Hæstiréttur íslands

Mál nr. 16/2001


Lykilorð

  • Verðbréfamiðlun


Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. júní 2001.

Nr. 16/2001.

Hallgrímur Jónsson

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Frjálsa fjárfestingarbankanum hf.

(Bjarki H. Diego hrl.)

 

Verðbréfamiðlun.

Fjárfestingarfélagið S hafði milligöngu um verðbréfaviðskipti H. Tap varð á viðskiptunum og stofnaðist við það skuld H við S. F, sem tók yfir réttindi og skyldur S, krafði H um skuldina. H hafnaði greiðsluskyldu og bar því einkum við að til viðskiptanna hefði að nokkru verið stofnað án síns samþykkis, auk þess sem ráðgjöf S hefði verið ábótavant. Að svo miklu leyti sem H hafði ekki samþykkt viðskiptin var talið að hann hefði með athafnaleysi sínu orðið skuldbundinn af þeim. Sýnt þótti að H hefði verið kynnt eðli viðskiptanna og sú áhætta sem þeim fylgdi. Var því ekki fallist á að ráðgjöfinni hefði verið svo ábótavant að skuldbindingar H við S væru niður fallnar eða að stofnast hefði til bótaréttar hans á hendur S. Þótti ekki hagga því að S hafði vanrækt skyldu sína til að gera skriflegan samning við H. Þá var ekki fallist á að viðskiptunum yrði jafnað til veðmála eða fjárhættuspila, enda hafði verið gert ráð fyrir viðskiptum sem þessum í lögum frá því fyrir þann tíma er til viðskiptanna var stofnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. janúar 2001. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Málið á rætur að rekja til verðbréfaviðskipta, sem áfrýjandi átti fyrir milligöngu Fjárfestingarfélagsins Skandia hf. á árunum 1993 til 1996. Þau kröfuréttindi, sem mál þetta varðar, hefur stefndi nú eignast og fer með aðild að því. Samkvæmt gögnum málsins virðist áfrýjandi í um 30 skipti hafa keypt og selt verðbréf fyrir milligöngu Skandia hf., en viðskiptin voru aðallega um afleiðusamninga, einkum valréttarsamninga. Á viðskiptunum tapaði áfrýjandi alls 1.999.620 krónum. Hann lagði í upphafi fram fé til viðskiptanna, en þegar á leið lagði Skandia hf. út fyrir skuldbindingum hans. Þegar viðskiptunum lauk stóð hann í skuld við Skandia hf., sem nam 653.446 krónum samkvæmt endanlegum gögnum áfrýjanda. Af gögnum málsins verður ráðið að sú skuld hafi myndast vegna viðskipta, sem áttu sér stað á tímabilinu frá 4. mars til 10. maí 1996. Málið var þó höfðað til heimtu 547.596 króna.

Varnir áfrýjanda lúta aðallega að tvennu. Annars vegar kveður hann Skandia hf. hafa skuldbundið sig í einstökum verðbréfaviðskiptum án þess að hafa fengið til þess heimild sína. Hins vegar telur hann hafa skort mjög á að ráðgjöf Skandia hf. væri fullnægjandi.

II.

Stefndi reisir kröfu sína á hendur áfrýjanda á því að í öllum tilvikum hafi áfrýjandi ýmist samþykkt tillögur starfsmanna Skandia hf. um kaup á tilteknum verðbréfum eða gefið sjálfur fyrirmæli um þau. Í því sambandi er til þess að líta að áfrýjandi bar fyrir dómi að oftast hafi hann sjálfur eða starfsmaður Skandia hf. gert tillögu um þau viðskipti, sem síðar var stofnað til. Áfrýjandi gekkst jafnframt við því að hafa fengið reglulega send yfirlit frá Skandia hf., þar sem verðbréfaviðskipti hans voru sundurliðuð, en hann hafi þó ekki kynnt sér efni þeirra.

