Hæstiréttur íslands
Mál nr. 278/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Fimmtudaginn 6. maí 2010. |
|
|
Nr. 278/2010. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Óli Ásgeir Hermannsson fulltrúi) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. maí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. maí 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 11. maí 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. maí 2010.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur með kröfu dagsettri 4. maí sl. krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 11. maí 2010 kl. 16:00.
Kærði hefur mótmælt gæsluvarðhaldskröfunni og krafist þess að henni verði hafnað, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist er.
Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum kemur fram að lögreglu hafi þann 3. maí sl. um kl. 22:03 borist tilkynning um yfirstandandi líkamsárás að M. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi verið þar fyrir árasarþolar, A, kt. [...], B, kt. [...] og C, kt. [...]. Á vettvangi hafi árásarþolar greint lögreglu frá því að þau hafi þá rétt áður verið nýbúin að festa barnabílstól með barni C í bifreið sem var fyrir utan M. Þá hafi tveir aðilar ráðist á A, sparkað í kvið hans og andlit. Annar aðilinn hafi dregið upp hníf og otað að A. B hafi reynt að verja A en fengið spörk í sig og kennt sér meins. Einnig hafi verið ráðist á C og sparkað í líkama hennar er hún lá á jörðinni. Þegar aðilarnir fóru hafi þeir hótað árásarþolum að koma aftur. Árásarþolar hafi verið fluttir á HSS. Á vettvangi hafi grunur vaknað hjá lögreglu um að árásaraðilar væru kærðu Y og X og að um handrukkunarmál væri að ræða. Árásarþolum hafi verið sýndar myndir af kærðu Y og X og hafi þau þekkt þá sem mennina sem ráðist hefði á þau fyrr um kvöldið.
Kærðu Y og X voru handteknir í Reykjanesbæ kl. 23:25. Við öryggisleit á kærða Y fannst innanklæða öxi og hamar og við öryggisleit á honum í fangaklefa í Grindavík fannst hnífur í buxnastreng. Blóðblettir fundust í fötum kærðu.
Samkvæmt upplýsingum frá lækni á sjúkrahúsi Keflavíkur var árásarþolinn B víða aum, kenndi til í hálsi, var illt í hnjám og átti erfitt með gang. Kvað læknirinn áverka hennar geta orðið greinilegri er frá liði. Ekki væri grunur um beinbrot hjá B. Læknirinn kvað C hugsanlega vera með brot í andlitsbeini. Hún hefði verið lemstruð og með áverka víða um líkamann. Áverkarnir ættu eftir að koma betur fram er fram liði frá árásinni. Hún hefði sagst hafa fengið spark í magann. Kvað læknirinn að gengið hafi verið hrottalega í skrokk á þessu fólki og mildi að ekki fór verr.
Læknir á Landspítala háskólasjúkrahúsi kvað A ennþá vera rúmliggjandi eftir árásina. Hann hefði hlotið talsvert mikla áverka sem læknirinn vildi fylgjast betur með. Hann hefði nefbrotnað og væri blár og marinn yfir augum sem væru sokkin. Hann væri með glóðaraugu á báðum augum, mar á baki, skrámur á hnjám, ýmsa mjúkvefja áverka, eymsli yfir í háls, verk í vinstri öxl og verk í baki. Mat læknis var að A hefði orðið fyrir meiriháttar og fólskulegri líkamsárás og væri heppinn að ekki hefði farið verr.
Í skýrslutökum hjá lögreglu hafa kærðu báðir neitað sök. Kærði Y kannast þó við að hafa verið á vettvangi í því skyni að sækja peninga sem hann kvaðst hafa átt hjá íbúa þarna. Kærði X neitaði öllu.
Fram kemur í málinu að kærðu komu að umræddu húsi vegan innheimtu fíkniefnaskuldar hjá íbúa í húsinu er skyldur var árásarþolum.
Lögreglustjóri telur rannsókn máls þessa vera á frumstigi og telji lögregla að hin ætlaða háttsemi kærða kunni að varða ákvæði 2. mgr. 218. gr., 233. gr. og 251. gr. almenra hegningarlaga nr. 19/1940. Lögregla telji að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á aðila málsins gangi hann laus. Þá sé þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 og jafnframt að kærða verði gert að sæta takmörkunum sbr. a- til f-liða 1. mgr. sömu greinar. Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 2. mgr. 218. gr., 233. gr. og 251. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 11. maí 2010 kl. 16.00.
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins leikur rökstuddur grunur á því að kærði hafi í félagi við kærða Y gerst sekur um alvarlega, fólskulega, hrottafengna og tilefnislausa líkamsárás á þrjá einstaklinga að M að kvöldi 3. maí sl. um kl. 22. Rannsókn málsins er enn á frumstigi og er því fallist á að kærði kunni að spilla og torvelda rannsóknina haldi hann óskertu fresli sínu. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfur lögreglustjóra eins og þær er settar fram og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 11. maí 2010, kl. 16.00.
Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.