Hæstiréttur íslands

Mál nr. 138/2016

Brim hf. (Reimar Pétursson hrl.)
gegn
Landsbankanum hf. (Andri Árnason hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Sönnunarfærsla
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var tveimur beiðnum B hf. um dómkvaðningu matsmanns. Með matsgerðunum hugðist B hf. sýna fram á hvernig staðið hefði verið að efndum skuldbindinga samkvæmt lánssamningi sem félagið hafði gert við LÍ hf. Í málinu krafðist B hf. viðurkenningar á því að umrætt lán hefði verið í íslenskum krónum og gengistryggt með ólögmætum hætti. Hæstiréttur vísaði til þess að í dómaframkvæmd réttarins hefði því verið slegið föstu að lög stæðu ekki í vegi fyrir því að fjármálafyrirtæki veittu innlendum aðilum lán í erlendum gjaldmiðli, en á hinn bóginn væri óheimilt samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 að veita lán í íslenskum krónum með skilmála um gengistryggingu. Þegar leyst hafi verið úr því í einstökum tilvikum hvort um erlent lán hafi verið að ræða, hafi fyrst og fremst verið litið til forms og meginefnis samnings um það og þá einkum hvernig sjálf skuldbindingin væri tilgreind í lánssamningnum, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í máli nr. 551/2011. Væri skuldbindingin tilgreind með fjárhæð í erlendum gjaldmiðli hefði verið lagt til grundvallar að orðalag skuldbindingarinnar nægði eitt og sér til að ráða úrslitum og þyrfti þá hvorki að líta til þess hvernig ráðgert hefði verið í samningi að skyldur aðila skyldu efndar né hvernig efndir þeirra hefðu orðið í raun, sbr. m.a. dóm réttarins í máli nr. 187/2014. Þá hafi jafnframt verið gengið út frá því að ótvíræð tilgreining skuldar í erlendum gjaldmiðli í viðauka við lánssamning um skilmálabreytingu eða skuldskeytingu hefði ein út af fyrir sig nægt til að ráða niðurstöðu og skipti þá ekki máli hvernig staðið hefði verið að efndum hans, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 369/2014. Í umræddum lánssamningi voru skuldbindingarnar tilgreindar þannig að óljóst mátti vera hvort lánið hefði verið í erlendum gjaldmiðlum eða í íslenskum krónum með skilmála um gengistryggingu. Í viðauka sem gerður var við lánssamninginn var skuldin á hinn bóginn skýrlega tilgreind með fjárhæðum í erlendum gjaldmiðlum. Sönnun B hf. um hvernig í raun hefði verið staðið að efndum lánssamningsins gat því engu breytt við úrlausn málsins. Með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Hjördís Hákonardóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. febrúar 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 1. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2016, þar sem hafnað var tveimur beiðnum sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að umbeðnar dómkvaðningar fari fram. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt gögnum málsins gerði Útgerðarfélag Akureyringa hf. samning 30. maí 2004 við Landsbanka Íslands hf. um „fjölmyntalán til 15 ára að jafnvirði kr. 3.000.000.000 ... í neðanskráðum myntum og hlutföllum: USD 25% JPY 26% CHF 49%“, svo sem sagði í meginmáli samningsins, en á forsíðu var tiltekið að hann væri lánssamningur um „ISK 3.000.000.000,-“. Í framhaldi af tilgreiningu fjárhæðar lánsins í meginmáli samningsins sagði eftirfarandi: „Fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðast þó ekki fyrr en tveimur virkum bankadögum fyrir útborgunardag lánsins. Skuldin verður þá eftirleiðis tilgreind með fjárhæð þeirra erlendu mynta eða jafngildi þeirra í öðrum erlendum myntum. Greiði lántaki afborganir, vexti og dráttarvexti eða aðrar greiðslur í íslenskum krónum skal hann greiða samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.“ Skuld samkvæmt samningnum átti að greiða á fimmtán árum með 60 jöfnum afborgunum á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn 4. ágúst 2004. Skyldi hún bera svonefnda LIBOR vexti með 1,4% álagi og þeir greiðast á sömu gjalddögum og afborganir af höfuðstól. Í beiðni um útborgun lánsins, sem var dagsett 4. júní 2004, komu meðal annars fram fyrirmæli lántakans um greiðslu lánsfjárins „inn á viðkomandi gjaldeyris reikninga“ í eigu hans hjá lánveitandanum, sem jafnframt væri heimilt að skuldfæra sömu reikninga fyrir greiðslu afborgana og vaxta. Viðauki var gerður við samninginn 28. apríl 2006, þar sem sagði meðal annars: „Eftirstöðvar lánsins þann 06.02.2006 eru USD 9.341.531,56 JPY 1.067.885.927 CHF 22.610.134,10. Lán þetta ber að greiða með 53 ... jöfnum afborgunum á 3 ... mánaða fresti, næsti gjalddagi afborgana og vaxta verður 04.05.2006.“ Loks sagði svo í viðaukanum undir yfirskriftinni: „Skuldskeyting“: „Brim hf. ... yfirtekur hér með skyldur lántaka samkvæmt ofangreindum lánssamningi með undirskrift sinni.“

Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Í framhaldi af því tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun 9. sama mánaðar um ráðstöfun tiltekinna eigna og skuldbindinga félagsins til varnaraðila og er ekki ágreiningur um að réttindi samkvæmt framangreindum lánssamningi hafi á þann hátt komist í eigu hans. Eins og málið liggur fyrir Hæstarétti verður ekki annað séð en að lán samkvæmt samningnum hafi verið í skilum, bæði fyrir og eftir aðilaskiptin að honum, en eftir málatilbúnaði sóknaraðila greiðir hann enn afborganir og vexti af því.

Sóknaraðili höfðaði mál þetta gegn varnaraðila 22. júní 2015 og krefst þess að viðurkennt verði að lán samkvæmt samningnum frá 30. maí 2004 sé „bundið ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. sbr. 13. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.“ Varnaraðili krefst sýknu af þeirri kröfu. Í þinghaldi 10. nóvember 2015 lagði sóknaraðili fram tvær beiðnir um dómkvaðningu matsmanns, annars vegar manns með „þekkingu á bankaviðskiptum, greiðslumiðlun milli landa, uppgjörum í innlendum greiðslukerfum og raunverulegri framkvæmd hreyfinga í bankaviðskiptum innan banka og milli banka“ til að gefa svör við fjórum tilgreindum spurningum og hins vegar manns, sem væri sérfróður um bókhald og reikningsskil viðskiptabanka, til að svara tveimur spurningum. Spurningar þessar eru teknar orðrétt upp í hinum kærða úrskurði, en samkvæmt matsbeiðnum sóknaraðila hyggst hann með matsgerðunum afla sönnunar um að erlendur gjaldeyrir hafi í raun ekki skipt um hendur í viðskiptum á grundvelli lánssamningsins, hvorki við útborgun lánsins né greiðslu vaxta af því og afborgana af höfuðstól þess.

Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur ítrekað verið slegið föstu að lög standi því ekki í vegi að fjármálafyrirtæki hér á landi veiti innlendum aðila lán í erlendum gjaldmiðli, en óheimilt sé á hinn bóginn samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 að veita lán í íslenskum krónum með þeim skilmála að höfuðstóll þess taki breytingum í samræmi við gengi erlends gjaldmiðils. Þegar leyst hefur verið úr því í einstökum tilvikum hvort um sé að ræða lán í erlendum gjaldmiðli, sem heimilt er að veita samkvæmt framansögðu, hefur fyrst og fremst verið litið til forms og meginefnis samnings um það og þá einkum hvernig sjálf skuldbindingin er tilgreind í honum, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 23. nóvember 2011 í máli nr. 551/2011. Sé lánið tilgreint með fjárhæð í erlendum gjaldmiðli hefur verið lagt til grundvallar að orðalag skuldbindingarinnar nægi eitt og sér til að ráða úrslitum og þurfi þá hvorki að líta til þess hvernig ráðgert hafi verið í samningi að skyldur aðilanna yrðu efndar né hvernig efndir þeirra hafi orðið í raun, sbr. meðal annars dóm réttarins 26. mars 2014 í máli nr. 187/2014. Þá er þess og að gæta að þótt upphafleg skuldbinding í lánssamningi sé óskýr að þessu leyti hefur verið gengið út frá því að ótvíræð tilgreining skuldar samkvæmt honum í erlendum gjaldmiðli í viðauka við hann um skilmálabreytingu eða skuldskeytingu nægi ein út af fyrir sig til að ráða niðurstöðu og skipti þá ekki máli hvernig staðið hafi verið að efndum samningsins, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 12. febrúar 2015 í máli nr. 369/2014.

