnið F, sem er ári yngri en B, kveðst hafa kynnst henni í 7.-8. bekk og þau hafi verið kærustupar þegar hann var 15-16 ára. Hún hafi sagt sér að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri áreitni frá ákærða, en ekki lýst því nánar svo hann muni og ekki hvað það hefði gengið langt.
Vitnið G kveðst hafa kynnst B í byrjun árs 1999 og þau verið kærustupar í tæp tvö ár. Hún hafi sagt honum að hún hefði orðið fyrir einhverju kynferðislegu frá ákærða, en aldrei lýst því nákvæmlega, en kona hans hafi verið að vinna í verslun með móður B og sig minni að hún hafi nefnt að hann hafi farið með hana á mótorhjól. Hann kvaðst muna að hún hefði notað orðið nauðgun. Hún hefði átt í erfiðleikum með kynlíf, verið uppstökk og grátgjörn. Þetta hefði gjarnan komið upp á yfirborðið ef hún var að skemmta sér. Ef hún hefði séð ákærða hefði hún komist í uppnám. G kveður þetta hafa gengið frá sambandi þeirra B á tímabili.
Vitnið S kveðst hafa verið flokksstjóri B árið 1997. Hafi þær verið að vinna í garði þar hjá sem nú er leigubílastöð þegar B hafi allt í einu hlaupið á brott og falið sig við einn bílinn og verið í hnipri, hrædd og nötrandi. Hún hafi sagt að ákærði, sem hún hafi nafngreint, hafi ekið framhjá og verið að horfa á hana og hún orðið afar hrædd. Hún hafi sagt sér að hann hefði misnotað hana fyrir einhverjum árum og móðir hennar hefði ekki trúað frásögn hennar um það. Hún hefði ekki farið nánar út í það í hverju misnotkunin hefði verið fólgin. S kveðst hafa fylgt B niður í grunnskóla og þaðan hefði verið farið með hana til að ræða við H félagsráðgjafa.
Vitnið H kveðst hafa unnið á þessum tíma hjá skólaskrifstofunni [...]. B hafi komið til hennar í viðtöl. H kveðst muna afar illa eftir því hvað hafi komið fram í þessum viðtölum, en hún hafi talað um mann sem H vissi hver var og líklega hvort hann hafi misboðið henni, snert hana eitthvað, en hversu langt það hafi gengið geti hún alls ekki munað. Þá kveðst hún ekki geta munað hvort hún gerði félagsmálastjóra aðvart. Sig minni að B hafi nefnt að hún hafi setið í kjöltu ákærða og eitthvert framhald verið, en hún muni ekki hversu langt hún hafi sagt það ganga, en lengra en að vera eðlilegt. H kveðst þó telja að hún muni yfirleitt eftir málum sem hafi tengst nauðgunum.
Fyrir liggur að við rannsókn málsins var leitað að minnispunktum H um efni viðtala hennar við B, en án árangurs.
Vitnið T, sem rekur [...] á [...], skýrir frá því að er B vann þar, líklega árið 2002, hafi hún komið að ákærða, sem beið afgreiðslu í efnalauginni. Hún hafi farið á bak við og fundið B þar sem hún hefði falið sig og verið skjálfandi af hræðslu. T kveðst hafa afgreitt ákærða og síðan rætt við B um þetta, sem hefði sagt að ákærði hefði beitt sig kynferðislegu ofbeldi. Þær hafi ekki rætt nánar hvers eðlis það var, en þó hefði komið fram að þetta hefði gerst heima hjá B þegar ákærði hafi verið þar með konu sinni í heimsókn og farið inn í herbergi til B og verið að snerta hana á viðkvæmum stöðum. Í framburði sínum fyrir lögreglu nefndi T að B hefði notað orðið nauðgun, en hún kvaðst ekki geta munað það með vissu er hún gaf skýrslu fyrir dómi.
IV.
Í málinu liggur frammi sálfræðileg greinargerð Marteins Steinars Jónssonar, sérfræðings í klínískri sálfræði, dagsett 17. maí sl., sem hann vann í þágu B að beiðni réttargæslumanns hennar. Marteinn Steinar kom fyrir dóminn og skýrði efni greinargerðarinnar. Greinargerðin er byggð á níu viðtölum við B og einnig hafði sálfræðingurinn kynnt sér skýrslu hennar fyrir lögreglu. Í greinargerðinni er rakið efni frásagnar B í viðtölunum af háttsemi ákærða, sem er í öllum meginatriðum í samræmi við skýrslu hennar fyrir lögreglu og fyrir dómi, en rétt er þó að taka fram að í greinargerðinni segir að B hafi sagt móður sinni frá nauðguninni og hún hafi trúað henni. Auk þess kemur þar fram frásögn hennar af því að hún hafi daginn eftir að ákærði hafði samfarir við hana farið í bað og þvegið sér vandlega með sápu og síðan alla tíð þjáðst af þrálátri sveppasýkingu.
