Hæstiréttur íslands
Mál nr. 259/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Sönnunarfærsla
- Vitni
- Framlagning skjals
|
|
Miðvikudaginn 15. maí 2013. |
|
Nr. 259/2013:
|
Vilhjálmur Bjarnason (Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.) gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni (Reimar Pétursson hrl.) |
Kærumál. Sönnunarfærsla. Vitni. Framlagning skjals.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu V um að hann fengi að leiða B og 16 nafngreind vitni fyrir dóm og að skylt væri að leggja fram tiltekið tölvubréf. Krafa V var reist á XII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. V taldi sig hafa orðið fyrir tjóni þegar hlutabréf hans í L hf. urðu verðlaus og að tjónið mætti a.m.k. að hluta rekja til ólögmætra og saknæmra athafna sem B hefði stuðlað að eða átt þátt í. Talið var að skilyrði 1. og 2. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991 væru uppfyllt og að þau atvik sem V leitaði sönnunar um vörðuðu lögvarða hagsmuni hans. Skýrsla yrði þó ekki tekin af B sem fyrirsjáanlega yrði aðili að væntanlegu dómsmáli. Í dómi Hæstaréttar kom fram að 3. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 stæði því ekki í vegi að sönnunargagna væri aflað til að hafa uppi skaðabótakröfu í einkamáli á grundvelli saknæmrar og ólögmætrar háttsemi, þó svo að sú háttsemi sem sönnunargagna væri leitað um gæti verið refsiverð. Var í þessu samhengi meðal annars vísað til þess að almennar reglur laga nr. 91/1991 giltu um skýrslur sem vitni gæfu samkvæmt heimild í XII. kafla laganna. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og fallist á kröfu V að því undanskildu að B var ekki gert að gefa skýrslu fyrir dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. apríl 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að hann fengi að leiða varnaraðila fyrir dóm og 16 nafngreind vitni. Þá var einnig hafnað að skylt væri að leggja fram í dómi tölvubréf lögmanns Samsonar eignarhaldsfélags ehf. þar sem Fjármálaeftirlitinu var tilkynnt snemma árs 2007 um breytt eignarhald á fyrrgreindu félagi. Kæruheimild er í f. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að láta umbeðna sönnunarfærslu fara fram. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Sóknaraðili styður kröfu sína í málinu við það að hann hafi orðið fyrir tjóni þegar hlutabréf hans í Landsbanka Íslands hf. urðu verðlaus við fall bankans 7. október 2008. Hann telur að tjónið megi að minnsta kosti að hluta rekja til ólögmætra og saknæmra athafna í starfsemi bankans sem varnaraðili hafi stuðlað að eða átt þátt í og hafi að lokum leitt til þess að bankinn var tekinn til slita. Nefnir hann í því sambandi meðal annars að hlutabréfamarkaði hafi ítrekað verið gefnar rangar upplýsingar um stöðu bankans og um fjárhagsleg málefni félaga sem varnaraðili átti hlut í. Þannig hafi sóknaraðili verið blekktur til að kaupa hlutabréf í bankanum sem hann hefði ekki gert hefði hann vitað hvernig málum bankans var í raun háttað. Þau atriði sem sóknaraðili telur að þurfi að afla frekari gagna um með heimild í XII. kafla laga nr. 91/1991, áður en hann tekur endanlega ákvörðun um málshöfðun á hendur varnaraðila, lúta í fyrsta lagi að tengslum Samsonar eignarhaldsfélags ehf. við Landsbanka Íslands hf., í öðru lagi að raunverulegri eignarhlutdeild áðurnefnds eignarhaldsfélags í bankanum, í þriðja lagi að tengslum varnaraðila við bankann og heimilda til lánveitinga honum til handa í því ljósi, og í fjórða lagi að tengslum varnaraðila við ýmis félög sem nutu verulegrar fyrirgreiðslu í bankanum. Þessum atriðum ásamt málavöxtum í heild, málsástæðum og lagarökum aðila er skilmerkilega lýst í hinum kærða úrskurði.
II
Í niðurstöðu hins kærða úrskurðar kom í fyrsta lagi fram að sóknaraðili hafi tilgreint nægilega skýrt hvaða atvika og gagna beiðni hans tekur til og að hún væri þannig nægilega skýrt afmörkuð. Í öðru lagi var niðurstaða héraðsdómara sú að sóknaraðili hafi tilgreint að varnaraðili sé sá sem fyrirhuguð málsókn muni beinast að og að ekki hafi komið fram að hann hyggist höfða mál gegn öðrum en varnaraðila á grundvelli þeirra upplýsinga sem hann vill afla. Í þriðja lagi taldi héraðsdómari að sóknaraðili hafi gert nægilega grein fyrir hvernig sönnunin ætti að fara fram en það hyggist hann gera með því að leiða vitni fyrir dóm og fá þar lagt fram tiltekið tölvubréf. Í fjórða lagi taldi héraðsdómari beiðni sóknaraðila réttilega hafa verið beint til Héraðsdóms Reykjavíkur. Á þessum grundvelli taldi héraðsdómari að fullnægt væri skilyrðum 1. og 2. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991 til öflunar sönnunargagna fyrir dómi án þess að mál væri höfðað og er á þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar fallist. Þá taldi héraðsdómari að þar sem sóknaraðili hefði átt hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. þegar þau urðu verðlaus þættu þau atvik sem hann leitar sönnunar um varða lögvarða hagsmuni hans, sbr. dóm Hæstaréttar 22. mars 2011 í máli nr. 64/2011, og er á þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar fallist. Jafnframt var það niðurstaða héraðsdóms að skýrsla yrði ekki tekin af varnaraðila sem fyrirsjáanlega yrði aðili að væntanlegu dómsmáli og er einnig á þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar fallist, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 16. janúar 2003 í máli nr. 571/2002.
Á hinn bóginn var komist að þeirri niðurstöðu í hinum kærða úrskurði að 3. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 stæði því í vegi að sextán nafngreind vitni, sem auk varnaraðila voru tilgreind í beiðni sóknaraðila, gæfu skýrslu fyrir dómi. Til grundvallar þeirri afstöðu sýnist liggja að þau atvik sem sóknaraðili hyggst afla sönnunar um kunni að fela í sér refsiverða háttsemi og vitnum verði ekki gert að fella sök á sig með slíkum framburði. Um þetta er þess að gæta að það mál sem sóknaraðili kann að höfða er á sviði einkaréttar og færi um skýrslur sem vitni gæfu samkvæmt heimild í XII. kafla laga nr. 91/1991 eftir almennum reglum þeirra laga. Þá ber og til hliðsjónar að líta til áðurnefnds dóms Hæstaréttar í máli nr. 64/2011 þar sem hliðstæð aðstaða varðandi öflun sönnunargagna var uppi að þessu leyti. Af framangreindu leiðir að 3. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 stendur því ekki í vegi að sönnunargagna sé aflað til að hafa uppi skaðabótakröfu í einkamáli á grundvelli saknæmrar og ólögmætrar háttsemi, þó svo að sú háttsemi sem sönnunargagna er leitað um geti verið refsiverð. Er því fallist á kröfu sóknaraðila um að fram fari öflun sönnunargagna eins og hann krefst að því undanskildu að varnaraðila verður ekki gert að gefa skýrslu fyrir dómi.
Samkvæmt þessu verður varnaraðili dæmdur til að greiða kærumálskostnað sem verður ákveðinn eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Sóknaraðila, Vilhjálmi Bjarnasyni, er heimilt að leita sönnunar samkvæmt XII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um þau atriði sem kröfugerð hans tekur til að því undanskildu að varnaraðila, Björgólfi Thor Björgólfssyni, verður ekki gert að gefa skýrslu fyrir dómi.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 400.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2013.
Með beiðni, móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 21. september 2012, fer vitnastefnandi, Vilhjálmur Bjarnason, kt. 200452-7719, Hlíðarbyggð 18, Garðabæ, þess á leit við dóminn að honum verði heimilað, á grundvelli 2. málsliðar 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með vitnaleiðslu og öflun skjala fyrir dómi, að leita sönnunar um atvik sem varði lögvarða hagsmuni hans og geti ráðið úrslitum um málshöfðun á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni, kt. 190367-7199, 55 Clarendon Road, Notting Hill, London, Bretlandi.
Nánar tilekið óskar vitnastefnandi eftir því að fá að leiða fyrir dóminn til skýrslugjafar Björgólf Thor Björgólfsson, Björgólf Guðmundsson, fyrrverandi formann bankaráðs, Kjartan Gunnarsson, varaformann bankaráðs Landsbankans, Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, Birgi Má Ragnarsson, fyrrum framkvæmdastjóra Samsonar, þáverandi stjórnarmann í Novator og einn af eigendum Hersis, Þór Kristjánsson, fyrrverandi stjórnarmann í Hersi og Landsbankanum, Vigni Rafn Gíslason, löggiltan endurskoðanda, Andra Sveinsson, varamann í stjórn og einn eigenda Hersis, Tómas Ottó Hansson, einn eigenda Hersis og þáverandi stjórnarmann í Novator, Sigþór Sigmarsson, þáverandi og núverandi stjórnarmann í Novator, Vífil Harðarson hdl., fyrrverandi starfsmann Novators, Ársæl Hafsteinsson, þáverandi aðallögfræðing Landsbankans, Þórð Örlygsson, þáverandi regluvörð Landsbankans, Kristján Gunnar Valdimarsson, fyrrverandi forstöðumann skattasviðs Landsbankans, Hauk Þór Haraldsson, þáverandi framkvæmdastjóra fjármála- og rekstrarsviðs Landsbankans, Sigurjón Þorvald Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans og Sigurjón Guðbjörn Geirsson, fyrrum innri endurskoðanda Landsbankans.
Jafnframt óskar vitnastefnandi þess, með vísan til 2. mgr. 77. gr. og annarra ákvæða XII. kafla laga nr. 91/1991, að Birgi Má og Björgólfi Thor verði gert að leggja fram í Héraðsdómi Reykjavíkur afrit af tölvupósti frá lögmanni Samsonar til Fjármálaeftirlitsins snemma árs 2007 þar sem eftirlitinu sé tilkynnt um breytingar á eignarhaldi Samsonar.
Vitnastefndi, Björgólfur Thor Björgólfsson, krefst þess að beiðni vitnastefnanda verði hafnað.
Hann krefst enn fremur málskostnaðar úr hendi vitnastefnanda.