Í lánssamningnum 30. maí 2004, sem mál þetta er sprottið af, var greint þannig frá skuldbindingum að óljóst mátti vera hvort lánið hafi verið í erlendum gjaldmiðlum eða í íslenskum krónum með skilmála um gengistryggingu. Í viðaukanum, sem var gerður við samninginn 28. apríl 2006 og færði meðal annars skuldbindingar samkvæmt honum á herðar sóknaraðila, var skuldin á hinn bóginn skýrlega tilgreind með fjárhæðum í erlendum gjaldmiðlum. Sönnun sem sóknaraðili vill færa með matsgerðum dómkvaddra manna um hvernig í raun hafi verið staðið að efndum þessara skuldbindinga getur því samkvæmt framansögðu engu breytt við úrlausn málsins. Með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir, en við ákvörðun hans er litið til þess að samhliða máli þessu eru rekin tvö önnur milli sömu aðila um samkynja ágreining.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Brim hf., greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2016.

I

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 13. janúar sl., var höfðað með stefnu áritaðri um birtingu stefnu 22. júní sl., af Brimi hf., Bræðraborgarstíg 16, Reykjavík, á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að lán samkvæmt lánssamningi nr. 0106-36-1402, milli stefnda og stefnanda, dagsettum 30. maí 2004, sé bundið ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr., sbr. 13. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Þá krefst stefndi málskostnaðar, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, úr hendi stefnanda.

Í þinghaldi þann 10. nóvember sl. lagði stefnandi fram tvær beiðnir um dómkvaðningu matsmanna.  Stefndi mótmælti dómkvaðningunni.  Ágreiningurinn var tekinn til úrskurðar 13. janúar sl. að loknum munnlegum málflutningi.

II

                Málavextir eru þeir, að Útgerðarfélag Akureyringar hf., sem lántaki og Landsbanki Íslands hf., sem lánveitandi, gerðu með sér lánssamning 30. maí 2004 um svokallað fjölmyntalán til 15 ára að jafnvirði 3.000.000.000 króna í eftirgreindum myntum og hlutföllum: 25% Bandaríkjadalir, 26% japönsk jen og 49% svissneskir frankar.  Samkvæmt beiðni stefnanda um útgreiðslu lánsins, sbr. og gr. 1.3 í lánssamningnum, skyldi láninu ráðstafað til að greiða niður tilgreindar skuldir félagsins.

Stefnandi heldur því fram að umdeildur lánssamningur sé í öllum aðalatriðum eins og lánssamningur sá sem dæmdur hafi verið með ólögmætri gengistryggingu í dómi Hæstaréttar í máli nr. 155/2011.  Þegar samningurinn sé virtur með hliðsjón af efni hans og efndum á aðalskyldum verði að telja að hann feli í sér ólögmætt gengistryggt lán.  Stefnandi kveðst ekki hafa fengið erlendan gjaldeyri í hendur í reynd.  Erlendur gjaldeyrir hafi hvorki komið inn í bankann né farið út úr honum.  Landsbanki Íslands hf. hafi því í reynd stofnað til skuldbindinga í íslenskum krónum með lánveitingunni.  Engu breyti hvort heldur útgreiðsla lánsins eða endurgreiðsla þess hafi farið um IG-reikning, höfuðbók 38, frekar en hefðbundna innlánsreikninga, höfuðbók 26.  IG-reikningar séu í raun ekki annað en gengistryggðir innlánsreikningar í íslenskum krónum og óumdeilanlegt sé að á IG-reikningum hvíli ekki raunverulegur erlendur gjaldeyrir.  Vísar stefnandi m.a. til þess að Seðlabanki Íslands hafi litið á skuldbindingar á IG-reikningum sem skuldbindingar í íslenskum krónum með gengisviðmiðun.  Greiðslur inn og út af IG-reikningum geti ekki falið í sér yfirfærslu erlends gjaldeyris milli aðila í reynd.  Þetta séu greiðslur í íslenskum krónum, enda hluti innlendrar greiðslumiðlunar í innlendu greiðslukerfi.  Stefnandi byggir kröfur sínar á því að lánssamningurinn sé verðtryggður við gengi erlendra mynta og að slík verðtrygging fari í bága við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 13. og 14. gr. laganna, eins og dómstólar hafi margsinnis staðfest.