Samkvæmt greiningu Marteins Steinars eru afleiðingar þeirrar háttsemi sem B segist hafa orðið fyrir af hálfu ákærða margvíslegar, langvarandi og allar alvarlegar. Hún finni til mikillar reiði og særinda, hafi þjáðst af lamandi kvíða og ótta sem fyrst og fremst tengist ótta við ákærða og hún segi að ótti við að lenda í návist hans hafi ætíð verið þrúgandi erfiður. Ótti hennar beinist einnig að karlmönnum og líði varla sá dagur að sumir karlmanna sem verði á vegi hennar veki upp hjá henni áleitin kvíðaviðbrögð og hún segi orðrétt að hún verði stundum upptekin af því hvort þeir séu að misnota aðrar litlar stelpur. Samkvæmt frásögn hennar hafi ákærði misnotað barnslegt trúnaðartraust hennar sem hafi grafið alvarlega undan getu hennar til að treysta karlmönnum. Með öðrum orðum sagt þjáist hún af djúpstæðum kvíða sem hún reki til háttsemi ákærða og hafi raskað getu hennar til að átta sig á hverjum megi treysta. Svo virðist sem geta hennar til að treysta því að karlmenn komi ekki til með að misnota sér varnarleysi hennar hafi beðið alvarlegan hnekk. Þá sé ótti B, sem hún reki til háttsemi ákærða fastur í líkamanum og ekki þurfi mikið skyn- eða líkamsáreiti til að vekja upp þessi líkamlegu streitueinkenni. Samkvæmt þessu komi ekki á óvart að hún lýsi því að hún hafi átt sérlega erfitt með að stunda kynlíf. Líkamleg kvíðaviðbrögð hafi hamlað getu hennar til að mynda og viðhalda samböndum við hitt kynið. Kvíðatengdar líkamsminningar hennar, hliðrunarhegðun, ótti, vantraust og annað í þeim dúr hafi haft marktæk neikvæð áhrif á sjálfsmynd hennar og getu til að takast á við aðstæður.
B lýsi því að sem unglingur hafi hún verið fremur erfið. Hún segist hafa verið full af reiði og hrædd. Þetta hafi leitt til þess að hún hafi átt erfitt með samskipti við vini, kunningja og fjölskyldu og verið reið út í alla. Langvarandi kynferðisleg misnotkun á viðkvæmu tímaskeiði barnsáranna og við upphaf unglingsára geti ekki annað en raskað með alvarlegum hætti lífi þeirra sem fyrir því verða og B sé engin undantekning frá þeirri reglu. Ljóst sé að kynferðisleg misnotkun á þessu tímaskeiði hafi verulega raskað og unnið gegn eðlilegri þróun þroskaþátta á borð við mótun sjálfsmyndar og öryggiskenndar, kynímyndar, myndun traustra geð- og félagstengsla við aðra og töku skrefa í átt til meira sjálfstæðis, auk þess að skapa og viðhalda tilfinningum reiði, ótta, sektarkenndar og skammar. Verði ekki framhjá því litið að erfið hegðun B á unglingsárum hafi marktækt mótast og viðhaldist af þeirri erfiðu reynslu sem kynferðislega misnotkunin hafi markað hana. Þessi misnotkun sem hún saki ákærða um hafi valdið henni alvarlegum sálrænum meiðslum, sem komi meðal annars fram í líkamlegum ótta- og kvíðaviðbrögðum. Samanburður einkenna hennar við klasa einkenna sem sett séu fram í líkani Finkelhor og Browne af afleiðingum kynferðislegrar misnotkunar á börn og við viðmið um áfallastreituröskun gefi skýrt til kynna að kynferðisleg misnotkun hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir líf hennar og verið dragbítur allt frá því að atburðir gerðust á góða sjálfsmynd, tækifæri til félagstengsla, skólagöngu sem og getu til að mynda traust og örugg geðtengsl við aðra.
