Hæstiréttur íslands
Mál nr. 237/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Áfrýjunarfjárhæð
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Fimmtudaginn 8. maí 2008. |
|
Nr. 237/2008. |
Þrotabú Angelo ehf. (Bjarni Hauksson hdl.) gegn Iramghan Allahi Malik (Karl Ó. Karlsson hrl.) |
Kærumál. Áfrýjunarfjárhæð. Frávísun frá Hæstarétti.
Máli var vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti þar sem krafa sú sem deilt var um náði ekki áfrýjunarfjárhæð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. apríl 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kært er ákvæði í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2008, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að við gjaldþrotaskipti á búi sóknaraðila yrði launakröfu varnaraðila að fjárhæð 101.124 krónur skipað í réttindaröð sem búskröfu samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að framangreindri kröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt 3. málslið 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 verður úrskurði, sem felur í sér lokaákvörðun um ágreiningsefni, ekki skotið til Hæstaréttar nema fullnægt sé almennum skilyrðum til áfrýjunar dóms í einkamáli. Áfrýjunarfjárhæð samkvæmt 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er nú 513.344 krónur. Er því ekki fullnægt lagaskilyrðum fyrir kæru þessari. Málinu verður því sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili, þrotabú Angelo ehf., greiði varnaraðila, Iramghan Allahi Malik, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2008.
Með bréfi skiptastjóra mótteknu 9. október 2007 var ágreiningsefni máls þessa skotið til úrlausnar dómsins. Málið var þingfest 2. nóvember 2007 og tekið til úrskurðar 27. febrúar sl.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkennd verði við gjaldþrotaskipti varnaraðila, þrotabús Angelo ehf., krafa sóknaraðila, Imramghan Malik, að fjárhæð 413.642 kr. og að kröfunni verði að hluta, eða að fjárhæð 101.124 kr. skipað í réttindaröð sem búskröfu samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, og að hluta, eða að fjárhæð 312.518 kr., skipað í réttindaröð sem forgangskröfu samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Til vara krefst sóknaraðili þess að viðurkennd verði við gjaldþrotaskipti varnaraðila, þrotabús Angelo ehf., krafa sóknaraðila, Imramghan Malik, að fjárhæð 238.835 kr., og að kröfunni verði að hluta, eða að fjárhæð 64.029 kr., skipað í réttindaröð sem búskröfu samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, og að hluta eða að fjárhæð 174.806 kr., skipað í réttindaröð sem forgangskröfu samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Varnaraðili, Þrotabú Angelo ehf., krefst þess að sú ákvörðun skiptastjóra í þrotabúinu að hafna kröfum sóknaraðila í búið sem lúti að tímabilinu eftir úrskurðardag gjaldþrotaskipta 14. febrúar 2006, verði staðfest. Þá er krafist málskostnaðar af hálfu varnaraðila.
I
Sóknaraðili starfaði á veitingastaðnum Angelo frá 29. október 2005 og kveðst hann hafa unnið þar til 11. mars 2006. Félagið Angelo ehf., rekstraraðili veitingastaðarins, var úrskurðað gjaldþrota 14. febrúar 2006 og er fyrri innköllun dagsett 17. febrúar 2006. Sóknaraðili lýsti áætlaðri kröfu um greiðslu vangoldinna launa í þrotabúið 1. maí 2006, en skiptastjóri hafnaði kröfunni. Skiptastjóri féllst á að sóknaraðili lýsti leiðréttri kröfu í búið og var það gert 4. október 2006. Krafan var að höfuðstól 616.667 krónur, vegna eftirstöðva launa fyrir janúar, launa fyrir febrúar og fram til 11. mars, auk skaðabóta vegna launa í uppsagnafresti reiknuðum til loka apríl, vegna orlofs, desemberuppbótar og útlagðs kostnaðar.
