Hæstiréttur íslands
Mál nr. 668/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárskipti
|
|
Föstudaginn 16. janúar 2009. |
|
Nr. 668/2008. |
M(Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.) gegn K (Dögg Pálsdóttir hrl.) |
Kærumál. Fjárskipti.
Skiptastjóri við opinber skipti til fjárslita milli sambúðarfólks beindi til héraðsdóms ágreiningi málsaðila við skiptin. Ágreiningurinn laut að túlkun á niðurstöðu dóms Hæstaréttar í máli nr. 164/2008. Í dóminum var eignarhluti K í fasteign þeirra talinn vera 5,9% en eignarhluti M 94,1%. Í forsendum dómsins kom fram að eignarhlutfall K byggðist á því að hún hefði lagt fram tiltekna fjárhæð við kaupin sem hefði samsvarað 5,9% af heildarverði íbúðarinnar. Í dómi Hæstaréttar sem staðfesti úrskurð héraðsdóms var fallist á með K að umrædd fasteign væri til skipta við opinberu skiptin á milli aðila en ekki nettóandvirði hennar eins og M byggði á. Þar sem söluverð eignarinnar var 42.000.000 krónur bar K að fá í sinn hlut 5,9% af því eða 2,478.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2008 þar sem frumvarpi skiptastjóra að úthlutun vegna opinberra skipta málsaðila var breytt í þá veru að varnaraðili fengi í sinn hlut 2.478.000 krónur en dráttarvaxtakröfu varnaraðila var vísað frá dómi. Þá var kröfu varnaraðila, um að hún teldist eiga þriðjung áfallinna vaxta fram til 1. maí 2008 af bankareikningi þeim sem skiptastjóri varðveitti fjármuni aðila á, vísað frá dómi. Sóknaraðili krefst þess að frumvarp skiptastjóra að úthlutun úr félagsbúi málsaðila verði staðfest og að sóknaraðili fái í sinn hlut 94,1% af fjármunum búsins auk 94,1% áfallandi vaxta eins og þeir eru á uppgjörsdegi. Að öðru leyti krefst sóknaraðili staðfestingar á niðurstöðu hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili kærði úrskurðinn fyrir sitt leyti 3. desember 2008. Hún krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur að öðru leyti en því að sóknaraðili og lögmaður hans verði sameiginlega dæmd til að greiða varnaraðila málskostnað. Þá krefst hún kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Samkvæmt dómi Hæstaréttar 16. apríl 2008 í máli nr. 164/2008 milli aðila máls þessa telst eignarhluti varnaraðila í tilgreindri fasteign 5,9%. Í forsendum dómsins kemur skýrt fram að þetta eignarhlutfall byggðist á því að varnaraðili hefði lagt fram 2.240.000 krónur við kaup á eigninni og hefði fjárhæðin samsvarað 5,9% af heildarverði hennar. Má ótvírætt ráða af forsendunum að varnaraðili var ekki talin skuldari áhvílandi veðskulda. Þær voru taldar tilheyra sóknaraðila og hefðu nýst honum við skiptingu eignarhluta í eigninni. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 2008.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 25. maí 2007, var ákveðið að opinber skipti færu fram vegna sambúðarslita málsaðila. Með bréfi skiptastjóra, mótteknu 19. maí 2008, var ágreiningsefni máls þessa skotið til úrlausnar dómsins. Málið var þingfest 6. júní 2008 og tekið til úrskurðar 30. október 2008.
Sóknaraðili er K, kt. [...].
Varnaraðili er M, kt. [...].
Dómkröfur sóknaraðila eru:
1. Að drögum skiptastjóra að frumvarpi að úthlutun vegna opinberra skipta málsaðila verði breytt í þá veru að sóknaraðili fái í sinn hlut 2.478.000 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. maí 2008 til greiðsludags.
2. Að sóknaraðili teljist eiga þriðjung áfallinna vaxta fram til 1. maí 2008 af bankareikningi þeim sem skiptastjóri hefur varðveitt fjármuni aðila á.