Viðskiptum aðilanna lauk vorið 1996. Áfrýjandi bar því ekki við fyrr en liðlega tveimur og hálfu ári síðar að til viðskiptanna hefði verið stofnað án hans samþykkis, en þetta kom fyrst fram í greinargerð hans fyrir héraðsdómi 17. desember 1998. Áður hafði þó áfrýjandi kvartað yfir samskiptum sínum við Skandia hf. í bréfi til bankaeftirlits Seðlabanka Íslands 24. mars 1997. Þá er og til þess að líta að áfrýjandi hefur ekki borið á móti því að hafa fengið innheimtubréf vegna þessara viðskipta frá Skandia hf. og lögmanni félagsins á árunum 1996 og 1997. Að svo miklu leyti, sem áfrýjandi samþykkti einstök viðskipti ekki fyrir fram eða skömmu eftir að til þeirra var stofnað, verður að líta svo á að hann hafi með þessu athafnaleysi sínu orðið skuldbundinn af þeim.

III.

Skilja verður málatilbúnað áfrýjanda um annmarka á ráðgjöf Skandia hf. þannig að þar geri hann ráð fyrir að félagið hafi bakað sér bótaskyldu gagnvart honum. Bætur á þeim grunni svari að minnsta kosti til þeirrar fjárhæðar, sem stefndi krefur hann um. Fallast verður á með áfrýjanda að á Skandia hf. hafi hvílt rík skylda til að veita honum greinargóðar upplýsingar um þau viðskipti, sem félagið hafði milligöngu um að stofna til, sbr. þágildandi ákvæði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 9/1993 um verðbréfaviðskipti, sem tóku til viðskipta aðilanna og eru efnislega samhljóða 1. mgr. 15. gr. laga nr. 13/1996 um sama efni. Þar ber að hafa sérstaklega í huga að ekki liggur fyrir að áfrýjandi hafi haft mikla reynslu af verðbréfaviðskiptum. Fyrir dómi viðurkenndi áfrýjandi hins vegar að hafa sjálfur óskað eftir að taka þátt í verðbréfaviðskiptum, sem hefðu í för með sér „dálitla áhættu“. Bar áfrýjandi jafnframt að sá starfsmaður Skandia hf., sem hann hafði að öðru jöfnu samskipti við, hefði kynnt honum hvað afleiður væru og „hvernig þær virkuðu“. Í áðurnefndu bréfi lögmanns áfrýjanda til bankaeftirlits Seðlabanka Íslands kemur einnig fram að starfsmaðurinn hafi í upphafi viðskiptanna tjáð áfrýjanda að „mestir ávöxtunarmöguleikar væru í kaupum á optionum, en jafnframt að þau viðskipti séu áhættusöm.“ Fyrir dómi kvaðst áfrýjandi hafa kvartað við yfirmann starfsmannsins, sem hefði þá sagt sér að þetta væru „mjög áhættusöm viðskipti“. Óumdeilt er að þetta hafi gerst áður en stofnað var til viðskiptanna, sem krafa stefnda í málinu stafar af. Samkvæmt þessu liggur fyrir að áfrýjanda var greint frá eðli þeirra viðskipta, sem hann stofnaði síðar til, og að þau væru mjög áhættusöm.

Vegna umfangs viðskiptanna og þeirrar áhættu, sem þeim var samfara, bar Skandia hf. með réttu að gera um þau sérstakan samning við áfrýjanda, þar sem kveðið hefði verið á um réttindi og skyldur samningsaðila, sbr. þágildandi ákvæði 1. mgr. 15. gr. laga nr. 9/1993, sbr. 17. gr. laga nr. 13/1996. Þeirri skyldu sinnti félagið ekki. Eins og áður greinir varð áfrýjandi hins vegar allt að einu bundinn af viðskiptunum vegna athafnaleysis síns eftir að til þeirra hafði verið stofnað. Með hliðsjón af þessu og því, sem áður greinir um þær upplýsingar sem áfrýjanda voru veittar um eðli viðskiptanna, verður ekki talið að hann hafi fært fyrir því nægileg rök að ráðgjöfinni hafi verið svo ábótavant að það leysi hann undan skuldbindingum hans gagnvart stefnda eða hann eigi af þeim sökum bótarétt á hendur stefnda.

IV.