Marteinn Steinar segir B ætíð hafa komið stundvíslega í viðtöl. Tjáning hennar hafi verið skýr og samvinna eins og best verði á kosið. Hún virki rólynd og yfirveguð. Viðtöl við hana hafi ekki leitt neitt óvenjulegt í ljós hvað varði eðlileg veruleikatengsl, hugræna úrvinnslu, skynjun, tjáningu, tilfinningaviðbrögð og/eða látbragð. Þá segir hann í niðurstöðum sínum að tilfinningavandi hennar hafi haldist við frá því að hún varð fyrir þeirri misnotkun sem hún skýri frá og einkenni sem fram hafi komið séu nánast skólabókardæmi um afleiðingar kynferðislegrar misnotkunar á börn. Öll þessi ár hafi hún ekki fengið neina meðferð og einkennin fengið að festast í sessi og vinna gegn getu hennar til að höndla viðfangsefni lífsins. Líklegt sé að áframhaldandi langtímameðferð, sem gæti staðið í meira en ár, muni gera henni kleift að yfirstíga að miklu leyti þessar afleiðingar, en án meðferðar muni það ekki gerast og gæti leitt til enn djúpstæðari vandamála en þeirra sem séu nú til staðar.
V.
Í málinu hafa verið lagðar fram nokkrar ljósmyndir af ákærða sem munu hafa verið teknar á því tímabili sem ákæran greinir. Á þeim sést að ákærði hefur verið feitlaginn, en ekki verður ráðið af þeim að hann hafi haft svo mikla ístru að stúlka í fangi hans hafi ekki getað setið svo þétt upp við hann að hún gæti ekki fundið fyrir því ef getnaðarlimur hans harðnaði. Í málinu liggur frammi ljósrit af blaðsíðu úr bók sem B átti og ákærði ritaði í að hann væri 100 kg að þyngd. Ákærði skýrir það svo að þyngd sín hafi verið feimnismál og hann hafi ekki viljað upplýsa hver hún raunverulega væri. Vitni voru spurð um vaxtarlag hans á greindu tímabili. X sagði hann hafa verið þybbinn, en svipaðan og nú. R sagði að hún hefði ekki séð að offita væri að há honum og sama sagði M. Þegar þetta er allt virt þykir ekki verða byggt á framburði hans og eiginkonu hans um að vaxtarlag hans hafi verið með þeim hætti að framburður B geti ekki staðist af þeim sökum.
Ákærði ber að hann hafi átt við bakvandamál að stríða og hefur lagt fram gögn um röntgenmyndatökur vegna verkja í baki, frá árunum 1974 til 1986. Ekki verður af þessum gögnum ráðið án frekari útlistana hvort og þá að hve miklu leyti hreyfigeta hans kunni að hafa verið skert vegna bakverkja á þeim tíma sem ákæran greinir. Í framburði B kom fram að hún hefði ekki séð stellingu ákærða er hún segir hann hafa haft samfarir við sig, þar sem hún hefði snúið baki við honum. B tók fram að ákærði hefði haldið undir maga hennar og lyft henni upp. Má ætla að ákærði hefði miðað við það getað haldið bakinu í því sem næst lóðréttri stöðu. Þegar þetta er virt þykir ekki verða á því byggt að líkamlegt ástand ákærða hafi verið með þeim hætti að þegar af þeirri ástæðu beri að hafna framburði B sem röngum.
VI.
Liður 2 í ákæru er byggður á framburði B fyrir lögreglu og hér að framan er rakinn framburður hennar fyrir dómi um það tilvik, sem er samhljóða í öllum meginatriðum. Samkvæmt framburði ákærða voru þau tvö ein á heimili hennar að kvöldi til eitt sinn. Segir ákærði að það hafi verið skömmu áður en J eiginkona hans flutti honum þá frétt að B hefði borið hann sökum við móður sína. Ákærði telur að þetta hafi verið í mars, apríl eða maí 1994. Hann eigi afmæli [...] og M hafi komið í heimsókn þá. Hljóti þetta að hafa verið eftir það. J ber um tilvik þegar ákærði hafi farið með B heim til hennar og telur að það hafi verið veturinn 1994, eftir áramót, í mars eða þar um bil. Verður að telja að þau skýri frá sama tilvikinu, því að þau eru sammála um að síðar sama kvöld hafi ákærði sagt J að kastast hefði í kekki milli þeirra B. J kveðst telja að það hafi verið í lok aprílmánuðar sem M hafi sagt henni frá sakargiftum B. B kveður það vera skömmu eftir að hún fór í kirtlatöku sem ákærði hafi haft samfarir við hana. Fyrir liggur vottorð um að hún lá inni á [...] eftir hálskirtlatöku.