Þá gerir sóknaraðili kröfu um að varnaraðili og lögmaður hans, Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl., greiði henni in solidum allan málskostnað vegna málsins að viðbættu álagi vegna 24,5% virðisaukaskatts.
Dómkröfur varnaraðila eru:
Að frumvarp skiptastjóra að úthlutun úr félagsbúi málsaðila verði staðfest og varnaraðili fái í sinn hlut 94,1% af fjármunum búsins auk 94,1% áfallandi vaxta eins og þeir eru á uppgjörsdegi skipta.
Þá er þess krafist að málskostnaðarkröfu sóknaraðila verði alfarið hafnað.
Varnaraðili krefst málskostnaðar úr hendi sóknaraðila samkvæmt málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts.
I
Í bréfi skiptastjóra kemur fram að með dómi Hæstaréttar Íslands þann 16. apríl 2008 hafi úrskurði héraðsdóms frá 28. febrúar 2008, þar sem m.a. var komist að þeirri niðurstöðu að fasteignin A væri 100% í eigu varnaraðila, verið hrundið og breytt hvað varðar fasteignina á þann hátt að við fjárslit á milli aðila teljist sóknaraðili eiga 5,9% hlut í henni en varnaraðili 94,1%.
Úthlutunargerð hafi legið fyrir á skiptafundi 23. apríl 2008 og hafi hún gert ráð fyrir að andvirði eignarinnar væri skipt í þeim hlutföllum sem greinir í dómi Hæstaréttar. Ekki hafi verið um endanlega úthlutunargerð að ræða þar sem fyrir hafi legið að hugsanlegur ágreiningur væri uppi vegna kostnaðar í tengslum við fasteignina.
Umboðsmaður sóknaraðila hafi mótmælt drögunum á þeirri forsendu að úthlutunin væri miðuð við hlutfall af nettóandvirði fasteignarinnar í búinu en ekki af brúttóverðmæti hennar. Þessu sjónarmiði hafi verið mótmælt af hálfu umboðsmanns varnaraðila. Hafi þar með verið kominn upp ágreiningur um úthlutun er tengdist túlkun á umræddum dómi Hæstaréttar Íslands.
Fyrir hönd sóknaraðila sé gerð sú krafa að við úthlutun af andvirði fasteignarinnar A, Garðabæ sé eignarhlutur hennar reiknaður af brúttóandvirði fasteignarinnar þ.e. verðmæti hennar áður en áhvílandi veðskuldir voru dregnar frá söluverðinu. Miðað við það ætti sóknaraðili að fá kr. 2.478.000 úthlutað af andvirði fasteignarinnar.
Fyrir hönd varnaraðila sé gerð sú krafa að úthlutað sé samkvæmt drögum að úthlutunargerð skiptastjóra þ.e. að við úthlutun af andvirði fasteignarinnar A sé eignarhlutur K reiknaður af nettóandvirði fasteignarinnar en með því næmi úthlutun til hennar kr. 57.343.
Með samningu draga að úthlutunargerð hafi legið fyrir frumafstaða skiptastjóra um með hvaða hætti ætti að úthluta andvirði fasteignarinnar A, Garðabæ. Hafi þessari afstöðu verið mótmælt og upp komið ágreiningur sem lýst hafi verið. Þrátt fyrir frumafstöðu skiptastjóra þá virðist ljóst af dómi Hæstaréttar Íslands að hlutfall sóknaraðila sé fundið út frá fjárframlagi hennar til fasteignakaupanna annars vegar og brúttóandvirði fasteignarinnar hins vegar.
Skiptastjóri hafi árangurslaust reynt að jafna ágreininginn.
II
Sóknaraðili byggir á að dómur Hæstaréttar vegna ágreinings aðila í máli nr. 164/2008 frá 16. apríl sl. sé skýr og afdráttarlaus og í honum felist að hún eigi að fá í sinn hlut 5,9% af heildarsöluverði A.
