Hæstiréttur íslands
Mál nr. 226/2011
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Varanleg örorka
|
|
Fimmtudaginn 1. desember 2011. |
|
Nr. 226/2011.
|
Víðir Þormar Guðjónsson (Halldór Þ. Birgisson hrl.) gegn Verði tryggingum hf. (Björn L. Bergsson hrl.) |
Skaðabætur. Líkamstjón. Varanleg örorka.
VÞG krafði V hf. um skaðabætur vegna tjóns sem hann varð fyrir í umferðarslysi 18. október 2008. Deildu aðilar um hvernig ákveða skyldi árslaun samkvæmt 7. gr. skaðabótalaga við útreikning á skaðabótum fyrir varanlega örorku hans. Fyrir Hæstarétti krafðist VÞG þess að miðað yrði við meðaltekjur iðnaðarmanna árið 2007 og vísaði til þess að reiknuð laun hans síðustu þrjú ár fyrir slys gæfu ekki rétta mynd af raunverulegum tekjum hans þar sem einkahlutafélag sem hann átti ásamt öðrum hefði greitt honum arð á þessum árum. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að VÞG hefði ekki tekist að sýna fram á að annar mælikvarði en þau laun sem hann fékk greidd frá einkahlutahlutafélaginu væri réttari á líklegar framtíðartekjur hans og því væru ekki skilyrði til þess að verða við kröfu hans um að meta árslaun sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Var héraðsdómur þannig staðfestur um sýknu V hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. apríl 2011. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.914.146 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 18. ágúst 2009 til 9. maí 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti verði fallist á kröfu hans en að málskostnaður verði að öðrum kosti látinn niður falla.
Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi aðeins uppi varakröfuna í héraði. Segir hann að af dómi Hæstaréttar 24. febrúar 2011 í máli nr. 405/2010 megi ráða að aðalkrafa hans í héraði eigi ekki rétt á sér. Krafa áfrýjanda fyrir Hæstarétti er á því byggð að við útreikning skaðabóta til hans vegna varanlegrar örorku eftir umferðarslysið 18. október 2008 eigi að meta árslaun sérstaklega með heimild í 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og miða þau við meðaltekjur iðnaðarmanna árið 2007. Er ekki tölulegur ágreiningur um fjárhæð kröfunnar.
Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi fékk áfrýjandi greidd laun að fjárhæð 250.000 krónur á mánuði frá fyrirtækinu Kofra ehf. árin 2005 til 2007. Er ágreiningslaust að stefndi hefur gert upp við hann skaðabætur fyrir varanlega örorku eftir slysið sem miðast við þessi laun. Kofri ehf., sem tekið var til gjaldþrotaskipta 8. október 2009, var vélsmiðja í eigu áfrýjanda og annars manns og áttu þeir félagið að jöfnum hlutum. Áfrýjandi er vélvirki og stundaði hann ásamt sameiganda sínum atvinnu sína framangreind ár á vettvangi þessa félags. Fengu þeir sömu laun og aðrar greiðslur frá félaginu viðmiðunarárin 2005 til 2007. Stór hluti tekna félagsins umrædd ár mun hafa stafað af vinnu eigendanna. Auk fyrrgreindra mánaðarlauna greiddu þeir sér út arð á viðmiðunarárunum. Fékk áfrýjandi þannig greiddan arð 2.000.000 krónur árið 2005 og 3.000.000 krónur hvort ár 2006 og 2007. Miðaði hann aðalkröfu sína í héraði við að arðinum ætti að bæta við hin útgreiddu laun við útreikning bóta fyrir varanlega örorku. Hann hefur nú, svo sem fyrr sagði, fallið frá þessu en telur allt að einu að beita eigi heimild í 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga og miða útreikninginn við meðaltekjur iðnaðarmanna árið 2007.
Samkvæmt ársreikningum Kofra ehf., sem lagðir hafa verið fram í málinu, nam hagnaður af rekstri félagsins 2.171.248 krónum árið 2005. Tap að fjárhæð 1.227.117 krónur varð árið 2006 og svo hagnaður árið 2007 sem nam 1.512.100 krónum. Með hliðsjón af þessum upplýsingum verður ekki talið að áfrýjanda hafi tekist að sýna fram á að annar mælikvarði en þau laun sem hann fékk greidd frá Kofra ehf. árin 2005 til 2007 sé réttari á líklegar framtíðartekjur hans. Eru því ekki skilyrði til að verða við kröfu hans um að meta árslaun sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.