Ekki verður fallist á það með áfrýjanda að viðskiptin verði ógilt á þeim forsendum að þeim verði jafnað til fjárhættuspila eða veðmála. Allt frá gildistöku laga nr. 9/1993, sbr. nú b. lið 3. töluliðar 2. gr. laga nr. 13/1996, hefur verið gert ráð fyrir því í lögum að stunduð væru viðskipti með þá tegund verðbréfa, sem nefnast afleiðusamningar. Liggur því fyrir að viðskipti áfrýjanda voru ekki andstæð lögum þegar til þeirra var stofnað.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans um aðrar málsástæður áfrýjanda staðfest.

Samkvæmt öllu framangreindu verður héraðsdómur staðfestur um annað en málskostnað, en rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. október 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 20. september sl., var höfðað með stefnu, birtri 4. sept. 1998.

Stefnandi er Frjálsi fjárfestingarbankinn hf., kt. 590789-2089, Laugavegi 170, Reykjavík.

Stefndi er Hallgrímur Jónsson, kt. 300654-4289, Langholtsvegi 100, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda:

Að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 547.596 kr. og bankakostnað 6.105 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 547.596 kr. frá 1. des. 1996 til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins og virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefnda:

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar að skaðlausu.

Málavextir

Fjárfestingarfélagið Skandia hf. sameinaðist Fjárvangi hf. verðbréfafyrirtæki. Það fyrirtæki sameinaðist Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. 19. maí sl. og tók Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. við rekstri málsins. Þegar fjallað verður um viðskipti þau sem málið er af risið í dóminum en þau voru við Skandia hf., þá mun verða vísað til Skandia hf. sem stefnanda.

Mál þetta er risið út af verðbréfaviðskiptum sem Fjárfestingarfélagið Skandia hf., annaðist fyrir stefnda. Stefndi mun hafa átt í viðskiptum við Skandia hf. frá seinni hluta árs 1994 til vors 1996. Að sögn stefnanda fóru þessu viðskipti fram með nokkuð sérstökum hætti frá vori 1995. Fólust þau þá aðallega í kaupum á svonefndum vilnunum en slík viðskipti eru mjög áhættusöm. Áður hafði stefndi keypt hlutabréf í erlendum félögum.

Einhvern tímann á meðan stefndi stóð í viðskiptum við stefnanda hafði stefndi samband við Brynhildi Sverrisdóttur, framkvæmdastjóra stefnanda, og kvartaði yfir lélegri ávöxtun. Kveðst Brynhildur hafa bent stefnda á að viðskiptin væru áhættusöm. Skömmu síðar hóf stefndi viðskipti með vilnanir á ný.

Samkvæmt gögnum málsins keypti stefnandi hlutabréf og vilnanir í ýmsum fyrirtækjum fyrir stefnda. Greiddi stefndi síðan stefnanda kaupverð bréfanna og vilnanna og þóknun fyrir kaupin. Síðustu greiðslur innti stefndi af hendi á tímabilinu 28. mars 1996 til 13. maí s.á. Stefnandi höfðar mál þetta til heimtu eftirstöðva frá 13. maí 1996 að fjárhæð 547.596 kr. .

Með bréfi, dags. 24. mars 1997 óskaði lögmaður stefnanda eftir því við bankaeftirlit Seðlabanka Íslands að fram færi rannsókn af hálfu bankaeftirlitsins á viðskiptum hans og verðbréfamarkaðar Skandia. Í því  sambandi var sérstaklega bent á 2. ml. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti. Jafnframt var þess óskað að bankaeftirlitið kannaði sjálfstætt hvort fleiri lagaákvæði hefðu verið brotin eða fleira fyndist aðfinnsluvert í viðskiptunum. Bankaeftirlitið skilaði greinargerð hinn 15. maí s.á og komst að þeirri niðurstöðu að bankaeftirlitið hefði ekki ástæðu til að ætla að stefnandi hafi brotið gegn ákvæðum 2. ml. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 13/1996 í samskiptum sínum við stefnda eða að ráðgjöf af hálfu félagsins um einstök kaup og sölu umræddra verðbréfa hafi verið óeðlileg eða óskynsamleg. Það var mat bankaeftirlitsins að með hliðsjón af því hversu umfangsmikil viðskiptin voru og að um viðvarandi viðaskipti var að ræða, hefði félaginu verið rétt að gera skriflegan samning við stefnda, sbr. 17. gr. laga nr. 13/1996. Að öðru leyti taldi bankaeftirlitið ekki ástæðu til athugasemda vegna samskipta stefnda við Fjárfestingarfélagið Skandia.

