Hæstiréttur íslands

Mál nr. 258/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                                         

Þriðjudaginn 27. apríl 2010.

Nr. 258/2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. apríl 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. apríl 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. apríl 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurður verður hann staðfestur. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. apríl 2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. apríl 2010 kl. 16.  Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Kærði hefur mótmælt gæsluvarðhaldskröfunni og krefst þess aðallega að henni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist er.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að að kvöldi laugardagsins 10. apríl sl., um kl. 23:00 10. apríl sl., hafi lögreglan fundið og lagt hald á mikið magn hættulegra fíkniefna, sem flutt hafi verið til landsins með flugi frá Alicante á Spáni fyrr um daginn. Efnin, sem hafi verið kyrfilega falin í ferðatöskum, hafi reynst vera kókaín og vegið tæp 1.600 grömm. Samkvæmt matsgerð lyfjafræðistofnunar Háskóla Íslands, dags. 14. apríl sl., sé styrkur kókaínsins mjög mikill eða um og yfir 80%.

Kærði sé sterklega grunaður um aðild að fíkniefnainnflutningnum, enda hafi lögreglan fylgst með honum umrætt kvöld fara að heimili meðkærða Y, sem hafi flutt efnin til landsins, þar sem hann hafi sótt efnin og flutt þau í bifreið að húsi við [...] í Reykjavík. Í framhaldi hafi kærði sótt meðkærða Z á heimili hans að [...] og ekið með honum að efnunum, þar sem hann hafi sýnt Z töskurnar með efnunum í. Kærði hafi stuttu síðar verið handtekinn og þá haft í fórum sínum 1.010.000 krónur í umslagi.

Kærði hafi í yfirheyrslum lýst sig saklausan og jafnframt hafi hann neitað að svara spurningum lögreglu. Í málinu liggi þó fyrir framburðir sem varpi sök á kærða og sé nauðsynlegt að bera undir hann þá framburði. Þá liggi og fyrir að taka þurfi frekari skýrslur af meðkærðu um þátt hans í málinu, því afar brýnt sé að kærði fái ekki tækifæri til að torvelda rannsóknina, s.s. með því að hafa áhrif á aðra samseka eða vitni eða koma undan munum sem kunna að skipta máli. 

Í ljósi þess að rannsókn málsins á þætti kærða sé á viðkvæmu stigi, sé þess krafist að krafa lögreglustjóra verði tekin til greina. Í málinu liggi fyrir mat Hæstaréttar Íslands um að lagaskilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt og hafi ekkert nýtt komið fram í málinu sem breytt geti því mati. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um að aðild að innflutningi á miklu magni hættulegra fíkniefna. Rannsókn málsins er umfangsmikil og verður að fallast á með lögreglustjóranum að hún sé enn á viðkvæmu stigi enda á enn eftir að bera undir kærða framburði meðkærðu sem beina grun að kærða. Þá er fallist á að brýnt sé að kærða fái ekki tækifæri til að torvelda rannsókn málsins með því að hafa áhrif á aðra samseka og vitni en það gæti kærði gert, héldi hann óskertu frelsi sínu. Ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfur lögreglustjóra, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. apríl 2010, kl. 16.00.

Kærða er gert að vera í einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.