Málsatvik eins og vitnastefnandi lýsir þeim
Til þess að rökstyðja hvers vegna vitnastefnandi óskar eftir að fá að leiða áður nefnda menn fyrir dóminn sem vitni gerir hann allítarlega grein fyrir málavöxtum eins og þeir horfa við honum. Vitnastefndi, Björgólfur Thor Björgólfsson, mótmælir framsetningu vitnastefnanda á málsatvikum í heild sinni og hafnar henni alfarið þar sem hún byggi á órökstuddum fullyrðingum. Hann leggur þó ekki fram sjálfstæða atvikalýsingu.
Vitnastefnandi kveðst hafa verið hluthafi í Landsbanka Íslands hf. frá 29. október 2000. Megnið af hlutafé sínu í bankanum, 515.164 hluti, hafi hann eignast 8. febrúar 2007. Landsbankanum hafi verið skipuð skilanefnd, 7. október 2008, með heimild í lögum nr. 125/2008 settum 6. október 2008. Á því tímamarki hafi verðmæti hluta í bankanum að engu orðið en vitnastefnandi hafi þá átt samtals 626.378 hluti í bankanum. Bankinn hafi fengið heimild til greiðslustöðvunar 5. desember 2008 í samræmi við lög nr. 129/2008 frá 15. nóvember 2008 og 29. apríl 2009 hafi bankinn verið tekinn til slitameðferðar er Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði honum slitastjórn í samræmi við lög nr. 44/2009 frá 22. apríl 2009. Slitameðferðinni sé ekki lokið.
Vitnastefnandi kveðst lengi hafa leitað upplýsinga um starfsemi Landsbanka Íslands hf. og annarra fyrirtækja, frá því fyrir hrun, til að leggja mat á það hverjar séu ástæður þess að hlutabréf hans og annarra fjárfesta hafi orðið verðlaus á einni nóttu.
Í samstarfi við annan mann hafi hann safnað upplýsingum um rekstur og meðferð eigenda Landsbanka Íslands hf. á fjármunum bankans fyrir haustið 2008 til undirbúnings mögulegri hópmálssókn á hendur fyrrum eigenda bankans, reynist gögn málsins varpa ljósi á saknæma og bótaskylda háttsemi þeirra. Ríflega 350 fyrrverandi hluthafar Landsbanka Íslands hf. lýst yfir stuðningi og vilja til að taka þátt í slíkri hópmálssókn verði talið að upplýsingar um rekstur og meðferð eignarhalds eigenda Landsbanka Íslands hf. gefi tilefni til slíkrar málshöfðunar.
Kaup Samsonar á Landsbankanum og afskipti Fjármálaeftirlitsins
Vitnastefnandi gerir fyrst grein fyrir því að félagið Samson hafi keypt Landsbankann en hann var ríkisfyrirtæki til ársins 1997 þegar hann var gerður að hlutafélagi. Björgólfur Guðmundsson, Björgólfur Thor Björgólfsson og Magnús Þorsteinsson, hafi lagt grunn að þeim kaupum með bréfi til framkvæmdanefndar um einkavæðingu, 27. júní 2002. Í því hafi þeir, fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags síns (síðar Samson eignarhaldsfélag ehf.), gert tilboð í kaup á „að minnsta kosti 33,3%“ hlutafjár Landsbankans og kauprétti að 10% heildarhlutafjár í 24 mánuði frá undirritun kaupsamnings. Samningaviðræður hafi leitt til samkomulags og 31. desember 2002 hafi Samson og íslenska ríkið undirritað samning um kaup Samsonar á 45,8% hlut í Landsbanka Íslands hf. í tveimur skrefum. Kaup Samsonar hafi meðal annars verið með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins.
Vitnastefnandi víkur einnig að afstöðu Fjármálaeftirlitins til þessara kaupa og áhyggjum þess af lagalegri stöðu Samson gagnvart bankanum, það er hvort félagið ætti að flokkast sem móðurfélag hans. Samson hafi, með bréfi 12. nóvember 2002 sótt um samþykki FME fyrir kaupum félagsins á virkum eignarhlut í bankanum. Eftirlitið hafi fallist á umsókn Samsonar með ákvörðun 3. febrúar 2003. Í henni komi fram að við meðferð umsóknar félagsins hafi verið athugað hvort, ef af fyrirhuguðum viðskiptum yrði, líta bæri á Samson sem móðurfélag Landsbankans og þar með eignarhaldsfélag á fjármálasviði í skilningi 97. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Fjármálaeftirlitið hafi tekið fram að þrátt fyrir að Samson færi ekki formlega með meirihluta atkvæða í Landsbankanum gætu athafnir bankans sjálfs leitt til þess að staðan yrði sú í raun. Eftirlitið hafi nefnt sem dæmi að bankinn kynni að eignast eigin bréf í þeim mæli að Samson færi í raun með meirihluta atkvæða á hluthafafundum.
Fjármálaeftirlitið hafi því talið að ekki væri unnt að útiloka að eignarhald á 45,8% hlutafjár í Landsbankanum gæti skapað ráðandi stöðu í skilningi 1. mgr. 97. gr. laga nr. 161/2002. Hluthafar í Landsbankanum hefðu um mitt ár 2002 verið ríflega 14 þúsund og hefðu 10 stærstu hluthafarnir farið með ríflega 71% hlutafjár. Ríflega 28% hlutafjárins dreifðust því á um 14 þúsund almenna hluthafa sem hafi almennt ekki beitt atkvæðisrétti sínum á hluthafafundum. Því væri staða þess aðila sem færi með 45,8% hlutafjár mjög sterk og gæti hann mögulega ráðið meirihluta stjórnar félagsins.
Að lokum hafi FME sagt að á meðan eignarhlutur Samsonar færi ekki yfir 50% að teknu tilliti til eigin bréfa bankans eða ákvæða í samþykktum Landsbankans eða samninga, sem getið væri í 3.-5. tl. 97. gr. laga nr. 161/2002, eða önnur áðurgreind sjónarmið ættu ekki við, teldi FME að Samson yrði ekki talið eignarhaldsfélag á fjármálasviði.
Í niðurstöðum ákvörðunar eftirlitsins komi fram að til grundvallar henni liggi enn fremur yfirlýsing eigenda Samsonar um aðgerðir í því skyni að styrkja þá niðurstöðu að Samson teldist ekki fara með ráðandi eignarhlut í bankanum. Meðal annars hefði Samson lýst yfir því að félagið myndi beita sér fyrir því að fagaðilar, sem ekki væru eigendur að Samson, tækju sæti í bankaráði Landsbankans svo og að í fyrstu myndi einungis einn af eigendum Samsonar sækjast eftir kjöri í bankaráð.
Fjármálaeftirlitið hafi, 31. maí 2005, sent formanni bankaráðs Landsbankans, Björgólfi Guðmundssyni, bréf þar sem fram komi að með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hefði af eignarhaldi Samsonar í bankanum teldi FME mikilvægt að taka að nýju til skoðunar hluta þeirra sjónarmiða og skilyrða sem lágu til grundvallar samþykki eftirlitsins fyrir kaupum Samsonar á Landsbankanum. Taldi FME að meðal annars þyrfti að taka til nánari athugunar hvort Samson teldist eignarhaldsfélag á fjármálasviði í skilningi 97. gr. laga nr. 161/2002. Fjármálaeftirlitið minnti á að stofnunin hefði gert ráð fyrir því 2003 að Samson beitti sér fyrir því að fagaðilar sem ekki væru tengdir eigendum Samsonar tækju sæti í stjórn Landsbankans og að aðeins einn af eigendum Samsonar tæki, að minnsta kosti í fyrstu, sæti í stjórninni. Engu að síður hefðu aðilar nátengdir félaginu, svo sem starfsmenn þess, setið í bankaráði auk stjórnarformannsins. Þannig hefðu þrír þeirra fimm bankaráðsmanna sem undirrituðu ársreikning Landsbankans 2004 verið ýmist eigendur eða starfsmenn Samsonar. Á árinu 2005 hefði Fjármálaeftirlitið dregið þá ályktun af ofangreindu að ekki hefði verið sýnt fram á, á fullnægjandi hátt, að staða Samsonar, eigenda þess og tengdra aðila, gagnvart Landsbankanum, væri ekki önnur og nánari, en fælist í ávinningi almennra hluthafa af heilbrigðum og traustum rekstri bankans. Fjármálaeftirlitið óskaði eftir sjónarmiðum Samsonar varðandi framangreint og ítarlegum tillögum sem miðað gætu að því að tryggja eðlilegt eftirlit og óháða stöðu félagsins og tengdra aðila gagnvart bankanum til framtíðar, ella kæmu úrræði FME til skoðunar.
Vitnastefnanda virðist bréf Fjármálaeftirlitsins hafa verið tekið fyrir á fundi bankaráðs Landsbankans, 28. júní 2005, þar sem jafnframt hafi verið lögð fram drög að svari til FME. Formaður bankaráðs virðist hafi vikið af fundi við umræðuna. Samson hafi svarað eftirlitinu með bréfi, 29. júní 2005. Í því hafi félagið brugðist við áhyggjuefnum stofnunarinnar og lýst sig reiðubúið til viðræðna um lausn. Vitnastefnanda virðist að með þessu bréfi hafi lokið þeim bréfaskiptum sem hófust með bréfi eftirlitsins til Samsonar, 31. maí 2005, en samskipti FME og Samsonar hafi eftir það farið að snúast um beiðni Samsonar um heimild til að víkka starfsheimildir félagsins sem sett var fram í bréfi 30. júní 2005. Þeirri umfjöllun hafi lokið með því að FME heimilaði Samson að breyta samþykktum sínum og víkka starfsemi sína samkvæmt ákvörðun 2. júní 2006. Í lok þeirrar ákvörðunar taki eftirlitið þó fram að stofnunin muni áfram fylgjast með því hvort tilefni sé til að breyta því mati hennar að Samson skuli ekki teljast móðurfélag Landsbankans.