Í uppgjöri frá stefnanda, dags. 3. sept. 1996, eru upplýsingar um viðskipti þau sem stefnt er út af. Þar kemur fram í hvaða fyrirtækjum verðbréf voru keypt og seld, fyrir hvaða upphæðir og hvenær viðskiptin fóru fram. Af hálfu stefnda er uppgjör þetta dregið í efa. Undir rekstri málsins voru lögð fram undirgögn uppgjörsins.

Samkvæmt uppgjörinu borgaði stefndi stefnanda 120.046 krónur hinn 28. mars 1996. Hinn 12. apríl borgaði hann 105.850 krónur, 16. apríl 56.000 krónur og 13. maí 150.000 krónur. Stóðu þá samkvæmt uppgjörinu eftir af skuldinni 547.596 krónur. Gengismunur var 6.757 krónur.

Málsástæður og rökstuðningur stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína á uppgjöri þar sem fram komi að heildarskuld stefnda sé stefnufjárhæð. Stefnandi hafi keypt og selt verðbréf fyrir stefnda. Viðskiptin hafi verið nokkuð áhættusöm en þau hafi verið gerð að fyrirmælum stefnda. Við uppgjör á viðskiptum stefnda hafi komið í ljós mismunur vegna þess að stefndi hafi ekki greitt vegna verðbréfaviðskipta sinna við stefnanda. Mismunurinn nemi hinni umstefndu fjárhæð, sem stefnda hafi verið vel kunnugt um vegna samskipta sinna við stefnanda.

Til rökstuðnings kröfum stefnanda er vísað til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga en regla þessi fái m.a. lagastoð í 5., 6. og 28. gr. laga nr. 39/1922. Um gjalddaga kröfunnar er einkum vísað til meginreglu 12. gr. sömu laga.

Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum. Krafa um málskostnað er studd með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing er vísað til 32. gr. laga  nr. 91/1991.

Málsástæður og rökstuðningur stefnda

Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnda hafi aldrei verið gerð grein fyrir eðli viðskiptanna. Sérstaklega ekki þeirri staðreynd að engin innibyggð ávöxtun sé í valrétti, aðeins áhætta. Stefndi hafi talið að um væri að ræða háa ávöxtunarkröfu þar sem áhættan væri mikil, m.ö.o. áhættan væri mikil en líkurnar honum í hag.

Ósannað sé að hagnaður og tap á viðskiptunum hafi verið sá sem stefnandi haldi fram. Haldbærar upplýsingar skorti.

Ósannað sé að einstök viðskipti hafi yfirleitt farið fram, um það vanti gögn.

Sum viðskiptanna hafi verið framkvæmd í heimildarleysi.

Stefnandi hafi ekki veitt þá sérfræðiþjónustu sem hann hafi þóst vera að selja enda hafi það verið honum um megn.

Stefndi eigi því rétt bæði á endurgreiðslu þóknunar til stefnanda og skaðabótum fyrir það tjón sem stefnandi hafi valdið með framangreindu auk þess sem stefndi sé ekki bundinn við þau viðskipti sem stefnandi hafi að sögn framkvæmt í nafni stefnda. Viðskiptin séu klárlega fjárhættuspil og/eða veðmál og starfsemin því refsiverð, sbr. 183. og 184. gr. alm. hegningarlaga. Á þessum viðskiptum hafi stefndi tapað a.m.k. 2.721.954 kr.

Sýknukrafa stefnda er byggð á eftirtöldum atriðum.

Stefndi kveður stefnanda í ýmsum tilvikum hafa farið út fyrir umboð sitt. Þau viðskipti sem málið er af risið hafi farið fram þegar allt var komið í rugl og kannist stefndi ekki við að hafa gefið heimildir til þessara kaupa. Þó kunni að vera að einhver þessara viðskipta hafi verið samþykkt af honum en alls ekki kaup á valrétti í Yahoo eða Proxymed. Þar sem stefnandi hafi ekki tryggt sér umboð verði hann að bera hallann af því sönnunarvandkvæði sem það skapi.  