Skiptastjóri samþykkti kröfur sóknaraðila að því marki sem þær verða raktar til starfa sóknaraðila fyrir uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar varnaraðila. Ágreiningur fyrir héraðsdómi snýr að þeim hluta kröfunnar sem varðar laun fyrir vinnu frá úrskurðardegi, 14. febrúar 2006, til 11. mars 2006 og skaðabætur vegna launa á uppsagnarfresti frá 11. mars 2006 til loka apríl 2006.
Fram kemur í greinargerð varnaraðila að skiptastjóri hafi reynt að grennslast fyrir um starfsemi veitingastaðarins en ekki hafi verið starfsemi þar þegar hann fór á vettvang. Einnig hafi verið erfiðleikum háð að ná í fyrirsvarsmenn félagsins. Í skýrslu sem tekin var af Hönnu Sigríði Magnúsdóttur, stjórnarmanni í félaginu, 15. maí 2006, er meðal annars haft eftir henni að rekstri hafi lokið 25. febrúar, að hana minnti. Félagið hafi rekið veitingastað að Laugavegi en leigusamningi lokið þegar til gjaldþrotsins kom. Tveir starfsmenn félagsins hafi starfað fram til þess dags sem rekstri lauk. Hún kvað bankaviðskipti hins gjaldþrota félags hafa verið í Landsbanka Íslands, en reikningsnúmer verið 6222. Þá hafi annar reikningur verið notaður sem skráður sé Argenta ehf., félag í hennar eigu.
Sóknaraðili kveðst hafa fengið útgefna tvo launaseðla á þeim tíma er hann starfaði hjá Angelo, annars vegar vegna nóvember 2005 og hins vegar vegna janúar 2006. Engum gjöldum hafi verið skilað til hins opinbera eða til lífeyrissjóðs eða stéttarfélags.
Í málinu liggja frammi launaseðlar frá 30. nóvember 2005 og 31. janúar 2006. Þá eru lagðar fram tímaskráningar fyrir tímabilið frá október 2005 til og með 11. mars 2006, auk tölvuútskrifta um færslur af reikningi Argenta ehf. á reikning sóknaraðila í nóvember og desember 2005 og janúar og febrúar 2006.
Í skýrslu sóknaraðila fyrir dómi kom fram að tímaskráningarnar stöfuðu frá honum sjálfum en starfsmenn hefðu skrifað tíma sína í bók á barnum. Hann hefði ekki fengið greidd laun þrátt fyrir að hafa ítrekað beðið um þau og því hefði hann loks hætt að mæta til vinnu 12. mars 2006. Hann kvaðst ekki hafa vitað af gjaldþrotaskiptunum og ekki hafa hugsað um það hvaða fyrirtæki væri eigandi reiknings sem launin hans væru greidd af. Hann kvað veitingastaðinn hafa verið opinn frá fjögur eða fimm á daginn og fram eftir kvöldi, en staðurinn hafi haft veitingaleyfi til eitt eftir miðnætti.
II
Sóknaraðili byggir á að kröfu hans um laun með orlofi vegna unninna stunda frá úrskurðardegi til og með síðasta starfsdags 11. mars 2006 beri að viðurkenna sem búskröfu í þrotabúið í samræmi við 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, sbr. einnig 2. mgr. 98. gr. sömu laga. Jafnframt að kröfu um skaðabætur er jafngildi launum á uppsagnarfresti út aprílmánuð 2006 beri að viðurkenna sem forgangskröfu.
Skiptastjóra hafi meðal annars borið að ganga úr skugga um hvort atvinnurekstur væri í gangi hjá varnaraðila, taka ákvörðun strax um hvort atvinnurekstri skyldi fram haldið eður ei og að tilkynna starfsmönnum varnaraðila um gjaldþrotið og ákvörðun sína, sbr. 88. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili hafi verið úrskurðaður gjaldþrota 14. febrúar 2006 og ljóst að skiptastjóri hafi þegar tekið við stjórn búsins, en auglýsing skiptastjóra um innköllun sé dagsett 17. febrúar 2007.