Óbeint eignarhald Björgólfs Thors í Landsbankanum
Vitnastefnandi skýrir áhrif Björgólfs Thors á stjórnun Landsbankans með því að hann hafi haft óbeint eignarhald á bankanum. Samson hafi verið langstærsti eigandi hlutafjár í Landsbankanum frá kaupum á 45,8% hlut 31. desember 2002. Samkvæmt ársreikningum bankans hafi sá eignarhlutur þróast til loka júní 2008 eins og næsta tvískipta tafla sýni, en í henni sé ekki tekið tillit til eigin hluta bankans og dótturfélaga hans:
|
Dags. |
31.12.03 |
31.12.04 |
30.06.05 |
31.12.05 |
30.06.06 |
|
Eignarhluti |
44,30% |
44,79% |
44,79% |
40,17% |
41,37% |
|
Dags. |
31.12.06 |
30.06.07 |
31.12.07 |
30.06.08 |
|
Eignarhluti |
41,37% |
41,37% |
40,73% |
41,85% |
Eftir því sem vitnastefnandi komist næst hafi eigin hlutir Landsbanka Íslands hf. og hlutir dótturfélaga hans verið að minnsta kosti þessir frá árinu 2005 og áfram:
|
Nafn hluthafa |
Eigendur |
30.06.05 |
31.12.05 |
30.06.06 |
31.12.06 |
30.06.07 |
31.12.07 |
30.06.08 |
|
Landsbanki Íslands hf. |
- |
6,19% |
6,34% |
7,65% |
1,44% |
1,83% |
1,60% |
8,63% |
|
Landsbanki Luxembourg S.A. |
Landsbanki Íslands hf. (100%) |
3,75% |
5,05% |
3.24% |
3,04% |
5,85% |
6,60% |
3.54% |
|
Landsbankinn eignarh.félag ehf. |
Landsbanki Íslands hf. (100%) |
- |
1,45% |
1,45% |
- |
- |
- |
0,69% |
Samson hafi að stærstum hluta verið í eigu feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar í gegnum eignarhaldsfélög þeirra. Eignarhald á Samson hafi verið skráð á eftirfarandi hátt frá kaupum félagsins á hlut í Landsbankanum, 31. desember 2002, eftir því sem vitnastefnandi komist næst:
|
Nafn hluthafa |
Eigendur |
31.12.02 |
31.12.03 |
31.12.04 |
31.12.05 |
31.12.06 |
31.12.07 |
30.06.08 |
|
Amber International Ltd. |
Björgó. Th (60%) og Björgólfur Guðmunds (40%) |
85,50% |
0,00% |
0,00% |
0,00% |
0,00% |
0,00% |
0,00% |
|
Givenshire Equties Limited |
Björgólfur Thor Björgólfss |
0,00% |
42,75% |
42,75% |
49,50% |
49,90% |
49,90% |
49,90% |
|
Bell Global Limited |
Björgólfur Guðmundss |
0,00% |
42,75% |
42,75% |
49,50% |
49,90% |
49,90% |
49,90% |
|
Mirol Investments Ltd. |
Magnús Þorsteinss |
14,50% |
14,50% |
14,50% |
0,00% |
0,00% |
0,00% |
0,00% |
|
Hersir |
Starfsmenn Novators/ Samson |
0,00% |
0,00% |
0,00% |
1,00% |
0,00% |
0,00% |
0,00% |
|
Björgólfur Guðmundss |
|
0,00% |
0,00% |
0,00% |
0,00% |
0,10% |
0,10% |
0,10% |
|
Björgólfur Thor Björgólfss. |
|
0,00% |
0,00% |
0,00% |
0,00% |
0,10% |
0,10% |
0,10% |
|
Samtals |
|
100 % |
100 % |
100 % |
100 % |
100 % |
100 % |
100 % |
Frá 1. janúar 2005 hafi öllum félögum, sem hafi skráð verðbréf sín á skipulegan verðbréfamarkað í ríki innan EES, verið skylt að gera reikningsskil sín í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla, sbr. 3. mgr. 56. gr. H eldri laga um ársreikninga nr. 144/1994, sbr. 52. gr. laga nr. 45/2005 og 4. mgr. 90. gr. núgildandi laga um ársreikninga nr. 3/2006. Í 12. tölulið 2. gr. laga nr. 144/1994 og 3/2006 séu alþjóðlegir reikningsskilastaðlar skilgreindir þannig:
reikningsskilastaðlar (IAS/IFRS) samkvæmt skilgreiningu 2. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 sem framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt skv. 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002[.]
Þessi reglugerð hafi verið leidd í lög hér á landi 1. janúar 2005 með lögum nr. 45/2005, sbr. 52. gr. laganna. Í alþjóðlegum reikningsskilastaðli IAS 24, sem samþykktur hafi verið af framkvæmdastjórn ESB, 29. september 2003, með reglugerð nr. 1725/2003, sé fjallað um upplýsingar um tengda aðila.
Í staðlinum komi fram hvaða aðilar falli undir skilgreininguna tengdir aðilar og hverjir ekki. Markmið staðalsins sé að tryggja að í ársreikningi komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar um tengda aðila og áhrif þeirra á fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu einingarinnar. Samkvæmt staðlinum sé þess krafist að skýrt sé frá viðskiptum við tengda aðila og óuppgerðum kröfum og skuldum vegna þeirra í ársreikningum/árshlutareikningum sem séu gerðir í samræmi við IAS 27 um samstæðureikningsskil og aðgreind reikningsskil.
Í IAS 24 sé tengdur aðili skilgreindur sem aðili sem geti haft mikilvæg áhrif á félagið vegna eignarhalds eða áhrifa með öðrum hætti svo sem vegna stöðu eða tengsla við aðila sem hafa yfirráð eða eru lykilstjórnendur félags.
Í staðlinum komi jafnframt fram að þegar skoðaðir séu allir mögulegir tengdir aðilar sé athyglinni beint að efni (e. substance) sambandsins en ekki eingöngu lagalegu formi. Þau sjónarmið komi jafnframt fram í ítarlegri skilgreiningu á hugtakinu „veruleg áhrif“ sem sé í reikningsskilastaðli IAS 28 (um fjárfestingar í hlutdeildarfélögum).
Í kafla 21.5 í staðli IAS 24 sé fjallað um skýringar. Þar komi fram að gera þurfi grein fyrir sambandi móður- og dótturfélags án tillits til þess hvort þau hafi átt viðskipti sín í milli. Hafi verið viðskipti milli tengdra aðila skuli félagið skýra frá eðli viðskiptanna sem og upplýsa um þau og óuppgerðar kröfur/skuldir. Þessar upplýsingar séu sagðar nauðsynlegar til þess að skilja möguleg áhrif þeirra á reikningsskilin. Í sama ákvæði séu tekin dæmi um þau viðskipti sem þurfi að skýra frá séu þau við tengda aðila. Þar á meðal séu lánveitingar og eiginfjárframlög, sem og veittar ábyrgðir, veð og tryggingar. Hafi Landsbankinn verið í viðskiptum við tengda aðila hefði félagið þannig átt að skýra frá eðli viðskiptanna og upplýsa um viðskiptin og óuppgerðar kröfur/skuldir.
Samkvæmt minnisblaði endurskoðunarfyrirtækisins PriceWaterhouseCoopers, dags. 22. október 2005, hafi PWC fundað með Birgi Má Ragnarssyni, framkvæmdastjóra Samsonar, 20. október 2005. Tilgangur fundarins hafi verið að fá upplýsingar frá Birgi um eigendur hlutafjár í Samson svo hægt væri að meta hvort veita ætti upplýsingar um venslaða aðila í reikningsskilum Landsbankans með tilliti til IAS 24. Endurskoðunarfyrirtækið taki fram á minnisblaðinu að við skilgreiningu á mikilvægum áhrifum sé oft stuðst við 20% eignarhlut og að óbeinn eignarhlutur Björgólfs Thors hafi reiknast 19% í upphafi árs 2005, miðað við að hann færi aðeins með 42,5% í Samson. Í minnisblaðinu komi fram að Birgir hafi upplýst PWC um að Samson hefði sjálft keypt hlut Magnúsar Þorsteinssonar í Samson en að sú ráðstöfun væri einungis tímabundin. Á meðan félagið ætti hlut í sjálfu sér féllu atkvæði tengd honum niður á hluthafafundum, þannig að tímabundið færu þeir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor með 50% atkvæða hvor í Samson. Fram komi að framkvæmdastjórinn hafi verið mjög vel meðvitaður um að það gæti valdið mikilli breytingu á upplýsingum um venslaða aðila í reikningsskilum Landsbankans. Hann hafi greint frá því að fyrirhugað væri að breyta eignarhaldinu í Samson fyrir árslok 2005, þannig að eignarhlutur Björgólfs Thors yrði sá sami eða minni en hann hafi verið í upphafi ársins. Samkvæmt minnisblaðinu hafi endurskoðunarfyrirtækið gert framkvæmdastjóranum grein fyrir því að gerðist þetta ekki væri líklegt að skilgreina yrði Björgólf Thor sem venslaðan aðila á grundvelli IAS 24 þannig að upplýsa þyrfti um viðskipti hans við bankann á grundvelli ákvæða í staðlinum og mögulega í öðrum stöðlum. Niðurstaða PWC, að þessum upplýsingum fengnum, hafi verið sú að breyta skýringum á vensluðum aðilum gagnvart Samson og hluthöfum þess félags í árshlutauppgjöri 30. september 2005 þannig að í stað þess að greina frá því að Samson væri í eigu þriggja einstaklinga yrði að segja að Samson væri í eigu þriggja aðila. Fyrir áramót yrði síðan að fá frekari upplýsingar um stöðu á eignarhaldi Samsonar og meta málið upp á nýtt með tilliti til ákvæða IAS 24 og þess sem komið hefði fram á minnisblaðinu. Undir minnisblaðið riti Vignir Rafn Gíslason, löggiltur endurskoðandi.
Hinn 20. janúar 2006 hafi Samson tilkynnt Fjármálaeftirlitinu að Hersir ráðgjöf og þjónusta ehf. hafi, 30. desember 2005, keypt 1% hlut í Samson en í tilkynningunni hafi ekki komið fram hver væri seljandi hlutanna. Í tilkynningunni segi að Samson eigi 40,17% hlutafjár í Landsbankanum. Þá segi að Hersir sé í eigu Þorvalds Björnssonar, Þórs Kristjánssonar, Tómasar Ottós Hanssonar, Birgis Más Ragnarssonar og Andra Sveinssonar. Enn fremur hafi verið tekið fram að Andri Sveinsson væri bankaráðsmaður og fruminnherji í Landsbankanum. Þá væru Birgir Már Ragnarsson, sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri, og Þór Kristjánsson fjárhagslega tengdir Samson.