Við meðferð málsins í héraði var gætt ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.
Áfrýjandi, Víðir Þormar Guðjónsson, greiði stefnda, Verði tryggingum hf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. mars 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var 19. janúar sl. er höfðað með stefnu birtri 1. júní 2010.
Stefnandi er Víðir Þormar Guðjónsson, Bæjargili 57, Garðabæ.
Stefndi er Vörður tryggingar hf., Borgartúni 25, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.525.062 krónur með 4,5% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, frá 18. ágúst 2009 til 9. maí 2010, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.914.146 krónur með 4,5% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, frá 18. ágúst 2009 til 9. maí 2010, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar.
Af hálfu stefnda er þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
MÁLSATVIK
Stefnandi kveður kröfur sínar eiga rætur að rekja til umferðarslyss sem hann varð fyrir hinn18. október 2008. Stefnandi hafi verið ökumaður bifreiðarinnar DP-183 og ekið austur Suðurlandsveg á móts við Kotströnd á u.þ.b. 70 km hraða. Hann hafi misst stjórn á bifreiðinni í hálku með þeim afleiðingum að bifreiðin fór út af og valt. Bifreiðin var tryggð hjá stefnda og nýtur stefnandi lögboðinnar slysatryggingar ökumanns hjá stefnda vegna afleiðinga slyssins, sbr. 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Fyrir liggi að samkvæmt ákvæðum tryggingarinnar fari um bætur til hans vegna slyssins samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga og ekki er ágreiningur um að stefnandi eigi rétt á fullum bótum úr hendi stefnda vegna slyssins.
Stefnandi hafi leitað á Slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss samdægurs og í vottorði slysadeildar kemur fram að hann hafi meðal annars fundið fyrir eymslum í hálsi og öxlum. Hann var síðan til meðferðar hjá læknum og sjúkraþjálfurum eftir slysið.
Í matsgerð læknana Ragnars Jónssonar og Atla Þórs Ólasonar frá 2. apríl 2010 kemur fram að óvinnufærnistímabil stefnanda hafi verið 100% í þrjá daga og 50% í sjö daga. Þjáningatímabil hafi verið talið vera frá 18. október 2008 til 28. október 2008, og 18. maí 2009 til 8. júní 2009 án rúmlegu. Stöðugleikatímapunktur hafi verið talinn vera hinn 18. ágúst 2009, varanlegur miski hafi verið talinn nema 10 stigum og varanleg örorka 10%. Ekki sé ágreiningur um að matið skuli lagt til grundvallar um uppgjör bóta til stefnanda.
Hinn 9. apríl 2010 hafi lögmaður stefnanda sent kröfubréf til stefnda þar sem gerðar hafi verið bótakröfur vegna slyssins á grundvelli matsgerðarinnar. Hafi heildarfjárhæð þeirra bóta sem krafist var vegna slyssins numið 6.303.892 krónum. Í kröfubréfinu hafi stefnandi tekið mið af meðaltali tekna sinna síðustu þrjú almanaksár fyrir slysið í samræmi við 1. mgr. 7. gr., varðandi bætur fyrir varanlega örorku. Þar sem stefnandi sé með sjálfstæðan rekstur hafi verið miðað við launatekjur ásamt arði af starfseminni en fyrir liggi að hluti tekna stefnda hafi verið fjármagnstekjur sem hafi verið greiddur arður vegna hagnaðar fyrirtækis hans. Stefndi hafi ekki fallist á kröfur stefnanda og að auki hafnað því alfarið að líta til meðallauna í starfsstétt stefnanda og hafi greitt bætur að teknu tilliti til launatekna á framtali hinn 28. apríl 2010. Lögmaður stefnanda hafi undirritað bótauppgjörið með fyrirvara, vegna ágreinings um viðmiðunartekjur í uppgjöri.