Stefndi hefur hafnað óskum stefnanda um að áðurnefnt lán sem hann tók hjá forvera stefnda verði leiðrétt í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar m.a. í máli nr. 155/2011.  Stefndi byggir á því að umþrættur samningur hafi verið um gild lán í erlendum gjaldmiðlum og falli þess vegna utan gildissviðs VI. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 13. gr. sömu laga.  Stefndi byggir á því að lánssamningurinn og framkvæmd lánveitingarinnar beri það með sér að um skuldbindingu í erlendri mynt sé að ræða og vísar m.a. til dómaframkvæmdar Hæstaréttar.

Fjármálaeftirlitið neytti 9. október 2008 heimildar í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárfestingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf., þar með réttindum og skyldum sem þeim fylgdu, til stefnda.  Hefur stefndi því yfirtekið allar skyldur Landsbanka Íslands hf. samkvæmt umdeildum samningi.

Óumdeilt er að stefnandi hefur tekið við réttindum og skyldum samkvæmt umdeildum lánssamningi.

III

                Eins og áður greinir lagði stefnandi fram tvær matsbeiðnir í þinghaldi hinn 10. nóvember sl.  Í matsbeiðnum stefnanda er annars vegar óskað eftir því, með vísan til 61. gr. laga nr. 91/1991, að dómkvaddur verði óvilhallur matsmaður með þekkingu á bankaviðskiptum, greiðslumiðlun milli landa, uppgjörum í innlendum greiðslukerfum og raunverulegri framkvæmd hreyfinga í bankaviðskiptum innan banka og milli banka.

Tilgang matsins kveður stefnandi vera að staðreyna það hvort raunverulegur gjaldeyrir hafi í reynd skipt um hendur við efndir skuldbindinga samkvæmt umþrættum lánssamningi.  Ágreiningslaust sé með aðilum að þegar lánið var veitt hafi sú aðgerð einvörðungu farið fram innan Landsbanka Íslands hf. hér á landi, sem lánveitanda, og hafi stefndi lagt áherslu á það í málatilbúnaði sínum.  Þannig hafi ekki verið send svonefnd SWIFT-skeyti í tilefni af lánveitingunni.

Stefnandi kveðst byggja m.a. á því í stefnu að engar raunverulegar gjaldeyrishreyfingar hafi átt sér stað við ráðstöfun lánsins, enda ekki annar gjaldmiðill vistaður eða gefinn út hér á landi en íslenskar krónur.  Ekkert liggi fyrir í málinu sem bendi til annars en að það eitt hafi gerst, að Landsbanki Íslands hf. hafi einungis stofnað til innlána á IG-reikningi á móti kröfueign í formi lánssamnings.  Þetta hafi verið gert innan bankans hér á landi.  Því hafi ekki verið um raunverulegar hreyfingar erlends gjaldeyris að ræða.  Stefndi hafi hins vegar haldið því fram að þegar lánið var greitt út hafi Landsbanki Íslands hf. ráðstafað raunverulegum erlendum gjaldeyri, sem hafi verið í eigu bankans.

Í tilefni af framangreindum ágreiningi aðila sé óskað eftir að matsmaður svari eftirgreindum matsspurningum með rökstuddum hætti:

„1.  Var raunverulegur erlendur gjaldeyrir, í eigu Landsbanka Íslands hf., færður á IG reikninga stefnanda við útborgun lánsins? 

                2.  Skipti raunverulegur erlendur gjaldeyrir um hendur við greiðslu afborgana og vaxta af láninu með skuldfærslu af IG reikningum stefnanda?