Vitnastefnandi hafi undir höndum kaupsamning Samsonar og Hersis, dags. 30. desember 2005, að öllum líkindum vegna framangreindra kaupa. Í samningnum lofi Hersir að kaupa og Samson að selja alls 10.000.000 hluta í Samson að nafnverði 1 kr. hver hlutur en þetta sé 1% hlutafjár í Samson. Kaupverð hlutanna hafi verið 928.300.00 kr. miðað við gengið 92,83 á hverjum hlut. Kaupverðið skyldi greitt í reiðufé 15. janúar 2005 [svo] en hið selda skyldi afhent 30. desember 2005. Undir kaupsamninginn riti Birgir Már Ragnarsson fyrir hönd Samsonar og Þór Kristjánsson fyrir hönd Hersis. Kaupverðið virðist samkvæmt ársreikningum Hersis aldrei hafa verið greitt heldur eingöngu viðskiptafært. Kaupin beri með sér að vera málamyndagerningur enda virðist Hersir ekki hafa haft fjárhagslega burði til að ráðast í svo mikla fjárfestingu á eigin forsendum.
Samkvæmt töflunum hér að framan virðist Hersir ehf. hafa selt hlut sinn í Samson strax á árinu 2006 að minnsta kosti við lok þess árs samkvæmt ársreikningi. Þannig hafi eignarhald Björgólfsfeðga aftur farið í sama horf og áður og við lok árs 2006 hafi þeir aftur farið með 50% atkvæðisréttar hvor, samkvæmt framangreindum upplýsingum.
Björgólfur Thor hafi, frá árinu 2003, haldið utan um hlut sinn í Samson með eignarhaldsfélaginu Givenshire Equities Ltd. Samkvæmt yfirlýsingu á vefsíðunni www.btb.is hafi Fjármálaeftirlitinu verið tilkynnt, snemma árs 2007, um kaup starfsmanna Novator ehf., eignarhaldsfélags í eigu Björgólfs Thors, á 5% hlut í Givenshire í gegnum Landsbankann í Lúxemborg, en ekki liggi nákvæmlega fyrir hvenær það eigi að hafa gerst. Gefið hafi verið til kynna að kaupandi hlutanna hafi verið félag í eigu starfsmanna Novator. Virðist sem Björgólfur Thor hafi farið með 100% hlut í Givenshire í gegnum félag sitt Valhamar Group Limited á árinu 2006 en árið 2007 hafi starfsmenn Novator farið með allt að 5% á móti 95% hlut Valhamars/Björgólfs. Neðangreind tafla sýnir hvernig eignarhaldi virðist hafa verið háttað á Givenshire:
|
Nafn hluthafa |
Eigendur |
31.12.03 |
31.12.04 |
31.12.05 |
31.12.06 |
31.12.07 |
30.06.08 |
|
Valhamar Group Ltd |
Björg. Thor Björgó.son |
100 % |
100 % |
100 % |
100 % |
95,00% |
95,00% |
|
Landsbanki Luxemborg |
- |
0,00% |
0,00% |
0,00% |
0,00% |
5,00% |
5,00% |
|
Samtals |
|
100 % |
100 % |
100 % |
100 % |
100 % |
100 % |
Vitnastefnandi telur eignarhlut og atkvæðavægi Samsonar hafa verið vanmetið sem og áhrif Björgólfs Thors sem annars aðaleiganda Samsonar. Þetta hafi haft umtalsverðar afleiðingar í för með sér eins og nánar verði vikið að síðar. Samkvæmt þeim upplýsingum sem vitnastefnandi hafi aflað sér virðist sem við útreikning á eignarhlut Samsonar hafi ekki verið tekið tillit til eigin hluta Landsbankans og hluta dótturfélaga hans, en ekki beri að taka tillit til þessara eignarhluta, sbr. ákvæði 7. mgr. 97. gr. laga nr. 161/2002, sbr. einnig 3. mgr. 82. gr. laga nr. 2/1995. Þá séu ótaldir eignarhlutar í aflandsfélögum undir stjórn Landsbankans.
Eignarhald aflandsfélaga á hlutum í Landsbankanum
Vitnastefnandi vísar í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008. Samkvæmt henni hafi árið 2000 verið stofnuð fjárhaldsfélög (e. trusts) á aflandssvæðum í tengslum við innleiðingu kaupréttarsamninga í launa- og hvatakerfi Landsbankans. Hin erlendu fjárhaldsfélög, sem hafi orðið að minnsta kosti þrjú, hafi í upphafi verið eignalaus en hafi átt að fullu tvö til fjögur eignarhaldsfélög sem stofnuð voru til þess að halda utan um þau hlutabréf Landsbankans sem voru andlag kaupréttarsamninga við starfsmenn bankans. Þessi eignarhaldsfélög hafi verið sjálfseignarstofnanir. Samkvæmt skýrslu Kristjáns Gunnars Valdimarssonar, fyrrverandi forstöðumanns skattasviðs Landsbankans, fyrir rannsóknarnefnd Alþingis hafi ástæða þess að stofnuð voru fleiri eignarhaldsfélög verið sú að með því mátti komast hjá flöggunarskyldu samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti. Þá hafi Kristján lýst því að Samson hefði notið undanþágu frá yfirtökuskyldu við kaupin á bankanum á þeirri forsendu að hlutafjáreign færi ekki yfir þau ríflega 45,8% sem félagið hafði keypt í bankanum. Venja væri í tengslum við kaupréttarsamninga að gefa út viðbótarhlutabréf til þeirra sem innleystu kaupréttinn en í tilviki Landsbankans hefði það þynnt út hlut Samsonar. Þannig hefði félagið ekki getað tryggt meirihlutaeign sína í bankanum eftir innlausn því reglur um yfirtöku hefðu mögulega getað átt við hefði Samson síðar ætlað að auka við hlut sinn að nýju.
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segi að framkvæmdin hafi verið sú, þegar gerðir voru kaupréttarsamningar við starfsmenn, að Landsbankinn hafi lánað eignarhaldsfélögunum fyrir kaupum á hlutabréfum í bankanum, fyrst LB Holding árið 2000, þá Marcus Capital Ltd. árið 2004 og að lokum Proteus Global Holding árið 2005, en áðurnefnd fjárhaldsfélög hafi ein átt eignarhaldsfélögin. Veð fyrir lánunum hafi verið hlutabréfin sjálf. Landsbankinn hafi síðan gert framvirkan samning við hvert eignarhaldsfélag fyrir sig um meðal annars afhendingu á bréfunum. Fjármögnun á félögunum hafi síðan færst yfir í hina bankana tvo, Glitni og Kaupþing, árið 2006.
Í skýrslunni segi að framangreind aflandsfélög hafi að fullu verið undir stjórn og fjárhagslegum yfirráðum Landsbankans í umsjá meðal annars Kristjáns Gunnars Valdimarssonar og Hauks Þórs Haraldssonar, framkvæmdastjóra fjármála- og rekstrarsviðs bankans. Hafi bankinn gefið út sjálfskuldarábyrgðir í sínu nafni til að ábyrgjast lán félaganna hjá Kaupþingi og Glitni eftir að fjármögnun félaganna færðist yfir til þeirra. Í skýrslunni sé vakin athygli á því að Landsbankinn hafi ekki þurft að leggja fram sambærilega ábyrgð gagnvart Straumi en að stærsti hluthafinn hafi verið hinn sami í báðum bönkum, Björgólfur Thor Björgólfsson.
Samkvæmt skýrslunni hafi hin erlendu eignarhaldsfélög átt að standa skil á afhendingu hlutabréfa í Landsbankanum yrði verð bréfanna hærra en kaupréttargengið og kauprétturinn yrði nýttur, samkvæmt framvirkum samningum. Yrði gengi bréfanna lægra en kaupréttargengið yrði kauprétturinn ekki nýttur. Það þýddi að félagið ætti hlutabréf sem stæðu ekki undir láninu sem hafði verið tekið til að kaupa þau. Þar með hefði lækkun hlutabréfaverðsins endanlega fallið á bankann sjálfan. Því hafi áhætta af lækkun bréfanna ávallt haldist hjá bankanum sjálfum eða fjárhagslega tengdum aðilum hans, eins og Straumi.
Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hafi eignarhaldsfélögin, sem sett hafi verið á fót í ofangreindum tilgangi, að minnsta kosti verið þessi:
|
Félag |
Land |
Fjármögnun |
Trygging |
Fjöldi hluta að nafnvirði |
|
LB Holding Ltd. (kt.630600-9010) |
Guernsey |
Tvö lán hjá Straumi 10. október 2006 og 26. febrúar 2007 |
Hlutabréf í Landsbankanum |
150.000.000 |
|
Kargile Portfolio Inc. (kt. 481204-9170) |
Tortóla |
Tvö lán hjá Landsbankanum 2. feb. og 18. maí 2005 að fjárhæð samtals um kr. 525 millj. Hjá Straumi frá des. 2006 |
Hlutabréf í Landsbankanum |
42.700.000 |
|
Marcus Capital Ltd. (kt. 510305-9810) |
Tortóla |
Lán hjá Landsbankanum frá 18. maí 2005 að fjárhæð um kr. 1 ma. Færsla til Straums 2006. |
Hlutabréf í Landsbankanum |
90.000.000 |
|
Empennage Inc. (kt. 690506-9710) |
Panama |
Óljóst. A.m.k. kr. 6,9 milljarðar frá Kaupþingi. |
Sjálfsk.ábyrgð Landsbankans |
Óljóst. A.m.k. 123.269.412 hlutir frá ágúst 2006 til 29. júní 2007. A.m.k. 238.269.412 hlutir frá þeim tíma til ágúst 2007. |
|
Zimham Corporation (kt. 690506-9980) |
Panama |
Lán hjá Kaupþingi frá júní 2006 að fjárhæð 4,5 ma. Lán hjá Glitni að frá júní 2007 að fjárhæð kr. 5,6 ma. |
Sjálfsk.áb. Landsbankans frá júní 2006 til júní 2007. Handveð í hlutabréfum í Landsbankanum frá þeim tíma. |
Óljós. A.m.k.um 238 millj. hlutir frá júní 2007 |
|
Peko Investment Company Ltd. (kt. 510305-9730) |
Tortóla |
Lán hjá Sraumi frá 29. sept. 2006 að fjárhæð kr. 1,5 ma. |
Hlutabréf í Landsbankanum |
130.000.000 |
|
Proteus Global Holding S.A. (kt. 520204-9030) |
Tortóla |
Lán hjá Straumi frá 26. sept. 2006 að fjárhæð tæplega kr. 1,4 ma. |
Hlutabréf í Landsbankanum |
207.900.000 |
|
Kimball Associated Inc. (kt. 550107-9880) |
Panama |
Lán hjá Straumi frá 30. janúar 2007 að fjárhæð kr. 6,513 ma. |
Hlutabréf í Landsbankanum |
326.000.000 |
Samkvæmt þessu hafi framangreind eignarhaldsfélög eignast samtals um 1.422.869.412 hluti í Landsbankanum á tímabilinu frá febrúar 2005 til júní 2007. Kaup hlutanna hafi ýmist verið fjármögnuð með lánum frá Landsbankanum sjálfum, Straumi-Burðarási, sem hafi verið fjárhagslega tengdur Landsbankanum, Glitni og Kaupþingi. Í þau skipti sem Glitnir og Kaupþing lánuðu félögunum fyrir kaupunum hafi lánin verið tryggð með sjálfskuldarábyrgð Landsbankans. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segi að framangreind félög hafi átt samanlagt um 13,2% af hlutafé Landsbankans frá miðju ári 2006 til falls bankans. Segist nefndin ekki hafa fundið skýringar á ráðstöfunum á um 225 milljónum hluta í Landsbankanum af þeim 1.480 milljónum hluta sem hefðu verið útistandandi vegna kaupréttarsamninga í lok árs 2007 miðað við ársreikning. Þá hafi heildarinnlausn starfsmanna Landsbankans á kaupréttarsamningum numið 217 milljónum að nafnvirði í félaginu á árunum 2004-2008. Ekki væri að sjá að Landsbankinn hefði dregið á eign aflandsfélaganna til að mæta þessari innlausn starfsmannanna.
Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis hafi Kristján Gunnar Valdimarsson lýst því að fyrir aðalfund Landsbankans, 9. febrúar 2007, hefði Sigurjón Þ. Árnason, þáverandi bankastjóri, farið þess á leit við sig að safna saman umboðum frá stjórnum erlendu fjárhaldsfélaganna og fara með atkvæðarétt félaganna á fundinum og þá einkum til að leggja starfskjarastefnu bankaráðs lið. Hefði þetta verið gert og hafi Kristján sagst hafa farið með atkvæðarétt félaganna á fundinum samkvæmt umboði og greitt atkvæði á fundinum.
Hinn 20. febrúar 2008 hafi Fjármálaeftirlitið sent bankastjórn Landsbankans skýrslu um athugun á útlánaáhættu hjá Landsbankanum. Í skýrslunni hafi verið kunngerðar niðurstöður vettvangsrannsókna FME sem farið hafi fram dagana 18. og 19. september 2007. Í skýrslunni hafi eftirlitið meðal annars tekið til athugunar kaupréttarsamninga Landsbankans. Sagði eftirlitið að þeir tækju til 1.740 milljóna króna að nafnverði eða 15,8% af heildarhlutafé bankans. Því næst hafi FME fjallað um þau eignarhaldsfélög sem héldu utan um hlutina sem lægju til grundvallar kaupréttarsamningunum. Hafi eftirlitið tekið fram að eini tilgangur félaganna væri að halda utan um þessa hluti í bankanum til þess að hann gæti efnt kaupréttarsamninga sína við starfsmenn bankans. Gerðir væru skuldbindandi samningar við þessi félög um að bankinn keypti umrædda hluti á fyrir fram ákveðnu verði og tíma. Komið hefði fram á fundi með starfsmönnum bankans að atkvæðaréttur eignarhlutanna væri óvirkur þó svo að dæmi væru um að starfsmaður bankans hefði farið með atkvæðarétt samkvæmt umboði. Eftirlitið hafi að svo stöddu ekki tekið afstöðu til framangreinds en hafi sagst myndu á síðari stigum skoða frekar hvernig eignarhaldi bankans væri fyrir komið, meðal annars með tilliti til laga um virka eignarhluti og hámark eigin bréfa. Að lokum hafi FME bent á að fyrirkomulag bankans vegna kaupréttarsamninga væri til þess fallið að draga úr gagnsæi á eignarhaldi hans.
Áhættuskuldbindingar Landsbankans vegna Björgólfs Thors
Vitnastefnandi víkur einnig að því að 22. mars 2007 hafi Fjármálaeftirlitið birt niðurstöður athugunar á áhættu og innra eftirliti Landsbanka Íslands hf. sem fram hafi farið á tímabilinu frá apríl 2005 til maí 2006. Í niðurstöðum sínum hafi FME meðal annars gert athugasemdir við áhættustýringu útlána hjá Landsbankanum. Helstu efnisatriði athugasemdanna hafi meðal annars verið þau að skilgreiningu Landsbankans og meðferð á fjárhagslega tengdum aðilum samkvæmt reglum nr. 531/2003 væri ábótavant.
Í viðhengi með bréfinu hafi eftirlitið sérstaklega tekið fyrir áhættuskuldbindingar Landsbankans vegna Björgólfs Thors Björgólfssonar og tengdra aðila. Í því hafi komið fram að samkvæmt upplýsingum Landsbankans hefðu heildarskuldbindingar bankans gagnvart félögum, sem að mati bankans voru fjárhagslega tengd Björgólfi Thor, numið 33.381 milljón króna eða 32,8% af lögbundnu eigin fé bankans (CAD EF). Eftir að FME hefði farið yfir lánveitingar til Björgólfs Thors og félaga tengdum honum, meðal annars Actavis hf., hafi eftirlitið komist að þeirri niðurstöðu að áhættuskuldbinding Landsbankans gagnvart Björgólfi Thor og tengdum aðilum hafi numið að minnsta kosti 51,3 milljörðum króna sem nam þá 49,7% af CAD eigin fé bankans.
Landsbankinn hafi mótmælt þessari túlkun Fjármálaeftirlitsins með bréfi, 30. apríl 2007, á þeim grundvelli að Björgólfur Thor og tengdir aðilar hafi ekki farið með yfirráð í Actavis og að ekki væri hætta á smiti á fjárhagslegum erfiðleikum milli þessara aðila vegna sterkrar fjárhagslegrar stöðu Björgólfs Thors og tengdra aðila að öðru leyti.
Vitnastefnandi hafi undir höndum glærukynningu þar sem reifuð séu rök og sjónarmið Landsbankans fyrir því að tengja ekki áhættu vegna Björgólfs Thors og Actavis. Svo virðist sem Ársæll Hafsteinsson aðallögfræðingur bankans hafi lagt þessa glærukynningu fyrir bankaráðsfund 17. apríl 2007. Í kynningunni komi meðal annars fram að Landsbankinn hafi boðist til að lýsa yfir því að bankinn myndi ekki beita atkvæðarétti sínum í Actavis kæmi það í veg fyrir að áhætta Björgólfs Thors og áhætta Actavis yrði samtengd. Vitnastefnandi telji fyrirliggjandi gögn gefa vísbendingu um að stjórnendur Landsbankans og Björgólfur Thor hafi í sameiningu lagt á ráðin um það á hvaða hátt mætti víkja sér undan eða komast fram hjá reglum um stórar áhættuskuldbindingar vegna útlána Landsbankans til Björgólfs Thors og tengdra félaga.
Eins og áður er komið fram hafnar vitnastefndi, Björgólfur Thor Björgólfsson, málavaxtalýsingu vitnastefnanda í heild sinni en gerir þó ekki sjálfstæða grein fyrir málsatvikum eins og þau horfa við honum.
Málsástæður og lagarök vitnastefnanda
Til stuðnings kröfu sinni vísar vitnastefnandi til þess að samkvæmt 2. málslið 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 sé aðila heimilt að leita sönnunar fyrir dómi með vitnaleiðslu eða öflun skjals eða annars sýnilegs sönnunargagns um atvik sem varði lögvarða hagsmuni hans og geti ráðið niðurstöðu um hvort hann láti verða af málshöfðun vegna þeirra. Vitnastefnandi telji skilyrðin uppfyllt í þessu tilviki.
Ekki leiki neinn vafi á því að vitnastefnandi, sem hluthafi í Landsbankanum, hafi beðið tjón við fall bankans. Hann telji aðaleigendur Landsbankans, feðgana Björgólf Guðmundsson og Björgólf Thor Björgólfsson, hafa í gegnum eignarhaldsfélagið Samson haft óeðlileg áhrif á starfsemi bankans og með skipulögðum og ólögmætum hætti notað þau áhrif til þess að leyna yfirráðum sínum yfir Landsbanka Íslands hf. og veita Björgólfi Thor og félögum í hans eigu lán umfram heimildir.
Þau atvik sem vitnastefnandi telji að rannsaka þurfi nánar til að taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að höfða bótamál séu samskipti stjórnar og stjórnenda Landsbankans við aðaleigendur bankans, ytri og innri endurskoðendur, sem og Fjármálaeftirlitið, svo og hvernig það hafi komið til að upplýsingar um raunverulegt eignarhald bankans hafi verið jafn óljósar og gögn gefi til kynna. Jafnframt hver eða hverjir beri mögulega ábyrgð á því að viðskiptamönnum og hluthöfum bankans hafi lengi verið veittar rangar og villandi upplýsingar um eignarhald bankans. Vitnastefnandi telur tilefni vera til að rannsaka hvort stjórn og stjórnendur bankans hafi lagt á ráðin með aðaleigendum hans um að veita rangar og villandi upplýsingar um eignarhaldið og að halda leyndum umfangsmiklum og óheimilum lánveitingum til Björgólfs Thors og tengdra félaga. Helstu atriði sem vitnastefnandi telur þurfa að rannsaka og leitast við að leiða í ljós með skýrslugjöf séu þessi:
- Af hverju Samson eignarhaldsfélag ehf. hafi ekki verið skilgreint sem móðurfélag Landsbanka Íslands hf. og hver eða hverjir hafi haft áhrif á það. Fyrirliggjandi upplýsingar, svo sem úr stefnu slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. frá 16. janúar 2012 í héraðsdómsmálinu nr. E-991/2012, bendi til þess að gróflega hafi verið farið á svig við reglur hlutafélagalaga og laga um fjármálafyrirtæki, um skilgreiningu á móðurfélagi. Hefði Samson eignarhaldsfélag ehf. verið réttilega skilgreint sem móðurfélag Landsbanka Íslands hf. hefði það haft margvísleg áhrif, meðal annars þau að ekki hefði verið undan því vikist að upplýsa um lánveitingar til eigenda Samsonar eignarhaldsfélags ehf. og að til yfirtökuskyldu gagnvart öðrum hluthöfum hefði stofnast.