Þar sem stefnandi geti með engu móti fellt sig við þessa afstöðu sé honum nauðsynlegt að höfða mál þetta.
MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK
Stefnandi hafi lokið vélvirkjanámi árið 1978 og hafi meðal annars unnið hjá ISAL við það starf. Hann hafi lengi rekið eigið fyrirtæki, vélsmiðju í Hafnarfirði, þar sem hann hafi verið með 5-6 menn í vinnu. Núna séu tveir starfsmenn í fyrirtækinu eða eigendur þess.
Stefnandi byggir á því að ekki verði eingöngu byggt á launatekjum hans sem greiddar hafi verið af fyrirtæki hans heldur verði að líta til heildartekna hans en í því felist að einnig sé litið til fjármagnstekna af atvinnurekstri sem hann stundi í eigin einkahlutafélagi. Með öðrum hætti sé ekki litið til heildartekna enda liggi fyrir að reiknað endurgjald eða launatekjur samkvæmt skattframtali gefi ekki rétta mynd af því sem sjálfstæður atvinnurekandi beri úr býtum fyrir vinnu sína ef litið sé fram hjá arðgreiðslum.
Fyrir liggi að óumdeilt sé að þeir einstaklingar sem reki einkahlutafélög eða sameignarfélög hafa um árabil geta minnkað skattgreiðslur af tekjum sínum með því að greiða staðgreiðslu af viðmiðunarlaunum ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein og greiða sér síðan arð af hagnaði á lægri skatti.
Í þessu samhengi skuli bent á að samkvæmt 11. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 128/2009 um tekjuöflun ríkisins sem breytt hafi þeirri fyrrnefndu, skulu þeir skattaðilar sem skylt er að reikna sér endurgjald skv. 2. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, eftirleiðis telja sér til tekna sem laun, 50% af heimiluðum úthlutuðum arði samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög, að því marki sem heimil arðsúthlutun félagsins er samtals umfram 20% af skattalega bókfærðu eigin fé þess í árslok viðmiðunarárs.
Í frumvarpi með breytingalögunum komi fram í sérstökum athugasemdum með 3. gr. að það hafi orðið mikil fjölgun á einkahlutafélögum, meðal annars um rekstur sem áður hafi almennt verið stundaður í eigin nafni viðkomandi rekstraraðila. Launagreiðslum til ráðandi aðila hafi verið haldið í lágmarki á sama tíma og greiddur hafi verið verulegur arður úr félögunum. Þetta hafi skapað óeðlilegt misræmi í skattlagningu heildartekna á milli rekstrarforma og haft þannig áhrif á ráðstöfunartekjur eigenda rekstrar, auk þess að skerða tekjur sveitarfélaga. Af þessum sökum hafi verið gerð sú breyting með lögunum að fari heimil arðsúthlutun samtals yfir 20% af skattalegu bókfærðu eigin fé viðkomandi félags teljist það sem umfram er til helminga laun og arður.
Jafnframt skuli á það bent að í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2468/2000 sem varðaði ágreining varðandi launaviðmið, hafi verið tekið fram að reiknuð laun þyrftu ekki að gefa rétta mynd af ráðstöfunartekjum. Samkvæmt 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 skuli maður, sem vinni við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt en hann hefði haft hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Þetta reiknaða endurgjald þurfi þannig ekki að endurspegla það fé, sem sjálfstæður atvinnurekandi hafi af rekstri sínum til að framfleyta sér og fjölskyldu sinni.
Af framangreindu leiði að hið opinbera líti sömu augum á launatekjur sem menn reikna sér vegna eigin rekstrar og arð vegna hans, með tilliti til skattlagningar. Sé í báðum tilvikum um að ræða ráðstöfunartekjur viðkomandi sem taldar séu fram til skatts og renni til stefnanda. Þannig hafi það verið um nokkurt skeið eins og augljóst sé í ljósi áðurnefndra lagabreytinga. Þar af leiðandi sé eðlilegt að mati stefnanda að við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku sé tekið mið af bæði launatekjum hans og arði vegna atvinnurekstrar samkvæmt skattframtölum, enda myndi samtala þeirra fjárhæða raunverulegar tekjur hans.