Ljóst sé að samkvæmt 183. og 184. gr. almennra hegningarlaga sé óheimilt að gera sér fjárhættuspil að atvinnu eða spilafíkn annarra. Í málinu liggi fyrir að stundað hafi verið fjárhættuspil í skilningi hegningarlaga á tímabilinu maí 1995 til og með júní 1996 (svo). Hafi verið um að ræða allmörg og mikil viðskipti á þessu tímabili. Í ljósi þess að ekki hafi verið að ávaxta fé heldur að snúa “lukkuhjólinu” og í ljósi þess að stefnandi hafi tekið veruleg umboðslaun fyrir, sé klárt mál að um fjárhættuspilastarfsemi sé að ræða. Með því sé ekki verið að segja að kaup og sala á valrétti sé ólögmæt sem slík enda sé hún iðulega notuð til að takmarka áhættu einstaklinga og fyrirtækja heldur þegar staðið sé að málum í þeim tilgangi sem hér um ræðir.

Í greinargerð Agnars Jóns Ágústssonar frá 9. apríl 1997 komi fram að hann telji stefnda hafa viljað taka þátt í viðskiptunum vegna örvæntingar um rekstur sinn. Agnar taki fram að hann telji að í eðli sínu sé stefndi mikill áhættufjárfestir og sá mesti áhættufjárfestir sem hann hafi kynnst á starfsferli sínum. Einnig komi fram að Agnari hafi verið ljóst að stefndi var ekki fagfjárfestir. Í sama skjali sé sagt um stefnda að hann sé áhættusækinn fjárfestir. Á mannamáli þýði þetta að stefndi sé fjárhættuspilari. Í greinargerð sinni noti Agnar ranglega hugtakið “ávöxtun valrétta”. Valréttir hafi enga ávöxtun þótt menn geti grætt á kaupum þeirra ef heppnin er með. Því er mótmælt sem fráleitu að útskýrt hafi verið fyrir stefnda að Fjárfestingarfélagið Skandia “bæri enga faglega og fjárhagslega ábyrgð á þessum kaupum.”

Af  hálfu stefnda er því haldið fram að hér sé verið að stefna fyrir spilaskuld.

Stefnda hafi verið gefnar rangar hugmyndir um viðskiptin. Í framangreindri greinargerð Agnars Jóns Ágústssonar segi m.a.: “Það kom fram einu sinni í einhverju samtali HJ og undirritaðs að meðan á afgerandi uppsveiflu ákveðinna vísitalna stæði væru  líkur viðkomandi til að hagnast stundum 75 á móti 25.” Þetta sé einfaldlega rangt. Ef einhverjar ákveðnar líkur séu fyrir að einhverjir hlutir gerist í framtíðinni þá fari þær inn í verð valréttarins. Sá sem ætli að hagnast þurfi því að vera vitrari en markaðurinn sjálfur.

Í framangreindri greinargerð Agnars sé hann að gera því skóna að stefndi hafi viljað spila áfram með vegna örvæntingar og geri það málið enn alvarlegra að innheimta lán sem gefin hafi verið á slíkri ögurstundu. Í lok greinargerðarinnar segi Agnar beinlínis að stefndi hafi staðið í þessum viðskiptum til að bjarga fjárhag sínum og vegna þess hversu “áhættusækinn” hann var. Hafi Agnar haft þessar hugmyndir um stefnda hafi hann átt að taka í taumana og neita frekari viðskiptum enda ólögmætt að halda þeim áfram.

Þar sem stefnandi hafi ekki veitt þá sérfræðiþjónustu sem hafi verið forsenda umboðs stefnda til stefnanda sé umboðið óskuldbindandi á grundvelli rangra og brostinna forsendna. Stefnandi verði því sjálfur að sitja uppi með hagnað og tap af viðskiptum þessum.

Með því að þjónusta sem stefnandi veitti hafi verið ólögmæt og hafi ekki heldur haft áskilda kosti sé stefnandi bótaskyldur fyrir öllu tjóni sem af þjónustunni leiðir.   Sérfræðingur, sem taki að sér gegn gjaldi að veita sérfræðiþjónustu, taki að sér að fylgjast nægilega með markaðinum, hafa yfir nægri þekkingu að ráða og nægilega góðum samböndum við hæfa sérfræðinga.