Í forsendum dóms Hæstaréttar segi: ... sóknaraðili [sic, á að vera varnaraðili, sem sé M innskot DP] lagði til megnið af þeim fjármunum sem fóru í kaup á þessari fasteign, aðallega með greiðslu peninga vegna sölu fasteignar sinnar að Lækjargötu og með lántöku. Hins vegar nýtti sóknaraðili stærstan hluta þess fjár er hún fékk vegna sölu á fasteign sinni að Framnesvegi til greiðslu skulda og hlutabréfakaupa og tók hún ekkert lán vegna fasteignakaupanna. Þó verður að líta til þess að óumdeilt er að sóknaraðili lagði 2.240.000 krónur, vegna sölu á fasteign sinni, inn á reikning varnaraðila á tilgreindu tímabili meðan hún sinnti heimili þeirra. Eins og sönnunarstöðu er háttað verður að telja þessar greiðslur hafa farið fram vegna fasteignakaupa aðila, en ekki vegna sameiginlegs kostnaðar þeirra við heimilishald, eins og miðað er við í úrskurði héraðsdóms. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsenda hins kærða úrskurðar er fallist á að varnaraðili hafi sýnt fram á raunveruleg fjárframlög aðila til kaupa á Laugateigi og síðar A hafi verið með þeim hætti að eignarhlutföll síðarnefndu fasteignarinnar skuli teljast önnur en þau sem skráð eru. Samkvæmt framanrituðu verður við það miðað að sóknaraðili hafi lagt fram 2.240.000 krónur til kaupa umræddrar fasteignar, en kaupverð hennar var 38.000.000 krónur. Í samræmi við þetta skal við opinber skipti til fjárslita milli aðila telja eignarhlut sóknaraðila í fasteigninni A 13 5,9%, en eignarhlut varnaraðila 94,1%.
Hlutfallstalan 5,9% fáist með því að sjá hvaða hlutfall af 38.000.000 kr. 2.240.000 kr. séu. Útreikningurinn passi við þá kröfu sóknaraðila að miða eigi við það að áhvílandi lán eigi að teljast á ábyrgð varnaraðila og henni óviðkomandi. Enda segi skýrt í forsendum dóms Hæstaréttar að varnaraðili hafi fjármagnað kaupin með lántökum og að sóknaraðili hafi ekkert lán tekið vegna fasteignakaupanna.
Augljóst sé því að sóknaraðili eigi við skiptin að fá í sinn hlut 5,9% af söluverði fasteignarinnar, sem var 42.000.000 kr. Hæstiréttur segi skýrt að lánin séu á ábyrgð varnaraðila en ekki sóknaraðila. Þetta þýði að af söluverði A eigi sóknaraðili að fá í sinn hlut 2.478.000 kr. Þá telji sóknaraðili að varnaraðila beri að greiða henni dráttarvexti á þá fjárhæð, sem byrji að leggjast á fjárhæðina 15 dögum eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar.
Í frumvarpi skiptastjóra séu gerð þau augljósu mistök að telja sóknaraðila eiga 5,9% af þeim fjármunum sem hann var með í vörslum sínum 23. apríl sl. og fái hann þannig þá niðurstöðu að sóknaraðili eigi að fá í sinn hlut nokkra tugi þúsunda í stað 2.478.000 kr. Skiptastjóri hafi viðurkennt þessi mistök sín í bréfi til héraðsdóms.
Þrátt fyrir þetta hafi varnaraðili ekki viljað sætta sig við að sóknaraðili fái í sinn hlut fjárhæð í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar.
Hæstiréttur hafi fallist á þá kröfu varnaraðila að hann teldist einn skuldari lánanna sem tekin voru vegna fasteignaviðskiptanna og teldist þar með megineigandi A. Varnaraðili hafi unnið málið að þessu leyti og verði að taka afleiðingum þess.