Dómkröfur stefnanda sundurliðast þannig.
Aðalkrafa:
Stefnandi gerir aðallega þá kröfu að miðað verði við heildarlaun hans. Laun og arð af eigin atvinnurekstri samkvæmt skattframtölum síðustu þrjú almanaksár fyrir slysið, þ.e. árin 2005, 2006 og 2007. Sé tekið mið af 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Tekjur stefnanda séu síðan uppreiknaðar fram að stöðugleikatímapunkti, miðað við launavísitölu og framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð.
Nánar sundurliðast krafa málsins svo;
Bætur skv. 5.-7. gr. skbl. kr. 5.416.503,-
2005: (5.000.000 x 1,07) x (358,1/267,2) = 7.170.041
2006: (6.000.000 x 1,07) x (358,1/292,7) = 7.854.465
2007: (6.000.000 x 1,07) x (358,1/319,1) = 7.204.644
22.229.150
(22.229.150/3) x 7,310 x 10%
Að frádregnum bótum fyrir varanlega örorku frá stefnda: 2.891.441 kr.
SAMTALS 2.525.062 krónur
Krafist er 4,5% vaxta skv. 16. gr. skbl. af bótum fyrir varanlega örorku frá stöðugleikapunkti fram til 9. maí 2010, en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá þeim degi og fram til greiðsludags.
Varakrafa:
Til vara gerir stefnandi þá kröfu að miðað verði við meðaltekjur iðnaðarmanna, sbr. ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Er miðað við meðaltekjur þessar árið fyrir slys, árið 2007. Eru tekjurnar uppreiknaðar fram að stöðugleikatímapunkti, miðað við launavísitölu og framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Byggir það á því að launatekjur einar gefi ekki rétta mynd af tekjum og sé ekki fallist á að líta til arðgreiðslna þá sé eðlilegt að miða við meðaltekjur í viðkomandi starfsgrein.
Nánar sundurliðast varakrafa stefnanda svo:
Bætur skv. 5.-7. gr. skbl. 4.805.587 kr.
453.000 x 12 x 1.08 / 319,8 x 358,1 = 6.573.990
6.573.990 x 7,310 x 10%
Að frádregnum bótum fyrir varanlega örorku frá stefnda: -2.891.441 kr.
SAMTALS 1.914.146 krónur.
Krafist er 4,5% vaxta skv. 16. gr. skbl. af bótum fyrir varanlega örorku frá stöðugleikapunkti fram til 9. maí 2010, en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá þeim degi og fram til greiðsludags. Frekari rökstuðningur kröfunnar er að verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda um að taka mið af meðaltali heildarlauna hans síðustu þrjú ár fyrir slys í samræmi við 1. mgr. 7. gr. þá sé um óvenjulegar aðstæður í skilningi 2. mgr. 7. gr. Þetta þýði að verði aðalkröfu hafnað og ekki fallist á að tekjur stefnanda séu bæði laun hans í atvinnustarfseminni og arður af henni, þá séu fyrir hendi óvenjulegar aðstæður sem réttlæta að litið sé til annarra viðmiða. Beri að líta til athugasemda með frumvarpi því er varð að skaðabótalögum nr. 50/1993, en þar segi m.a. að þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi, t.d. breytingar á tekjum eða starfi, skuli fjárhæð árslauna metin sérstaklega. Þá er lögð áhersla á að ákvæði skaðabótalaga um bætur fyrir varanlega örorku hafi það að markmiði að tryggja tjónþola fullar bætur fyrir framtíðartekjumissi. Aðili sem velji að færa hluta tekna sem arð samkvæmt heimild skattalaga eigi ekki að líða fyrir það þannig að litið sé fram hjá þeim hluta tekna hans við ákvörðun viðmiðunarlauna.