Þegar gjaldþrotaúrskurður sé kveðinn upp þurfi skiptastjóri að ákveða hvort þrotabú taki við réttindum og skyldum samkvæmt ráðningarsamningum starfsmanna, sbr. 1. mgr. 98. laga nr. 21/1991. Þessari skyldu hafi skiptastjóri ekki sinnt heldur virðist hann hafa látið viðgangast að veitingastaður varnaraðila væri áfram opinn eftir úrskurðardag og starfsmenn þar enn að störfum í tæpan mánuð. Telja verði að skiptastjóri hafi með því brugðist lögboðnum starfsskyldum sínum. Afleiðingin sé sú að sóknaraðili hafi áfram verið við störf eftir uppkvaðningu úrskurðarins og eigi hann skýlausa kröfu til þess að laun hans vegna unninna stunda fram til riftunardags njóti stöðu sem búskrafa skv. 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga.
Af hálfu sóknaraðila er ennfremur á því byggt að verði niðurstaðan sú að þrotabúið eigi ekki eignir til þess að mæta búskröfunni beri skiptastjóri sjálfstæða skaðabótaábyrgð gagnvart sóknaraðila, sbr. einnig 5. mgr. 77. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili bendir einnig á að samkvæmt 87. gr. laga nr. 21/1991 skuli skiptastjóri þegar og tafarlaust grípa til ákveðinna aðgerða, meðal annars svipta þrotamann umráðum eigna og gera ráðstafanir til að fá bókhaldsgögn þrotamanns í hendur. Samkvæmt fundargerð dagsettri 17. maí 2006 hafi skiptastjóri ekki verið búinn að fá bókhaldsgögn varnaraðila í hendur á því tímamarki. Renni þetta frekari stoðum undir þá röksemd að ekki hafi verið staðið með forsvaranlegum hætti að búskiptum.
Að mati sóknaraðila stoði ekki fyrir skiptastjóra að bera því við að hann hafi ekki haft vitneskju um rekstur varnaraðila. Ekki verði heldur fallist á þá málsástæðu skiptastjóra, gegn skýlausum ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga og yfirlýsingu fyrrverandi forsvarsmanns varnaraðila, að sóknaraðili hafi starfað fyrir aðila sem hafi verið búinu óviðkomandi eftir töku bús varnaraðila til gjaldþrotaskipta. Sönnunarbyrði hvíli á skiptastjóra hvað þetta varði. Ljóst sé að fyrirsvarsmaður varnaraðila, Hanna Sigríður Magnúsdóttir, hafi viðurkennt í skýrslutöku að varnaraðili hafi rekið veitingastaðinn Angelo áfram eftir uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar og að rekstri staðarins hafi ekki lokið fyrr en í kringum 25. febrúar 2006, að hana minnti, eins og segi í skýrslu sem tekin var af henni hjá skiptastjóra 15. maí 2006. Sóknaraðili hafi í einu og öllu rækt starfsskyldur sínar samkvæmt ráðningarsambandi sínu við varnaraðila líkt og hann hafi talið sér skylt enda um að ræða vinnu í þágu varnaraðila sem ekki hafi verið stöðvuð með lögmæltum hætti og tilheyrandi aðgerðum skiptastjóra.
Kröfu um laun frá úrskurðardegi til síðasta starfsdags, það er tímabilið 14. febrúar til 11. mars 2006, sé samkvæmt framangreindu lýst sem búskröfu skv. 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga..
Kröfu um skaðabætur er jafngildi rétti til launa á uppsagnarfresti sé lýst sem forgangskröfu skv. 2. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Eftir 11. mars 2006 hafi sóknaraðili hætt vinnu hjá varnaraðila þar sem honum hafi verið tjáð að rekstri væri hætt. Hafi þetta jafngilt fyrirvaralausri riftun á ráðningarsamningi sóknaraðila og eigi sóknaraðili því, eftir það tímamark, skaðabótakröfu að jafngildi launa út uppsagnarfrest eða til aprílloka. Samkvæmt orðalagi greinds ákvæðis skipti ekki máli hvort slit á vinnusamningi eigi sér stað fyrir eða eftir frestdag í skilningi laga nr. 21/1991.