Ákærða og J ber ekki alveg saman um tildrög þess að hann var einn með B heima hjá henni meðan J og M luku vinnu í versluninni. Framburður B um það er enn á annan veg, en getur samrýnst framburði M um að ákærði hafi einhvern tíma fengið að fara heim til hennar að horfa á sjónvarp, þó hún muni ekki hvenær það var. Þetta misræmi þykir þó ekki skipta miklu máli, sérstaklega þegar til þess er litið hve langt leið frá atvikum uns skýrslur voru teknar. Verður á því byggt að hér sé um sama kvöldið að ræða, sem atvik gerðist sem ákærði og B skýra frá hvort á sinn veg og að það hafi að öllum líkindum verið í apríl 1994.
Samkvæmt lýsingu ákærða, sem eiginkona hans staðfestir að hann hafi greint sér frá þetta sama kvöld, vildi B í þetta sinn sem endranær setjast í fang hans og láta hann klóra sér á bakinu. Segir hann sér hafa þótt þetta óþægilegt, m.a. vegna þess að þau voru tvö ein og hún að komast til þroska. Hafi hann því neitað henni um þetta eftir að hafa látið það eftir henni í stutta stund. Þetta hafi komið B í uppnám, þannig að hún hafi brostið í grát og viljað fara til móður sinnar.
Skýring ákærða á því hvers vegna barnið komst í svo mikið uppnám er mjög ótrúverðug og nánast fjarstæðukennd.
Framburður B um að ákærði hafi haft við hana kynferðismök í þetta sinn er mjög eindreginn og er skýr um nokkur einstök atriði, þ.e. klæðnað hennar, hvernig stelling hennar var í sófanum, hvernig ákærði hagræddi henni og lyfti henni upp, færði til nærbuxur hennar og girti niður um sig. Þá lýsir hún miklum sársauka og að sér hafi blætt.
Samkvæmt framburði B, ákærða og J hittu ákærði og B M og J niðri í bæ þetta kvöld, þar sem þær voru að leggja af stað frá versluninni. M minnist tilviks sem hún getur ekki tímasett sérstaklega, þegar þær J voru að fara úr vinnu að kvöldi og sáu ákærða og B akandi niðri í bæ. M minnist einskis sérstaks í tengslum við það tilvik, svo sem að B hafi verið brugðið, en nefndi að þær hefðu orðið dálítið hissa að þau skyldu vera að rúnta þarna.
Vitnið K, sem er fædd í maí 1981, kveðst minnast þess óskýrt að B hafi sagt henni frá því þegar þær voru 12 ára gamlar að maður hefði komið heim til hennar þegar hún var lasin og hún hafi verið ein heima. Hana minnti að frásögn B hefði verið á þá leið að maðurinn hefði þuklað eitthvað á henni. K segir að sig minni að B hafi sagt að hún hefði engum sagt frá þessu, en í kjölfarið hafi hún greint móður sinni frá. Tímans vegna fær þetta staðist. Þótt K minnist ekki að B hafi greint frá öðru en þukli, er frásögn hennar til þess fallin að styrkja framburð B.
Samkvæmt framburði M sagði B henni frá því að ákærði léti hana ekki í friði og væri að káfa á sér. M ber eindregið að hún hafi spurt B hvort þetta hefði gengið lengra og alla leið og hún játað hvoru tveggja. B sagði fyrir dómi að hún hefði sagt móður sinni að hún vildi ekki hafa ákærða nálægt sér því að hann gæti ekki séð hana í friði, en ekki þorað að segja henni hvað hefði gerst því að hún myndi ekki trúa sér. Samkvæmt greinargerð Marteins Steinars Jónssonar sagði B honum að hún hefði sagt móður sinni frá nauðgun og að hún hefði trúað sér. Faðir B kveðst hafa útilokað þessi atvik úr minni sínu frá því að þau gerðust, en var nokkuð viss um að hann hefði skilið M þannig að kynmök hefðu ekki átt sér stað. Þótt hér muni nokkru, verður að líta til þess fyrst og fremst að M skildi frásögn dóttur sinnar á þann veg að hún reiknaði fastlega með því að kynmök hefðu átt sér stað, þótt það virðist ljóst að B hafi ekki lýst atvikum að því.