- Tengt lið 1 hér að ofan telur vitnastefnandi að rannsaka þurfi sérstaklega hvort stjórnendur og stjórn Landsbanka Íslands hf. hafi tekið þátt í því að leyna raunverulegri eignarhlutdeild Samsonar eignarhaldsfélags ehf. í Landsbanka Íslands hf., í því skyni að aðstoða aðaleigendur bankans við að fara á svig við reglur um yfirtökuskyldu.
- Hvort stjórn og stjórnendur bankans hafi vísvitandi og á skipulagðan hátt farið á svig við reglur um svokallaða tengda aðila. Vitnastefnandi telur þá lagaskyldu hafa hvílt á Landsbankanum að skilgreina Björgólf Thor Björgólfsson sem tengdan aðila, en þeirri skyldu hafi bankinn ekki fylgt og þannig farið á svig við reglur um stórar áhættuskuldbindingar og komið sér hjá því að upplýsa um umfangsmiklar lánveitingar til hans, lánveitingar sem hafi verið langt umfram heimildir. Vitnastefnandi telur vísbendingar um að kaup Hersis á hlut í eigu Samsonar eignarhaldsfélags ehf. og félags í eigu starfsmanna Novator á hlut í Givenshire hafi verið sýndargerningar, gerðir í þeim tilgangi að halda formlegu eignarhaldi Björgólfs Thors í Landsbankanum fyrir neðan 20% mörkin sem kveðið sé á um í IAS 24 staðli þannig að formleg skylda til að skilgreina Björgólf sem tengdan aðila í reikningsskilum bankans yrði ekki virk.
- Hvort stjórn og stjórnendur bankans hafi vísvitandi og á skipulagðan hátt farið á svig við reglur um skilgreiningu á stórum áhættuskuldbindingum. Vitnastefnandi telur sterkar vísbendingar vera fyrir hendi um það að stjórn og stjórnendur Landsbanka Íslands hf. hafi, í samvinnu við Björgólf Thor Björgólfsson, tekið ákvörðun um að tengja hann ekki við öll þau félög sem hann réði yfir, svo sem Actavis hf. Það hafi verið gert til þess að fara á svig við reglur um stórar áhættuskuldbindingar.
Vitnastefnandi byggir á því að hefði hið gríðarlega umfang lánveitinga til Björgólfs Thors, legið fyrir opinberlega, í síðasta lagi um áramótin 2005/2006, hefði hann ekki fjárfest í bankanum. Sama eigi við hefði legið fyrir að Landsbanki Íslands hf. væri dótturfélag Samsonar eignarhaldsfélags ehf. Vitnastefnandi telji ljóst að sú dreifing áhættu sem regluverk um bankastarfsemi eigi að tryggja hafi ekki verið fyrir hendi hjá Landsbankanum og að bankinn hafi verið mun háðari Björgólfi Thor, og árangri hans í viðskiptum, en reikningar bankans hafi gefið til kynna. Vitnastefnandi telur óhugsandi að hann eða aðrir fjárfestar hefðu fjárfest í bankastofnun sem bryti gegn reglum um stórar áhættuskuldbindingar eins gróflega og Landsbankinn hafi gert vegna lána til Björgólfs Thors. Vitnastefnandi telur svo hafa verið komið að Landsbankanum hafi verið nauðsynlegt að halda leyndum umfangsmiklum lánveitingum til Björgólfs Thors til að viðhalda rekstrarhæfi bankans og trúverðugleika. Það hafi leitt til þess að allir starfsmenn og stjórnendur bankans hafi haft beina hagsmuni af því að viðhalda hinu ólögmæta ástandi.
Vitnastefnandi telur nauðsynlegt að leita sönnunar um þau atvik sem fyrr greinir svo að hann geti metið hvort höfða eigi skaðabótamál á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni.
Að öllu framangreindu virtu telur vitnastefnandi beiðnina uppfylla skilyrði 2. málsliðar 2. mgr. 77. gr. laga nr. 21/1991. Hann vísar einnig til dóms Hæstaréttar í máli nr. 64/2011.
Málsástæðurog lagarök vitnastefnda
Vitnastefndi vísar fyrst til þess að hugmyndir vitnastefnanda um málshöfðun á hendur sér séu óljósar en byggist á alvarlegum og illa afmörkuðum ásökunum um „vísvitandi“, „skipulögð“ og „gróf“ lögbrot „stjórnar og stjórnenda“ Landsbanka Íslands hf.
Það veki athygli að vitnastefnandi beini spjótum sínum að vitnastefnda, sem óbeins eiganda hlutar í bankanum. Tengsl vitnastefnda við Landsbankann hafi verið þau að hann átti, auk 0,1% eignarhlutar í Samson eignarhaldsfélagi ehf., Valhamar Group, sem átti 95% hlut í Givenshire Equities Ltd., sem átti alla hluti í Givenshire Equities S.à r.l., sem átti 49,9% hlut í Samson. Öll þessi félög hafi lotið sjálfstæðri stjórn. Samson hafi svo átt liðlega 40% hlut í Landsbankanum. Vitnastefndi hafi ekki haft nein afskipti af meðferð eignarhlutar Samsonar, stjórn eða rekstri bankans. Vitnastefndi beri því ekki neina ábyrgð gagnvart vitnastefnanda á starfsemi bankans eða öðrum þeim atriðum sem hann kvarti yfir.
Vitnastefnandi telji sig sýnilega, og reyndar réttilega, ekki hafa sönnur fyrir því að vitnastefndi og faðir hans hafi „í gegnum eignarhaldsfélagið Samson haft óeðlileg áhrif á starfsemi bankans og með skipulögðum og ólögmætum hætti notað þau áhrif til þess að leynda [sic] yfirráðum þeirra yfir Landsbanka Íslands hf. og veita lán til Björgólfs Thors og félaga í hans eigu umfram skuldir“. Af þeim sökum telji hann „að rannsaka þurfi nánar“ ýmis atriði sem hann tilgreini í beiðni sinni. Vitnastefndi telji einu gilda hversu mikið „nánar“ þessi atriði verða rannsökuð, því staðreynd málsins sé sú:
í fyrsta lagi að vitnastefndi, sem óbeinn eigandi hlutar í bankanum, beri lögum samkvæmt ekki neina ábyrgð á starfsemi hans og
í öðru lagi að vitnastefndi, sem óbeinn eigandi, hafi aldrei haft nokkur afskipti af starfsemi Landsbankans yfirleitt.
Vitnastefnandi byggi sýnilega á þeirri forsendu að „stjórn og stjórnendur bankans“ hafi vísvitandi stundað „umfangsmiklar og óheimilar“ lánveitingar í andstöðu við lög. Að öðrum kosti hefðu þessi sama „stjórn og stjórnendur“ tæpast getað lagt á ráðin um að „halda leyndum“ þessum lánveitingum. Í þessu felist því ásökun, reyndar með öllu ósönnuð, gagnvart „stjórn og stjórnendum bankans“ um lögbrot sem gætu reynst refsiverð, sbr. meðal annars 110. gr. og 112. gr. b laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 130/2004 og 55/2007.
Vitnastefndi krefst þess að beiðni vitnastefnanda verði hafnað. Hann telur þá annmarka á beiðninni að vitnastefnandi hafi ekki neina lögvarða hagsmuni að verja, að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi ekki lögsögu í málinu, að beiðni sé óskýr, ófullnægjandi og óafmörkuð, hún varði hagsmuni fjölda manns sem hafi ekki gefist kostur á að láta málið til sín taka og beinist meðal annars að upplýsingum sem þagnarskylda ríki um. Þá ætli vitnastefnandi sýnilega að freista þess að knýja menn til svara sem yrðu mögulega aðilar í máli sem hann hyggst höfða. Jafnframt felist í beiðninni ásakanir á hendur þeim um refsiverða háttsemi.
Beiðnin standi því ekki með nokkru móti undir skilyrðum 77. og 78. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. meðal annars VII. og X. kafla laganna.
Engir lögvarðir hagsmunir
Samkvæmt 2. málslið 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sé það skilyrði fyrir beiðni vitnastefnanda að hann leiti sönnunar „um atvik sem varða lögvarða hagsmuni hans og geta ráðið niðurstöðu um hvort hann láti verða af málshöfðun vegna þeirra“. Vitnastefndi mótmæli því að þetta skilyrði sé uppfyllt.
Hugmyndir vitnastefnanda um málshöfðun gegn vitnastefnda byggi á þeirri fjarstæðukenndu forsendu að stjórn og stjórnendur Landsbankans muni koma fyrir dóm og viðurkenna þar að hafa brotið „gróflega“ og með „vísvitandi og skipulögðum hætti“ gegn lögum og reglum, mögulega þannig að varði refsingu. Vitnastefnandi hafi ekki ástæðu til að ætla að þetta muni gerast. Hugmyndir vitnastefnanda um málshöfðun eigi sér því engan möguleika og það sé honum ljóst. Vitnastefnandi virðist þess í stað ætla að stilla upp allsherjar leiksýningu í dóminum sér og fjölmiðlum til skemmtunar, en dóminum og öðrum til ama og trafala. Það sé óhugsandi að vitnastefnandi geti talist hafa lögvarða hagsmuni af rannsókn sem þessari. Slíkir hagsmunir séu hins vegar skilyrði þess að unnt sé að taka beiðni hans til greina. Þar sem þeir séu ekki fyrir hendi sé óhjákvæmilegt að hafna beiðni hans.
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur ekki lögsögu í málinu
Vitnastefndi byggir á því að í 1. mgr. 78. gr. laga um meðferð einkamála sé sérstök lögsöguregla. Samkvæmt henni skuli beiðni sem þessi send dómara í þeirri þinghá þar sem „mætti höfða mál um kröfu“, þar sem „vitni er statt“ eða þar sem „sýnilegt sönnunargagn er að finna“. Ekkert af þessu eigi við í málinu.
Í fyrsta lagi sé heimilisvarnarþing vitnastefnda í Bretlandi. Honum verði því ekki stefnt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur nema með heimild í sérstakri varnarþingsreglu. Ekki verði séð hvernig vitnastefndi geti átt varnarþing í Reykjavík vegna þeirra hugmynda um málshöfðun sem vitnastefnandi reifi í beiðni sinni. Reyndar víki vitnastefnandi ekki einu orði að því hvar hann telji sér heimilt að höfða mál vegna hinna meintu atvika.