Krafa sóknaraðila um greiðslu launa fyrir tímabilið 14. febrúar til 11. mars 2006 grundvallist á samtímaskráningu hans sjálfs. Um sönnun og sönnunarbyrði sé vísað til stjórnunarréttar varnaraðila og þess að hann sé bókhaldsskyldur að lögum. Staðhæfingum og gögnum sóknaraðila um það hversu lengi sóknaraðili hafi unnið fyrir varnaraðila hafi ekki verið hnekkt af hálfu varnaraðila. Krafa sóknaraðila sé reiknuð út frá gildandi tímakaupi hans, 922,5 kr. Tekið hafi verið tillit til innborgana á starfstíma sóknaraðila. Að því er varði kröfu sóknaraðila um skaðabætur að jafngildi launa á uppsagnarfresti fyrir tímabilið 11. mars til 30. apríl, þá sé lagt til grundvallar að skv. grein 1.4.1. í kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins teljist 172 stundir vera fullt mánaðarstarf. Krafa um uppsagnarfrest taki mið af þeirri forsendu, en til frádráttar komi krafa um greiðslu fyrir unnar stundir 1.-11. mars, 36,5 stundir, sem sé hluti búskröfu. Þá sé gerð krafa um greiðslu orlofs ofan á laun, 10.17%, sbr. ákvæði laga nr. 30/1987 um orlof og grein 5.1.1. í framangreindum kjarasamningi.
Aðalkrafa sóknaraðila sundurliðast svo:
Búskrafa:
Laun vegna 14. febrúar til 11. mars 2006 (99,5 st.*922,5 kr.) 91.789 kr.
Orlof 10,17% 9.335 kr.
samtals 101.124 kr.
Forgangskrafa:
Skaðabótakrafa: Ígildi launa á uppsagnarfresti tímabilið
11. mars til 31. mars 2006 (99,5 st. (172 st.-36,5 st.)*922,5 kr.) 124.999 kr.
1.-30. apríl 2006 (172 st.*922,5 kr.) 158.670 kr.
Orlof 10,17% 28.849 kr.
Samtals 312.518 kr.
Aðalkrafa samtals 416.642 kr.
Sóknaraðili kveður varakröfu sína byggja á sömu málsástæðum og lagarökum og aðalkröfu. Krafan sé sett fram ex tudo ef svo ólíklega vildi til að dómurinn teldi ósannað að sóknaraðili hefði verið við störf til 11. mars 2006. Taki varakrafa þannig mið af frásögn fyrirsvarsmanns varnaraðila um að rekstri hafi verið lokið 25. febrúar 2006. Sé krafa um að laun fyrir unnar stundir frá 14. febrúar 2006 til 25. febrúar 2006 njóti stöðu sem búskrafa, og að krafa um greiðslu skaðabóta er jafngildi launum í uppsagnarfresti í marsmánuði 2006 njóti þá stöðu sem forgangskrafa.
Sóknaraðili sundurliðar varakröfu sína svo:
Búskrafa:
Laun vegna 14. febrúar til 25. febrúar 2006 (63 st.*922,5 kr.) 58.118 kr.
Orlof 10,17% 5.911 kr.
Samtals 64.029 kr.
Forgangskrafa:
Skaðabótakrafa: ígildi launa á uppsagnarfresti tímabilið
1.-31. mars 2006 (172 st.*922,5 kr.) 158.670 kr.
Orlof 10,17% 16.136 kr.
Samtals 174.806 kr.
Varakrafa samtals 238.835 kr.
Um málskostnaðarkröfu vísar sóknaraðili til ákvæða laga nr. 91/1991, einkum 129. og 130. gr., sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.