Krafa um hlutdeild í vöxtum af bankareikningi þeim sem skiptastjóri hefur varðveitt söluandvirði eignarinnar inná sé byggð á því að varnaraðili eigi samkvæmd Hæstaréttardóminum u.þ.b. þriðjung af þeirri fjárhæð, sem á reikningnum sé búin að vera, og því sé eðlilegt að hún njóti áfallinna vaxta af þeirri fjárhæð því til samræmis og fram til 1. maí 2008, en frá þeim tíma, sem miðist við 15 daga frá uppsögu héraðsdóms geri hún kröfu um að varnaraðili greiði henni dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. nánar ákvæði III. kafla þeirra laga.
Krafa um málskostnað sé byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. og 131. gr. Sóknaraðili telji að ágreiningi þessum hafi hún neyðst til að vísa til héraðsdóms að þarflausu.
Lögmanni varnaraðili hafi borið að skýra niðurstöðu Hæstaréttar fyrir varnaraðila til að koma í veg fyrir að málið færi í þann hnút sem það sé nú í. Lögmaðurinn beri því samábyrgð með varnaraðila á því að málið sé fyrir dómstólum.
III
Varnaraðili byggir á að honum beri við fjárslit málsaðila að fá í sinn hlut 94,1% þeirra fjármuna sem séu á fjárvörslureikningi skiptastjóra að frádregnum skiptakostnaði og að viðbættri 5,9% hlutdeild sóknaraðila í rekstrarkostnaði á þeim tíma sem leið frá sambúðarslitum þar til fasteignin að A var seld, eins og sýnt sé í frumvarpi skiptastjóra að úthlutun. Af frumvarpinu sé ljóst að söluandvirði A, þ.e. kr. 7.434.589, séu þeir fjármunir sem voru í búi málsaðila og það séu þeir fjármunir sem koma eigi til skipta milli málsaðila í þeim hlutföllum sem hlutfallsskipting Hæstaréttar geri ráð fyrir. Í frumvarpi skiptastjóra sé ráðstöfun framangreindrar fjárhæðar rakin, m.a. frádráttur vegna sölulauna fasteignarinnar og sé skiptastjóri þar með að gera grein fyrir ráðstöfun á eignum búsins. Aðrar eignir hafi ekki verið í búinu og því telji varnaraðili ekki unnt að miða 5,9% hlutfallstölu Hæstaréttar við annað en hlutfall af þeim eignum sem í búinu séu við lok skipta.
Dómkrafa í Hæstaréttarmálinu hafi lotið að því að viðurkenna eignarhlutföll i fasteigninni. Verið sé að tala um nettóeign málsaðila enda sé það nettóeign fasteignarinnar sem til ráðstöfunar sé á reikningi skiptastjóra. Skuldir geti ekki talist til eignar eins og sóknaraðili haldi fram, en þær hafi allar verið greiddar upp við sölu fasteignarinnar. Sú fjárhæð sem eftir standi, nettóeignin, sé sú fjárhæð sem skipta beri milli málsaðila og telji varnaraðili það skýrt af dómi Hæstaréttar. Í dómi Hæstaréttar segi: Eins og sönnunarstöðu er háttað verður að telja þessar greiðslur hafa farið fram vegna fasteignakaupa aðila, en ekki verið vegna sameiginlegs kostnaðar þeirra við heimilishald, eins og miðað er við í úrskurði héraðsdóms. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að varnaraðili hafi sýnt fram á að raunveruleg fjárframlög aðila til kaupa á C og síðar B hafi verið með þeim hætti að eignarhlutföll síðarnefndu fasteignarinnar skuli teljast önnur en þau sem skráð eru.