Í öðru lagi séu nokkur þeirra vitna sem vitnastefnandi vilji kveða fyrir dóm búsett erlendis. Beiðnin verði því ekki studd þeim rökum að vitni sé statt í þinghá dómara. Þá komi hvergi fram í beiðninni hvernig vitnastefnandi hyggist knýja þessa menn til að mæta fyrir dóminn.
Í þriðja lagi óski vitnastefnandi eftir afhendingu tölvupósts í fórum vitnastefnda og Birgis Más Ragnarssonar, sem sé búsettur í Bretlandi. Þessi tölvupóstur fyrirfinnist ekki, svo vitað sé, í þinghá dómara. Vitnastefnandi geri ekki neina grein fyrir því hvernig hann hyggist knýja Birgi til afhendingar tölvupóstsins.
Þar sem Héraðsdómur Reykjavíkur hafi ekki lögsögu í málinu sé óhjákvæmilegt að hafna beiðni vitnastefnanda.
Beiðnin ófullnægjandi, óskýr og alls óafmörkuð
Samkvæmt 2. mgr. 78. gr. laga um meðferð einkamála verði í beiðni sem þessari meðal annars að „greina skýrt frá því atviki sem aðili vill leita sönnunar um“. Beiðni vitnastefnanda uppfylli þetta skilyrði alls ekki.
Vitnastefnandi virðist ætla að fara í dómsrannsókn á margvíslegum atriðum í rekstri Landsbankans á löngu árabili. Hann hafi því ekki afmarkað nægjanlega vel þau atriði sem hann vilji rannsaka. Helst virðist hann ætla að fara í allsherjarrannsókn á starfsemi Landsbankans án þess að nokkurra viðhlítandi takmarkana sé getið í beiðni hans. Með öllu sé óljóst að hverjum vitnastefnandi beini beiðninni. Af henni verði til dæmis ráðið að hún beinist ekki síst að verkum „stjórnar og stjórnenda Landsbankans“ án þess að útskýrt sé nákvæmlega hverjir teljist til þeirra. Sjálfur virðist vitnastefnandi meira að segja svo ruglaður um þetta að á einum stað tilgreini hann Landsbankann sem „varnaraðila“. Óskýr og óafmörkuð beiðni vitnastefnanda uppfylli því ekki lagaskilyrði og því sé óhjákvæmilegt að hafna henni.
Þeim sem vilji afla gagna án þess að mál hafi verið höfðað beri í öðru lagi, samkvæmt 2. mgr. 78. gr., að „greina skýrt frá því ... hverja sönnunin varðar að lögum“. Það hafi vitnastefnandi ekki gert.
Óhjákvæmilegt sé að líta svo á að sönnunarfærsla vitnastefnanda varði að lögum hagsmuni „stjórnar og stjórnenda“ Landsbankans, enda séu bornar sérstakar ásakanir á þessa menn í beiðninni. Þá megi ætla að sönnunarfærslan varði aðra þá sem eigi að veita upplýsingar. Þrátt fyrir þetta sé sönnunin sögð varða vitnastefnda einan. Þetta sé gert þótt vitnastefndi hafi aldrei setið í stjórn Landsbankans og beiðni vitnastefnanda snúist að minnstum hluta um að afla upplýsinga frá vitnastefnda. Engar skýringar finnist á því af hverju vitnastefnandi hafi valið þennan háttinn í erindi sínu til dómsins. Þessi misbrestur á beiðninni sé alvarlegur. Af honum leiði að vitnastefndi einn hafi verið kvaddur fyrir dóm til að bregðast við beiðninni og það þrátt fyrir að 4. mgr. 78. gr. mæli sérstaklega fyrir um að kveða skuli alla sem beiðnin „varðar“ fyrir dóminn. Með beiðninni hafi því vitnastefnandi komið í veg fyrir að ýmsir aðilar sem málið varðar fái gætt réttar síns við meðferð hennar fyrir dómi. Því sé óhjákvæmilegt að hafna beiðninni.
Í þriðja lagi verði sá sem vilji afla upplýsinga til undirbúnings málshöfðun að gera grein fyrir því „hvernig hann vill“ að sönnunar verði leitað, sbr. 2. mgr. 78. gr. Fyrir liggi að þeir sem vitnastefnandi vilji að gefi skýrslu séu margir bundnir þagnarskyldu um þau málefni sem vitnastefnandi hyggist rannsaka, meðal annars samkvæmt 22. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki og 30. gr. laga nr. 79/2008 um endurskoðendur. Vitnastefnandi hefði því að lágmarki þurft að rökstyðja með hvaða hætti hann teldi sönnunarfærsluna geta farið fram þrátt fyrir þagnarskylduna. Í beiðninni víki vitnastefnandi ekki að þessu einu orði. Af þeim sökum sé óhjákvæmilegt að hafna henni.
Staða hinna tilkvöddu kemur í veg fyrir að þeir verði kvaddir fyrir dóm
Vitnastefndi vísar til þess að samkvæmt 78. gr. laga um meðferð einkamála gildi meðal annars ákvæði VII.-X. kafla laganna við öflun sönnunargagna samkvæmt XII. kafla laganna. Af því leiði að við sönnunarfærslu myndu gilda ákvæði VII. kafla laganna um skýrslugjöf aðila. Af þeim ákvæðum leiði að aðili verði ekki krafinn svara fyrir dómi, sbr. meðal annars 2. mgr. 50. gr. Um sönnunarfærsluna myndu einnig gilda ákvæði X. kafla laganna. Af þeim ákvæðum leiði að þess verði ekki krafist að aðili afhendi skjal sem hann hafi í fórum sínum, sbr. meðal annars 1. mgr. 68. gr.
Vitnastefnandi vilji kveða fyrir dóminn til skýrslugjafar 17 nafngreinda menn, sem allir hefðu mögulega aðilastöðu í því dómsmáli sem vitnastefnandi segist hafa í huga. Þetta sjáist til dæmis af því að vitnastefnandi tilgreini þessa menn alla sem „aðila“. Þá hafi vitnastefnandi krafist þess að vitnastefndi og einn af hinum 16 nafngreindu mönnum afhendi tölvupóst. Vitnastefnandi telji því þá menn sem þessi krafa beinist að„aðila“ máls. Þessi krafa geti því aldrei náð fram að ganga.
Við þessar aðstæður sé nánast útilokað að kvaðning þessara manna fyrir dóminn geti þjónað nokkrum tilgangi. Þeir geti allir færst undan svörum og afhendingu gagna í málinu án nokkurra afleiðinga. Af þessum sökum sé óhjákvæmilegt að hafna beiðni vitnastefnanda.
Beiðnin felur í sér ásakanir um refsiverða háttsemi
Vitnastefndi bendir jafnframt á að samkvæmt 3. mgr. 77. gr. verði heimildum 1. og 2. mgr. 77. greinar ekki beitt „til að afla sannana um refsiverða háttsemi þar sem ákæruvaldið ætti sókn sakar“. Vitnastefnandi haldi fram margvíslegum ásökunum um „gróf“, „vísvitandi“ og „skipulögð“ lögbrot „stjórnar og stjórnenda“ Landsbankans. Í þessu felist að vitnastefnandi vilji rannsaka möguleg refsiverð brot stjórnar og stjórnenda Landsbankans. Rannsókn á þessum ásökunum geti ekki farið fram á grundvelli beiðni vitnastefnanda.
Það sé alkunna að á grundvelli laga nr. 135/2008 um embætti sérstaks saksóknara fari um þessar mundir fram sakamálarannsókn á ýmsum atriðum í starfsemi Landsbankans í aðdraganda hrunsins. Vitnastefnandi verði, eins og aðrir, að bíða niðurstöðu þeirrar rannsóknar. Ákvæði 77. gr. laga um meðferð einkamála veiti vitnastefnanda ekki neina heimild til að fara í sína eigin rannsókn. Skipti þá engu þótt vitnastefnanda lengi eftir efni til að bera á borð fyrir fjölmiðla.
Enda þótt vitnastefnda sé lítt kunnugt um rannsóknir sérstaks saksóknara, liggi fyrir að einhverjir þeir sem vitnastefnandi hyggist kveða fyrir dóminn hafi stöðu sakbornings við hinar opinberu rannsóknir. Því megi telja líklegt að einhverjir þeirra muni nýta rétt sinn, meðal annars samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og færast undan svörum við spurningum vitnastefnanda.
Þar sem beiðni vitnastefnanda uppfylli hvorki skilyrði 77. né 78. gr. laga nr. 91/1991 sé óhjákvæmilegt að hafna henni. Dómur Hæstaréttar í máli nr. 64/2011, hafi ekki neina þýðingu í þessu máli þar sem atvik og aðstæður þar séu allt aðrar en hér.
Niðurstaða
Vitnastefnandi telur sig hafa orðið fyrir tjóni þegar hlutabréf hans í Landsbankanum urðu verðlaus 7. október 2008. Hann telur upplýsingar sem hann hefur þegar aflað og gerir grein fyrir í málsatvikalýsingu veita sterka vísbendingu um að það tjón megi, að minnsta kosti að hluta til, rekja til athafna sem vitnastefndi beri ábyrgð á þannig að hann hafi á einhvern hátt stuðlað að, tekið þátt í eða á annan hátt komið að lögbrotum í starfsemi Landsbankans sem hafi að lokum leitt til þess að bankinn var tekinn til slita. Vitnastefnandi telur þau gögn sem hann hefur þegar aflað benda til þess að athafnir vitnastefnda hafi valdið því að hlutabréfamarkaðnum hafi reglubundið verið gefnar rangar upplýsingar um fjárhagsstöðu Landsbankans og ekki síður um fjárhagsmálefni félaga sem vitnastefndi átti hlut í. Með þessum óáreiðanlegu upplýsingum hafi vitnastefnandi og aðrir verið blekktir til að kaupa hlutabréf í bankanum en það hefði hann ekki gert hefði hann vitað hvernig allt var í pottinn búið.