III
Varnaraðili byggir á því að við uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti verði til nýr lögaðili sem lúti forræði skiptastjóra í búinu. Málatilbúnaður sóknaraðila virðist byggja á að þrotabú sé sami aðili og hið gjaldþrota félag og að fyrirsvarsmenn gjaldþrota félags geti skuldbundið þrotabú eftir úrskurðardag. Það að fyrirsvarsmaður gjaldþrota félags hunsi boðanir skiptastjóra til fundar og um afhendingu gagna geti hins vegar ekki gert þrotabúið ábyrgt. Nærtækara sé að telja fyrirsvarsmanninn sjálfan ábyrgan.
Varnaraðili kveður þrotabúið eða skiptastjóra ekki hafa staðið í neinum rekstri í nafni þrotabúsins eða samþykkt hann, þá hafi búið hafi ekki haft neinar tekjur. Virðist tekjur af rekstrinum ekki hafa runnið inn á reikning í eigu hins gjaldþrota félags. Ýmislegt bendi til þess að sóknaraðili hafi í raun ekki verið starfsmaður Angelo ehf. við uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti 14. febrúar 2006 og til þess að aðilaskipti hafi orðið að rekstri veitingastaðarins við uppkvaðningu úrskurðar. Ljóst sé af bankayfirliti að sóknaraðili hafi ekki fengið nein laun greidd frá Angelo ehf. á árinu 2006, þá hafi hann ekki lagt fram neinn launaseðil fyrir febrúarmánuð 2006 frá hinu gjaldþrota félagi. Komið hafi fram af hálfu lögmanns sóknaraðila að sóknaraðili hafi fengið laun greidd frá öðru félagi, Argenta ehf., en það veki spurningar um grandleysi sóknaraðila varðandi gjaldþrotaskiptin, sem og hugsanleg aðilaskipti að ráðningarsamningi sóknaraðila. Í tölvupósti frá lögmanni sóknaraðila til skiptastjóra 11. maí 2006 hafi þannig verið upplýst að sóknaraðili hafi fengið „sumar launagreiðslur a.m.k.“ frá félagi að nafni Argenta ehf. Þær upplýsingar komi reyndar heim og saman við ummæli Hönnu Sigríðar Magnúsdóttur, fyrirsvarsmanns Angelo ehf., í skýrslutöku um að bankareikningur skráður á Argenta ehf. hafi verið notaður í rekstri hins gjaldþrota félags. Þá samræmist það ennfremur bankayfirliti um færslur á reikningi hins gjaldþrota félags, en af því virðist mega álykta að rekstur félagsins hafi í raun verið orðinn að engu. Bendi þetta til þess að Argenta ehf. hafi í raun verið búið að taka reksturinn yfir í ársbyrjun 2006.
Varnaraðili telur margt benda til þess að rekstur veitingastaðarins hafi haldið áfram af hálfu fyrirsvarsmanns félagsins, eftir að úrskurðað var um gjaldþrotaskipti. Óljóst sé hversu lengi sá rekstur hafi staðið og hver hafi verið rekstraraðili. Rekstur veitingastaðarins staðfesti ekki að skiptastjóri hafi samþykkt reksturinn með nokkrum hætti eða að hann hafi verið á vegum þrotabúsins. Fyrirsvarsmenn gjaldþrota félaga hafi ekkert umboð til að skuldbinda þrotabú og þrotabú verði ekki dregin til ábyrgðar vegna athafna fyrirsvarsmannanna eftir úrskurðardag gjaldþrotaskipta, enda eigi fyrirsvarsmönnunum að vera kunnugt um yfirvofandi gjaldþrot og á þeim hvíli rík ábyrgð í tengslum við gjaldþrot, fyrir og eftir úrskurð. Auk þess sé algengt að aðilaskipti eigi sér stað á rekstri við gjaldþrot, ekki síst í þeirri atvinnugrein sem um sé að ræða í þessu máli. Ef fallist yrði á kröfur sóknaraðila merkti það í raun að fyrirsvarsmenn gjaldþrota félaga beri enga ábyrgð á því að stöðva rekstur þegar ljóst megi vera að félag stefni í þrot, öll ábyrgð í þeim efnum hvíli á þrotabúi eða skiptastjóra óháð vitneskju skiptastjóra um rekstur. Benda megi á í þessu sambandi að nánast ómögulegt geti verið fyrir skiptastjóra að vita af rekstri.