Varnaraðili telji alveg ljóst að sönnun um hlutfallsskiptingu Hæstaréttar miðist við greiðslur og fjárframlög, sem sé í samræmi við að um fjárslit milli aðila sé að ræða og því sé verið að skipta því fé sem til ráðstöfunar sé, söluandvirðinu, eins og frumvarp skiptastjóra geri ráð fyrir. Fasteignin hafi verið seld töluvert fyrir uppkvaðningu dóms á báðum dómstigum og telji varnaraðili því ljóst að dómstóllinn hafi verið að finna hlutfall til beitingar við skiptingu söluandvirðisins. Hæstiréttur sýni hvernig hlutfallstalan sé fundin en ljóst sé að henni beri að beita við skiptingu þess fjár, þ.e. þeirrar nettóeignar sem í búinu sé. Lánin hafi verið á nöfnum beggja málsaðila en varnaraðili hafi alla tíð greitt einn allar afborganir af þeim. Veðskuldirnar hafi hvílt bæði á eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni sem og á eignarhluta varnaraðila þar sem Þær hafi því hvílt óskipt á allri eigninni og beri því að draga þær frá áður en til úthlutunar komi milli málsaðila.
Niðurstaða Hæstaréttar hafi byggst á því að varnaraðila hafi tekist að sýna fram á að hann innti að hendi allar greiðslur vegna kaupverðs fasteignanna sem og greiðslur vegna afborgana lána og rekstrarkostnað vegna fasteignanna á sambúðartímanum og byggðist málatilbúnaður hans á því. Fasteignirnar hafi hins vegar verið þinglýstar í jöfnum hlutföllum á nöfn málsaðila og lánin tekin í jöfnum hlutföllum á nöfn beggja. Það orðalag sem Hæstiréttur tilgreini í dómi sínum að sóknaraðili hafi ekki tekið neitt lán vegna fasteignakaupanna sé því ekki rétt. Sóknaraðili hafi viðurkennt fyrir dómi að hún hefði ekki innt af hendi eina einustu krónu vegna fasteignakaupanna og ekki eina krónu vegna afborgana lána og rekstrarkostnaðar. Það hafi því verið greiðsluþátturinn sem grundvallaði niðurstöðu eignarhlutfalla fyrir dóminum og því beri að miða við að skipta milli aðila þeim fjármunum sem standi eftir í búinu þegar búið sé að greiða allar skuldir, þ.e. söluandvirði fasteignarinnar, í þeim hlutföllum sem Hæstiréttur tilgreini.
Frumvarp skiptastjóra sé rétt og beri dóminum að staðfesta það, þar sem það miði við úthlutun á þeim fjármunum sem séu til skipta milli aðila inni á reikningi skiptastjóra í þeim hlutföllum sem Hæstiréttur tilgreini. Frumvarpið sé í samræmi við venjubundna framkvæmd við skipti til fjárslita milli aðila, þ.e. að skipta þeim fjármunum sem til staðar séu við lok skipta í þeim hlutföllum sem dómur hafi ákvarðað. Aðilar eigi einnig að fá hlutdeild í vaxtakostnaði sem á reikningnum sé í samræmi við hlutdeild sína, þ.e. sóknaraðili 5,9% af vöxtum og varnaraðili 94,1%. Varnaraðili mótmæli harðlega fullyrðingum í greinargerð sóknaraðila að skiptastjóri hafi skipt um skoðun og viðurkennt mistök, þvert á móti hafi engin breyting verið gerð á frumvarpinu. Skiptastjóri segi að ljóst sé að hlutfallstala sóknaraðila sé fundin út frá kaupverði A en hann segi ekkert um að hlutfallstölunni skuli beitt með öðrum hætti á þá fjármuni sem í búinu séu en frumvarp hans að úthlutun sýni.
Varnaraðili telji túlkun sóknaraðila fráleita og í algjöru ósamræmi við allt í málinu, ef taka eigi fjárframlag sóknaraðila kr. 2.240.000.- út úr öllu samhengi í eignum búsins, hlutfalla það við kaupverð A, og reikna meinta úthlutun sóknaraðila svo út frá söluverði en ekki söluandvirði eins og kröfur sóknaraðila byggi á. Söluverð A hafi aldrei verið eign málsaðila nema að hluta, þar sem kröfuhafar áhvílandi lána hafi átt stærstan hluta í eigninni. Því telji varnaraðili að það sé einungis söluandvirðið sem geti komið til skipta, þ.e. sá hluti eignarinnar sem var í eigu málsaðila.