                3.  Var raunverulegur erlendur gjaldeyrir vistaður eða gefinn út hér á landi, með rafrænum hætti, hjá Landsbanka Íslands hf. eða stefnda, á því tímabili sem málið varðar?

4.  Hvaða greiðslu-, uppgjörs- og/eða bókhaldskerfi komu við sögu annars vegar við útgreiðslu lánsins til stefnanda og hins vegar við greiðslur stefnanda á afborgunum og vöxtum af láninu?  Hver annaðist rekstur þeirra og, ef við á, í hvaða gjaldmiðli voru þau starfrækt eða færð?“

Stefnandi lagði einnig fram beiðni um að dómkvaddur yrði einn hæfur og óvilhallur matsmaður, sérfróður um bókhald og reikningsskil viðskiptabanka, helst löggiltur endurskoðandi eða einstaklingur með sambærilega þekkingu.

Stefnandi kvað tilgang með matinu vera þann að sýna fram á að við lánveitinguna hafi Landsbanki Íslands hf., á móti kröfueign í formi undirritaðs lánssamnings, stofnað til nýrrar skuldar bankans á svokölluðum IG-reikningi stefnanda hjá bankanum.  Við þetta hafi efnahagsreikningur bankans á Íslandi stækkað í reynd.  Þar sem allar hreyfingar hafi farið fram innan bankans hafi raunverulegur erlendur gjaldeyrir ekki skipt um hendur, enda aðeins íslenskar krónur gefnar út og vistaðar hér á landi í rafrænum kerfum viðskiptabanka.  Þetta telji stefndi ósannað og haldi því fram í málinu að hann hafi lánað stefnanda erlendan gjaldeyri, sem hafi verið í eigu bankans fyrir, og lagt hann inn á IG-reikninga stefnanda.

Í tilefni af þessum ágreiningi málsaðila sé óskað að matsmaður svari með rökstuddum hætti eftirgreindum spurningum:

„1.  Hvernig voru umrædd viðskipti færð í bókhalds- og uppgjörskerfum bankans, þegar lánið var veitt?  Óskað er eftir að færslum í bókhalds- og uppgjörskerfum sé lýst lið fyrir lið með tilvísun til færslulykla.

2.  Voru viðskiptin færð samkvæmt reglum og venjum sem um slíkar færslur gilda?“

Eins og áður greinir andmælti stefndi því að dómkvaddir yrðu matsmenn í málinu.  Í munnlegum málflutningi um þann ágreining aðila vísaði stefndi til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.  Af því leiði og að stefnanda skorti lögvarða hagsmuni fyrir öflun umbeðinna matsgerða, auk þess sem matsspurningarnar feli í reynd í sér lögspurningar, sbr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

Þá vísaði stefndi til þess að í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefði verið leyst úr sams konar ágreiningi.  Stefndi kvað umdeilda skuldbindingu stefnanda, sem hann hafi gengist undir með skuldskeytingu þann 28. maí 2006 vera skýra en þar séu lánsfjárhæðir tilgreind í erlendum gjaldmiðlum.  Texti þeirrar skuldbindingar sem stefnandi hafi gengist undir taki því af skarið um efni skuldbindingarinnar og komi því önnur atriði ekki til álita.  Þá hafi Hæstiréttur í dómum sínum, þar sem texti samnings hafi ekki verið skýr, litið til annarra atriða sem lúti að því hvernig skuldbindingin hafi verið efnd og framkvæmd að öðru leyti, t.d. hvort lánsfjárhæð hafi verið lögð inn á svonefnda innlenda gjaldeyrisreikninga, höfuðbók 38, eða þær að einhverju leyti verið nýttar til uppgreiðslu eldri erlendra lána.  Hæstiréttur hafi í dómum sínum, þar sem leyst sé úr sams konar ágreiningi og í þessu máli, ekki litið til þeirra atriða sem matsspurningar stefnanda lúti að, eða hafi þeim verið gefin sérstök þýðing, þ. á m. um hvaða greiðslu-, uppgjörs- og/eða bókhaldskerfi hafi komið við sögu, hvernig viðskiptin hafi verið færð í þeim kerfum eða hvort „raunverulegur“ erlendur gjaldeyrir sé vistaður eða gefinn út hér á landi með rafrænum hætti.  Samkvæmt því beri að hafna matsbeiðnum stefnanda.