Lýsingar vitna um frásögn B síðar eru mismunandi um það hvernig atferli hún hafi skýrt frá. S ber að hún hafi sagt sér árið 1997 að ákærði hefði áreitt hana kynferðislega en ekki farið nánar út í það. G ber að hún hafi notað orðið nauðgun árið 1999 eða síðar, en aldrei lýst atvikum nákvæmlega. Vitnið Y ber að B hafi sagt sér árið 1997 að maður sem hún benti henni síðar á sem ákærða, hafi komið heim til hennar er hún var ein heima lasin um 12 ára gömul og nauðgað henni í stofusófanum. Vitnið E kveðst ekki muna lýsingu B þegar þær voru 11 til 12 ára gamlar, er hún sagði henni frá að brotið hefði verið gegn henni. Þá segir vitnið I að B hafi sagt sér árið 2001 að ákærði hafi nauðgað henni.
H félagsráðgjafi sem kveðst hafa rætt nokkrum sinnum við B um það leyti sem hún var í 10. bekk grunnskóla, minnist þess ekki að hún hafi lýst því að ákærði hafi haft við hana samfarir. H man mjög óljóst eftir viðtölum sínum við B og gögn um þau hafa ekki fundist. H minnist þess þó að fram hafi komið að ákærði hafi misboðið B með einhverjum hætti.
Hér að framan er rakinn framburður S og T um sterk hræðsluviðbrögð B er hún sá ákærða. Þessi viðbrögð verða vart skýrð með öðru en því að hún hafi orðið fyrir afar alvarlegri reynslu sem tengist honum.
Í framburði G kemur fram að B hafi sagt honum að ákærði hefði brotið gegn henni, en ekki lýst atvikum að því. Hann minntist þess að hún hefði notað orðið nauðgun í þessu sambandi. Þá gat hann þess að hún hefði komist í uppnám ef hún sá ákærða. Þá ber hann um að hún hafi átt í erfiðleikum með kynlíf. Fer þessi lýsing þriggja síðast töldu vitnanna saman við lýsingu á líkamlegum óttaviðbrögðum B, sem er rakin í niðurstöðum sálfræðilegrar greiningar Marteins Steinars Jónssonar.
Niðurstaða Marteins Steinars er að B sýni einkenni sem séu nánast skólabókardæmi um afleiðingar kynferðislegrar misnotkunar á börnum.
Samkvæmt framansögðu greindi B jafnöldru sinni K frá atvikinu að einhverju leyti eftir að það átti sér stað og móður sinni skömmu síðar, þannig að móðirin gaf sér að ákærði hefði haft mök við B. Þá vitna fleiri um að síðar hafi hún sagt þeim frá að ákærði hafi nauðgað henni. Sannað er að hún hefur orðið mjög hrædd við það að sjá ákærða tilsýndar og að hún gat ekki afgreitt hann í verslun eftir að hún var orðin fullorðin vegna ótta við hann. Sálfræðileg greining leiðir í ljós einkenni sem benda sterklega til að hún hafi orðið fyrir kynferðislegri misnotkun á barnsaldri. Þegar þetta er allt virt og litið til ótrúverðugs framburðar ákærða verður framburður B um að ákærði hafi haft samræði við hana metinn afar trúverðugur og lagður til grundvallar niðurstöðu. Verður ákærði samkvæmt því sakfelldur fyrir að hafa framið þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 2. tl. ákærunnar og varðar við þar til greint ákvæði almennra hegningarlaga.
VII.
Samkvæmt lýsingum starfsmanna í versluninni og rissuðum uppdrætti [...] voru húsakynni í versluninni þannig að gegnt aðalinngangi í hana voru hurðarlausar dyr, sem unnt var að draga tjald fyrir. Innan þeirra var rými þar sem var lager og vinnuaðstaða starfsmanna. Innst í því rými var borð og sæti í kringum það. Var þarna aðstaða starfsmanna og gesta til kaffidrykkju. Inn í þetta rými varð ekki séð frá afgreiðsluborði í versluninni sem var til hægri í henni þegar innar var komið frá aðalinnganginum, en þar inn af voru dyr að skrifstofu sem aftur opnaðist með öðrum dyrum til vinstri inn í vinnurýmið og kaffiaðstöðuna. B ber að inni í þessu síðastnefnda rými hafi ákærði margoft setið og tekið hana í fang sér og þuklað hana innan og utan klæða á baki, niður á rass og fram á brjóst og hún hafi fundið harðan lim hans nuddast við rass hennar og læri.