Þá bendi varnaraðili á þá staðreynd að greiðslur sóknaraðila, þ.e. kr. 2.240.000 hafi allar verið inntar af hendi áður en kaupin á A fóru fram, þ.e. meðan aðilar voru eigendur að fasteigninni að Laugateig 20. Greiðslurnar hafi verið inntar af hendi á tímabilinu frá 3. janúar 2006 til 20. september 2006. Kaupsamningur vegna A hafi verið undirritaður 20. september 2006 en þann dag hafi sóknaraðili millifært kr. 100.000.- inn á reikning varnaraðila. Allar aðrar greiðslur frá sóknaraðila hafi farið fram eftir þinglýsingu afsals að Laugateig 20 og áður en fasteignin að A var keypt. Í málinu liggi skýrt fyrir sbr. kaupsamning um Laugateig að varnaraðili reiddi fram a.m.k. 7.000.000 í peningum beint til kaupa á Laugateig 20, en miðað við túlkun sóknaraðila ætti varnaraðili einungis að fá í sinn hlut kr. 4.478.670 (6.956.670 - 2.478.000). Túlkun sóknaraðila leiði til þeirrar niðurstöðu að sóknaraðili ætti að njóta ávöxtunar á það fé sem hún lagði til kaupanna en varnaraðili að skerðast um tæplega helming þrátt fyrir að söluverð eignarinnar hafi hækkað umfram hækkun á skuldum. Túlkun sóknaraðila feli í sér að sóknaraðili fengi í sinn hlut ríflega 35% af þeim fjármunum sem séu í búinu en varnaraðili 65% þrátt fyrir að Hæstiréttur telji hlut sóknaraðila einungis 5,9%. Um sé að ræða hlutfallstölur sem nota eigi til slita á fjárfélagi aðila. Í því felist skipting á þeim fjármunum sem til staðar séu í búinu inn á reikningi skiptastjóra en ekki söluverði fasteignar sem aldrei hafi komið inn á reikning málsaðila enda aldrei verið eign þeirra. Söluverð A sé ekki til skipta eins og kröfur sóknaraðila gangi út á. Sóknaraðili hafi verið skuldari að lánunum með varnaraðila eins og gögn staðfesti og lánin hvílt óskipt á allri fasteigninni, þ.m.t. eignarhlutum beggja aðila. Verði sóknaraðili því að bera ábyrgð á því með sama hætti og varnaraðili enda frá upphafi verið ljóst að ágreiningurinn stæði um skiptingu söluandvirðis eignarinnar að frádregnum skuldum. Telji varnaraðili túlkun sóknaraðila um úthlutun úr búinu bersýnilega ranga og órökstudda, með hliðsjón af atvikum öllum.
Krafa sóknaraðila fyrir dómi nú sé í engu samræmi við afstöðu sóknaraðila á fyrri stigum málsins eins og fundargerðir skiptafundar og hreyfingalisti um ráðstöfun fjár staðfesti. Ljóst sé að á fyrri stigum hafi allir málsaðilar verið sammála um að við úthlutun bæri að miða við söluandvirði fasteignarinnar og hafi m.a. ágreiningur á fyrri stigum snúist um það hversu stóran hluta þess mætti greiða til varnaraðila
Varnaraðili krefjist þess að dómurinn hafni kröfu sóknaraðila um hlutdeild í vöxtum af bankareikningi í öðrum hlutföllum en 5,9%. Dómur Hæstaréttar verði ekki túlkaður með þeim hætti að sóknaraðili eigi þriðjung vaxtanna eins og krafist sé. Dóm Hæstaréttar beri að túlka með sama hætti á eignarhluta og vexti á söluandvirðið, þ.e. að sóknaraðili eigi 5,9% þeirra fjármuna sem á bankareikningi séu sem og 5,9% þeirra vaxta sem þar séu. Engin rök eða lagaskilyrði standi til annarrar túlkunar.