Með því að stefnandi hafi ekki veitt þá þjónustu sem sérfræðingi beri að veita verði að líta svo á að hann eigi ekki rétt til neinnar þóknunar, annars verulega skertrar. Beri honum því að endurgreiða þóknun stefnda.

Einnig er á því byggt að samningurinn sé ógildur á grundvelli 31. og 32. gr. laga nr. 7/1936 og að víkja beri honum til hliðar á grundvelli 36. gr. A-D sömu laga.Stefnandi þurfi sjálfur að sanna að hann hafi haft umboð til þeirra kaupa sem stefnt er vegna. Að öðrum kosti sitji hann sjálfur uppi með hagnað og tap. Stefnandi þurfi að sanna að hann hafi gert stefnda grein fyrir eðli viðskiptanna enda séu þau afar sérstök og ekkert nema fjárhættuspil. Staðhæfingar um munnlegar upplýsingar dugi ekki gegn mótmælum stefnda.

Stefnandi þurfi að upplýsa hvað hann hafi gert til að fullnægja þeirri skyldu sinni að vakta viðskiptin. Að öðrum kosti verði að líta svo á að það hafi alls ekki verið gert með fullnægjandi hætti. Að því marki sem stefnandi hafi notast við erlenda aðila þurfi hann að upplýsa hverjir það voru og sýna fram á hæfi þeirri. Að öðrum kosti verði að líta svo á að þessi þáttur sé ekki í lagi.

Rökin fyrir framangreindum sönnunarreglum séu þau að sá verði að bera sönnunarbyrðina sem standi nær að tryggja sönnun. Stefndi hafi ekki átt þess neinn kost að tryggja sönnun í þessum efnum fyrir fram. Hann þurfi ekki að sæta munnmælasögum þeirra sem sakaðir séu um fúsk og vanrækslu og eigi sínar eigin hendur að verja.

Við mat á sönnunarbyrði verði að setja almenna reglu sem þolanleg sé fyrir neytendur enda sé það meginregla í íslenskum rétti og EES rétti að neytendavernd slíkra reglna séu ríkar og ætlað að tryggja stöðu neytenda gagnvart þeim sem hafi atvinnu af því að bjóða fram þjónustu sína.

Á yfirliti Fjárfestingarfélagsins Skandia hf. komi fram hagnaður á sölu hlutabréfa í Sölusamtökum íslenskra fiskframleiðenda, 37.740 kr. Ekki sé ljóst af þessu dómskjali hvort tekið hafi verið tillit til þess að stefndi hafi átt þetta bréf fyrir og kaupin á því hafi ekki verið fjármögnuð af stefnanda.

Undir rekstri málsins gáfu skýrslu fyrir dómi Brynhildur Sverrisdóttir, fyrrum  framkvæmdastjóri Fjárvangs hf., Agnar Jón Ágústsson, fyrrum starfsmaður Fjárvangs hf., stefndi og Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, fyrrum starfsmaður Fjárvangs hf.

Niðurstaða

Viðskipti stefnda við Skandia hf. stóðu frá hausti 1994 til vors 1996. Málið höfðar stefnandi til heimtu skuldar stefnda vegna viðskipta sem fram fóru í lok tímabilsins eða vorið 1996.

Viðskipti stefnda voru töluvert umfangsmikil. Samkvæmt 17. gr. laga nr. 13/1996, sem tóku gildi 28. mars 1996, var stefnanda rétt að gera skriflegan samning um viðskiptin sem málið er af risið. Þar átti að kveða á um réttindi og skyldur aðila. Fyrir gildistöku laga nr. 13/1996 var samsvarandi ákvæði í 15. gr. laga nr. 9/1993. Þetta var ekki gert.