Af framburði vitna verður ráðið að gjarnan hafi verið umgangur í þessu rými, sem eðlilegt var. Þá bera vitni um að B hafi verið kelið barn og sóst eftir snertingu, þar á meðal að setjast í fang ákærða. Þá ber mágur M að hann hafi oft komið í verslunina og B viljað setjast hjá honum og í fang hans. Spurður hvort hún hefði viljað láta hann klóra sér á bakinu, sagði hann það vel geta verið. Ofangreind vitni og vitnið T, sem starfaði í versluninni um tíma kveðast ekki hafa tekið eftir neinu í samskiptum ákærða og B sem þeim þótti þá óeðlilegt.
Vitnið C ber að B hafi sagt sér að hún væri hrædd við ákærða og lýsir tilviki þar sem B hafi með tregðu sest í fang hans og hann strokið henni um bakið innan klæða og fram á brjóstið. Þá lýsir I því að ákærði hafi sest hjá B heima hjá henni og strokið henni um bakið innan klæða. Eru þetta einu tilvikin sem verða afmörkuð af þeim fjölmörgu sem ákærða eru gefin að sök í 1. tl. ákæru. Í skýrslu I kemur einnig fram að B hafi farið að læsa húsinu þegar þær voru einar heima hjá henni og að þær hafi falið sig eitt sinn þegar hann kom þangað. Framburður B fær nokkra stoð í þessu. Dómurinn telur þó varhugavert að meta lýsingu C og I svo að hún hljóði um kynferðislega áreitni ákærða. Til þess verður að líta að framburður ákærða um að B hafi sótt í að setjast í fang hans og láta hann m.a. klóra sér á bakinu fær stoð í framburði starfsmanna verslunarinnar og fleiri sem gengu um rýmið þar sem honum er gefið að sök að hafa framið brot í þessum tölulið ákærunnar að langmestu leyti. Þessi vitni kveðast aldrei hafa tekið eftir neinu sem þeim þótti óeðlilegt. Gegn neitun ákærða verður ekki talið sannað að hann hafi við þessar aðstæður haldið B fastri og látið hana finna fyrir getnaðarlim sínum við rass hennar og læri og strokið henni um brjóst, maga og rass eins og honum er gefið að sök í 1. tl. ákæru. Tilvik sem I ber um og gerðist á heimili B, fól samkvæmt lýsingu hennar aðeins í sér að hann hafi strokið henni um bak innan fata. Ber samkvæmt þessu að sýkna ákærða af sakargiftum í 1. tl. ákæru.
VIII.
Ákærði hefur ekki sætt refsingum. Með framangreindri háttsemi hefur hann gerst sekur um brot sem varðar allt að 12 ára fangelsi. Brotið er gróft og samkvæmt greinargerð sálfræðings hefur það haft miklar og alvarlegar afleiðingar fyrir þolanda þess og þarf langtíma meðferð til að von sé um að hún nái sér að fullu. Þá misnotaði ákærði vináttu og traust telpunnar og foreldra hennar. Ákærði hefur engar málsbætur. Refsing hans ákveðst fangelsi í tvö ár, sem engin efni eru til að skilorðsbinda.
B á rétt til miskabóta úr hendi ákærða samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með tilliti til þess hve brot hans hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir hana og að hún er talin þurfa langa meðferð til að eiga von um að úr þeim fáist bætt þykir krafa hennar ekki vera úr hófi fram og verður hún tekin til greina að fullu með vöxtum eins og krafist er.
Rétt er að fella 1/3 sakarkostnaðar á ríkissjóð, en á ákærða að öðru leyti. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðmundar Ágústssonar hdl. ákveðast 450.000 krónur og réttargæslulaun skipaðs réttargæslumanns B, Sifjar Konráðsdóttur, hrl., 200.000 krónur.
[...].
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í tvö ár.
Ákærði greiði sakarkostnað að 2/3, en ríkissjóður að 1/3. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Guðmundar Ágústssonar hdl., 450.000 krónur og réttargæslulaun Sifjar Konráðsdóttur hrl., 200.000 krónur, greiðist af ákærða og úr ríkissjóði í sama hlutfalli.
Ákærði greiði B 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. júní 1994 til 3. janúar 2004, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.