Virðist málatilbúnaður sóknaraðila byggja á því að þrotabú eða skiptastjóri beri hreina hlutlæga ábyrgð, en það eigi sér enga stoð í lögum. Í þessu sambandi vísar varnaraðili til ákvæðis 64. gr. laga nr. 21/1991, en þar geti í 2. mgr. um skyldu þeirra skuldara sem séu bókhaldsskyldir til að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta þegar greiðsluerfiðleikar séu orðnir slíkir að ekki verði talið sennilegt að þeir muni líða hjá innan skamms tíma. Ákvæðið endurspegli ríka frumkvæðisskyldu og ábyrgð fyrirsvarsmanna í félögum fyrir og við gjaldþrot og samræmist ekki málatilbúnaði sóknaraðila um nánast hlutlæga ábyrgð þrotabúa á gjörðum fyrirsvarsmanna.
Skiptastóri hafi rækt allar skyldur sínar samkvæmt lögum og mótmælir öllum staðhæfingum sóknaraðila um annað. Sú skylda hvíli á skiptastjóra samkvæmt 88. gr. laga nr. 21/1991 að ákveða hvernig staðið verði að atvinnurekstri þrotabúsins. Þessi skylda verði ekki túlkuð svo rúmt að skiptastjóri eða þrotabú geti orðið skuldbundið vegna rekstrar sem eigi sér stað án vitneskju skiptastjóra. Ákvæði 2. mgr. 98. gr. sömu laga byggi augsýnilega á því að skiptastjóri hafi vitneskju um rekstur og starfsmenn og geti byggt ákvörðun sína á þeirri vitneskju. Skiptastjóri hafi gert allar þær ráðstafanir sem hann taldi réttar til að kanna eignir búsins og önnur atriði sem máli gátu skipt og hann hafi aflað allra þeirra gagna sem hann hafi haft aðgang að við þá rannsókn sína. Allt hafi bent til þess að enginn rekstur hafi verið í gangi rétt fyrir úrskurð eða eftir uppkvaðningu hans. Í gögnum sem fylgt hafi gjaldþrotaskiptabeiðni hafi ekkert gefið tilefni til að ætla að rekstur væri enn í gangi, þvert á móti hafi þar komið fram upplýsingar um launakröfur nokkurra fyrrverandi starfsmanna sem hættir hafi verið í starfi. Þær upplýsingar og gögn sem borist hafi skiptastjóra fyrst eftir gjaldþrotið hafi verið á sömu leið. Það að annað hafi komið í ljós staðfesti ekki að skiptastjóri hafi ekki rækt skyldur sínar samkvæmt lögum, enda hafi skiptastjóri takmörkuð úrræði. Það að eini fyrirsvarsmaðurinn sem gat gefið upplýsingar um reksturinn hafi verið búsettur erlendis hafi sett skiptastjóra í erfiða aðstöðu, en skiptastjóri hafi látið það hafa forgang að afla sem fyrst þeirra upplýsinga og gagna sem mögulegt var til að hann gæti áttað sig á stöðu búsins. Allt hafi verið reynt til að ná í fyrirsvarsmann félagsins og skiptastjóra borist kvartanir frá fyrirsvarsmanninum um að of langt hafi verið gengið í þeim efnum.