Vitnastefnandi hefur hug á að fá tjón sitt bætt og hyggst í því skyni höfða mál gegn vitnastefnda. Þrátt fyrir þau gögn sem hann hefur aflað telur hann sig ekki hafa fullnægjandi sönnur fyrir þeim atvikum sem hann telur sig geta byggt skaðabótakröfu sína á. Af þeim sökum höfðar hann þetta vitnamál með stoð í 2. málslið 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í 1. málslið ákvæðisins er aðila heimilað að leita sönnunar, um atvik sem varðar lögvarða hagsmuni hans, með vitnaleiðslu eða öflun skjals eða annars sýnilegs sönnunargagns, þótt hann hafi ekki haft uppi kröfu í tengslum við atvikið í dómsmáli. Samkvæmt 2. málslið er aðila með sama hætti heimilt að leita sönnunar fyrir dómi um atvik sem varða lögvarða hagsmuni hans og geta ráðið niðurstöðu um hvort hann láti verða af málshöfðun vegna þeirra. Á grundvelli þessa ákvæðis óskar vitnastefnandi heimildar til að fá að leiða vitnastefnda og 16 nafngreind vitni fyrir dóminn og krefst þess jafnframt að lagt verði fram í dómi tölvuskeyti sem lögmaður Samsonar sendi Fjármálaeftirlitinu snemma árs 2007 þar sem tilkynnt var um breytt eignarhald Samsonar.
Vitnastefndi telur beiðni vitnastefnanda ekki uppfylla skilyrði 78. gr. laga nr. 91/1991 um form. Þar fyrir utan hafi hann ekki lögvarða hagsmuni eins og 77. gr. sömu laga áskilji og setji kröfu sína fram á röngu varnarþingi. Jafnframt byggir vitnastefndi á því að ætti tilgáta vitnastefnanda við rök að styðjast bæri opinberum aðilum að rannsaka málið en ekki vitnastefnanda.
Vitnastefnandi tilgreinir í fjórum töluliðum þau atriði sem hann vill fá að spyrja vitnin út í. Hann leitar fyrst svara við því af hverju Samson eignarhaldsfélag ehf. hafi ekki verið skilgreint sem móðurfélag Landsbanka Íslands hf. og hver eða hverjir hafi haft áhrif á það. Næst, en þó þessu tengt, hvort stjórnendur og stjórn Landsbanka Íslands hf. hafi tekið þátt í því að leyna raunverulegri eignarhlutdeild Samsonar í bankanum, í því skyni að aðstoða aðaleigendur hans við að fara á svig við reglur um yfirtökuskyldu. Í þriðja lagi hvort stjórn og stjórnendur bankans hafi vísvitandi og á skipulagðan hátt farið á svig við reglur um svokallaða tengda aðila og í fjórða lagi hvort stjórn og stjórnendur bankans hafi vísvitandi og á skipulagðan hátt farið á svig við reglur um skilgreiningu á stórum áhættuskuldbindingum. Vitnastefnandi tilgreinir ekki dagsetningu þess tölvuskeytis sem hann vill fá lagt fram í dómi. Hins vegar tekur hann fram að í því tilkynni lögmaður Samsonar Fjármálaeftirlitinu um breytt eignarhald Samsonar snemma árs 2007.
Að mati dómsins hefur vitnastefnandi tilgreint nægilega skýrt til hvaða atvika og gagna beiðni hans tekur og verður henni ekki hafnað af þeim ástæðum að það sem hann leitar sönnunar um sé of loðið og óljóst afmarkað.
Vitnastefndi byggir jafnframt á því að vitnastefnandi hafi ekki tilgreint alla þá sem sönnunin varðar að lögum en langflestir þeirra sem vitnastefnandi óski að leiða hafi verið í stjórn bankans eða teljist hafa verið stjórnendur hans. Vitnastefnandi kunni hugsanlega að vilja höfða mál gegn þessum vitnum síðar meir og því eigi þau að njóta stöðu aðila að vitnamálinu.
Þeir sem sönnunin varðar að lögum eru þeir sem kynni að vera stefnt í hugsanlegu dómsmáli. Vitnastefnandi leggur þann grunn að beiðni sinni að þessi öflun sönnunargagna sé honum nauðsynleg til þess að hann geti ákveðið hvort hann muni höfða mál gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni. Úr beiðninni verður ekki lesið að hann hyggist höfða mál gegn öðrum en Björgólfi Thor á grundvelli þeirra upplýsinga sem hann vill fá að afla. Hann verður því talinn hafa tilgreint nægilega aðra þá sem sönnunin varðar að lögum.
Samkvæmt 1. og 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 eru heimildir XII. kafla laganna til að afla sönnunargagna án málshöfðunar bundnar við öflun matsgerða dómkvaddra manna, framburðar vitna, skjala og annarra sýnilegra sönnunargagna. Samkvæmt þessum heimildum verður ekki tekin skýrsla fyrir dómi af þeim, sem fyrirsjáanlega yrði aðili að væntanlegu dómsmáli. Því er útilokað að vitnastefnandi geti tekið skýrslu af Björgólfi Thor til undirbúnings máls á hendur honum.
Vitnastefnandi þykir einnig hafa gert nægilega góða grein fyrir því hvernig sönnunin á að fara fram þar sem hann vill gera það með því að fá að leiða vitni fyrir dóminn svo og með því að fá tölvuskeyti lagt fram í dóminum.
Eins og komið er fram leitar vitnastefnandi sönnunarinnar til þess að undirbyggja hugsanlegt skaðabótamál. Samkvæmt 41. gr. laga nr. 91/1991 má höfða mál vegna skaðabóta utan samninga á varnarþingi þar sem tjónsatburður á að hafa orðið. Í fræðum hefur verið gengið út frá því að hvorki sé nauðsynlegt að stefndi hafi fyrirfram viðurkennt að hafa valdið tjóni né að líkindi þurfi að vera fyrir því að fyrra bragði að hann hafi valdið því tjóni sem stefnandi vill færa sönnur á. Höfuðstöðvar Landsbankans voru í Reykjavík, 7. október 2008, þegar hlutabréf í honum urðu verðlaus. Þetta mál er því réttilega rekið fyrir héraðsdómi Reykjavíkur.
Þar sem vitnastefnandi hefur höfðað málið á réttu dómþingi, tilgreinir nægilega skýrt þau atvik og gögn sem hann leitar sönnunar um, hvernig sönnunarinnar skuli leitað, hver réttindi eru í húfi og hverja sönnunin varðar að lögum uppfyllir beiðni hans öll skilyrði 1. og 2. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991.
Ekki þarf að orðlengja að hlutafé í Landsbankanum missti verðgildi sitt 7. október 2008 þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn bankans. Eigendur hlutafjár í bankanum urðu þar með fyrir tjóni. Samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 64/2011 er slíkt tjón nægjanlega einstaklingsbundið til þess að sérhver hlutafjáreigandi geti höfðað mál gegn stjórnendum fjármálafyrirtækis með stoð í 2. málslið 1. mgr. 134. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög vegna brota gegn ákvæðum þeirra laga eða samþykktum félags.
Sá sem hefur orðið fyrir sams konar tjóni og hyggst leita réttar síns gagnvart svonefndum þriðja manni sem hann telur, að minnsta kosti að hluta til, eiga sök á því tjóni á engu minni hagsmuni. Þar sem vitnastefnandi átti hlutabréf í Landsbankanum þegar þau urðu verðlaus þykja þau atvik sem hann leitar sönnunar um varða lögvarða hagsmuni hans.
Vitnastefnandi hyggst, gefi þær upplýsingar sem hann sækist eftir með þessu vitnamáli nægilegt tilefni til, höfða mál á hendur vitnastefnda til heimtu bóta á grundvelli skaðabótaréttar utan samninga. Þrátt fyrir að það mál sé á sviði einkaréttar verður ekki fram hjá því litið að allar þær athafnir og aðstæður sem vitnastefnandi vill að vitnin veiti upplýsingar um kunna, reynist tilgáta hans um atvik máls að einhverju leyti eiga við rök að styðjast, að varða refsingu samkvæmt ákvæðum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og laga nr. 2/1995 um hlutafélög.
Í lögum um fjármálafyrirtæki, eins og 112. gr. b var orðuð, 7. október 2008, þegar hlutabréf vitnastefnanda í Landsbankanum misstu verðgildi sitt, voru í 21. tölulið 1. mgr. tilgreind ákvæði laganna sem refsivert var að brjóta gegn. Jafnframt stóð, og stendur enn í 2. mgr. 112. gr. b, að það varði sömu refsingu að gefa vísvitandi rangar eða villandi upplýsingar um hagi fjármálafyrirtækis eða annað er það varðar, opinberlega eða til Fjármálaeftirlitsins, annarra opinberra aðila eða viðskiptamanna fyrirtækisins. Í 112. gr. c er tekið fram að brot gegn lögunum sé refsivert enda þótt það sé framið af gáleysi. Að auki er tekið fram í 3. mgr. 112. gr. c að tilraun til brots sem og hlutdeild í því sé einnig refsiverð.
Í þessum úrskurði er ekki tekin nein afstaða til þess hvort lýsing vitnastefnanda á atvikum og aðstæðum í þeim fyrirtækjum sem hann tilgreinir í beiðni sinni kunni að eiga við rök að styðjast en þær athafnir sem hann leitar upplýsinga um kynnu, hefðu þær gerst, að varða refsingu samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um hlutafélög. Þegar svo stendur á þykir, þrátt fyrir að vitnastefnandi hafi ekki höfðað þetta mál til að afla sannana um refsiverða háttsemi, verða að vísa til 3. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 þar sem segir að heimildum 1. og 2. mgr. ákvæðisins til þess að afla sönnunargagna án þess að mál hafi verið höfðað verði ekki beitt til að afla sannana um refsiverða háttsemi þar sem ákæruvaldið ætti sókn sakar.
Af þessum sökum þykir verða að hafna beiðni vitnastefnanda.
Vegna þessara málsúrslita og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður vitnastefnandi dæmdur til að greiða vitnastefnda 350.000 krónur í málskostnað. Við ákvörðun fjárhæðarinnar hefur verið tekið tillit til skyldu vitnastefnda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Hafnað er þeirri kröfu vitnastefnanda, Vilhjálms Bjarnasonar, að hann fái að leiða fyrir dóminn vitnastefnda, Björgólf Thor Björgólfsson, og 16 nafngreind vitni.
Því er jafnframt hafnað að skylt sé að leggja fram í dómi tölvuskeyti lögmanns Samsonar þar sem hann tilkynnir Fjármálaeftirlitinu, snemma árs 2007, um breytt eignarhald Samsonar.
Vitnastefnandi greiði vitnastefnda 350.000 kr. í málskostnað.