Vakin er athygli á að skilyrði lagaákvæðisins voru rýmkuð verulega með lögum nr. 37/1999. Í sérstökum athugasemdum, með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/1999, segi enn fremur:
„Þá er gerð tillaga um að 2. mgr. 7. gr. verði rýmkuð þannig að mati verði beitt í þeim tilvikum þegar viðmiðun við síðustu þrjú tekjuár fyrir slys þykir af einhverjum ástæðum ekki réttmæt.“
Þegar litið sé til dómaframkvæmdar virðist sem ekki þurfi mikið til að koma svo aðstæður teljist óvenjulegar í skilningi ákvæðisins. Í tilviki stefnanda standi rök til þess að ákvarða tekjur hans sérstaklega sé aðalkröfunni hafnað og er þess þá krafist að miðað verði við meðaltekjur iðnaðarmanna þar sem stefnandi sé iðnmenntaður og hafi alla tíð unnið við iðngrein sína.
Varðandi bótaskyldu er vísað til 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 um slysatryggingu ökumanns.
Kröfur stefnanda styðjist við skaðabótalög nr. 50/1993 með síðari breytingum, einkum 1. gr. og 2. mgr. 7. gr.
Um vaxtakröfuna vísar stefnandi sérstaklega til 16. gr. skaðabótalaga og um dráttarvaxtakröfuna til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra.
Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnanda sé ekki tækt að hafa með réttu uppi frekari kröfur á hendur stefnda. Stefndi hafi greitt stefnanda alla þá fjármuni sem honum réttilega beri. Því eigi stefnandi ekki heimtingu á frekari greiðslum.
Að mati stefnda orki ekki tvímælis að árslaun til ákvörðunar bóta, í samræmi við 7. gr. laga nr. 50/1993, séu það sem þau segjast vera; laun. Á því sé byggt að þess sjáist hvergi stað að leggja beri ávinning af atvinnurekstri til grundvallar í þessum efnum, ávinningi sem eigi rót að rekja til vinnuframlags stefnanda, annarra starfsmanna hans og jafnvel vörusölu. Greining á tekjum Kofra ehf. liggi ekki fyrir í málinu enda engin gögn lögð fram er skjóti stoðum undir þann málatilbúnað að arður af þeim atvinnurekstri séu launatekjur stefnanda. Fjármagnstekjur í formi arðgreiðslna falli ekki að hugtaksskilyrðum skaðabótalaganna, þær séu ekki „meðalatvinnutekjur tjónþola“ svo notað sé orðalag úr lögskýringargögnum.
Í skattframtölum stefnanda þrjú síðustu árin fyrir slys komi fram launatekjur stefnanda en engar tekjur séu taldar fram sem reiknað endurgjald við eigin atvinnurekstur né sem hreinar tekjur af atvinnurekstri. Greiðslur frá Kofra ehf., sem stefnanda hafi hlotnast, séu skilgreindar með öðrum fjármagnstekjum hans á fjármagnstekjusíðu skattframtalsins. Slys stefnanda hafi átt sér stað 18. október 2008 og við úrlausn þessa máls verði ekki byggt á öðru en gildandi rétti á þeim tíma. Lögskýringargögn með breytingu á skattalögum hartnær ári síðar varpi engu ljósi á réttarstöðuna í máli þessu.
Á því er jafnframt byggt af hálfu stefnda að arður af rekstri fyrirtækis falli ekki að hugtaksskilyrðum 5. gr. laga nr. 50/1993 hvað varði getu stefnanda til að afla sér vinnutekna. Að auki sé óhjákvæmilegt annað en að vekja athygli á því að ekkert liggi fyrir af hálfu stefnanda um það hve stóran hluta af arði fyrirtækis hans megi rekja til vinnuframlags hans en um það beri stefnandi sönnunarbyrðina en stefnandi hafi upplýst í stefnu að nokkur fjöldi starfsmanna hafi sinnt störfum hjá fyrirtækinu árin fyrir slys. Nánari upplýsingar eða greining liggi ekki fyrir um eðli starfsemi Kofra ehf. en um þessi atriði beri stefnandi sönnunarbyrði.
Í þessum efnum beri einnig að líta til þess að stefnandi hafi lýst því ljóslega yfir í verki hvert viðhorf hans sé í þessum efnum. Hann hafi einvörðungu greitt eigið 4% framlag til lífeyrissjóðs af greiddum launum en lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs skuli reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf og þjónustu samkvæmt 3. gr. laga nr. 129/1997. Sýnist viðhorf stefnanda blasa við, reiknaða endurgjaldið endurspegli heildarfjárhæð greiddra launa hans.