Varnaraðili byggir ennfremur á því að þrátt fyrir að skiptastjóri beri ríkar skyldur í kjölfar uppkvaðningar úrskurðar um gjaldþrotaskipti leysi það ekki starfsmenn gjaldþrota fyrirtækis undan þeirri ábyrgð að hafa opin augun fyrir atriðum sem geta bent til þess að fyrirtæki sé að verða eða sé orðið gjaldþrota. Við slíkar aðstæður hafi starfsmenn aðgang að sérfræðingum stéttarfélaga, sem geti aflað nauðsynlegra upplýsinga og gert ráðstafanir. Einnig megi vænta ákveðins frumkvæðis stéttarfélaga, sem ekki virðist hafa verið raunin í þessu máli þrátt fyrir að fjöldi fólks hafi leitað til þess félags sem í hlut átti. Í tilviki sóknaraðila liggi fyrir að hann sé eini starfsmaðurinn sem hafi krafist launa fyrir tímabilið eftir úrskurðardag, en samstarfsmenn hafi verið hættir störfum fyrr, væntanlega vegna vanskila. Miðað við upplýsingar frá fyrirsvarsmanni hins gjaldþrota félags um að tveir starfsmenn hafi starfað á veitingastaðnum virðist að minnsta kosti annar þeirra þannig ekki hafa litið á sig sem starfsmann hins gjaldþrota félags. Sóknaraðili hafi auk þess ekki fengið greidd laun frá hinu gjaldþrota félagi í langan tíma fyrir úrskurð en framlögð krafa hans í þrotabúið geri ráð fyrir því að hann hafi ekki fengið greidd nein laun fyrir janúar, febrúar og hluta marsmánaðar árið 2006.
Að baki sóknaraðila í máli þessu sé Verkalýðsfélagið Efling og lögmaður þess. Varnaraðili telur að ekki verði framhjá því litið að verkalýðsfélagið hafi yfirburðaaðstöðu í málinu, enda með fé og mannafla umfram varnaraðila. Skjólstæðingur sama verkalýðsfélags hafi lagt fram kröfu um gjaldþrotaskipti, sem hafi verið tekin til greina með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2006. Sóknaraðili hafi auk þess verið félagsmaður í verkalýðsfélagi því sem stóð að baki kröfu um gjaldþrotaskipti. Haldi sóknaraðili því fram að hann hafi haldið áfram störfum eftir að fyrri innköllun um gjaldþrotaskipti var birt í Lögbirtingablaði, en eftir það tímamark teljist hann ekki grandlaus um gjaldþrotaskipti. Þá byggi krafa hans á því að honum hafi í raun verið sagt upp með uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti og sé því krafa hans um laun frá þrotabúinu þversagnakennd og samhengislaus.
Varnaraðili kveður það vera rangt í máli sóknaraðila að starfsmenn í fleirtölu hafi verið enn að störfum á veitingastaðnum, enda hafi sóknaraðili einn gert kröfu um laun á hendur varnaraðila fyrir vinnu eftir úrskurðardag. Þá bendir varnaraðili á að fyrir liggi yfirlýsing fyrirsvarsmanns hins gjaldþrota félags um að starfsemi hafi verið haldið áfram í mun skemmri tíma en sóknaraðili haldi fram. Varnaraðili mótmælir ummælum sóknaraðila um að skiptastjóri beri ábyrgð á að hafa ekki fengið bókhald félagsins nægilega tímanlega í hendur, skiptastjóri geti ekki borið ábyrgð á að bókhald sé fært í samræmi við áskilnað laga í félagi sem hann fær til skipta.
Varnaraðili byggir kröfur sínar á því að engin ákvæði laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti leiði til þess að varnaraðili verði gerður ábyrgur fyrir þeirri starfsemi sem virðist hafa farið fram eftir úrskurðardag gjaldþrotaskipta þann 14. febrúar 2006.
Málskostnaðarkröfu byggir hann á 130. gr. laga nr. 91/1991. Þess er krafist að við ákvörðun málskostnaðar verði litið til þess að varnaraðili á ekki frádráttarrétt á móti virðisaukaskatti sem hann þarf að greiða af lögmannsþóknun.