Varnaraðili krefjist þess að dráttarvaxtakröfu sóknaraðila verði einnig hafnað þar sem dómur Hæstaréttar grundvalli ekki þá fjárkröfu sem sóknaraðili krefjist úthlutunar á og sé því engan veginn hægt að líta svo á að gjalddagi kröfunnar sé kominn. Eðlileg málsmeðferð eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar hafi verið sú að halda skiptafund. Þar hafi komið upp ágreiningur um úthlutun söluandvirðisins af hálfu sóknaraðila. Það sé sóknaraðili sem ekki hafi viljað samþykkja frumvarp skiptastjóra, það sé afstaða sóknaraðila sem leiði til þess að skiptastjóri telji nauðsynlegt að vísa ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms. Úr ágreiningi um kröfuna hafi því ekki verið leyst og séu því hvorki skilyrði né lagaheimild til að krefjast dráttarvaxta úr hendi varnaraðila vegna þeirrar afstöðu sóknaraðila sem leiði til dráttar á því að báðir málsaðilar fái greitt í sinn hlut af söluandvirði búsins.
Sóknaraðili hafi allt frá upphafi staðið í vegi fyrir réttri úthlutun úr búinu og m.a. ekki fallist á útborgun skiptastjóra úr búinu, eftir vandlega athugun á öllum peningafærslum búsins eins og fundargerð skiptafundar frá 20. desember staðfesti. Skiptastjóri hafi útbúið hreyfingalista sem hann taldi óumdeildan og vildi verða við kröfu varnaraðila um greiðslu á kr. 2.700.000 en gegn neitun sóknaraðila hafi ekki verið orðið við því.
Varðandi málskostnaðarkröfuna bendi varnaraðili á þá staðreynd sem liggi fyrir í gögnum málsins, að það sé sóknaraðili sem búi til þann ágreining sem uppi sé. Frumvarp skiptastjóra staðfesti það, enda sé varnaraðili í málinu einungis að krefjast staðfestingar á frumvarpi skiptastjóra. Fullyrðingar sóknaraðila um að skiptastjóri sé búinn að leiðrétta einhvern misskilning séu hrein ósannindi eins og gögn málsins staðfesti og því ljóst að málatilbúnaðurinn nú sé eingöngu tilkominn vegna afstöðu sóknaraðila sem geri í málinu þá aðalkröfu að frumvarpi skiptastjóra verði breytt í þá veru sem falli að túlkun hennar. Sé niðurstaða Hæstaréttar svo skýr, sem sóknaraðili haldi fram í greinargerð sinni, sé ljóst að varnaraðili og skiptastjóri túlki þá niðurstöðu Hæstaréttar á sama veg, eins og það birtist í frumvarpi skiptastjóra. Fráleitt sé að varnaraðili sé að reyna að hafa fé af sóknaraðila, eins og haldið sé fram í greinargerð, varnaraðili krefjist í málinu staðfestingar á frumvarpi skiptastjóra og þar með þeirri túlkun Hæstaréttardómsins að beita eigi hlutfallstölunni á söluandvirðið sem sé á reikningi skiptastjóra.
Því sé algerlega hafnað að skilyrði séu skv. 1. eða 4. mgr. 131. gr. laga 91/1991 til að krefjast málskostnaðar úr hendi lögmanns varnaraðila enda staðfesti frumvarp skiptastjóra að afstaða varnaraðila fari saman við afstöðu skiptastjóra. Þvert á móti sé frumvarpið staðfesting á því að túlkun varnaraðila sé í samræmi við afstöðu skiptastjóra. Lögmaður varnaraðila telji framkomu lögmanns sóknaraðila og þann málatilbúnað sóknaraðila að krefja lögmanninn persónulega um greiðslu málskostnaðar fela í sér skýra vanvirðingu og brot á 25. og 27. gr. siðareglna lögmanna enda krafa sem þessi til þess fallin að valda álitsspjöllum umfram það sem málið gefi tilefni til.