IV

                Í einkamáli lýtur sönnun einkum að því að leiða í ljós hvort staðhæfing um umdeild atvik teljist sönnuð, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991.  Aðili að einkamáli á að meginstefnu rétt á því að afla og leggja fram þau sönnunargögn sem hann telur þörf á.  Það er því hvorki á valdi stefnda né dómstóla að aftra því nema með stoð í lögum.  Af þeim sökum ber dómara að verða við beiðni málsaðila um að dómkveðja matsmenn samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 nema formskilyrði síðari málsliðar 1. mgr. 61. gr. séu ekki fyrir hendi, leitað sé mats um atriði, sem dómari telur bersýnilegt að ekki skipti máli, sbr. 3. mgr. 46. gr. laganna, eða matsbeiðni lúti einvörðungu að atriðum, sem dómara ber að leggja sjálfur mat á en ekki sérfróðum matsmönnum, sbr. 2. mgr. 60. gr. og fyrri málslið 1. mgr. 61. gr.  Í síðastnefnda tilvikinu yrði matsgerð ávallt tilgangslaus til sönnunar í skilningi 3. mgr. 46. gr.

Matsbeiðnir stefnanda lúta að því að fá álit sérfróðra matsmanna um bókhalds og reikningsskil Landsbanka Íslands hf. sem og sérfróðan matsmann með þekkingu á bankaviðskiptum, greiðslumiðlun milli landa, uppgjörum í innlendum greiðslukerfum og raunverulegri framkvæmd hreyfinga í bankaviðskiptum innan banka og milli þeirra.  Stefnandi kveður tilgang matsins vera að sanna að fullyrðingar hans um að raunverulegur erlendur gjaldeyrir hafi ekki skipt um hendur við efndir umþrætts lánssamnings, enda aðeins íslenskar krónur gefnar út og vistaðar hér á landi í rafrænum kerfum viðskiptabanka, og því feli umdeildur lánssamningur í sér ólögmæta gengistryggingu.

Málsaðila greinir á um það í málinu hvort samningur stefnanda við Landsbanka Íslands hf. 30. maí 2004 sé um lán í íslenskum krónum, bundið gengi erlendra gjaldmiðla, þannig að skilmálar þess brjóti í bága við 14. gr., sbr. 13. gr., laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Í dómum Hæstaréttar hefur margsinnis reynt á túlkun sambærilegra samninga og hefur rétturinn í dómum sínum um hvort lán sé í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundnum gengi erlendra gjaldmiðla, fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hefur gengist undir.  Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis skuldbindingin er að þessu leyti hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hún hefur í raun verið efnd og framkvæmd að öðru leyti og hefur þá m.a. verið litið til aðferðar við útborgun lánsfjárins.  Í þeim fjölmörgu dómum Hæstaréttar þar sem reynt hefur á túlkun samninga með texta sem er ekki skýr um þá skuldbindingu sem lántaki hefur gengist undir, hefur verið talið að útborgun inn á gjaldeyrisreikninga í samræmi við ákvæði samnings feli í sér að fé í erlendum gjaldmiðlum skipti í reynd um hendur.  Að því virtu fæst ekki séð að þýðingu geti haft við úrlausn ágreinings sem deilt er um í málinu að aflað verði mats á þeim atriðum sem tilgreind eru í matsbeiðnum, en það getur hvorki verið hlutverk dómkvaddra matsmanna að túlka samning aðila né myndi slíkar matsgerðir nokkru breyta um þær kröfur sem stefnandi hefur uppi í málinu.  Af þeim sökum er sú sönnunarfærsla sem stefnandi gerir kröfu um samkvæmt framangreindu bersýnilega þýðingarlaus fyrir mál þetta, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.  Þegar af þeirri ástæðu verður því beiðni hans um dómkvaðningu matsmanna hafnað.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Hafnað er kröfu stefnanda, Brims hf., um dómkvaðningu matsmanna.