IV
Sóknaraðili var þjónn á veitingahúsinu Angelo sem rekið var af Angelo ehf. Samkvæmt launaseðlum fékk hann laun frá Angelo ehf. í nóvember 2005 og janúar 2006. Samkvæmt gögnum um bankamillifærslur voru færðar fjárhæðir af reikningi félagsins Argenta ehf. á reikning sóknaraðila í nóvember og desember 2005 og í janúar og febrúar 2006. Fyrirsvarsmaður Angelo ehf., Hanna Sigríður Magnúsdóttir, upplýsti í skýrslu sinni hjá skiptastjóra að bankaviðskipti félagsins Angelo ehf. hefðu verið í Landsbanka en kvað annan reikning einnig hafa verið notaðan. Sá reikningur hafi verið skráður á Argenta ehf. sem væri fyrirtæki í eigu fyrirsvarsmannsins. Fyrir liggur að krafa sóknaraðila um að laun fram að því að félagið var úrskurðað gjaldþrota væri viðurkennd sem krafa í búið, var samþykkt af skiptastjóra. Telja verður því að sóknaraðili hafi verið starfsmaður Angelo ehf.
Bú Angelo ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 14. febrúar 2006. Skiptastjóra var ekki kunnugt um rekstur veitingastaðarins Angelo. Sóknaraðili heldur því fram að hann hafi starfað á veitingastaðnum til 11. mars. Tímaskráningar sóknaraðila eru í samræmi við það að hann hafi sinnt störfum til 11. mars, en samkvæmt þeim vann sóknaraðili frá fimm eða sex eftir hádegi og fram á kvöld. Í fyrrnefndri skýrslu sem tekin var af fyrirsvarsmanni hins gjaldþrota félags hjá skiptastjóra, er haft eftir fyrirsvarsmanninum að starfsemin hafi varað í einhvern tíma eftir úrskurðinn. Taldi hann að rekstri hefði lokið 25. febrúar en gat ekki sagt það með vissu. Liggur þannig ljóst fyrir að starfsemi var á veitingastaðnum eftir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti. Þykir verða við það að miða að síðasti starfsdagur sóknaraðila hafi verið 11. mars 2006.
Í 88. gr. laga nr. 21/1921 um gjaldþrotaskipti o.fl. er kveðið á um það að skiptastjóri skuli, svo fljótt sem verða má, ákveða hvernig staðið verði að atvinnurekstri þrotabús, og gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru fyrir hagsmuni búsins. Samkvæmt 1. mgr. 98. gr. laganna skal ákveða eftir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti hvort þrotabúið taki við réttindum og skyldum samkvæmt ráðningarsamningum þeirra manna sem starfa við atvinnurekstur þrotamannsins. Starfsmenn gjaldþrota félaga eigi rétt á launum frá því að úrskurður um gjaldþrot er kveðinn upp þar til þrotabú tekur afstöðu til þess hvort það taki við ráðningarsamningum þeirra, sbr. 2. mgr. 98. gr. Skulu kröfur um laun njóta forgangs samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. 98. gr., við skiptin.
Samkvæmt tilvitnaðri 2. mgr. 98. gr. átti sóknaraðili rétt á launum fram að töku ákvörðunar um hvort búið tæki við ráðningarsamningi hefði slík ákvörðun verið tekin. Fyrir liggur hins vegar að skiptastjóri tók ekki ákvörðun um hvort þrotabúið tæki við réttindum og skyldum samkvæmt ráðningarsamningi sóknaraðila. Þar sem þrotabúið tók ekki afstöðu, svo sem því bar, þykir sóknaraðili eiga rétt á launum þar til hann lét af störfum.
Launakrafa hans er búskrafa samkvæmt 3. tl. 110. gr. laganna. Tölulegum útreikningi hefur ekki verið mótmælt.
Því er ekki andmælt af hálfu varnaraðila að sóknaraðili hafi átt rétt á launum í uppsagnarfresti úr hendi vinnuveitanda síns. Mælt er fyrir um forgangsrétt krafna vegna bóta vegna slita á vinnusamningi í 2. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt öllu framangreindu verður aðalkrafa sóknaraðila tekin til greina eins og greinir í úrskurðarorði.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Sóknaraðili, Imramghan Malik, á búskröfu skv. 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, í þrotabú Angelo ehf., að fjárhæð 101.124 krónur.
Sóknaraðili á forgangskröfu skv. 2. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 í búið að fjárhæð 312.518 krónur.
Málskostnaður fellur niður.