Varnaraðili krefjist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila skv. málskostnaðarreikningi skv. XXI. kafla laga 91/1991. Horfa verði til þess að varnaraðili krefjist staðfestingar á afstöðu skiptastjóra og hafi unnið málið 100% í héraði og 94,1% í Hæstarétti án þess að hafa fengið sér tildæmdan málskostnað eins og beri að gera skv. 1. mgr. 130. gr. eml. Ótvírætt sé að niðurstaða Hæstaréttar um 94,1% eignarhlut feli í sér að sóknaraðili hafi tapað málinu í öllu verulegu. Varnaraðili hafi haft verulegan kostnað af málaferlunum en sóknaraðili hafi haft gjafsókn. Enn haldi sóknaraðili ágreiningnum áfram og því beri honum að greiða málskostnað nú.
IV.
Í forsendum dóms Hæstaréttar í málinu nr. 164/2008 kemur fram að sóknaraðili hafi nýtt stærstan hlut þess fjár er hún fékk vegna sölu á fasteign sinni til greiðslu skulda og hlutabréfakaupa og að hún hafi ekkert lán tekið vegna fasteignakaupanna. Hins vegar verði að telja, eins og sönnunarstöðu sé háttað, að kr. 2.240.000 sem sóknaraðili lagði inn á reikning varnaraðila hafi farið fram vegna fasteignakaupa aðila. Samkvæmt því verði við það miðað að sóknaraðili hafi lagt fram 2.240.000 krónur til kaupa á fasteigninni A, en kaupverð hennar hafi verið 38.000.000 krónur. Í samræmi við þetta skuli við opinber skipti til fjárslita milli aðila telja eignarhlut sóknaraðila í fasteigninni 5,9%, en eignarhlut varnaraðila 94,1%.
Ljóst er af framangreindu að eignarhlutfall sóknaraðila í fasteigninni er fundið út frá fjárframlagi hennar til fasteignakaupanna annars vegar og brúttóandvirði fasteignarinnar hins vegar.
Umrædd fasteign er til skipta við opinberu skiptin á milli aðila en ekki nettóandvirði hennar eins og varnaraðili byggir á. Samkvæmt því, og þar sem fyrir liggur að söluverð eignarinnar var 42.000.000 króna, ber sóknaraðila í samræmi við tilvitnaðan dóm Hæstaréttar að fá í sinn hlut 5,9% af því, eða 2.478.000 kr. Verður því tekin til greina sú krafa sóknaraðila að drögum skiptastjóra að frumvarpi að úthlutun vegna opinberra skipta málsaðila verði breytt í þá veru að sóknaraðili fái í sinn hlut 2.478.000 kr.
Í máli þessu verður ekki tekin afstaða til annarra ágreiningsefna en þeirra sem skiptastjóri vísaði til dómsins með bréfi sínu dags. 15. maí 2008, sbr. 3. tl. 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991.
Verður þegar af þeirri ástæðu að vísa kröfu sóknaraðila um dráttarvexti, af 2.478.000 kr. frá 1. maí 2008 til greiðsludags, frá dómi. Svo og kröfu sóknaraðila um að sóknaraðili teljist eiga þriðjung áfallinna vaxta fram til 1. maí 2008 af bankareikningi þeim sem skiptastjóri hefur varðveitt fjármuni aðila á.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Drögum skiptastjóra að frumvarpi að úthlutun vegna opinberra skipta málsaðila er breytt í þá veru að sóknaraðili fái í sinn hlut 2.478.000 kr.
Dráttarvaxtakröfu sóknaraðila er vísað frá dómi.
Kröfu sóknaraðila, um að sóknaraðili teljist eiga þriðjung áfallinna vaxta fram til 1. maí 2008 af bankareikningi þeim sem skiptastjóri hefur varðveitt fjármuni aðila á, er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.