Í upphafi voru viðskipti stefnda fólgin í kaupum og sölu á hlutabréfum. Stefndi var ekki ánægður með árangur þeirra viðskipta. Eftir það voru viðskipti stefnda aðallega fólgin í kaupum og sölu á vilnunum. Vegna viðskiptanna átti stefndi mest samskipti við Agnar Jón Ágústsson, fyrrum starfsmanns stefnanda. Fram kom hjá Agnari að hann hafi kynnt stefnda áhættuna af viðskiptum með vilnanir og það að kaupréttur væri það áhættumesta sem menn væru að leggja í fé.  Í þessum viðskiptum væru miklir möguleikar á bæði ávöxtun og tapi. Í einhverju samtali þeirra Agnars og stefnda  hefði komið fram að meðan á afgerandi uppsveiflu ákveðinna vísitalna stæði væru líkur viðkomandi til að hagnast 75 á móti 25. Agnar tók fram að þetta hafi ekki verið notað til grundvallar kaupunum heldur hafi þetta komið fram einhvern tímann þegar vel var liðið á viðskiptin. Í upphafi viðskiptanna hafi stefndi greitt fyrir hver einstök viðskipti en þegar komið var að vilnunum hafi stefnandi verið með ákveðnar tryggingar og hafi stefndi þá ekki í öllum tilvikum greitt fyrir ákveðin viðskipti. Sérstaklega aðspurður kvaðst Agnar aldrei hafa keypt valrétt án samráðs við stefnda. Stefndi hafi ákveðið hvað ætti að kaupa og selja. Agnar kvaðst hafa framkvæmt óskir stefnda. Fram kom hjá stefnda um þetta atriði að hann hafi rætt við Agnar um öll kaup. Oft  hafi Agnar komið með uppástungu um það hvað skyldi keypt og í öðrum tilvikum hafi stefndi ákveðið sjálfur hvað skyldi keypt.

Stefndi bar hér fyrir dómi að í upphafi hafi þessi viðskipti gengið svona þolanlega en svo hafi farið að halla undan fæti. Á einhverju stigi hefði Agnar sagt að líkurnar í þessum viðskiptum væru 75/25 stefnda í vil. Þannig kvaðst stefndi hafa verið alveg sáttur við að tapa einstaka sinnum. Á einhverju stigi viðskiptanna kvartaði stefndi við Brynhildi Sverrisdóttur, framkvæmdastjóra Skandia hf., vegna lélegs árangurs í þessum viðskiptum. Brynhildur sagði stefnda að þessi viðskipti sem hann ætti í væru mjög áhættusöm. Stefndi hélt áfram viðskiptunum.

Ljóst er af því sem fram er komið, bæði í skjölum málsins og skýrslutökum hér fyrir dómi, að stefnandi hafði umboð til viðskipta fyrir stefnda. Enda er því haldið fram af hálfu stefnda að stefnandi hafi í ýmsum tilvikum farið út fyrir umboð sitt. Ekki er tiltekið í hvaða tilvikum nema að stefndi hafi ekki samþykkt kaup á valrétti í Yahoo og Proxymed. Undir rektri málsins var upplýst að það sem kallað er Proxymed í yfirliti á dskj. 10 mun vera kaup í Planet Hollywood, sbr. uppgjör á dskj. 3, og gögn á dskj. 44.

Við aðalmeðferð málsins kom fram að stefndi samþykkti kaupin í Planet Hollywood. Eftir stendur ágreiningur um það hvort stefndi hafi samþykkt kaup í Yahoo eða ekki. Enda hefur stefndi ekki tiltekið önnur viðskipti sem hann hafi ekki samþykkt.

Samkvæmt skjölum málsins virðast kaup í Yahoo hafa farið fram 18. apríl 1996. Keypt var fyrir 997.905 kr. og selt 15.maí 1996 fyrir 648.121 kr.  

Stefndi fékk send viðskiptayfirlit en aldrei gerði hann athugasemdir við yfirlitin. Síðustu greiðslur innti stefndi af hendi 13. maí 1996 en þá greiddi hann 150.000 kr.

Í kæru stefnda til bankaeftirlits Seðlabanka Íslands, dags. 24. mars 1997, var því ekki haldið fram að um heimildarlaus viðskipti væri að ræða. Það virðist ekki vera fyrr en í greinargerð stefnda, sem lögð var fram 17. des. 1998, að því er haldið fram að stefndi hafi ekki gefið heimild til viðskipta með valrétt í Yahoo. Skjöl málsins gefa til kynna að viðskipti þessi hafi verið með hlutabréf en ekki valrétt.