Af ofanrituðu sýnist ljóst að sýkna ber stefnda af aðalkröfu stefnanda.
Hvað varakröfu stefnanda áhræri sé ótvírætt á því byggt af hálfu stefnda, Varðar trygginga hf., að varakrafa stefnanda sem feli í sér að miða eigi við meðallaun iðnaðarmanna eigi ekki við nein rök að styðjast. Stefnandi hafi verið ríflega 51 árs er hann hafi lent í því slysi sem hér er til umfjöllunar. Samkvæmt stefnu hafði hann starfað um árabil hjá Kofra ehf. en stefnandi hafði verið í 17 ár hið minnsta í stjórn félagsins. Sýnist hann þannig hafa búið við þokkalega stöðugt atvinnuumhverfi um langt árabil. Ekkert óvænt eða sérstakt hafi drifið á daga stefnanda árin síðustu fyrir slys og því engar forsendur til að beita 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Engar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi í máli þessu.
Stefndi vísar til áðurgreindra lagaraka er varðar sýknukröfu. Krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafist er álags á málskostnað er nemur virðisaukaskatti, stefndi rekur ekki virðisaukaskattskylda starfsemi og beri því nauðsyn á að fá dæmt álag er þeim skatti nemur úr hendi stefnanda.
NIÐURSTAÐA
Stefnandi var, ásamt öðrum manni, eigandi einkahlutafélagsins Kofra sem var vélsmiðja og starfaði aðallega í byggingariðnaði. Starfsemi Kofra er nú hætt en stefnandi starfrækir nú vélsmiðju ásamt öðrum manni.
Samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum á tjónþoli rétt á bótum fyrir varanlega örorku valdi líkamstjón varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnutekna. Í 2. mgr. sömu greinar segir að þegar tjón vegna örorku er metið skuli líta til þeirra kosta sem tjónþoli eigi til að afla sér tekna með vinnu sem sanngjarnt er að ætlast til að hann starfi við.
Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna skulu árslaun til ákvörðunar bóta teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir þann dag er tjón varð, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við.
Stefnandi taldi fram reiknuð laun sín hjá Kofra ehf. sem launatekjur til skatts og byggir á því að auk þeirra skuli miðað við arð af starfsemi Kofra ehf.
Tekjur af rekstri Kofra ehf. falla undir hagnað í atvinnurekstri, sem aflað var af stefnanda og meðeiganda hans ásamt starfsmönnum og er háður markaðsaðstæðum á hverjum tíma. Við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku er ekki eðlilegt að blanda saman tekjum af atvinnurekstri og launatekjum, enda ganga fyrrnefndu tekjurnar að jafnaði til áframhaldandi reksturs að stórum hluta. Hreinar tekjur af atvinnustarfsemi verða því ekki sjálfkrafa tekjur, sem leggja má til grundvallar við útreikning vátryggingabóta. Ekki verður fallist á það með stefnanda að tekjuviðmiðun sú sem hann heldur fram hér sé raunhæf. Með vísan til þessa verður aðalkröfu stefnanda hafnað.
Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga með áorðnum breytingum skulu árslaun metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla má að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.
Stefnandi hefur sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði 2. mgr. 7. gr. skaðbótalaga um að fyrir hendi séu óvenjulegar aðstæður sem valdi því að meðalatvinnutekjur hans skv. 1. mgr. sömu greinar séu ekki réttur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur hans. Fram kemur í málinu að stefnandi hafði unnið um árabil hjá einkahlutafélagi sínu, Kofra, og ekkert kemur fram í málinu um að aðstæður hans hafi verið óvenjulegar né heldur þykir annar mælikvarði réttari á líklegar framtíðartekjur stefnanda en sá sem lagður er í 1. mgr. 7. gr.
Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda en málskostnaður verður felldur niður.
DÓMSORÐ
Stefndi, Vörður tryggingar hf., skal sýkn af kröfum stefnanda, Víðis Þormars Guðjónssonar.
Málskostnaður fellur niður.