Þegar til þessa er litið, þ.e. að stefndi innti af hendi greiðslur til stefnanda eftir að viðskiptin í Yahoo áttu sér stað og hreyfði aldrei þeim andmælum við skuldinni að viðskiptin hafi verið gerð í heimildarleysi, þá verður að telja að viðskiptin hafi verið gerð með samþykki stefnda.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að um spilaskuld sé að ræða og stefnandi hafi brotið gegn 183. og 184. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ekki verður talið að viðskipti með verðbréf geti fallið undir gildissvið þessara ákvæða, enda er það viðtekin skoðun að varlega skuli farið í skýringu refsiákvæða og þau verði að jafnaði ekki skýrð rýmra en orðalag þeirra gefur tilefni til. Samkvæmt venjulegum málskilningi teljast verðbréfaviðskipti ekki til fjárhættuspila. Skiptir þá ekki máli þó áhætta sé tekin.

Í bréfi lögmanns stefnda til bankaeftilits Seðlabanka Íslands er viðurkennt að viðskipti með vilnanir hafi ætíð verið útlistuð þannig að viðskiptin væru áhættusöm en líkurnar stefnda í hag og oft 75 á móti 25. Fullyrðingar um möguleika á slíkum hagnaði gáfu stefnda enga ástæðu til þess að ætla að hann hefði ávallt líkurnar með sér. Hér er og á það að líta sem fram kom við skýrslutökur fyrir dómi að einhvern tímann á meðan á viðskiptunum stóð hafi stefndi kvartað yfir lélegum árangri við framkvæmdastjóra stefnanda, sem sagði stefnda að viðskipti þessi væru mjög áhættusöm, en samt hélt stefndi viðskiptunum áfram. Verður því að telja að stefnda hafi verið ljóst að viðskipti hans væru áhættusöm og stefndi hafi tekið á sig áhættuna sem fylgdi viðskiptum þessum.

Þegar litið er til þess sem fram er komið um það hvernig viðskiptunum var háttað og svo þess að stefndi hafði ekki gert fjárvörslusamning við stefnanda, stefnda var sagt að viðskiptin væru áhættusöm og tók sjálfur ákvarðanir a.m.k. um sum viðskiptanna og ósannað er að nokkur viðskipti hafi verið gerð án hans samþykkis, þá verður ekki á það fallist að stefnandi hafi ekki veitt stefnda sérfræðiþjónustu og verður sýknukrafa stefnda byggð á þeirri málsástæðu því ekki tekin til greina. Sama er um fullyrðingar stefnda um að þjónusta stefnanda hafi verið ólögmæt. Hér er og á greinargerð bankaeftirlits Seðlabanka Íslands frá 15. maí 1997 að líta. Bankaeftirlitið sá ekkert athugavert við viðskiptin nema að rétt hefði verið að gera skriflegan samning.

Ekki hefur verið sýnt fram á að ákvæði 31. og 32. gr. laga nr. 7/1936  eigi við um viðskipti aðila og þá ekki heldur að víkja beri samningi aðila til hliðar á grundvelli 36. gr. A-D sömu laga.

Stefndi hefur hvorki upplýst hvaða þóknun hann hefur greitt til stefnanda né hvaða tjón hann telur sig hafa beðið vegna meintrar vanrækslu stefnanda. Kröfur þessar eru lítt rökstuddar.

Samkvæmt skjölum málsins seldi stefnandi hlutabréf í Sölusamtökum íslenskra fiskframleiðenda fyrir 137.740 kr.  Viðskipti þau áttu sér stað 25. júlí 1995 eða frá fyrri tíma en viðskipti þau sem málið er af risið.

Ekki hafa verið lögð fram gögn yfir bankakostnað, 6.105 kr., og verður krafa stefnanda vegna hans því ekki tekin til greina.

Með vísan til þess sem hér  hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að taka beri kröfur stefnanda, nema kröfuna um bankakostnað, til greina með vöxtum eins og segir í dómsorði. 

Stefndi greiði stefnanda málskostnað sem ákveðst 175.000 kr. þar með talinn virðisaukaskattur af málflutningsþóknun.

Málið dæma Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari, Sigríður Hrólfsdóttir rekstrarhagfræðingur og Yngvi Harðarson hagfræðingur.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Hallgrímur Jónsson, greiði stefnanda, Frjálsa fjárfestingarbankanum hf. 547.595 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 547.596 kr. frá 1. des. 1996 til greiðsludags og 175.000 kr. í málskostnað.